Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22 og 85/2018 Kvosin – Landsímareitur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2018, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 5. desember 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna Landsímareits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 13. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir félagið Kvosin, Kirkjusandi 5, 105 Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. nóvember 2017, sem borgarstjórn samþykkti 5. desember s.á., að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili „ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur 22. maí 2018 um byggingarleyfi […] til að byggja í Víkurkirkjugarði nýbyggingu með kjallara við Kirkjustræti“, sbr. umsókn nr. 53964. Verður kæran skilin á þann hátt að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2018 að samþykkja byggingarleyfi vegna endurbyggingar og nýbyggingar að Thorvaldsensstræti 2 og 4 og Aðalstræti 11. Er jafnframt krafist stöðvunar framkvæmda. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 85/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að kærunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. apríl og 28. júní 2018.

Málavextir: Hinn 12. janúar 2018 tók gildi breyting á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits, með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt auglýsingunni felur breytingin í sér „að borgarlandinu/lóðinni á milli lóðanna Vallarstrætis 4 og Aðalstrætis 7 verði skipt upp á milli þeirra og lóðirnar stækkaðar sem því nemur og leyfilegt verði að fjarlægja viðbyggingu frá árinu 1967 við Landsímahúsið/Thorvaldsensstræti 6 og byggja hana aftur í sömu mynd.“

Byggingarleyfi til niðurrifs friðlýsts samkomusalar á baklóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti og niðurrifs viðbyggingar við Landsímahúsið frá 1967 var gefið út 23. febrúar 2018. Hinn 15. maí s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi sínum umsókn nr. BN053964 um leyfi til að dýpka kjallara og endurbyggja Thorvaldsensstræti 2, lyfta þaki Thorvaldsensstrætis 4 og byggja á það Mansardþak með kvistum, byggja fjögurra hæða nýbyggingu, til að endurbyggja Aðalstræti 11 með breyttu þaki og til að innrétta í öllum húsunum 145 herbergja hótel í flokki IV með veitingahúsi, kaffihúsi, verslunum og samkomusal á lóð nr. 2 við Thorvaldsensstræti.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg. Hafi borgaryfirvöld m.a. ekki fylgt lögum. Sú stækkun og gerð kjallara undir nýbyggingu sem fyrirhuguð sé verði að verulegu leyti í austurhluta hins forna Víkurgarðs, en með framkvæmdinni verði gröfum og líkamsleifum raskað á óheimilan hátt. Trúarleg og söguleg þýðing garðsins sé mikil en hann teljist til fornminja og sé friðaður, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar, sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Skýra þurfi ákvæðið í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið sé að kærandi eigi beina og einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem um ræði. Tilgangur félagsins sé „að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna“. Félagið Kvosin hafi því hvorki beinna né einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta í tengslum við þær ákvarðanir sem deilt sé um. Takmarkist kæruheimild félagsins því við undantekningarákvæði a-c liða 3. mgr. 4. gr. nefndra laga, en þau eigi ekki við um kæranda. Að auki hafi kærufrestur verið liðinn vegna deiliskipulagsbreytingarinnar þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni 13. febrúar 2018, en auglýsing um breytinguna hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2018. Því hafi kæran borist degi of seint, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir kröfu um það að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni bæði hvað varðar hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi. Kærandi uppfylli ekki skilyrði aðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Undantekning ákvæðisins um aðild geti ekki átt við þar sem ákvarðanir þær sem hér um ræði varði ekki matsskylda framkvæmd eða framkvæmdir sem kynnu að vera matsskyldar og afstaða Skipulagsstofnunar liggi ekki fyrir, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 96/2006 og 20/2007 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 10/2017. Þá hafi kærandi ekki forræði á málefnum Víkurgarðs og geti því ekki reist aðild sína að kærumálinu á því að hann hafi opinbera eða einstaklega lögvarða hagsmuni að einkarétti.

Verði málinu ekki vísað frá krefst leyfishafi þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Varðandi kröfu Reykjavíkurborgar og leyfishafa um frávísun málsins vegna aðildarskorts bendir kærandi á að óumdeilt sé að það samræmist tilgangi félagsins Kvosarinnar að gæta þeirra hagsmuna sem kæra lúti að. Það sé grundvallarregla umhverfisréttar að veita umhverfissamtökum aðild að ágreiningsmálum um umhverfismál á stjórnsýslustigi.

Hugtakið lögvarðir hagsmunir í stjórnsýslurétti sé óljóst og vandmeðfarið. Verði að gæta þess sérstaklega að reglunni sé ekki beitt með þeim hætti að það auðveldi stjórnvöldum að fara sínu fram að geðþótta án þess að fara að lögum heldur láta annarlega hagsmuni ráða för. Lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virðist beinlínis gera ráð fyrir að umhverfissamtök hafi lögvarða hagsmuni falli mál að tilgangi samtakanna án þess að meira þurfi að koma til, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Augljóst sé að ekki sé átt við samskonar skilyrði og talin séu gilda í einkamálaréttarfari þar sem krafa sé gerð um einstaklingsbundna hagsmuni, enda eigi umhverfissamtök að jafnaði ekki slíka hagsmuni.

Með aðild umhverfissamtaka að skipulags- og byggingarmálum hafi löggjafinn viljað auka líkur á því að rétt ákvörðun sé tekin með því að stuðla að því að öll eða flest sjónarmið um efnisleg og lagaleg atriði séu komin fram við endanlega töku ákvörðunar í máli. Iðulega sé ekki um aðra aðila að ræða sem geti veitt stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald til að koma í veg fyrir að þau fari með vald sitt að geðþótta.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tekið þá afstöðu að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af efnisákvörðun í málinu þegar hún hafi tekið efnisafstöðu til kröfu um stöðvun framkvæmda í úrskurðum nefndarinnar í kærumálum nr. 21 og 22/2018. Með því hafi úrskurðarnefndin fallist á aðild hagsmunasamtakanna vegna breytinga á deiliskipulaginu.

Þá hafi Reykjavíkurborg viðurkennt aðild félagsins með því að afhenda því öll gögn varðandi afgreiðslu umsóknar leyfishafa vegna byggingarleyfis.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Til samræmis við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga beinna og einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó heimilt að kæra til nefndarinnar nánar tilgreindar ákvarðanir sem taldar eru upp í stafliðum a-c fyrrnefnds ákvæðis. Er þar um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, ákvarðanir sveitarstjórna um matsskyldu framkvæmda, leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir um að veita tilgreind leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur. Í máli þessu eru kærðar ákvarðanir um breytingu á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis, en þær ákvarðanir falla ekki undir nefnd undantekningarákvæði og verður aðild kæranda ekki á því reist, enda hefur mat á umhverfisáhrifum ekki farið fram.

Kærandi skilgreinir sig sem hagsmunasamtök sem hafi þann tilgang skv. 2. gr. samþykktar samtakanna að stuðla að umhverfisvernd í Kvosinni í Reykjavík og leitast við að vernda sögulegar minjar sem þar er að finna. Tilgangur samtakanna lýtur þannig að gæslu almannahagsmuna og byggja kærur þeirra fyrst og fremst á slíkum hagsmunum, en ekki verður séð að þau eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra, líkt og krafa er gerð um í 3. mgr. 4. gr. fyrrnefndra laga og áður hefur verið rakið. Sú krafa er óháð þátttöku kæranda á lægra stjórnsýslustigi, hverju sem hún hefur falist í, t.a.m. með að fá afhend gögn og koma að athugasemdum við meðferð máls. Verður aðild kæranda ekki á því einu reist. Þá hefur bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndarinnar ekki þýðingu um aðild kæranda, enda fólst í honum eingöngu sú afstaða að ekki væri tilefni til að fallast á þá kröfu kæranda að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telst kærandi ekki eiga aðild að kæru um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar eða vegna samþykktar byggingarleyfisins. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                        _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

 

48/2017 Unalækur

Með

Árið 2018, föstudaginn 17. ágúst tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 48/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 19. apríl 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðir A6 og B2, Unalæk á Völlum, Fljótsdalshéraði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2017, er barst nefndinni 17. s.m., kæra A og B þá ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 19. apríl 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðir A6 og B2, Unalæk á Völlum, Fljótsdalshéraði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fljótsdalshéraði 15. júní 2017.

Málsatvik og rök: Óskað var eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir Unalæk á Völlum vegna lóða A6 og B2 af hálfu lóðarhafa. Fólst breytingin í að landnotkun lóðanna yrði breytt úr frístundarbyggð í starfrækslu ferðaþjónustu og sölu á gistiþjónustu. Ákvað umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs á fundi 8. febrúar 2017 að grenndarkynna umsóknina sem óverulega breytingu á deiliskipulagi Unulækjar. Sú bókun var staðfest af bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs 15. febrúar 2017. Við grenndarkynninguna bárust athugasemdir frá kærendum og var þeim svarað. Var breyting á deiliskipulagi Unulækjar samþykkt á fundi bæjarstjórnar 19. apríl 2017 með vísan til 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að óheimilt hafi verið að fara með málið skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þar sem breytingin geti ekki talist óveruleg. Þá yrðu grenndaráhrif deiliskipulagsbreytingarinnar veruleg vegna ónæðis af starfrækslu ferðaþjónustu og gististarfsemi sem færu á svig við réttmætar væntingar kærenda um notkun svæðisins sem frístundabyggðar.

Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að telja verði umrædda breytingu óverulega í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Form gistireksturs í húsum á umræddum lóðum verði leiga á litlu frístundarhúsi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulagsbreytingu og birta auglýsingu um samþykki hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun hefur umrædd deiliskipulagsbreyting ekki verið send stofnuninni og þrátt fyrir eftirgrennslan liggur ekki fyrir að auglýsing um samþykki breytingarinnar hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Fram kemur í 5.8.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að hafi auglýsing um óverulega breytingu á deiliskipulagi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá samþykki sveitarstjórnar telst breytingin ógild. Hin kærða skipulagsbreyting var samþykkt hinn 19. apríl 2017 og er því meira en ár liðið frá samþykkt hennar. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

__________________________________
Ómar Stefánsson

4/2017 Gistiheimili á Blönduósi

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 23. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 4/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um veitingu áminningar og stöðvun á rekstri gistiheimilisins Blöndubóls.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Blöndubyggð, Blönduósi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 14. júní 2016 um að veita áminningu og stöðva starfsemi gistiheimilis kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er krafist skaða- og miskabóta og þess að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra verði vikið frá störfum.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra 9. janúar 2017.

Málavextir: Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra fóru í eftirlitsferð á gistiheimili kæranda 14. júní 2016, eftir að kvartanir höfðu borist um að hreinlæti væri ábótavant á staðnum. Með bréfi, dags. s.d., var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að veita kæranda áminningu og stöðva starfsemi gististaðarins Blöndubóls, samkvæmt heimild í þágildandi 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Var kæranda jafnframt gert að skila viljayfirlýsingu um viðhaldsáætlun fyrir 23. júní s.á. Var kæranda afhent bréfið samdægurs. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun 5. janúar 2017.

Málsrök kæranda:
Kærandi kveðst vilja kæra vegna samskipta sinna við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra og sérstaklega heilbrigðisfulltrúa sem hafi ritað bréf, dags. 14. júní 2016. Ekki hafi verið tekið til greina að kærandi hafi verið afar upptekinn við að ganga frá svokölluðum svefntunnum og hafi því ekki verið búinn að taka til eftir síðustu næturgesti. Hann krefjist þess að sér verði dæmdar skaða- og miskabætur og að heilbrigðisfulltrúinn verði rekinn úr starfi.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna þess að kærufrestur hafi verið útrunninn þegar kæra hafi borist. Kæranda hafi verið veittar greinargóðar leiðbeiningar um rétta kæruleið í tölvupósti, dags. 29. júní 2016, vegna ágreinings hans við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra, auk ábendinga um hvert hann ætti að beina kvörtunum vegna starfsmannamála heilbrigðiseftirlitsins og framgöngu einstakra starfsmanna þess. Mánaðar kærufrestur hafi því verið útrunninn þegar kærandi hafi lagt fram kæru sína 5. janúar 2017, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu er hin kærða ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 14. júní 2016 og barst hún kæranda samdægurs. Í kæru, sem dags. er 5. janúar 2017, kemur fram að hann hafi verið í sambandi við umhverfis- og auðlindaráðuneyti vegna málsins en ekki kemur fram á hvaða grundvelli. Á meðal gagna málsins er tölvupóstur frá heilbrigðiseftirlitinu til kæranda, dags. 29. júní 2016, þar sem koma fram leiðbeiningar til hans um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar, en tilefni þessa var tölvupóstur kæranda, dags. 28. s.m. Með vísan til framangreinds verður kæran talin vera of seint fram komin og þykja undantekningar skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki eiga við í málinu. Verður kærunni því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kæru þessari er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

9/2018 Lyklafellslína

Með


Árið 2018, fimmtudaginn 16. ágúst tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 9/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra vegna samþykktar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 7. desember 2017 um veitingu framkvæmdarleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. janúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 7. desember 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir lagningu Lyklafellslínu 1 í lögsögu sveitarfélagsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 19. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til Skipulagsstofnunar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 7. desember 2017 var umsókn Landsnets hf., dags. 29. desember 2016, um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 lögð fram og samþykkt. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að ekki séu uppfyllt skilyrði til að veita hið kærða framkvæmdaleyfi þar sem undirbúningi ákvörðunarinnar hafi verið ábótavant.

Bæjaryfirvöld Garðabæjar og leyfishafi vísa til þess að undirbúningur og taka hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið lögum samkvæmt.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að með bréfum, dags. 19. júní 2018, fór leyfishafi fram á það við sveitarstjórnir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ, að framkvæmdaleyfi sem samþykkt voru af þeirra hálfu vegna Lyklafellslínu 1 yrðu afturkölluð og felld niður. Bæjarstjórn Garðabæjar tók þá ákvörðun á fundi 14. ágúst 2018 að afturkalla hina kærðu ákvörðun frá 7. desember 2017 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Byggja kærendur aðild sína í máli þessu á greindri lagaheimild fyrir aðild tiltekinna hagsmunasamtaka.

Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna, að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kærenda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

154/2017 Lyklafellslína

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 16. ágúst tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 154/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra vegna samþykktar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 7. desember 2017 um veitingu framkvæmdarleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A, Kleppsvegi 18 og B, Aðallandi 15, Reykjavík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 7. desember 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1 í lögsögu sveitarfélagsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 19. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til Skipulagsstofnunar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 7. desember 2017 var umsókn Landsnets hf., dags. 29. desember 2016, um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 lögð fram og samþykkt. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að með hinni kærðu ákvörðun sé brotið gegn eignarréttindum þeirra. Umræddri flutningslínu rafmagns sé að hluta til ætlað að liggja um eignarland kæranda án samráðs eða samninga við þá.

Bæjaryfirvöld Garðabæjar og leyfishafi vísa til þess að ekki liggi fyrir þinglýst skjöl um ætluð eignarréttindi  kærenda að landi þar sem fyrirhugað sé að reisa Lyklafellslínu 1.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að með bréfum, dags. 19. júní 2018, fór leyfishafi fram á það við sveitarstjórnir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ, að framkvæmdaleyfi sem samþykkt voru af þeirra hálfu vegna Lyklafellslínu 1 yrðu afturkölluð og felld niður. Bæjarstjórn Garðabæjar tók þá ákvörðun á fundi 14. ágúst 2018 að afturkalla hina kærðu ákvörðun frá 7. desember 2017 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni.

Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna, að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kærenda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

102/2018 Lónsbraut Hf.

Með

Árið 2018, föstudaginn 17. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 102/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 25. apríl 2018 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir Suðurhöfn, bátaskýli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi bátaskýlis við Lónsbraut, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 25. apríl 2018 að breyta skilmálum deiliskipulags fyrir Suðurhöfn, bátaskýli. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 17. ágúst 2018.

Málsatvik og rök:
Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar ákvað á fundi sínum 20. febrúar 2018 að grenndarkynna tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Suðurhafnar vegna bátaskýla við Suðurhöfn. Laut tillagan að notkun bátaskýlanna ásamt umgengni og geymslu báta og fólksbíla á svæðinu. Tillagan var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulaginu, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 5. mars 2018 með fresti til athugasemda til 3. apríl s.á. Tillagan var samþykkt í bæjarstjórn Hafarfjarðar 25. apríl 2018 að lokinni grenndarkynningu og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí s.á.

Kærandi byggir á því að ekki hafi verið um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Hinir breyttu skilmálar raski verulega hagsmunum eigenda umræddra bátaskýla og skerði notagildi fasteignanna án viðhlítandi skýringa.

Af hálfu Hafnafjarðarbæjar er vísað til þess að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferða

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2018. Tók kærufrestur því að líða 24. maí s.m. samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. júlí 2018 eða rúmum þremur vikum eftir að kærufresti lauk. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

36/2017 Austurbyggð

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 9. ágúst kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 14. desember 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. mars 2017, kæra eigandi, Vallarlandi 8, Selfossi og eignandi, Vallarlandi 17, Selfossi þá ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 14. desember 2016 að staðfesta samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 7. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árborg 11. maí 2017.

Málavextir:
Á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. desember 2016 var staðfest samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 7. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Austurbyggðar að undangenginni auglýsingu á tillögu þar um. Kærendur gerðu athugasemdir við tillöguna, er var svarað af skipulags- og byggingarfulltrúa. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2017.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að leiksvæði sem gert var ráð fyrir á milli lóða að Smáralandi og Stekkjarlandi er fellt út og lóðirnar að Smáralandi 17 og 19 og Stekkjarlandi 8 stækkaðar lítillega. Einnig er leiksvæði á milli lóða við Snæland fellt út og parhúsalóðin að Snælandi 5-7 stækkuð og breytt í þriggja húsa raðhúsalóð. Þá er leiksvæði milli lóða að Fagralandi fellt út og einbýlishúsalóðin að Fagralandi 7 stækkuð. Í stað þessara þriggja leiksvæða er bætt við leiksvæði milli lóðanna Akralands 9 og 11 auk þess sem parhúsalóðunum að Akralandi 5 og 7 og einbýlishúsalóðinni að Akralandi 9 er breytt í raðhúsalóðir.

Málsrök kærenda:
Kærendur byggja á því að deiliskipulagsbreytingin skerði notagildi fasteigna þeirra að því leyti að enginn nothæfur leikvöllur verði í Austurbyggð eftir breytinguna.

Lýsing vegna breytinga á deiliskipulagi Austurbyggðar hafi ekki uppfyllt skilyrði greinar 5.2.3 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og með málsmeðferðinni hafi auk þess verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og meginreglunni um málefnaleg sjónarmið. Ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda kærenda við tillögu að breyttu deiliskipulagi. Vísi kærendur til ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar varðandi deiliskipulag og breytingar á því. Er sérstaklega vísað til 1. mgr. 37. gr., 39. gr., 1. mgr., sbr. 3. mgr. 41. gr., og 43. gr. skipulagslaga og b-liðar gr. 5.1.1, 5.1.2, 5.2.1, 5.2.2, 5.2.3 og 5.3.2.3 í skipulagsreglugerð. Þá sé vísað til 2. og 6. gr. reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim.

Við breytingu á gildandi deiliskipulagi hafi skipulagsyfirvöld ekki jafn frjálsar hendur og við skipulagsgerð á óskipulögðum svæðum. Ákveðnar skyldur hvíli á skipulagsyfirvöldum með hliðsjón af fyrra skipulagi, sem mótað hafi byggð á svæðinu, nema lögmætar ástæður búi að baki breytingum. Hvorki fullnægjandi ástæður né rökstuðningur liggi fyrir breyttu deiliskipulagi. Hvergi í þeim gögnum sem lágu fyrir við ákvarðanatökuna komi fram hvers vegna þörf hafi verið á að fækka leiksvæðum í hverfinu, önnur en sú að stækka nokkrar íbúðarlóðir lítillega. Verið sé að fórna hagsmunum hverfisins í heild fyrir hagsmuni eigenda viðkomandi lóða. Ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda og vilja íbúa svæðisins. Jafnframt hafi að engu leyti verið skoðað hvort hin nýja staðsetning leikvallarins gæti staðist reglur um öryggiskröfur leikvalla. Telji kærendur að svo sé ekki þar sem eina aðkoman að leikvellinum sé að vestanverðu en sú hlið snúi að helstu umferðaræð hverfisins. Slíkt sé hvorki í samræmi við ákvæði reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim né skipulagsreglugerðar. Gera hefði þurft grein fyrir því í lýsingu verkefnisins og í greinargerð með hinu breytta deiliskipulagi hvernig ganga ætti frá svæðinu til að það stæðist öryggiskröfur. Þá hafi engin málefnaleg sjónarmið fyrir breytingunni komið fram af hálfu bæjarins, önnur en þau að stækka nokkrar íbúðarhúsalóðir lítilega. Allan rökstuðning fyrir breytingunni vanti og þess sé hvergi getið hvaða sjónarmið varðandi stækkun lóða geti réttlætt fækkun leikvalla hverfisins. Bæjaryfirvöld hafi við meðferð málsins virt vilja íbúa hverfisins að vettugi að öllu leyti. Yfirgnæfandi meirihluti íbúa telji mikilvægt að breytingin taki ekki gildi þar sem hún muni hafa neikvæð áhrif á framþróun hverfisins og geri það að verkum að ekkert öruggt leiksvæði verði í því.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að uppfylltar hafi verið kröfur þeirra form- og efnisreglna sem sveitarfélaginu hafi borið að fara eftir við deiliskipulagsbreytinguna. Sveitarfélög hafi svigrúm til þess að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi skv. skipulagslögum nr. 123/2010. Ekki hafi verið skylt að útbúa lýsingu, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 43. gr. þeirrar laga. Sé því hafnað að fullnægjandi ástæður fyrir breytingunni hafi ekki legið fyrir og að markmiðið með henni hafi verið að stækka íbúðarhúsalóðir. Við uppbyggingu hverfisins hafi komið í ljós að fyrirhuguð leiksvæði í hverfinu væru bæði lítil og óhagstæð að lögun er leiddi til þess að ómögulegt hefði verið að setja upp viðunandi leikvelli með tækjum miðað við þær kröfur sem gerðar séu til leikvalla, eins og fram komi í bókun skipulags- og byggingarnefndar. Ekki sé óeðlilegt að leiksvæði í þéttbýli standi nálgæt götum sem umferð fari um. Þá verði að sjálfsögðu tekið tillit til öryggismála við hönnun hins nýja leiksvæðis. Ekki hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins við meðferð málsins. Loks sé sveitarfélaginu ekki skylt að verða við kröfum þeirra sem geri athugasemdir, enda séu færð fyrir því rök og ákvörðunin byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Austurbyggðar þar sem gert er ráð fyrir að þrjú lítil leiksvæði séu felld út en bætt við einu stærra leiksvæði á öðrum stað. Jafnframt eru nokkrar íbúðarhúsalóðir á viðkomandi svæði stækkaðar lítillega í tengslum við breytinguna.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærendur eru búsettir á deiliskipulagssvæðinu og byggja á því að notagildi fasteigna þeirra minnki við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Er þar um að ræða álit kærenda á skipulagi á svæðinu og komu kærendur þeim skoðunum á framfæri við meðferð málsins. Það að kærendur eigi rétt á að koma að athugasemdum þegar málsmeðferð vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi sendur yfir skv. skipulagslagslögum nr. 123/2010 veitir þeim hins vegar ekki sjálfstæðan rétt til kæruaðildar. Þá lúta nefnd málsrök kærenda fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna, en ekki einstaklega. Verður kærendum ekki játuð kæruaðild á þeim grundvelli þrátt fyrir að hagræði kunni að felast í því fyrir íbúa að stutt sé á næsta leiksvæði. Loks er útilokað, að öllum staðháttum virtum, að breytt lega leiksvæða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi nokkur grenndaráhrif á fasteignir kærenda    

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærendur hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra og verður kæruaðild þeirra ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

 
 

110/2016 Laugavegur

Með

Árið 2018, föstudaginn 27. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2016, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 á umsókn um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála á 2. hæð og breytingu á innra skipulagi þar, gera nýjan flóttastiga innanhúss og færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Vesturgarður ehf., Laugavegi 59, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. júlí 2016 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála á 2. hæð og breytingu á innra skipulagi þar, gera nýjan flóttastiga innanhúss og færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. október 2016.

Málavextir: Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulag sem samþykkt var í borgarráði 26. október 1999. Á árinu 2015 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi reitsins vegna lóðar nr. 59 við Laugaveg. Var hún samþykkt og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2016. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að reisa inndregna þakhæð ofan á núverandi hús og breyta 3. og 4. hæð í íbúðir.

Hinn 12. apríl 2016 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála veitingahúss í flokki II á 2. hæð og breyta innra skipulagi þar, gerð nýs flóttastiga innanhúss og til að færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. apríl 2016 var málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. maí s.á. var málinu frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 29. apríl 2016. Kom þar fram að athugasemdir væru gerðar við hringstiga og aðgengi að honum á jarðhæð, við stækkun glerskála á 2. hæð samræmdist ekki deiliskipulagi, að ekki væri tekið jákvætt í að fella niður verslunarrými á 2. hæð og að svalir á bakhlið 2. hæðar samræmdust ekki deiliskipulagi.

Kærandi gerði athugasemdir við umsögn skipulagsfulltrúa á fundi með verkefnisstjóra 10. maí 2016 og í kjölfarið voru gerðar breytingar á teikningum. Var umsóknin, svo sem henni hafði verið breytt, þá tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. s.m. Var málinu frestað og vísað á ný til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. maí 2016 var málinu vísað til verkefnisstjóra. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 24. júní s.á. var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem á fundi sínum 6. júlí s.á. samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. júní 2016. Í þeirri umsögn var því hafnað að fyrri umsögn skipulagsfulltrúa yrði endurskoðuð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. júlí 2016 var, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. júní s.á., synjað umsókn kæranda um leyfi fyrir inndreginni 5. hæð, innréttingu ellefu íbúða á 3., 4. og 5. hæð, stækkun glerskála veitingahúss í flokki II á 2. hæð og breyttu innra skipulagi þar, gerð nýs flóttastiga innanhúss og fyrir því að færa til upprunalegs útlits glugga 1. hæðar hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Með bréfi, dags. 15. ágúst s.á., var synjunin kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er hún til úrlausnar í þessu máli.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst 2016 var samþykkt ný umsókn kæranda um leyfi til að byggja inndregna 5. hæð, breyta inn- og útgöngum, koma fyrir hringstiga að veitingastað á 2. hæð og innrétta ellefu íbúðir á 3., 4. og 5. hæð hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars 2017 var enn fremur samþykkt umsókn kæranda um leyfi til að breyta veitingastað úr flokki II í flokk III fyrir 105 gesti í íbúðar- og atvinnuhúsnæði á lóðinni nr. 59 við Laugaveg.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að málsmeðferð borgaryfirvalda við meðferð málsins hafi ekki verið að öllu leyti í samræmi við lög. Með hinni kærðu ákvörðun hafi umsókn kæranda um byggingarleyfi verið synjað. Meðferð umsókna um byggingarleyfi fari að lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Segi þar í 1. mgr. 10. gr. að umsókn um byggingarleyfi skuli send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun ásamt áskildum gögnum og í 2. mgr. 10. gr. segi að sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Ráðist það af mati byggingarfulltrúa hvort þörf sé á slíkri aðkomu.

Af áritun starfsmanns byggingarfulltrúa á gátlista vegna aðaluppdrátta sem gerð hafi verið 18. apríl 2016 verði rakið að umsókn kæranda hafi aðeins verið vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa vegna stækkunar 2. hæðar, sem starfsmaðurinn hafi talið að vafi léki á að samræmdist deiliskipulagi. Erindi þetta hafi skipulagsfulltrúi afgreitt með umsögn, dags. 29. apríl 2016, þar sem því hafi verið slegið föstu að stækkun glerskála á 2. hæð samræmdist ekki deiliskipulagi en jafnframt hafi verið gerðar athugasemdir við önnur tilgreind atriði. Telji kærandi að skipulagsfulltrúi hafi bæði rangtúlkað heimildir gildandi skipulags og farið út fyrir verksvið sitt, en hlutverk skipulagsfulltrúa hafi verið að láta byggingarfulltrúa í té umsögn um það álitaefni sem óskað hafi verið eftir og þá aðeins um það hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Hafi ólögmætar athugasemdir skipulagsfulltrúa leitt til þess að umsókninni hafi verið hafnað. Þessar athugasemdir komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa frá 29. apríl 2016.

Í umsögninni hafi verið gerð sú athugasemd að stækkun glerskála samræmdist ekki deiliskipulagi. Kærandi telji það ekki hafið yfir vafa. Fyrir séu svalir við báða enda glerskálans sem kærandi hugðist loka. Komið yrði fyrir léttri lokun þannig að rými innan hennar myndi ekki falla í lokunarflokk A og þyrfti því ekki að vera heimild fyrir henni í skipulagi og hefði hún ekki heldur þurft að koma til umsagnar skipulagsfulltrúa, enda um óverulega breytingu að ræða, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Séu þess fjölmörg dæmi að byggingarfulltrúi hafi samþykkt léttar svalalokanir á húsum án þess að fyrir því hafi verið sérstök heimild í deiliskipulagi og án þess að leitað hafi verið umsagnar skipulagsfulltrúa. Hafi byggingarfulltrúa borið að gæta meðalhófs og leiðbeiningarskyldu sinnar auk þess að gæta að rannsóknarreglu með því að kanna til hlítar um hvers konar lokun væri að ræða í stað þess að vísa erindi kæranda til umsagnar skipulagsfulltrúa vegna þeirrar stækkunar á 2. hæð sem starfsmaður hans virðist hafa talið að leiddi af lokun umræddra svala.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt aðalskipulagi sé lóðin nr. 59 við Laugaveg á miðborgarsvæði M1a. Á svæðinu sé lögð áhersla á að styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda, en um leið að efla verslunar-, atvinnu- og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Í gildi sé deiliskipulag reits 1.173.0, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 26. október 1999 með breytingum sem samþykktar hafi verið í borgarráði 10. desember 2015. Með þeirri breytingu hafi verið heimilað að byggja inndregna hæð ofan á fjórðu hæð hússins.

Hvað varði þá málsástæðu að umsókn um leyfi fyrir stækkun glerskála hafi verið í samræmi við deiliskipulag, þá skuli á það bent að óskað hafi verið eftir að breyta glerskálanum og stækka hann, en engar heimildir séu í deiliskipulagi fyrir slíkri breytingu. Glerskálinn hafi verið samþykktur árið 1996 og hafi þá verið gert ráð fyrir svölum sitt hvoru megin við hann. Hafi hann og verið byggður þannig. Samkvæmt umsókninni hefði glerskálinn orðið hærri næst Laugavegi og hefði breytingin breytt ásýnd hússins töluvert. Á grunnmynd 2. hæðar sjáist að glerskálinn sé orðinn hluti af heildarrými veitingastaðarins, þ.e. hann sé ekki sýndur sem glerskáli heldur sé veitingastaðurinn einfaldlega stækkaður sem glerskálanum nemi. Hafi skipulagsfulltrúi talið í umsögn sinni að betur færi á að vera með halla á þaki skálans eins og nú sé og gluggar hans þeim mun minni. Ljóst sé að ekki sé um hefðbundna svalalokun að ræða eins og haldið sé fram í kæru. Ásýnd framhliðar myndi breytast verulega auk þess sem af uppdráttum verði ekki annað ráðið en að innanrýmið sé nýtt undir veitingastað. Sé því hér um stækkun og lokun að ræða á rýminu sem myndi reiknast til nýtingarhlutfalls. Svalir sitt hvoru megin við glerskálann tengi 2. hæðina betur við göturými Laugavegar og gefi byggingunni léttara yfirbragð. Sé ekkert sem bendi til þess að þessi þáttur málsins hafi ekki verið ígrundaður með nægjanlegum hætti af hálfu Reykjavíkurborgar og athugasemdir skipulagsfulltrúa hvað þetta atriði varði séu byggðar á málefnalegum grunni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu þá sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæði sínu á lóð nr. 59 við Laugaveg. Þeirri umsókn var hafnað af byggingarfulltrúa 12. júlí 2016 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 29. apríl s.á. Í kjölfar þess sótti kærandi um byggingarleyfi að nýju með breytingum í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Var sú umsókn samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst s.á. Með bréfi, dags. 15. s.m., kærði kærandi fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa.

Með bréfi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2018, var lögmanni kæranda gefinn kostur á því að koma að skýringum fyrir hönd umbjóðanda síns um það hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni hann teldi sig enn hafa af úrlausn málsins. Einkum og sér í lagi hvaða réttarverkan það gæti haft að felld yrði úr gildi synjun fyrri leyfisumsóknarinnar, svo sem kröfugerð umbjóðanda hans lyti að, eftir samþykkt á síðari og efnislega áþekkri byggingarleyfisumsókn. Svar barst 20. s.m. þar sem fram kom að kærandi teldi verulegan mun á því leyfi sem synjað hefði verið og kært væri í málinu og því leyfi sem síðar hefði verið sótt um og samþykkt. Var ekki tilgreint nánar í hverju sá munur fælist en tekið fram að kærandi hefði ríka og lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn í málinu, enda væri þá með úrskurði nefndarinnar skorið úr ágreiningi sem varðaði heimildir kæranda til notkunar og hagnýtingar eignar sinnar og til framkvæmda við hana.

Í máli þessu háttar svo til að ný umsókn kæranda hefur verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Sú ákvörðun tók til alls hússins á lóðinni nr. 59 við Laugaveg, enda voru með henni samþykktir nýir aðaluppdrættir. Verður ekki séð að úrskurður um gildi hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa bein áhrif á einstaka lögvarða hagsmuni kæranda þar sem hin nýja ákvörðun myndi standa óbreytt í kjölfar þess úrskurðar, hver svo sem niðurstaða hans yrði. Þyrfti kærandi eftir sem áður að sækja um byggingarleyfi að nýju, fyrir þeim breytingum sem ekki fengust samþykktar með upphaflegri umsókn hans og vilji hans stendur enn til. Yrði ný ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykkt eða synjun þeirrar umsóknar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Réttaröryggi kæranda er því ekki fyrir borð borið.

Með vísan til alls framangreinds verður að telja, þrátt fyrir umbeðinn frekari rökstuðning frá lögmanni kæranda, að úrlausn kærumálsins hafi ekki þá þýðingu fyrir stöðu kæranda að lögum að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi eldri ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 12. júlí 2016 um synjun leyfisumsóknar kæranda. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                         Þorsteinn Þorsteinsson

87/2017 Lyklafellslína

Með

Árið 2018, föstudaginn 13. júlí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 87/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. mars 2017 um veitingu framkvæmdarleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. mars 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:
Árið 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til Skipulagsstofnunar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á. Tekur matið m.a. til lagningar Lyklafellslínu 1. Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 22. mars 2017 var umsókn Landsnets hf., dags. 29. desember 2016, um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 lögð fram og samþykkt og var leyfið gefið út 3. júlí s.á. Var veiting framkvæmdaleyfisins kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að ekki séu uppfyllt skilyrði til að veita hið kærða framkvæmdaleyfi þar sem undirbúningi ákvörðunarinnar hafi verið ábótavant, m.a. í ljósi dómafordæma Hæstaréttar og úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í sambærilegum málum.

Bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar vísa til þess að undirbúningur og taka hinnar kærðu ákvörðunar hafi í engu verið áfátt.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að með bréfum, dags. 19. júní 2018, fór leyfishafi fram á það við sveitarstjórnir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ, að framkvæmdaleyfi sem samþykkt voru af þeirra hálfu vegna Lyklafellslínu 1 yrðu afturkölluð og felld niður. Þar er og tekið fram að rétt sé að afturkalla framkvæmdaleyfið og senda inn umsókn um leyfi að nýju þegar unnt verður að hefja framkvæmdir. Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum 12. júlí 2018 afgreiðslu skipulagsnefndar frá 6. s.m. um afturköllun framkvæmdaleyfis Lyklafellslínu 1 sem gefið var út 3. júlí 2017. Það leyfi hafði þá þegar fallið niður skv. 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem framkvæmdir hófust ekki innan árs frá samþykkt bæjarstjórnar frá 22. mars 2017 fyrir leyfisveitingunni

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Byggja kærendur aðild sína í máli þessu á greindri lagaheimild um aðild tiltekinna hagsmunasamtaka.

Eftir afturköllun hins útgefna framkvæmdaleyfis og samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga hefur leyfið ekki lengur réttarverkan að lögum og verður ekki gefið út nýtt leyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfisins þar sem meira en 12 mánuðir eru liðnir frá  samþykkt bæjarstjórnar um veitingu þess, sbr. 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna, að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kærenda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

78/2018 Reykjarhvoll

Með

Árið 2018, föstudaginn 13. júlí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 78/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. september og 4. desember 2017 um að veita byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2018, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Vígmundur Pálmarsson, lóðarhafi Reykjahvols 25, Mosfellsbæ, ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. september 2017, að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 2. júlí 2018.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 1. september 2017 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Var fært til bókar að nefndin gerði ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis þegar fullnægjandi gögn hefðu borist byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. september 2017 var fyrrnefnd umsókn samþykkt. Málið var á dagskrá fundar skipulagsnefndar 13. október s.á. þar sem bókað var að ekki væru gerðar athugasemdir við stærð hússins, en deiliskipulag svæðisins heimilaði ekki aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol. Á afgreiðslufundi 4. desember 2017 samþykkti byggingarfulltrú umsókn um leyfi til að breyta staðsetningu og fyrirkomulagi innanhúss áður samþykkts einbýlishúss á lóð nr. 23a við Reykjahvol. Byggingarfulltrú gaf út byggingarleyfi 17. maí 2018, til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á umræddri lóð.

Kærandi bendir á að samkvæmt teikningum verði húsið 6 m2 stærra en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagi. Hæð hússins verði 7,49 m en deiliskipulag kveði á um 6 m hámarkshæð frá inngangskóta, auk þess sem neðri hæðin sé 2,70 m á hæð og ekki tekin inn í hæð hússins. Þá komi fram aukaíbúð á samþykktum teikningum en óheimilt sé samkvæmt deiliskipulagi að gera aukaíbúðir í einbýlishúsum við F-götu. Fyrirhugað hús verði mun hærra en hús kæranda og muni rýra notagildi lóðar hans vegna skuggavarps og skerðingar á útsýni auk þess sem húsið sé  í miklu ósamræmi við hús hans vegna hæðar og stærðar.

Af hálfu bæjaryfirvalda er meðal annars bent á að kallað hafi verið eftir leiðréttum hönnunargögnum, að beiðni um leiðrétt byggingarleyfi hafi verið send byggingarfulltrúa og að leiðrétt byggingarleyfi verði gefið út innan skamms.

Niðurstaða: Í gögnum málsins kemur fram að eftir hina kærðu samþykkt byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ á byggingarleyfi vegna Reykjahvols 23a sætti málið frekari málsmeðferð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. júní 2018 lagði leyfishafi fram aðaluppdrátt með leiðréttri byggingarlýsingu og var hann samþykktur. Liggur því fyrir að ný byggingaráform hafa verið samþykkt fyrir lóðina Reykjahvol 23a.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti aðaluppdrátt með leiðréttri byggingarlýsingu 22. júní 2018 hafa hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 15. september og 4. desember 2017 ekki réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirra enda stæði hin nýja ákvörðun allt að einu óhögguð. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson