Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2023 Strandsvæðaskipulag Vestfjarða

Árið 2023, fimmtudaginn 25. maí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 65/2023, kæra á ákvörðun svæðisráðs strandsvæðisskipulags Vestfjarða um að samþykkja tillögu að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2023, er barst nefndinni 22. s.m., kæra íbúi í Ísafjarðarbæ, Björn Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, handhafar rækjuveiðiheimilda í Arnarfirði, þá ákvörðun svæðisráðs strandsvæðisskipulags Vestfjarða að gera ráð fyrir mannvirkjabelti fyrir sæstreng yfir Arnarfjörð í nýju strandsvæðisskipulagi. Jafnframt er kærð staðfesting innviðaráðherra á strandsvæðisskipulaginu. Er þess krafist að fyrirhugað mannvirkjabelti fyrir sæstreng yfir Arnarfjörð verði fjarlægt úr greinargerð og uppdrætti skipulagsins.

Málsatvik og rök: Í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða var tillaga að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða auglýst til opinberrar kynningar og var kynningartími tillögunnar frá 15. júní 2022 til 15. september s.á. Hinn 7. desember s.á. samþykkti svæðisráð um strandsvæðisskipulag Vestfjarða tillöguna og staðfesti innviðaráðherra hana 2. mars 2023. Í strandsvæðisskipulaginu er gert ráð fyrir nýtingarflokknum Lagnir og vegir á skipulagsreitnum LV6 sem liggur yfir Arnarfjörð. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að Landsnet áætli að leggja nýjan raforkustreng og muni hann taka land við Hrafnseyri. Strandsvæðisskipulagið öðlaðist gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2023.

Kærendur telja augljóst að áform Landsnets byggi á röngum forsendum og ófullnægjandi gögnum. Umhverfisskýrsla um framkvæmdina sé verulega gölluð þar sem hún taki ekki á veigamiklum atriðum varðandi áhrif hennar á rækjumið. Svæðisráð um strandsvæðisskipulag Vestfjarða ásamt skipulagsyfirvöldum aðliggjandi sveitarfélaga virðast ranglega telja að staðsetningar sæstrengja, sem nefndar séu í kerfisáætlun Landsnets, séu lögbundnar og óumbreytanlegar. Samráð af hálfu svæðisráðs hafi ekki verið í samræmi við eðlilegar kröfur. Skerðing á besta veiðisvæði rækju um 18% sé án gildra raka, verulega íþyngjandi fyrir þá sem stundi rækjuveiðar og kunni að vega að sjálfbærni veiðanna og gangi að því leyti gegn heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um líf í vatni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Um strandsvæðisskipulag er fjallað í lögum nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Er þar gerð grein fyrir því hlutverki svæðisráðs að vinna tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir viðkomandi svæði, sbr. 5. gr. laganna. Þegar svæðisráð hefur samþykkt tillögu að strandsvæðisskipulagi skal senda tillöguna til ráðherra skv. 3. mgr. 13. gr. og ber honum skv. 4. mgr. sömu greinar staðfesta tillöguna, staðfesta frestun hennar að hluta eða hafna staðfestingu hennar. Við þá yfirferð á hann að meta hvort á tillögunni séu form- eða efnisgallar en í lögunum er ekki kveðið á um kæruheimild vegna ákvarðana tekna á grundvelli laganna.

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu tillögu að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða er lokaákvörðun æðra setts stjórnvalds og verður hún einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds. Brestur úrskurðarnefndinni því vald til að skera úr um lögmæti ákvörðunar svæðisráðs sem staðfest hefur verið af  ráðherra. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.