Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2020 Garðavegur

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2020, er barst nefndinni 31. s.m., kærði eigandi Garðavegar 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á kæranda frá og með 10. s.m. Málskot kæranda var skilið svo að gerð væri krafa um að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 8. september s.á. var kærumálinu vísað frá.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. nóvember 2020, fór kærandi fram á endurupptöku málsins. Féllst úrskurðar­nefndin á þá kröfu 10. desember s.á. og var aðilum tilkynnt sú niðurstaða. Sem fyrr verður að skilja málskot kæranda á þann veg að hann krefjist þess að felld verði úr gildi fyrrnefnd ákvörðun byggingarfulltrúa og verður nú kveðinn upp úrskurður í málinu að nýju.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 24. ágúst og 11. nóvember 2020.

Málsatvik: Með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem farið var fram á að stigi við vesturhlið húss kæranda að Garðavegi 18 yrði fjarlægður, en byggingarleyfisumsókn kæranda vegna stigans hafði áður verið synjað. Veittur var fjögurra vikna frestur til að fjarlægja stigann en að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Kærandi kærði þá afgreiðslu byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019, uppkveðnum 20. mars 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Tilmælum byggingarfulltrúa hefði hins vegar ekki verið fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu og hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 30. mars 2020, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem vísað var til áðurgreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og farið fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður innan fjögurra vikna eða í síðasta lagi 29. apríl 2020. Ef ekki yrði brugðist við yrði dagsektum beitt frá og með 30. s.m. Mál kæranda var svo aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júní 2020. Á fundinum var samþykkt að leggja dagsektir á kæranda frá og með 10. júlí 2020. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 43/2020, uppkveðnum 10. júlí 2020, var vísað til þess að í málinu lægi fyrir ákvörðun um beitingu dagsekta frá 10. júlí 2020 en hvergi væri getið um fjárhæð þeirra. Því væri ljóst að á grundvelli þeirrar ákvörðunar einnar og sér, sem hefði verið kærð, yrðu dagsektir ekki lagðar á kæranda. Hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga og var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál kæranda var enn tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. júlí 2020. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Tekið fyrir að nýju. Eigandi hefur reist stiga í óleyfi. Eiganda hafa verið send bréf þess efnis og ekki brugðist við. Afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkir að leggja dagsektir á eiganda Garðavegs 18 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Dagsektir, 20.000 kr. pr. dag, verða lagðar á frá og með 10. júlí 2020.“ Kæranda var send tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 15. júlí 2020, og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur meðal annars fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júlí 2020 hafi verið ákveðið að leggja á dagsektir frá og með 10. s.m. Sé þetta löglegt neyðist hann til að selja fasteign sína. Ekki sé hægt að hafa þetta yfir höfði sér.

Málsrök sveitarfélagsins: Bæjaryfirvöld vísa til athugasemda í kærumáli nr. 43/2020. Þar hafi m.a. verið bent á að kærandi hafi reist án leyfis stiga við hlið hússins að Garðavegi 18. Hafi verið farið ítarlega yfir stöðu málsins og honum gerð grein fyrir eðli þess. Í öllum samskiptum hafi komið skýrt fram að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingarfulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 að leggja dagsektir á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. s.m. Svo sem áður er komið fram var kærumálinu vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði kveðnum upp 8. september s.á. Var það gert á grundvelli þess að kærandi ætti ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar, en nefndinni höfðu borist þær upplýsingar í tölvupósti 7. s.m. frá bæjaryfirvöldum Hafnarfjarðarbæjar að kærandi hefði fjarlægt stiga þann sem um var deilt og byggingarfulltrúi því fallið frá ákvörðun sinni um dagsektir. Með bréfi, dags. 1. nóvember s.á., fór kærandi fram á endurupptöku málsins með vísan til þess að hann hefði beðið fjártjón vegna ákvörðunarinnar. Væri honum því nauðsynlegt að fá efnislega niðurstöðu í málinu. Úrskurðarnefndin féllst á endurupptökubeiðnina 10. desember 2020 þar sem ekki hefðu legið fyrir nefndinni nein þau gögn sem bent hefðu til þess að dagsektir hefðu verið innheimtar og greiddar og skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til endurupptöku því uppfyllt. Eins og atvikum er hér háttað telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi um hinnar kærðu dagsektarákvörðunar þótt hún hafi ekki lengur réttarverkan að lögum, enda telur hann sig hafa orðið fyrir tjóni við framfylgd hennar.

Hlutverk byggingarfulltrúa samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum til að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis, sbr. 55. og 56. gr. laganna. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að leggja á dagsektir skv. 2. mgr. nefndrar 56. gr., m.a. til að knýja fram úrbætur á mannvirki eða til að aflað verði lögbundinna leyfa fyrir framkvæmdum. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hafa ákvarðanir byggingarfulltrúa um þvingunarúrræði vegna umrædds stiga komið til kasta úrskurðarnefndarinnar í þrígang. Komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu í kærumáli nr. 109/2019 að byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að stiginn yrði fjarlægður eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Átti hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 15. júlí 2020 að sama skapi sér stoð í fyrrnefndum ákvæðum mannvirkjalaga. Hins vegar er ákvörðunin haldin þeim verulega ágalla að dagsektir voru lagðar á afturvirkt, eða frá 10. s.m. Það er grundvallaratriði að þvingunarúrræðum verður ekki beitt afturvirkt, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Verður því ekki komist hjá því að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.

53/2020 Leynir 2 og 3

Með

Árið 2020, föstudaginn 18. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2020, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. maí 2020 um að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir aðilar, sem flestir munu vera eigendur eigna, en í sumum tilvikum ábúendur í næsta nágrenni jarðanna Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. maí 2020 að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi nefndra jarða, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lægi fyrir, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 9. júlí 2020.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 29. júní, 7. júlí og 7. ágúst 2020.

Málavextir: Jarðirnar Leynir 2 og 3 eru í ofanverðri Landsveit og liggja sunnan við Landveg (nr. 26). Jarðirnar liggja saman og eru samtals um 33,5 ha að stærð. Hinn 17. janúar 2020 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning landeiganda um fyrirhugaða uppbyggingu í landi Leynis 2 og 3, samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 12.05 í 1. viðauka við lögin.

Í greinargerð er fylgdi tilkynningu framkvæmdaraðila kom m.a. fram að fyrirhugað framkvæmdasvæði tæki til um 15 ha lands. Hefði það að stærstum hluta verið ræktað og nýtt til landbúnaðar, en nyrst á svæðinu hefði verið rekið tjaldsvæði. Á landi Leynis 2 væru íbúðarhús, geymsla og aðstöðuhús fyrir gesti tjaldsvæðisins, en Leynir 3 væri óbyggt. Svæðið væri flatlent og norðan þess rynni Klofalækur. Það væri á Þjórsárhrauni sem væri 8600 ára gamalt og nyti sérstakrar verndar í samræmi við 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Einnig væri það á fjarsvæði vatnsverndar. Þá var tekið fram að samhliða gerð deiliskipulags vegna áformaðrar uppbyggingar yrði unnin aðalskipulagsbreyting.

Fyrirhuguð framkvæmd fælist meðal annars í því að efla rekstur tjaldsvæðisins og stækka það til suðurs. Gert væri ráð fyrir allt að 200 m² þjónustuhúsi fyrir tjaldsvæðið, en núverandi hús væri um 8 m². Syðst á svæðinu, við nýja aðkomu, væri ráðgert að reisa allt að 800 m² byggingu á einni hæð. Í húsinu yrði veitingastaður, verslun, móttaka fyrir gesti og aðstaða fyrir starfsmenn. Að auki yrðu byggð allt að 45 gestahús á einni hæð, þar sem 30 þeirra yrðu allt að 60 m² að stærð og 15 húsanna allt að 20 m². Við hvert gestahús yrði kúluhús, að hámarki 30 m². Í hverju gestahúsanna yrði gisting fyrir allt að fjóra gesti, eða samtals 180 gesti. Hámarksbyggingarmagn nýbygginga yrði allt að 4.490 m² og heildarbyggingarmagn á svæðinu 4.935 m². Við móttökuhúsið væri gert ráð fyrir sameiginlegu bílastæði fyrir allt að 85 bifreiðar og 11 rútur, eða allt að 120 bíla. Almennt væri gert ráð fyrir því að gestir legðu bifreiðum sínum við húsið og gengju inn á svæðið eða yrði ekið að sínum íverustað.

Í greinargerð og frekari upplýsingum framkvæmdaraðila var greint frá því að frágangur hreinsivirkja yrði í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp með síðari breytingum. Hreinsivirki yrðu samnýtt efir því sem við yrði komið. Áformað væri að notast við þrjár til fjórar rotþrær á svæðinu. Væru þær hugsaðar sem felli- og fleytiþrær og myndi megin hreinsun skólps eiga sér stað í siturbeðum sem yrðu hönnuð samkvæmt norskum leiðbeiningum um jarðvegshreinsun húsaskólps og leiðbeiningum Umhverfisstofnunar. Einnig var tekið fram að eftir því sem við yrði komið yrði allt grávatn, s.s. frá heitum pottum, veitt í sérlögnum út í jarðveg í samráði við heilbrigðiseftirlit. Kalt neysluvatn yrði fengið úr lind við upptök Klofalækjar í landi Leynis 1 austan við Landveg eða úr öðru viðurkenndu vatnsbóli. Heitt vatn yrði fengið úr borholu frá hitaveitu á svæðinu og yrði ekki nægt vatn til hitunar yrðu byggingar rafkynntar og/eða varmadælur lagðar um svæðið.

Í greinargerðinni voru jafnframt skoðaðir nánar tilgreindir umhverfisþættir og var niðurstaða framkvæmdaraðila sú að á heildina litið væri ekki talið að fyrirhuguð uppbygging myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér þegar litið væri til viðmiða í 2. viðauka við lög nr. 106/2000.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Minjastofnunar Íslands, Rangárþings ytra og Umhverfisstofnunar. Óskuðu Minjastofnun og Umhverfisstofnun frekari upplýsinga  og veitti framkvæmdaraðili þær með bréfum, dags. 29. janúar 2020 og 13. febrúar s.á. Í svari hans til Umhverfisstofnunar kom m.a. fram að heildarfjöldi gesta í gistihúsum og á tjaldsvæði væri áætlaður um 230 manns, auk 20 starfsmanna, en ekki lægi fyrir hversu margir myndu sækja veitingastaðinn. Til gætu fallið u.þ.b. 320 persónueiningar. Byggðist hönnun hreinsikerfis á því að afrennsli frá siturlögn hreinsaðist í jarðvegi það vel að ekki hlytist mengunarhætta grunnvatns af. Lágu umsagnir fyrir í febrúar 2020 og töldu fyrrnefndir umsagnaraðilar að ekki væri þörf á því að framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum, en komu að ýmsum athugasemdum og ábendingum. Að auki kom einn kærenda máls þessa á framfæri athugasemdum sínum og taldi að svo viðamiklar framkvæmdir kölluðu á alhliða mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun óskaði jafnframt eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands um fyrirhugaða framkvæmd. Í umsögn eftirlitsins, dags. 3. mars 2020, var m.a. bent á að um óhefðbundna leið til skólphreinsunar væri að ræða og að gera þyrfti betur grein fyrir öllu sem að því lyti ekki síst vegna þess að svæðið væri skilgreint á fjarsvæði vatnsverndar. Sama ætti við um neysluvatnsöflun fyrir svo stóra framkvæmd. Áskildi eftirlitið sér rétt til að koma með ábendingar og athugasemdir á síðari stigum við meðferð málsins, en tók ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Veitti framkvæmdaraðili frekari skýringar og brást heilbrigðiseftirlitið við þeim með tölvupósti 16. apríl 2020 og taldi að ekkert nýtt hefði komið fram og að umsögnin stæði. Mun starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins hafa komið að frekari sjónarmiðum sínum í símtali við starfsmann Skipulagsstofnunar 17. s.m. Bárust stofnuninni ítarlegri svör framkvæmdaraðila með tölvupósti 27. s.m., þar sem m.a. var tekið fram að ef kæmi í ljós að aðstæður við Leyni 2 og 3  leyfðu ekki notkun fyrirhugaðra hreinsiaðferða yrði notast við hefðbundin skólphreinsivirki. Mun starfsmaður Skipulagsstofnunar hafa borið svar framkvæmdaraðila undir starfsmann heilbrigðiseftirlitsins í símtali 13. maí 2020 og kemur m.a. fram í fyrirliggjandi minnisblaði stofnunarinnar um það samtal að væntanlega hefði eftirlitið ekki gert athugasemdir ef hefðbundið hreinsivirki hefði verið tiltekið upphaflega í greinargerð framkvæmdaraðila.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 15. maí 2020. Í henni kom m.a. fram að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar fælust í breyttri ásýnd svæðis og mögulegs ónæðis vegna starfseminnar. Umfang áhrifa væri þó líklegt til að vera takmarkað og myndi þeirra fyrst og fremst gæta í næsta nágrenni fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis. Teldi stofnunin ólíklegt að framkvæmdin kæmi til með að hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki væri hægt að fyrirbyggja með vandaðri verktilhögun eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir hafi talið að svæðið myndi haldast í nokkuð óbreyttri mynd, þ.e. sem kyrrlátt landbúnaðarsvæði og verði þeir fyrir töluverðu ónæði og tjóni gangi áætlanir eftir.

Umrætt svæði sé flatlent og norðan þess renni Klofalækur og sameinist hann og Skarðslækur í Minnivallalæk. Fyrirhuguð uppbygging sé á viðkvæmu svæði, einkum með tilliti til vatnsverndar en það sé á skilgreindu fjarsvæði vatnsverndar samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028. Um slík svæði gildi m.a. ákvæði reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns með síðari breytingum og sé vísað til 13. gr. hennar. Í rannsóknarskýrslu sem gefin hafi verið út á árinu 2017 komi fram að ferilefni sem sett hafi verið út í Minnivallalæk kæmu upp í Kerauga 65 dögum síðar og 125 dögum síðar í Lækjarbotnum. Á fundi vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps 16. mars 2017 hafi verið lagt fram minnisblað, dags. 13. febrúar s.á., þar sem niðurstöðurnar hafi m.a. verið kynntar, en einnig lagður fram útdráttur ferilefnarannsóknar Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) frá desember 2016 um ferilefnaprófanir í Landsveit sem vísað sé til.

Hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar. Geti fyrirhuguð uppbygging haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, einkum með tilliti til hugsanlegrar vatnsmengunar og hættu fyrir heilbrigði manna. Sé í þessu sambandi bent á viðmið í 2. viðauka laganna, sbr. t.d. vii. lið 1. tl. viðaukans, iii. lið 2. tl. og þar undir d-lið. Beri að skoða eiginleika hugsanlegra áhrifa í ljósi þessara og annarra viðmiða, einkum með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa.

Ráða megi af gögnum málsins að áformuð uppbygging sé stórtæk. Samkvæmt áætlun framkvæmdaraðila sé gert ráð fyrir slíkum fjölda gesta að til muni falla 320 persónueiningar á svæðinu. Að mati kærenda sé um vanáætlun að ræða ef litið sé til áætlaðra bílastæða. Í öllu falli sé ljóst að það muni fylgja starfseminni stórfelld losun á skólpvatni og grávatni, eða um 17,4 milljón lítrar á ársgrundvelli. Ef mengun grunnvatns ætti sér stað á svæðinu sé hætta á að slík mengun bærist út í Klofalæk, þaðan í Minnivallalæk og síðan í Kerauga og Lækjarbotna, sum af mikilvægustu vatnsbólum og framtíðarvatnsbólum sveitarfélagsins. Aðrennslistími frá Minnivallalæk í Kerauga sé mjög stuttur og einnig í Lækjarbotna. Með hliðsjón af því myndi uppbyggingarsvæðið vera skilgreint sem grannsvæði ef miðað væri við vatnsverndarsamþykkt Höfuðborgarsvæðisins nr. 555/2015, sbr. 3. gr. hennar. Umhverfisáhrif af mengun vatnsbólanna yrðu umtalsverð og almenningi stafa bráð hætta af slíkri mengun. Myndi mengun grunnvatns hafa bein áhrif á drykkjar- og neysluvatn íbúa í næsta nágrenni svæðisins og annarrar nálægrar byggðar.

Ekki verði séð að gögn um þær ítarlegu rannsóknir sem framkvæmdar hafi verið í tengslum við öryggi grunnvatns á svæðinu hafi verið afhent Skipulagsstofnun en sveitarfélagið hafi haft þau undir höndum. Ekki sé loku fyrir það skotið að þau gögn kynnu að hafa haft áhrif á ákvörðun Skipulagsstofnunar, svo sem með tilliti til eiginleika hugsanlegra áhrifa. Í þessum efnum hefði verið rétt að fjalla t.d. um fjölda fólks sem yrði líklega fyrir áhrifum og hverjar væru líkur á áhrifum, sbr. i. til iv. liðar 3. tl. 2. viðauka við lög nr. 106/2000, auk þess sem hugsanlegt sé að stofnunin hefði óskað frekari upplýsinga eða gagna frá umsagnaraðilum og/eða framkvæmdaraðila eða fengið álit þeirra er staðið hafi að baki rannsókninni.

Brýnt hafi verið að huga að sammögnun ólíkra umhverfisþátta og/eða samhengi þeirra við framkvæmdir sem þegar hafi átt sér stað á svæðinu eða fyrirhugaðrar uppbyggingar. Bæði með hliðsjón af v. lið 3. tl. 2. viðauka við lög nr. 106/2000 og ekki síst vegna þess að aðilar sem staðið hafi að rannsóknum á grunnvatni svæðisins virðast hafa gengið út frá því að svæðið væri komið að þolmörkum á árinu 2017. Þessu til stuðnings megi vísa til fyrrgreinds minnisblaðs til Vatnsveitunnar frá 13. febrúar 2017, en þar hafi verið lagt til að Keraugað yrði ekki lengur skilgreint sem framtíðarvatnsból svæðisins, m.a. með tilliti til þeirrar starfsemi og byggðar sem þegar hafi verið fyrir. Innan þess svæðis sem skilgreint sé sem fjarsvæði vatnsverndar sé nú þegar fiskeldisstöð í landi Fellsmúla, mikill fjöldi sumarhúsa og önnur mannvirki. Fyrirhuguð sé uppbygging á Stóru-Völlum þar sem gert sé ráð fyrir að heildarbyggingarmagn verði 19.800 m². Á jörðinni Jarlsstöðum standi til að reisa töluverðan fjölda af mannvirkjum, en á jörðinni sé einnig malarnáma. Nálægt vatnsverndarsvæðinu sé hótel í landi Heyholts.

Verulegur vafi sé uppi hvort Skipulagsstofnun hafi búið yfir fullnægjandi og/eða réttum upplýsingum við meðferð málsins. Reynsla kærenda sé að mikil sprungumyndun sé á svæðinu og stutt niður í grunnvatnsyfirborð eða um 1,5-2 m. Þá bendi önnur gögn til þess að fyrir hendi séu sprungur eða misgengi á svæðinu og sé í því sambandi vísað til skýrslu Orkustofnunar frá árinu 1989. Ríkt tilefni hafi verið að rannsaka þetta atriði bæði með tilliti til hættu á grunnvatnsmengun og í tengslum við hættu á jarðskjálftum, sbr. vi. lið 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000, en Landsveit sé þekkt jarðskjálftasvæði. Enn fremur hefði verið ráðlegt að afla umsagnar Veðurstofu Íslands um þetta atriði. Við mat á uppbyggingu á öðrum nálægum svæðum hafi náttúruvá vegna jarðskjálftahættu verið mikilvægt matsatriði, líkt og í tilefni af fyrirhugaðri uppbyggingu á Heysholti.

Ófullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir um útfærslu fráveitukerfis á svæðinu og málið ekki verið nægilega rannsakað í því samhengi. Framkvæmdaraðili hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir líklegum áhrifum mengunar grunnvatns á svæðinu og mótvægisaðgerðum gegn mengun grunnvatns með tilliti til undirliggjandi almannahagsmuna sem í húfi séu, sbr. einnig fyrirmæli g-liðar 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum með áorðnum breytingum. Gera verði þá kröfu að fyrirkomulag mótvægisaðgerða liggi fyrir í nokkuð fullmótaðri mynd, í þessu tilviki hönnun fráveitukerfis, áður en lagt sé endanlegt mat á hvort rétt sé að veita undanþágu frá því að mat á umhverfisáhrifum fari fram. Undirliggjandi hagsmunir séu miklir og vankantar á hönnun fráveitukerfis kynnu að hafa í för með sér stórslys fyrir sveitarfélagið og íbúa þess. Hönnun fráveitukerfisins sé með öllu óljós og óvissa um hvort áform um náttúrulega jarðvegshreinsun eigi við á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Þá liggi ekki fyrir neinar upplýsingar um hvernig hreinsivirki yrðu hönnuð ef áform framkvæmdaraðila gangi ekki upp. Sé ekki hægt að lagfæra þessi mál á síðari stigum í samráði við eftirlitsaðila, en vandkvæði varðandi fráveitumál á svæðinu hafi áður komið til kasta sveitarfélagsins. Skólphreinsivirkið sé eitt og sér tilkynningarskylt samkvæmt lið 11.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 og því hafi verið full ástæða til að gera ítarlega grein fyrir öllum atriðum í tengslum við það. Hafi verið tilefni fyrir Skipulagsstofnun að fá nánari útskýringar hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Hefðu kröfur stofnunarinnar um mótvægisaðgerðir verið strangari ef það hefðu legið fyrir upplýsingar um hugsanlegar sprungur á svæðinu, tengingu Minnivallalækjar við mikilvæg vatnsból sveitarfélagsins og fl.

Hin kærða ákvörðun hafi byggst á röngum forsendum með tilliti til fráveitu grávatns. Gera megi ráð fyrir árlegri losun grávatns beint út í jarðveginn á svæðinu upp á 11,6 milljón lítra, án tillits til losunar frá heitum pottum. Óljóst sé hvaða áhrif slík losun myndi hafa á grunnvatn svæðisins, en um sé að ræða sápublandað og klórmengað vatn. Virðist Skipulagsstofnun ranglega gera ráð fyrir að frárennsli frá sturtum, salernum og almennt neysluvatn verði hreinsað með ítarlegri hætti en tveggja þrepa hreinsun. Þá sé í engu vikið að samgöngum vegna framkvæmdarinnar og áhrifum þeirra. Gert sé ráð fyrir töluverðum fjölda bílastæða, en það sé t.d. álitaefni hvort að hönnun þeirra taki tillit til vatnsverndarsjónarmiða. Brýn þörf hafi verið að meta þessi atriði og hafi einnig verið tilefni til að óska eftir afstöðu Vegagerðarinnar í tengslum við stóraukna umferð um svæðið, einkum um aðkomuveg að því.

Framkvæmdaraðili hafi gert ófullnægjandi grein fyrir neysluvatnsöflun fyrir framkvæmdina og hugsanlegum áhrifum þess fyrir Klofalæk og lífríki lækjarins. Hafi þetta atriði verið metið á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga og ekki verið nægilega rannsakað. Ástæða hafi verið fyrir Skipulagsstofnun að fá fram afstöðu heilbrigðiseftirlitsins af hverju það hafi talið að framkomnar upplýsingar framkvæmdaraðila um neysluvatnsöflun breyttu ekki fyrri afstöðu embættisins. Þá sé ekki fjallað um þá staðreynd í niðurstöðu Skipulagsstofnunar að svæðið sé á forsögulegu hrauni sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en tilefni hafi verið fyrir stofnunina að meta sérstaklega hvort fyrirhugaðar framkvæmdir kynnu að hafa áhrif á hraunið, sbr. 2. tl. iii. (a) 2. viðauka laga nr. 106/2000.

Við ákvörðun sína hafi Skipulagsstofnun brotið gegn meginreglum umhverfisréttar um varúð og öryggi ákvarðana sem geti haft óafturkræf umhverfisáhrif, líkt og hér um ræði, með því að meta allan hinn mikla vafa sem uppi sé um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar framkvæmdaraðila í vil. Einnig af þeim sökum beri að ógilda hina kærðu ákvörðun vegna verulegra annmarka á henni.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er því hafnað að hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum sem leiði til ógildingar hennar. Umtalsverð umhverfisáhrif séu skilgreind í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum á þá lund að um sé að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Skipulagsstofnun taki undir með kærendum að umhverfisáhrif mengunar vatnsbólanna gætu mögulega talist umtalsverð, en hægt sé að fyrirbyggja þau með fullnægjandi meðhöndlun á frárennsli. Gögn er varði öryggi grunnvatns á svæðinu, sem kærendur vísi til, hafi ekki verið afhent Skipulagsstofnun, en þau hafi legið fyrir þegar aðalskipulag Rangárþings ytra hafi verið samþykkt árið 2019. Í umfjöllun um vatnsverndarsvæði í umhverfisskýrslu aðalskipulagsins sé m.a. vísað sérstaklega til rannsókna ÍSOR á aðrennslissvæði við Kerauga og Tvíbytnulæk. Skipulagsstofnun telji þar af leiðandi að ákvörðun stofnunarinnar hefði verið sú sama þó svo hún hefði haft umrædd gögn undir höndum. Ákvörðunin hafi tekið mið af því að fyrirhugaðar framkvæmdir væru innan skilgreinds fjarsvæðis vatnsverndar.

Lagt hafi verið mat á áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið að teknu tilliti til mannvirkja sem þegar séu á svæðinu eða nálægt því, auk þeirrar landnotkunar sem gerð sé grein fyrir í aðalskipulagi. Sé í þessu sambandi vísað til umfjöllunar í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar um eðli framkvæmdar, í kafla um staðsetningu framkvæmdar og í kafla um gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Varðandi sammögnunaráhrif með tilliti til áhrifa á vatnsból sé bent á að ákvörðun stofnunarinnar hafi tekið mið af því að hreinsun frárennslis yrði fullnægjandi.

Skipulagsstofnun hafi ekki haft undir höndum tilvitnaða skýrslu Orkustofnunar frá 1989, en efni ákvörðunarinnar hefði ekki orðið öðruvísi þótt svo hefði verið. Á málsmeðferðartíma hafi Skipulagsstofnun haft efasemdir um hvort náttúruleg jarðvegshreinsun, líkt og framkvæmdaraðili hafi áformað, væri fullnægjandi með tilliti til aðstæðna á framkvæmdasvæði. Í símtali við starfsmann Heilbrigðiseftirlits Suðurlands 17. apríl 2020 hafi komið fram að svæðið væri gropið og í athugasemd sem borist hafi stofnuninni hafi verið bent á að gjótur og skörð hafi myndast í túnum í nágrenni framkvæmdasvæðisins. Þar sem hin kærða ákvörðun hafi tekið mið af því að frárennsli yrði útfært í samráði við heilbrigðiseftirlitið, að teknu tilliti til aðstæðna á framkvæmdasvæði, hafi ekki verið talin þörf á að afla frekari upplýsinga um sprungur á svæðinu.

Uppbygging á Heysholti sé ekki sambærileg fyrirhugaðri uppbyggingu við Leyni 2 og 3 bæði hvað varði eðli og umfang mannvirkja, sem og nálægð við þekkt misgengi. Misgengi liggi í gegnum framkvæmdasvæðið Heysholti, en uppbygging í landi Leynis 2 og 3 sé í nokkurri fjarlægð frá næsta misgengi. Þó sé ekki hægt að útiloka að sprungur leynist þar, frekar en í Heysholti, í jörðu. Komi sprungur í ljós sé hægt að hnika til byggingum. Líkt og á öðrum jarðskjálftasvæðum þurfi að taka mið af mögulegum skjálftahreyfingum við hönnun bygginga við Leyni 2 og 3.

Almennt sé ekki gerð krafa um að framkvæmdir séu fullhannaðar þegar málsmeðferð á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 fari fram, enda sé Skipulagsstofnun heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmdar þegar stofnunin ákveði að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í úrskurðarframkvæmd sinni ekki gert athugasemdir við að framkvæmdir séu ekki fullhannaðar þegar þær séu tilkynntar. Leiði rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki til þess að það þurfi að liggja fyrir upplýsingar um fullhönnun á framkvæmd í málsmeðferð vegna matsskylduákvörðunar eða að afla þurfi upplýsinga um alla þætti sem viðkomi framkvæmd eða umhverfi hennar. Samkvæmt nefndri 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 sé afgreiðslufrestur fjórar vikur að meðtöldum fresti umsagnaraðila til að veita umsagnir og hljóti það að skipta máli í tengslum við mat á því hvernig rannsóknarreglunni sé beitt í framkvæmd. Framkvæmdaáform þurfi fyrst og fremst að vera nægilega skýr og upplýsingar um staðhætti fullnægjandi til að hægt sé að taka ákvörðun um hvort framkvæmd sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

Þegar um fráveitukerfi sé að ræða nægi gjarnan að tilgreina lágmarksvirkni hreinsikerfis, enda megi þá meta hvort mengunarvarnarbúnaður sé fullnægjandi með tilliti til aðstæðna. Framkvæmdaraðili hafi upphaflega áformað að nota nýstárlega aðferð við hreinsun frárennslis. Slíkt fyrirkomulag kalli eðlilega á frekari lýsingu á hönnun fráveitukerfis. Þegar framkvæmdaraðili hafi boðað að einnig kæmi til greina að nota hefðbundið skólphreinsivirkni og nefnt dæmi um slík hreinsivirki, tilgreint framleiðanda og lágmarkshreinsun hafi ekki verið talin þörf á að fá frekari upplýsingar um þá útfærslu. Skipulagsstofnun hafi þó talið nauðsynlegt með tilliti til aðstæðna á framkvæmdasvæði að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands myndi hafa aðkomu að endanlegri útfærslu fráveitukerfis. Þótt útfærsla fráveitumála hafi verið skýrari eða nákvæmari í einstaka málum leiði það ekki til þeirrar almennu ályktunar að ekki sé hægt að meta hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum fyrr en framkvæmdin sé fullhönnuð.

Í kjölfar tölvupósts heilbrigðiseftirlitsins 16. apríl 2020 hafi starfsmaður Skipulagsstofnunar í tvígang haft samband símleiðis við eftirlitið. Í símtali 13. maí s.á. hafi verið borinn undir heilbrigðiseftirlitið sá möguleiki að nota hefðbundið hreinsivirki sem væri útfært í samráði við eftirlitið. Samkvæmt minnisblaði, sem gert hafi verið um efni símtalsins, hafi komið fram af hálfu heilbrigðiseftirlitsins að sett hefði verið fram óskýr lýsing á framandi aðferð við hreinsun á skólpi. Almenna reglan í svona aðstæðum væri sú að hafa samtengt hreinsivirki í stað þess að hafa stakar rotþrær. Ættu hefðbundin skólphreinsivirki sem byðu upp á tveggja þrepa hreinsun að vera nóg. Hefði heilbrigðiseftirlitið væntanlega ekki gert athugasemdir ef greinargerð framkvæmdaraðila hefði tiltekið hefðbundið hreinsivirki upphaflega. Eftirlitið hefði ekki áhyggjur af áhrifum á grunnvatn yrði haft samráð við það um útfærsluna.

Fram komi hjá framkvæmdaraðila að miðað við heildarfjölda gesta og starfsmanna yfir háannatíma falli til u.þ.b. 320 persónueiningar. Með hliðsjón af þessu segi stofnunin í matsskylduákvörðun sinni að frárennsli frá sturtum, salernum og almennt neysluvatn verði meðhöndlað með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa, þar sem fjöldi persónueininga á háannatíma verði meiri en tveggja þrepa hreinsun ráði við.

Því sé hafnað að ekki sé vikið að samgöngum vegna framkvæmdarinnar og áhrifum þeirra í ákvörðuninni. Sé í þessu sambandi vísað til kafla um eðli framkvæmdar þar sem segi að gera verði ráð fyrir „nokkru ónæði af framkvæmdinni” en það vísi m.a. til samgangna eða áhrifa umferðar um svæðið. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að umferð um svæðið, en ekki sérstaklega að hönnun bílastæða. Að mati Skipulagsstofnunar hafi ekki verið nauðsynlegt að fyrir lægju upplýsingar um það atriði. Áður en sótt sé um framkvæmdaleyfi fyrir bílastæðunum þurfi hins vegar að liggja fyrir upplýsingar sem varði hönnun þeirra. Hafa verði í huga að framkvæmdasvæðið sé á fjarsvæði vatnsverndar, en ekki á brunn- eða grannsvæði. Það sé munur á þessum svæðum með tilliti til verndunar, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, með áorðnum breytingum. Þá hafi ekki verið talið nauðsynlegt, eins og málið hafi legið fyrir, að óska umsagnar Vegagerðarinnar í tengslum við aukna umferð um svæðið og þá einkum um aðkomuveg að því. Nægar upplýsingar hafi legið fyrir í tilkynningunni og hefði umsögn Vegagerðarinnar ekki breytt efnislegri niðurstöðu málsins.

Ekki hafi verið nauðsynlegt að leita frekar til heilbrigðiseftirlitsins vegna neysluvatnsöflunar. Verði að hafa í huga að starfsmaður stofnunarinnar hafi haft samband við heilbrigðiseftirlitið símleiðis 17. apríl 2020, sbr. minnisblað þar að lútandi. Vatnsþörf sé áætluð 0,5 l/sek á háannatíma sem séu um 0,3% af áætluðu rennsli lækjarins þar sem vatnstaka sé áformuð.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði njóti ekki sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi eftirfarandi: „Eldhraun sem er að öllu leyti sandorpið eða hulið jarðvegi og gróðri og ekki er lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða hefur að öllu jöfnu tapað þeim einkennum sem mynda verndargildi þess sem jarðmyndunar eða „hraunvistgerðar“ og nýtur það því ekki sérstakrar verndar samkvæmt greininni.“ Hafi Skipulagsstofnun talið óþarft að fjalla sérstaklega um að þeirrar verndar nyti ekki á framkvæmdasvæðinu, enda ljóst að um sé að ræða ræktað land.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili krefst þess að kæru kærenda að Hekluhólum, Litla-Klofa lóð 4a, Skarðsvegi 2 og Klofahólum verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa, einkum vegna fjarlægðar frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Umræddar lóðir séu allt frá 695 m til um 1,6 km fjarlægð frá svæðinu og þónokkrar byggingar á milli Skarðsvegar 2 og framkvæmdasvæðisins. Enn fremur er þess krafist að kröfu annarra kærenda verði hafnað og sé því mótmælt að hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum. Fyrirhuguð uppbygging sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Ef tekið sé mið af nýtingarhlutfalli á gististöðum á Suðurlandi megi telja ólíklegt að full nýting verði á gistihúsum og plássi á tjaldsvæði. Athugasemd kærenda um að talan 320 persónueiningar sé vanáætluð sé ekki rökstudd frekar og sé hafnað. Í tilkynningu framkvæmdaraðili komi fram að fyrirhuguð uppbygging sé ekki umfangsmikil. Umfjöllun kærenda um daglega losun á skólpi sé ekki rökstudd að neinu leyti og því ekki ljóst á hverju hún byggist. Í tilkynningunni sé tekið fram að mjög ólíklegt þyki að mengun geti borist í lækinn, bæði vegna fjarlægðar framkvæmdarsvæðisins frá honum og vegna jarðvegs sem víða sé nokkuð þykkur ofan á hrauni. Vísað sé til fyrirliggjandi umsagna um að fyrirhuguð uppbygging sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi tiltekið í umsögn sinni að gera þyrfti betur grein fyrir leiðum til skólphreinsunar og neysluvatnsöflunar og verði það gert og unnið í samvinnu við heilbrigðiseftirlitið.

Skipulagsstofnun hafi haft allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn fyrir hendi svo mögulegt væri að taka hina kærðu ákvörðun. Hefði hún talið að frekari upplýsinga væri þörf hefði hún óskað þeirra. Umfjöllun kærenda um aðra starfsemi innan þessa svæðis sé með öllu óviðkomandi máli því sem hér sé til umfjöllunar. Í tilkynningu sé tekið fram að ekki sé vitað um sprungur eða misgengi á svæðinu og sé það í samhengi við verndarákvæði vegna fjarsvæðis vatnsverndar. Ekki sé fyrirhugað að geyma eða nota efni sem geti mengað grunnvatn eins og olíu, bensín eða skyld efni. Þá séu engar skilgreindar takmarkanir á landnotkun á svæðinu sökum náttúruvár.

Því sé alfarið hafnað að ófullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir um útfærslu fráveitukerfis á svæðinu og að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað í því samhengi. Í greinargerð með tilkynningu sé m.a. farið ítarlega yfir veitur og frárennsli. Í viðbótarupplýsingum frá framkvæmdaraðila hafi verið gefnar enn ítarlegri upplýsingar um fyrirhugað hreinsikerfi. Ekki sé því rétt sem haldið sé fram í kæru að það liggi ekki fyrir neinar upplýsingar um hvernig hreinsivirki verði hönnuð ef áform um náttúrulega jarðvegshreinsun gangi ekki upp. Hafi rannsóknir sýnt að náttúrulegar jarðvegshreinsanir geti verið jafn góðar eða betri en þriggja þrepa hreinsun í hefðbundinni hreinsistöð. Tilvísun til annarra mála varðandi fráveitumál á svæðinu sé máli þessu með öllu óviðkomandi. Öll hönnun og framkvæmd fráveitukerfis muni taka mið af aðstæðum og viðeigandi kröfum laga og reglugerða og haft verði samráð við viðeigandi stjórnvöld. Því sé jafnframt hafnað að skólphreinsikerfið eitt og sér sé tilkynningarskylt til Skipulagsstofnunar. Eðli málsins samkvæmt sé fráveitukerfi í framkvæmdum sem þessum sem falli undir B flokk, sbr. lið 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, og sé tekið tillit til þess við ákvörðun um matsskyldu. Samkvæmt leiðbeiningum um rotþrær og siturlagnir sem Umhverfisstofnun hafi gefið út teljist hitaveituvatn (grávatn) vera frárennsli frá ofnakerfum, heitum pottum, baðkörum og sturtuklefum og þurfi slíkt ekki að leiða í rotþró þar sem slíkt vatn sé lítið mengað, en geti skert virkni rotþróarinnar til muna. Umfjöllun um að um sé að ræða sápublandað og klórmengað vatn sem óljóst sé hvaða áhrif hafi sé vísað á bug.

Skipulagsstofnun sé í sjálfsvald sett eftir hvaða umsögnum sé leitað og í tilkynningu framkvæmdaraðila sé tekið fram að nýjar vegtengingar verði bornar undir Vegagerðina. Þá liggi fyrir umsögn hennar vegna deiliskipulags fyrir Leyni 2 og 3 og séu ekki gerðar athugasemdir varðandi nýja tengingu við Stóra-Klofaveg.

Því sé hafnað að gerð hafi verið ófullnægjandi grein fyrir neysluvatnsöflun fyrir framkvæmdina og hugsanlegum áhrifum þess fyrir Klofalæk og lífríki lækjarins. Frágangur fráveitukerfa verði í samræmi við kröfur og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlitsins. Mjög ólíklegt þyki að mengun geti borist í lækinn. Sérstaklega hafi verið tekið fram í tilkynningu að svæðið væri á forsögulegu hrauni, en að ekki væri talið að framkvæmdin myndi hafa neikvæð áhrif á það umfram það sem orðið væri. Væru áhrif á náttúru- og menningarminjar því taldar óverulegar. Ekki sé vikið að þessu atriði í umsögnum umsagnaraðila og í niðurstöðu Skipulagsstofnunar hafi ekki verið fjallað um þetta atriði. Verði þannig að ætla að um sé að ræða atriði sem ekki hafi haft áhrif. Þau atriði sem talin séu upp í 2. viðauka við lög nr. 106/2000 séu einungis viðmiðanir við mat á framkvæmdum í tilgreindum flokkum. Fyrir liggi minnisblað ÍSOR, dags. 7. september 2020, sem unnið hafi verið fyrir Rangárþing ytra vegna fyrirhugaðs deiliskipulags fyrir svæðið. Niðurstaða minnisblaðsins sé sú að vatnsbólum og vatnsbólasvæðum sveitarfélagsins í Tvíbytnulæk nálægt Lækjarbotnum og í Kerauga stafi ekki hætta af mengun frá Leyni eða af fyrirhugaðri uppbyggingu þar. Hvað varði einkavatnsból í frístundabyggðinni niður með Klofalæk sé staðan nú þegar sú að huga þurfi að vatnsveitu og sameiginlegu vatnsbóli ofan byggðarinnar. Með auknum umsvifum í Leyni verði það enn brýnna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu kærenda eru sjónarmið þeirra áréttuð. Jafnframt er dregið í efa að fjarlægðir sem framkvæmdaraðili tiltaki vegna frávísunarkröfu séu réttar. Virðist sem fjarlægðir séu miðaðar við fasteignir umræddra kærenda, en ekki landamörk jarða þeirra. Óljóst sé við hvaða punkt miðað sé við varðandi uppbyggingarsvæðið. Í sumum tilvikum sé miðað við bæði Leyni 2 og 3, en í öðrum tilvikum einungis við Leyni 2. Auk þessa séu fjarlægðirnar rangar. Loks sé mikil einföldun að halda því fram að hagsmunir kærenda ráðist einungis af fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu. Muni fyrirhuguð uppbygging hafa í för með sér mikil grenndaráhrif, hávaðamengun, aukningu á umferð, sjónræn áhrif og hættu á mengun neysluvatns umræddra kærenda.

Skipulagsstofnun hafi talið skylt að meta samlegðaráhrif í tengslum við umhverfismat við breytingu á aðalskipulagi vegna uppbyggingar á Leyni, en ekki verði séð að önnur sjónarmið eigi við í þessu máli. Í öðrum sambærilegum málum hafi útfærslur varðandi bílastæði legið fyrir áður en tekin hafi verið ákvörðun um matsskyldu, sbr. t.d. ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júlí 2020 vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Heyklifi.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar sem lögð hafi verið fram í tengslum við uppbyggingu að Stóru-Völlum, sem liggi mjög nálægt fyrirhuguðu uppbyggingarsvæði að Leyni, segi að hraunið falli undir a-lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og njóti sérstakrar verndar. Sama megi ráða af kortasjá Náttúrufræðistofnunar Íslands. Með hliðsjón af framangreindu megi ráða að þegar sé búið að skilgreina svæðið sem sérstakt verndarsvæði skv. 61. gr. laga um náttúruvernd.

Þá hafi kærendum verið með öllu ókunnugt um að hin nýja útfærsla hefði verið kynnt heilbrigðiseftirlitinu. Einhliða skráning á símtali myndi undir öllum venjulegum kringumstæðum hafa takmarkað gildi, auk þess sem svar heilbrigðiseftirlitsins samkvæmt umræddu minnisblaði sé ekki afdráttarlaust. Gögn þessu tengd hafi ekki verið afhent aðilum málsins og ætti ekki að ljá þeim neitt vægi.

Forsendur minnisblaðs sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram séu rangar miðað við nýlegar rannsóknir. Hafi það því enga þýðingu við úrlausn málsins, t.d. sé straumhraði grunnvatns verulega vanáætlaður. Gögn þau sem kærendur hafi vísað til veiti skýrar vísbendingar um álagsþol og viðkvæmni svæðisins. Þær rannsóknir hafi farið fram með ferilefnarannsóknum og hafi bæði verið ítarlegar og vel rökstuddar. Minnisblaðið beri hins vegar með sér að engar sérstakar rannsóknir hafi farið fram á uppbyggingarsvæðinu heldur sé það unnið á grundvelli eldri forsendna og upplýsinga sem standist ekki miðað við aðrar nýlegar rannsóknir. Þó staðfesti minnisblaðið að mengun á grunnvatni uppbyggingarsvæðisins myndi hafi í för með sér mengun á einkavatnsbólum neðan þess og þar með veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif. Einnig sé rakið í minnisblaðinu að jarðlög á svæðinu séu lek, að grunnt sé niður á grunnvatnsborð og að grunnvatn sé viðkvæmt fyrir öllum umsvifum. Sé þetta í beinu ósamræmi við tilkynningu framkvæmdaraðila. Sýni minnisblaðið fram á þá óvissu sem ríki um áhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar og nauðsyn þess að fram fari heildstætt mat á þeim.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. flokki B, sbr. lið 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Af hálfu framkvæmdaraðila er gerð krafa um að kröfum nokkurra kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verði séð að þeir eigi hagsmuna að gæta í máli þessu, einkum vegna fjarlægðar frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Fram kemur í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina verulega einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Geta kærendur þannig ekki byggt einstaklingshagsmuni sína á atriðum er varða almannahag án þess að sýna fram á hvernig hagsmunir þeirra, umfram annarra, skerðist.

Kjarni máls þessa lýtur að því hvort fyrirhuguð framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, svo sem vegna mengunar vatnsbóla á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá kærendum sem úrskurðarnefndin hefur aflað sér munu vera vatnsból á jörðunum Klofahólum, Litla-Klofa lóð 4a og Hekluhólum. Þegar af þeirri ástæðu verður þessum kærendum játuð kæruaðild í máli þessu. Einkavatnsból mun hins vegar ekki vera að finna á landi Skarðsvegar 2 sem liggur í nokkurri fjarlægð frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Tæplega 700 m eru í beinni loftlínu að Leyni 2 og nokkrar byggingar ber á milli. Þótt ekki sé hægt að útiloka að fyrirhuguð uppbygging muni geta haft einhver áhrif á hagsmuni nefnds kæranda, svo sem vegna ónæðis, verður ekki talið að þeir hagsmunir séu svo beinir eða verulegir að lögvarðir geti talist í skilningi fyrrgreinds ákvæðis. Verður kæru kæranda að Skarðsvegi 2 því vísað frá úrskurðarnefndinni, en að öðru leyti er málið tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Niðurstöðu sína um hvort svo sé skal rökstutt af Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. nefndrar 6. gr., svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau viðmið eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða. Skal Skipulagsstofnun taka matsskylduákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina og er stofnuninni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun hennar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 96/2019 er tekið fram að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja ákvörðun sína á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem henni berist frá öðrum, til dæmis stofnunum og almenningi.

Hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar er skipt upp í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaraðila um byggingar, bílastæði og fráveitumál. Fjallað er um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila. Vikið er að skipulagi á svæðinu og leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum vísar stofnunin til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli framkvæmdar, staðsetningu framkvæmdar með hliðsjón af því hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmdin hafi áhrif á og loks að áhrif framkvæmdar beri að skoða í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa. Tiltekur stofnunin nánar tilgreinda liði undir hverjum tölulið í þessu sambandi.

Í umfjöllun stofnunarinnar um eðli framkvæmdar tekur hún m.a. fram að um sé að ræða nokkuð umfangsmikla uppbyggingu fyrir ferðamenn. Gera verði ráð fyrir nokkru ónæði af framkvæmdinni, en svæðið sé einvörðungu í 50 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu á Stóra-Klofa og 200-500 m séu í næstu frístundahús frá fyrirhuguðum gistihúsum og móttökuhúsi. Áhrif vatnsvinnslu verði minniháttar og er það nánar rökstutt. Frárennsli „frá sturtum, salernum og almenns neysluvatns“ verði meðhöndlað með ítarlegri en tveggja þrepa hreinsun, þar sem fjöldi persónueininga á háannatíma verði meiri en tveggja þrepa hreinsun ráði við. Framkvæmdaraðili muni tryggja að kröfur reglugerðar um fráveitur og skólp verði uppfylltar og sé þar miðað við að mest falli til að meðaltali 320 persónueiningar af skólpi.

Einnig er fjallað um fráveitumál í umfjöllun Skipulagsstofnunar um staðsetningu framkvæmdar þar sem rakið er að framkvæmdasvæðið sé á fjarsvæði vatnsverndar og því mikilvægt að vandað verði til verka við útfærslu á fráveitu og hreinsun frárennslis. Óvissa sé uppi um hvort áform framkvæmdaraðila um náttúrulega jarðvegshreinsun eigi við á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, en hann hyggist koma upp hefðbundnu hreinsivirki verði það ekki mögulegt. Bendi stofnunin á mikilvægi þess að samráð verði haft við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands um útfærslu á hreinsivirki, m.a. um hvort þörf sé á að koma upp sameiginlegu hreinsivirki. Ólíklegt sé að framkvæmdin komi til með að hafa neikvæð áhrif á grunnvatn verði heilbrigðiseftirlitið með í ráðum um útfærslu fráveitukerfis, auk þess sem það meti hvort þörf verði á vöktun með tilliti til þeirrar útfærslu sem verði fyrir valinu. Nánari útfærsla á fráveitukerfi á grundvelli samráðs við heilbrigðiseftirlit þurfi að liggja fyrir áður en framkvæmdaleyfi verði veitt.

Jafnframt tekur stofnunin fram í umfjöllun um staðsetningu framkvæmdar að umhverfi framkvæmdasvæðis sé að mestu landbúnaðarland með skurðum, túnum og vegum. Sumarbústaðarlönd séu í grennd og beri landslagið einkenni af því. Ásýnd svæðisins muni breytast og starfseminni fylgja visst ónæði, en að mati stofnunarinnar sé fyrirhugað framkvæmdasvæði ekki viðkvæmt fyrir uppbyggingu af þeirri tegund sem fyrirhuguð sé. Mögulegt sé að draga úr sjónrænum áhrifum framkvæmdar við deiliskipulagsgerð. Skráðar fornleifar í grennd séu allar utan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og ætti þeim ekki að stafa hætta af fyrirhugaðri framkvæmd.

Loks tekur Skipulagsstofnun fram varðandi gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa að helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar felist í breyttri ásýnd svæðis og mögulegs ónæðis vegna starfseminnar. Umfang áhrifa sé þó líklegt til að vera takmarkað og fyrst og fremst muni þeirra gæta í næsta nágrenni fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis. Telji Skipulagsstofnun ólíklegt að framkvæmdin komi til með að hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki sé hægt að fyrirbyggja með vandaðri verktilhögun eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar eins og fyrr greinir að hin umdeilda framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Minjastofnunar Íslands, Rangárþings ytra, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Óskuðu Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitið frekari skýringa um fyrirhugaða skólphreinsun og fráveitukerfi sem framkvæmdaraðili veitti. Tók heilbrigðiseftirlitið ekki afstöðu til matsskyldu, en tók fram að væntanlega hefðu ekki verið gerðar athugasemdir ef í greinargerð framkvæmdaraðila hefði verið tiltekið upphaflega hefðbundið hreinsivirki. Aðrir umsagnaraðilar töldu að ekki væri þörf á því að framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin varðar hvaða liðir vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð. Það að framkvæmd falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka.

Að mati úrskurðarnefndarinnar leit Skipulagsstofnun við ákvörðunartöku sína að mestu til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 að teknu tilliti til framkominna umsagna. Þó er ljóst að hin kærða ákvörðun byggir fyrst og fremst á því að hægt verði að fyrirbyggja umtalsverð umhverfisáhrif með fullnægjandi meðhöndlun á frárennsli. Tók ákvörðunin mið af tilkynntri framkvæmd og síðari svörum og skýringum framkvæmdaraðila, sem og því að haft yrði samráð við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands við hönnun fráveitukerfisins. Einnig að allur frágangur yrði í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar hefur stofnunin jafnframt bent á að þar sem hin kærða ákvörðun hafi tekið mið af því að frárennsli yrði útfært í samráði við heilbrigðiseftirlitið, að teknu tilliti til aðstæðna á framkvæmdasvæði, hafi ekki verið talin þörf á að afla frekari upplýsinga um sprungur á svæðinu. Einnig að gögn er varði öryggi grunnvatns á svæðinu hafi legið fyrir þegar aðalskipulag Rangárþings ytra hafi verið samþykkt árið 2019 og almennt sé ekki gerð krafa um að framkvæmdir séu fullhannaðar þegar matsskylduákvörðun sé tekin, enda sé Skipulagsstofnun heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmdar þegar stofnunin ákveði að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þurfi framkvæmdaáform fyrst og fremst að vera nægilega skýr og upplýsingar um staðhætti fullnægjandi til að hægt sé að taka ákvörðun um hvort framkvæmd sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

Samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 eru jarðirnar Leynir 2 og 3 á fjarsvæði vatnsverndar. Í skipulaginu leggur sveitarfélagið áherslu á nægt framboð neysluvatns og að tryggja vatnsgæði til framtíðar. Í þeim tilgangi verði vatnsból afgirt og friðuð fyrir óviðkomandi umferð, auk þess sem engar framkvæmdir sem ógnað geti brunnsvæðum verði leyfðar á grann- eða fjarsvæðum þeirra. Þá segir að mörk vatnsverndarsvæða verði endurskoðuð þegar betri gögn liggi fyrir um gæði vatnsbóla og aðrennslissvæði þeirra. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál, sbr. 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og fer fram umhverfismat áætlana vegna gerðar skipulagsins. Ákvörðun um matsskyldu krefst þess hins vegar að mat sé lagt á hvort tiltekin framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sem upplýsa þurfi um í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Um ólíka málsmeðferð vegna gerðar aðalskipulags og matsskylduákvörðunar er að ræða sem þjónar ekki sama tilgangi. Er því einboðið að gögn sem liggja fyrir og skoðuð eru við gerð aðalskipulags geti þurft nánari rýni við þegar kemur að matsskylduákvörðun, sér í lagi ef aðstæður bendi til þess. Að teknu tilliti til athugasemda Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndarinnar virðist sú rýni ekki hafa átt sér stað í þessu máli og stofnunin ekki hafa talið ástæðu til hennar.

Þá virðist sem Skipulagsstofnun hafi treyst á samráð framkvæmdaraðila við heilbrigðiseftirlitið um útfærslu fráveitu vegna framkvæmdarinnar og það regluverk sem til staðar er og styður við markmið laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þau markmið eru að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, en jafnframt að koma í veg fyrir eða að draga úr losun í t.a.m. vatn, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni hafa verið settar reglugerðir, s.s. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, reglugerð nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns og áðurnefnd reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Segir m.a. í 13. gr. reglugerðar nr. 796/1999 að á fjarsvæðum vatnsverndar skuli gætt fyllstu varúðar í meðferð nánar tilgreindra efna þar sem vitað sé um sprungur eða misgengni og skv. reglugerð nr. 796/1999 er rekstur fráveitu háður starfsleyfi, en slík leyfi kveða jafnan á um vöktun og viðbrögð fari eitthvað úrskeiðis.

Af gögnum málsins sést að heilbrigðiseftirlitið gaf upp afstöðu sína, þó ekki með afgerandi hætti, til þess fyrirkomulags á fráveitu sem gert er ráð fyrir að nota komi í ljós að aðstæður við Leyni 2 og 3 leyfi ekki náttúrulega jarðvegshreinsun. Ekki er skýrt frekar af hálfu framkvæmdaraðila hvað nákvæmlega í því felist eða hvenær tekin yrði ákvörðun um að nota hefðbundin skólphreinsivirki og eru áform hans því óskýr að þessu leyti. Þrátt fyrir að ekki sé þörf á því að full hönnun liggi fyrir vegna allra þátta fyrirhugaðrar framkvæmdar verður að gera þá kröfu að fyrir liggi nægar upplýsingar miðað við aðstæður til að hægt verði að komast að niðurstöðu um hvort framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð áhrif. Þá verður að gera meiri kröfur um upplýsingar um frágang og hönnun framkvæmdar eftir því sem staðhættir gefa tilefni til.

Í máli því sem hér um ræðir voru áform framkvæmdaraðila frá upphafi óljós. Þótt hann hafi síðar tekið fram að leyfðu aðstæður ekki það fyrirkomulag fráveitu sem hann kysi yrði notað hefðbundið hreinsivirki, og af hálfu heilbrigðiseftirlitsins hafi komið fram að það hefði væntanlega ekki gert athugasemdir hefði það verið ætlunin frá upphafi, sér þess ekki stað í hinni kærðu ákvörðun að Skipulagsstofnun hafi heimfært áætlanir framkvæmdaraðila upp á staðhætti, hvor leiðin sem yrði farin í fráveitumálum.

Í ákvörðuninni var tekið fram um staðsetningu framkvæmdarinnar að umhverfi framkvæmdasvæðis væri að mestu landbúnaðarland með skurðum, túnum og vegum og að um fjarsvæði vatnsverndar væri að ræða. Í engu var hins vegar vikið að undirlagi jarðvegs á svæðinu. Var þó tilefni til þegar litið er til þess að fyrsta val framkvæmdaraðila væri að koma fyrir náttúrulegri jarðvegshreinsun á frárennsli og að framkvæmdasvæðið þótt það sé á landbúnaðarlandi hvílir á 2-5 m djúpum jarðvegi ofan á leku hrauni á brotabelti þar sem kortlagðar hafa verið jarðskjálftasprungur. Barst Skipulagsstofnun raunar athugasemd frá einum kærenda máls þessa um að á umræddu svæði væru sprungur sem stangaðist á við upplýsingar sem fram komu í greinargerð framkvæmdaraðila um að ekki væri vitað um sprungur eða misgengi á svæðinu. Loks er í matsskylduákvörðuninni hvorki vikið að grunnvatnsstraumum né mögulegum samlegðaráhrifum framkvæmda á svæðinu. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi legið fyrir Skipulagsstofnun nægar upplýsingar til að hún gæti án frekari rökstuðnings komist að þeirri niðurstöðu að það væri „ólíklegt að framkvæmdin komi til með að hafa neikvæð áhrif á grunnvatn verði Heilbrigðiseftirlitið með í ráðum um útfærslu fráveitukerfis.” Að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem fram koma í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og þeirra hagsmuna sem í húfi eru, var rökstuðningi hinnar kærðu matsskylduákvörðunar skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 svo áfátt að vafi leikur jafnframt á því hvort að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir Skipulagsstofnun við ákvörðunartökuna, en frestur stofnunarinnar tekur fyrst að líða þegar fullnægjandi gögn um framkvæmdina hafa borist. Verður þannig ekki af ákvörðuninni ráðið að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að nægjanlega væri upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga   að ekki yrðu af framkvæmdinni umtalsverð umhverfisáhrif. Sérstaklega þegar haft er í huga að grunnvatn sem mengast vegna ófullnægjandi fráveitu spillist um fyrirsjáanlega framtíð. Í því sambandi er rétt að benda á að samkvæmt p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“

Loks liggur fyrir að fyrirhugað framkvæmdasvæði liggur á Þjórsárhrauni, eldhrauni sem myndaðist eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, en slík hraun njóta allajafna sérstakrar verndar skv. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ekki var sérstaklega að því vikið í umfjöllun Skipulagsstofnunar um staðsetningu framkvæmdar, en skv. 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 getur þurft að meta hversu viðkvæm svæði eru sem líklegt er að framkvæmdin geti haft áhrif á. Hraunið er þakið jarðvegshulu á framkvæmdasvæðinu og hefur stofnunin vísað til þess að hún hafi litið til skýringa á greindu ákvæði í frumvarpi því sem varð að náttúruverndarlögum en þar segir að eldhraun sem sé að öllu leyti sandorpið eða hulið jarðvegi og gróðri og ekki er lengur hægt að greina hvort um hraun sé að ræða hafi að öllu jöfnu tapað þeim einkennum sem mynda verndargildi þess sem jarðvegsmyndunar eða „hraunvistgerðar” og njóti það því ekki sérstakrar verndar samkvæmt greininni. Hins vegar er einnig tekið fram í tilvitnuðum athugasemdum með frumvarpinu að ákvæðið útiloki þó ekki að aðrir eiginleikar, svo sem jarðsögulegir eiginleikar, hafi sérstakt verndargildi. Var Skipulagsstofnun því rétt að fjalla um það í ákvörðun sinni hvort hraunið nyti verndar lögum samkvæmt, og eftir atvikum afla viðeigandi umsagna um það atriði, sem önnur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að ekki verði komist hjá ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Kæru kæranda að Skarðsvegi 2 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. maí 2020 um að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

93/2020 Lónsbraut

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 15. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2020, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 9. september 2020 um að leggja á 20.000 króna dagsektir á eigendur Lónsbrautar 52 og 54.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Lónsbrautar 52, persónulega og fyrir hönd einkahlutafélags síns Thorco ehf., eiganda Lónsbrautar 54, ákvarðanir byggingarfulltrúa Hafnar­fjarðar um að leggja 20.000 króna dagsektir á hvorn eiganda nefndra lóða. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 6. nóvember 2020.

Málavextir: Annar kærenda eignaðist fasteignina Lónsbraut 52 árið 2007 en hús á þeirri lóð var reist árið 1970 samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Félag í eigu hans keypti Lónsbraut 54 árið 2017 og samkvæmt kaupsamingi var aðeins um að ræða grunn sem hafði verið steyptur árið 2004 og var fasteignin fullbyggð árið 2019 samkvæmt greindri heimild. Fasteignin Lónsbraut 52 var boðin til sölu með fasteignaauglýsingu í febrúar 2020 og kom þar fram að húsið hafi verið endur­byggt 2007, steyptir upp veggir og nýr grunnur gerður.

Með tölvupósti frá 11. febrúar 2020 tilkynnti byggingarfulltrúi öðrum kærenda að frágangur á báta­skýli sem hann væri með til sölu að Lónsbraut 52 væri ekki í samræmi við deiliskipulag og þær reglur sem um mannvirkið giltu, þar sem ekki væri heimilt að vera með verönd í átt að lóninu og það sama ætti við bátaskýli að Lónsbraut 54. Var bent á að ekki væri heimilt að hafa steypta verönd og að ekki væri gert ráð fyrir því að í bátaskýlinu að Lónsbraut 52 væri baðherbergi. Var þessum tölvupósti fylgt eftir með bréfum, dags. 12. febrúar s.á., þar sem skorað var á kærendur að fjarlægja verönd við Lónsbraut 52 og 54 og baðherbergi í Lónsbraut 52 innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfanna. Kom fram að ef þessum tilmælum yrði ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Gæti sú ákvörðun falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda, beitingu dagsektarákvæða eða lokun á húsnæðinu, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Bent var á andmælarétt skv. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og jafnframt bent á að heimilt væri að kæra niðurstöðu og afgreiðslu byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með tölvupósti til annars kærenda 18. maí 2020 ítrekaði byggingarfulltrúi afstöðu sína og benti á að ekki væri heimilt að vera með salerni í húsinu að Lónsbraut 52. Frekari ítrekanir voru sendar með bréfum, dags. 29. maí og 20. ágúst s.á., og með tölvupósti 9. september s.á. ítrekaði byggingarfulltrúi enn afstöðu sína. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 10. s.m. var samþykkt að leggja dagsektir á kærendur enda hafi ekki verið brugðist við áskorunum byggingarfulltrúa og bætt úr óleyfisframkvæmdum. Kom fram að dagsektir, kr. 20.000, yrðu lagðar á frá og með 23. september 2020.

Í kjölfar framangreinds óskaði annar kærenda eftir fundi vegna málsins sem fór fram 22. september 2020. Eftir þann fund voru lóðarmörk Lónsbrautar 52 og 54 mæld og kom í ljós að hluti áðurnefndrar verandar stóð út fyrir lóðarmörkin. Hafa kærendur skotið umræddri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram að þegar þeir hafi keypt umræddar fasteignir árin 2007 og 2017 hafi umrædd verönd, eða þeir veggir sem umlykja það sem nefnt sé verönd í bréfum Hafnarfjarðarbæjar, verið til staðar. Aðilar viti ekki hvenær umræddir veggir hafi verið byggðir, en eins og útskýrt verði síðar geti verið að þeir hafi verið byggðir í kringum 1970.

Eftir að bréf Hafnarfjarðarbæjar hafi borist kærendum hafi þeir bent á að þeir hafi ekki staðið að þeim framkvæmdum sem taldar væru ólögmætar. Í kjölfar þess hafi annar kærenda sent bréf til bæjaryfirvalda og óskað eftir fundi. Fundur hafi verið haldinn 22. september 2020 og mættu fulltrúar bæði kærenda og sveitarfélagsins. Tilgangur fundarins hafi verið að útskýra að umræddir veggir væru fyrir utan lóðir kærenda. Þegar það hafi verið útskýrt á teikningu hafi fulltrúar bæjarins sagst ætla að senda mælingarmann til að kanna það. Kærendur hafi álitið að þegar bæjaryfirvöld gerðu sér grein fyrir að umrædd framkvæmd væri utan lóða þeirra og að kærendur hafi aldrei komið nálægt umræddri framkvæmd yrði málið látið niður falla. Svo hafi ekki orðið og eftir að kærendur hafi krafist svara hafi lögmaður Hafnarfjarðar svarað með eftirfarandi tölvupósti 1. október 2020 þar sem m.a. sagði: „Varðandi mál umbjóðanda þíns og ábendingar byggingar­fulltrúa þá liggur fyrir að steyptir pallar liggja frá húsunum og út fyrir lóðarmörk. Pallarnir eru ekki í samræmi við deiliskipulag og ekki hefur verið veitt leyfi fyrir framkvæmdunum og er því um óleyfisframkvæmdir að ræða. Hefur byggingarfulltrúi gert kröfu um að hin ólöglegu mannvirki skuli fjarlægð, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 að viðlögðum dagsektum. Umbjóðanda þínum hefur verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem hann og gerði á m.a. á fundi okkar um daginn.“ Einnig hafi komið fram að: „Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 er skýrt að eigandi mannvirkis ber ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Byggingarfulltrúi hefur því réttilega beint kröfum sínum að núverandi eigendum mannvirkjanna og að virtu framangreindu er ekki ástæða til að afturkalla þessar ákvarðanir byggingarfulltrúa um að krefjast úrbóta.“

Kærendur hafi svarað þessu með tölvupósti, dags. 1. október 2020, þar sem m.a. hafi eftir­farandi komið fram: „Ég var að benda á að tómlæti gæti orðið til þess að framkvæmdir stæðu þó þær væru ekki í samræmi við lög og reglur. Í því máli sem hér er til umfjöllunar var þó fyrst og fremst vísað til þess að þær framkvæmdir sem vísað væri til væru ekki á lóð þess sem erindinu var beint að. Eins og kom fram á fundinum kom þessi málsástæða byggingarfulltrúa á óvart og sagðist hún mundi senda mann til að mæla hvort svo væri sem við [kærandi] héldum fram og mátti þá áætla að það breytti öllu að umræddir veggir væru utan lóða [kærenda] og töldum við þá að málinu væri lokið, að öðrum kosti hefði verið óþarfi að senda mælingamann á staðinn.“ Hafi einnig komið fram: „[Kærandi] eða hans fyrirtæki reisti ekki umrædda veggi og veit ekkert hver gerði það eða hvenær þeir voru reistir. Umræddir veggir eru utan lóðar [kæranda] og þess vegna undarlegt að beina kröfunni að honum, þar sem kröfunni ætti að öllum líkindum að vera beint að Hafnarfjarðarbæ eða Hafnarfjarðarhöfn, spurning er hins vegar hvort það er of seint vegna tómlætis?“

Til að byggja hús þurfi leyfi byggingarfulltrúa. Í lögum nr. 160/2010 um mannvirki sé hvergi tekið beinlínis fram að byggingarfulltrúi skuli ekki gefa öðrum en eiganda heimild til að byggja hús. Um þetta sé þó fjallað með óbeinum hætti í fjórða kafla laganna, þar sem fjallað sé um ábyrgð eiganda mannvirkis. Byggingarfulltrúi geti þess vegna einungis gefið út leyfi til handa eiganda hvort sem sé til að byggja eða rífa mannvirki. Byggingarfulltrúi fjalli um framkvæmdir að því er varði byggingar tiltekinna eigenda. Byggingarfulltrúi sé ekki lögregla. Þetta komi fram í frétt á mbl.is 11. september 2020 þar sem byggingarfulltrúi Reykjavíkur segi eftirfarandi: „Við höfum stöðvað framkvæmdir og það verður því ekkert gert á lóðinni í bili. Við munum kæra niðurrifið til lögreglu, væntanlega í dag.“ Telja verði að bæjaryfirvöld hefðu átt að gera það sama í því máli sem hér sé fjallað um, þ.e. að kæra málið til lögreglu hafi sveitarfélagið talið að um ólögmætar framkvæmdir sé að ræða.

Kærendur viti ekki hver hafi byggt umræddan vegg en sýnt hafi verið fram á að þeir hafi ekki byggt vegginn þar sem hann hafi verið byggður 2005 eða fyrr. Umræddur veggur sé á lóð er heyri undir Hafnarfjarðarhöfn eða Hafnarfjarðarbæ. Hvers vegna umræddri kröfu sé beint að kærendum sé með öllu óskiljanlegt. Hvers vegna kröfu sé ekki beint að lóðareiganda, þ.e. Hafnarfjarðarhöfn eða Hafnarfjarðarbæ sem væri eðlilegra þar sem um ákvörðun byggingar­fulltrúa sé að ræða. Ef einhver reisi mannvirki í óleyfi á lóð annars aðila þá sé það ekki á verksviði byggingarfulltrúa að fjalla um það mál heldur lögreglu. Um sé að ræða lögreglumál. Rannsaka þurfi málið og finna út hver hafi reist umræddan vegg og gera þann aðila ábyrgan ef hann finnst.

Í tölvupósti lögmanns Hafnarfjarðarbæjar sem gerð hafi verið grein fyrir hér að framan hafi komið fram að rökstuðningur sveitarfélagsins fyrir hinni kærðu ákvörðun sé byggður á að fjarlægja skuli umrædda veggi á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 og 1. mgr. 15. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 55. gr. laganna komi skýrum orðum fram að byggingarfulltrúi geti beint kröfu að eiganda mannvirkis. Kærendur séu ekki eigendur umræddra veggja. Í 2. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup sé hugtakið fasteign skilgreint. Þar segi: „Fasteign samkvæmt lögum þessum telst vera afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega eru við landið skeytt. Með fasteign er einnig átt við eignarhluta í húsi eða öðru mannvirki sem skiptist í fleiri en einn slíkan.“ Fasteign sé sem sagt afmarkaður hluti lands og mannvirki sem skeytt sé við landið. Sá sem eigi landið eigi það sem skeytt sé við það. Sýnt hafi verið fram á það að kærendur eigi ekki það land sem um ræði og þess vegna ekki þau mannvirki sem við það séu skeytt. Málinu sé því beint að röngum aðila. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri eigandi ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mann­virkis sé farið að kröfum laga þessara og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra. Kærendur séu ekki eigendur umræddra veggja og þess vegna ekki ábyrgir fyrir þeim.

Ef ekki sé fallist á rökstuðning kærenda verði að telja að um sé að ræða tómlæti af hálfu sveitarfélagsins. Hafnarfjarðarbær hafi vitað af umræddum veggjum að minnsta kosti frá árinu 2005 og hafi ekkert haft við þá að athuga fyrr en árið 2020. Samkvæmt fasteignaryfirliti hafi Lónsbraut 52 verið fullbyggð 1970. Ef veggirnir hafi verið tengdir byggingu húsanna eins og sveitarfélagið virðist álíta gætu þeir verið frá því fyrir 1970. Telja verði þess vegna að hér sé um tómlæti að ræða þar sem bærinn hefði getað brugðist við, jafnvel fyrir hálfri öld, en ekki gert það.

Fallist úrskurðarnefndin á málatilbúnað sveitarfélagsins sé farið fram á að dagsektir komi ekki til fyrr en í fyrsta lagi að liðnum 90 dögum frá úrskurði nefndarinnar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að upphaf málsins megi rekja til þess að byggingarfulltrúi hafi upplýst annan kærenda um það með tölvupósti 11. febrúar 2020 að frágangur á húsnæði sem hann hafi haft til sölu að Lónsbraut væri ekki í samræmi við deiliskipulag og þær reglur sem um húsnæðið gildi. Hafi byggingarfulltrúi bent m.a. á að steypt verönd væri ekki heimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem og að þarna hafi ekki verið gert ráð fyrir að í húsum væri baðherbergi líkt og myndir hafi sýnt. Hafi byggingarfulltrúi fylgt þessu eftir með bréfum, dags. 12. s.m., þar sem skorað hafi verið á kæranda að fjarlægja umrædda verönd ásamt því að fjarlægja baðherbergi í bátaskýli að Lónsbraut 52.

Byggingarfulltrúi hafi ítrekað áskorun sína í tölvupósti 18. maí 2020 og jafnframt bent á að ekki sé heimilt að vera með salerni í húsnæðinu. Kærendum hafi verið send ítrekun 29. maí og aftur 20. ágúst s.á. Byggingarfulltrúi hafi enn ítrekað áskorun sína í tölvupósti 9. september 2020. Daginn eftir hafi verið samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa að leggja dagsektir á kærendur enda hafi ekki verið brugðist við greindum áskorunum og bætt úr óleyfisframkvæmdum en eins og sjá megi séu forsendur fyrir ákvörðun dagsekta ólíkar milli húsa. Í framhaldinu hafi annar kærenda óskað eftir fundi vegna málsins sem hafi farið fram 22. september s.á. Á fundinum hafi kærandi mótmælt því að um óleyfisframkvæmdir væri að ræða sem og mótmælt í fyrstu að salerni væri í húsinu að Lónsbraut 52 en viðurkennt það þó síðar á fundinum. Þá hafi aðilar fjallað um meinta ólöglega búsetu í húsnæðinu að Lónsbraut 52 og staðfesti sveitarfélagið við kæranda að meint ólögleg búseta hafi ekki verið grundvöllur fyrir dagsektum vegna Lónsbrautar 52 heldur aðeins umræddar óleyfisframkvæmdir.

Um Lónsbraut gildi deiliskipulag Suðurhafnar frá árinu 2000 ásamt síðari breytingum. Þar sé sérstaklega tekið fram að engar útbyggingar skuli leyfðar eins og svalir eða verandir. Þá sé óheimilt að koma fyrir rotþróm á svæðinu en fyrir liggi að kærandi hafi ekki tengt sig við frárennslislagnir bæjarins enda engar slíkar á svæðinu. Skýrt sé tekið fram í gildandi deili­skipulagi að umrædd bátaskýli skuli einungis nýtt í tengslum við uppsátur og geymslu báta. Þá sé skýrt tekið fram í gildandi skipulagsskilmálum að hafa þurfi samráð við Umhverfisstofnun vegna skipulags og framkvæmda enda liggi svæðið við Hvaleyrarlón sem sé viðkvæmt svæði sem hafi verið friðlýst til að vernda lífríkið þar.

Byggingarfulltrúi hafi eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna sé m.a. óheimilt að breyta húsnæði, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Sömu reglur komi fram í gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki sé byggingarfulltrúa hreinlega skylt að bregðast við verði hann þess var að mannvirki sé ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir o.fl. Skuli byggingarfulltrúi gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Þá sé honum heimilt að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Fyrir liggi að steyptir hafi verið pallar eða verönd sem liggi frá grunni húsanna og út fyrir lóðar­mörk. Pallarnir séu ekki í samræmi við deiliskipulag og ekki hafi verið veitt leyfi fyrir fram­kvæmdunum og sé því um óleyfisframkvæmdir að ræða. Til viðbótar hafi byggingarfulltrúi gert kröfu um að baðherbergi sem sé að finna í Lónsbraut 52 verði fjarlægt enda ekki heimild fyrir slíku og hafi kærandi ekki tengst við frárennslislagnir bæjarins. Megi því gera ráð fyrir að frárennsli frá húsinu sé beint í hið friðaða lón. Vegna þessa hafi verið gerð krafa um að hin ólöglegu mannvirki verði fjarlægð, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki að viðlögðum dagsektum. Kærendum hafi verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem og þeir hafi gert. Þeir hafi mótmælt aðgerðum byggingarfulltrúa en ekki brugðist við áskorun um að gera úrbætur og hafi byggingarfulltrúi því tekið ákvörðun um að leggja dagsektir á kærendur þar til úr hefði verið bætt.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um mannvirki sé skýrt að eigandi mannvirkis beri ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra. Byggingarfulltrúi hafi fyrst fengið upplýsingar um umrædda óleyfisframkvæmd í febrúar 2020 og sé fullyrðingum kærendum um annað mótmælt sem röngum enda liggi engar upplýsingar því til grundvallar. Hafi byggingarfulltrúi því réttilega beint kröfum sínum að kærendum. Allra nauðsynlegra upplýsinga hafi verið aflað til að málefnalegt mat yrði lagt á málið. Áréttað skuli að enginn ágreiningur sé uppi um að umræddur pallur sé reistur án leyfis og sé ekki í samræmi við deiliskipulag sem og að veröndin nái út fyrir lóðarmörk. Þá sé fullyrðingum kærenda um að þeir beri ekki ábyrgð á framkvæmdum utan lóðar mótmælt enda ekki á neinum rökum reistar. Þannig liggi fyrir að umræddir steyptir pallar séu tengdir grunni húsanna og að hluta til utan lóðar. Auk þess hafi kærendur ekki mótmælt því að umræddir pallar hafi verið steyptir af eiganda húsanna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur mótmæla því að hafa sagt rangt frá um atvika­lýsingu eða eitthvað annað í þessu máli. Vísað sé til tölvupósta þeirra er liggi fyrir í máli þessu um þá atvikalýsingu.

Þá sé það ekki gott að sveitarfélagið haldi því fram að hafa fyrst fengið upplýsingar um umræddan vegg í febrúar 2020, þar sem í kæru sem barst úrskurðarnefndarinni árið 2005, á vegum eiganda fasteignar við Lónsbraut, hafi verið greint frá umræddum veggjum. Þá staðreynd hafi sveitarfélaginu átt að vera kunnugt um frá þeim tíma enda verði að ætla að þeim hafi verið kynnt niðurstaða málsins og gögn. Sveitarfélagið haldi því fram að svo hafi ekki verið gert en telja verði að það beri sönnunarbyrðina fyrir því. Sveitarfélagið hafi því vitað af umræddum veggjum síðan 2005 að minnsta kosti.

Þá sé ómögulegt að skilja hvers vegna sveitarfélagið tali um steypta palla. Það séu engir steyptir pallar í þessu máli og þess vegna hafi steyptum pöllum ekki verið mótmælt sérstaklega. Fullyrðingu um steypta palla hafi hins vegar verið mótmælt í kæru. Af því megi sjá að það sé einkennilegt af sveitarfélaginu að halda því fram að kærandi hafi ekki mótmælt því að um steypta palla sé að ræða. Telja verði að annað hvort hafi bæjaryfirvöld ekki lesið kæruna eða sé að halda einhverju fram gegn betri vitund. Til vara sé þó rétt að lýsa því yfir að kærendur mótmæli því að hafa steypt palla, það sé með öllu rangt.

Ef skyldur byggingarfulltrúa til að gæta þess að framkvæmt sé í samræmi við gildandi lög og reglur séu svo brýnar, meðal annars þar sem aðliggjandi svæði hafi verið friðlýst, sé kærendum með öllu óskiljanlegt hvers vegna hann hafi ekki brugðist við árið 2005 þegar kæra vegna framkvæmda við umrædd hús hafi verið lögð fram. Enn óskiljanlegra sé að byggingarfulltrúi krefjist þess að óviðkomandi aðilar, þ.e. kærendur, fari inn á þetta friðlýsta svæði þar sem lífríki sé verndað og brjóti niður veggi sem þeir hafi engin umráð yfir og hafi ekki byggt og standi utan lóða þeirra. Ekki sé tilefni til að hugleiða hvað væri hægt að kæra þá fyrir ef farið yrði inn á lóð annarra og mannvirki brotin niður á svæði sem sé friðlýst. Ljóst sé að niðurbrot umræddra veggja myndi hafa í för með sér þónokkuð rask og þess vegna í raun einkennilegt að byggingarfulltrúi sé almennt að krefjast þess að umræddir veggir séu brotnir niður þótt ekki sé vegna annars en að líta til meðalhófs gagnvart hinu friðlýsta svæði.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 14. desember 2020 að viðstöddum fyrirsvarsmönnum kærenda og fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana byggingarfulltrúa um beitingu dag­sekta vegna steypts stoðveggjar sjávarmegin við bátaskýli kærenda að Lónsbraut 52 og 54 í Hafnarfirði og salernis- og hreinlætisaðstöðu í öðru bátaskýlinu. Bátaskýlin standa ásamt fjölda annarra í fjöruborði Hvaleyrarlóns. Eru umdeildar ákvarðanir á því byggðar að um óleyfisframkvæmdir sé að ræða sem fari gegn deiliskipulagi svæðisins. Kærendur andmæla hins vegar ákvörðuninni með þeim rökum að þeir hafi ekki staðið að umdeildum framkvæmdum og beri því enga ábyrgð á þeim.

Í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brjóti í bága við skipulag, mannvirki sé tekið í notkun án þess að öryggisúttekt hafi farið fram eða ef mann­virki sé tekið til annarra nota en heimilt er samkvæmt útgefnu byggingarleyfi geti byggingar­fulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir eða notkun tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkisins. Sama gildi ef ekki sé að öðru leyti fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Í 56. gr. laganna er byggingarfulltrúa veitt heimild til að beita dagsektum til að knýja fram úrbætur, m.a. ef hús eða mannvirki og notkun þess er ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti byggingarleyfis eða brjóti í bága við skipulag.

Ákvörðun um beitingu dagsekta er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem samkvæmt fyrr­greindum ákvæðum laga um mannvirki er háð mati stjórnvalds en er ekki skyldubundin svo sem var í gildistíð eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 56. gr þeirra laga,  þegar um var að ræða fram­kvæmd sem fór í bága við gildandi deiliskipulag. Við mat á því hvort beita eigi dagsektum þarf sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins svo sem um meðalhóf, rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið. Við mat á því hvort beita eigi þvingunar­aðgerðum, svo sem dagsektum, geta komið til álita ýmis sjónarmið svo sem hversu íþyngjandi aðgerða er krafist af þeim sem úrræðin beinast að, hvort og með hvaða hætti þeir tengjast meintum lögbrotum, hversu mikilvæga almannahagsmuni er verið að tryggja og hversu langur tími er liðinn frá atburði þar til ætlunin er að grípa til aðgerða af hálfu stjórnvalda.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er byggt á því að hin umþrætta verönd, eða þeir veggir sem standa út frá húsum kærenda, séu ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins sem leggi bann við útbyggingum, þ.e. svölum og veröndum, á bátaskýlunum. Fyrirliggjandi upplýsingar og gögn gefa vísbendingar um að umdeildar framkvæmdir hafi átt sér stað áður en kærendur eignuðust bátaskýlin að Lónsbraut 52 og 54, í gildistíð deiliskipulags svæðisins frá árinu 2000. Í almennum skilmálum þess kom fram að byggingar skyldu vera í samræmi við skipulagsskilmála, gildandi byggingarreglugerð, mæli- og hæðarblöð og aðrar reglugerðir og staðla sem um þetta kynnu að gilda. Í skilmálum fyrir svæðið við Hvaleyrarlón sagði um yfirbragð bygginga að heimilt væri að endurbyggja skýli á núverandi byggingarreitum. Allar byggingar skyldu vera klæddar báruðum klæðningum, þó máttu sökklar vera óklæddir upp í 0,5 m hæð fyrir gólfplötu. Þakform bygginga var bundið núverandi A-formi. Leyft yrði að hækka sökkla undir þeim skýlum sem lægst stóðu í landi um allt að 1,5 m vegna sjávarhæðar. Þetta átti helst við um elstu skýlin vestast á svæðinu. Hæð skýlanna sjálfra mætti vera skv. þeim nýjustu austast á svæðinu og taka skyldi mið af efni og útliti skýlanna. Það var fyrst með deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var árið 2013 sem bann við útbyggingum kom inn í deiliskipulag svæðisins. Þá liggur fyrir að hinn 19. september 2005 samþykkti byggingarfulltrúi lagnateikningu fyrir báta­skýlið að Lónsbraut 52 þar sem gert er ráð fyrir salerni ásamt frárennslislögn með tengingu við væntanlega bæjarveitu. Samþykkt sama efnis var gerð 20. september s.á. fyrir bátaskýlið að Lónsbraut 54. Þá kom og fram við vettvangsskoðun að lagt hefði verið heitt og kalt vatn í bátaskýli kærenda, en friðlýsing sú sem bæjaryfirvöld vísa til í athugasemdum sínum kom síðar til, eða árið 2009.

Í 1. mgr. 15. gr. laga um mannvirki er kveðið á um að eigandi beri ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum þeirra laga og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra og hafa bæjaryfirvöld vísað til þessa ákvæðis varðandi ábyrgð kærenda á þeim framkvæmdum sem hin kærða ákvörðun byggi á. Nefnt ákvæði laga um mannvirki verður að mati úrskurðarnefndarinnar ekki túlkað á þann veg að eigandi mannvirkis beri ábyrgð á hönnun þess og breytingum sem eiga sér stað þegar viðkomandi mannvirki er í eigu annars aðila. Slík hlutlæg ábyrgð verður að eiga ótvíræða stoð í lögum og mælir orðalag d. liðar 4. mgr. ákvæðisins raunar því í mót. Þar er tekið fram að sé mannvirki selt í heild eða að hluta áður en lokaúttekt fer fram beri fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. ásamt nýjum eiganda nema um annað sé samið í skriflegum samningi milli þeirra. Skuli þá koma skýrt fram að nýr eigandi gangi inn í samning fyrri eiganda við byggingarstjóra mannvirkisins eða nýr byggingarstjóri sé ráðinn fyrir mannvirkið í heild. Verða kærendur því ekki taldir bera hlutlæga ábyrgð samkvæmt nefndu lagaákvæði á fram­kvæmdum sem kunna að hafa átt sér stað áður en þeir eignuðust fyrrnefndar fasteignir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja rannsókn málsins og rökstuðning hinna kærðu ákvarðana haldin þeim annmörkum að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 9. september 2020 um að leggja 20.000 króna dagsektir á eigendur Lónsbrautar 52 og 54.

85/2020 Litlikriki

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 15. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 2. september 2020 um að synja beiðni um endurupptöku á umsókn kæranda um fastanúmer fyrir aukaíbúð í húsi hans að Litlakrika 37.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Litlakrika 37, Mosfellsbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 2. september 2020 að synja beiðni um endurupptöku á umsókn hans um fastanúmer fyrir aukaíbúð í Litlakrika 37. Er þess krafist að úrskurðarnefndin skeri úr um það hvort skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi og að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um að synja umsókn kæranda um fastanúmer fyrir aukaíbúð í Litlakrika 37.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 20. október 2020.

Málavextir: Með umsókn dags. 12. mars 2020 óskaði eigandi Litlakrika 37, Mosfellsbæ, eftir skráningu á fastanúmeri á aukaíbúð á neðri hæð fasteignarinnar. Var beiðnin rökstudd með því að fordæmi væru fyrir því að húseigendur hafi fengið fastanúmer skráð á aukaíbúð.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 24. apríl s.á. og henni hafnað. Í bókun nefndarinnar sagði: „Skipulagsnefnd hafnar nýju fastanúmeri þar sem skipulagið gerir ekki ráð fyrir að breyta einbýlishúsum í tvíbýlishús þó heimilt sé að vera með aukaíbúð er þar ekki átt við séreign.“ Þessi afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 29. s.m.

Hinn 30. júní 2020 barst Mosfellsbæ krafa frá Húseigandafélaginu fyrir hönd eiganda Litlakrika 37 þar sem þess var krafist að ákvörðun skipulagsnefndar frá 24. apríl s.á. yrði endurskoðuð með vísan til þess að þrjú önnur hús í götunni hafi fengið skráð fastanúmer fyrir íbúð í húsinu. Á fundi bæjarráðs 20. ágúst s.á. var ósk um endurupptöku hafnað og í bókun ráðsins sagði: „Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga um skilyrði fyrir endurupptöku stjórnvaldsákvarðana eru ekki uppfyllt, enda hafi ákvörðun hvorki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né hafi atvik breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Óheimilt er að samþykkja breytingar í andstöðu við gildandi skipulag, fordæmi sem vísað er til breyti engu þar um.“ Þessi afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 2. september 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er tekið fram að þegar hann hafi lagt fram upphaflega beiðni sína til skipulagsnefndar um að fá fastanúmer á aukaíbúð hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að bæjarráð hafi áður verið búið að samþykkja fastanúmer á aukaíbúð í Litlakrika 31, Litlakrika 33 og Litlakrika 39. Kærandi hafi aðeins heyrt um að bæjarráð hafi veitt slíkt samþykki. Við fyrri meðferð málsins hjá skipulagsnefnd og í bæjarráði hafni kærandi því að tekið hafi verið tillit til þess að skipulagsnefnd og bæjarráð hafi áður veitt slíkt samþykki heldur aðeins litið til skipulags svæðisins, sbr. það sem fram komi í bréfi bæjarráðs til kæranda 28. apríl 2020. Þegar bréfið hafi borist honum hafi ekki hvarflað að kæranda að skipulagsnefnd og bæjarráð myndu láta annað gilda um hús hans en annarra. Það hafi ekki verið fyrr en hann leitaði til Húseigandafélagsins og fengið eignaskiptasamninga að áðurnefndum þremur húsum að honum hafi orðið fyllilega ljóst að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafi afgreitt erindi hans með öðrum hætti en þeirra. Kærandi staðhæfi að fyrst við meðferð endurupptökumálsins hafi skipulagsnefnd verið ljósar aðstæður þess að bæjaryfirvöld hafi samþykkt aukaíbúðir í fyrrgreindum húsum þrátt fyrir fyrirmæli deiliskipulagsins. Í öllum tilvikum hafi eigendur þessara húsa látið gera eignaskiptayfirlýsingar sem byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar hafi samþykkt. Það hafi því farið fram hjá „kerfinu“ og ekki komið til umfjöllunar með beinum hætti í skipulagsnefnd og bæjarráði Mosfellsbæjar.

Á fundi bæjarstjórnar 2. september 2020 hafi formaður skipulagsnefndar upplýst að nefndin hafi, eftir að málið hafi komið aftur inn á borð hennar, látið fara fram athugun á ástæðum þess að eigendur þessara þriggja húsa hafi fengið samþykki fyrir fastanúmeri á aukaíbúðirnar. Þá hafi verið leitað eftir því við Skipulagsstofnun hvort skipulagsnefnd væri stætt á því að synja kæranda um slíka skráningu þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi veitt þessum aðilum heimild til að fá fastanúmer á aukaíbúðirnar þrátt fyrir skipulagið. Af framangreindu sé ljóst að málið hafi hlotið efnislega umfjöllun og því endurupptekið í skilningi stjórnsýslulaganna og erindi kæranda afgreitt.

Það sé megintilgangur stjórnsýslulaganna að setja þeim sem fari með opinbert vald reglur til að fara eftir til að tryggja jafnræði og koma í veg fyrir mismunun við meðferð mála. Þeir sem séu í svipaðri stöðu eigi að geta gengið út frá því að fá sömu afgreiðslu á beiðnum sínum. Kærandi hafi því mátt treysta því að skipulagsnefnd og bæjarráð myndu við meðferð umsóknar hans afgreiða erindi hans með sama hætti og annarra sem hafi verið í svipaðri stöðu og hann. Sú hafi hins vegar ekki verið raunin. Eigendur Litlakrika 31, 33 og 39 hafi fengið heimild Mosfells­bæjar til að fá sérstakt fastanúmer á aukaíbúðir í húsum þeirra en kæranda hafi verið hafnað á grundvelli þess að skipulagið heimili það ekki.

Með nefndri afgreiðslu telji kærandi að skipulagsnefnd og bæjarráð Mosfellsbæjar hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Bæjarráð virðist telja að þessi regla eigi ekki við ef stjórnvald sýni fram á að mistök hafi verið gerð við afgreiðslu fyrri mála. Samkvæmt því sem fram hafi komið í ræðu formanns skipulagsnefndar á fundi bæjarstjórnar 2. september 2020 að byggingarfulltrúi hafi gert mistök þegar samþykkt hafi verið að veita eigendum Litlakrika 33 leyfi til að skrá aukaíbúð á sérstakt fastanúmer. Sömu mistök hafi verið gerð þegar eiganda Litlakrika 31 hafi verið veitt sama heimild og aftur árið 2017 þegar eigandi Litlakrika 39 var veitt sama heimild. Húsin sem byggð séu með aukaíbúð séu fimm. Eigandi Litlakrika 35, sem sé fimmta húsið með sérstaka aukaíbúð, hafi ekki farið fram á sérstakt fastanúmer á þeirri íbúð. Afgreiðsla skipulagsnefndar kunni að vera réttlætanleg ef sýnt sé fram á ein mistök eða hugsanlega tvenn en þegar mistökin séu þrenn og nái til meirihluta þeirra húsa sem um ræði geti stjórnvald ekki borið fyrir sig yfirsjón eða mistök. Í þeim tilvikum geti stjórnvaldið ekki afgreitt umsóknir með öðrum hætti en fyrri umsóknir og vísað til deiliskipulags svæðisins. Þess í stað hafi Mosfellsbæ borið að grípa til aðgerða svo kærandi fengi sömu afgreiðslu og fyrri umsækjendur með deiliskipulagsbreytingu ef aðrar leiðir væru ekki færar.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Beiðni kæranda frá 12. mars 2020 um fastanúmer fyrir aukaíbúð hafi verið tekin fyrir og synjað á fundi skipulagsnefndar 24. apríl s.á. og hafi niðurstaða skipulagsnefndar verið staðfest af bæjarstjórn á fundi 29. s.m. Í erindi kæranda sé vísað til þess að fordæmi séu fyrir skráningu fastanúmers á aukaíbúðir í götunni. Í minnisblaði starfsmanns umhverfissviðs sem hafi legið til grundvallar afgreiðslu málsins hafi verið farið ítarlega yfir skipulag í hverfinu, þ. á m. heimild til að hafa aukaíbúðir líkt og rakið hafi verið. Við afgreiðslu málsins hafi því legið fyrir allar þær upplýsingar sem vísað hafi verið til í endurupptökubeiðni Húseigandafélagsins fyrir hönd kæranda, líkt og sjá megi af efni upphaflegs erindis og minnisblaði sem hafi legið til grundvallar ákvörðunar skipulagsnefndar.

Í samræmi við samþykktir um stjórn Mosfellsbæjar hafi erindi Húseigandafélagsins um endur­upptöku ákvörðunar skipulagsnefndar og bæjarstjórnar verið lagt fyrir bæjarráð. Líkt og fram hafi komið í niðurstöðu bæjarráðs hafi við skoðun á beiðninni ekki verið fallist á að ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli rangra og ófullnægjandi upplýsinga enda hafi engar nýjar upplýsingar verið lagðar fram með endurupptökubeiðninni. Skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku hafi því ekki verið uppfyllt.

Því sé jafnframt hafnað sem fram komi í kæru að niðurstaða bæjarráðs um endurupptöku beri með sér að málið hafi fengið efnislega umfjöllun og hafi því verið endurupptekið í skilningi stjórnsýslulaga. Í ákvörðuninni sé einfaldlega verið að endurtaka forsendur sem fram hafi komið í höfnun skipulagsnefndar og sé því rökstuðningur fyrir því að ákvörðun hafi verið byggð á fullnægjandi upplýsingum. Við meðferð endurupptökubeiðni sé rétt og eðlilegt að stjórnvald fari yfir á hvaða grundvelli ákvörðun hafi verið byggð og hvaða upplýsingar hafi legið til grundvallar töku ákvörðunar Í því felist eðlileg rannsókn stjórnvalds á því hvort skilyrði til endurupptöku séu til staðar. Með slíkri skoðun uppfylli stjórnvald rannsóknarskyldu sína á formhlið ákvörðunar og með engu móti sé hægt að halda fram að í slíkri skoðun felist að efnisleg afstaða sé tekin til málsins. Þá sé rétt að hafa í huga að þrátt fyrir að beiðni um endurskoðun ákvörðunar skuli berast bæjarráði samkvæmt samþykktum um stjórn Mosfellsbæjar þá lúti hlutverk bæjarráðs eingöngu að því að taka afstöðu til endurupptöku málsins, efnisleg meðferð mála sé ávallt í höndum þeirra fastanefndar sem fari með viðkomandi málaflokk.

Því sé hafnað sem röngu og órökstuddu að höfnun endurupptökubeiðninnar hafi haft þann tilgang einan að koma í veg fyrir að hægt væri að kæra málið til úrskurðarnefndar um efnisatriði málsins. Ekkert hafi komið í veg fyrir að kærandi kærði ákvörðun um höfnun fastanúmers fyrir aukaíbúð til úrskurðarnefndarinnar þegar í kjölfar þeirrar ákvörðunar í apríl. Megi jafnframt vísa til þess að athygli kæranda hafi verið vakin á kæruheimild í bréfi þar sem niðurstaða skipulagsnefndar hafi verið kynnt dags. 28. apríl 2020. Það að kærandi hafi ekki nýtt kæru­heimild innan kærufrests geti ekki verið á ábyrgð Mosfellsbæjar. Ákvæðum 24. gr. stjórnsýslu­laga um endurupptöku ákvörðunar sé ekki ætlað að vera varaleið fyrir kæranda sem ekki nýtir kæruheimild innan kærufrests til að fá ákvörðun endurskoðaða heldur sé um að ræða öryggis­ventil þegar raunverulegar líkur séu á því að stjórnvaldsákvörðun hafi ekki byggt á fullnægjandi og réttum upplýsingum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að ekki sé verið að deila um það hvort kærufrestur vegna synjunar bæjarstjórnar 28. apríl sé liðinn eða ekki. Deilan sé um það hvort skilyrði fyrir endurupptöku hafi verið uppfyllt. Kærandi telji að fyrri ákvörðun skipulagsnefndar og bæjarstjórnar hafi byggst á ófullnægjandi og jafnvel röngum upplýsingum um málsatvik. Einnig sé deilt um það hvort skipulagsnefnd og bæjarráð hafi með því að vísa málinu ekki frá heldur taka það aftur á dagskrá hafi skipulagsnefnd í raun endurupptekið málið. Því sé um að ræða nýja ákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Það liggi fyrir að málið hafi verið tekið fyrir á tveimur fundum skipulagsnefndar áður en það hafi verið afgreitt með vísan til þess að skilyrði endurupptöku hafi ekki verið fyrir hendi. Í bréfi nefndarinnar komi jafnframt fram að óheimilt sé að samþykkja breytingar í andstöðu við gildandi skipulag, fordæmi sem vísað sé til breyti engu þar um.

Með bréfi, dags. 26. október 2020, til Skipulagsstofnunar hafi kærandi óskað eftir nánari upplýsingum frá stofnuninni og svörum við tilteknum spurningum, þ.m.t. um það álit sem stofnunin hafi veitt skipulagsnefnd Mosfellsbæjar og hvenær. Þau svör hafi þó ekki borist.

Hvað varði athugasemdir bæjarlögmanns Mosfellsbæjar, sbr. bréf hans 15. október 2020, þá haldi hann því fram að allar upplýsingar hafi legið fyrir við afgreiðslu skipulagsnefndar á fyrra erindi kæranda, þ.m.t. hvaða aðilar við Litlakrika hafi fengið samþykki fyrir fastanúmeri á aukaíbúðir sínar. Engin gögn hafi fylgt með í bréfi bæjarlögmannsins því til stuðnings. Í minnisblaði starfsmanns Mosfellsbæjar sé einungis minnst á gildandi skipulag en ekkert minnst á að þrír af fimm eigendum hafi fengið samþykki fyrir að skrá aukaíbúðir sínar með sérstöku fastanúmeri. Það verði því að miða við að ekki hafi legið fyrir önnur gögn fyrir skipulagsnefnd en nefnt minnisblað.

Fyrir liggi að mistök hafi verið gerð hjá Mosfellsbæ við afgreiðslu umsókna sem hafi leitt til þess að umsækjendum um fastanúmer hafi verið mismunað. Þeir sem hafi farið bakdyramegin með gerð eignaskiptasamninga hafi fengið samþykki bygginganefndar Mosfellsbæjar fyrir aukaíbúðum í húsum sínum en þeir sem hafi farið rétta leið eins og kærandi hafi verið hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar um að synja umsókn hans um fastanúmer fyrir aukaíbúð í húsi hans að Litlakrika 37.

Umsókn kæranda, dags. 12. mars 2020, var beint til byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar. Óskaði kærandi eftir fastanúmeri á aukaíbúð á neðri hæð Litlakrika 37, en íbúðin væri samþykkt og um 60 m2 að stærð. Vísaði kærandi til þess að fordæmi væru fyrir því að húseigendur við götuna hafi fengið fastanúmer á aukaíbúðir sínar og vonaðist hann eftir samþykki skipulagsnefndar sem fyrst.

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir einbýlishúsi sem hefur heimild fyrir auka­íbúð á umræddri lóð. Húsið sem um ræðir, sem byggt var árið 2015, er samkvæmt byggingar­leyfi einbýlishús með aukaíbúð. Til þess að fá útgefið fastanúmer fyrir aukaíbúð þarf því að koma til breyting á byggingarleyfi hússins þess efnis að um sé að ræða tvíbýlishús. Bar bæjar­yfirvöldum því að taka umsóknina til afgreiðslu sem umsókn um breytingu á byggingarleyfi enda er óheimilt að breyta notkun mannvirkis eða fjölda fasteigna í því nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er sveitarstjórn heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og samkvæmt 2. mgr. er sveitarstjórn heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Í 6. mgr. 7. gr. laganna kemur og fram að samþykkt sem sé sett samkvæmt þessari grein skuli lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skuli hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Slík samþykkt er ekki í gildi fyrir Mosfellsbæ og er það því byggingarfulltrúi sem ber að taka loka­ákvörðun um samþykkt eða synjun umsókna um byggingarleyfi.

Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi afgreitt umrædda umsókn kæranda með efnislegum hætti og skortir því á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Liggur af þeim sökum fyrir að umsókn kæranda um að aukaíbúð í húsi hans verði breytt í sérstaka fasteign hefur ekki hlotið lögboðna afgreiðslu bæjaryfirvalda og því er ekki fyrir hendi ákvörðun sem sætt getur endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

110 og 125/2020 Gufunesviti

Með

Árið 2020, föstudaginn 11. desember fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2020, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 56, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Hamrahverfis og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða. Gerð er krafa um að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Í tölvupósti 17. nóvember s.á. gerir hann jafnframt þá kröfu að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. nóvember 2020, er barst nefndinni 26. s.m., kærir eigandi, Leiðhömrum 54, sömu ákvarðanir. Þar sem kæran varðar sömu ákvarðanir, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það kærumál, sem er nr. 125/2020, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. nóvember 2020.

Málavextir: Á svæðinu sem um ræðir er í gildi deiliskipulag Hamrahverfis sem tók gildi 1985. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Reykjavíkur 2. október 2019 var samþykkt deili­skipulagsbreyting fyrir svæðið án grenndarkynningar eða auglýsingar, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með deiliskipulagsbreytingunni sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. nóvember 2019 var skipulagssvæðið stækkað og mörk þess færð til norðvestur yfir hverfisverndarsvæði Gufuneshöfða að strandsvæði. Kveðið var á um að tvö möstur með innsiglingarmerkjum yrðu fjarlægð og í stað þeirra sett nýtt innsiglingarmastur með innsiglingarmerki fyrir nýja innsiglingalínu sem hliðrað væri til um 105 m til norðausturs frá þeirri sem fyrir var. Með deiliskipulagsbreytingu sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. júlí 2020 var gert ráð fyrir að mastrið með siglingamerkinu yrði um 15 m hátt í stað 10 m og akslóði að því gerður varanlegur en ekki tímabundinn eins og gert var ráð fyrir í fyrri deiliskipulagsbreytingu. Hefur þeirri skipulagsbreytingu ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. ágúst 2020 var tekin fyrir og samþykkt umsókn Faxaflóahafna um leyfi til að koma fyrir mastri með innsiglingamerki á Gufuneshöfða. Byggingarleyfi var gefið út 2. október s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að ríkar takmarkanir gildi um hvað og hvernig megi byggja á Gufuneshöfða. Nauðsynlegt sé að stíga varlega til jarðar og að væntan­legar breytingar á deiliskipulagi séu kynntar vel og vandlega fyrir öllum hlutaðeigandi aðilum, bæði stofn­unum sem og nágrönnum. Samkvæmt úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­­mála beri að túlka ákvæði skipulagslaga svo að skyldan til grenndarkynningar sé mjög rík.

Gerðar hafi verið tvær breytingar á deiliskipulagi Gufuneshöfða. Fyrri breytingin hafi falið í sér að fjarlægja skyldi innsiglingamerki við Gufuneshöfða og koma fyrir nýju innsiglingamerki um 105 m til norðausturs, vestan Leiðhamra/Krosshamra. Við þessa breytingu hafi deili­skipulagssvæðið verið stækkað og mörk þess færð norðvestur yfir hverfisverndarsvæði Gufuneshöfða að strandsvæði. Þar hafi komið fram að uppdrættir hafi hlotið meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þessi breyting hafi ekki verið grenndarkynnt. Seinni breytingin hafi falið í sér að leyfileg hæð masturs yrði 15 m í stað 10 m ásamt því að akfær slóði yrði varanlegur en ekki tímabundinn. Þessi breyting hafi verið grenndarkynnt frá 27. apríl til 25. maí 2020.

Hafi hækkun á mastrinu og breyting á slóða verið grenndarkynnt en ekki ný staðsetning, sem hafi jafn mikil ef ekki meiri áhrif á útsýni og notkun svæðisins fyrir íbúa hverfisins. Það sé því skýrt brot á 43. og 44. gr. skipulagslaga. Fari kærendur því fram á að byggingarleyfi fyrir mastrið sem gefið hafi verið út á grundvelli deiliskipulags sem hafi ekki fengið rétta efnislega meðferð verði fellt úr gildi, og sömuleiðis deiliskipulagsbreytingin frá 2019.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna Gufuneshöfða þar sem heimild liggi fyrir að reisa mastur á svæðinu fyrir innsiglingamerki. Sérstaklega skuli á það bent að kærendur geri ekki neinar efnislegar athuga­semdir við byggingarleyfið sjálft, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess.

Kærufrestur sé liðinn vegna gildistöku tveggja breytinga á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna Gufuneshöfða og beri því að vísa þeim hluta málsins frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir annars kærenda: Kærandi vísar til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 7/2019 um að undanþágur frá reglum um deiliskipulagsbreytingar beri að túlka þröngt, þar með taldar undanþágur frá grenndarkynningu. Deiliskipulagsbreyting sem tók gildi með auglýsingu nr. 1002/2019 í B-deild Stjórnartíðinda hafi ekki verið grenndarkynnt. Þar af leiðandi hafi hagsmunaaðilum ekki verið gefinn kostur á að koma með athugasemdir við nýja staðsetningu á innsiglingarmastrinu, aðkomu að því og hæð. Hinn 24. september 2019 hafi Umhverfisstofnun skilað skýrslu til Faxaflóahafna þar sem meðal annars hafi komið fram: „að mati Umhverfisstofnunar mun innsiglingamerkið hafa áhrif á ásýnd svæðisins og geti haft neikvæð áhrif á verndargildi hverfisverndarsvæðisins og náttúruminjar.“ Enn fremur hafi staðið í skýrslunni: „Þar sem framkvæmdarsvæðið er tiltölulega óraskað leggur Umhverfisstofnun til að raski verði haldið í lágmarki og við framkvæmdir svo sem vegaframkvæmdir verði gróður­torfur lagðar til hliðar þegar það á við og þeim komið fyrir á yfirborði í lok frágangs til að draga úr neikvæðum áhrifum á gróður. Í greinargerð kemur fram að gengið verður frá þeim svæðum þar sem mastur eru fjarlægð á þann veg að ummerki hverfi með uppgræðslu og skal notast við staðargróður í þeim tilgangi. Umhverfisstofnun telur heppilegast að notast sé við lyngmóavist og grasengjavist og forðast sé að nota lúpínu við uppgræðslu.“

Nokkuð ljóst þyki að nægur tími hafi verið til að kynna væntanlegar breytingar fyrir íbúum í nágrenninu sem og notendum svæðisins og óska eftir athugasemdum og að samkvæmt ofan-töldum athugasemdum beri að túlka áhrif breytinganna á umhverfið sem allverulegar og þar af leiðandi sé enn ríkari ástæða til að kynna þær fyrir nágrönnum og eðli málsins samkvæmt hafi málsmeðferðin jafnframt áhrif á kærufrestinn og undanþágur vegna hans.

Heimilt sé að víkja frá tímamörkum um kærufrest í ákveðnum tilfellum og það beri að túlka kærufrest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem ár frá því að kæranda hafi verið tilkynnt eða hann upplýstur um málið, sbr. úrskurð í máli nr. 36/2020. Kærandi hafi fengið staðfestingu á deiliskipulagsbreytingunni þegar svar hafi borist frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar við athugasemdum við seinni deiliskipulagsbreytinguna 8. júlí 2020. Þessi kæra sé vel innan tímamarka miðað við þá dagsetningu og því sé gerð sú krafa að úrskurðarnefnd taki málið til efnislegrar meðferðar.

Af meðfylgjandi myndum megi sjá að heilmikill munur sé á aðkomu að núverandi innsiglingar­merki og að byggingarsvæði nýja innsiglingarmerkisins. Slóðinn að byggingarsvæðinu sé uppbyggður vegur, ekki jöfnuð jörð til að auðvelda aðkomu ökutækja að svæðinu. Það virðist því vera að byggingaraðilar hafi farið fram úr sér hvað gerð og staðsetningu slóðans varði, það megi meðal annars sjá þegar bornar séu saman myndir af vettvangi og lýsing í skýrslu Umhverfisstofnunar sem og byggingarleyfið sjálft.

Varðandi byggingarleyfið þá sé það byggt á deiliskipulagi sem hafi ekki farið rétta leið í kerfinu, þar af leiðandi beri að fella það úr gildi. Að auki hafi ekki verið rökstutt nægjanlega af hverju það þurfi varanlegan slóða að innsiglingarmerkinu, af hverju það þurfi að vera 15 m á hæð, samtals 51 m yfir sjávarmáli, hvað ljósmerkið þurfi að ná langt út á sjó og nauðsynlega hæð yfir sjávarmáli til að ná þeirri drægni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Auglýsing um gildistöku eldri deiliskipulagsbreytingarinnar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. nóvember 2019. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 21. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni 6. og 20. nóvember 2020 eða tæpum 11 mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður ekki talið að nefndur dráttur geti talist afsakanlegur eða önnur atvik séu fyrir hendi í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga svo að málið verði tekið til efnismeðferðar að liðnum kæru­fresti. Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni. Sú ákvörðun sem deilt var um í máli nr. 36/2020 sem kærandi vísar til sætti ekki opinberri birtingu. Eiga því ekki sömu sjónarmið við og í þessu kærumáli.

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir að reist verði 15 m hátt mastur með búnaði efst með stefnuvirkandi ljósi. Þá er heimiluð lagning akfærs aðkomuslóða að mastrinu frá útivistarstíg sem liggur vestan íbúðarbyggðar. Ekki verður annað séð en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og málsmeðferð þess hafi verið í samræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki. Verður kröfu um ógildingu þess af þeim sökum hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða.

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis er vísað frá úrskurðar­nefndinni.

108/2020 Hverfisgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 4. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hverfisgötu 73, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73. Var byggingarleyfi gefið út 12. október 2020. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða byggingarleyfis. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. nóvember 2020.

Málavextir: Á svæði því sem lóðin Hverfisgata 73 tilheyrir er í gildi deiliskipulag Skúlagötu­svæðis sem samþykkt var 13. maí 1986. Með umsókn, dags. 28. maí 2018, var sótt um breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 73 við Hverfisgötu. Í henni fólst að heimilt yrði að hækka hús á lóðinni og stækka til norðurs, setja kvisti á norður- og suðurhlið þess og svalir á fyrstu hæð og rishæð samkvæmt uppdráttum. Einnig lá fyrir samþykki með­lóðarhafa, dags. 29. júní 2018. Var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og samgöngu­ráðs sem samþykkti að auglýsa framlagða skipulagstillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst frá 27. júlí 2018 með athugasemdarfresti til 13. september s.á., en engar athugasemdir bárust. Tillagan var samþykkt á embættis­afgreiðslu­­fundi skipulags­fulltrúa 21. september 2018 með vísan til heimilda skv. viðauka 2.4. við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Auglýsing um samþykkt deiliskipulags­breytingar­innar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2018.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. apríl 2019 var samþykkt byggingar­leyfisumsókn um að byggja viðbyggingu og endurnýja matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 með vísan til fyrrgreindrar breytingar á deiliskipulagi svæðisins.  Umsókninni fylgdi umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 2. janúar 2019. Byggingarleyfi var síðan gefið út 12. október 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hann eigi í óskiptri sameign með byggingar­leyfishafa baklóð þá við Hverfisgötu sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi nú heimilað framkvæmdir á, auk þess sem hann eigi hlut í húsi því sem standi við Hverfisgötu 73. Hann hafi samþykkt byggingaráform byggingarleyfishafa fyrir sitt leyti á fyrri stigum málsins. Samþykkið hafi hann þó dregið afdráttarlaust til baka 25. ágúst 2020 þegar hann hafi gert sér grein fyrir því að áætlanir leyfishafa hafi verið langt umfram það sem hann hafi gert sér grein fyrir. Haft hafi verið samband við embætti byggingarfulltrúa og póstur sendur 25. ágúst s.á. þar sem gerð hafi verið skýr grein fyrir málsástæðum og afturköllun samþykkisins. Af einhverjum ástæðum hafi þó starfsmenn byggingarfulltrúa ekki komið mótmælum og afturkölluninni í málið. Eins og lesa megi af tölvupóstinum sé sérstaklega farið fram á að embætti byggingar­fulltrúa upplýsi um framgang málsins en það hafi hann ekki gert. Þvert á móti hafi hann beinlínis lagt sig fram um að veita ekki upplýsingar og svara ekki erindum kæranda.

Með því að heimila leyfishafa að byggja á lóð kæranda gegn vilja hans sé verið að brjóta gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti sem verði ekki gert bótalaust. Þá komi fram í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 meginreglur um samskipti stjórnvalda við borgarana, t.a.m. að stjórnvald eigi að svara erindum. Í 24. gr. laganna segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í máli því sem hér sé kært hagi einmitt svo til að ákvörðun byggingarfulltrúa byggi á röngum upplýsingum, þ.e.a.s. að fyrir liggi í málinu samþykki lóðareiganda. Það sé hins vegar rangt og hafi legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Ein af meginreglum íslensks skaðabótaréttar hafi lengi verið að takmarka skuli tjón eins og frekast sé unnt. Í málinu sé ljóst að byggingarfulltrúi hafi ekkert gert eða aðhafst til þess að takmarka tjón. Ljóst sé að eftir því sem tíminn líði og byggingarframkvæmdir haldi áfram því meira verði tjónið. Kjarni málsins sé því sá að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að veita byggingarleyfi á lóð í eigu kæranda gegn vilja hans.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að kært byggingarleyfi sé samþykkt og gefið út í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br. Áður en til útgáfu byggingarleyfis hafi komið hafi byggingarfulltrúa borist undirritað samþykki meðeiganda, dags. 29. júní 2018. Bent sé á að byggingaráform hafi verið samþykkt á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. apríl 2019 en byggingarleyfi gefið út 12. október 2020.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar benda á að þau hafi frá upphafi haft samráð við kæranda. Hafi hann ekki sett sig upp á móti framkvæmdunum til þessa. Þvert á móti hafi hann stutt byggingaráformin enda séu þau honum til hagsbóta þar sem hann muni eignast sér inngang inn í fasteign sína og þurfi ekki lengur að búa við það að leyfishafar nýti sér kvöð um inngang í gegnum fasteign hans. Þá séu breytingarnar til þess fallnar að viðhalda og fegra friðaðan timburhúsareit í borginni og hafi þær allar verið unnar í nánu samstarfi við Minjastofnun.

Kærandi hafi allt frá því deiliskipulagsbreytingar voru auglýstar í júlí 2018 haft tækifæri til að koma að athugasemdum vegna málsins. Það hafi hann ekki gert fyrr en byggingarleyfið hafi verið gefið út. Þau rök að kæranda hafi ekki gert sér grein fyrir áætlunum byggingarleyfishafa dugi skammt enda hafi umfang framkvæmdanna komið fram í deiliskipulagi frá 21. september 2018 og kæranda því fullkunnugt um þær. Að lokum sé bent á að um sé að ræða eignarlóð sem sé að hluta til séreign og að hluta sameign, sbr. eignaskiptayfirlýsingu frá maí 2003. Framkvæmdirnar séu innan þess hluta sem leyfishafar telji sína séreign. Ekki fáist séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skal eftir atvikum fylgja umsókn um byggingarleyfi samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Þá tilkynnir byggingarfulltrúi samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga um samþykkt byggingar­áforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði. Jafnframt er tekið fram í 13. gr. að eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Skúlagötusvæðis frá árinu 1986. Samþykkt var breyting á nefndu skipulagi 21. september 2018 vegna lóðarinnar nr. 73 við Hverfisgötu. Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að auka þakhæð timburhúss á lóðinni og byggja kvisti í samræmi við aldur og byggingarstíl þess. Heimilt sé að hækka húsið með því að portbyggja rishæðina og einnig sé heimilt að byggja kvist á þak báðum megin. Gert sé ráð fyrir að byggja tvílyfta viðbyggingu til norðurs og færa inngang á suðurhlið hússins. Þar er nánar lýst skilmálum, s.s. að byggja megi allt að 25 m² viðbyggingu við húsið innan byggingarreits til norðurs og að leita þurfi umsagnar Minjastofnunar um breytingarnar. Hámarksbyggingarmagn lóðarinnar fari í 263,9 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 1,0. Í greinargerðinni eru einnig skýringarmyndir, s.s. götumyndir og lóðarmynd eftir heimilaðar breytingar.

Byggingaráform vegna hinna umdeildu framkvæmda voru samþykkt 16. apríl 2019 og byggingar­­leyfi gefið út 12. október 2020. Á árituðum aðaluppdráttum kemur m.a. fram að fyrirhuguð stærð eftir breytingar verði 242,8 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,94. Í byggingar­lýsingu er tiltekið að byggingin sé innan skilmála skipulagsyfirvalda um hámarkshæð og stærðir. Þak verði rifið og bætt við nýrri léttri portbyggðri rishæð. Viðbygging verði steyptur kjallari, einangraður að innan, sökkull og plata, en efri hæð verði létt timburbygging og timbur­svalir. Liggur ekki annað fyrir en að samþykkt byggingaráform og útgefið byggingarleyfi séu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Kærandi samþykkti fyrrgreinda breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir sitt leyti með áritun sinni á deiliskipulagsuppdrátt, dags. 22. maí 2018. Svo sem að framan hefur verið rakið er að finna nákvæma lýsingu í greinargerð skipulagsbreytingarinnar á því hvað sé heimilað að byggja á lóðinni og hversu mikið. Þá er þar jafnframt að finna skýringarmyndir sem sýna á myndrænan hátt heimilaðar breytingar á lóðinni. Verður því ekki önnur ályktun dregin en að með umdeildu samþykki hafi kærandi fallist á fyrirhuguð byggingaráform leyfishafa í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, en það samþykki lá fyrir við samþykki umsóknar um hið kærða byggingarleyfi. Tekið skal fram að það fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til gildis afturköllunar samþykkis kæranda. Það álitaefni ræðst af túlkun reglna samningaréttar og verður eftir atvikum til lykta leitt fyrir dómstólum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 í Reykjavík.

95/2020 Stígar í Snæfellsbæ

Með

Árið 2020, föstudaginn 4. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2020, kæra á ákvörðun Snæfellsbæjar um að leggja göngu- og hjólastíg meðfram sjávarsíðu við Keflavíkurgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2020, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur Keflavíkurgötu 1-23 (oddatölur) þá ákvörðun Snæfellsbæjar að leggja göngu- og hjólastíg meðfram sjávarsíðu Keflavíkurgötu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Gera kærendur jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með tölvupósti 21. október 2020 upplýstu bæjaryfirvöld að framkvæmdum yrði frestað þar til að lokinni vettvangsferð úrskurðarnefndarinnar sem fór fram 25. nóvember s.á. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Snæfellsbæ 16. og 19. október 2020.

Málavextir: Hina kærðu framkvæmd má rekja til ársins 2013 er sveitarfélagið lagði göngu- og hjólreiðastíg á milli Hellissands og Rifs. Í framhaldi af því var lagður áframhaldandi stígur á milli Rifs og Ólafsvíkur 2014 sem síðan var malbikaður 2017. Haldið var áfram á Hellissandi árið 2018 og gerð sjóvörn og stígur við sjávarsíðuna og var sá stígur malbikaður 2019. Í beinu framhaldi var síðan reist brú yfir Höskuldsá árið 2020 sem á að tengja þann stíg við göngustíg meðfram sjónum inn að Keflavíkurvör sem tengir stíginn sem kemur innan úr Ólafsvík við stíginn sem fyrir er. Er það sá stígur sem um er deilt í máli þessu.

Í september 2020 urðu kærendur varir við að hinar kærðu framkvæmdir væru að hefjast. Hinn 10. s.m. leitaði íbúi við Keflavíkurgötu upplýsinga hjá skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins sem upplýsti að fyrirhugað væri að leggja stíginn haustið 2020. Í kjölfar þess skrifuðu íbúar við sjávarsíðu Keflavíkurgötu mótmælabréf sem tekið var fyrir í bæjarstjórn 1. október s.á. Í bókun bæjarstjórnar kom fram að mótmælin hefðu þurft að koma fram fyrr. Þessi framkvæmd hafi verið vel kynnt bæði við málsmeðferð Aðalskipulags Snæfellsbæjar 2015-2031, sem hafi tekið gildi 5. júlí 2018, og þá hafi stígurinn verið kynntur einn og sér.

Í nóvember 2020 stóð til að koma fyrir jarðvegi í fyrirhugaðan stíg frá Höskuldsá að þverstígnum sem liggur á milli Keflavíkurgötu 17 og 19. Í júlí 2021 er fyrirhugað að sá hluti stígsins verði malbikaður. Árið 2024 er síðan stefnt að framkvæmdum við stíginn frá Keflavíkurgötu 17 að Keflavíkurvör.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram að umræddur stígur muni liggja í mikilli nálægð við fasteignir þeirra og muni spilla því útsýni og næði sem íbúar hafi sóst eftir þegar þeir hafi fengið úthlutað þessum sjávarlóðum eða keypt þarna fasteignir.

Framkvæmdir á umræddum stíg hafi hafist í september 2020 þegar reist hafi verið brú yfir á við Keflavíkurgötu 1, sem ætlunin sé að tengi saman núverandi og fyrirhugað stígakerfi við sjávarsíðu Keflavíkurgötu. Íbúum hafi ekki verið kunnugt um að fara ætti í þessar fram­kvæmdir. Í kjölfarið, eða 10. september s.á., hafi einn íbúa Keflavíkurgötu leitað svara hjá skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins sem hafi tjáð viðkomandi með tölvupósti að leggja hafi átt stíginn um haustið 2020. Hafi þá allir íbúar við sjávarsíðu Keflavíkurgötu sent mótmælabréf, dags. 16. september 2020, til bæjaryfirvalda vegna framkvæmdanna. Flestir íbúar hafi komið af fjöllum og ekki kannast við umræddar framkvæmdir fyrr en við undirritun mótmælabréfs.

Mótmælabréfið hafi verið tekið fyrir hjá bæjarstjórn 1. október 2020 og bókað þar að mótmæli hafi þurft að koma fram fyrr og að framkvæmdin hafi verið vel kynnt. Kærendur telji hins vegar að ekki hafi verið réttilega staðið að kynningu á umræddri framkvæmd og að mótmæli íbúa hefðu komið fram fyrr hefði fyrirhugaður stígur verið almennilega kynntur íbúum og sérstaklega þeim sem eigi hagsmuna að gæta vegna framkvæmdarinnar. Hún hafi þannig aldrei verið kynnt íbúum svæðisins með beinum hætti svo sem með grenndarkynningu þrátt fyrir að skipulagsuppdráttur sýni að stígurinn fari inn fyrir lóðarmörk nokkurra lóða, þ.e. nr. 1, 3 og 5 við Keflavíkurgötu. Viðburðir þar sem framkvæmdin hafi verið kynnt, þ.e. íbúafundur og gönguferð, hafi verið auglýstir á Facebook síðu og heimasíðu Snæfellsbæjar og í bæjarblaðinu Jökli. Þessar auglýsingar séu engan veginn nægjanlegar í þessu tilfelli og þessi framkvæmd sé þess eðlis og gangi það nærri friðhelgi íbúa að eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að vera í beinu samtali við þá. Auk þess hafi umræddar auglýsingar aðeins verið á íslensku þrátt fyrir að íbúar þriggja húsa af tólf við sjávarsíðu Keflavíkurgötu séu af erlendum uppruna.

Kærendur styðji áætlanir um öflugt stígakerfi í Snæfellsæ en undrist að til þess að það verði að veruleika þurfi að leggja stíga með þeim hætti sem hér standi til, án beinnar kynningar og samtals við þá íbúa sem eigi ríkra hagsmuna að gæta. Þessu markmiði megi ná með mun vægara móti, t.d. með því að nýta gangstétt sem nú þegar sé til staðar meðfram akbrautinni á Keflavíkurgötu. Framkvæmdin vegi að næði íbúa með því að beina umferð inn í garða sem sé áhyggjuefni sérstaklega í ljósi aukins ferðamannastraums um Snæfellsnes sem sé fyrirséð að muni aukast enn á komandi árum. Umræddur stígur hafi veruleg áhrif á friðhelgi og útsýni og óttist kærendur að þessar framkvæmdir muni ekki einungis rýra lífsgæði íbúa heldur einnig verðmæti fasteigna á svæðinu. Kærendur vilji að tekið sé tillit til sjónarmiða íbúa sem verði fyrir áhrifum og ónæði af þessum stíg og að fallið verði frá þessum framkvæmdum.

Málsrök Snæfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að gert hafi verið ráð fyrir göngustíg norðan lóða við Keflavíkurgötu um margra ára skeið. Við gerð Aðalskipulags Snæfellsbæjar 2015-2031 hafi verið tekin meðvituð ákvörðun um að gera ráð fyrir umræddum stíg og hafi hann því verið inn á kortagögnum frá fyrstu kynningu vegna lýsingar aðalskipulagsins.

Í greinargerð aðalskipulagsins sé gerð grein fyrir samráði og kynningu á vinnslutíma þess. Þar komi fram að haldnir hafi verið opnir kynningarfundir í Ólafsvík þann 12. mars og á Lýsuhóli 20. apríl 2015, þar sem lýsingin hafi verið kynnt. Á vinnslutíma aðalskipulagsins og umhverfis­skýrslu hafi verið haldnir tveir kynningarfundir á frumdrögum 19. apríl 2016. Markmið fundanna hafi verið að tryggja aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að stefnumótun snemma á vinnslutíma. Þeir kynningarfundir hafi verið umfram lögboðið kynningarferli. Tillaga aðalskipulags og umhverfisskýrsla hafi verið kynnt íbúum og hagsmunaaðilum með vinnu- og kynningarfundum 26. janúar 2017 samkvæmt 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Ýmsir hafi komið upplýsingum og athugasemdum á framfæri og hafi þær verið kynntar fyrir aðalskipulagsnefnd sem hafi tekið afstöðu til þeirra.

Bæjarstjórn hafi samþykkt aðalskipulagstillöguna á fundi sínum 11. apríl 2018 og hafi hún verið send Skipulagsstofnun ásamt framkomnum athugasemdum og svörum við þeim, með beiðni um staðfestingu. Engin athugasemd hafi borist varðandi umræddan stíg norðan byggðar við Keflavíkurgötu þó gönguleiðin hafi verið inni á öllum tillögum frá fyrstu kynningu lýsingar vegna aðalskipulags. Aðalskipulag 2015-2031 hafi síðan verið staðfest af Skipulagsstofnun 20. júní 2018 og auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. júlí 2018.

Í Snæfellsbæ sé lögð áhersla á að leggja gönguleiðir meðfram strönd í þéttbýli þar sem unnt sé að koma því við. Það sé í samræmi við gr. 5.3.2.14 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar standi: „Í þéttbýli skal lögð áhersla á að almenningur geti komist að og meðfram vötnum, ám og sjó eftir því sem hægt er á viðkomandi svæði.“ Það sé skoðun bæjaryfirvalda að allir eigi rétt á aðgengi að ströndinni og að hún sé ekki einkasvæði þeirra sem eigi lóðir sem liggi nærri sjávarsíðunni. Það sé hluti þess að búa í þéttbýli að verða þar var við fólk. Sambærilegt dæmi um strandstíg við lóðarmörk liggi um Skerjafjörð, þar sem fjölfarinn stígur og íbúar aðlægra húsa uni í sátt og samlyndi.

Auk strandstíga í þéttbýli hafi bæjaryfirvöld lagt áherslu á gerð útivistarstígs sem tengi þéttbýlisstaðina Ólafsvík, Hellissand og Rif. Þannig hafi orðið til yfir 10 km langt stígakerfi sem íbúar og gestir nýti sér til heilsubótar og samgangna. Framkvæmdir við útivistarstíginn milli Ólafsvíkur og Rifs hafi hafist árið 2014 og hafi hann verið malbikaður árið 2017. Hann muni víkja frá sjó á hluta hafnarsvæðis af öryggisástæðum og liggi meðfram ströndinni norðan kirkjugarðsins í Ólafsvík og tengjast útivistarstígnum vestast í Ólafsvík.

Árið 2018 hafi framkvæmdir við sjóvörn og stíg norðan Hraðfrystihúss Hellissands hafist og hafi hann verið malbikaður 2019. Í ágúst 2020 hafi verið gerð brú yfir Höskuldsá og sé fyrirhugað að tengja stíg frá brúnni til austurs meðfram ströndinni norðan Keflavíkurgötu, í samræmi við áform í staðfestu aðalskipulagi. Við nánari útfærslu verði verulegur hluti stígsins norðar en gert hafi verið ráð fyrir í aðalskipulagi, svo hann verði enn fjær húsum en þar hafi verið sýnt. Austan Keflavíkur muni umræddur áfangi stígsins tengjast útivistarstígnum frá Rifi. Tengingin muni liggja vestan við Keflavíkurvör, en þar sé áhugaverð tenging við skráðar minjar um sjósókn. Fyrirhugað sé að vestasti áfangi stígsins verði til vesturs frá Hraðfrystihúsi Hellissands í átt að Viðvík og muni hann tengjast yfir þjóðveginn að Þjóðgarðsmiðstöð, tjald­svæði og Sjómannagarðinum á Hellissandi, en það séu allt vinsælir viðkomustaðir gangandi og hjólandi vegfarenda.

Engar athugasemdir hvað varði umræddi framkvæmd hafi komið fram á þeim tíma sem unnt hafi verið að gera athugasemdir við nýtt aðalskipulag. Skipulagið sé lögmætt og sé það mikilvæg staðreynd í þessu sambandi. Með því að hefta aðgang að strandstígnum væri gengið þvert gegn því meginmarkmiði að skapa íbúum og gestum greiðan aðgang að strandlengjunni og þeirri náttúru- og söguperlu sem Keflavíkin sé. Það að leggja stíginn ofan húsa með gangstéttinni við Keflavíkurgötu svipti vegfarendur nálægð við afar fallega strönd og sýn út á Breiðafjörðinn. Það sé því mat Snæfellsbæjar að aðrir kostir séu ekki til staðar til að ná þeim markmiðum.

Í janúar 2020 hafi farið fram enn frekari kynning á stígagerð á Hellissandi. Lagðar hafi verið fram nánari útfærsla á efnisvali, tenginga á milli svæða og svo framvegis. Þessi kynning sem hafi verið afar vel sótt hafi farið fram tæpum tveimur árum eftir að aðalskipulagi hafi verið samþykkt. Fundurinn hafi haft það markmið að kynna yfirstandandi framkvæmdir og fram­kvæmir sem fyrirhugaðar hafi verið á árinu og næstu árum. Fundurinn hafi verið haldinn án lagaskyldu og með það að markmiði að halda íbúum upplýstum um það sem fram undan væri í stígagerð á svæðinu. Fundurinn hafi verið auglýstur á samfélagsmiðlum og í bæjarblaðinu Jöklu sem borið sé í hvert hús bæjarins. Allir formlegir frestir til að mótmæla Aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015-2031 séu nú löngu liðnir.

Áratugalöng hefð sé fyrir því að vernda og tryggja aðgang almennings að landi og fjörum sem liggi meðfram ám, vötnum og sjó. Séu því sjónarmið kærenda sem feli í sér takmarkaðan aðgang andstæð lögum. Árið 2014 hafi verið gerðar tillögur að lóðarblöðum fyrir lóðir norðan Keflavíkurgötu, en nokkuð sé um að lóðarleigusamningar þar séu fallnir úr gildi. Þá hafi verið gefið út og staðfest lóðarblað/lóðarsamningur fyrir Keflavíkurgötu 1 og á því lóðarblaði sé kvöð um göngustíginn.

Hinn 30. janúar 2020 hafi verið haldinn opinn íbúafundur í grunnskóla Snæfellsbæjar á Hellis­sandi þar sem kynntar hafi verið tillögur að hönnun útivistar- og göngusvæða á Hellissandi og nærumhverfi. Boðað hafi verið til hans á fésbókarsíðu Snæfellsbæjar og með auglýsingu í bæjarblaðinu Jökli. Hafi fundurinn verið afar vel sóttur og allir fundarmenn lýst mikilli ánægju með þau áform sem kynnt hafi verið. Auk þess hafi verið auglýst og boðið upp á umhverfisrölt á Hellissandi með bæjarstjórn, umhverfis- og skipulagsnefnd og bæjarstjóra 8. júní 2020 og hafi verið gengið frá ráðhúsi, þar sem lega fyrirhugaðs stígs hafi m.a. verið skoðuð. Engar mótbárur eða athugasemdir hafi komið fram vegna fyrirhugaðs stígs.

Bæjaryfirvöld hafi staðið vel að allri kynningu varðandi umræddan göngustíg og jafnframt hafi verið farið í einu og öllu í samræmi við lög er við skipulagsferlið. Framkvæmdir hafi staðið í nokkur ár, án athugasemda. Íbúum sé gefinn kostur á að segja sína skoðun og koma athuga­semdum á framfæri í öllu skipulagsferlinu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að stígur meðfram hraðfrystihúsi Hellissands og nýja göngubrúin yfir Höskuldsá séu ekki í aðalskipulagi. Þá tali sveitarfélagið um að í ljósi langs aðdraganda sé sérstakt að bæjarstjórn heyri fyrst nú af óánægju íbúa með umrædda framkvæmd. Það sé þó svo að þessi framkvæmd hafi ávallt verið á fárra vitorði og aldrei hafi verið haft samráð við íbúa við sjávarsíðuna eða þeim gert kunnugt um hvað hafi staðið til þrátt fyrir að umræddur stígur muni verða innan við eða rétt utan við lóðarmörk og í mikilli nálægð við þeirra fasteignir. Það sé því ekkert óeðlilegt við það að mótmælaraddir um þetta mál heyrist fyrst nú en fæstir kærenda hafi haft nokkra hugmynd um þessa framkvæmd fyrr en í september 2020.

Fjölmargar leiðir sem betur nái markmiði sveitarfélagsins en göngustígur við sjávarsíðu Keflavíkurgötu. Keflavík sé lítil vík austan við ysta hús Keflavíkurgötu og þar sé aðgengi að sjávarsíðunni nú þegar til staðar. Fyrir það fyrsta sé víkin beintengd við gangstétt Keflavíkur­götu og malbikaðan göngustíg sem liggi beint frá Keflavíkurgötu alla leið að þéttbýlinu í Rifi. Í víkinni sé jafnframt bílastæði og fræðsluskilti. Umræddur stígur sé því engan veginn forsenda þess að tryggja þangað aðgengi. Þá sé gríðarstór strandlengja báðum megin við Hellissand, þar sem finna megi sjávarhamra og strandir. Til austurs megi ganga rúmlega þriggja kílómetra strandlengju sem tengi saman Hellissand og Rif en til vesturs taki við þjóðgarðurinn Snæfells­jökull með strandlengju sem spanni tugi kílómetra. Kærendum sé því spurn hvers vegna 400 m löngum stígsbút meðfram sjávarsíðu Keflavíkurgötu sé stillt fram sem úrslitaatriði í þessu samhengi. Aðgengi að sjávarsíðu Snæfellsbæjar, aðgengi að Keflavík og lýðheilsa bæjarbúa standi hvorki né falli með þessum stutta stíg meðfram Keflavíkurgötu líkt og sveitarfélagið haldi fram.

Það sé mikið rangmæli í því að segja kærendur vilja „halda í einkarétt á þeim gæðum að geta notið útsýnis og nálægðar við náttúruperlur og söguslóðir“. Þarna leggi sveitarfélagið kær­end­um orð í munn enda hafi þeir hvergi látið þetta í ljós. Kærendur séu ekki að krefjast þess að eiga einkarétt á þessu svæði. Aðgengi að sjávarsíðu Keflavíkur sé þegar til staðar og hvergi skert og sjávarsíðan gríðarstór. Þá séu fjölmörg dæmi víða um land, t.d. á Seltjarnarnesi og á Álftanesi þar sem strandlengja við íbúðarhúsalóðir sé látin í friði fyrir svona framkvæmdum. Þrátt fyrir ákveðna ókosti vegna vinds og sjávargangs hafi búseta á umræddum stað með sér kosti. Þeirra stærstur sé næðið og hin fagra og óspillta sjávarsýn. Með þessari framkvæmd sé komin göngustígur inn í garða hjá kærendum, nálægt húsum og í sumum tilvikum beint fyrir framan sólskála, útsýnisglugga og jafnvel gólfsíða salernisglugga og það sé því ljóst að framkvæmdin muni hafa mikil áhrif á upplifun og friðhelgi heimila við stíginn. Algerlega sé litið framhjá sjónarmiðum kærenda þótt auðvelt sé að fara mildari leið. Strandsíða sé ekki af skornum skammti við Hellissand líkt og víða eigi við í stærri þéttbýlum eins og á höfuðborgar­svæðinu.

Eins og kynningarmálum hafi verið háttað hafi íbúar á sjávarsíðu Keflavíkurgötu verið einskis vísir um þessar framkvæmdir því hún hafi aldrei verið kynnt með beinum hætti þeim íbúum sem verði fyrir áhrifum af henni. Íbúar ríflega þriðjungs fasteigna Keflavíkurgötu séu af erlendum uppruna og hafi engar forsendur til að kynna sér skipulagsmál eða taka þátt í kynningum Snæfellsbæjar um málið enda hafi þær allar verið á íslensku. Þessi framkvæmd hafi ekki legið fyrir þegar kærendur völdu sér búsetu eða byggðu sér dýr hús og útfærðu þau í samræmi við umhverfi lóðanna til þess að öðlast friðhelgi, næði og útsýni. Fjölmörg húsin séu hönnuð með tilliti til sjávarútsýnisins, með útsýnisglugga og sólskála örfáum metrum frá fyrirhuguðum stíg löngu áður en hann hafi komið til umræðu hjá bæjarstjórn Snæfellsbæjar. Verði stígurinn að veruleika muni sú umferð sem honum fylgi hafa veruleg áhrif á friðhelgi heimila kærenda og að öllum líkindum rýra verð fasteignir þeirra. Kærendur skilji ekki hvers vegna gengið sé fram af slíkri hörku þvert á vilja allra íbúa sem eigi hér hagsmuna að gæta, á svæði þar sem strandlengjan telji tugi kílómetra, sé aðgengileg öllum og hafi ótal möguleika til stígaframkvæmda. Að halda því fram að yrði fallið frá þessu 400 metra strandstígabroti við heimili kærenda sé verið að meina íbúum aðgengi að sjávarsíðu og mismuna þeim sé staðhæfing sem standist enga skoðun. Það sé lítið sem vinnist með þessari framkvæmd í óþökk svo margra sem raun beri vitni.

——-

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 25. nóvember 2020 að viðstöddum fyrirsvarsmönnum kærenda og fulltrúum Snæfellsbæjar.

Niðurstaða: Í september 2020 hófu bæjaryfirvöld framkvæmdir við stíg sjávarmegin við Keflavíkurgötu á Hellissandi. Mun umræddur áfangi stígsins verða um 450 m langur og þar af tekur framkvæmd sú sem deilt er um í máli þessu til 325 m. Samkvæmt upplýsingum bæjaryfirvalda er gert ráð fyrir að stígurinn verði um 2,7 m á breidd. Ekki var gefið út sérstakt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 heldur var á því byggt að nægilegt væri að framkvæmdirnar ættu stoð í samþykktu aðal­skipulagi. Byggja kærendur málatilbúnað sinn á því að kynningu framkvæmdarinnar hafi verið ábótavant og að stígnum muni fylgja röskun á grenndarhagsmunum eigenda fasteigna og íbúa í næsta nágrenni stígsins sökum skerts útsýnis, innsýnar og ónæðis vegna umferðar um stíginn.

Í gildandi Aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015-2031 er gert ráð fyrir hinum kærða stíg. Aðal­skipulagið var samþykkt 20. júní 2018 að undangenginni lögboðinni kynningu og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 5. júlí s.á. Verður lega umrædds stígs samkvæmt aðalskipulagi lögð til grundvallar í máli þessu enda er það ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða aðalskipulagsáætlanir, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, s.s. breytingar lands með jarðvegi. Jafnframt skulu slíkar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Við mat á því hvort framkvæmd telst meiri háttar skal hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Eru stígar og breytingar lands með jarðvegi, svo sem efnislosun og landmótun, meðal þeirra framkvæmda sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdir sem teljast óverulegar eru ekki háðar slíku leyfi en geta þó verið skipulagsskyldar, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt framansögðu fer það eftir aðstæðum, eðli, umfangi og áhrifum framkvæmdar á ásýnd lands og umhverfi hvort hún verði talin framkvæmdaleyfisskyld, þurfi að eiga stoð í skipulagi eða eftir atvikum þurfi ekki slíka stoð. Við það mat er rétt að hafa hliðsjón af ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um framsetningu skipulagsáætlana og hvaða framkvæmda skuli þar getið. Hinn kærði stígur fylgir jarðvegsyfirborði meðfram sjávarsíðunni og verður að stórum hluta samsíða sjóvarnargarði á svæðinu. Verður að telja að stígurinn sé ekki framkvæmdaleyfisskyldur eins og atvikum er hér háttað.

Ljóst er að hin kærða framkvæmd er til þess fallin að hafa röskun á grenndarhagsmunum kærenda í för með sér vegna umferðar um stíginn og þá sérstaklega þeirra sem eiga fasteignir sem liggja næst honum. Stígurinn á hins vegar þegar stoð í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins eins og áður greinir og verður legu hans ekki haggað að óbreyttu skipulagi. Rétt þykir að benda á að þeir sem geta sýnt fram á að gildistaka skipulags hafi haft í för með sér fjártjón fyrir þá geta eftir atvikum átt rétt á bótum skv. 51. gr. skipulagslaga, en það álitaefni á ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjaryfirvalda um lagningu umdeilds stígs hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Snæfellsbæjar um að leggja göngu- og hjólastíg meðfram sjávarsíðu Keflavíkurgötu er hafnað.

47/2020 Kólumbusarbryggja

Með

Árið 2020, föstudaginn 4. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2020, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar frá 8. maí 2020 um að synja útgáfu úttektarvottorðs vegna niðurrifs mannvirkis á lóðinni Kólumbusarbryggja 1, Snæfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júní 2020, kærir Móabyggð ehf., þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar að synja útgáfu úttektarvottorðs vegna niðurrifs mannvirkis á lóðinni Kólumbusarbryggja 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út úttektarvottorð vegna niðurrifs mannvirkisins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Snæfellsbæ 8. júlí 2020.

Málavextir: Á árinu 2015 eignaðist kærandi 8.128 m2 hús á lóð Kólumbusarbryggju 1. Í kjölfarið á kaupunum sótti kærandi um byggingarleyfi til niðurrifs á húsinu. Mun Snæfellsbær hafa hafnað þeirri umsókn en boðið kæranda að semja um niðurrif hússins. Hinn 30. apríl 2018 skrifuðu kærandi og sveitarfélagið undir samkomulag um kaup á fasteigninni að Kólumbusar­bryggju 1. Í 2. gr. samningsins kemur fram að sveitarfélagið veiti kæranda byggingarleyfi til niðurrifs á húsi því sem standi á lóðinni gegn því að kærandi greiði kostnað og fasteignagjöld samkvæmt 6. gr. samningsins. Þá er mælt fyrir um í 3. gr. samningsins að kærandi skuli hafa lokið niðurrifi og brottflutningi „á húsinu og öllu lausu byggingarefni af lóðinni þannig að allt það sem tilheyrir húsinu annað en sökklar þess, gólf og annað sem ekki er mögulegt að fjarlægja, hafi verið fjarlægt.“ Einnig að frágangur skuli vera með þeim hætti að engin slysahætta stafi af þeim mannvirkjum sem eftir standi á lóðinni og taki sveitarfélagið að sér allan frekari frágang á lóðinni. Sama dag og samningurinn var undirritaður sótti kærandi um byggingarleyfi til niðurrifs á umræddu húsi. Hinn 17. maí 2018 veitti byggingarfulltrúi umsótt leyfi með tilteknum fyrirvörum og skilyrðum, m.a. að gengið yrði frá „samningi milli Snæfellsbæjar og húseiganda um framkvæmd niðurrifs og greiðslur til Snæfellsbæjar vegna þess.“

Á árunum 2018 og 2019 kom upp ágreiningur milli aðila um framkvæmd niðurrifsins og hvort úttekt við lok niðurrifs ætti að fara fram. Hinn 28. mars 2020 sendi byggingarstjóri við framkvæmdina tölvupóst til byggingarfulltrúa þar sem fram kom að hann segði sig frá verkinu en óskaði jafnframt eftir lokaúttekt. Byggingarfulltrúi hafnaði beiðni um lokaúttekt 14. apríl s.á. með vísan til þess að hann fengi ekki séð að öryggis- og hollstukröfur væru uppfylltar á meðan járn og annað hefði ekki verið fjarlægt, auk þess sem lausafé væri látið grotna niður á lóðinni. Ljúka bæri verkinu með því að hreinsa svæðið í samræmi við verkskyldur og verklýsingu. Bæði slysa- og mengunarhætta stafaði af svæðinu og því væri skilyrðum 5. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ekki fullnægt. Í kjölfarið munu aðilar hafa sammælst um að hittast á verkstað hinn 22. apríl 2020 og fara yfir það sem byggingarfulltrúi hafði talið ábótavant. Í tölvupósti byggingarfulltrúa 8. maí s.á. til byggingarstjóra var beiðni um lokaúttekt hafnað að nýju með vísan til þess að öryggis- og hollustukröfur hefðu ekki verið uppfylltar. Kom þar einnig fram að það væri skilningur byggingarfulltrúa að fjarlægja ætti allt nema sökkla, gólf og annað sem ekki væri mögulegt að fjarlægja. Byggingarfulltrúi hefði haft upp á eiganda veiðarfæra á lóðinni sem myndi fjarlægja þau sem hann ætti, en hann hefði jafnframt upplýst að hann ætti ekki öll veiðarfærin. Hinn 11. maí s.á. svaraði kærandi tölvupósti byggingar­­­fulltrúa og taldi synjunina vera ólögmæta og í andstöðu við samning kæranda og sveitar­félagsins frá 30. apríl 2018. Bæjarstjóri sveitarfélagsins svaraði tölvupósti kæranda 11. maí 2020 og vísaði m.a. til þess að kærandi hefði ekki uppfyllt ákvæði 3. gr. samningsins. Hinn 12. s.m. sendi kærandi tölvupóst til bæjarstjóra og byggingarfulltrúa og benti á að umrædd veiðarfæri gætu ekki staðið útgáfu vottorðs fyrir lokaúttekt í vegi. Svaraði byggingarfulltrúi samdægurs og vísaði til þess að frágangur á lóðinni væri hættulegur og mengandi svo varðaði öryggis- og hollustukröfum í 5. mgr. 36 gr. mannvirkjalaga.

Í kæru kemur fram að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúa frá 12. maí að synja útgáfu úttektarvottorðs vegna niðurrifs mannvirkis. Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður hins vegar litið svo á að hin kærða stjórnvaldsákvörðun sé synjun byggingarfulltrúa frá 8. maí 2020, enda var svar byggingarfulltrúa 12. s.m. einungis árétting fyrri ákvörðunar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í 3. gr. samnings hans og Snæfellsbæjar frá 30. apríl 2018 sé kveðið á um að kærandi skuli fjarlægja allt laust byggingarefni af lóðinni þannig að allt það sem tilheyri húsinu, annað en sökklar þess, gólf og annað sem ekki sé mögulegt að fjarlægja verði fjarlægt. Bæjarbúi hafi komið fyrir á lóðinni miklu magni af veiðarfærum. Ástæða synjunar byggingarfulltrúa á útgáfu lokaúttektarvottorðs sé sú að veiðarfærin hafi ekki verið fjarlægð. Byggingarfulltrúi hafi viðurkennt í tölvupósti til kæranda 8. maí 2020 að vitað sé hver eigi veiðarfærin, talað hafi verið við eigandann og honum sagt að fjarlægja þau, en það hafi viðkomandi ekki gert. Teljist veiðarfæri hvorki til byggingarefnis né geti þau tilheyrt húsinu með nokkru móti. Stjórnsýsluákvörðun þurfi að byggjast á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Kærandi geti ekki borið ábyrgð á eignum og rusli í eigu bæjarbúa sem sett séu á lóðina í leyfisleysi.

Málsrök Snæfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að niðurrif húsa sé byggingar­leyfisskyld framkvæmd skv. 6. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Með því að samþykkja skilyrt niðurrif hússins hafi sveitarfélagið gefið eftir rétt sinn sem eigandi og leigusali lóðarinnar. Hafi það verið gert umfram skyldu og til ívilnunar fyrir kæranda. Í byggingarleyfi til niðurrifs hafi þau skilyrði verið sett að lóðinni yrði skilað þannig að af henni yrði fjarlægt allt húsið nema sökklar og það sem ekki væri hægt að fjarlægja, auk alls lauslegs sem tilheyrði húsinu. Einnig hafi verið gerð krafa um að skilið væri við lóðina þannig að engin slysahætta væri af þeim mannvirkjum sem eftir stæðu. Þessi skilyrði geti ekki talist ólögmæt eða óeðlileg.

Kærandi hafi ekki fullnægt skyldum sínum þrátt fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir því og bent á það sem eftir ætti að gera. Enn sé eftir u.þ.b. þriðjungur þeirra fótstykkja og festinga sem hafi verið hluti af því húsi sem áður hafi staðið á sökklunum og þau beri að fjarlægja. Enn standi hættuleg steypustyrktarjárn upp úr sökklum og mikið af þeim járnum sem beygð hafi verið standi hálfbeygð út í loftið sem skapi hættu. Þá eigi eftir að fjarlægja lausafé sem hafi verið í húsinu þegar það hafi verið rifið. Það sé ekki rétt að einhver hafi komið því fyrir á lóðinni eftir að húsið hafi verið rifið. Umrætt lausafé, ásamt hjólhýsum og öðru, hafi verið í geymslu í húsinu sem rifið hafi verið. Starfsmenn sveitarfélagsins hafi haft uppi á þeim sem vísað hafi verið á sem eiganda umrædds lausafjár og reynt að fá viðkomandi til að fjarlægja það án árangurs. Þær tilraunir hafi verið umfram skyldu sveitarfélagsins og leysi kæranda á engan hátt undan skyldu hans til að fjarlægja lausaféð og klára niðurrifsverkið.

Í 5. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga segi að ef mannvirki uppfylli ekki öryggis- og hollustukröfur geti byggingarfulltrúi eða aðrir eftirlitsaðilar fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert. Með vísan til þess hafi sveitarfélaginu ekki verið skylt að verða við ósk kæranda um framkvæmd lokaúttektar og útgáfu lokaúttektarvottorðs. Þvert á móti hafi sveitarfélaginu verið óheimilt lögum samkvæmt að gefa út lokaúttektarvottorð, enda hafi öryggis- og hollustukröfum ekki verið fullnægt. Þar að auki stafi mengunarhætta af því lausafé sem skilið hafi verið eftir, en um sé að ræða allskyns net og bönd auk tækja, tóla og geyma sem ekki sé vitað hvað innihaldi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að hann hafi staðið við skyldu sína skv. 3. gr. samnings hans og Snæfellbsæjar um að fjarlægja allt laust byggingarefni af lóðinni þannig að allt sem tilheyri húsinu annað en sökklar þess, gólf og annað sem ekki sé mögulegt að fjarlægja. Þær myndir sem sveitarfélagið hafi lagt fram séu af gömlu ástandi. Vísað sé til nýrri mynda sem sýni að öll járn hafi verið beygð og ekkert járn standi út í loftið. Áréttað sé að veiðarfæri teljist hvorki til byggingarefnis né geti þau tilheyrt húsinu með nokkru móti. Kærandi hafi aldrei haldið því fram að veiðarfæri hafi verið sett á lóðina eftir að húsið hafi verið rifið. Þetta skipti þó ekki máli enda hafi veiðarfærin verið sett þar sem þau standi núna í leyfisleysi og séu alls ekki á ábyrgð húseiganda. Ekki sé hægt að leggja það á ábyrgð byggingarleyfishafa að fjarlægja og eyða eigum annarra. Þá séu fótstykki varanlega áföst sökklinum og því ekki hægt að fjarlægja þau nema rífa upp sökkulinn, en samkvæmt fyrrnefndum samningi kæranda og sveitarfélagsins eigi ekki að fjarlægja sökkla, gólf og annað sem ekki sé mögulegt að fjarlægja. Einnig sé mótmælt að meiri slysahætta stafi af áföstum fótstykkjum en almennt gangi og gerist. Sé t.d. slysahætta af gangstéttarbrúnum og hafnarsvæðum almennt. Loks taki sveitar­félagið samkvæmt samningnum að sér að annast frekari frágang og hafi fengið greitt fyrir það. Frekari frágangur í þessum skilningi snúi að sökklinum sjálfum og fótstykkjum.

Viðbótarathugasemdir sveitarfélagsins: Af hálfu sveitarfélagsins er áréttað að samkvæmt samningi kæranda og sveitarfélagsins eigi að fjarlægja allt sem mögulegt sé að fjarlægja annað en sökkla og gólf, auk þess sem tryggja eigi að mannvirkið yrði skilið eftir í ástandi þar sem tryggt væri að engin slysahætta myndi stafa af því. Myndir sem kærandi leggi fram gefi á engan hátt heildarmynd af ástandi lóðar og mannvirkis í dag, enda sé mannvirkið mjög stórt og sýni myndirnar aðeins brot af því. Kærandi muni hafa komið á svæðið eftir að greinargerð sveitar­félagsins hafi verið lögð fram og beygt eitthvað af járnum betur og fjarlægt eitthvað af lausu byggingarefni. Ekki hafi gefist tími til þess að kanna til hlítar hvert sé ástandið á mannvirkinu, en slík skoðun muni eiga sér stað þegar ástæða þyki til að framkvæma næstu formlegu úttekt. Fótstykki og það lausafé sem tilheyrt hafi húsinu séu enn til staðar. Þá sýni gögn fram á að hin umræddu veiðarfæri hafi verið í geymslu í húsinu þegar niðurrif hafi hafist. Einnig sé mótmælt fullyrðingum kæranda um að ekki sé hægt að fjarlægja fótstykki. Eins og fram komi á myndum sveitarfélagsins hafi kærandi fjarlægt hluta af fótstykkjum og festingum en skilið önnur eftir. Myndir sýni að um sé að ræða fótstykki sem boltuð séu við sökkulinn. Því sé augljóst að fullyrðingar kæranda um að ekki hafi verið mögulegt að fjarlægja fótstykkin séu rangar. Hefði ekki verið mögulegt að fjarlægja fótstykkin þá hafi kæranda í öllu falli borið að skilja við lóðina og grunninn þannig að þar væri ekki slysahætta. Hafi honum því borið að ganga á flug­beitt járnin og rúnna þau til og saga niður járnteina sem standi út í loftið.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 25. nóvember 2020 að viðstöddum fulltrúum málsaðila og bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út úttektarvottorð vegna niðurrifs mannvirkis á lóð Kólumbusarbryggju 1.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar að synja útgáfu úttektarvottorðs vegna niðurrifs mannvirkis á lóð Kólumbusarbryggju 1. Leyfi vegna niðurrifsins var veitt í maí 2018 og hefur mannvirkið verið tekið niður. Greinir aðila aðallega á um hvort frágangur lóðarinnar sé með þeim hætti að kærandi hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningi hans og Snæfellsbæjar frá 30. apríl 2018, en þar kemur fram í 2. gr. að bærinn veiti kæranda byggingarleyfi til niðurrifsins og er í 3. gr. samningsins kveðið á um með hvaða hætti það skuli framkvæmt. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til niðurrifs með ákveðnum skilyrðum var ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar og verður því ekki fjallað um lögmæti þeirra skilyrða. Hins vegar hefur ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja útgáfu úttektarvottorðs vegna niðurrifsins verið kærð til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og verður fyrst og fremst leyst úr þessu máli á grundvelli þeirra laga, en ekki með hliðsjón af einkaréttarlegum samningi aðila. Taka enda valdheimildir úrskurðarnefndarinnar ekki til ágreinings vegna slíkra samninga heldur á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga er niðurrif mannvirkis byggingarleyfisskyld fram­kvæmd. Framkvæmd öryggisúttektar, lokaúttektar og úttektar við lok niðurrifs mannvirkis og útgáfa vottorða um þær úttektir er hluti af lögbundnu eftirliti byggingarfulltrúa, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laganna. Um öryggisúttekt er nánar fjallað í 35. gr. laganna og um lokaúttekt í 36. gr., en sambærilegt ákvæði um úttekt við lok niðurrifs mannvirkis er hvorki að finna í lögunum né byggingarreglugerð nr. 112/2012. Eru því ekki fyrir hendi lögákveðin skilyrði sem leyfishafi þarf að uppfylla til að fá útgefið vottorð um lok niðurrifs.

Byggingarfulltrúi færði þau rök helst fyrir synjun sinni að hætta og mengun stafaði af lóðinni vegna frágangs hennar. Af fyrirliggjandi samskiptum í málinu má ráða að byggingarfulltrúi hafi með því verið að vísa til þess að veiðarfæri og annað lausafé hafi verið skilið eftir á lóðinni annars vegar og að hætta stafi af tengijárnum fyrir sökkulplötu og sökkulfestingum hins vegar. Eðli málsins samkvæmt felur niðurrif mannvirkis í sér að taka það niður og fjarlægja en ekki að fjarlægja lausafé af lóðinni sem telst ekki til fylgifjár fasteignarinnar. Geta hin umdeildu veiðarfæri og annað lausafé á lóðinni því ekki staðið útgáfu vottorðs um lok niðurrifs í vegi Skal þó á það bent að þegar lausafé stendur á lóð og af því er talin stafa hætta eða það telst skaðlegt heilsu getur byggingarfulltrúi eftir atvikum gripið til annarra aðgerða gagnvart eiganda eða umráðamanni lóðar til að knýja fram úrbætur, sbr. 56. gr. mannvirkjalaga. Í því sambandi er hins vegar rétt að taka fram að Snæfellsbær er þinglýstur eigandi lóðarinnar.

Með hliðsjón af því markmiði mannvirkjalaga að vernda líf og heilsu manna og eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt, sbr. a-lið 1. gr. laganna, verður að líta svo á að byggingarfulltrúa beri við útgáfu umrædds vottorðs fyrst og fremst að líta til þess hvort hætta stafi af lóðinni að virtu niðurrifi mannvirkis. Fær sú túlkun einnig stoð í fyrrnefndum ákvæðum 35. og 36. gr. laganna um öryggisúttekt og lokaúttekt, þótt þau ákvæði eigi samkvæmt orðanna hljóðan ekki við um úttekt þá sem hér um ræðir. Kemur því álita hvort hætta stafi af lóðinni að virtu niðurrifi mannvirkisins.

Myndir þær sem liggja fyrir í málinu eru nokkuð misvísandi um ástand lóðarinnar að loknum frágangi hennar af kæranda hálfu, en úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi. Tengijárn hafa flest öll verið beygð niður að jörðu og þótt sum hafi ekki verið beygð alla leið verður að telja frágang járnanna í heild sinni fullnægjandi. Sökkulfestingar hafa að sama skapi flest allar verið fjarlægðar en þær sem ekki hafa verið fjarlægðar eru steyptar ofan í sökkulinn. Ekki er hægt að útiloka að af þeim geti stafað nokkur hætta en þó verður að líta til þess að lóðin er á skipulögðu hafnarsvæði þar sem allajafna getur verið nokkur hætta á ferðum, auk þess sem lóðin er ekki í alfaraleið. Með hliðsjón af því verður ekki séð að svo mikil hætta sé á ferðum að staðið geti í vegi fyrir útgáfu vottorðsins þegar haft er í huga að lög mæla ekki fyrir um hver séu skilyrði úttektar vegna niðurrifs mannvirkis.

Þar sem hvorki voru rök til að hafna útgáfu vottorðs um niðurrif með vísan til þess lausafjár sem finna mátti á lóðinni né til þess að lögbundnum kröfum væri ekki fullnægt, svo sem byggingarfulltrúi byggði á, verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu synjun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Snæfellsbæjar frá 8. maí 2020 um að synja útgáfu úttektarvottorðs vegna niðurrifs mannvirkis á lóðinni Kólumbusarbryggja 1, Snæfellsbæ.

79/2020 Gufunes

Með

Árið 2020 þriðjudaginn 1. desember fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2020, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 20. september 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Loftkastalinn ehf., lóðarhafi Gufunesvegar 34 og Þengilsbáss 1, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 20. september 2019 að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 11. ágúst 2020.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. september 2020.

Málavextir: Í janúar 2018 keypti kærandi af Reykjavíkurborg þrjár húseignir, ásamt lóðar­réttindum og byggingarrétti, í Gufunesi. Við kaupin var um eina lóð að ræða, en með deiliskipulagi, sem tók gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 1. mars 2019, var lóðinni skipt í tvennt, reit A1.5 og A1.6. Hinn 7. september 2020 tók gildi deiliskipulags­breyting vegna þessara lóða kæranda. Með þeirri breytingu var byggingarmagn minnkað ofan­jarðar á reit A1.5 fyrir bæði atvinnurými og íbúðarhúsnæði til að auðvelda að koma fyrir byggingum á reitnum. Var byggingarmagn aukið neðanjarðar á reit A1.6 svo unnt væri að samtengja bílakjallara.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. september 2019 var lögð fram og samþykkt umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds Reykjavíkur, dags. 17. september 2019, um framkvæmda­leyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1. Einnig var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. september 2019. Var framkvæmdaleyfi gefið út 29. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í byrjun árs 2018 hafi hann keypt þrjú hús á einni lóð af Reykjavíkurborg, en í skipulagsferli hafi lóðinni verið skipt í tvær lóðir. Samkvæmt samþykktu deiluskipulagi sé ekkert sem gefi til kynna að götur á svæðinu eigi að vera allt að 60 cm hærri en gólf í húsum kæranda. Hönnun á götum sé því ekki samkvæmt skipulagi, sbr. sneiðmynd í skipulaginu. Kærandi hafi bent á þessa skekkju og reynt að fá staðfesta hæðarkóta í kringum eignir sínar. Loks hafi upplýsingar borist í lok ágúst 2020 og þá komið í ljós að gögn sem borist hefðu frá borgaryfirvöldum væru röng. Telji kærandi að allt að 35 cm skekkja sé milli uppgefinna hæðarkóta borgaryfirvalda og þess sem hönnuðir segi kóta vera. Samkvæmt teikningum af húsum kæranda sé gólfkóti 8,40, sem sé innan eðlilegra skekkjumarka. Kærandi hafi fengið löggiltan mælingamann til að taka innmælingar í húsunum ásamt nokkrum hæðar­punktum við götuna og þar sem jarðvegur hafi áður verið. Þessar mælingar staðfesti málflutning kæranda. Veruleg hætta sé á vatnstjóni ef haldið verði áfram í þessari villu.

Athugasemdir Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að á vormánuðum 2020 hafi borist upplýsingar um að aðliggjandi gata við hús kæranda væri of há og hefði það síðan verið staðfest með mælingu. Hafi gatan í framhaldi verið endurhönnuð og lækkuð. Auk lækkunar á götunni hafi þverhalli hennar verið minnkaður úr 3% í 2% frá miðlínu að húsi kæranda. Forsvarsaðilar hans hafi upplýst að gólfkóti húss á lóðinni væri 8,40 og hafi hönnun götunnar tekið mið af því. Hafi því að fullu verið komið til móts við þær kröfur sem gerðar hafi verið um aðlögun gatna að núverandi byggingu við Gufunesveg 34, eins og sjá megi í gögnum málsins. Það að aðliggjandi götur séu 60 cm hærri en gólf hússins sé einfaldlega ekki rétt og tali hönnunarhæðir sínu máli. Hæðarlega Hilmisbáss eftir endurhönnun taki fullt tillit til núverandi bygginga. Þengilsbás liggi hærra í landi en Hilmisbás og sé hápunktur götunnar eftir breytingu í kringum stöðvarnúmer 80. Heildarhönnunin taki mið af því að götur afvatnist í báðar áttir frá þessum hápunkti og niður Hilmisbás sín í hvora áttina frá gatnamótum Hilmis- og Þengilsbáss. Lóðin Þengilsbás 1 sé óbyggð lóð og ekki séu til útgefin hæðarblöð fyrir svæðið. Við útgáfu þeirra muni verða tekið mið af gatnagerð. Þau hús sem ekki séu byggð í dag þurfi að taka mið af hæðarlegu veganna og G-kótum á lóð, þegar þeir verði gefnir út.

Með hönnun gatna og stétta sé öllu vatni veitt frá lóðunum og í fráveitukerfi gatna. Eina vatnið sem falli inn á lóðirnar verði ofanvatn.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hæð götu við lóð hans gangi gegn núverandi skipulagi. Samkvæmt sneiðmynd á gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að lóðin sé lárétt. Gríðarlegir hagsmunir séu í húfi fyrir kæranda enda sé það grundvallar­forsenda fyrir starfsemi hans að lóðin sé slétt. Í skipulaginu sé gert ráð fyrir að gatan Þengilsbás verði um 60 cm hærri en Gufunesvegur við lóðina Þengilsbás 1, en lóð kæranda liggi á milli þessara gatna. Ekki sé gert ráð fyrir halla á lóð kæranda samkvæmt skýringarmyndum með deili­skipulagsuppdrætti. Þegar litið sé til lóðar A4.2 til samanburðar megi sjá að þar sé augljóslega gert ráð fyrir halla á byggingarsvæði. Samkvæmt yfirlitsmynd verktaka um hæðarkóta á svæðinu sé ráðgert að hæð vegar fari frá 8,164 m og í 8,610 m meðfram lóð kæranda. Um sé að ræða næstum 45 cm hæðarmun á veginum. Hæð malbiks við lóð fari úr 8,331 m í 8,920 m, sem sé næstum 60 cm hæðarmunur.

Rétt sé að líta til b-liðar 3. mgr. gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 í þessu sambandi. Í ákvæðinu segi „þegar byggt er í landhalla skal gera grein fyrir afstöðu 1. hæðar til yfirborðs landsins með sniðmynd eða í texta.“ Þetta sé ekki að finna í deiliskipulaginu og megi gagnálykta frá þessu að ekki hafi verið ráðgert í skipulaginu að lóð kæranda yrði byggð í halla. Þá verði að telja að hæðarmælingar verktaka borgarinnar í húsum kæranda fái ekki staðist. Kærandi hafi látið löggiltan mælingamann framkvæma eigin mælingar sem stangist á við mælingar verk­takans. Þrír af þeim punktum sem mælingamaður á vegum kæranda hafi mælt séu teknir í sömu dyrum og verktakinn hafi mælt. Mismunur mælinga þessara punkta sé 32,5 cm á punkti 2, 27,4 cm á punkti 3 og 19,1 cm munur á punkti 4. Kærandi kunni ekki skýringar á þessu en velti því fyrir sér hvort verktakinn noti annað hæðarkerfi en hæðarkerfi Reykjavíkurborgar. Sérstök ástæða sé til að benda á að einn punktur á yfirlitsmynd verktakans, merktur dyr, með hæðarkóta 8,79, sé tekinn í gömlum útgangi í sýru­gildrur. Neðri brún hurðargatsins sé 35 cm fyrir ofan gólfflöt.

Samkvæmt málatilbúnaði Reykjavíkurborgar virðist byggt á því að búið sé að skipta lóðinni í tvennt og að ekki hafi verið gefnir út hæðarkótar fyrir lóð kæranda við Þengilsbás. Það verði ekki gert fyrr en eftir að vegaframkvæmdum ljúki. Þennan málatilbúnað telji kærandi ekki halda vatni. Í þessu sambandi telji hann rétt að líta aftur til b-liðar 3. mgr. gr. 5.3.2.1. í skipulags­reglugerð. Samkvæmt ákvæðinu skuli í deiliskipulagi tilgreina hve há botnplata fyrstu hæðar megi vera frá jarðvegsyfirborði. Sé ljóst að með þeim upplýsingum gætu lóðareigendur séð gólfkóta lóðanna. Þetta virðist hins vegar ekki hafa verið tilgreint í deiliskipulagi svæðisins og verði að telja það gallað að þessu leyti. Mála­tilbúnaður Reykjavíkurborgar virðist samkvæmt framangreindu að hluta byggjast á því að þeir sjálfir hafi útbúið gallað deiliskipulag, enda virðist þeir byggja á að gólfkóti lóðanna verði gefinn út eftir að vegaframkvæmdum sé lokið, sem sé í öfugri röð miðað við ákvæði reglugerðarinnar.

Þá beri enn fremur að líta til þess að Reykjavíkurborg hafi selt kæranda umræddar lóðir sem eina lóð. Í skjóli skipulagsvalds síns hafi borgin ákveðið að skipta lóðinni í tvennt án samþykkis kæranda. Deiliskipulag svæðisins geri ráð fyrir að hús verði þar áfram. Kærandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að gólfkóti húsanna ætti að gilda um alla lóðina. Kærandi telji sig eiga skýlausan rétt til þess að sami gólfkóti sé á allri lóðinni og það geti ekki staðist að Reykjavíkurborg geti hækkað svæðið í kringum lóðina í skjóli þess að hún hafi einhliða ákveðið að skipta henni í tvennt. Þá virðist sem gangstétt eigi að liggja yfir lagnastokk í eigu kæranda sem myndi hindra aðgang að honum.

Loks bendir kærandi á að bráðabirgðavegur sem lagður hafi verið í upphafi árs 2018 hafi verið notaður sem grunnur að allri uppbyggingu gatnakerfis í hverfinu og sé hann orsök þess halla sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort hið kærða framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1, sé í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.

Mögulegar ákvarðanir um bráðabirgðaveg þann sem kærandi skírskotar til í málatilbúnaði sínum að sé orsök landhalla á umræddu svæði koma ekki til skoðunar í máli þessu. Sá vegur mun hafa verið gerður á árinu 2018 og er því eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna ákvarðana um þá framkvæmd löngu liðinn.

Í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur fram að gefa þurfi upp hversu há botnplata 1. hæðar megi vera frá jarðvegsyfirborði og þegar byggt sé í landhalla skuli jafnframt gera grein fyrir afstöðu 1. hæðar til yfirborðs landsins með sniðmynd eða í texta. Í gr. 5.5.4. í reglugerðinni kemur fram að skýringaruppdrættir svo sem götumyndir, skuggavarpsteikningar og snið­myndir, líkön og hreyfimyndir sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags. Skýringargögn sbr. framangreint séu ekki bindandi, nema það sé sérstaklega tekið fram. Í gr. 1.3. í skipulagsreglugerðinni eru mæliblöð og hæðarblöð skilgreind sem hönnunargögn sem unnin séu í kjölfar deiliskipulags og lýsi með nákvæmum hætti stærðum lóða, hæðarkótum lands og bygginga, staðsetningu lagna, kvöðum og öðru er þurfa þyki. Einnig nefnd lóðablöð.

Í skilmálum deiliskipulags svæðisins kemur fram í kafla 4.5 að viðmiðunarreglur fyrir landhæð á svæði A, þar sem lóðir kæranda eru, séu 9 m.y.s. Þá kemur fram í kafla 6.16 að skilyrt sé að lágmarkssalarhæð jarðhæða sé 3,5 m. Þar sem land sé í halla skuli hús stallast eftir götuhæð þannig að inngangur húsa sé í gangstéttarhæð. Í kafla 6.7 kemur fram að útbúa skuli mæli- og hæðablöð sem kveði nánar á um ýmis atriði framkvæmda á einstökum lóðum. Hæðarblöð sýni götu- og gangstéttarhæðir við lóðamörk. Hæð á aðalgólfi byggingar sé sýnd á hæðarblöðum.

Þær sniðmyndir sem fylgdu deiliskipulagi umrædds svæðis fela ekki í sér bindandi ákvörðun um hæðarkóta lóða, svo sem að framan greinir. Þar sem búið er að skipta lóð kæranda í tvær lóðir með deiliskipulagi, en sú ákvörðun er ekki til skoðunar í þessu kærumáli, verður ekki talið að skipulagsyfirvöldum hafi borið að miða hæð götu við óbyggða lóð kæranda, Þengilsbás 1, þar sem hæðarblað fyrir þá lóð hefur ekki verið gefið út. Þegar það verður gert verður væntanlega tekið tillit til hæðar aðliggjandi götu.

Eftir útgáfu hins kærða framkvæmdaleyfis var gerð sú breyting að göturnar Hilmisbás og Þengilsbás, sem liggja meðfram lóðum kæranda, voru lækkaðar í kjölfar athugasemda um að önnur gatan væri of há miðað við þá lóð kæranda sem þegar væri byggð. Gatan Hilmisbás var lækkuð með tilliti til hæðar gólfplötu Gufunesvegar 34, sem er í hæðarkóta 8,40 samkvæmt upplýsingum kæranda, og hafði sú breyting áhrif á hæð götunnar Þengilsbáss til lækkunar.

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi kemur fram að fram­kvæmdir sem teljast óverulegar séu ekki háðar framkvæmdaleyfi en geti þó verið skipulags­skyldar. Með óverulegri framkvæmd sé átt við framkvæmd sem hafi óveruleg áhrif á umhverfið og ásýnd þess. Framkvæmdir sem teljist óverulegar séu til dæmis trjárækt á frístundahúsa­lóðum innan frístundabyggðar, óveruleg tilfærsla á veitumannvirkjum og óveruleg frávik á fram­kvæmdum sem þegar hafi fengið útgefið framkvæmdaleyfi og falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þá kemur fram í 6. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmda­leyfi að verði breyting á framkvæmd skuli afla samþykkis leyfisveitanda við breytingunni. Skuli leyfisveitandi meta hvort breyting kalli á nýtt framkvæmdaleyfi og breytingu á skipulagi. Samkvæmt greindum reglugerðarákvæðum verður að telja að borgaryfirvöldum, sem í umræddu tilfelli eru í senn leyfisveitandi og leyfishafi, hafi verið heimilt að samþykkja framan­greinda breytingu, sem gerð var á hinu kærða framkvæmdaleyfi með hliðsjón af ábendingu kæranda, en telja verður að hún hafi falið í sér óverulegt frávik frá leyfinu.

Með hliðsjón af framangreindu verður hið kærða framkvæmdaleyfi ekki talið haldið þeim form- eða efnisannmörkum er leitt geta til ógildingar þess. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 20. september 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1.

61/2020 Laugavegur, Bolholt og Skipholt

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 1. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Laugaveg 176-178, Bolholt 4-8 og Skipholt 33-37.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra Vallhólmi ehf., Dyrhólmi ehf. og Hraunhólmi ehf. þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2020 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Laugaveg 176-178, Bolholt 4-8 og Skipholt 33-37. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. september 2020.

Málavextir: Á árinu 2017 stóð Reykjavíkurborg að hugmyndasamkeppni um skipulag svonefnds Heklureits, þ.e. Laugavegar 168-174, og Laugavegar 176. Voru niðurstöður samkeppninnar kynntar í júlí s.á. og á grundvelli hennar var hinn 21. september s.á. lögð fram skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags svæðisins skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kom fram í lýsingunni að samhliða gerð deiliskipulags yrði einnig unnið rammaskipulag fyrir svæðið.

Hinn 5. september 2019 var sótt um að gert yrði nýtt deiliskipulag fyrir Laugaveg 176-178, Bolholt 4-8 og Skipholt 33-37 og var fyrrnefnd skipulagslýsing Heklureits lögð fram með umsókninni. Í tillögunni fólust heimildir til uppbyggingar á lóð Laugavegar 176 vegna fyrirhugaðs hótels en að aðrar lóðir á skipulagsreitnum yrðu skilgreindar sem lóðir án sérstakra byggingarheimilda. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 4. desember 2019 var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 5. s.m. Tillagan var auglýst 16. s.m. og frestur gefinn til athugasemda til 29. janúar 2020. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 11. mars s.á. var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum sem bárust á kynningartíma tillögunnar, auk þess sem umsögn skipulagsfulltrúa frá 6. mars 2020 var lögð fram. Með vísan til 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga var umsóknin samþykkt með áorðnum breytingum í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa. Á fundi borgarráðs 19. s.m. var samþykkt skipulags- og samgönguráðs staðfest. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þrátt fyrir að eiga nær alla lóðina að Laugavegi 178 hafi þeim ekki verið boðið að koma að gerð deiliskipulagsins. Samkvæmt tillögu að breytingu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 vegna Laugavegar – Skipholts (reits 25) verði mögulega gefnar víðari heimildir um hæðir húsa næst Laugavegi, þar sem Borgarlínan sé fyrirhuguð. Víðari heimildir muni væntanlega eingöngu ná til fremstu húsaraða við Laugaveg þar sem gert verði ráð fyrir 5-8 hæða byggingum. Til að gæta jafnræðis hefði átt að veita sambærilegar heimildir til uppbyggingar á lóð kærenda eins og gert hafi verið á lóð Laugavegar 176. Lóðirnar séu að öllu leyti sambærilegar og ákvörðunin feli því í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

Einnig sé um brot á meðalhófsreglu að ræða enda hefði Reykjavíkurborg vel getað veitt sömu heimildir vegna lóðar kærenda. Í umsögn skipulagsfulltrúa segi um þessar athugasemdir kærenda: „Tillögugerð var langt komin og nánast tilbúin fyrir L176 og til að flýta fyrir mögulegri uppbyggingu þar, auk þess sem enginn sýnilegur vilji eða áhugi annarra lóðarhafa á svæðinu, var komin upp þá var ákveðið að hafa óbreyttar heimildir á öðrum lóðum að sinni. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu fyrir skipulagsyfirvöld að skoða uppbyggingar­möguleika á öðrum lóðum sýni þeir aðilar fram á hvernig þeir vilji þróa sínar lóðir áfram í samræmi við niðurstöðu hugmyndasamkeppni og rammaskipulagið/sýnina fyrir svæðið sem hefur verið opinbert í nokkur ár.“ Líta verði á framangreint í ljósi þess að ekki hafi verið til staðar deiliskipulag fyrir reitinn áður en það hafi tekið gildi 18. júní 2020. Kærendum hafi ekki verið ljóst að til stæði að samþykkja deiliskipulag fyrr en þeir urðu varir við auglýsingu deiliskipulagstillögunnar. Athugasemdir hafi verið lagðar fram áður en frestur til athugasemda skv. skipulagslögum nr. 123/2010 hafi verið liðinn. Því sé ekki hægt að fallast á að það myndi tefja um of afgreiðslu skipulags að gæta jafnræðis milli lóðarhafa á skipulagsreitnum og á sama tíma virða meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 88/2006 komi fram að almennt geti einstakir lóðar­hafar ekki vænst þess að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag byggingu á svæði sem nýlega hafi verið deiliskipulagt. Þá komi fram að gjalda verði varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa. Af úrskurðinum megi ráða að ekki liggi fyrir að kærendur myndu hafa erindi sem erfiði með að breyta deiliskipulaginu. Því verði að vanda til verka við gerð deiliskipulags og ekki þýði að vísa til þess að tillögugerð hafi verið „langt komin“. Þá sé bent á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 105/2005 hafi ákvörðun borgarráðs verið felld úr gildi, m.a. á þeim grundvelli að engar heimildir hafi verið til uppbyggingar á tiltekinni lóð og að ekki hafi verið gefnar skýringar á hinum mikla mismun á nýtingarheimildum á þeim tveim lóðum er skipulagsbreytingin tæki til. Einnig hafi komið fram í máli nr. 41/2005 að óheimilt væri að mismuna lóðarhöfum verulega við ákvörðun um byggingarheimildir nema veigamiklar ástæður væru færðar fram er réttlættu slíka mismunun.

Deiliskipulagið sé efnislega rangt þar sem það geri ráð fyrir því að aðrar lóðir en Laugavegur 176 standi óbreyttar. Þannig sé ljóst að lóðin Laugavegur 178 skerðist töluvert við nýtt deiliskipulag þar sem nyrðri mörk lóðarinnar færist 1 m til suðurs. Vegna fyrirhugaðrar lagningar Borgarlínu muni að lágmarki 15 bílastæði á lóð kærenda glatast. Enn fremur sé í deiliskipulaginu gert ráð fyrir nýrri aksturstengingu við Laugaveg á lóðamörkum Laugavegar 176 og 178. Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að lóðamörk kærenda muni standa óbreytt. Það sé rangt enda sé verið að taka um 4 m af lóðinni en samkvæmt skilningi skipulagsfulltrúa sé um 1 m tekinn af lóðinni. Hvernig sem horft sé á málið sé verið að skerða lóðina. Þá sé bent á að 7. október 2008 hafi byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkt að heimilt yrði að byggja bílahús á suðurhlið lóðar kærenda. Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis sé ekki til staðar og því þurfi að endurnýja umsóknin. Á það geti kærendur ekki fallist. Bent sé á að fasteignargjöld hafi verið greidd til fjölda ára vegna hins óbyggða mannvirkis. Að lokum sé málsmeðferðin ekki í samræmi við skipulagslög þar sem kærendum hafi ekki verið kynntar umsagnir um athugasemdir sínar, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hinn umdeildi skipulagsreitur sé skilgreindur sem miðsvæði M2b í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Reiturinn sé þéttingar- og þróunarsvæði og lykilsvæði á samgöngu- og þróunarás sem tengi vestur- og austurhluta borgarinnar. Á þeim ás sé ráðgert að byggja upp hágæða almennings­samgöngukerfi.

Fram hafi komið í umsögn skipulagsfulltrúa frá 6. mars 2020 að tillaga deiliskipulagsins væri langt á veg komin og í raun nánast tilbúin fyrir lóðina Laugaveg 176. Stefnt sé að því að flýta uppbyggingu og því brýnt að afgreiða deiliskipulagið. Í umsögninni hafi jafnframt komið fram að á fyrri stigum tillögunnar hafi skipulagsfulltrúi ekki orðið var við áhuga annarra lóðarhafa á svæðinu. Hafi því verið ákveðið að hafa heimildir óbreyttar. Aftur á móti sé vakin athygli á því í umsögninni að ekkert sé því til fyrirstöðu, komi fram beiðni um slíkt, að skoða uppbyggingarmöguleika á öðrum lóðum ef eigendur þeirra lóða sýni fram á hvernig þeir vilji þróa sínar lóðir í samræmi við niðurstöður hugmyndasamkeppni og rammaskipulag svæðisins.

Hluti af skipulagsvaldi sveitarfélaga sé að ákveða hvaða áherslur og stefna sé lögð í deiliskipulagi, sem og hvaða lóðir geti talist falla undir þær áherslur. Rammaskipulag fyrir svæðið hafi verið kynnt í umhverfis- og skipulagsráði 31. janúar 2018. Áður hafi verið unnið deiliskipulag fyrir svæðið, sem ekki hafi verið auglýst, en skipulagslýsing hafi verið lögð fram. Kærendum hafi því mátt vera ljóst að lengi hefði verið unnið að því að samþykkja nýtt deiliskipulag og þeir haft tækifæri til þess á fyrri stigum að koma að sínum sjónarmiðum og áherslum. Jafnframt hafi þeir komið að sínum sjónarmiðum við vinnslu deiliskipulagsins. Bent sé á að í svari skipulagsfulltrúa sé opnað fyrir samtal um uppbyggingu á lóðinni. Að mati borgarinnar liggi málefnaleg sjónarmið til grundvallar samþykkis deiliskipulagsins, sbr. áherslur aðalskipulagsins um uppbyggingu á hágæða almenningssamgöngukerfi á og meðfram Laugavegi. Hvað varði sjónarmið um brot á meðalhófsreglu þá sé það afstaða borgarinnar að með því að opna á samtal um uppbyggingu lóðar kærenda, falli hún að rammaskipulagi og áherslum borgarinnar, sé sýnt fram á meðalhóf við töku ákvörðunarinnar.

Nyrðri lóðamörk Laugavegar 178 séu óbreytt eftir samþykkt deiliskipulagsins. Bílastæði sem vísað sé til næst Laugavegi tilheyri að lang mestu leyti Reykjavíkurborg, þar sem þau standi á borgarlandi. Með deiliskipulagi hafi lóðamörkum ekki verið breytt heldur sýni skipulagið raunveruleg lóðamörk. Þá sé bent á að ekkert leyfi hafi verið gefið út fyrir samþykktri umsókn um byggingarleyfi frá 7. október 2008 til að byggja bílageymslu neðanjarðar á lóð Laugavegar 178. Í þágildandi gr. 14.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 hafi komið fram að byggingarleyfi falli úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Engar byggingarframkvæmdir hafi farið fram og sé samþykkið því fallið úr gildi. Þar að auki hafi skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis skv. 13. gr. reglugerðarinnar ekki verið uppfyllt. Hvorki hafi verið greidd tilskilin gjöld né liggi fyrir yfirlýsing byggingarstjóra um ábyrgð á verkinu eða samþykkt hönnunargögn. Ekkert byggingarleyfi sé í gildi fyrir umræddu bílahúsi.

Hvað varði málsrök kærenda um að þeim hafi ekki verið kynnt sérstaklega umsögn skipulags­fulltrúa frá 6. mars 2020 sé bent á að skipulagslög og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 geri ekki ráð fyrir sérstakri tilkynningu til hvers og eins athugasemdaraðila.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja sig ekki hafa haft tækifæri til að koma að skipulagsgerðinni. Ekki sé ljóst hvað Reykjavíkurborg eigi við með að skipulagslýsing vegna vinnslu á eldra deiliskipulagi hafi verið lögð fram en ljóst sé að sú framlagning fullnægi ekki kröfu 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um kynningu lýsingar fyrir almenning. Ekkert samráð hafi verið haft við kærendur sem hagsmunaaðila við umrætt skipulagsferli, eins og mælt sé fyrir um í 1. mgr. 40. gr. laganna. Eitt markmið laganna, sbr. d-lið 1. gr., sé að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækfiæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana.

Í 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga komi fram að þegar frestur til athugasemda sé liðinn skuli sveitarstjórn taka tillöguna til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Þá segir að í þeirri umfjöllun skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi og hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Það sé ekki málefnalegt sjónarmið fyrir því að hafa heimildir óbreyttar á öðrum lóðum að vísa til þess að tillögugerðin hafi verið langt komin og að enginn sýnilegur vilji eða áhugi annarra lóðarhafa hafi verið á svæðinu. Þegar af þeirri ástæðu beri að fallast á kröfur kærenda. Kærendur hafi þannig ekki fengið tækifæri til að koma að skipulagsgerðinni auk þess sem í engu hafi verið tekið tillit þeirra athugsemda sem þeir hafi lagt fram. Þá sé bent á að málshraði stjórnvalda megi ekki vera á kostnað vandaðra stjórnsýsluhátta eða réttaröryggis þeirra sem hagsmuna eigi að gæta af afgreiðslu máls. Markmið skipulagslaga sé m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. gr. laganna.

Verulegur vafi sé til staðar um hvort einhver af þeim bílastæðum sem deilt sé um séu á borgarlandi eða á lóð kærenda. Í greinargerð borgarinnar komi fram að bílastæði sem glatist „tilheyri að lang mestu leyti Reykjavíkurborg.“ Ljóst sé að einhver bílastæði séu því á lóð kærenda. Í lóðarleigusamningi um lóðina séu kvaðir um bílastæði og sýni uppdráttur, sem fylgt hafi með samningnum, staðsetningu bílastæðanna. Réttur kærenda til bílastæðanna sé því óumdeilanlegur.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir bílahús á suðurhlið lóðarinnar sé mannvirkið skráð í fasteignaskrá. Þá sé einnig til teikning af bílastæðageymslunni í teikningavef Reykjavíkurborgar. Deiliskipulagið geri ráð fyrir aðkomu baka til að Laugavegi 176, sem muni eyðileggja aðkomu að fyrirhuguðu bílastæðahúsi. Hefði samráð verið haft við kærendur hefði verið hægt að komast hjá þessu.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Laugaveg 176-178, Bolholt 4-8 og Skipholt 33-37, en lóðirnar voru á ódeiliskipulögðu svæði. Með deiliskipulaginu er gert ráð fyrir uppbyggingu á lóð Laugavegar 176 vegna fyrirhugaðs hótels, en engar breytingar eru gerðar á öðrum lóðum á skipulagsreitnum og þær því án viðbótarbyggingarheimilda. Kærendur eru lóðarhafar Laugavegar 178 og gera þeir athugasemdir m.a. við að málsmeðferð við skipulagsgerðina hafi ekki verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Jafnframt vísa kærendur til þess að lóð þeirra hafi ekki verið skipulögð með samsvarandi heimildum og lóð Laugavegar 176 og hafi jafnræðis því ekki verið gætt við skipulagsgerðina.

Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga að þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefst skuli sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Svo sem rakið er í málavöxtum var í september 2017 gerð skipulagslýsing vegna nýs deiliskipulags Heklureits og Laugavegar 176. Fram kemur í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemd kærenda vegna auglýstrar deiliskipulagstillögu að þar sem ekki hafi náðst samningar við „lóðarhafa Heklu“ hafi verið ákveðið að Laugavegur 176 yrði hluti af skipulagi við eystri hluta svæðisins samkvæmt rammaskipulagi. Skipulagslýsing hins kærða deiliskipulags tók því einungis tekið til lóðarinnar Laugavegar 176. Hins vegar hefur ekki verið gerð lýsing fyrir aðrar lóðir á skipulags­svæðinu.

Eins og að framan greinir skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefni þegar vinna við deiliskipulagstillögu hefst, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að skipulagslögum segir um ákvæðið að það sé nýmæli og byggist á þeirri meginreglu að því fyrr sem athugasemdir komi fram við gerð deiliskipulags því betra. Er nánar vísað til athugasemda í greinargerð frumvarpsins við 23. og 30. gr., sem fjalla um gerð lýsingar við gerð svæðisskipulags og aðalskipulags. Af þeim athugasemdum verður ráðið að tilgangur lýsingar sé að skipulagsgerð sé unnin á gagnsæjan hátt og að slík vinnubrögð stuðli að því að aflað sé víðtækra upplýsinga og sjónarmiða strax frá upphafi skipulagsvinnu. Stuðlar gerð lýsingar að því markmiði skipulagslaga að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. d-lið 1. gr. laganna.

Gerð lýsingar er meginreglan við deiliskipulagsgerð þannig að hafa megi samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila strax frá upphafi skipulagsvinnu. Urðu kærendur ekki varir við skipulags­gerðina fyrr en við auglýsingu mótaðrar deiliskipulagstillögu, en í henni var lóð þeirra skipulögð án heimilda til frekari uppbyggingar. Þrátt fyrir að skipulagslýsing hafi verið unnin fyrir eina lóð á skipulagssvæðinu verður ekki talið að skilyrði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga, um að sveitarstjórn skuli taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sé uppfyllt í máli þessu. Breytir þar engu um þótt fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda við deiliskipulagstillöguna að tillögugerð fyrir lóðina Laugaveg 176 hafi verið langt komin og að kærendur geti skoðað uppbyggingarmöguleika á lóðinni í samræmi við niðurstöður hugmyndasamkeppni og rammaskipulag. Hafa ber í huga að með því að skilgreina allar lóðir nema lóð Laugavegar 176 án viðbótarbyggingaheimilda er í raun gengið gegn þeirri stefnumörkun sem fram kemur í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 að gert sé ráð fyrir allnokkurri þéttingu byggðar á svæðinu, auk þess sem í rammaskipulagi svæðisins er ráðagerð um frekari uppbyggingu svæðisins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru þeir annmarkar á samráði við hagsmunaaðila á skipulagssvæðinu og þar með undirbúningi hins kærða deiliskipulags að ekki verður hjá því komist að fella það úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Laugaveg 176-178, Bolholt 4-8 og Skipholt 33-37.