Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2019 Grindavík gjaldskrá

Árið 2020, fimmtudaginn 27. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 76/2019, kæra á gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og á gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Efstahrauni 27, Grindavík, gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019. Er þess krafist að gjaldskrárnar verði felldar úr gildi og að samdar verði nýjar gjaldskrár sem standist 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 29. nóvember 2019.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi þriggja fasteigna í Grindavíkurbæ. Álagningarseðlar fasteignagjalda hjá sveitarfélaginu vegna fasteigna kæranda fyrir árið 2019 eru dagsettir 8. febrúar s.á. og var kæranda með þeim seðlum gert að greiða m.a. holræsagjald og vatnsgjald. Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 30. apríl s.á. var samþykkt ný gjaldskrá um vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019 og ný gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Tóku þær gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. maí s.á. Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 26. nóvember 2019 var samþykkt gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og tók hún gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 1. janúar 2020, en við gildistökuna féll gjaldskrá nr. 469/2019 úr gildi. Hinn 5. febrúar s.á. voru fasteignagjöld ársins 2020 lögð á fasteignir kæranda, þ. á m. holræsagjald og vatnsgjald.

Kærandi bendir á að skv. 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga skuli reikningar ekki nema hærri fjárhæð en sem nemi kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar. Á tæplega níu ára tímabili hafi 195.000.000 kr. tekjur verið færðar úr sjóðum vatns- og fráveitu til bæjarsjóðs. Tekjurnar hafi ekki lækkað skuldastöðu veitnanna og því séu reiknaðir himinháir vextir á neikvæðan höfuðstól sem ætti fyrir löngu að vera orðinn jákvæður. Ekki verði unað við ólöglega gjaldtöku sveitarfélagsins.

Af hálfu Grindavíkurbæjar er farið fram á frávísun málsins þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist úrskurðarnefndinni. Ef ekki verði fallist á frávísun sé farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Kæran byggist á misskilningi um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga, sem og rangtúlkun á ársreikningum vatns- og fráveitu sveitarfélagsins. Veiturnar séu reknar í samræmi við gildandi lög og reglur, þ.e. lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, reglugerð nr. 982/2010 um fráveitu sveitarfélaga,  lög nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga og reglugerð nr. 401/2005 um vatnsveitur sveitarfélaga. Tekjur veitnanna þurfi að standa undir öllum útgjöldum hennar. Sveitarfélagið hafi aldrei tekið arð af rekstri þeirra og sé fjármagnskostnaður eingöngu vegna lánsfjár. Árleg endurskoðun endurskoðenda bæjarins vegna starfsemi veitnanna hafi undantekningarlaust verið án athugasemda. Ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að gjaldskrár séu fjarri því að vera of háar og þyrftu í raun að vera hærri en þær séu, a.m.k. miðað við það þensluástand sem hafi verið undanfarið.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðra ákvarðana til endurskoðunar en tekur ekki nýjar ákvarðanir í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að samdar verði nýjar gjaldskrár. Þá sækir gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019 stoð sína í 10. gr. laga nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga en almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í þeim lögum. Ágreiningi vegna þeirrar gjaldskrár verður því ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar.

Gjaldskrár sem slíkar teljast ekki vera stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er hvorki að finna í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 né öðrum lagabálkum. Þá mæla fyrrnefnd lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna ekki fyrir um að heimilt sé að kæra gjaldskrár sem settar eru á grundvelli þeirra laga. Einstaklingar og lögaðilar hafa ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu gjaldskráa fyrr en álagning á grundvelli þeirra fer fram. Slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þegar mælt er svo fyrir um í lögum. Á það t.a.m. við um hina kærðu gjaldskrá nr. 469/2019 um fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ sem sett er með stoð í 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, en fram kemur í 22. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Líkt og greinir í málavöxtum tók gjaldskrá nr. 469/2019 ekki gildi fyrr en 21. maí s.á. en þá hafði álagning fasteignagjalda vegna ársins 2019 þegar átt sér stað. Gjaldskráin féll síðan úr gildi 1. janúar 2020 við gildistöku gjaldskrár nr. 1117/2019. Álagning á grundvelli hinnar kærðu gjaldskrár fór því aldrei fram og liggur því ekki fyrir álagning á grundvelli hennar sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hinar kærðu gjaldskrár til endurskoðunar, sbr. fyrrnefnda 1. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.