Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2020 Dalabyggð

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2020, kæra vegna gjaldtöku fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júlí 2020, er barst nefndinni 17. s.m., kærir  eigandi, Hofakri, Dalabyggð, „3. gr. gjaldskrár fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð sem staðfest var 12. desember 2019.“ Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að álagning samkvæmt hinni kærðu gjaldskrá verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalabyggð 14. ágúst 2020.

Málavextir: Gjaldskrá fyrir árið 2020 vegna hirðingar, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð var samþykkt í sveitarstjórn á fundi hennar 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Álagningarseðill vegna fasteignagjalda 2020, dags. 11. desember það ár, var sendur kæranda. Í apríl 2020 sendi kærandi sveitarstjórn Dalabyggðar erindi þar sem farið var fram á útskýringar á framangreindri gjaldskrá, einkum 3. gr. hennar. Benti kærandi jafnframt á að ósanngirni ríkti við skiptingu gjalds í flokka þannig að misræmis gætti við álagningu sorphirðu- og sorpeyðingargjalds á búfjáreigendur. Loks gerði hann athugasemdir við að umbeðin þjónusta hefði ekki verið veitt í tiltekið skipti.

Sveitarstjórn tilkynnti kæranda um afgreiðslu á ofangreindu erindi með tölvupósti 21. apríl 2020. Í póstinum kom fram að byggðarráð hefði fjallað um erindi kæranda á fundi sínum 16. apríl s.á. og bókað efirfarandi „Gjaldskrá er sett miðað við umfang heildarflutninga og er endurskoðuð árlega. Í henni er lögð áhersla á að gæta meðalhófs. Sveitarstjóra falið að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.“ Í frekari svörum sveitarstjóra kom fram að áður hefði verið ákveðið eitt gjald fyrir öll bú en vegna framkominna athugasemda hefði gjaldskránni verið breytt, auk þess sem horft yrði til athugasemda kæranda við vinnslu næstu gjaldskrár. Hins vegar væri ljóst að breytileg gjöld eftir stærð búa yrðu alltaf matsatriði. Gjöldum vegna þjónustunnar væri ætlað að standa undir kostnaði vegna hennar en sá væri ekki raunveruleikinn í dag.

Málsrök kæranda: Kærandi telur gjaldskrá nr. 1372/2019 fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð íþyngjandi fyrir búfjáreigendur með fáa gripi, þar sem aðeins þurfi að eiga meira en tíu stórgripi eða fleiri en 50 kindur til að vera kominn í hæsta gjaldflokk. Kærandi haldi tíu kindur og 16 hross og innheimtar séu kr. 51.000 vegna hirðingar og eyðingar dýrahræja, en búfjáreigandi með 1.000 kindur og 100 hross, svo dæmi sé tekið, greiði sömu fjárhæð. Leiði þetta til mismununar milli íbúa sveitarfélagsins.

Árangurslaust hafi verið leitað eftir leiðréttingu hjá sveitarstjórn og hafi svar þar að lútandi nýverið borist í tölvupósti frá sveitarstjóra, eftir að gengið hafi verið eftir því.

Málsrök Dalabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem kært sé ákvæði í gjaldskrá, en gjaldskrá af þessu tagi teljist til stjórnvaldsfyrirmæla sem séu almenns eðlis og feli ekki í sér ákvörðun í máli tiltekins aðila. Slík fyrirmæli stjórnvalda sæti ekki kæru.

Ef málið sé skilið á þann veg að kærandi sé að kæra afgreiðslu 243. fundar byggðarráðs sveitarfélagsins frá 16. apríl 2020 þá beri einnig að vísa því frá þar sem ekki sé hægt að líta á afgreiðslu byggðarráðs sem stjórnvaldsákvörðun þar sem hún bindi ekki enda á málið. Einungis sé þar um að ræða svar við gagnrýni sem kærandi hafi sett fram varðandi gjaldskrána. Í tölvupósti kæranda til sveitarfélagsins 2. apríl 2020 sé ekki sett fram nein krafa um úrbætur, leiðréttingu eða afslátt, sem hægt hafi verið að samþykkja eða synja, heldur hafi kærandi þar aðeins lýst óánægju sinni með gjaldskrána og spurt um afstöðu sveitarstjórnar til þeirra sjónarmiða sem hann hafi sett þar fram. Gjaldskráin hafi verið samþykkt á 184. fundi sveitarstjórnar hinn 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Verði ekki séð að það sé á sviði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að endurskoða samþykktina eða gjaldskrána.

Í kæru, dags. 9. júlí 2020, segi kærandi að hann hafi fengið svar frá sveitarstjóra „nýverið í tölvupósti eftir að gengið var eftir svari.“ Þessu orðalagi sé mótmælt en eins og sjá megi af gögnum málsins hafi kæranda verið svarað með tölvupósti hinn 21. apríl 2020 og ekkert hafi gefið til kynna annað en að sending á tölvupóstinum hafi tekist. Því verði að ætla að svarið hafi einhverra hluta vegna farið fram hjá kæranda.

Hirðing á dýrahræjum hafi hafist í Dalabyggð á miðju ári 2018. Gjald á því ári hafi verið samkvæmt gjaldskrá sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 3. janúar 2018. Árið 2019 hafi verið fyrsta heila árið þar sem rukkað hafi verið fyrir allt árið. Hafi gjaldskrá vegna þessa verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2019. Eins og fram komi í svari til kæranda  21. apríl 2020 hafi gjaldið bæði árin verið það sama fyrir alla búfjáreigendur, án tillits til stærðar bústofns. Vegna þessa hafi borist þrjú erindi þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við að ekki hafi verið tekið tillit til stærðar bústofns. Ekki hafi verið gerð breyting á gjaldskrá 2019 í kjölfar þessara erinda en ákveðið hafi verið að endurskoða þetta í gjaldskrá 2020. Við setningu gjaldskrár fyrir 2020 hafi verið leitast við að mæta þeirri gagnrýni sem komið hafi fram. Á sama hátt verði horft til erindis kæranda við vinnslu gjaldskrár 2021. Það sé hins vegar ljóst að um leið og farið sé að hafa gjaldskrá breytilega eftir stærð bústofns verði skilin á milli gjaldflokka sem sett séu alltaf háð mati. Við gerð gjaldskrárinnar hafi verið lögð áhersla á að gæta meðal-hófs en vitað að ólíklegt væri að niðurstaða næðist sem allir yrðu ánægðir með.

Gjaldið eigi að standa undir þjónustunni en geri það reyndar ekki að fullu. Mjög stór hluti af kostnaði við verkefnið sé flutningurinn og skipti þá ekki meginmáli hversu mikið sé sótt á hvern stað heldur ekin vegalend. Það sé því ekki svo að stærð búa sé ráðandi þáttur varðandi kostnaðinn.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur fráleita kröfu sveitarfélagsins um að vísa málinu frá. Sé það í ósamræmi við álagningarseðla þar sem m.a. segi: „Álagning á sorphirðu- og sorpeyðingargjaldi er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá álagningu. Gjald vegna hirðingu og eyðingu á dýrahræjum er innheimt miða við hausttölur (frá MAST) ár hvert, en endanlegar tölur 2019 liggja ekki fyrir fyrr en í apríl n.k. og verður álagt gjald endurskoðað þá annað hvort til hækkunar eða lækkunar.“ Samkvæmt þessu séu tölur um fjölda gripa yfirfarnar hjá hverjum og einum búfjáreigenda og því ætti að vera auðvelt að deila kostnaði við hirðingu og eyðingu dýrahræja niður í samræmi við gripafjölda hvers og eins. Því sé mótmælt að stærð búa sé ekki ráðandi þáttur varðandi kostnaðinn þar sem vanhöld séu væntanlega oftast í samræmi við gripafjölda. Það að kostnað-urinn sé að mestu vegna ekinnar vegalendar hljóti að ráðast af því hvernig þjónustan sé skipulögð, en sú skipulagning sé alfarið í höndum sveitarfélagsins.

Í núverandi gjaldskrá sé ekki gætt meðalhófs en búfjáreigandi þurfi aðeins að eiga nokkrar skepnur sér til gamans til að vera kominn í hæsta gjaldflokk, þ.e. sama flokk og þeir lendi í sem stundi búskap sem atvinnu.

Niðurstaða: Gjaldskrá nr. 1372/2019 fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð fyrir árið 2020 var samþykkt á sveitastjórnarfundi 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Gjaldskrár sem slíkar teljast ekki vera stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er ekki að finna í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Einstaklingar og lögaðilar hafa ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu gjaldskráa fyrr en álagning á grundvelli þeirra fer fram. Slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þegar mælt er svo fyrir um í lögum. Hin kærða gjaldskrá er sett með stoð í 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en fram kemur í 65. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í málinu liggur fyrir að álagningarseðill vegna fasteignagjalda 2020, dags. 11. febrúar það ár, var sendur kæranda og því hefur álagning á grundvelli hinnar kærðu gjaldskrár farið fram, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður því að líta svo á að kærð sé álagning sorphirðu- og sorpeyðingargjalds vegna ársins 2020 og að krafist sé ógildingar álagningarinnar.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.

Hin kærðu gjöld voru lögð á með álagningarseðli, dags. 11. febrúar 2020, en kæra í máli þessu er dagsett 9. júlí s.á. og barst úrskurðarnefndinni 17. s.m. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Á álagningarseðlinum er að finna slíkar kæruleið-beiningar og það fyrirkomulag þykir fullnægja framangreindum áskilnaði stjórnsýslulaga. Á seðlinum er jafnframt að finna upplýsingar um að gjald vegna hirðingar og eyðingar á dýrahræjum sé innheimt miðað við hausttölur (frá MAST) ár hvert, en álagt gjald verði endurskoðað til hækkunar eða lækkunar þegar endanlegar tölur liggi fyrir í apríl 2020. Liggur fyrir að slík endurskoðun fór ekki fram vegna hinnar kærðu álagningar. Kærandi hefur fyrir úrskurðarnefndinni bent á að hann hafi árangurslaust leitað eftir leiðréttingu hjá sveitarstjórn. Erindi kæranda, sem beint var til sveitarfélagsins eftir lok kærufrests sem leiðbeint var um, ber þó ekki með sér að farið sé fram á leiðréttingu eða endurupptöku álagningar hans heldur sýnist þar fremur lýst óánægju með fyrirkomulag álagningar samkvæmt hinni umþrættu gjaldskrá. Bera svör sveitarfélagsins og með sér þann skilning og fólu þau ekki í sér nýja ákvörðun. Stóð hin kærða ákvörðun um álagningu frá 11. febrúar 2020 því óhögguð. Að framangreindu virtu þykja ekki fyrir hendi neinar þær ástæður sem leiða ættu til að kæra þessi, sem barst um fjórum mánuðum eftir að kærufresti lauk, verði tekin til efnismeðferðar. Verður henni því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

99/2020 Þerneyjarsund

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 17. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dóm­stjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 um að leggja dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á lóðarhafa Þerneyjarsunds 23 í nefndum hreppi frá og með 16. nóvember 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Þerneyjarsunds 23, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 að leggja á hann dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 frá og með 16. nóvember 2020. Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 12. október 2020.

Málavextir: Með bréfi til kæranda, dags. 8. september 2020, beindi byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps þeirri áskorun til kæranda að tekið yrði til á lóð hans Þerneyjarsundi 23, þannig að allt rusl og lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Var einnig farið fram á að komið yrði í veg fyrir frekari mengun og þá hættu sem stafaði af nefndum hlutum gagnvart byggingum á lóðinni. Var bent á að umrædd lóð væri skipulögð sem sumarhúsalóð en ekki geymslusvæði fyrir lausafjármuni og rusl. Kom að auki fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi í framhaldi beita þeim aðgerðum sem tilgreindar væru í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þ.e. dagsektum sem gætu numið allt að kr. 500.000. Þá var kæranda leiðbeint um andmælarétt samkvæmt 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærandi kærði fyrrgreint erindi byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 82/2020, uppkveðnum 13. október 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að efni bréfs byggingarfulltrúa hefði einungis falið í sér tilmæli til kæranda og viðvörun þess efnis að búast mætti við dagsektum yrði ekki að þeim farið. Lægi því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Með bréfi til kæranda, dags. 14. október 2020, vísaði byggingarfulltrúi til þess að þar sem fyrr­greindum tilmælum hefði ekki verið sinnt yrði heimildum samkvæmt gr. 2.9.2. í byggingar­reglugerð beitt. Voru lagðar á kæranda 20.000 kr. dagsektir frá og með 16. nóvember 2020 þar til kröfu byggingarfulltrúa yrði sinnt. Er þetta sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar m.a. til þess að um geðþóttaákvörðun byggingarfulltrúa sé að ræða. Kærandi sé með „skaðaðan bústað sem sé í vinnuferli“ og ekki sé nokkur möguleiki að verða við ákvörðuninni á þessum tíma árs og á svo stuttum tíma. Þeir munir sem hin kærða ákvörðun lúti að séu á lokuðu svæði og ekki fyrir neinum en fyrirsjáanlegt sé að selja þurfi bústaðinn með verulegum afföllum vegna ákvörðunarinnar. Þá séu á mörgum öðrum lóðum í hverfinu að finna sambærilega hluti og hafi verið svo árum saman.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að Þerneyjarsund 23 sé í skipulagðri frístundabyggð. Sent hefði verið bréf til kæranda, dags. 8. september 2020, þar sem farið hefði verið fram á að tekið yrði til á lóðinni, allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Er byggingarfulltrúi hafi farið aftur í skoðun á staðinn 9. október 2020 hafi komið í ljós að eigandi lóðarinnar hefði ekki brugðist við nefndu bréfi frá 8. september 2020. Enn sé mikið af byggingarúrgangi, rusli og öðrum lausa­fjármunum á lóðinni.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að telji byggingar­fulltrúi að ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli hann gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. ákvæðisins er síðan að finna heimild til að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur. Þá er kveðið á um í 4. mgr. 56. gr. að álagðar dagsektir njóti lögveðs í mannvirki, byggingarefni og viðkomandi lóð. Nánar er kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem byggingarfulltrúa er m.a. veitt heimild til að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja eigendur eða umráðamenn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu tilkynnti byggingarfulltrúi kæranda með bréfi, dags. 8. september 2020, um áform um álagningu dagsekta yrði kærandi ekki við kröfum um að tekið yrði til á lóð hans og allt rusl og aðrir lausafjármunir fjarlægðir og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Jafnframt var tekið fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi beita dagsektum í samræmi við gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Var ákvörðun þar um tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. október 2020. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að andmælaréttar kæranda hafi verið gætt og hann fengið hæfilegan frest til að bregðast við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur áður en gripið var til hinna kærðu þvingunarúrræða.

Fyrirliggjandi ljósmyndir af lóð kæranda bera með sér að þar sé talsvert af byggingar­úrgangi, rusli og öðrum lausafjármunum. Er því engum vafa undirorpið að frágangi, ásigkomu­lagi og umhverfi lóðar hans hafi á umræddum tíma verið ábótavant í skilningi 1. mgr. 56. gr. laga um mann­virki, sbr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Var því byggingarfulltrúa rétt að leggja á kæranda dagsektir til að knýja á um úrbætur á lóð hans, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur umhirðu hennar verið ábótavant um árabil.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 um að leggja dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á lóðarhafa Þerneyjarsunds 23 í nefndum hreppi frá og með 16. nóvember 2020.

54/2020 Barmahlíð

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 17. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dóm-stjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2020, kæra á ákvörðun  byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2020, er barst nefndinni 22. s.m., kæra eigandi, Barmahlíð 19, og eigandi, Barmahlíð 21, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir: Hinn 31. mars 2020 lögðu kærendur fram umsókn um leyfi til þess að stækka íbúðir á 2. hæð fjöleignarhússins nr. 19-21 við Barmahlíð með því að hækka þak og útbúa svefnherbergi, baðherbergi og þvottahús, auk þess að bæta við svölum á rishæð. Fól umsóknin í sér að mænishæð hússins myndi hækka um 2,51 metra. Umsókn kærenda var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. apríl 2020 þar sem afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda og málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Hinn 24. s.m. tók skipulagsfulltrúi umsóknina fyrir og skilaði neikvæðri umsögn, dags. 15. maí 2020. Umsóknin var tekin að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19 s.m. ásamt framangreindri umsögn skipulagsfulltrúa. Var umsókninni synjað með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 15. maí 2020.“

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að umsókn þeirra um hækkun á þaki Barmahlíðar 19-21 hafi verið synjað með vísan til þess að lagt hefði verið til að húsaröðin Barmahlíð 10-24 nyti verndar í rauðum flokki, þrátt fyrir að breytingar hefðu verið gerðar á einhverjum þeirra með tilheyrandi röskun á heildarmynd. Ráðgjafar fyrir hverfisskipulag Hlíða hafi í ljósi niðurstöðu Borgarsögusafns lagt til að þessi hús verði meðal þeirra húsaraða í Hlíðum sem fái sérstaka vernd og að þakhækkun verði ekki heimiluð. Framangreind niðurstaða sé í mótsögn við þær afgreiðslur sem þegar hafi falið í sér leyfi fyrir hækkunum, líkt og hér sé sótt um. Með engu móti sé hægt að sjá að framangreind rök geti vegið þyngra en sú skylda stjórnvalds að meðhöndla sambærileg mál með sambærilegum hætti, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Synjunin feli einnig í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. laganna.

Sá hluti Hlíðarhverfis sem afmarkast í norðri af Miklubraut, í austri af Stakkahlíð, í suðri af Hamrahlíð og í suðvestri af Eskihlíð, hafi verið byggður upp á árunum 1944 til 1955. Breytingar á húsum, t.d. þakbreytingar, hafi verið gerðar allt til dagsins í dag. Síðustu breytingar á þakrými og útliti í Barmahlíð hafi verið gerðar á síðustu tíu árum. Á svæðinu séu samtals 208 af 250 húsum með íbúðarrými í risi, eða 83%. Við íbúðakaup á efri hæðum í Barmahlíð sé fólk með það í huga að nýta rishæð vegna fordæma fyrir nýtingu rishæða í hverfinu. Í ljósi þess að næsta hús til vesturs við Barmahlíð 19-21, sem er nr. 15-17, hafi verið hækkað sé mjög eðlilegt að hægt verði að nýta risið á húsinu við Barmahlíð 19-21 á sambærilegan hátt. Húsið að Barmahlíð 15-17 sé í grunninn alveg eins auk þess sem það hafi verið teiknað af sömu arkitektum. Þakásýnd hússins að Barmahlíð 19-21 hafi mjög lítil áhrif á götumynd og upplifun á göturými.

Risið á húsinu að Barmahlíð 15-17 hafi verið hækkað samkvæmt teikningum frá 1958 og búið sé að leyfa breytingu á risinu í nafni upprunalegs arkitekts. Glerskálum hafi verið bætt við samkvæmt teikningum frá 1981. Af framangreindu megi gera ráð fyrir að mögulegar breytingar á húsum í nágrenninu, í samræmi við þarfir fólks, hafi verið afar skýr ætlun arkitektsins sjálfs, en ekki að húsin yrðu óbreytt um ókomna tíð. Húsið að Barmahlíð 9 sé í grunnin alveg eins og húsið að Barmahlíð 19-21 að öðru leyti en því að það sé ekki parhús heldur sé það með einni íbúð á hverri hæð. Það samsvari því helmingi hússins að Barmahlíð 19-21 og Barmahlíð 15-17. Húsið að Barmahlíð 9 sé teiknað árið 1946 af sömu arkitektum. Teikningum hafi verið breytt árið 2005 og 2007 og þaki lyft með breytingum í framhaldinu.

Þar sem tími hafi verið kominn á endurnýjun þakefnis í Barmahlíð 19-21 og þörf sé fyrir meiri íbúðarrými hafi verið sótt um að hækka ris og að stækka efri íbúðir. Ekki hafi verið sótt um auka fastanúmer og íbúðafjöldi sé óbreyttur. Þakhalli á breyttu þaki sé 40° og mun minni en á næsta húsi að Barmahlíð 15-17 þar sem þakhallinn sé 75°. Flest hús í hverfinu séu með tvíhallandi þaki og kvistum þar sem meðalþakhalli sé 35-55°. Tillaga arkitekta að breytingu á rishæð sé í anda þeirra bygginga sem í hverfinu séu og beri virðingu fyrir upprunalegri hönnun. Kvistarnir kallist á við núverandi byggingar í kring.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé markmiðið að nýta land og lóðir betur og sé þétting byggðar eitt af leiðarljósum skipulagsins ásamt blandaðri byggð með góðu hlutfalli af litlum, meðalstórum og stórum íbúðum í sama hverfi. Stækkun íbúða á efri hæð við Barmahlíð 19-21 með þakstækkun sé í anda markmiða Reykjavíkurborgar um þéttingu byggðar og blöndun íbúðastærða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að umsókn kærenda hafi af byggingar­fulltrúa verið send til umsagnar skipulagsfulltrúa í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um mann-virki nr. 160/2010, sbr. gr. 2.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2010 m.s.br. Í umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 15. maí 2020, komi fram að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir það svæði sem fasteignin tilheyri. Í gangi sé vinna við gerð hverfisskipulags þar sem settir séu fram skilmálar og leiðbeiningar varðandi breytingar á útliti, þaki og svölum húsa í Hlíðahverfi. Í byggða­könnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem hafi verið unnin vegna vinnslu hverfis­skipulags Hlíða, komi fram að húsaröðin Barmahlíð 10-24 sé ein þeirra húsaraða sem sett séu í rauðan flokk. Byggingar í rauðum flokki séu þær sem teljist hafa hátt varðveislugildi og fara skuli varlega í breytingar á þeim. Skipulagsfulltrúi bendi á að húsaröðin Barmahlíð 10-24 hafi verið reist á árunum 1945-1947 og njóti verndar þrátt fyrir að gerðar hafi verið breytingar á sumum húsanna, sem raski heildarmynd götunnar. Sérfróðir ráðgjafar hafi lagt til við vinnslu hverfis-skipulags að húsaröðin njóti sérstakrar verndar og að þakhækkun verði ekki heimiluð.

Samþykkt á hækkun þaks fyrir fasteignina Barmahlíð 9 hafi verið samþykkt árið 2005 eða fyrir 15 árum. Þak Barmahlíðar 15-17 hafi verið hækkað árið 1958, eða fyrir 62 árum. Mikið hafi breyst í skipulagsmálum á síðustu 15 árum, hvað þá á sex áratugum. Sé verulega langt seilst að telja að nefndar breytingar séu þess eðlis að um brot á jafnræðisreglu sé að ræða. Við Barmahlíð standi 56 númeruð hús en einungis tvö séu nefnd í kæru sem fordæmi.

Skipulagsyfirvöld hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni mat sérfróðs aðila um verndum gamalla bygginga í borginni. Lagt hafi verið til af hönnuðum við hverfiskipulag Hlíða að mat Borgarsögusafns verði tekið inn í skilmála hverfisskipulagsins og sé því eðlilegt að það sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknarinnar.

Hvað varði brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá sé það skilyrði slíks brots að fyrir liggi að fleiri valkostir hafi verið til staðar við töku ákvörðunar sem gengju skemur en kærð ákvörðun. Ekki sé að sjá að kærendur hafi lagt til aðra tillögu með umsókn sinni en þá sem synjað hafi verið.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi bendir á að ný rök fyrir breyttri afgreiðslu byggingarfulltrúa hafi komið í ljós sem krefjist breyttrar afgreiðslu hans á erindinu. Afar brýnt sé að breyta þaki hússins að Barmahlíð 19-21 af heilsufarsástæðum eins fljótt og hægt sé þar sem þakið sé með asbesti sem sé afar krabbameinsvaldandi efni. Þakið sé einnig farið að leka, sem gæti haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir íbúa.

Í lögum nr. 104/2001 um húsafriðun komi skýrt fram að friða megi mannvirki, hús eða húshluta. Samkvæmt 5. gr. laganna ákveði ráðherra friðun eða brottfall friðunar að fengnum tillögum húsafriðunarnefndar. Ekkert slíkt hafi átt sér stað og njóti því umrædd hús ekki verndar. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafi því ekki lagastoð fyrir því að nota þetta sem rök til að hafna breytingum á þakrými hússins. Tillögur þeirra sem skipulagsfulltrúi hafi nefnt „sérfróðir ráðgjafar“, um að húsaröðin fái vernd, hafi ekkert lagalegt vægi. Þær breytingar í skipulagsmálum sem Reykjavíkurborg vísi til hafi ekki hindrað borgaryfirvöld í að heimila miklar breytingar á þaki Barmahlíðar 6 á síðustu tveimur árum. Að veita aðilum leyfi til að breyta þakrými sé því án efa fordæmisgefandi.

———-

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 10. nóvember 2020.

Niðurstaða: Lóðin Barmahlíð 19-21 tilheyrir grónu hverfi, sem hefur mótast í tímans rás með veitingu einstakra byggingarleyfa, en hverfið hefur ekki verið deiliskipulagt. Þegar aðstæður eru eins og að framan greinir er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í sam­ræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Umsókn kærenda laut að heimild til að stækka íbúðir á 2. hæð í Barmahlíð 19-21 með því að hækka þak og útbúa rishæð með svefnrými, baðherbergi og þvottaherbergi, auk þess að svölum yrði bætt við á rishæð. Kærendur benda á að mænishæð á nýju þaki sé sambærileg því sem sé á mænisþökum í kring. Gert sé ráð fyrir kvistum og séu þeir með einhallandi þaki. Samanlögð heildarlengd kvista sé minni en 40% af samanlagðri heildarlengd þakkanta.

Fyrir liggur að á liðnum árum hafa verið veittar byggingarheimildir og breytingar verið gerðar á þakrými nærliggjandi húsa og víðar í umræddu hverfi, m.a. á húsinu Barmahlíð 15-17, sem stendur við hlið húss kærenda. Samkvæmt því verður ekki annað ráðið en að umsókn kærenda um hækkun á þaki húss þeirra hafi verið í samræmi við gildandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar á umræddu svæði, sem eru þeir þættir er líta ber til þegar umsókn um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði er metin, sbr. orðalag 44. gr. skipulagslaga.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. maí 2020, kemur m.a. fram að ráðgjafar fyrir hverfis-skipulag Hlíða hafi, í ljósi niðurstöðu Borgarsögusafns Reykjavíkur, lagt til að umrædd hús verði meðal þeirra húsaraða í Hlíðum sem fái sérstaka vernd og að þakhækkun verði ekki heimiluð. Jafnframt kemur fram í umsögninni að þrátt fyrir að skilmálar, leiðbeiningar og byggðakönnun fyrir Hlíðar liggi fyrir sé hverfisskipulag Hlíða enn ekki samþykkt þar sem verið sé að vinna úr gögnum og samræma. Í byggðakönnun Borgarsögusafns sem unnin hafi verið fyrir Hlíðar komi fram að húsaröðin Barmahlíð 10-24 sé ein þeirra húsaraða sem sett séu í rauðan flokk, þ.e. þau hafi hátt varðveislugildi og fara skuli varlega í allar breytingar.

Skoðun úrskurðarnefndarinnar á vettvangi leiddi í ljós að húsnúmer sunnan götu Barmahlíðar eru sléttar tölur en húsnúmer norðan götu oddatölu, en þar á meðal er hús kærenda. Húsin sunnan götu, sem bera númer á bilinu 10-24, hafa einsleitt yfirbragð og mynda heildstæða götumynd, en húsin norðan götunnar, sem bera oddatölunúmer og eru fjögur talsins við umræddan hluta hennar, eru hins vegar fjölbreyttari að formi og gerð. Hefur til að mynda þaki hússins að Barmahlíð 15-17 verið lyft með sama hætti og umsókn kærenda laut að svo sem áður greinir. Má ráða af orðalagi áðurnefnds álits Borgarsögusafns Reykjavíkur að verndun götumyndar Barmahlíðar 10-24 eigi einungis að ná til húsaraðarinnar sunnan götu enda myndi verndunin ella aðeins ná til hálfs hússins að Barmahlíð 23-25. Þá liggur ekki fyrir að þar til bær stjórnvöld hafi með lögformlegum hætti tekið ákvörðun um verndun húsaraða á nefndum stað og getur því fyrrgreind verndunartillaga ekki verið forsenda stjórnvaldsákvörðunar. Rétt þykir að benda á að í núgildandi skipulagslögum er ekki heimild til að fresta afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna yfirstandandi skipulagsvinnu svæðis, svo sem var í 6. mgr. 43. gr. eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum, m.a. hvað rökstuðning varðar, að fallist verður á kröfu kærenda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21 í Reykjavík.

76/2020 Fákaflöt

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 11. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 76/2020, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Rangárþings eystra frá 20. júlí 2020, og byggðaráðs Rangárþings eystra 30. s.m., um að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnr. 209731.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. ágúst 2020, er barst nefndinni 21. s.m., kærir eigandi lóðar úr jörðinni Skeggjastaðir, fastanúmer 2341917 og landnúmer 194858 þá ákvörðun skipulagsnefndar Rangárþings eystra frá 20. júlí 2020 og byggðaráðs Rangárþings eystra frá 30. s.m. að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnr. 209731. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að fjarlægja gámahúsin af lóð kæranda að uppkveðnum úrskurði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 1. október 2020.

Málavextir: Með bréfi, dags. 4. desember 2019, til eiganda Fákaflatar, landnr. 209731, óskaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra eftir skýringum á stöðu mannvirkja (skúr/smáhýsi og gám) á lóðinni Fákaflöt. Með bréfi, dags. 14. apríl 2020, tilkynnti embættið eigendum Fákaflatar að færa þyrfti nefnd mannvirki til þannig að það yrði í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum Skeggjastaða, landnr. 194858. Að auki þyrfti að skila inn hönnunargögnum fyrir fyrrgreind mannvirki, sem að mati byggingarfulltrúa virtust flokkast sem tilkynningarskyld framkvæmd skv. i-lið í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2020, óskaði eigandi Fákaflatar eftir teikningum og mælingum sem framkvæmdar hefðu verið þannig að hægt yrði að taka upplýsta ákvörðun um hvort ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa yrði andmælt eða ekki.

Með bréfi, dags. 11. júní 2020, ítrekaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að skila yrði inn hönnunargögnum vegna nefndra mannvirkja, að öðrum kosti yrði að fjarlægja þau og afmá allt jarðrask. Ef ekki yrði brugðist við ítrekuðum óskum skipulags- og byggingarfulltrúa innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi embættið láta fjarlægja mannvirkin á kostnað landeiganda Fákaflatar.

Með umsókn, dags. 8. júlí 2020, sótti eigandi Fákaflatar um stöðuleyfi fyrir tvo gáma frá 9. s.m. til 9. júlí 2021. Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra 24. júlí 2020 var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að gámar yrðu staðsettir innan lóðamarka Fákaflatar, landnr.209731, og var sú afgreiðsla staðfest á fundi byggðaráðs Rangársþings eystra 30. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að um gámahús sé að ræða og sé búið að leiða bæði vatn og rafmagn í þau og þar rekin atvinnustarfsemi í formi hundaræktunar. Kærandi hafi aldrei verið beðinn um eða veitt leyfi fyrir lausagöngu hunda á landi sínu. Gámahús séu ekki gámar samkvæmt leiðbeiningum Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar og séu því ekki stöðuleyfisskyld. Samkvæmt byggingarreglugerð séu sumar framkvæmdir ekki byggingarleyfisskyldar, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Þær lóðir sem um ræði í þessu máli séu ódeiliskipulagðar.

Málsrök Rangárþings eystra: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðuleyfisumsókn eiganda Fákaflatar, dags. 8. júli 2020, hafi verið tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra hinn 20. júlí 2020. Á fundinum hafi verið bókað að skipulagsnefnd samþykkti að veita stöðuleyfi frá 9. júlí 2020 til 8. júlí 2021 með þeim fyrirvara að gámarnir yrðu staðsettir innan lóðarmarka umsækjanda. Byggðaráð hefði staðfest niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi sínum 30. júlí 2020.

Heimild til útgáfu stöðuleyfis sé að finna í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar segi í gr. 6.1.1: „Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld.“ Á grundvelli umræddrar heimildar hafi Rangárþing eystra talið sig hafa fulla heimild til útgáfu stöðuleyfis með þeim hætti sem gert hafi verið. Áréttað sé að stöðuleyfi sé í eðli sínu tímabundið leyfi. Hið umþrætta stöðuleyfið falli því samkvæmt efni sínu úr gildi um mitt næsta ár.

Í fyrirliggjandi stöðuleyfi sé sérstaklega tekið fram að leyfið taki einungis til þess að setja gámanna niður innan þess lands sem tilheyri Fákaflöt, landnr. 20973. Leyfishafi hafi því enga heimild frá sveitarfélaginu til að setja gámanna niður á landi sem tilheyri kæranda eða öðrum aðilum. Komi það raunar skýrt fram í afgreiðslu skipulagsnefndar frá 20. júní 2020.

Almennt taki sveitarfélagið ekki afstöðu til ágreinings fasteignareigenda um lóðamörk eða landamerkja bújarða. Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem aðilar verði að leysa úr sjálfir eftir þeim reglum sem um það gildi.

Þrátt fyrir þetta hafi Rangárþing eystra verið í samskiptum við lögmann eigenda Fákaflatar í því skyni að fá upplýst hvort umþrættir gámar væru innan lóðar hans. Ef gámarnir séu að hluta til eða öllu leyti utan lóðamarka Fákaflatar sé ljóst að staðsetning þeirra sé ekki í samræmi við útgefið stöðuleyfi. Það þýði þó ekki að stöðuleyfið sem slíkt sé ólögmætt. Á hinn bóginn sé ljóst að ef gámarnir séu að hluta til inn á landi kæranda geti hún krafist fjarlægingar þeirra að öðrum skilyrðum uppfylltum. Sömu heimild hafi skipulagsyfirvöld.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð sú krafa að kærunni verði vísað frá sökum aðildarskorts. Kærandi titli sig sem eiganda jarðarinnar Skeggjastaðar en skráður eigandi þeirrar jarðar sé Nínukot ehf. Ekki sé hægt að sjá með hvaða hætti kærandi málsins eigi aðild að umræddu máli á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rétt sé að benda á að kærandi komi fram fyrir sína hönd persónulega en ekki annars aðila eða lögaðila. Í ljósi þessa telji leyfishafi að vísa eigi kærunni frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts, enda ekki hægt að sjá með nokkru móti hvernig kærandi hafi lögmæta hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Þá sé kæran með öllu óljós og í henni sé fjallað um hluti sem eigi ekki inn á borð hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Málið sé einfalt í augum leyfishafa, sótt hafi verið um stöðuleyfi sem hafi verið veitt. Ekkert sé við málsmeðferð skipulags- og byggingarráðs Rangárþings eystra að setja og leyfisveiting þeirra fullkomlega lögleg að mati leyfishafa.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að lóðin sem um ræði sé þinglýst eign hans, með fastanúmer 2341917 og landnúmer 194858, og sé hún lögbýlinu Skeggjastöðum óviðkomandi.

Gámahúsin hafi ekki verið innan lóðarmarka Fákaflatar þegar stöðuleyfi hafi verið veitt og séu það ekki ennþá nú 3 mánuðum síðar. Það sé óumdeilt. Þetta séu ekki gámar ætlaðir til tímabundinnar geymslu heldur tvö samliggjandi gámahús með verönd sem standi enn lengra inn á lóð kæranda en gámahúsin og séu ætlaðir fyrir atvinnustarfsemi, það er hundarækt þar sem fjöldi hunda hafi nú íveru. Umferð að þeim, bæði manna og dýra, gangandi og akandi sé því öll um lóð kæranda án heimildar.

Svör Rangárþings eystra skorti rökstuðning fyrir því á hvaða lagaforsendum og reglugerðum byggt hafi verið á þegar tekin hafi verið sú stjórnvaldsákvörðun að veita stöðuleyfi á lóð kæranda án samþykkis. Í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi vissulega að gámar falli undir heimildarákvæði stjórnvalds til veitingu stöðuleyfis, en í leiðbeiningum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar um grein 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé í grein 2 skýring á hvaða hlutir falli undir stöðuleyfi og tekið fram að svokölluð gámahús falli ekki þar undir. Þar sé ekki að finna heimild til að veita stöðuleyfi gámum eða gámahúsum á lóð annarra hvorki tímabundið, með fyrirvara eða afturvirkt og framvirkt.

—–

Með tölvupósti 1. nóvember 2020 upplýsti kærandi úrskurðarnefndina um að umþrætt gámahús hefðu verið færð 10 cm inn fyrir lóðarmörk Fákaflatar.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var þeim tilmælum beint til leyfishafa að fjarlægja mannvirki sín þannig að þau yrðu í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum Skeggjastaða, landnr. 194858, en um þinglýsta eign kæranda er að ræða sem stofnuð var árið 2003 úr jörðinni Skeggjastaðir, landnr. 163963 sem er í eigu Nínukots ehf., en kærandi er forráðamaður og stjórnarmaður félagsins verður kæru þessari því ekki vísað frá sökum aðildarskorts.

Í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að sveitarstjórnum sé heimild að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. útgáfu stöðuleyfa. Þá mælir 60. gr. nefndra laga fyrir um setningu reglugerða á grundvelli laganna og skulu skv. 9. tl. ákvæðisins m.a. vera í reglugerð skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa, kveðið á um atriði sem varða öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki eru uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er með stoð í lögunum, skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda, en hann er skv. skilgreiningu í 51. tl. í gr. 1.2.1. í reglugerðinni er leyfisveitandi það stjórnvald, þ.e. byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem gefur út eða á að gefa út byggingarleyfi skv. reglugerðinni. Eru það enda þeir aðilar sem veita byggingarleyfi skv. ákvæðum 9.-11. gr. mannvirkjalaga nema til staðar sé sérstök samþykkt skv. 7. gr. mannvirkjalaga, en slík samþykkt virðist ekki vera fyrir hendi.

Svo sem áður er lýst tók skipulagsnefnd Rangárþings eystra, á fundi sínum 20. júlí 2020, ákvörðun um að samþykkja umsókn leyfishafa um stöðuleyfi, og var umsóknin einnig samþykkt á fundi byggðaráðs sveitarfélagsins 30. s.m. Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið slíka ákvörðun í málinu, en samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum falið það vald að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfi í hverju tilviki. Var hin kærða ákvörðun því ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki liggur fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál og borin verður undir úrskurðarnefndina. Verði slík ákvörðun tekin af byggingarfulltrúa er hún hins vegar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sama gildir taki hann ákvörðun um að umdeild mannvirki verði fjarlægð, en slíkar ákvarðanir eru jafnframt á forræði byggingarfulltrúa.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

80/2020 Hlíðarbraut

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 80/2020, kæra á málsmeðferð vegna breytingar á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars, vegna lóðarinnar Suðurgötu 41.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4.september 2020, er barst nefndinni 5. s.m., kæra Hollvinasamtök St. Jósefsspítala, Birkibergi 18, Hafnarfirði, „málsmeðferð og breytingu á skipulagi stofnanalóðar St. Jósefsspítala“. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að kærð sé breyting á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars vegna nefndrar lóðar og þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 7. október 2020.

Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag Suðurbæjar sunnan Hamars frá 28. maí 2014. Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar 10. mars 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi vegna lóðanna nr. 10 og 12 við Hlíðarbraut og nr. 41 við Suðurgötu. Samhliða var auglýst breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Bæjarstjórn samþykkti tillögurnar til auglýsingar á fundi sínum 18. mars s.á. og voru þær kynntar á tímabilinu frá 23. apríl 2020 til 4. júní s.á. Tillögurnar voru samþykktar óbreyttar í bæjarstjórn 17. júlí 2020 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 25. júní 2020. Með erindi, dags. 4. ágúst 2020, sendu bæjaryfirvöld Skipulagsstofnun aðal- og deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Stofnunin tilkynnti með bréfi, dags. 10. september s.á., að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem ekki lægi fyrir svar sveitarfélagsins við bréfi stofnunarinnar, dags. 27. ágúst s.á., vegna breytingar á gildandi aðalskipulagi fyrir umrætt svæði. Hafnarfjarðarbær brást við þeim athugasemdum stofnunarinnar með bréfi, dags. 21. október s.á.

Kærandi bendir meðal annars á að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila og almenning við breytingu á stofnanalóð St. Jósefsspítala. Kynning og samráð virðist ekki hafa verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Hafnarfjarðarbær gerir fyrst og fremst kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts. Telji bæjaryfirvöld ljóst að kærandi eigi hvorki lögvarinna hagsmuna að gæta er tengist hinni kærðu ákvörðun né uppfylli hann önnur skilyrði kæruaðildar. Ella sé gerð sú krafa að framkominni kæru verði hafnað.

Niðurstaða: Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Í máli þessu samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 samhliða hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, en svo sem lýst er í málavöxtum gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við aðalskipulagsbreytinguna sem nú hefur verið svarað af hálfu bæjaryfirvalda. Stofnunin hefur hins vegar hvorki staðfest nefnda breytingu á gildandi aðalskipulagi né birt auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 3. mgr. 32. gr., sbr. og 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

Umdeild deiliskipulags­breyting hefur ekki heldur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, en ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu slíkrar auglýsingar. Verður ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar, enda telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar sem ekki er fyrir hendi kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni. Hefur þá ekki verið tekin afstaða til þess hvort kærandi geti yfirhöfuð átt aðild að kærumáli þessu, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

57/2020 Arnarlax ehf.

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2020, kæra á afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019 á frummatsskýrslu vegna 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Landssamband veiðifélaga þá „ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019 að meðferð og afgreiðsla umsóknar Arnarlax ehf. um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi fari eftir eldri ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. ákvæði II til bráðabirgða.“ Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að afgreiða umsókn Arnarlax ehf. samkvæmt núgildandi lögum nr. 71/2008.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 6. júlí 2020.

Málsatvik: Í desember 2016 gerði Arnarlax ehf. tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í Ísafjarðardjúpi. Tillagan var kynnt frá 4. til 20. janúar 2017 og féllst Skipulagsstofnun á hana með athugasemdum 15. júní s.á.

Framkvæmdaraðili sendi Skipulagsstofnun drög að frummatsskýrslu vegna fiskeldisins 20. júní 2019. Degi síðar sendi stofnunin honum bréf þar sem fram kom hvernig málsmeðferð yrði háttað í ljósi nýsamþykktra breytinga á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. lög nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.), sem samþykkt voru á Alþingi 20. júní 2019. Tók stofnunin fram að verklag hennar hefði verið á þá leið að senda framkvæmdaraðila athugasemdir um þær lagfæringar sem gera þyrfti á frummatsskýrslu til að uppfylla skilyrði til opinberrar kynningar hennar skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin hefði með þessu verklagi ekki nýtt sér heimild nefndrar lagagreinar til að hafna frummatsskýrslum með formlegum hætti heldur leiðbeint framkvæmdaraðilum um frekari vinnslu þeirra. Lagaskil gerðu það að verkum að stofnunin þyrfti, þar sem það ætti við, að taka afstöðu til þess með formlegri hætti hvort frummatsskýrslur fullnægðu skilyrðum um efni og framsetningu þeirra sem fram kæmu í 9. gr. laga nr. 106/2000 og matsáætlun, sbr. einnig 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Þyrfti stofnunin m.a. sérstaklega að hafa í huga meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Ekki myndi koma til þess að frummatsskýrslu yrði hafnað nema á henni væru verulegir annmarkar hvað varðaði þær kröfur sem gerðar væru í lögum og matsáætlun til efnis og framsetningar frummatsskýrslu. Að öðrum kosti yrði frummatsskýrsla tekin til meðferðar og ef með þyrfti yrði framkvæmdaraðila leiðbeint um atriði sem bæta þyrfti úr áður en frummatsskýrslan yrði auglýst til opinberrar kynningar. Var framkvæmdaraðila bent á að hann ætti þann kost að lagfæra frummatsskýrslu sína og senda stofnuninni að nýju, fram að gildistöku laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengdust fiskeldi. Lög nr. 101/2019 voru birt í A-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2019 og tóku gildi degi síðar.

Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 15. nóvember 2019, var framkvæmdaraðila tilkynnt að stofnunin teldi drög hans að frummatsskýrslu, dags. 8. júlí s.á., í meginatriðum uppfylla kröfur 9. gr. laga nr. 106/2000 og 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015, og uppfylla jafnframt skilyrði um framlagningu frummatsskýrslu, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Áður en stofnunin auglýsti skýrsluna skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 þyrfti þó að bregðast við tilteknum athugasemdum.

Frummatskýrsla, dags. 6. maí 2020, vegna 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi var auglýst til kynningar 13. s.m. á vefsíðu Skipulagsstofnunar, þar sem skýrslan var jafnframt aðgengileg, í Lögbirtingablaði, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Bændablaðinu með fresti til athugasemda til 26. júní s.á. Skýrsluna var einnig hægt að nálgast á Safnahúsinu á Ísafirði og Þjóðarbókhlöðunni og mun hafa verið kynnt á fundi 10. júní 2020 í Ráðhúsi Bolungarvíkurkaupstaðar. Kom kærandi að athugasemdum með bréfi, dags. 25. júní 2020, sem lutu að lagaskilum vegna breytinga á lögum nr. 71/2008, umfjöllun í frummatsskýrslunni um valkosti og andstöðu hennar við lög um náttúruvernd nr. 60/2013.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar um kæruheimild til 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. einkum 3. tl., sbr. og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kveðst kærandi byggja aðild sína á d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi séu hagsmunasamtök sem starfi skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Aðildarfélög séu öll veiðifélög landsins enda sé aðild þeirra lögbundin, sbr. greint ákvæði. Þau séu töluvert fleiri en 30 talsins. Kæra þessi samrýmist tilgangi kæranda, sbr. m.a. 5. mgr. 4. gr. laga um lax- og silungsveiði og 2. gr. samþykktar kæranda frá árinu 2012. Kæran lúti að broti á þátttökurétti almennings í skilningi d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verulegur ágalli sé á valkostamati í frummatsskýrslu og hafi almenningi, þ. á m. kæranda, ekki gefist tækifæri til að taka virkan þátt í ákvörðunarferlinu. Kærandi hafi fyrst orðið var við brotið þegar hann hafi sent Skipulagsstofnun bréf þar um, dags. 25. júní 2020, og þ.a.l. lagt fram kæru sína innan kærufrests.

Á því sé byggt að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum ágalla sem leiði til þess að hún sé ógild eða ógildanleg. Frummatsskýrsla hafi ekki borist fyrir gildistöku laga nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengist fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.) þar sem um hafi verið að ræða ófullnægjandi drög að slíkri skýrslu en ekki endanlega frummatsskýrslu. Þá hafi skýrslan verið, og sé enn, haldin verulegum ágöllum. Af þeim sökum sé með engu móti hægt að segja að frummatsskýrslu hafi verið skilað fyrir gildisstöku laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði II. Við mat á því hvort frummatsskýrsla sé fullnægjandi í skilningi bráðabirgðaákvæðis II beri að taka mið af 9. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 1. mgr. 10. gr., en verulega skorti þar á hvað varði þau drög sem lögð hefðu verið fram fyrir gildistöku laganna.

Ljóst sé að meðferð og afgreiðsla umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi skuli fara eftir eldri ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi hafi frummatsskýrslu verið skilað fyrir gildistöku laga nr. 101/2019. Frummatsskýrslu framkvæmdaraðila hafi verið skilað í maí 2020. Meðferð og afgreiðsla umsóknar ætti því að fara eftir nýjum ákvæðum fiskeldislaga. Þau skýrsludrög sem skilað hafi verið fyrir gildistöku laganna hafi verið ófullnægjandi, m.a. í ljósi þeirra athugasemda sem Skipulagsstofnun hafi gert við drögin. Stofnunin hefði með réttu átt að hafna því að taka skýrsluna til athugunar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af þessu sé ljóst að frummatsskýrslunni hafi verið skilað eftir gildisstöku bráðabirgðarákvæðis II og málsmeðferð hafi því átt að fara eftir nýjum ákvæðum fiskeldislaga. Hefði Skipulagsstofnun talið skil framkvæmdaraðila á frummatsskýrslunni uppfylla skilyrði laga hefði stofnunin átt að kynna skýrsluna með auglýsingu í Lögbirtingablaði, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000. Það hefði stofnunin ekki gert fyrr en hún kynnti frummatsskýrsluna sem lögð hefði verið fram í maí 2020.

Valkostamat í frummatsskýrslunni sé ófullnægjandi og afar rýrt, en einungis hafi verið skoðaður einn raunhæfur valkostur sem sé laxeldi með frjóum laxi. Skylda til að gera grein fyrir raunhæfum valkostum, sbr. 9. gr. laga nr. 106/2000, sé í órjúfanlegu samhengi við þátttökurétt almennings, sbr. ákvæði 4. mgr. 10. gr. laganna um að öllum, þ.e.a.s. almenningi, sé heimilt að gera athugasemdir við frummatsskýrsluna. Í lögunum segi einnig að gera skuli grein fyrir raunhæfum valkostum og bera þá saman með tilliti til umhverfisáhrifa, en þennan samanburð sé ekki að finna í skýrslunni.

Frummatsskýrslan gangi í berhögg við markmiðsákvæði laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, einkum 1. mgr. 1. gr. Þá hafi verið brotið gegn ákvæði 9. gr. laganna vegna þeirrar óvissu sem sé um notkun ófrjós lax, um útbreiðslu laxalúsar, hversu margir laxar sleppi og hvernig þeir blandist villtum laxi.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun vísar til þess að kæruheimild sé ekki fyrir hendi í málinu. Í bréfi sínu frá 15. nóvember 2019 lýsi stofnunin þeirri afstöðu sinni að frummatsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli í meginatriðum kröfur 9. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Uppfylli hún jafnframt skilyrði um framlagningu frummatsskýrslu, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Mótmælt sé þeim málsrökum kæranda að kæruheimild hans geti byggst á 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, sbr. einkum 3. tl., sbr. og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og tilvitnuð ákvæði 6. mgr. 14. gr. séu úr garði gerð fáist ekki séð að hægt sé að byggja á þeim sem grundvelli fyrir kærunni. Afstaða stofnunarinnar, sem birtist í framangreindu bréfi, falli ekki að þeim tilvikum sem talin séu upp í málsgreininni. Ákvæði 3. tl. nefndrar 6. mgr. taki til athafnar eða athafnaleysis stjórnvalda sem brjóti gegn þátttökurétti almennings og gildi ekki um umrædda afstöðu. Í framangreindum tölulið segi: „2.-4. mgr. 10. gr. um athugun Skipulagsstofnunar og matsskýrslu.“ Í tilvitnuðum málsgreinum séu ákvæði sem varði kynningu frummatsskýrslu og hvar hún sé aðgengileg, sem og ákvæði um athugasemdafrest.

Frummatsskýrsla framkvæmdaraðila hafi legið frammi til kynningar 13.-26. júní 2020. Skýrslan og kynning hennar hafi verið auglýst í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Bændablaðinu. Almenningi hafi gefist kostur á að gera athugasemdir við skýrsluna til 26. júní s.á. Kærandi hafi sent athugasemdir við frummatsskýrsluna á kynningartíma með bréfi, dags. 25. s.m. Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að 3. tl. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, sbr. d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, eigi ekki við í málinu.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er bent á að enga kæranlega ákvörðun sé að finna í umræddu bréfi Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019. Hafi stofnunin ekki tekið neina ákvörðun um meðferð umsóknar um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi og hafi ekki vald til afgreiðslu slíkra leyfa. Á hinn bóginn hafi stofnunin með höndum meðferð og afgreiðslu mats á umhverfisáhrifum á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hún hafi enga aðkomu að leyfisveitingum í kjölfar slíks mats, þ.e. útgáfu rekstrarleyfa og starfsleyfa fiskeldisfyrirtækja. Útgáfa rekstrarleyfa sé verkefni Matvælastofnunar, sbr. lög nr. 71/2008 um fiskeldi, og sé það sú stofnun sem ákveði hvort meðferð umsóknar um rekstrarleyfi skuli fara eftir nýrri eða eldri ákvæðum laganna.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé skilgreint hvaða ákvarðanir hagsmunasamtök geti borið undir nefndina. Af ákvæðinu sé ljóst að ekki sé til staðar heimild í lögunum til að bera undir nefndina þá afstöðu Skipulagsstofnunar sem fram komi í nefndu bréfi. Enn síður geti kærandi haft kæruheimild á grundvelli laga nr. 106/2000. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segi að innan tveggja vikna frá því að Skipulagsstofnun taki á móti frummatsskýrslu skuli stofnunin meta hvort skýrslan uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til hennar. Í framangreindu bréfi stofnunarinnar sé að finna þá afstöðu hennar til innsendrar frummatsskýrslu, sbr. nefnda 1. mgr. 10. gr. Þessi niðurstaða athugunar Skipulagsstofnunar sé á hinn bóginn ekki kæranleg ákvörðun skv. 3. tl. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Tilvitnaður 3. tl. 6. mgr. 14. gr. feli ekki í sér heimild til að kæra ákvarðanir sem grundvallist á 1. mgr. 10. gr. laganna þrátt fyrir að nær allur málatilbúnaður kæranda lúti að broti á því ákvæði. Með öðrum orðum þá nái kæruheimild 14. gr. laga nr. 106/2000 ekki til ágreiningsefnis þessa máls.

Þá beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni þar sem frestur kæranda hafi verið liðinn þegar hann hafi sett fram kæru sína. Fyrir liggi kæra, dags. 26. júní 2020, en í málinu sé fjallað um afstöðu Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019. Samkvæmt 2. mgr. 4. laga nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur Skipulagsstofnun túlka kæruheimildir í þessu máli of þröngt. Í q-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé skilgreining á hugtakinu þátttökuréttur almennings. Þar segi að það sé réttur almennings til upplýsinga og réttur til að koma að athugasemdum og gögnum við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Þátttökuréttur almennings samkvæmt þessari skilgreiningu taki til mun fleiri þátta en stofnunin vilji meina. Hún haldi sig við þrönga upptalningu 6. mgr. 14. gr. laganna, en það sé ekki réttur lagaskilningur. Í d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé ekki vísað til 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 heldur almennt til þátttökuréttar almennings. Sá réttur sé ekki takmarkaður við þau tilvik sem talin séu upp í 6. mgr. 14. gr. laganna og kæruheimild sé því ekki bundin við þau tilvik. Þar að auki þurfi að skýra hugtakið þátttökuréttur almennings með hliðsjón af alþjóðaskuldbindingum Íslands og í samræmi við hefðbundnar lögskýringarreglur, nánar tiltekið svonefndan Árósarsamning um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Niðurstaða: Frummatsskýrsla Arnarlax, dags. 8. júlí 2019, vegna 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í Ísafjarðardjúpi, barst Skipulagsstofnun eftir að lög nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.) voru samþykkt á Alþingi 20. júní 2019, en áður en þau tóku gildi 19. júlí s.á. Með breytingalögunum var bráðabirgðaákvæði II bætt við lög nr. 71/2008 um fiskeldi og kveður það á um að meðferð og afgreiðsla umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafi verið metin til burðarþols og þar sem málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé lokið fyrir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins, eða frummatsskýrslu skilað til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. þeirra laga fyrir sama tímamark, fari eftir eldri ákvæðum laga nr. 71/2008.

Í máli þessu er kærð afgreiðsla Skipulagsstofnunar á frummatsskýrslunni sem kemur fram í bréfi stofnunarinnar, dags. 15. nóvember 2019. Í bréfinu er tekið fram að stofnunin telji skýrsluna í meginatriðum uppfylla kröfur 9. gr. laga nr. 106/2000 og 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum og jafnframt uppfylla skilyrði um framlagningu frummatsskýrslu, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008. Áður en stofnunin auglýsi skýrsluna skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 þurfi þó að bregðast við tilteknum athugasemdum. Er af kæru að skilja að kærandi telji nefnda afgreiðslu Skipulagsstofnunar leiða til þess að meðhöndla beri umsókn framkvæmdaraðila um rekstrarleyfi vegna eldis þess sem skýrslan fjallar um samkvæmt eldri ákvæðum laga nr. 71/2008. Vísar kærandi um kæruheimild til 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, einkum 3. tl. hennar, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er m.a. mælt fyrir um kæruheimildir til úrskurðarnefndarinnar í 14. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt 1. mgr. nefndrar 14. gr. sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar matsskylduákvarðanir, ákvarðanir um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fleiri framkvæmda og ákvarðanir um endurskoðun að loknu mati á umhverfisáhrifum. Þá er mælt fyrir um í 3. mgr. 14. gr. að framkvæmdaraðili geti kært ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni og ákvörðun stofnunarinnar skv. 1. mgr. 10. gr. um að hafna frummatsskýrslu sem ekki uppfylli þær kröfur sem gerðar séu í 9. gr. eða sé ekki í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. Með breytingalögum nr. 89/2018 var nefndri 14. gr. laga nr. 106/2000 breytt á þann veg að athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem brýtur gegn þátttökurétti almennings á nánar tilgreindum grundvelli sætir nú einnig kæru til úrskurðarnefndarinnar. Sá grundvöllur sem um ræðir er talinn upp í fimm töluliðum í 6. mgr. 14. gr. og í 3. tl. ákvæðisins, sem kærandi tiltekur sem kæruheimild, er vísað til 2.-4. mgr. 10. gr. laganna um athugun Skipulagsstofnunar og matsskýrslu. Í þeim málsgreinum er kveðið á um að Skipulagsstofnun kynni hina fyrirhuguðu framkvæmd og frummatsskýrslu með tilkynningu á vef stofnunarinnar og auglýsingu í Lögbirtingablaði og öðrum fjölmiðlum, framkvæmdaraðili kynni framkvæmd og frummatsskýrslu í samráði við stofnunina eftir að skýrslan hafi verið auglýst nema stofnuninni þyki sýnt að framkvæmdin og skýrslan hafi hlotið fullnægjandi kynningu, auk þess sem mælt er fyrir um hvar frummatsskýrslan skuli vera aðgengileg, hve lengi og hver frestur sé til athugasemda við skýrsluna. Loks er tiltekið að öllum sé heimilt að gera athugasemdir við framlagða frummatsskýrslu.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var umrædd frummatsskýrsla framkvæmdaraðila kynnt og auglýst á vef Skipulagsstofnunar, í Lögbirtingablaði og í fjölmiðlum, hún lá frammi í tiltekinn tíma, kynningarfundur var haldinn og gefinn var kostur á að koma að athugasemdum við skýrsluna, sem kærandi og gerði. Dregur kærandi í sjálfu sér ekki í efa að kynning hafi farið fram með tilskildum fresti til athugasemda og því um líkt, heldur beinast athugasemdir hans einkum að því að frummatsskýrslan, dags. 8. júlí 2019, hafi verið ófullnægjandi. Hún hafi ekki verið auglýst fyrr en 13. maí 2020 og þannig augljóslega ekki verið fullnægjandi fyrir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019. Skipulagsstofnun taldi hins vegar ekki ástæðu til að hafna frummatsskýrslu framkvæmdaraðila heldur leiðbeindi hún honum um atriði sem lagfæra þyrfti áður en skýrslan yrði auglýst. Svo sem áður er rakið getur framkvæmdaraðili skv. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 kært ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 1. mgr. 10. gr. sömu laga um að hafna frummatsskýrslu, en stofnunin hefur samkvæmt ákvæðinu tvær vikur til að meta hvort skýrslan uppfylli tilskildar kröfur. Verður orðalagið ekki skilið á annan hátt en að kæruheimildin, hvort sem er vegna höfnunar Skipulagsstofnunar eða óhóflegs dráttar hennar umfram tímamörk 1. mgr. 10. gr., sé bundin við framkvæmdaraðila, sbr. til að mynda úrskurð úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 13/2016.

Í q-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 er þátttökuréttur almennings skilgreindur sem réttur almennings til upplýsinga og réttur til að koma að athugasemdum og gögnum við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Þótt fyrir liggi að kæranda  hafði gefist tækifæri til að koma að, og kom raunar að, athugasemdum við auglýsta frummatsskýrslu hefur hann vísað til þess að um brot á þátttökuréttindum hafi verið að ræða. Ekki megi skýra þröngt kæruheimildir sem taki til slíkra réttinda. Samkvæmt fyrirmælum 6. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili vinna endanlega matsskýrslu þar sem hann skal m.a. gera grein fyrir framkomnum athugsaemdum og taka afstöðu til þeirra. Skipulagsstofnun skal svo í áliti sínu fjalla um þá afgreiðslu framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Athugasemdir kæranda við frummatsskýrsluna, sem m.a. lutu að gæðum hennar og lagaskilum, eiga því eftir að koma til skoðunar í því mati á umhverfisáhrifum sem fram fer og er það hluti af þeirri þátttöku almennings sem lög gera ráð fyrir. Í þessu sambandi er rétt að benda á að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður almennt ekki kærð til kærustjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frá því eru undantekningar í lögum, s.s. þær kæruheimildir sem áður er lýst vegna athafna og athafnaleysis stjórnvalda sem brjóta gegn þátttökurétti almennings. Þær er að finna í fimm töluliðum 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, en í meðförum Alþingis var því hins vegar hafnað að bæta við lögin kæruheimild sem fæli í sér „eins konar safnlið“ sem samkvæmt frumvarpi til laganna myndi mæla fyrir um að tilvik sambærileg þeim sem rakin væru í 1.-5. tl. 6. mgr. 14. gr. sættu kæru til úrskurðarnefndarinnar. Tók umhverfis- og samgöngunefnd undir þau sjónarmið að ekki væri tilefni til lögfestingar slíks ákvæðis, auk þess sem orðalag þess byði upp á túlkunarágreining um inntak kæruheimildarinnar, en sjónarmiðum um skýrleika bæri að gefa sérstakan gaum við lagasetningu til að tryggja að réttaróvissa skapaðist ekki. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður kæruheimild 3. tl. 6. mgr. 14. gr. ekki túlkuð þannig að hún heimili kæranda málskot vegna efnis hinnar kærðu afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Þá er ljóst að tilvísun 4. gr. laga nr. 130/2011 til þess að kæra megi ætlað brot á þátttökurétti almennings hefur ekki sjálfstæða þýðingu hér. Fjallar sú lagagrein enda um málsmeðferð og aðild fyrir úrskurðarnefndinni en ekki um kæruheimildir sem kveðið er á um í ýmsum öðrum lögum á sviði umhverfis- og auðlindamála, eins og fram kemur í 1. gr. laga nr. 130/2011. Verði leyfi hins vegar veitt fyrir umræddu fiskeldi er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð vegna hennar þá lögmætisathugun nefndarinnar, þ. á m. á því hvernig staðið hafi verið að mati á umhverfisáhrifum og hvort lagaskilareglum hafi réttilega verið beitt.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kæruheimildir 14. gr. laga nr. 106/2000 taki ekki til þess ágreinings sem er efni kærumáls þessa, en annar ágreiningur, sem kann að rísa um framkvæmd þeirra laga og ekki er tilgreindur í 14. gr. þeirra eða í öðrum lögum, sætir ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, enda ekki mælt fyrir um það í lögum, eins og títtnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

55/2020 Látrar

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2020, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum í Aðalvík, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðvík ehf., eigandi hluta eyðijarðarinnar Látra í Aðalvík, meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum. Gerir kærandi þá kröfu „að höfnun Ísafjarðarbæjar á niðurrifi viðbyggingu sjávarhússins verði dæmd ógild.“ Skilja verður kröfugerð kæranda svo að kærð sé afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 um að hafna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús verði fjarlægð og að ógildingar afgreiðslunnar sé krafist.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 31. júlí og í nóvember 2020.

Málavextir: Látrar í Aðalvík teljast hluti af friðlandi á Hornströndum, sbr. auglýsingu nr. 332/1985. Á svæðinu eru nokkur hús, þeirra á meðal svonefnd Sjávarhús og Ólafsskáli er standa hlið við hlið. Hefur kærandi um langt skeið komið á framfæri athugasemdum við Ísafjarðarbæ vegna meintrar óleyfisbyggingar Sjávarhússins, viðbyggingar við það og byggingar smáhýsa/áhaldahúsa í fjörukambinum. Með bréfi kæranda til Ísafjarðarbæjar, dags. 26. ágúst 2014, var þess farið á leit við byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að Sjávarhúsið yrði fjarlægt. Veitti sveitarfélagið eigendum hússins kost á því að koma að athugasemdum og bárust þær með bréfi, dags. 20. janúar 2015. Hinn 3. febrúar s.á. tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi kæranda að beiðni hans væri hafnað með vísan til þess að langt væri liðið frá byggingu hússins, auk þess sem það félli ekki undir valdsvið Ísafjarðarbæjar að skera úr um einkaréttarlegan ágreining.

Sama dag tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi eigendum Sjávarhússins að sveitarfélagið teldi ekki rök standa til þess að það hlutaðist til um að fasteignin í heild sinni yrði fjarlægð, en að óskað væri skýringa á breytingum og/eða endurbótum sem gerðar hefðu verið á umræddri fasteign á undanförnum árum, að því er virtist án tilskilinna leyfa. Í svarbréfi, dags. 23. febrúar 2015, kom m.a. fram að byggingaraðilar hússins væru ekki eigendur umræddrar jarðar, en hefðu fengið leyfi frá eiganda hennar til að reisa húsið á sínum tíma. Hefði þess einnig verið farið á leit við Náttúruverndarráð með bréfi árið 1994 að húsið fengi að standa. Væri þeim ekki kunnugt um að bréfinu hefði verið svarað og væri þeim því rétt að líta svo á að ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við byggingu hússins. Mættu þeir því hafa réttmætar væntingar til þess að sú ákvörðun stæði óbreytt. Endurbætur sem byggingaraðilar hefðu ráðist í vegna viðhalds hússins væru aðeins minniháttar lagfæringar. Viðbyggingu hefði verið skeytt við húsið árið 2012, en byggingaraðilar hefðu ekki komið að þeirri framkvæmd og væru ekki eigendur viðbyggingarinnar. Þá var óskað eftir afstöðu Ísafjarðarbæjar til þess hvort málinu teldist lokið hvað eigendur Sjávarhússins varðaði.

Hinn 11. mars 2015 var tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar erindi varðandi niðurrif Sjávarhússins og vísað til fyrrgreinds svars eigenda þess. Færði skipulags- og mannvirkjanefnd eftirfarandi til bókar: „Ekki er unnt að fallast á þessi sjónarmið eigenda Sjávarhússins varðandi viðbyggingu fasteignarinnar. Viðbygging verður að teljast tilheyra þeirri fasteign sem hún er skeytt við, sbr. 2. gr. laga nr. 40/2002, og þannig á ábyrgð eiganda eða eigenda þeirrar fasteignar að lögum. Byggingarfulltrúa er falið að tilkynna eigendum Sjávarhússins þá afstöðu Ísafjarðarbæjar að málinu sé þannig ekki lokið gagnvart þeim. Eigendum fasteignarinnar skal jafnframt tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, þrátt fyrir framangreinda afstöðu þeirra til málsins, að til greina komi að krefjast þess að óleyfisframkvæmdirnar verði fjarlægðar, og skal þeim gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og andmælum hvað það varðar.“ Ekki munu athugasemdir hafa borist sveitarfélaginu á þeim tíma, en árið 2016 skaut kærandi afgreiðslum sveitarfélagsins varðandi meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með úrskurði nefndarinnar 6. september 2018, í máli nr. 116/2016, var tekið fram að samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ hefði erindi kæranda um að fjarlægja stækkun Sjávarhússins ekki verið tekið fyrir að nýju og var lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu til þeirrar kröfu. Í úrskurðinum var einnig lagt fyrir byggingarfulltrúa að afgreiða erindi kæranda um að áhaldahús í fjörukambinum skyldu fjarlægð. Þá var vísað frá kröfu kæranda um að fjarlægja skyldi Sjávarhúsið þar sem kæra þar að lútandi hefði borist nefndinni of seint, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 18. janúar 2019, varðandi málefni Sjávarhússins og áhaldahúsa/smáhýsa í fjörukambinum og veitti honum færi á að koma að sjónarmiðum sínum. Í kjölfar þessa óskaði kærandi eftir því að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna því að fjarlægja Sjávarhúsið yrði endurupptekin með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún hefði m.a. byggst á röngum forsendum um það hvenær húsið hefði verið reist. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. maí 2019, var tilkynnt að kröfu um endurupptöku væri hafnað. Skaut kærandi þeirri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði 30. júní 2020, í máli nr. 66/2019, hafnaði kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun. Með sama úrskurði var felld úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að synja kröfu kæranda um að fimm smáhýsi sem staðsett væru í fjörukambinum yrði fjarlægð.

Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til eigenda Sjávarhússins, dags. 18. janúar 2019, var bent á að ekki hefði verið brugðist við fyrrnefndri bókun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 11. mars 2015 varðandi viðbyggingu Sjávarhússins og var veittur á ný fjögurra vikna frestur til að koma sjónarmiðum á framfæri. Barst svar með tölvupósti 26. febrúar s.á. þar sem m.a. var bent á að erfitt væri um vik að færa fram athugasemdir þar sem að í bréfi Ísafjarðarbæjar kæmi hvergi fram hvaða meintu óleyfisframkvæmdir það væru sem um ræddi. Væri vísað til fyrri samskipta og skýringa vegna málsins og því alfarið mótmælt að fyrir hendi væru atvik sem leiða ættu til þess að eigendum hússins yrði gert að fjarlægja tiltekna hluta fasteignarinnar, þ.e. svokallaðar óleyfisframkvæmdir. Jafnframt var tekið fram að liðin væru tæplega fjögur ár frá því að síðustu samskipti vegna þessa máls hefðu átt sér stað milli aðila. Hefðu eigendur Sjávarhússins því staðið í þeirri trú að málinu væri lokið.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 20. maí 2020 var tekin fyrir krafa kæranda um að viðbygging við Sjávarhúsið yrði fjarlægð. Í fundargerð kom m.a. fram að landeigendum Látra hefði verið gefið færi á að koma með athugasemdir við kröfu kæranda um að viðbygging við Sjávarhúsið yrði fjarlægð. Hefðu borist sex svör frá landeigendum og hefði enginn þeirra sett sig upp á móti viðbyggingunni. Var eftirfarandi fært til bókar: „Skipulags- og mannvirkjanefnd áskildi sér rétt til þess að leita eftir sjónarmiðum annarra landeigenda jarðarinnar Látra, í útsendu bréfi dags. 14. júní 2019. Ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu landeigenda og vegna þess hve langt er um liðið að umræddri viðbyggingu var skeytt við húsið, telur nefndin ekki tilefni til að gera kröfu á það að viðbygging verði fjarlægð.“ Er það hin kærða ákvörðun, svo sem áður er komið fram, en kæranda var formlega tilkynnt greind afgreiðsla nefndarinnar með tölvupósti skipulagsfulltrúa 2. nóvember 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að einungis sex af 34 landeigendum Látra hafi tekið afstöðu til skoðanakönnunar sveitarfélagsins um hina umþrættu viðbyggingu, en samtals eigi þessir sex aðilar 23,3854% í jörðinni. Eignarhluti kæranda í Látrum sé 50%. Þjóni það ekki hagsmunum umræddra aðila að málefni kæranda nái fram að ganga, en aðeins einn þeirra virðist ekki hafa hag af þessu máli. Ef eingöngu sé horft til þeirra sem tekið hafi afstöðu þá séu tæplega 70% sem vilji láta fjarlægja viðbygginguna.

Fram komi hjá Ísafjarðarbæ að ekki sé tilefni til að gera kröfu á það að viðbyggingin verði fjarlægð vegna þess hve langt sé um liðið frá því að henni hafi verið skeytt við húsið. Þetta sé ekki rökstutt frekar en dráttur sá sem orðið hafi á afgreiðslu málsins sé alfarið sveitarfélaginu að kenna. Kærandi hafi lagt fram erindi í ágúst 2014, úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafi verið kveðinn upp 6. september 2018 og niðurstaða Ísafjarðarbæjar legið fyrir 20. maí 2020, eða 622 dögum síðar. Það hafi tekið sveitarfélagið 281 dag að koma fyrirspurnum til landeigenda og 310 daga að vinna úr svörum sex aðila.

Sjávarhúsið hafi verið stækkað á árunum 2010-2014. Þurfi samþykki allra landeigenda á sameignarlandi fyrir framkvæmdum sem þessum, en slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Ekki hafi verið aflað umsagnar hjá Umhverfisstofnun eða Náttúruvernd ríkisins, líkt og lög áskilji. Þá hafi Ísafjarðarbær ekki veitt byggingarleyfi svo vitað sé, enda væri slíkt leyfi ólöglegt.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað, verði henni ekki vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2016 hafi krafa kæranda verið tekin til nánari athugunar. Á ný hafi verið óskað eftir afstöðu eigenda Sjávarhússins til umræddrar kröfu og hafi þeir hafnað henni. Auk þess hafi m.a. verið óskað eftir afstöðu eigenda Ólafsskála sem ekki hafi gert athugasemdir við viðbyggingu Sjávarhússins. Ljóst sé af framkomnum svörum að afstaða þeirra sem hagsmuna eigi að gæta á svæðinu, annarra en kæranda, sé sú að þeir geri ekki athugasemdir við umrædda viðbyggingu. Til þessa hafi verið litið sérstaklega þegar tekin hafa verið afstaða til kröfu kæranda. Einnig hafi verið horft til þess að nokkuð sé um liðið frá því að viðbyggingin hafi verið reist, auk þess sem hún feli ekki í sér umfangsmikla breytingu á þeim húsum sem hún standi á milli.

Af fyrirliggjandi gögnum megi enda ráða að þegar svonefndur Ólafsskáli hafi verið endurbyggður í upprunalegri mynd á árinu 2012 og í tengslum við endurbætur á Sjávarhúsinu hafi verið skeytt við Sjávarhúsið u.þ.b. tveggja metra viðbyggingu sem lokað hafi þröngu sundi/bili á milli Sjávarhússins og Ólafsskála. Ekki sé um nein grenndaráhrif, útsýnisskerðingu eða skuggavarp að ræða af viðbyggingunni. Sé hún í sömu mynd og húsin sem hún standi á milli. Af þessum sökum megi gera ráð fyrir að töluvert rask yrði á báðum húsunum ef viðbyggingin yrði fjarlægð. Enn fremur hafi verið horft til þess að umrædd krafa lyti að því að fasteign í eigu annars aðila yrði fjarlægð að hluta og að ákvörðun þess efnis myndi teljast verulega íþyngjandi fyrir þann aðila. Slík ákvörðun verði ekki tekin nema á sterkum grundvelli, en kærandi hafi ekki fært fyrir því rök.

Lög og byggingarreglugerð feli í sér heimildir skipulags- og byggingarfulltrúa til að m.a. krefjast þess að mannvirki sé fjarlægt. Ekki sé um að ræða skyldu hans til aðgerða á grundvelli kröfu eins aðila. Við mat á því hvort slíkum heimildum skuli beitt verði að taka tillit til annarra sjónarmiða, þ. á m. hagsmuna annarra, sem og þess rasks sem fylgi því að kröfunni verði framfylgt. Eins verði að horfa til þess að kæranda standi til boða einkaréttarleg úrræði til að framfylgja rétti sínum. Að teknu tilliti til þessara atriða, sem og annarra sjónarmiða sem komið hafi fram af hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa á fyrri stigum, hafi ekki þótt tilefni til að fallast á kröfu kæranda.

Athugasemdir kæranda varðandi „skoðanakönnun“ skipulags- og byggingarfulltrúa hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins. Þá geti athugasemdir við málsmeðferðartíma ekki haft þau áhrif eins og hér hátti til að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að við afgreiðslu málsins hafi Ísafjarðarbær ekki tekið tillit til brunavarna og lámarksbils milli húsa, en augljóst sé að komi upp eldur í öðru hvoru húsinu þá verði hitt húsið einnig eldinum að bráð. Þrengi framkvæmdir eigenda Sjávarhússins að Ólafsskála. Sé því alfarið hafnað að rask verði á báðum húsunum við það að fjarlægja þennan hluta af viðbyggingunni. Verði sundið á milli húsanna opnað að nýju muni það ekki hafa áhrif á Ólafsskála að öðru leyti en því að hægt verði að sinna eðlilegu viðhaldi á þeirri hlið.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, m.a. af hálfu eigenda Sjávarhússins, sem ekki verða rakin nánar í ljósi niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 að synja kröfu kæranda um að fjarlægð verði viðbygging við svonefnt Sjávarhús á Látrum. Mun húsið hafa verið stækkað án þess að fyrir lægi heimild byggingarfulltrúa fyrir þeim breytingum, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í kröfu kæranda felst að beitt verði ákvæðum 2. mgr. 55. gr. laganna, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði getur m.a. byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Segir í athugasemdum við 2. mgr. 55. gr. í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að þetta sé metið í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Þá kemur fram í almennum athugasemdum með frumvarpinu að í því sé um að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu til ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar þar að lútandi. Er og tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða 2. mgr. 55. gr. laganna geti orðið með öðrum hætti en þar greinir. Ekki er í gildi samþykkt um afgreiðslur skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar sem sett hefur verið skv. 7. gr. laga nr. 160/2010, en skv. 6. mgr. þeirrar lagagreinar skal samþykkt sem sett er samkvæmt henni lögð fyrir félags- og barnamálaráðherra, áður umhverfis- og auðlindaráðherra, til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hins vegar er í gildi samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 535/2014 með síðari breytingum, þar sem m.a. segir að skipulags- og mannvirkjanefnd fari með byggingar- og skipulagsmál samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Auk verkefna sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi með höndum samkvæmt lögum geti bæjarstjórn falið henni ýmis verkefni með erindisbréfi. Slíkt erindisbréf liggur fyrir og í því segir m.a. að hlutverk nefndarinnar sé að fjalla um skipulagsmál og fara með hlutverk skipulagsnefndar í skilningi 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með síðari breytingum, sbr. einnig heimild í 3. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Jafnframt er tekið fram að skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar sitji fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt með vísan í 5. mgr. gr. 2.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og fari hann með verkefni nefndarinnar, sbr. lög nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslög nr. 123/2010.

Samþykkt nr. 535/2014 er sett með stoð í 9. gr. sveitarstjórnarlaga og var staðfest af innanríkisráðherra. Liggur því fyrir að sú samþykkt á sér ekki stoð í 7. gr. mannvirkjalaga og hefur ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið til hliðar fyrirmælum 2. mgr. 55. gr. laganna um að það sé á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis sem þar greinir, enda er það vald ekki sveitarstjórnar samkvæmt tilvitnaðri grein.

Við meðferð kærumáls þessa aflaði úrskurðarnefndin frekari gagna og beindi m.a. fyrirspurn til Ísafjarðarbæjar um aðkomu byggingarfulltrúa að málinu. Fengust þau svör að byggingarfulltrúi hefði ekki afgreitt erindið á afgreiðslufundi sínum en hann hefði ekki heimildir til að taka afstöðu til kröfu kæranda þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi fyrir Látra. Hefði öll málsmeðferðin verið í höndum skipulags- og mannvirkjanefndar og útsend bréf séu með hliðsjón af afgreiðslu nefndarinnar um erindið. Liggur samkvæmt framangreindu fyrir að sú málsmeðferð var ekki í samræmi við skýr ákvæði mannvirkjalaga. Var  skipulags- og mannvirkjanefnd ekki til þess bær að taka hina kærðu ákvörðun heldur þurfti til að koma sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa og breytti engu þar um þótt um væri að ræða byggingu á ódeiliskipulögðu svæði. Þar sem slík ákvörðun byggingarfulltrúa hefur ekki verið tekin liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður því að vísa kröfu kæranda frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu var með úrskurði nefndarinnar 6. september 2018, í máli nr. 116/2016, lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu til kröfu kæranda um fjarlægingu stækkunar Sjávarhússins. Með því að ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi brugðist við framangreindri niðurstöðu nefndarinnar verður lagt fyrir hann að nýju að taka afstöðu til fyrrgreindrar kröfu kæranda án frekari dráttar, svo sem honum ber að gera samkvæmt mannvirkjalögum, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 um að hafna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús á Látrum verði fjarlægð.

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að taka afstöðu án frekari dráttar til kröfu kæranda um að umrædd viðbygging verði fjarlægð.

90 og 91/2020 Skólavörðustígur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 5. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta húss á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavörðustígs 29a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta húss á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg. Gerð er krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2020, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir eigandi Bjarnarstígs 10, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðar­nefndinni. Þar sem það kærumál, sem er nr. 91/2020, varðar sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það sameinað máli þessu. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu annars kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. október 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 21. apríl 2020 var tekin fyrir umsókn, dags. 11. desember 2018, um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta hússins að Skólavörðustíg 31. Erindinu fylgdi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. maí 2018, umsögn Minjastofnunar, dags. 5. júní s.á., og afrit af tölvupósti vegna fellingar trjáa frá 14. júní s.á. Var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa, sem ákvað á fundi sínum 8. maí 2020 að umsóknin skyldi grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum. Var svo og gert og bárust athugasemdir á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Umhverfis- og skipulagsráð afgreiddi hina grenndarkynntu umsókn 2. september 2020 með vísan til fyrir­liggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst s.á., þar sem athugasemdum var svarað. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. september 2020 var byggingarleyfisumsóknin samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 24. s.m.

Málsrök kærenda: Eigandi Skólavörðustígs 29a bendir á að af skuggavarpsmyndum sé ljóst að það sé einungis í júní þegar sól sé hæst á lofti sem áætluð bygging skyggi ekki á sólarljós inn í garð lóðar hans nr. 29a við Skólavörðustíg. Það megi því ætla að byggingin valdi skuggavarpi á lóðinni að vori og á haustmánuðum, sem skerði gæði útirýmis, hafi áhrif á notkunarmöguleika lóðarinnar og geti haft neikvæð áhrif á verðmæti fasteignarinnar.

Þá séu gerðar athugasemdir við stærð og hæð viðbyggingarinnar. Hún verði stór, óþarflega breið og byggingarmagn mikið, eða næstum því tvöföldun á núverandi húsi. Byggingin muni auk þess að varpa skugga á lóð kærandans, auka innsýn í garð hans, þannig að þrengt verði að honum og persónulegt rými hans skert. Þá sé bent á að vitað sé að stutt sé niður á klöpp á Skólavörðuholtinu og þurfi því líklega að brjóta hana með höggi. Við framkvæmdir af sama toga hafi komið fram að hús í nálægð við slíkar framkvæmdir hafi orðið fyrir tjóni vegna fleygunar og því geti komið til þess að hús kæranda verði fyrir skemmdum, sérstaklega þegar litið sé til aldurs fasteignarinnar.

Ekki hafi verið farið eftir markmiðum skipulagslaga nr.123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 við afgreiðslu málsins hvað varði athugasemdir hagsmunaaðila við grenndar­kynningu. Þeim hafi ekki verið svarað með fullnægjandi rökum er varði stærð og hæð hússins ásamt skuggavarpi. Einnig hafi ekki verið farið eftir þeim markmiðum sem sett séu fram í gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð þar sem helstu hagsmunir nágranna séu upptaldir. Skipulagsfulltrúi haldi því fram að sambærilegan þéttleika byggðar megi finna víða á reitnum og í hverfinu. Því sé velt upp hvað átt sé við með reitnum, þar sem umræddur götukafli sé ekki deiliskipulagður, en það sé rétt að víða sé að finna sambærilegan þéttleika.

Rökstuðningur skipulagsfulltrúa, sem byggingarfulltrúi byggi sitt samþykki á, sé með öllu ófullnægjandi. Ekki sé vísað til þeirra réttarheimilda sem um málið gildi, nema hvað varði athugasemdir vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma, sem og tjón og skaðabætur. Þá séu engin rök færð fyrir því á grundvelli hvaða réttarheimilda samþykki umrædds byggingarleyfis sé veitt. Sjá megi það á athugasemdum skipulagsfulltrúa að veiting leyfisins hafi að nær öllu leyti verið byggð á mati, en þau rök sem tiltekin séu í þeim séu einnig ófullnægjandi, t.d. hvað varði tilvísun til álits Minjastofnunar Íslands eða þess að tré geti valdið skuggamyndum. Þá komi engar sjálfstæðar röksemdir fram í ákvörðun byggingarfulltrúa og verði ekki annað séð en að málið hafi verið afgreitt án allrar rannsóknar, eins og krafa sé gerð um í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eigandi Bjarnarstígs 10 vísar til þess að heilsa hans sé viðkvæm og efist hann um að hann þoli vélarskrölt, sprengingar og annan hávaða sem óhjákvæmilega fylgi framkvæmdinni. Þetta muni örugglega stórskaða heilsu hans.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að í umsögn Minjastofnunar Íslands um byggingaráformin komi fram að viðbyggingin taki mið af mælikvarða og hlutföllum hins friðaða húss að Skólavörðustíg 31. Einnig komi þar fram að breytingin teljist hvorki spilla götumynd Bjarnarstígs né yfirbragði byggðar á reitnum. Stækkun núverandi húss sé vissulega hlutfallslega mikil, þar sem „fótspor“ þess svo gott sem tvöfaldist. Skipulagsfulltrúi hafi tekið undir afstöðu Minja­stofnunar og talið viðbygginguna samræmast því byggðamynstri sem fyrir væri á svæðinu en þar væru mörg timburhús sem teldust ein hæð, kjallari og ris. Viðbyggingin væri ekki hærri en núverandi hús á lóðinni og hæð hennar ekki frábrugðin öðrum húsum sem standi meðfram Bjarnarstíg.

Á skuggavarpsmyndum megi sjá að núverandi hús á lóðinni nr. 31 skyggi á hluta lóðar nr. 29a á ákveðnum tíma árs. Myndirnar sýni að mesta breytingin sé yfir miðjan daginn að jafndægri. Yfir sumartímann, þegar sól standi sem hæst, hafi viðbyggingin lítil sem engin áhrif gagnvart lóð nr. 29a. Samkvæmt skuggavarpsmyndum aukist skuggavarp á lóðinni nr. 10 við Bjarnastíg að hluta seinni part dags, bæði við sumarsólstöður og að jafndægri. Allar þær lóðir sem um ræði séu talsvert grónar og séu þar nokkur tré sem hafi einnig áhrif á skuggamyndun. Ekki sé heldur fallist á að athugasemdum kæranda í grenndarkynningu hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Þvert á móti hafi svör skipulagsfulltrúa verið rækilega rökstudd og  málsmeðferð umsóknarinnar verið í samræmi við markmið skipulagslaga. Tilvitnun kæranda til gr. 5.8.4. eigi ekki við um umrædda byggingarleyfisumsókn, en ákvæðið heimili samþykkt framkvæmda án grenndarkynningar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þeirri málsmeðferð hafi ekki verið fyrir að fara í þessu máli heldur hafi umsóknin verið grenndarkynnt í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Öllum framkvæmdum fylgi óhjákvæmilega eitthvert rask en framkvæmdaraðila sé skylt að halda því raski og ónæði sem hann kunni að valda í algjöru lágmarki. Hvað varði þá málsástæðu að fasteign kæranda muni lækka í verði þá hafi ekki verið sýnt fram á að svo fari, en í því sambandi gæti reynt á 51. gr. skipulagslaga.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir meðal annars á að í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið farið yfir allar athugasemdir sem kærendur hefðu sett fram og þeim svarað efnislega. Málsmeðferðin beri með sér að hafa verið vönduð og ítarleg. Þótt ekki hafi verið fallist á sjónarmið kærenda jafngildi það ekki því að málsmeðferðin hafi verið ófullnægjandi.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2020 sem hafi verið kveðinn upp 29. október sl. Nefndin hafi talið að breyting sem hafi falið í sér fjölgun íbúða raskaði ekki hagsmunum að því marki að ógildingu varði. Þegar forsendur úrskurðarins séu heimfærðar á málsatvik í þessu máli megi sjá að breytingarnar í tilfelli Skólavörðustígs 31 séu miklu veigaminni og í raun þannig að þær hafi hverfandi lítil áhrif á sitt nærumhverfi. Þá sé vísað til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 23/2018, sem kveðinn hafi verið upp 9. maí 2019, en þar hafi nefndin hafnað kröfu um að ógilda ákvörðun um breytingu skipulags þrátt fyrir að gert væri ráð fyrir nýju húsi sem yrði byggt upp við Smiðjustíg 12 og auknu nýtingar­hlutfalli. Enn fremur sem sé vísað til úrskurðar nr. 87/2018, sem hafi verið kveðinn upp 9. maí 2019.

Að öðru leyti eru athugasemdir leyfishafa á sömu lund og athugasemdir Reykjavíkurborgar og verða því ekki raktar frekar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir viðbyggingu ásamt inndregnum svölum á eldri hluta hússins að Skólavörðustíg 31. Ekki er í gildi deiliskipulag er tekur til þeirrar lóðar.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr. laganna, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Skólavörðustígur 31 á svæði blandaðrar miðborgarbyggðar, íbúðarbyggðar merktri M1c. Á svæði M1c sé lögð áhersla á að vernda og styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda en um leið að efla verslunar-, atvinnu og þjónustustarfsemi sem falli að íbúðarbyggð. Samkvæmt aðalskipulaginu má í fastmótaðri byggð gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Fer hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við framangreinda stefnu og markmið aðalskipulags.

Birt stærð hússins á lóðinni Skólavörðustíg 31 er nú 127,4 m² en flatarmál lóðarinnar er 203,9 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Á samþykktum aðaluppdráttum er hins vegar gert ráð fyrir að brúttóflatarmál byggingarinnar verði 227,8 m². Um töluverða stækkun er að ræða og verður nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir fyrirhugaða breytingu 1,11. Á svæðinu gætir nokkurs misræmis hvað varðar nýtingarhlutfall einstakra lóða. Þannig má nefna til samanburðar að nýtingarhlutfall lóðarinnar Skólavörðustígs 29a er 0,88 og nýtingarhlutfall Skólavörðustígs 29 er 1,22. Þá er nýtingarhlutfall lóðarinnar Skólavörðustígs 28 1,67. Samþykkt byggingaráform leiða því ekki til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar 31 muni skera sig úr hvað varðar nýtingarhlutfall lóða á svæðinu. Umdeild viðbygging verður ekki hærri en núverandi hús á lóðinni og verður í um fjögurra metra fjarlægð frá lóðarmörkum Bjarnarstígs 10 og í um tólf metra fjarlægð frá húsinu á þeirri lóð. Byggt er við bakhlið hússins á norðurhluta lóðarinnar og hefur viðbyggingin því ekki áhrif á götumynd Skólavörðu­stígs. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að byggðamynstur eða yfirbragð byggðar breytist með fyrirhuguðum breytingum á húsinu að Skólavörðustíg 31.

Samkvæmt framangreindu voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að grenndarkynna hina umþrættu um­sókn. Þá var málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við ákvæði laganna, sbr. og viðauka 1.1. og 2.3. við samþykkt nr. 1020/2019 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdar­­fresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og komu kærendur að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athuga­semda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina í kjölfar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 24. september 2020.

Fyrirliggjandi skuggavarpsmyndir bera með sér­ að mesta aukning á skuggavarpi gagnvart lóð kæranda að Skólavörðustíg 29a vegna tilkomu viðbyggingarinnar sé yfir miðjan daginn á jafndægri að vori og hausti. Yfir sumartíman er aukningin óveruleg. Verður ekki ráðið að framangreind aukning á skuggavarpi sé umfram það sem íbúar í þéttbýli mega almennt búast við en hafa verður í huga að um miðborgarsvæði er að ræða þar sem byggð er þétt fyrir.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta hússins á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg.

74/2020 Kvíslartunga

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 5. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2020, kæra á ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 16. júlí 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Kvíslartungu 5 í Leirvogstunguhverfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Kvíslartungu 1 og 3 þá ákvörðun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 16. júlí 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna Kvíslartungu 5 í Leirvogstunguhverfi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 17. september 2020.

Málavextir: Með erindi til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, dags. 22. september 2019, óskaði lóðarhafi Kvíslartungu 5 eftir breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar. Með erindinu fylgdu  teikningar að tvíbýlishúsi/parhúsi, auk rökstuðnings þar sem fram kemur að eigendur lóðarinnar séu stórfjölskylda sem hafi hug á því að byggja saman fjölskylduhús sem hafi sama útlit og einbýlishús.

Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 27. september 2019 en afgreiðslu þess var frestað vegna tímaskorts. Á fundi nefndarinnar 11. október s.á. var erindið tekið fyrir að nýju og skipulagsfulltrúa falið að ræða við lóðarhafa um frekari útfærslu tillögunnar. Á fundi 20. desember s.á. var málið tekið fyrir og bókað að skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Á fundi sínum 31. janúar 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 5. febrúar s.á.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna Kvíslartungu 5 var auglýst til kynningar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga 10. mars 2020 með athugasemdafresti til 24. apríl s.á. Var auglýsing þess efnis birt í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og á heimasíðu Mosfellsbæjar. Jafnframt voru send bréf til kynningar til íbúa Kvíslartungu 1 og 3. Athugasemdir bárust frá íbúum Kvíslatungu 1 og 3 innan frests. Voru þær teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar 5. júní 2020 og skipulagsfulltrúa falið að vinna drög að svörum í samræmi við umræður innan skipulagsnefndar. Drög að svörum voru lögð fyrir skipulagsnefnd á fundi 3. júlí s.á. og samþykkt ásamt hinni auglýstu deiliskipulagstillögu. Var bókað að breytingin skyldi hljóta afgreiðslu skv. 42. gr. skipulagslaga. Bæjarráð Mosfellsbæjar staðfesti ákvörðunina á fundi sínum 9. s.m.

Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til yfirferðar með bréfi, dags. 16. júlí 2020, í samræmi við 42. gr. skipulagslaga. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 7. ágúst s.á., kom fram að búið væri að yfirfara framlögð gögn og að ekki væri gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. ágúst 2020.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram  að engin rök hafi verið færð fyrir  nauðsyn þess að breyta umræddu deiliskipulagi þannig að á lóðinni Kvíslartunga 5 verði fjölbýli í stað einbýlis. Þá sé það óeðlilegt að starfsmaður sveitarfélagsins geti keypt einnar íbúðar lóð og látið breyta henni í fjölbýli fyrir sig án þess að sveitarfélagið gefi út almennar viðmiðanir fyrir svo stórum breytingum á skipulagi. Búin sé til ný húsagerð, PII, parhús, á skipulagssvæðinu, en ekki sé notast við húsagerð raðhúsa með tveimur íbúðum eins og annars staðar í hverfinu. Öll önnur hefðbundin parhús í hverfinu séu skilgreind sem tveggja íbúða raðhús. Einnig sé til húsagerðin keðjuhús, þ.e. parhús sem tengist á bílskúrum. Þá hafi engar ráðstafanir verið gerðar vegna aukinnar umferðar.

Í svörum sveitarfélagsins við athugasemdum hafi verið sagt að snúningshaus yrði settur í enda götunnar, en hann uppfylli varla lágmarksstærð og sé með teiknaðri aðkomu að innri íbúð beint af snúningssvæði. Fundargerð skipulagsnefndar megi skilja svo að lóðarhafi muni lengja götu um einungis 15 m á sinn kostnað, sem rétt dugi til að komast að innri hluta lóðar, en þar sé hvergi talað um snúninghaus eða útfærslu hans. Þá sé beinlínis rangt í svörum Mosfellsbæjar að ekki hafi verið til lóðir í hverfinu þar sem gert væri ráð fyrir aukaíbúð þegar fyrstu tillögur hafi komið fram um þetta mál. Þegar lóðarhafi hafi bankað upp á hjá bæði eigendum lóða 1 og 3 við Kvíslartungu hafi hann verið að óska eftir stækkun aukaíbúðar og ekki virst  gera sér grein fyrir því að ekki mætti hafa aukaíbúð í húsi á lóðinni. Að vísu séu engar parhúsalóðir til sölu í hverfinu í dag, en enn megi finna lóðir til sölu með möguleika á aukaíbúð.

Mosfellsbær hafi hvorki séð til þess að lóðarhafar fylgdu skilmálum varðandi hæðarkóta á lóðarmörkum samkvæmt lóðarblöðum né hæðum mannvirkja á lóðamörkum í hverfinu. Óttist kærendur að skilmálum þessum verði ekki fylgt eftir á lóðinni, sérstaklega þegar búið sé að þröngva fjölbýlishúsi á einbýlishúsalóð. Byggingarreitur lóðarinnar sé fyrir einbýli en parhús í hverfinu séu öll með mun breiðari byggingarreit við götu til að hentugt sé að reisa parhús. Því telji kærendur miklar líkur vera á að ekki verði farið eftir lóðarmörkum samkvæmt lóðarblöðum. Sú sértæka húsagerð sem búin sé til fyrir þessa einu lóð sé afgreidd án frekari skýringa í skipulagstexta. Að öðru leyti muni aðrir deiliskipulagsskilmálar gilda en ekki sé skýrt í hvað þar sé vísað. Hvort það séu skilmálar einbýlishúsa, raðhúsa eða keðjuhúsa, t.d. varðandi grunnstærðir.

Mosfellsbær hafi vissulega breytt skipulagi nokkurra lóða í hverfinu með misjöfnun árangri, en þar hafi lóðarhafar næstu lóða getað hannað sínar byggingar miðað við breytingar. Nú séu 12-13 ár síðan aðliggjandi hús hafi verið hönnuð og byggð og því sé ekki hægt að taka tillit til breytingarinnar í útfærslu þeirra. Þá hafi svör við athugasemdum ekki verið rétt afgreidd þar sem bæjarráð hafi samkvæmt fundargerð eingöngu afgreitt drög að svörum. Því sé ekki vitað hvort svarbréf sem sent hafi verið sé samkvæmt vilja bæjarráðs.

Málsrök Mosfellsbæjar: Sveitarfélagið bendir á að umdeild breyting feli í sér að Kvíslartunga 5 verði að skilgreindri tvíbýlis- eða parhúsalóð, en ekki sé verið að sækja um aukaíbúð í húsi. Því sé hafnað sem órökstuddu og ósönnuðu að ákvörðun sveitarfélagsins hafi tengst persónu umsækjanda og að um sérmeðferð hafi verið að ræða. Einstaklingar eigi hvorki að gjalda fyrir né njóta góðs af stöðu sinni eða starfsheiti. Við meðferð málsins hafi verið gætt að jafnræði m.t.t. sambærilegra mála. Málsmeðferð breytingarinnar hafi tekið allt að 12 mánuði, sem sé í raun lengra en gangi og gerist með sambærilegar breytingar á deiliskipulagi. Ekki þurfi að gefa út viðmiðanir varðandi deiliskipulagsbreytingar enda þekkist slíkt ekki. Breytingin hafi hlotið meðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi því ekki talist vera óveruleg þó svo að dæmi séu um að sambærileg mál hafi hlotið málsmeðferð skv. 2. mgr. sama ákvæðis.

Búin hafi verið til ný húsagerð sem mæti meðal annars athugasemdum annars kærenda, þess efnis að tvíbýli/parhús muni „skemma heildarmynd götunnar“. Nýja húsagerðin sé tveggja hæða parhús sem lúti að öðru leyti sömu byggingarskilmálum og gildi um einbýlishúsið sem byggja hafi mátt á lóðinni. Hafi húsið verið hannað með götumyndina í huga og tengist ekki bílskúrum. Þá sé ekkert í reglugerðum sem banni að húsagerð sé bætt við í greinargerð falli aðrir skilmálar ekki að fyrirhugaðri byggingu eða áætlunum. Þá sé gatan lengd á kostnað „leyfishafa“ auk þess sem skilyrði um bílskúra og bílastæði séu sett í deiliskipulag. Eftir breytinguna sé bílastæðum á lóð fjölgað út tveimur í sex og þar verði þá fleiri bílastæði fyrir hvora eign innan lóðar en upprunalegt skipulag hafi sagt til um. Sameiginleg bílastæði í umræddum botnlanga Kvíslartungu séu sex. Önnur almenn stæði safngötu Kvíslartungu næst umræddri lóð séu sextán talsins. Í botngötum Leirvogstunguhverfis sé almennt ekki gert ráð fyrir snúningshausum og því endi flestar slíkar götur í innkeyrslum húsa. Á teikningu megi sjá uppdrátt að götu sem ætluð sé til að bæta aðkomu að nýrri íbúð.

Sveitarfélagið hafi ekki haft neinar lóðir til úthlutunar eða skipta fyrir „leyfishafa“ til þess að hann gæti byggt sér slíkt tvíbýli/parhús sem deiliskipulagsbreytingin lúti að. Sé því hafnað að ekki verði fylgt byggingarskilmálum við byggingu hússins enda sé ekkert fram komið sem styðji slíkar ásakanir. Húsið hafi verið hannað með aðstæður, byggingarreit, skilmála og stærð lóðar í huga. Húsagerðin sé skilgreind í skýringatexta skipulagsins en að öðru leyti gildi fyrri byggingarskilmálar lóðar. Skipulagsbreytingar í hverfinu séu þegar 24 talsins að Kvíslartungu 5 frátalinni. Óþarft sé að endurhanna hús aðliggjandi lóða þar sem húsið að Kvíslartungu 5 hafi verið hannað sérstaklega með tilliti til þeirra lóða.

Tillögur að svörum við athugasemdum séu lagðar fram á fundum skipulagsnefndar, sem samþykki þau eða synji eftir atvikum. Samþykki skipulagsnefndar sé fært í fundargerð. Bæjarstjórn fái fundargerð skipulagsnefndar til samþykktar og samþykki þau eða eftir atvikum synji afgreiðslu nefndarinnar á erindum. Í þessu tilviki hafi tillögur að svörum við athugasemdum verið lagðar fram á fundi skipulagsnefndar, sem hafi samþykkt þau, líkt og sjá megi í fundargerð nefndarinnar. Fundargerð skipulagsnefndar hafi verið lögð fyrir fund bæjarráðs 9. júlí 2020 og hafi afgreiðsla skipulagsnefndar verið samþykkt á þeim fundi.

Ítrekað sé að kæra málsins taki efnislega ekki með neinum hætti á deiliskipulagsbreytingunni eða málsmeðferð hennar. Þá hafi ekki verið tiltekið með hvaða hætti hún sé í ósamræmi við lög og reglugerðir. Atriði kæru séu að miklu leyti samhljóða athugasemdum sem borist hafi  við auglýstri deiliskipulagsbreytingu og skipulagsnefnd og bæjarráð hafi svarað efnislega í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í skipulagstillögunni sé kveðið á um að byggja megi parhús en samkvæmt svörum Mosfellsbæjar sé það lagt að jöfnu hvort um sé að ræða parhús eða fjölbýli (tvíbýli).

Að sjálfsögðu komi ekkert fram um sérmeðferð starfsmanna Mosfellsbæjar varðandi framkvæmd skipulagsbreytingarinnar, en eigi lóðarhafar sem hafi byggt sér hús samkvæmt gildandi skipulagi ekki að geta gert ráð fyrir því að þeir sem byggi síðar þurfi líka að fara eftir því skipulagi sem gildi. Sé réttur þess sem komi síðastur svo sterkur að hann geti byggt það sem honum sýnist og látið breyta skipulagi eftir hentugleikum og þeir sem hafi byggt fyrstir þurfi að sitja uppi með það.

Engin fjölgun almennra bílastæða sé sýnd í umræddri skipulagstillögu en vissulega séu teiknuð þrjú stæði á sitthvorn hluta lóðarinnar. Í svörum Mosfellsbæjar við athugasemdum kærenda varðandi bílastæði og umferðarmál hafi komið fram að settur yrði snúningshaus og bílastæði leyst innan lóðar. Nú segi Mosfellsbær að ekki tíðkist að hafa snúningshausa í botngötum í hverfinu. Ef setja eigi snúningshaus í enda götunnar, eins og komið hafi fram, hvernig eigi hann að fullnægja skilyrðum um slíkt þegar aðkoma að húsi sé beint af honum.

Það að sveitarfélagið hafi sagst ekki hafa haft lóðir í boði fyrir fjölbýli (tvíbýli) geti ekki verið nægjanleg skýring til þess að hægt sé að fara í grundvallarbreytingu á götumynd þar sem uppbyggingu sé að öðru leyti lokið. Ítrekað sé að óttast sé að byggingarskilmálum verði ekki fylgt, sérstaklega hvað varði hæðarkóta á mörkum lóða og mannvirkja við lóðarmörk. Hverfið sé vægast sagt orðið óskapnaður þar sem fólk hafi byggt allt að fjögurra metra háa veggi á lóðarmörkum og Mosfellsbær hafi ekkert aðhafst, þrátt fyrir t.d. athugasemdir íbúasamtaka hverfisins. Þótt bæjaryfirvöld haldi því fram að hönnun byggingar á Kvíslartungu 5 taki tillit til aðliggjandi lóða hafi lóðarhafi Kvíslartungu 3 ekkert getað aðlagað sína hönnun að því að  reist verði fjölbýli í stað einbýlis við hlið húss hans.

Mosfellsbær telji að afgreiðsla á drögum að svörum sé fullnægjandi en kærendur telji að bæjaryfirvöldum beri skylda til að afgreiða svarbréf í endanlegri mynd svo þau hafi gildi.

———-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en hann hefur ekki nýtt þann rétt sinn.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr., en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, þ. á m. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað og heimild til að breyta deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 er umrætt deiliskipulagssvæði á íbúðar­svæði merktu 104-íb, sérbýlishúsabyggð í uppbyggingu. Kemur fram að um sé að ræða einnar til tveggja hæða sérbýlishúsabyggð. Samkvæmt 64. lið gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er sérbýli íbúðarhús, þar sem ekki telst til sameignar annað en lóð og ytra byrði húss og hluti lagnakerfa eftir eðli máls, t.d. einbýlishús, raðhús og parhús. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er búin til ný húsagerð fyrir Kvíslartungu 5, P-II, parhús á tveimur hæðum, en áður var gert ráð fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóðinni, húsagerð E-IIB. Bílageymsla skal vera við hverja íbúðareiningu, bílastæðum á lóð er fjölgað úr tveimur í sex og botngatan framlengd um 15 m. Staðsetning og útfærsla húss skal vera í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála þar með talið bindandi byggingarlínu. Að öðru leyti er vísað til skilmála gildandi deiliskipulags. Liggur ekki annað fyrir en að umdeild skipulagsbreyting rúmist innan heimilda aðalskipulags.

Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar eftir hina kærðu breytingu er óbreytt og eru mörg fordæmi fyrir því á skipulagssvæðinu að gerðar séu breytingar á deiliskipulagi vegna einstakra lóða, þ. á m. að búa til nýjar húsagerðir. Verður því ekki séð að lóðarhafi umræddrar lóðar hafi sætt sérmeðferð í því tilviki. Fallast má á að tíðar breytingar á deiliskipulagi séu ekki til eftirbreytni en breyttar aðstæður geta þó réttlætt slíkar breytingar. Verður að játa sveitarstjórn mat um það við beitingu skipulagsvalds síns. Þá er ekki hægt að ganga út frá öðru en því að byggingar­skilmálum verði fylgt við byggingu hússins, þar á meðal varðandi hæðarkóta og byggingarreit lóðarinnar. Telji kærendur að skilmálum sé ekki fylgt geta þeir leitað til byggingarfulltrúa sveitar­félagsins, en það er hans hlutverk að hafa eftirlit með mannvirkjagerð, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Sé það mat byggingarfulltrúa að mannvirkjagerð sé ekki í samræmi við skipulag getur hann stöðvað framkvæmdir, sbr. 1. mgr. 55. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 16. júlí 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Kvíslartungu 5 í Leirvogstungu­hverfi.

75/2020 Egilsgata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 29. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2020, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 10. september 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur í fjórgang lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með úrskurði í kærumáli nr. 24/2019, uppkveðnum 23. janúar 2020, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Taldi úrskurðarnefndin að hin kærða ákvörðun uppfyllti ekki áskilnaði 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 um að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð. Hinn 27. febrúar 2020 sótti leyfishafi um endurnýjað byggingarleyfi. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 3. apríl s.á. var samþykkt að grenndarkynna teikningar framkvæmdarinnar ásamt afstöðumynd á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi sveitarstjórnar 8. s.m. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar, m.a. frá kæranda, og voru þær lagðar fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar 5. júní s.á. Var framkomnum athugasemdum svarað með bréfi byggingarfulltrúa 15. s.m. Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 18. s.m. var byggingarfulltrúa falið að gefa út hið umsótta byggingarleyfi sem hann og gerði 15. júlí 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með útgáfu hins kærða byggingarleyfis sé vegið verulega að réttindum hans og hagsmunum. Leyfið hafi hvorki fullnægjandi stoð í lögum nr. 160/2010 um mannvirki eða skipulagslögum nr. 123/2010 né reglugerðum sem leiði af þeim lögum. Svör byggingarfulltrúa við athugasemdum kæranda standist ekki skoðun.

Í gögnum vegna grenndarkynningar byggingarleyfisins sé ekkert að finna um bílastæði og fyrirkomulag þeirra líkt og mælt sé fyrir um í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sbr. einnig gr. 4.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð skuli í bréfi til hagsmunaaðila koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningarinnar og rökstuðningur fyrir málsmeðferðina. Ekkert sé að finna um slíkt í gögnum sem fylgdu með grenndarkynningunni. Einnig vanti mörg þau gögn sem gr. 5.9.7. í reglugerðinni kveði á um að fylgja skuli við grenndarkynningu. Þá uppfylli hönnunargögn sem fylgt hafi grenndarkynningu ekki fjölmörg ákvæði byggingarreglugerðar, s.s. gr. 1.2.1., 2.4.1., 4.3.1., 4.3.3., 4.3.9., 4.4.4., 6.1.1., 6.1.3., 6.1.5., 6.7.1., 6.7.2., 6.7.4., 6.7.14. og 6.10.3.

Öllu máli skipti að með breytingunni fjölgi íbúðum Egilsgötu 6 úr einni í fjórar en það hafi veruleg áhrif á nágrennið. Það sé ekki einkamál sveitarfélagsins og leyfishafa hvar bílastæði íbúðanna eigi að vera því verulegur skortur sé á bílastæðum. Það sé hlutverk sveitarfélagsins að sjá til þess að umsækjandi um byggingarleyfi leggi fram gögn þar sem fram komi hvar bílastæði skuli vera, þ. á m. fyrir fatlaða, og hvað þau skuli vera mörg. Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi fyrir Egilsgötu 11 séu bílastæði gegnt húsum nr. 8-10 við Egilsgötu innan marka lóðar Egilsgötu 11. Lóðarhafi þeirrar lóðar hafi ekki framselt bílastæðin til sveitarfélagsins eða nokkurs annars aðila. Í svari byggingarfulltrúa við athugasemdum kæranda við grenndarkynningu komi fram að vegna skipulagsákvörðunar sveitarstjórnar frá árinu 2004 hafi umrædd stæði verið á svæði sem sveitarfélagið hafi óskoraðan rétt yfir. Það sé fráleitt að halda því fram að skipulagsákvörðun sveitarfélagsins felli úr gildi lóðarleigusamning eða þinglýsta eignarheimild.

Hafnað sé rökum um undanþágu frá algildri hönnun. Það sé í andstöðu við lög og reglugerðir að veita afslátt á aðgengi, m.a. varðandi bílastæði fyrir fatlaða. Óheimilt sé að ganga frá fyrirkomulagi bílastæði fyrir nýjar íbúðir líkt og undanþágubeiðnin geri ráð fyrir. Sveitarfélagið bendi á bílastæði í eigu þess en öll bílastæðin séu hins vegar í eigu einkaaðila. Engin boðleg aðkoma sé að íbúð á efri hæð og sveitarfélagið geti ekki gefið út hið kærða byggingarleyfi öðruvísi en að þinglýst sé kvöð um aðkomu að íbúðinni yfir lóð Egilsgötu 8. Það hafi ekki verið gert og sé fyrirkomulagið í óþökk þeirra sem eigi umrædda lóð.

Mælt sé fyrir um það í 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald að falli útleiga íbúðar ekki undir heimagistingu teljist íbúðin vera atvinnu­húsnæði og skuli vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem slík. Eldvarnir skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með „auknum ráðstöfunum skv. reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi.“ Sveitarfélagið hafi ítrekað gefið sýslumanni jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu að Egilsgötu 6. Í því ljósi orki mjög tvímælis sú framsetning að aðeins sé verið að grenndarkynna fjölgun á íbúðum en ekki tekið fram að þær séu undir atvinnustarfsemi.

Kærandi hafi fundað með sérfræðingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Skipulags-stofnunar vegna málsins. Hafi niðurstaða þeirra funda verið samhljóða því sem að framan sé rakið, m.a. að um verulega mikla breytingu sé að ræða sem hafi áhrif á stórt svæði, formgalli sé augljós þar sem ekki sé tilkynnt um rétta notkun, leyfi sýslumanns sé ekki í samræmi við notkun, rökstuðning vanti alfarið um hvernig leysa eigi bílastæðamál, aðkoma að íbúð á efri hæð sé ekki ígrunduð lagalega séð, það sé grófur yfirgangur að teikna tröppur inn á teikningu Egilsgötu 6, gögn þurfi að vera miklu ítarlegri og kynningin sé á röngum forsendum.

Skipulagsyfirvöld í sveitarfélaginu hafi ítrekað sett skilyrði um tiltekinn fjölda bílastæða vegna fjölgunar íbúða á svæðinu. Þau hafi heimild til að gera kröfur um bílastæði fyrir samþykki íbúða og þeirri heimild hafi byggingarfulltrúi beitt árið 2017 þegar hann setti það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að Brákarbraut 1 að upplýst yrði um stærð lóðar, lóðarmörk og staðsetningu bílastæða. Sú lóð sé á sama skipulagssvæði og Egilsgata 6. Það sýni hvernig sveitarfélagið mismuni aðilum í algjörlega sambærilegum málum. Brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 12. gr. sömu laga um meðalhóf.

Í 10. gr. lögreglusamþykktar Borgarbyggðar nr. 390/2010 komi fram að atvinnustarfsemi í íbúðarhverfum sé óheimil. Sveitarstjórn geti þó heimilað þar minni háttar starfsemi, svo fremi að tryggt sé að slíkt leiði ekki af sér ónæði eða truflun gagnvart íbúum og önnur opinber leyfi liggi fyrir. Einnig komi fram að atvinnurekstri í húsnæði, sem liggi að íbúðarbyggð, skuli haga þannig að ekki hljótist ónæði eða truflun fyrir þá sem næst búa. Gildi þetta jafnt um starfsemina sjálfa sem og umferð sem af henni hljótist. Kærandi hafi vægast sagt slæma reynslu af gistiþjónustu að Egilsgötu 6. Hafi sveitarfélagið heimilað þann rekstur árið 2013 án þess að sú starfsemi hafi verið grenndarkynnt. Síðan hafi sveitarfélagið þrisvar sinnum gefið jákvæða umsögn um útgáfu rekstrarleyfis til sýslumannsins á Vesturlandi. Gistiþjónusturekstrinum fylgi umferð allan sólarhringinn og hávaði kvölds og nætur.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi aðeins við þegar sótt sé um leyfi fyrir einstakri framkvæmd á svæði þar sem aðalskipulag sé ekki fyrir hendi, sbr. 1. tl. bráðabirgðaákvæða skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem aðalskipulagsáætlun sé í gildi fyrir Borgarbyggð telji sveitarfélagið að umrædd grein eigi ekki við í málinu. Hvað varði gr. 5.9.2. í reglugerðinni sé bent á að í hinni umræddu grenndarkynningu komi fram að hún sé sett fram vegna breytinga innanhúss, auk þess sem teikningar vegna framkvæmdanna hafi fylgt með henni. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019 hafi komið fram að þegar grenndarkynningu sé þannig háttað sé talið að meginefni kynningarinnar komi fram með fullnægjandi hætti. Þá sé óþarfi að útbúa hnitsetta afstöðumynd eða gögn um landmótun og/eða götumynd, sbr. gr. 5.9.7. í reglugerðinni, þegar um breytingar á innbyrðis skipulagi mannvirkis sé að ræða. Öll gögn sem skipulagslög og skipulagsreglugerð geri ráð fyrir hafi þegar verið send kæranda við grenndarkynningu og því sé ekki skylt að leggja fram nein frekari gögn.

Í núgildandi skipulagsreglugerð sé ekki gerð krafa um það að tilteknum fjölda íbúða skuli fylgja tiltekinn fjöldi bílastæða, en slíkt ákvæði hafi verið í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Samkvæmt núgildandi skipulagsreglugerð sé skipulagsyfirvöldum sett það í sjálfsvald með hvaða hætti þau vilja haga bílastæðamálum en eina krafan þar um sé sú að kveðið sé á um þau mál í deiliskipulagi. Í þessu máli sé ekki um gerð deiliskipulags að ræða og því hafi sveitarfélaginu ekki verið skylt að gera kröfu á hendur eigendum Egilsgötu 6 um tilteknar ráðstafanir vegna bílastæðamála við húsið þó sótt hafi verið um byggingarleyfi vegna fjölgunar íbúða í húsinu. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi verið litið til þess að beint á móti húsinu séu bílastæði í eigu sveitarfélagsins og sé fullkomlega eðlilegt að þau verði notuð af íbúum hússins. Í afgreiðslunni felist hvorki ákvörðun um að afsala umræddum stæðum til eigenda hússins né að þeir skuli njóta forgangs til stæðanna.

Því sé ekki mótmælt að samkvæmt uppdrætti lóðarleigusamnings Egilsgötu 11 séu hin um­deildu bílastæði innan lóðarmarka þeirrar lóðar. Hins vegar komi fram í lóðarleigusamningnum að hvenær sem bæjarstjórn telji þörf á að nýta lóðina undir opinber mannvirki, opin svæði og annað, sem skipulagsuppdráttur geri ráð fyrir, sé leigutaka skylt að láta leigurétt sinn og lóðina af hendi. Með gerð deiliskipulags fyrir gamla miðbæinn í Borgarnesi árið 2004 hafi lóðin við Egilsgötu 11 verið minnkuð og kveðið á um að bílastæði fyrir húsið skyldu vera á sérstakri lóð sunnan við það. Hin umdeildu bílastæði hafi verið svokölluð almenningsrými frá þeim tíma og hafi lóðarhafi Egilsgötu 11 verið upplýstur um framangreinda afstöðu sveitarfélagsins.

Kærandi haldi því fram með óútskýrðum og órökstuddum hætti að hönnunargögn uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Um sé að ræða breytingar innanhúss í gömlu og grónu hverfi og því ekki þörf á lóðaruppdrætti. Sveitarfélagið hafi nýtt sér heimild til þess að ákveða að við meðferð málsins þyrftu byggingarleyfishafar ekki að leggja fram slíka uppdrætti, sbr. a-lið gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð, þar sem segi að leyfishafi ákveði hvort og að hvaða leyti þurfi að leggja fram aðaluppdrætti vegna umsóknar um breytingar á þegar byggðu mannvirki. Þetta ákvæði telur sveitarfélagið raunar að eigi við um allt það sem fram komi í kærunni varðandi þá aðaluppdrætti sem lagðir hafi verið fram með umsókninni. Þá vísi sveitarfélagið jafnframt til gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð þar sem komi fram að ekki sé algilt að byggja þurfi á sjónarmiðum algildrar hönnunar þegar eldra mannvirki, sem byggt hafi verið í tíð eldri byggingarreglugerðar, sé breytt heldur sé heimilt að víkja frá þeim sjónarmiðum ef sérstökum erfiðleikum sé háð að uppfylla ákvæði 6. kafla reglugerðarinnar. Þegar þannig hátti til skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða einstöku ákvæðum óskað sé eftir að víkja frá og geti leyfishafi veitt slíkt leyfi. Í þessu máli hafi hönnuður skilað sérstakri greinargerð um ástæður þess að sótt væri um undanþágur frá algildri hönnun. Einnig sé bent á að ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem kærandi vísi til, hafi verið fellt niður með reglugerð nr. 686/2018 og sé því ekki lengur í gildi.

Þær ákvarðanir sem kærandi vísi til vegna fasteigna við Egilsgötu hafi verið teknar í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sbr. skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, en í þeim hafi verið ákvæði um ákveðinn fjölda bílastæða vegna tiltekinna fermetra í byggðu húnæði. Slíkum ákvæðum sé ekki lengur fyrir að fara í núgildandi reglugerðum um sama efni. Því sé ekki verið að brjóta gegn lögum og sjónarmiðum um jafnræði með því að kveða ekki á um fyrirkomulag bílastæða í þessu máli. Þá sé ekki hægt að bera saman fyrirliggjandi mál við byggingarleyfisumsókn vegna Brákabrautar 1 frá árinu 2017, en fyrirkomulag þeirrar lóðar sé með allt öðrum hætti. Lóðin Brákarbraut 1 sé rúmum 220 m2 stærri en lóðin Egilsgata 6 auk þess sem lega hennar og staðsetning geri það kleift að leggja bílum innan lóðarmarka bæði norðan og austan megin, en þessu sé ekki þannig farið með lóðina Egilsgötu 6. Sá hluti þeirrar lóðar sem ekki sé undir húsinu sé í umtalsverðum halla en húsið standi svo á lóðarmörkum til suðurs, vestur og austurs. Þessar aðstæður geri það að verkum að sveitarfélagið hafi ekki talið sér skylt að krefjast þess að gerð yrði grein fyrir bílastæðum á hinum grenndarkynnta aðaluppdrætti. Jafnframt sé bent á að bílastæði í eigu lóðarinnar sunnan megin við húsið við Egilsgötu 2-10 hafi um langa hríð verið til ráðstöfunar fyrir umrædd hús, þ. á m. hús kæranda, þar sem að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum á lóðum neins þeirra. Hafi sveitarfélagið talið að þau stæði uppfylltu bílastæðaþörf svæðisins þrátt fyrir breytingarnar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir aðallega kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn kæruefnis að hluta og vegna aðildarskorts hans um önnur atriði. Kæran sé ruglingsleg og ýmis atriði dregin fram sem séu byggingarleyfinu óviðkomandi.

Bent sé á að í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 falli Egilsgatan í heild undir hverfis­verndarsvæði og sé kveðið þar á um að mikilvægt sé að halda einkennum byggðar frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Að setja skábraut við húsið yrði mikið rask fyrir götumyndina og myndi taka yfir gangstéttina utan við húsið að mestum hluta. Eigendur hafi kappkostað að halda útliti hússins að Egilsgötu 6 að mestu óbreyttu.

Bent sé á að kærandi hafi árið 2012 fengið samþykktar teikningar þar sem neðri hæð hússins að Egilsgötu 4 hafi verið breytt úr atvinnuhúsnæði í stúdíóíbúð. Því sé misræmi í málflutningi kæranda gagnvart nágrönnum og öðrum íbúum. Þá sé stigi að efri hæð íbúðar Egilsgötu 6 í óskiptri sameign lóða nr. 4 og 6 við Egilsgötu. Kærandi geti engan veginn haldið því fram að stiginn sé alfarið eign hússins að Egilsgötu 4.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúans í Borgarbyggð fyrir byggingarleyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Kærandi er eigandi húss á aðliggjandi lóð og tengja steyptar tröppur húsin saman. Hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli fyrir nefndinni áður vegna sömu breytinga svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Hafa engin atvik breyst frá fyrra máli sem gefi tilefni til að breyta niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um kæruaðild kæranda. Verður því ekki fallist á þá kröfu leyfishafa að vísa kærunni frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda í máli þessu.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem fram­kvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og kom kærandi að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina í kjölfar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn 11. júní 2020.

Samkvæmt þéttbýlisuppdrætti Aðalskipulags Borgarbyggðar 2010-2022 er lóðin Egilsgata 6 á skilgreindu svæði fyrir blandaða notkun (BL2). Í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram að gamli miðbærinn (BL2) nái yfir íbúðasvæði, verslun og veitingarekstur og margvíslega opinbera þjónustu, sem og menningar- og safnastarfsemi. Hið kærða byggingarleyfi fól í sér heimild til breytinga innanhúss en ekki var sótt um breytingu á notkun eignarinnar sem er skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem fjölbýlishús á neðri hæð en íbúðareign á efri hæð. Er framkvæmdin því í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar svo sem áskilið er í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Ekki verður fallist á með kæranda að sá annmarki hafi verið á grenndarkynningunni að ekki hafi komið fram hvert meginefni kynningar var, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, enda kom þar fram að um leyfi til breytinga innanhúss væri að ræða og fylgdu með teikningar vegna framkvæmdanna. Þá verður ekki talið að afstöðumynd eða gögn sem geri grein fyrir landmótun eða götumynd hafi átt að koma fram í grenndarkynningunni, sbr. gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð, vegna eðli þeirra breytinga sem um ræðir.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. b-liðar gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð skal í deiliskipulagi setja skilmála um fjölda bílastæða og frágang þeirra innan og utan lóðar. Hvorki í skipulagslögum né skipulagsreglugerð er mælt fyrir um að við útgáfu byggingarleyfis skuli uppfylla skilyrði um fjölda bílastæða eða kveða á um fyrirkomulag bílastæða með öðrum hætti. Þó skal byggingarleyfi vera í samræmi við byggingarreglugerð, sbr. 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Ákveðin skilyrði gilda um bílastæði hreyfihamlaðra skv. gr. 6.2.4. í reglugerðinni en hins vegar segir í 3. mgr. gr. 6.1.5. að ef sérstökum erfiðleikum sé bundið að uppfylla ákvæði þess hluta reglugerðarinnar, án þess að breyta að verulegu leyti megingerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert sé að varðveita, geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum. Í slíkum tilvikum skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað sé eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki sé unnt að uppfylla þau og hvort unnt sé með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þess hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Slík greinargerð var lögð fram með umsókn byggingarleyfisins og kom þar m.a. fram að um væri að ræða steinsteypt hús frá árinu 1936 og sé erfitt að uppfylla kafla reglugerðar um algilda hönnun sökum staðsetningar húss á lóð, eldri hönnunar og landslags. Með greinargerðinni fylgdi listi yfir þær greinar reglugerðarinnar sem óskað var undanþágu frá, þ. á m. gr. 6.2.4. um bílastæði hreyfihamlaðra. Þar segir jafnframt að vegna þeirra undanþága sem óskað sé eftir sé ljóst að umferð hreyfihamlaðra verði takmörkuð í húsinu. Með samþykki byggingarfulltrúa á hinni umþrættu umsókn heimilaði hann að vikið yrði frá skilyrðum byggingarreglugerðar um bílastæði hreyfihamlaðra auk annarra ákvæða reglugerðarinnar. Að framangreindu virtu verður ekki talið að skortur á upplýsingum um fyrirkomulag bílastæða valdi ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina. Þá verður ekki annað séð en að málsmeðferð hafi að öðru leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Kærandi telur að jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin í málinu og í þeim efnum vísar hann til nokkurra afgreiðslna skipulagsyfirvalda þar sem íbúðum var fjölgað á lóð með kröfu um fjölda bílastæða. Ekki verður talið að um sambærileg tilvik sé að ræða enda höfðu nefnd leyfi verið afgreidd í tíð byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem sett voru með stoð í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, en í þeirri reglugerð voru ákvæði um fjölda bílastæða fyrir lóðir á svæðum þar sem ekki var deiliskipulag í gildi. Þá verður heldur ekki talið að afgreiðsla byggingarfulltrúans á byggingarleyfisumsókn vegna Brákarbrautar 1, þar sem afgreiðslu málsins var frestað m.a. vegna þess að ekki lágu fyrir upplýsingar um bílastæði, verði talið sambærilegt tilvik enda ekki um sambærilegar lóðir að ræða.

Með hinu kærða byggingarleyfi fjölgar íbúðum á lóð Egilsgötu 6. Ljóst er að slíkt getur haft áhrif á grenndarhagsmuni kæranda, t.a.m. vegna aukinnar umferðar og umgangs um sameiginlegar tröppur. Aftur á móti verður ekki talið að heimilaðar breytingar raski grenndarhagsmunum kæranda að því marki að ógildingu varði. Telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að lögmætis­athugun nefndarinnar einskorðast við hið útgefna byggingarleyfi, sem felur í sér heimild til breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6, en tekur ekki til skoðunar þann atvinnurekstur sem er eða kann að verða staðsettur í húsinu. Á það skal þó bent að telji kærandi málsmeðferð sveitarfélagsins ábótavant að öðru leyti eða að það hafi ekki sinnt skyldum sínum, s.s. vegna atvinnurekstrar í því húsi sem um ræðir, getur hann leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli eftirlits- og yfirstjórnarhlutverks þess.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 15. júní 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.