Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2021 Vogar 1, Skútustaðahreppi

Árið 2021, föstudaginn 12. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 5/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Skútustaðahrepps frá 9. nóvember 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir ferðaþjónustusvæði og frístundabyggð í landi Voga 1, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. janúar 2021, er barst nefndinni 13. s.m., kærir eigandi að Björk, Skútustaðahreppi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Skútustaðahrepps frá 9. nóvember 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir ferðaþjónustusvæði og frístundabyggð í landi Voga 1, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 10. febrúar 2021.

Málsatvik og rök: Nýtt deiliskipulag fyrir ferðaþjónustusvæði og frístundabyggð í landi Voga 1, Skútustaðahreppi var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 9. nóvember 2016 og tók gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 26. janúar 2017.

Kærandi bendir á að ástæða þess að kæra sé ekki fyrr tilkomin sé af þeirri einföldu ástæðu að endanlega útfærsla aðkomuvegarins inn á svæðið hafi verið framkvæmd án vitneskju kæranda. Þó svo að sú vitneskja hafi legið fyrir að deiliskipuleggja hafi átt svæðið þá hafi ekki legið fyrir að nýr vegur kæmi til með að liggja yfir einkalóð og upptaka eigna væri fyrirhuguð í framtíðinni. Sé því farið fram á að kæran verði tekin til umfjöllunar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af hálfu Skútustaðahrepps er bent á að í greinargerð deiliskipulagsins um fyrirhugaðan veg komi fram að lega nýrra slóða sé sýnd í grófum dráttum á skipulagsuppdrætti, endanleg veglína kunni að víkja lítillega frá þeirri legu þar sem tekið verði tillit til aðstæðna og landslags. Í svari við fyrirspurn vegna deiliskipulagsins árið 2017 hafi sveitarfélagið tekið fram að ekki sé hægt að veita framkvæmdaleyfi án samþykkis viðkomandi landeigenda.

Ljóst sé því að engar framkvæmdir muni eiga sér stað á landi í einkaeign án samþykkis landeigenda og engar eignarnámsheimildir í gildandi deiliskipulagi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. janúar 2017. Tók kærufrestur því að líða 27. janúar, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst 13. janúar 2021, eða um fjórum árum eftir að kærufresti lauk. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt fyrirmælum  28. gr. stjórnsýslulaga.

Í ljósi málsástæðna kæranda þykir rétt að taka fram að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignaréttindum nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu skilyrði til þess.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.