Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2019 Vallargata

Árið 2020, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2019, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 31. janúar 2019 að eiganda beri að fjarlægja loftnet innan lóðarinnar Vallargötu 24 og afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2019 um að hafna stað­festingu á stjórnvaldsákvörðun 19. nóvember 2018 og beiðni um endurupptöku málsins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2019, er barst nefndinni 21. s.m., kærir eigandi, Vallargötu 24, Reykjanesbæ, „alla málsmeðferð og úrskurði skipulagsyfirvalda í Reykjanesbæ í þessu tiltekna máli“. Skilja verður kæruna á þann veg að kærð sé annars vegar sú ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 31. janúar 2019 að kæranda beri að fjarlægja loftnet innan lóðarinnar Vallargötu 24 og afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2019 um að hafna staðfestingu á stjórnvalds­ákvörðun frá 19. nóvember 2018 og synjun ráðsins á beiðni um endurupptöku málsins. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 29. apríl 2019.

Málavextir: Upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar kæranda til Reykjanesbæjar um uppsetningu loftnets á lóð hans frá ágústmánuði 2018. Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. ágúst s.m. Í bókun ráðsins kemur m.a. fram að kærandi hafi óskað eftir heimild til að setja upp loftnet á lóð sinni Vallargötu 24. Loftnetið sé á stöng, stagað og fimm til sjö metra hátt. Erindið var samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Niðurstaða umhverfis- og skipulagsráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar 21. ágúst 2018. Erindið var grenndarkynnt á tímabilinu frá 28. ágúst til 28. september 2018.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 2018, var kæranda tilkynnt niðurstaða fundar umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. október 2018 þar sem var bókað var að fern mótmæli hefðu borist sem öll lýstu neikvæðum áhrifum á ásýnd götunnar og hverfisins með svo stóru loftneti á lóð. Tekið var undir a fimm til sjö metra hátt stagað loftnet yrði hverfinu ekki til prýði og yrði áberandi í götunni. Erindinu var því hafnað. Bókunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar 16. október s.á. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2018, var kæranda hins vegar tilkynnt að grenndarkynningu væri lokið án athugasemda. Erindið væri því samþykkt. Með bréfi, dags. 29. janúar 2019, upplýsti skipulagsfulltrúi kæranda um leiðréttingu á téðu bréfi frá 19. nóvember 2018. Vísað var til leiðréttingarheimildar samkvæmt 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kom fram að rangt hefði verið farið með bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. október 2018. Mistökin hefðu orðið skipulagsfulltrúa ljós 10. janúar 2019 og hefði viðtakendum mátt verða strax um þau ljóst þar sem kærandi hefði þá verið upplýstur um bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. október 2018. Með ákvörðun skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar 2019, var kæranda síðan gert að fjarlægja loftnetið af lóð sinni. Vísað var til þess að nágrannar hefðu vakið athygli bæjaryfirvalda á því að loftnetið hefði verið sett upp í heimildarleysi. Hefði skipulagsfulltrúi farið á vettvang og staðfest að umræddar framkvæmdir hefðu átt sér stað. Bent var á heimild 54. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til beitingar dagsekta. Þá var vísað til kæruheimildar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála.

Með tölvupósti til umhverfis- og skipulagsráðs hinn 1. febrúar 2019 fór kærandi fram á að staðfest yrði stjórnvaldsákvörðun skipulagsfulltrúa frá 19. nóvember 2018 um heimild til upp­setningar loftnets. Til vara var farið fram á endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2019, var kæranda tilkynnt niðurstaða umhverfis- og skipulagsráðs, sem bókaði á fundi sínum 15. febrúar s.á. að erindi vegna uppsetningar loftnets hefði verið hafnað á fundi ráðsins 12. október 2018 og sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 16. október s.á. Staðfest væri að sú niðurstaða væri óbreytt. Þar sem framlögð gögn væru í samræmi við þau gögn sem ákvörðunin byggðist á væri ósk kæranda um endurupptöku hafnað. Fyrrgreind fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2019 var tekin til umfjöllunar á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. Sá liður fundargerðar ráðsins sem varðaði Vallargötu 24 var ekki tekin fyrir sem sérstakt mál á fundi bæjarstjórnar, en tekið var fram að fundargerðin væri „samþykkt að öðru leyti án umræðu 11–0“.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann kæri „í nokkrum liðum alla málsmeðferð og úrskurði skipulagsyfirvalda í Reykjanesbæ í þessu tiltekna máli“. Málið snúist um ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. febrúar 2019 og skort á leiðbeiningarskyldu stjórnvalds samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að rannsóknarregla og meðalhófsregla stjórnsýslulaga og góðir stjórnsýsluhættir hafi verið sniðgengnir af skipulagsyfirvöldum. Kærð sé sniðganga umhverfis- og skipulagsráðs vegna kröfu kæranda um endurupptöku á málinu á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið tekin rökstudd eða málefnaleg afstaða til endurupptöku málsins þó skilyrði 24. gr. væru uppfyllt.

Kærandi vísar til þess að sú grenndarkynning sem hafi farið fram hafi verið mjög illa unnin. Þar hafi verið settar fram rangar staðhæfingar um stærð loftnets og hafi kæranda verið ókunnugt um það hvernig stjórnvald kynnti uppsetninguna í grenndarkynningu.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra skal. Kæranda hafi mátt vera ljóst 14. nóvember 2018 að erindi hans til Reykjanesbæjar hefði verið hafnað og í allra síðasta lagi með bréfi skipulagsfulltrúa 31. janúar 2019. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kærandi hafi kært umþrættar ákvarðanir embættismanna Reykjanesbæjar.

Vandaðrar stjórnsýslu hafi verið gætt við meðferð málsins og sé fullyrðingum og ásökunum kæranda í garð embættismanna alfarið hafnað sem órökstuddum og ómálefnalegum. Mistök í bréfi, dags. 19. nóvember 2018, hafi verið leiðrétt við fyrsta tækifæri eftir að skipulagsfulltrúa hafi orðið ljóst að rangt bréf hefði verið póstlagt. Þá beri tölvupóstsamskipti skipulagsfulltrúa og kæranda með sér að honum hafi mátt vera ljóst þegar frá upphafi að efnislega rangt bréf hefði verið póstlagt, enda hefði hann þá þegar móttekið rétt bréf þar sem erindi hans hafi verið hafnað. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé stjórnvaldi heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í ákvörðunum sem hafi þegar verið birtar aðilum máls. Reykjanesbær telji að efnislega rangt bréf, sem sé í ósamræmi við rétta ákvörðun sem þegar hafi verið tilkynnt aðila máls, flokkist sem „bersýnileg villa“ í skilningi laganna. Þá liggi jafnframt fyrir að mistökin hafi verið leiðrétt símleiðis, í tölvupóstsamskiptum aðila og með formlegu bréfi.

Ákvörðun bæjaryfirvalda hafi verið tekin á grundvelli réttmætra sjónarmiða og hafi byggst á gögnum sem aflað hafi verið undir rekstri málsins. Framlögð gögn styðji þetta. Þá telji bæjar­yfirvöld að það falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þeirra fjölmörgu atriða sem nefnd séu í kröfugerð kæranda. Um sé að ræða vanreifaðar kröfur sem séu í engum tengslum við gögn málsins og gildandi lög og reglur.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um þá ákvörðun sem kæra skal. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að taka hana til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda var tilkynnt ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 31. janúar 2019 um að fjarlægja bæri hið umþrætta loftnet með bréfi dagsettu sama dag. Í bréfinu var bent á að stjórnvalds­ákvarðanir og ágreiningsmál vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála væru kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest, svo sem mælt er fyrir um í 2. tl. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 21. mars 2019. Í ljósi greinds annmarka á leiðbeiningum til kæranda verður þessum þætti málsins ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum þess að kæra hafi borist að kærufresti liðnum með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Hin kærða ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. febrúar 2019 barst innan lögmælts kærufrests.

Lög nr. 160/2010 um mannvirki gilda um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofan jarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, með þeim undantekningum sem koma fram í 2. mgr. ákvæðisins. Þá gilda lögin um alla þætti mannvirkja, svo sem fjarskiptabúnað og einnig um möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengi­virki. Er umdeilt loftnet því mannvirki sem fellur undir gildissvið laga nr. 160/2010 samkvæmt skýru orðalagi 1. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt lögum um mannvirki er eftirlit með mann­virkjagerð á hendi byggingar­fulltrúa, sem felst m.a. í veitingu byggingarleyfis vegna byggingar­leyfisskyldra framkvæmda samkvæmt 9. gr. laganna. Í 2. mgr. 55. gr. þeirra er mælt fyrir um heimild byggingarfulltrúa til að krefjast þess að ólöglegt mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægður ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða brjóti í bága við skipulag. Er hin kærða ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 31. janúar 2019, um að loftnet kæranda verði fjarlægt, samkvæmt framansögðu ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi.

Umhverfis- og skipulagsráð tók fyrir erindi kæranda frá 1. febrúar 2019 um staðfestingu á tilkynntri heimild til uppsetningar loftnets á lóð hans eða endurupptöku málsins á fundi sínum 15. febrúar 2019. Í bókun ráðsins kom m.a. fram að „erindi vegna uppsetningu loftnets var hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 12.10.2018 og staðfest á fundi bæjarstjórnar dags 16.10.2018. Staðfest er að sú niðurstaða er óbreytt. Þar sem framlögð gögn eru í samræmi við þau gögn sem ákvörðun byggðist á er ósk um endurupptöku hafnað.“

Sveitarstjórnum er heimilt skv. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð, að ákveða í samþykkt um stjórn sveitar­félagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Í samþykkt nr. 622 frá 18. júní 2019 um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar er ekki að finna valdframsal til umhverfis- og skipulagsráðs, sem fjallað er um í 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Var því þörf á að bæjarstjórn tæki nefnt erindi kæranda til endanlegrar afgreiðslu. Áðurnefnd fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs var lögð fyrir bæjarstjórn 19. febrúar 2019, sem bókaði ekki sérstaklega afstöðu sína um þann lið sem varðaði erindi kæranda en samþykkti þá liði fundargerðarinnar í einu lagi sem ekki hafði verið bókað um í fundargerð bæjarstjórnar.

Í 41. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skuli lagðar fyrir byggðarráð eða sveitarstjórn eftir því hver háttur sé hafður á fullnaðar­afgreiðslu í viðkomandi málaflokki. Ef fundargerðir nefnda innihalda ályktanir eða tillögur sem þarfnast staðfestingar byggðarráðs eða sveitarstjórnar ber að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti. Ef fundar­gerðir nefnda innihalda hins vegar ekki slíkar ályktanir eða tillögur er nægjanlegt að þær séu lagðar fram til kynningar. Er og tekið fram í athugasemdum með 41. gr. í því frumvarpi sem varð að sveitar­stjórnar­lögum að vönduð meðferð mála í stjórnsýslu sveitarfélaga eigi almennt að byggjast á því að bókað sé í fundargerðir um þau mál sem lögð séu fyrir fund, en ekki um þær fundargerðir sem þar séu lagðar fyrir. Þá er jafnframt mælt fyrir um það í 7. gr. auglýsingar nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 17. janúar s.á., að ályktanir eða samþykktir í fundargerðum nefnda sem þarfnist staðfestingar sveitar­stjórnar skuli færa sérstaklega í fundargerð. Með hliðsjón af framangreindu var afgreiðsla bæjarstjórnar ekki í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga og liggur því ekki fyrir lokaákvörðun um erindi kæranda frá 1. febrúar 2019 í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 31. janúar 2019 felld úr gildi en kærumáli þessu að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar frá 31. janúar 2019 um að eiganda beri að fjarlægja loftnet innan lóðarinnar Vallargötu 24.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.