Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2020 Dýraspítalinn í Víðidal

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2020, kæra vegna eftirlits með bálförum gæludýra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hamrakór 9, Kópavogi, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja vegna eftirlits með bálförum gæludýra. Gerir kærandi m.a. þá kröfu að skorið verði úr því hvort dýraspítalar á höfuðborgarsvæðinu hafi gilt starfsleyfi til reksturs bálfaraofna. Jafnframt er Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis kært fyrir að vísa ekki í gilt starfsleyfi til brennslu gæludýra í umdæminu. Loks er Dýraspítalinn í Víðidal kærður fyrir ætlaða sviksemi í þjónustu sinni við gæludýraeigendur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. mars 2020.

Málsatvik: Hinn 27. desember 2019 fór kærandi með hund sinn í aflífun til Dýraspítalans í Víðidal. Samkvæmt gögnum málsins borgaði kærandi fyrir sérbrennslu og þar til gert box fyrir ösku. Kærandi sendi fyrirspurn með tölvupósti 30. s.m. til Heilbrigðiseftirlits Reykja­víkur og spurðist fyrir um hvort dýraspítalinn hefði starfsleyfi til bálfara eða fyrir bálstofu gæludýra. Var honum svarað því til að dýraspítalinn hefði gilt starfsleyfi. Bálstofan væri ekki tiltekin sérstaklega í því en væntanlega hefði verið litið svo á að hún félli þar undir. Brennsluofninn og skráningar sættu skoðun í reglubundnu eftirliti með starfsemi dýraspítalans. Kærandi sendi tölvupóst að nýju til eftirlitsins 2. janúar 2020 þar sem farið var fram á að það kannaði hvort brennsluofninn á dýraspítalanum hefði verið notaður á tímabilinu frá 28. desember 2019 til 6. janúar 2020. Vísaði kærandi til þess að hann hefði borgað 50.000 kr. fyrir förgun á hundinum sínum, en samkvæmt upplýsingum frá sorpeyðingarstöðinni Kölku í Reykjanesbæ brenni þeir gæludýr fyrir Dýraspítalann í Víðidal fyrir u.þ.b. 2.000 kr. Tiltók kærandi og að hann hefði ekki séð ofn dýraspítalans virkjaðan eða í gangi á tilgreindu tímabili.

Heilbrigðiseftirlitið svaraði erindi kæranda með tölvupósti 22. janúar 2020. Var vísað til þess að í reglubundnu eftirliti undanfarin ár hefði verið staðfest að brennsluofn dýraspítalans væri eingöngu starfræktur á nóttinni. Sjálfvirk tíma­stýring væri á ofninum. Dagbrennsla hefði ekki farið fram síðan árið 2016. Samhliða var kærandi í samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í þeim tilgangi að fá felld niður gjöld ársins 2020 vegna hundsins og krafðist hann þess jafnframt að kannað yrði hvort dýraspítalinn hefði látið bálför dýrsins fara fram hjá Kölku, Reykjanesbæ. Var honum svarað svo með tölvupósti 21. janúar 2020 að samkvæmt eftirgrennslan eftirlitsins væri dýraspítalinn með brennsluofn og sæi sjálfur um brennslu. Þá var kæranda tilkynnt að reikningur vegna gjalda ársins 2020 hefði verið felldur niður.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tilgangur kærunnar sé að fá úr því skorið hvort dýraspítalar á höfuðborgarsvæðinu hafi gilt starfsleyfi til reksturs bálfaraofna fyrir gæludýr eða hvort bálfaraofnar á þeirra vegum séu skraut til að blekkja gæludýraeigendur til að borga okurverð fyrir þjónustu sem sé ekki framkvæmd af þeim sjálfum heldur sorpbrennslustöðum annars staðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er farið fram á frávísun málsins þar sem engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin af hálfu eftirlitsins og því sé engin kæranleg ákvörðun fyrir hendi. Heilbrigðiseftirlitið vísar til þess að dýraspítalar séu starfsleyfis- og eftirlitsskyldir samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum byggðum á lögunum sem eigi við um slíka starfsemi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi eftirlit með Dýra­spítalanum í Víðidal og sé hann með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, sem hafi verið endurnýjað 20. apríl 2010, og gildi það til 20. apríl 2022. Kalka á Suðurnesjum sé rekin á starfsleyfi útgefnu af Umhverfisstofnun. Dýraspítalanum beri að meðhöndla úrgang á fullnægjandi hátt, þ.m.t. geymslu, flutning og förgun hans. Dýra­hræjum sé ýmist fargað á urðunarstaðnum í Álfsnesi eða þau brennd í brennsluofni á staðnum að ósk eigenda dýranna. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki eftirlit með þjónustu Dýraspítalans við brennslu á einstökum dýrum og beri ekki skylda til að hafa eftirlit með afdrifum einstakra dýra sem send séu til brennslu á Dýraspítalanum eða fargað á annan hátt að öðru leyti en því að skráningar yfir fjölda brennsla í brennsluofni og kvittanir fyrir förgun á dýrahræjum í Álfsnesi séu skoðaðar í reglubundnu eftirliti. Ekki hafi verið gerð athugasemd við meðferð og förgun dýrahræja undanfarin ár, en krafist hafi verið ítarlegri skráningar á brennslu dýrahræja, þ.e. fjölda dýra og þyngd, við eftirlit 31. ágúst 2016. Búið hafi verið að bæta úr því við síðasta eftirlit 1. nóvember 2018. Vegna kvartana um ólykt frá brennsluofni hafi brennsla dýrahræja aðeins farið fram á nóttunni síðustu ár.

Haft hafi verið samband við forsvarsmenn Dýraspítalans í kjölfar kærunnar og hafi engar breytingar orðið á meðferð og förgun dýrahræja frá síðasta eftirliti. Heilbrigðiseftirlitið hafi yfirfarið skráningar og komi þar fram að hundur kæranda hafi verið brenndur með sérbrennslu á Dýraspítalanum í Víðidal 28. desember 2019.

—–

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja var upplýst að það hefði enga aðkomu að þessu máli, enda hefði það hvorki eftirlit með sorpeyðingarstöðinni Kölku né Dýraspítalanum í Víðidal.

—–

Niðurstaða: Starfsemi dýraspítala er starfsleyfisskyld skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og V. viðauka laganna, og skal starfsleyfi til þeirrar starfsemi gefið út af heilbrigðisnefnd, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Samkvæmt 54. gr. sömu laga fer fram eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta sem og hollustuhátta. Kæruheimild er að finna í 65. gr. laganna þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Kærandi gerir einkum að ágreiningsefni hvernig staðið hafi verið að brennslu gæludýrs hans af hálfu dýraspítala sem hann leitaði til um þá þjónustu. Ágreiningur þeirra á milli er einkaréttarlegs eðlis sem framangreind kæruheimild tekur ekki til og því er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að fjalla um hann.

Kærandi leitaði jafnframt til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem eftirlitsaðila með starfseminni og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var hann upplýstur um að fyrir lægi gilt starfsleyfi fyrir henni sem jafnframt tæki til brennsluofns. Einnig var kærandi upplýstur um að reglulegt eftirlit færi fram með starfseminni. Í kjölfar kæru hefur eftirlitið yfirfarið skráningar dýraspítalans þar sem fram kemur að hundur kæranda hafi verið brenndur þar með sérbrennslu 28. desember 2019. Aðspurt upplýsti Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis einnig að dýraspítalinn hefði starfsleyfi og að þar væri sinnt brennslu. Jafnframt felldi eftirlitið niður gjöld vegna hundahalds kæranda 2020. Verður ekki séð af þessari atburðarás eða gögnum málsins að öðru leyti að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998, sbr. og 1. gr. laga nr. 130/2011, eða skv. almennri kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá kom Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ekki að málinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

95/2019 Pizza-Pizza

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2019, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis frá 22. ágúst 2019, þess efnis að viðskiptavinir hafi greiðan aðgang að salerni þegar neysla matvæla fari fram á staðnum, en að öðrum kosti skuli svo búið um hnútana að neysla matvæla á staðnum sé óheimil og borð fjarlægð af afgreiðslustöðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

                                                                        úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Pizza-Pizza ehf., Lóuhólum 2-6, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 22. ágúst 2019 að „viðskiptavinir skuli hafa greiðan aðgang að salerni þegar neysla matvæla fari fram á staðnum að öðrum kosti skuli svo búið um hnútana að neysla matvæla á staðnum sé óheimil og borð fjarlægð af afgreiðslustöðum.“ Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 30. október 2019.

Málsatvik: Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis framkvæmdi eftirlit á tveimur sölustöðum kæranda í Kópavogi og tveimur í Hafnarfirði í mars, apríl og maí 2019. Í skoðunarskýrslum sem gerðar voru í kjölfar eftirlitsins, dags. 8. apríl 2019 og 17., 20. og 21. maí s.á., voru m.a. skráð samhljóða frávik vegna þess að í biðaðstöðu staðanna væru borð og stólar en engin snyrting. Í afgreiðslusölum fyrirtækisins væru borð og stólar fyrir viðskiptavini en samkvæmt reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti flokkaðist fyrirtækið þá sem veitingastaður. Samkvæmt 31. gr. reglugerðarinnar skyldu viðskiptavinir því hafa greiðan aðgang að salerni. Var í skoðunarskýrslunum þess krafist að fyrirtækið fjarlægði alla stóla og öll borð úr afgreiðslusölum eða kæmi upp viðeigandi fjölda salerna fyrir gesti. Fram kom að tímasetta úrbótaáætlun ætti að senda til heilbrigðiseftirlitsins innan tveggja vikna. Eftirfylgni við hana yrði metin og tekið fram að öllum úrbótum skyldi lokið innan þriggja mánaða.

Í framhaldi af skilum á skoðunarskýrslum áttu frekari samskipti sér stað milli kæranda og heilbrigðiseftirlitsins. Í tölvupósti kæranda 3. júní 2019 kom fram að skilningur fyrirtækisins væri sá að heimilt væri að vera með stóla í umræddum verslunum þar sem þeir væru hugsaðir sem stólar fyrir biðstofu. Í svarpósti heilbrigðiseftirlitsins frá 4. s.m. kom fram að samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald skyldu viðskiptavinir veitingastaða eiga greiðan aðgang að snyrtingu. Skilgreiningu veitingastaða væri að finna í 18. gr. reglugerðarinnar og þar væri umrædd starfsemi, veitingasala, skilgreind sem staðir þar sem fram færi sala veitinga sem ekki væru til neyslu á staðnum enda væri slík sala meginstarfsemi staðarins. Túlkun eftirlitsins á fyrrgreindum ákvæðum væri sú að ef stólar, háir eða lágir, væru á staðnum og viðskiptavinir notuðu þá til að tylla sér á meðan þeir borðuðu það sem væri til sölu á staðnum skyldi staðurinn bjóða upp á salerni fyrir viðskiptavini, annars þyrfti að fjarlægja stólana. Kærandi spurði þá samdægurs hvort heimilt væri að taka borðin niður en vera með lágan bekk sem fólk gæti tyllt sér á meðan það biði eftir pizzu sem það væri að sækja. Í svari heilbrigðisfulltrúa kom fram að það væri í lagi þeirra vegna og var tekið fram að eftirlitið væri ekki á móti því að fólk fengi að setjast niður þegar það væri að bíða eftir afgreiðslu.

Með bréfi, dags. 6. ágúst 2019, mótmælti kærandi fyrrgreindu svari eftirlitsins og sérstaklega þeirri fullyrðingu í skoðunarskýrslum að staðurinn flokkaðist sem veitingastaður skv. reglugerð nr. 941/2001 fyrir þær sakir eingöngu að þar væru staðsettir stólar á biðstofu. Benti kærandi á skilgreiningu 3. gr. reglugerðarinnar á veitingastað og tók fram að hann teldi að ljóst mætti vera að matur væri ekki framreiddur á stöðum sínum til neyslu á staðnum. Óskaði kærandi eftir að dregin yrði til baka krafa um að fyrirtækið fjarlægði stóla og borð og að ekki kæmu frekari athugasemdir þess efnis í skoðunarskýrslum. Í svarbréfi  heilbrigðiseftirlitsins, dags. 22. ágúst 2019, kom fram að uppsetning stóla og borða á afgreiðslustöðum kæranda gæfi tilefni til að hægt væri að neyta veitinga á staðnum og því væri það skýlaus réttur viðskiptavina fyrirtækisins að hafa aðgang að salerni á staðnum, enda væri sú krafa sett fram til að viðskiptavinir gætu tryggt sig með smitvörnum, þ.e. handþvotti. Ítrekaðar væru fyrri kröfur um að viðskiptavinir skyldu hafa greiðan aðgang að salerni þegar neysla matvæla færi fram á staðnum að öðrum kosti skyldi svo búið um hnútana að neysla matvæla á staðnum væri óheimil og borð fjarlægð af afgreiðslustöðum. Var bent á að sætti aðili sig ekki við þessa afgreiðslu mætti vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kærandi og gerði, svo sem áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur lagaskilyrði hafa skort fyrir hinni kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi sé því mótmælt hve mikill greinarmunur sé gerður á því hvort til staðar séu stólar og borð eða eingöngu stólar. Í verslunum kæranda hafi um margra ára skeið verið staðsettir stólar og/eða sófar ásamt borðum, sem hafi verið ætlaðir fyrir viðskiptavini sem bíði eftir því að sækja mat á staðnum. Önnur notkun sé í sjálfu sér ekki beinlínis bönnuð, enda hafi kærandi ekki litið svo á að slík boð sé hlutverk hans. Verslanir kæranda tilheyri flokknum veitingaþjónusta og veitingaverslun skv. d-lið 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, enda fari þar fram sala veitinga sem ekki sé til neyslu á staðnum. Þótt hægt sé að neyta veitinga á staðnum þá mótmæli kærandi því að sú staðreynd leiði ein og sér til þess að verslanir kæranda flokkist sem veitingastaðir í skilningi reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti með þeim kröfum um aðgengi að salerni sem því fylgi. Veitingastaðir séu skilgreindir í 3. gr. reglugerðarinnar sem staðir þar sem framreiddur sé matur og/eða drykkur til neyslu fyrir viðskiptavini á staðnum, þar með talin mötuneyti, skyndibitastaðir og söluskálar. Í tilviki kæranda sé ekki miðað við neyslu á staðnum og eigi því tilvitnun til 31. gr. þeirrar reglugerðar ekki við.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Af hálfu eftirlitsins er bent á að hin umdeilda krafa þess styðjist við skýr ákvæði laga og reglugerða. Samkvæmt reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald falli umræddir staðir undir að vera veitingastaðir. Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar eigi viðskiptavinir veitingastaða að hafa greiðan aðgang að salerni. Í ákvæðinu sé hvorki gerður greinarmunur á flokki né tegund veitingastaða. Heilbrigðiseftirlitið hafi hins vegar vikið frá þeim kröfum þar sem ekki sé aðstaða til neyslu veitinga á grundvelli túlkunar Umhverfisstofnunar á reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Krafan sé gerð til að viðskiptavinir veitingastaða geti tryggt sig með einni mikilvægustu smitvörn sem hægt sé að treysta, þ.e. aðgengi að handþvotti. Í leiðbeiningum frá landlækni um sýkingarvarnir almennt sé fullyrt að handþvottur sé mikilvægasta sýkingarvörn sem hægt sé að viðhafa.

Niðurstaða: Samkvæmt 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt lögunum eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Tilefni kærumáls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til kæranda, dags. 22. ágúst 2019, þar sem áréttuð er krafa eftirlitsins sem gerð var í skoðunarskýrslum um að viðskiptavinir þeirra staða sem eftirliti sættu skyldu eiga greiðan aðgang að salerni þegar neysla matvæla færi fram á staðnum og ef að slíkt væri ekki til staðar skyldi svo búið um hnútana að neysla matvæla á staðnum væri óheimil og borð fjarlægð af afgreiðslustöðum.

Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti var sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 til að stuðla að framkvæmd hollustuverndar. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að markmið hennar sé að stuðla að framkvæmd hollustuverndar og samræma heilbrigðiseftirlit í landinu. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur til einstakra þátta sem þar er fjallað um. Eftirlit er skilgreint í 3. gr. hennar sem athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur. Samkvæmt sama ákvæði eru eftirlitsaðilar m.a. heilbrigðisnefnd, en síðan segir að heilbrigðisfulltrúi annist eftirlit í umboði þeirra. Heilbrigðisnefndir bera m.a. ábyrgð á heilbrigðiseftirliti og framkvæmd þess. Samkvæmt 60. gr. reglugerðarinnar nær heilbrigðiseftirlit m.a. til almennrar skoðunar á húsnæði, búnaði og umhverfi, töku sýna og skoðunar á skráðu og skjalfestu efni, ásamt því að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa, sem heilbrigðisnefnd er falið. Eftirlitsaðili skal gera eftirlitsskýrslu og afhenda rekstraraðila, sbr. 63. gr. Komi fram í eftirlitsskýrslu að ekki hafi verið farið að ákvæðum laga, reglugerða eða starfleyfis, skal eftirlitsaðili að jafnaði gefa rekstraraðila kost á að tjá sig um efni skýrslunnar innan hæfilegs frests. Telji eftirlitsaðili, að liðnum þeim fresti, að ekki sé fylgt ákvæðum laga, reglugerða eða starfsleyfa getur eftirlitsaðili gripið til þvingunarúrræða. Loks kemur fram í 70. gr. reglugerðarinnar, sem fjallar um þvingunarúrræði, að telji eftirlitsaðili eftir að rekstraraðila hafi verið gefinn kostur á að koma að andmælum sínum, sbr. 63. gr., að ekki sé fylgt eftir ákvæðum laga, reglugerða eða starfsleyfis geti hann veitt rekstraraðila skriflega áminningu og krafist úrbóta innan tiltekins frests. Skuli í áminningu sérstaklega geta afleiðinga sé úrbótum ekki sinnt innan tiltekins frests.

Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr., eins og hún var orðuð á þeim tíma sem eftirlit með stöðum kæranda fór fram og skoðunarskýrslur voru gerðar, kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum, t.a.m. veitt áminningu, sbr. 1. tl., eða veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta, sbr. 2. tl. Ákvæðinu var breytt með 15. gr. breytingalaga nr. 58/2019 og er heimildin nú bundin við Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, sem veitt geta viðkomandi aðila áminningu og jafnframt veitt hæfilegan frest til úrbóta ef hans er þörf. Þá segir í 1. mgr. 61. gr. að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt.

Líta verður svo á að umrætt bréf heilbrigðiseftirlitsins til kæranda frá 22. ágúst 2019 feli í sér áréttingu á túlkun eftirlitsins á gildandi lögum og reglum og á þeirri skoðun að frá þeim hafi verið vikið af hálfu kæranda, eins og fram kom í skoðunarskýrslum. Í bréfinu verður hins vegar ekki talin felast sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem leggur rekstraraðila á herðar skyldur í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Í bréfinu kemur hvorki fram ákveðinn frestur til úrbóta, svo sem bæði lög nr. 7/1998 og reglugerð nr. 941/2002 gera ráð fyrir, né að beitt verði þvingunarúrræðum ef ekki verði brugðist við þeim tilmælum sem komi þar fram. Af því leiðir að krafa sú sem fram kemur í bréfinu felur ekki í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilmæli og áréttingu um úrbætur. Kæruheimild vegna slíkra tilmæla fyrirfinnst ekki, enda eru þau einungis skref í átt að beitingu frekari úrræða, sem eftir atvikum væru kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þykir styðja þá niðurstöðu að heilbrigðiseftirlitið hefur skráð sams konar frávik við reglubundið eftirlit með umræddum stöðum kæranda í það minnsta frá árinu 2016 án þess að til frekari aðgerða, s.s. áminningar eða dagsekta, hafi komið. Verður máli þessu, með vísan til framangreinds, því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

58/2019 hundahald

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2019, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 19. júní 2019 um að leggja fyrir kæranda að koma hundi fyrir á nýju heimili.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júlí 2019, er barst nefndinni 9. s.m., kærir eigandi, Dalalandi 12, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 19. júní 2019 að leggja fyrir kæranda að koma hundi fyrir á nýju heimili. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 12. ágúst 2019.

Málavextir: Hinn 28. maí 2019 barst kvörtun frá húsfélagi tiltekins fjöleignarhúss, þar sem kærandi býr, til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Þar var rakið að íbúar hússins væru ósáttir við heimsóknir hunds til kæranda, einhverjir væru hræddir við hundinn, auk þess sem einn íbúinn væri með ofnæmi fyrir hundum. Heilbrigðiseftirlitið óskaði eftir frekari upplýsingum, þ.m.t. staðfestingu á hundaofnæmi íbúa í húsinu. Lagt var fram vottorð um það. Einnig voru lagðar fram reglur húsfélagsins þar sem fram kemur að allt dýrahald sé bannað í húsinu.

Með bréfi, dags. 19. júní 2019, tilkynnti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kæranda að eftirlitinu hefði borist ábending um að kærandi héldi hund í fjöleignarhúsinu án leyfis. Var kæranda gert að koma hundinum fyrir á nýju heimili þegar í stað „og eigi síðar en 7 dögum frá dagsetningu þessa bréfs, þannig að ekki þurfi að koma til frekari aðgerða“. Er það hin kærða ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi flutt í núverandi húsnæði seint á árinu 2018. Hann hafi látið nágranna sína vita að hundur kæmi stundum inn á heimilið þegar börn hans  kæmu í heimsókn til hans, en það væri aðra hverja viku. Seinna hefði hann fengið upplýsingar um að börn nágranna væru hrædd við hunda og að einn nágranninn væri með ofnæmi. Hundur sé ekki haldinn í húsinu og muni ekki verða haldinn þar af kæranda en komi hundur inn á heimilið komi hann inn um sérinngang, sunnanmegin. Kærandi leyfi ekki hundinum að vera á lóðinni nema til að komast til og frá íbúð kæranda. Þetta hafi kærandi útskýrt fyrir nágrönnum sínum.

Kærandi hafi ekki fengið að koma neinum upplýsingum eða sjónarmiðum á framfæri við heilbrigðiseftirlitið og ekki hafi heldur verið haft samband við hann til að kanna hvort einhver fótur væri fyrir því að hann héldi hund. Ekki sé forsvaranlegt af hálfu opinbers eftirlits að vara við einhverjum aðgerðum án þess að gera grein fyrir þeim frekar eða við hvaða lagagrundvöll þær styðjist.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vísar til þess að skv. 33. gr. a. í lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús sé hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang. Skemmri heimsóknir hunda og katta séu heimilar ef enginn mótmæli, en vistun eða dvöl þeirra yfir nótt sé óheimil nema fyrir liggi leyfi, sbr. framangreint ákvæði.

Samkvæmt 7. gr. samþykktar nr. 478/2012 um hundahald í Reykjavík skuli afla samþykkis samkvæmt fjöleignarhúsalögum áður en hundur sé tekinn inn á heimili í fjöleignarhúsi. Þá segi í 7. gr. að um skammtímaheimsóknir hunda í hús gildi ákvörðun eigenda einbýlis- og fjöleignarhúsa hverju sinni og/eða reglur viðkomandi húsfélags, auk laga um fjöleignarhús. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fari með málefni hunda og hundahalds í Reykjavík, sbr. 24. gr. samþykktarinnar. Fyrir liggi að kærandi búi í fjöleignarhúsi og sé ekki með sérinngang, eins og gefið sé í skyn í kærunni, heldur búi hann í íbúð með svalainngangi. Því gildi ákvæði fjöleignarhúsalaga um hunda í húsinu, hundasamþykkt Reykjavíkur og áðurnefndar húsreglur. Dýrahald sé ekki leyfilegt í húsinu samkvæmt húsreglum húsfélagsins og eigi það einnig við um skammtímaheimsóknir, sbr. framangreinda 7. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík. Það skipti því ekki máli hvort kærandi haldi hund í húsinu að staðaldri eða fái hund í tímabundnar heimsóknir.

Hvað varði þá athugasemd kæranda að ekki hafi verið haft samband við hann umfram það sem komi fram í bréfi heilbrigðiseftirlits, dags. 19. júní 2019, skuli ítrekað að fyrir hafi legið í málinu að allt dýrahald væri bannað í húsinu, auk þess sem staðfest hafi verið að einn íbúi væri með ofnæmi. Því hafi augljóslega verið óþarft að rannsaka málið frekar eða afla sjónarmiða kæranda vegna málsins. Í bréfinu sé kæranda gefinn kostur á að verða við kröfunni um að hundurinn eigi að víkja úr húsinu án þess að heilbrigðiseftirlitið þurfi að grípa til frekari aðgerða. Þetta sé hefðbundið orðalag, enda hafi ekki legið fyrir hverjar slíkar aðgerðir gætu mögulega orðið eða tilefni verið til að greina nánar frá því. Málið hafi legið ljóst fyrir. Hundar séu ekki heimilir í húsinu, hvorki til skemmri né lengri tíma, og málið því verið fullrannsakað. Loks komi ekkert nýtt fram í kæru sem hafi þarfnast frekari skoðunar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að stjórnvald geti ekki notað einhliða upplýsingar úr tölvupóstsamskiptum og tekið á þeim grunni einum ákvörðun sem skyldi kæranda til óskilgreindra athafna. Stjórnvaldið hafi ekki framkvæmt rannsókn til þess að framfylgja sinni ákvörðun og kæranda hafi ekki verið veittur andmælaréttur.

Hin kærða ákvörðun hafi verið um skyldu kæranda til að koma hundi fyrir á nýju heimili. Í svörum stjórnvalds við kærunni séu þau sögð varða kæru um að banna kæranda að vera með hund á heimili sínu í umræddu fjöleignarhúsi  og stjórnvaldið krefjist þess að nefndin staðfesti ákvörðun þess efnis að „hundurinn eigi ekki að dvelja eða koma í heimsóknir í húsið“. Sé þannig krafist að úrskurðarnefndin staðfesti mun víðtækari ákvörðun en þá sem hafi verið tekin og sé það andstætt reglum stjórnsýsluréttar. Þá sé enginn greinarmunur gerður á hundahaldi og skammtímaheimsóknum. Enginn hundur sé haldinn í húsinu og því hafi ekki verið óskað eftir leyfi til hundahalds. Ákvæði samþykktar nr. 478/2012 um hundahald í Reykjavík eigi því ekki við. Vísist um sambærilegt álitaefni til úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. R-32/2008.

Ákvörðunarvald um skammtímaheimsóknir sé látið íbúðareigendum eftir í samræmi við lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Það stjórnvald sem hafi tekið ákvörðun og hafi nú breytt henni þannig að staðfest verði að hundur eigi ekki að koma í heimsóknir í húsið hafi ekki vald til þess að taka ákvörðun eða leysa ágreining milli íbúðareigenda fjölbýlishúsa sem varði skammtíma-heimsóknir hunda. Stjórnvaldið vinni eftir samþykktinni sem vísi um skammtímaheimsóknir til laga um fjöleignarhús, en skv. 80. gr. þeirra geti eigendur fjöleignarhúsa leitað til kærunefndar húsamála greini þá á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögunum. Ágreiningsefninu verði ekki skotið til annars stjórnvalds.

Íbúðareigendur hafi ekki sett reglur eða tekið ákvarðanir um almennt bann við skammtímaheimsóknum hunda og 7. gr. samþykktar nr. 478/2012 kveði ekki á um slíkt. Slík takmarkandi kvöð á hagnýtingu séreignar standist hvorki lög né stjórnarskrá. Almennt bann húsfélags við því að gestkomandi einstaklingar mæti með hund í heimsókn til íbúðareiganda, sem samþykki hund í eigin íbúð, verði að hafa skýra lagaheimild, enda væri annað andstætt eignarétti íbúðareigandans sem og rétti hans til friðhelgis heimilis og einkalífs. Löggjafinn kveði þannig á um það að skammtímaheimsóknir séu heimilar og verði að túlka það sem svo að mikið þurfi til að koma til þess að algert bann við slíkum heimsóknum verði samþykkt.

Við einfalda skoðun á samþykkt um hundahald í Reykjavík megi sjá að ákvörðunum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur megi skjóta til úrskurðar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Ekki þyki því ólíklegt að úrskurðarnefndin vísi þessu máli frá af þeirri ástæðu. Hundaeftirlitsmaður hafi ranglega vakið athygli kæranda á því að ákvörðun hans sé kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en ekki heilbrigðisnefndar.

Niðurstaða: Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laganna. Samkvæmt 59. gr. laganna, áður 25. gr., er sveitarfélögum heimilt að setja sér eigin samþykktir um ýmis atriði og í slíkar samþykktir er m.a. heimilt að setja ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds. Reykjavíkurborg hefur á þessum grundvelli sett samþykkt nr. 478/2012 um hundahald í Reykjavík og var vísað til hennar í hinni kærðu ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem lagt var fyrir kæranda að koma hundi fyrir á nýju heimili án tafar, eða a.m.k. innan sjö daga, svo ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða.

Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr. þeirra laga, eins og hún var þegar hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum, t.a.m. veitt áminningu, sbr. 1. tl., eða veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta, sbr. 2. tl. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda, dags. 19. júní 2019, þar sem farið er fram á að kærandi komi hundi fyrir á nýju heimili innan ákveðins tíma. Þrátt fyrir að ákveðinn frestur hafi verið gefinn verður ekki talið að í bréfinu felist lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynning þess efnis að léti kærandi ekki af tiltekinni háttsemi, sem heilbrigðiseftirlitið teldi óheimila skv. samþykkt nr. 478/2012, kæmi til álita að beita frekari aðgerðum. Verður að telja að þar hafi verið átt við þvingunarúrræði samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998, þótt til þess kafla væri ekki vísað. Var áskorun eftirlitsins ekki til þess fallin að skapa kæranda skyldur í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, enda skorti þá nauðsynlegu tilvísun til þess til hvaða aðgerða yrði að öðrum kosti gripið og á hvaða grundvelli, þannig að orðalagið fullnægði þeim kröfum sem gera verður til skýrleika ákvörðunar sem leiðir til niðurstöðu sem felur í sér ákveðnar skyldur. Fól bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda því einungis í sér ákveðið skref að slíkri stjórnvaldsákvörðun með því að upplýsa kæranda um réttarstöðu hans. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

115/2019 Þúfukot

Með

Árið 2020, föstudaginn 27. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 8. október 2019 um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4 Nýjakots, úr sumarhúsalóð í lóð undir íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. nóvember 2019, er barst nefndinni s.d., kærir Dap ehf., Litlu-Tungu, eigandi lögbýlisins Þúfukots í Kjósarhreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 8. október 2019 að samþykkja breytta notkun lóðarinnar Þúfukots 4 Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki krafðist kærandi stöðvunar framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 21. nóvember 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 11. febrúar 2020.

Málavextir: Hinn 29. ágúst 2019 tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps fyrir á fundi sínum beiðni þess efnis að notkun lóðarinnar Þúfukots 4 Nýjakots, lnr. 213977, úr landi Þúfukots yrði breytt úr frístundalóð í lóð undir íbúðarhús. Nefndin tók jákvætt í erindið og vísaði því til sveitar­stjórnar. Hreppsnefnd Kjósarhrepps staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 8. október 2019 með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði.

Málsrök kæranda: Að mati kæranda fól staðfesting hreppsnefndar á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar einungis í sér að jákvætt yrði tekið í erindi um að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4 úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð, en engin tillaga hefði legið fyrir frá skipulags- og byggingarnefnd um að breyta ætti landnotkun lóðarinnar. Ekki sé á færi skipulags- og byggingarnefndar að taka málið til fullnaðarafgreiðslu, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þá hafi hreppsnefnd í ákvörðun sinni sett ákveðna fyrirvara sem ekki hafi verið uppfylltir, ásamt því að upprunaleg umsókn hafi ekki komið frá báðum þinglýstum eigendum.

Lóðin sé á ódeiliskipulögðu svæði, en samkvæmt Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé hún á skilgreindu landbúnaðarlandi og uppfylli því ekki skilyrði þess að vera skilgreind sem íbúðarhúsalóð. Breytt landnotkun Þúfukots 4 hafi óhjákvæmilega áhrif á hagsmuni eiganda Þúfukots þar sem lóðin sé staðsett innan landamerkja Þúfukots. Þá hafi breytt landnotkun Þúfukots 4 óhjákvæmilega áhrif á notkun landsvæðis umhverfis lóðina þar sem hún sé staðsett í miðju uppræktuðu landbúnaðarlandi. Hin kærða ákvörðun feli að öllum líkindum í sér breytingu á aðalskipulagi. Meint breyting falli ekki undir það sem ákvæði skipulagslaga telji vera óverulega breytingu á skipulagi. Fordæmi séu fyrir því að í sambærilegum málum hafi verið leitað samþykkis landeigenda ef sótt hafi verið um samsvarandi breytingu á notkun lands. Þá liggi ekki fyrir hver áform eiganda Þúfukots 4 séu varðandi notkun lóðarinnar eða frekari skilmála.

Málsrök Kjósarhrepps: Af hálfu Kjósarhrepps er á það bent að þrátt fyrir hina kærðu ákvörðun sé réttarástand óbreytt hvað varði umrædda lóð, þar sem fyrirvarar þeir sem settir hafi verið hafi ekki verið uppfylltir. Á Kjósarhreppi hafi hvílt skylda til að taka afstöðu til erindis lóðarhafa á grundvelli málefnalegra og lögmætra sjónarmiða þar sem gætt væri meðalhófs og jafnræðis. Eigendur lóðarinnar Þúfukots 4 eigi rétt til þeirrar hagnýtingar á fasteign sinni sem hvorki lög né samningar banni eða takmarki. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé lóðin á skilgreindu landbúnaðarsvæði og þar með hvorki á svæði sem skilgreint sé sem íbúðarhúsa- né frístundahúsabyggð. Litið hafi verið svo á að unnt væri að fallast á að breyta skráðri landnotkun í fasteignaskrá úr sumarbústaðalandi í lóð undir íbúðarhús án þess að gera breytingar á aðalskipulagi og/eða deiliskipuleggja eina lóð. Nægjanlegt væri að afmörkuð væri og hnitsett lóð sem skipt hefði verið út úr Þúfukoti. Þúfukot 4 hafi undanfarin ár verið nýtt til fastrar búsetu og heilsársdvalar og hafi sveitarfélagið þjónustað þá eign með sambærilegum hætti og íbúðarhús í sveitarfélaginu, s.s. varðandi sorphirðu. Hvorki verði séð að leita hafi þurft sérstaks samþykkis kæranda fyrir breyttum landnotum né að kærandi hafi getað haft réttmætar væntingar til þess að notkun landspildunnar yrði óbreytt til framtíðar. Sú mögulega skerðing sem felist í hinni kærðu ákvörðun, komi hún til framkvæmda, sé innan þeirra marka sem fasteignaeigendur verði að þola í nábýli.

Niðurstaða: Í erindi eiganda Þúfukots 4 fólst beiðni um að breyta landnotkun lóðarinnar úr sumarhúsalóð í lóð undir íbúðarhús, en á lóðinni stendur hús sem mun hafa verið notað til heilsársdvalar um nokkurt skeið. Skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps tók jákvætt í erindið og vísaði síðan málinu til hreppsnefndar, sem afgreiddi það með svofelldri bókun: „Hreppsnefnd staðfestir afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 29. ágúst 2019 um að samþykkja að breyta landnotkun Þúfukots 4, Nýjakots lnr. 213977 úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur verði hnitsettur uppdráttur af spildunni og fyrir liggi staðfesting byggingarfulltrúa á að hús það sem á henni stendur uppfylli skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði.“

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í 2. mgr. 10. gr. laganna segir síðan að sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Umsókn um breytta notkun lóðarinnar Þúfukots 4 hefur ekki verið tekin fyrir og afgreidd af byggingarfulltrúa. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðar­nefndina. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

109/2019 Garðavegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. október 2019 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 12. nóvember 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kærir eigandi, Garðavegi 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. október 2019 um álagningu dagsekta á kæranda. Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 4. nóvember 2019.

Málavextir: Með bréfi, dags. 31. nóvember 2017, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að á eftirlitsferð um bæinn hefði byggingarfulltrúi tekið eftir að búið væri að gera stiga utanhúss á fasteign kæranda, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingarfulltrúa, en slík breyting væri háð byggingarleyfi.

Kærandi lagði inn byggingarleyfisumsókn, dags. 8. febrúar 2019, fyrir „úthlaup fyrir ris“ við nefnda fasteign. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. s.m., var kæranda tilkynnt niðurstaða afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 13. s.m. um synjun á umsókn hans. Þar var  vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 11. febrúar 2019, þar sem fram kom að umsókninni hefði fylgt teikning, sem sýndi neyðarstiga frá risi niður á fyrstu hæð umrædds húss, auk samþykkis eiganda Garðavegar 16. Samkvæmt teikningunni væri gert ráð fyrir tröppu frá svölum niður á „einhvers konar pall“ sem girtur væri af með skjólvegg. Hvorki kæmi fram í umsókninni að sótt væri um gerð pallsins né um breytingar á tröppum og stoðveggjum á lóðinni. Tekið var fram í umsögninni að byggingarreitur lóðar væri 9,0×10,0 m samkvæmt mæliblaði frá 1982 og færi því umrædd trappa út fyrir byggingarreit. Þá væri vísað til gr. 6.4.10. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, þar sem tekið væri fram að framstig útitrappa skuli eigi vera minna en 280 mm og uppstig skuli vera á bilinu 120 – 160 mm. Halli á tröppum fyrir almenna umferð utanhúss skuli almennt vera á bilinu 17° til 30°. Með hliðsjón af framangreindu komst byggingarfulltrúinn að þeirri niðurstöðu að synja bæri umsókn kæranda.

Í áðurgreindu bréfi byggingarfulltrúa frá 15. febrúar 2019 var vísað til þess að heimilt væri að kæra ákvörðun hans til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Liggur fyrir að kærandi kærði ekki ákvörðunina.

Umsókn kæranda var fylgt eftir með bréfum, dags. 12. og 22. mars 2018, og með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá bæjaryfirvöldum þar sem farið var fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður. Veittur var fjögurra vikna frestur til að bregðast við, annars yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 20. október s.á. Kom þar fram að enginn stigi væri við húsið en hann kannaðist við að áltröppur lægju á veröndinni.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann sé sakaður um að vera með ósamþykktan stiga utan á vesturhlið hússins. Þar sé þó enginn stigi og hafi aldrei verið en litlar áltröppur liggi þó á verönd kæranda. Jafnframt gagnrýnir kærandi að gerðar séu kröfur um hvíldarplan, uppstig og fram­stig á neyðarstigum. Að sjálfsögðu séu tveir útgangar úr tveimur aðskildum rýmum í risi.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Hafnarfjarðarbær vísar til þess að kæranda hafi verið gerð grein fyrir eðli málsins. Af gögnum málsins, bréfum og umsögn skipulagsfulltrúa megi vera ljóst að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Sveitarfélaginu hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingar­fulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi verði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að við­stöddum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Samkvæmt mannvirkjalögum nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunarúrræðum til þess að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis. Markmiðið að baki þeim þvingunarúrræðum er að hönnun, smíði og notkun mannvirkja uppfylli kröfur laga og reglugerða og að tilskilin leyfi hafi verið veitt af hálfu byggingaryfirvalda fyrir þeim. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að beita allt að 500.000 króna dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga, m.a. til að knýja fram úrbætur á mannvirki eða til að aflað verði lög­bundinna leyfa fyrir framkvæmdum. Við vettvangsskoðun kom í ljós að stigi hafði verið reistur að útgöngudyrum rishæðar húss kæranda að Garðavegi 18. Er sú framkvæmd byggingar­leyfisskyld skv. 9. gr. mannvirkjalaga og eru í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði sem tryggja eiga öryggi slíks mannvirkis, sbr. m.a. gr. 6.4.6. í reglugerðinni. Ekki hefur verið veitt byggingar­leyfi fyrir umræddum stiga og var byggingarfulltrúa því heimilt að gera kröfu um að hann yrði fjarlægður, eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum, svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt.

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að umdeildur stigi yrði fjarlægður yrði kærandi beittur dagsektum frá og með 12. nóvember 2019. Þeirri ákvörðun var ekki fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

129/2019 Egilsgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 129/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. desember 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt Egilsgötu 6 í Borgarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. desember 2019 að gefa út vottorð um lokaúttekt Egilsgötu 6 í Borgarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 18. febrúar 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur ítrekað lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi er eigandi Egilsgötu 4. Með úrskurði 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingar­fulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu, en leyfið fól í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Ákvörðun um að veita nýtt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6 var síðan felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 9. nóvember 2019 í kærumáli nr. 89/2016. Eigandi Egilsgötu 6 sótti að nýju um leyfi til breytinga á húsnæðinu og á fundi sveitarstjórnar 14. mars 2018 var samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umrædda leyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna framkvæmda að Egilsgötu 6, en í vottorðinu kom fram að verið væri að klæða og einangra útveggi hússins. Byggingarfulltrúi gaf svo út byggingarleyfi 2. apríl s.á. og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 12. desember 2019 gaf byggingarfulltrúi út að nýju lokaúttektarvottorð þar sem utanhúss framkvæmdum var þá lokið. Með úrskurði 23. janúar 2020, í kærumáli nr. 24/2019, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að grenndarkynning byggingarleyfisumsóknar fyrir breytingum að Egilsgötu 6 hafi ekki uppfyllt skilyrði laga. Útgefið byggingarleyfi frá 2. apríl 2019 og hönnunargögn uppfylli ekki heldur skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki eða byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Ekki hafi komið fram í greinargerð grenndarkynningar til hverra nota íbúðirnar ættu að vera, en fyrir liggi að byggingarfulltrúi og sveitarstjóri sveitar­félagsins hafi gefið sýslumanninum á Vesturlandi jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu í flokki II í þremur íbúðum á fyrstu hæð hússins. Ágallar á hönnun íbúðanna hafi aldrei gefið forsendur til lokaúttektar eða jákvæðra umsagna um gistiþjónustu.

—–

Leyfishafa og Borgarbyggð voru veitt tækifæri til að koma að athugasemdum í málinu en þessir aðilar kusu að nýta sér það ekki. Þó var tekið fram af hálfu Borgarbyggðar að litið væri svo á að ákvörðun um útgáfu lokavottorðs væri fallin niður þar sem byggingarleyfi það sem hin kærða lokaúttekt hafi verið byggð á hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Í IV. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki er fjallað um ábyrgð eiganda mannvirkis og tilhögun byggingar­eftirlits. Samkvæmt 15. gr. laganna ber eigandi m.a. ábyrgð á því að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða settra á grundvelli þeirra, en byggingar­stjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Mælt er fyrir um það í 3. mgr. 36. gr. laganna að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá segir í 6. mgr. ákvæðisins að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirkið uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert. Að framangreindum ákvæðum virtum er ljóst að útgáfa lokaúttektarvottorðs hefur fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda og byggingastjóra. Verður kærandi, sem er eigandi húss á aðliggjandi lóð, því ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af útgáfu lokaúttektarvottorðs á grundvelli mannvirkjalaga þótt steyptar tröppur tengi húsin saman. Þá er heldur ekki að sjá að fyrir hendu séu að öðru leyti þeir einstaklegu og verulegu hagsmunir sem eru skilyrði kæruaðildar skv. áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Að auki telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að þótt ekki liggi fyrir að hin kærða ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs hafi verið formlega afturkölluð af byggingarfulltrúa þá lítur sveitar­félagið svo á að hún sé fallin úr gildi þar sem byggingarleyfi það sem henni lá til grundvallar var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019. Mun eigandi Egilsgötu 6 og hafa verið upplýstur um þá afstöðu sveitarfélagsins.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

78/2019 Dalbraut, Eskifirði

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2019, kæra á ákvörðunum eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Langadal 4, Eskifirði, þá ákvarðanir eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Til vara er þess krafist að málið verði tekið til efnismeðferðar að nýju hjá eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 2. september 2019.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn Rarik ohf., dags. 31. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja 116 m² viðbyggingu við tengivirkishús fyrirtækisins að Dalbraut 4, Eskifirði. Jafnframt sótti Landsnet hf. 28. júní s.á. um byggingarleyfi fyrir 266 m² og 132 kílóvatta tengivirki á sömu lóð. Báðar umsóknirnar voru teknar fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 8. júlí 2019. Á fundinum var m.a. bókað að lögð hefði verið fram yfirlýsing Rarik um að ákveðið hefði verið í samráði við Landsnet að framkvæmd yrði hljóðmæling umhverfis mannvirkin og að ráðgjafi legði fram tillögur að úrbótum sem myndu stuðla að bættri hljóðvist umhverfis þau. Í ljósi yfirlýsingar Rarik samþykkti eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd byggingaráformin.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir samræmist ekki gildandi deiliskipulagi þar sem á deiliskipulagsuppdrætti komi einungis fram að um 33 kv/11 kv og 66 kv aðveitustöðvar sé að ræða, en ekki sé þar gert ráð fyrir 132 kv tengivirki. Lóðin að Dalbraut 4 sé skilgreind í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 sem þjónustulóð en hún liggi ein og sér að íbúðarhverfi og sé deiliskipulögð með því. Ekki verði annað séð en að þær framkvæmdir sem séu fyrirhugaðar séu það umfangsmiklar og geti valdið það miklum óþægindum fyrir íbúa húsa á aðliggjandi lóðum að þær brjóti í bága við stefnu Fjarðabyggðar á íbúðarsvæðum. Fyrirhuguð framkvæmd fari langt út fyrir stefnu aðalskipulags og sé í ósamræmi við deiliskipulagsuppdrátt. Áhrif stækkunar á umhverfi og samfélag hafi ekki verið nægilega könnuð, en vakin sé athygli á nauðsyn umfjöllunar um rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar. Jafnframt muni þetta koma til með að hafa neikvæð áhrif á virði fasteigna á svæðinu.

Málsrök Fjarðabyggðar: Bæjaryfirvöld benda á að Dalbraut 4 sé á svæði fyrir þjónustu­stofnanir og sé innan reits S1 samkvæmt Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027. Næst reitnum S1 sé íbúðarbyggð. Lýsing reitsins sé eftirfarandi í aðalskipulagi: „Aðveitustöð og spennistöð við Dalbraut.“ Þá séu skipulagsákvæði reitsins eftirfarandi: „Svigrúm fyrir breytingar á núverandi mannvirkjum og framkvæmdir sem falla að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki.“ Deiliskipulag Barðs 1 geri ráð fyrir aðveitustöð og þeim byggingum sem henni séu tengdar innan lóðar Dalbrautar 4. Á deiliskipulagsuppdrætti sé byggingarreitur staðsettur innan lóðar með almennum hætti. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við ákvæði greinargerðar deiliskipulags og ákvæði aðalskipulags. Í aðalskipulagi sé beinlínis vísað til þess að til staðar séu heimildir til breytinga á núverandi mannvirkjum og framkvæmdum sem falli að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki. Spennubreyting og uppbygging mannvirkja vegna þess feli ekki í sér breytingu á landnotkun sem verið hafi til staðar á lóðinni og gert sé ráð fyrir.

Eðli máls samkvæmt þurfi eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt að sæta því að verða fyrir einhverjum áhrifum af starfsemi sem heimiluð sé á nálægum lóðum. Niðurstöður mælinga á hljóði og rafsegulsviði gefi til kynna að áhrif af starfsemi í heimiluðum byggingum verði fyrst og fremst innan lóðarinnar Dalbrautar 4. Í öllu falli sé ljóst að einungis geti verið um að ræða óveruleg áhrif á lóð kæranda og þau áhrif yrðu langt innan þeirra marka sem íbúar í þéttbýli þurfi að sæta vegna starfsemi á nálægum lóðum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er á það bent að umræddar framkvæmdir séu nauðsynlegar fyrir aðgengi að raforku á Austfjörðum, íbúum og öðrum á svæðinu til hagsbóta. Annars vegar sé um að ræða viðbyggingu við tengivirkishús, sem feli í sér nauðsynlega uppbyggingu innviða á svæðinu, og hins vegar byggingu nýs tengivirkis. Að því er varði tilvísun kæranda til nauðsynjar á umfjöllun um „rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar“ sé bent á niðurstöðu mælinga Geislavarna ríkisins á segulsviði í og við sambærilegt tengivirki að Hnoðraholti í Kópavogi. Niðurstöður mælinga hafi verið vel innan viðmiðunarmarka reglugerðar nr. 1290/2015 um hámörk geislunar. Þá sé bent á skýrslu Verkís hvað varði hávaða en samkvæmt henni fari hávaði frá tengivirkinu aldrei yfir viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 100 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhuguð byggingaráform taka til og stendur hús á lóð sem er á milli fasteignar kæranda og umræddrar lóðar. Ekki verður séð að grenndarhagsmunir kæranda muni skerðast, svo sem vegna skuggavarps eða innsýnar, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Þegar litið er til staðhátta verður ekki séð að útsýni kæranda muni skerðast að neinu marki. Þá liggja fyrir upplýsingar í málinu sem gefa til kynna að áhrif rafsegulsviðs og hávaði frá umdeildum byggingum verði vel innan lögákveðinna viðmiðunarmarka.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

47/2019 Þórsmörk, Selfossi

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 5. mars kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 29. maí 2019 um að aðhafast ekki vegna erindis kæranda um skuggavarp á fasteign hans Þórsmörk 8, Selfossi, og synjun hans á að afhenda tiltekin gögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júní 2019, er barst nefndinni 14. s.m., kærir eigandi fasteignarinnar Þórsmerkur 8, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 29. maí 2019 að aðhafast ekki vegna erindis kæranda um skuggavarp á fasteign hans og synjun hans um afhendingu tiltekinna gagna. Gera kærendur þá kröfu að skipulags- og byggingarfulltrúi taki til efnislegrar skoðunar hvort skuggavarp á fasteignina Þórsmörk 8 sé meira en sýnt hafi verið fram á að yrði þegar deiliskipulag var kynnt. Jafnframt er þess krafist að umbeðin gögn verði afhent.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 12. júlí 2019.

Málavextir: Kærandi hafði samband við Sveitarfélagið Árborg í upphafi árs 2019 vegna skuggavarps af húsum þeim sem nýverið höfðu verið byggð á lóðinni Austurvegi 51-59, Selfossi. Kærandi fundaði með fulltrúum sveitarfélagsins 25. janúar s.á. þar sem farið var yfir málið og honum bent á að senda sjónarmið sín skriflega til sveitarfélagsins. Kærandi sendi sveitarfélaginu tölvupóst 22. febrúar og 4. mars s.á. með athugasemdum um framangreindar byggingarfram­kvæmdir ásamt ljósmyndum af skuggavarpi. Kærandi ítrekaði erindi sitt með tölvupósti 14. mars 2019 og var hann upplýstur með tölvupósti 15. s.m. um að erindi hans hefði verið tekið til skoðunar. Með bréfi, dags. 10. maí 2019, óskaði kærandi eftir eftirfarandi gögnum:

„1. Öll lóðarblöð fasteignanna Austurvegur 51-59 frá stofnun þeirra, þar sem fram kemur hæðarkóti bygginga á lóðunum.

2. Allar teikningar sem lagðar hafa verið fram, fram til 8. júní 2018, þar sem fram kemur gólfkóti hverrar hæðar. Fyrsta skóflustunga vegna bygginganna var tekin 10. febrúar 2017, en einu teikningarnar sem aðgengilegar eru vegna bygginganna eru stimplaðar 8. júní 2018. Þar sem ekki er heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en teikningar liggja fyrir er því óskað eftir þeim teikningum sem lágu fyrir við skóflustungu.

3. Teikningar vegna rýmis sem hýsir loftræstikerfi ofan á tengibyggingu við eldra húsnæði og hvenær þær teikningar voru fyrst lagðar fram.

4. Teikningar sem sýna sorpskýli sem staðsett er í dag norðan við fasteignina Austurvegur 51-59.“

Skipulags- og byggingarfulltrúi Árborgar sendi kæranda tölvupóst 29. maí 2019, þar sem fram kom að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar vegna erindis kæranda um skuggavarp. Vísað var til þess að byggingar á lóðinni væru í samræmi við deiliskipulag og að á athugasemda­fresti deiliskipulagstillögunnar hefðu ekki komið fram athugasemdir varðandi skuggavarp á lóðina Þórsmörk 8.

Erindi kæranda um aðgang að gögnum var svarað 10. júlí 2019. Í bréfinu var tekið fram að þegar kæranda hefði verið sent framangreint bréf 29. maí s.á. hefði úrvinnsluaðilum málsins ekki verið kunnugt um að hann hefði óskað eftir aðgangi að gögnum vegna þess.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að þegar vinna hafi hafist við byggingu Austurvegs 51-59 hafi kærandi heyrt að vegna hárrar grunnvatnsstöðu hafi botn bygginganna verið hækkaður og því standi þær hærra en gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi. Kærandi hafi orðið var við mun meiri skuggamyndun á fasteign sína en sýnt hafi verið á kynningarfundum um deiliskipulagið og því óskað eftir því með bréfi, dags. 10. maí 2019, að byggingarfulltrúi léti sér í té tiltekin gögn svo hann gæti áttað sig á því hvort mögulega hafi verið gengið á rétt hans. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi svarað erindi kæranda með bréfi, dags. 29. maí 2019. Hafi þar komið fram að hann teldi ekki tilefni til að aðhafast neitt vegna erindis um skuggavarp, þar sem ekki hefðu komið fram athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á athugasemdafresti hennar. Ekki hafi verið minnst á þau gögn sem óskað hafi verið eftir.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að umbeðin gögn hafi verið send kæranda 10. júlí 2019, en mistök hafi valdið því að erindið hafi ekki skilað sér fyrr til úrvinnsluaðila málsins. Beri því að vísa kröfu kæranda um afhendingu gagna frá nefndinni.

Rétt hafi verið staðið að afgreiðslu erindis kæranda um athugun á skuggavarpi. Farið hafi verið að öllum form- og efnisreglum sem sveitarfélaginu hafi borið að fara eftir við meðferð erindisins. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin í kjölfar heildstæðs mats á athugasemdum kæranda, þeim upplýsingum um skuggavarp sem sé að finna í deiliskipulagi fyrir lóðina Austurveg 51-59 og raunverulegu skuggavarpi á lóðina Þórsmörk 8 af byggingum þeim sem reistar hafi verið á framangreindri lóð.

Könnun skipulags- og byggingarfulltrúa hafi leitt í ljós að byggingar á lóðinni Austurvegi 51-59 séu í samræmi við deiliskipulag það sem í gildi sé fyrir lóðina og samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 11. maí 2016 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2016. Á skýringar­uppdrætti með deiliskipulaginu megi sjá að skuggavarp á lóðina Þórsmörk 8 nái inn á þá lóð, en ekki einungis að lóðarmörkum, líkt og kærandi haldi fram. Skipulags- og byggingarfulltrúi telji skuggavarp á lóðina Þórsmörk 8 ekki vera umfram það sem vænta hafi mátt miðað við þær upplýsingar sem fram komi í deiliskipulagi um lóðina að Austurvegi 51-59. Á athuga­semdafresti deiliskipu­lags­­tillögunnar hafi ekki komið fram athugasemdir varðandi skuggavarp á lóðina Þórsmörk 8. Í ljósi framanritaðs telji skipulags- og byggingarfulltrúi ekki tilefni til að bregðast frekar við erindi kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að þau gögn sem sveitarfélagið hafi sent honum séu ekki umbeðin gögn. Þar vanti enn teikningar sem hafi átt að liggja fyrir þegar fyrsta skóflustunga vegna byggingar á umræddri lóð hafi verið tekin.

Niðurstaða: Kærandi gerir kröfu um að tiltekin gögn verði afhent. Skilja verður kröfuna svo að kærð sé synjun stjórnvalds um aðgang að gögnum máls skv. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var hjá sveitarfélaginu við rekstur máls þessa fékk kærandi afhent hinn 10. júlí 2019 öll þau gögn sem þar lágu fyrir vegna málsins. Þau gögn sem kærandi telur að enn vanti séu ekki til. Eðli máls samkvæmt getur kærandi ekki fengið afhent gögn sem ekki eru fyrir hendi. Ber því að vísa kröfu kæranda um afhendingu gagna frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki liggur annað fyrir en að tiltæk gögn málsins hafi þegar verið afhent kæranda. Kæranda virðist hins vegar ekki hafa verið tilkynnt um að frekari umbeðin gögn væru ekki til hjá sveitarfélaginu.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa í mannvirkjalögum nr. 160/2010. Í 59. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grund­velli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Valdsvið úrskurðar­nefndar­innar nær því aðeins til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana nema sérstök lagaheimild sé til staðar til að úrskurða í málum vegna annarra ágreiningsmála, sbr. t.d. 4. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga.

Stjórnvaldsákvarðanir hafa verið skilgreindar sem ákvarðanir sem teknar séu í skjóli stjórnsýsluvalds og sé beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með þeim sé kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Þá er það yfirleitt einkennandi fyrir stjórnvaldsákvarðanir að þær eru teknar einhliða af stjórnvöldum og oftast skriflega. Í máli því sem hér er til meðferðar liggur ekki fyrir bindandi ákvörðun sem kveður á um rétt eða skyldur í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Athugun byggingarfulltrúa á skuggavarpi byggingar í tilefni af beiðni  kæranda þess efnis er liður í almennu eftirliti stjórnvalda og telst ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 59. gr. mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

22/2019 Vallargata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2019, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 31. janúar 2019 að eiganda beri að fjarlægja loftnet innan lóðarinnar Vallargötu 24 og afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2019 um að hafna stað­festingu á stjórnvaldsákvörðun 19. nóvember 2018 og beiðni um endurupptöku málsins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2019, er barst nefndinni 21. s.m., kærir eigandi, Vallargötu 24, Reykjanesbæ, „alla málsmeðferð og úrskurði skipulagsyfirvalda í Reykjanesbæ í þessu tiltekna máli“. Skilja verður kæruna á þann veg að kærð sé annars vegar sú ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 31. janúar 2019 að kæranda beri að fjarlægja loftnet innan lóðarinnar Vallargötu 24 og afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2019 um að hafna staðfestingu á stjórnvalds­ákvörðun frá 19. nóvember 2018 og synjun ráðsins á beiðni um endurupptöku málsins. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 29. apríl 2019.

Málavextir: Upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar kæranda til Reykjanesbæjar um uppsetningu loftnets á lóð hans frá ágústmánuði 2018. Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst s.m. Í bókun ráðsins kemur m.a. fram að kærandi hafi óskað eftir heimild til að setja upp loftnet á lóð sinni Vallargötu 24. Loftnetið sé á stöng, stagað og fimm til sjö metra hátt. Erindið var samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Niðurstaða umhverfis- og skipulagsráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar 21. ágúst 2018. Erindið var grenndarkynnt á tímabilinu frá 28. ágúst til 28. september 2018.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 2018, var kæranda tilkynnt niðurstaða fundar umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. október 2018 þar sem var bókað var að fern mótmæli hefðu borist sem öll lýstu neikvæðum áhrifum á ásýnd götunnar og hverfisins með svo stóru loftneti á lóð. Tekið var undir a fimm til sjö metra hátt stagað loftnet yrði hverfinu ekki til prýði og yrði áberandi í götunni. Erindinu var því hafnað. Bókunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar 16. október s.á. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2018, var kæranda hins vegar tilkynnt að grenndarkynningu væri lokið án athugasemda. Erindið væri því samþykkt. Með bréfi, dags. 29. janúar 2019, upplýsti skipulagsfulltrúi kæranda um leiðréttingu á téðu bréfi frá 19. nóvember 2018. Vísað var til leiðréttingarheimildar samkvæmt 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kom fram að rangt hefði verið farið með bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. október 2018. Mistökin hefðu orðið skipulagsfulltrúa ljós 10. janúar 2019 og hefði viðtakendum mátt verða strax um þau ljóst þar sem kærandi hefði þá verið upplýstur um bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. október 2018. Með ákvörðun skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar 2019, var kæranda síðan gert að fjarlægja loftnetið af lóð sinni. Vísað var til þess að nágrannar hefðu vakið athygli bæjaryfirvalda á því að loftnetið hefði verið sett upp í heimildarleysi. Hefði skipulagsfulltrúi farið á vettvang og staðfest að umræddar framkvæmdir hefðu átt sér stað. Bent var á heimild 54. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til beitingar dagsekta. Þá var vísað til kæruheimildar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála.

Með tölvupósti til umhverfis- og skipulagsráðs hinn 1. febrúar 2019 fór kærandi fram á að staðfest yrði stjórnvaldsákvörðun skipulagsfulltrúa frá 19. nóvember 2018 um heimild til upp­setningar loftnets. Til vara var farið fram á endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2019, var kæranda tilkynnt niðurstaða umhverfis- og skipulagsráðs, sem bókaði á fundi sínum 15. febrúar s.á. að erindi vegna uppsetningar loftnets hefði verið hafnað á fundi ráðsins 12. október 2018 og sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 16. október s.á. Staðfest væri að sú niðurstaða væri óbreytt. Þar sem framlögð gögn væru í samræmi við þau gögn sem ákvörðunin byggðist á væri ósk kæranda um endurupptöku hafnað. Fyrrgreind fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2019 var tekin til umfjöllunar á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. Sá liður fundargerðar ráðsins sem varðaði Vallargötu 24 var ekki tekin fyrir sem sérstakt mál á fundi bæjarstjórnar, en tekið var fram að fundargerðin væri „samþykkt að öðru leyti án umræðu 11–0“.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann kæri „í nokkrum liðum alla málsmeðferð og úrskurði skipulagsyfirvalda í Reykjanesbæ í þessu tiltekna máli“. Málið snúist um ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. febrúar 2019 og skort á leiðbeiningarskyldu stjórnvalds samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að rannsóknarregla og meðalhófsregla stjórnsýslulaga og góðir stjórnsýsluhættir hafi verið sniðgengnir af skipulagsyfirvöldum. Kærð sé sniðganga umhverfis- og skipulagsráðs vegna kröfu kæranda um endurupptöku á málinu á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið tekin rökstudd eða málefnaleg afstaða til endurupptöku málsins þó skilyrði 24. gr. væru uppfyllt.

Kærandi vísar til þess að sú grenndarkynning sem hafi farið fram hafi verið mjög illa unnin. Þar hafi verið settar fram rangar staðhæfingar um stærð loftnets og hafi kæranda verið ókunnugt um það hvernig stjórnvald kynnti uppsetninguna í grenndarkynningu.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra skal. Kæranda hafi mátt vera ljóst 14. nóvember 2018 að erindi hans til Reykjanesbæjar hefði verið hafnað og í allra síðasta lagi með bréfi skipulagsfulltrúa 31. janúar 2019. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kærandi hafi kært umþrættar ákvarðanir embættismanna Reykjanesbæjar.

Vandaðrar stjórnsýslu hafi verið gætt við meðferð málsins og sé fullyrðingum og ásökunum kæranda í garð embættismanna alfarið hafnað sem órökstuddum og ómálefnalegum. Mistök í bréfi, dags. 19. nóvember 2018, hafi verið leiðrétt við fyrsta tækifæri eftir að skipulagsfulltrúa hafi orðið ljóst að rangt bréf hefði verið póstlagt. Þá beri tölvupóstsamskipti skipulagsfulltrúa og kæranda með sér að honum hafi mátt vera ljóst þegar frá upphafi að efnislega rangt bréf hefði verið póstlagt, enda hefði hann þá þegar móttekið rétt bréf þar sem erindi hans hafi verið hafnað. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé stjórnvaldi heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í ákvörðunum sem hafi þegar verið birtar aðilum máls. Reykjanesbær telji að efnislega rangt bréf, sem sé í ósamræmi við rétta ákvörðun sem þegar hafi verið tilkynnt aðila máls, flokkist sem „bersýnileg villa“ í skilningi laganna. Þá liggi jafnframt fyrir að mistökin hafi verið leiðrétt símleiðis, í tölvupóstsamskiptum aðila og með formlegu bréfi.

Ákvörðun bæjaryfirvalda hafi verið tekin á grundvelli réttmætra sjónarmiða og hafi byggst á gögnum sem aflað hafi verið undir rekstri málsins. Framlögð gögn styðji þetta. Þá telji bæjar­yfirvöld að það falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þeirra fjölmörgu atriða sem nefnd séu í kröfugerð kæranda. Um sé að ræða vanreifaðar kröfur sem séu í engum tengslum við gögn málsins og gildandi lög og reglur.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun sem kæra skal. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda var tilkynnt ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 31. janúar 2019 um að fjarlægja bæri hið umþrætta loftnet með bréfi dagsettu sama dag. Í bréfinu var bent á að stjórnvalds­ákvarðanir og ágreiningsmál vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála væru kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 21. mars 2019. Í ljósi greinds annmarka á leiðbeiningum til kæranda verður þessum þætti málsins ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum þess að kæra hafi borist að kærufresti liðnum með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Hin kærða ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2019 barst innan lögmælts kærufrests.

Lög nr. 160/2010 um mannvirki gilda um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofan jarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, með þeim undantekningum sem koma fram í 2. mgr. ákvæðisins. Þá gilda lögin um alla þætti mannvirkja, svo sem fjarskiptabúnað og einnig um möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengi­virki. Er umdeilt loftnet því mannvirki sem fellur undir gildissvið laga nr. 160/2010 samkvæmt skýru orðalagi 1. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt lögum um mannvirki er eftirlit með mann­virkjagerð á hendi byggingar­fulltrúa, sem felst m.a. í veitingu byggingarleyfis vegna byggingar­leyfisskyldra framkvæmda samkvæmt 9. gr. laganna. Í 2. mgr. 55. gr. þeirra er mælt fyrir um heimild byggingarfulltrúa til að krefjast þess að ólöglegt mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægður ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða brjóti í bága við skipulag. Er hin kærða ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 31. janúar 2019, um að loftnet kæranda verði fjarlægt, samkvæmt framansögðu ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi.

Umhverfis- og skipulagsráð tók fyrir erindi kæranda frá 1. febrúar 2019 um staðfestingu á tilkynntri heimild til uppsetningar loftnets á lóð hans eða endurupptöku málsins á fundi sínum 15. febrúar 2019. Í bókun ráðsins kom m.a. fram að „erindi vegna uppsetningu loftnets var hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 12.10.2018 og staðfest á fundi bæjarstjórnar dags 16.10.2018. Staðfest er að sú niðurstaða er óbreytt. Þar sem framlögð gögn eru í samræmi við þau gögn sem ákvörðun byggðist á er ósk um endurupptöku hafnað.“

Sveitarstjórnum er heimilt skv. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð, að ákveða í samþykkt um stjórn sveitar­félagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Í samþykkt nr. 622 frá 18. júní 2019 um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar er ekki að finna valdframsal til umhverfis- og skipulagsráðs, sem fjallað er um í 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Var því þörf á að bæjarstjórn tæki nefnt erindi kæranda til endanlegrar afgreiðslu. Áðurnefnd fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs var lögð fyrir bæjarstjórn 19. febrúar 2019, sem bókaði ekki sérstaklega afstöðu sína um þann lið sem varðaði erindi kæranda en samþykkti þá liði fundargerðarinnar í einu lagi sem ekki hafði verið bókað um í fundargerð bæjarstjórnar.

Í 41. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skuli lagðar fyrir byggðarráð eða sveitarstjórn eftir því hver háttur sé hafður á fullnaðar­afgreiðslu í viðkomandi málaflokki. Ef fundargerðir nefnda innihalda ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar byggðarráðs eða sveitarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti. Ef fundar­gerðir nefnda innihalda hins vegar ekki slíkar ályktanir eða tillögur er nægjanlegt að þær séu lagðar fram til kynningar. Er og tekið fram í athugasemdum með 41. gr. í því frumvarpi sem varð að sveitar­stjórnar­lögum að vönduð meðferð mála í stjórnsýslu sveitarfélaga eigi almennt að byggjast á því að bókað sé í fundargerðir um þau mál sem lögð séu fyrir fund, en ekki um þær fundargerðir sem þar séu lagðar fyrir. Þá er jafnframt mælt fyrir um það í 7. gr. auglýsingar nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 17. janúar s.á., að ályktanir eða samþykktir í fundargerðum nefnda sem þarfnist staðfestingar sveitar­stjórnar skuli færa sérstaklega í fundargerð. Með hliðsjón af framangreindu var afgreiðsla bæjarstjórnar ekki í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun um erindi kæranda frá 1. febrúar 2019 í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 31. janúar 2019 felld úr gildi en kærumáli þessu að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 31. janúar 2019 um að eiganda beri að fjarlægja loftnet innan lóðarinnar Vallargötu 24.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

76/2019 Grindavík gjaldskrá

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 27. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 76/2019, kæra á gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og á gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Efstahrauni 27, Grindavík, gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019. Er þess krafist að gjaldskrárnar verði felldar úr gildi og að samdar verði nýjar gjaldskrár sem standist 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 29. nóvember 2019.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi þriggja fasteigna í Grindavíkurbæ. Álagningarseðlar fasteignagjalda hjá sveitarfélaginu vegna fasteigna kæranda fyrir árið 2019 eru dagsettir 8. febrúar s.á. og var kæranda með þeim seðlum gert að greiða m.a. holræsagjald og vatnsgjald. Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 30. apríl s.á. var samþykkt ný gjaldskrá um vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019 og ný gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Tóku þær gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. maí s.á. Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 26. nóvember 2019 var samþykkt gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og tók hún gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 1. janúar 2020, en við gildistökuna féll gjaldskrá nr. 469/2019 úr gildi. Hinn 5. febrúar s.á. voru fasteignagjöld ársins 2020 lögð á fasteignir kæranda, þ. á m. holræsagjald og vatnsgjald.

Kærandi bendir á að skv. 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga skuli reikningar ekki nema hærri fjárhæð en sem nemi kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar. Á tæplega níu ára tímabili hafi 195.000.000 kr. tekjur verið færðar úr sjóðum vatns- og fráveitu til bæjarsjóðs. Tekjurnar hafi ekki lækkað skuldastöðu veitnanna og því séu reiknaðir himinháir vextir á neikvæðan höfuðstól sem ætti fyrir löngu að vera orðinn jákvæður. Ekki verði unað við ólöglega gjaldtöku sveitarfélagsins.

Af hálfu Grindavíkurbæjar er farið fram á frávísun málsins þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist úrskurðarnefndinni. Ef ekki verði fallist á frávísun sé farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Kæran byggist á misskilningi um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga, sem og rangtúlkun á ársreikningum vatns- og fráveitu sveitarfélagsins. Veiturnar séu reknar í samræmi við gildandi lög og reglur, þ.e. lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, reglugerð nr. 982/2010 um fráveitu sveitarfélaga,  lög nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga og reglugerð nr. 401/2005 um vatnsveitur sveitarfélaga. Tekjur veitnanna þurfi að standa undir öllum útgjöldum hennar. Sveitarfélagið hafi aldrei tekið arð af rekstri þeirra og sé fjármagnskostnaður eingöngu vegna lánsfjár. Árleg endurskoðun endurskoðenda bæjarins vegna starfsemi veitnanna hafi undantekningarlaust verið án athugasemda. Ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að gjaldskrár séu fjarri því að vera of háar og þyrftu í raun að vera hærri en þær séu, a.m.k. miðað við það þensluástand sem hafi verið undanfarið.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðra ákvarðana til endurskoðunar en tekur ekki nýjar ákvarðanir í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að samdar verði nýjar gjaldskrár. Þá sækir gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019 stoð sína í 10. gr. laga nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga en almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í þeim lögum. Ágreiningi vegna þeirrar gjaldskrár verður því ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar.

Gjaldskrár sem slíkar teljast ekki vera stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er hvorki að finna í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 né öðrum lagabálkum. Þá mæla fyrrnefnd lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna ekki fyrir um að heimilt sé að kæra gjaldskrár sem settar eru á grundvelli þeirra laga. Einstaklingar og lögaðilar hafa ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu gjaldskráa fyrr en álagning á grundvelli þeirra fer fram. Slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þegar mælt er svo fyrir um í lögum. Á það t.a.m. við um hina kærðu gjaldskrá nr. 469/2019 um fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ sem sett er með stoð í 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, en fram kemur í 22. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Líkt og greinir í málavöxtum tók gjaldskrá nr. 469/2019 ekki gildi fyrr en 21. maí s.á. en þá hafði álagning fasteignagjalda vegna ársins 2019 þegar átt sér stað. Gjaldskráin féll síðan úr gildi 1. janúar 2020 við gildistöku gjaldskrár nr. 1117/2019. Álagning á grundvelli hinnar kærðu gjaldskrár fór því aldrei fram og liggur því ekki fyrir álagning á grundvelli hennar sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hinar kærðu gjaldskrár til endurskoðunar, sbr. fyrrnefnda 1. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.