Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2014 Geirsgata

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2014, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 24. september 2013, um að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera hann nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og leyfi fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. E og M, Tryggvagötu 4-6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2013 að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. ágúst og 9. og 10. september 2014.

Málavextir: Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti hinn 26. apríl 2007 deiliskipulag fyrir Slippa- og Ellingsenreit og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. júní s.á. Í deiliskipulaginu var m.a. gert ráð fyrir að hluti Mýrargötu yrði lagður í stokk, Geirsgata yrði breikkuð og hluti verbúða myndi víkja þess vegna. Í skipulagsskilmálum fyrir reit R16, sem tekur til umrædds svæðis, sagði m.a: „Sá hluti verbúðanna sem eftir eru verða varðveittar.“ Enn fremur sagði: „Hér er einungis leyfð hafnarsækin starfsemi.“ Hinn 7. maí 2009 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi fyrir Slippasvæði vegna breyttrar notkunar verbúða við Geirsgötu og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 16. september s.á. Eftir breytinguna sagði um nýtingu í skilmálum fyrir reit R16: „Á reitnum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem er í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónusta, verslanir, veitingahús, vinnustofur listamanna og verslanir þeim tengdum.“ Að öðru leyti var deiliskipulagið óbreytt. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 24. september 2013 var lögð fram umsókn um að breyta verbúð að Geirsgötu 3 í veitingahús og um breytingar innanhúss, sem og að breyta gluggum í upprunalega mynd og gera nýja glugga og dyr á suðvesturgafl hússins. Fyrir fundinum lá umsögn skipulagsfulltrúa frá 16. ágúst s.á. þar sem ekki var gerð nein skipulagsleg athugasemd við erindið. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Hinn 7. apríl 2014 gaf byggingarfulltrúi svo út byggingarleyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að hið umdeilda byggingarleyfi fari bæði gegn eldra deiliskipulagi á svæðinu, sem hafi tekið gildi 11. júní 2007, og yngra deiliskipulagi sem hafi tekið gildi 3. febrúar 2014. Ljóst sé af texta tilvitnaðra deiliskipulaga að ekki hafi þar verið um að ræða heimilaðar breytingar á verbúðunum og útliti þeirra. Fari þær breytingar sem nú sé verið að gera og byggingarleyfi verið veitt fyrir því í bága við deiliskipulag. Með vísan til 1. mgr. 9. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 1. tl. gr. 2.4.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé byggingarleyfið því ólögmætt enda megi það ekki fara í bága við deiliskipulag. Eina undantekningin frá slíku sé ef um óverulegar breytingar sé að ræða frá deiliskipulagi en þá hvíli fortakslaus skylda á sveitarfélagi að grenndarkynna þær, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Slíkt hafi ekki verið gert og raunar hafni kærendur því að breytingarnar geti talist óverulegar, sbr. gr. 2.3.4. byggingarreglugerðar, þar sem þær skerði hagsmuni nágranna hvað „innsýn“ varði og hafi jafnframt áhrif á götumynd.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að hið kærða byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 og deiliskipulag Slippa- og Ellingsenreits R16, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 7. maí 2009 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. september s.á. Í greinargerð deiliskipulagsins segi um „gömlu verbúðirnar“ að á reitnum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem sé í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónustu, verslunum, veitingahúsum, vinnustofum listamanna og verslunum þeim tengdum. Á undanförnum árum hafi starfsemi verbúðanna færst frá upphaflegri hafnsækni yfir í framreiðslu veitinga og smásölu. Fyrir liggi að starfsemi svæðisins haldi áfram að þróast í þá átt á kostnað hefðbundins handverks, vinnslu og umsýslu er tengist sjávarfangi. Byggingarfulltrúi hafi gefið út leyfi til breytinga á notkun húss sem sé í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Hafi málsmeðferð leyfisveitingarinnar að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, mannvirkjalaga nr. 160/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að á hans vegum hafi verið stunduð útgerð og fiskvinnsla um árabil. Hann hafi leigt aðstöðu í Verbúð 10 og eigi Verbúð 11. Áður hafi hafnsækin starfsemi eingöngu átt sér stað í verbúðunum en sú breyting hafi orðið á árinu 2002 að veitingaaðstaða hafi verið sett upp í Verbúð 8. Í verbúðunum sé nú að finna veitinga- og kaffistaði, kvikmyndasýninga- og fundasali, bílaleigu, listmunagallerí og skartgripaverslun, smábátafélag og minjagripaverslun, gallerí og listmunasölu. Með auknum umsvifum þjónustufyrirtækja, verslana og veitingastaða í gömlu verbúðunum hafi sífellt orðið örðugra að reka þar fiskvinnslu og útgerðarstarfsemi og hafi leyfishafi því leitað hófanna með að nýta fasteignina í öðrum tilgangi. Brugðist hafi verið í einu og öllu við ábendingum og athugasemdum byggingarfulltrúa. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 7. apríl 2014 og framkvæmdir hafist. Bent sé á að íbúðir kærenda séu í um tveggja metra fjarlægð frá mikilli umferðargötu og ekki þurfi að leita langt aftur í tímann til að fullvissa sig um að verðmæti íbúðarhúsnæðis í næsta nágrenni hafi aukist í kjölfar breyttrar starfsemi í gömlu verbúðunum og nágrenni þeirra. Ef kæra nái fram að ganga sé einsýnt að álykta sem svo að engin atvinnustarfsemi í gömlu verbúðunum sé í samræmi við þá umsögn í skipulagi sem vitnað sé til.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar byggingarleyfis vegna breytinga og nýtingar á húsinu nr. 3 við Geirsgötu þar sem leyfið sé í andstöðu við deiliskipulag og breytingarnar hafi í för með sér neikvæð grenndaráhrif gagnvart kærendum.

Í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það gert að skilyrði fyrir samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfa að efni þeirra sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Hið umþrætta byggingarleyfi styðst við þágildandi deiliskipulag Slippa- og Ellingsenreits, sem tók gildi 11. júní 2007, með þeim breytingum sem tóku gildi 16. september 2009 varðandi reit R16, sem hér á við. Á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin var áformað að á reitnum skyldi fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem væri í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónustu, verslunum, veitingahúsum, vinnustofum listamanna og verslunum þeim tengdum. Því er ljóst að hin breytta notkun umrædds húsnæðis samræmist því deiliskipulagi sem í gildi var við veitingu umdeilds byggingarleyfis og þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, en þar kemur fram að á svæðinu sé stefnt að samhæfingu hafnarsvæðis og miðborgar þar sem fram fari fjölbreytt hefðbundin hafnarstarfsemi með áherslu á þjónustu við skemmtiferðaskip, fiskiskip og báta, menningarstarfsemi og ferðaþjónustu. Þá er rétt að taka fram að í núgildandi deiliskipulagi sem tók gildi 3. febrúar 2014, er gert ráð fyrir óbreyttu ástandi á umræddu svæði frá því sem að framan er lýst. Loks verður ekki talið að orðalag fyrirvara í deiliskipulaginu þess efnis að varðveittur verði hluti verbúða að loknum breytingum við umferðarmannvirki girði fyrir þær breytingar á útliti sem heimilaðar voru með hinu umdeilda byggingarleyfi. Í því samhengi er rétt að benda á að umrædd bygging nýtur hvorki þeirrar verndar sem mælt er fyrir um í lögum nr. 80/2012 um menningarminjar né gerð tillaga að varðveislu hennar í húsakönnun fyrir Mýrargötusvæði frá árinu 2003.

Eins og að framan greinir á byggingarleyfið sér stoð í þágildandi deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits, svo sem því var breytt hinn 16. september 2009. Hefur úrskurðarnefndinni ekki borist kæra vegna þeirrar breytingar og auk þess er kærufrestur vegna hennar liðinn. Kemur deiliskipulagsbreytingin og möguleg áhrif hennar á grenndarhagsmuni kærenda því ekki til álita hér. Þá tekur úrskurðarnefndin fram að ekki var ástæða til að grenndarkynna byggingarleyfið fyrir kærendum eða öðrum skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda var það gefið út með stoð í gildu deiliskipulagi. Þó geta nýir gluggar og dyr á þeim gafli sem staðsettur er gegnt fasteign kærenda og áður var gluggalaus haft í för með sér sjálfstæð grenndaráhrif. Í því samhengi verður hins vegar ekki fram hjá því litið að yfir 20 m eru frá fasteign kærenda að umræddum gafli og að á milli liggur fjölfarin umferðargata. Þá liggur fyrir að við hlið þess húss, er hið kærða leyfi tekur til, og stendur nær kærendum, er veitingahús með útbyggðu glerhýsi, en við hina hlið hússins og fjær kærendum er veitingahús með útisvæði. Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum, og einnig því að fasteign kærenda er á svæði sem skilgreint er sem miðborg og miðsvæði í aðalskipulagi, sbr. b-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, verður ekki á það fallist að sú breyting er hér um ræðir sé til þess fallin að breyta götumynd eða skerða hagsmuni kærenda hvað varðar útsýni eða innsýn svo mjög að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.
 
Í ljósi alls þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við samþykki hins kærða byggingarleyfis að ógildingu varði er kröfu kærenda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2013 um að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og leyfi fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

49/2013 Vesturhús

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 2. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu við hús nr. 2 við Vesturhús í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2013, er barst nefndinni hinn 21. s.m., kærir S, Vesturhúsum 2, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu að Vesturhúsum 2 í Reykjavík. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 22. ágúst 2013.

Málavextir: Fasteignin að Vesturhúsum 2 er einbýlishús á tveimur hæðum með bílskúr. Í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er eignin skráð sem einbýlishús með tvær íbúðir, en íbúðirnar og bílskúrinn eru með sama fastanúmer. Neðri hæð fasteignarinnar er 73,8 m2, efri hæðin er 130,2 m2 og bílskúrinn er 50,4 m2. Þá er óskráð 50,4 m2 rými undir bílskúrnum.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn kæranda um byggingarleyfi þar sem sótt var um „… að fá rými undir bílageymslu samþykkt, áður gerðu. Þetta er geymsla.“ Afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Erindið var síðan tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. apríl s.á. og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. maí s.á. var ákveðið að vísa málinu til umsagnar verkefnastjóra. Skipulagsfulltrúi tók síðan málið fyrir á embættisafgreiðslufundi 10. s.m. og lá þá fyrir umsögn hans, dagsett sama dag. Þar kom fram að umsóknin samræmdist ekki deiliskipulagi þar sem heildarflatarmál umrædds húss færi fram úr leyfilegu heildarflatarmáli samkvæmt skipulagi og var afstaða skipulagsfulltrúa til umsóknarinnar neikvæð með vísan til þess. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. maí 2013 var umsókn kæranda synjað með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 10. maí 2013.“ Framangreind ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 30. maí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi staðið í þeirri trú við kaupin á fasteigninni að Vesturhúsum 2 að í húsinu væru tvær séríbúðir og unnt væri að selja aðra íbúðina ef á þyrfti að halda. Við undirbúning eignaskiptayfirlýsingar hafi verið leitað til arkitekts til að gera nauðsynlega uppdrætti í því skyni að fá umdeilt rými undir bílskúrnum samþykkt sem geymslurými, en það hafi verið óskráð frá byggingu fasteignarinnar. Kæranda hafi verið tjáð í kjölfar hinnar kæruðu ákvörðunar að tvær sjálfstæðar íbúðir yrðu ekki samþykktar í húsinu enda yrði farið út fyrir heimildir deiliskipulags um stærð minni íbúðarinnar ef fallist yrði á umbeðna stækkun. Vísar kærandi til þess að ýmis dæmi séu um að heimilaðar hafi verið tvær íbúðir sem sjálfstæðar fasteignir í húsum við Vesturhús, sambærilegar að stærð og vera myndi í húsi kæranda ef fallist yrði á umrædda umsókn hans og flatarmál hússins yrði ekki meira en flatarmál fjölda annarra húsa við götuna. Í því ljósi verði að telja að hvorki sé unnt að synja um skráningu tveggja íbúða í húsi kæranda við Vesturhús né um skráningu fyrrgreinds rýmis undir bílskúr.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í gildi hafi verið deiliskipulag fyrir umrætt hverfi í Grafarvogi sem samþykkt hafi verið í borgarráði 10. september 1991. Þar falli umrædd fasteign í húsflokk E9, en þau hús geti í mesta lagi verið 270 m² að flatarmáli samkvæmt skilmálum skipulagsins. Skrá megi aukaíbúð í húsunum að hámarki 50 m² og teljist sú íbúð með í heildarflatarmáli fasteignarinnar, sbr. 3. mgr. gr. 1.1.25. deiliskipulagsins. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé fasteignin Vesturhús 2 skráð sem 254,4 m² að stærð. Ef fallist væri á þá málaleitan að stækka rými fasteignarinnar um 50,4 m² yrði heildarflatarmálið 304,8 m², sem færi í bága við skipulagið. Af þeim sökum hafi ekki verið unnt að samþykkja umsókn kæranda. Rétt sé í þessu sambandi að benda á að umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafi um nokkurt skeið unnið að breytingum á deiliskipulagi hverfisins og hafi því ekki þótt efni til að ráðast í skipulagsbreytingu varðandi lóð kæranda sérstaklega. Þau tilvik sem kærandi nefni um að heimilaðar hafi verið stærri aukaíbúðir en 50 m² séu frá gildistíð eldri skipulagslaga nr. 19/1964, en lagaumhverfi á þessu sviði sé nú gjörbreytt í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010. Af þeirri ástæðu geti kærandi ekki vænst þess að fá sambærilega afgreiðslu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 14. maí 2013 á byggingarleyfisumsókn kæranda um að rými sem nú þegar er til staðar undir bílskúr hússins að Vesturhúsum 2 verði samþykkt sem geymslurými. Umsókn kæranda lýtur ekki að því að aukaíbúð í húsinu verði samþykkt sem sérstök fasteign og í hinni kærðu ákvörðun er ekki tekin afstaða til þess. Í kærumáli þessu kemur það atriði því ekki til skoðunar.

Samkvæmt 3. mgr. gr. 1.1.25. deiliskipulagsins, Grafarvogur III Húsahverfi C hluti, sem samþykkt var í borgarráði 10. september 1991 og á við um umrædda fasteign kæranda, kemur fram að hús sem eru í flokki E9 mega að hámarki vera 270 m² að stærð. Fasteignin við Vesturhús 2 er skráð 254,4 m² samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en yrði við skráningu fyrrgreinds rýmis 304,8 m² eða 34,8 m² umfram það sem heimilað var samkvæmt greindu deiliskipulagi. Samþykki umsóknar kæranda hefði því farið gegn skilmálum skipulagsins. Í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það gert að skilyrði fyrir samþykki og útgáfu byggingarleyfa að efni þeirra sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Með hliðsjón af því var borgaryfirvöldum rétt að synja umsókn kæranda að óbreyttu skipulagi. Þótt dæmi kunni að vera um að skilmálar skipulags um hámarksflatarmál húsa á svæðinu hafi ekki verið virt geta slík tilvik ekki skapað fordæmi fyrir frávikum frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfa.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Rétt þykir að taka fram að breyting á deiliskipulagi, Grafarvogur III Húsahverfi C hluti, vegna húsgerðanna E8, E9 og útbygginga, var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur hinn 11. september 2013. Breytingin felur í sér að heimilt hámarksbyggingarmagn er aukið hvað varðar nefndar húsgerðir. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, hinn 29. október 2013.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir áður gerðri stækkun undir bílageymslu við hús nr. 2 við Vesturhús í Reykjavík.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                            ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                                Þorsteinn Þorsteinsson

127/2012 Bergstaðastræti

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. október 2012 um að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. Þ, Bergstaðastræti 54, í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. október 2012 að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að nefnd ákvörðun og útgáfa byggingarleyfis verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun yfirvofandi framkvæmda. Með úrskurði, upp kveðnum 24. maí 2013, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg hinn 14. maí 2013.

Málavextir: Húsin að Bergstaðastræti 54 og 56 eru sambyggð og mynda vinkil en standa hvort á sinni lóð. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. júlí 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að setja svalir á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar ásamt samþykki fyrir „áður gerðri stækkun íbúðar 2. hæðar um hluta af 3. hæð og fyrir stiga á milli 2. og 3. hæðar“ fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti. Ódagsett samþykki meðeigenda að Bergstaðastræti 56 fylgdi erindinu ásamt samþykki hluta eigenda að Bergstaðastræti 54. Leyfisumsóknin var grenndarkynnt fyrir íbúum Bergstaðastrætis 53, 54, 55 og íbúum að Laufásvegi 49-51 og bárust nokkrar athugasemdir við áformaðar framkvæmdir. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulagsráði sem gerði ekki athugasemdir við að byggingarleyfi yrði veitt þegar teikningar hefðu verið lagfærðar og breytingar gerðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og umsögn skipulagsstjóra.

Málið var til umfjöllunar á fundum byggingarfulltrúa á árunum 2005, 2006 og 2011, en á afgreiðslufundi hans 28. ágúst 2012 var erindinu vísað að nýju til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 31. ágúst s.á. var samþykkt að grenndarkynna tillöguna m.a. fyrir kæranda. Í kjölfar grenndarkynningarinnar var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 24. október s.á. þar sem fyrir lágu fram komnar athugasemdir, m.a. frá kæranda, og umsögn skipulagsstjóra, dags. 11. s.m. Skipulagsráð bókaði að ekki væru gerðar athugasemdir við erindið og vísaði því til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samþykkti byggingaráformin á fundi sínum hinn 30. október 2012. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 1. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að með tilkomu svala þeirra sem hin kærða ákvörðun heimili verði friðhelgi einkalífs og heimilis hans raskað með óásættanlegum hætti og verðmæti fasteignar hans skert. Svalirnar muni skerða útsýni úr stofu kæranda mót suðri og bein sjónlína verði frá þeim í vistarverur hans. Á skorti að lögboðið samþykki eigenda húseignanna að Bergstaðastræti 54 og 56 hafi legið fyrir, sbr. 2. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Þá eigi umdeildar framkvæmdir sér ekki stoð í skipulagi og hafi reglna nábýlis- og grenndarréttar ekki verið gætt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að meðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið í samræmi við lög og reglur. Ekkert deiliskipulag sé til fyrir umrædda lóð og hafi umsóknin því verið grenndarkynnt í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Við meðferð málsins hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda með því að stytta fyrirhugaðar svalir miðað við upprunaleg áform. Húsin á lóðunum nr. 54 og 56 standi hvort á sinni lóð og séu ekki eitt fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaga. Eigi reglur þeirra laga um samþykki meðeigenda því ekki við í máli þessu. Rétt sé að taka fram að svipaðar svalir og hér um ræði séu á hússins nr. 54 við Bergstaðastræti og því megi ætla að flest þau rök sem kærandi tefli fram gegn umþrættum svölum eigi við um þær svalir. Jafnræðis að þessu leyti hafi verið gætt við umdeilda leyfisveitingu.

Málsrök leyfishafa: Byggingarleyfishafi andmælir kröfum kæranda og bendir á að um sé að ræða þéttbýlasta svæði borgarinnar og sé nánd milli fasteigna því mikil. Kæranda ætti að vera þetta ljóst og taka verði mið af þessum aðstæðum við mat á grenndarsjónarmiðum. Ekki sé fallist á að umdeildar svalir muni rýra verðgildi fasteignar kæranda heldur megi færa rök fyrir því að endurbætur á húsinu að Bergstaðastræti 56 muni virka á hinn veginn. Umdeildar svalir hafi m.a. þann tilgang að uppfylla kröfur um flóttaleiðir vegna bruna og verið sé að færa gamalt hús að nútímakröfum.

———

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Úrskurðarnefndarinnar hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða: Í málinu er einungis deilt um leyfi fyrir svölum á húsinu að Bergstaðastræti 56 en ekki um þær breytingar innanhúss sem í hinu kærða byggingarleyfi felast.

Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og var hið kærða byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu svo sem heimilt er í þegar byggðum hverfum þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Húsin að Bergstaðastræti 54 og 56 eru sambyggð og voru þau upprunalega ein húseign samkvæmt aðaluppdrætti frá 30. desember 1927. Húseigninni var síðar skipt í Bergstaðastræti 54 og 56 og samkvæmt aðaluppdrætti fyrir Bergstaðastræti 56 frá 12. maí 1959 var útliti hússins er breytt með því bæta við kvisti. Frá þeim tíma hafa útlitsbreytingar átt sér stað nokkrum sinnum á báðum húseignum án þess að gögn sýni að það hafi sérstaklega verið talið varða sameiginlegt útlit og heildarsvip húseignanna. Þó er áréttað af byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar í byggingarleyfi frá 5. apríl 2011 vegna stækkunar kvists á húsinu að Bergstaðastræti 54 að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Af framangreindu má ætla að húseignirnar að Bergstaðastræti 54 og 56 hafi frá 1959, hið minnsta, viðhaldið sjálfstæðu útliti og heildarsvip, þrátt fyrir að útveggir þess á norðurhlið mætist. Þá liggur fyrir að húsin standa hvort á sinni lóð og að eignaskiptayfirlýsingar hafi verið gerðar fyrir sín hvora húseignina, en fjöleignarhúsalög nr. 26/1994 gera ráð fyrir því að eignaskiptayfirlýsing sé gerð fyrir öll fjöleignarhús og að atbeina allra eða meirihluta eigenda þurfi til þess gernings, sbr. 16. gr. laganna. Með vísan til þessa lítur úrskurðarnefndin svo á að Bergstaðastræti 54 og 56 séu tvö sjálfstæð hús í skilningi áðurnefndra fjöleignarhúsalaga og eigi 30. gr. laganna sem áskilur samþykki meðeigenda því ekki við um hið kærða byggingarleyfi. Ennfremur er það álit úrskurðarnefndarinnar í ljósi alls framangreinds að ákvæði 2. mgr. 3. gr. fjöleignarhúsalaga, þess efnis að ákvæði laganna gildi eftir því sem við geti átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg séu á milli tveggja eða fleiri sjálfstæðra húsa, s.s. útlit og heildarsvip ef því sé að skipta, eigi ekki við. Hafði kærandi því ekki íhlutunarrétt vegna hinnar umdeildu breytingar á grundvelli fjöleignarhúsalaga.

Ljóst er að kærandi hefur grenndarhagsmuna að gæta í málinu. Bakhliðar Bergstaðastrætis 54 og 56 liggja í vinkil til suðvesturs. Með vísan til legu og staðsetningar húsanna, stærð og gerð fyrirhugaðra svala, sem og staðsetningar nærliggjandi húsa, telur úrskurðarnefndin hins vegar að útsýnis- og birtuskerðing verði óveruleg. Hvað varðar friðhelgi einkalífs kæranda bendir úrskurðarnefndin á að staðsetning glugga í báðum byggingum er slík að sjónlína er nú þegar á milli vistarvera. Þá verður að líta til þess að nú þegar eru til staðar svalir á húsinu að Bergstaðastræti 54 þar sem kærandi býr. Tekur úrskurðarnefndin því undir þau jafnræðissjónarmið sem fram hafa komið af hálfu Reykjavíkurborgar. Loks má eðli máls samkvæmt gera ráð fyrir því að eitthvert almennt ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kæranda sem hann hefur haldið fram ekki umfram það sem búast má við. Verður því ekki fallist á að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér slík grenndaráhrif að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 30. október 2012 um að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík. 

__________________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

78/2014 Garðastræti

Með

Árið 2014, föstudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2014, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 27. maí 2014, um að veita leyfi til að hækka um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli, byggja svalir á bakhlið og fjölga íbúðum úr tveimur í sex í húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir P, Garðastræti 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 27. maí 2014 um að veita leyfi til að hækka um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli, byggja svalir á bakhlið og fjölga íbúðum úr tveimur í sex í húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar¬kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. júlí 2014.

Málavextir: Hinn 27. nóvember 2013 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð breytingu á deiliskipulagi Grjótaþorps vegna lóðarinnar við Garðastræti 21. Var breytingartillagan auglýst 23. desember 2013 í fjölmiðlum og á vef Reykjavíkurborgar og var veittur frestur til að skila inn athugasemdum til 7. febrúar 2014. Engar athugasemdir bárust. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. mars 2014. Hinn 10. júlí gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út byggingarleyfi til Festa ehf. Var veitt leyfi til að hækka um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli, byggja svalir á bakhlið og fjölga íbúðum úr tveimur í sex í húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti.

Málsrök kæranda: Telur kærandi að framangreindar framkvæmdir eigi eftir að rýra virði fasteignar sinnar. Nýbyggingin muni skerða útsýni verulega, en útsýni og staðsetning fasteignarinnar hafi verið helstu ástæður kæranda fyrir kaupum á henni. Þá sé fyrirsjáanlegt að atvinnustarfsemi í húsinu, s.s. rekstur gistiheimilis, sé mjög á skjön við umgjörð hverfisins. Engin grenndar¬kynning hafi verið gerð vegna framkvæmdanna og hafi enginn íbúa í nágrenninu fengið tilkynningu um fyrirhugaðar framkvæmdir aðra en þá sem birt hafi verið á vef Reykjavíkur¬borgar 23. desember 2013.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag. Vísað sé til 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Þá sé ljóst að kjósi byggingarleyfishafi að halda framkvæmdum áfram, áður en efnisúrskurður liggur fyrir, geri hann það á eigin ábyrgð.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að byggingarleyfið sé gefið út í samræmi við gildandi deiliskipulag. Því sé mótmælt að hinar kærðu endurbætur eigi eftir að rýra virði fasteignar kæranda, þær stuðli frekar að fegrun götumyndar Garðastrætisins, til hagsbóta fyrir eigendur fasteigna við götuna. Ljóst sé að ekki sé hægt að tryggja öllum óhindrað útsýni í þéttbýli og sú skerðing sem kærandi verði að þola á útsýni frá íbúð sinni sé ekki meiri en fólk sem býr í þéttbýli þurfi almennt að þola. Ekki sé fyrirhugað að breyta notkun hússins líkt og ranglega sé haldið fram í kæru um að reka eigi gistiheimili þar. Sé áréttað að stöðvun framkvæmda við mannvirkið sé alvarlegt inngrip í umráða- og hagnýtingarrétt leyfishafa sem eiganda fasteignarinnar og myndi hafa í för með sér verulegt óhagræði og aukinn kostnað fyrir hann.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar byggingarleyfis vegna breytinga á húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti þar sem breytingarnar hafi í för með sér neikvæð grenndaráhrif og rýri virði fasteignar kæranda. Hið umþrætta byggingarleyfi styðst við deiliskipulag Grjótaþorps með þeim breytingum sem tóku gildi 28. mars 2014. Hefur úrskurðarnefndinni ekki borist kæra vegna þeirrar deiliskipulagsbreytingar og er kærufrestur vegna hennar liðinn. Kemur deiliskipulagsbreytingin og möguleg áhrif hennar á grenndarhagsmuni kæranda því ekki til álita hér.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingar¬leyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Samkvæmt áðurnefndu deiliskipulagi er gert ráð fyrir hækkun hússins að Garðastræti 21 um eina hæð svo það verði alls þrjá hæðir frá götu svo og hækkun rishæðarinnar. Einnig er gert ráð fyrir að ris verði með kvistum að götu og valma til suðurs og svölum. Húsið verði áfram íbúðarhús. Sé miðað við að varðveita stíleinkenni hússins, í múrverki, gluggum og kvistum, og stuðla þannig að því að halda heildarsvipmóti götunnar. Með hinu umdeilda byggingarleyfi er heimiluð hækkun um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli. Þá er heimiluð bygging svala á bakhlið og fjölgun íbúða úr tveimur í sex. Af framangreindum lýsingum og með hliðsjón af samþykktum teikningum er ljóst að hið kærða byggingarleyfi samræmist gildandi deiliskipulagi sem ekki sætir endurskoðun og verður ekki ráðið af gögnum málsins að byggingarleyfið raski hagsmunum kæranda að öðru leyti. Í ljósi þess og þar sem ekki liggur fyrir að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við útgáfu hins kærða byggingarleyfis að ógildingu varði er kröfu kæranda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 27. maí 2014 um að veita leyfi til að hækka um eina hæð og ris með tveimur kvistum á götuhlið og svölum á gafli, byggja svalir á bakhlið og fjölga íbúðum úr tveimur í sex í húsi á lóð nr. 21 við Garðastræti í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson

51/2013 Laugarnesvegur

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 14. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 51/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. maí 2013, sem móttekið var á skrifstofu nefndarinnar 27. s.m., kæra S og I, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta áður samþykktum teikningum vegna hússins á lóð nr. 47 við Laugarnesveg, Reykjavík. 

Verður að skilja kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Reykjavíkurborg 20. ágúst 2013 og 11. ágúst 2014.

Málsatvik og rök: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 47 og lögðu þau hinn 26. febrúar 2013 fram umsókn um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Með umsókninni var óskað eftir að breyta áður samþykktum teikningum fyrir nefnda fasteign en greindar teikningar voru samþykktar af byggingarfulltrúa 23. október 2012. Hinar umsóttu breytingar fólu í sér að stækka húsið með því að bæta við kaldri geymslu undir anddyri, innrétta gufubað og sturtu í hluta bílageymslu, breyta glugga og hurð, setja vængjahurð á bílageymslu og breyta stiga í húsinu úr steyptum í timburstiga. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem skilaði neikvæðri umsögn 2. apríl 2013 þar sem breytingarnar samrýmdust ekki deiliskipulagi. Vísað var til þess að nýtingarhlutfall yrði meira en deiliskipulag gerði ráð fyrir og þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag að breyta hluta bílskúrs í gufubað. Var umsókn kærenda tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. s.m. og synjað með vísan til greindrar umsagnar. Tilkynning um synjun umsóknarinnar var send kærendum með bréfi, dags. 11. apríl 2013.

Kærendur vísa til þess að búið sé að gefa leyfi til þess að bæta einni hæð ofan á húsið og að með þeirri stækkun fari nýtingarhlutfall úr 0,43 í 0,64. Stækkun húss með kaldri geymslu undir útitröppum og anddyri myndi auka heildarnýtingu í 0,67. Umþrætt geymsla stækki ekki grunnflöt hússins á lóðinni heldur sé aðeins verið að fylla upp í rými. Breytingarnar séu óverulegar.

Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að í skilmálum deiliskipulagsins, fyrir það svæði sem umrædd fasteign er staðsett á, sé heimilt að byggja eina hæð ofan á einnar hæðar hús. Einnig komi fram í deiliskipulaginu að viðmiðunarnýtingarhlutfall á einbýlishúsum í hverfinu sé 0,2-0,4. Þó sé heimilt að víkja frá viðmiðunarnýtingar-hlutfalli vegna bílskúra, hækkana húsa, þakhækkana, kvista og viðbygginga sem auki brúttóflatarmál fasteignar. Byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsókn um hækkun hússins við Laugarnesveg 47 um eina hæð hinn 23. október 2012 enda hafi slíkt verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Við það hafi nýtingarhlutfall aukist úr 0,43 í 0,64 og sé heildarnýtingarhlutfall því komið vel yfir það hlutfall sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi. Ekki sé fallist á þau rök kærenda að verið sé að fylla upp í rými. Umrædd stækkun myndi auka brúttóflatarmál byggingarinnar en hins vegar sé ljóst að engin aukning myndi verða á nýtanlegu brúttóflatarmáli fasteignarinnar ef fyllt yrði upp í rýmið. Sé því litið svo á að lóðin sé nú þegar fullnýtt og að teknu tilliti til þróunar á svæðinu séu ekki forsendur fyrir því að leyfa hærra nýtingarhlutfall.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Umsókn kæranda var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 9. apríl 2013 og tilkynnt kærendum með bréfi dags. 11. s.m. Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 27. maí s.á. eða rúmum einum og hálfum mánuði eftir að tilkynnt var um ákvörðun byggingarfulltrúa. Kæran er því of seint fram komin og verður henni vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

41/2013 Bakkavegur

Með

Árið 2014, mánudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja leyfi til að reisa fimm kvisti og fjölga herbergjum í þakrými um fjögur í húsinu nr. 17 við Bakkaveg í Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra vegna, ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa fimm kvisti á þak og innrétta fjögur herbergi í þakrými í húsinu að Bakkavegi 17 í Reykjanesbæ. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. janúar 2014, sem barst sama dag, kæra sömu aðilar jafnframt ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 23. janúar 2014 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta bílskúr að Bakkavegi 17 í eitt lagnaherbergi og eitt gistiherbergi og setja tvo glugga í stað bílskúrshurðar. Jafnframt að færa móttöku og stækka anddyri og að breyta herbergi við núverandi anddyri í setustofu.

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málin séu til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þá er gerð krafa um að notkun gistirýmis í þeim hluta hússins sem ekki hafi fengið samþykki byggingarfulltrúa verði stöðvuð. Verður síðara kærumálið, sem er númer 6/2014, sameinað máli nr. 41/2013 enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 14. og 21. maí 2013, og 19. mars, 2. apríl og 24. júní 2014. Þá liggja fyrir í málinu gögn, er borist höfðu 15. febrúar 2013, vegna kæru til nefndarinnar frá sömu aðilum sem síðar var afturkölluð.

Málavextir: Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár voru árið 1999 reist einbýlishús og bílskúr á lóðinni nr. 17 við Bakkaveg. Liggur umrædd lóð fremst við austurenda lokaðrar götu og eru þar fjögur önnur hús. Árið 2010 samþykkti Reykjanesbær, að lokinni grenndarkynningu, stækkun umræddrar lóðar sem og byggingarreits á lóðinni. Í nóvember það ár sóttu lóðarhafar að Bakkavegi 17 um leyfi til að reisa 294,6 m² viðbyggingu undir atvinnustarfsemi við hús sitt og hinn 25. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi leyfi til að reisa nýtt gistiheimili á umræddri lóð. Kærði lóðarhafi að Bakkavegi 20 þá afgreiðslu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Hinn 10. maí 2011 gerðu kærendur, Reykjanesbær og lóðarhafar að Bakkavegi 17 með sér samkomulag vegna hins útgefna leyfis fyrir gistiheimili er fól m.a. í sér að gerðar yrðu nánar tilgreindar ráðstafanir til að draga úr umferð í götunni vegna þessara breytinga. Þá var tekið fram að kæra vegna málsins yrði afturkölluð. Í júní 2011 samþykkti byggingarfulltrúi leyfi fyrir tveimur herbergjum á millipalli í þakrými og stiga upp í herbergin. Með umsókn, dags. 25. nóvember 2011, fór lóðarhafi Bakkavegar 17 fram á stækkun viðbyggingar um 172,4 m², þannig að stærð hennar yrði eftir breytinguna 467,0 m². Var á fundi samráðsnefndar byggingarfulltrúa hinn 29. s.m. samþykkt að grenndarkynna umsóknina. Fram kemur í fundargerð nefndarinnar að sótt sé um leyfi til að breyta innra skipulagi á heimagistingu að Bakkavegi 17. Um sé að ræða breytingu á þaki þar sem settir séu fimm kvistir og fjórum herbergjum bætt við í risi. Komu kærendur á framfæri athugasemdum við grenndarkynningu og á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 15. febrúar 2012 var framkvæmdastjóra falið að skoða málið frekar með tilliti til áhrifa á næsta nágrenni. Var samþykkt að málið yrði tekið aftur upp á haustmánuðum. Í framhaldi af því var settur upp umferðargreinir ofan Bakkavegar í um mánaðartíma um sumarið svo og í vikutíma í september s.á. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 21. nóvember 2012 og fært til bókar að tekið væri vel í erindið en að nauðsynlegt væri að skoða breytingar á skipulagi áður en endanleg afgreiðsla færi fram. Jafnframt var framkvæmdastjóra sviðsins falið að skoða hvort atriði þau er tiltekin hefðu verið í samkomulagi frá maí 2011 við íbúa götunnar hefðu ekki verið uppfyllt.

Umsóknin var tekin fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 9. janúar 2013. Lágu fyrir fundinum gögn vegna áðurnefndrar umferðarmælingar og minnisblað frá verkfræðistofu um skipulag svæðisins. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð umsótta breytingu en bókaði jafnframt að frekari framkvæmdir yrðu ekki leyfðar án undangenginna skipulagsbreytinga. Fundargerð ráðsins var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar hinn 15. janúar s.á. og samþykkt. Hinn 1. febrúar 2013 samþykkti byggingarfulltrúi téða umsókn og var byggingarleyfi gefið út 5. s.m. Skutu kærendur ákvörðun umhverfis- og skipulagslagsráðs til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með bréfi, dags. 5. febrúar 2013. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 15. febrúar s.á. var samþykkt að fella úr gildi fyrrgreint byggingarleyfi og grenndarkynna málið að nýju og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. Umsóknin var kynnt nágrönnum með bréfi, dags. 27. febrúar 2013, og veittur frestur til 2. apríl s.á. til að gera athugasemdir. Var tekið fram við kynningu að um væri að ræða endurtekningu á grenndarkynningu í ljósi þeirra athugasemda sem fram hefðu komið við meðferð málsins og þar sem borist hefðu viðbótargögn um umfang starfseminnar, þ.e. greining á umferð og minnisblað verkfræðistofu um skipulag svæðisins, sem og upplýsingar um sorphirðu og skipulag ferða flugrútu. Einnig var tilgreint að þegar hefðu verið settir kvistir á þak viðbyggingar en að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar þar til bæjarstjórn tæki málið til endanlegrar afgreiðslu. Kærendur afturkölluðu kæru sína til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. mars 2013. Með bréfi, dags, 31. s.m., komu kærendur á framfæri athugasemdum sínum við kynntar framkvæmdir og töldu m.a. að í gögnum er fylgdu grenndarkynningu væru settar fram ýmsar rangfærslur.

Erindið var tekið fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 10. apríl 2013 og samþykkt. Þá var jafnframt fært til bókar að tryggja yrði, með samráði við alla íbúa Bakkavegar, að ónæði yrði sem minnst við þessar breytingar. Einnig skyldi stuðlað að því að umferð stórra ökutækja yrði í lágmarki upp Bakkaveginn, t.d. með merkingum, og einnig væri möguleiki á að gatan yrði gerð að vistgötu. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi hinn 16. s.m. Hinn 17. apríl 2013 gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi að nýju á grundvelli fyrri ákvörðunar hinn 1. febrúar 2013 um samþykki byggingarleyfisumsóknar vegna Bakkavegar 17, matshluta 02.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 23. janúar 2014 var lögð fram umsókn um breytingar á bílskúr Bakkavegar 17. Var um að ræða að bílskúr yrði innréttaður sem lagnaherbergi og eitt gistiherbergi og bílskúrshurð tekin burt og tveir gluggar settir í staðinn. Þá var óskað heimildar til að færa móttöku, að anddyri yrði stækkað og að einu herbergi í núverandi anddyri yrði breytt í setustofu. Var umsóknin afgreidd með eftirfarandi bókun: „Einu herbergi er bætt við og öðru breytt í setustofu þannig er engin aukning á gistiherbergjum. Að mati byggingarfulltrúa er þetta minniháttar breyting sem hefur engin áhrif á nánasta umhverfi. Samþykkt“. Fundargerð byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 12. febrúar 2014 og samþykkti bæjarstjórn þá fundargerð á fundi hinn 18. s.m.

Hafa kærendur kært ofangreindar afgreiðslur byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að þegar viðbygging að Bakkavegi 17 hafi verið grenndarkynnt hafi ekki komið fram að til stæði að starfrækja þar gistiheimili. Hafi starfsmaður Reykjanesbæjar staðfest skriflega að slíkt stæði ekki til, þrátt fyrir teikningar er sýnt hafi annað, en þær teikningar hafi ekki fylgt með grenndarkynningu. Vegna þessa hafi málið tafist úr hófi og að lokum hafi aðilar málsins gert með sér samkomulag, enda ljóst að of seint væri að stöðva framkvæmdirnar án þess að götumyndin hlyti af því verulegan skaða. Hafi íbúar götunnar aldrei fallist á að reist yrði gistiheimili að Bakkavegi 17, enda hafi það aldrei verið grenndarkynnt.

Við grenndarkynningu hafi kærendur bent á að um talsvert umfangsmikinn rekstur væri að ræða sem samkvæmt aðalskipulagi væri á íbúðarsvæði. Yrði með breytingunni 36% aukning á gistirýmum í húsinu. Með heimilaðri stækkun muni umferð í götunni enn aukast, m.a. vegna hópferðabifreiða, vöruflutninga og aukinnar sorphirðu, sem hafi verulegt ónæði í för með sér fyrir íbúa götunnar og skerði umferðaröryggi í götunni. Verulegur skortur sé á bílastæðum við húsið. Einnig sé ónæði frá gangandi ferðamönnum. 

Kærendur hafi jafnframt bent á að ýmsar rangfærslur væru í þeim gögnum er fylgt hefðu grenndarkynningu, svo sem upplýsingar um sorphirðu og fólksflutninga. Umferðarmæling hafi sýnt fram á aukningu umferðar stórra bíla um götuna en ábendingum kærenda um það hafi verið hafnað á þeim forsendum að eigandi gistiheimilisins segði það ekki vandamál. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa götunnar vegna mælinganna eða tekið tillit til athugasemda þeirra um umferð. Ekki sé ljóst hvernig taka eigi upplýsta ákvörðun á grundvelli mælinganna en ekki hafi legið fyrir mælingar um umferðarþunga áður en starfsemi hafi hafist í gistiheimilinu.

Í minnisblaði frá verkfræðistofu er liggi fyrir í málinu hafi m.a. verið talið að umrætt gistiheimili væri í samræmi við byggðamynstur og að fjölbreytt íbúðarbyggð væri á svæðinu. Bendi kærendur á að gistiheimilið sé langtum stærsta húsið í hverfinu. Rangt sé að lóðin sé mjög stór og nýtingarhlutfall því ekki umfram það sem sé á öðrum lóðum. Viðbyggingin standi út fyrir merktan byggingarreit lóðarinnar og séu allar hliðar hússins nærri lóðarmörkum. Vísi kærendur til skipulagsreglugerðar um íbúðarsvæði en þar segi að þar skuli fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði og sé vikið frá þeirri meginreglu sé það vegna starfsemi sem eðlileg sé til þjónustu við íbúa hverfisins. Svo sé alls ekki í máli þessu.

Ekki hafi verið staðið við samkomulag er aðilar hafi gert árið 2011. Málið hafi ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt eða gætt að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Hafi kærendur ekki fengið réttláta málsmeðferð hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar. Settar hafi verið fram rangfærslur, látið hjá líða að svara erindum kærenda eða þeim svarað með órökstuddum hætti og skort hafi á samráð. Framkvæmd grenndarkynningar hafi verið andstæð lögum, teikningar ekki verið í samræmi við núverandi útlit hússins og ósamræmi verið milli texta grenndarkynningar og teikninga. Með réttu hafi átt að rífa umrædda kvisti þegar byggingarleyfið hafi verið afturkallað og hefja málið frá grunni.

Þá sé bent á vegna breytinga á bílskúr að kærendur hafi á árinu 2013 kvartað við umhverfis- og skipulagsráð yfir framkvæmdum í bílskúrnum. Hafi svo virst sem bæta ætti við gistirými þar en kærendur hafi margsinnis bent á að þau væru því algerlega mótfallin. Hafi því verið svarað að svo stæði ekki til en síðar hafi verið haldinn fundur með aðilum málsins þar sem komið hefði fram að rangt hefði verið með farið og að ætlunin væri að breyta bílskúrnum í geymslu, en því hefðu kærendur alfarið hafnað.

Málsrök Reykjanesbæjar: Sveitarfélagið bendir á að hinar kærðu ákvarðanir byggi á afgreiðslu tveggja stjórnsýslustiga. Byggi umsýsla og afgreiðsla erinda vegna Bakkavegar 17 á hlutleysi og bestu vitund, með tilliti til þeirra gagna sem fram hafa komið í málinu og þeirrar reynslu sem nú sé komin á starfsemina frá því að hún hafi hafist á vordögum 2012. Hafi umhverfis- og skipulagsráð fjallað um og tekið tillit til framkominna athugasemda, en málinu hafi verið frestað á árinu 2012 til nánari eftirgrennslunar og til að fá reynslu af starfseminni. Ljóst sé að tafir á framkvæmdum vegna vinnslu málsins hafi komið eigendum gistiheimilisins illa. Ekki verði séð að neitt hafi komið fram sem kalli á endurskoðun eða upptöku málsins eða afturköllun á útgefnu byggingarleyfi 17. apríl 2013. Þá sé bent á að á öllum teikningum sem kærendur hafi fengið til umfjöllunar sé notkun mannvirkisins skilgreind sem gistiheimili, líkt og í samkomulagi frá árinu 2011.

Vegna framkvæmda við bílskúr sé tekið fram að um minniháttar framkvæmd sé að ræða sem feli ekki í sér aukin umsvif í starfsemi Hótel Bergs. Breytingin feli eingöngu í sér tilfærslu rýma og breytingu á notkun þeirra en ekki fjölgun gistirýma og aukin umsvif. Færist bílastæði sem verið hafi framan við svonefnda bílgeymslu á stæðið vestan við húsið og þannig fjær nágrönnum og skapi því síður ónæði.

Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi tekur fram að í málsrökum kærenda séu settar fram fjölmargar rangfærslur. Bent sé á að reynt hafi verið að breyta tilhögun sorphirðu en samkomulag við Gámafélagið sé þannig að reynt sé að haga losun hjá byggingarleyfishafa miðað við dagatal sorphirðu annarra húsa í götunni. Þá hafi verið samið um að ekki yrðu notaðir eins stórir bílar við sorphirðu. Hafi í athugasemdum nágranna verið notast við almennt dagatal fyrir sorphirðu fyrirtækja og ekki tekið tillit til sérsamnings við losunaraðila.

Samkomulag hafi verið gert við fyrirtækið Kynnisferðir um að taka tillit til annarra íbúa götunnar og að rúturnar yrðu stöðvaðar niður við smábátahöfn. Þá hafi bílstjórum þeirra verið gert að aka ekki upp götuna en mistök geti orðið, einkum þegar byggingarleyfishafar séu ekki meðvitaðir um að von sé á rútu. Rútuferðir um götuna séu mjög sjaldgæfar. Í flestum tilfellum séu vörur sóttar og sé sá háttur hafður á af tillitssemi við nágranna. Flutningabílar frá Mjólkursamsölunni komi u.þ.b. tvisvar í mánuði og frá Vífilfelli einu sinni í mánuði.

Umferðarmælingar árið 2012 hafi verið framkvæmdar á háannatíma til að fá rétta mynd af því hvernig umferðin væri þá. Umferð um götuna sé hins vegar lítil. Tvö bílastæði séu fyrir framan viðbygginguna og stundum sé of mörgum bílum lagt þar.
Því sé mótmælt að mikil umferðahljóð eða ónæði frá gangandi vegfarendum séu vegna reksturs gistiheimilisins en einnig sé þarna gata og vinsæl gönguleið. Hafi umferð minnkað vegna þeirra lagfæringa sem gerðar hafi verið í kjölfar samkomulags sem gert hafi verið milli aðila málsins.

Þá sé tekið fram að fjölskylda lóðarhafa sé stór og ekki sé óalgengt að 5-7 bifreiðar séu á Bakkaveginum á vegum fjölskyldunnar. Loks sé bent á að lóðin að Bakkavegi 20 sé ógirt og því ekkert sem komi í veg fyrir að fólk geti gengið upp að húsinu. Varla sé að sakast við lóðarhafa Bakkavegar 17 vegna þessa.

Athugasemdir kærenda við málsrökum Reykjanesbæjar: Því er mótmælt að málið hafi fengið hlutlausa umfjöllun. Hafi kærendur verið leyndir sannleikanum þar til of seint hafi verið að snúa ferlinu við án fjárhagslegs skaða fyrir eigendur Bakkavegar 17. Þá sé vísað til þess að kærendur hafi ítrekað bent á óleyfisframkvæmdir í öðrum hlutum hússins. Sé gistireksturinn nú í einnig í þeim hluta hússins sem ætlað sé sem íbúðarhúsnæði. Aldrei hafi verið sótt um leyfi fyrir því, það ekki kynnt fyrir íbúum og því staðfastlega neitað af bænum, en á fundi sem kærendur hafi átt nýlega með lóðarhafa Bakkavegar 17 og starfsmanni umhverfis- og skipulagssviðs hafi verið staðfest að íbúðarhlutinn sé nú notaður sem gistiheimili. Lítið hafi verið gert úr athugasemdum kærenda og þær taldar snúast aðallega um umferð. Þá hafi ákvörðunin ekki verið rökstudd með fullnægjandi hætti þrátt fyrir fjölmargar athugasemdir kærenda. Hvorki umhverfis- og skipulagsráð né bæjarráð hafi veitt formlegt leyfi fyrir notkun Bakkavegar 17 sem gistiheimili og því telji kærendur allan slíkan rekstur í húsinu ólöglegan.

——

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á tveimur ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ. Annars vegar um að veita leyfi til að reisa fimm kvisti og innrétta fjögur herbergi í þakrými viðbyggingar hússins að Bakkavegi 17 og hins vegar um að heimila m.a. breytta notkun og breytt útlit bílskúrs á lóðinni.

Í gildi er Aðalskipulag Reykjanesbæjar 2008-2024 og er lóðin að Bakkavegi 17 á íbúðar-svæði, nánar tiltekið á svonefndu þéttingarsvæði fyrir Grófina-Berg. Við töku hinna kærðu ákvarðana var ekki í gildi deiliskipulag fyrir það svæði.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segir hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd, sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.

Bakkavegur er nokkur hundruð metra löng botngata. Byggt er við austurenda götunnar og er lóðin að Bakkavegi 17 þar fremst. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár var reist einbýlishús með bílskúr á lóðinni árið 1999, alls 267,9 m². Að auki er skráð á lóðinni 312,8 m² gistihús. Einnig standa innar í götunni fjögur íbúðarhús og eru kærendur búsettir í þremur þeirra. Á svæðinu er einnig byggt við hluta Bergvegar sem liggur í um 150 m fjarlægð norðan við Bakkaveg. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá eru þar 16 íbúðarhúsalóðir, 14 þeirra eru byggðar einbýlishúsum, ein er óbyggð og ein byggð tvíbýlis-húsi. Þá er þar að finna eina iðnaðar- og athafnalóð sem byggð er einbýlishúsi. Smábátahöfn liggur sunnan byggðarinnar við Bakkaveg og er þar að finna safnhús, kaffihús og ferða-þjónustu.

Líkt og rakið hefur verið var árið 2010 heimilað að reisa viðbyggingu við húsið að Bakkavegi 17 fyrir nýtt gistiheimili, alls 294,6 m². Samþykkt var fjölgun gistirýma um tvö í júní 2011 og í ágúst sama ár gaf Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja út starfsleyfi fyrir heimagistingu með allt að 16 rúmum að Bakkavegi 17. Fram kemur á samþykktum teikningum byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2013, að um sé að ræða gistirými með alls 15 herbergjum við einbýlishúsið að Bakkavegi 17 og að sótt sé um leyfi til að fjölga herbergjum í þakrými um fjögur og reisa kvisti. Samkvæmt skráningartöflu, samþykktri af byggingarfulltrúa sama dag, er flatarmál gistirýmis hússins 458 m². Við stækkunina fer nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,44 í 0,55, miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá og skráningartöflu hins samþykkta byggingarleyfis. Nýtingarhlutfall annarra lóða við Bakkaveg er hæst 0,39 miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá. Nýtt starfsleyfi til að „starfrækja Hótel Berg“ var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hinn 6. maí 2013.

Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarbyggð skilgreint sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu, eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins, sbr. a.-lið gr. 6.2. Samkvæmt gr. 5.3.2.8. í reglugerðinni skal gæta þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis. Rekstur gisti-heimila hefur verið talinn rúmast innan heimilda nefndra reglugerðarákvæða, með þeim takmörkunum sem þar eru greind, en ætla má að með auknu umfangi umræddrar starfsemi fylgi aukin umferð, umgangur og hávaði, sem og aukið álag á bílastæði í götunni.

Þegar litið er til umfangs umrædds gistirekstrar, staðhátta eins og þeim er áður lýst, þess að gert er ráð fyrir því í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 að byggingu hverfisins Bergsins verði lokið með einnar til tveggja hæða sérbýlishúsum á um fimmtán lóðum, sem og til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bakkavegi 17 er farið að skera sig töluvert úr því sem gerist á næstu lóðum og er orðið um 40% umfram það sem hæst er annars staðar, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undanþáguákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Þá telur úrskurðarnefndin að eins og á stóð hafi ekki verið heimild til að beita ákvæði 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga og falla frá grenndarkynningu við veitingu leyfis fyrir breyttri notkun bílskúrs. Slík breyting getur snert hagsmuni annarra en umsækjanda leyfis, enda í raun um að ræða fækkun bílastæða á lóð. Af gögnum málsins verður og ráðið að fyrir lá afstaða kærenda um að breytingar á bílskúr gætu varðað hagsmuni þeirra.

Samkvæmt framansögðu skorti lagaskilyrði fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna umsókn byggingarleyfishafa um gerð fimm kvista og fjölgun herbergja um fjögur í þakrými,

sem og fyrir þeirri málsmeðferð að grenndarkynna ekki breytingar á bílskúr. Leiða þessir ágallar til þess að ógilda ber hinar kærðu ákvarðanir.

Vegna kröfu kærenda er lýtur að stöðvun notkunar á gistirými, er ekki hafi hlotið samþykki byggingarfulltrúa, skal á það bent að hún er háð eftirliti byggingarfulltrúa og fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjaness frá 1. febrúar 2013 um að samþykkja leyfi til að reisa fimm kvisti og fjölga herbergjum í þakrými um fjögur í húsinu nr. 17 við Bakkaveg í Reykjanesbæ.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjaness frá 23. janúar 2014 um að heimila breytingar á notkun og útliti bílskúrs að Bakkavegi 17.

 

____________________________
Nanna Magnadóttir

 

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

90/2013 Skerjabraut

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 10. júní, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir mál nr. 90/2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Sigmundur Hannesson, hrl. f.h. I og Ó, áður til heimilis að Skerjabraut 3a, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að nýtingarhlutfall á lóðinni að Skerjabraut 3a verði hið sama og á lóðunum nr. 1-3 við Skerjabraut ella að nýtingarhlutfall þeirra lóða verði hið sama og á lóðinni nr. 3a við Skerjabraut. Þá krefjast kærendur stöðvunar réttaráhrifa meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 16. janúar 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. desember 2013 á umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut. Gera kærendur kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda. Ítrekuðu kærendur kröfu sína um stöðvun framkvæmda með bréfi til nefndarinnar sem móttekið var 3. apríl 2014. Verður síðara kærumálið sem er nr. 3/2014 sameinað kærumáli þessu. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar.

Málsgögn bárust frá Seltjarnarnesbæ 17. janúar 2014, 24. s.m. og 27. febrúar s.á.

Málavextir: Hinn 22. júní 2011 var á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness samþykkt deiliskipulag Lambastaðahverfis og tók skipulagið gildi í október s.á. Var umrætt skipulag kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá. Taldi nefndin að hin kærða ákvörðun væri ógild þar sem auglýsing um gildistöku skipulagsins hefði ekki verið birt innan lögboðins tímafrests og því lægi ekki fyrir gild ákvörðun er sætt gæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Í framhaldi af því var ákveðið að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna „endurauglýsingar“ deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við áður samþykkta deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis að því undanskyldu að skipulag fyrir lóðina Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabraut 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6, samþykktir árið 1973. 

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa téða tillögu. Var tillagan auglýst til kynningar frá 4. mars til 26. apríl 2013 með athugasemdafresti til 26. apríl og bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. þ.m. Var svohljóðandi fært til bókar: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar“. Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Nær deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs, af sjó til suðvesturs og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða. Gerir deiliskipulagið m.a. ráð fyrir að á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut, sem liggur að hluta að lóðinni nr. 3a við Skerjabraut, verði reist fjölbýlishús með samtals 23 íbúðum og 34 bílastæðum á lóð. Er nýtingarhlutfall lóðarinnar með kjallara 1,05 og nýtingarhlutfall lóðar án kjallara 0,95.

Hinn 19. nóvember 2013 var á fundi skipulags- og umferðanefndar tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús með 23 íbúðum á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut. Var afgreiðslu málsins frestað, þar eð ákveðin gögn lægju ekki fyrir. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti svo framlagða umsókn hinn 18. desember s.á.

Framangreindum ákvörðunum hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er lýst.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ójafnræðis gæti í heimiluðu nýtingarhlutfalli lóðar þeirra og Skerjabrautar 1-3 en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,7 en nýtingarhlutfall lóðarinnar að Skerjabraut 1-3 verði 1,05. Réttmætt sé að kærendur sitji við sama borð og lóðarhafi Skerjabrautar 1-3 hvað nýtingarhlutfall lóðar varði. Þá sé bent á að skipulags- og umferðanefnd hafi frestað afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi og hafi því líklega ætlað að taka nefnda umsókn aftur fyrir til afgreiðslu. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi hins vegar samþykkt umsóknina þrátt fyrir að kæra vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis væri til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Hafi hann með því farið á svig við grunnreglur stjórnsýsluréttar. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda um ógildingu verði hafnað og öðrum kröfum mótmælt. Með breytingu á deiliskipulagi sé verið að koma að nokkru til móts við sjónarmið kærenda með því að lækka nýtingarhlutfall úr 1,27 á lóðinni að Skerjabraut 1-3, líkt og það sé nú samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir lóðina, í 1,05. Mismunur á nýtingarhlutfalli byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Einnig sé með deiliskipulaginu komið til móts við sjónarmið kærenda um að þeim verði heimilt að nýta lóð sína betur. Vegna andmæla nágranna, grenndaráhrifa og byggðamynsturs hafi ekki verið talið hægt að leyfa meira byggingarmagn á lóðinni nr. 3a við Skerjabraut.

Þá hafi engin lög eða stjórnsýslureglur verið brotnar við afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar. Málið hafi ekki verið tækt til endanlegrar afgreiðslu fyrr en gögn, m.a. frá eldvarnareftirliti SHS, hafi borist. Engin ástæða hafi verið til að taka málið aftur upp í nefndinni en byggingarfulltrúi skuli lögum samkvæmt afgreiða byggingarmál nema samþykktir sveitarfélags geri ráð fyrir öðru og sé svo ekki hér.  

Málsrök byggingarleyfishafa Skerjabrautar 1-3: Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur séu ekki þinglýstir eigendur að Skerjabraut 3a og þegar af þeim sökum eigi þeir engra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu. Núverandi heimili þeirra sé um 4 km frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Verði því ekki séð að hin kærða ákvörðun geti haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra og beri því að vísa kærumálinu frá nefndinni. Geri kærendur engan reka að því að rökstyðja málsaðild sína í kærunni og hafi því ekki sýnt fram á einstaklingsbundna lögmæta hagsmuni af málinu eða hverra hagsmuna þeir hafi að gæta af því að framkvæmdir hefjist ekki. Einnig sé bent á að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá hafi skipulags- og byggingarfulltrúi haft fulla heimild til að samþykkja umsókn um byggingarleyfi. 

Niðurstaða: Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands seldu kærendur fasteign sína að Skerjabraut 3a hinn 19. desember 2012. Fasteignin var afhent 1. júní 2013, afsal gefið út 1. ágúst s.á. og því þinglýst 8. s.m. Því er áður lýst að hið umdeilda deiliskipulag var samþykkt með ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 og tók það gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst s.á. Þá var umsókn um leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut samþykkt af skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness 18. desember 2013.

Kærendur munu nú vera búsettir að í Reykjavík eða í töluverðri fjarlægð frá því svæði er deiliskipulag Lambastaðahverfis tekur til. Getur deiliskipulagið og byggingar-leyfi gefið út í samræmi við það ekki haft þau áhrif á umhverfi kærenda að snert geti lögvarða hagsmuni þeirra þegar litið er til staðsetningar húss þeirra að og afstöðu þess til heimilaðra bygginga á lóðinni að Skerjabraut 1-3 eða til skipulagssvæðisins í heild sinni. Eiga kærendur því ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, og ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

83/2012 Kópavogsbraut

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 83/2012, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2012 varðandi leyfi fyrir tveimur gróðurhúsum á lóðinni nr. 98 við Kópavogsbraut í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2012, er barst nefndinni 17. s.m., kæra M og S, Kópavogsbraut 96 í Kópavogi, samþykkt skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2012 varðandi tvö gróðurhús á lóðinni að Kópavogsbraut 98 í Kópavogi. Hin kærða afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 26. s.m. Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dagsettu 27. s.m., og tekið fram að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfi fyrir húsunum var hins vegar ekki samþykkt af byggingarfulltrúa fyrr en 16. október sama ár. Með hliðsjón af framangreindu, og eins og hér stendur á, þykir verða að líta svo á að kæra þessi lúti að framangreindu byggingarleyfi húsanna enda þótt hún hafi borist fyrir samþykkt þess.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að hluta, þ.e. leyfis fyrir stærra gróðurhúsinu. Jafnframt er gerð krafa um að Kópavogsbæ verði gert að fjarlægja nefnt gróðurhús. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Kópavogsbæ 31. október 2012.

Málavextir: Á fundi byggingarfulltrúa í nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur gróðurhúsum á lóðinni að Kópavogsbraut 98, öðru 28 m² klæddu plasti og hinu 8 m² klæddu gleri. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu. Í apríl 2012 barst skipulagsnefnd bréf frá lóðarhöfum Kópavogsbrautar 98, ásamt yfirlýsingu frá 22 íbúum 12 húsa við vestanverða Kópavogsbraut, m.a. Kópavogsbrautar 100, er mæltu með því að veitt yrði leyfi fyrir stærra gróðurhúsinu. Hinn 26. apríl s.á. samþykkti skipulagsnefnd að grenndarkynna erindið fyrir lóðarhöfum að Kópavogsbraut 96 og 100. Með bréfi kærenda til skipulagsnefndar, dagsettu 5. júní 2012, lögðust þeir gegn því að samþykkt yrði leyfi fyrir stærra gróðurhúsinu, en ekki fyrir því minna. Þá var bent á að húsin hefðu verið reist í óleyfi og að Kópavogsbæ bæri skylda til að fjarlægja stærra húsið.

Skipulagsnefnd tók erindið fyrir að nýju hinn 17. júlí 2012, ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar, dagsettri 27. júní s.á. Var erindið samþykkt og því vísað til bæjarráðs, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 26. júlí s.á. Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dagsettu 27. s.m., og tekið fram að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með bréfi kærenda til Kópavogsbæjar, dagsettu 15. ágúst s.á., var greindri afgreiðslu mótmælt og farið fram á frekari rökstuðning. Ítarlegri rökstuðningur var lagður fram á fundi skipulagsnefndar hinn 18. september s.á. Var rökstuðningurinn samþykktur á þeim fundi, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 25. s.m. Byggingarfulltrúi tók umsókn um byggingarleyfi gróðurhúsanna fyrir á ný hinn 16. október 2012. Var umsóknin samþykkt og talin samrýmast mannvirkjalögum nr. 160/2010. Bæjarráð samþykkti fundargerð byggingarfulltrúa hinn 18. s.m. og bæjarstjórn hinn 23. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hið umdeilda gróðurhús sé allt of stórt til að geta talist gróðurhús til tómstundanota á lóð í miðju íbúðarhverfi. Útlit þess og stærð geri það verkum að helst líti út fyrir að gróðurhúsið hýsi einhvers konar iðnaðar- eða landbúnaðarstarfsemi. Húsið sé lýti á götumynd Kópavogsbrautar, einkum á árstíma er tré séu lítt eða ekki laufguð. Blasi byggingin við úr stofuglugga húss kærenda og sé af henni mikil sjónmengun.

Umrædd bygging hafi verið reist í tíð laga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og hafi lóðarhafar við bygginguna farið gegn ákvæðum 11., sbr. 13. gr., byggingarreglugerðarinnar. Séu tilvitnuð ákvæði að megininntaki samhljóða gr. 2.3.1. og gr. 2.3.2. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett hafi verið með stoð í mannvirkjalögum nr. 160/2010 og 4. mgr. 24. gr. laga nr. 75/2000, sem og 1. og 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Í ljósi ofangreindra lagaraka, og með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, sé það skylda Kópavogsbæjar að sjá til þess að byggingin verði fjarlægð sem fyrst.   

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Um formlega og efnislega rétta ákvörðun sé að ræða.

Skírskotað sé til þess að skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu en ódeiliskipulögðu hverfi og hafi svo verið gert hér. Skuli við mat á því hvort veita skuli byggingarleyfi einkum líta til fyrrnefndra þátta og verði þær framkvæmdir sem séu í meginatriðum í samræmi við þá þætti að teljast óverulegar. Í því sambandi þurfi að líta til þess hvort og að hvaða marki sé um að ræða skerðingu á hagsmunum kærenda.

Hagsmunir kærenda sé í engu skertir hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Eingöngu hafi verið bent á að út frá fagurfræðilegu sjónarmiði kunni hagsmunir kærenda að vera skertir, þ.e. að um sjónmengun sé að ræða. Hvort þannig hátti til sé matskennt og við slíkt mat verði m.a. að líta til sjónarmiða annarra lóðarhafa og þeirra sem eigi lögvarða hagsmuni og hafi látið málið til sín taka. Fjölmargir íbúar hafi lýst sig samþykka byggingarleyfi fyrir gróðurhúsinu. Þá standi það í töluverði fjarlægð frá lóðamörkum og á laufgunartíma trjágróðurs sé húsið ekki sýnilegt kærendum.

Almennt sé viðurkennt að grenndarsjónarmið vegi þungt við mat á því hvort breyta skuli deiliskipulagi eða samþykkja byggingarleyfi í hverfum sem ekki hafi verið deiliskipulögð. Það hafi verið mat skipulagsnefndar og byggingarfulltrúa að taka bæri undir sjónarmið nágranna um grenndaráhrif og að tilvist hússins hefði engin neikvæð heldur einungis mjög jákvæð grenndaráhrif. Komi fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar að umrætt gróðurhús sé í 28 m fjarlægð frá stofuglugga húss kærenda, það hafi ekki áhrif á götumynd, ekki sé um varanlega byggingu að ræða, það sé snyrtilegt og því sé vel við haldið. Þá hafi gróðurhúsið í afar litlum mæli áhrif á landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og um eðlilega og hóflega nýtingu á lóðinni sé að ræða.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafar vekja athygli á því að hið umdeilda gróðurhús hafi verið á lóðinni í rúmlega ár án þess að komið hafi verið á framfæri athugasemdum vegna þess.

Nauðsynlegt sé að setja stærðarhlutföll í samhengi. Lóð leyfishafa sé 950 m². Íbúðarhús og bílskúr séu um 170 m² og nýtingarhlutfall 0,17. Ef bætt sé við léttbyggingum á lóðinni, gróðurhúsum og geymsluskúr sem séu samtals 41 m², verði nýtingarhlutfall 0,22. Miðað við lóðir í nýrri byggingarhverfum Kópavogs sé það mjög lágt.

Álit kærenda á stærð, útliti og notagildi gróðurhúsanna sé huglægt mat og styðjist ekki við lög og reglugerðir. Vísað sé til yfirlýsingar annarra íbúa í næsta nágrenni. Segi þar m.a. að gróðurhúsið sé einstaklega snyrtilegt og vel staðsett á lóðinni. Húsið og garður leyfishafa sé til sóma fyrir hverfið og ræktunarstarf til fyrirmyndar. Margir þessara nágranna búi nær gróðurhúsinu og í mun beinni sjónlínu við það en kærendur. 

Ofmælt sé að tala um að gróðurhúsið blasi við út um stofuglugga á heimili kærenda og að af því sé sjónmengun. Húsið sjáist en það skyggi ekki á útsýni. Ekki verði séð að það valdi nokkru óhagræði fyrir kærendur, enda langt frá stofugluggum þeirra, og um 15 m séu frá mörkum lóðar þeirra að gróðurhúsinu. Þar að auki sé mikill og fallegur gróður í garði leyfishafa sem skýli húsinu að verulegu leyti. Krafa um niðurrif gróðurhússins virðist sett fram í þeim eina tilgangi að valda leyfishöfum fjárhagslegu tjóni og leiðindum. Spurt sé hvaða lögmætu hagsmunir geti legið að baki nefndri kröfu.
 
——-

Færð hafa verið fram frekari rök í málinu og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.
 
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi leyfis fyrir 28 m² gróðurhúsi á lóðinni nr. 98 við Kópavogsbraut. Lóðin er í grónu hverfi í Kópavogi sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Samkvæmt mannvirkjalögum nr. 160/2010 skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis og er unnt að veita byggingarleyfi, að undangenginni grenndarkynningu, í þegar byggðum hverfum þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það er þó gert að skilyrði að framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 44. gr.

Í hinu kærða tilviki er um að ræða gróðurhús á íbúðarhúsalóð sem telja verður að samræmist landnotkun svæðisins. Umrætt gróðurhús er klætt plasti og er hæð þess 2,42 m þar sem það er hæst. Það er staðsett á vesturhluta lóðarinnar, um 15 m frá mörkum lóðar kærenda. Eru lóðir kærenda og leyfishafa nokkuð stórar og er þar töluverður gróður. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Kópavogsbraut 98 sé 0,19 en verði eftir samþykkta breytingu 0,23. Sé litið til upplýsinga úr fasteignaskrá Þjóðskrár er nýtingarhlutfall Kópavogsbrautar 98 sambærilegt því sem er á næstu lóðum. Þannig er nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,18, nýtingarhlutfall er 0,20 á lóðinni nr. 100 og 0,22 á lóðinni nr. 102 við Kópavogsbraut. Úrskurðarnefndin fellst á að hið umdeilda gróðurhús sé nokkuð stórt og geti af þeim sökum haft einhver grenndaráhrif en telur þó í ljósi fyrrgreindra staðhátta að það raski ekki með slíkum hætti grenndarhagsmunum kærenda að ógildingu varði. Þá skal tekið fram að þrátt fyrir stærð og staðsetningu gróðurhússins hefur Kópavogsbær metið það svo að það falli að byggðamynstri svæðisins og m.a. vísað til þess í rökstuðningi til kærenda að hefðbundin gróðurhús, klædd plastdúk eða gleri, séu algeng í eldri hverfum bæjarins, enda sé ræktun grænmetis og blóma gömul hefð á Kársnesi í anda sjálfbærni, sem mikils sé metin í bæjarfélaginu. Eins og hér stendur á eru ekki efni til endurskoðunar á því mati sveitarfélagsins.

Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem aðrar ástæður liggja ekki fyrir í máli þessu er leitt geta til ógildingar, er kröfu kærenda hafnað.

Kærendur vísa máli sínu til stuðnings m.a. til ákvæða 11., sbr. 13. gr., byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar er meðal annars kveðið á um að óheimilt sé að reisa hús nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Eins og að framan greinir hefur Kópavogsbær nú samþykkt byggingarleyfi fyrir téðum gróðurhúsum. Kemur því af þeim sökum ekki til álita að beita áðurnefndu lagaákvæði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis frá 16. október 2012 fyrir 28 m² gróðurhúsi klæddu plasti á lóðinni Kópavogsbraut 98 í Kópavogi.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

36/2012 Óðinsgata

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 31. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 36/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2012, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kærir S Óðinsgötu 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 að synja umsókn um að gert yrði ráð fyrir þremur bílastæðum á lóð nefndrar fasteignar.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 7. febrúar 2012 tók byggingarfulltrúinn í Reykjavík fyrir umsókn um „leyfi til að bæta við þriðja bílastæðinu á baklóð fjölbýlishúss á lóð nr. 15 við Óðinsgötu.“   Var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 1. febrúar s.á.  Sú niðurstaða var tilkynnt með bréfi dags. 8. febrúar 2012 og hefur kærandi borið þá synjun undir úrskurðarnefndin eins og að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að mál þetta hafi upphaflega lotið að því að leggja fyrir byggingarfulltrúa teikningar að húsinu að Óðinsgötu 15 vegna breytinga innanhúss í tilefni af breyttu eignarhaldi.  Láðst hafi að teikna bíl í einu þriggja bílastæða sem fyrir séu á lóðinni á nefndum teikningum.   Umsókn kæranda, sem synjað hafi verið, hafi aðeins falið í sér leiðréttingu á innsendri teikningu til samræmis við byggingarleyfisteikningar fasteignarinnar og gildandi eignaskiptayfirlýsingu hvað umrætt bílastæði varði.  Verði ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun byggist í besta falli á misskilningi.

Reykjavíkurborg krefst frávísunar málsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti skv.  2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kæranda hafi í síðasta lagi mátt vera ljóst um málalyktir og kæruúrræði hinn 1. mars 2012 svo sem fyrirliggjandi tölvupóstar embættisins og kæranda beri með sér.      

Niðurstaða:   Upplýst hefur verið af hálfu borgaryfirvalda að umsókn kæranda, sem synjað hafi verið í máli þessu, hafi verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. desember 2012 með svofelldri bókun:  „Sótt er um samþykki fyrir núverandi fyrirkomulagi bílastæða á lóð fjölbýlishúss nr. 15 við Óðinsgötu.  Útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsstjóra frá 7. desember 2012 fylgir erindinu ásamt umsögn skipulagsstjóra dags. 6. desember 2012.  Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að umsókn kæranda sem synjað var með hinni kærðu ákvörðun hefur nú verið samþykkt.  Hefur kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi fyrri afgreiðslu borgaryfirvalda á nefndri umsókn hans og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við  3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

37/2013 Háagerði

Með

Árið 2013, föstudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 37/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. mars 2013 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við einbýlishús að Háagerði 12 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. apríl 2013, er barst nefndinni 11. sama mánaðar, kæra Þ og S þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. mars 2013 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við einbýlishús að Háagerði 12 í Reykjavík.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 28. júní 2013. 

Málavextir:  Kærendur sendu byggingarfulltrúanum í Reykjavík fyrirspurn í maí 2012 þar sem óskað var eftir afstöðu embættisins til stækkunar á húsinu að Háagerði 12.  Lóðin er á íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi og hefur svæðið ekki verið deiliskipulagt.  Fyrirspurnin var tekin fyrir af byggingarfulltrúa sem vísaði henni til umsagnar skipulagsstjóra.  Skipulagsstjóri veitti umsögn, dags. 22. maí 2012.  Niðurstaða hans var að viðbyggingin félli rétt innan marka þess nýtingarhlutfalls sem mælt væri með á svæðinu.  Þá sagði að þrátt fyrir að umfang viðbyggingarinnar væri ekki mikið í fermetrum raskaði hún svipmóti byggðarinnar og félli ekki vel að götumynd.  Viðbyggingin þyrfti að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla vel að byggingarstíl þess.  Þar sem ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir svæðið yrði væntanleg byggingarleyfisumsókn, sem unnin væri í samræmi við umsögnina, grenndarkynnt.  Loks var fyrirspurnin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. október 2012.  Bókað var eftirfarandi:  „Jákvætt.  Með vísan til skilyrða í umsögn skipulagsstjóra dags. 22. maí 2012.  Byggingarleyfisumsókn sem unnin yrði í samræmi við umsögn yrði grenndarkynnt.“

Kærendur sóttu um byggingarleyfi með umsókn, dags. 22. janúar 2013.  Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. sama mánaðar og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Skipulagsstjóri tók málið fyrir á fundi 1. febrúar 2013 og bókaði að vísað væri til fyrri umsagnar, frá 22. maí 2012.  Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju 26. febrúar 2013 og vísaði henni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 8. mars 2013 var málið tekið fyrir og lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars sama ár, ásamt umsögninni frá 22. maí 2012.  Skipulagsstjóri bókaði að ekki væri fallist á erindið, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2013.  Niðurstaða umsagnarinnar var að viðbyggingin félli innan nýtingarhlutfalls sem mælt væri með á svæðinu og teldist ásættanleg í því tilliti.  Viðbygging þyrfti að mati skipulagsfulltrúa og borgarminjavarðar að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla betur að svipmóti Smáíbúðahverfisins.  Ekki væri því hægt að fallast á umsóknina að óbreyttu.  Byggingarfulltrúi synjaði umsókninni á afgreiðslufundi 12. mars 2013 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. 

Málsrök kærenda:  Kærendur telja í fyrsta lagi að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við meðferð umsóknar þeirra. 

Ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010 hafi ekki verið virt.  Hafi skipulagsstjóra borið að láta fara fram grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga þegar byggingarfulltrúi sendi erindi þess efnis til hans 26. febrúar 2013.  Málið hafi einnig átt að fara til ákvörðunar sveitarstjórnar að lokinni grenndarkynningu.  Þá sé byggingarfulltrúi ekki bundinn af umsögn skipulagsfulltrúa og honum sé ekki skylt að leita umsagnar skipulagsfulltrúa, sbr. 2. ml. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga. 

Skipulagsfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þannig hafi ráðleggingar starfsmanns skipulagsfulltrúa á fundi 18. júní 2012 m.a. falið í sér að byggt yrði við norðan megin hússins, sem sé ómögulegt vegna lóðar og nálægðar nágrannahúss.  Sýni þetta að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin.

Loks hafi skipulagsfulltrúi brotið gegn andmælarétti kærenda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.  Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2013, hafi verið vísað í umsögn borgarminjavarðar.  Sú umsögn borgarminjavarðar hafi ekki fylgt gögnum málsins og því geti kærendur ekki svarað henni. 

Þá telji kærendur í öðru lagi að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum.  Sjónarmiðin hafi komið fram í umsögn skipulagsstjóra, dags. 7. mars 2013, og fyrri umsögn hans, dags. 22. maí 2012. 

Byggingarfulltrúi hafi talið sig bundinn af neikvæðum og ófaglegum umsögnum skipulagsfulltrúa og hafi þær orðið til þess að erindinu var synjað.  Formlega sé um að ræða umsögn skipulagsstjóra, dags. 7. mars 2013, en hún byggi á og vísi í umsögn frá 22. maí 2012.  Umsagnirnar séu villandi og á köflum beinlínis rangar.  Þá vanti alfarið efnislegan rökstuðning fyrir þeim kröfum sem gerðar séu. 

Niðurstaða umsagnar skipulagsfulltrúa 22. maí 2012 verði ekki skilin öðruvísi en að með nauðsyn þess að raska ekki  „svipmóti byggðar“ og „götumynd“ sé verið að vísa í forsendukafla umsagnarinnar.  Þar sé deiliskipulag Teigagerðisreitsins nefnt og sagt að ætla megi að við deiliskipulag svæðisins, sem Háagerði 12 tilheyri, verði horft til deiliskipulags aðliggjandi svæða, því sé tekið mið af skilmálum þeirra.  Þegar umsögnin sé rýnd sé hins vegar ekki að sjá að annað deiliskipulag en Teigagerðisskipulagið sé lagt til grundvallar.  Við Sogaveginn sé þó í gildi deiliskipulag sem sé mun skyldara umræddri götumynd í sögu og gerð og í því sé allt önnur afstaða til verndunar.  Því sé ljóst að fullyrðing skipulagsfulltrúa um að tekið sé almennt tillit til deiliskipulags nærliggjandi svæða sé röng og villandi.  Það vanti rökstuðning fyrir því hvers vegna skipulag Teigagerðisreits sé lagt til grundvallar.  Þannig sé um að ræða ólögmæt sjónarmið sem leiða skuli til ógildingar á umsögninni og afgreiðslu málsins. 

Þessu til viðbótar séu verndunarsjónarmið í Teigagerðisskipulaginu oftúlkuð, greinar teknar úr samhengi og gefin í skyn víðari túlkun þeirra. 

Skipulagsfulltrúi telji í umsögninni frá 22. maí 2012 að viðbyggingin muni raska svipmóti byggðarinnar og ekki falla vel að götumynd.  Kærendur telji að ekki sé sýnt fram á að svipmót eða götumynd hafi nokkurn tímann kallað á verndun.  Viðbyggingin sé innarlega á lóðinni og vart sýnileg frá götu.  Þá hafi svipmóti byggðarinnar og götumynd þegar verið raskað af breytingum á nærliggjandi húsum.  Ekkert hús sömu megin götu og hús kærenda sé með sama byggingarstíl.  Viðbygging við hús skáhallt á móti húsi kærenda, Háagerði 81, og við hús á horni Háagerðis og Mosgerðis hafi samskonar form og fyrirhuguð viðbygging. 

Þá telji skipulagsfulltrúi viðbygginguna þurfa að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla betur að byggingarstíl hússins.  Núverandi húsi hafi verið breytt þrisvar og fyrirhuguð viðbygging sé í samræmi við húsið.  Húsið sé látið halda sér óbreytt og gluggar viðbyggingarinnar taki mið af því.  Náttúruleg viðarklæðning tengi saman núverandi hús og stóran garð.  Skipulagsfulltrúi geri að auki enga tilraun til að rökstyðja hvers vegna viðbygging við þetta hús, umfram t.d. Háagerði 14, Háagerði 81 eða fjölmörg hús við Sogaveginn, eigi ein að falla að byggingarstíl upprunalega hússins. 

Að lokum geti tilvísanir í almennar greinar aðalskipulags ekki einar og sér verið grundvöllur að umsögn sem þessari.  Í skipulaginu sé lögð áhersla á mat aðstæðna í hverju tilfelli. 

Um seinni umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2013, vísi kærendur til þess að þeir hafi ekki séð þá umsögn borgarminjavarðar sem nefnd sé.  Sambærileg rök eigi við og þau sem rakin séu varðandi fyrri umsögn.  Benda megi á að skipulagsfulltrúi viðurkenni með setningunni „auk þess sem óæskilegt sé að heildarsvipmóti hverfisins verði raskað umfram það sem þegar er orðið“ að verndunargildi hverfisins hafi verið raskað.  Ekki verði því annað séð en að jafnræðisregla hafi verið brotin. 

Kærendur telji þannig að formskilyrðum, sem og jafnræðisreglu og meðalhófsreglu, hafi ekki verið fullnægt.  Efnisatriði umsagnar skipulagsfulltrúa snúi aðeins að húsa- og hverfavernd.  Hann hafi samþykkt að stærð viðbyggingarinnar sé ásættanleg og geri ekki athugasemdir varðandi áhrif skuggavarps eða önnur áhrif á nálægar lóðir.  Því standi og falli umsögn skipulagsfulltrúa með óljósum verndarhagsmunum.  Þessir verndarhagsmunir hafi ekki verið rökstuddir með fullnægjandi hætti og því sé ólögmætt að beita þeim eins og gert hafi verið í málinu.  Framangreind sjónarmið skipulagsfulltrúa gangi gegn þróun götu og hverfis og hvað varði kærendur þá gangi þau þvert gegn jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað og synjun byggingarfulltrúa staðfest.  Byggt sé á því að synjun byggingarfulltrúa hafi verið lögmæt.  Ekki verði séð að ákvæði um málsmeðferð hafi verið brotin á kærendum.  Á það skuli bent að fyrirspurn kærenda árið 2012 hafi verið svarað með umsögn skipulagsstjóra.  Í umsögninni komi fram að fyrirhuguð bygging muni raska svipmóti byggðarinnar og ekki falla vel að götumynd.  Því þurfi hún að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla að byggingarstíl þess. 

Kærendur hafi gert athugasemdir við umsögn skipulagsstjóra með bréfi, dags. í ágúst 2012, og fundað hafi verið með þeim.  Niðurstaða þeirrar vinnu hafi verið að ekki væri ástæða til að breyta afstöðu skipulagsstjóra.  Því sé þannig hafnað að málsmeðferð hafi verið brotin á kærendum við meðferð fyrirspurnarinnar.  Bent skuli á að hvorki skipulagslög né mannvirkjalög geri ráð fyrir fyrirspurnum sem hluta af málsmeðferð vegna byggingarleyfisumsókna, heldur sé verið að láta uppi almenna afstöðu byggingaryfirvalda til fyrirhugaðra framkvæmda á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggi. Ekki sé þannig um endanlega afstöðu borgaryfirvalda að ræða. 

Byggingarleyfisumsókn kærenda hafi ekki verið í samræmi við þau skilyrði sem fram hafi komið í umsögn skipulagsstjóra, enda hafi ekki verið fallist á erindið og skipulagsfulltrúi hafi vísað til fyrri umsagnar sinnar.  Byggingarfulltrúi hafi engu að síður ákveðið á fundi 26. febrúar 2013 að vísa málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Ekki hafi verið fallist á það af hálfu skipulagsfulltrúa að láta fara fram grenndarkynningu, en á fundi hans 8. mars 2013 hafi verið bókað að ekki væri fallist á erindið með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2013.

Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að endurskoða þurfi hönnun viðbyggingarinnar út frá byggðamynstri Smáíbúðahverfisins, en fyrirhuguð bygging þurfi að mati skipulagsfulltrúa og borgarminjavarðar að taka betur mið af upprunalegu húsi og falla betur að svipmóti hverfis.  Því sé ekki unnt að fallast á umsóknina að óbreyttu.

Ekki hafi verið skylt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina enda hafi hún ekki uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að vera í samræmi við byggðamynstur hverfisins.  Af uppdráttum sjáist að hin fyrirhugaða viðbygging sé gjörsamlega úr takti við það hús sem fyrir sé og byggðamynstur hverfisins sem einkennist af samskonar húsum.  Viðbygging á lóðinni nr. 81 við Háagerði, sem kærendur vísi til, sé ekki sambærileg þeirri sem kærendur vilji reisa.  Viðbyggingin við Háagerði 81 hafi verið samþykkt árið 1965 en þá hafi verið samþykkt að setja kvist á bakhlið og stækka húsið um 29,6 m2.  Fyrirhuguð bygging kærenda sé rúmlega 41 m² með nýtískulegu yfirbragði sem ekki falli vel að húsi eða hverfi. 

Málsástæðum kærenda þess efnis að byggingarfulltrúa hafi ekki verið skylt að vísa málinu til umsagnar skipulagsstjóra eða taka mark á umsögn hans sé einnig mótmælt.  Byggingarfulltrúa beri að vísa byggingarleyfisumsókn til umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem ekkert deiliskipulag sé í gildi.  Skipulagsfulltrúi taki svo ákvörðun um framhald máls, þ.e. hvort vinna þurfi deiliskipulag eða hvort beita megi undanþáguákvæði 44. gr. og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknir.  Skv. gr. 2.3.4. í gildandi byggingarreglugerð þurfi að leita samþykkis hlutaðeigandi skipulagsnefndar varði breyting á mannvirki form eða útlit.  Tekið sé fram í ákvæðinu að ekki þurfi að leita slíks samþykkis sé breyting óveruleg, breyti ekki eða hafi áhrif á götumynd. 

Ekki sé fallist á að þar sem svipmóti hverfisins sé þegar raskað sé ekki þörf fyrir verndun.  Í fyrsta lagi sé ekki fallist á að svipmóti hverfisins hafi verið raskað svo neinu nemi og í öðru lagi leiði eitthvert rask á svipmóti byggðar í áranna rás ekki til þess að raska eigi byggðinni meira. 

Því sé jafnframt hafnað að meðalhófsregla eða jafnræðisregla hafi verið brotnar á kærendum og að eignarréttur hafi verið rýrður.  Þvert á móti hafi verið tekið jákvætt í að stækka húsið og kærendum því í lófa lagið að laga umsókn sína að umsögn skipulagsstjóra í málinu.  Því sé mótmælt að rannsóknarregla hafi verið brotin eða andmælaréttur ekki virtur.  Engin skylda sé til að veita andmælarétt við umsögn umsagnaraðila enda skoðist slíkar umsagnir sem hluti af þeim gögnum sem borgaryfirvöld styðjist við áður en ákvörðun sé tekin um afgreiðslu umsókna.  Ekki sé heldur skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum teljist það augljóslega óþarft.  Bent skuli þó á að leitað hafi verið álits borgarminjavarðar umfram skyldu. 

Beinast hafi legið við að líta til deiliskipulags Teigagerðisreits við meðferð umsóknarinnar þar sem það hverfi sé hluti af sömu heild og sé unnið eftir skipulagsuppdrætti frá 1953 „Smáhúsahverfi“.  Sogavegur hafi byrjað að byggjast upp töluvert áður og algerlega án skipulags.  Deiliskipulag fyrir Sogaveg, sem unnið hafi verið árið 2004, hafi því verið orðið mjög brýnt verkefni og mikil þörf hafi verið fyrir endurnýjun lélegra húsa.  Hafi skipulagið því gert ráð fyrir bæði nýbyggingum og niðurrifi.  Fráleitt sé að gera þá kröfu að tekið verði mið af óskyldum deiliskipulagsáætlunum sem byggi á öðrum forsendum.  Í máli þessu hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að hin fyrirhugaða viðbygging hæfi húsinu og byggðamynstri hverfisins illa.  Sú afstaða borgaryfirvalda hafi strax verið látin uppi er kærendur hafi lagt inn fyrirspurn.  Jafnframt hafi kærendum verið leiðbeint um þau atriði sem uppfylla þyrfti til að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt.  Kærendur hafi hins vegar kosið að leggja inn byggingarleyfisumsókn sem hafi ekki verið í samræmi við afstöðu skipulagsyfirvalda.  Kærendur hafi því tekið alla áhættu af því að byggingarleyfisumsókninni yrði synjað.  Því sé þannig hafnað að synjun byggingarfulltrúa hafi byggst á ólögmætum sjónarmiðum.  Á það skuli bent að skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögunum og samkvæmt lögum sé það hlutverk sveitarstjórna að fjalla um og meta leyfisumsóknir og tryggja faglega umfjöllun, m.a. varðandi útlit og form bygginga. 

Aðilar hafa gert nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum, sem ekki þykir ástæða til að rekja hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn um leyfi til að byggja við einbýlishús að Háagerði 12, sem er í þegar byggðu hverfi sem ekki hefur verið deiliskipulagt.  Í umræddu tilviki lögðust skipulagsyfirvöld gegn byggingarleyfisumsókn kærenda án undangenginnar grenndarkynningar. 

Til stuðnings afstöðu sinni til umsóttrar viðbyggingar vísa skipulagsyfirvöld til þess að viðbyggingin þurfi að taka betur mið af formi og gerð upprunalegs húss og falla betur að svipmóti Smáíbúðahverfisins auk þess sem óæskilegt sé að heildarsvipmóti hverfisins verði raskað umfram það sem þegar sé orðið.  Þau sjónarmið sem búa að baki hinni kærðu ákvörðun byggja, að því er fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa, á aðalskipulagi og deiliskipulagsskilmálum Teigagerðisreits.  Fram kemur í aðalskipulagi Reykjavíkur, kafla 3.3, Þéttleiki byggðar og nýtingarhlutfall, að þegar fjallað sé um byggingarleyfisumsókn þar sem ekki hefur verið unnið deiliskipulag og ekki liggur fyrir í aðalskipulagi hver þéttleiki, byggingarmagn og yfirbragð byggðar skuli vera, skuli taka tillit til hæðar nærliggjandi húsa við sömu götu og nýtingarhlutfalls á viðkomandi götureit, auk þess sem áhrif á m.a. götumynd skuli metin, og þess gætt að framkvæmdin leiði aðeins til óverulegra breytinga á byggðamynstri hverfisins.  Byggðamynstur er skilgreint í 5. tl. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem lögun og yfirbragð byggðar, svo sem hæð og þéttleiki, og í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er byggðamynstri lýst sem lögun og yfirbragði byggðar, þar með talið fyrirkomulag byggðar og landnotkunar, svo sem hæð og þéttleiki, tegund landnotkunar, gatnakerfi, gerð og uppröðun bygginga, sbr. gr. 1.3. 

Skipulagsyfirvöld hafa ekki beitt skipulagsvaldi sínu til að gera nefnd skipulagsmarkmið um svipmót hverfis bindandi gagnvart stjórnvöldum og borgurum með skipulagsákvörðunum.  Það er óumdeilt að hæð hússins og nýtingarhlutfall lóðar eftir umsótta breytingu yrðu í samræmi við nærliggjandi hús, en ekki verður í þessu sambandi byggt á ákvæðum deiliskipulags annars götureits, s.s. Teigagerðisreits, sem ekki tengist umræddum götureit og liggur í nokkurri fjarlægð.  Umdeild viðbygging  yrði 20,8 m² að grunnfleti, og á tveimur hæðum, og hún risi ekki hærra en núverandi hús á lóðinni sem liggur við botngötu.  Með hliðsjón af þessu, og því að viðbyggingin yrði staðsett innarlega í lóð frá götu, verður hvorki séð að hún myndi raska götumynd að marki né að með henni yrði vikið frá landnotkun eða þéttleika byggðar svæðisins. 

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og bar því samkvæmt framansögðu að grenndarkynna fyrirhugaða viðbyggingu áður en skipulagsyfirvöld tóku afstöðu til umsóknar kærenda. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið þykja þeir annmarkar vera á málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að fella verði hana úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 12. mars 2013 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við einbýlishús að Háagerði 12 í Reykjavík. 

____________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson