Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2017 Lyklafellslína

Árið 2018, föstudaginn 13. júlí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 87/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. mars 2017 um veitingu framkvæmdarleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. mars 2017 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:
Árið 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til Skipulagsstofnunar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á. Tekur matið m.a. til lagningar Lyklafellslínu 1. Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 22. mars 2017 var umsókn Landsnets hf., dags. 29. desember 2016, um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 lögð fram og samþykkt og var leyfið gefið út 3. júlí s.á. Var veiting framkvæmdaleyfisins kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að ekki séu uppfyllt skilyrði til að veita hið kærða framkvæmdaleyfi þar sem undirbúningi ákvörðunarinnar hafi verið ábótavant, m.a. í ljósi dómafordæma Hæstaréttar og úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í sambærilegum málum.

Bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar vísa til þess að undirbúningur og taka hinnar kærðu ákvörðunar hafi í engu verið áfátt.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að með bréfum, dags. 19. júní 2018, fór leyfishafi fram á það við sveitarstjórnir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ, að framkvæmdaleyfi sem samþykkt voru af þeirra hálfu vegna Lyklafellslínu 1 yrðu afturkölluð og felld niður. Þar er og tekið fram að rétt sé að afturkalla framkvæmdaleyfið og senda inn umsókn um leyfi að nýju þegar unnt verður að hefja framkvæmdir. Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum 12. júlí 2018 afgreiðslu skipulagsnefndar frá 6. s.m. um afturköllun framkvæmdaleyfis Lyklafellslínu 1 sem gefið var út 3. júlí 2017. Það leyfi hafði þá þegar fallið niður skv. 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem framkvæmdir hófust ekki innan árs frá samþykkt bæjarstjórnar frá 22. mars 2017 fyrir leyfisveitingunni

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Byggja kærendur aðild sína í máli þessu á greindri lagaheimild um aðild tiltekinna hagsmunasamtaka.

Eftir afturköllun hins útgefna framkvæmdaleyfis og samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga hefur leyfið ekki lengur réttarverkan að lögum og verður ekki gefið út nýtt leyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfisins þar sem meira en 12 mánuðir eru liðnir frá  samþykkt bæjarstjórnar um veitingu þess, sbr. 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna, að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kærenda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson