Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2015 Flókagata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2015, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 á umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. september 2015, kærir A, Flókagötu 67, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að veita umsótt leyfi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 12. október 2015.

Málavextir: Á árinu 2005 fékk kærandi samþykkta umsókn um byggingarleyfi, m.a. fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni Flókagötu 67 um 20,3 m2 og breytingu þaks skúrsins úr flötu í valmaþak. Við breytinguna yrði hámarkshæð þaks 1,4 m meiri en áður. Var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu skv. þágildandi heimild í 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekki varð af framkvæmdum.

Ný byggingarleyfisumsókn var lögð fram árið 2013, sem laut að stækkun bílskúrsins um 18,3 m2 og sömu breytingu á þaki og áður hafði verið samþykkt. Þeirri umsókn var synjað af hálfu byggingarfulltrúa með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 9. desember 2013. Í þeirri umsögn kom fram að hækkun á efsta punkti þaks um 1,4 m myndi skerða útsýni frá Flókagötu 65 til austurs og að hærra þak myndi auka skuggavarp á lóðir sunnanmegin við hús. Þá væru ekki til nýleg fordæmi í hverfinu fyrir stækkun bílskúrs. Kærandi lagði inn nýja umsókn um byggingarleyfi í maí 2014 og mun ætlun hans hafa verið að lækka þak skúrsins frá fyrri umsókn. Sú lækkun kom hins vegar ekki fram á innsendum teikningum og var umsókninni hafnað. Í júní 2015 var aftur sótt um byggingarleyfi fyrir 18,3 m2 stækkun bílskúrs og gerð valmaþaks á skúrinn, þar sem hámarkshæð var lækkuð um 0,4 m frá fyrri umsóknum. Umsókninni fylgdi greinargerð þar sem vísað var til fordæma fyrir stækkun bílskúra og hækkun á þökum í hverfinu. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. ágúst 2015, var kæranda tilkynnt um synjun umsóknarinnar, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 22. júlí 2015, þar sem lagst var gegn erindinu.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að við afgreiðslu á umsókn hans, dags. 14. júní 2005, hafi komið fram að fallist væri á umbeðið byggingarleyfi að teknu tilliti til sjónarmiða nágranna um að takmarka hækkun bílskúrsþaks. Með framlögðum arkitektateikningum með umsókn þeirri er synjað var hinn 11. ágúst 2015 hafi verið komið til móts við ýtrustu kröfur nágranna. Jafnframt hafi verið sýnt fram á að hækkun þaksins hefði óveruleg áhrif á skuggavarp og útsýni.

Þau sjónarmið, sem skipulagsfulltrúi færi fram sem rök fyrir neikvæðri afstöðu sinni til umsóknar kæranda, séu síðar til komin og brjóti gegn skýrum fordæmum, bæði hvað varði stækkun bílskúra og hækkun á þökum á svæðinu. Sama gildi um afstöðu skipulagsfulltrúa til jafnræðisreglna stjórnsýsluréttar. Ekki sé gætt jafnræðis þegar lögð séu til grundvallar sjónarmið um „nýleg fordæmi“ þegar afstaða sé tekin til stækkunar bílskúrs. Þá sé ekki fjallað um fjölda fordæma um hækkun á þökum bílskúra. Túlkun skipulagsfulltrúa sé handahófskennd og brjóti gegn jafnræðisreglu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að afgreiðsla erindis kæranda frá 2005 sé úr gildi fallin og veiti kæranda ekki sjálfkrafa réttindi. Það sé mat skipulagsyfirvalda nú að þak bílskúrsins muni virka framandi í umhverfinu. Bílskúrar á svæðinu séu með flötum þökum og einhalla og ekki sé þörf á að lyfta þakinu til að laga leka. Flókagata 67 sé virðulegt hús í grónu hverfi, byggt árið 1952. Bílskúrinn á lóðinni sé tvöfaldur og 56 m2  að stærð. Hann sé einn sá stærsti í götunni, en bílskúrar séu þar almennt frá 20 til 40 m2. Ef fallist yrði á stækkun bílskúrs kæranda um 18 m2 yrði hann alls 74 m2, sem sé langt umfram það sem gangi og gerist í götunni og á næstu lóðum.

Hvorki þyki nauðsyn á stækkun skúrsins né vilji skipulagsyfirvöld gefa þau skilaboð eða það fordæmi að almennt megi stækka bílskúra í götunni, en ekki hafi nýlega verið heimilaðar stækkanir af þeirri stærðargráðu sem kærandi hafi óskað eftir. Bílskúrinn á lóðinni nr. 35 við Flókagötu, sem kærandi vísi til máli sínu til stuðnings, sé 67 m2, en heimiluð hafi verið stækkun á honum árið 1994. Byggingar sem leyfðar hafi verið fyrir rúmum 20 árum skapi þó engin réttindi til handa öðrum lóðarhöfum. Bílskúrinn á lóðinni nr. 59 við Flókagötu, sem kærandi vitni til, sé 55 m2, eða 1 m2 minni en bílskúr kæranda. Tilvísanir kæranda til breytinga í öðrum götum, s.s. Sigtúni og Hamrahlíð, hafi enga þýðingu í málinu og skapi heldur ekki fordæmi fyrir uppbyggingu á lóð kæranda. Synjun skipulagsyfirvalda hafi því verið málefnaleg og ekki brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Það sé mat Reykjavíkurborgar að hin umþrætta byggingarleyfisumsókn hafi falið sér breytingu sem hvorki væri í samræmi við byggðamynstur hverfisins né þéttleika byggðarinnar. Því hafi ekki verið skilyrði til að grenndarkynna umsóttar breytingar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Kærandi hafi tvívegis áður fengið synjun á stækkun bílskúrsins, þ.e. árið 2013 og 2014. Þær afgreiðslur hafi ekki verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og verði því ekki annað séð en að kærandi hafi fyrirgert kærurétti vegna stækkunar skúrsins nú. Beri af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að leggja fyrir byggingarfulltrúa að veita hið umsótta byggingarleyfi, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, bls. 252-254, kemur fram að svæðið sem hér um ræðir sé fullbyggt og fastmótað. Þar er og tekið fram að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Umrætt svæði hefur hvorki verið deiliskipulagt né er þar í gildi hverfisskipulag.

Þegar sótt er um byggingarleyfi á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ákveðið að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Byggingarleyfisumsókn kæranda, sem hafnað var með hinni kærðu ákvörðun, fól í sér stækkun á bílskúr um 18,3 m2 og hækkun þaks skúrsins um 1 m við að breyta því úr flötu þaki í valmaþak. Við þá stækkun yrði bílskúr kæranda 74 m2 að flatarmáli. Í umsögn skipulagsfulltrúa, sem lá til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, voru þau efnisrök færð fram fyrir synjuninni að bæði þakgerð og stærð bílskúrsins eftir breytingu yrði úr takti við það sem gangi og gerist í næsta umhverfi við hús kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að efnisrök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun.  Var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn kæranda. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

112/2016 Grettisgata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta nýjar íbúðir í húsinu nr. 62 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. ágúst 2016, sem barst nefndinni sama dag, kærir A, Grettisgötu 60, Reykjavík, þá afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum að Grettisgötu 62. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en ekki verður tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda þar sem framkvæmdum mun að mestu hafa verið lokið þegar kæra barst nefndinni. Verður málið nú tekið til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 30. ágúst 2016.

Málavextir: Hinn 28. janúar 2016 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2014 um að veita byggingarleyfi til að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í húsinu á lóð nr. 62 við Grettisgötu. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að ekki hefði verið aflað lögbundins álits Minjastofnunar Íslands við meðferð málsins. Einnig var tilgreint að ekki yrði af framlögðum byggingarnefndarteikningum annað ráðið en að dýpt svala í kverk hússins væri meiri en áskilið væri í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði.

Kærandi, sem skotið hafði nefndri ákvörðun til nefndarinnar, hafði í kjölfar þessa samband við Reykjavíkurborg og óskaði þess að vera upplýstur um framhald málsins hjá sveitarfélaginu. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. mars 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir breytingum sem orðið hefðu á fyrrgreindu húsi á byggingartíma þess. Fylgdi erindinu umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 15. s.m. Þar kemur fram að óskað sé umsagnar stofnunarinnar vegna hækkunar hússins að Grettisgötu 62, sem þegar hafi verið framkvæmd. Fyrir breytingu hafi Grettisgata 62 verið tvílyft steinhús með lágreistu mænisþaki. Veitt hafi verið heimild í deiliskipulagi frá 2002 til að byggja við húsið að lóðamörkum Grettisgötu 60 innan byggingarreits og reisa eina hæð ofan á húsið. Gerð hafi verið breyting á nefndu deiliskipulagi árið 2014. Taldi Minjastofnun það óheppilegt að heimiluð hefði verið hækkun þakhæðar umfram það sem sýnt væri í deiliskipulaginu frá 2002. Reynt hefði verið að aðlaga útlit hins endurbyggða húss að ásýnd steinsteyptra borgarhúsa í Reykjavík frá fyrri hluta 20. aldar. Fylgdi stærð og skipan gluggaopa hefðinni en gluggagerðin væri framandi og ekki í samræmi við upphaflegan stíl hússins. Bæri húsið eftir stækkun svip hreinnar nýbyggingar og fátt í útliti þess benti til þess að um væri að ræða endurbyggt gamalt hús. Var afgreiðslu málsins frestað á fyrrgreindum fundi byggingarfulltrúa. Umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta íbúðir í umræddu húsi, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi hans 3. maí 2016.

Með tölvubréfi kæranda til umhverfis- og skipulagssviðs 13. júní 2016 var óskað upplýsinga um stöðu málsins. Í öðru tölvubréfi kæranda 16. s.m. var bent á að starfrækt væri gistiheimili í umræddu húsi og að starfseminni fylgdi verulegt ónæði. Í kjölfar þessa urðu nokkur bréfaskipti milli kæranda og sveitarfélagsins um málið allt fram til ágústmánaðar s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að byggingarfulltrúi hafi á ný samþykkt öll leyfi þrátt fyrir að honum hafi borist nýjar upplýsingar um að í húsinu væri starfrækt gistiheimili án tilskilinna leyfa. Veruleg grenndaráhrif séu vegna starfseminnar, svo sem ónæði, aukin umferð og mengun. Meiri umgangur sé um undirgang, sem sé eina aðkoman að inngangi Grettisgötu 62. Hafi samþykktar breytingar á húsnæðinu og á þeirri starfsemi sem starfrækt sé þar ekki verið grenndarkynntar fyrir nágrönnum. Sé inngangur í húsið tilgreindur frá rangri götu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda í máli þessu. Áður samþykktar svalir séu innan uppgefins byggingareits fyrir svalir. Lengd þeirra sé reiknuð út frá húsdýpt beggja megin við kverkina, en um sé að ræða hornhús. Á grundvelli alls þessa hafi verið fallist á að fyrirliggjandi teikningar af Grettisgötu 62 væru í samræmi við gildandi deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireit 1.190.1., með síðari breytingum. Hafi byggingarleyfi því verið samþykkt að nýju, enda hafi nú legið fyrir umsögn Minjastofnunar Íslands.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru. Hefur hann ekki látið málið til sín taka að öðru leyti en því að hann bendir á að vottorð um lokaúttekt hafi verið gefið út 20. september 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans frá 3. maí 2016 að samþykkja að nýju byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Grettisgötu 62. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýstur um leyfið með tölvupósti byggingarfulltrúa 23. júní s.á. og var honum leiðbeint um kæruleið með tölvupósti fulltrúans 15. júlí s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. ágúst s.á. og var þá kærufrestur liðinn. Með hliðsjón af því skilyrði fyrir gildistöku fyrrnefndar samþykktar byggingarfulltrúa að eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið yrði þinglýst, og að svo var ekki gert fyrr en með áritun sýslumanns þar um 20. september 2016, verður að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður hún því tekin til efnisúrlausnar, en rétt er að taka fram að hið kærða leyfi heimilar hvorki rekstur gistiheimilis né breytta notkun húsnæðisins að öðru leyti og koma sjónarmið í kæru vegna þessa því ekki til frekari skoðunar.

Lóðin að Grettisgötu 62 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur, sem er 1.190.1. Umrætt skipulag öðlaðist gildi árið 2002 og gerði m.a. ráð fyrir auknu byggingarmagni á fyrrgreindri lóð. Hinn 12. nóvember 2014 tók gildi breyting á skilmálum nefnds skipulags, er fól í sér að lóðirnar Grettisgata 62 og Barónsstígur 20 yrðu sameinaðar og að á þeirri lóð yrði þriggja hæða hús ásamt þakhæð með kvistum. Að auki var heimilað að svalir á 2. og 3. hæð yrðu utan byggingarreits. Að öðru leyti skyldu ákvæði eldri skilmála gilda, en þar var kveðið á um að við Grettisgötu og Barónsstíg skyldu svalir snúa inn að reit. Skyldi dýpt svalanna leggjast við húsdýpt og mesta dýpt þeirra frá bakhlið húss vera 1,6 m. Líkt og fyrr greinir benti úrskurðarnefndin á í úrskurði sínum 28. janúar 2016 að svo virtist sem byggingarnefndarteikningar fyrir aðra og þriðju hæð hússins að Grettisgötu 62 væru ekki í samræmi við skilmála deiliskipulagsins að því er lyti að dýpt svala í kverk hússins. Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að nú liggi fyrir skýringarteikning hönnuðar hússins og sé lengd svalanna reiknuð út frá húsdýpt beggja vegna kverkarinnar, en um sé að ræða hornhús. Um er að ræða L-laga hús á horni Grettisgötu og Barónsstígs. Bakhliðar hússins, miðað við áðurnefndar götur, mynda kverk þar sem gert er ráð fyrir svölum. Vísa þær svalir inn að reit, svo sem áskilið er í skipulagsskilmálum. Verður með hliðsjón af aðstæðum og nefndum skipulagsskilmálum að fallast á að dýpt svalanna megi reikna frá bakhliðum hússins miðað við bæði Grettisgötu og Barónsstíg og að byggingarleyfið fyrir þeim sé þar með í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Þá liggur fyrir að áður en hið umdeilda byggingarleyfi var samþykkt var leitað lögbundins álits Minjastofnunar Íslands skv. 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar, sbr. og 4. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Gerði stofnunin athugasemd við samþykktar breytingar vegna hæðar hússins og gluggagerðar. Með hliðsjón af því að hún lagði ekki til skilyrði um nefnda framkvæmd, sem tillit hefði þurft að taka til skv. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 80/2012, verður þó ekki annað séð en að skilyrði framangreindra laga hafi verið uppfyllt við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki séð að um neina þá form- eða efnisannmarka sé að ræða á hinni kærðu ákvörðun að valdið geti ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. maí 2016 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri framkvæmd, þ.e. að byggja ofan á og við og innrétta átta nýjar íbúðir í húsinu nr. 62 við Grettisgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

88/2015 Fjarðargata

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 12. ágúst 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107 á fyrstu hæð hússins að Fjarðargötu 19, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2015, er barst nefndinni 12. s.m., kærir húsfélagið Fjarðargötu 19 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 12. ágúst 2015 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107 í fjöleignarhúsinu að Fjarðargötu 19. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 18. nóvember 2015.

Málavextir: Í fjöleignarhúsinu að Fjarðargötu 19 eru 26 eignarhlutar. Á jarðhæð eru verslunar- og þjónusturými en á efri hæðum íbúðir. Sá eignarhluti sem hér um ræðir er merktur 0102 í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands en honum hefur verið skipt upp í þrjú rými, þ.e. 0104, 0106 og 0107.

Hinn 12. ágúst 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir breyttri hagnýtingu á rými 0107. Í breytingunni fólst að skrifstofurými yrði breytt í veitingastað. Við afgreiðslu málsins hjá byggingarfulltrúa lá fyrir jákvæð umsögn Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 4. september s.á. Mótmælti kærandi ákvörðuninni með bréfi, dags. 28. s.m., og krafðist þess að byggingaryfirvöld stöðvuðu framkvæmdir þar sem meðferð málsins hefði verið ólögmæt, enda hefði samþykki kæranda ekki legið fyrir. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 30. s.m. og bókað að það væri lagt fram. Var kæranda tilkynnt um bókun byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 2. október s.á.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 6. október 2015 var erindi kæranda lagt fram og bókað að skipulags- og byggingarráð vísaði til samþykktar afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa 12. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á sínum tíma hafi hann veitt samþykki fyrir uppskiptingu eignarhluta 0102 í þrjú rými gegn ákveðnum skilyrðum er vörðuðu rekstraraðila, affall og sorpmál. Jafnframt hafi kærandi samþykkt að heimilað yrði að innrétta einn hluta fyrir sölustað veitingakeðjunnar Subway en enga aðra starfsemi. Við afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar hjá byggingarfulltrúa hafi ekki legið fyrir samþykki kæranda til að breyta hagnýtingu eignarhlutans úr skrifstofurými í veitingastað. Hafi verið gerðar athugasemdir við hina umdeildu breytingu en byggingaryfirvöld hafi ekki tekið tillit til þeirra.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í húsinu við Fjarðargötu 19 hafi alla tíð verið gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi á götuhæð hússins. Húsið sé jafnframt staðsett á skilgreindu miðsvæði í aðalskipulagi, þar sem fyrst og fremst sé gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæranda hafi borist tilkynning um samþykki hinnar kærðu ákvörðunar með bréfi frá byggingarfulltrúa, dags. 4. september 2015. Hafi kæran borist úrskurðarnefndinni 12. október s.á. og sé hún því of seint fram komin.

Þá hafi kærandi ekki tilgreint með hvaða hætti sé verið að raska hagsmunum hans með hinni kærðu ákvörðun. Heimilt sé að breyta hagnýtingu séreignar án samþykkis annarra eigenda hafi hún ekki í för með sér verulega meiri röskun en fyrir var, sbr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Loks sé gert ráð fyrir verslunar- og þjónusturými á fyrstu hæð hússins, auk þess sem svæðið sé skilgreint í aðalskipulagi sem miðsvæði. Sú starfsemi sem gert sé ráð fyrir með hinni kærðu ákvörðun sé í samræmi við skipulag svæðisins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem heimilar breytta hagnýtingu rýmis í eignarhluta á jarðhæð í fjöleignarhúsinu við Fjarðargötu 19.

Líkt og rakið er í málavöxtum var kæranda tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa og honum leiðbeint um kæruleiðir. Kærandi mótmælti í kjölfarið umræddri afgreiðslu og komu mótmælin fram innan kærufrests. Taldi hann um ólögmæta ákvörðun að ræða þar sem ekki hefði legið fyrir samþykki húsfundar. Á þeim forsendum krafðist kærandi þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Að teknu tilliti til þess að kærandi er húsfélag húss þess sem byggingarleyfið lýtur að, sem og til efnis athugasemda hans, verður að líta svo á að í greindum mótmælum hafi falist beiðni um að málið yrði tekið til meðferðar á ný, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar fyrir liggur beiðni um endurupptöku máls skal það stjórnvald sem tekið hefur hina upprunalegu ákvörðun í skjóli stjórnsýsluvalds síns taka afstöðu til þess hvort efni séu til endurupptöku hennar. Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu til endurupptökubeiðni kæranda heldur gefur bókun á afgreiðslufundi hans þvert á móti til kynna að erindið hafi verið lagt fram án þess að það hafi hlotið þar afgreiðslu í kjölfarið. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar verður mál ekki endurskoðað samtímis af kærustjórnvaldi og því stjórnvaldi sem ákvörðunina tók. Með hliðsjón af því að fyrir byggingarfulltrúa liggur óafgreidd beiðni um endurupptöku verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Það athugist að skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests og byrjar hann ekki að líða að nýju nema endurupptöku verði synjað. Verði mál hins vegar tekið upp að nýju byrjar kærufrestur að líða frá töku nýrrar ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

69/2016 Hótel í landi Rauðsbakka

Með

Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hótel á jörðinni Rauðsbakka.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir V, eigandi Berjaness, Hvolsvelli, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hluta úr jörðinni Rauðsbakka. Með bréfi, dags. 26. júní s.á., er barst nefndinni 27. s.m., kærir H, eigandi Miðbælisbakka, Hvolsvelli, sömu ákvörðun Rangárþings eystra og er það mál nr. 72/2016. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, og bréfi, dags. 30. s.m., er barst nefndinni 1. desember s.á., kæra sömu aðilar jafnframt þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 1. júlí s.á. að samþykkja byggingarleyfi fyrir hóteli á deiliskipulagssvæðinu. Eru þau mál nr. 156/2016 og nr. 158/2016. Verður að skilja málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að jafnframt þessi ákvörðun verði felld úr gildi.

Verða greind kærumál, nr. 72/2016, 156/2016 og 158/2016, öll sameinuð máli þessu þar sem þau eru samofin og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með tölvupósti 11. nóvember 2016 krefst annar kærenda þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi eystra 17. ágúst og 8. desember 2016.

Málavextir: Jörðin Rauðsbakki, landnúmer 163709, er um 58 ha að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þar af er 9,9 ha ræktað land og á jörðinni er véla- og verkfærageymsla frá árinu 1971 skráð sem eini húsakosturinn. Tiltekið er um landið að það sé jörð í byggð. Er jörðin og skráð sem lögbýli, en er ekki merkt sem eyðibýli í lögbýlaskrá. Þar kemur jafnframt fram að jörðin sé ekki í ábúð, en hún mun hafa verið í eyði síðan 1965. Jörðin er staðsett undir Eyjafjöllum og nær hið kærða deiliskipulag til 5,7 ha svæðis innan hennar, sem liggur um 1.600 m suður af þjóðvegi 1.

Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra, sem haldinn var 1. október 2015, var tekin fyrir umsókn eiganda Rauðsbakka um heimild til að vinna deiliskipulag fyrir hluta af jörðinni. Meðfylgjandi var lýsing fyrirhugaðrar deiliskipulagsáætlunar, dags. 10. september s.á. Samkvæmt lýsingunni var gert ráð fyrir gististað eða hóteli með 1-2 hæða húsum og allt að 1.500 m2 byggingarmagni á deiliskipulagssvæðinu. Skipulagsnefnd lagði til við sveitarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og að framlögð lýsing yrði kynnt fyrir almenningi, Skipulagsstofnun og öðrum umsagnaraðilum skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi sínum 8. október s.á. samþykkti sveitarstjórn tillögu nefndarinnar. Kynningartími lýsingarinnar var frá 20. nóvember 2015 til 4. janúar 2016.

Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar að nýju hinn 4. febrúar 2016. Umsagnir höfðu borist frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Veðurstofunni. Að þeim fengnum var unnin deiliskipulagstillaga og mælst til þess að hún yrði auglýst ásamt umhverfisskýrslu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Hinn 11. s.m. samþykkti sveitarstjórnin að auglýsa deiliskipulagstillöguna og var athugasemdafrestur tillögunnar frá 16. febrúar til 29. mars s.á. Á sama fundi sveitarstjórnar var samþykkt að skipta svæði því sem deiliskipulagstillagan náð til, alls um 5,7 ha að flatarmáli, úr landi Rauðsbakka landnr. 163709.

Hinn 7. apríl 2016 samþykkti skipulagsnefnd svör við innkomnum athugasemdum, svo og breytta deiliskipulagstillögu m.t.t. til þeirra. Var þó gerður fyrirvari um jákvæða umsögn Fiskistofu, sem svo barst 4. maí s.á. Hinn 8. apríl s.á. samþykkti sveitarstjórn framangreind svör og breytta tillögu og jafnframt að breytt deiliskipulagstillaga yrði send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins að því tilskyldu að horfið hefði verið frá þeim landskiptum sem samþykkt hefðu verið í sveitarstjórn 11. febrúar s.á., enda næði 5,7 ha lóð ekki þeim stærðarmörkum lands sem aðalskipulag gerði kröfu um. Hinn 14. júní 2016 birtist svo auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir allt að 1.300 m2 byggingu með 7,0 m hámarkshæð og allt að 30 gistirými á jörðinni Rauðsbakka.

Hinn 1. júlí 2016 samþykkti byggingarfulltrúi Rangárþings eystra byggingarleyfi fyrir 28 herbergja, 1.235,7 m2, hóteli með stoð í hinu kærða deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ljóst að fyrirhuguð bygging hins kærða hótels muni hafa verulega röskun í för með sér fyrir þá sem næst búi eða dvelji. Byggingin sé svo einkennilega staðsett að það trufli útsýni á svæðinu og sé líkast því að vinna hafi verið lögð í að velja þann stað þar sem byggingin myndi hafa mest truflandi áhrif gagnvart nágrönnum. Það sé sérstakt áhyggjuefni kærenda hversu mikið hótelið myndi rýra verðmæti Miðbælisbakka, en nefna megi að fyrir u.þ.b. ári hafi Rangárþing eystra veitt eiganda leyfi til að leigja bæinn út til ferðamanna. Rólegt umhverfi, kyrrð og fuglasöngur, ásamt útsýni til allra átta, sé aðalsmerki þessa staðar. Verði hótel hins vegar reist á þeim stað sem fyrirhugað sé að það rísi verði þetta liðin tíð og staðurinn missi aðdráttarafl sitt. Megi þá búast við umferð hópbifreiða og fólksbifreiða á öllum tímum sólarhringsins. Svo ekki sé minnst á að það færist í vöxt að þyrlur lendi við hótel í umræddri sveit. Byggingarreitur hótelsins sé áætlaður í rúmlega 200 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu að Miðbælisbökkum.

Þá hafi verið bent á að með því að færa byggingarreitinn norðar, nær bænum á Rauðsbakka eða jafnvel norður fyrir bæinn, þá myndu þessi fyrirséðu vandamál hverfa að miklu leyti og sátt kæmist á. Fleira styðji nauðsyn þess. Fyrst megi nefna að aðkomuleiðir í lönd annarra landeigenda á svæðinu liggi um fyrirhugað byggingarstæði og fáist ekki séð á uppdrætti að ný leið komi í staðinn. Þarna sé einnig eina leiðin sem sé öllum hlutaðeigandi fær að Miðbælisfjöru, en fyrirhuguð bygging myndi loka þessum leiðum. Þá furði kærandi sig á því hve litlar kröfur byggingaryfirvöld geri til grunnþátta, svo sem neysluvatns og frárennslis. Um aldaraðir hafi verið erfitt að ná til neysluvatns á þessu svæði. Þá sé rotþró áhyggjuefni, en mikið vatn muni fara í hana frá hótelinu og jarðvegurinn taki svo við. Stutt sé í Svaðbælisá þar sem veiddur sé matfiskur.

Ekki hafi farið fram grenndarkynning og nágrönnum með því gert ljóst hvað væri á ferðinni, en sjö metra há bygging á mjög umdeildum stað gagnvart þremur nágrönnum hljóti að kalla á sérstaka kynningu. Gagnrýnivert sé að svör við athugasemdum séu tekin saman af fyrirtæki í Reykjavík, sem hafi sjálft séð um hönnun skipulagsins og gerð uppdrátta af staðnum. Þá beri að hafa í huga að þegar svona rekstur sé kominn á verði hann ríkjandi innan stórs radíuss frá hótelinu og það sem fyrir er víki. Græðgishyggjan meti einskis ræktun túna eða tilfinningar þeirra sem fyrir séu á svæðinu. Kærendum sé ekki kunnugt um að fram hafi farið athugun á því hvort álagablettir eða sérstakir sagnablettir séu á þessu svæði. Kærendur vísi aukinheldur til þess að svæðið sem um ræðir sé komið yfir þau 5 ha mörk sem fram komi í 6. gr. jarðalaga nr. 81/2004 og þurfi því að liggja fyrir leyfi ráðherra fyrir breyttri landnotkun.

Þá vísi kærendur til þess að byggingarstjóri framkvæmdanna hafi fullyrt að möguleiki væri á tvöföldun hótelsins. Það myndi hafa í för með sér enn frekari malartöku úr Svaðbælisá með tilheyrandi raski á lífríki hennar, og koma verður í veg fyrir það.

Óljóst eignarhald á landinu sem byggingarreiturinn sé á sé meginástæða þess að með öllu sé óþolandi að þarna verði gefið leyfi fyrir hótelbyggingu. Þó taki kærendur fram að þeir geri sér grein fyrir því að deilur um eignarhald á landi heyri ekki undir úrskurðarnefndina.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið telur málsmeðferð deiliskipulags Rauðsbakka hafa í einu og öllu verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.

Hvað varði samþykkt byggingarleyfis þá hafi það verið mat sveitarfélagsins að malartaka vegna framkvæmdanna úr Bakkakotsá hafi ekki verið leyfisskyld af hálfu sveitarfélagsins, þar sem um hafi verið að ræða efnistöku til eigin nota. Hins vegar hafi landeigandi Rauðsbakka sótt um leyfi fyrir efnistökunni til Fiskistofu, líkt og kveðið sé á um í 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Fiskistofa hafi heimilað efnistökuna með leyfi, dags. 22. júlí 2016.

Hvað varði umferðarleið um land Rauðsbakka að Miðbælisfjöru þá sé gert ráð fyrir henni bæði á deiliskipulagsuppdrætti og í greinargerð. Einnig komi fram í svörum til þeirra er gert hafi athugasemdir við deiliskipulagið á auglýsingartíma að framkvæmdaraðili hyggist halda aðgengi að strandlínu opnu og óhindruðu. Samkvæmt samtali við eiganda jarðarinnar Rauðsbakka hafi hann ekki í hyggju að loka aðgengi að Miðbælisfjöru. Þá hafi engar breytingar verið gerðar á samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið og bygging hótelsins sé í samræmi við samþykkt byggingarleyfi, dags. 11. júlí 2016, og aðaluppdrætti, dags. 13. mars s.á., samþykkta af byggingarfulltrúa 1. júlí s.á.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að fyrir liggi að hið kærða byggingarleyfi taki til byggingar 30 herbergja hótels. Í því sé vísað til samþykkts uppdráttar, dags. 18. mars 2016, þar sem stærð hótelsins sé sýnd og annað sem við komi skipulagi, þar með lega rotþróar og staðsetning vatnsbrunns. Hugleiðingar annars kærenda um hugsanlega stækkunarmöguleika komi þessu máli ekkert við. Byggingarleyfi og auglýst skipulag taki aðeins til 30 herbergja hótels og það sé sú framkvæmd sem unnið sé að.

Leyfishafi telji kæranda eiga ekki land að Svaðbælisá og eigi því engra hagsmuna að gæta vegna malartöku. Leyfi hafi verið fengið hjá Fiskistofu fyrir malartöku vegna núverandi framkvæmda í ánni í landi leyfishafa. Þá taki leyfishafi fram að ekkert liggi fyrir um stækkun umrædds hótels.

Leyfishafi mótmæli þeim staðhæfingum sem fram komi í kæru varðandi aðkomu að Miðbælisfjöru. Ekkert liggi fyrir um það hver réttur kæranda sé til nýtingar hlunninda í fjörunni eða að gömul þjóðleið hverfisins að umræddri fjöru liggi um lóð hótelsins. Hins vegar liggi fyrir að eigandi jarðarinnar Rauðsbakka muni eftir sem áður heimila umferð um land sitt eins og verið hafi þannig að hægt verði að komast að fjörunni. Liggi fyrir að allar jarðir í hinu svokallaða hverfi þarna í kring hafi sjálfstæðan aðgang að umræddri fjöru um lönd sín.

Niðurstaða: Með hinu kærða deiliskipulagi er gert ráð fyrir allt að 30 herbergja og 1.300 m2 hóteli á skika úr jörðinni Rauðsbakka. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 1. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hóteli með stoð í hinu kærða deiliskipulagi.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir byggingu hótels og hefur byggingarleyfi verið veitt fyrir því. Hótelið mun verða staðsett í um þriggja kílómetra fjarlægð frá íbúðarhúsinu á jörðinni Berjanesi, sem er í eigu annars kærenda. Liggja og aðrar jarðir á milli hótelsins og Berjaness. Sá kærandi vísar til almennra atriða varðandi efnistök og málsmeðferð deiliskipulagsins og breyttra forsendna byggingarleyfis, án þess að færa fram rök fyrir því hvernig hinar kærðu ákvarðanir hafi áhrif á hans einstaklegu lögvörðu hagsmuni. Þó rekur kærandinn atriði sem hann telur sýna fram á óljóst eignarhald á landi því sem deiliskipulagið tekur til. Úr slíkum ágreiningi verður ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni, eins og kærandi raunar tekur fram, og er ekki hægt að fallast á að mögulegur erfðaréttur hans veiti honum kæruaðild í máli þessu. Þá er ljóst að fasteign kæranda er ekki í þeirri nálægð við deiliskipulagssvæðið, og að aðstæður að öðru leyti eru ekki með þeim hætti, að framkvæmdir með stoð í hinu umdeilda deiliskipulagi geti haft þau áhrif á grenndarhagsmuni hans að skapi honum þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu, hvað þann kæranda varðar, af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, en mál þess kæranda sem er eigandi Miðbælisbakka tekin til meðferðar.

Eins og fram kemur í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er stefna aðalskipulags bindandi við gerð deiliskipulags, sbr. 6. mgr. 32. gr. þeirra laga. Í gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Er meginviðfangsefni þess stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skal í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á. Meðal þeirra málefna er landbúnaður, sbr. e-lið greinarinnar, og er þar átt við: „Þróun landbúnaðar og megináhrifaþættir. Helstu einkenni landbúnaðarsvæða, þ.e. búrekstrar sem þar er stundaður, þ.m.t. ferðaþjónusta og önnur atvinnustarfsemi sem tengist búrekstrinum. Helstu atriði sem varða mannvirkjagerð. Gera skal sérstaklega grein fyrir ræktuðum svæðum innan landbúnaðarsvæða. Stefna um hvar og hvernig þörfum landbúnaðarstarfsemi verður mætt. Stefna um hvaða atvinnustarfsemi önnur en hefðbundinn landbúnaður er heimil á bújörðum og viðmið um aðstæður og umfang.“ Í gr. 6.2. í reglugerðinni er nánar kveðið á um stefnu um landnotkun og skal hún sýnd með einum landnotkunarflokki. Skal sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi, en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Í greininni er landnotkunarflokkurinn landbúnaðarsvæði nánar skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað og matvæla- og fóðurframleiðslu, sbr. q-lið greinarinnar.

Í samræmi við framangreind reglugerðarákvæði er í kafla 4.17.3 í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024 fjallað um eðli og umfang annarrar atvinnustarfsemi á landbúnaðarsvæðum. Segir þar m.a: „Eins og fram hefur komið er á landbúnaðarsvæðum heimilt að nýta byggingar sem fyrir eru á jörðinni og reisa nýbyggingar fyrir atvinnustarfsemi, sem fellur vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og ekki hefur neikvæð áhrif á umhverfi sitt, án þess að gera þurfi grein fyrir þeirri landnotkun á aðalskipulagsuppdrætti. Fyrst og fremst er átt við atvinnugreinar sem eru eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verður meginlandnotkun á svæðinu. Þetta á t.d. við um almenna ferðaþjónustu s.s. „ferðaþjónustu bænda”, gistiaðstöðu og greiðasölu í tengslum við hana en einnig ýmsa athafnastarfsemi sem fellur vel að og er eðlileg viðbót við hefðbundna starfsemi á landbúnaðarsvæðum.“ Enn fremur segir: „Markmiðið er að gefa kost á nýtingu þess húsakosts sem fyrir er á viðkomandi bæjum með minni háttar viðbótum og breytingum án þess að breyta þurfi aðalskipulagi, auðvelda bændum að skjóta fleiri stoðum undir búreksturinn og tryggja áframhaldandi nýtingu jarðanna.“

Jörðin Rauðsbakki, sem hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi taka til, er á landbúnaðarsvæði í flokki I samkvæmt landnotkunarflokkun aðalskipulags sveitarfélagsins. Samkvæmt texta aðalskipulagsins er heimilað að reisa nýbyggingar fyrir atvinnustarfsemi, allt að 1.500 m2 að eldri húsum meðtöldum, á jörðum yfir 15 ha, ef starfsemin fellur vel að búrekstri og er þar fyrst og fremst átt við atvinnugreinar sem eru eðlileg viðbót við búrekstur og stoðgreinar við landbúnað.

Í hinu kærða deiliskipulagi er tekið fram að jörðin Rauðsbakki hafi verið í eyði síðan 1965. Tún séu hins vegar nytjuð og önnur svæði séu nýtt til beitar. Einnig er tiltekið að á jörðinni sé ein 56,1 m² verkfærageymsla. Eru upplýsingar þessar í samræmi við það sem fram kemur í fasteignaskrá Þjóðskrár, svo sem nánar er rakið í málavöxtum. Þykir því ljóst að á jörðinni sé ekki rekið bú. Þegar virt er hvernig hið kærða deiliskipulag samræmist ákvæðum aðalskipulags og skipulagsreglugerðar verður að líta til þess að framkvæmd skipulagsins felur sér í byggingu hótels og rekstur þess án nokkurra sýnilegra tengsla við búrekstur. Er enda vandséð að með því sé stutt við þann landbúnað sem stundaður er á jörðinni, þ.e. ræktun túna og búfjárbeit sem ekki er haldið á jörðinni. Þá er ekki um það að ræða að verið sé að nýta húsakost sem fyrir er, s.s. nefnt er sem markmið í nefndu aðalskipulagi. Verður að telja þá starfsemi komna út fyrir þau mörk sem setja verður um starfsemi á svæðum, sem fyrst og fremst eru ætluð til landbúnaðarnota, enda er önnur starfsemi undantekning frá þeirri meginreglu og lýtur hún þröngum skorðum eðli máls samkvæmt. Með vísan til þessa er ekki hægt að telja deiliskipulag fyrir hótel, sem er ekki í tengslum við starfræktan landbúnað og fyrirhugað er að byggja á jörð sem er í eyði, vera í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins, sbr. einnig ákvæði skipulagsreglugerðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hið kærða deiliskipulag slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæra eiganda Miðbælisbakka vegna byggingarleyfisins barst úrskurðarnefndinni 1. desember 2016, en hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin 1. júlí s.á. og byggingarleyfið gefið út 11. þess mánaðar. Hinn 19. júlí s.á. gerði byggingarfulltrúi úttekt á botnplötu, 30. ágúst s.á. gerði hann úttekt á sökklum og 13. september s.á. gerði hann úttekt á frárennslislögnum undir plötu. Með tilliti til þessa og nálægðar heimilis kæranda við verkstað getur honum ekki hafa dulist að byggingarleyfi hafði verið samþykkt og gefið út. Verður kæru hans vegna samþykktar byggingarleyfisins af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er þó að benda á, vegna athugasemda um malartöku úr árfarvegi Svaðbælisár í byggingarleyfiskæru eiganda Miðbælisbakka, að hið kærða byggingarleyfi tekur ekki til hennar. Önnur leyfi hafa ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, en undir rekstri málsins hefur komið fram að Fiskistofa hefur veitt leyfi til greindrar malartöku, sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Er sú ákvörðun eftir atvikum einnig kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 36. gr. nefndra laga.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum eiganda Berjaness.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 7. apríl 2016 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir hótel á jörðinni Rauðsbakka.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúans í Rangárþingi eystra frá 11. júlí 2016 á byggingarleyfi fyrir hóteli á jörðinni Rauðsbakka.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

44/2015 Sunnubraut

Með
Árið 2017, föstudaginn 20. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 44/2015, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. maí 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa parhús á lóðinni nr. 30 við Sunnubraut í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júní 2015, er barst nefndinni 15. s.m, kærir Viðskiptavit ehf., lóðarhafi Sunnubrautar 30 í Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 4. maí 2015 að synja umsókn um leyfi til að reisa parhús á lóð nr. 30 að Sunnubraut í Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og leyfi til byggingar húss á umræddri lóð samþykkt.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 13. ágúst 2015.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi  til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni að Sunnubraut 30, Kópavogi. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tók nefndin það fyrir á fundi 20. s.m., frestaði afgreiðslu þess og óskaði ítarlegri gagna. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 28. júlí s.á. og samþykkt að grenndarkynna það. Samkvæmt kynningarbréfi frá sveitarfélaginu fól erindið í sér að 102,0 m² íbúðarhús, byggt árið 1939 og bílskúr byggður 1966, yrði rifið og reist tveggja hæða parhús á umræddri lóð. Heildarbyggingarmagn yrði 385,2 m² og nýtingarhlutfall 0,49 eftir breytingu. Mænishæð fyrirhugaðrar nýbyggingar yrði sú sama og á núverandi íbúðarhúsi. Bárust athugsemdir á kynningartíma og á fundi skipulagsnefndar 15. september s.á. var skipulags- og byggingardeild falið að taka saman umsögn um þær.

Hinn 20. október 2014 var erindið tekið fyrir á ný á fundi skipulagsnefndar. Fært var til bókar að lögð væri fram breytt tillaga þar sem komið væri til móts við innsendar athugasemdir. Einnig væri lagt fram minnisblað frá samráðfundi sem haldinn hefði verið 8. október s.á., erindi frá íbúum Sunnubrautar 31 vegna fyrirhugaðra framkvæmda,  dagsett þann sama dag, og greinargerð byggingaraðila og lóðarhafa Sunnubrautar 30 vegna innsendra athugasemda, dags. 15. október 2014. Var afgreiðslu málsins frestað. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar 4. maí 2015 og því hafnað á grundvelli innsendra athugasemda. Jafnframt var því vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 7. s.m. var erindinu vísað til bæjarstjórnar sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi 12. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hin kærða ákvörðun sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Sé vísað til svara kæranda við framkomnum athugasemdum. Þar komi m.a. fram að ekki verði séð að bygging parhúss á lóð Sunnubrautar 30 skapi fordæmi. Samkvæmt húsakönnun fyrir lóðir á Sunnubraut 21-56 sé nýtingarhlutfall fjögurra lóða svipað og sex lóða hærra en að Sunnubraut 30. Byggingarstíll húsa við götuna sé með ýmsu móti og þar af leiðandi erfitt að sjá að fyrirhuguð framkvæmd sé stílbrot á nokkurn hátt. Gert sé ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð fyrir hvora íbúð, eins og byggingarreglugerð kveði á um. Ljóst sé af talningu bifreiða er fari um götuna kvölds og morgna að ekki sé sá skortur á bílastæðum sem haldið sé fram. Samkvæmt mælingum á götum í vesturbæ Kópavogs sé Sunnubraut ekki mjórri en aðrar sambærilegar götur þrátt fyrir fullyrðingar þess efnis. Þá sýni myndir að hús við götuna hafi ekki aðeins einbreiða heimkeyrslu.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið tekur fram að í kjölfar samráðsfundar, þar sem komið hafi fram mikil andstaða við fyrirhugaða uppbyggingu á lóðinni, hafi byggingaraðila verið gefinn kostur á að leggja fram breytta tillögu og koma til móts við innsendar athugasemdir. Lagt hafi verið til við byggingaraðila að verulega yrði dregið úr byggingarmagni á lóðinni og byggt einbýlishús í stað parhúss. Byggingaraðili hafi lagt fram breytta tillögu þar sem byggingarreitur hafi verið minnkaður um 70 cm á austur- og vesturhlið og bílastæði á lóð færð til. Að öðru leyti hafi tillagan verið óbreytt. Hafi skipulagsnefnd ekki talið að breytingarnar kæmu nægilega til móts við innsendar athugasemdir. Byggingaraðila hafi aftur verið gefið færi á því að gera frekari breytingar á tillögunni, en þrátt fyrir leiðbeiningar skipulags- og byggingardeildar þá hafi það verið ósk byggingaraðila að tillagan yrði lögð óbreytt fyrir skipulagsnefnd að nýju. Henni hafi síðan verið hafnað á fundi skipulagsnefndar og tekið undir framkomnar athugasemdir um að byggingarmagn á lóðinni væri of mikið og fjölgun íbúða á þessari lóð ekki ákjósanleg. 
                    ———

Úrskurðarnefndinni hafa borist athugasemdir íbúa að Sunnubraut 31 vegna framkominnar kæru.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis er að mannvirki og notkun þess sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu, sbr. 1.tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Leiki vafi á því skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga, sem og ef ekki liggur fyrir deiliskipulag, sbr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir, líkt og hér háttar, getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda hafi áður farið fram grenndarkynning, sbr. þágildandi 44. gr. skipulagalaga nr. 123/2010.

Svo sem að framan er rakið var umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir byggingu húss að Sunnubraut 30 grenndarkynnt. Að henni lokinni var málið til umfjöllunar að nýju hjá skipulagsnefnd og var erindi kæranda synjað 4. maí 2015. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu og lá þar með fyrir ákvörðun um frekari meðferð málsins. Það verður þó ekki fram hjá því litið að í málinu liggur ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda, en samkvæmt skýrum ákvæðum mannvirkjalaga er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis í höndum byggingarfulltrúa.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Að framangreindu virtu verður að telja að hvorki afgreiðsla skipulagsnefndar né afgreiðsla bæjarstjórnar hafi falið í sér lokaákvörðun í skilningi tilvitnaðs ákvæðis sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður málinu þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

155/2016 Skútahraun 6

Með
Árið 2017, föstudaginn 20. janúar, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 155/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2016, er barst nefndinni 26. s.m., kærir Húsfélagið Skútahrauni 4, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 26. október 2016 að veita leyfi fyrir geymsluhúsi úr einangruðum samlokueiningum á lóð nr. 6 við Skútahraun, Hafnarfirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 2. desember 2016 og 12. janúar 2017.

Málsatvik og rök: Hinn 2. desember 2015 var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar tekin fyrir fyrirspurn, dags. 27.11.2015, um byggingu geymsluhúss að stærð 670 m2. Nýbyggingin yrði staðsett á suðaustur hluta lóðarinnar nr. 6 við Skútahraun. Var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem tók erindið fyrir á fundi sínum 26. janúar 2016. Samþykkt var að unnið yrði að tillögu um uppbyggingu lóðar í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sem yrði kynnt í skipulags- og byggingarráði áður en formleg grenndarkynning færi fram. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 8. mars 2016 var samþykkt að grenndarkynna tillöguna og var það gert með bréfi, dags. 17. maí 2016, með athugasemdafresti til 18. júní s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda.

Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 13. júlí 2016 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi, dags. 11. s.m., um að byggja geymsluhús úr einangruðum samlokueiningum á lóð nr. 6 við Skútahraun. Var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem samþykkti það á fundi 9. ágúst s.á. Sú afgreiðsla skipulags- og byggingrráðs var staðfest á fundi bæjarráðs 11. ágúst 2016. Hinn 26. október s.á. var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkt að veita byggingarleyfi á grundvelli nýrra teikninga sem borist hefðu í september 2016 og var athugasemdum kæranda svarað með bréfi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 26. september s.á. Hinn 11. janúar 2017 var erindi leyfishafa tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa. Var bókað að leyfishafi óskaði eftir því að draga til baka umsókn sína um byggingarleyfi sem samþykkt hefði verið 26. október 2016. Jafnframt var bókað um afgreiðslu beiðnarinnar að fundurinn staðfesti erindið.

Kærendur skírskota til þess að hin kærða ákvörðun eigi hvorki stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins né viðhlítandi lögum auk þess sem öll meðferð málsins hafi brotið gróflega gegn efnis- og málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það skilyrði fyrir samþykkt byggingaráforma að mannvirki sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Hin kærða ákvörðun sé á engan hátt í samræmi við skipulagsáætlanir og málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar hafi verið byggð á röngum grundvelli. Hafi verið byggt á að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið. Hafi því verið farið með málið í grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem eingöngu sé heimilt þegar deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um óverulega breytingu á því sé að ræða. Fyrir liggi að deiliskipulagið Drangahraun-Skútahraun gildi fyrir svæðið. Sé enginn byggingarreitur markaður þar sem hin umdeilda bygging eigi að rísa og hafi heldur ekki verið að hægt að byggja á að um óverulega breytingu hefði verið að ræða enda geti 700 m2 bygging vart talist óveruleg breyting. Hin umrædda bygging geti jafnframt haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika lóða kærenda.

Af hálfu sveitarfélagins er ekki tekið undir athugasemdir kæranda. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Þá sé á það bent að leyfishafar hafi óskað eftir að byggingarleyfisumsóknin yrðu afturkölluð og hafi það verið staðfest af skipulags- og byggingarfulltrúa. Hin kærða ákvörðun hafi því verið afturkölluð og felld úr gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Líkt og að framan er rakið óskaði byggingarleyfishafi eftir því að afturkalla umsókn sína um byggingarleyfi, en hún var tilefni hinnar kærðu ákvörðunar. Hefur því og verið lýst yfir af hálfu Hafnafjarðarbæjar að ákvörðunin hafi verið afturkölluð og undir það rennir stoðum sú afgreiðsla skipulags- og byggingarfulltrúi 11. janúar 2017, sem nánar hefur verið lýst. Er því ljóst að hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hafa kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir 

122/2016 Unnarstígur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 19. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu Unnarstíg 2 á sameiginlegri lóð nefnds húss og Unnarstígs 2a og á ákvörðun hans frá 29. s.m. um að aflétta stöðvun framkvæmda við húsið Unnarstíg 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Unnarstígur ehf., eigandi Unnarstígs 2a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. ágúst 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum að Unnarstíg 2 og þá ákvörðun hans frá 29. s.m. að aflétta verkbanni á framkvæmdum á sameiginlegri lóð kæranda og leyfishafa. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 30. september 2016.

Málavextir: Með umsókn, dags. 29. janúar 2015, var sótt um leyfi til að dýpka kjallara og setja nýtt dren kringum hús nr. 2 við Unnarstíg. Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina 10. mars 2015 og lá þá fyrir umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 23. febrúar s.á. Var bókað að samþykki meðlóðarhafa á teikningu fylgdi og að skilyrt væri að ný eignaskiptayfirlýsing væri samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis. Byggingarleyfi var svo gefið út 12. ágúst s.á., án þess að fyrir lægi ný eignaskiptayfirlýsing.

Með bréfi, dags. 30. október 2015, beindi eigandi Unnarstígs 2a kvörtun að byggingarleyfishafa vegna framkvæmda hans og benti á að lóð Unnarstígs 2 og 2a væri í sameign þeirra. Benti eigandi Unnarstígs 2a á slíkt hið sama í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 26. nóvember s.á. Þar mótmælti eigandi Unnarstígs 2a framkvæmdunum, benti á að samþykki hans hefði ekki legið fyrir og gerði athugasemdir við leyfisveitingu byggingarfulltrúa. Svar umhverfis- og skipulagssviðs frá 1. desember s.á. var á þá leið að ekki væri fallist á að framkvæmdirnar sem leyfðar hefðu verið 10. mars s.á. kölluðu á samþykki meðeiganda lóðar. Um væri að ræða innanhúsbreytingu á séreign og flokkaðist drenlögn undir eðlilegt og eftir atvikum nauðsynlegt viðhald.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 26. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins Unnarstígs 2, síkka glugga í hjónaherbergi í kjallara, gera dyr út í garð og grafa frá kjallara hússins. Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.

Í kjölfar vettvangsskoðunar stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir á lóðinni með bréfi, dags. 20. maí 2016. Var tiltekið að breytingar hefðu átt sér stað á ytra byrði hússins sem ekki væri byggingarleyfi fyrir. Gluggar hefðu verið síkkaðir á austurhlið og gerðar nýjar dyr, auk þess sem glugga á vesturhlið hefði verið lokað. Var stöðvuninni mótmælt samdægurs af leyfishafa sem tók fram að gluggar hefðu ekki verið síkkaðir á austurhlið hússins og að einum glugga á þeirri hlið hefði verið breytt tímabundið til að auðvelda flutning á jarðvegsefni út úr fasteigninni vegna framkvæmda við dýpkun á kjallara samkvæmt byggingarleyfi. Glugganum verði komið í samt horf að loknum framkvæmdum enda hafi aldrei staðið til að breyta honum í dyr. Hvað varði lokun glugga á vesturhlið hafi verið um mistök verktaka að ræða sem verði leiðrétt. Frekari samskipti áttu sér stað milli aðila og með bréfi byggingarfulltrúa 23. júní s.á. var leyfishafa tilkynnt að við vettvangsrannsókn degi fyrr hefðu komið í ljós frekari óleyfisframkvæmdir og að framkvæmdir í húsinu væru stöðvaðar.

Með umsókn, dags. 1. júní 2016, var enn sótt um breytingar á Unnarstíg 2. Á umsóknarblaði var tekið fram að lóð yrði endurnýjuð í sama formi og verið hefði fyrir framkvæmdir við drenlagnir og að engin breyting yrði á lóð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. ágúst s.á. var umsóknin samþykkt og tekið fram að fyrri umsókn frá 26. apríl s.á. væri dregin til baka. Í samþykktu byggingarleyfi fólst að innra skipulagi hússins yrði breytt, gluggar á austurhlið hússins síkkaðir og færðir í upprunalegt horf, dyr vestanmegin í kjallara yrðu fjarlægðar og steypt upp í gat og kæmi þar nýr gluggi að hluta, timburstigi við inngang á austurhlið yrði fjarlægður og steyptur stigi á suðurhlið yrði rifinn og nýr steyptur í hans stað. Að auki yrði geymsla í risi yfir salerni og fjarlægður yrði timburstigi úr borðstofu og nýr timburstigi settur í staðinn. Við samþykkt byggingarfulltrúa var bókað að umsögn skrifstofu sviðsstjóra, dags. 17. s.m., fylgdi. Var umsögnin þess efnis að ekki væri nauðsynlegt að afla samþykkis annarra lóðarhafa fyrir umsóttum breytingum. Yrði ekki séð að þær hefðu nein þau áhrif á hagsmuni meðlóðarhafa að samþykki þeirra yrði krafist. Hefur þessi síðastgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Með tölvupósti byggingarfulltrúa 29. s.m. var leyfishafa tilkynnt að stöðvun framkvæmda væri aflétt þar sem áform um breytingar á húsinu hefðu verið samþykkt. Var jafnframt farið fram á að lóðin yrði færð í upprunalegt horf, eins og kostur væri, án þess að afstaða væri tekin til endanlegs frágangs lóðarinnar. Hefur þessi ákvörðun einnig verið kærð, eins og áður segir.

Í málinu liggur fyrir álit kærunefndar húsamála frá 8. júní 2016 þess efnis að framkvæmdir við Unnarstíg 2 samkvæmt byggingarleyfinu frá 10. mars 2015 séu heimilar án samþykkis meðlóðarhafa, en leyfishafa beri að koma lóðinni í fyrra horf að loknum framkvæmdum.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að samkvæmt skiptasamningi, dags. 20. ágúst 1976 og þinglýstum 23. s.m., sé umþrætt lóð sameiginleg eignarlóð hans og leyfishafa og sé hún í óskiptri sameign. Lóðinni hafi ekki verið skipt og af þeim sökum séu eigendur beggja húseigna á lóðinni jafn réttháir að öllu leyti.

Óumdeilt sé að hin kærða ákvörðun um samþykkt á umsókn kærða um útgáfu byggingarleyfis samkvæmt 9. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að auki gildi almennar meginreglur stjórnsýsluréttar um stjórnsýslu sveitarfélaga. Þar sem hin nýja umsókn hafi lotið að framkvæmdum á sameiginlegri lóð, og beinlínis sé tilgreint í umsókninni að ætlunin sé að endurnýja lóð í sama formi og hún hafi verið í áður en leyfishafi hafi byrjað á því sem hann nefni drenlagnavinnu á lóðinni, hafi aðild kæranda að málinu verið óhjákvæmileg. Hafi byggingarfulltrúa því borið að tilkynna kæranda með formlegum hætti að umsóknin, sem lyti m.a. að hinni sameiginlegu lóð hans og leyfishafa, væri til meðferðar hjá embættinu.

Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga skuli upplýsa aðila máls um gögn þau sem komið hafi fram í málinu og samkvæmt 13. gr. sömu laga skuli aðili máls eiga kost á því að tjá sig um þau gögn og koma að athugasemdum sínum áður en ákvörðun í málinu sé tekin, sbr. 10. gr. sömu laga. Fyrir liggi að ákvörðun byggingarfulltrúa 23. ágúst 2016 hafi verið send kæranda með tölvupósti 2. september s.á. Kæranda hafi hins vegar í engu verið veittar leiðbeiningar um réttarstöðu sína í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga, hann hafi með engum hætti verið upplýstur um gögn málsins í samræmi við 15. gr. laganna og þannig hafi aldrei verið veittur andmælaréttur eins og skýrt sé kveðið á um í 13. gr. sömu laga.

Kærandi bendi á að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi einnig farið í bága við réttmætisreglu íslensks stjórnsýsluréttar, sem kveði á um að ákvarðanir stjórnvalda verði að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Að mati kæranda geti það aldrei talist málefnalegt að veita tilteknum aðila leyfi til framkvæmda á sameiginlegri lóð án þess að aflað sé samþykkis meðlóðarhafa. Þá bendi kærandi á að jafnvel þótt byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að taka hina kærðu ákvörðun þá hafi honum í öllu falli borið að gæta meðalhófs og ganga úr skugga um að réttindi kæranda yrðu tryggð. Hefði byggingarfulltrúa þannig verið í lófa lagið að binda byggingarleyfi því skilyrði að samþykki kæranda þyrfti til framkvæmdanna eða að fyrir lægi með hvaða hætti kæranda yrði bætt það tjón sem hann verði fyrir vegna þeirra.

Grundvöllur allra framkvæmda leyfishafa á hinni sameiginlegu lóð hafi verið umsókn hans um byggingarleyfi, sem samþykkt hafi verið 10. mars 2015. Fyrir liggi að mistök hafi verið gerð við þá afgreiðslu af hálfu byggingarfulltrúa. Áskilið sé í 10. gr. laga um mannvirki að hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn fylgi með umsókn um byggingarleyfi, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt gögnum málsins hafi slíkt samþykki ekki legið fyrir við ákvarðanatöku byggingarfulltrúa. Þá hafi skilyrði byggingarfulltrúa um að ný eignaskiptayfirlýsing yrði samþykkt fyrir útgáfu leyfisins ekki verið uppfyllt.

Eins og fyrr greini hafi byggingarleyfið frá árinu 2015 einungis náð til þess að leggja drenlögn umhverfis húsið að Unnarstíg 2. Framkvæmdir leyfishafa hafi hins vegar tekið til nánast allrar hinnar sameiginlegu lóðar. Þá liggi fyrir að framkvæmdirnar hafi farið gegn ákvæðum laga um fjöleignarhús.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg fellst ekki á að samþykki meðlóðarhafa hafi verið áskilið fyrir hinum samþykktu áformum er varði útlitsbreytingar eða breytingar innanhúss. Verði ekki séð að kærandi hafi neina þá hagsmuni að slíkar framkvæmdir kalli á samþykki hans, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Hafi því ekki komið til þess að kæranda væri tilkynnt sérstaklega um fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn eða honum veittur sérstakur andmælaréttur.

Hvað varði þá málsástæðu að óheimilt hafi verið að gefa út byggingarleyfi þar sem þinglýstur eignaskiptasamningur hafi ekki legið fyrir skuli á það bent að byggingaryfirvöldum sé heimilt að falla frá þessu ólögbundna skilyrði um þinglýsingu eignaskiptayfirlýsingar fyrir útgáfu byggingarleyfa. Um þetta vísi sveitarfélagið til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 98/2008, en í niðurstöðu hans komi fram að ekki sé fyrir hendi lagaskylda til að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu fyrir fjöleignarhús áður en heimilaðar breytingar eða viðbyggingar hefjist. Hafi byggingaryfirvöldum því verið heimilt í því máli að falla frá þessu ólögbundna skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfisins sem sett hafi verið við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Hvað varði þá málsástæðu kæranda að um lækkun á jarðvegi/lóð sé að ræða skuli á það bent að ekki liggi fyrir samþykki byggingaryfirvalda fyrir slíkum breytingum. Þvert á móti sé tekið fram í hinum samþykktu áformum að engar breytingar verði á lóð. Það sé því á hendi lóðarhafa að ganga þannig frá lóðinni að hún verði án breytinga. Ekki sé fallist á að leggja hafi þurft fram uppdrætti af frágangi lóðar, enda standi til að koma henni í upprunalegt horf. Hvað varði þá málsástæðu að með samþykkt byggingaráforma 10. mars 2015 hafi rúmmál hússins verið aukið um 41 m3 og byggingarréttur meðeigenda þannig skertur skuli á það bent að ekkert deiliskipulag sé í gildi og enginn byggingarréttur sé fyrir hendi á lóðinni. Sé því ekki verið að skerða nein slík réttindi. Til upplýsinga skuli þó nefna að það sé rétt sem fram komi í kæru að í samþykktinni vegna þessa máls hafi verið tekið fram að samþykki meðlóðarhafa hafi fylgt erindinu. Þar hafi verið um misritun að ræða, en um hafi verið að ræða samþykki meðeiganda hússins nr. 2 við Unnarstíg.

Ekki sé heldur fallist á að sú ákvörðun byggingarfulltrúa að aflétta stöðvun framkvæmda sé haldin þeim ágöllum að varði ógildingu hennar. Um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun byggingarfulltrúa, sem hafi metið stöðu máls svo að ekki væri tilefni til að halda verkinu áfram í stöðvun. Fram hafi verið komin áform um að koma lóðinni í samt lag og búið væri að samþykkja áform um breytingar innanhúss og utan. Sæti reyndar nokkurri undrun að kærandi skuli kvarta yfir því að búið sé að grafa út lóðina og hindra aðgengi hans að henni, ef svo sé, en leggist svo gegn áformum um að lóðinni verði komið í samt lag. Á það skuli bent að í heimild til áframhaldandi framkvæmda felist einungis lækkun gólfs og drenlagnavinna, en eins og fram hafi komið sé ekki búið að gefa út byggingarleyfi vegna samþykktar byggingarfulltrúa frá 23. ágúst 2016.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi mótmælir með öllu að samþykki kæranda hafi þurft fyrir því jarðraski sem óhjákvæmilega fylgi endurnýjun á drenlögnum. Um hafi verið að ræða nauðsynlegar aðgerðir til að leyfishafi gæti nýtt fasteign sína. Af réttarreglum um óskipta sameign leiði í fyrsta lagi að sameigandi þurfi ekki samþykki sameigenda sinna ef um sé að ræða framkvæmdir sem séu öðrum sameigendum að bagalausu. Ljóst sé að framkvæmdir leyfishafa feli það í sér að lóðin og lagnir verði á allan máta betri en þær hafi verið fyrir framkvæmdir. Í þeim skilningi séu framkvæmdir leyfishafa kæranda að bagalausu. Vissulega hafi framkvæmdir tekið langan tíma og lóðin verið opin nokkuð lengi. Sá langi tími skrifist hins vegar fyrst og fremst á kæranda, en fulltrúar félagsins hafi á öllum vígstöðvum barist fyrir því að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.

Í öðru lagi leiði af réttarreglum um óskipta sameign að ráðstafanir sem gengið hafi verið út frá við stofnun sameignar séu hverjum sameigenda heimilar án samþykkis annarra sameigenda. Sameign um lóðina að Unnarstíg 2 hafi orðið til með þeim hætti að eignarhald mannvirkja á lóðinni hafi komist á tvær eða fleiri hendur. Um sé að ræða íbúðarhúsalóð með tveimur húsum. Eðli málsins samkvæmt hafi legið fyrir frá upphafi að eigendur mannvirkjanna á lóðinni þyrftu í tímans rás að sinna eðlilegu viðhaldi eignanna, sem eftir atvikum gæti þýtt jarðrask á hinni sameiginlegu lóð. Þetta séu því tvímælalaust ráðstafanir sem gengið hafi verið út frá við stofnun sameignar. Engin rök mæli með því að kærandi geti komið í veg fyrir eðlilegt og nauðsynlegt viðhald fasteignarinnar að Unnarstíg 2.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu Unnarstíg 2 og ákvörðun hans frá 29. s.m. um að aflétta stöðvun framkvæmda við húsið, sem stendur á sameiginlegri lóð leyfishafa og kæranda sem eiganda hússins að Unnarstíg 2a. Fyrir liggur að leyfishafi hefur staðið fyrir framkvæmdum á húsi sínu frá því að eldra leyfi var veitt 2015 til að dýpka kjallara þess og gera nýtt dren kringum húsið. Hafa framkvæmdirnar falið í sér rask á lóðinni og byggingarfulltrúi talið þær fara umfram það leyfi sem veitt var.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Byggingarfulltrúi samþykkti nýtt byggingarleyfi 23. ágúst 2016 og sætir það kæru í máli þessu. Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi felur í sér leyfi til breytinga innanhúss og til útlitsbreytinga á austur- og vesturhlið, auk endurnýjunar á steyptum stiga á suðurhlið hússins að Unnarstíg 2. Hús kæranda, Unnarstígur 2a, stendur á sömu lóð, sunnan hússins nr. 2. Verður, miðað við staðhætti, ekki séð að hinar leyfðu breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda eða öðrum þeim einstaklingsbundnu lögvörðu hagsmunum hans á þann hátt að veitt geti honum kæruaðild í máli þessu. Verður og ekki talið að kæruaðild skapist vegna þess að hús það sem hið kærða leyfi tekur til standi á sameiginlegri lóð leyfishafa og kæranda, enda er það hús í séreign leyfishafa auk þess sem nefnt leyfi tekur ekki til lóðarinnar. Af þeim sökum verður þessum hluta málsins vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfum, dags. 20. maí og 23. júní 2016, stöðvaði byggingarfulltrúinn í Reykjavík allar framkvæmdir á lóðinni Unnarstíg 2, með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem framkvæmdir hefðu farið út fyrir heimildir byggingarleyfis þess sem samþykkt var 10. mars 2015. Í kjölfar stöðvunarinnar var sótt um byggingarleyfi fyrir frekari framkvæmdum og var það samþykkt 23. ágúst 2016. Voru umsóttar framkvæmdir þar með samþykktar og þær heimilaðar frá útgáfu byggingarleyfis, sem hefur þó enn ekki verið gefið út.

Með tölvupósti 29. ágúst s.á. tilkynnti byggingarfulltrúinn leyfishafa að stöðvun framkvæmda á lóðinni væri aflétt. Sú ákvörðun fól hins vegar einungis í sér að heimilt væri að hefja að nýju dýpkun kjallara og drenlagnavinnu samkvæmt upprunalegu byggingarleyfi frá 10. mars 2015, en það leyfi hefur ekki verið kært. Kemur það því ekki til skoðunar í þessu máli, en kærufrestur vegna þess er nú löngu liðinn. Byggingarfulltrúi beitti umræddri stöðvun tafarlaust með heimild í lögum og án undanfarandi málsmeðferðar gegn framkvæmdum leyfishafa, sem hófust með byggingarleyfi sem samþykkt var rúmu ári áður. Það byggingarleyfi er stjórnvaldsákvörðun sem skapar leyfishafa ákveðin réttindi, en ákvörðun um að stöðva framkvæmdir sem farið hafa út fyrir leyfið og síðar aflétta stöðvun framkvæmda er meðferð bráðabirgðaúrræðis til að knýja á um rétta framkvæmd samkvæmt leyfinu. Þær ákvarðanir skapa hins vegar hvorki rétt manna né skyldur í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 59. gr. mannvirkjalaga er tekið fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Kæruheimild er því ekki fyrir hendi vegna þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að aflétta stöðvun framkvæmda og verður þeim hluta kærunnar af þeirri ástæðu einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.


Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

35/2015 Neshagi

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir varaaflstöð og kælibúnaði við norðurhlið húss á lóðinni nr. 16 við Neshaga í Reykjavík og samþykkja breytingar á innra fyrirkomulagi umrædds húss.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. maí 2015, er barst nefndinni 15. s.m., kæra eigendur, Neshaga 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir kælibúnaði og varaaflstöð að Neshaga 16 og breyta innra fyrirkomulagi húss á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar heimilaðan kælibúnað og varaaflstöð á fyrrgreindri lóð. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. júlí 2015 og í desember 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. desember 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að koma fyrir rými fyrir kælibúnað og varaaflstöð á norðanverðri lóðinni Neshaga 16 og breyta innra skipulagi húss á lóðinni. Var afgreiðslu málsins frestað þar sem gera þyrfti betri grein fyrir erindinu. Hinn 16. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa sem vísaði því áfram til verkefnisstjóra. Skipulagsfulltrúi tók málið fyrir á ný á embættisafgreiðslufundi sínum 16. janúar 2015. Lét hann í ljós jákvæða afstöðu til umsóknarinnar með þeim skilyrðum og leiðbeiningum sem fram kæmu í umsögn embættisins, dags. sama dag.

Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi sínum 20. janúar 2015 og vísaði málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Samþykkti skipulagsfulltrúi 23. s.m. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Neshaga 14 og Hofsvallagötu 53 og komu kærendur að athugasemdum á kynningartíma. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf umsögn sína um fyrirhugaðar framkvæmdir við kæliver og vararafstöð með bréfi, dags. 24. mars 2015. Haldinn var fundur á vegum Reykjavíkurborgar vegna málsins 30. s.m. með nokkrum íbúum og eigendum Neshaga 14. Erindið var síðan tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. apríl s.á. Var fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. mars s.á., og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. apríl 2015 var umsóknin samþykkt og m.a. áskilið samþykki heilbrigðiseftirlitsins.
Málsrök kærenda: Kærendur telja að umrædd framkvæmd sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, en samkvæmt því sé miðað að því að styrkja umrædd svæði sem miðstöð þjónustu og mannlífs í Vesturbænum. Stafi bæði hljóð- og umhverfismengun af nefndum mannvirkjum, sem ekki eigi heima í íbúðarbyggð. Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sé óheimilt að gefa út byggingarleyfi sem ekki samrýmist stefnu aðalskipulags um landnotkun. Við meðferð málsins hafi ekki verið gætt ákvæða 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveði á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Enn sé ákveðnum spurningum ósvarað varðandi framkvæmdina, svo sem hvernig tryggt verði að eftirlit verði haft með mannvirkjunum og hvernig því verði háttað. Jafnframt sé óskað upplýsinga um hvort geislun frá mannvirkjunum geti snert heilsufar íbúa á svæðinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Borgaryfirvöld taka fram að hið umdeilda byggingarleyfi sé í fullu samræmi við skipulagsáætlun og tekið hafi verið tillit til athugasemda sem kærendur hafi komið á framfæri við grenndarkynningu. Haldinn hafi verið fundur með íbúum og eigendum Neshaga 14 vegna málsins og á þann fund hafi m.a. mætt fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins. Á fundinum hafi verið kynntar breyttar teikningar sem sýnt hafi færslu varaaflstöðvar og kælis til vesturs á lóð Neshaga 16. Eftir að fundað hafi verið hafi umrædd mannvirki verið færð vestar og skermuð af. Umhverfis búnaðinn verði reist gerði og opið hálfþak sé yfir varaaflstöðinni. Komi í ljós að búnaður valdi ónæði þrátt fyrir ráðstafanir verði gerðar kröfur um frekari skermun. Hljóðvist muni uppfylla kröfur sem gerðar séu í reglugerð til atvinnurekstrar í íbúðabyggð. Gert verði skilyrði um að lekavörn rúmi allt innihald eldneytistanks ef óhapp verði. Lekavarnarbúnaður og ísogsefni þurfi að vera til taks við áfyllingar eldneytistanks og allt viðhald á varaaflstöðinni. Komið verði fyrir rafrænum viðvörunarbúnaði á tankinum sem gefi merki komi leki að honum, líkt og heilbrigðiseftirlitið hafi gert kröfu um. Útbúinn verði þjónustusamningur við umboðsaðila varaaflstöðvarinnar sem sjái um alla þjónustu og eftirlit með búnaðinum. Vökvi sem sé á kælibúnaði sé umhverfisvænn, lyktarlaus og í lokuðu kerfi. 

——-

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Á árinu 1955 var gerður uppdráttur af umræddu svæði en ekki liggur fyrir að honum hafi fylgt skilmálar um landnotkun. Var hið kærða byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu skv. heimild í þágildandi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Hinar kærðu breytingar eru tilkomnar vegna flutnings Reiknistofnunar Háskóla Íslands í húsakynni á lóðinni Neshaga 16. Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu er lóðin á miðsvæði M13 í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar er gert ráð fyrir fjölbreyttri verslun, þjónustu og félagsstarfsemi fyrir íbúa hverfisins auk íbúða. Í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, er landnotkun miðsvæðis lýst svo að um sé að ræða „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis“. Starfsemi á vegum Háskóla Íslands samræmist samkvæmt framangreindu gildandi landnotkun svæðisins.

Breytingarnar fela í sér að kælibúnaði fyrir tölvuherbergi er komið fyrir norðan við húsið ásamt varaaflstöð. Fram kemur í texta á samþykktum teikningum að kælibúnaðurinn samanstandi af kælipressu, dælu og tveimur kæliviftum. Kælibúnaðurinn sé í lokuðum hljóðeinangruðum kassa úr stáli sem gerður sé til að standa utandyra. Taki kælikerfið um 250 lítra af kælimiðli og sé hann lyktarlaus og umhverfisvænn. Stærð búnaðarins sé 4.612×1.151×2.215 mm, eða 5,3 m² að grunnflatarmáli. Þá er tekið fram að verði leki á kerfinu stöðvist hringrásardæling og einungis lítið magn geti lekið áður en dælan stoppi. Jafnframt er tilgreint að varaaflstöðin sé í hljóðeinangraðri skel úr stáli sem gerð sé til að standa utandyra. Botn hennar sé þannig útbúinn að hann geti tekið við því magni sem gæti smitað eða lekið út af olíu eða kælivökva. Öryggispanna verði undir varaaflsstöðinni sem taki við öllum vökva sem gæti lekið ef óhapp yrði. Lítill möguleiki sé á olíuleka við eldsneytisskipti þar sem takmarkað magn af olíu sé í síum. Prófun á stöðinni fari fram einu sinni í mánuði og standi í um 15 mínútur. Varaaflstöðin sé 4.300×1.400×2.156 mm að stærð, eða um 6,0 m² að flatarmáli. Þá er tekið fram að útbúið verði gerði utan um varaaflstöð og kælibúnað.

Verður að telja að hin umdeildu mannvirki séu eðlilegur og nauðsynlegur búnaður fyrir þá starfsemi sem fram fer á lóðinni og fari því ekki í bága við gildandi landnotkun. Staðsetning mannvirkjanna og umfang er ekki til þess fallin að valda merkjanlegum grenndaráhrifum gagnvart nágrönnum. Að lokinni grenndarkynningu var haldinn fundur með nokkrum eigendum og íbúum Neshaga 14 og voru umrædd mannvirki færð til vesturs í tilefni af athugasemdum sem fram komu.

Jafnframt bendir ekkert til þess að frá umræddum búnaði muni stafa óæskileg geislun. Þannig hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki talið efni til að víkja að því atriði í umsögn sinni, en þar kemur þó fram að farið hafi verið yfir erindið og meðfylgjandi gögn og nánar tilgreindar athugasemdir verið gerðar af því tilefni. Þá verður ekki annað af greinargerð sveitarfélagsins ráðið en að tekið hafi verið tillit til þeirra skilyrða og ábendinga sem þar komu fram.

Aðilum sem komið höfðu á framfæri athugasemdum á kynningartíma mun ekki hafa verið send umsögn um málið, svo sem áskilið er skv. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð. Eins og hér stendur á verður þó ekki talið að þeir ágallar hafi áhrif á gildi hins kærða byggingarleyfis.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. apríl 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að koma fyrir varaaflstöð og kælibúnaði  við norðurhlið húss á lóðinni nr. 16 við Neshaga í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Geir Oddsson

26/2015 Ferjuvað

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir S Ferjuvaði 3, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að ganga frá sérmerktu bílastæði fyrir fatlaða í bílageymslu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti frá 21. febrúar 2012. Þá er gerð krafa um að lokaúttekt byggingarfulltrúa verði felld úr gildi. Að auki var farið fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði uppkveðnum 22. júní 2015 og verður kærumál þetta nú tekið til efnislegrar úrlausnar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. maí 2015 og 22. desember 2016.

Málsatvik: Hinn 21. febrúar 2012 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt umsókn um leyfi til að reisa fjögurra hæða steinsteypt fjölbýlishús með 34 íbúðum á lóð Ferjuvaðs 1-3 í Reykjavík. Samkvæmt byggingarlýsingu á samþykktri afstöðumynd voru 42 bílastæði á lóð og 26 stæði í bílageymslu, alls 68 bílastæði. Gert var ráð fyrir tveimur sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð og einu í bílageymslu. Í júlí 2013 festi kærandi kaup á íbúð 01-06, ásamt stæði í bílageymslu, merktu B-17, og var eignin afhent á árinu 2014. Er íbúð kæranda ætluð fyrir fatlaða samkvæmt samþykktum teikningum. Á tímabilinu janúar til apríl 2014 mun kærandi ítrekað hafa vakið athygli byggingarleyfishafa á því að dyr við bílastæði í bílageymslu væri ranglega staðsett og gert þá kröfu að hún yrði færð til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti hússins. Mun það ekki hafa verið gert og 2. maí 2014 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt hússins. Í kjölfar þessa mun kærandi hafa haft samband við Reykjavíkurborg vegna málsins.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. maí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á innra skipulagi í húsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað en afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Með tölvubréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa 13. ágúst s.á. var tilkynnt að hafnað væri ósk um tilfærslu á dyrum á milli brunastúku og bílastæðis merktu B-17, en umrætt stæði væri ætlað fyrir hreyfihamlaða og yrði að uppfylla ákveðin skilyrði. Munu byggingarfulltrúi og leyfishafi hafa fundað um málið 22. september 2014. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 30 október s.á., var honum veittur þrjátíu daga frestur til gera lagfæringar í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti eða uppfæra þá til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og fá samþykkt byggingarleyfi fyrir þeim breytingum. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að endurtaka yrði lokaúttekt byggingarfulltrúa.

Hinn 17. mars 2015 samþykkti byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi sínum umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á byggingartíma á innra skipulagi hússins á fyrrgreindri lóð. Fólust breytingarnar m.a. í því að eldvarnarhurð var hliðrað til í eldvarnarvegg fyrir brunastúku á milli stigahúss og bílgeymslu og stæði kæranda í bílageymslu breytt.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að samkvæmt samþykktri afstöðumynd fyrir Ferjuvað 1-3 sé íbúð 01-06 sérstaklega hönnuð fyrir þarfir fatlaðra. Fylgi henni bílastæði merkt B-17 í bílageymslu samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu. Með samþykktri breytingu sé því bílastæði breytt í venjulegt bílastæði án aðgengis fyrir fatlaða. Sé um meiri háttar og grófa aðför að lögvörðum réttindum fatlaðra að ræða. Íbúðum fyrir fatlaða skuli fylgja sérmerkt bílastæði. Stæði fyrir fatlaða á sameiginlegri lóð hússins séu sameign allra og óheimilt að sérmerkja þau einstökum íbúðum löngu eftir að búið sé að selja allar íbúðir í húsinu. Gangi hin kærða ákvörðun gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, laga um mannvirki nr. 160/2010, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið.

Eigi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 við í máli þessu en þegar byggingarleyfishafi hafi sótt um byggingarleyfi fyrir fasteigninni hafi ekki legið fyrir ósk hans um að ákvæði eldri byggingarreglugerðar nr. 441/1998 myndu gilda um viðkomandi mannvirkjagerð. Engu máli skipti hvenær umsókn um byggingarleyfi sé lögð inn til samþykktar. Það sem ráði því hvort ákvæði eldri byggingarreglugerðar eða núgildandi reglugerðar gildi sé hvenær byggingaráform séu samþykkt og hvort útgáfa byggingarleyfis sé fyrir eða eftir gildisdag reglugerðarinnar. Fram hafi komið við samþykkt byggingaráforma hússins að umsóknin samræmdist ákvæðum mannvirkjalaga. Þá séu gerðar athugasemdir við að byggingarfulltrúi hafi byggt ákvarðanatöku sína á áliti lögmanns sem vart geti talist hlutlaust og líti eingöngu til þeirra atriða sem réttlæti og verji framgöngu byggingarleyfishafa.

Við lokaúttekt hafi verið stuðst við samþykkta aðaluppdrætti en ekki hafi verið byggt í samræmi við þá. Hafi byggingaraðili ekki upplýst byggingarfulltrúa um breytingar í bílakjallara. Ekki hafi verið gerð úttekt á aðgengi fyrir fatlaða við lokaúttekt eins og lög og reglur geri ráð fyrir. Hafi enginn rökstuðningur verið lagður fram af hálfu byggingarfulltrúa um nauðsyn þess að samþykkja umræddar breytingar. Sé samþykkt teikning frá 21. febrúar 2012 í samræmi við lög og reglugerðir og hafi bæði byggingarfulltrúi og Eldvarnareftirlit staðfest að svo sé. Þá sé vakin sérstök athygli á ákvæðum 2. mgr. 3. gr. laga nr. 160/2010 um aðgengi fyrir alla.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Fram komi í áliti sem sveitarfélagið hafi aflað sér að ljúka hafi átt meðferð umsóknar frá 31. janúar 2012 um byggingarleyfi fyrir Ferjuvað 1-3 á grundvelli byggingarreglugerðar nr. 441/1998, eins og í raun virðist hafa vera gert. Því sé eðlilegt að breytingar á byggingartíma, sem áttu sér stað við byggingu bílageymslu, séu metnar með tilliti til sömu reglugerðar. Þá sé tekið fram í fyrrgreindu áliti að samkvæmt gr. 30.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli þess gætt að „allar samþykktar breytingar séu skráðar“ og „reyndarteikningar skuli afhentar byggjanda áður en lokaúttekt fer fram“. Hvorutveggja hafi verið gert af hálfu framkvæmdaaðila og aðalhönnuðar hússins og óskað eftir samþykki fyrir breytingunum með umsókn þann 20. maí 2014, en afgreiðslu hennar hafi síðan verið frestað af byggingarfulltrúa. Að mati álitsgjafa hafi umræddar breytingar verið samkvæmt því óverulegar og réttmætar á byggingartíma og ekki hafi þurft samþykki meðeigenda fyrir þeim, enda hafi þeir ekki verið til staðar á framkvæmdatíma. Hliðrun á eldvarnarhurð hafi verið gerð til að skapa aukna fjarlægð á milli eldvarnarhurða í brunastúkunni. Að auki hafi bílastæði merkt B-17, fyrir hreyfihamlaða í bílageymslu, verið breytt í venjulegt bílastæði vegna fyrrgreindrar hliðrunar.

Samkvæmt gr. 64.4 reglugerðarinnar þurfi að gera ráð fyrir einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða fyrir Ferjuvað 1-3, að lágmarki. Enginn sérstök skylda hvíli á húsbyggjendum að hafa bílastæði fatlaðra í bílageymslum sé kröfum um fjölda bílastæða fullnægt á annað borð. Í þessu tilviki hafi það verið gert með gerð tveggja bílastæða fyrir fatlaða á lóð. Sérstaklega sé bent á að um minniháttar nauðsynlegar breytingar hafi verið að ræða, sem gerðar hafi verið á byggingartíma, en ekki verði annað séð en að breidd stæðisins sé sú sama og áður. Þá séu engar forsendur til að fella úr gildi lokaúttektina og þess megi og geta að engar sérúttektir séu gerðar á aðgengi fatlaðra enda engin skylda til slíks.

Málsrök leyfishafa:
Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru, en hann hefur ekki látið málið til sín taka. Í fyrirliggjandi gögnum hjá úrskurðarnefndinni kemur fram að verktaki hússins og aðalhönnuður þess hafi á fundi með byggingarfulltrúa bent á að byggingin hafi verið samþykkt í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Því hafi ekki verið talið að gera þyrfti grein fyrir breytingum á byggingartíma fyrr en að framkvæmdum loknum. Jafnframt væri fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða í samræmi við þá reglugerð.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 20. desember 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi fjölbýlishússins við Ferjuvað 1-3. Voru breytingarnar gerðar á byggingartíma þess og fólust m.a. í að dyraopi fyrir eldvarnarhurð í vegg brunastúku milli stigahúss og bílageymslu var hliðrað til og bílastæði, sem merkt er B-17 í bílageymslu og ætlað er fyrir fatlaða, breytt af því tilefni. Álitaefni varðandi upphaflegt byggingarleyfi, svo sem um tilhögun bílastæða í bílageymslu og á lóð, sæta ekki endurskoðun í máli þessu umfram þær breytingar sem gerðar voru með hinni kærðu ákvörðun.
Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.
Kærandi festi kaup á íbúð sinni með kaupsamningi, þinglýstum 19. júlí 2013, og lágu þá fyrir samþykktar teikningar að húsinu, dags. 21. febrúar 2012. Samkvæmt þeim teikningum er íbúð kæranda hönnuð fyrir fatlaða og fylgir henni áðurgreint bílastæði B-17 ásamt hlutfallslegri eign í sameign bílageymslunnar, heildarhúsi og lóð. Er umrætt bílastæði séreign kæranda en í því felst einkaréttur hans til umráða og hagnýtingar þess með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, reglum nábýlisréttar og eðli máls, skv. 2. tl. 12. gr. fjöleignarhúsalaga. Fyrir liggur að kærandi var ekki samþykkur umræddum breytingum og hafði hann haft samband við embætti byggingarfulltrúa af því tilefni.
Með hinni kærðu breytingu var m.a. samþykkt að fyrrgreindar dyr væru innan fyrri markalínu bílastæðis kæranda og þar með þrengdist stæði hans vegna gönguleiðar frá dyrunum sem nemur um einum metra frá markalínunni að steinsteyptri stoð. Því hefur verið haldið fram að hin umdeilda breyting hafi verið nauðsynleg til að skapa aukna fjarlægð milli eldvarnardyra í brunastúku og um minniháttar breytingar hafi verið að ræða. Ekki liggur þó fyrir í málinu að upphafleg hönnun umræddrar bílageymslu hafi verið ábótavant m.t.t. brunavarna en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samþykkti eldvarnareftirlit Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins aðaluppdrætti upphafslegs byggingarleyfis. Hins vegar er ljóst að þessi breyting hefur í för með sér töluverð áhrif á notagildi bílastæðis kæranda frá því sem áður var og óhagræði vegna lengri leiðar frá bílastæði að lyftu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir á skorta að fullnægjandi rök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda. Ekki var haft samráð við eða aflað samþykkis hans við málsmeðferð og töku umræddrar ákvörðunar sem hafði bein áhrif á séreign kæranda. Verður hin kærða ákvörðun af þessum sökum felld úr gildi að því er varðar fyrrgreinda hliðrun dyra fyrir eldvarnarhurð og breytingu á bílastæði B-17 í bílageymslu umrædds húss. Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir rétt að ákvörðunin standi óhögguð að öðru leyti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. mars 2015 um að samþykkja áður gerðar breytingar á innra skipulagi í fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Ferjuvað að því er varðar hliðrun á eldvarnardyrum í eldvarnarvegg á milli stigahúss og bílgeymslu og breytingar á bílastæði merktu B-17 í bílageymslu.

______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________            ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

143/2016 Borgarbraut Borgarbyggð

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 143/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara, á lóð nr. 59 við Borgarbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Kveldúlfsgötu 2a, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóð nr. 59 við Borgarbraut með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 9. nóvember og 5. og 6. desember 2016.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti hinn 14. apríl 2016 breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 55-59 við Borgarbraut. Hinn 16. september s.á. veitti byggingarfulltrúi Borgarbyggðar byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóð nr. 57-59 við Borgarbraut, á grundvelli nefndrar deiliskipulagsbreytingar. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 23. september 2016, var fyrrgreind skipulagsákvörðun felld úr gildi þar sem hún var ekki talin vera í samræmi við gildandi aðalskipulag Borgarbyggðar. Í kjölfar ógildingar skipulagsbreytingarinnar samþykkti byggingarfulltrúi á fundi sínum 3. október 2016 að veita byggingarleyfi fyrir 59 herbergja hótelbyggingu, á lóðinni Borgarbraut 59 með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. nóvember 2016, var hið fyrra byggingarleyfi, sem tók til sameinaðrar lóðar Borgarbrautar 57-59, afturkallað.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem eiga fasteign í næsta nágrenni við fyrirhugaða hótelbyggingu, skírskota til þess að í hinu kærða byggingarleyfi sé byggt á röngum  stærðartölum lóðar við útreikning nýtingarhlutfalls. Lóðin sé sögð vera 3.050 m2 en í fasteignaskrá sé hún talin vera 2.640 m2. Í deiliskipulagi umrædds svæðis frá 2007 sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu á neðri hæðum og íbúðum á efri, en ekki hóteli. Þá sé byggingarreitur í deiliskipulagi annar en nú sé. Með byggingu hótels á lóðinni muni umferð aukast verulega með tilheyrandi óþægindum og hávaða. Loks muni staðsetning og stærð byggingarinnar skyggja verulega á útsýni og geti hún valdið sterkum vindsveipum í nágrenninu. Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kærendur eigi hvorki verulega né einstaklega hagsmuni tengda úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulagsáætlun svæðisins sem hafi tekið gildi árið 2007 og aðalskipulag Borgarbyggðar, sem hafi verið staðfest af sveitarstjórn Borgarbyggðar árið 2010. Fyrirhuguð bygging á lóðinni Borgarbraut 59 sé innan þeirra viðmiða sem sett hafi verið í gildandi deiliskipulagi um hæð, stærð og nýtingarhlutfall lóðarinnar. Þá sé umrædd bygging öll innan byggingarreits og nýting hennar sé í samræmi við landnotkun svæðisins í gildandi aðalskipulagi. Útgáfa byggingarleyfisins hafi því engin áhrif gagnvart fasteign kærenda umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt skipulagsáætlunum svæðisins. Þar að auki sé kærufrestur vegna þeirra löngu liðinn. Stærð fyrirhugaðrar byggingar, mögulegir vindsveipir, áhrif á útsýni frá fasteign kærenda, stærð byggingarreits og bygging hótels hafi verið samþykkt í umræddum skipulagsáætlunum og kærendur hefðu því átt að kæra gildistöku þeirra á sínum tíma. Þá liggi fasteign kærenda ekki á aðliggjandi lóð við Borgarbraut 59 heldur sé hún hinum megin við Kveldúlfsgötu og standi auk þess norðar en Borgarbraut 59. Auk þess sé fasteign kærenda á mörkum þess sem sé skilgreint miðsvæði og íbúðarsvæði í aðalskipulagi.

Þótt gert sé ráð fyrir byggingu verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis á lóðinni hafi sveitarfélagið svigrúm til að heimila þar byggingu hótels. Lóðin Borgarbraut 59 sé á svæði sem í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 sé skilgreint sem miðsvæði og sé gert ráð fyrir að á svæðinu verði blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu, sem sé í samræmi við skilgreiningu landnotkunar í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur og samgöngu- og þjónustukerfi. Er þar lagður grundvöllur að gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Deiliskipulag tekur til afmarkaðs svæðis eða reits innan marka sveitarfélags þar sem teknar eru ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Þá þurfa skipulagsáætlanir að vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna.

Í gildi er Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 og deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55-59 sem tók gildi árið 2007. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði 12. gr. skipulagslaga verður að gera þá kröfu að skilmálar gildandi deiliskipulags séu í samræmi við aðalskipulag. Í aðalskipulagi Borgarbyggðar er umrædd lóð nr. 59 við Borgarbraut á skilgreindu miðsvæði (M). Á því svæði er heimiluð blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu. Í almennum hluta greinargerðar gildandi deiliskipulags kemur fram að á skipulagssvæðinu sé gert ráð fyrir blandaðri landnotkun íbúða, verslunar og þjónustu ásamt stofnunum. Er framangreind skilgreining landnotkunar í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.  Í deiliskipulaginu eru einnig sérskilmálar fyrir umrædda lóð og samkvæmt þeim er hámark nýtingarhlutfalls 1,15. Lóðin er 3.050 m2 að stærð samkvæmt skipulagsuppdrætti. Þá er tekið fram að á lóðinni Borgarbraut 59 sé heimiluð landnotkun í samræmi við gildandi aðalskipulag. Gert sé ráð fyrir íbúðum í væntanlegu húsi á lóðinni, en atvinnustarfsemi sem samræmist íbúðarhúsnæði sé heimil á fyrstu hæð (jarðhæð).

Hin kærða ákvörðun veitir leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóðinni Borgarbraut 59 og er fyrirhuguð bygging í samræmi við framangreinda landnotkun aðalskipulags og er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við nefnda sérskilmála um stærð og nýtingarhlutfall í deiliskipulagi. Hins vegar hefur sveitarfélagið með greindum sérskilmálum um landnotkun umræddar lóðar sett takmarkanir á notkun hennar og verður ekki fallist á að hótelbygging á lóðinni rúmist innan skilmála deiliskipulagsins um landnotkun lóðarinnar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf fyrirhuguð mannvirkjagerð að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og er það m.a. eitt af þeim skilyrðum sem þarf að vera uppfyllt við útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Hið kærða byggingarleyfi er samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við landnotkun gildandi deiliskipulags og verður því ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara, á lóð nr. 59 við Borgarbraut.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson