Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

29, 30 og 31/2018 Dunhagi

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 29/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 um að veita byggingarleyfi  til að byggja eina hæð ofan á og viðbyggingu við núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, Reykjavík, ásamt  fleiru.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Tómasarhaga 32 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 að veita byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er móttekið var sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Hjarðarhaga 27 áðurnefnda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. febrúar 2018, sem barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hjarðarhaga 44, framangreinda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Þar sem framangreind mál varða öll sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða síðargreind kærumál, sem eru nr. 30/2018 og 31/2018, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 23. mars 2018.

Málsatvik og rök:
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. janúar 2018 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja inndregna  hæð ofan á núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, byggja viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á því og sorpgerði fyrir verslunarrými innan í rými 0106. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 11. janúar 2018.

Kærendur benda á að hin kærða ákvörðun varði grenndarhagsmuni þeirra miklu. Útsýni skerðist og umferð, sem og skuggavarp aukist.  Lagaskilyrði hafi ekki verið til að fara með umsókn um hið kærða byggingarleyfi í grenndarkynningu. Framkvæmdin sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 eða skilgreinda landnotkun, auk þess sem hún sé ekki í samræmi við byggðamynstur.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er m.a. bent á að byggingarleyfi í málinu hafi verið samþykkt að nýju á afgreiðslufundi 20. mars 2018 og að þar með hafi hið kærða byggingarleyfi frá 9. janúar s.á. fallið úr gildi.

Niðurstaða:
Í gögnum málsins kemur fram að eftir hina kærðu samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 fór fram frekari málsmeðferð. Var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. mars 2018 að veita byggingarleyfið að nýju á grundvelli sömu byggingarleyfisumsóknar. Í tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 10. apríl s.á., er og vakin athygli á að byggingarleyfisumsókn hafi verið endursamþykkt vegna nýrrar málsmeðferðar umhverfis- og skipulagsráðs á henni. Bent er á að nýr kærufrestur hafi tekið að líða við þá samþykkt og hygðust kærendur nýta sér kærurétt sinn væri nauðsynlegt að þyrfti að kæra að nýju til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt meðfylgjandi leiðbeiningum. Hafa kærendur nýtt sér þann málsskotsrétt með kærum til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 69, 70 og 71/2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti að veita nýtt byggingarleyfi 20. mars 2018 hefur hin kærða ákvörðun ekki réttarverkan að lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir