Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2023 Hlíðarhvammur

Árið 2023, mánudaginn 17. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 16/2023, kæra vegna stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag kærir A stjórnsýslu Kópavogsbæjar og viðbrögð byggingarfulltrúa bæjarins við óleyfisframkvæmd húsráðenda að Hlíðarhvammi 7.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. febrúar 2023.

Málsatvik og rök: Í kæru eru rakin samskipti kæranda við stjórnvöld Kópavogsbæjar frá árinu 2013 til og með 12. ágúst 2022. Samskiptin má rekja til deilna vegna tveggja bílastæða sem gerð voru inn á lóð Hlíðarhvamms 7 árið 2009. Við þá framkvæmd fækkaði almennum bílastæðum í götunni. Kærandi telur að um „óleyfisframkvæmd“ hafi verið að ræða og hefur bent bæjaryfirvöldum á að með henni hafi ekki létt á bílastæðavanda í götunni og hafi bílastæðin auk þess sjaldan verið notuð sem geymsla fyrir farartæki.

Fyrir liggur bréf byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til kæranda dags. 5. ágúst 2022, þar sem vísað er til mæliblaðs frá 2013, sem sýni fram á að gert hafi verið ráð fyrir bílastæðum á umræddum stað og því sé ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Hefur bréfið með þessu fyrst og fremst að geyma ábendingu um efni mæliblaðs.

Af hálfu Kópavogsbæjar hefur því verið hafnað við að eigendur að Hlíðarhvammi 7 hafi í heimildarleysi útbúið bílastæði á lóð sinni og nýtt þannig þann hluta götunnar sem liggi samsíða innkeyrslunni. Hafi bílastæðin á lóð nr. 7 verið útbúin árið 2009 og sagað hafi verið úr gangstéttarkanti og það verk unnið af starfsfólki Kópavogsbæjar, á kostnað lóðarhafa. Þá er bent á að ekki liggi fyrir ákvörðun í málinu sem sætt geti kæru.

Hlíðarhvammur sé ódeiliskipulagt svæði og bílastæðin sem kvartað sé undan standi inni á lóð, íbúa að Hlíðarhvammi 7. Samkvæmt útgefnu mæliblaði sé gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni. Mæliblaðið sé gefið út 4. júlí 2013 og skoðist sem hluti lóðarleigusamnings sem endurnýjaður hafi verið í júlí 2020.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Af gögnum málsins má ráða að kæranda hefur verið kunnugt um gerð hinna umdeildu bílastæða frá árinu 2009. Þegar samskipti aðila eru rakin sést að síðast barst svar til kæranda frá byggingarfulltrúa 5. ágúst 2022. Kæra þessi barst úrskurðarnefndinni 24. janúar 2023.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að í málinu liggi fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Einnig er litið til þess að rúmir fimm mánuðir liðu frá því að svar bars frá byggingarfulltrúa þar til kæra barst nefndinni. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.