Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2023 Urðarstígur

Með

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 78/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, um að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Urðarstígs 6 og 6a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. júlí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars. sl. var samþykkt leyfi til að byggja viðbyggingu við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Við athugun byggingarfulltrúa og eldvarnareftirlits, eftir að kæra þessa kom til nefndarinnar, var álitið að brunavörnum væri áfátt. Í framhaldi þess stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir á lóðinni 5. júlí. sl. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. júlí sl. var síðan samþykkt umsókn um breytingu varðandi bættar brunavarnir á suðurgafli fyrirhugaðrar viðbyggingar. Í framhaldi aflétti byggingarfulltrúi stöðvun framkvæmda. Var sú ákvörðun, sem fól í sér útgáfu nýs byggingarleyfis, einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar og hefur fengið málsnúmerið 86/2023.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa gert athugasemdir við breytingu á deiliskipulagi vegna framkvæmdanna fyrir Urðarstíg 4 þess efnis að fara skyldi eftir fyrirmælum reglugerðar sem varði brunavarnir og fjarlægð frá lóðarmörkum. Engin gögn hafi ó borist honum um hvernig brugðist hafi verið við þeim athugasemdum. Við útgáfu byggingarleyfisins hafi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um fjarlægð milli húsa með tilliti til brunavarna ekki verið fylgt eftir. Fjarlægð viðbyggingar Urðarstígs 4 frá húsinu að Urðarstíg 6A sé hvorki nefnd í deiliskipulagi né byggingarleyfi, enda um að ræða brot á reglugerð. Viðbyggingin við suðurgafl Urðarstígs 4 sé um einn metra frá Urðarstíg 6A og innan við 6 metra frá Urðarstíg 6. Þessar fjarlægðir komi ekki fram með réttum hætti á teikningum. Þetta séu mun minni fjarlægðir en reglugerð heimili. Þá sé skúrbygging á lóð Urðarstígs 4 í 50 cm fjarlægð frá útvegg Urðarstígs 6A og á lóðarmörkum sem stórauki hættu á reitnum án þess að tekið hafi verið tillit til þessa við afgreiðslu byggingarleyfis.

Þær undanþágur sem veittar hafi verið með þessu frá reglugerð séu óskiljanlegar í ljósi þess að húsin við Urðarstíg 4 og 6 séu gömul timburhús og húsið á Urðarstíg 6A sé byggt árið 1922  úr holsteini og sé með stórt þakskyggni úr viði. Veruleg brunahætta hafi orðið til með breytingum á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis. Sér hafi ekki verið kynnt að byggingafulltrúi hygðist gefa undanþágur frá reglugerð og ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins. Þess er krafist að framkvæmdir verði umsvifalaust stöðvaðar og teikningum breytt þannig að fjarlægðir á milli húsanna og viðbyggingar, sem settar sé fram í bruna- og byggingareglugerð verði að fullu virtar án undantekninga. Jafnframt að gluggalaus brunaveggur verði látinn snúa að húsunum á Urðarstíg 6 og 6A sem og að leyfi fyrir svölum og stiga sem snúi að Urðarstíg 6 og 6A, í mjög lítilli fjarlægð frá lóðarmörkum, verði afturkallað. Þá er þess óskað að skúrbygging sem standi í leyfisleysi 50 cm frá útvegg Urðarstígs 6A verði færð 3 metra frá lóðarmörkum og tekin inn í brunaúttekt á framkvæmdum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er staðhæft að fjarlægð frá húsinu á Urðarstíg 6 að steyptum kjallara viðbyggingarinnar sé um 6 metrar. Einnig séu 6 metrar frá efri hæð viðbyggingarinnar og að sömu byggingu. Því sé ekki talin vera sambrunahætta fyrir hendi. Samkvæmt samþykktu breytingarerindi frá 11. júlí sl. vegna suðvesturhorns viðbyggingarinnar sem snúi að Urðarstíg 6A verði gluggar í viðbyggingu með brunakröfu E30 og utanhúsklæðning eldvarin timburklæðning í flokki 2. Sé þannig ákvæðum gr. 9.6.26 (töflu 9.0) varðandi glugga, gr. 9.7.3., varðandi timburklæðningu og 9.7.5 (tafla 9.09) varðandi lágmarksfjarlægðir á milli bygginga uppfyllt. Í ljósi framangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum beri jafnframt að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda og kveða upp fullnaðarúrskurð í málinu.

Málsrök leyfishafa: Hafnað er fullyrðingum kæranda um að fjarlægð viðbyggingar sé ekki í samræmi við reglugerð. Í brunavarnarlýsingu á aðaluppdrætti fyrir Urðarstíg 4 komi fram að fjarlægð í næstu byggingu frá kjallara sé um 6 metrar og um 6.6 metrar séu frá efri hæð og að sömu byggingu. Við hönnun viðbyggingarinnar hafi verið hugað sérstaklega að þessu og hafi verkfræðingur verið fenginn til þess að kynna málið fyrir slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þann 8. nóvember 2022. Jafnframt er staðhæft að fjarlægð milli viðbyggingar Urðarstígs 4 og Urðarstígs 6A sé 1.70 metrar en ekki 1 metri. Einnig sé því hafnað að engar fjarlægðarmælingar hafi verið sýndar á milli húsanna. Hið rétta sé að á uppdrætti í deiliskipulagstillögu komi fram að útveggur viðbyggingar nái 300 cm frá húsinu. Að auki hafi aldrei staðið til að hafa aðeins tvo glugga á þeirri hlið Urðarstígs 4 sem snúi að Urðarstíg 6A. Þá sé skúrbygging sú sem kærandi fari fram á að verði færð um þrjá metra 14.9 fermetrar og hafi því ekki þarfnast byggingarleyfis. Þá hafi skýrinn verið reistur áður en kærandi varð eigandi að Urðarstíg 6A og með samþykki fyrrverandi eigenda. Af fyrirliggjandi gögnum málsins megi glögglega sjá að málið hafi fengið alla þá málsmeðferð sem tilgreind sé í skipulagslögum nr. 123/2010 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. mars 2023, um að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Meðan mál þetta var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni voru framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa vegna brunavarna. Gefið var út nýtt byggingarleyfi 11. júlí sl. sem hefur verið kært til nefndarinnar en með því var fyrra leyfi fellt niður. Í ljósi þess verður kæru þessari vísað frá nefndinni, enda á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn nefndarinnar um gildi þess leyfis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

80/2023 Mælimastur í Grjóthálsi

Með

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 80/2023, kæra á synjun Skipulagsstofnunar frá 31. maí 2023 á að staðfesta óverulega breytingu  á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 vegna mælimasturs á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 29. júní 2023, sem móttekið var sama dag hjá úrskurðarnefndinni kæra eigendur jarðanna Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð synjun Skipulagsstofnunar frá  31. maí 2023 um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar vegna mælimasturs á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða.

Þess er krafist að synjun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og að breyting á aðalskipulagi Borgarbyggðar sem samþykkt var í sveitarstjórn 13. apríl 2023, þess efnis að heimila tímabundið mælimastur, til 12 mánaða, á Grjóthálsi í landi Sigmundastaða, verði staðfest.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 29. júní 2023.

Málsatvik: Að því greinir í kæru áforma eigendur jarðanna Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð að reisa rannsóknar- eða mælimastur fyrir vindafl í landi Sigmundarstaða. Muni hæð mastursins verða allt að 98 metrar og mælingar standa í allt að 12 mánuði, en mastrið verði þá fjarlægt.

Framkvæmdin hefur tvisvar áður komið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 28. desember 2021 í máli nr. 169/2021 var álitið að mastrið væri ekki háð framkvæmdarleyfi samkvæmt reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í framhaldi þessa var tilkynnt um uppsetningu mastursins til Borgarbyggðar með vísan til gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð, þar sem mælt er fyrir um að tímabundin rannsóknarmöstur séu tilkynningarskyld. Synjað var á hinn bóginn um framkvæmdina á fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar 4. nóvember 2022, þar sem álitið var að hún væri ekki samrýmanleg aðalskipulag sveitarfélagsins og var byggingafulltrúa falið að synja um heimild til framkvæmdarinnar, sem hann gerði 11. sama mánaðar. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 7. mars 2023, í máli nr. 136/2022, var því hafnað að fella þá ákvörðun úr gildi.

Með bréfi til Borgarbyggðar, dags. 29. mars 2023, óskuðu kærendur eftir því að gerð yrði breyting á aðalskipulagi vegna mælimastursins. Var af því tilefni vísað til 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem varðar óverulegar breytingar á aðalskipulagi. Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 13. apríl 2023 var slík breyting á aðalskipulagi samþykkt og með bréfi, dags. 2. maí s.á., var hún send Skipulagsstofnun til staðfestingar. Með bréfi, dags. 31. s.m. tilkynnti Skipulagsstofnun um synjun á staðfestingu þeirrar breytingar á aðalskipulagi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að synja um staðfestingu á óverulegri breytingu sveitarfélags á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en þar er mælt fyrir um að fallist stofnunin ekki á að um óverulega breytingu sé að ræða skuli hún tilkynna sveitarstjórn um það og fari þá um málsmeðferð eins og um gerð aðalskipulags sé að ræða.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða þó ekki bornar undir úrskurðarnefndina. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar eða ráðherra. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar eða eftir atvikum ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Gildir einnig hið sama um óverulegar breytingar sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.

Samkvæmt greindum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að endurskoða lögmæti ákvarðana um aðalskipulag og breytingar á því og verður af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

58/2023 Ráðagerði

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 20. október 2022 um að falla frá fyrirhugaðri breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012–2024 vegna efnistöku í landi Ráðagerðis og ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. apríl 2023 um að skilyrða framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar tjarnar í því landi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir A, eigandi Ráðagerðis, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 20. október 2022 að falla frá fyrirhugaðri breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012–2024 vegna efnistöku í landi kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er kærð ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. apríl 2023 um að skilyrða framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar tjarnar í landi kæranda við gerð hljóð­mana, landmótunar og vegar. Gerir kærandi þær kröfur að upphaflegar áætlanir um breytingu á aðal­skipulagi nái fram að ganga og að leyfið verði ekki háð tímamörkum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 16. og 23. maí 2023.

Málavextir: Með umsókn, dags. 20. febrúar 2021, sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til efnis­töku, haugsetningar og landmótunar vegna fyrirhugaðrar tjarnar í landi Ráðagerðis, sem er á svæði fyrir frístundabyggð samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012–2024. Fram kom í umsókninni að fyrirhuguð tjörn yrði 40.000 m2 að flatarmáli að framkvæmdum loknum. Óskað væri eftir tímabundnu leyfi til efnistöku og/eða haugsetningar á u.þ.b. 120.000 m3 af jarðefni. Eitt­hvað af efninu yrði keyrt út af svæðinu, en einnig þyrfti að nýta efni til vegagerðar. Væri áætlaður framkvæmdatími 5–7 ár. Á fundi skipulagsnefndar 4. mars s.á. var lagt til við sveitar­stjórn að gerð yrði breyting á aðalskipulagi er fælist í því að gert yrði ráð fyrir efnis­vinnslu á svæðinu á meðan unnið væri við landmótun samkvæmt deiliskipulagi. Samþykkti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi 11. s.m. Í kjölfar þess gerði verkfræðistofa skipulagslýsingu vegna fyrir­hugaðrar aðalskipulagsbreytingar. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 6. apríl 2021 var skipulagslýsingin samþykkt og mæltist nefndin til þess að hún yrði send Skipulags­stofnun og hagsmunaaðilum til umsagnar ásamt því að hún yrði kynnt fyrir almenningi. Samþykkti sveitarstjórn þá tillögu á fundi sínum 8. s.m. Á auglýsingatíma bárust umsagnir frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og eigendum nærliggjandi jarða auk annarra aðila. Skipulags- og umhverfisnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi 4. október 2022 og lagði til við sveitarstjórn að fallið yrði frá fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu. Samþykkti sveitarstjórn þá tillögu á fundi 20. s.m.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 14. febrúar 2023 var tekin fyrir áðurgreind umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi. Lagði nefndin til við sveitarstjórn að leyfið yrði skilyrt við gerð hljóðmana, landmótunar og vegar á svæðinu í samræmi við gildandi deiliskipulag frístunda­byggðarinnar, þ.e. að ekki yrði um efnisflutning af svæðinu að ræða. Jafnframt að leyfið myndi gilda tímabundið til 1. september 2023. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi sveitarstjórnar 9. mars s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi sveitar­stjórnar 13. apríl 2023 og bókað að beiðni kæranda um frestun málsins öðru sinni væri hafnað. Staðfesti sveitar­stjórn bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 14. febrúar s.á. og samþykkti að framkvæmda­leyfi yrði veitt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í umsögnum Skipulagsstofnunar og Umhverfis­stofnunar hafi ekki verið lagst gegn aðalskipulagstillögunni. Umsagnir frá nágrönnum hafi ekki verið bornar undir kæranda í samræmi við andmælareglu stjórnsýsluréttar. Til að koma til móts við kvartanir eigenda jarðarinnar Brúar væri hægt að leggja vegi „niður viðkomandi nágranna­spildur“ og hætta þar með við umferð fram hjá Brú og öðrum nágrannabæjum. Bent sé á að hin umrædda skipulagsbreyting hafi falið í sér mokstur á efni vegna tjarnargerðar sem hefði síðan verið keyrt á brott til notkunar í steinsteypu, olíumöl, malbik, vegagerð eða í öðrum tilgangi, en að öðrum kosti þyrfti að haugsetja allt efni og væri það á skjön við gildandi skipulag. Auk þess sé fyrirhuguð nýting virðisaukandi og hagkvæm fyrir umhverfið. Kærandi hafi lagt út í mikinn kostnað vegna skýrslugerðar fyrir skipulagsbreytinguna.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið fer fram á að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Sveitarstjórn hafi hafið undirbúnings- og kynningaraðgerðir vegna fyrir­hugaðrar skipulagsbreytingar, en hafi fallið frá þeim áformum þegar umsagnir og athugasemdir hafi borist. Engin kæranleg stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin. Hafa beri í huga að skipulags­valdið sé í höndum sveitarstjórnar, en henni sé heimilt að kanna grundvöll til breytinga á skipulagi án þess að verða um leið skylt að hrinda slíkum breytingum í framkvæmd. Hið lög­bundna ferli skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einkum VII. kafla laganna, geri einmitt ráð fyrir slíku ferli. Aldrei hafi komið til þess að tillaga að breyttu aðalskipulagi hafi verið auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga og kærandi hafi ekki haft réttmætar væntingar til þess að skipulaginu yrði breytt. Telji úrskurðarnefndin að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun sé að ræða bendi sveitar­félagið á að kærufrestur sé liðinn, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Krafa kæranda varðandi samþykki framkvæmdaleyfis með skilyrðum sé svo samþætt kröfu hans um að aðalskipulagsbreytingin nái fram að ganga að öll fyrrgreind sjónarmið um frávísun eigi við hér. Að auki sé ákvörðun um að fallast á umsókn um framkvæmdaleyfi ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 20. október 2022 um að falla frá fyrirhugaðri breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012–2024 vegna efnistöku í landi kæranda sem er á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð, en sveitar­stjórn hafði áður samþykkt á fundi sínum 11. mars 2021 að gerð yrði breyting á aðalskipulaginu er fólst í því að gert yrði ráð fyrir efnisvinnslu á landinu.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða þó ekki bornar undir úrskurðarnefndina. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð sam­þykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar eða ráðherra. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulags­­stofnunar eða eftir atvikum ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Samkvæmt greindum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að endurskoða lögmæti ákvarðana um aðalskipulag og breytingar á því. Eðli máls samkvæmt fellur það einnig utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til gildis einstakra ákvarðana við undir­búning og málsmeðferð þeirra. Sá hluti kærumáls þessa er lýtur að ákvörðun sveitar­stjórnar um að falla frá breytingu á aðalskipulagi sveitar­félagsins frá 20. október 2022 verður af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Í málinu er jafnframt kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. apríl 2023 að skilyrða framkvæmda­leyfi vegna umsóknar kæranda um gerð tjarnar í landi hans við gerð hljóðmana, landmótun og gerð vegar. Einnig var samþykkt að leyfið myndi gilda tímabundið til 1. september 2023. Að virtum atvikum þessa máls verður að skilja málatilbúnað kæranda á þá leið að sú krafa sé gerð að skilyrði þau sem sveitarstjórn setti fyrir útgáfu leyfisins verði felld úr gildi en að samþykki sveitarstjórnarinnar á umsókn hans standi að öðru leyti óraskað. Samkvæmt 3. málsl. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins. Fyrir liggur að kærandi sótti um leyfi fyrir framkvæmd, þ.e. gerð fyrirhugaðrar tjarnar, sem var og er ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins. Var sveitarfélaginu því heimilt að setja umrædd skilyrði og verður af þeim sökum að hafna þeirri kröfu kæranda að fella beri þau úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 13. apríl 2023 um að skilyrða framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar tjarnar í landi kæranda við gerð hljóðmana, landmótun og vegar er hafnað.

Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.

28/2023 Efnistaka í Hrossadal

Með

Árið 2023, mánudaginn 3. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 28/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. janúar 2023 um að synja umsókn um að skilgreint verði nýtt efnistöku- og efnislosunarsvæði í Hrossadal í aðalskipulagi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðdalur ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. janúar 2023 að synja umsókn um að skilgreint verði nýtt efnistöku- og efnislosunarsvæði í landi Hrossadals í aðalskipulagi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 28. mars og 3. apríl 2023.

Málavextir: Kærandi sótti um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar vegna efnistöku í landi Hrossadals sem er í eigu kæranda. Hinn 3. október 2018 tók bæjarstjórn Mosfellsbæjar þá ákvörðun að ráðast í endurskoðun Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011–2030. Á fundi skipulagsnefndar 1. febrúar 2019 var erindi kæranda vísað til endurskoðunar aðalskipulags.

Samkvæmt gögnum málsins ítrekaði kærandi erindi sitt með tölvupóstum til bæjaryfirvalda á árunum 2020 og 2021 og fékk þau svör að málið væri í farvegi og hann yrði upplýstur um stöðu málsins. Á fundi skipulagsnefndar 14. desember 2022 var umsókn kæranda tekin fyrir og synjað með rökstuðningi. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi 18. janúar 2023. Er kærandi spurðist fyrir um stöðu málsins upplýsti skipulagsfulltrúi hann um framangreinda afgreiðslu með tölvupósti 27. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á þeim tíma sem málið hafi verið til meðferðar hafi ítrekað verið leitað upplýsinga um stöðu málsins en aldrei hafi fengist önnur svör en að málið væri í vinnslu. Kærandi hafi þó oft boðið fram aðstoð sína við upplýsingaöflun. Sveitarfélagið hafi brotið gegn andmæla- og upplýsingarétti kæranda, sbr. 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kærandi hafi ekki verið upplýstur um aðkomu tiltekins ráðgjafa um umhverfismál við vinnslu aðalskipulagsins og gagna sem stafað hafi frá honum en þau hafi haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar. Ekki hafi verið leitað til kæranda um sjónarmið sem horft hafi verið til við töku hinnar kærðu ákvörðunar og hvort hægt væri að mæta þeim með mótvægisaðgerðum og skilyrðum. Því sé einnig um brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að ræða. Mikilvægt sé að öll sjónarmið sem máli skipti séu könnuð til hlítar, m.a. með upplýsingaöflun frá málsaðila, en verulega vanti upp á það í málinu.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að bæjarstjórn hafi samþykkt 3. október 2018 að hefja endurskoðun aðalskipulags, sbr. gr. 4.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, og hafi hún hafist formlega hjá sveitarfélaginu haustið 2020. Þá hafi erindi og tillaga kæranda verið til formlegrar meðferðar og umfjöllunar. Endurskoðun aðalskipulagsins standi enn yfir og því líti sveitarfélagið svo á að málið sé enn til meðferðar hjá sveitarfélaginu. Því liggi ekki fyrir endanleg ákvörðun í máli þessu. Hin kærða ákvörðun sé aðeins einn hluti ferlis við gerð og undirbúning nýs aðalskipulags, kynningu og samráðs skv. 30. gr. skipulagslaga. Aðsendum tillögum og óskum hafi ýmist verið synjað eða samþykkt um innleiðingu breytinga í frumdrög aðalskipulags, sem síðar verði kynnt í samræmi við 2. mgr. sömu lagagreinar. Bæjaryfirvöld hafi því ekki tekið endanlega ákvörðun um efni aðalskipulagsins eða staðfest tillögurnar, enda sé um vinnudrög að ræða. Engin endanleg stjórnsýsluleg ákvörðun hafi verið tekin um nýtt aðalskipulag í samræmi við 32. gr. skipulagslaga. Hagaðilum muni gefast tækifæri til athugasemda við stefnumörkun skipulagsins þegar eftir því verði leitað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir rökum sveitarfélagsins um að vísa eigi málinu frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi formleg ákvörðun skipulagsnefndar og bæjarstjórnar um að synja erindi kæranda um að færa fyrirhugaða námu í aðalskipulag, en það sé forsenda þess að unnt sé að sækja um nýtingarleyfi. Langur tími sé liðinn frá því að kærandi hafi leitað til sveitarfélagsins og því sé nauðsynlegt að fá efnislegan úrskurð í málinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á erindum kæranda um breytta landnotkun á landareign hans í Mosfellsbæ. Kærandi sótti um breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og hefur mál hans verið til meðferðar hjá sveitarfélaginu allt frá árinu 2016, en um haustið það sama ár ákvað bæjarstjórn að hefja endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.

Ákvarðanir og stefna um landnotkun eru almennt teknar með aðalskipulagi en sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð og afgreiðslu þess samkvæmt 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga kemur fram að aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga.

Í erindi kæranda um breytta landnotkun felst beiðni um breytingu Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011–2030. Endurskoðun þess skipulags stendur nú yfir og var erindi kæranda sett í þann farveg hjá sveitarfélaginu, svo sem rakið hefur verið fyrir nefndinni. Málsmeðferð vegna endurskoðunarinnar mun ljúka með staðfestingu Skipulagsstofnunar og eftir atvikum ráðherra. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að fjalla um greint álitaefni.

Af því sem að framan er rakið er ljóst að ekki er fyrir hendi nein sú ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndin. Verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

79/2023 Hvalvinnslustöð

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 28. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 79/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um að fylgja ekki eftir athugasemdum um frávik frá starfsleyfiskröfum um vatnstöku vegna starfsleyfis Hvals hf. fyrir vinnslu á hvalaafurðum, sem og að veita viðbótarfrest til úrbóta vegna frávika frá starfsleyfiskröfum sama leyfis um olíuvarnir.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands að fylgja ekki eftir athugasemdum um frávik frá starfsleyfiskröfum um vatnstöku vegna starfsleyfis Hvals hf. fyrir vinnslu á hvalaafurðum, sem og að veita viðbótarfrest til úrbóta vegna frávika frá starfsleyfiskröfum sama leyfis um olíuvarnir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Hvalur hf. rekur hvalvinnslustöð á Litla Sandi í Hvalfjarðarsveit á grundvelli starfsleyfis útgefnu 12. júlí 2010 af Heilbrigðiseftirliti Vesturlands í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Upphaflegur gildistími leyfisins var til 12. júlí 2022 en hann var síðar framlengdur til 12. júlí 2023. Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins, dags. 13. júní 2022, vegna eftirlits sem fram fór á hvalvinnslustöðinni 9. s.m., voru gerðar athugasemdir vegna frávika frá starfsleyfiskröfum um vatnstöku og olíuvarnir. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 1. júní s.á., vegna upplýsinga um þá ósk leyfishafa að veittar yrðu undanþágur frá starfsleyfiskröfum, kemur fram að heilbrigðiseftirlitið hefði ekki talið ekki ástæðu til að fylgja eftir athugasemdum vegna frávika frá kröfum starfsleyfisins um vatnstöku auk þess sem leyfishafa hefði verið veitt frestur til að gera úrbætur vegna frávika tengdum olíuvörnum til miðs júní 2024.

Kærandi byggir á því að með ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands sé ólögmætu ástandi viðhaldið á ófullnægjandi og ólögmætum grundvelli. Ákvörðunin leiði ekki aðeins til þess að brotið sé gegn starfsleyfiskröfum heldur sé leyfishafa í raun veitt undanþága frá leyfis-, reglu- og lagaskilyrðum út starfstímabil sitt. Ákvörðunin hafi verið í andstöðu við kröfur 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnvaldið hafi brugðist eftirlitsskyldum sínum skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1998, sbr. einnig 8. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, 5. gr. reglugerðar nr. 884/2017 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi og 12. gr. reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Þá teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, varðandi þær ákvarðanir, athafnir og athafnaleysi sem taldar eru upp með tæmandi hætti í stafliðum nefndrar 3. mgr. 4. gr. Hin kærða ákvörðun varðar eftirlit með atvinnurekstri vegna starfsleyfis sem gefið er út í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 55. gr. laganna, en ákvörðun þar að lútandi fellur ekki undir stafliði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi, sem er náttúruverndarsamtök, nýtur því ekki kæruaðildar á þeim grundvelli. Þá er ekki að finna lagagrundvöll fyrir kæruaðild náttúruverndarsamtaka í lögum nr. 7/1998. Að því virtu og þar sem ekki liggur fyrir að samtökin eigi einstaklegra hagsmuna að gæta umfram aðra vegna hinnar kærðu ákvörðunar verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

64/2023 Sigtún

Með

Árið 2023, föstudaginn 23. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fyrir:

Mál nr. 64/2023 kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar á tillögu um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 22. maí 2023, kærir eigandi, Sigtúni 2, Selfossi, afgreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar á breytingu deiliskipulags miðbæjar Selfoss. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar skilmála skipulagsins um að reist verði þrjú hús og sorpgámar sunnan við lóð kæranda og að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað sem og fyrirhugaðri íbúðarkosningu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 12. og 23. júní 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar 18. janúar 2023 var samþykkt að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss frá árinu 2021. Fram kom í fundargerð að skipulagsreiturinn afmarkaðist af Eyravegi og Austurvegi til norðurs og aðliggjandi íbúðarlóðum við Tryggvagötu til austurs, Sunnuvegi til suðurs og Kirkjuvegi til vesturs. Meginbreytingin fælist í því að syðst á svæðinu væri bætt við niðurgrafinni göngugötu, Garðatröð, sem tengdist við Kirkjuveg að vestan og austurstíg Sigtúnsgarðs að austan. Sunnan við Garðatröð og austan við austurstíginn á móts við lóðina Sigtún 2 væri bætt við byggingarreitum fyrir lágreist hús að hámarki tvær hæðir og ris. Lóðamörkum lóða sunnan Miðstrætis væri breytt og nýjar lóðir afmarkaðar. Jafnframt var samþykkt að íbúum yrði gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um tillöguna í ráðgefandi könnun á vefnum Betri Árborg.

Tillagan var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 17. maí 2023 þar sem tekið var undir framkomnar athugasemdir um að tveggja hæða hús svo nærri Sigtúni 2 teldist helst til of há. Lagt var til að umfang bygginga yrði minnkað með lækkun í einnar hæðar hús með risi í samræmi við framlögð skuggavarpsgögn og tillagan samþykkt með fyrirvara um lagfærð gögn. Á fundi bæjarstjórnar 21. júní 2023 var tillagan tekin fyrir og samþykkt.

Af hálfu kæranda er bent á að deiliskipulagsuppdráttur gefi ekki rétta mynd af staðsetningu umræddra húsa. Fyrirhugaðar byggingar muni hafa mikil grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda en einnig auka á eldhættu vegna nálægðar við hús hans. Um stórvægilegar breytingar sé að ræða. Sé kæra þessi borin fram þar sem sveitarfélagið hafi ekki svarað erindi kæranda og greinilegt sé að ekkert samráð eigi að vera við íbúa.

Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Enn sé verið að fjalla um hugsanlega breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ráðgefandi könnun á afstöðu íbúa til breytinga á deiliskipulaginu hafi farið fram á tímabilinu 18.-25. maí 2023 og hafi 89% þeirra sem greiddu atkvæði verið hlynntir breytingartilllögu. Þá séu engar framkvæmdir hafnar á grundvelli fyrirliggjandi tillögu en framkvæmdir sem nú standi yfir byggi á núverandi deiliskipulagi.

Niðurstaða: Er úrskurðarnefndinni barst kæra í máli þessu var tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss til meðferðar hjá sveitarfélaginu líkt og að framan er rakið. Á fundi bæjarstjórnar 21. júní 2023 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss samþykkt og verður að líta svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu. Hefur sveitarfélagið hins vegar upplýst úrskurðarnefndina um að þar sem láðst hafi að taka sérstaklega fyrir framkomnar athugasemdir við meðferð málsins verði það tekið aftur fyrir á næsta bæjarráðsfundi.

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Jafnframt skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsbreyting hefur hvorki hlotið lögmætisathugun Skipulagsstofnunar né verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

50/2023 Rofabær

Með

Árið 2023, föstudaginn 2. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2023, kæra á „túlkun byggingarfulltrúa[ns í Reykjavík] og [Húsnæðis- og m]annvirkjastofnunar á grein 6.5.3 og 6.5.4 byggingarreglugerðar varðandi hæð og frágang svalahandriða í öryggisúttekt þann 16. mars 2023“, sem fram fór á húsinu að Rofabæ 7-9.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 19. apríl 2023 kærir  annar eigenda Plúsarkitekta ehf. túlkun embættis byggingar­fulltrúans í Reykjavík á ákvæðum byggingarreglugerðar vegna öryggisúttektar 16. mars s.á. Er þess krafist „að túlkun byggingarfulltrúa á reglugerð verði leiðrétt og öryggisúttekt verði staðfest.“

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. maí 2023.

Málavextir: Að Rofabæ 7-9 hefur verið byggt fjölbýlishús á fjórum hæðum með 31 íbúð auk atvinnu- og þjónusturýma á helmingi jarðhæðar. Hönnuðir aðaluppdrátta eru Plúsarkitektar og skrifar kærandi undir uppdrættina. Uppdrættirnir voru samþykktir af byggingarfulltrúanum í Reykjavík með áritun hans hinn 8. júní 2021. Í byggingarlýsingu kemur fram að hæð handriða og handlista sé í samræmi við gr. 6.5. byggingarreglugerðar og að þau séu almennt galvaníseruð og úr máluðu stáli. Á uppdráttum eru handriðin sýnd í 120 cm hæð. Frá svalagólfi og upp í 80 cm hæð eru lóðréttir rimlar með 89 mm bili á milli þeirra. Milli rimla og handriðs er opið bil 39,5 cm hátt. Ekki verður annað ráðið en að frágangur handriða hafi verið með sama hætti og samkvæmt samþykktum uppdráttum.

Byggingu hússins er nú að mestu lokið og sótti umsjónarmaður byggingarstjóra um öryggis­úttekt með ódagsettri beiðni. Fór úttektin fram 16. mars 2023. Við úttektina og í kjölfar hennar komu fram athugasemdir frá embætti byggingarfulltrúa, m.a. við öryggi handriða á svölum hússins, en þau voru ekki talin uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um lágmarks­hæð.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að túlkun byggingarfulltrúans í Reykjavík á gr. 6.5.3. og 6.5.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 geri hönnuðina bótaskylda gagnvart leyfishafa. Lausn kæranda á hönnun svalahandriða­ uppfylli kröfur byggingarreglugerðar eins og hún sé skrifuð. Reglugerðin sé skýr hvað varði kröfur um frágang á handriðum. Óskað hafi verið eftir áliti byggingarfulltrúa og ­Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en svör þeirra hafi verið huglæg og ekki vísað til ákveðinna ákvæða reglugerðarinnar. ­Aðal- og séruppdrættir hafi verið afgreiddar án athugasemda af hálfu byggingarfulltrúa en þær síðan komið fram við öryggisúttekt. Í hönnun handriðsins hafi verið farið eftir leiðbeiningablaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og sé heildarhæð þess 120 cm.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að málinu verði vísað frá þar sem athugasemd skoðunarmanns byggingarfulltrúa sé þáttur í lögbundnu eftirliti byggingar­fulltrúa og feli ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á stjórnsýslumál í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá er minnt á að meðal markmiða laga nr. 160/2010 um mannvirki sé að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Í því skyni mæli lögin fyrir um lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa með mann­virkja­gerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laganna en hluti af því eftirliti feli í sér framkvæmd loka­úttektar og útgáfu vottorðs. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Sama gildi um öryggis­úttekt. Ljóst þyki að umrædd svalahandrið uppfylli ekki kröfur byggingarreglugerðar. Þau séu á nokkrum stöðum einungis 80 cm að hæð, en skv. byggingarreglugerð gr. 6.5.3 og 6.5.4 megi hæð handriða aldrei vera minni en 90 cm. Þá sé 40 cm bil á milli pílára og handlista sem geti skapað hættu þar sem börn geti auðveldlega farið þar í gegn.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu byggingaraðila Rofabæjar 7-9 er tekið fram að hann sé sammála öllum efnisatriðum kærunnar og að þar sem synjað hafi verið um lokaúttekt vegna byggingar­innar væru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun: Stofnunin vísar til þess að ekki verði ráðið að fyrir liggi kæran­leg stjórnvaldsákvörðun af hennar hálfu í málinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma til­­teknar athafnir. Fellur það því utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að gefa byggingar­full­trúa fyrirmæli um útgáfu vottorðs um öryggisúttekt eða mæla fyrir um tiltekna túlkun byggingar­reglugerðar nr. 112/2012, nema þegar um er að ræða að slík túlkun sé hluti máls­meðferðar kæranlegrar ákvörðunar til nefndarinnar.­

Synjun byggingarfulltrúa um útgáfu vottorðs um öryggisúttekt getur falið í sér stjórnvalds­ákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefur útgáfa slíks vottorðs þá réttarverkan að heimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um mannvirki. Liggur nú fyrir að eftir að kæra barst í máli þessu, eða hinn 10. maí 2023, var gefið út vottorð um öryggisúttekt með athugasemdum í kjölfar úrbóta á umræddu húsi, m.a. með því að bili fyrir neðan handrið svala var lokað með viðarþili.

Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, sem borin verður undir úrskurðarnefndina, og verður kærumáli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

40/2023 Skógrækt í Gilsfirði

Með

Árið 2023, föstudaginn 26. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 40/2023, kæra á afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar 2023 um að ekki væri þörf fyrir umhverfismati vegna uppgræðslu á jörðinni Ólafsdal í Gilsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. mars 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Ólafsdalsfélagið, þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar s.á. að ekki væri þörf fyrir umhverfismat vegna fyrirhugaðrar uppgræðslu á jörðinni Ólafsdal í Gilsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 27. apríl 2023.

Málavextir: Við afgreiðslu Skipulagsstofnunar á deiliskipulagi fyrir Ólafsdal, dags. 16. júní 2022, benti stofnunin sveitarstjórn Dalabyggðar á að fyrirhuguð skógrækt á verndarsvæði væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum sbr. lið 1.04 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. einnig 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 6. janúar 2023, óskaði Minjavernd eftir því að Skipulagsstofnun legði mat á hvort fara þyrfti fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirætlana um að koma fyrir lágvöxnum runnum á stökum stað í Ólafsdal og hugsanlega ögn þéttari utan til í dalnum. Skipulagsstofnun svaraði erindinu með tölvupósti 28. s.m. þar sem fram kom m.a. að með hliðsjón af lýsingu Minjaverndar á áformum væri ólíklegt að um skógrækt væri að ræða í skilningi laga nr. 111/2021 og að ef áformin fælu ekki í sér ræktun á skógi, sbr. skilgreiningu á skógi samkvæmt lögum nr. 33/2019, þá féllu þau ekki undir lög nr. 111/2021.

Ólafsdalsfélagið hafði samband við Skipulagsstofnun með tölvupósti 27. febrúar 2023 og kom á framfæri afstöðu félagsins til skógræktar í Ólafsdal ásamt gögnum því tengdu. Sendi félagið frekari gögn með tölvupósti 9. mars s.á. auk þess sem krafist var að áform Minjaverndar færu í ítarlegt umhverfismat. Skipulagsstofnun svaraði félaginu með tölvupósti 20. mars s.á. þar sem fram kom að erindi Minjaverndar hefði verið svarað 28. febrúar 2023. Þá kom fram að þar sem fyrir lægi ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu þá væri málið ekki lengur til meðferðar  auk þess sem það sem það félli ekki undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ólafsdalsfélagið óskaði eftir afriti af erindi Minjaverndar til Skipulagsstofnunar sem og upplýsingum um kærurétt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með tölvupósti 23. mars 2023. Var erindi félagsins svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kom meðal annars að stofnunin hefði ekki kveðið upp neinn úrskurð í málinu heldur hafi Minjavernd verið leiðbeint um það hvort áformin féllu undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þar af leiðandi væri ekki hægt að kæra afgreiðslu Skipulagsstofnunar á málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála væru úr garði gerð. Aftur á móti yrði hægt að kæra framkvæmdaleyfi fyrir umræddum áformum kæmi til útgáfu slíks leyfis af hálfu sveitarfélagsins og krefjast ógildingar á því.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að stærð svæðisins sem Minjavernd hyggist leggja undir skógrægt sé allt að 50 ha á sjö svæðum í dalnum og því sé ljóst að um skógrækt sé að ræða, sbr. 12. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 33/2019 um skóga og skógrækt. Þá muni áformuð plöntun þýða trjávöxt umfram 2 m hæðarviðmið sama ákvæðis. Í bréfi Minjaverndar til Dalabyggðar, dags. 6. júlí 2022, hafi komið fram eindregnar ábendingar um að óráðlegt væri að heimila skógrækt í Ólafsdal. Bæði Fornleifastofnun Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands hafi lagst gegn skógrækt á svæðinu.

Í 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sé fjallað um framkvæmdir sem kunni að vera háðar umhverfismati. Þar segir að tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B í 1. viðauka skuli háðar umhverfismati þegar þær séu taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Sama eigi við um framkvæmdir sem séu að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B í 1. viðauka ef þær séu fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. iii. lið 2. tl. 2. viðauka. Þær ábendingar sem Ólafsdalsfélagið hafi sent Skipulagsstofnun hafi verið hunsaðar eða ekki farið yfir þær. Óskiljanlegt sé hvernig stofnunin hafi getað metið það svo að ekki væri ástæða fyrir umhverfismati á skógræktinni. Annars vegar í ljósi umfangsins en ekki síður vegna þeirrar merku stöðu sem Ólafsdalur hafi í minja- og menningarlegu tilliti.

 Málsrök Skipulagsstofnunar: Bent er á að hin kærða ákvörðun, sem sé tölvupóstur stofnunarinnar til Minjaverndar frá 28. febrúar 2023, hafi falið í sér afstöðu í formi leiðbeiningar um hvort áform, eins og þeim hafi verið lýst í bréfi Minjaverndar, féllu undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Bent hafi verið á hvað teldist skógrækt í skilningi laganna og framkvæmdaraðila tjáð að miðað við framlagða lýsingu væri ólíklegt að um skógrækt væri að ræða. Ekki hefði verið tekin endanleg afstaða til þess hvort áformin féllu undir lögin heldur bent á að svo lengi sem áformin fælu ekki í sér ræktun á skógi, sbr. skilgreiningu á skógi samkvæmt lögum nr. 33/2019 um skóga og skógrækt, þá féllu þau ekki undir lög nr. 111/2021.

Í lögum nr. 111/2021 sé ekki að finna kæruheimild sem taki til þeirrar afstöðu stofnunarinnar sem hafi komi fram í greindum tölvupósti. Kæruheimild 30. gr. laganna taki aðeins til ákvarðana um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati samkvæmt 20. gr. og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda. Um misskilning af hálfu Ólafsdalsfélagsins sé að ræða þar sem stofnunin hafi ekki tekið slíka ákvörðun.

 Málsrök Minjaverndar: Vísað er til þess að ekki sé til staðar kæranleg ákvörðun í málinu. Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til Minjaverndar, dags. 28. febrúar 2023, hafi ekki falist kæranleg ákvörðun heldur hafi stofnunin verið að sinna leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í tölvupóstinum hafi ekki falist matsskylduákvörðun enda hafi ekki legið fyrir umsagnir umsagnaraðila né hafi verið gert grein fyrir niðurstöðum stofnunarinnar á vef hennar líkt og gert sé ráð fyrir þegar um matskylduákvörðun sé að ræða sbr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þar sem ekki sé til staðar nein sú ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem borið verði undir úrskurðarnefndina beri að vísa málinu frá.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að bæði Skipulagsstofnun og Minjavernd geri tilraun til að halda því fram að ekki sé um skógrækt að ræða. Ætlunin virðist vera að varpa skugga á þá staðreynd að umhverfisáhrif af slíkri framkvæmd verði mikil og óbætanlegt tjón muni hljótast af í fyllingu tímans á einstakri minjaheild sem ríkisjörðin Ólafsdalur sé.

 Niðurstaða: Eins og greinir í málavöxtum er tilefni kæru þessa máls afstaða Skipulagsstofnunar við fyrirspurn Minjaverndar um hvort fara þyrfti fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirætlana um gróðursetningu í Ólafsdal. Í svari Skipulagsstofnunar kom fram að með hliðsjón af lýsingu Minjaverndar á áformum væri ólíklegt að um skógrækt væri að ræða í skilningi laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 111/2021 er málskot til úrskurðarnefndarinnar einskorðað við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var erindi Minjaverndar til Skipulagsstofnunar ekki beiðni um matsskylduákvörðun á grundvelli 20. gr. laga nr. 111/2021. Fyrirspurn um afstöðu stjórnvalds til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar stjórnvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Fól svar Skipulagsstofnunar til Minjaverndar því ekki í sér ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 30. gr. laga nr. 111/2021.

Með vísan til þess sem að framan greinir er verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

65/2023 Strandsvæðisskipulag Vestfjarða

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 25. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 65/2023, kæra á ákvörðun svæðisráðs strandsvæðisskipulags Vestfjarða um að samþykkja tillögu að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2023, er barst nefndinni 22. s.m., kæra íbúi í Ísafjarðarbæ, A og B, handhafar rækjuveiðiheimilda í Arnarfirði, þá ákvörðun svæðisráðs strandsvæðisskipulags Vestfjarða að gera ráð fyrir mannvirkjabelti fyrir sæstreng yfir Arnarfjörð í nýju strandsvæðisskipulagi. Jafnframt er kærð staðfesting innviðaráðherra á strandsvæðisskipulaginu. Er þess krafist að fyrirhugað mannvirkjabelti fyrir sæstreng yfir Arnarfjörð verði fjarlægt úr greinargerð og uppdrætti skipulagsins.

Málsatvik og rök: Í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða var tillaga að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða auglýst til opinberrar kynningar og var kynningartími tillögunnar frá 15. júní 2022 til 15. september s.á. Hinn 7. desember s.á. samþykkti svæðisráð um strandsvæðisskipulag Vestfjarða tillöguna og staðfesti innviðaráðherra hana 2. mars 2023. Í strandsvæðisskipulaginu er gert ráð fyrir nýtingarflokknum Lagnir og vegir á skipulagsreitnum LV6 sem liggur yfir Arnarfjörð. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að Landsnet áætli að leggja nýjan raforkustreng og muni hann taka land við Hrafnseyri. Strandsvæðisskipulagið öðlaðist gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2023.

Kærendur telja augljóst að áform Landsnets byggi á röngum forsendum og ófullnægjandi gögnum. Umhverfisskýrsla um framkvæmdina sé verulega gölluð þar sem hún taki ekki á veigamiklum atriðum varðandi áhrif hennar á rækjumið. Svæðisráð um strandsvæðisskipulag Vestfjarða ásamt skipulagsyfirvöldum aðliggjandi sveitarfélaga virðast ranglega telja að staðsetningar sæstrengja, sem nefndar séu í kerfisáætlun Landsnets, séu lögbundnar og óumbreytanlegar. Samráð af hálfu svæðisráðs hafi ekki verið í samræmi við eðlilegar kröfur. Skerðing á besta veiðisvæði rækju um 18% sé án gildra raka, verulega íþyngjandi fyrir þá sem stundi rækjuveiðar og kunni að vega að sjálfbærni veiðanna og gangi að því leyti gegn heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um líf í vatni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Um strandsvæðisskipulag er fjallað í lögum nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Er þar gerð grein fyrir því hlutverki svæðisráðs að vinna tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir viðkomandi svæði, sbr. 5. gr. laganna. Þegar svæðisráð hefur samþykkt tillögu að strandsvæðisskipulagi skal senda tillöguna til ráðherra skv. 3. mgr. 13. gr. og ber honum skv. 4. mgr. sömu greinar staðfesta tillöguna, staðfesta frestun hennar að hluta eða hafna staðfestingu hennar. Við þá yfirferð á hann að meta hvort á tillögunni séu form- eða efnisgallar en í lögunum er ekki kveðið á um kæruheimild vegna ákvarðana tekna á grundvelli laganna.

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu tillögu að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða er lokaákvörðun æðra setts stjórnvalds og verður hún einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds. Brestur úrskurðarnefndinni því vald til að skera úr um lögmæti ákvörðunar svæðisráðs sem staðfest hefur verið af  ráðherra. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

16/2023 Hlíðarhvammur

Með

Árið 2023, mánudaginn 17. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 16/2023, kæra vegna stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag kærir A stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. febrúar 2023.

Málsatvik og rök: Í kæru eru rakin samskipti kæranda við stjórnvöld Kópavogsbæjar frá árinu 2013 til og með 12. ágúst 2022. Samskiptin má rekja til deilna vegna tveggja bílastæða sem gerð voru inn á lóð Hlíðarhvamms 7 árið 2009. Við þá framkvæmd fækkaði almennum bílastæðum í götunni. Kærandi telur að um „óleyfisframkvæmd“ hafi verið að ræða og hefur bent bæjaryfirvöldum á að með henni hafi ekki létt á bílastæðavanda í götunni og hafi bílastæðin auk þess sjaldan verið notuð sem geymsla fyrir farartæki.

Fyrir liggur bréf byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til kæranda dags. 5. ágúst 2022, þar sem vísað er til mæliblaðs frá 2013, sem sýni fram á að gert hafi verið ráð fyrir bílastæðum á umræddum stað og því sé ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Hefur bréfið með þessu fyrst og fremst að geyma ábendingu um efni mæliblaðs.

Af hálfu Kópavogsbæjar hefur því verið hafnað við að eigendur að Hlíðarhvammi 7 hafi í heimildarleysi útbúið bílastæði á lóð sinni og nýtt þannig þann hluta götunnar sem liggi samsíða innkeyrslunni. Hafi bílastæðin á lóð nr. 7 verið útbúin árið 2009 og sagað hafi verið úr gangstéttarkanti og það verk unnið af starfsfólki Kópavogsbæjar, á kostnað lóðarhafa. Þá er bent á að ekki liggi fyrir ákvörðun í málinu sem sætt geti kæru.

Hlíðarhvammur sé ódeiliskipulagt svæði og bílastæðin sem kvartað sé undan standi inni á lóð, íbúa að Hlíðarhvammi 7. Samkvæmt útgefnu mæliblaði sé gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni. Mæliblaðið sé gefið út 4. júlí 2013 og skoðist sem hluti lóðarleigusamnings sem endurnýjaður hafi verið í júlí 2020.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Af gögnum málsins má ráða að kæranda hefur verið kunnugt um gerð hinna umdeildu bílastæða frá árinu 2009. Þegar samskipti aðila eru rakin sést að síðast barst svar til kæranda frá byggingarfulltrúa 5. ágúst 2022. Kæra þessi barst úrskurðarnefndinni 24. janúar 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að í málinu liggi fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Einnig er litið til þess að rúmir fimm mánuðir liðu frá því að svar bars frá byggingarfulltrúa þar til kæra barst nefndinni. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.