Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

106/2020 Sólvallagata

Árið 2021, fimmtudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa bílskúr á lóðinni nr. 23 við Sólvallagötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2020, er barst nefndinni 29. s.m., kærir eigandi, Ásvallagötu 26, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. september 2020 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa bílskúr á lóðinni nr. 23 við Sólvallagötu. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að krafist sé að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Á lóðinni að Sólvallagötu 23 stendur hús, reist árið 1907 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Hinn 7. janúar 2020 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja á umræddri lóð staðsteyptan bílskúr klæddan að utan með timburborðum og var erindinu vísað til umsagnar skipulags­fulltrúa. Veitti skipulagsfulltrúi umsögn, dags. 24. janúar 2020, þar sem m.a. kom fram að á lóðinni stæði hús er væri aldursfriðað og umsagnarskylt samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar og að lóðin væri innan svæðis sem væri hverfisverndað. Markmið verndar­innar væri að halda í upprunaleg einkenni byggðarinnar og ættu allar breytingar og endur­bætur að vera gerðar á forsendum þeirrar byggðar sem fyrir væri. Tók skipulagsfulltrúi neikvætt í erindið, m.a. í samræmi við stefnu um hverfisvernd svæðisins, en benti á að ekki yrðu gerðar athugasemdir við að grenndarkynna byggingarnefndarteikningu af bílskúr á bak­lóð sem væri minni að umfangi, eða að hámarki 30 m², en sótt væri um byggingu bílskúrs sem væri að grunnfleti 38,8 m². Þá væri umsögn Minjastofnunar Íslands áskilin fyrir útgáfu byggingarleyfis.

Hinn 5. júní 2020 tók skipulagsfulltrúi erindið fyrir og gerði ekki athugasemd við það með vísan til skilyrða og leiðbeininga er fram kæmu í leiðréttri umsögn hans, dags. 4. júní s.á. Í nefndri umsögn var m.a. tekið fram að borist hefðu nýjar teikningar þar sem umræddur bílskúr hefði verið minnkaður í 36 m². Væri fallist á að grenndarkynna byggingarleyfi fyrir bílskúr með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar Íslands. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júní 2020 var erindinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og ákvað hann á embættisafgreiðslufundi sínum 12. s.m. að grenndarkynna tillöguna fyrir þeim sem taldir voru eiga hagsmuna að gæta. Var erindið grenndarkynnt frá 18. ágúst 2020 og veittur frestur til 15. september s.á. til að skila athugasemdum við tillöguna, sem kærandi og gerði. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. september 2020 var erindið samþykkt, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. september s.á. Hinn 29. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfisumsóknina og samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 15. október 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann sé búsettur í kjallara hússins að Ásvallagötu 26 og sé aðkoman að íbúðinni á austurhlið hússins. Umræddur bílskúr muni verða um 3 m á hæð og byggður alveg að lóðarmörkum. Muni hann loka fyrir andrými um svæðið og gera það dimmara. Lóð Ásvallagötu sé um 60 cm lægri en lóðin við Sólvallagötu þar sem bílskúrinn verði sem þýði að nærri því 3,60 m hár veggur muni rísa við lóðarmörk sem sé um 3 m frá norðurhluta hússins að Ásvallagötu 26. Girðing er sjáist við lóðarmörk sé um 1,50 m á hæð, þannig að hér sé um tvöfalda hæð girðingar að ræða. Bílskúrinn muni einnig verða mjög sýnilegur úr glugga í barnaherbergi á 1. hæð hússins. Bílskúrinn sé of nálægt húsi kæranda og muni hafa neikvæð grenndaráhrif. Auk þess verði rask og ónæði við byggingu hans, en t.d. þurfi að grafa fyrir skólpi, en gert sé ráð fyrir klósetti og vaski í suðurenda bílskúrsins.

Bílskúrar við Ásvallagötu 20 og 22, svo og við Sólvallagötu 19 sem skipulagsfulltrúi hafi vísað til hafi ekki eins mikil áhrif þar sem Ásvallagata liggi neðar en Sólvallagata, auk þess sem þeir séu byggðir við suðurhluta lóða Sólvallagötu og því fjær íbúðarhúsum. Bílskúrinn við Sólvallagötu 19 virðist ekki eins hár og þessi. Þótt alvanalegt sé að eitthvað hafi verið gert á sínum tíma þurfi ekki að gera það í dag eins og hér sé lagt til, að byggja bílskúr við mjög þröngt rými og í aðeins 3 m fjarlægð frá húsinu að Ásvallagötu 26. Fara mætti milliveg, byggja bílskúrinn nær íbúðarhúsinu að Sólvallagötu 23 og grafa hann smávægilega niður í stað þess að rýra gæði næstu lóðar og gera svæði sem þegar sé þungbúið enn dimmara. Umrædd breyting verði bæði íþyngjandi og yfirgnæfandi og þótt áætlað íverurými sé í görðum sunnan megin bygginga í Vesturbænum, nýti kærandi svæðið austan megin við húsið. Árið 2005 hafi þáverandi eigendur hússins að Sólvallagötu 23 sótt um leyfi fyrir byggingu bílskúrs en því hafi verið hafnað.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að í umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 4. júní 2020, komi fram að fyrirhugaður bílskúr sé í samræmi við íbúðarhús sem fyrir sé á lóðinni. Útveggur bílskúrsins snúi að garði sem og einhallandi pappaklætt þak sem sé úr timbri. Gluggar bílskúrsins snúi að garðhlið lóðarinnar Sólvallagötu 23.

Í svörum skipulagsfulltrúa við innsendum athugasemdum hafi komið fram að alvanalegt sé að bílskúrar séu á lóðarmörkum og bent hafi verið á nærliggjandi lóðir því til stuðnings. Komið hafi fram athugasemd um að 60 cm hæðarmunur væri á lóðunum Sólvallagötu 23 og Ásvallagötu 26 og að hæð bílskúrsins myndi vera 3,6 m gagnvart lóð kæranda miðað við þann hæðarmun. Skipulagsfulltrúi hafi metið það svo að hæðarmunurinn kallaði ekki á að skúrinn yrði niðurgrafinn, en slíkt myndi rýra til muna gæði lóðarinnar Sólvallagötu 23. Einnig hafi hann talið að ásýnd frá Ásvallagötu myndi taka breytingum af völdum fyrirhugaðs bílskúrs, en þar sem um væri að ræða norðurhluta lóðarinnar væri ekki um að ræða íþyngjandi áhrif gagnvart þeirri lóð hvað skuggavarp varði. Meginhugsun að baki skipulagi lóða í Vesturbæ væri að garðar til íveru væru sunnan við byggingu beggja vegna götu. Fyrirhuguð bygging myndi varpa skugga á norðurhluta lóðarinnar Ásvallagötu 26 og á útvegg hússins, en skuggavarpið væri innan þeirra marka sem eðlilegt mætti teljast í þéttri byggð. Sýndu útreikningar á skuggavarpi fram á að það næði einungis upp að miðjum glugga í barnaherbergi á jarðhæð kl. 9:00 á jafndægri. Með hækkandi sól yrði skuggavarp lítið sem ekkert.

Íbúar í þéttri byggð megi alltaf eiga von á því að framkvæmdir verði heimilaðar sem kunni að rýra gæði eigna þeirra sem einhverju nemi. Almennt hafi verið litið svo á að útsýni og skuggavarp væru ekki lögverndaður réttur aðila. Skipulagsfulltrúi hafi metið það svo að bygging bílskúrs innan svæðisins sem nyti hverfisverndar væri í samræmi við það sem heimilað hefði verið. Þannig séu sjö bílskúrar við 17 hús á götureitnum Ásvallagata-Sólvallagata á milli Blómvallagötu og Hofsvallagötu. Því sé framkvæmdin í fullu samræmi við það sem tíðkist á svæðinu. Jafnframt hafi verið litið til meðalhófs við ákvörðun um heimilaða stærð bílskúrsins, enda hafi skipulagsfulltrúi lagt til minnkun hans.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi mótmælir því að fyrirhugaður bílskúr muni hafa mikil áhrif gagnvart kæranda. Skuggavarpsteikningar sýni að hverfandi áhrif verði á ljósmagn við íbúð hans, enda snúi allir gluggar á húsi kæranda í aðra hátt. Skúrinn sjáist því ekki úr íbúð hans. Það eina sem muni breytast sé útsýni af austurhluta lóðarinnar Ásvallagötu 26 norður yfir lóðina við Sólvallagötu 23, sem annars væri ekki fyrir hendi ef reist yrði girðing á lóðamörkum eins og venjan sé í nærliggjandi görðum. Garðurinn við Ásvallagötu 26 snúi í suður en lóðamörkin séu norðan megin. Norðurhluti lóðarinnar sé lítill og gert sé ráð fyrir takmarkaðri viðveru þar, enda hafi rýmið einkum verið nýtt fyrir t.d. ruslatunnur. Skuggavarp sé eingöngu frá húsum og trjám á Ásvallagötu 26 yfir á lóð Sólvallagötu 23 en ekki öfugt. Hæð fyrirhugaðs bílskúrs hafi verið haldið í lágmarki og rétt við þau mörk sem teljist ganga upp. Almennt sé hæðarmunur á lóðum Sólvallagötu og Ásvallagötu enda liggi hverfið í brekku. Það sé hannað þannig að útsýni íbúa við Ásvallagötu úr gluggum og af lóðum sé til suðurs. Varðandi ljósmagn í garðinum við Ásvallagötu 26 hafi komið fram að megnið af sólarbirtunni komi úr suðri og því muni bílskúrinn hafa hverfandi, ef nokkur, áhrif á það. Þá sé barnaherbergi á 1. hæð sem kærandi skírskoti til ekki hluti af íbúð hans og eigandi þess sé ekki aðili að kærumáli þessu. Útsýni úr þessu herbergi verði yfir bílskúrinn.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni nr. 23 við Sólvallagötu. Byggir kærandi málatilbúnað sinn fyrst og fremst á því að heimiluð bygging muni raska grenndarhagsmunum hans með óhæfilegum hætti, en hann á fasteign í kjallara hússins að Ásvallagötu 26.

Lóðin Sólvallagata 23 er í gamalgrónu íbúðarhverfi og á henni stendur íbúðarhús reist árið 1907. Lóðin er innan svæðis sem er hverfisverndað samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og var leyfið veitt að undangenginni grenndar­kynningu samkvæmt heimild í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði má veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar þegar um er að ræða fram­kvæmd sem er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Samkvæmt sam­þykktum aðaluppdráttum er hinn umdeildi bílskúr staðsettur við suðaustur mörk lóðar leyfis­hafa og liggur að norðurhluta lóðar kæranda. Við meðferð málsins gerði skipulagsfulltrúi athugasemd við stærð fyrirhugaðs bílskúrs og í framhaldi af því voru lagðar fram nýjar teikningar þar sem hann hafði verið minnkaður úr 38,8 m² í 36 m². Er bílskúrinn um 3 m að hæð, en hæðarmunur mun vera á lóðarmörkunum þar sem lóðin við Ásvallagötu er lægri. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 25. september 2020, kemur m.a. fram að aðeins hluti glugga í barnaherbergi muni verða í skugga vegna bílskúrsins kl. 9:00 á jafndægri. Á hádegi sé skuggi af bílskúrnum svo alfarið farinn af lóð Ásvallagötu 26. Bera fyrirliggjandi skuggavarpsmyndir með sér að skuggavarp á lóð kæranda vegna tilkomu bílskúrsins sé óverulegt.

Í næsta nágrenni við lóðina að Sólvallagötu 23 eru bílskúrar, ýmist byggðir um svipað leyti og hús á þeim lóðum eða síðar. Stærð bílskúra á lóðunum Ásvallagötu 20, 22 og 24, og Sólvallagötu 19, er samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands frá 25,5 m² til 35,5 m². Nýtingarhlutfall lóðarinnar Sólvallagötu 23 er 0,43, en verður eftir breytingu 0,52. Er það innan þess bils sem nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða við Sólvallagötu er, en það er frá 0,49 til 0,67. Jafnframt er hæð bílskúrsins og umfang ekki meira en almennt gerist með tilliti til nútíma krafna um lofthæð, einangrun þaks og frágang þess. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að byggðamynstur eða yfirbragð byggðar breytist með fyrirhuguðum bílskúr á lóðinni. Þá eru fordæmi í hverfinu fyrir bílskúrum af svipaðri stærð og hér um ræðir. Samkvæmt framan­greindu voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að grenndarkynna hina umþrættu umsókn.

Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir fyrir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Kom kærandi að athugasemdum og tók skipulags­fulltrúi afstöðu til framkominna athugasemda í samræmi við gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Jafnframt var kæranda send tilkynning um afgreiðslu málsins og leiðbeint um kæruheimild og kærurétt. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því lögum samkvæmt.

Fallist er á að umræddur bílskúr muni hafa nokkur grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda sem er í kjallara nálægt lóðamörkum Ásvallagötu 26 og Sólvallagötu 23 þar sem fyrirhugað er að reisa bílskúrinn. Orsakast það m.a. af hæðarmun milli nefndra lóða, smæð lóða á svæðinu og þéttri byggð. Verður þó að líta til þess að af framangreindum ástæðum mun bílskúrinn hafa óveruleg áhrif á skuggavarp gagnvart fasteign kæranda þar sem hann mun standa norðan við hana. Þá verður nýtingarhlutfall lóðarinnar Sólvallagötu 23, eftir að umræddur bílskúr væri reistur, í lægri mörkum þess sem er á næstu grannlóðum.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kæranda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa staðsteyptan bílskúr á lóðinni nr. 23 við Sólvallagötu.