Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

130/2020 Kerhraun

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 130/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. nóvember 2020 um að synja beiðni um breytingu Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarhúss að Kerhrauni C 103/104, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. nóvember 2020 að synja beiðni um breytingu aðalskipulags sveitarfélagsins vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarstjórn að taka nýja ákvörðun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps 22. apríl 2020 var tekin fyrir beiðni kæranda um að skráning á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhraun C 103/104 yrði breytt í íbúðarhús. Var umsókninni synjað með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð í landi Klausturhóla samkvæmt deiliskipulagi. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. maí 2020, sem með úrskurði uppkveðnum 14. ágúst s.á. í máli nr. 33/2020 hafnaði ógildingarkröfu kæranda. Hinn 28. október 2020 sótti kærandi um breytingu á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 vegna lóðarinnar Kerhraun C 103/104. Var með umsókninni óskað eftir því að skipulagi lóðarinnar yrði breytt úr frístundalóð í landbúnaðarsvæði. Á fundi skipulagsnefndar 11. nóvember s.á. var erindi kæranda tekið fyrir og lagt fyrir sveitarstjórn að hafna beiðninni. Hinn 18. s.m. var umsókn kæranda hafnað á fundi sveitarstjórnar með vísan til þess að lóðin væri staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipulagða frístundabyggð. Væru engar forsendur fyrir því að skilgreina staka lóð sem landbúnaðarland.

Kærandi bendir á að umsóknin varði óverulega breytingu á aðalskipulagi, auk þess sem hún sé í samræmi við fyrri breytingar sveitarfélagsins í sambærilegum málum. Það sé ómálefnalegt að mismuna kæranda með þessum hætti og ekki í samræmi við 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sveitarfélagið bendir á að í 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingar á aðalskipulagi séu háðar samþykki sveitarstjórnar og samþykki Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun feli í sér synjun á umsókn um breytingu aðalskipulags en samkvæmt skýrum ákvæðum skipulagslaga hafi úrskurðarnefndin ekki valdheimildir til að endurskoða slíka ákvörðun. Því beri að vísa málinu frá nefndinni. Til vara er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Að baki ákvörðuninni séu bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér synjun á beiðni um breytingu Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

120/2020 Neðan Sogsvegar

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 120/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 um að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Neðan-Sogsvegar 4, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps 14. október 2020 var tekin fyrir athugasemd lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A varðandi breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots. Gerð var athugasemd við að byggingarreitur innan lóðar nr. 4 nái yfir svæði sem standi töluvert hærra en bústaður á lóð nr. 4A. Bygging þar geti verið veruleg ógnun við friðhelgi þeirra auk þess að vera sjónmengun. Var óskað eftir því að viðkomandi deiliskipulagsbreyting yrði felld úr gildi og nýtt deiliskipulag unnið sem tæki tillit til athugasemda varðandi byggingarreit. Lagði skipulagsnefnd til að óveruleg breyting yrði unnin á deiliskipulagi og byggingarreitur lóðar nr. 4 minnkaður. Á fundi sveitarstjórnar 21. október 2020 var samþykkt að gera óverulega breytingu á deiliskipulaginu. Var skipulagsfulltrúa falið að ljúka málinu á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skyldi niðurstaða sveitarstjórnar og skipulagsbreytinga grenndarkynnt lóðarhafa lóðar nr. 4 og honum gefinn kostur á andmælum.

Kærandi telur að óviðkomandi aðilar séu að ganga freklega á eignarrétt hans að ástæðulausu. Erfiðara verði að skipta upp lóðinni í tvær aðskildar lóðir. Verði settar hömlur á byggingarreitinn rýri það verðgildi eignarinnar umtalsvert. Skipulagsnefnd hafi farið fram úr sínum valdheimildum með því að samþykkja athugasemdir lóðarhafa lóðar nr. 4A án röksemda. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að byggja á umdeildu svæði. Það svæði sem standi hærra en húsið á lóð nr. 4A sé hóll og því óheppilegt sem byggingasvæði. Lóðarhafar þeirrar lóðar hafi ekki rétt á að krefjast skerðingar á byggingarreitnum.

Sveitarfélagið bendir á að deiliskipulagsbreyting vegna breyttrar legu byggingarreits hafi ekki verið kláruð þar sem ákveðið hafi verið að bíða með grenndarkynningu þar til niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála lægi fyrir. Hin kærða ákvörðun hafi því ekki tekið gildi og enn eigi eftir að grenndarkynna fyrirhugaðar breytingar skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Því verði ekki séð að um kæranlega ákvörðun sé að ræða, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar frá 21. október 2020, um að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4, er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur liður í málsmeðferð deiliskipulagsbreytingar. Ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður henni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagsbreytingin og öll málsmeðferð hennar lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

62/2020 Garðarsbraut, Húsavík

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 21. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2020, kæra vegna synjunar byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 á endurskoðun og endurgreiðslu sorphirðugjalda sem lögð voru á vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2020, er barst nefndinni 15. s.m., kærir Bjarkarkot ehf. þá ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 að synja um „endurgreiðslu og niðurfellingu sorphirðugjalda“ sem lögð voru á kæranda vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 23. ágúst 2020 og 30. nóvember s.á.

Málavextir: Hinn 13. maí 2020 sendi kærandi sveitarstjóra Norðurþings bréf þar sem þess var óskað að álagning sorphirðugjalds vegna eignar hans Garðarsbrautar 12, fastanúmer 215-2556, 228-6800 og 228-6801, yrði endurskoðuð og gjaldið endurgreitt fyrir tímabilið 1. mars 2018 til og með 1. maí 2020. Mun kærandi starfrækja gistiþjónustu í húsnæðinu.

Á fundi byggðarráðs Norðurþings 11. júní 2020 var erindi kæranda tekið fyrir og eftirfarandi bókað: „Byggðarráð felur sveitarstjóra að taka saman minnisblað og leggja fyrir ráðið að viku liðinni. Sveitarstjóra er falið að svara erindunum og tjá íbúðareigendum að sveitarfélagið sjái sér ekki fært að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda.“ Með tölvupósti 16. s.m. var kæranda tilkynnt niðurstaða málsins og var vísað til þess að samkvæmt lögum, reglugerðum og samþykktum væru lögð gjöld á alla íbúðareigendur í Norðurþingi, þar með talin sorphirðugjöld, enda væri húsnæðið skráð sem íbúðarhúsnæði. Væri hins vegar tilefni til þess að eign yrði skráð sem atvinnuhúsnæði breyttust álögð gjöld til samræmis við lög, reglugerðir og samþykktir þannig að sorphirðugjöld væru ekki innheimt og þar með á ábyrgð eiganda húsnæðisins að kaupa slíka þjónustu. Var jafnframt tekið fram að óskaði eigandi Garðarsbrautar 12 eftir því að fasteignin yrði skráð sem atvinnuhúsnæði og fengi þar með felld niður sorphirðugjöld á vegum sveitarfélagsins væri sjálfsagt að verða við þeirri beiðni og skyldi hún berast skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings á tiltekið netfang.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi eignast húsnæðið að Garðarsbraut 12 í upphafi árs 2018 og hafi ætlunin verið að gera upp íbúðirnar og leigja út til ferðamanna í skammtímaleigu. Hafi Norðurþing bent kæranda á að heppilegast væri að skrá húsnæðið sem íbúðarhúsnæði þar sem auðveldara væri að selja íbúðirnar í sitthvoru lagi og að hver íbúð hefði sitt fastanúmer. Fljótlega eftir að kærandi hafi komið að rekstri húsnæðisins hafi honum orðið það ljóst að sorpmálum væri mjög ábótavant. Sorpílátum hafi verið illa sinnt. Þau hafi verið losuð sjaldan og gjarnan innsigluð þar sem ekki hafi verið hægt að fylgjast með réttri flokkun. Til að koma í veg fyrir áframhaldandi sóðaskap og óþægindi hefði verið óskað eftir því að sveitarfélagið fjarlægði sorpílátin þar sem tíðni losunar og stærð ílátanna hentaði ekki þeirri starfsemi sem væri í húsnæðinu. Sveitarfélagið hefði fjarlægt sorpílátin, eins og óskað hefði verið eftir, og hætt allri þjónustu við húsnæðið. Hefði kæranda ekki verið bent á að bærinn gæti komið til móts við þarfir eigenda í sorphirðumálum og hefði kærandi ekki haft vitneskju um slíkt. Hann hefði því óskað eftir því að Íslenska gámafélagið (ÍGF), sem sjái um sorphirðu fyrir sveitarfélagið, útvegaði stórt sorpílát og tæki að sér losun þess eftir pöntunum. ÍGF hafi verið greitt fyrir leigu á sorpíláti og losun á sorpi síðan í mars árið 2018. Í maí 2020 hafi kæranda þótt kostnaður við sorphirðu orðinn óvenju hár og við nánari skoðun hefði komið í ljós að sveitarfélagið hefði innheimt gjöld fyrir sorphirðuþjónustu allt frá því að óskað hefði verið eftir því við sveitarfélagið að þjónustu við Garðarsbraut 12 yrði hætt, sem það hefði og gert.

Hinn 13. maí 2020 hefði kærandi sent sveitarfélaginu formlegt bréf þar sem þess hefði verið óskað að sorphirðugjöld fyrir fasteignir með fastanúmerin 215-2556, 228-6800 og 228-6801 yrðu endurgreidd yfir tiltekið tímabil og þau felld niður í kjölfarið þar sem kostnaður sveitarfélagsins vegna þjónustu við sorphirðu vegna húsnæðisins væri enginn. Hefði beiðnin verið tekin fyrir á fundi byggðarráðs Norðurþings hinn 11. júní 2020 og henni hafnað.

Í 1. gr. gjaldskrár Norðurþings um meðhöndlun og förgun sorps árið 2020 sé tilgreind upphæð árlegs þjónustugjalds vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í Norðurþingi til þess að standa undir kostnaði við sorphirðu. Í 3. gr. gjaldskrárinnar segi að gjöld fyrir meðhöndlun og urðun úrgangs skuli innheimt með fasteignagjöldum. Í 8. gr. samþykktar nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í Norðurþingi frá 3. júlí 2017 komi fram að sveitarstjórn sé heimilt að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar að setja gjaldskrá og innheimta sorphirðugjöld til að standa straum af öllum kostnaði við sorphirðu. Þar komi einnig fram að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði fyrir veitta þjónustu. Jafnframt segi í ákvæðinu að gjöld miðist við stærð og fjölda íláta, magn úrgangs og tíðni sorphirðu.

Í máli þessu sé tekist á um hvort þjónustugjöldum við sorphirðu samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins sé beitt eins og um fasteignaskatt sé að ræða. Sorphirðugjöld vegna Garðarsbrautar séu sannanlega hærri en sem nemi rekstrarkostnaði sveitarfélagsins við þjónustuna, auk þess sem gjöldin séu augljóslega ekki miðuð við stærð, fjölda, magn úrgangs eða tíðni sorphirðu vegna eignarinnar. Engu máli skipti hvort húsnæðið sé skráð sem íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði þar sem kostnaður við þjónustuna hafi ekki lent á sveitarfélaginu. Sorphirðugjöldin séu ekki ætluð til annars en að standa undir rekstrarkostnaði við sorphirðu.

Verði að gera ríka kröfu á ríki og sveitarfélög um að þau sinni upplýsingagjöf og leiðbeiningaskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en sveitarfélaginu hefði verið í lófa lagið að benda á að sorphirðugjöld yrðu eftir sem áður innheimt vegna fasteignanna óháð því hvort kærandi þæði þjónustu af hálfu sveitarfélagsins eða ekki. Sveitarfélaginu beri að tryggja jafnræði á milli eigenda fasteigna og að einstaka aðilar greiði ekki hærri gjöld en sanngjarnt sé hverju sinni. Því beri að líta til meðalhófs við ákvarðanir sínar, taka mið af reglum varðandi sorphirðu og innheimta ekki þjónustugjöld fyrir þjónustu sem hafi ekki verið veitt í tvö og hálft ár.

Sveitarfélaginu sé ekki stætt á því að leggja gjöld á fyrirtækið vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna þess fyrir tímabilið 1. mars 2018 og út árið 2020 þar sem engin þjónusta hafi þá verið veitt og enginn kostnaður fallið á sveitarfélagið. Greitt hafi verið samviskusamlega fyrir losun á því sorpi sem fallið hafi til á tímabilinu. Ekki sé verið að reyna að komast hjá því að greiða fyrir losun og urðun á því sorpi sem til falli. Umrætt húsnæði sé skráð sem íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði. Öllum tilmælum sveitarfélagsins í þá veru að fyrirtækið breyti skráningu húsnæðisins í atvinnuhúsnæði, til þess eins að bæta sveitarfélaginu upp tekjumissi í gegnum þjónustugjöld við sorphirðu, sé alfarið hafnað.

Málsrök Norðurþings: Sveitarfélagið bendir á að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skuli sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélagi. Hafi sveitarfélagið á því tímabili sem hér um ræði byggt á samþykkt sinni nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu frá 3. júlí 2017, sem sæki lagastoð í framangreint ákvæði laga nr. 55/2003 og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Árlega hafi sveitarfélagið samþykkt gjaldskrá vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Gjaldskrá fyrir árið 2018 hafi verið samþykkt af sveitarstjórn 29. nóvember 2017, gjaldskrá fyrir árið 2019 hafi verið samþykkt 13. desember 2018 og gjaldskrá fyrir árið 2020 hinn 4. desember 2019. Í öllum tilvikum hafi gjaldskrárnar tekið gildi 1. janúar viðkomandi ár. Krafa kæranda nái til áranna 2018, 2019 og 2020. Kærandi hafi keypt þær þrjár íbúðir sem um ræði með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018. Fyrir vikið hafi álagningarseðill ársins 2018 verið sendur á fyrri eiganda en aðrir innheimtuseðlar á kæranda. Samkvæmt kaupsamningi skyldi gefa út afsal 15. febrúar 2018 og verði að leggja til grundvallar að eigi síðar en þá hafi kæranda verið kynntur álagningarseðill vegna fasteignagjalda. Afsali hafi ekki enn verið þinglýst. Kæranda hafi verið sendir álagningarseðlar vegna 2019 hinn 7. febrúar það ár og vegna 2020 hinn 10. febrúar það ár. Kærandi hafi hingað til greitt umrædda álagningu fasteignagjalda athugasemdalaust, eða allt þar til 14. maí 2020.

Kærandi geti ekki búið til nýjan kærufrest með því að krefjast endurgreiðslu á þegar greiddum sorphirðugjöldum. Kærufresturinn byrji að líða þegar gjöldin séu lögð á. Sé það í síðasta lagi þegar álagningarseðill vegna gjaldanna sé sendur til viðkomandi gjaldanda. Samkvæmt 2. mgr. 4. laga nr. 130/2011 hafi kærufrestur vegna sorphirðugjalda runnið út 10. mars 2018 vegna gjalda það ár, 9. mars 2019 vegna gjalda það ár og 11. mars 2020 vegna gjalda það ár. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi verið lögð fram 10. júlí 2020.

Í kæru komi kröfugerð ekki skýrt fram. Orðalagið í kæru verði ekki skilið öðruvísi en svo að það sé álagningin sem verið sé að kæra, en ekki synjun á endurgreiðslu. Þannig segi í upphafsorðum niðurstöðukafla kærunnar: „Norðurþingi er ekki stætt að leggja gjöld á Bjarkarkot ehf. vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna fyrirtækisins …“ Sé litið svo á að kröfugerðin lúti að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna endurgreiðslu, þá blasi við að yrði sú ákvörðun felld úr gildi þá breytti það engu um réttarástandið, álagningin stæði eftir sem áður. Kærandi hafi þannig ekki lögvarða hagsmuni af slíkri niðurstöðu sem væri í reynd ekkert annað en lögfræðileg álitsgerð.

Við ákvörðun gjaldskrár vegna þjónustugjalda sé sveitarfélögum veitt ákveðið svigrúm til að haga gjaldtökunni með almennum hætti og þurfi þau ekki að sýna fram á að gjaldið samsvari kostnaði gagnvart hverjum einstökum viðtakanda þjónustunnar. Sérstaklega komi fram í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Norðurþing hafi, eins og önnur sveitarfélög, valið þessa leið við gjaldtöku og ákvarðað samræmt gjald vegna meðhöndlunar úrgangs á allar íbúðir í sveitarfélaginu. Ekki sé hægt að útiloka að eigendur einstakra íbúða geti rökstutt að kostnaður við þjónustuna gagnvart þeim sé lægri en þau gjöld sem greidd séu. Nægilegt sé að sveitarfélagið sýni fram á almenna, gagnsæja og sanngjarna álagningu gjalda og að gjaldtöku sé ekki þannig hagað að hagnaður sé af starfseminni að jafnaði.

 

Eftirfarandi sé samantekt úr bókhaldi sveitarfélagsins vegna sorphirðu þess árin 2015 til 2019:

Ár                   Tekjur*                       Gjöld              Niðurstaða

2015                59.621.844                  84.431.826      24.809.982

2016                59.958.717                  70.178.809      10.220.092

2017                62.178.687                  56.092.237      -6.086.450

2018                57.217.959                  61.694.150        4.476.191

2019                58.187.505                  70.906.279      12.718.774

Nettó             297.164.712                343.303.301     46.138.589

*Sorphirðugjald og sorpeyðingargjald

 

Árið 2017 hafi tekjur orðið aðeins hærri en bein útgjöld vegna sorphirðu sveitarfélagsins. Þótt sveitarfélagið telji að það hefði getað rökstutt óbreytta gjaldtöku hafi verið ákveðið að lækka gjöldin árið 2018 vegna þessa, þannig að bein útgjöld við starfsemina væru meiri en allar tekjur vegna hennar. Áætlun 2020 geri ráð fyrir tapi af starfseminni.

Sveitarfélagið hafi beinlínis lögbundna heimild til að ákveða fast gjald á hverja fasteignar-einingu miðað við þjónustustig. Skráning eigna kæranda sem íbúða skilgreini þjónustustig og skyldur sveitarfélagsins í þessum efnum. Kæranda hafi verið veitt sama þjónusta og sama þjónustustig og öðrum íbúðareigendum. Ekki sé hægt að bera ábyrgð á því hvort aðrir en þeir sem dvelji í íbúð noti sorpílát sem tilheyri þeirri íbúð og hver séu viðbrögð íbúðareigenda við slíku. Tíðari tæmingar eða notkun annarra íláta séu á ábyrgð hvers fasteignareigenda. Íbúðareigandi virðist ekki hafa snúið sér til sveitarfélagsins árið 2018 heldur samið beint við þjónustuaðila sveitarfélagsins um aðra tilhögun. Ekki fáist séð að kostnaðurinn hafi tekið nokkrum breytingum við þessa aðgerð kæranda.

Áréttað sé að það standist ekki viðurkennd lagasjónarmið að ætla sveitarfélagi að reikna út kostnað við hverja staka íbúð fyrir sig, heldur sé nægilegt að deila allri gjaldtöku á eignir með sama þjónustustig með gagnsæjum og sanngjörnum hætti. Það sé gert og þrátt fyrir það nægi heildartekjur ekki til að standa straum af öllum kostnaði við að veita þjónustuna. Sé gjaldtakan þannig á allan hátt innan ramma þeirra reglna sem gildi um þjónustugjöld.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að sveitarfélagið hafi um árabil ekki þurft að þjónusta Garðarsbraut 12 vegna losunar sorps, en hafi engu að síður innheimt gjöld af kæranda fyrir þjónustuna. Ljóst sé að Norðurþing innheimti gjald sem eigi ekki rétt á sér og sé bent á að í lögum nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda segi í 8. gr. um endurgreiðslu oftekins fjár að stjórnvöldum beri að hafa frumkvæði að endurgreiðslu þegar þeim verði ljóst að ofgreitt hafi verið.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu sorphirðugjalda á kæranda vegna eigna hans að Garðarsbraut 12 fyrir árin 2018, 2019 og 2020 og synjun á kröfu hans um endurgreiðslu þeirra gjalda. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Þó skal kæru ekki sinnt skv. 2. mgr. nefndrar 28. gr. ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Hin kærðu gjöld voru lögð á með álagningarseðlum, dags. 7. febrúar 2018, 7. febrúar 2019 og 10. febrúar 2020. Leitaði kærandi til sveitarfélagsins með ósk um endurgreiðslu 13. maí 2020 og 15. júlí s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra máls þessa með bréfi, dags. 10. s.m., sem póstlagt var þann dag. Meira en ár var þá liðið frá því að álagning vegna sorphirðu árið 2019 var tilkynnt kæranda með álagningarseðlum og einnig frá því að hún var tilkynnt fyrri eiganda með sama hætti vegna sorphirðu 2018. Kærandi eignaðist fasteignir þær sem um ræðir með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018, og var afsal gefið út honum til handa 15. febrúar s.á., en þá fer almennt fram uppgjör gjalda milli aðila. Var einnig liðið meira en ár frá því tímamarki þegar kæran var móttekin. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kæru kæranda vegna álagningar þessara ára því ekki sinnt og þeim kröfum hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður við úrlausn þessa atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við meðferð máls þessa hefur sveitarfélagið upplýst að það hafi fellt niður sorphirðugjöld vegna ársins 2020, en það hafi ekki fordæmisgildi gagnvart álagningu fyrri eða síðari ára. Hefur úrskurðarnefndin undir höndum álagningarseðla, dags. 2. október 2020, þar sem fram kemur að álagning sorphirðugjalds á kæranda vegna fasteigna hans hafi verið felld niður. Eftir niðurfellingu gjaldanna hefur álagning ársins 2020 ekki lengur réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um lögmæti gjaldtöku þess árs. Verður kröfum kæranda hvað það ár varðar því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem áður greinir óskaði kærandi eftir endurskoðun álagningar sorphirðugjalda með bréfi, dags. 13. maí 2020, en því erindi var synjað af byggðarráði 11. júní s.á. Synjun um endurupptöku máls bindur á það enda að nýju og er því stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Kæra til nefndarinnar var póstlögð 10. júlí s.á og hún því nægilega snemma framkomin hvað varðar ákvörðun um synjun á endurgreiðslu sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019, sem ekki hafa verið felld niður, og verður sá hluti málsins því tekinn til efnismeðferðar.

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum. Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þó er mælt fyrir um það í 2. mgr. 24. gr. laganna að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tl. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ljóst er að þegar beiðni kæranda um endurupptöku barst Norðurþingi voru allir þeir tímafrestir er tilgreindir eru í 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðnir. Í athugasemdum við 2. mgr. 24. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skilyrði hennar séu sett m.a. til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd. Er og tekið fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

Við mat á því hvort endurupptaka eigi mál ber að líta til eðlis þess hverju sinni og málsatvika allra, sem og þeirra sjónarmiða sem leiða má af skilyrðum ákvæðanna um tímafresti. Eiga fyrrgreind sjónarmið einnig við um rétt til endurupptöku máls sem leiða má af ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins þótt þær reglur kunni að vera rýmri en gert er ráð fyrir í ákvæðum stjórnsýslulaga. Þau rök voru færð fyrir synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda um endurskoðun að það „sjái sér ekki fært“ að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda án þess að rakið væri af hvaða orsökum það væri. Í tilkynningu til kæranda var þó tekið fram að um álagningu á alla íbúðareigendur væri að ræða en álögð gjöld myndu breytast yrði eign skráð sem atvinnuhúsnæði, en til þess þyrfti að koma fram beiðni íbúðareiganda. Af nefndum gögnum verður hins vegar hvorki ráðið að afstaða hafi verið tekin til þess hvort álagningin hefði t.d. byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, né að fram hafi farið mat á því hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að endurskoða álagninguna, sbr. 2. mgr. sama lagaákvæðis. Í þessu sambandi skal tekið fram að undir meðferð kærumáls þessa leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá sveitarfélaginu um númer og birtingu gjaldskráa þeirra sem nefnd álagning byggðist á, en skv. 4. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skal láta birta í B-deild Stjórnartíðinda gjaldskrár vegna gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs, s.s. sorphirðu. Fengust þau svör að ekki yrði séð að gjaldskrár þær sem um ræðir hefðu fengið númer en vísað til þess að þær hefðu verið birtar opinberlega á vef Norðurþings. Þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að umræddar gjaldskrár hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Með hliðsjón af framangreindu var því fullt tilefni til þess fyrir sveitarfélagið að leggja sérstakt mat á og taka afstöðu til þess hvort vafi um lögmæti álagningar hinna umdeildu gjalda ætti að leiða til endurskoðunar álagningarinnar, þrátt fyrir þann tíma sem liðinn væri frá henni. Er því óhjákvæmilegt að fella úr gildi synjun byggðarráðs á beiðni kæranda um endurskoðun og endurgreiðslu álagðra gjalda vegna áranna 2018 og 2019. Hins vegar verður öðrum kröfum kæranda vísað frá úrskurðarnefndinni, eins og áður er komið fram.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 um að synja um endurskoðun og endurgreiðslu álagningar sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019 á kæranda vegna Garðarsbrautar 12, Húsavík.

Öðrum kröfum kæranda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

133/2020 Skaftafell Hveragerði

Með

Árið 2021, föstudaginn 8. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis frá 10. desember 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins Skaftafells, Heiðmörk 23, og byggingu nýs húss á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Borgarhrauni 34, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins Skaftafells, Heiðmörk 23, og byggingu nýs húss á lóðinni. Er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði vísað til skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 21. desember 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 2. október 2020, sótti eigandi hússins Skaftafells á lóðinni Heiðmörk 23 um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins og byggingu nýs húss á lóðinni. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 6. s.m. var lagt til að tillagan yrði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 8. október s.á. var tillaga skipulags- og mannvirkjanefndar samþykkt. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 1. desember s.á. og kom þar fram að engar athugasemdir hefðu borist á kynningartíma. Samþykkti meirihluti nefndarinnar að leggja til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og á fundi bæjarstjórnar 10. desember 2020 samþykkt meirihluti bæjarstjórnar niðurrif hússins og byggingu nýs húss á lóðinni Heiðmörk 23.

Kærandi tekur fram að hann sé bæjarfulltrúi og sitji í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fyrir bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði. Hann telji að meðferð meirihluta bæjarstjórnar á málinu samrýmist ekki góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og að málið hafi ekki verið kannað til hlítar áður en ákvörðun hafi verið tekin. Þá standi húsið sem heimilað sé að rífa innan reits sem njóti hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðis 2017-2029. Tilgangur hverfis­verndarinnar sé að varðveita byggðamynstur og götumynd.

Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að fyrirhuguð bygging fari að óverulegu leyti út fyrir byggingarlínur núverandi húss nema á baklóð og mænishæð sé nokkurn vegin sú sama og núverandi húss. Falli nýja húsið vel að formi og hlutföllum núverandi byggðar í hverfinu og sé því í samræmi við skilmála aðalskipulags um hverfisvernd.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Þau rök sem kærandi tiltekur í kæru sinni, m.a. um verndun götumyndar og hverfisvernd, lúta að skipulagsmarkmiðum sem skipulagsyfirvöldum sveitarfélags er falið að móta samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Teljast skipulagshagsmunir vera almannahagsmunir sem veita einstaklingum ekki almenna kæruaðild að stjórnsýslurétti en skipulagsákvarðanir, svo sem um hverfisvernd, geta eftir atvikum snert lögvarða hagsmuni einstaklinga eða lögaðila með þeim hætti að þeim yrði játuð kæruaðild.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 700 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhugað niðurrif og byggingaráform taka til og er íbúðarbyggð þar á milli. Verður því ekki séð að hin kærða ákvörðun sé til þess fallin að raska persónulegum lögvörðum hagsmunum kæranda, svo sem grenndarhagsmunum.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda í máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

98/2020 Lindarbær

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2020, kæra á ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 17. september 2020 um að synja beiðni um skiptingu jarðarinnar Lindarbæjar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Lindarbæjar, Ölfusi, þá ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 17. september 2020 að synja beiðni um skiptingu nefndrar jarðar. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar. Þess er jafnframt krafist að viðurkennt verði að ekki hafi þurft að gera deiliskipulag vegna skiptingar jarðarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 16. nóvember 2020.

Málavextir: Hinn 11. maí 2020 sendi kærandi tölvupóst til skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss þar sem kom fram að hann hygðist selja íbúðarhúsið á jörð sinni Lindarbæ og því þyrfti að skipta upp jörðinni. Óskaði hann eftir leiðbeiningum um framhaldið og munu kærandi og skipulags- og byggingarfulltrúi hafa fundað um málið 13. s.m. Á fundi skipulags- og umhverfis­nefndar 20. s.m. var erindi kæranda tekið fyrir og bókað að umrætt svæði væri „skilgreint sem landbúnaðarland“ og muni lögbýlisréttur fylgja öðrum skikanum eftir skiptingu. Lagði nefndin til að erindinu yrði vísað til tæknisviðs til frekari úrvinnslu. Mun kærandi í kjölfarið hafa verið upplýstur um að gera þyrfti deiliskipulag til að fá landinu skipt. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa til kæranda 19. júní s.á. kom fram að það væri regla hjá sveitarfélaginu að áskilja gerð deiliskipulags ef skipta ætti lóðum sem væru á íbúðarsvæðum samkvæmt aðalskipulagi. Hinn 23. júlí s.á. var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar tekin fyrir deiliskipulagstillaga kæranda sem gerði ráð fyrir að jörðinni yrði skipt í tvær lóðir. Var lagt til að tillagan yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundinum var jafnframt tekin fyrir beiðni kæranda um að fá að skipta jörðinni í tvennt og stofna nýjar lóðir. Var bókað að samþykkt yrði að stofna lóðirnar þegar deiliskipulagið hefði tekið gildi.

Með ódagsettu bréfi til sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og skipulagsfulltrúa gerði kærandi ýmsar athugasemdir við meðferð málsins hjá sveitarfélaginu. Var í bréfinu jafnframt lögð fram málamiðlunartillaga um að málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar héldi áfram en að árituð lóðablöð yrðu send til Þjóðskrár Íslands ásamt eyðublaði um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. september 2020 var erindi kæranda tekið fyrir. Bókað var að kærandi vildi fá að „stofna lóðir áður en deiliskipulagið tekur gildi.“ Synjaði nefndin þeirri beiðni á þeim grundvelli að ekki yrði samþykkt skipting á ódeiliskipulögðu landi sem ætlað væri til uppbyggingar fyrr en deiliskipulagið hefði tekið gildi. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 24. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ekki hefði þurft að gera deiliskipulag til að stofna nýja lóð heldur hefði nægt að skila lóðablöðum ásamt eyðublaði um skráningu nýrra landeigna til fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands. Kærandi hafi mótmælt því að gera deiliskipulag en honum hafi verið stillt upp við vegg og hann síðan látið undan þrýstingi. Sveitarfélagið hafi vísað til þess að krafa um deiliskipulag væri regla hjá þeim en aldrei hafi verið vísað til þess hvar sú regla komi fram þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Deiliskipulagsferlið hafi tekið langan tíma þrátt fyrir loforð um að málið myndi fara „hratt og vel“ í gegn. Brotið hafi verið gegn meðalhófsreglunni með þvingun um gerð deiliskipulags samkvæmt ósýnilegri reglu. Kærandi hafi lagt fram málamiðlunartillögu en enginn viðbrögð fengið. Skipulagsfulltrúi hafi upplýst kæranda um að nefnd regla sé hvergi skrifuð. Það geti ekki staðist að munnleg regla sé nægileg til að velja þyngstu hugsanlegu leiðina. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. september 2020 hafi komið fram í fyrsta sinn að nefndin geri kröfu um deiliskipulagsgerð. Því sé kæran miðuð við þá ákvörðun. Sérfræðistofnanir, þ. á m. landbúnaðarráðuneytið og Skipulags­stofnun, séu sammála um að óeðlilegt sé að áskilja deiliskipulag í þessu tilfelli.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að óljóst sé að hvaða stjórnvaldsákvörðun kæran beinist. Óumdeilt sé að í málinu hafi kærandi látið vinna deiliskipulagstillögu sem hlotið hafi samþykki á vettvangi sveitarfélagsins og tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2020. Einnig liggi fyrir að Þjóðskrá Íslands hafi staðfest stofnun nýrrar fasteignar. Kærandi virðist telja að hann hafi að óþörfu verið neyddur til að deiliskipuleggja land í tilefni þess að hann vildi skipta landi sínu í tvær lóðir. Þessu sé alfarið mótmælt. Skipulags- og umhverfisnefnd hafi tekið erindi kæranda fyrir á fundi sínum 23. júlí 2020 þar sem uppdráttur deiliskipulagstillögu kæranda hafi legið fyrir, en hann sé dagsettur 16. júní s.á. Í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitar­stjórnar komi til. Byggt sé á því að skipulags- og umhverfisnefnd hafi verið fullheimilt að gera kröfu um deiliskipulag svo að forsendur lægju fyrir áður en uppskipting fasteignar kæranda væri heimiluð. Slíkt felist beinlínis í skipulagsvaldi sveitarfélaga. Kærandi hafi nýtt sér heimild 38. gr. skipulagslaga til að gera tillögu að deiliskipulagi. Mestu máli skipti að skipulagsferli málsins sé lokið og stofnun lóða komin á leiðarenda. Hvort tveggja sé í þágu kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann sé í raun að kæra ákvörðun sem aldrei hafi verið tekin. Skipulagsnefnd hafi tekið erindi hans fyrir þrisvar sinnum og á fyrstu tveimur fundunum komi hvergi fram krafa um deiliskipulagsgerð. Það hafi ekki verið fyrr en á fundi nefndarinnar 17. september 2020 sem fram hafi komið synjun á því að stofna lóðir án deiliskipulags. Þar komi afstaða nefndarinnar um deiliskipulagsgerð fyrst fram og því eigi að miða kærufrest við það. Þá sé ekki hægt að ætlast til þess að almenningur viti af kærufresti. Þó nefndinni hafi hugsanlega verið fullheimilt að gera deiliskipulag að forsendu fyrir afgreiðslu umsóknar hans þá hafi hún ekki gert það formlega.

———-

Eftir að kæra barst í máli þessu tók gildi deiliskipulag Lindarbæjar með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2020. Með skipulaginu var jörð kæranda skipt í tvær lóðir og byggingarreitur fyrir íbúðarhús markaður á hvorri lóð fyrir sig.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Þó er einungis unnt að skjóta ákvörðunum sem binda enda á mál til æðra stjórnvalds skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málum eða að leggja fyrir stjórnvald að taka slíka ákvörðun með tilteknu efni. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að viðurkennt verði að ekki hafi þurft að ráðast í deiliskipulagsgerð vegna umsóknar hans um stofnun tveggja lóða.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar frá 17. september 2020 að synja beiðni kæranda um skiptingu jarðarinnar Lindabæjar áður en deiliskipulagstillaga kæranda tæki gildi. Í fundargerð nefndarinnar er beiðni kæranda synjað en jafnframt tekið fram að samþykkt verði að stofna mætti lóð þegar deiliskipulagið hefði tekið gildi. Sú ákvörðun nefndarinnar sneri að meðferð máls um stofnun nýrrar lóðar en fól ekki í sér lyktir þess. Telst hin kærða ákvörðun því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

84/2020 Sæbraut

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 30. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2020, kæra vegna heimilaðrar viðbyggingar að Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Sæbraut 8, Seltjarnarnesi, „málsmeðferð vegna viðbyggingar við Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi.“ Verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 21. ágúst 2019 um breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns vegna lóðarinnar Sæbrautar 6 og ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. júní 2020 um að samþykkja byggingaráform um viðbyggingu við húsið að Sæbraut 6 og að krafist sé ógildingar nefndra ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 27. október 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness 3. júlí 2019 var tekin fyrir umsókn um stækkun bílskúrs við húsið að Sæbraut 6 og var kynning eigenda fyrir nágrönnum lögð fram á fundinum. Var málið afgreitt með svofelldum hætti: „Grenndarkynning fór fram og bárust engar athugasemdir. Nefndin samþykkir að vísa málinu til byggingarfulltrúa sem auglýsir deiliskipulagsbreytinguna sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.” Var ákvörðunin staðfest í bæjarráði 11. júlí 2019 og í bæjarstjórn 21. ágúst s.á.

Samkvæmt gögnum máls fékk tillagan hins vegar málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags­laga. Auglýsing til kynningar á tillögu um breytingu á deiliskipulagi svæðisins vegna Sæbrautar 6 var birt á vef Seltjarnarnesbæjar og í Lögbirtingablaðinu 2. ágúst 2019 og í Fréttablaðinu 3. s.m. Var tekið fram að hún væri aðgengileg á bæjarskrifstofu sem og á vef sveitarfélagsins og fæli í sér stækkun byggingarreits á lóðinni Sæbraut 6 og hækkun nýtingarhlutfalls. Frestur til að gera athugasemdir var frá 3. ágúst til 3. september 2019 en engar athugasemdir bárust. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2020.

Hinn 5. júní 2020 samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir viðbyggingu hússins að Sæbraut 6 í samræmi við umsókn eigenda. Var heimilað að byggja við núverandi bílskúr suðvestan megin við húsið og útisturtu/gufu á baklóð. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,25 í 0,29 og stærð húss úr 214 m² í 244 m².

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að grenndarkynning vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi ekki farið fram skv. skipulagslögum nr. 123/2010 heldur hafi eigandi Sæbrautar 6 sjálfur séð um að ganga í hús og safna undirskriftum. Gögnin sem hann hafi lagt fram hafi verið ófullnægjandi og ekki kynnt fyrir öllum eigendum Sæbrautar 8. Enginn af eigendum þess húss hafi ritað samþykki sitt á þennan uppdrátt en skipulags- og umferðar­nefnd hafi ekki kannað hverju það sætti við samþykkt málsins. Við nánari skoðun sé ekki um að ræða stækkun á bílageymslu eins og kynnt hafi verið, heldur stækkun á íbúðarrými. Kærendur séu ósammála því að þetta sé óveruleg breyting sem snerti eingöngu hagsmuni bæjarins og eiganda Sæbrautar 6. Í bréfi til bæjarstjóra Seltjarnarness, dags. 21. júlí 2020, hafi verið óskað eftir því að inngangur í viðbygginguna yrði færður þar sem hann myndi valda ónæði gagnvart fasteign kærenda, en því erindi hafi ekki verið svarað.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að kærunni beri að vísa frá sökum þess að kærufrestir séu liðnir. Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu stjórnvalds­ákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um kærufrest fari samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kæran snúi að því að tillaga um breytingu á deiliskipulagi hafi ekki verið réttilega kynnt kærendum. Í síðasta lagi við birtingu deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. janúar 2020 hafi kærendum verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um kæruefnið. Kæran sé dagsett 14. september s.á. Á þeim tímapunkti hafi eins mánaðar kæru­frestur verið löngu liðinn.

Verði talið að kæran lúti að einhverju leyti að afgreiðslu byggingarfulltrúa vegna samþykktra byggingaráforma hafi kærufrestir allt að einu verið liðnir þegar kæra í máli þessu hafi komið fram. Byggingarfulltrúi hafi samþykkt aðaluppdrætti að breytingunum 5. júní 2020 en kæran sé sem fyrr segi dagsett 14. september s.á. Eins mánaðar kærufrestur vegna stjórnvaldsákvarðana á grundvelli mannvirkjalaga hafi því einnig verið löngu liðinn þegar kæran hafi komið fram.

Engir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð sveitarfélagsins sem kærendur haldi fram. Um breytingu á deiliskipulagi sé fjallað í 43. gr. skipulagslaga þar sem komi fram að verulegar breytingar séu auglýstar skv. 1. mgr. ákvæðisins en óverulegar breytingar megi grenndarkynna skv. 2. mgr. þess. Ekki sé um það deilt að breytingingarnar hafi ekki verið verulegar. Sé í því samhengi bent á að samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni nemi stækkun til vesturs (breikkun) 80 cm út fyrir núverandi byggingarreit. Stækkun til suðurs, í átt að gangstétt, nemi frá 0-200 cm út fyrir samþykktan byggingarreit. Mörg dæmi væru í næsta nágrenni um að byggingarhlutar húsa næðu út fyrir byggingarreit og væru dæmi um að byggingarhlutar næðu allt að lóðarmörkum. Sú tillaga sem lögð hafi verið fram um breytingu á deiliskipulagi vegna Sæbrautar 6 hafi þar að auki verið kynnt af hálfu húseigenda. Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum við auglýsingu tillögunnar. Það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar, þegar fram­kvæmdir hafi verið hafnar, sem slíkar athugasemdir hafi borist.

Í kynningu hafi komið fram að óskað hafi verið eftir „að byggja við núverandi bílskúr suð-vestanmegin við hús og útisturtu/gufu á baklóð.“ Engin þörf hafi verið á því að taka sérstaklega fram hver nýting eldri byggingar yrði í kjölfar breytingarinnar. Sé nýtingin enda innan gildandi skipulags og engin þörf sé á að grenndarkynna slíka nýtingu. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 sé gert ráð fyrir að í íbúðarhverfum geti verið atvinnustarfsemi svo fremi að hún valdi ekki verulegum óþægindum, nánar tiltekið að starfsemin fari fram innan hefðbundins dagvinnutíma, starfsemi hvers rekstraraðila valdi ekki ónæði og að notkun gangi ekki verulega á afnot íbúa í nálægum húsum af sameiginlegum bílastæðum. Í gildandi deiliskipulagi sé vísað til gildandi aðalskipulags varðandi landnotkun. Það megi því ljóst vera að engin þörf hafi verið á breyttri landnotkun vegna þeirrar nýtingar sem tilgreind sé á aðaluppdrætti.

Óljóst sé hvort því sé haldið fram í kæru að grenndarkynna hafi átt staðsetningu aukainngangs. Staðsetning hans á baklóð sé hefðbundin, krefjist ekki mikillar uppbyggingar fyrir aðgengi og ekki verði séð að rask geti orðið af honum. Hafi inngangurinn óveruleg grenndaráhrif og ekki meiri en almennt megi búast við í þéttbýli.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í athugasemdum með nefndri grein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort skilyrði séu til að víkja frá kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Í þeim tilfellum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Auglýsing um gildistöku umdeildrar deiliskipulagsbreytingar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2020 að undangenginni almennri auglýsingu skipulagstillögunnar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga sem felur í sér meginreglu um málsmeðferð breytinga á deiliskipulagi. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar eða hinn 15. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 17. september 2020 eða rúmum sjö mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður ekki talið að nefndur dráttur geti talist afsakanlegur eða önnur atvik séu fyrir hendi í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga svo að málið verði tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Fyrir liggur að kærendum var kunnugt um hið kærða byggingarleyfi seinni hluta júlímánaðar 2020, sbr. fyrirliggjandi tölvubréf frá þeim til yfirvalda Seltjarnarnesbæjar frá 22. júlí s.á. Þar var og tekið fram að tveir kærenda hafi átt fund með sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs bæjarins um málið hinn 25. júní 2020. Voru framkvæmdir að Sæbraut 6 þá þegar hafnar. Var eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar því liðinn þegar kæra í málinu barst. Verður með hliðsjón af framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga einnig að vísa þessum hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

85/2020 Litlikriki

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 15. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 2. september 2020 um að synja beiðni um endurupptöku á umsókn kæranda um fastanúmer fyrir aukaíbúð í húsi hans að Litlakrika 37.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Litlakrika 37, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 2. september 2020 að synja beiðni um endurupptöku á umsókn hans um fastanúmer fyrir aukaíbúð í Litlakrika 37. Er þess krafist að úrskurðarnefndin skeri úr um það hvort skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi og að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um að synja umsókn kæranda um fastanúmer fyrir aukaíbúð í Litlakrika 37.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 20. október 2020.

Málavextir: Með umsókn dags. 12. mars 2020 óskaði eigandi Litlakrika 37, Mosfellsbæ, eftir skráningu á fastanúmeri á aukaíbúð á neðri hæð fasteignarinnar. Var beiðnin rökstudd með því að fordæmi væru fyrir því að húseigendur hafi fengið fastanúmer skráð á aukaíbúð.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 24. apríl s.á. og henni hafnað. Í bókun nefndarinnar sagði: „Skipulagsnefnd hafnar nýju fastanúmeri þar sem skipulagið gerir ekki ráð fyrir að breyta einbýlishúsum í tvíbýlishús þó heimilt sé að vera með aukaíbúð er þar ekki átt við séreign.“ Þessi afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 29. s.m.

Hinn 30. júní 2020 barst Mosfellsbæ krafa frá Húseigandafélaginu fyrir hönd eiganda Litlakrika 37 þar sem þess var krafist að ákvörðun skipulagsnefndar frá 24. apríl s.á. yrði endurskoðuð með vísan til þess að þrjú önnur hús í götunni hafi fengið skráð fastanúmer fyrir íbúð í húsinu. Á fundi bæjarráðs 20. ágúst s.á. var ósk um endurupptöku hafnað og í bókun ráðsins sagði: „Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga um skilyrði fyrir endurupptöku stjórnvaldsákvarðana eru ekki uppfyllt, enda hafi ákvörðun hvorki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né hafi atvik breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Óheimilt er að samþykkja breytingar í andstöðu við gildandi skipulag, fordæmi sem vísað er til breyti engu þar um.“ Þessi afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 2. september 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er tekið fram að þegar hann hafi lagt fram upphaflega beiðni sína til skipulagsnefndar um að fá fastanúmer á aukaíbúð hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að bæjarráð hafi áður verið búið að samþykkja fastanúmer á aukaíbúð í Litlakrika 31, Litlakrika 33 og Litlakrika 39. Kærandi hafi aðeins heyrt um að bæjarráð hafi veitt slíkt samþykki. Við fyrri meðferð málsins hjá skipulagsnefnd og í bæjarráði hafni kærandi því að tekið hafi verið tillit til þess að skipulagsnefnd og bæjarráð hafi áður veitt slíkt samþykki heldur aðeins litið til skipulags svæðisins, sbr. það sem fram komi í bréfi bæjarráðs til kæranda 28. apríl 2020. Þegar bréfið hafi borist honum hafi ekki hvarflað að kæranda að skipulagsnefnd og bæjarráð myndu láta annað gilda um hús hans en annarra. Það hafi ekki verið fyrr en hann leitaði til Húseigandafélagsins og fengið eignaskiptasamninga að áðurnefndum þremur húsum að honum hafi orðið fyllilega ljóst að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafi afgreitt erindi hans með öðrum hætti en þeirra. Kærandi staðhæfi að fyrst við meðferð endurupptökumálsins hafi skipulagsnefnd verið ljósar aðstæður þess að bæjaryfirvöld hafi samþykkt aukaíbúðir í fyrrgreindum húsum þrátt fyrir fyrirmæli deiliskipulagsins. Í öllum tilvikum hafi eigendur þessara húsa látið gera eignaskiptayfirlýsingar sem byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar hafi samþykkt. Það hafi því farið fram hjá „kerfinu“ og ekki komið til umfjöllunar með beinum hætti í skipulagsnefnd og bæjarráði Mosfellsbæjar.

Á fundi bæjarstjórnar 2. september 2020 hafi formaður skipulagsnefndar upplýst að nefndin hafi, eftir að málið hafi komið aftur inn á borð hennar, látið fara fram athugun á ástæðum þess að eigendur þessara þriggja húsa hafi fengið samþykki fyrir fastanúmeri á aukaíbúðirnar. Þá hafi verið leitað eftir því við Skipulagsstofnun hvort skipulagsnefnd væri stætt á því að synja kæranda um slíka skráningu þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi veitt þessum aðilum heimild til að fá fastanúmer á aukaíbúðirnar þrátt fyrir skipulagið. Af framangreindu sé ljóst að málið hafi hlotið efnislega umfjöllun og því endurupptekið í skilningi stjórnsýslulaganna og erindi kæranda afgreitt.

Það sé megintilgangur stjórnsýslulaganna að setja þeim sem fari með opinbert vald reglur til að fara eftir til að tryggja jafnræði og koma í veg fyrir mismunun við meðferð mála. Þeir sem séu í svipaðri stöðu eigi að geta gengið út frá því að fá sömu afgreiðslu á beiðnum sínum. Kærandi hafi því mátt treysta því að skipulagsnefnd og bæjarráð myndu við meðferð umsóknar hans afgreiða erindi hans með sama hætti og annarra sem hafi verið í svipaðri stöðu og hann. Sú hafi hins vegar ekki verið raunin. Eigendur Litlakrika 31, 33 og 39 hafi fengið heimild Mosfells­bæjar til að fá sérstakt fastanúmer á aukaíbúðir í húsum þeirra en kæranda hafi verið hafnað á grundvelli þess að skipulagið heimili það ekki.

Með nefndri afgreiðslu telji kærandi að skipulagsnefnd og bæjarráð Mosfellsbæjar hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Bæjarráð virðist telja að þessi regla eigi ekki við ef stjórnvald sýni fram á að mistök hafi verið gerð við afgreiðslu fyrri mála. Samkvæmt því sem fram hafi komið í ræðu formanns skipulagsnefndar á fundi bæjarstjórnar 2. september 2020 að byggingarfulltrúi hafi gert mistök þegar samþykkt hafi verið að veita eigendum Litlakrika 33 leyfi til að skrá aukaíbúð á sérstakt fastanúmer. Sömu mistök hafi verið gerð þegar eiganda Litlakrika 31 hafi verið veitt sama heimild og aftur árið 2017 þegar eigandi Litlakrika 39 var veitt sama heimild. Húsin sem byggð séu með aukaíbúð séu fimm. Eigandi Litlakrika 35, sem sé fimmta húsið með sérstaka aukaíbúð, hafi ekki farið fram á sérstakt fastanúmer á þeirri íbúð. Afgreiðsla skipulagsnefndar kunni að vera réttlætanleg ef sýnt sé fram á ein mistök eða hugsanlega tvenn en þegar mistökin séu þrenn og nái til meirihluta þeirra húsa sem um ræði geti stjórnvald ekki borið fyrir sig yfirsjón eða mistök. Í þeim tilvikum geti stjórnvaldið ekki afgreitt umsóknir með öðrum hætti en fyrri umsóknir og vísað til deiliskipulags svæðisins. Þess í stað hafi Mosfellsbæ borið að grípa til aðgerða svo kærandi fengi sömu afgreiðslu og fyrri umsækjendur með deiliskipulagsbreytingu ef aðrar leiðir væru ekki færar.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Beiðni kæranda frá 12. mars 2020 um fastanúmer fyrir aukaíbúð hafi verið tekin fyrir og synjað á fundi skipulagsnefndar 24. apríl s.á. og hafi niðurstaða skipulagsnefndar verið staðfest af bæjarstjórn á fundi 29. s.m. Í erindi kæranda sé vísað til þess að fordæmi séu fyrir skráningu fastanúmers á aukaíbúðir í götunni. Í minnisblaði starfsmanns umhverfissviðs sem hafi legið til grundvallar afgreiðslu málsins hafi verið farið ítarlega yfir skipulag í hverfinu, þ. á m. heimild til að hafa aukaíbúðir líkt og rakið hafi verið. Við afgreiðslu málsins hafi því legið fyrir allar þær upplýsingar sem vísað hafi verið til í endurupptökubeiðni Húseigandafélagsins fyrir hönd kæranda, líkt og sjá megi af efni upphaflegs erindis og minnisblaði sem hafi legið til grundvallar ákvörðunar skipulagsnefndar.

Í samræmi við samþykktir um stjórn Mosfellsbæjar hafi erindi Húseigandafélagsins um endur­upptöku ákvörðunar skipulagsnefndar og bæjarstjórnar verið lagt fyrir bæjarráð. Líkt og fram hafi komið í niðurstöðu bæjarráðs hafi við skoðun á beiðninni ekki verið fallist á að ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli rangra og ófullnægjandi upplýsinga enda hafi engar nýjar upplýsingar verið lagðar fram með endurupptökubeiðninni. Skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku hafi því ekki verið uppfyllt.

Því sé jafnframt hafnað sem fram komi í kæru að niðurstaða bæjarráðs um endurupptöku beri með sér að málið hafi fengið efnislega umfjöllun og hafi því verið endurupptekið í skilningi stjórnsýslulaga. Í ákvörðuninni sé einfaldlega verið að endurtaka forsendur sem fram hafi komið í höfnun skipulagsnefndar og sé því rökstuðningur fyrir því að ákvörðun hafi verið byggð á fullnægjandi upplýsingum. Við meðferð endurupptökubeiðni sé rétt og eðlilegt að stjórnvald fari yfir á hvaða grundvelli ákvörðun hafi verið byggð og hvaða upplýsingar hafi legið til grundvallar töku ákvörðunar Í því felist eðlileg rannsókn stjórnvalds á því hvort skilyrði til endurupptöku séu til staðar. Með slíkri skoðun uppfylli stjórnvald rannsóknarskyldu sína á formhlið ákvörðunar og með engu móti sé hægt að halda fram að í slíkri skoðun felist að efnisleg afstaða sé tekin til málsins. Þá sé rétt að hafa í huga að þrátt fyrir að beiðni um endurskoðun ákvörðunar skuli berast bæjarráði samkvæmt samþykktum um stjórn Mosfellsbæjar þá lúti hlutverk bæjarráðs eingöngu að því að taka afstöðu til endurupptöku málsins, efnisleg meðferð mála sé ávallt í höndum þeirra fastanefndar sem fari með viðkomandi málaflokk.

Því sé hafnað sem röngu og órökstuddu að höfnun endurupptökubeiðninnar hafi haft þann tilgang einan að koma í veg fyrir að hægt væri að kæra málið til úrskurðarnefndar um efnisatriði málsins. Ekkert hafi komið í veg fyrir að kærandi kærði ákvörðun um höfnun fastanúmers fyrir aukaíbúð til úrskurðarnefndarinnar þegar í kjölfar þeirrar ákvörðunar í apríl. Megi jafnframt vísa til þess að athygli kæranda hafi verið vakin á kæruheimild í bréfi þar sem niðurstaða skipulagsnefndar hafi verið kynnt dags. 28. apríl 2020. Það að kærandi hafi ekki nýtt kæru­heimild innan kærufrests geti ekki verið á ábyrgð Mosfellsbæjar. Ákvæðum 24. gr. stjórnsýslu­laga um endurupptöku ákvörðunar sé ekki ætlað að vera varaleið fyrir kæranda sem ekki nýtir kæruheimild innan kærufrests til að fá ákvörðun endurskoðaða heldur sé um að ræða öryggis­ventil þegar raunverulegar líkur séu á því að stjórnvaldsákvörðun hafi ekki byggt á fullnægjandi og réttum upplýsingum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að ekki sé verið að deila um það hvort kærufrestur vegna synjunar bæjarstjórnar 28. apríl sé liðinn eða ekki. Deilan sé um það hvort skilyrði fyrir endurupptöku hafi verið uppfyllt. Kærandi telji að fyrri ákvörðun skipulagsnefndar og bæjarstjórnar hafi byggst á ófullnægjandi og jafnvel röngum upplýsingum um málsatvik. Einnig sé deilt um það hvort skipulagsnefnd og bæjarráð hafi með því að vísa málinu ekki frá heldur taka það aftur á dagskrá hafi skipulagsnefnd í raun endurupptekið málið. Því sé um að ræða nýja ákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Það liggi fyrir að málið hafi verið tekið fyrir á tveimur fundum skipulagsnefndar áður en það hafi verið afgreitt með vísan til þess að skilyrði endurupptöku hafi ekki verið fyrir hendi. Í bréfi nefndarinnar komi jafnframt fram að óheimilt sé að samþykkja breytingar í andstöðu við gildandi skipulag, fordæmi sem vísað sé til breyti engu þar um.

Með bréfi, dags. 26. október 2020, til Skipulagsstofnunar hafi kærandi óskað eftir nánari upplýsingum frá stofnuninni og svörum við tilteknum spurningum, þ.m.t. um það álit sem stofnunin hafi veitt skipulagsnefnd Mosfellsbæjar og hvenær. Þau svör hafi þó ekki borist.

Hvað varði athugasemdir bæjarlögmanns Mosfellsbæjar, sbr. bréf hans 15. október 2020, þá haldi hann því fram að allar upplýsingar hafi legið fyrir við afgreiðslu skipulagsnefndar á fyrra erindi kæranda, þ.m.t. hvaða aðilar við Litlakrika hafi fengið samþykki fyrir fastanúmeri á aukaíbúðir sínar. Engin gögn hafi fylgt með í bréfi bæjarlögmannsins því til stuðnings. Í minnisblaði starfsmanns Mosfellsbæjar sé einungis minnst á gildandi skipulag en ekkert minnst á að þrír af fimm eigendum hafi fengið samþykki fyrir að skrá aukaíbúðir sínar með sérstöku fastanúmeri. Það verði því að miða við að ekki hafi legið fyrir önnur gögn fyrir skipulagsnefnd en nefnt minnisblað.

Fyrir liggi að mistök hafi verið gerð hjá Mosfellsbæ við afgreiðslu umsókna sem hafi leitt til þess að umsækjendum um fastanúmer hafi verið mismunað. Þeir sem hafi farið bakdyramegin með gerð eignaskiptasamninga hafi fengið samþykki bygginganefndar Mosfellsbæjar fyrir aukaíbúðum í húsum sínum en þeir sem hafi farið rétta leið eins og kærandi hafi verið hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar um að synja umsókn hans um fastanúmer fyrir aukaíbúð í húsi hans að Litlakrika 37.

Umsókn kæranda, dags. 12. mars 2020, var beint til byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar. Óskaði kærandi eftir fastanúmeri á aukaíbúð á neðri hæð Litlakrika 37, en íbúðin væri samþykkt og um 60 m2 að stærð. Vísaði kærandi til þess að fordæmi væru fyrir því að húseigendur við götuna hafi fengið fastanúmer á aukaíbúðir sínar og vonaðist hann eftir samþykki skipulagsnefndar sem fyrst.

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir einbýlishúsi sem hefur heimild fyrir auka­íbúð á umræddri lóð. Húsið sem um ræðir, sem byggt var árið 2015, er samkvæmt byggingar­leyfi einbýlishús með aukaíbúð. Til þess að fá útgefið fastanúmer fyrir aukaíbúð þarf því að koma til breyting á byggingarleyfi hússins þess efnis að um sé að ræða tvíbýlishús. Bar bæjar­yfirvöldum því að taka umsóknina til afgreiðslu sem umsókn um breytingu á byggingarleyfi enda er óheimilt að breyta notkun mannvirkis eða fjölda fasteigna í því nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er sveitarstjórn heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og samkvæmt 2. mgr. er sveitarstjórn heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Í 6. mgr. 7. gr. laganna kemur og fram að samþykkt sem sé sett samkvæmt þessari grein skuli lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skuli hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Slík samþykkt er ekki í gildi fyrir Mosfellsbæ og er það því byggingarfulltrúi sem ber að taka loka­ákvörðun um samþykkt eða synjun umsókna um byggingarleyfi.

Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi afgreitt umrædda umsókn kæranda með efnislegum hætti og skortir því á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Liggur af þeim sökum fyrir að umsókn kæranda um að aukaíbúð í húsi hans verði breytt í sérstaka fasteign hefur ekki hlotið lögboðna afgreiðslu bæjaryfirvalda og því er ekki fyrir hendi ákvörðun sem sætt getur endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

109/2020 Mjallargata

Með

Árið 2020, föstudaginn 27. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 109/2020, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar á umsókn um stöðuleyfi fyrir einn 20 feta geymslugám bakvið bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Snerpa ehf., afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar á umsókn fyrirtækisins um stöðuleyfi fyrir 20 feta geymslugám bak við bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði. Er þess krafist að skipulags- og mannvirkjanefnd verði gert að fallast á að tilvist gámsins sé til að geyma nauðsynlegt ljósleiðarefni og að geymsluhúsnæði fyrir atvinnustarfsemi í næsta nágrenni sé ekki í boði. Þá er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 18. nóvember 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 30. júlí 2020, sótti kærandi um stöðuleyfi fyrir 20 feta geymslugám bakvið bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði. Í umsókninni kom fram að gámurinn væri kominn á staðinn og hefði staðið þar skemur en í tvo mánuði.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 26. ágúst 2020 var umsókninni synjað og eftirfarandi bókað: „Skipulags- og mannvirkjanefnd hafnar umsókn á þeim forsendum að Mjallargata 5 er á hverfisvernduðu íbúðasvæði. Gámurinn skal fjarlægður fyrir 30. september 2020.“ Kæranda var tilkynnt um synjunina með tölvupóst 31. ágúst s.á.

Með bréfi, dags. 25. september 2020, óskaði kærandi eftir því að málið yrði tekið upp að nýju. Málið var tekið fyrir á fundi skipulag- og mannvirkjanefndar 28. október s.á. og bókað að nefndin stæði við fyrri ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að erindi hans hafi verið synjað „á þeim forsendum að Mjallargata 5 er á hverfisvernduðu íbúðasvæði.“ Það sé rangt að lóðin sé á íbúðasvæði, heldur sé um blandaða byggð að ræða. Hins vegar sé rétt að öll Eyri á Ísafirði sé undir hverfisvernd. Ákvæði í hverfisvernd taki á engan hátt til stöðuleyfa fyrir geymslugáma. Lóðir á sama götureit og Mjallargata 5 séu allar með húsnæði skráð sem atvinnuhúsnæði nema lóð kirkju kaþólska safnaðarins. Kærandi hafi brugðist við með því að reifa ástæður umsóknarinnar nánar og óska eftir endurupptöku fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd. Vísað hafi verið til þess m.a. að nefndin hafi látið farast fyrir að rannsaka málið nægilega áður en ákvörðun hafi verið tekin í því. Með síðari afgreiðslu sinni hafi skipulags- og mannvirkjanefnd kosið að líta fram hjá öllum skýringum kæranda án nokkurs rökstuðnings fyrir ákvörðun sinni sem hljóti að ganga í berhögg við lögmætisregluna. Þá felist í afgreiðslunni sú mismunum að hafnað hafi verið umsókninni um stöðuleyfi en öðrum umsækjendum í sambærilegri stöðu hafi verið veitt slíkt leyfi.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um endurupptöku 28. október 2020 hafi engin afstaða verið tekin til málsraka kæranda og afgreiðsla á erindinu hafi ekki verið rökstudd. Skipulags- og mannvirkjanefnd hafi vísað til ákvörðunar skipulagsfulltrúa en hvergi komi fram að sá hafi komið að ákvarðanatöku í málinu. Ranglega hafi verið fullyrt að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála myndi ekki fresta réttaráhrifum vegna synjunar stöðuleyfis.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hverfisvernd sé ekki sett fram í deiliskipulagi Eyrarinnar heldur sé hún sett fram í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 sem H8, bæði á þéttbýlisuppdrætti og greinargerð.

Kærandi vísi til þess að nefndin og bæjarráð hafi ekki gætt ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1998 um andmælarétt og hvorki verið kynnt kæruúrræði né kærufrestur. Bætt hafi verið úr þessu og erindi kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju með synjun á sömu forsendum. Almenn umræða hafi verið um efnið og það sé ekki ætlast til þess að menn séu með geymslugáma í íbúðar- og/eða blandaðri byggð. Að einhverju leyti hafi þó verið vikið frá þessu í þeim tilfellum þar sem hafi verið staðið að endurbótum á húsnæði og þurft að vera  með vinnu- og/eða kaffigám. Um sé að ræða blandaða byggð, ekki iðnaðar- og atvinnusvæði. Umræddur gámur sé ætlaður til geymslu á keflum og öðrum aðföngum er tengist fyrirtæki í rekstri. Henti húsnæði ekki undir rekstur fyrirtækis sé e.t.v. kominn tími til að finna hentugra húsnæði m.t.t. þess reksturs.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að blönduð byggð feli í sér atvinnurekstur og atvinnusvæði. Það fylgi atvinnurekstri að það geti komið upp tímabundinn verkefni í rekstrinum sem krefjist aukins geymslupláss. Ekki sé hægt að ætlast til þess að rekstraraðilar byggi nýtt húsnæði þegar þörf fyrir geymsluplássi sé tímabundin og/eða menn vili tryggja að lausafé utandyra hindri ekki snjómokstur eða koma í veg fyrir að hætta geti stafað af foktjóni vegna þess. Í þessu sambandi henti umræddur gámur mjög vel og hann standi í stæði sem beinlínis sé ætlað undir geymslugám. Því sé ekki svarað af stjórnvaldinu hvort þau geti bent á annan hentugan stað fyrir gáminn.

Kærandi hafi nýverið skipt um húsnæði og aukið fermetrafjölda starfsemi sinnar um ríflega 50%. Ekki sé borið við húsnæðisskorti, enda komi það málinu ekki við. Leysa hafi þurft úr því að lausafé utandyra fengi viðunandi geymslu og mögulegt hafi verið að leysa þá þörf með því að leigja tímabundið hentugt húsnæði, en það hafi ekki verið í boði. Því hafi verið ákveðið að nota geymslugám, enda hafi hann verið fullnægjandi úrræði og hefð hafi verið fyrir gám á sama stað. Málið hafi verið rætt við skipulagsfulltrúa áður en gámnum hafi verið komið fyrir og kynnt að þarna hefði áður staðið gámur. Hafi verið í gildi stefna um að ekki skyldi veita stöðuleyfi í blandaðri byggð hafi skipulagsfulltrúa borið þá þegar að uppfylla leiðbeingar-skyldu um slíkt.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Mælt er fyrir um setningu reglugerða á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki í 60. gr. þeirra og skulu skv. 9. tl. ákvæðisins m.a. vera í reglugerð skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa, kveðið á um atriði sem varða öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki eru uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er með stoð í lögunum, skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda, en hann er skv. skilgreiningu í 51. tl. í gr. 1.2.1. í reglugerðinni, það stjórnvald, þ.e. byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem gefur út eða á að gefa út byggingarleyfi skv. reglugerðinni. Eru það enda þeir aðilar sem veita byggingarleyfi skv. ákvæðum 9.-11. gr. mannvirkjalaga nema til staðar sé sérstök samþykkt skv. 7. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein er sveitarstjórn heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um útgáfu stöðuleyfis geti orðið án aðkomu byggingarfulltrúa, en auk þess er ekki í gildi samþykkt um afgreiðslur skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar sem sett hefur verið samkvæmt nefndu ákvæði.

Svo sem lýst er í málavöxtum tók skipulags- og mannvirkjanefnd á fundi sínum 26. ágúst 2020 ákvörðun um að synja umsókn kæranda um stöðuleyfi fyrir geymslugám og hafnaði því að endurupptaka málið á fundi 28. október s.á. Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið neina ákvörðun í málinu, en samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum falið það vald að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfi í hverju tilviki, eða eftir atvikum að synja um slíkt leyfi. Umsókn kæranda var því ekki afgreidd af þar til bæru stjórnvaldi. Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bærum aðila. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Í ljósi þess að umrædd umsókn kæranda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir þó rétt að vekja athygli á því að dragist hún eftir uppkvaðningu úrskurðar þessa getur kærandi skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga kært óhæfilegan drátt á afgreiðslu umsóknar sinnar til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

64/2020 Dalabyggð

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2020, kæra vegna gjaldtöku fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júlí 2020, er barst nefndinni 17. s.m., kærir  eigandi, Hofakri, Dalabyggð, „3. gr. gjaldskrár fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð sem staðfest var 12. desember 2019.“ Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að álagning samkvæmt hinni kærðu gjaldskrá verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalabyggð 14. ágúst 2020.

Málavextir: Gjaldskrá fyrir árið 2020 vegna hirðingar, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð var samþykkt í sveitarstjórn á fundi hennar 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Álagningarseðill vegna fasteignagjalda 2020, dags. 11. desember það ár, var sendur kæranda. Í apríl 2020 sendi kærandi sveitarstjórn Dalabyggðar erindi þar sem farið var fram á útskýringar á framangreindri gjaldskrá, einkum 3. gr. hennar. Benti kærandi jafnframt á að ósanngirni ríkti við skiptingu gjalds í flokka þannig að misræmis gætti við álagningu sorphirðu- og sorpeyðingargjalds á búfjáreigendur. Loks gerði hann athugasemdir við að umbeðin þjónusta hefði ekki verið veitt í tiltekið skipti.

Sveitarstjórn tilkynnti kæranda um afgreiðslu á ofangreindu erindi með tölvupósti 21. apríl 2020. Í póstinum kom fram að byggðarráð hefði fjallað um erindi kæranda á fundi sínum 16. apríl s.á. og bókað efirfarandi „Gjaldskrá er sett miðað við umfang heildarflutninga og er endurskoðuð árlega. Í henni er lögð áhersla á að gæta meðalhófs. Sveitarstjóra falið að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.“ Í frekari svörum sveitarstjóra kom fram að áður hefði verið ákveðið eitt gjald fyrir öll bú en vegna framkominna athugasemda hefði gjaldskránni verið breytt, auk þess sem horft yrði til athugasemda kæranda við vinnslu næstu gjaldskrár. Hins vegar væri ljóst að breytileg gjöld eftir stærð búa yrðu alltaf matsatriði. Gjöldum vegna þjónustunnar væri ætlað að standa undir kostnaði vegna hennar en sá væri ekki raunveruleikinn í dag.

Málsrök kæranda: Kærandi telur gjaldskrá nr. 1372/2019 fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð íþyngjandi fyrir búfjáreigendur með fáa gripi, þar sem aðeins þurfi að eiga meira en tíu stórgripi eða fleiri en 50 kindur til að vera kominn í hæsta gjaldflokk. Kærandi haldi tíu kindur og 16 hross og innheimtar séu kr. 51.000 vegna hirðingar og eyðingar dýrahræja, en búfjáreigandi með 1.000 kindur og 100 hross, svo dæmi sé tekið, greiði sömu fjárhæð. Leiði þetta til mismununar milli íbúa sveitarfélagsins.

Árangurslaust hafi verið leitað eftir leiðréttingu hjá sveitarstjórn og hafi svar þar að lútandi nýverið borist í tölvupósti frá sveitarstjóra, eftir að gengið hafi verið eftir því.

Málsrök Dalabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem kært sé ákvæði í gjaldskrá, en gjaldskrá af þessu tagi teljist til stjórnvaldsfyrirmæla sem séu almenns eðlis og feli ekki í sér ákvörðun í máli tiltekins aðila. Slík fyrirmæli stjórnvalda sæti ekki kæru.

Ef málið sé skilið á þann veg að kærandi sé að kæra afgreiðslu 243. fundar byggðarráðs sveitarfélagsins frá 16. apríl 2020 þá beri einnig að vísa því frá þar sem ekki sé hægt að líta á afgreiðslu byggðarráðs sem stjórnvaldsákvörðun þar sem hún bindi ekki enda á málið. Einungis sé þar um að ræða svar við gagnrýni sem kærandi hafi sett fram varðandi gjaldskrána. Í tölvupósti kæranda til sveitarfélagsins 2. apríl 2020 sé ekki sett fram nein krafa um úrbætur, leiðréttingu eða afslátt, sem hægt hafi verið að samþykkja eða synja, heldur hafi kærandi þar aðeins lýst óánægju sinni með gjaldskrána og spurt um afstöðu sveitarstjórnar til þeirra sjónarmiða sem hann hafi sett þar fram. Gjaldskráin hafi verið samþykkt á 184. fundi sveitarstjórnar hinn 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Verði ekki séð að það sé á sviði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að endurskoða samþykktina eða gjaldskrána.

Í kæru, dags. 9. júlí 2020, segi kærandi að hann hafi fengið svar frá sveitarstjóra „nýverið í tölvupósti eftir að gengið var eftir svari.“ Þessu orðalagi sé mótmælt en eins og sjá megi af gögnum málsins hafi kæranda verið svarað með tölvupósti hinn 21. apríl 2020 og ekkert hafi gefið til kynna annað en að sending á tölvupóstinum hafi tekist. Því verði að ætla að svarið hafi einhverra hluta vegna farið fram hjá kæranda.

Hirðing á dýrahræjum hafi hafist í Dalabyggð á miðju ári 2018. Gjald á því ári hafi verið samkvæmt gjaldskrá sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 3. janúar 2018. Árið 2019 hafi verið fyrsta heila árið þar sem rukkað hafi verið fyrir allt árið. Hafi gjaldskrá vegna þessa verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2019. Eins og fram komi í svari til kæranda  21. apríl 2020 hafi gjaldið bæði árin verið það sama fyrir alla búfjáreigendur, án tillits til stærðar bústofns. Vegna þessa hafi borist þrjú erindi þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við að ekki hafi verið tekið tillit til stærðar bústofns. Ekki hafi verið gerð breyting á gjaldskrá 2019 í kjölfar þessara erinda en ákveðið hafi verið að endurskoða þetta í gjaldskrá 2020. Við setningu gjaldskrár fyrir 2020 hafi verið leitast við að mæta þeirri gagnrýni sem komið hafi fram. Á sama hátt verði horft til erindis kæranda við vinnslu gjaldskrár 2021. Það sé hins vegar ljóst að um leið og farið sé að hafa gjaldskrá breytilega eftir stærð bústofns verði skilin á milli gjaldflokka sem sett séu alltaf háð mati. Við gerð gjaldskrárinnar hafi verið lögð áhersla á að gæta meðal-hófs en vitað að ólíklegt væri að niðurstaða næðist sem allir yrðu ánægðir með.

Gjaldið eigi að standa undir þjónustunni en geri það reyndar ekki að fullu. Mjög stór hluti af kostnaði við verkefnið sé flutningurinn og skipti þá ekki meginmáli hversu mikið sé sótt á hvern stað heldur ekin vegalend. Það sé því ekki svo að stærð búa sé ráðandi þáttur varðandi kostnaðinn.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur fráleita kröfu sveitarfélagsins um að vísa málinu frá. Sé það í ósamræmi við álagningarseðla þar sem m.a. segi: „Álagning á sorphirðu- og sorpeyðingargjaldi er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá álagningu. Gjald vegna hirðingu og eyðingu á dýrahræjum er innheimt miða við hausttölur (frá MAST) ár hvert, en endanlegar tölur 2019 liggja ekki fyrir fyrr en í apríl n.k. og verður álagt gjald endurskoðað þá annað hvort til hækkunar eða lækkunar.“ Samkvæmt þessu séu tölur um fjölda gripa yfirfarnar hjá hverjum og einum búfjáreigenda og því ætti að vera auðvelt að deila kostnaði við hirðingu og eyðingu dýrahræja niður í samræmi við gripafjölda hvers og eins. Því sé mótmælt að stærð búa sé ekki ráðandi þáttur varðandi kostnaðinn þar sem vanhöld séu væntanlega oftast í samræmi við gripafjölda. Það að kostnað-urinn sé að mestu vegna ekinnar vegalendar hljóti að ráðast af því hvernig þjónustan sé skipulögð, en sú skipulagning sé alfarið í höndum sveitarfélagsins.

Í núverandi gjaldskrá sé ekki gætt meðalhófs en búfjáreigandi þurfi aðeins að eiga nokkrar skepnur sér til gamans til að vera kominn í hæsta gjaldflokk, þ.e. sama flokk og þeir lendi í sem stundi búskap sem atvinnu.

Niðurstaða: Gjaldskrá nr. 1372/2019 fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð fyrir árið 2020 var samþykkt á sveitastjórnarfundi 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Gjaldskrár sem slíkar teljast ekki vera stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er ekki að finna í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Einstaklingar og lögaðilar hafa ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu gjaldskráa fyrr en álagning á grundvelli þeirra fer fram. Slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þegar mælt er svo fyrir um í lögum. Hin kærða gjaldskrá er sett með stoð í 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en fram kemur í 65. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í málinu liggur fyrir að álagningarseðill vegna fasteignagjalda 2020, dags. 11. febrúar það ár, var sendur kæranda og því hefur álagning á grundvelli hinnar kærðu gjaldskrár farið fram, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður því að líta svo á að kærð sé álagning sorphirðu- og sorpeyðingargjalds vegna ársins 2020 og að krafist sé ógildingar álagningarinnar.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.

Hin kærðu gjöld voru lögð á með álagningarseðli, dags. 11. febrúar 2020, en kæra í máli þessu er dagsett 9. júlí s.á. og barst úrskurðarnefndinni 17. s.m. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Á álagningarseðlinum er að finna slíkar kæruleið-beiningar og það fyrirkomulag þykir fullnægja framangreindum áskilnaði stjórnsýslulaga. Á seðlinum er jafnframt að finna upplýsingar um að gjald vegna hirðingar og eyðingar á dýrahræjum sé innheimt miðað við hausttölur (frá MAST) ár hvert, en álagt gjald verði endurskoðað til hækkunar eða lækkunar þegar endanlegar tölur liggi fyrir í apríl 2020. Liggur fyrir að slík endurskoðun fór ekki fram vegna hinnar kærðu álagningar. Kærandi hefur fyrir úrskurðarnefndinni bent á að hann hafi árangurslaust leitað eftir leiðréttingu hjá sveitarstjórn. Erindi kæranda, sem beint var til sveitarfélagsins eftir lok kærufrests sem leiðbeint var um, ber þó ekki með sér að farið sé fram á leiðréttingu eða endurupptöku álagningar hans heldur sýnist þar fremur lýst óánægju með fyrirkomulag álagningar samkvæmt hinni umþrættu gjaldskrá. Bera svör sveitarfélagsins og með sér þann skilning og fólu þau ekki í sér nýja ákvörðun. Stóð hin kærða ákvörðun um álagningu frá 11. febrúar 2020 því óhögguð. Að framangreindu virtu þykja ekki fyrir hendi neinar þær ástæður sem leiða ættu til að kæra þessi, sem barst um fjórum mánuðum eftir að kærufresti lauk, verði tekin til efnismeðferðar. Verður henni því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

76/2020 Fákaflöt

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 11. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 76/2020, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Rangárþings eystra frá 20. júlí 2020, og byggðaráðs Rangárþings eystra 30. s.m., um að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnr. 209731.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. ágúst 2020, er barst nefndinni 21. s.m., kærir eigandi lóðar úr jörðinni Skeggjastaðir, fastanúmer 2341917 og landnúmer 194858 þá ákvörðun skipulagsnefndar Rangárþings eystra frá 20. júlí 2020 og byggðaráðs Rangárþings eystra frá 30. s.m. að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnr. 209731. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að fjarlægja gámahúsin af lóð kæranda að uppkveðnum úrskurði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 1. október 2020.

Málavextir: Með bréfi, dags. 4. desember 2019, til eiganda Fákaflatar, landnr. 209731, óskaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra eftir skýringum á stöðu mannvirkja (skúr/smáhýsi og gám) á lóðinni Fákaflöt. Með bréfi, dags. 14. apríl 2020, tilkynnti embættið eigendum Fákaflatar að færa þyrfti nefnd mannvirki til þannig að það yrði í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum Skeggjastaða, landnr. 194858. Að auki þyrfti að skila inn hönnunargögnum fyrir fyrrgreind mannvirki, sem að mati byggingarfulltrúa virtust flokkast sem tilkynningarskyld framkvæmd skv. i-lið í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2020, óskaði eigandi Fákaflatar eftir teikningum og mælingum sem framkvæmdar hefðu verið þannig að hægt yrði að taka upplýsta ákvörðun um hvort ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa yrði andmælt eða ekki.

Með bréfi, dags. 11. júní 2020, ítrekaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að skila yrði inn hönnunargögnum vegna nefndra mannvirkja, að öðrum kosti yrði að fjarlægja þau og afmá allt jarðrask. Ef ekki yrði brugðist við ítrekuðum óskum skipulags- og byggingarfulltrúa innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi embættið láta fjarlægja mannvirkin á kostnað landeiganda Fákaflatar.

Með umsókn, dags. 8. júlí 2020, sótti eigandi Fákaflatar um stöðuleyfi fyrir tvo gáma frá 9. s.m. til 9. júlí 2021. Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra 24. júlí 2020 var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að gámar yrðu staðsettir innan lóðamarka Fákaflatar, landnr.209731, og var sú afgreiðsla staðfest á fundi byggðaráðs Rangársþings eystra 30. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að um gámahús sé að ræða og sé búið að leiða bæði vatn og rafmagn í þau og þar rekin atvinnustarfsemi í formi hundaræktunar. Kærandi hafi aldrei verið beðinn um eða veitt leyfi fyrir lausagöngu hunda á landi sínu. Gámahús séu ekki gámar samkvæmt leiðbeiningum Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar og séu því ekki stöðuleyfisskyld. Samkvæmt byggingarreglugerð séu sumar framkvæmdir ekki byggingarleyfisskyldar, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Þær lóðir sem um ræði í þessu máli séu ódeiliskipulagðar.

Málsrök Rangárþings eystra: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðuleyfisumsókn eiganda Fákaflatar, dags. 8. júli 2020, hafi verið tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra hinn 20. júlí 2020. Á fundinum hafi verið bókað að skipulagsnefnd samþykkti að veita stöðuleyfi frá 9. júlí 2020 til 8. júlí 2021 með þeim fyrirvara að gámarnir yrðu staðsettir innan lóðarmarka umsækjanda. Byggðaráð hefði staðfest niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi sínum 30. júlí 2020.

Heimild til útgáfu stöðuleyfis sé að finna í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar segi í gr. 6.1.1: „Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld.“ Á grundvelli umræddrar heimildar hafi Rangárþing eystra talið sig hafa fulla heimild til útgáfu stöðuleyfis með þeim hætti sem gert hafi verið. Áréttað sé að stöðuleyfi sé í eðli sínu tímabundið leyfi. Hið umþrætta stöðuleyfið falli því samkvæmt efni sínu úr gildi um mitt næsta ár.

Í fyrirliggjandi stöðuleyfi sé sérstaklega tekið fram að leyfið taki einungis til þess að setja gámanna niður innan þess lands sem tilheyri Fákaflöt, landnr. 20973. Leyfishafi hafi því enga heimild frá sveitarfélaginu til að setja gámanna niður á landi sem tilheyri kæranda eða öðrum aðilum. Komi það raunar skýrt fram í afgreiðslu skipulagsnefndar frá 20. júní 2020.

Almennt taki sveitarfélagið ekki afstöðu til ágreinings fasteignareigenda um lóðamörk eða landamerkja bújarða. Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem aðilar verði að leysa úr sjálfir eftir þeim reglum sem um það gildi.

Þrátt fyrir þetta hafi Rangárþing eystra verið í samskiptum við lögmann eigenda Fákaflatar í því skyni að fá upplýst hvort umþrættir gámar væru innan lóðar hans. Ef gámarnir séu að hluta til eða öllu leyti utan lóðamarka Fákaflatar sé ljóst að staðsetning þeirra sé ekki í samræmi við útgefið stöðuleyfi. Það þýði þó ekki að stöðuleyfið sem slíkt sé ólögmætt. Á hinn bóginn sé ljóst að ef gámarnir séu að hluta til inn á landi kæranda geti hún krafist fjarlægingar þeirra að öðrum skilyrðum uppfylltum. Sömu heimild hafi skipulagsyfirvöld.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð sú krafa að kærunni verði vísað frá sökum aðildarskorts. Kærandi titli sig sem eiganda jarðarinnar Skeggjastaðar en skráður eigandi þeirrar jarðar sé Nínukot ehf. Ekki sé hægt að sjá með hvaða hætti kærandi málsins eigi aðild að umræddu máli á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rétt sé að benda á að kærandi komi fram fyrir sína hönd persónulega en ekki annars aðila eða lögaðila. Í ljósi þessa telji leyfishafi að vísa eigi kærunni frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts, enda ekki hægt að sjá með nokkru móti hvernig kærandi hafi lögmæta hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Þá sé kæran með öllu óljós og í henni sé fjallað um hluti sem eigi ekki inn á borð hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Málið sé einfalt í augum leyfishafa, sótt hafi verið um stöðuleyfi sem hafi verið veitt. Ekkert sé við málsmeðferð skipulags- og byggingarráðs Rangárþings eystra að setja og leyfisveiting þeirra fullkomlega lögleg að mati leyfishafa.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að lóðin sem um ræði sé þinglýst eign hans, með fastanúmer 2341917 og landnúmer 194858, og sé hún lögbýlinu Skeggjastöðum óviðkomandi.

Gámahúsin hafi ekki verið innan lóðarmarka Fákaflatar þegar stöðuleyfi hafi verið veitt og séu það ekki ennþá nú 3 mánuðum síðar. Það sé óumdeilt. Þetta séu ekki gámar ætlaðir til tímabundinnar geymslu heldur tvö samliggjandi gámahús með verönd sem standi enn lengra inn á lóð kæranda en gámahúsin og séu ætlaðir fyrir atvinnustarfsemi, það er hundarækt þar sem fjöldi hunda hafi nú íveru. Umferð að þeim, bæði manna og dýra, gangandi og akandi sé því öll um lóð kæranda án heimildar.

Svör Rangárþings eystra skorti rökstuðning fyrir því á hvaða lagaforsendum og reglugerðum byggt hafi verið á þegar tekin hafi verið sú stjórnvaldsákvörðun að veita stöðuleyfi á lóð kæranda án samþykkis. Í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi vissulega að gámar falli undir heimildarákvæði stjórnvalds til veitingu stöðuleyfis, en í leiðbeiningum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar um grein 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé í grein 2 skýring á hvaða hlutir falli undir stöðuleyfi og tekið fram að svokölluð gámahús falli ekki þar undir. Þar sé ekki að finna heimild til að veita stöðuleyfi gámum eða gámahúsum á lóð annarra hvorki tímabundið, með fyrirvara eða afturvirkt og framvirkt.

—–

Með tölvupósti 1. nóvember 2020 upplýsti kærandi úrskurðarnefndina um að umþrætt gámahús hefðu verið færð 10 cm inn fyrir lóðarmörk Fákaflatar.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var þeim tilmælum beint til leyfishafa að fjarlægja mannvirki sín þannig að þau yrðu í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum Skeggjastaða, landnr. 194858, en um þinglýsta eign kæranda er að ræða sem stofnuð var árið 2003 úr jörðinni Skeggjastaðir, landnr. 163963 sem er í eigu Nínukots ehf., en kærandi er forráðamaður og stjórnarmaður félagsins verður kæru þessari því ekki vísað frá sökum aðildarskorts.

Í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að sveitarstjórnum sé heimild að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. útgáfu stöðuleyfa. Þá mælir 60. gr. nefndra laga fyrir um setningu reglugerða á grundvelli laganna og skulu skv. 9. tl. ákvæðisins m.a. vera í reglugerð skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa, kveðið á um atriði sem varða öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki eru uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er með stoð í lögunum, skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda, en hann er skv. skilgreiningu í 51. tl. í gr. 1.2.1. í reglugerðinni er leyfisveitandi það stjórnvald, þ.e. byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem gefur út eða á að gefa út byggingarleyfi skv. reglugerðinni. Eru það enda þeir aðilar sem veita byggingarleyfi skv. ákvæðum 9.-11. gr. mannvirkjalaga nema til staðar sé sérstök samþykkt skv. 7. gr. mannvirkjalaga, en slík samþykkt virðist ekki vera fyrir hendi.

Svo sem áður er lýst tók skipulagsnefnd Rangárþings eystra, á fundi sínum 20. júlí 2020, ákvörðun um að samþykkja umsókn leyfishafa um stöðuleyfi, og var umsóknin einnig samþykkt á fundi byggðaráðs sveitarfélagsins 30. s.m. Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið slíka ákvörðun í málinu, en samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum falið það vald að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfi í hverju tilviki. Var hin kærða ákvörðun því ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki liggur fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál og borin verður undir úrskurðarnefndina. Verði slík ákvörðun tekin af byggingarfulltrúa er hún hins vegar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sama gildir taki hann ákvörðun um að umdeild mannvirki verði fjarlægð, en slíkar ákvarðanir eru jafnframt á forræði byggingarfulltrúa.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.