Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2023 Rofabær

Árið 2023, föstudaginn 2. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2023, kæra á „túlkun byggingarfulltrúa[ns í Reykjavík] og [Húsnæðis- og m]annvirkjastofnunar á grein 6.5.3 og 6.5.4 byggingarreglugerðar varðandi hæð og frágang svalahandriða í öryggisúttekt þann 16. mars 2023“, sem fram fór á húsinu að Rofabæ 7-9.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 19. apríl 2023 kærir  annar eigenda Plúsarkitekta ehf. túlkun embættis byggingar­fulltrúans í Reykjavík á ákvæðum byggingarreglugerðar vegna öryggisúttektar 16. mars s.á. Er þess krafist „að túlkun byggingarfulltrúa á reglugerð verði leiðrétt og öryggisúttekt verði staðfest.“

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. maí 2023.

Málavextir: Að Rofabæ 7-9 hefur verið byggt fjölbýlishús á fjórum hæðum með 31 íbúð auk atvinnu- og þjónusturýma á helmingi jarðhæðar. Hönnuðir aðaluppdrátta eru Plúsarkitektar og skrifar kærandi undir uppdrættina. Uppdrættirnir voru samþykktir af byggingarfulltrúanum í Reykjavík með áritun hans hinn 8. júní 2021. Í byggingarlýsingu kemur fram að hæð handriða og handlista sé í samræmi við gr. 6.5. byggingarreglugerðar og að þau séu almennt galvaníseruð og úr máluðu stáli. Á uppdráttum eru handriðin sýnd í 120 cm hæð. Frá svalagólfi og upp í 80 cm hæð eru lóðréttir rimlar með 89 mm bili á milli þeirra. Milli rimla og handriðs er opið bil 39,5 cm hátt. Ekki verður annað ráðið en að frágangur handriða hafi verið með sama hætti og samkvæmt samþykktum uppdráttum.

Byggingu hússins er nú að mestu lokið og sótti umsjónarmaður byggingarstjóra um öryggis­úttekt með ódagsettri beiðni. Fór úttektin fram 16. mars 2023. Við úttektina og í kjölfar hennar komu fram athugasemdir frá embætti byggingarfulltrúa, m.a. við öryggi handriða á svölum hússins, en þau voru ekki talin uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um lágmarks­hæð.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að túlkun byggingarfulltrúans í Reykjavík á gr. 6.5.3. og 6.5.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 geri hönnuðina bótaskylda gagnvart leyfishafa. Lausn kæranda á hönnun svalahandriða­ uppfylli kröfur byggingarreglugerðar eins og hún sé skrifuð. Reglugerðin sé skýr hvað varði kröfur um frágang á handriðum. Óskað hafi verið eftir áliti byggingarfulltrúa og ­Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en svör þeirra hafi verið huglæg og ekki vísað til ákveðinna ákvæða reglugerðarinnar. ­Aðal- og séruppdrættir hafi verið afgreiddar án athugasemda af hálfu byggingarfulltrúa en þær síðan komið fram við öryggisúttekt. Í hönnun handriðsins hafi verið farið eftir leiðbeiningablaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og sé heildarhæð þess 120 cm.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að málinu verði vísað frá þar sem athugasemd skoðunarmanns byggingarfulltrúa sé þáttur í lögbundnu eftirliti byggingar­fulltrúa og feli ekki í sér kæranlega stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á stjórnsýslumál í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá er minnt á að meðal markmiða laga nr. 160/2010 um mannvirki sé að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna. Í því skyni mæli lögin fyrir um lögbundið eftirlit byggingarfulltrúa með mann­virkja­gerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laganna en hluti af því eftirliti feli í sér framkvæmd loka­úttektar og útgáfu vottorðs. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Sama gildi um öryggis­úttekt. Ljóst þyki að umrædd svalahandrið uppfylli ekki kröfur byggingarreglugerðar. Þau séu á nokkrum stöðum einungis 80 cm að hæð, en skv. byggingarreglugerð gr. 6.5.3 og 6.5.4 megi hæð handriða aldrei vera minni en 90 cm. Þá sé 40 cm bil á milli pílára og handlista sem geti skapað hættu þar sem börn geti auðveldlega farið þar í gegn.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu byggingaraðila Rofabæjar 7-9 er tekið fram að hann sé sammála öllum efnisatriðum kærunnar og að þar sem synjað hafi verið um lokaúttekt vegna byggingar­innar væru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun: Stofnunin vísar til þess að ekki verði ráðið að fyrir liggi kæran­leg stjórnvaldsákvörðun af hennar hálfu í málinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma til­­teknar athafnir. Fellur það því utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að gefa byggingar­full­trúa fyrirmæli um útgáfu vottorðs um öryggisúttekt eða mæla fyrir um tiltekna túlkun byggingar­reglugerðar nr. 112/2012, nema þegar um er að ræða að slík túlkun sé hluti máls­meðferðar kæranlegrar ákvörðunar til nefndarinnar.­

Synjun byggingarfulltrúa um útgáfu vottorðs um öryggisúttekt getur falið í sér stjórnvalds­ákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefur útgáfa slíks vottorðs þá réttarverkan að heimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um mannvirki. Liggur nú fyrir að eftir að kæra barst í máli þessu, eða hinn 10. maí 2023, var gefið út vottorð um öryggisúttekt með athugasemdum í kjölfar úrbóta á umræddu húsi, m.a. með því að bili fyrir neðan handrið svala var lokað með viðarþili.

Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, sem borin verður undir úrskurðarnefndina, og verður kærumáli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.