Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2024 Svínabú að Minni-Vatnsleysu

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 11. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættur var Arnór Snæbjörnsson formaður. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur tóku þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 7. desember 2023, um að samþykkja starfsleyfi fyrir svínabú Síldar og fisks ehf.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. desember 2023, er barst nefndinni 2. janúar 2024, kæra eigendur, Stóru-Vatnsleysu 1 og Vatnsleysu 2, þá ákvörðun Heilbrigðis­nefndar Suðurnesja frá 7. desember 2023, um að samþykkja starfsleyfi fyrir svínabú Síldar og fisks ehf., sem gefið var út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja degi síðar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 29. janúar 2024.

Málavextir: Á fundi 7. desember 2023 fól Heilbrigðisnefnd Suðurnesja Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja að gefa út starfsleyfi til Síldar og fisks ehf. til reksturs svínabús á Minni-Vatnsleysu. Var starfsleyfið gefið út degi síðar af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Gildistími leyfisins er í tvö ár og eru þar gerðar kröfur um tímasettar úrbætur vegna mengunarvarna. Um var að ræða endurnýjun á starfsleyfi sem gefið hafði verið út 16. desember 2010 með gildistíma til 16. desember 2022. Frá 16. desember 2022 til 7. desember 2023 hafði starfsleyfi svínabúsins verið framlengt af heilbrigðisnefndinni með heimild í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem fyrir lá umsókn um nýtt starfsleyfi.

 Málsrök kærenda: Kærendur rekja að þeir búa í næsta nágrenni við svínabúið og sé fjarlægðin í þau eldishús sem næst séu íbúðarhúsinu að Stóru-Vatnsleysu um 280 metrar og um 120 metrar séu frá þeim að merkjum Vatnsleysujarðanna. Sé það langt innan þeirra marka sem tilgreind séu sem fjarlægðarmörk fyrir svínabú af þeirri stærð sem hér um ræði. Nálægð svínabúsins við land Stóru-Vatnsleysu hafi það í för með sér að möguleikar til nýtingar landsins, s.s. til íbúðabyggðar sé ónýtur. Aldrei hafi verið leitað til kærenda um leyfi fyrir afnot af landi þeirra sem áhrifa- og þynningarsvæði fyrir loftmengun sem stafi frá búinu. Geti ekki talist eðlilegt að kærendum sé ætlað að veita svínabúinu það svæði fyrir starfsemi sína.

Starfsemi svínabúsins valdi verulegum óþægindum, sérstaklega vegna ólyktar sem berist frá búinu og leggi yfir jörðina og byggð á henni. Lyktin geti verið svo mikil að ekki sé hægt að aðhafast úti við, hengja upp þvott eða opna glugga á húsum. Áður hefði verið stundaður hefðbundinn búskapur með kýr og kindur á báðum jörðunum, sem hafi í tímans rás orðið að svínabúi á Minni-Vatnsleysu, sem orðin sé að verksmiðjuframleiðslu í svo stórum stíl að loftmengun sé orðin verulegt vandamál. Sú starfsemi eigi ekkert skylt við hefðbundinn landbúnað og teljist frekar vera mengandi iðnaðarstarfsemi, sem ekki eigi heima í nábýli við íbúðabyggð.

Í gegnum tíðina hafi kærendur gert athugasemdir við reksturinn með símtölum, tölvupóstum og bréfum og kvartað til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja vegna óþæginda af starfseminni. Þeim kvörtunum hafi lítið verið sinnt þótt heilbrigðisfulltrúar hafi mætt til vettvangsskoðunar í einhverjum tilvikum og sagst ætla að fylgja málum eftir með kröfum um úrbætur og eftirfylgni. Kærendur hafi ekki orðið varir neinna úrbóta í þeim efnum.

Árið 2010 hefðu kærendur, ásamt öðrum íbúum á svæðinu, m.a. gert athugasemdir varðandi loftmengun vegna starfsleyfisskilyrða sem þá voru auglýst. Samkvæmt starfsleyfi frá 2010 hafi útblæstri allra eldishúsa átt að vera veitt í gegnum lífsíu (e. biofilter), sem aldrei hefði komið til framkvæmda nema að takmörkuðu leyti, enda sé það enn á dagskrá samkvæmt skilyrðum í nýútgefnu starfsleyfi. Ekki sé að merkja í reynd að þær lífsíur sem til staðar séu hafi dregið úr loftmengun svo nokkru nemi. Kærendur hafi því efasemdir um að einhverra breytinga megi vænta með nýju starfsleyfi varðandi loftmengun.

Í hinu umdeilda starfsleyfi hafi ekki verið brugðist við athugasemdum kærenda og annarra íbúa á nokkurn hátt. Gerðar hafi verið athugasemdir við ákvæði um að heimila ætti dreifingu svínamykju á jörð. Sé það með öllu óásættanlegt að gefin sé möguleiki á því, að eigendum nágrannajarða forspurðum.

Með bréfi kærenda o.fl. til Heilbrigðisnefndar Suðurnesja, dags. 15. desember 2022, hafi verið vakin athygli á hugsanlegri hættu á skaðsemi mengunar í útblæstri verksmiðjubúa á heilsu fólks og vísað til rannsókna erlendra háskóla í þeim efnum og hafi það bréf jafnframt fylgt með athugasemdum kærenda við drög að starfsleyfisskilyrðum vegna nýs starfsleyfis. Í hinu nýja starfsleyfi hafi alfarið verið skautað framhjá því sem þar hafi komið fram.

 Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Við vinnslu hins umþrætta starfsleyfis hafi verið kappkostað að fylgja ákvæðum II. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ásamt II. kafla reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Við vinnslu starfsleyfisins hafi verið horft til nýjustu rannsókna á uppbyggingu, rekstri og virkni lífsía. Það sé mat nefndarinnar að krafa um að slíkum búnaði verði komið upp til að hreinsa útblástur frá eldishúsum sem hýsa muni 50 eða fleiri dýr og útloftun frá forþró verði til þess að halda megi lyktarmengun frá búinu í skefjum. Af rannsóknum og gögnum sem byggt hafi verið á við gerð starfsleyfisins megi sjá að verði fylgt kröfum sem gerðar séu í leyfinu muni ekki stafa lyktarmengun frá búrekstrinum.

 Fjarlægð frá eldishúsum að næsta íbúðarhúsi sé um 310 m. Samkvæmt 6. gr. núgildandi reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína, sé lágmarksfjarlægð á skilgreindu landbúnaðarsvæði, frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi 300 m. Rekstur svínabús að Minni-Vatnsleysu hafi hins vegar hafist löngu fyrir setningu þeirrar reglu og ekki megi ráða af orðalagi fyrri reglu sama efnis, í 137. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, að fyrirmælum þessum hafi verið ætlað að vera afturvirk. Samkvæmt skipulagsuppdrætti Aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga 2008–2028 sé jörðin Stóra-Vatnsleysa á landbúnaðarsvæði, L1. Um heimild til dreifingar svínamykju á sameignarlandi sé í lið 6.8 sé gerð krafa um að skriflegur samningur liggi til grundvallar dreifingu á önnur eignalönd en þau sem tilheyri svínabúinu. Einnig sé skv. lið 6.12 bannað að dreifa skít nær mannabústöðum en sem nemi 500 m, auk þess sem taka skuli tillit til atriða á borð við útivist, stórhátíðir og vindafar.

Það sé rétt sé að á árunum 2010–2022 hafi svínabúið aðeins komið upp hluta þeirra lífsía sem því hafi verið ætlað að gera samkvæmt starfsleyfi. Til að knýja á um að svínabúið komi upp lífsíum við þau hús sem hýsi 50 eða fleiri svín hafi gildistími leyfisins verið takmarkaður við tvö ár. Svo sé litið á að um sé að ræða lokafrest til að koma hreinsun á útblæstri í viðunandi horf. Þekkingu á uppsetningu og rekstri lofthreinsibúnaðar sem byggi á þessari tækni hafi fleygt fram frá útgáfu fyrra starfsleyfis og sé gr. 8.5 í starfsleyfinu til marks um það.

Málsrök leyfishafa: Löng hefð sé fyrir rekstri svínabús á jörðinni, en svínaeldi hafi hafist á Minni-Vatnsleysu árið 1954. Síðustu svínahúsin hafi verið byggð árið 1998 og þró og skiljuhús árið 2001. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína sé fjallað um lágmarksfjarlægðir við nýbyggingar eldishúsa, við stækkun eldishúsa eða við breytingar á notkun húsa í eldishús. Leyfishafi telji þessa grein eigi ekki við um endurnýjun starfsleyfis fyrir búið að Minni-Vatnsleysu þar sem það teljist til minni svínabúa samkvæmt skilgreiningu reglugerðarinnar.

Í 8. gr. starfsleyfisins séu sett mjög ströng skilyrði varðandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir lyktarmengun. Frá árinu 2012 hafi útblæstri frá stærstu svínahúsunum verið dælt í gegnum lífsíur til að draga úr lyktarmengun, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, og geti heilbrigðisnefnd krafist úrbóta ef loftmengun frá búinu valdi fólki óþægindum þrátt fyrir fyrirliggjandi ráðstafanir, sbr. gr. 8.3 í starfsleyfinu. Engar slíkar úrbótakröfur hafi komið gagnvart leyfishafa.

Jarðir kærenda séu á skilgreindu landbúnaðarsvæði og verði ábúendur að gera ráð fyrir ólykt upp að einhverju marki. Tilvísanir kærenda til rannsókna erlendra háskóla um skaðsemi útblásturs stórra verksmiðjubúa eigi ekki við um þetta tilvik, enda teljist umrætt svínabú til minni búa. Sé svínabúið að engu leyti sambærilegt að stærð og bú í Bandaríkjunum sem rannsóknin taki til. Þá séu veðurfarslegar aðstæður á norðanverðu Reykjanesi gjörólíkar aðstæðum í Bandaríkjunum, t.a.m. um lofthraða og hitastig. Þá hafi svínaskít ekki verið dreift á jörð í nágrenni búsins í a.m.k. 20 ár.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur geti ekki lagt mat á það hvort uppbygging, rekstur og virkni lífsía muni skila árangri. Þeim sé ókunnugt um hvort slíkar framfari hafi orðið í gerð þeirra að þær séu besti hreinsibúnaður sem völ sé á. Minnt sé á að núverandi lífsíur hafi lítið ef nokkuð dregið úr lyktarmengun og því sé ljóst að verulegra úrbóta sé þörf varðandi gerð þeirra og umhirðu ef ekki eigi að stafa lyktarmengun frá búrekstrinum. Athugasemdum kærenda á liðnum árum hafi verið vísað frá, en skv. 1. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði sé markmið hennar að koma í veg fyrir eða draga úr mengun lofts og komi fram í 5. gr. að halda skuli loftmengun í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felist í hreinu og ómenguðu lofti. Það hljóti að vera hlutverk heilbrigðisnefndar að taka á þeim atriðum sem kærendur hafi bent á og varði áhyggjur af áhrifum loftmengunar á heilsu.

Lyktarmengun frá búrekstrinum berist um langan veg og virði ekki fjarlægðarmörk samkvæmt reglugerðum og skipti því ekki máli hvort fjarlægðin í íbúðarhúsið að Stóru Vatnsleysu sé um 280 metrar eða 310 metrar. Vísað sé til þeirrar reiknireglu um fjarlægðarmörk sem reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína hafi að geyma og, en henni verði ekki beitt þar sem í starfsleyfi sé einungis tilgreindur hámarksfjöldi dýra en ekki fjöldi dýra á ársgrundvelli. Það sé ógerningur fyrir kærendur að meta hver sé fjöldi dýra á ársgrundvelli. Hvað snerti dreifingu svínaskíts þá standi búið á leigulóð og sé það ekki sameigandi að landi með kærendum. Kærendur muni ekki heimila dreifingu svínaskíts á landi sínu. Væri því eðlilegt að í starfsleyfinu yrði alfarið bannað að dreifa skít á jörð.

Vegna athugasemda leyfishafa sé vísað til þess að með kæru hafi fylgt tölvupóstar sem innihaldi kvartanir vegna lyktarmengunar og annarra atriða á tímabilinu 2005–2023 auk þess að kvartað hafi verið í símtölum. Þessi gögn séu í fullu gildi. Þá hafi núverandi íbúðarhús á Stóru-Vatnsleysu verið byggt árið 1952 áður en svínaeldi hófst í Minni-Vatnsleysu. Hvað varði svínahúsin frá 1998, þá hafi aldrei verið leitað álits eigenda Stóru-Vatnsleysu vegna þeirra né vegna byggingar þróar og skiljuhúss árið 2001, en á þeim tíma hafi verið lýst efasemdum um að framkvæmdin mundi leiða til minni ólyktar.

Í reglugerð nr. 520/2015 sé engin skilgreining á því hvað teljist til lítils eða stórs bús. Samkvæmt því sem fram komi í gögnum varðandi fjölda dýra og þess fjölda sem starfsleyfið byggi á sé því algjörlega hafnað að búið teljist til minni svínabúa. Svo virðist sem engar kröfur hafi verið gerðar gagnvart leyfishafa þrátt fyrir kvartanir kærenda til heilbrigðiseftirlitsins. Engar lífsíur hafi þannig verið settar upp síðan 2012 þrátt fyrir ákvæði fyrra starfsleyfis um það. Samskonar kröfur séu nú í nýju starfsleyfi og verði að efast um breytingar í ljósi reynslunnar. Kærendur leggi ekki mat á reikningslegar forsendur um loftmagn og afköst loftsía en benda á að það sem skipti máli sé að eyða lykt. Þá sé því algjörlega hafnað að rannsóknir erlendis frá um skaðsemi útblásturs svínabúa geti ekki átt við hér á landi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 7. desember 2023 um að gefa út starfsleyfi fyrir svínabú Síldar og fisks ehf. Drög að starfsleyfisskilyrðum voru auglýst 3. nóvember 2023 og bárust athugasemdir við þau frá kærendum með bréfi dags. 29. s.m. Var undirbúningur að því leyti í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, enda um að ræða endurskoðun á starfsleyfi sem leiddi til breytinga á starfsleyfisskilyrðum. Kærendur njóta kæruaðildar með vísan til grenndaráhrifa.

Helstu málsástæður kæranda eru þær að starfsemi svínabúsins á Minni-Vatnsleysu valdi verulegum óþægindum og loftmengun, en frá henni stafi ólykt sem leggi yfir jörð kærenda og geti reynst heilsuspillandi. Þá beri efni hins umþrætta starfsleyfis með sér að ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda kærenda og annarra íbúa, m.a. um mengunarvarnarbúnað og um dreifingu á svínamykju, en þeim athugasemdum komu kærendur einnig á framfæri við auglýsingu á drögum að starfsleyfisskilyrðum hins kærða leyfis.

—–

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er markmið laganna m.a. að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I–V, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út. Til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarna er ráðherra heimilt skv. 5. gr. að setja í reglugerð almenn ákvæði, m.a. um starfsleyfi, sbr. nánar reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Markmið hennar er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Jafnframt er markmið reglugerðarinnar að koma í veg fyrir eða draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og að koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið.

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998 segir að Umhverfisstofnun skuli taka mið af BAT-niðurstöðum við útfærslu starfsleyfisskilyrða og eru nánari fyrirmæli þar að lútandi í 11.–13. gr. laganna. Með bestu tækni er vísað til reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 5. gr. laga nr. 7/1998, þar sem settar eru fram niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni, lýsing á henni, upplýsingar til að meta notkunarsvið hennar, losunargildin sem tengjast þessari bestu aðgengilegu tækni, tengd vöktun, tengd notkunargildi og, eftir því sem við á, viðeigandi ráðstafanir til úrbóta á staðnum. Í 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 550/2018 eru fyrirmæli um setningu viðmiðunarmarka fyrir losun sem tengjast bestu aðgengilegu tækni eins og mælt er fyrir um í BAT-niðurstöðum fyrir viðkomandi starfsemi, en þar sem ekki eru sett losunargildi skuli tryggja að tæknin sem vísað sé til tryggi samsvarandi umhverfisverndarstig. Þar sem þessi gildi eru ákveðin á grundvelli BAT niðurstaðna geta þau falist í samblandi af nokkrum aðferðum eða tækni.

Samkvæmt 16. tl. 5. gr. reglugerðar nr. 935/2018 um BAT (bestu aðgengilegu tækni) o.fl. á sviði atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun er í gildi framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/302 frá 15. febrúar 2017 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna þéttbærs eldis alifugla eða svína, sem vísað er til í tl. 1fo, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 148/2017, þann 7. júlí 2017. Eru BAT-niðurstöður þessar settar fram svo gildi fyrir bú þar sem eru yfir 2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða 750 stæði fyrir gyltur, og þ.a.l. háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Þetta eru sömu mörk og ráða því hvort starfsleyfi verði gefið út af Umhverfisstofnun skv. I. viðauka við lög nr. 7/1998 eða hvort starfsemi falli undir IV. viðauka við lögin og sé þar með háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar og með því þeim ákvæðum laga nr. 7/1998 sem þá eru af þýðingu.

Skylt er í starfsleyfi skv. IV. viðauka við lög nr. 7/1998, sem heilbrigðisnefndir gefa út, að tilgreina m.a. tegund starfsemi og stærð, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998. Starfsemi svínabúa er í lögum nr. 7/1998 flokkuð að umfangi eftir fjölda „stæða“ fyrir alisvín eða gyltur. Hugtakið stæði er ekki skilgreint í lögunum né í reglugerðum, en rýmisþörf svína ræðst m.a. af lágmarksreglum sem greindar eru í reglugerð um velferð svína nr. 1276/2014. Starfsheimildir samkvæmt hinu endurnýjaða starfsleyfi miða við hámarksfjölda einstaklinga í tilteknum húsum og er í leyfinu gefið svofellt yfirlit:

Sjá má af þessu að á búinu mega að hámarki vera 1.600 eldissvín hverju sinni auk 162 galta og gyltna og 423 gyltna. Auk þess er heimilað að halda allt að 1.725 unggrísi. Af gögnum þessa máls má ráða að Heilbrigðisnefnd Suðurnesja gekk eftir upplýsingum hjá starfsleyfishafa um umfang starfseminnar með hliðsjón af framanröktum valdmörkum milli heilbrigðisnefndar og Umhverfisstofnunar. Var einnig leitað viðhorfa Umhverfisstofnunar vegna þess álitaefnis. Fyrir liggur að Umhverfisstofnun fékk þær upplýsingar hjá leyfishafa að eldishús „rúmi um 1800 eldissvín að hámarki“, en að jafnaði væru um 1.450–1.600 svín yfir 30 kg á búinu og að það varð til þess að málinu var vísað til heilbrigðisnefndarinnar að nýju. Í ljósi afdráttarlauss orðalags um að starfsemi verði annað hvort að ná 750 gyltum „eða“ 2.000 sláturgrísum, til að falla undir viðauka I. við lög nr. 7/1998, verða ekki talin efni til að gera athugasemd þá afstöðu, enda þótt losun frá búinu geti auðsjálega verið meiri en frá svínabúum þar sem annað hvort eru einungis alisvín eða gyltur.

Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998 er mælt fyrir um að ákvæði um mengunarvarnir í starfsleyfi skv. viðauka IV. skuli taka mið af BAT-niðurstöðum, þegar þær liggi fyrir. Um þetta eru einnig fyrirmæli í 7. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Umhverfisstofnun hefur gefið út samræmd starfsleyfisskilyrði fyrir alifugla- og svínabú vegna mengunarvarna. Í skilyrðunum eru tilvísanir til laga nr. 7/1998 sem og reglugerða nr. 520/2015 og 550/2018 auk þess að vísað er til laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, efnalaga nr. 61/2013, reglugerðar nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði og reglugerðar nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri.

Í hinum samræmdu starfsleyfisskilyrðum, sem síðast voru uppfærð árið 2019, er hvergi vísað til eða stuðst við BAT-niðurstöður fyrir alifugla- eða svínabú eða BAT-tækniskýrslu. Þá er hvorki vísað til hinna samræmdu starfsleyfisskilyrða né BAT í hinu kærða leyfi, sem á hinn bóginn hefur að geyma sértæk starfsleyfisskilyrði sem varða mörg sömu málefni. Með hliðsjón af leiðbeinandi þýðingu BAT-niðurstaðna fyrir mengunarvarnir svínabúa verður að telja hið kærða leyfi háð annmarka að þessu leyti til, sem þó verður með hliðsjón af orðalagi 4. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998 ekki látið varða gildi þess.

—–

Allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir skal vera í samræmi við skipulag. Samkvæmt skipulagsuppdrætti í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008–2028 eru jarðirnar Stóra-Vatnsleysa og Minni-Vatnsleysa á skilgreindu landbúnaðarsvæði (L1). Fram kemur að svæðið sé um 150 ha að stærð. Um landbúnaðarsvæði er fjallað í gr. 2.2.6 í greinargerð skipulagsins. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að landbúnaður verði áfram stundaður á bújörðum, en skv. q-lið í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er landbúnaðarsvæði skilgreint sem svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað, matvæla- og fóðurframleiðslu. Í aðalskipulaginu segir að á Minni-Vatnsleysu sé rekið eitt stærsta svínabú landsins á iðnaðarsvæði sem skilgreint sé umhverfis svínabúið og nánasta umhverfi. Vegna mælikvarða sé svæðið merkt með hringtákni (I–6). Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt. Telja verður samkvæmt þessu að starfsemin sem fjallað er um í hinu kærða starfsleyfi samrýmist landnotkun svæðisins samkvæmt aðalskipulagi.

Í reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 segir í 4. mgr. 24. gr., sem varðar íbúðarhúsnæði, að hæfileg fjarlægð skuli vera á milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og mengandi atvinnustarfsemi og annarrar starfsemi sem valdið getur óþægindum hins vegar. Þar sem kveðið sé á um fjarlægðarmörk í öðrum reglugerðum eða í skipulagi skuli taka tillit til þeirra marka. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 segir að sveitarstjórn ákveði í skipulagsáætlun fjarlægð milli eldishúsa. Um leið er kveðið á um að við nýbyggingu eldishúsa, meiriháttar breytingar eða stækkanir á þeim og breytta notkun, sem valdið geti auknum óþægindum, skuli sveitarstjórnir ákveða fjarlægðir milli eldishúsa við m.a. mannabústaði, útivistarsvæði eða vinnustaði, með hliðsjón af hugsanlegum umhverfisáhrifum. Þá kemur fram að lágmarksfjarlægð á milli 50 til 500 m skuli reiknuð út samkvæmt viðauka við reglugerðina fyrir bú með meira en 45 stæði fyrir alisvín yfir 30 kg eða yfir 20 stæði fyrir gyltur. Á skilgreindu landbúnaðarsvæði sé lágmarksfjarlægð þó 300 m frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi. Engin fyrirmæli af þessum meiði eru í aðalskipulagi sveitarfélagsins Voga, en full ástæða hefði verið að taka á þessum þætti þar. Þá er með hinu kærða leyfi ekki heimiluð nýbygging eða breytt starfsemi svínabús, sbr. fyrirmæli 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015. Verður því ekki álitið að ákvæði þessara reglugerða girði fyrir útgáfu hins kærða leyfis.

—–

Samkvæmt 52. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit skulu ábyrgðaraðilar starfsleyfisskylds atvinnurekstrar, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka, sem hefur í för með sér losun mengandi efna í andrúmsloft gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með umhverfisstjórnun og hreinsibúnaði, til að draga úr slíkri losun eftir því sem nánar er mælt fyrir um í reglugerðum, m.a. reglugerð um loftgæði. Í 5. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði er kveðið á um að halda skuli loftmengun í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti. Til mengunar samkvæmt reglugerðinni telst þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Telst ólykt einnig til mengunar, sbr. gr. 3.9. Í gr. 5.2. reglugerðarinnar segir að í ákvæðum starfsleyfa fyrir mengandi atvinnurekstur skuli viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun og beita skuli til þess bestu fáanlegu tækni. Auk þess er heimilt, skv. gr. 5.3., eftir því sem við á, að gera strangari kröfur en reglugerðin segir til um ef loftmengun á tilteknu svæði er sérstaklega mikil eða ef svæðið á að njóta sérstakrar verndar.

Við undirbúning hins kærða leyfis kom loft- eða lyktarmengun frá starfsemi svínabúsins á Minni-Vatnsleysu til sérstakrar umfjöllunar. Í framhaldi af athugasemdum frá kærendum við auglýst drög að starfsleyfisskilyrðum voru gerðar á þeim breytingar. Í 8. gr. starfsleyfisins voru sett skilyrði í fimm liðum um lyktarmengun sem fela í sér skyldu til að þess að hagnýta svonefndan jarðsíubúnað eða sambærilega síu þar sem lofti er blásið gegnum lífræna síu (e. biofilter) og er tekið fram að samráð skuli haft við Heilbrigðiseftirlitið um val á búnaði til hreinsunar á lykt frá svínabúinu. Þá er í leyfinu mælt almennum orðum fyrir um skyldu til að draga úr ónæði af völdum lyktar og ryks og að komi í ljós að loftmengun valdi fólki á nærliggjandi svæði óþægindum sé unnt að krefjast úrbóta. Til að draga frekar úr lyktarmengun skuli nýta aðferðir til þess s.s. með því að setja „bætiefni“ í flóra, auka þrif, breyta fóðri eða beita vökvun. Þá er sett skilyrði um að leyfishafi skuli, fyrir 1. mars 2024, senda til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja tímasetta framkvæmdaráætlun á uppsetningu á lofthreinsibúnaði, lífsíum eldishúsa þar sem leyfilegur heildarfjöldi dýra sé 50 eða fleiri. Þar með talið húsnæði með skiljubúnaði og geymslu fyrir þurrefni úr svínamykju og forþró. Með þessu skuli rekstraraðili vera búinn að gera ráðstafanir til að draga verulega úr lyktarmengun frá svínabúinu fyrir 1. maí 2024. Með þessu setti heilbrigðisnefndin tímasett skilyrði um uppsetningu mengunarvarnabúnaðar, sem var í samræmi við skyldu leyfisveitanda til að setja skilyrði sem varði m.a. mengunarvarnir, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998. Þess skal getið að lífrænar síur eru meðal þeirra tæknilegu aðferða sem fjallað er um í BAT-niðurstöðum vegna þéttbærs eldis svína og alifugla (BAT-13) og er fjallað um forsendur fyrir virkni þeirra og reynslu af þeim í öðrum löndum í BAT-tækniskýrslu (BREF), sjá bls. 507–9.

—–

Í 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri eru fyrirmæli sem varða starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu. Samkvæmt gr. 7.1. og 7.2. skulu í starfsleyfi vera ákvæði um söfnun og geymslu búfjárskarns og dreifingu búfjáráburðar sem taki mið af starfsreglum um góða búskaparhætti, sem um sé fjallað í 14. gr. reglugerðarinnar. Kemur og fram að við það skuli miðað að dreifing búfjáráburðar fari að jafnaði fram á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember ár hvert og að jafnaði sé ekki dreift á frosna jörð. Samkvæmt gr. 7.3. í reglugerðinni skal gerð grein fyrir því landrými sem sé til ráðstöfunar til dreifingar búfjáráburðar og hvernig tryggður sé annar farvegur til förgunar ef landrými sé ekki nægjanlegt fyrir áburðardreifingu, þar sem tekið sé mið af starfsreglum um góða búskaparhætti hvað varði áburðarmagn. Loks er í grein 7.4. mælt fyrir um að með umsókn um starfsleyfi skuli skila inn upplýsingum þar sem gerð sé grein fyrir magni köfnunarefnis í hverju tonni mykju, gróðurfari á mismunandi dreifingarlandi og upplýsingum um fyrirhugað magn áburðar sem dreifa eigi á hvert svæði og annað sem máli kunni að skipta í ákvörðun um magn til dreifingar.

Þessara fyrirmæla er gætt í 6. gr. hins kærða starfsleyfis. Þar eru sett skilyrði sem varða ráðstöfun svínamykju og fráveitu. Gert er ráð fyrir flutningum þurrefnis, ýmist til aðila með starfsleyfi til meðhöndlunar, sbr. gr. 6.4., til jarðgerðar, sbr. gr. 6.6., eða til dreifingar á völl, sbr. gr. 6.8–6.12. Er um leið gert ráð fyrir skráningu og upplýsingagjöf til leyfisveitanda, sbr. gr. 9.3. í starfsleyfinu. Samkvæmt beiðni úrskurðarnefndarinnar upplýsti heilbrigðiseftirlitið að þurrhluti svínamykju frá starfseminni hafi verið fluttur í landbúnaðarhéruð á Suðurlandi þar sem hún sé nýtt sem húsdýraáburður og sé eftirlitinu ekki kunnugt um að dreift hafi verið mykju frá starfseminni á eignarlönd á starfssvæði eftirlitsins. Engu að síður taki gr. 6.4 og 6.8–6.13 í starfsleyfinu á losun, flutningum, dreifingu og skráningu á tilteknum atriðum er varði mykju. Þá hefur komið fram af hálfu heilbrigðiseftirlitsins að fastmótuðu verklagi hafi verið fylgt við þau tilvik að óskað hafi verið heimildar til að dreifa búfjáráburði í umdæmi þess, sbr. gr. 6.8. í starfsleyfinu, þar sem rekstraraðili hafi verið krafinn um dreifingaráætlun sem rýnd hafi verið með tilliti til hættu á grunnvatnsmengun og hættu á loftmengun í byggð, auk þess sem leyfi landeigenda til dreifingar hafi verið sannreynd.

Í grein 7.2. í reglugerð nr. 804/1999 er m.a. mælt fyrir um að í umsókn um starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu geri fyrirtæki grein fyrir ráðstöfunum til vatnsverndar. Í því sambandi eru af þýðingu fyrirmæli gr. 6.1. í starfsleyfinu þar sem mælt er fyrir um að óheimilt sé að losa mykju í sjó eða yfirborðsvatn. Einnig gr. 6.11. þar sem mælt fyrir um að óheimilt sé að dreifa svínamykju og þurrhluta hennar þar sem að hún geti mengað læki, ár og annað yfirborðsvatn. Sérstaklega skuli þess gætt að dreifa ekki svínamykju og þurrhluta hennar í nágrenni vatnsbóla eða verndarsvæða þeirra. Samtímis er í ákvæði til bráðabirgða við leyfið, mælt fyrir um að leyfishafi skuli leggja fram tímasetta áætlun um hvenær hann áætli að stöðva dælingu á blauthluta svínamykju í sjó fyrir 1. maí 2024, sem og um hvað muni þá taka við. Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins hefur komið fram að með þessu hafi verið ákveðið að stöðva losun í sjó frá starfseminni, þar sem slík losun fari gegn ákvæði í reglugerð, en með því er vísað til gr. 5.2. í reglugerð nr. 804/1999, þar sem segir að losun úrgangs frá búfjárframleiðslu í yfirborðsvatn sé óheimil.

Í þessu felst sú þversögn að annars vegar er mælt fyrir um að óheimilt sé að losa svínamykju í sjó, sem telst til yfirborðsvatns samkvæmt reglugerð nr. 804/1999, og að hins vegar er í ákvæði til bráðabirgða gerð krafa um tímasetta áætlun um að látið verði af þeim starfsháttum. Engin heimild er í reglugerð nr. 804/1999 til þess að veita slíka undanþágu frá banni reglugerðarinnar við losun mykju í yfirborðsvatn. Getur engu þar um breytt að undanþágan er tímabundin og háð nánari skilyrðum. Fer því greint ákvæði til bráðabirgða í bága við bannið. Þá er sá ágalli einnig á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að þessu leyti að hún er ekki sett í samhengi við þær skyldur sem leiða af lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011, en viðtaki svínamykju frá starfseminni er strandsjávarvatnshlotið Hafnir að Gróttu, vatnshlotanúmer 104-1382-C.

—–

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður hafnað kröfu kærenda um ógildingu hins kærða starfsleyfis í heild sinni, en það þó fellt úr gildi hvað varðar ákvæði til bráðabirgða í 3. mgr. 10. gr. leyfisins, sem hefur að geyma tímabunda heimild til dælingar blauthluta svínamykju í sjó.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 7. desember 2023, um að gefa út starfsleyfi fyrir svínabú Síldar og fisks ehf.

Felld eru úr gildi fyrirmæli 3. mgr. 10. gr. starfsleyfis svínabús Síldar og fisks ehf., Ákvæði til bráðabirgða, varðandi heimild til tímabundinnar dælingar blauthluta svínamykju í sjó.

22/2024 Rofabær

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 10. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 22/2024, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2023 um að hafna umsókn um byggingarleyfi frá 17. maí s.á. vegna svalahandriðs og klæðningar á suðurhlið hússins að Rofabæ 43-47.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 28. febrúar 2024, kærir Húsfélag Rofabæjar 43-47, Reykjavík, þá afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2023 að hafna umsókn þess um byggingarleyfi frá 17. maí s.á. vegna svalahandriðs og klæðningar á suðurhlið hússins. Gerð er krafa um að byggingarleyfisumsóknin verði samþykkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. mars 2024.

Málsatvik og rök: Húsfélag Rofabæjar 43-47 hefur í hyggju að fara í viðhald og liggur fyrir ástandsskýrsla frá árinu 2016 þar sem lagðar eru til framkvæmdir og endurbætur á húsinu. Á aðalfundi húsfélagsins 27. mars 2023 var samþykkt að taka tilboði í framkvæmdir sem fælu m.a. í sér að allar svalir á suðurhlið þess yrðu brotnar niður og byggðar upp á nýtt og að sett yrðu létt handrið úr áli og gleri. Hinn 17. maí 2023 var sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum og hefur afgreiðslu umsóknarinnar ítrekað verið frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa, síðast 5. september 2023. Telur kærandi að skipulagsfulltrúi hafi með umsögn sinni 13. júlí 2023 í raun hafnað erindinu og hafa átt sér stað viðræður á milli kæranda og borgaryfirvalda um þessa afstöðu skipulagsfulltrúa. Eru viðræðurnar enn yfirstandandi og fyrirhugaður fundur 11. apríl 2024. Hefur því verið lýst yfir af hálfu borgaryfirvalda að vonast sé til að í kjölfarið fáist niðurstaða í málið.

Af hálfu kæranda er byggt á því að með höfnun á áformum hans sé brotið gegn jafnræðisreglu. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið byggt á hverfisskipulagi Árbæjarhverfis frá árinu 2019 en fordæmi séu fyrir að breytingar hafi verið samþykkt á húsum í hverfinu eftir að skipulagið hafi tekið gildi. Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða afgreiðsla feli ekki í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls og sé því ekki kæranleg til nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar sem fólst í gerð umsagnar í tilefni af umsókn kæranda um byggingarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það byggingarfulltrúi sem veitir byggingarleyfi og skal umsókn um byggingarleyfi send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa. Leiki vafi á því hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins skal byggingarfulltrúi skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga leita umsagnar skipulagsfulltrúa.

Í máli þessu hefur byggingarfulltrúi frestað afgreiðslu máls á afgreiðslufundum með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa en umsögn hans er liður í undirbúningi ákvörðunar byggingarfulltrúa en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá nefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Fyrir liggur að yfirstandandi eru viðræður á milli borgaryfirvalda og kæranda en leiðbeint skal um að telji kærandi afgreiðslu málsins dragast óhæfilega er honum unnt að kæra þann drátt til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

43/2024 Laufásvegur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 9. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 43/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 3. apríl 2024 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. apríl 2024, kærir eigandi, Laufásvegi 22, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 3. apríl 2024 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 13. desember 2023 var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg. Í tillögunni fólst breytt notkun á húsnæði því sem áður hýsti sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg 21–23 ásamt breyttri notkun á skrifstofum baklóðar Laufásvegar 19 í íbúðarhúsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Var samþykkt að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga, og var sú afgreiðsla samþykkt af borgarráði á fundi þess 21. desember 2023. Tillagan var auglýst 11. janúar 2024 með athugasemdafresti til 22. febrúar s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. apríl 2024. Samþykkti ráðið tillöguna og var málinu vísað til borgarráðs.

Kærandi bendir á að í kynningarbréfi, auglýsingu og sjálfri deiliskipulagstillögunni komi fram að markmið deiliskipulagsins hafi verið að heimila breytingu úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Nokkrum klukkustundum áður en frestur til athugasemda við deiliskipulagstillöguna hafi runnið út hafi borgaryfirvöld staðfest að ekki stæði til að innrétta íbúðarhúsnæði heldur koma fyrir umfangsmiklu búsetuúrræði. Íbúasamtök í íbúaráði Miðborgar og Hlíða hafi ekki treyst sér til að hafa skoðun á tillögunni vegna skorts á upplýsingum. Því miður sé óhjákvæmilegt að fara fram á að úrskurðarnefndin felli deiliskipulagið úr gildi svo hægt sé að kynna málið með réttum gögnum og forsendum.

Niðurstaða: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar var samþykkt tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg og málinu vísað til borgarráðs. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Að lokinni lögmætisathugun Skipulagsstofnunar skal sveitarstjórn birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsáætlun hefur ekki verið tekin fyrir af borgarráði og birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2024 Hofgarðar

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 9. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 26/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Melabraut 40, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar 13. apríl 2023 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi Bollagarða of Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða. Fólst breytingartillagan í því að hækka nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,41 í 0,48. Samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hennar 26. s.m. Á kynningartíma komu kærendur á framfæri athugasemdum þar sem breytingartillögunni var mótmælt. Skipulags- og umferðarnefnd tók tillöguna fyrir að nýju á fundi 16. nóvember s.á. og bókaði um að tekið yrði tillit til mótmælanna með því að leyfa einungis 0,46 nýtingarhlutfall í staðinn fyrir hlutfallið 0,48 sem kynnt hefði verið. Beindi nefndin því til bæjarstjórnar að ganga frá málinu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Samþykkti bæjarstjórn þessa afgreiðslu á fundi 7. febrúar 2024. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. febrúar 2024.

Kærendur telja ljóst að hin kærða ákvörðun sé haldin efnisannmörkum auk þess sem hún brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og grenndarsjónarmiðum. Rangar forsendur og ómálefnaleg sjónarmið hafi verið lagðar til grundvallar hinni kærði ákvörðun.  Nýtingarhlutfall Hofgarða 16 hafi fyrir breytinguna verið með því allra mesta sem fyrirfinnist á svæðinu. Bent sé á að veigamiklar ástæður þurfi að liggja fyrir til að breyta tiltölulega nýlegu skipulagi.

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar hefur verið bent á að eigendur lóðarinnar að Hofgörðum 16 muni ekki aðhafast á meðan mál þetta sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Eigendur lóðarinnar Hofgarða 16 vísa til þess að kæran sé byggð á misskilningi. Deiliskipulagsbreytingin valdi kærendum eða öðrum nágrönnum engu tjóni þar sem hvorki sé um frekari skerðingu á útsýni að ræða né aukna innsýn. Á deiliskipulagssvæðinu sé fjöldi lóða með hærra nýtingarhlutfall og því sé hið breytta nýtingarhlutfall ekki einsdæmi.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi ákvörðunar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi. Gildistaka deiliskipulagsáætlunar felur almennt ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulags eða breytingu á slíkri áætlun. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis skipulagsáætlana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 7. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Bollagarða og Hofgarða vegna lóðar nr. 16 við Hofgarða.

30/2024 Lónsbraut

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 5. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 30/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á erindi kærenda um tilhögun fráveitu við Lónsbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. mars 2024, kæra eigendur Lónsbrautar 20, 22, 24, 28, 34, 36, 40, 44, 46, 52, 54, 56, 58, 60, 62, 64, 66, 68, 70 og 72 meintan óhæfilegan drátt á afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á erindi þeirra er varðar tilhögun fráveitu við Lónsbraut. Er þess krafist að úrskurðarnefndin hlutist til um að svar fáist frá Hafnarfjarðarbæ.

Athugasemdir vegna málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 21. mars 2024.

Málavextir: Með bréfi kærenda til bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, dags. 30. mars 2023, óskuðu kærendur eftir fundi með forsvarsmönnum bæjarins til að ræða fráveitumál við Lónsbraut. Kærendur eru eigendur bátaskýla við Lónsbraut, sem liggur við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði. Fram kom í bréfinu að engin fráveitulögn hefði verið lögð að fasteignum kærenda en að þangað hefði verið lagt bæði heitt og kalt vatn. Sérstaklega mikilvægt sé að leggja fráveitu að fasteignunum þar sem Hvaleyrarlón hafi verið friðlýst sem fólkvangur árið 2009 og því sé óheimilt að losa frárennsli í lónið. Móttaka bréfsins var staðfest með tölvupósti þennan sama dag.

Með tölvupósti dags. 5. apríl 2023 var kærendum tilkynnt að umhverfis- og framkvæmdaráð bæjarins hefði tekið málið fyrir á fundi þann sama dag og vísað erindinu til skipulags- og byggingarráðs, en næsti fundur þess ráðs yrði 19. apríl. Kærendur spurðust fyrir um stöðu erindisins með tölvupósti 14. maí s.á. og fengu svar 19. s.m. þess efnis að erindið hefði farið fyrir skipulags- og byggingarráð 19. apríl, sem hefði vísað erindinu til skoðunar umhverfis- og skipulagssviðs. Að þeirri skoðun lokinni yrði málið tekið fyrir að nýju hjá skipulags- og byggingarráði.

Að sögn kærenda hafi ítrekað verið spurst fyrir um málið næstu mánuði en engin svör fengist. Með tölvupósti  20. október 2023 upplýstu kærendur bæjarstjóra um að ef afstaða bæjarins lægi ekki fyrir 25. október yrði Umhverfisstofnun upplýst um gang mála. Bæjarstjóri svaraði tölvupóstinum þann sama dag þar sem fram kom að óskað hefði verið eftir skoðun á málinu en láðst hefði að fylgja því eftir og að farið yrði strax í það. Kærendur sendu Umhverfisstofnun bréf 25. október s.á. þar sem stofnunin var upplýst um gang málsins. Með tölvupósti 2. nóvember s.á. var kærendum síðan tilkynnt að á fundi skipulags- og byggingarráðs þann sama dag hefði minnisblað skipulagsfulltrúa verið lagt fram og erindi kærenda verið vísað til meðferðar hjá bæjarlögmanni.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að þeir hafi ekki fengið fráveitu tengda við hús sín og hafi þeir sent Hafnarfjarðarbæ erindi 30. mars 2023, þar sem óskað hafi verið eftir að frárennslismálum yrði komið í löglegt horf. Bæjarlögmanni hafi verið falið að svara erindi kærenda í nóvember 2023, en ekkert svar hafi þó enn borist þeim.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að ekki hafi verið tekin nein stjórnvaldsákvörðun í málinu og því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla Hafnarfjarðarbæjar á erindi kærenda vegna tilhögunar fráveitu við Lónsbraut hafi dregist óhóflega.

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er um undantekningarreglu að ræða frá 2. mgr. 26. gr. laganna, þar sem gengið er út frá því að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda enda á stjórnsýslumál fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.

Fjallað er um tengingu við fráveitu í lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Í lögunum er t.a.m. kveðið á um í 1. mgr. 4. gr. laganna að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu og í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að í þéttbýli skuli sveitarfélag koma á fót og stafrækja sameiginlega fráveitu. Þá kemur fram í 1. mgr. 11. gr. að eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi eigi rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi. Samkvæmt 22. gr. laganna sæta stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögunum kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með fyrirvara um að takmarkaðra gagna nýtur við fyrir úrskurðarnefndinni um atvik þessa máls eða sjónarmið Hafnarfjarðarkaupstaðar, verður að álíta að kæru um drátt á afgreiðslu máls sé réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í athugasemdum með 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þar sem viðfangsefni sem stjórnvöldum berist séu mjög margvísleg taki úrlausn þeirra óhjákvæmilega misjafnlega langan tíma. Sum erindi séu þess eðlis að fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni taka nokkurn tíma og eigi það t.d. við um mál þar sem afla þurfi umsagnar annarra aðila, svo og gagna. Með þessu er ljóst að um matskennda reglu er að ræða og verður við mat á því hvort dráttur sé á afgreiðslu máls að taka mið umfangi þess og atvikum öllum.

Fyrir liggur að nokkur samskipti voru milli kærenda og Hafnarfjarðarbæjar í framhaldi af erindi kærenda 30. mars 2023. Samskiptin urðu stopulli eftir maí s.á. og var bæjarlögmanni falin meðferð erindis kærenda 2. nóvember s.á. Síðan eru liðnir rúmlega fimm mánuðir. Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar hefur ekkert komið fram um ástæður þessa dráttar, hvorki með vísan til rannsóknar, umfangs máls eða annarra ástæðna. Að því virtu verður að álíta að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis kærenda.

Rétt þykir einnig að benda á að samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga ber þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

 Úrskurðarorð:

Fallist er á með kæranda að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis kærenda hjá Hafnarfjarðarbæ um tilhögun fráveitu við Lónsbraut.

147/2023 Alifuglabú að Brautarholti

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 29. nóvember 2023, um að hafna kröfu kæranda um afturköllun starfsleyfis alifuglabúsins að Brautarholti 5 á Kjalarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. desember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Brautarholts 1 á Kjalarnesi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 29. nóvember 2023, um að hafna kröfu hans um afturköllun starfsleyfis alifuglabúsins að Brautarholti 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum sem settar hafa verið samkvæmt lögunum og sjá til þess að búinu verði lokað. Til vara er þess krafist, með líkum hætti, að úrskurðarnefndin felli niður téð starfsleyfi og sjái til þess að alifuglabúinu verði lokað. Verður álitið að sú krafa sé hluti af aðalkröfu kærenda og verður því ekki fjallað um hana sérstaklega.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 6. febrúar 2024.

Málavextir: Í Brautarholti á Kjalarnesi er starfrækt eldi alifugla. Fer eldið fram í húsi sem er í um 200 metra fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda. Í húsinu var svínaeldi fram til ársins 2010 en engin starfsemi síðan til ársins 2016 þegar húsið var aftur tekið í notkun og þá sem eldishús fyrir alifugla samkvæmt starfsleyfi dags. 11. apríl 2016. Með leyfinu eru heimiluð 35.550 eldisstæði og skiptist það í eldi á allt að 15.000 hænuungum og 20.550 varphænum. Ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. apríl 2016 um veitingu starfsleyfisins var borin undir úrskurðarnefndina af kæranda sem og ákvörðun borgarráðs frá 1. september s.á. um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar þeirrar sem húsið stendur á. Í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 136/2016 og 163/2016 sem kveðnir voru upp 12. júní 2017 var kröfum um ógildingu hafnað. Þá skal þess getið að jafnframt þessu er starfrækt umfangsmikið þauleldi svína í Brautarholti í húsum sem eru í um 325 metra fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda.

Hinn 25. mars 2021 óskaði kærandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að skipaðir yrðu matsmenn til að leggja mat á ýmis atriði varðandi stöðu mengunarmála og annarra atriða sem hann taldi ábótavant á svæðinu vegna starfsemi beggja eldisbúa. Hinn 3. júní 2022 skiluðu hinir dómkvöddu matsmenn matsgerð þar sem ýmsar athugasemdir voru gerðar m.a. við stöðu mengunarmála á svæðinu. Í matsgerðinni kom m.a. fram að í starfsleyfi alifuglabúsins væri gerð krafa um að starfsemin þyrfti að standast kröfur sem fram komi í BAT viðmiðunarskjali. Ljóst væri að nokkur þeirra skilyrða væru ekki uppfyllt og var um það vísað nánar til BAT 11, 13, 23 og 26 í BAT-niðurstöðum fyrir þéttbært eldi alifugla og svína. Með erindum dags. 2. ágúst 2022 til umhverfisráðuneytisins varðandi svínabúið og til heilbrigðiseftirlitsins um alifuglabúið var þess krafist að starfsleyfi beggja búanna yrðu afturkölluð. Heilbrigðiseftirlitið hafnaði þeirri kröfu 29. september s.á. Í framhaldi sendi kærandi erindi á Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur dags. 25. janúar þar sem gerð var krafa um að starfsleyfi alifuglabúsins yrði fellt úr gildi. Því erindi svaraði heilbrigðiseftirlitið í bréfi dags. 8. mars 2023 þar sem kröfu kæranda var synjað. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Með úrskurði í máli nr. 44/2023, dags. 17. ágúst 2023, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars s.á. Með því var erindi kæranda vísað til heilbrigðiseftirlitsins að nýju til frekari meðferðar með vísan til þeirra skyldna sem á stjórnvöldum hvíla við framkvæmd laga nr. 7/1998. Mat úrskurðarnefndin það svo að bréf heilbrigðiseftirlitsins þar sem beiðni kæranda var hafnað, hefði átt að vera ítarlegra og fela í sér efnisleg andsvör við framkomnum athugasemdum. Við meðferð málsins hefði heilbrigðiseftirlitið ekki gert nokkurn reka að því að færa fram slík svör eða veita nánari upplýsingar um starfsemi alifuglabúsins, þ.m.t. hvort til væri að dreifa brotum á starfsleyfisskilyrðum og þá hvernig eða hvort brugðist hafi verið við þeim.

Með tölvubréfum, dags. 29. ágúst og 22. september 2023, til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, vakti kærandi athygli á úrskurði úrskurðarnefndarinnar og óskaði eftir viðbrögðum. Í svarbréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 29. nóvember s.á. voru athugasemdir kæranda raktar og þeim svarað lið fyrir lið. Kom þar fram að efnisatriði í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, upplýsingar sem heilbrigðiseftirlitið hafi aflað við reglubundið eftirlit og skoðunarferðir vegna lyktarkvartana hafi ekki gefið tilefni til að endurskoða eða afturkalla starfsleyfið. Hefur sú afstaða sem í þessu felst verið í máli þessu borin undir úrskurðarnefndina.

Málsrök kæranda: Kærandi telur forsendur fyrir útgáfu starfsleyfis alifuglabúsins vera brostnar. Mörg skilyrði starfsleyfisins hafi aldrei verið uppfyllt. Þá samræmist starfsemi og staðsetning alifuglabúsins ekki lögum og reglugerðum. Byggi þetta meðal annars á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna frá 3. júní 2022, en þar komi fram að í starfsleyfinu sé kveðið á um að starfsemin þurfi að uppfylla skilyrði bestu aðgengilegu tækni samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna þéttbærs eldis alifugla eða svína, sem innleidd hafi verið með reglugerð nr. 935/2018. Þó nokkur ákvæði BAT-niðurstaðna, sem eigi við um starfsemina, séu ekki uppfyllt. Tilgreint er í matinu að rykmengun frá útblástursstút á þaki hússins hafi verið staðfest, enginn búnaður sé til lyktareyðingar og ekki sé til staðar umhverfisstjórnunarkerfi.

Í matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur sé rakið að 12. mars 2015 hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sent umsögn til umhverfisráðuneytisins varðandi beiðni þáverandi rekstraraðila alifuglabúsins um undanþágu frá fjarlægðarmörkum skv. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. heimild í 74. gr. hennar. Í nefndri umsögn hafi verið komið inn á nauðsyn mengunarvarna og tekið fram að setja þyrfti viðeigandi mengunarvarnarbúnað til að lágmarka óþægindi af völdum starfseminnar. Tekið hafi verið fram að kröfur um slíkan búnað yrðu settar í starfsleyfi búsins og yrði hann að vera til staðar áður en rekstur hæfist. Einnig hafi komið fram að lyktarmengun vegna stórra alifuglabúa gæti verið vandamál sem skaði heilsu manna, sé hún viðvarandi auk þess að rýra lífsgæði. Útblæstri geti einnig fylgt möguleg smithætta. Í matsgerðinni komi fram að fjarlægðin milli svínabúsins og alifuglabúsins í Brautarholti sé aðeins 100 m. Sú fjarlægð uppfylli ekki skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína, en þar komi fram að lágmarksfjarlægð milli húsanna skuli vera 300 metrar.

Með reglugerðinni hafi verið settar reglur um slík eldishús, m.a. um fjarlægð frá þeim þegar um sé að ræða nýbyggingu og við meiri háttar breytingar á húsnæði. Þar sé engin heimild til að veita undantekningar frá fjarlægðarreglum. Þrátt fyrir það hafi slík undantekning verið veitt árið 2016 fyrir alifuglabúið í Brautarholti. Með matsgerð dómkvaddra matsmanna sé nú sannað að forsendur fyrir þeirri undanþágu hafi verið ólögmætar. Þá séu brostnar þær forsendur sem þá hafi verið miðað við, en ýmis skilyrði í starfsleyfinu sem kveði á um viðeigandi mengunarbúnað hafi aldrei verið uppfyllt. Í matsgerðinni hafi komið fram að ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 um að samþykkja breytingar á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi fari gegn fjarlægðarmörkum a. og b. liðar 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015, þar sem um matvælafyrirtæki sé að ræða. Þá eigi fjarlægðarmörk 6. gr. reglugerðarinnar við þegar um sé að ræða meiriháttar breytingar á eldri mannvirkjum. Sé það staðfest í matsgerðinni að breytingar á Brautarholti 5 árið 2016, þegar fasteigninni var breytt vegna fyrirhugaðs alifuglaeldis, hefðu verið meiriháttar og því eigi framangreind 300 m fjarlægðarmörk við í öllum tilvikum.

Við mat á fjölda lyktareininga hafi hinir dómkvöddu matsmenn gefið sér tvenns konar forsendur varðandi samsetningu dýra og komist að þeirri niðurstöðu að fjöldi lyktareininga á svæðinu umhverfis svína- og alifuglahúsin væri á bilinu 97.000–156.000 OUE. Sé miðað við leyfilegt hámark skv. reglugerð nr. 520/2015 væri hámark lyktareininga fyrir sama svæði 80.000 OUE, þar af væru 42.000 OUE frá alifuglabúinu. Framangreind niðurstaða matsmanna á fjölda lyktareininga á svæðinu staðfesti að sá fjöldi lyktareininga sem heilbrigðiseftirlitið hafi miðað við á sínum tíma sé rangur. Þar með væru brostnar þær forsendur fyrir veitingu leyfisins að fjöldi lyktareininga frá alifuglahúsinu yrði minni heldur en þegar þar hefði verið svínabú. Eigi það einnig við um forsendur fyrir undanþágu frá skilyrðum reglugerðar nr. 520/2015.

Hinar röngu forsendur heilbrigðiseftirlitsins hafi byggst á neðri mörkum í einni danskri tilraun, sem hafi verið handvalin og hafi verið ályktað á grundvelli hennar að fjöldi lyktareininga í fyrirhuguðu alifuglabúi yrði ekki meiri en 8–10.000 OUE. Með því að velja neðri mörkin hefði heilbrigðiseftirlitið talið sig geta sýnt fram á að um minniháttar breytingar væri að ræða sem ekki hefðu í för með sér aukin óþægindi í skilningi 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015. Með þessu hefði undanþága verið réttlætt á þeirri forsendu að um væri að ræða framhald af eldri rekstri sem hefði mengað meira en fyrirhugaður rekstur alifuglabúsins. Hefði heilbrigðiseftirlitið reiknað rétt á sínum tíma og í samræmi við niðurstöðu sem fram kom í matgerð hinna dómkvöddu matsmanna, hefði umdeilt leyfi aldrei verið veitt.

Samkvæmt gr. 1.1. í núgildandi starfsleyfisskilyrðum gildi það fyrir eggjaframleiðslu, eldi á allt að 15.000 hænuungum og 20.550 varphænum, alls 35.550 eldisstæði. Heilbrigðiseftirlitið hafi hins vegar upplýst að raunveruleikinn væri allt annar því við yfirfærslu leyfisins til nýs rekstraraðila hafi verið heimilað að hafa í húsinu 28.000 varphænur og enga unga. Þessar breytingar hefðu ekki verið færðar í starfsleyfið. Sé þetta mjög einkennileg stjórnsýsla sem uppfylli ekki formkröfur. Í þessu samhengi sé vísað til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 þar sem fram komi að við endurskoðun eða breytingu starfsleyfa skuli stofnunin auglýsa drög að slíkri breytingu í að lágmarki í fjórar vikur.

Þegar heilbrigðiseftirlitið hafi gefið undanþágu frá fjarlægðarmörkum árið 2016, hefði ekki verið horft til þess að um væri að ræða: a) hús sem hefði staðið tómt í sex ár, b) að skipt hafi verið um dýrategund, c) að um meiriháttar breytingar á húsnæðinu væri að ræða sem kallaði á breytingar á deiliskipulagi, d) um hafi verið að ræða nýjan starfsleyfishafa, e) útreikningar á mengun hafi komið frá starfsleyfishafa sjálfum, en heilbrigðiseftirlitið hafi ekki framkvæmt sjálfstætt mat og f) að í 100 m fjarlægð var eitt stærsta svínabú landsins og að allt of stutt væri milli húsanna samkvæmt fortakslausum skilyrðum í reglugerð nr. 520/2015 sem var í gildi á þeim tíma.

Málsrök Heilbrigðiseftirlitsins: Vísað er til þess að við vinnslu starfsleyfisumsóknar alifuglabúsins hafi verið óskað eftir útreikningum á lyktardreifingu og lyktarálagi vegna starfseminnar. Áður en starfsleyfið hafi verið veitt hafi heilbrigðiseftirlitið rýnt skýrslur verkfræðistofu um dreifingu lyktarmengunar frá starfseminni og hversu miklu hún myndi bæta við mengun frá nálægu svínabúi. Hafi heilbrigðisefirlitið í kjölfarið fengið aðra óháða verkfræðistofu til þess að yfirfara skýrslurnar. Var niðurstaðan sú að alifuglabúið hefði í för með sér takmarkaða viðbót í loftmengun. Rökstuðningur hefði verið birtur samhliða útgáfu leyfisins og eftirlitið þar með sinnt bæði rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinni.

Í máli nr. 163/2016 fyrir úrskurðarnefndinni hafi kröfu kæranda, um ógildingu starfsleyfis alifuglabúsins sem gefið var út 8. nóvember 2016, verið hafnað með vísan til þess að sú breyting sem gerð hafi verið á notkun hússins hefði verið óveruleg og félli því ekki undir fjarlægðarreglu 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Liggi því fyrir afstaða til þess álitaefnis.

Líkt og fram komi í gr. 1.1. í starfsleyfisskilyrðum gerði leyfið ráð fyrir eldi á allt að 15.000 hænuungum og 20.550 varphænum, alls 35.550 eldisstæðum. Eftir starfsleyfisveitinguna hafi starfsleyfishafi breytt samsetningu og fjölda í 28.000 varphænur. Að því gefnu að notuð séu sömu gildi fyrir áætlun á lyktarmengun og í áðurnefndri skýrslu um dreifingu lyktarmengunar, fari áætlaður fjöldi lyktareininga frá rekstrinum við þetta úr 11.004 í 7.800. Þar sem um sé að ræða lægri gildi á mögulegri lyktarmengun hefði ekki verið talið tilefni til að breyta starfsleyfisskilyrðum alifuglabúsins og því ekki verið þörf á að auglýsa drög að breytingu á starfsleyfinu sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Heilbrigðiseftirlitinu hafi borist 36 kvartanir vegna ólyktar frá útgáfu starfsleyfisins sem hafi allar komið frá kæranda. Þrátt fyrir fjölda eftirlitsferða vegna þeirra og við reglubundið eftirlit hafi aldrei verið unnt að staðfesta umtalsverða loftmengun eða mengun umfram áætlun.

Heilbrigðiseftirlitið hafi brugðist við athugasemdum úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 44/2023 með bréfi til kæranda dags. 29. nóvember 2023. Í bréfinu hafi verið færð fram ítarleg svör við þeim fjölmörgu atriðum sem kærandi hafi borið fram síðustu misseri. Kærandi hafi þar með verið upplýstur um að heilbrigðiseftirlitið hafi komist að sömu niðurstöðu og áður, að undangenginni ítarlegri rannsókn. Þá liggi einnig fyrir niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3267/2021, þar sem Reykjavíkurborg hafi verið sýknuð af kröfum kæranda um skaðabótaskyldu vegna fjártjóns vegna breytingar á deiliskipulagi í Brautarholti á Kjalarnesi sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 19.september 2016.

Líkt og gögn málsins beri með sér hafi heilbrigðiseftirlitið sinnt eftirlitshlutverki sínu frá því að hið umþrætta starfsleyfi hafi verið gefið út. Í reglubundnu eftirliti hefðu ekki komið fram frávik sem leitt hefðu til alvarlegra úrbótakrafna og aldrei svo alvarleg að komið hefði til álita að svipta rekstraraðila starfsleyfi.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent sé á að framangreindur dómur héraðsdóms skipti engu máli hvað varði starfsleyfið sem hér sé til umfjöllunar. Þar hafi engar kröfur verið gerðar varðandi starfsleyfið og dómurinn eingöngu snúið að skaðabótakröfu á grundvelli 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins sé málsástæðum í kæru þessari ekki svarað nema að litlu leyti og í þeim tilvikum sem svarað er standist svörin ekki skoðun. Þá sé vísað í úrskurð nefndarinnar nr. 163/2016 þar sem kröfu um ógildingu starfsleyfisins sé hafnað. Bent sé á að um sé að ræða gamlan úrskurð sem eigi ekki við eins og málum sé nú háttað. Núverandi krafa miði við stöðuna eins og hún er í dag og byggi á nýjum málsástæðum sem komið hafi fram í bréfum kæranda og í kæru þessari. Þar sé m.a. vísað til athugasemda og ábendinga sem komi fram í nýju dómkvöddu mati sem séu m.a. byggðar á því að ekki sé farið eftir kröfum sem fram komi í BAT skilyrðum og gildandi starfsleyfi. Einnig sé byggt á því í kærunni að í gildandi starfsleyfi komi fram allt önnur samsetning alifugla heldur en sú sem heilbrigðiseftirlitið telji vera í gildi.

Bent sé á að skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 gildi fjarlægðarmörkin ef annað eða bæði af tveimur skilyrðum séu uppfyllt. Ljóst sé að bæði þessara skilyrða séu uppfyllt og því eigi fjarlægðarmörkin við. Varðandi athugasemd frá heilbrigðiseftirlitinu um að lyktarmengun frá alifuglabúinu hafi farið úr 11.004 lyktareiningum niður í 7.800 við meinta breytingu, sé ítrekað enn og aftur að margsinnis sé búið að sýna fram á að í þeirri skýrslu hafi verið notast við rangar forsendur. Í nýrri skýrslu dómkvaddra matsmanna komi fram að mengun frá alifuglabúinu sé 42.840 lyktareiningar.

Í dómsmálum hafi skýrslur eins og þær sem upphaflegur leyfishafi hafi látið útbúa á sínum tíma lítið sönnunargildi í samanburði við skýrslur dómkvaddra matsmanna. Því sé einnig mótmælt að valkvætt sé að auglýsa drög að breytingu starfsleyfisins sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Þá sé hafnað fullyrðingum um að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki geta staðfest kvartanir. Sem dæmi sé vísað til eftirlitsskýrslna dags. 23. ágúst 2018, 10. júní 2019 og 6. desember 2023, sem fylgi gögnum málsins. Þar komi ítrekað fram að töluvert ryk safnist upp á þaki búsins og staðfest að bæði fiður- og rykmengun leggi frá því. Hafi mengunin ekkert lagast síðan og sé langt yfir ásættanlegum mörkum. Ryk, fiður og bakteríur streymi enn út í umhverfið, enda engum mengunarvarnarbúnaði til að dreifa eins og margoft hafi verið staðfest af matsmönnum og eftirlitsmönnum heilbrigðiseftirlitsins.

Varðandi svör heilbrigðiseftirlitsins frá 29. nóvember 2023 sé kæruliðum aðeins svarað að mjög takmörkuðu leyti og þar sé einnig að finna fjölmargar rangfærslur. Þar á meðal sé rangt að reglugerð nr. 520/2015 hafi ekki öðlast gildi fyrr en eftir að byrjað var að starfrækja búin. Hafi hún öðlast gildi við birtingu í júní 2015, en alifuglabúið ekki hafið starfrækslu fyrr en árið 2016. Þá sé rangt að í reglugerðinni sé ekki að finna fjarlægðarmörk fyrir þessa stærð alifuglabúa. Bent sé á 4. gr. reglugerðarinnar og svar dómkvaddra matsmanna varðandi þetta atriði. Fullyrðingar um að alifuglabú séu ekki talin valda mikilli mengun séu í engu samræmi við það sem fram komi í fjölmörgum öðrum bréfum stofnunarinnar í sambærilegum málum. Eigi það einnig við í þegar meiri fjarlægð sé til að dreifa, en hér um ræði.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar bárust.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem kemur fram í bréfi dags. 29. nóvember 2023 að hafna kröfu kæranda um afturköllun starfsleyfis alifuglabúsins að Brautarholti, dags. 11. apríl 2016. Er þess krafist að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir það að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum sem settar hafa verið samkvæmt þeim og sjá til þess að búinu verði lokað.

Almennt hefur verið litið svo á að synjun um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar sé stjórnvaldsákvörðun þar sem hún feli í sér bindandi niðurstöðu eða úrlausn um rétt eða skyldu borgaranna. Verður að meta í hverju tilviki hvort slíkri ákvörðun sé til að dreifa eða hvort afstaða stjórnvalds feli fremur í sér leiðbeiningar eða lið í meðferð máls. Kemur þar til álita að hvaða marki í slíku tilsvari til er að dreifa afstöðu til atvika máls eða beitingu laga. Af málsgögnum má ráða að kærandi hefur lengi átt samskipti við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vegna starfsemi alifuglabúsins sem varðað hafa m.a. forsendur leyfisveitingar, mengunarvarnir og eftirlit með starfseminni. Með téðri ákvörðun frá 29. nóvember 2023 var fjallað um þessi málefni og því hafnað að endurskoða eða afturkalla starfsleyfið. Verður að álíta að með þessu sé til að dreifa afstöðu stjórnvalds sem feli í sér ákvörðun sem borin verður undir nefndina, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998.

Starfsleyfi fyrir alifuglabúið í Brautarholti, dags. 11. apríl 2016, gildir til 8. nóvember 2028. Með því er heimilað eldi á 35.550 eldisstæðum í húsinu sem skiptist í eldi á allt að 15.000 hænuungum og 20.550 varphænum. Ákvörðun um útgáfu leyfisins var borin undir úrskurðarnefndina af kæranda og var ógildingu þess hafnað með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 163/2016, sem kveðinn var upp 12. júní 2017. Var í forsendum úrskurðarins m.a. álitið að sú breytta notkun eldishúss að taka upp alifuglaeldi í stað svínaeldis félli ekki undir fjarlægðarreglu 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína, þar sem breytingin sem í því fælist teldist óveruleg. Með þessu liggur fyrir afstaða nefndarinnar til beitingar þessa ákvæðis reglugerðarinnar, sem sætir ekki endurskoðun í þessu máli.

Í stjórnsýslulögum er mælt fyrir um að þegar ákvörðun stjórnvalds er haldin annmarka kann hún að vera ógildanleg ef annmarkinn telst verulegur og veigamiklar ástæður mæla ekki gegn því og er því stjórnvaldi sem tók ákvörðun þá heimilt að afturkalla hana sbr. 2. tölul. 25. gr. laganna. Um endurskoðun og breytingar á starfsleyfum fyrir mengandi starfsemi, vegna breyttra forsendna, eru jafnhliða sett sérstök ákvæði í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, sem að teknu tilliti til sjónarmiða kæranda og rökstuðnings hinnar kærðu ákvörðunar, verður fjallað um í máli þessu. Þau dæmi sem þar eru tilgreind eru ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfi var gefið út og ef til er að dreifa breytingum á rekstri sem varðað geta ákvæði starfsleyfis vegna tækniþróunar eða breytingar á reglum um mengunarvarnir sem og breytingar á aðalskipulagi.

Hvað það snertir hvort til sé að dreifa breytingum á rekstri alifuglabúsins frá því sem var í upphafi var við yfirfærslu starfsleyfisins til nýs rekstraraðila heimilað að hafa í húsinu 28.000 varphænur og enga unga, í stað allt að 15.000 hænuunga og 20.550 varphænsna. Af svörum heilbrigðiseftirlitsins má ráða að álitið hafi verið að þessi breyting rúmist innan heimilda starfsleyfisins, sem miði við allt að 35.550 eldisstæði, þ.e. að ekki hafi verið skylt að fara með málið sem breytingu á starfsleyfi skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 né heldur að endurskoða leyfið skv. 2. mgr. 6. gr. laganna. Fyrir liggur rökstutt mat heilbrigðiseftirlitsins um áhrif þessarar breytingar á lyktarmengun frá starfseminni og verður ekki gerð athugasemd við þessa afstöðu.

Höfuðathugasemdir kæranda lúta að því að til sé að dreifa mun meiri lyktarmengun af völdum starfsemi alifuglabúsins en búast mátti við þegar leyfið var gefið út. Til þess er þá að líta að við undirbúning að útgáfu starfsleyfis til alifuglabúsins lá fyrir sérfræðilegt mat frá janúar og desember 2015 um lyktarónæði frá starfsemi alifuglabúsins að teknu tilliti til reksturs svínabúsins á sama stað. Við mælingarnar voru áætlaðar svonefndar lyktareiningar, OUE (e. odour unit emission) sem skilgreindar eru í staðli ÍST EN 13725:2003. Má af matinu frá 2015 ráða að forsendur þess byggðu á dönskum gögnum og viðmiðunum um lyktarónæði í þauleldi í landbúnaði og voru niðurstöðurnar settar fram miðað við það. Var þar áætlað að heildarlosun lyktareininga frá alifuglahúsinu næmi 11.004 OUE/s og frá svínabúinu 87.605 OUE/s.

Í lið 3.3. í matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem kærandi hefur aflað, er fjallað um lyktarmengun frá alifuglabúinu og svínabúinu með hliðsjón af gildum sem greind eru í tilgreindu BREF-skjali, þ.e. BAT tækniskýrslu sem varðar þauleldi alifugla. Fram kemur að gildi um lyktarlosun frá alifuglabúinu sem stuðst hafi verið við í matinu frá 2015 sé á neðri hluta þeirra gilda sem gefin séu í skjalinu fyrir hæstu og lægstu lyktarlosun á hvert dýr á tímaeiningu miðað við mismunandi hús og flórgerðir. Um leið er bent á, sem þessu tengist, að hjá núverandi rekstraraðila sé kerfi með hænsnum í lausagöngu þar sem færibönd færi skít út tvisvar í viku og hann sé fjarlægður og því sé engin uppsöfnun vegna hans, þar sem lykt nái að byggjast upp. Þá sé notuð viðurkennd fóðrun fyrir varphænur, en enginn viðbótarbúnaður sé til staðar fyrir lyktareyðingu. Í matsgerðinni eru leiddar að því líkur að heildarlosun lyktareininga frá báðum búunum í Brautarholti sé á bilinu 95.000 til 140.000 OUE/s. Verður ekki ráðið af þeirri umfjöllun að lykt frá alifuglabúinu sé í verulegu umfram það sem áætlað var við undirbúning að útgáfu leyfis til þess. Er í matinu gerður fyrirvari um hvort unnt sé að leggja saman lyktareiningar frá mismunandi uppsprettum, en til þess að skera úr um það þurfi sérstakt raunmat að fara fram sem ekki liggi fyrir. Í ljósi þessa verður ekki gerð athugasemd við þá afstöðu heilbrigðiseftirlitsins að ekki sé tilefni til endurskoðunar á starfsleyfisskilyrðum vegna lyktarmengunar, sem einnig fær nokkra stoð í eftirlitsskýrslum með starfseminni.

Í almennum starfsleyfisskilyrðum sem og sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir alifuglabúið er vísað með almennum hætti til þess að nota skuli bestu fáanlegu tækni við mengunarvarnir. Á þessu er hnekkt hvað varðar fóðurgjöf og meðferð úrgangs. Fram kemur að besta fáanlega tækni hafi verið skilgreind í tiltekinni BAT-tækniskýrslu frá árinu 2003 og er tekið fram að verði breytingar á henni skuli þær taka gildi og innleiddar samkvæmt ákvæðum í grein 1.4. í leyfinu, en þar er vísað til heimilda til endurskoðunar á leyfinu komi fram almennar kröfur eða ný tækni er leiði til bættra mengunarvarna. Þessi fyrirmæli eru náskyld því sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 að breytingar á reglum um mengunarvarnir geti leitt til þess að breytingar verði gerðar á starfsleyfi. Þá má loks geta 4. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998, sem gildir um leyfi sem heilbrigðisnefndir gefa út, en þar er mælt fyrir um að ákvæði um mengunarvarnir skuli taka mið af BAT-niðurstöðum þegar þær liggi fyrir.

Nokkru eftir að starfsleyfi alifuglabúsins var gefið út öðluðust gildi niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT) vegna þéttbærs eldis alifugla eða svína. Þær miða við þauleldisbú sem háð eru leyfi Umhverfisstofnunar, sbr. 16. tl. 5. gr. reglugerðar nr. 935/2018 um BAT (bestu aðgengilegu tækni) o.fl. á sviði atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun. Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins hefur verið vísað til þess að í starfsleyfisskilyrðum sé vísað til BAT sem viðmiða fyrir mögulegar úrbætur, en eftirlitið hafi ekki getað staðfest kvartanir um umtalsverða loftmengun eða mengun umfram áætlun við útgáfu starfsleyfisins og hafi því ekki talið tilefni til að gera kröfu um auknar ráðstafanir sem tækju mið af BAT niðurstöðum. Með hliðsjón af framanröktu verður ekki gerð athugasemd við þá afstöðu.

Að virtum þeim skyldum sem á stjórnvöldum hvíla við framkvæmd laga nr. 7/1998 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki verði gerð athugasemd við hina kærðu ákvörðun, þ.e. því að hafna kröfu um afturköllun á starfsleyfi alifuglabúsins að Brautarholti. Verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað. 

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 29. nóvember 2023 um að hafna kröfu um afturköllun á starfsleyfi alifuglabúsins að Brautarholti 5 á Kjalarnesi.

25/2024 Lindargata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2024, kæra vegna framkvæmda á lóð nr. 24 við Lindargötu á Siglufirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 29. febrúar 2024, gerir eigandi húss á lóð nr. 22 við Lindargötu á Siglufirði í Fjallabyggð, kröfu um að úrskurðarnefndin láti framkvæmdir á lóð nr. 24 við sömu götu til sín taka. Þá var um leið óskað umferðarréttar um lóðina.

Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar 29. febrúar 2024 fór kærandi síðan fram á að tekin yrði afstaða til þess hvort umdeildar framkvæmdir á lóð nr. 24 við Lindargötu væru háðar byggingarleyfi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjallabyggð 12. mars 2024.

Málavextir: Á lóðum nr. 20–24 við Lindargötu á Siglufirði í Fjallabyggð standa sambyggð hús frá árunum 1928–1934 og er kærandi eigandi húss á lóð nr. 22. Á aðaluppdráttum hússins er ekki gert ráð fyrir að gengið sé úr húsinu út á baklóðina. Aðgengi að baklóðinni er af þeirri ástæðu háð því að farið sé um aðra lóð.

Á haustmánuðum 2023 hófust framkvæmdir á lóð nr. 24 við Lindargötu og var þar reistur pallur og heitum potti komið fyrir. Samkvæmt mælingum Fjallabyggðar er pallurinn í a.m.k. 37 cm hæð og á honum heitur pottur sem er í 30 cm fjarlægð frá lóðamörkum. Með tölvubréfi hinn 20. nóvember 2023 leitaði kærandi til Fjallabyggðar og óskaði eftir því að skorið yrði úr um lögmæti þessara framkvæmda. Var þess einnig krafist að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar væru þær ekki lögmætar. Á tíu daga tímabili, frá 20. nóvember 2023, áttu sér stað nokkur samskipti á milli byggingarfulltrúa og kæranda um framkvæmdirnar og hvort þær samrýmdust byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kom þar fram sú afstaða byggingarfulltrúa, sem er jafnframt deildarstjóri tæknideildar sveitarfélagsins, að eftir skoðun á vettvangi sýndist honum framkvæmdirnar vera í samræmi við byggingar­reglugerð og að ekki væri unnt að krefjast þess að þeim yrði breytt.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að eigandi Lindargötu 24 hafi reist pall með heitum potti á lóð sinni án samráðs við sig. Framkvæmdin þrengi óeðlilega mikið að lóð kæranda, rýri notagildi hennar og auki brunahættu. Með henni sé bakgarður við hús kæranda lokaður af, en ekki sé útgengt í garðinn frá húsinu og hafi því þurft að fara „hringinn“ þ.e. þræða uppkeyrslu sunnan við lóð nr. 24 við Lindargötu og þvera svo garð þeirrar lóðar að aftanverðu. Fara megi aðra leið en hún sé ekki hefðbundin og sé óhentugri. Með pallinum sé fyllt alveg í láréttan flöt garðs á lóð nr. 24 og aðgengi að garði kæranda til eigin framkvæmda, t.d. með litla gröfu sé útilokað. Um leið sé erfitt að komast í garðinn með sláttuvél, stiga, garðhúsgögn og annað slíkt. Brekkan ofan við flötina sé brött og erfitt að þræða hana. Kærandi hafi í ljósi þessa óskað eftir því að fá umferðarrétt um téða lóð.

Kærandi álítur umræddan pall vera of háan og ekki á eða við jarðvegsyfirborð líkt og mælt sé fyrir um í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá búi hann ekki yfir upplýsingum um það hvort framkvæmdaraðili hafi tilkynnt heita pottinn til bæjaryfirvalda með skriflegum hætti og fylgt kröfum byggingarreglugerðar. Ekki sé til staðar deiliskipulag af svæðinu og megi því vera að framkvæmdin sé byggingarleyfisskyld. Engin grenndarkynning hafi farið fram.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Samráð hafi verið haft við tæknideild sveitarfélagsins og bæjarverkstjóra áður en framkvæmdir hafi hafist, vegna útfærslu á palli og uppsetningu á heitum potti. Af hálfu tæknideildar hafi verið bent á kortasjá Fjallabyggðar og að þar mætti sjá lóðalínur/lóðamörk sem miða skyldi við. Það hafi verið gert og sé pallurinn 40–55 cm frá mörkum lóðanna samkvæmt kortasjá. Sé kortasjáin þysjuð alveg inn sjáist greinilega að lóða­mörkin séu utan við þakbrún viðbyggingar á lóð nr. 24 við Lindargötu. Þá hafi framkvæmdar­aðili upplýst bæði starfsmenn sveitarfélagsins og nágranna um fyrirætlanir sínar. Samband hafi verið haft við kæranda símleiðis.

Við framkvæmdina hafi verið farið eftir og gætt að byggingarreglugerð nr. 112/2012. Pallurinn sé á eða við jarðvegsyfirborð en ekki ofan á lóðamörkunum og sé heitur pottur um 30 cm inn á pallinum. Í byggingarreglugerð sé ekki gerð krafa um fjarlægð heitra potta frá mörkum lóða. Frágangur og útfærsla á frárennsli á heitum potti hafi verið gerð samkvæmt fyrirmælum bæjarverkstjóra. Hvað varði umferðarrétt geti kærandi farið tvær leiðir á baklóð sína, norðan og sunnan megin við húsin. Kærandi hafi haft leyfi til að fara með ýmis smátæki og búnað yfir lóð framkvæmdaraðila og unnt sé að hífa stórvirkari tæki. Ekki komi til greina að veita frekari heimildir.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi átelur notkun kortasjár við afmörkun lóðarmarka. Þar séu sýnd „gróf“ mörk og sé venjan að mörk lóða sambyggðra húsa séu dregin í beinni línu beint út frá þeim punkti þar sem húsin mætist. Ef miða ætti við kortasjána væru mörk lóðanna vel inni í húsi kæranda. Væru þá til að mynda tröppur að inngangi í hús kæranda á lóð framkvæmdaraðila sem fáist ekki staðist.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu ákveðnar framkvæmdir tilkynningarskyldar til leyfis­veitanda, þ.e. sveitarfélagsins. Þeirra á meðal séu heitir pottar. Um þá sé tekið fram að þess skuli gætt að eiganda sé óheimilt að raska lögnum sem liggi um lóð hans nema með skriflegu leyfi viðkomandi veitufyrirtækja eða eftir atvikum annarra eigenda skv. gr. 4.11.2 í byggingar­reglugerð. Af hálfu sveitarfélagsins hafi hinn 17. nóvember 2023 verið grafið á lóð framkvæmdaraðila fyrir lögnum vegna pottsins og sé þess vænt að úrskurðarnefndin kalli eftir gögnum m.a. um það hvort veitufyrirtæki eða eftir atvikum aðrir eigendur hafi fengið tilkynn­ingu um lagnir vegna pottsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúa Fjallabyggðar um að synja um beitingu þvingunarúrræða skv. 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki. Sú ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. sömu laga og verður því tekin afstaða til hennar. Ágreiningur um inntak eða efni umferðarréttar, sem ekki er í skipulagi, heyrir á hinn bóginn ekki undir nefndina til úrskurðar og verður honum því vísað frá. Þá hefur kærandi farið fram á að úrskurðarnefndin skeri úr því hvort um byggingarleyfisskyld mannvirki sé að ræða, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki og verður einnig tekin afstaða til þess.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kæranda heldur einnig eigenda lóðar nr. 24 við Lindargötu. Ekki verður þó fram hjá því litið að kæranda var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest í ítrekuðum samskiptum sínum við byggingarfulltrúa Fjallabyggðar. Það var ekki fyrr en 19. febrúar 2024 að honum var leiðbeint um að unnt væri að leita til úrskurðarnefndarinnar, þá af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Barst kæra í málinu án ástæðulauss dráttar eftir það tímamark og verður því með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr.

Fyrst verður tekin afstaða til þess hvort umrædd mannvirki séu háð byggingarleyfi. Fjallað er um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir í 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Þar kemur fram að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi, að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar eða að gera skuli vægari kröfur um fylgigögn eða umsóknarferli.

Í samræmi við framangreint er í gr. 2.3.5. og 2.3.6. í byggingarreglugerð mælt fyrir um mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarleyfi. Í gr. 2.3.5. eru í sex stafliðum talin upp þau minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarheimild og -leyfi. Þar á meðal er gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð, sbr. d-lið. Hinn umdeildi pallur stendur á lóð þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, en 1. mgr. gr. 2.3.5. gerir samræmi við deiliskipulag að skilyrði fyrir þeim undanþágum frá skyldu til öflunar byggingarheimildar og -leyfis sem þar eru taldar upp. Verður því ekki talið að greind undanþága sé af þýðingu í máli þessu. Á hinn bóginn telst gerð palls við íbúðarhús með áföstum heitum potti ótvírætt til minni mannvirkjagerðar skv. umfangsflokki 1, sbr. gr. 1.3.2. í byggingarreglugerð. Með því er hún undanþegin byggingarleyfi en háð byggingarheimild leyfisveitanda, sbr. 3. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð. Þá getur heitur pottur við íbúðarhús verið tilkynningarskyldur, sbr. d. lið 1. mgr. gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um mannvirki. Í því felst m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 55. gr. laganna er þannig kveðið á um að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Í hinni kærðu ákvörðun kom fram sú afstaða byggingarfulltrúa að eftir skoðun á vettvangi sýndist honum framkvæmdirnar vera í samræmi við byggingarreglugerð og að ekki væri unnt að krefjast þess að þeim yrði breytt. Þar sem ekki lá fyrir byggingarheimild fær það ekki staðist og verður að álíta að rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé haldinn slíkum ágöllum að fallast verði á kröfu um ógildingu hennar.

Kærandi hefur farið fram á að úrskurðarnefndin hlutist til um að fá afhent frekari gögn frá sveitarfélaginu. Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið lýst yfir að í þeim gögnum sem kærandi sendi með kæru í málinu komi „allt fram varðandi málið.“ Þá hefur í samskiptum við nefndina verið vísað til þess af hálfu sveitarfélagsins að framkvæmdaraðili hefði haft samband við sveitarfélagið með símtali. Í ljósi þessa verður að álíta málið nægilega rannsakað, en komi til þess að kæranda verði synjað um aðgang að gögnum máls, er upplýst að slíka ákvörðun má bera undir nefndina til úrskurðar, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Umdeild mannvirki, pallur og heitur pottur, lóð nr. 24 við Lindargötu, Siglufirði, eru ekki byggingarleyfisskyld.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Fjallabyggðar um að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna palls og heits potts á lóð nr. 24 við Lindargötu á Siglufirði.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

24/2024 Hringbraut

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

 Fyrir var tekið mál nr. 21/2024, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar­kaupstaðar frá 26. janúar 2024 varðandi mörk lóða nr. 9 og 11 við Hringbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hringbraut 11, Hafnarfirði, afgreiðslu byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 26. janúar s.á. varðandi mörk lóðarinnar gagnvart lóð nr. 9 við sömu götu. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 8. mars 2024.

Málsatvik og rök: Lóðir nr. 9 og 11 við Hringbraut í Hafnarfirði eru leigulóðir. Samkvæmt fasteignaskrá eru stærðir lóðanna 437,5 m2 og 432 m2. Á lóðunum eru hús sem reist voru á árunum 1949-1951 og eru tvær íbúðir í hvoru þeirra. Á lóð nr. 9 er einnig bílskúr sem reistur var árið 1966. Með bréfi, dags. 26. janúar 2024, var eigendum húsa á lóðum þessum tilkynnt að byggingarfulltrúi bæjarins hefði látið mæla mörk þeirra og að bílskúr á lóð nr. 9 væri 22 cm fyrir innan mörk lóðar nr. 11. Þá var tekið fram að byggingarfulltrúi myndi senda „útsetningar­mann“ sem myndi merkja lóðamörkin og að fyrri „útsetning“ teldist ekki rétt. Með bréfinu fylgdi skýringarmynd. Er í málinu deilt um gildi þessa bréfs og skýringarmyndar.

Kærandi telur byggingarfulltrúa ekki geta upp á sitt eindæmi breytt mörkum lóða. Um sé að ræða lóðamörk samkvæmt gildu deiliskipulagi frá árinu 2008. Óumdeilt sé að bílskúr á lóð nr. 9 gangi 47 cm inn á lóð nr. 11 við sömu götu, þ.e. lóð kæranda.

Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er bent á að engri stjórnvaldsákvörðun sé til að dreifa. Aldrei hafi verið gefið út formlegt mæliblað af þeim lóðum sem um ræði. Í umsögn bæjarins til úrskurðarnefndarinnar er rakið að ágreiningur hafi verið um mörk þessara lóða. Engu gildu mæliblaði sé til að dreifa, en mæliblaðið sem kærandi vísi til sé tillaga að lóðamörkum. Tekið sé fram að gild mæliblöð séu staðfest með undirskrift skipulagsfulltrúa. Bréf byggingar­fulltrúa, dags. 26. janúar 2024, hafi verið sent eigendum til upplýsingar.

Við meðferð þessa máls bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir frá eigendum efri hæðar húss á lóð nr. 9 við Hringbraut í Hafnarfirði um að ákvörðun byggingarfulltrúa væri ólögmæt en bílskúr, sem sé í þeirra eigu, sé alfarið innan lóðar þeirra.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ber sveitarstjórn skv. 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð deili­skipulags. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna er deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags og eru með því m.a. teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun og byggingarreiti. Mæli- og hæðarblöð eru skilgreind í 28. mgr. gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem hönnunargögn sem unnin séu í kjölfar deiliskipulags og lýsa með nákvæmum hætti stærðum lóða, hæðarkótum lands og bygginga, staðsetningu lagna, kvöðum og öðru er þurfa þyki. Þá er tekið fram að einnig séu þau nefnd lóðablöð.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Öldugötu, Öldutúns, Ölduslóðar og Hringbrautar frá árinu 2008 og eru mörk lóða á skipulagssvæðinu sýnd á skipulagsuppdrætti, þ. á m. mörk lóða nr. 9 og 11 við Hringbraut. Af hálfu bæjaryfirvalda hefur komið fram fyrir úrskurðarnefndinni að ekki hafi verið gerð mæliblöð vegna greindra lóða og að skýringarmynd sem fylgdi bréfi byggingarfulltrúa, dags. 26. janúar 2024, sé einungis tillaga að lóðamörkum.

Með þessu liggur ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds, sem borin verður undir nefndina til úrskurðar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta leitt. Verður því þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

4/2024 Kurfur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skagabyggðar frá 7. desember 2023 um að synja Vegagerðinni um framkvæmdaleyfi til efnis­vinnslu/efnistöku úr námunni Kurfur-ES10.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Vegagerðin ákvörðun sveitarstjórnar Skagabyggðar frá 7. desember 2023 um að synja stofnuninni um framkvæmdaleyfi til efnis­vinnslu/efnistöku á 1.500 m3 úr námunni Kurfur-ES10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skagabyggð 22. janúar 2024.

Málavextir: Hinn 17. október 2023 óskaði Vegagerðin eftir heimild Skagabyggðar til efnistöku á unnu efni í námu norðan Hvammkotsbruna sem nýtt yrði í sjóvarnir við Réttarholt á Skaga­strönd. Heildarmagn grjóts og sprengds kjarna í verkið væri allt að 1.500 m3. Um leið var óskað eftir því að sveitarfélagið „staðfesti að Vegagerðin hafi heimild til efnistöku af lager í grjótnámunni fyrir verkið.“ Erindið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Skaga­byggðar 9. nóvember s.á. og var eftirfarandi bókað í fundargerð: „Sveitarstjórn telur sér ekki fært að gefa leyfi til efnistöku vegna ástands vega út á Skaga, nema fyrir liggi loforð um upp­byggingu vegar og varanlega klæðningu frá enda slitlags og norður að vegamótum við þá grjótnámu sem óskað er eftir að taka úr.“ Degi síðar tilkynnti oddviti Skagabyggðar starfsmanni Vegagerðarinnar um þessa ákvörðun.

Með erindi, dags. 5. desember 2023, óskaði Vegagerðin eftir heimild til efnisvinnslu/efnistöku úr námunni Kurfur ES-10 og kom fram að efni úr námunni yrði nýtt í sjóvarnir við Réttarholt á Skagaströnd. Heildarmagn var tilgreint hið sama og í fyrra erindi. Þá var einnig óskað eftir staðfestingu á heimild Vegagerðarinnar til efnistöku af lager í grjótnámunni fyrir verkið. Áætlað væri að vinna við garðinn á Skagaströnd tæki 4–8 vikur innan tímabilsins frá útgefnu framkvæmdaleyfi til 1. maí 2024. Á fundi sveitarstjórnar Skagabyggðar hinn 7. desember 2023 var erindinu synjað með vísan til þess að sveitarstjórn hefði sett grjótnámurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11 ásamt aðkomuvegi í skipulagsferli.

Málsrök Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar var bent á að unnið væri að undir­búningi sjóvarnarverkefnis á Skagaströnd samhliða sjóvörnum við Víkur í Skagabyggð og á Blönduósi, en það séu verkefni samkvæmt samgönguáætlun. Samkvæmt lögum nr. 120/2012 um Vegagerðina hafi hún það hlutverk að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins og skuli í starfsemi sinni stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum sam­göngum, sbr. 1. gr. laganna. Þá sé Vegagerðin veghaldari þjóðvega og beri ábyrgð á veghaldi þeirra, sbr. 12. og 13. gr. vegalaga nr. 80/2007. Skagavegur falli undir flokk tengivega, sbr. b-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga, og veghald því í höndum Vegagerðarinnar sem ákveði hvort setja þurfi reglur fyrir umferð, til að girða fyrir skemmdir eða til að greiða fyrir umferð, s.s. um hámarksþunga bifreiða, sbr. 48. gr. vegalaga. Sveitarfélög geti ekki gert að skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi að Vegagerðin byggi upp og bæti opinberan veg.

Uppfærð umsókn hafi verið send 5. desember 2023 en verið hafnað 7. s.m. þar sem grjótnáman og aðkomuvegur væri í skipulagsferli. Óskað hafi verið eftir frekari rökstuðningi, sem ekki hafi verið sinnt þrátt fyrir ítrekanir. Fari það gegn 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi þar sem leyfisveitanda sé gert skylt að rökstyðja synjun um slíkt leyfi.

Málsrök Skagabyggðar: Fram kemur af hálfu Skagabyggðar að á síðustu sjö árum verið gefin út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku ríflega 15.000 m3 úr námunum Kurfur-ES10 og Hvammkoti-ES11. Af þeim sökum hafi myndast gríðarlegar brúnir sem séu algjörlega óvarðar, ómerktar og skapi fallhættu fyrir menn og dýr. Myndast hafi mikið klettastál vegna efnistöku sem sé óvarið, ómerkt og hættulegt. Aðkomuvegur að námunum sé malarlaus á köflum og sé mikið runnið úr honum þar sem árennsli sé af leysingarvatni. Vegur nr. 745 frá Harrastöðum að afleggjara að aðkomuvegi sé ekki byggður til slíkra þungaflutninga sem grjótnám af þessu magni krefjist. Öryggismál aðkomuvegar og námusvæðis séu því óviðunandi.

Í kjölfar ábendingar um slæmt ástand svæðisins og með vísan í reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 hafi sveitarstjórn ákveðið að áður en frekari framkvæmdaleyfi yrðu gefin út fyrir grjótnámi úr greindum námum þyrftu að liggja fyrir samþykktar reglur um umgengni og frágang á námunum. Sveitarfélagið hefði hingað til ekki haft eftirlit með umgengni og frágangi verktaka að grjótnámi loknu, sem bæta þyrfti úr. Þá sé einnig til skoðunar hvort ekki þyrfti að gera deiliskipulag fyrir þetta svæði sem myndi tryggja umgengni og frágang enn betur. Sé vinna við þessi mál enn á frumstigi.

 Viðbótarathugasemdir Vegagerðarinnar: Lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum geri strangar kröfur. Skuli m.a. haga og framkvæma vinnu þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta, sbr. 38. og 42. gr. laganna. Vega­gerðin leitist því ávallt eftir því að starfsaðstæður séu viðunandi og öruggar hverju sinni. Telji sveitarfélag aðstæður óviðunandi eða hættulegar geti það bundið framkvæmdaleyfi skilyrðum, m.a. um öryggismál, sem leyfishafi verði að uppfylla, sbr. 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Til dæmis væri hægt að raða grjóti ofan við námustálið og/eða girða það af.

Vegur að námunum Kurfur-ES10, og Hvammkoti-ES11 sé einkavegur, sbr. 11. gr. vegalaga nr. 80/2007, og því ekki ætlaður almennri umferð. Sé því ekki málefnaleg ástæða fyrir synjun um framkvæmdaleyfi að vegurinn sé malarlaus enda aðeins framkvæmdaraðilar sem aki um hann. Þar sem vegurinn sé einkavegur sé Vegagerðin ekki veghaldari og komi því ekki að ákvarðanatöku um þjónustu og viðhald hans. Um sé að ræða aðkomuveg frá þjóðvegi sem sé viðhaldið eftir þörfum af framkvæmdaraðilum, þ.e. verktökum, þegar unnið sé við grjótnám úr námunum og hann því lagfærður í samræmi við akstur verktaka hverju sinni. Þá er fjallað nánar um flokkun vega samkvæmt vegalögum og ítrekuð sjónarmið um heimildir Vegagerðarinnar til að takmarka ásþunga við þungaflutninga og að ómálefnalegt sé að vísa til ástands vegar við synjun um framkvæmdaleyfi.

Niðurstaða: Með tölvubréfi hinn 5. desember 2023 barst Skagabyggð uppfærð beiðni Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi fyrir vinnslu í námunni Kurfur-ES10, en fyrra erindi stofnunarinnar, dags. 17. október s.á., hafði áður verið hafnað. Í hinu uppfærða erindi kom fram að óskað væri eftir heimild til „efnisvinnslu/efnistöku“ og að heildarmagn „grjóts og sprengds“ kjarna væri allt að 1.500 m3. Þá væri einnig óskað eftir staðfestingu á því að stofnunin hefði „heimild til efnistöku af lager í grjótnámunni“. Var erindinu synjað á fundi sveitarstjórnar 7. desember 2023 og bókað í fundargerð að grjótnámurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11, ásamt aðkomuvegi, hefðu verið settar í skipulagsferli. Þessi ákvörðun er hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Öll efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er í lögunum fjallað um veitingu slíkra leyfa, málsmeðferð og skilyrði þeirra. Í 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að sá sem óskar framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Í 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 eru í sex töluliðum talin upp þau gögn sem fylgja þurfi umsókn, þ. á m. er lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, sbr. 3. tölul. Ber hér að nefna að framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess skulu vera í samræmi við skipulags­áætlanir en skipulagsskylda nær til lands og hafs innan marka sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laganna skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í 5. mgr. 13. gr. laganna er sú undantekning gerð að þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir er heimilt að veita framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndar­kynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal að auki leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila áður en tekin er afstaða til útgáfu framkvæmdaleyfis. Heimilt er þó að falla frá grenndarkynningu ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi.

Í Aðalskipulagi Skagabyggðar 2010-2030 kemur fram að sveitarstjórn hafi ekki veitt „formlegt framkvæmdaleyfi“ vegna efnistöku í ákveðnum námum enda séu þær allar litlar og einkum notaðar vegna vegagerðar á svæðinu. Á meðal þeirra náma sem þar um ræðir eru námurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11 og er á gildistíma skipulagsins áætluð efnistaka úr þeim 5.000 og 30.000 m3. Kemur og fram í skipulaginu að á meðal markmiða um efnistökusvæði er að þeim sem stundi efnisvinnslu verði skylt að sækja um framkvæmdaleyfi og að gera verði kröfu um sómasamlega umgengni við efnisvinnslu þannig að sem minnst umhverfisspjöll hljótist af. Þá er tiltekið að efnistaka næstu ára ráðist einkum af því hvort Vegagerðin fáist til að endurbyggja og styrkja Skagaveg, sem mikil þörf sé á og einnig hvort fjármunir fáist til sjóvarna. Svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar 7. desember 2023 var af sveitarstjórn vísað til þess að grjót­námurnar Kurfur-ES10 og Hvammkot-ES11 ásamt aðkomuvegi hefðu verið sett í skipulags­ferli. Þá hefur í umsögn til úrskurðarnefndarinnar verið vísað til öryggis- og skipulags­sjónarmiða. Með hliðsjón af sjálfstjórn sveitarfélaga og að teknu tilliti til þeirrar meginreglu sem áður er rakin um að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, verður af hálfu úrskurðarnefndarinnar ekki gerð athugasemd við að sveitarstjórn hafi ákveðið að fella erindi Vegagerðarinnar í þann farveg. Þá er ekki af þýðingu þótt afstaða sveitar­stjórnar til ástands vega komi fram í samskiptum við Vegagerðina og í gögnum málsins, en eðlilegt má telja að fjallað sé um aðkomuvegi í tengslum við skipulagsáform sem leiða af sér þungaflutninga. Verður því að hafna kröfu Vegagerðarinnar um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með hinni kærðu ákvörðun virðist ekki hafa verið tekin afstaða til beiðni Vegagerðarinnar um heimild til „efnistöku“ af „lager“ í umræddri námu. Hefur stofnunin upplýst gagnvart nefndinni að þar sé til að dreifa töluverðu haugsettu efni sem væri unnt að flytja þaðan án frekari vinnslu. Var hin kærða ákvörðun haldin annmarka að því marki að þar var ekki tekin afstaða til þessara áforma sérstaklega, sem skilja verður sem beiðni um staðfestingu á því að þau séu ekki háð framkvæmdarleyfi. Beinir úrskurðarnefndin því til Skagabyggðar að fjalla sérstaklega um þennan þátt erindis Vegagerðarinnar, berist um það sérstök beiðni að nýju.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu Vegagerðarinnar um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skagabyggðar frá 7. desember 2023 um að synja stofnuninni um framkvæmdaleyfi til efnis­vinnslu/efnistöku úr námunni Kurfur-ES10.

8/2024 Almannadalur

Með

Árið 2024, mánudaginn 25. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2024, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 2. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. janúar 2024, kærir eigandi Almannadals 17, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 2. september 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 14. febrúar 2024.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg  30. janúar 2024.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 20. september 2023 var samþykkt breyting á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal, að lokinni grenndarkynningu sem fram fór 31. maí 2023 til og með 28. júní s.á. Athugasemdir bárust við grenndarkynningu, þ. á m. frá kæranda. Í breytingu skipulagsins felast breytingar er varða glugga og svalir. Deiliskipulagsbreytingin var staðfest í borgarráði 2. september s.á. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2023. Við kynningu deiliskipulagsbreytingarinnar var gert ráð fyrir hækkun heimilaðrar mænishæðar mannvirkja á lóðinni, en fallið var frá þeirri breytingu að lokinni grenndarkynningu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hús í Almannadal séu hesthús og ekki ætluð til íveru eða búsetu. Þau séu mest nýtt yfir vetrartímann og fram í byrjun sumars. Allar breytingar á þeim eða svæðinu ættu því að snúa að bættri dýravelferð. Umrædd breyting virðist eingöngu til þess fallin að búa til íbúðir til útleigu en ekki bæta aðstöðu dýra.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að umrædd breyting snúist ekki um að heimila íbúðir í hesthúsinu, hvorki til íveru né útleigu. Með breytingunni sé svölum snúið til suðurs en ekki norðurs þannig að hægt sé að njóta sólar og útiveru lengur á suðursvölum. Breytingin hafi engin áhrif á yfirbragð hverfisins eða nærliggjandi hús, s.s. vegna skuggavarps.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að Almannadalur 9 standi á sameiginlegri lóð fjögurra húsa sem séu númer 9, 11, 13 og 15 í Almannadal. Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi eingöngu verið auglýst með einni blaðaauglýsingu. Breytingin gangi m.a. út á að snúa húsi nr. 9 um 180 gráður innan lóðar. Breytingin hafi aldrei verið grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu, þ.e. eigendum hinna þriggja húsanna á lóðinni, lóðafélagi Almannadals eða Hestamannafélaginu Fáki. Almannadalur sé á félagssvæði Fáks og fari félagið með umsjón á svæðinu. Allir þessir aðilar hafi mótmælt fyrirhugaðri deiliskipulagsbreytingu.

Við lestur fundargerða skipulagsfulltrúa virðist ávallt vera gerð krafa um grenndarkynningu við næstu lóðarhafa í grónum hverfum þegar húsum sé breytt umtalsvert líkt og í þessu tilfelli. Stundum hafi verið krafist skriflegra undirskrifta til samþykkis og séu dæmi um það í breytingum í Almannadal. Eðlilegt sé að sömu vinnureglur gildi um allar slíkar breytingar á gildandi deiliskipulögum en að það sé ekki geðþóttaákvörðun einstakra embættismanna hvernig skuli staðið að þeim.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar séu mótsagnir þar sem annars vegar komi þar fram að óheimilt sé að hafa íbúðir til íveru eða útleigu en hins vegar að breytingin sé til þess gerð að nýta svalir til útiveru og njóta sólar lengur. Með breytingunni sé stuðlað að aukinni búsetu eða útleigu íbúða með notendavænum suðursvölum. Þá séu hesthús í Almannadal í flestum tilvikum nýtt u.þ.b. sex mánuði á ári, frá desember og fram á vor. Því sé óveruleg nýting á svölum á því tímabili sem réttlæti þessa breytingu þar sem veður hamli mjög notkun og sólar njóti lítið við yfir vetrarmánuðina.

Niðurstaða: Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Í 10. kafla Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 er Almannadalur á íþróttasvæðinu ÍÞ5, sem er athafnasvæði hestamanna. Um íþróttasvæði segir almennt í aðalskipulaginu að á íþróttasvæðum sé gert ráð fyrir allri þeirri starfsemi sem tengist íþróttum og íþróttaiðkun þar sem m.a. sé gert ráð fyrir aðstöðu og skipulagðri starfsemi íþróttafélaganna í borginni. Á íþróttasvæðum megi gera ráð fyrir öllum mannvirkjum sem tengist starfsemi viðkomandi svæðis, s.s. flóðlýsingu, gervigrasvöllum, stúkubyggingum og íþróttahöllum, sundlaugum, sundhöllum og líkamsræktarstöðvum, samkomusölum, félagsaðstöðu o.s.frv. Gera megi ráð fyrir veitingaaðstöðu og íþróttavöruverslun á íþróttasvæðum. Umdeild deiliskipulagsbreyting er því í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag hesthúsabyggðar á Hólmsheiði, Almannadalur, frá árinu 2003. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. apríl 2023 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulaginu og var eigendum Almannadals 1-29, sem og Hestamannafélaginu Fáki, gefinn kostur á að tjá sig um tillöguna. Nokkrar athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Í kjölfar grenndarkynningar lagði skipulagsfulltrúi til í umsögn sinni að tillagan yrði samþykkt með þeirri breytingu, sem áður greinir, að fallið yrði frá áformum um hækkun á leyfilegri mænishæð. Umhverfis- og skipulags-ráð Reykjavíkurborgar samþykkti tillöguna með þeirri breytingu sem skipulagsfulltrúi lagði til á fundi sínum 20. september og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 28. s.m. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember s.á. Var formleg málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar því lögum samkvæmt.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Um er að ræða ákvæði sem er undantekning frá meginreglunni um hefðbundna málsmeðferð á breytingum á deiliskipulagi sem kveðið er á um í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Við túlkun undanþágureglna er almenn lögskýringarregla í íslenskum rétti sú að túlka beri þær þröngt.

Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir og settir skilmálar um byggðamynstur, mannvirki, landnotkun og nýtingu, vernd o.fl. eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Skilmálar deiliskipulags eru bindandi, sbr. gr. 5.1.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Við úthlutun lóða á slíkum svæðum liggur þegar fyrir í deiliskipulagi hvaða heimildir eru fyrir hendi til nýtingar einstakra lóða og geta lóðarhafar ekki vænst þess að fyrra bragði að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag bygginga á einstökum lóðum. Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því. Verður að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmisgildis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa, enda geta slíkar breytingar raskað hagsmunum annarra lóðarhafa og dregið úr þeirri festu er deiliskipulagi er ætlað að skapa. Eiga þessi sjónarmið við þótt breyting á skipulagi hafi ekki mikil grenndaráhrif.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting heimilar að vikið sé frá útliti húsa á einum reit deiliskipulagssvæðis þar sem gert er ráð fyrir þremur hesthúsum. Engin breyting er á nýtingarhlutfalli og eru grenndaráhrif óveruleg. Hesthúsabyggðin á deiliskipulagssvæðinu raðast í sambærilega einsleita reiti með þremur húsum og kemur fram í greinargerð að tilgangurinn sé sá að til verði „hæfilega stórar félagslegar einingar“. Bakatil á milli þessara reita eða þyrpinga hesthúsa eru síðan bílastæði og aðkomuleiðir að hlöðum. Við færslu svala á efri hæð til suðurs samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verður að álíta að ásýnd svæðisins breytist í nokkru með hliðsjón af einsleitu útliti hverfisins.

Með ákvörðuninni er með þessu gefið nokkurt fordæmi og hefði því verið tilefni til þess að meta hvort ástæða væri til að gera almenna breytingu á skilmálum fyrir deiliskipulagssvæðið í heild sinni. Þá er augljós tilgangur þess að svalir á efri hæð hesthúsa snúi að gerði að sem best yfirsýn sé yfir hross í útiveru. Útlit byggingarinnar breytist óhjákvæmilega með því að heimila svalir sem snúa í suður, og þar með frá gerði, og kemur sú breyting til með að stinga nokkuð í stúf með tilliti til heildaryfirbragðs skipulagssvæðisins. Heimiluð notkun, umfang og form Almannadals 9 breytist þó ekki við hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu og telja verða grenndaráhrif breytingarinnar hverfandi. Verður því að telja deiliskipulagsbreytinguna óverulega í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Með hliðsjón af framangreindu verður talið að engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 2. september 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði vegna lóðar nr. 9 við Almannadal.