Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2023 Hvalvinnslustöð

Árið 2023, miðvikudaginn 28. júní, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 79/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um að fylgja ekki eftir athugasemdum um frávik frá starfsleyfiskröfum um vatnstöku vegna starfsleyfis Hvals hf. fyrir vinnslu á hvalaafurðum, sem og að veita viðbótarfrest til úrbóta vegna frávika frá starfsleyfiskröfum sama leyfis um olíuvarnir.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands að fylgja ekki eftir athugasemdum um frávik frá starfsleyfiskröfum um vatnstöku vegna starfsleyfis Hvals hf. fyrir vinnslu á hvalaafurðum, sem og að veita viðbótarfrest til úrbóta vegna frávika frá starfsleyfiskröfum sama leyfis um olíuvarnir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Hvalur hf. rekur hvalvinnslustöð á Litla Sandi í Hvalfjarðarsveit á grundvelli starfsleyfis útgefnu 12. júlí 2010 af Heilbrigðiseftirliti Vesturlands í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Upphaflegur gildistími leyfisins var til 12. júlí 2022 en hann var síðar framlengdur til 12. júlí 2023. Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins, dags. 13. júní 2022, vegna eftirlits sem fram fór á hvalvinnslustöðinni 9. s.m., voru gerðar athugasemdir vegna frávika frá starfsleyfiskröfum um vatnstöku og olíuvarnir. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, dags. 1. júní s.á., vegna upplýsinga um þá ósk leyfishafa að veittar yrðu undanþágur frá starfsleyfiskröfum, kemur fram að heilbrigðiseftirlitið hefði ekki talið ekki ástæðu til að fylgja eftir athugasemdum vegna frávika frá kröfum starfsleyfisins um vatnstöku auk þess sem leyfishafa hefði verið veitt frestur til að gera úrbætur vegna frávika tengdum olíuvörnum til miðs júní 2024.

Kærandi byggir á því að með ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands sé ólögmætu ástandi viðhaldið á ófullnægjandi og ólögmætum grundvelli. Ákvörðunin leiði ekki aðeins til þess að brotið sé gegn starfsleyfiskröfum heldur sé leyfishafa í raun veitt undanþága frá leyfis-, reglu- og lagaskilyrðum út starfstímabil sitt. Ákvörðunin hafi verið í andstöðu við kröfur 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnvaldið hafi brugðist eftirlitsskyldum sínum skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1998, sbr. einnig 8. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, 5. gr. reglugerðar nr. 884/2017 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi og 12. gr. reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Þá teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, varðandi þær ákvarðanir, athafnir og athafnaleysi sem taldar eru upp með tæmandi hætti í stafliðum nefndrar 3. mgr. 4. gr. Hin kærða ákvörðun varðar eftirlit með atvinnurekstri vegna starfsleyfis sem gefið er út í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 55. gr. laganna, en ákvörðun þar að lútandi fellur ekki undir stafliði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi, sem er náttúruverndarsamtök, nýtur því ekki kæruaðildar á þeim grundvelli. Þá er ekki að finna lagagrundvöll fyrir kæruaðild náttúruverndarsamtaka í lögum nr. 7/1998. Að því virtu og þar sem ekki liggur fyrir að samtökin eigi einstaklegra hagsmuna að gæta umfram aðra vegna hinnar kærðu ákvörðunar verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.