Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

128/2020 Þórsstígur

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2020, kæra á afgreiðslu sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. maí 2020 á beiðni um leiðréttingu á deiliskipulagi fyrir frístundahúsasvæði í landi Ásgarðs í Grímsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 4. desember 2020, er barst úrskurðarnefndinni 8. s.m., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæru eiganda lóðarinnar Þórsstígs 3 í landi Ásgarðs í Grímsnes- og Grafningshreppi, dags. í ágúst 2020 og móttekinni af ráðuneytisins hálfu 7. september s.á., vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á kröfu kæranda um leiðréttingu á deiliskipulagi fyrir frístundahúsasvæði í landi Ásgarðs. Gerir kærandi þá kröfu að deiliskipulag umrædds svæðis verði úrskurðað ólögmætt og því verði breytt á þann veg að ágallar þeir er snúi að kæranda verði leiðréttir.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málavextir: Kærandi mun á árinu 2000 ásamt öðrum aðila hafa keypt lóðina Þórsstíg 3 í landi Ásgarðs í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í þinglýstu afsali, dags. 16. apríl 2001, er stærð lóðarinnar tilgreind sem 10.000 m2. Á svæðinu var þá í gildi deiliskipulag frá árinu 1997 fyrir frístundahúsabyggð en í því skipulagi var umrædd lóð tilgreind 8.000 m2 að stærð. Nýtt deiliskipulag fyrir frístundahúsabyggðina tók gildi árið 2005 en afmörkun umræddrar lóðar var ekki í samræmi við afsal vegna hennar. Frá árinu 2012 hefur kærandi ítrekað haft samband við sveitarfélagið til þess að fá deiliskipulagi svæðisins breytt. Með bréfi, dags. 14. apríl 2018, skoraði kærandi á sveitarfélagið að „leiðrétta þessa skipulagsvillu“. Hinn 9. maí 2020 sendi kærandi sveitarstjóra tölvupóst þar sem farið var fram á að „mistökin verði leiðrétt“ ásamt bréfi hans frá 14. apríl 2018 í viðhengi. Á fundi sveitarstjórnar 20. maí 2020 var lagt fram svarbréf lögmanns sveitarfélagsins og það samþykkt samhljóða. Sendi lögmaður sveitarfélagsins svarbréfið til kæranda 22. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í greinargerð deiliskipulags fyrir frístundahúsasvæði í landi Ásgarðs komi fram að í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða lóðir í einkaeigu innan skipulagssvæðisins skuli afla skriflegs samþykkis viðkomandi aðila áður en skipulagið hljóti staðfestingu. Ekki hafi verið haft samband við eigendur lóða Þórsstígs 1, 3 og 5 við gerð skipulagsins og því hafi verið gengið á réttindi þeirra. Skorað sé á sveitarfélagið að leiðrétta  skipulagið að þessu leyti.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að efni kærunnar sé mjög óljóst. Svo virðist sem kærandi sé að kæra bréf lögmanns sveitarfélagsins frá 22. maí 2020 en þar hafi tölvupósti kæranda frá 9. s.m. verið svarað. Í bréfinu hafi eingöngu verið veittar upplýsingar um skipulag svæðisins en í því hafi ekki falist nein kæranleg ákvörðun. Kæranda hafi verið bent sérstaklega á að hann gæti haft samband við sveitarfélagið ef hann óskaði frekari aðstoðar eða upplýsinga en engin frekari erindi hafi borist frá kæranda. Samkvæmt framangreindu hafi engin kæranleg ákvörðun verið tekin, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verði því að vísa kærunni frá nefndinni. Sé því óþarft að fara yfir það að frestir til að leggja fram kæru séu líka löngu liðnir, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í greindu bréfi hafi verið farið yfir deiliskipulag jarðarinnar Ásgarðs. Skipulag svæðisins hafi verið unnið af eiganda jarðarinnar samkvæmt heimild í þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Kæranda hafi verið bent á að sveitarfélagið teldi að seljandi lóðanna bæri sjálfur ábyrgð á því að ekki væri samræmi milli tilgreindrar stærðar í nokkrum afsalsgerningum, þ.m.t. hjá kæranda, og gildandi deiliskipulags. Einnig hafi verið tiltekið að þótt sveitarstjórn hefði samþykkt deiliskipulagstillögu landeigandans á sínum tíma gæti það ekki breytt eignarheimild einstakra lóðareigenda á svæðinu. Úrskurðarnefndin geti ekki tekið ágreining um nefnt ósamræmi til meðferðar. Ágreiningur um eignarréttindi og túlkun samninga heyri ekki undir nefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla, eins og nefndin hafi kveðið á um í fyrri úrskurðum sínum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að skipulagsyfirvöld hafi ekki farið eftir skilmálum gildandi deiliskipulags. Strax og kæranda hafi verið þetta ljóst fyrir um 10 árum hafi hann haft samband við sveitarfélagið og óskað eftir leiðréttingu. Allar beiðnir og ábendingar hafi verið hunsaðar. Sú krafa sé gerð að deiliskipulagið verði dæmt ólöglegt og að eldra skipulag verði áfram í gildi. Til vara sé sú krafa gerð að sveitarfélagið breyti deiliskipulaginu á sinn kostnað þannig að þeir ágallar sem snúi að kæranda verði leiðréttir.

Niðurstaða: Í kærumáli þessu er annars vegar gerð krafa um að deiliskipulag umrædds svæðis verði úrskurðað ólögmætt og hins vegar að því verði breytt á þann veg að ágallar þeir er snúi að kæranda verði leiðréttir.

Deiliskipulag frístundahúsasvæðis í landi Ásgarðs í Grímsnesi var samþykkt í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 6. júlí 2005 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2006. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni með framsendingu frá sveitarstjórnar- og samgöngu­ráðuneytinu, en ráðuneytið móttók kæruna 7. september 2020. Var kærufrestur vegna deiliskipulagsins því löngu liðinn þegar kæran barst. Ber af þeim sökum að vísa þeim hluta kærunnar er lýtur að lögmæti deiliskipulagsins frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar er kveðið á um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá tilkynningu ákvörðunar þegar kæra berst.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings-málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Verður því ekki tekin ákvörðun í máli þessu um tilteknar breytingar á skipulagi umrædds svæðis.

Upphaf máls þessa má rekja til erinda kæranda til sveitarfélagsins um að umrætt deiliskipulag verði leiðrétt. Telja verður að beiðni um leiðréttingu deiliskipulags feli í sér beiðni um breytingu þess enda verður deiliskipulag ekki leiðrétt nema með skipulagsbreytingu. Verður því litið svo á að erindi kæranda frá 14. apríl 2018, sem hann ítrekaði með tölvupósti 9. maí 2020, hafi falið í sér beiðni um breytingu deiliskipulags. Á fundi sveitarstjórnar 20. s.m. var sú beiðni afgreidd með því að samþykkja fyrirliggjandi svarbréf lögmanns sveitarfélagsins, en nefnt svarbréf var síðar sent kæranda 22. s.m. Var kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar því einnig liðinn vegna afgreiðslu á greindu erindi kæranda þegar kæra barst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu 7. september 2020.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­meðferðar. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. sömu laga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Í tilkynningu til kæranda, dags. 22. maí 2020, um afgreiðslu erindis hans var hvorki upplýst um kæruheimild né kærufrest. Verður að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist nefndinni að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, og verður kærumáli þessu því ekki vísað frá á þeim grundvelli.

Í fyrrnefndu svarbréfi lögmanns sveitarfélagsins til kæranda er forsaga skipulags svæðisins rakin og vísað til þess að við gerð nýs deiliskipulags árið 2005 virðist sem þáverandi jarðareigandi hafi ekki unnið með réttar upplýsingar hvað hafi varðað afmörkun seldra lóða miðað við það sem hann hefði áður tilgreint í afsalsgerningum. Kemur þar og fram sú afstaða sveitarstjórnar að jarðareigandi beri sjálfur ábyrgð á því. Loks vísar sveitarstjórnin til þess að um sé að ræða mál sem varði samskipti kæranda og seljandans og að ekki sé á færi sveitarstjórnar að breyta eignarheimild einstaks lóðareiganda á svæðinu.

Sem fyrr greinir verður að túlka erindi kæranda frá 9. maí 2020 sem svo að í því felist beiðni um breytingu deiliskipulags en í deiliskipulagi eru m.a. teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, auk annarra skipulags­forsendna, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var af hálfu sveitarstjórnar ekki tekin afstaða til erindis kæranda um leiðréttingu eða breytingu deiliskipulagsins með form­legum hætti enda hefur af þess hálfu því verið haldið fram fyrir úrskurðarnefndinni að slík ákvörðun liggi ekki fyrir í málinu. Er því ekki fyrir að fara lokaákvörðun í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í ljósi þess að umrætt erindi kæranda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir rétt að vekja athygli á að dragist afgreiðsla sveitarfélagsins á erindi kæranda óhæfilega er slíkur dráttur kæranlegur til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

127/2020 Grýluhraun

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. nóvember 2020 um að synja umsókn um breytingu á deili­skipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5 þá ákvörðun sveitar­stjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. nóvember 2020 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 4. janúar 2021.

Málavextir: Með bréfi, dags. 10. ágúst 2020, til skipulags- og byggingarfulltrúa Uppsveita bs., sem fer með lögbundið hlutverk skipulags- og byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafnings­hrepps, sóttu kærendur um breytingu á deiliskipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5. Í bréfinu kom fram að það væri ósk eigenda lóðanna að lóðinni nr. 3 yrði skipt upp og hvor helmingur fyrir sig sameinaður við lóðir nr. 1 og 5 og fylgdi bréfinu jafnframt tillaga að deiliskipulagsuppdrætti. Á fundi skipulagsnefndar 9. september 2020 mæltist nefndin til þess við sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps að erindinu yrði hafnað á grundvelli skilmála Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 þar sem í skipulaginu væri ekki gert ráð fyrir uppskiptingu lóða innan þegar byggðra sumarhúsasvæða. Taldi nefndin rök kærenda um erfiða legu lóðarinnar nr. 3 til byggingar ekki standast skoðun þar sem kærendur hafi mátt gera sér grein fyrir náttúrulegum aðstæðum á svæðinu við kaup á lóðunum. Sveitarstjórn synjaði erindinu á fundi sínum 16. s.m. með vísan til þess að í skilmálum aðalskipulags væri ekki gert ráð fyrir uppskiptingu lóða.

Með bréfi, dags. 5. október 2020, gerðu kærendur athugasemdir við afgreiðslu málsins og mótmæltu því að fyrirhuguð breyting félli ekki að skilmálum aðalskipulags sveitar­félagsins. Óskuðu þeir eftir því að skipulagsnefndin tæki erindið aftur til umræðu og legði til við sveitarstjórn að samþykkja breytingartillöguna. Skipulagsnefndin tók umsóknina aftur fyrir á fundi sínum 28. s.m. þar sem fyrri bókun nefndarinnar var ítrekuð. Á fundi sveitar­stjórnar 4. nóvember s.á. var umsóknin að sama skapi tekin fyrir að nýju og fyrri bókun um synjun ítrekuð. Jafnframt kom fram í bókun að þótt helsta markmið fyrrnefnds ákvæðis aðalskipulags sé að heimila ekki fjölgun lóða innan þegar skipulagðra frístundasvæða þá eigi ákvæðið sannarlega einnig við vegna sameiningar á lóðum. Slíkt sé fordæmisgefandi gagnvart sambærilegum beiðnum og þurfi því að huga vel að því að slíkar heimildir séu rökstuddar. Séu veittar heimildir fyrir sameiningu lóða óháð rökstuðningi geri það sveitarstjórn erfitt fyrir gagnvart beiðnum þar sem eingöngu sé ætlunin að losna undan sameiginlegum kostnaði innan sumarhúsahverfa eða að auka byggingarheimildir innan lóða með tilliti til nýtingarhlutfalls.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að sveitarstjórn hafi ekki verið stætt á að synja umsókn kærenda með vísan til ákvæða Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli í deiliskipulagi taka ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall o.fl. Þá segi í 1. mgr. 48. gr. sömu laga að sveitarstjórn veiti samþykki fyrir skiptingu á jörðum, löndum eða breytingu landamerkja og lóðamarka. Þannig séu ákvarðanir um lóðir og lóðamörk annað hvort teknar með deiliskipulagsgerð skv. 37. gr. eða með samþykki sveitarstjórnar samkvæmt 48. gr. laganna. Því sé ótækt að ákvörðun um mörk lóða nr. 1, 3 og 5 við Grýluhraun sé tekin á grundvelli stefnu í aðalskipulagi.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga skuli með aðalskipulagi sett fram stefna sveitar­stjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 segi í kafla um stefnumörkun: „Ekki er heimilt til [sic] að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum, sbr. einnig 30. gr. skipulags- og byggingarlaga.“ Núgildandi reglu 48. gr. skipulagslaga hafi áður verið að finna í 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en sú regla feli í sér að sveitarstjórn geti veitt þeim sem þess óski samþykki fyrir skiptingu á lóð eða breytingu á landamerkjum og lóðamörkum. Ekki sé um fastmótaða reglu að ræða heldur ráðist veiting samþykkis sveitarstjórnar skv. 48. gr. af aðstæðum hverju sinni. Með hinni kærðu ákvörðun hafi sveitarstjórn tekið úr sambandi hina óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Sú regla feli það í sér að þegar stjórnvöldum séu veittar matskenndar valdheimildir, t.d. til að taka þá ákvörðun sem eigi best við í hverju einstöku máli, skuli stjórnvaldið ávallt framkvæma einstaklingsbundið mat. Það sé óumdeilt að meginreglan um skyldubundið mat eigi við á sviði skipulags- og byggingarmála. Í stað þess að framkvæma einstaklingsbundið mat, byggt á þeim sjónarmiðum sem kærendur hafi teflt fram, hafi sveitarstjórn einfaldlega vísað til stefnu aðalskipulags og að sú stefna geri ekki ráð fyrir því að heimilt sé að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum. Slík röksemdarfærsla geti ekki staðist þar sem hún feli í sér að enginn geti fengið samþykkta umsókn um skiptingu lóða á grundvelli 48. gr. skipulagslaga, hverjar svo sem ástæður séu, enda sé „ekki gert ráð fyrir því í aðalskipulagi.“

Rökin að baki fyrrnefndri stefnu aðalskipulags, um að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum, sé samkvæmt aðalskipulaginu sjálfu að „hindra uppskipti á lóðum (fjölgun sumarhúsa) í þegar byggðum sumarhúsahverfum.“ Með því sé komið í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra og neikvæð umhverfisáhrif í byggðum hverfum. Að mati kærenda sé nokkuð ljóst að ákvæðið hafi einn tilgang, þ.e. að koma í veg fyrir fjölgun sumarhúsa og þar með þéttingu byggðar með tilheyrandi álagi á innviði og umhverfisraski. Sé enda sérstaklega vikið að því að með „uppskipti á lóðum“ sé átt við fjölgun sumarhúsa. Sú röksemdafærsla sveitarstjórnar að umrætt ákvæði eigi „sannarlega einnig við vegna sameiningar á lóðum“ standist engan veginn. Raunar sé rökstuðningur sveitarstjórnar með þessu orðinn verulega þverstæður. Túlkun hennar breyti ekki augljósum tilgangi stefnunnar, þ.e. að koma í veg fyrir fjölgun sumarhúsa, en umsókn kærenda miði ekki að því að fjölga sumarhúsum. Þvert á móti sé ætlunin að fækka sumarhúsum á lóðunum þremur. Á lóðum nr. 1 og 3 við Grýluhraun sé verulega breytilegt landslag, þ.e. hæðir og lægðir með djúpum gjótum sem liggi í ýmsar áttir. Það svæði sem heppilegast sé til byggingar og valdi minnstu umhverfisraski sé þannig á milli lóða nr. 1 og 3, en þar sé engin byggingarreitur skil­greindur. Sé þannig ætlun kærenda að lóð nr. 1 öðlist hentugri byggingarreit fyrir sumarhús. Þar sem ákvörðun sveitarstjórnar byggist á stefnumarkandi ákvæði aðalskipulags sem eigi ekki við um umsókn kæranda byggi ákvörðunin á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Sveitarstjórn hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að rannsaka ekki hvort umsókn kærenda geti leitt til fjölgunar sumarhúsa, hagsmunaárekstra eða neikvæðra umhverfisáhrifa. Enn fremur sé vikið að því í ákvörðuninni að samþykki sveitar­stjórnar verði fordæmisgefandi „gagnvart sambærilegum beiðnum og þarf því að huga vel að því að slíkar heimildir séu vel rökstuddar.“ Það sé ótækt að sveitarstjórn geti hafnað umsókn með verulega einfaldri tilvísun í stefnumarkandi ákvæði aðalskipulags og tilvísun til þess að önnur niðurstaða þurfi að vera vel rökstudd. Það komi ekki í hlut neins annars heldur en sveitarstjórnar að útbúa þann rökstuðning, enda veiti engin annar heimild á grundvelli 48. gr. skipulagslaga en einmitt sveitarstjórn. Þá sé einnig í ákvörðuninni vísað til þess að samþykki umsóknar kærenda myndi leiða til þess að sveitarstjórn ætti erfitt um vik vegna beiðna sem væru til þess ætlaðar að losna undan sameiginlegum kostnaði eða auka byggingarheimildir. Ekki verði séð hvernig það eigi við um umsókn kærenda. Sveitarfélagið hafi sjálft vísað til þess að það hafi áður samþykkt umsóknir um sameiningu sumarhúsalóða, sbr. málsrök þess í máli nr. 57/2012 hjá úrskurðarnefndinni: „Í gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps sé ákvæði sem kveði á um að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum. Ekki sé tekið sérstaklega á því hvort heimilt sé að sameina sumarhúsa­lóðir, en undanfarin ár hafi verið nokkuð um að óskað hafi verið eftir sameiningu sumarhúsalóða. Í sumum tilvikum hafi það verið heimilað en í öðrum ekki og hafi þær ákvarðanir verið byggðar á mismunandi ástæðum og stundum á niðurstöðu grenndar­kynningar.“ Það liggi því fyrir að sveitarstjórn hafi áður veitt samþykki fyrir sameiningu sumarhúsalóða. Væntanlega hafi það verið byggt á einstaklingsbundnu mati hverju sinni, í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um frávísun málsins. Ákvörðun sveitarstjórnar um að synja umsókn kærenda hafi verið tekin 16. september 2020 en sú ákvörðun hafi ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Beri því að vísa kærunni frá enda sé ekki hægt að búa til nýjan kærufrest eingöngu með því að gera athugasemd við hina kæranlegu ákvörðun svo sem kærendur hafi gert með bréfi sínu frá 5. október 2020. Erindi kærenda hafi verið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 4. nóvember 2020 þar sem vísað hafi verið til fyrri bókunar. Því hafi ekki verið um nýja kæranlega ákvörðun að ræða.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi sveitarstjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 29. gr. og 38. gr. laganna sé kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt því heyri það undir hana að samþykkja aðalskipulag sem og deiliskipulag, sbr. 20. gr., 40. gr., 41. gr. og 42. gr. laganna, og gildi hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 36. gr. og 43. gr. þeirra laga, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 439/2012.

Með gildandi deiliskipulagi svæðisins hafi sveitarfélagið tekið ákvörðun um legu lóða. Ákvörðun um að breyta því skipulagi sé háð samþykki sveitarfélagsins og skuli vera í takt við skilmála Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Umsókn kærenda hafi ekki verið í takt við stefnumörkum aðalskipulags varðandi uppskiptingu lóða, en við upp­skiptingu lóða og samþykki deiliskipulagsbreytinga þurfi sveitarfélagið að gæta að fordæmi og samræmi. Við kaup kærenda á lóðinni hafi þeim mátt vera ljóst hver lóðarskipan væri samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Hagræðing lóðarhafa vegna eignarhalds á lóðum séu ekki rök sem leiði til þess að sveitarstjórn beri skylda til að verða við beiðni um deiliskipulags­breytingu. Yrði orðið við þeirri beiðni myndi skapast fordæmi fyrir viðlíka mál og fyrir­spurnir. Í slíkum tilvikum felist iðulega markmið um að losna undan sameiginlegum kostnaði innan frístundahúsasvæða með sameiningu lóða og/eða markmið um að auka byggingarmagn innan lóða, þar sem almennt nýtingarhlutfall frístundalóða miðist við nýtingarhlutfall 0,03 nema annað hámark sé tiltekið í deiliskipulagi. Sameiningar á lóðum hafi hlotið afgreiðslu innan embættis umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. en þær byggi að öllu jöfnu á því að hið sameinaða svæði sé óbyggilegt með einhverjum hætti og að ekki hafi verið tekið tillit til þess við deiliskipulagsgerð svæðisins. Það eigi ekki við í tilfelli Grýluhrauns 1, 3 og 5.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu kærenda er frávísunarkröfu sveitarfélagsins mót­mælt. Það hafi sjálft upplýst um kæruheimild í bréfi sínu 17. nóvember 2020 vegna ákvörðunar sinnar frá 4. s.m. Af því verði ráðið að sveitarfélagið hafi litið svo á að um nýja stjórnvaldsákvörðun væri að ræða. Kærendur hafi haft réttmætar væntingar til þess að það sem fram kæmi í erindi stjórnvaldsins um kæruheimild væri rétt. Verulega ómálefnalegt sé af hálfu sveitarfélagsins að gefa í skyn að kærendur hafi búið til nýjan kærufrest með því að gera athugasemdir við fyrri ákvörðun. Ákvörðun sveitarfélagsins frá 4. nóvember 2020 hafi falið í sér ákvörðun um rétt eða skyldu kærenda, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sú ákvörðun sé kæranleg, sbr. 1. og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í öllu falli verði að líta svo á að athugasemdir kærenda frá 5. október 2020 hafi falið í sér beiðni um endurupptöku málsins. Jafnvel þó svo fallist verði á að kæran hafi borist að liðnum kærufresti sé vísað til þess að það sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Ítrekað sé að í máli nr. 57/2012 hjá úrskurðarnefndinni hafi komið fram sú afstaða sveitar­félagsins að í sumum tilvikum hafi verið heimilað að skipta upp sumarhúsalóðum. Því sé gerð athugasemd við þá afstöðu sveitarfélagsins að gildandi Aðalskipulag Grímsnes- og Grafnings­hrepps 2008-2020 og deiliskipulag svæðisins sé bindandi í þessu máli. Felist í þessu augljóst brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé því mótmælt að sameining lóða samræmist illa lóðamynstri svæðisins. Fyrir liggi að lóðin Dvergahraun nr. 3, næsta lóð við Grýluhraun nr. 1-5, sé 12.000 m2 að stærð. Verði orðið við beiðni kærenda verði lóðirnar Grýluhraun 1 og 5 alls 12.750 m2 að stærð, eða því sem næst sömu stærðar og lóðin Dvergahraun 3. Því til viðbótar sé bent á að önnur lóð innan sama svæðis sé 12.300 m2 að stærð. Þá sé röksemda­færsla sveitarfélagsin um hugsanlegt fordæmi með öllu ótæk. Fyrir liggi að sveitarstjórn hafi áður veitt sambærilega heimild og því sé þegar til staðar fordæmi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. nóvember 2020 er hin kærða ákvörðun í máli þessu, en í henni fólst að synja umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5. Var ákvörðunin að efni til sú sama og tekin var á fundi sveitarstjórnar 16. september s.á. Í ljósi þess að erindi kæranda frá 5. október s.á. var ekki sett fram sem beiðni um endurupptöku máls, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sveitarstjórn afgreiddi erindið ekki sem beiðni um endurupptöku og þar sem sveitarstjórn upplýsti um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar, verður að líta svo á að um nýja stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga hafi verið að ræða. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni innan kærufrests, eða hinn 2 desember s.á., og verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélaga er í höndum sveitarstjórna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og annast þær og bera ábyrgð á gerð og breytingu deili­skipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 38. gr. og 43. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna er hægt að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt en einstakir aðilar eiga almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Breyting á deiliskipulagi skal vera í samræmi við gildandi aðalskipulag skv. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við meðferð slíkrar umsóknar ber einnig að fylgja mark­­miðum laganna sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið ákvæðisins. Við töku ákvarðana um skipulags­mál verður einnig að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 eru lóðirnar Grýluhraun 1, 3 og 5 á svæði frístundabyggðar. Í kafla aðalskipulags um stefnumörkun svæða frístundabyggðar segir m.a. að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsalóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum. Í undirkafla um umhverfisáhrif frístundabyggðar segir að sett sé „nýtt ákvæði sem miðar að því að hindra uppskipti á lóðum (fjölgun sumarhúsa) í þegar byggðum sumarhúsahverfum.“ Þá segir að með því sé komið í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra og neikvæð umhverfisáhrif í byggðum hverfum.

Hin kærða ákvörðun var rökstudd m.a. með vísan til þess að í gildandi aðalskipulagi væri ekki gert ráð fyrir uppskiptingu lóða innan þegar byggðra sumarhúsasvæða. Verður að túlka þá stefnu gildandi aðalskipulags með hliðsjón af markmiði þess. Í aðalskipulaginu kemur skýrt fram að markmið nefndrar stefnu er að koma í veg fyrir fjölgun sumarhúsa og að með því sé verið að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra og neikvæð umhverfisáhrif. Ljóst er að umsókn kærenda fól ekki í sér fjölgun sumarhúsa heldur fækkun lóða úr þremur í tvær. Þá liggur ekki fyrir að umsóknin hafi falið í sér hugsanlega hagsmunaárekstra eða neikvæð umhverfisáhrif.

Umdeild ákvörðun sveitarstjórnar var jafnframt studd þeim rökum að með því að fallast á umsókn kærenda væri það fordæmisgefandi gagnvart sambærilegum beiðnum og þyrfi því að huga vel að því að slíkar heimildir væru rökstuddar. Einnig var bent á að væru veittar heimildir fyrir sameiningum lóða óháð rökstuðningi gerði það sveitarstjórn erfitt fyrir gagnvart beiðnum sem eingöngu væri ætlað að losna undan sameiginlegum kostnaði innan sumarhúsahverfa eða til að auka byggingarheimildir innan lóða byggðu þær á nýtingarhlutfalli. Af rökstuðningnum að dæma verður ráðið að sveitarfélagið telji umsókn kærenda, og mögulegt fordæmisgildi með samþykki hennar, hafi að meginstefnu til snúist um að losna undan sameiginlegum kostnaði innan sumarhúsahverfa eða auka byggingarheimildir innan lóðanna. Hins vegar verður ráðið af upphaflegu erindi kærenda að ástæða umsóknar þeirra hafi fyrst og fremst snúið að því að nýta heppilegt byggingarsvæði á milli lóða nr. 1 og 3 og að það hefði í för með sér minna umhverfisrask. Yrði fallist á umsókn kærenda er því vandséð hvernig það væri fordæmis­gefandi fyrir beiðnir sem lytu einvörðungu að því að losna undan sameiginlegum kostnaði eða auka byggingarheimildir lóða. Þá er hvorki að sjá í hinni kærðu ákvörðun né ákvörðun sveitarstjórnar sama efnis frá 16. september 2020 að tekin hafi verið afstaða til fyrrgreindrar meginástæðu kærenda fyrir umsókn þeirra.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo  áfátt að fallast verður á kröfu kærenda um ógildingu hennar. Er enda ekki hægt að útiloka að efnisleg niðurstaða sveitarstjórnar hefði orðið önnur ef lagt hefði verið tilhlýðilegt mat á  umsókn kærenda og ástæður hennar, þ.m.t. hvort þeir sæktust eftir frekari heimildum til uppbyggingar eða hvort annað réði þar för, en rökstuðningur sveitarstjórnar bendir til þess að sú rannsókn hafi ekki farið fram.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. nóvember 2020 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Farborga í landi Miðengis vegna lóðanna Grýluhrauns 1, 3 og 5.

116/2020 Arnarlax

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 25. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2020, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðslu-aukningar á laxi í sjókvíum í Arnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnarlax ehf. vanrækslu Skipulagsstofnunar á því að afgreiða frummatsskýrslu, eða eftir atvikum að afgreiða matsáætlun um mat á umhverfisáhrifum, vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar á laxi um 4.500 tonn í núverandi sjókvíum kæranda í Arnarfirði. Er þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir Skipulagsstofnun að afgreiða án frekari tafa frummatsskýrslu, eða eftir atvikum tillögu að matsáætlun.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 18. desember 2020.

Málavextir: Kærandi leggur stund á sjókvíaeldi og fékk á árinu 2016 rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði fyrir að hámarki 10.000 tonna lífmassa. Í desember 2017 mun kærandi hafa tilkynnt Skipulagsstofnun áform um að auka framleiðsluna um 4.500 tonn samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 1.11 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Ákvörðun Skipulagstofnunar um að fyrirhuguð framleiðsluaukning gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 5. júlí 2018. Hinn 22. maí 2019 sendi kærandi Matvælastofnun umsókn um breytingu á núgildandi rekstrarleyfi vegna fyrrnefndra áforma.

Tillaga kæranda að matsáætlun barst Skipulagsstofnun í tölvupósti 19. júní 2019 og í póstinum kom fram að drög að tillögu að matsáætlun hefðu verið kynnt frá 30. maí til 15. júní s.á., í samræmi við reglugerð nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Með tölvupósti til Skipulagsstofnunar 5. júlí s.á. lagði kærandi áherslu á að stofnunin virti frest skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 til að taka ákvörðun um matsáætlun og að ákvörðunin lægi fyrir eigi síðar 17. s.m. Einnig var farið fram á að kallað yrði tafarlaust eftir lögbundnum umsögnum hefðu þær ekki borist stofnuninni. Mun Skipulagsstofnun hafa móttekið umræddan tölvupóst, en ekki svarað honum að öðru leyti á þessu stigi. Frummatsskýrsla kæranda vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar var send Skipulagsstofnun 18. júlí 2019.

Hinn 19. júlí 2019 tóku gildi lög nr. 101/2019 um breytingu á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Meðal breytinganna var að Hafrannsóknastofnun myndi ákveða skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði, sem auglýst yrðu opinberlega og úthlutað af ráðherra, sbr. nú 4. gr. a í lögum nr. 71/2008. Í bráðabirgðaákvæðum liða a-c í 24. gr. laga nr. 101/2019 var að finna ákvæði um lagaskil og kom fram í b-lið ákvæðisins að um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem metin hefðu verið til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum væri lokið fyrir gildistöku ákvæðisins eða frummatsskýrslu hefði verið skilað fyrir gildistöku ákvæðisins til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, færi eftir eldri ákvæðum laganna.

Hinn 24. september 2019 sendi Skipulagsstofnun kæranda og fleiri rekstraraðilum í sjávarútvegi umburðarbréf er laut að breytingum á lagaumgjörð fiskeldis og áhrifa þeirra á málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í bréfinu kom fram að með lögum nr. 101/2019 hefði verið bætt við nýrri grein við lög nr. 71/2008, 4. gr. a, en samkvæmt henni myndi Hafrannsóknastofnun ákveða skiptingu fjarða og hafsvæða í eldissvæði sem ráðherra myndi síðan úthluta. Að lokinni úthlutun eldissvæða fæli næsta skref í sér umsókn um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og upphaf umsóknarferlis. Með umsókn skyldi fylgja afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd væri ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar samkvæmt lögum þess efnis.

Um ný erindi framkvæmdaraðila var vísað til þess að honum bæri samkvæmt lögum nr. 106/2000 að veita í framlögðum gögnum til Skipulagsstofnunar upplýsingar um staðsetningu framkvæmdar og framkvæmdasvæði, enda væri það forsenda þess að leggja mat á hvort tilkynningarskyld framkvæmd þyrfti að undirgangast umhverfismat eða hvaða umhverfisáhrif matsskyld framkvæmd væri líkleg til að hafa. Þessar grundvallarupplýsingar um framkvæmdasvæði, þ.e. upplýsingar um hvaða aðili fengi úthlutað eldissvæðum eftir auglýsingu ráðherra kæmu ekki til með að liggja fyrir, fyrr en skipting Hafrannsóknastofnunar á fjörðum/hafsvæðum í eldissvæði lægi fyrir og ráðherra hefði úthlutað þeim. Kæmi fram í almennum athugasemdum við frumvarp það sem orðið hefði að lögum nr. 101/2019 að nýtt kerfi gerði ráð fyrir að búið yrði að áætla staðsetningu hvers eldissvæðis þegar úthlutun færi fram og leyfishafi gerði tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og sækti í framhaldi um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Af framangreindu leiddi að Skipulagsstofnun teldi ekki forsendur til að hefja málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum vegna sjókvíaeldis fyrr en úthlutun eldissvæða hefði farið fram og myndi því ekki taka slík erindi til málsmeðferðar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum fyrr en skipting Hafrannsóknastofnunar í eldissvæði og ákvörðun ráðherra um úthlutun svæðanna lægi fyrir.

Um málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum sem hefði hafist fyrir gildistöku laga nr. 101/2019 var skírskotað til bráðabirgðaákvæðis b-liðar 24. gr. laga nr. 101/2019 þar sem segði „Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lokið fyrir gildistöku þessa ákvæðis eða frummatsskýrslu hefur verið skilað fyrir gildistöku þessa ákvæðis til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, fer eftir eldri ákvæðum laganna.“ Jafnframt var vísað til nefndarálits meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis þar sem finna mætti umfjöllun um umsóknir sem bærust eftir gildistöku laganna vegna hafsvæða sem metin hefðu verið til burðarþols og framangreind skilyrði varðandi málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum hefðu ekki verið uppfyllt.

Þá sagði eftirfarandi í bréfi Skipulagsstofnunar: „Með hliðsjón af framangreindu ákvæði og tilvitnuðum orðum í nefndaráliti atvinnuveganefndar er ljóst að hafi framkvæmdaraðili ekki skilað frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar fyrir umrætt tímamark, fer um úthlutun eldissvæða samkvæmt 4. gr. a í lögum um fiskeldi.“ Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að m.a. af þessu leiddi að ekki væri „að mati Skipulagsstofnunar, grundvöllur til að halda áfram með málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum sem hófst fyrir gildistöku laga nr. 101/2019, hafi frummatsskýrslu ekki verið skilað fyrir gildistöku laga nr. 101/2019. Þetta hefur þau áhrif að mál þar sem málsmeðferð samkvæmt 6. eða 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er ekki lokið munu ekki sæta frekari meðferð af hálfu Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000 og reglugerð nr. 660/2015. Sama gildir um mál þar sem matsáætlun liggur fyrir en frummatsskýrslu var ekki skilað fyrir gildistöku laga nr. 101/2019.“

Með tölvupósti kæranda til Skipulagsstofnunar 21. nóvember 2019 var vísað til frummats-skýrslu vegna stækkunar eldis í Arnarfirði og óskað upplýsinga um hvenær niðurstaða stofnunarinnar þar um lægi fyrir. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dagsettu sama dag, var áréttað það sem fram kom í fyrrgreindu bréfi stofnunarinnar, dags. 24. september s.á. Kom lögmaður kæranda að athugasemdum við málsmeðferð Skipulagsstofnunar með bréfi, dags. 21. september 2020. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort tekin hefði verið endanleg afstaða til erindis kæranda og þess krafist að stofnunin héldi áfram málsmeðferð vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar í Arnarfirði. Skipulagsstofnun svaraði bréfi kæranda með bréfi, dags. 12. október s.á. Var í því m.a. tekið fram að ekki hefði verið tekin ákvörðun um tillögu kæranda og þar af leiðandi lægi ekki fyrir matsáætlun í skilningi laga nr. 106/2000. Af þeim sökum væru ekki forsendur til að taka frummatsskýrslu kæranda til meðferðar á grundvelli 10. gr. laga nr. 106/2000. Ekki hefði verið raunhæft að taka ákvörðun um tillögu að matsáætlun innan tilgreinds frests vegna starfsálags og sumarleyfa. Jafnframt skírskotaði Skipulagsstofnun til fyrrnefnds bréfs hennar, dags. 24. september 2019, og taldi að kæranda hefði mátt vera ljós afstaða stofnunarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að endanleg matsáætlun hans hafi ekki sætt athugasemdum af hálfu Skipulagsstofnunar innan lögboðins fjögurra vikna frests skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Telji Skipulagsstofnun ekki forsendur til að halda matsferli áfram skuli stofnunin taka ákvörðun um að hafna matsáætlun. Slík ákvörðun sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Jafnframt hefði Skipulagsstofnun borið að fylgja ákvæði 1. mgr. 10. gr. sömu laga og hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar hefði stofnunin talið að skýrslan uppfyllti ekki það skilyrði að málsmeðferð skv. 8. gr. laganna væri lokið áður en skýrslan væri unnin. Slík höfnun sé einnig kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 2. mgr. 14. gr. laganna. Með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé því hægt að kæra vanrækslu Skipulagsstofnunar á því að taka ákvörðun skv. 1. mgr. 10. laga nr. 106/2000.

Málsmeðferð fyrir Skipulagsstofnun hafi aðeins getað lokið með því að stofnunin hafnaði tillögu að matsáætlun eða frummatsskýrslu, en ekki með því að hún vanrækti þær skyldur sem á henni hvíldu samkvæmt lögum nr. 106/2000. Það sé ekki hlutverk Skipulagsstofnunar að stýra því hvernig leyst sé úr umsóknum sem snúi að fiskeldi með því að beita athafnaleysi eða með því að tefja eða sinna ekki framgangi einstakra áætlana um mat á umhverfisáhrifum. Það sé hlutverk Matvælastofnunar að leysa úr umsókn kæranda um breytingu á rekstrarleyfi, þ.m.t. hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að stofnunin geti fallist á slíka beiðni. Fari Matvælastofnun með eftirlit með stjórnsýslu og framkvæmd laga nr. 71/2008, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna.

Fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð framleiðsluaukning sé háð mati á umhverfisáhrifum. Beri kæranda sem framkvæmdaraðila ávallt að láta það mat fara fram óháð því hvort um umsókn hans fari samkvæmt lögum um fiskeldi eins og þau hafi verið þegar kærandi lagði hana fram eða að teknu tilliti til síðari breytinga. Bíði umsókn hans hjá Matvælastofnun eftir því að kærandi leggi fram það mat.

Í b-lið 24. gr. laga nr. 101/2019 sé ekki kveðið á um að umsóknir eða mat á umhverfisáhrifum vegna tiltekinna umsókna falli niður, aðeins sé kveðið á um lagaskil hvað varði skilyrði fyrir því að umsókn fáist samþykkt. Að auki falli umsókn kæranda ekki undir nýja heimild til útboðs í lögum um fiskeldi og því eigi tilvitnað ákvæði ekki við um umsókn hans. Ekki hafi verið sett sérstakt lagaskilaákvæði vegna umsókna um breytingu á rekstrarleyfi við setningu laga nr. 101/2019 og því eigi almennar reglur um lagaskil við um umsókn hans. Hinn 5. nóvember 2020 hafi verið lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um fiskeldi (vannýttur lífmassi í fiskeldi). Í því sé gert ráð fyrir að við hið nýja ákvæði um uppboðsheimild ráðherra á nýjum eldissvæðum í 4. gr. a bætist við tvær nýjar málsgreinar, þar sem ráðherra sé veitt heimild til að bjóða út lífmassa sem ekki sé búið að ráðstafa samkvæmt útgefnum rekstrarleyfum í fjörðum og á hafsvæðum sem skipt hafi verið í eldissvæði. Hér sé um að ræða aðstæður eins og séu í Arnarfirði. Taki drög að frumvarpi um breytingar á ákvæði 4. gr. a af öll tvímæli um að ósk um breytingu á hámarkslífmassa í rekstrarleyfi, til að fullnýta burðarþol eldissvæðis, falli ekki undir útboðsreglu 4. gr. a, heldur sé slík ósk umsókn um breytingu á rekstrarleyfi í skilningi laga um fiskeldi.

Það sé ekki hlutverk Skipulagsstofnunar að kveða upp úr eða gefa út leiðbeiningar um það hvernig túlka beri ákvæði laga nr. 101/2019 um lagaskil eða gerast dómari yfir umsækjendum m.t.t. lagaskila skv. b-lið 24. gr. í lögunum. Lagaskilin varði hvorki lög um mat á umhverfisáhrifum né breyti eða raski meðferð við mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun geti ekki haft af framkvæmdaraðila réttinn til að láta reyna á réttmæti ákvörðunar stofnunarinnar með því að hætta að sinna máli og hafna því að taka ákvörðun. Með því misnoti stofnunin aðstöðu sína.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á ekki hafi verið tekin ákvörðun um að fallast á tillögu kæranda að matsáætlun og þar af leiðandi liggi ekki fyrir matsáætlun í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Af þeim sökum séu ekki forsendur til að taka frummatsskýrslu til meðferðar á grundvelli 10. gr. sömu laga. Auk þess sé 1. mgr. 10. gr. samkvæmt orðanna hljóðan bundin við það að stofnunin geti hafnað frummatsskýrslu þegar hún sé hvorki í samræmi við matsáætlun né uppfylli þær kröfur sem gerðar séu í 9. gr. laganna. Skipulagsstofnun sé ekki skylt að hafna frummatsskýrslu þegar umrædd skilyrði séu ekki uppfyllt heldur sé henni aðeins heimilt að gera það. Með framangreint í huga geti kærandi ekki byggt á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæruheimild vegna meintrar vanrækslu stofnunarinnar á að afgreiða frummatsskýrsluna.

Vikið hafi verið að efni dreifibréfs Skipulagsstofnunar, dags. 24. september 2019, í tölvupósti starfmanns stofnunarinnar til starfsmanns kæranda 21. nóvember s.á. Það kunni að vera rétt að Skipulagsstofnun hefði mátt senda sérstakt bréf til kæranda varðandi áform hans í Arnarfirði þess efnis að stofnunin hafnaði því að taka tillögu að matsáætlun til frekari meðferðar með þeim rökum sem fram kæmu í dreifibréfinu. Það breyti því ekki að efnisleg afstaða stofnunarinnar sé sú sama, hvort sem um dreifibréf eða sérstakt bréf hafi verið að ræða.

Kæranda hafi mátt vera fyllilega ljóst hver afstaða Skipulagsstofnunar væri. Efni bréfsins hafi bæði verið ákveðið og skýrt þannig að kærandi hafi getið skilið innihald þess og metið réttarstöðu sína. Hafi því verið gætt að hinni óskráðu grundvallarreglu í stjórnsýslurétti að ákvarðanir verði efnislega að vera bæði ákveðnar og skýrar. Ekki hafi borið að leita eftir sjónarmiðum kæranda áður en dreifibréfið hafi verið gefið út. Efni bréfsins feli í sér lagatúlkun sem varði samspil laga nr. 106/2000 og laga nr. 101/2019 og í því sé að finna fullnægjandi rökstuðning. Tilvísun kæranda til laga nr. 106/2000 varðandi skyldu til rökstuðnings eigi ekki við um útgáfu dreifibréfsins, enda hafi með bréfinu ekki verið teknar ákvarðanir eða gefið út álit sem falli undir þau ákvæði sem kærandi tilgreini. Þá hafi með bréfinu ekki verið tekin kæranleg ákvörðun, enda ekki fyrir hendi sérstök kæruheimild í lögum.

Í kæru sé vikið að frumvarpi um breytingu á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi (vannýttur lífmassi). Ekki verði séð hvernig framangreind drög að frumvarpi geti leitt til þess að sú lagatúlkun sem birtist í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 24. september 2019, sé röng. Beri drögin ekki með sér að það sé markmið frumvarpsins að bregðast við umræddri lagatúlkun Skipulagsstofnunar. Rök kæranda séu ekki haldbær, enda verði ekki annað séð en að verið sé að draga of víðtæka ályktun af áhrifum frumvarpsdraganna. Í bréfi Skipulagsstofnunar sé ekki aðeins tekið mið af því nýja fyrirkomulagi að eldissvæðum sé úthlutað heldur einnig að skipting Hafrannsóknastofnunar á fjörðum/hafsvæðum í eldissvæði hafi farið fram.

Ákvæði b-liðar 24. gr. breytingalaga nr. 101/2019 sé skýrt. Samkvæmt orðanna hljóðan sé í ákvæðinu gerð sú krafa að frummatsskýrslu hafi verið skilað fyrir gildistöku ákvæðisins. Í greinargerð með frumvarpi um breytingu á lögum nr. 71/2008 (vannýttur lífmassi í fiskeldi), komi fram að í áðurnefndu bráðabirgðaákvæði hafi verið mælt fyrir um að einungis umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum með metið burðarþol, sem væru komnar það langt í ferli leyfisveitingar að framkvæmt hefði verið mat á umhverfisáhrifum eða frummatsskýrslu verið skilað, myndu halda gildi sínu og það hafi m.a. leitt til þess að umsóknir um breytingar á rekstrarleyfum til aukningar á heimilum lífmassa féllu niður. Jafnframt segi, með vísan til 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi, að engar nýjar umsóknir um breytingar á rekstrarleyfi eða útgáfu nýs rekstrarleyfis, vegna vannýtts lífmassa samkvæmt burðarþoli fjarðar, geti fengið afgreiðslu á grundvelli núgildandi laga.

Með tölvupósti Skipulagsstofnunar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 19. júlí 2019 hafi skilningur stofnunarinnar á áðurnefndum lagaskilum verið borinn undir ráðuneytið. Meðal annars sá skilningur að ekki væri tilefni til eða jafnvel unnt að halda áfram með málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum sem hafin hefði verið fyrir gildistöku laganna vegna mála sem vörðuðu eldi í sjó (ný svæði og/eða framleiðslumagn) og sem hefðu ekki náð frummatsskýrslustiginu við lagaskil. Ekki hafi verið gerð athugasemd við skilning Skipulagsstofnunar og nálgun hennar hafi verið talin skynsamleg, en tekið hafi verið fram að þekking ráðuneytisins á þeim lögum sem Skipulagsstofnun starfaði eftir væri takmörkuð.

Breytingar á lagaumgjörð fiskeldis með lögum nr. 101/2019 tengist og hafi snertiflöt við meðferð mála á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum. Gefi orðalag ákvæðis II til bráðabirgða við fiskeldislögin, sbr. 24. gr. laga nr. 101/2019, það til kynna með skýrum hætti. Í kafla 6.1.4 í almennum athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að lögum nr. 101/2019 komi fram að nýtt kerfi geri ráð fyrir að búið verði að áætla staðsetningu hvers eldissvæðis þegar úthlutun fari fram og að leyfishafi „geri tillögu að matsáætlun“ til Skipulagsstofnunar og sæki í framhaldinu um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar.

Með vísan til greinargerðar með frumvarpi um breytingu á lögum um fiskeldi (vannýttur lífmassi í fiskeldi) sé Matvælastofnun ekki heimilt að veita umrætt leyfi á grundvelli núgildandi laga og reglugerðar um fiskeldi. Verði áformuð breyting á lögum um fiskeldi að veruleika verði mögulegt að auka eldismagn á núverandi eldissvæðum að undangenginni úthlutun. Ekki sé hins vegar ljóst hvenær komi til úthlutunar eða hvaða fyrirtæki muni hljóta þá úthlutun. Undirbúningur að afmörkun eldissvæða vegna fiskeldis í Arnarfirði sé hafin.

Við breytingar á lögum nr. 101/2019 hafi þegar útgefin rekstrarleyfi verið látin standa óröskuð. Í því skyni að skapa skýr skil á milli þessa fyrirkomulags og hins eldra hafi verið mælt fyrir um að umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum, sem ekki væri búið að meta til burðarþols fyrir gildistöku laganna sumarið 2019, myndu falla niður. Þá hafi verið mælt fyrir um að umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum með burðarþol, sem hefðu verið komnar það langt að framkvæmt hafi verið mat á umhverfisáhrifum eða frummatsskýrslu hafi verið skilað, myndu halda gildi sínu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að Skipulagsstofnun hafi ekki hrakið sjónarmið hans. Beri tölvupóstur til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 19. júlí 2019 með sér að sjónarmið Skipulagsstofnunar snúi aðeins að réttarstöðu þeirra sem hafi verið með umsóknir um ný eldissvæði. Hafi stofnunin strax í upphafi gert þau mistök að gera ekki greinarmun á umsóknum um ný eldissvæði og umsóknum um breytingu á gildandi rekstrarleyfi fyrir eldissvæði sem þegar væru í rekstri. Virðist stofnunin misskilja svar ráðuneytisins, en ráðuneytið vari stofnunina við að fara þá leið sem hún ráðgeri, nema fyrir því sé heimild í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Vísi ráðuneytið réttilega til þess að stofnunin geti ekki breytt málsmeðferð eða fellt niður mál hjá stofnuninni nema fyrir því sé stoð í lögum.

Óumdeilt sé að breytingar á lögum um fiskeldi sem gerðar hafi verið með lögum nr. 101/2019 hafi ekki falið í sér nýjar reglur um málsmeðferð fyrir umsóknir um auknar framleiðsluheimildir á eldissvæðum sem þegar væru í rekstri og hafi enginn vafi getað leikið á því eftir að fram hafi komið frumvarp til breytinga á lögum um fiskeldi í nóvember 2020. Verði frumvarpið samþykkt muni meðferð á beiðnum um breytingar á rekstrarleyfi núverandi eldissvæða breytast. Muni framkomin frumvarpsdrög engin áhrif hafa á umsókn kæranda máls þessa og hvíli eftir sem áður á framkvæmdaraðila skylda til að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Kærandi hafi því hagsmuni og rétt til að ljúka umræddu mati án tillits til þess hvaða reglur verði taldar gilda um málsmeðferð fyrir útgáfu á auknum heimildum.

Í umsögn Skipulagsstofnunar sé því ekki haldið fram eða færð fyrir því rök að sú ákvörðun að hætta að sinna máli kæranda byggi á heimild í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þess í stað séu færð fram sjónarmið sem ættu ekki að hafa áhrif á framgang máls kæranda og séu ekki lögmæt þegar komi að afgreiðslu stjórnsýslumáls eða meðferð stjórnsýsluvalds. Það sé ámælisvert að stofnunin hafi ætlað sér að hætta að sinna máli kæranda án þess að taka um það stjórnvaldsákvörðun sem væri kæranleg. Með slíkum málalokum væru tekin af kæranda þau grundvallarréttindi sem honum eigi að vera tryggð í stjórnsýslulögum sem felist í því að fá ákvörðun stofnunarinnar endurskoðaða fyrir úrskurðarnefnd og eftir atvikum dómstólum.

Niðurstaða: Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er hins vegar unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Lýtur kæra í máli þessu að drætti á afgreiðslu Skipulagsstofnunar á frummatsskýrslu kæranda vegna framleiðsluaukningar á laxi í sjókvíum í Arnarfirði eða eftir atvikum á matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum vegna greindra áforma. Óumdeilt er að stofnuninni barst tillaga kæranda að matsáætlun 19. júní 2019 og frummatsskýrsla 18. júlí s.á. Þrátt fyrir þau málsrök stofnunarinnar að efni umburðarbréfs hennar, dags. 24. september 2019, sem varðaði lagatúlkun, hafi verið svo ákveðið og skýrt að kærandi hafi getað skilið innihald þess og metið réttarstöðu sína tekur stofnunin fram að með því bréfi hafi ekki verið tekin kæranleg ákvörðun. Var kæranda því rétt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu frummatsskýrslu og matsáætlunar hans, sem með hliðsjón af framangreindu verður enn að telja óafgreiddar hjá stofnuninni. Hefur hann enda sem framkvæmdaraðili kæruheimild skv. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni og vegna ákvörðunnar stofnunarinnar um að frummatsskýrsla uppfylli ekki lögbundnar kröfur eða sé ekki í samræmi við matsáætlun.

Um málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda er fjallað í IV. kafla laga nr. 106/2000. Samkvæmt þágildandi 8. gr. laganna, sem var í gildi þegar kærandi skilaði inn tillögu að matsáætlun, bar Skipulagsstofnun að taka ákvörðun um tillögu að matsáætlun innan fjögurra vikna frá því að tillagan barst, að fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila. Gat Skipulagsstofnun fallist á tillöguna með eða án athugasemda en féllist hún ekki á tillöguna skyldi stofnunin rökstyðja ákvörðun sína, gera grein fyrir því sem hún teldi ábótavant og leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu tillögu að matsáætlun. Að lokinni málsmeðferð skv. 8. gr. skyldi framkvæmdaraðili samkvæmt þágildandi 9. gr. sömu laga vinna frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar og skyldi gerð og efni hennar vera í samræmi við matsáætlun. Skipulagsstofnun skyldi innan tveggja vikna frá því að hún tók á móti skýrslunni meta skv. 10. gr. sömu laga hvort hún uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru í 9. gr. og væri í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. laganna. Væri Skipulagsstofnun heimilt að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar í þeim tilvikum þegar hún uppfyllti ekki framangreind skilyrði og skyldi þá leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu skýrslunnar.

Í máli þessu hefur Skipulagsstofnun hvorki synjað né fallist á tillögu kæranda um matsáætlun með eða án athugasemda. Hefur stofnunin ekki heldur hafnað því að taka frummatsskýrslu hans til meðferðar þar sem hún uppfylli ekki lagaskilyrði. Þess í stað kaus stofnunin að upplýsa m.a. kæranda með umburðarbréfi, dags. 24. september 2019, um að mál þar sem málsmeðferð samkvæmt 6. eða 8. gr. laga nr. 106/2000 væri ekki lokið myndu með vísan til b-liðar 24. gr. laga nr. 101/2019 ekki sæta frekari meðferð af hálfu Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Hefur stofnunin tekið fram í bréfi til kæranda sem hún vísar til í athugasemdum sínum til úrskurðarnefndarinnar að þar hafi ekki verið um kæranlega ákvörðun að ræða. Er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að stofnunin hyggist ekki afgreiða matsáætlun og frummatsskýrslu kæranda. Greinir aðila máls á um lögmæti framangreindrar afstöðu Skipulagsstofnunar og réttaráhrif hennar.

Lög nr. 71/2008 um fiskeldi, með síðari breytingum, mæla fyrir um þá lagaumgjörð sem gildir um fiskeldi á Íslandi, svo sem um stjórnsýslu þeirra mála og rekstrarleyfi. Líkt og greinir í málavaxtalýsingu voru samþykkt á Alþingi lög nr. 101/2019 um breytingu á lögum nr. 71/2008 og tóku þau gildi 19. júlí s.á. Tilvitnað ákvæði b-liðar 24. gr. laga nr. 101/2019, sem nú er ákvæði til bráðabirgða II. í lögum nr. 71/2008, mælir fyrir um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum. Um móttöku og afgreiðslu umsókna er fjallað í 4. gr. b og er þar fjallað um hlutverk Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar, en fyrrnefnda stofnunin hefur jafnframt með höndum framkvæmd stjórnsýslu laganna og eftirlit með því að ákvæðum þeirra sé framfylgt, sbr. 1. mgr. 4. gr. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar 4. gr. b afhendir umsækjandi Matvælastofnun umsóknir um leyfi þegar fyrir liggur ákvörðun, t.d. Skipulagsstofnunar, um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit sömu stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Lög nr. 71/2008 fjalla þannig ekki um málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum heldur er um það fjallað í lögum nr. 106/2000, en á grundvelli þeirra laga, sbr. 1. mgr. 4. gr. þeirra, er Skipulagsstofnun ráðherra til ráðgjafar um eftirlit með framkvæmd laganna, veitir leiðbeiningar samkvæmt þeim, tekur ákvarðanir um matsskyldu, gefur álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir og tekur aðrar þær ákvarðanir sem tíundaðar eru í lögunum.

Lögmætisreglan er undirstaða opinberrar stjórnsýslu og felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og megi ekki fara gegn þeim. Þótt ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þurfi að liggja fyrir áður en sótt er um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar hefur Skipulagsstofnun ekki verið falið sérstakt hlutverk skv. lögum nr. 71/2008, hvorki um meðferð og afgreiðslu umsókna né annað. Verður ekki séð að ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 71/2008, sbr. b-lið 24. gr. laga nr. 101/2019, hafi neina þýðingu hvað þetta varðar, enda tekur ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan til meðferðar og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi, en breytir í engu hlutverki Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000. Það hlutverk felst m.a. í því, svo sem áður segir, að synja eða fallast á matsáætlun með eða án athugasemda, sbr. 8. gr. laganna, eða hafna því að taka frummatsskýrslu til meðferðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra. Var þannig ekki heimild fyrir Skipulagsstofnun að lögum til að afgreiða mál með þeim hætti að þau myndi ekki sæta frekari meðferð af hálfu stofnunarinnar og verður ekki annað séð en að með umburðarbréfi sínu og lagatúlkun hafi stofnunin farið út fyrir valdmörk sín. Átti sú afgreiðsla sér enga stoð í lögum nr. 106/2000 og er aðfinnsluverð.

Þá var haldlaus í þessu tilliti tilvísun Skipulagsstofnunar í umburðarbréfi til þess að upplýsingar framkvæmdaraðila um staðsetningu væru forsenda þess að málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 færi fram og að grundvallarupplýsingar um framkvæmdarsvæði, þ.e. hvaða aðili fengið úthlutað eldissvæðum, kæmu ekki til með að liggja fyrir fyrr en skipting í eldissvæði lægi fyrir og þeim hefði verið úthlutað. Ein frumforsenda þess að tilgangi mats á umhverfisáhrifum verði náð er að valkostir séu kannaðir og bornir saman, þ.m.t. mismunandi staðarvalkostir. Þar með er ekki sagt að framkvæmdaraðili hafi forræði yfir öllum þeim staðsetningum enda er markmið mats á umhverfisáhrifum að meta og bera saman umhverfisáhrif, en ekki að kanna hvort framkvæmdaraðila sé raunverulega mögulegt að hefja framkvæmdir á þeim stað sem hann hefur miðað við í matsáætlun og mat lýtur að. Er og ekki loku fyrir það skotið að hann muni síðar geta öðlast rétt til framkvæmda á þeim stað, t.a.m. vegna samninga eða eignarnáms eins og algengt er þegar um vegagerð er að ræða. Hafi framkvæmdaraðili ekki slíkan rétt þegar að framkvæmdum kemur er það hlutverk leyfisveitanda, hér Matvælastofnunar, en ekki Skipulagsstofnunar, að meta hvort honum verði synjað um leyfi af þeim sökum.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Fyrir liggur sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framleiðsluaukning í sjókvíum kæranda í Arnarfirði sé háð mati á umhverfisáhrifum og skilaði framkvæmdaraðili stofnuninni tillögu að matsáætlun 19. júní 2019 og frummatsskýrslu 18. júlí s.á. Bera gögn málsins það með sér að þegar hinn 5. júlí s.á hafi legið fyrir að Skipulagsstofnun myndi ekki ljúka afgreiðslu erindanna innan tilskilins tímafrests, svo sem kærandi mun hafa verið upplýstur um í símtali við starfsmann stofnunarinnar þann dag. Liggur og fyrir að Skipulagsstofnun hyggst ekki afgreiða áðurgreind erindi. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu erinda kæranda, þær tafir eigi sér ekki lagastoð og séu því ekki afsakanlegar. Verður því lagt fyrir Skipulagsstofnun að taka til formlegrar afgreiðslu án frekari tafa tillögu kæranda að matsáætlun, sem og frummatsskýrslu hans, enda er ljóst að teldi stofnunin matsáætlun vera forsendu þess að hún gæti tekið frummatsskýrsluna til meðferðar skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 bar henni að hafna skýrslunni með þeim rökum.

Vakin er athygli á að umburðarbréfi Skipulagsstofnunar var beint til kæranda og annarra fyrirtækja í sjávarútvegi, sem og samtaka þeirra fyrirtækja. Afrit var sent atvinnuvegaráðuneyti, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Afrit var hins vegar ekki sent umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eins og réttilega hefði átt að gera að teknu tilliti til þess að ráðherra þess ráðuneytis fer með yfirstjórn laga nr. 106/2000, en efni umburðarbréfsins bar með sér að ekki yrði fram haldið meðferð mála samkvæmt þeim.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir Skipulagsstofnun að taka til afgreiðslu án frekari tafa fyrirliggjandi tillögu kæranda að matsáætlun og frummatsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar á laxi í sjókvíum kæranda í Arnarfirði.

114/2020 Aratún

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 25. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. september 2020 um að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Silfurtúns vegna lóðarinnar nr. 36 við Aratún.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Aratúni 34, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. september 2020 að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Silfurtúns vegna lóðarinnar Aratúns 36. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 29. desember 2020.

Málavextir: Lóðin Aratún 36 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Silfurtúns. Á fundi skipulagsnefndar 3. apríl 2020 var samþykkt að grenndarkynna fyrir lóðarhöfum Aratúns 19, 21, 23, 34 og 38 tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulaginu vegna lóðarinnar Aratúns 36. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að vera með lagnakjallara undir bílskúr og að núverandi byggingarreitur fyrir bílskúr yrði stækkaður um 1,5 m til vesturs. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,30 í 0,50. Komu kærendur ásamt lóðarhafa Aratúns 21 á framfæri athugasemdum á kynningartíma tillögunnar. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 9. júlí 2020 og lagt til að tækni- og umhverfissviði yrði falið að vinna hæðarblað þar sem hæðarkóti bílgeymslu yrði skilgreindur ásamt skuggavarpi. Hinn 27. ágúst s.á. var hin kynnta tillaga samþykkt óbreytt á fundi skipulagsnefndar ásamt framlögðu hæðarblaði. Jafnframt var framkomnum athugasemdum svarað. Á fundi bæjarstjórnar 3. september 2020 var tillagan samþykkt og var kærendum tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 7. október s.á. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. nóvember 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að sumarið 2020 hafi þeim verið sýndar teikningar að fyrirhuguðum bílskúr. Virðist þær í grunninn vera eins og þær teikningar af bílskúr sem úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi hafnað í máli nr. 42/2009. Bílskúr samkvæmt nýjum teikningum sé þó miklu stærri og útveggir á lóðamörkum mun hærri. Skúrinn sé allt frá 3,2 m til tæplega 5,0 m á hæð og 12-14 m langur við lóðamörk. Bæjaryfirvöld gefi sér að hæð hans sé 3,2 m á lóðamörkum Aratúns 34 og 36. Síðargreinda húsið sé tveggja hæða, en hús kærenda sé einlyft og hæðarmunur á húsunum því þó nokkur. Aðeins séu 4,0 m á milli nefndra húsa og fyrirhugaðs bílskúrs. Muni hús kærenda virka töluvert minna við hliðina á svo stórri byggingu og verðgildi eignar þeirra muni því rýrna.

Hverfið sé gamalgróið og þar séu engir bílskúrar með lagnakjallara sem séu yfir 70 m² að stærð og með 2,0 m lofthæð. Þar ofan á bætast við 3,20 m og séu engin fordæmi fyrir slíku mannvirki í hverfinu. Þegar kærendur hafi keypt hús sitt árið 1992 hafi verið komnir sökklar fyrir samþykktan bílskúr að Aratúni 36, sem hafi verið 2,60 m á hæð og 7 m að lengd. Eftir að sett hafi verið nýtt deiliskipulag telji sveitarfélagið sig geta leyft tveggja hæða bílskúra, tæplega 200 m² að stærð, með framangreindum byggingarmassa á mörkum annarra lóða.

Kærendur hafi mótmælt fyrirhugaðri bílskúrsbyggingu við grenndarkynningu en eftir það hafi engin svör borist frá Garðabæ, þrátt fyrir ósk kærenda um að fá að sjá teikningar og upplýsingar um stærð bílskúrsins.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að fram komi í deiliskipulagi fyrir Silfurtún að þar sem bílgeymsla hafi ekki verið byggð gildi nýr byggingarreitur um staðsetningu hennar. Bílgeymsla skuli að öllu jöfnu vera lágreist og hámarkshæð 3,2 m. Í engu sé verið að breyta þessum skilmálum þótt byggingarreitur bílgeymslu stækki til vesturs, en sú hlið snúi ekki að lóð kærenda. Geti það varla varðað hagsmuni kærenda eða haft áhrif á útsýni og ásýnd frá lóð þeirra. Engin breyting hafi verið gerð á lengd og legu byggingarreits bílgeymslu við mörk lóðar kærenda. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi hafi kærendur alltaf mátt gera ráð fyrir byggingu 3,2 m hárrar bílgeymslu á lóð Aratúns 36, sem væri innan byggingarreits samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti. Breyting á nýtingarhlutfalli komi til vegna rýmis sem sé að mestu niðurgrafið og hafi engin áhrif á umfang sýnilegs ytra byrðis hússins.

Borist hafi umsókn um byggingarleyfi fyrir bílskúr á umræddri lóð og samkvæmt uppdráttum sé gert ráð fyrir að hæð bílgeymslu verði 3,2 m yfir gólfkóta bílgeymslu, sem sé 8,80, en á hæðarblaði sé uppgefinn hæðarkóti 8,95. Hæð bílskúrs sé 3,2 m eða í samræmi við skilmála deiliskipulags. Þakkóti bílgeymslu sé 12,0 en gæti verið 12,15 miðað við útgefinn hæðarkóta á hæðarblaði og samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins. Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá árinu 2009 sem kærendur vísi til hafi verið um að ræða útgáfu á byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þar sem ekki hafi legið fyrir staðfest deiliskipulag og tilvikin því alls ekki sambærileg.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að ekki hafi verið gerðar breytingar á núgildandi deiliskipulagi hvað varði byggingarreit og leyfilega hæð við lóðamörk Aratúns 34 og 36. Hafi fyrsta tillaga að breytingu á deiliskipulagi m.a. gert ráð fyrir stækkun byggingar-reits um 1,5 m til norðurs en eftir að þær tillögur hafi verið bornar undir eigendur Aratúns 34 hafi verið hætt við að sækja um þá stækkun. Aðeins hafi verið sótt um stækkun til vesturs enda hafi ekki verið gerð athugasemd við það. Ekki hafi verið sótt um hækkun á byggingarreit. Muni bílskúr sem sótt verði um byggingarleyfi fyrir vera innan marka breytts deiliskipulags og byggingarreits. Fullyrðingar um að bílskúrinn verði allt að 5,0 m á hæð á lóðamörkum og allt að 200 m² að stærð eigi ekki við nein rök að styðjast. Framkvæmd við bílskúr á árinu 1992 komi máli þessu ekkert við. Búið sé að fjarlægja framkvæmdir sem gerðar hafi verið í tíð fyrri eiganda.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að ekki sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða. Ljóst sé að engin bílskúr í hverfinu sé svo stór eins og hér um ræði. Bílskúrinn verði a.m.k. 140 m² á tveimur hæðum, en benda megi á að hús kærenda sé um 170 m². Hæð bílskúrs verði í raun 5,0 m, sér í lagi þar sem nýta eigi kjallara sem kominn sé. Þá vísi kærendur á bug fullyrðingu um að lenging skúrsins til vesturs muni ekki hindra útsýni þeirra.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar að breyta deili-skipulagi Silfurtúns vegna lóðarinnar Aratúns 36. Með hinni kærðu deiliskipulags­breytingu er gert ráð fyrir að núverandi byggingarreitur fyrir bílskúr verði stækkaður inn í lóðina þannig að hann breikki um 1,5 m til vesturs. Einnig verði heimilt að vera með lagnakjallara undir bílskúr. Þá fari heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,3 í 0,5. Er og tekið fram að byggingarreitur að lóðarmörkum Aratúns 34 haldist óbreyttur. Að öðru leyti er vísað til skilmála gildandi deiliskipulags.

Deiliskipulag Silfurtúns öðlaðist gildi árið 2012. Samkvæmt greinargerð þess einkennist skipulagssvæðið af þéttri lágreistri byggð einbýlishúsa. Nýtingarhlutfall lóða má vera allt að 0,3 og á þeim má hafa eitt einbýlishús ásamt bifreiðageymslu. Heimilt er að hafa kjallara að hluta eða öllu leyti þar sem lega lands og frárennsli lagna leyfa og endurbyggja hluta núverandi húss, s.s. bílgeymslu á núverandi stað án þess að fylgja nýjum byggingarreit. Skal endurbygging fylgja nákvæmlega stærð fyrri húshluta í hvívetna, bæði að grunnfleti og í hæð.

Í kafla 4.3.2. í greinargerð deiliskipulagsins er að finna sérákvæði um bílastæði og bíl-geymslur. Þar segir að þar sem hverfið sé þegar fullbyggt gildi ný ákvæði um bílgeymslur og bílastæði fyrir nýbyggingar eða ef núverandi hús sé rifið. Bílskúrar séu ýmist sambyggðir húsi eða stakir, oftast einfaldir, og reistir tiltölulega innarlega á lóðum, nokkuð langt frá götu. Þar sem bílgeymsla hafi enn ekki verið byggð við hús gildi nýr byggingarreitur um staðsetningu hennar. Bílgeymsla skuli að öllu jöfnu vera lágreist með litlum þakhalla. Hámarkshæð sé 3,2 m. Heimilt sé að endurreisa bílgeymslu á grunni núverandi bílgeymslu, en þá aðeins þannig að um nákvæma endurbyggingu verði að ræða hvað umfang og fyrirkomulag varði.

Tillaga að hinni umdeildu breytingu var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Með hinni kærðu breytingu er í engu breytt skilmálum deiliskipulagsins um heimilaða hæð bílskúrs og ekki verður af skýringarmyndum deiliskipulagstillögunnar ráðið að umrædd breyting sé til þess fallin að breyta útliti og formi byggðar að marki á viðkomandi svæði umfram það sem heimilað var samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags.

Lóðin að Aratúni 36 er 809,0 m² að flatarmáli og húsið á lóðinni 209,2 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Líkt og áður er rakið gerir hin kærða ákvörðun ráð fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar fari úr 0,3 í 0,5. Ljóst er að um verulega hækkun nýtingarhlutfalls er að ræða.­­ Óskaði úrskurðarnefndin nánari skýringa hjá sveitarfélaginu varðandi hækkun nýtingarhlutfallsins og í svari þess kemur fram að samkvæmt teikningum sé rétt stærð hússins á lóðinni 233,7 m² og þar af sé kjallari 95,2 m². Nýr bílskúr verði 62,6 m² og lagnakjallari 76,6 m². Samtals geri þetta 372,9 m² og sé nýtingarhlutfallið 0,46. Hvað sem öðru líður verður ekki fram hjá því litið að heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar fer úr 0,3 í 0,5. Er því um að ræða 60% hækkun nýtingarhlutfalls, eða aukningu á heimiluðu byggingarmagni lóðarinnar um 161,8 m². Með tilliti til þessarar aukningar verður ekki talið að um óverulega breytingu hafi verið að ræða í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga heldur hefði átt að viðhafa almenna málsmeðferð deiliskipulagsbreytingar skv. 1. mgr. ákvæðisins. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því ekki lögum samkvæmt og ber af þeim sökum að fella ákvörðunina úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. september 2020 um að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulagi Silfurtúns vegna lóðarinnar Aratúns 36 í Garðabæ.

104/2020 Þúfukot

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2020, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lögbýlisins Þúfukots í Kjósarhreppi þá ákvörðun hrepps­nefndar Kjósarhrepps að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðun sveitarfélagsins um breytta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús og breytta notkun húss þess er stendur á umræddri lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 18. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 29. ágúst 2019 tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps fyrir á fundi sínum beiðni þess efnis að notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr landi Þúfukots yrði breytt úr frístundalóð í lóð undir íbúðarhús. Nefndin tók jákvætt í erindið og vísaði því til sveitar­stjórnar. Hreppsnefnd Kjósarhrepps staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 8. október 2019 með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðar­nefndarinnar, sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 27. mars 2020 í kærumáli nr. 115/2019. Var í úrskurðinum bent á að skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væri óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Því lægi ekki fyrir ákvörðun í málinu sem byndi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Kjósarhrepps mun hafa móttekið 23. júní 2020 hnitsettan uppdrátt lóðarinnar Þúfukot 4, Nýjakots. Hinn 18. ágúst s.á. stimplaði skipulags- og byggingarfulltrúi uppdrátt fyrir mannvirki á lóðinni með undirrituðun hönnuðar þar sem vísað var til gr. 10.1.2. og 12.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sama dag skrifaði skipulags- og byggingarfulltrúi undir skjal með fyrirsögninni „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“, þar sem m.a. kom fram að mannvirkið á umræddri lóð uppfyllti skilyrði til að vera „samþykkt sem íbúðarhúsnæði í öllum megin atriðum.“ Vakti skipulags- og byggingarfulltrúi jafnframt athygli á að einangrunargildi hússins væri samkvæmt eldri reglugerð og uppfyllti því ekki að öllu leyti kröfur dagsins í dag. Skyldi leitast við að koma til móts við þær kröfur við endurbætur og viðhald hússins.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að það hafi verið fyrir tilviljun að hann hafi komist að því að búið væri að breyta skráningu Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þar komi fram að mannvirki á lóðinni væri skráð á byggingar­stig 4 (fokhelt) og matsstig 8 (ólokið, tekið í notkun). Út frá þeim upplýsingum verði að gera ráð fyrir að tekin hafi verið ný ákvörðun af hálfu hreppsnefndar um að heimila breytta notkun lóðarinnar. Sú ákvörðun sé ólögmæt þegar af þeirri ástæðu að kærandi hafi ekki fengið að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð málsins, sbr. 13. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd lóð sé innan landareignar kæranda, Þúfukots, og því hafi breytt notkunar lóðarinnar augljóslega veruleg áhrif á hagsmuni hans. Sveitarfélaginu hafi verið vel kunnugt um afstöðu kæranda í málinu og hafi því borið að veita honum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Hin skilyrta ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2019 hafi verið háð ýmsum efnis­annmörkum. Ljóst sé að umsókn um breytingu lóðarinnar hafi einungis stafað frá öðrum eiganda hennar, en skráðir eigendur lóðarinnar séu tveir. Úr þessu hafi ekki verið bætt með fullnægjandi hætti. Þá hafi ákvörðuninni verið vísað til hreppsnefndar af skipulags- og byggingarnefnd, en á fundi nefndarinnar 29. ágúst s.á. hafi einungis verið bókað um að jákvætt væri tekið í erindið en engin tillaga hafi fylgt frá nefndinni. Hvorki efnisleg né málefnaleg ákvörðun hafi verið tekin um hvort breyta eigi landnotkun lóðarinnar. Það sé heldur ekki á færi skipulags- og byggingarnefndar að taka málið til fullnaðarafgreiðslu, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Bent sé á að staðsetning lóðarinnar sé innan jarðar kæranda og því ljóst að lóðarmörkin verði ekki ákveðin án aðkomu hans. Hafi hnitsettur lóðaruppdráttur verið afhentur sveitarfélaginu en sé ekki sé hægt að byggja ákvörðun á honum þar sem aðilar beggja vegna lóðarmarka þurfi að samþykkja ytri mörk hennar.

Kæranda sé ekki kunnugt um að málið hafi verið tekið fyrir af byggingarfulltrúa. Ekki fáist séð hvernig skráning mannvirkisins samrýmist 1. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 10. gr., laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hið skráða byggingarstig staðfesti í raun að ekki sé heimilt að breyta skráningu á notkun lóðarinnar. Á lóðinni standi fullkláraður sumarbústaður en hann sé nú skráður sem fokhelt og óklárað íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá. Því gefi auga leið að sumar­bústaðurinn uppfylli ekki kröfur til að vera skráður sem íbúðarhús. Mjög mikilvægt sé að fasteignir séu skráðar til samræmis við raunverulegt ástand og notagildi þeirra. Virðist sem um einhverskonar málamyndaskráningu sé að ræða. Þá liggi heldur ekki fyrir hvort umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið leitað. Liggi fyrir leyfi byggingarfulltrúa um breytta skráningu sé ljóst að leyfið sé ógildanlegt í ljósi framangreinds.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé hin umrædda lóð innan svæðis sem skilgreint sé sem landbúnaðarland. Samkvæmt stofnskjali lóðarinnar frá 2007 hafi hún verið stofnuð sem frístundalóð og henni síðan afsalað til eigandans. Sé það andstætt þágildandi skilmálum nefnds aðalskipulags þar sem svæðið hafi verið skilgreint sem landbúnaðarland. Samkvæmt stefnumörkun þess skipulags hafi mátt reisa þrjú frístundahús á landbúnaðarsvæði en þau skyldu þó standa í grennd við hvert annað. Stofnun lóðarinnar í öndverðu hafi því verið ólögmæt. Í núgildandi aðalskipulagi megi finna skilgreint frístundasvæði innan Þúfukots á svæði auðkenndu sem F6. Staðsetning Þúfukots 4, Nýjakots, sé utan þess svæðis. Nýtingar­hlutfall og stærð lóðar falli þó nær skilgreiningu á lóð fyrir frístundahús samkvæmt núgildandi aðalskipulagi en þar sé ekki gert ráð fyrir að íbúðarhúsalóðir séu að jafnaði minni en 0,5 ha. Umdeild lóð sé hins vegar aðeins 0,40 ha.

Í kafla 2.3.1 í gildandi aðalskipulagi komi fram almenn stefnumörkum um að staðsetja skuli alifuglahús í góðri fjarlægð frá annarri byggð. Þá sé þar vísað til þess að gerð sé grein fyrir lágmarksfjarlægð eldishúsa frá byggð í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Þó verði að skoða staðsetningu eldishúsa í hverju tilfelli fyrir sig og meta t.d. út frá ríkjandi vindátt og fjölda dýra. Fram komi í 6. gr. reglugerðarinnar að ákveða skuli í skipulags­áætlun hver fjarlægðarmörkin eigi að vera en í gildandi aðalskipulagi hafi ekki verið mörkuð stefna um það. Ekki hafi farið fram rannsóknar eða athuganir á ríkjandi vindátt eða fjölda dýra, eins og aðalskipulagið mæli fyrir um. Hin kærða ákvörðun sé því á engan hátt í samræmi við skilmála gildandi aðalskipulags. Einnig sé bent á að umsókn um breytingu landnotkunar hinnar umdeildu lóðar hafi verið hafnað í gildistíð Aðalskipulags Kjósarhrepps 2005-2017. Kærandi hafi því haft réttmætar væntingar til þess að ekki yrðu breytingar þar á þrátt fyrir gildistöku nýs aðalskipulags, enda ekkert í skilmálum hins nýja skipulags sem gefi tilefni til annars. Hin kærða ákvörðun fari því að öllum líkindum í bága við gildandi aðalskipulag.

Ekki liggi fyrir hver áform leyfishafa séu varðandi notkun lóðarinnar eða frekari skilmála. Fráleitt sé að slík áform liggi ekki fyrir þegar samþykki sé veitt fyrir eðlisbreytingu á lóð sem skipt sé út fyrir landabúnaðarland. Grundvallarmunur sé á þörf fyrir aðgengi að neysluvatni fyrir frístundahús og íbúðarhús með heilsársbúsetu. Ekki liggi fyrir með hvaða hætti öflun neysluvatns verði. Hið sama gildi um tengingu við hitaveitu, en staðsetning lóðarinnar liggi alls ekki vel við stofnæðum hitaveitu. Eigi slík tenging að fara fram verði það ekki gert án samþykkis kæranda. Einnig sé bent á að aðkomuvegur frá Eyrarfjallsvegi að fyrirhugaðri íbúðarhúsalóð liggi um land kæranda, en engir samningar liggi fyrir um slíka vegtengingu. Um leið og lögheimili fáist skráð þurfi að tryggja aðkomuveg samkvæmt vegalögum nr. 80/2007, en slíkt verði ekki gert án samþykkis kæranda.

Auk framangreinds sé ógildingarkrafa kæranda byggð á því að oddviti hreppsnefndar sveitar­félagsins hafi verið vanhæfur til þess að taka þátt í undirbúningi, meðferð og úrlausn mála sem kærandi sé aðili að eða vegna mála þar sem hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta. Í því sambandi sé vísað til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga og 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi orðið fyrir líkamsárásum og hótunum af hendi íbúa Þúfukots 4, Nýjakots, en íbúinn sé jafnframt fyrri eigandi lóðarinnar. Um þær deilur hafi verið fjallað í fjölmiðlum og þar hafi oddvitinn tekið afgerandi afstöðu með íbúanum. Þá hafi oddvitinn krafist þess í tölvupósti til fyrirsvarsmanns kæranda að hann hagaði sér eins og „siðaður maður“. Ljóst sé að oddvitinn hafi sýnt óvild í garð fyrirsvarsmanns kæranda og það opinberlega. Draga verði óhlutdrægni hans verulega í efa. Kveðið sé á um þrengri vanhæfisreglur í 20. gr. sveitarstjórnarlaga en almennt gildi skv. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þá kunni vanhæfi hans að leiða til vanhæfis undirmanna hans.

Málsrök Kjósarhrepps: Sveitarfélagið telur að sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki fyrir breyttri notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, geti ekki komið til endurskoðunar þar sem kærandi hafi ekki haft uppi kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar. Að því marki sem það kunni að skipta máli sé ljóst að við þá afgreiðslu hafi skipulagsfulltrúi tekið afstöðu til þess hvort umrædd samþykkt samræmdist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki.

Lóðinni Þúfukoti 4, Nýjakoti, hafi verið skipt út úr jörðinni Þúfukoti á árinu 2007. Í þágildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2017 hafi lóðin verið á svæði skilgreindu sem landbúnaðar­svæði. Fyrir liggi að skipulagsyfirvöld hafi á sínum tíma samþykkt stofnun lóðarinnar sem sérstakrar og afmarkaðrar fasteignar án þess að landið væri tekið úr landbúnaðarnotum, án þess að aðalskipulagi hefði verið breytt og án þess að gert væri deiliskipulag vegna þess. Í gildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé umrætt svæði enn skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Litið hafi verið svo á að unnt væri að breyta skráðri landnotkun án þess að gera breytingar á aðalskipulagi eða gera deiliskipulag fyrir þessa einu lóð. Umrædd lóð sé ekki lengur hluti af lögbýlinu Þúfukoti heldur sérstök og afmörkuð fasteign. Heimilt sé að samþykkja byggingu íbúðarhúss á landi sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi. Til þess hafi verið litið að ekki væri að sjá eðlismun á þeirri lóð og lóðunum Þúfukoti 1, Lyngholti og Þúfukoti 2, Hálsakoti, sem skráðar væru sem íbúðarhúsalóðir. Gildandi aðalskipulag útiloki ekki að íbúðarhúsalóðir geti verið minni en 0,5 ha þó þær skuli að jafnaði vera það í nýjum íbúðarhúsabyggðum.

Horft hafi verið til þess að undanfarin ár hafi umrædd lóð verið nýtt til fastrar búsetu og heilsársdvalar. Sveitarfélagið hafi þjónustað þá eign með sambærilegum hætti og önnur íbúðar­hús, s.s. varðandi sorphirðu. Með því að samþykkja breytta notkun liggi fyrir að heimilt yrði að skrá þar lögheimili, sem hefði væntanlega í för með sér auknar skatttekjur fyrir sveitarfélagið.

Í kafla 2.3.1 í greinargerð gildandi aðalskipulags komi fram að um lágmarksfjarlægð eldishúsa frá byggð gildi reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um fjarlægðir og komi þar fram að eldi alifugla með bú ætluð fyrir fleiri en 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 stæði fyrir hænur skuli vera að lágmarki í 100 m fjarlægð frá byggð. Sé bú ætlað fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 6.000 stæði fyrir hænur skuli fjarlægð vera 50 m. Fjarlægð mannvirkis á lóð Þúfukots 4, Nýjakots, frá næsta alifuglabúi uppfylli skilyrði nefndrar 6. gr. reglugerðarinnar, hvort sem um sé að ræða íbúðarhúsnæði eða sumarbústað.

Almennt sé sú krafa gerð við stofnun lóða í sveitarfélaginu að mörk þeirra séu hnitsett þannig að enginn vafi geti verið um afmörkun þeirra. Af þessum sökum hafi þótt rétt, þegar leyfishafar hafi óskað eftir heimild til að breyta skráðri landnotkun, að setja skilyrði um hnitsetningu lóðarinnar. Ekkert hafi komið fram um að ágreiningur væri uppi milli kæranda og leyfishafa um hvar landamerki lóðanna Þúfukots og Þúfukots 4, Nýjakots, væru, en þau landamerki hafi verið ákveðin áður en kærandi hafi eignast Þúfukot. Þá sé það ekki á forræði eða valdsviði sveitarfélagsins að leysa úr slíkri landamerkjaþrætu. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi móttekið hnitsettan uppdrátt en ekki verði séð að sú hnitasetning hafi áhrif á réttarstöðu kæranda, enda landamerki þau sömu og áður.

Bent sé á að þegar Þúfukoti 4, Nýjakoti, hafi verið skipt út úr Þúfukoti og hús reist á lóðinni hafi verið gengið frá aðgangi að neysluvatni úr landi Þúfukots. Sama gildi um hitaveitu, en mannvirkið á lóðinni sé tengt við hitaveitu Kjósarveitu ehf. Þá sé þegar fyrir hendi vegtenging við lóðina. Ekki sé hægt að fallast á að breyting á notkun umræddrar lóðar hafi veruleg og íþyngjandi áhrif á réttarstöðu kæranda. Sú mögulega skerðing sem geti falist í hinni kærðu ákvörðun sé innan þeirra marka sem fasteignaeigendur verði að þola í nábýli. Að lokum fáist ekki séð að meint vanhæfi oddvita hreppsnefndar sveitarfélagsins hafi verið fyrir hendi þegar ákvörðun hreppsnefndar um að samþykkja umsókn leyfishafa hafi verið tekin 8. október 2019. Þá sé það meginregla 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 að starfsmaður sveitar­félags verði ekki vanhæfur vegna vanhæfis yfirmanns.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að mannvirkið á umræddri lóð hafi í upphafi verið byggt sem íbúðarhúsnæði. Lóðinni hafi skipt út úr jörðinni Þúfukoti ásamt þeim réttindum og skyldum sem fasteigninni fylgdi, þ.m.t. rétti til vatns. Húsið hafi verið notað til heilsársíbúðar frá því það hafi fyrst verið reist. Fullnægt hafi verið þeim fyrirvörum sem hreppsnefnd hafi sett með samþykkt sinni á umsókn leyfishafa 8. október 2019. Hvorki fáist séð að breytingin hafi nokkur áhrif á eignarréttindi kæranda né takmarki notkun á jörð hans.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2019 hljóti að vera grundvöllur hinnar breyttu skráningar á landnotkun sem hafi verið framkvæmd, en kærandi hafi til vara krafist þess að hún yrði felld úr gildi. Líti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hins vegar svo á að önnur ákvörðun Kjósarhrepps liggi fyrir um heimild til breyttrar landnotkunar sé þess krafist að sú ákvörðun verði felld úr gildi.

Vísað sé til þess að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi ekki heimild til að taka endanlega ákvörðun í málinu, sbr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og erindisbréf skipulags- og byggingarnefndar. Einnig vísist til 4. mgr. 30. gr. samþykkta stjórnar sveitarfélagsins Kjósar­hrepps þar sem fram komi að ef nefnd sé falið fullnaðarafgreiðsla mála skuli kveða á um það í sérstökum viðauka við samþykktina. Enginn slíkur viðauki sé fyrir hendi. Hafnað sé þeim málatilbúnaði sveitarfélagsins að hreppurinn hafi ekki tekið ákvörðun um breytta landnotkun heldur hafi það verið í höndum skipulags- og byggingarfulltrúa. Hreppsnefnd hagi málmeðferð vísvitandi þannig að hún sé flókin, villandi og ógagnsæ. Með því að taka skilyrta stjórnvalds­ákvörðun í upphafi, sem ekki sé unnt að kæra nema skilyrðin komi fram, virðist sem hrepps­nefndin geri í raun tilraun til að taka ákvarðanir sem ekki séu kæranlegar.

Ítrekað sé að hnitsettur uppdráttur þurfi að vera undirritaður af bæði kæranda og leyfishafa. Bent sé á að á fundi skipulags- og byggingarnefndar 11. nóvember 2020 hafi verið tekin fyrir umsókn um breytingu á stærð tiltekinnar lóðar og í afgreiðslu nefndarinnar hafi það verið gert að skilyrði að fyrir lægi samþykki eiganda eða eigenda upprunafasteignar, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Ekki fáist séð hvers vegna hreppsnefnd og skipulags- og byggingarnefnd geri ekki sömu kröfur í þessu máli. Vísist um það til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun sett fram í aðalskipulagi. Hins vegar eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðanotkun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, en heimilt er að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert er í aðalskipulagi, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Um notkun húsa fer þó eftir lögum nr. 160/2010 um mannvirki, en skv. 1. mgr. 9. gr. þeirra laga er óheimilt að breyta notkun mann­virkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, auk þess sem það er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að greinarmunur er á því hvort um breytta notkun lóðar eða húss er að ræða.

Upphaf máls þessa má rekja til erindis eins af eigendum lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, um að breyta notkun hennar úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús. Svo sem rakið er í málavöxtum tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps 29. ágúst 2019 jákvætt í erindið og vísaði því til sveitarstjórnar. Hreppsnefnd staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 8. október s.á. með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Fyrir liggur að þau skilyrði sem hreppsnefnd setti hafa verið uppfyllt og verður því að líta svo á að nefndin hafi tekið endanlega ákvörðun um að breyta notkun lóðarinnar. Þá liggur einnig fyrir í máli þessu að 2. september 2020 var skráningu hússins á lóðinni breytt úr sumarbústað í einbýlishús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en slík breyting getur einungis átt sér stað að undangengnu byggingarleyfi byggingarfulltrúa, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki, sem er kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar. Að virtum atvikum málsins og málatilbúnaði kæranda verður því litið svo á að einnig sé kærð sú ákvörðun sem legið hafi að baki breyttri skráningu á notkun hússins í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Af ákvæði 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga verður ráðið að ákvörðun um notkunar lóðar sé að meginstefnu til tekin með deiliskipulagi. Þrátt fyrir það verður talið að sveitarstjórn sé heimilt að samþykkja breytta notkun lóðar að því gefnu að sú notkun rúmist innan heimilda aðalskipulags, enda er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna. Í Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 er hin umrædda lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Fjallað er um landbúnaðarsvæði í kafla 2.3.1 í skipulaginu en þar segir m.a. að með skipulaginu sé horfið frá því að takmarka fjölda íbúðarhúsa á hverri jörð, enda sé það talið geta staðið í vegi fyrir íbúafjölgun í sveitarfélaginu. Þá segir jafnframt að heimilt sé að reisa stök mannvirki á landbúnaðarsvæðum, eins og lýst sé í kafla 2.3.9. Í þeim kafla kemur fram að á landbúnaðarlandi sé heimilt að reisa íbúðarhús til fastrar búsetu, enda hamli uppbygging hvorki eðlilegri landbúnaðarstarfsemi né spilli samfellu í góðu landbúnaðarlandi. Með hliðsjón af framan­greindu var ákvörðun hreppsnefndar um að breyta notkun lóðarinnar í samræmi við stefnu og heimildir aðalskipulags.

Líkt og kemur fram hér að framan er skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt 11. gr. laganna skal byggingarfulltrúi ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og tilkynna umsækjanda skriflega um samþykkt byggingaráforma. Upphaflegt erindi eigenda Þúfukots 4, Nýjakots, fól ekki í sér formlega byggingarleyfisumsókn um breytta notkun húss heldur umsókn um breytta notkun lóðarinnar. Af atvikum málsins verður þó ráðið að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi litið svo á að með umsókn um breytta notkun lóðarinnar hafi eigendur hennar jafnframt sótt um breytta notkun hússins sem stendur á lóðinni. Fyrir liggur að 18. ágúst 2020 stimplaði hann uppdrætti frá árinu 2007 sem merktir eru „Frístundahús Nýjakot 2“. Þá er á uppdrættinum ódagsett áritun hönnuðar við eftirfarandi texta: „Samanber byggingarreglugerð nr. 112/2012 gr. 10.1.2. og 12.1.2.“ Samkvæmt nefndri gr. 10.1.2. skal hönnuður við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja staðfesta að uppfyllt séu öll viðeigandi ákvæði þess hluta reglugerðarinnar, en 10. hluti reglugerðarinnar ber heitið „Hollusta, heilsa og umhverfi“. Sambærilega orðað ákvæði er í gr. 12.1.2., en 12. hluti reglugerðarinnar fjallar um öruggi við notkun. Sama dag og skipulags- og byggingarfulltrúi stimplaði nefnda uppdrætti skrifaði hann undir skjal með heitinu „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“. Þar kemur fram eftirfarandi afgreiðsla embættisins: „Í samræmi við 10.1.2. gr. og 12.1.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, staðfestist hér með, að hús það (F2310159) sem stendur á umræddri lóð, uppfyllir skilyrði til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði í öllum meginatriðum. Athygli er samt sem áður vakin á að einangrunargildi hússins er skv. eldri reglugerð og uppfyllir því ekki að öllu leyti kröfur dagsins í dag. Leitast skal við að koma til móts við þær kröfur við endurbætur og viðhald hússins.“

Gera verður þá kröfu til stjórnvalda að ákvarðanir þeirra séu að formi og efni til nægilega skýrar þannig að ekki sé vafa undirorpið á hvaða lagagrundvelli þær eru teknar og hvert sé efni þeirra. Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfylla fyrrgreindar afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa ekki þá kröfu þar sem þær fela fyrst og fremst í sér mat hans á því að tiltekin ákvæði byggingarreglugerðar séu uppfyllt. Verður því ekki talið að um formlega stjórnvaldsákvörðun á grundvelli 1. mgr. 9. gr. eða 11. gr. laga um mannvirki hafi verið að ræða. Er þá m.a. litið til þess að í yfirskrift stimplaðs uppdráttar frá árinu 2007 kemur fyrir orðið „Frístundahús“ og að stimplunin ber ekki með sér að breytt notkun hússins hafi verið samþykkt. Þá er horft til þess að í skjalinu „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“ segir að umrætt hús uppfylli skilyrði til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði „í öllum meginatriðum.“ Verður því að líta svo á að ekki hafi verið tekin ákvörðun í skilningi 9. gr. laga um mannvirki um breytta notkun hússins. Verður því ekki komist hjá því að vísa þeim hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðar­afgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þó er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda. Verður að telja að sú regla eigi við hvort sem byggingarleyfisumsókn varðar heimild til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. um mannvirki. Fyrir liggur að ekki var formlega sótt um leyfi til að breyta notkun mannvirkisins, en sem fyrr greinir mun skipulags- og byggingarfulltrúi hafa litið svo á að umsókn um breytta notkun lóðar varðaði jafnframt breytta notkun hússins á lóðinni. Sú umsókn var ekki grenndarkynnt en ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins hvort láðst hafi að gera það með formlega réttum hætti eða hvort að það hafi verið mat skipulags­yfirvalda að erindið varðaði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda, sbr. fyrrnefnda 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Kjósarhrepps um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni þeim hluta málsins er lýtur að breyttri notkun húss á lóðinni Þúfukoti 4, Nýjakoti.

131/2020 Fífuhvammur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 6. janúar 2021 var hafnað kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða byggingarleyfis.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. janúar 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér þó nokkra forsögu. Að lokinni grenndarkynningu samþykkti skipulagsnefnd Kópavogsbæjar á fundi sínum 3. júlí 2007 erindi lóðarhafa Fífuhvamms 25 um leyfi til byggingar 62,5 m2 bílskúrs ásamt skyggni yfir innkeyrslu og var byggingarleyfi samþykkt á fundi byggingarnefndar Kópavogs 22. ágúst s.á. Eigendur Fífuhvamms 27, sem komið höfðu að athugasemdum við grenndarkynningu, kærðu nefndar ákvarðanir til úrskurðar­nefndar skipulags- og byggingarmála, sem felldi þær úr gildi með úrskurði uppkveðnum 31. janúar 2008, í kærumáli nr. 118/2007. Á fundi byggingarnefndar Kópavogs 6. ágúst 2008 var eigendum Fífuhvamms 25 veitt leyfi til að byggja 56,8 m2 bílskúr með geymslu á lóð þeirra. Kærðu eigendur Fífuhvamms 27 einnig það leyfi til til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 25. september 2008, í máli nr. 87/2008. Lóðarhafar Fífuhvamms 25 sóttu um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á 56,8 m2 bílskúr sem þá hafði verið reistur, en að lokinni grenndarkynningu var umsókninni synjað af byggingarfulltrúa Kópavogs 21. júní 2011. Kærðu umsækjendur þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en með úrskurði uppkveðnum 15. janúar 2015, í máli nr. 48/2011, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála synjunina úr gildi þar sem undirbúningi og rökstuðningi hennar þótti svo áfátt að leiða ætti til ógildingar. Hinn 26. nóvember 2015 synjaði byggingarfulltrúi að nýju umsókn eigenda Fífuhvamms 25 um leyfi fyrir 56,8 m2 viðbyggingu ofan á umræddan bílskúr, m.a. með vísan til grenndaráhrifa. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 1. desember 2017, í máli nr. 116/2015.

Með umsókn, dags. 7. október 2019, sóttu eigendur Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 gróðurhús ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndar­kynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulags­ráð erindið og vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs. Kærendur kærðu ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði uppkveðnum 8. maí 2020 vísaði kærumálinu, sem var nr. 31/2020, frá nefndinni þar sem ekki lægi fyrir lokaákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 4. desember 2020 samþykkti byggingar­fulltrúi umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi lagt umtalsvert fjármagn og vinnu í að koma svæði milli húsanna Fífuhvamms 25 og 27 í snyrtilegt horf, m.a. með matjurtagarði og gróðursetningu plantna. Þær framkvæmdir og frekari áform kærenda um að setja upp heitan pott og gróðurhús til að nýta lóð þeirra sem mest séu sett í uppnám með byggingu gróðurhúss og útsýnispalls ofan á bílskúr nágranna, sem að auki sé ekki í samræmi við götumynd. Feli framkvæmdin í sér útsýnispall ofan á bílskúr, sem sé alveg við lóðarmörk lóðar kærenda, og hafi það áhrif á friðhelgi einkalífs og heimilis kærenda. Fari útgáfa byggingarleyfisins því í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni þeir verða fyrir tjóni af þeim sökum. Sérstaklega sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2015 þar sem deilt hafi verið um sambærilega byggingu á sama stað. Í niðurstöðu nefndarinnar segi m.a. að umsótt viðbygging yrði á eða nærri mörkum lóðarinnar að Fífuhvammi 27 og að ljóst væri að af byggingunni yrðu grenndaráhrif. Vísað var til þess að viðbyggingin myndi valda auknu skugga­varpi á lóð kærenda. Sömu sjónarmið eigi hér við fullum fetum.

Leyfishafar hafi gert ítrekaðar tilraunir til að auka við byggingamagn á lóð þeirra við lóðamörk, en þeim áformuð hafi verið synjað af bæði skipulagsyfirvöldum í Kópavogi og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Á árinu 2008 hafi þó verið fallist á að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóð Fífuhvamms 25 en kærendur bendi á að bílskúrinn hafi verið notaður undir íbúð. Samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi Fífuhvamms 27 liggi bílskúr Fífuhvamms 25 alveg upp að lóðarmörkum lóðar kærenda og séu lóðamörk því ekki rétt á teikningu sem lögð hafi verið fram af hálfu leyfishafa, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2015. Sé þannig umsögn skipulags- og byggingardeildar um að viðbyggingin muni ekki ná að mörkum lóðar kærenda, augljóslega röng.

Á teikningu leyfishafa sem hafi verið grenndarkynnt sé ekki merkt handrið ofan á bílskúr. Hins vegar sé gróðurhúsið teiknað þannig að útgengt sé frá því til bæði norðurs og suðurs. Úr þessu virðist reynt að bæta með síðari teikningum en kærendum sé ekki kunnugt um að þær teikningar hafi farið í grenndarkynningu. Sú útfærsla sé í algjöru trássi við gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um handrið, en jafnframt vísist til gr. 6.5.4. í sömu reglugerð, þar sem komi fram að handrið veggsvala skuli vera minnst 1,1 m að hæð. Aukin hæð á vegg sem liggi að mörkum lóðar kærenda muni þrengja að fasteign þeirra, spilla útliti og auka skuggavarp. Í umsögn skipulags- og byggingardeildar segi að gert sé ráð fyrir 8,1 m2 gróðurhúsi sem standa muni um 3 m frá mörkum lóðar kærenda. Nú þegar sé byrjað að byggja gróðurhúsið og sé það einungis 1,8 m frá lóðarmörkum. Útsýnispallur eigi samkvæmt teikningum að vera úr hömruðu gleri og liggja alveg að lóðamörkum. Því sé klárlega um hækkun á mannvirki á lóðamörkum að ræða þrátt fyrir að öðru sé haldið fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar. Þetta hafi m.a. áhrif á ræktunarsvæði kærenda. Að lokum sé bent á að í gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð sé m.a. kveðið á um að staðsetning bygginga skuli vera þannig að sólar og skjóls njóti á sem heppilegastan hátt á leik- og dvalarstæðum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hin kærða ákvörðun feli í sér byggingu 8,1 m2 gróðurhúss á þaki bílskúrs á lóðinni Fífuhvammi 25. Um sé að ræða töluverða breytingu frá fyrri tillögu, þ.e. 56,8 m2 steinsteypta viðbyggingu sem hefði fyllt út í þakflöt bílskúrsins. Óveruleg grenndaráhrif fylgi gróðurhúsinu hvað varði skuggavarp, nánd, innsýn og útsýni. Gróðurhúsið muni standa 3 m frá mörkum lóðar kærenda auk þess sem teikningum hafi verið breytt til að koma til móts við athugasemdir kærenda. Sé nú gert ráð fyrir ógegnsæju gleri á þeim gafli gróðurhússins sem snúi að lóð kærenda. Jafnframt sé aðeins gert ráð fyrir útgengi frá gróðurhúsi út á svalir í norður til þess að lágmarka ónæði. Þá muni fyrirhugað handrið á svölum ekki takmarka útsýni frá lóð kærenda. Að lokinni breytingu verði nýtingar­hlutfall lóðarinnar 0,18, en það sé vel innan marka meðalnýtingarhlutfalls á svæðinu, sem sé 0,29. Loks sé að finna fordæmi fyrir byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs í götunni og falli breytingin því vel að götumynd.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að þegar bílskúr lóðar Fífuhvamms 25 hafi verið samþykktur hafi lóðamörk verið 40 cm austan við viðbygginguna, en síðar hafi Kópavogsbær breytt mörkunum án samþykkis leyfishafa. Gróðurhúsið hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda, hvorki varðandi skuggavarp né vegna annarra óþæginda sem kærendur vísi til. Austurhlið gróðurhússins verði ógegnsæ og þar að auki sé enginn gluggi á vesturhlið húss kærenda. Hvað sem líði legu lóðamarka sé ekkert í gildandi rétt sem girði fyrir að byggt sé á lóðamörkum ef gætt sé þeirra reglna sem gildi um brunavanir. Ekki sé lengur kveðið á um lágmarksfjarlægð húsa frá lóðamörkum í byggingarreglugerð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs um að veita byggingarleyfi fyrir 8,1 m2 gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25, en lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Í slíkum aðstæðum er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal þá fara fram grenndarkynning.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er Fífuhvammur 25 á svæði íbúðarbyggðar, merktu ÍB-2 Digranes. Kemur fram í aðalskipulaginu að þar sé nokkuð fastmótuð byggð en um sé að ræða þéttustu byggð Kópavogs með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli. Fer hið kærða leyfi því ekki í bága við landnotkun aðalskipulags. Þá verður ekki séð að 8,1 m2 gróðurhús á þaki bílskúrs fari í bága við byggðamynstur eða þéttleika byggðar. Eykst enda nýtingarhlutfall óverulega og við sömu götu er að finna gróðurhús, auk þess sem ámóta glerhýsi er að finna ofan á bílskúrum að Fífuhvammi 21 og að Fífuhvammi 31. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að grenndarkynna hina umþrættu umsókn. Var það og gert með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti, sbr. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Við þá kynningu komu kærendur að athugasemdum sínum og vegna þeirra lögðu leyfishafar fram uppfærða teikningu. Fólu breytingarnar í sér að ekki yrði lengur gert ráð fyrir að gengið yrði út á þak bílskúrsins frá gróðurhúsinu sunnan megin heldur einungis til norðurs, auk þess sem austurhlið gróðurhússins yrði úr ógegnsæju gleri til að takmarka innsýn yfir vestanverða lóð kærenda. Þá var gert ráð fyrir handriði úr hömruðu gleri á þakfleti bílskúrsins sem myndi afmarka svalaflöt á bílskúrsþakinu norðan megin. Kærendum voru kynntar uppfærðar teikningar í samræmi við gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og komu að athugasemdum, sem m.a. lutu að stærð fyrirhugaðra svala, yfirsýn yfir garð þeirra og að birtuskilyrði myndu versna með tilkomu svalahandriðs. Í kjölfarið tók skipulagsráð umsóknina til umfjöllunar þar sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda og uppfærðra teikninga.

Gróðurhús það sem um ræðir er úr gleri, það er lægra en íbúðarhús leyfishafa, ekki mikið að umfangi og nær einungis yfir lítinn hluta þakflatar bílskúrsins, sem er 56,8 m2. Þá var dregið úr grenndaráhrifum gagnvart lóð kærenda með áðurnefndum breytingum á teikningum. Þrátt fyrir að nýting þakflatar bílskúrs undir svalir sé óhefðbundin og til þess fallin að hafa áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna yfirsýnar yfir á næstu lóð, mun sú innsýn ekki aukast svo nokkru nemi yfir suður- og vesturhluta lóðar kærenda, þegar litið er til staðsetningar þess glugga sem áður var á austurhlið húss leyfishafa, þar sem nú er gengið inn í gróðurhúsið. Hins vegar verður aukin yfirsýn yfir bakgarð kærenda, sem vísar til norðurs, en sá hluti garðsins er minni. Úr þeim áhrifum er þó dregið með svalahandriði úr ógegnsæju gleri. Almennt má búast við að eitthvert ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og að mati úrskurðarnefndarinnar er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kærenda sem þeir hafa haldið fram ekki umfram það sem búast má við í þéttri byggð. Skuggavarp eykst ekki að marki vegna handriðsins, enda verður það úr hömruðu gleri sem hleypir birtu í gegn. Er því ekki hægt að líta svo á að grenndaráhrif vegna þess séu þau sömu og ef um steyptan vegg væri að ræða.

Að framangreindu virtu geta grenndaráhrif vegna þeirra framkvæmda sem heimilaðar eru með hinu kærða leyfi ekki talist slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli mega búast við. Þá liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á ákvörðuninni að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

112/2020 Borgarholtsbraut

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og í kjölfar þess var kæra málsins dregin til baka 21. apríl 2021.

Árið 2021, föstudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Ásgeir Magnússon dómstóri tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa fjórbýlishús að Borgarholtsbraut 39 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2020, er barst nefndinni 9. nóvember s.á., kærir eigandi, Borgarholtsbraut 40, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogs frá 21. september 2020 að samþykkja leyfi til að reisa fjórbýlishús á lóðinni nr. 39 við Borgarholtsbraut. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun um að samþykkja byggingu hússins verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um bætur með vísan til 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 10. desember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var lagt fram erindi lóðarhafa Borgarholts­brautar 39 um leyfi til að rífa 185,4 m² timburhús og reisa fjórbýlishús með sex bílastæðum á lóðinni. Samkvæmt erindinu var gert ráð fyrir að heildarbyggingarmagn yrði 605 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,18 í 0,78. Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Borgarholtsbrautar 37, 38, 40, 41 og 42  sem og Melgerðis 20, 22, 24 og 26 í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar m.a. frá kæranda máls þessa. Að lokinni grenndarkynningu veitti skipulags- og byggingardeild umsögn, dags. 31. mars 2020, um framkomnar athugasemdir og taldi m.a. að fyrirhuguð breyting væri ekki fyllilega í samræmi við rammaákvæði aðalskipulags Kópavogs hvað varðaði byggingarmagn á lóð og legu og form byggingarreits. Einnig væri óhjákvæmilegt að nýbygging á lóðinni myndi hafa áhrif á útsýni frá Borgarholtsbraut 40. Þá hefði nokkuð verið um svipaðar breytingar á Borgarholtsbraut og mætti þar nefna Borgarholtsbraut 48 og 67.

Hinn 21. september 2020 var á fundi skipulagsráðs lögð fram og samþykkt breytt tillaga vegna Borgarholtsbrautar 39. Einnig var lagt fram samþykki lóðarhafa Borgarholtsbrautar 37 og 41 fyrir umræddum breytingum og uppfærð umsögn skipulags- og byggingar­deildar, dags. 14. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að dregið hefði verið úr umfangi fyrirhugaðrar nýbyggingar. Heildarbyggingarmagn yrði 465 m² í stað 605 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,60. Bílastæðum yrði fækkað um eitt og eystri hluti byggingarinnar færður 3,6 m nær Borgarholtsbraut. Dregið yrði úr umfangi suðurhluta nýbyggingar og fjarlægð frá lóðar­mörkum í suður yrði 10,6 til 13,0 m. Aðkomu að fyrirhugaðri byggingu hefði verið breytt og þakformi. Greind afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 13. október 2020. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. desember s.á. var samþykkt niðurrif húss og bílskúrs á lóðinni Borgarholtsbraut 39 og umsókn um byggingarleyfi fyrir fjórbýlishúsi á lóðinni.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að væntanleg nýbygging að Borgarholtsbraut 39 muni skerða útsýni frá fasteign hans að Borgarholtsbraut 40 til suðurs og að skuggi verði á palli við hús kæranda þegar sól sé lágt á lofti. Af þessum sökum muni verðmat eignarinnar rýrna.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að umrædd lóð sé á svæði þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag og hafi umsókn um byggingarleyfi verið kynnt í samræmi við gildandi lög og reglur. Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogsbæjar 2012-2024 heyri lóðin undir íbúðarbyggð, nánar tiltekið ÍB-1, Kársnes, sem lýst sé sem nokkuð fastmótaðri byggð en þó sé gert ráð fyrir fjölgun íbúða. Samræmist hin kærða ákvörðun megin­mark­miðum aðalskipulagsins um þéttingu byggðar með fjölbreyttum húsagerðum og góðri nýtingu á landi og landgæðum. Jafnframt sé nýtingarhlutfall innan skilgreindra marka í aðalskipulagi.

Við meðferð málsins hafi verið gerð húsakönnun þar sem farið hafi verið yfir sambærilegar breytingar sem gerðar hafi verið á svæðinu og séu þó nokkur fordæmi fyrir slíkum breytingum. Jafnframt hafi verið gerðar breytingar á teikningum eftir að athugasemdir hefðu borist á kynningartíma umsóknarinnar. Hafi breytt tillaga verið kynnt fyrir þeim er gert hefðu athugasemdir og hafi meirihluti aðila verið sáttur við breytinguna.

Hvað útsýnisskerðingu varði sé búið að draga töluvert úr umfangi fyrirhugaðrar byggingar. Geti íbúar ekki gert ráð fyrir því að skipulag og ásýnd gatna haldist óbreytt um ókomna tíð, þvert á móti, sérstaklega þar sem lögð sé áhersla á þéttingu byggðar í aðalskipulagi. Hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar sé í samræmi við hæð nærliggjandi húsa og sé hún ekki talin rýra götumynd.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi telur að rök kæranda haldi ekki. Ekki falli skuggi á pall kæranda, jafnvel ekki inn á lóð hans, á jafndægri 21. mars kl. 17:00. Þá sé útsýni ekki lögvarið á Íslandi.

Niðurstaða: Samþykki byggingarleyfis og útgáfa þess er í höndum byggingarfulltrúa, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Verður því litið svo á að í máli þessu sé kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2020 að veita byggingarleyfi fyrir fjórbýlishúsi á lóðinni nr. 39 við Borgarholtsbraut.

Fyrrgreind lóð er á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna, en samkvæmt ákvæðinu má veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar þegar um er að ræða framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Var hið umdeilda byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndar­kynningu samkvæmt heimild í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024 eru rammaákvæði, en um er að ræða almenn ákvæði sem gilda um þegar byggð hverfi. Þar segir að komi fram óskir um breytingar í núverandi byggð, hvort sem hún sé deiliskipulögð eða ekki, skuli liggja fyrir greinargerð með skýringarmyndum þar sem ítarlega sé greint frá mögulegum áhrifum breytingarinnar á þá byggð sem fyrir sé. Einkum skuli horft til hluta eins og hvernig breytingin falli að aðliggjandi byggð og yfirbragði hverfisins hvað varði stærð og hlutföll, umferð, bílastæðaþörf, útsýni og skuggamyndun. Þegar óskað sé eftir breytingum skv. 43. og 44. gr. skipulagslaga skuli byggingarmagn á lóð, hvort sem um sé að ræða nýbyggingu eða aukið nýtingarhlutfall á lóð, að jafnaði ekki vera hærra en meðaltalsnýtingarhlutfall nærliggjandi „húsa“, hæð húsa eða mannvirkja skuli að jafnaði ekki vera hærri en sú lína sem dregin sé milli þeirra húsa í götunni sem séu sitt hvoru megin við og lega og form byggingarreits skuli að jafnaði liggja innan línu sem dregin sé milli húsa sitt hvoru megin við.

Á lóðinni Borgarholtsbraut 39 mun hafa staðið 185,4 m² einbýlishús á einni hæð með risi ásamt bílskúr. Með hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir byggingu fjórbýlishúss á lóðinni á þremur hæðum. Í byggingarlýsingu segir að hæðarlega lóðarinnar miðist við að húsið gangi inn í landið og frá steyptum stoðveggjum við verandir taki við gras- og gróðurflái sem sé með hallanum 1:2. Risþak sé á húsinu og þakhalli 20°, heildarstærð hússins verði 462,9 m² og nýtingarhlutfall lóðar­innar 0,60. Til samanburðar má nefna að nýtingarhlutfall næstu lóða, þ.e. Borgarholts­brautar nr. 37 er 0,27 og lóðar nr. 41 er 0,58, en annars er nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða frá 0,34-0,47 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Nýtingarhlutfall grannlóða er því almennt töluvert lægra en nýtingarhlutfall lóðar byggingarleyfishafa yrði eftir umdeilda breytingu en áþekkt nýtingarhlutfalli lóðarinnar Borgarholtsbrautar 41.

Telja verður að með umþrættu byggingarleyfi sé vikið svo frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gerist á lóðum við umræddan hluta Borgarholtsbrautar að ekki hafi verið skilyrði til þess að grenndarkynna umsóknina, enda verður að telja að umdeild hækkun nýtingarhlutfalls hafi óhjákvæmilega talsverð áhrif á þéttleika byggðar og byggðamynstur. Þá verður ekki séð að tekið sé mið af áðurgreindum rammaákvæðum gildandi aðalskipulags um breytingar í þegar byggðum hverfum hvað nýtingarhlutfall varðar. Verður af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Hvað varðar kröfu kæranda um skaðabætur skv. 51. gr. skipulagslaga skal bent á að álitaefni þess efnis eiga ekki undir úrskurðarnefndina.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir fjórbýlishúsi á lóðinni nr. 39 við Borgarholtsbraut.

2/2021 Tunguvegur

Með

Árið 2021, föstudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar í Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Ásgeir Magnússon tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. desember 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa steinsteyptan bílskúr á lóðinni nr. 12 við Tunguveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. janúar 2021, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Rauðagerði 53, Rauðagerði 55 og Tunguvegi 10, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. desember 2020 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa steinsteyptan bílskúr á lóðinni nr. 12 við Tunguveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Að öðrum kosti er gerð krafa um að Reykjavíkurborg setji það skilyrði fyrir framkvæmdum að þær fari fram frá Tunguvegi og að svæðið verði afgirt frá Rauðagerði meðan á þeim standi og að aðkomu að Rauðagerði verði lokað. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir: Á lóðinni að Tunguvegi 12 stendur tveggja hæða steinsteypt tvíbýlishús, reist árið 1960, samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Ekki er í gildi deili­skipulag sem tekur til umræddrar lóðar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst 2020 var lögð fram umsókn um leyfi til að byggja 32,6 m² steinsteyptan bílskúr á umræddri lóð. Var afgreiðslu málsins frestað, en á fundi 1. september s.á. var málinu vísað til skipulags­fulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og ákvað hann á embættisafgreiðslufundi sínum 4. s. m. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Tunguvegi 10 og 14 og Rauðagerði 53 og 55. Stóð grenndarkynningin frá 21. september til og með 19. október 2020 og komu kærendur máls þessa á framfæri athugasemdum. Í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 30. október 2020, var lagt til að vegghæð bílskúrs yrði ekki hærri en 2,70 m, en að öðru leyti yrði umsókn samþykkt óbreytt. Hinn 11. nóvember 2020 samþykkti skipulags- og samgönguráð erindið með vísan til fyrrnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Tók byggingarfulltrúi umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi 8. desember s.á. og samþykkti hana. Var það skilyrði sett fyrir samþykkt umsóknarinnar að ný eignaskiptayfirlýsing yrði samþykkt fyrir útgáfu byggingar­leyfis og að henni yrði þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var samþykkt á fundi borgarráðs 7. janúar 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að við meðferð málsins hafi ekki verið virt ýmis ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, s.s. varðandi andmælarétt, rannsókn máls, jafnræði, meðalhóf og leiðbeiningarskyldu. Reykjavíkurborg hafi ekki viðhaft nægjanlega gagnrýna hugsun í störfum sínum og ekki gætt að hagsmunum allra aðila málsins. Hafi leyfishafi notið velvildar vegna starfa sinna og kunningsskapar innan borgarinnar. Málsmeðferð hafi ekki verið nægi­lega vönduð og skort hafi samráð við nágranna. Hefði það verið góð stjórnsýsla að senda íbúum annað bréf eða boða þá til fundar til að skoða möguleikann á samstarfi. Athugasemdum þeirra hafi í einhverjum tilfellum verið sleppt, þeim breytt eða ekki verið svarað efnislega. Ábending varðandi hæð bygginga hafi ekki verið meðal athugasemda sem skipulagsfulltrúi hafi tiltekið í umsögn sinni. Hafi borið að taka til skoðunar allar athugasemdir og óska eftir frekari rökstuðningi og gefa nágrönnum kost á andmælum. Ekki hafi verið tekið tillit til mikilvægra athugasemda um staðsetningu bílskúrsins, stærð hans, hæð, gerð, skuggavarp, gras á þaki bílskúrsins og staðsetningu glugga á honum. Vegna legu byggingarinnar verði hægt að nýta óhindrað aðgengi frá Rauðagerði sem hafi í för með sér aukið ónæði. Hafi leyfishafi ekki farið leynt með að til standi að leigja bílskúrinn út sem íbúð.

Í þinglýstum gögnum sé gerð krafa um ákveðna legu bílskúrs á lóðinni en hinn umdeildi bílskúr sé öðruvísi að lögun, hærri og stærri og staðsettur á öðrum stað en gert sé ráð fyrir. Bendi lögun hans og gerð til þess að verið sé að þétta byggð og að verið sé að stytta sér leið í því ferli sem borgin hafi hafið í þéttingu byggðar. Sé umræddur bílskúr hvorki í samræmi við samþykkta bílskúra við götuna né þinglýst skipulag og kvaðir sem settar hafi verið. Ekki hafi verið hægt að samþykkja leyfi fyrir byggingu umrædds bílskúrs með því að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi heldur hafi þurft að breyta skipulagsáætlunum. Er þess óskað að nefndin skoði þinglýst mæliblað Reykjavíkurborgar og kvöð sem sett hafi verið um legu bílskúrs.

Umræddur bílskúr sé of hár, en bílskúr að Tunguvegi 10 sé 2,5 m að hæð og liggi lóð Tunguvegar 12 hærra. Falli bílskúrinn ekki inn í götumyndina og þyrfti að vera innar á lóðinni til samræmis við þinglýstar heimildir. Gluggi sem snúi að Rauðagerði sé óþarfur og sam­ræmist ekki götumynd. Eðlilegra væri að gluggar sneru að lóð og garði Tunguvegar 12. Hægt hafi verið að koma til móts við kærendur að Rauðagerði og setja frekar þakglugga. Gras á þaki sé ekki í samræmi við neinar byggingar í hverfinu.

Fram komi í skýrslu Minjastofnunar Íslands frá árinu 2014 að mikilvægt sé að tryggja heildstæða vernd á yfirbragði hverfisins og standa vörð um byggðina en ekki liggi fyrir hvort tekið hafi verið tillit til þessara atriða við meðferð málsins. Þá sé óskað álits úrskurðar­nefndarinnar um kvaðir er varði t.a.m. aðgengi á milli lóða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að gluggi á norður­hlið umrædds bílskúrs snúi að göngustíg en ekki inn á lóð Rauðagerðis 53 og hafi ekki áhrif á götumynd. Í samþykktum aðaluppdráttum frá 1966 sé teiknaður sams konar bílskúr og sá sem deilt sé um, eða L-laga bílskúr. Hæðir bílskúra þurfi að miðast við nauðsynlega hæð innkeyrsludyra, burðarviki og þakfrágang. Þak bílskúrsins sé flatt, líkt og á öðrum bílskúrum við Tunguveg. Gras á þakinu muni ekki hafa teljandi áhrif á ásýnd eða heildarútlit götunnar og sé ekkert sem komi í veg fyrir slíkt fyrirkomulag. Vegghæð bílskúrsins sé í samræmi við það sem almennt sé og því ekki um háan bílskúr að ræða. Meðferð byggingarleyfis­umsóknarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við málsmeðferðarreglur skipulagslaga nr. 123/2010.

Ekki sé aðkoma að Tunguvegi 12 frá Rauðagerði nema um göngustíg og ekki sé heimilt að nýta hann til aðkomu eða framkvæmda og uppdrættir sýni ekki aðkomu frá Rauðagerði. Almennt séu byggingarreitir stakstæðra bílageymslna með úthliðar í lóðarmörkum og sé það í fullu samræmi við byggðamynstur Tunguvegar. Slíkt sé þó alltaf skoðað út frá aðstæðum. Ekki standi til að breyta eða bæta við aðgengi frá Rauðagerði, ekki sé um breytta notkun að ræða á lóðinni og ekki sé verið að fjölga íbúðum. Ekkert liggi fyrir um nauðsyn þess að lóðin verði afgirt meðan á framkvæmdum standi en það sé ekki á valdi úrskurðarnefndarinnar að ákveða það. Fullyrðingum um að málinu hafi verið hagrætt í þágu umsækjanda sé alfarið vísað á bug enda hafi kærendur ekki fært fram rök því til stuðnings.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi hefur upplýst úrskurðarnefndina um að stefnt sé að því að framkvæmdir hefjist í mars 2021, en hann hefur að öðru leyti ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Tunguvegi 12. Ekki mun vera í gildi deili­skipulag sem tekur til lóðarinnar og voru hin umdeildu byggingaráform samþykkt að undan­genginni grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði má veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar þegar um er að ræða framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Lóðin Tunguvegur 12 er á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og er svæðið að mestu fullbyggt og fastmótað. Á lóðinni stendur steinsteypt 210,8 m² tvíbýlishús og fól hin kærða ákvörðun í sér heimild til að byggja á lóðinni 32,6 m² bílskúr  með 2,70 m vegghæð og torfþaki. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er lóðin 471 m², líkt og lóðirnar Tunguvegur 8, 10 og 14 og eru hús á þeim lóðum frá 152 til 220,2 m² að stærð. Á lóðinni Tunguvegi 8 er 40,6 m² bílskúr og á lóðunum Tunguvegi 10 og 14 eru bílskúrar 28 m² að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá. Mun hæð bílskúrs að Tunguvegi 10 vera 2,50 m en hæð bílskúrs að Tunguvegi 14 vera 2,65 m samkvæmt gögnum frá kærendum. Standa bílskúrarnir á baklóðum við suður- og austurmörk þeirra. Fram kemur á samþykktum aðaluppdráttum fyrir bílskúr að Tunguvegi 12 að bílskúrinn sé staðsettur við suður- og austurmörk lóðarinnar, að lóðamörkum Tunguvegar 10 og Rauðagerðis 55, og er hann L-laga. Verður þak bílskúrsins flatt. Víkur stærð og hæð skúrsins ekki að marki frá öðrum bílskúrum á fyrrnefndum grannlóðum og er staðsetning hans innan lóðar í samræmi við staðsetningu annarra bílskúra á svæðinu. Með hliðsjón af framangreindu voru skilyrði fyrir grenndarkynningu umræddrar umsóknar uppfyllt.

Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir leyfisumsókn fyrir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Komu kærendur að athugasemdum og tók skipulags-fulltrúi afstöðu til framkominna athugasemda í samræmi við gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því lögum samkvæmt.

Eins og fyrr er getið er staðsetning, hæð og flatarmál umdeilds bílskúrs í samræmi við það sem gerist og gengur á svæðinu og hefur því svipuð grenndaráhrif og bílskúrar þeir sem fyrir eru á grannlóðum hvað skuggavarp varðar. Er hæð bílskúrsins og umfang ekki meira en almennt gerist með tilliti til nútímakrafna um lofthæð, einangrun þaks og frágang þess. Þá verður ekki séð að innsýn yfir á næstu lóðir frá lóð leyfishafa aukist frá því sem nú er þótt gluggi verði á norðurhlið skúrsins sem snýr að Rauðagerði. Eldvarnareftirlit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins yfirfór hina grenndarkynntu umsókn og gerði ekki athuga­semdir við staðsetningu bílskúrsins með tilliti til sambrunahættu, sbr. gr. 9.7.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012.

Hinn 23. september 2020 var þinglýst lóðarleigusamningi milli Reykjavíkurborgar og lóðar­hafa Tunguvegar 12 um lóðina er kveður m.a. á um kvaðir á henni. Ákvarðar sá samningur réttarstöðu greindra aðila, en það er ekki annarra að leiða rétt sinn af honum.

Rétt þykir að benda á vegna athugasemda kærenda er varða framkvæmdir við bílskúrinn að byggingarstjóra og iðnmeisturum er skylt samkvæmt gr. 4.11.3. í byggingarreglugerð að sjá um að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stafi af fram­kvæmdum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. desember 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa steinsteyptan bílskúr á lóðinni nr. 12 við Tunguveg.

101/2020 Gissurargata

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2020 um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skorsteins og þakglugga á húsinu nr. 4 við Gissurargötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Haukdælabraut 1, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2020 að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skorsteins og þakglugga á húsinu nr. 4 við Gissurargötu. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að hvorki verði leyfður skorsteinn né tveir þakgluggakúplar á húsinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. desember 2020.

Málavextir: Á árinu 2018 var samþykkt byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með innbyggðri bílageymslu á lóð nr. 4 við Gissurargötu og í kjölfarið var gefið út byggingarleyfi. Í janúar 2020 sendi annar kærenda máls þessa tölvupóst til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar þar sem gerðar voru athugasemdir við framkvæmdir á þaki hússins. Í kjölfarið áttu sér stað töluverð tölvupóstsamskipti milli umrædds kæranda og borgarinnar þar sem kærandi áréttaði þá beiðni sína að mannvirki á þaki hússins, þ.e. skorsteinn og þak­gluggar, yrðu fjarlægð en þau færu upp fyrir hámarksvegghæð hússins samkvæmt skilmálum í deiliskipulagi fyrir umrædda lóð.

Barst kæranda tölvupóstur frá Reykjavíkurborg 12. október 2020 þar sem eftirfarandi var tilkynnt: „Vísað er í tölvupóst þinn, dags. 15. september, varðandi hæð húss við Gissurargötu 4. Á aðaluppdráttum sem samþykktir voru 12. nóvember 2019 er gert ráð fyrir strompi og útstæðum þakkanti og þakgluggum. Rætt hefur verið við byggingarstjóra og aðalhönnuð framkvæmdarinnar, og hafa þeir staðfest að húsið er byggt eftir útgefnu hæðarblaði, deili­skipulagi og samþykktum uppdráttum. Embætti byggingarfulltrúa mun ekki aðhafast frekar í málinu.“ Í bréfinu var jafnframt vakin athygli á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir hafi verið í samskiptum við ýmsa starfsmenn Reykjavíkurborgar vegna Gissurargötu 4 frá því í janúar 2020, en ekki hafi verið tilefni til að bera málið undir úrskurðarnefndina fyrr en endanleg afstaða byggingarfulltrúa um að aðhafast ekkert frekar í málinu hafi legið fyrir.

Fyrrnefnd lóð sé fyrir neðan lóð kærenda til norðurs. Samkvæmt deiliskipulagi fyrir umrætt hverfi gildi um lóðina Gissurargötu 4 sérákvæði um húsagerð E-llA. Þar komi skýrt fram að hámarksvegghæð húss með flötu þaki megi ekki vera meiri en 7,0 m yfir kóta aðkomuhæðar, sem samkvæmt hæðarblaði sé 70,0 m á umræddri lóð. Hámarkshæð hússins eigi því að vera í kóta 77,0 m. Hvorki sé að finna sérákvæði í greindum skilmálum um skorsteina og reykpípur né að heimilt sé að fara yfir umrædda hámarkshæð. Samkvæmt samþykktum teikningum fyrir húsið að Gissurargötu 4 hafi verið gefið leyfi til að steypa upp veggi þess í hæðarkóta 77,80 m í formi risa skorsteins og komi hattur þar ofan á sem verði líklega um 0,20 m til viðbótar. Breiðari hlið þessa mannvirkis snúi að húsi kærenda. Einnig sé búið að leyfa tvo þakglugga­kúpla sem nái um 0,40 m upp fyrir þessa hámarkshæð. Ekki hafi verið heimilt að veita leyfi fyrir þessu. Hafi kærendur hvorki fengið upplýst hjá Reykjavíkurborg á hvaða forsendum þetta sé leyft né fengið frekari gögn er þetta varði.

Hús kærenda sé með stofu- og eldhúsgluggana gólfsíða til norðurs og sé útsýni niður Úlfarsársdal, yfir byggðina og til fjalla. Hæðarkóti gólfsins sé 76,1 m án gólfefna og augnhæð því um 77,5 m þegar staðið sé á gólfinu. Fengist hafi leyfi til að hækka gólfkóta aðal­hæðarinnar um 0,20 m en með því móti sé hægt að sjá yfir allt þegar setið sé í stofu og í eldhúsi/borðstofu. Gissurargata 4 hafi átt að vera í hámarkshæðinni 77,0 m eða sem nemi u.þ.b. 0,90 m hærri en gólfkóti í húsi kærenda. Búið sé að skerða útsýni kærenda verulega.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en ella að kröfum kærenda verði hafnað. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem og sam­kvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið liðinn þegar kæran barst nefndinni. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt 28. ágúst 2018 og síðari breyting um hækkun þakkantsins 14. maí 2019.

Á upphaflegum uppdráttum frá 2018 hafi verið gert ráð fyrir strompi, útstæðum þakkanti og þakglugga. Grundvöllurinn fyrir því að byggingarfulltrúi hafi tekið þá ákvörðun að aðhafast ekkert í málinu hafi verið vegna þess að byggingarleyfið hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og önnur gögn sem lögð hafi verið fram við samþykkt byggingarleyfisins. Gild­andi deiliskipulag fyrir Gissurargötu 4 hafi verið gert í tíð eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 og hafi ekki verið gerð krafa um það í reglugerðinni að skorsteinar væru tilgreindir í deiliskipulagi. Sé hvergi tekið fram að tilgreina þurfi skorstein sérstaklega í deiliskipulagi og komi þeir skýrt fram í gögnum með umsókn um byggingarleyfi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærendum hafi mátt vera kunnugt um það strax í öndverðu og eigi síðar en 7. maí 2020 að framkvæmdir leyfishafa væru að öllu leyti í samræmi við útgefið byggingarleyfi og framlagðar teikningar, sbr. tölvupóst þeirra frá þeim degi. Þeim hafi því mátt vera ljóst að krafa þeirra um að tilteknir byggingarhlutar á fasteign leyfishafa yrðu fjarlægðir næði ekki fram að ganga nema þeir myndu krefjast ógildingar á byggingarleyfinu með því að kæra útgáfu þess. Hefði slík kæra þurft að berast úrskurðar­nefndinni innan 30 daga frá útgáfu leyfisins eða innan 30 daga frá því að kærendum hafi orðið kunnugt um útgáfu þess, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar sem kæran hafi ekki borist innan fyrrgreindra tímamarka skuli hún sæta frávísun.

Tilkynning byggingarfulltrúa um að ekki sé ástæða til að aðhafast í málinu sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og geti því ekki sætt kæru. Þegar af þeirri ástæðu geti kærufrestur ekki byrjað að líða frá þeim tíma þegar kærendur hafi móttekið umrætt svar né verði afstaða byggingarstjóra kærð. Engu skipti þótt byggingar­fulltrúi hafi vísað til þess að „ákvörðunin“ sé kæranleg, heldur ráðist slíkt af ákvæðum laga. Þá geti byggingarfulltrúi ekki veitt kærendum aukinn rétt á kostnað leyfishafa sem átti þar að auki ekki aðild að málinu. Kærendur hafi aldrei gert kröfu um að byggingarleyfið yrði fellt úr gildi. Engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin í málinu sem lotið hafi að ógildingu byggingarleyfisins og geti gildi þess því ekki komið til úrlausnar hjá nefndinni. Það leiði jafnframt til þess að kröfu um að tilteknir byggingarhlutar verði fjarlægðir verði að vísa frá nefndinni eða hafna.

Allar framkvæmdir leyfishafa hafi verið lögmætar og í samræmi við útgefið byggingarleyfi og skilmála í útgefnu hæðarblaði borgarinnar. Hinn umdeildi skorsteinn sé 80 cm yfir hæðarkóta sem tilgreindur sé í deiliskipulagi og þakgluggar um 30-40 cm yfir hæðarkóta. Skorsteinninn sé 165 cm á breidd og 80 cm á hæð samkvæmt samþykktum teikningum. Heildarflatarmál hans sé 1,32 m² en fyrirferð þakglugganna sé miklu mun minni og þeir að auki úr gegnsæju gleri. Hækkun á gólfplötu efri hæðar húss kærenda um 20 cm dragi úr meintum óþægindum sem verði vegna skorsteinsins og þakglugganna.

Hæðarkóti í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði taki ekki til skorsteins og því sé ekki um að ræða brot á skilmálum þess. Reglur geri ráð fyrir að skorsteinn sé 80 cm yfir þakplötu. Sé kærendum kunnugt um það að Reykjavíkurborg hafi um árabil heimilað skorsteina sem nái upp fyrir hæðarkóta. Í umræddu hverfi sé fjöldi mannvirkja með skorsteina sem nái upp fyrir hæðarkóta, t.d. Gissurargata 2 og 3. Í deiliskipulaginu sé sérstaklega tekið fram að mesta hæð á þaki sé tiltekin í skilmálum skipulagsins og að útfærsla húsgerða sé frjáls að öðru leyti en því sem mæliblöð, hæðarblöð og skilmálar segi til um. Hvorki skorsteinn né þakgluggar falli undir hæð á þaki og því geti hæð þeirra ekki talist brot á skilmálum skipulagsins.

Stærð eða lögun skorsteins og þakglugga geti hvorki talist hafa áhrif á rétt kærenda né geti raskað gæðum mannvirkis þeirra. Þá eigi ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við í máli þessu, sbr. gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Um sé að ræða óverulegt frávik frá skipulagi og hafi hagmunir kærenda í engu skerst og þá ekki síst í ljósi hækkunar gólfplötu í húsi þeirra. Umræddur skorsteinn sé í 18 m fjarlægð frá glugga kærenda og nánast í beinni sjónlínu. Séu 90 gráður fram og upp til himins og 180 gráður til hliðanna. Sjónsviðið svari til ¼ úr hring (kúlu). Flatarmál þessa ¼ úr kúlu í 18 m fjarlægð sé u.þ.b. 1018 m². Flatarmál skorsteins sem „skyggi“ á útsýni sé 1,2 m². Af þessu leiði að miðað við 18 m radíus sé skerðingin u.þ.b. 0,1 %.

Kærendur hafi fengið samþykki fyrir skorsteini sem sé verulega yfir hæðarkóta, eða 160 cm yfir þakkanti. Þeir hafi því þekkt framkvæmd og túlkun Reykjavíkurborgar á skilmálum deiliskipulagsins og ekki bara sætt sig við það heldur hagnýtt sér. Þá hafi þeir reist skorstein utan við byggingarreit lóðar sinnar sem hafi veruleg áhrif gagnvart leyfishafa þar sem umræddur byggingarhluti snúi að lóð hans. Jafnframt hafi kærendur þekkt vel til þess reglu­verks sem um ræði, en annar kærenda sé menntaður byggingartæknifræðingur með meira en 30 ára reynslu af byggingarframkvæmdum og mannvirkjagerð.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að gr. 5.3.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé ætlað að tryggja að hámarksvegghæð gildandi deiliskipulags sé virt. Það sé lágmarkskrafa að það sé tilgreint í skipulagsskilmálum viðkomandi lóðar ef heimilt sé að fara upp fyrir hámarksvegghæð með steypta skorsteina eða tæknirými. Svari borgin engu varðandi þakgluggakúplana.

Verið sé að klóra yfir það að embætti byggingarfulltrúa hafi gefið út leyfi 14. maí 2019 sem ekki hafi staðist hæðartakmarkanir á viðkomandi lóð. Spurt sé hvernig kærendur hafi átt að átta sig á því í janúar 2020 að skortsteininn væri yfir mörkunum þegar ekki liggi enn ljóst fyrir hvað megi gera. Þá hafi kærandi sá sem leyfishafi telji að hafi yfirgripsmikla þekkingu á regluverki á þessu sviði engin réttindi til að leggja inn arkitektateikningar. Hafi kærendur lagt til að málið yrði leyst á mjög einfaldan hátt með reykröri í stað steypts skorsteins. Rangt sé að reistur hafi verið skorsteinn á hús kærenda. Tilvitnanir í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð eigi ekki við. Sleppt sé útreikningum vegna þakgluggakúpla sem séu með fjórföldu kúptu plasti hver gluggi eða samtals 8 lög og ekki sé hægt að sjá í gegnum þá.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er kveðið á um að sé byggingar­framkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki verði fjarlægt. Er afgreiðsla byggingarfulltrúa um beitingu greinds úrræðis ákvörðun sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og felur í sér hvort leggja eigi skyldur á tiltekinn aðila. Verður slíkri íþyngjandi ákvörðun því eftir atvikum skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 59. gr. laga nr. 160/2010. Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa á erindi kærenda vegna skorsteins og glugga á þaki hússins að Gissurargötu 4 var tilkynnt öðrum kærenda í tölvupósti 12. október 2020. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 15. s.m. eða innan lögmælts kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, er mælir fyrir um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuðir frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Er því ekki til að dreifa ástæðum í máli þessu sem leiða eigi til frávísunar kæru­málsins.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða skv. 55. gr. laga nr. 160/2010 er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkja­lögum að eðlilegt sé að beiting þeirra sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstaklinga enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af greindum almannahagsmunum.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa að aðhafast ekki frekar vegna umdeildra framkvæmda var studd þeim rökum að á aðaluppdráttum sem samþykktir hefðu verið 12. nóvember 2019 væri gert ráð fyrir strompi, útstæðum þakkanti og þakgluggum. Jafnframt sagði svo: „Rætt hefur verið við byggingarstjóra og aðalhönnuð framkvæmdarinnar, og hafa þeir staðfest að húsið er byggt eftir útgefnu hæðarblaði, deiliskipulagi og samþykktum uppdráttum. Embætti byggingarfulltrúa mun ekki aðhafast frekar í málinu.“

Lóðin Gissurargata 4 er á svæði þar sem er í gildi deiliskipulag Reynisvatnsáss. Samkvæmt greinargerð þess er gert ráð fyrir 106 íbúðum á svæðinu í rað-, keðju- og einbýlishúsum og er um að ræða lágreista, einnar til tveggja hæða sérbýlishúsabyggð. Útfærsla húsagerða er frjáls að öðru leyti en því sem mæliblöð, hæðarblöð og skilmálar segja til um. Sýna hæðarblöð hæðir við lóðamörk (G) og eru hæðartölur (H) leiðbeinandi fyrir aðalhæð. Er og tekið fram að mesta hæð á þaki (H.M.) sé gefin í skilmálunum. Um lóð Gissurargötu 4 gilda sérákvæði E-llA, en um er ræða tveggja hæða einbýlishús sunnan og vestan götu. Þar kemur fram að land sé hækkandi til suðurs eða vesturs. Tvær hæðir séu að götu en ein að garði. Um hæð húsa er tekið fram að ef hús sé með hallandi þaki, sé hámarksmænishæð þess (H.M.) 7,5 m yfir (H) kóta aðkomuhæðar. Ef hús sé með flötu þaki sé hámarksvegghæð þess (H.V.) 7,0 m yfir (H) kóta aðkomuhæðar. Ekki er getið um skorsteina eða þakglugga í skilmálum deiliskipulagsins.

Deiliskipulag Reynisvatnsáss tók gildi 22. október 2007 í tíð eldri skipulags- og byggingar­laga nr. 73/1997 sem og eldri reglugerða um skipulags- og byggingarmál. Í gr. 5.4.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir að skipulagsskilmálar skuli eftir því sem svæðið gefi tilefni til koma fram á skipulagsuppdrætti og kveða m.a. á um hæðarlegu og hámarkshæð bygginga. Einnig skuli þeir eftir atvikum gera grein fyrir öðrum atriðum eftir aðstæðum hverju sinni, s.s. þrengri skilgreiningu landnotkunar, á einstökum reitum, lóðum, byggingum eða byggingarhlutum, þakformi, mænishæð og -stefnu o.fl. Í núgildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er hins vegar kveðið á um í gr. 5.3.2.1. að í deiliskipulagi skuli gefa upp hæð bygginga í metrum frá yfirborði botnplötu 1. hæðar og tilgreina hvað sé hámarksvegghæð eða meðalvegghæð og hvað sé hámarkshæð á þaki og öðrum byggingar­hlutum sem ná upp fyrir vegg, svo sem skorsteinum og tæknirýmum.

Við gildistöku umrædds deiliskipulags var eins og áður greinir kveðið á um það í skipulags­reglugerð að í skilmálum deiliskipulags skyldi m.a. kveðið á um hámarkshæð bygginga. Af þessu verður ráðið að ekki hafi verið unnt að reisa byggingarhluta upp fyrir tilgreinda hámarkshæð húss nema að fyrir lægju sérstakar heimildir til þess í skipulagi. Svo sem rakið hefur verið er hámarksvegghæð hússins að Gissurargötu 4 samkvæmt gildandi deiliskipulagi 7,0 m en þar er ekki að finna heimildir eða skilmála um byggingarhluta sem færu upp fyrir nefnda hámarkshæð. Er því ekki að finna heimild fyrir umdeildum skorsteini og þakglugga í gildandi deiliskipulagi. Hin kærða ákvörðun var hins vegar studd þeim rökum að umdeildar framkvæmdir ættu stoð í deiliskipulagi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar haldinn þeim annmörkum að ógildingu varðar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2020 um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skorsteins og þakglugga á húsinu nr. 4 við Gissurargötu í Reykjavík.

89/2020 Sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd

Með

Árið 2021, föstudaginn 26. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2020, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 4. september 2020 um veitingu rekstrarleyfis fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á regnbogasilungi með 5.300 tonna hámarkslífmassa við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi,  eigandi hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi, Veiðifélag Laxár á Ásum og Akurholt ehf. og Geiteyri ehf., sem eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 4. september 2020 að veita Arctic Sea Farm hf. rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á regnbogasilungi með 5.300 tonna hámarkslífmassa við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 30. nóvember 2020.

Málavextir: Hinn 30. maí 2012 veitti Fiskistofa rekstrarleyfi til handa Dýrfiski ehf., sem nú heitir Arctic Sea Farm hf., fyrir 200 tonna ársframleiðslu á laxi og regnbogasilungi í sjókvíum við Snæfjallaströnd í Ísfjarðardjúpi, en engin starfsemi fór fram á grundvelli leyfisins. Í desember 2013 tilkynnti leyfishafi Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framleiðsluaukningu þar sem áætlað var að hámarksframleiðsla yrði 4.000 tonn á ársgrundvelli, að heildarframleiðsla yfir þriggja ára tímabil yrði 6.700 tonn og að slátrað yrði allt að 7.000 tonnum. Í greinargerð sem fylgdi tilkynningu kom jafnframt fram að hámarkslífmassi yrði 5.300 tonn. Hinn 6. mars 2014 tók Skipulagsstofnun ákvörðun um að framleiðsluaukningin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar var hafnað með úrskurði uppkveðnum 14. júlí 2015 í kærumáli nr. 22/2014.

Í apríl 2015 veitti Umhverfisstofnun leyfishafa starfsleyfi til framleiðslu á allt að 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd. Hinn 1. september 2016 sótti leyfishafi um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi við Snæfjallaströnd. Kom fram í umsókninni að árlegt framleiðslumagn yrði 4.000 tonn í kynslóðaskiptu eldi og að heildarslátrun á þriggja ára tímabili yrði um 12.000 tonn. Tillaga að umræddu rekstrarleyfi var auglýst á vef Matvælastofnunar 22. maí 2020 og bárust stofnuninni athugasemdir frá kærendum vegna tillögu að leyfi. Hinn 4. september s.á. gaf stofnunin út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á regnbogasilungi með 5.300 tonna hámarkslífmassa. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur telja sig eiga mikilla hagsmuna að gæta að ekki sé stefnt í hættu lífríki Haffjarðarár, Hvannadalsár, Langadalsár, Þverár og Laxár á Ásum og hinum villtu lax- og silungastofnum ánna, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og mengun frá erlendum og framandi regnbogasilungi, sem enginn mótmæli að muni sleppa í meira og minna mæli úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Stórfelld saur- og fóðurleifamengun verði í nágrenni eldiskvíanna.

Rekstrarleyfi Matvælastofnunar varði allt aðra framkvæmd en þá sem fjallað hafi verið um í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. mars 2014. Sú ákvörðun hafi varðað 6.700 tonna framleiðslu á þremur árum, að meðaltali 2.250 tonn á ári, og 4.000 tonna hámarksframleiðslu á einu ári. Hin kærða ákvörðun varði 5.300 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma eða allt að 15.900 tonna heildarlífmassa á þremur árum. Skipulagsstofnun hafi aldrei fjallað um þessi framleiðsluáform, en slíkt sé andstætt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Um það vísist til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 9. janúar 2020 í málum nr. 3 og 4/2019.

Hvergi í málsmeðferð vegna umræddrar framleiðsluaukningar í eldi regnbogasilungs hafi verið rannsakaðir og bornir saman þeir aðrir valkostir sem til greina komi varðandi framkvæmdina, s.s. eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaður núllvalkostur, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Þetta varði undirbúning rekstrarleyfisins sem hafi verið á ábyrgð Matvælastofnunar og varði ógildingu þess. Um afleiðingar þessa verulega annmarka leyfisins vísist til úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 3, 4, 5 og 6/2018.

Bráðabirgðaákvæði II. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi gildi í málinu, sbr. ákvæði 24. gr. b. (II.) breytingalaga nr. 101/2019, en þau hafi tekið gildi 18. júlí 2019. Samkvæmt ákvæðinu fari meðferð og afgreiðsla umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi eftir nýrri ákvæðum laga nr. 71/2008, m.a. þar sem frummatsskýrslu hafi ekki verið skilað fyrir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins og málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 hafi ekki verið lokið fyrir gildistöku þess. Meðferð og afgreiðsla umsóknarinnar fari því eftir nýjum ákvæðum í 4. gr. a. laga nr. 71/2008. Útgáfa rekstrarleyfisins sé því með öllu óheimil þar sem hún sé bæði andstæð nefndum ákvæðum laga nr. 106/2000 og laga nr. 71/2008.

Reynslan hér á landi, í Noregi og víðar sýni að eldisfiskur sleppi ávallt úr sjókvíum og ferðist langar leiðir í hafinu áður en hann gangi upp í veiðiár. Kort um dreifingu strokufisks úr regnbogasilungseldi á Vestfjörðum árið 2016 sýni glöggt hvernig strokufiskurinn hafi dreift sér í veiðiár um allt land. Strokufiskur geti borið með sér laxalús og sjúkdómasmit í villta laxfiskastofna. Alþekkt sé að aðeins örfáir eldisfiskar af erlendri og framandi tegund, sem veiðist í lax- eða silungsveiðiá, eyðileggi samstundis ímynd hreinnar og ómengaðrar náttúru og þar með eignaréttindi annarra.

Matvælastofnun hafi haldið því sjónarmiði á lofti að með setningu laga um fiskeldi hafi verið tekin sú pólitíska ákvörðun að leyfa fiskeldi í sjókvíum hérlendis. Það sé rétt að lögin geri ráð fyrir fiskeldi í sjókvíum sem möguleika, en af þessari staðreynd megi ekki draga of víðtækar ályktanir. Ekki megi gleyma að önnur pólitísk ákvörðun hafi verið tekin við setningu laganna sem samkvæmt berum orðum þeirra sé rétthærri, þ.e. að vernda villta fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra skuli ekki stefnt í hættu, sbr. 1. gr. laga nr. 71/2008. Í athugasemdum við greinina í greinargerð frumvarps þess sem hafi orðið að þeim lögum segi að þegar ekki fari saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eigi samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar þeirra sem fjallað sé sérstaklega um í frumvarpinu víki hinar síðarnefndu. Ekkert leyfi til fiskeldis megi gefa út nema sýnt sé fram á með óyggjandi hætti að með því sé ekki farið gegn þessum grundvallarreglum. Leyfishafi hafi ekki sýnt fram á að framkvæmdin samrýmist 1. gr. laganna, en enginn sem komi að eldi í sjókvíum dragi í efa að eldisfiskur strjúki eða sleppi í meira eða minna mæli úr opnu sjókvíaeldi og geti skaðað villta fiskstofna.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Um skilyrði fyrir kæruaðild fari skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eigendur Haffjarðarár í Hnappadal á Snæfellsnesi hafi ekki sýnt fram á að hagsmunum þeirra stafi hætta af sjókvíaeldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Hið sama eigi við um Veiðifélag Laxár á Ásum, en áin renni í Húnaflóa. Úrskurðarnefndin hafi áður fjallað um kæruaðild þessara aðila í máli nr. 5/2017 varðandi kröfu um ógildingu starfsleyfis í Ísafjarðardjúpi og í máli nr. 97/2016 þar sem kröfu félaganna um ógildingu rekstrarleyfis fiskeldis í Arnarfirði hafi verið vísað frá nefndinni með vísan til þess að þeir hefðu ekki hagsmuna að gæta umfram þá hagsmuni sem almenna megi telja og hafi úrskurðarnefndin slegið því föstu að slíkir hagsmunir nægi ekki einir og sér til kæruaðildar að málum fyrir nefndinni, sbr. einnig úrskurð í máli nr. 20/2018. Þar sem sjókvíaeldi leyfishafa í þessu máli sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 njóti Náttúruverndarsamtök Íslands og náttúruverndarfélagið Laxinn lifi ekki kæruaðildar á grundvelli undanþáguákvæðis 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá uppfylli eigandi að hluta jarðar innst í Ísafjarðardjúpi ekki heldur skilyrði nefndar 3. mgr. 4. gr., enda hafi ekki verið sýnt fram á að hann eigi sem slíkur lögvarða hagsmuni tengda útgáfu rekstrarleyfisins. Aðilar hafi heldur ekki sýnt fram á hvaða lögmætu hagsmuni hver og einn eða allir í sameiningu hafi af úrlausn kærumálsins. Rétt sé að vekja athygli á mati Hafrannsóknastofnunar á burðarþoli eldissvæðisins og að við eldið sé notaður regnbogasilungur af hrygnustofni. Samkvæmt greinargerð Veiðimálastofnunar til Skipulagsstofnunar frá 28. maí 2008 hafi regnbogasilungur ekki náð að fjölga sér hér á landi, enda ekki til náttúrulegur stofn á Íslandi. Því sé ekki hætta á að regnbogasilungur í eldi valdi hættu á erfðablöndun. Áhrif sjókvíaeldis með regnbogasilungi séu þannig afturkræf.

Í kjölfar málsmeðferðar samkvæmt lögum nr. 106/2000 hafi leyfishafi sótt um rekstrarleyfi 1. september 2016 til Matvælastofnunar fyrir 4.000 tonna framleiðslu af regnbogasilungi við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi. Með umsókninni hafi fylgt afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum auk upplýsinga í samræmi við fyrirmæli 8. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Jafnframt hafi legið fyrir útgefið starfsleyfi Umhverfisstofnunar frá 1. apríl 2015 sem hafi heimilað félaginu að framleiða á eldissvæðinu allt að 4.000 tonn á ári af regnbogasilungi og að lífmassi á hverjum tíma skyldi ekki vera meiri en 5.300 tonn. Við skoðun á umsókninni hafi Matvælastofnun talið vera ósamræmi milli umsóknarinnar og tilkynningarinnar sem send hafi verið Skipulagsstofnun. Samkvæmt tilkynningunni hafi fyrirhugað eldi verið 7.000 tonna framleiðsla á þriggja ára tímabili en umsóknin fæli í sér 12.000 tonna framleiðslu. Hafi leyfishafi síðar fallist á breytta framsetningu umsóknarinnar. Í kjölfarið hafi breytingar verið gerðar á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. breytingalög nr. 101/2019, þar sem kveðið sé á um að í rekstrarleyfi skuli vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa, en lífmassi skv. 3. gr. laganna sé skilgreindur sem margfeldi af fjölda og meðalþyngd eldisdýra á tilteknu eldissvæði. Hafi málsmeðferð stofnunarinnar tekið mið af þeim breytingum. Þá hafi verið gerð frekari athugasemdir við ósamræmi umsóknarinnar og tilkynningar til Skipulagsstofnunar sem varði fjölda eldissvæða. Hafi verið óskað eftir nýrri eldisáætlun sem myndi gera ráð fyrir einni eldisstaðsetningu og hafi leyfishafi orðið við þeirri beiðni. Matvælastofnun hafi tekið afstöðu til umsóknarinnar sem lýst sé í greinargerð með rekstrarleyfinu.

Í 10. gr. laga nr. 71/2008 og 19. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi, sem fjalli um efni rekstrarleyfis, komi fram að í rekstrarleyfi skuli vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa. Í þeim tilvikum þar sem ekki sé mögulegt að mæla nákvæmlega lífmassa megi með heimild Matvælastofnunar styðjast við reiknilíkan við mat á lífmassa þannig að sem nákvæmust niðurstaða fáist. Í 25. gr. reglugerðarinnar segi að Matvælastofnun skuli endurskoða rekstrarleyfi þannig að leyfilegur hámarkslífmassi sé tilgreindur í leyfinu. Stofnunin skuli tryggja við slíka endurskoðun að samræmis sé gætt við hámarksframleiðslumagn gildandi rekstrarleyfa að öðru óbreyttu. Þessi framkvæmd sé í samræmi við önnur ákvæði laganna og reglugerðarinnar. Í samræmi við framangreind ákvæði hafi stofnunin gefið út rekstrarleyfi þar sem stærð eldisins sé mælt í leyfilegum lífmassa og skuli hann ekki vera meiri en 5.300 tonn á hverjum tíma. Í rekstrarleyfinu sé einungis kveðið á um stærð fiskeldisstöðvarinnar í leyfilegum lífmassa þrátt fyrir að tilkynning um fyrirhugaða framleiðsluaukningu og umsókn rekstrarleyfisins hafi bæði tilgreint framleiðslumagn og lífmassa, en leyfilegur lífmassi leyfisins sé í samræmi við niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 6. mars 2014.

Ályktun kærenda um 15.900 tonna heildarlífmassa á þremur árum sé sett fram með villandi hætti, enda ekki hægt að leggja saman hámarks lífmassa fyrir þrjú ár. Fyrir liggi að heildarlífmassi muni aldrei fara yfir 5.300 tonn. Við upphaf útsetningar á seiðum sé hann um 240 tonn og nái hámarki á sama tíma og slátrun hefjist, en þá nái hann 5.274 tonnum. Lífmassinn verði þannig innan þeirra marka sem gengið hafi verið út frá í tilkynningu leyfishafa til Skipulagsstofnunar.

Sá munur sé á framlagðri framleiðsluáætlun til Skipulagsstofnunar og þeirri sem lögð hafi verið fram til Matvælastofnunar að í stað þess að slátrun hefjist 18 mánuðum eftir að seiði séu sett í sjó og að slátrað verði næstu 12 mánuði eftir það, þá hefjist slátrun 16 mánuðum eftir útsetningu og ljúki 6 mánuðum síðar. Síðan sé svæðið hvílt í a.m.k. 90 daga samkvæmt ákvæðum í reglugerð og þá hefjist ferillinn að nýju. Eftir sem áður sé mesta framleiðsla hvers árs nokkurn veginn sú sama og ársframleiðslan að meðaltali innan við 4.000 tonn á ári í báðum tilvikum. Að framangreindu virtu telji stofnunin að framkvæmdin samkvæmt rekstrarleyfinu sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd til Skipulagsstofnunar.

Líkt og rakið hafi verið hafi Skipulagsstofnun tekið þá ákvörðun 6. mars 2014 að framkvæmdin væri ekki matsskyld og hafi sú ákvörðun verið staðfest af úrskurðarnefndinni í máli nr. 22/2014 með úrskurði kveðnum upp 14. júlí 2015. Málsmeðferðin hafi verið í samræmi við lög nr. 106/2000. Þar sem mat á umhverfisáhrifum hafi ekki farið fram sé hvorki skylda til að rannsaka og bera saman valkosti né að láta meðferð og afgreiðslu umsóknarinnar fara eftir 4. gr. a. laga nr. 71/2008.

Í gögnum málsins komi fram lýsingar á aðgerðum leyfishafa til að draga úr hættu á sjúkdómum, s.s. með kynslóðaskiptu eldi, samstarfi við önnur eldisfyrirtæki um útsetningu og framkvæmd eldisins, bólusetningu þar sem það eigi við, að halda þéttleika eldisins undir 10 kg fyrir hvern rúmmetra, viðhafa fjarlægð milli kvía til að tryggja súrefnisstreymi og minnka ofauðgun undir þeim og hanna verkferla þannig að hætta verði lágmörkuð á að smit berist milli eldissvæða. Jafnframt verði lögð áhersla á velferð enda veiki stress og súrefnisskortur mótstöðuafl eldisfisks. Þá segi í gögnunum að laxalús geti smitast frá villtum laxi í sjó og frá öðrum eldisstöðvum, en að regnbogasilungur virðist minna móttækilegur fyrir slíku smiti og sé lúsin minna vandamál hjá þeirri tegund en laxi. Fylgst verði náið með lús til að meta mögulega hættu á að hún nái sér á strik.

Í 9. gr. laga nr. 71/2008 segi að við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skuli Matvælastofnun leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunni að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar. Skuli stofnunin hafna umsókn ef þetta mat bendi til þess að fyrirhugað eldi feli í sér umtalsverða hættu á útbreiðslu sjúkdóma eða hafi umtalsverð óæskileg áhrif á vistkerfi, sbr. 9. mgr. 10. gr. laganna. Matvælastofnun hafi fjallað um þetta álitaefni í greinargerð sinni með rekstrarleyfinu. Þar komi fram að náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu eldissvæði, sú eldistegund sem notast verði við og þær eldisaðferðir sem notaðar verði gefi ekki tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa. Rekstrarleyfi geri ráð fyrir kynslóðaskiptu eldi þar sem ein kynslóð sé alin upp á svæðinu og svæðið síðan hvílt á milli.

Gera þurfi skýran greinarmun á áhrifum sjúkdómasmits á villta laxfiskastofna eftir eðli sjúkdómsvalda. Það geti reynst villandi að tengja saman áhættu af völdum örvera annars vegar, s.s. veira og baktería, og sníkjudýra hins vegar, s.s. laxalúsar. Þá sé einnig skýr munur á því hvort fjallað sé um dulið smit eða klínískan sjúkdóm. Reynslan hafi sýnt að smit af völdum baktería eða veira hvorki skaði né ógni villtum laxfiskastofnum. Ekki sé óalgengt að dulið og náttúrulegt smit örvera sé til staðar í villtum stofnum án þess að sjúkdóms verði nokkurn tíma vart með klínískum einkennum. Þetta eigi sérstaklega við um sjúkdóma af völdum veira. Þekktir veirusjúkdómar sem geti komið upp við eldisaðstæður í regnbogasilungi og þorski, á borð við blóðþorra (ISA), brisdrep (IPN), brisveiki (PD), taugadrep (VNN) og veirublæði (VHS), hafi ekki sést í klínískri mynd í náttúrulegu umhverfi, jafnvel þó vitað sé að veirusmit leynist í hjörðinni. Það sama sé hægt að segja um nýrnaveiki af völdum bakteríunnar Renibacterium salmoninarum, en klínísk nýrnaveiki og afföll hafi ekki sést við náttúruleg skilyrði.

Í fáeinum tilvikum hafi bakteríusýkingar komið upp og valdið tímabundnum búsifjum í ám. Megi vísa til kýlaveikinnar sem komið hafi upp í Elliðaánum síðla sumars 1995. Þess megi geta að kýlaveiki af völdum Aeromonas salmonicida hafi aldrei komið upp í íslensku fiskeldi og á sínum tíma hafi þótt ljóst að smit í Elliðaárnar hafi borist með villtum laxi frá fæðustöðvum í hafi. Slíkir viðburðir séu einnig þekktir erlendis, en þessi tilfelli eigi það sameiginlegt að þau séu tímabundin og afturkræf. Áhætta af dreifingu mögulegra sjúkdómsvalda, annarra en laxalúsar, úr eldisfiski í villtan fisks sé hverfandi lítil. Eðli málsins samkvæmt sé það fyrst og fremst eldisfiskurinn sjálfur sem sé í mestri hættu, ekki ólíkt og í öðrum hjarðbúskap þar sem einstaklingum sé haldið á afmörkuðu svæði.

Áhrif laxalúsasmita á villta laxfiska séu að öllu jöfnu ekki mikil. Helst sé hætta á neikvæðum áhrifum á heilbrigði og velferð villtra laxfiska þegar seiði gangi í sjó að vori, en verulega dragi úr áhrifum með aukinni fjarlægð laxeldiskvía frá útgöngustöðvum seiða. Miðað við staðsetningar á hinu kærða eldi sé hætta á lúsasmiti í villta stofna hverfandi.

Búnaður sem notaður verði við eldið verði samkvæmt staðlinum NS 9415:2009. Með notkun slíks búnaðar sé tryggt að hann standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó, en það samræmist markmiðum laga um fiskeldi með því að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Einnig beri að nefna að leyfishafi muni notast við hrygnustofn, en það séu hrygnur sem geti myndað hrogn en séu kynbættar á þann hátt að kynþroski sé síðbúinn. Ítrekað sé að regnbogasilungur hafi ekki náð að fjölga sér hér á landi enda ekki til náttúrulegur stofn á Íslandi. Engin hætta sé á erfðablöndun vegna stroks auk þess sem eldissvæði uppfylli ákvæði reglugerðar um nálægð eldis frá laxveiðiám.

Þrátt fyrir að fiskeldi geti haft í för með sér ákveðna áhættu hafi verið tekin sú pólitíska ákvörðun að leyfa fiskeldi í sjó hérlendis. Jafnframt hafi í löggjöf verið tekið tillit til sjónarmiða til að takmarka þá áhættu sem kunni að stafa af fiskeldi. Sett hafi verið lög um fiskeldi en markmið þeirra sé að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Við framkvæmd þeirra skuli leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Til að ná markmiðum löggjafarinnar skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd við sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Þá sé í lögunum kveðið á um leyfisskyldu, eftirlit og úrræði til að bregðast við frávikum við rekstrarleyfi og ákvæði laga og reglugerða. Jafnframt sé kveðið á um umhverfissjóð en hann hafi það markmið að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Í sjóðinn greiði rekstrarleyfishafar og sé honum ætlað að greiða kostnað við rannsóknir, vöktun og önnur verkefni sem stjórn ákveði. Í 2. mgr. 1. gr. laganna sé sérstaklega kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Þá hafi stjórnvöld á grundvelli áhættu af fiskeldi friðað tiltekin svæði sem séu í nágrenni mikilvægra svæða til að vernda villta stofna laxfiska, sjá auglýsingu nr. 460/2004. Vestfirðir, þ.m.t. Ísafjarðardjúp, og Austurland falli utan þessara friðunarsvæða samkvæmt auglýsingunni.

Stofnunin telji vísindalega þekkingu ekki skorta um áhrif framkvæmdarinnar. Ekki hafi því verið fyrir hendi ástæður fyrir synjun á útgáfu leyfisins eða sjónarmið um að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu alvarleg eða óafturkræf. Þá ítreki stofnunin að útgáfa rekstrarleyfisins stefni villtum fiskstofnum og sjálfbærri nýtingu þeirra ekki í hættu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi telur kærendur ekki eiga lögvarða hagsmuni að kærumálinu og beri að vísa því frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Taki leyfishafi undir sjónarmið Matvælastofnunar varðandi aðild Náttúruverndarsamtaka Íslands og náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi, en bendi einnig á að í máli nr. 8/2018 hjá úrskurðarnefndinni hafi náttúruverndarsamtök ekki verið talin eiga kæruaðild í máli sem hafi varðað útgáfu rekstrarleyfis vegna framkvæmdar sem ekki var háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt sé krafa um frávísun vegna aðildar Veiðifélags Laxár á Ásum og eigenda Haffjarðarár byggð á sömu sjónarmiðum og Matvælastofnun geri en ennfremur sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 1/2020 þar sem staðfest hafi verið að veiðifélög ættu ekki lögvarða hagsmuni vegna stjórnvaldsákvörðunar sambærilegri hinni kærðu ákvörðun. Segi í dóminum að hagsmunir tengdir nýtingu laxveiðihlunninda tilheyri ekki veiðifélögum sem mönnum sé skylt að hafa með sér á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði heldur sé rétturinn í höndum félagsmanna þeirra þar sem eignarlandi fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Með vísan til dómsins eigi eigandi að hluta jarðar innst í Ísafjarðardjúpi ekki heldur lögvarða hagsmuni í málinu. Réttur til aðildar vegna hagsmuna tengdum nýtingu laxveiðihlunninda sé í höndum félagsmanna þar sem veiðiréttur lax- og silungsveiði fylgi eignarlandi, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um lax- og silungsveiði. Einsýnt sé að rétturinn sé bundinn við þá fasteign sem sé eigandi lands að vatnsfalli en ekki einstaka minnihluta eiganda fasteignar. Í kæru sé gerð grein fyrir því að eigandi að hluta jarðar innst í Ísafjarðardjúpi sé veiðirétthafi sem einn af sex sameigendum jarðarinnar Rauðumýrar í Strandabyggð. Því sé hann ekki félagsmaður í skilningi nefndrar 1. mgr. 37. gr. laganna og eigi þar af leiðandi ekki lögvarða hagsmuni skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í tilkynningu leyfishafa til Skipulagsstofnunar, dags. 20. desember 2013, komi fram fyrirhuguð áform um stækkun eldisins í 4.000 tonna ársframleiðslu á regnbogasilungi, eða sem nemi 5.300 tonna hámarkslífmassa. Það sama komi fram í starfsleyfinu sem gefið hafi verið út 1. apríl 2015 og því sé ekki um „allt aðra og nýja framkvæmd“ að ræða. Gerð hafi verið breyting á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi með lögum nr. 101/2019 þar sem lífmassi hafi verið skilgreindur, en samkvæmt skilgreiningunni sé lífmassi margfeldi af fjölda og meðalþyngd eldisdýra á tilteknu eldissvæði í sjó eða landeldi, sbr. 22. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um fiskeldi. Í kjölfar þess sé almennt ekki lengur fjallað um heildarframleiðslu á slátruðum fiski, eins og byggt sé á í ákvörðun Skipulagsstofnunar, en þess í stað sé miðað við hámarkslífmassa.

Skylda til að rannsaka og bera saman valkosti eigi við í þeim tilvikum þegar framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæðið sé hluti af umfjöllun um frummatsskýrslu og eigi því ekki við í þessu máli. Röksemdir kærenda þar að lútandi séu haldlausar.

Hinn 20. júní 2019 hafi lög nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi verið samþykkt á Alþingi, en lögin hafi tekið gildi 19. júlí s.á. Breytingalögin hafi m.a. falið í sér breytta tilhögun við útgáfu rekstrarleyfa sjókvíaeldis laxfiska og að tillögur Hafrannsóknastofnunar um áhættumat erfðablöndunar, ásamt útgefnu burðarþoli svæða, skuli vera bindandi við ákvörðun um leyfilegt magn á hverjum stað. Sé þannig horfið frá eldra fyrirkomulagi við veitingu rekstrarleyfa en þess í stað tekið upp kerfi sem geri ráð fyrir að eldissvæðum sé úthlutað eftir opinbera auglýsingu og á grundvelli hagstæðasta tilboðs. Sé málsmeðferð við veitingu rekstrarleyfa því mismunandi eftir því hvort hún fylgi nýju lögunum eða þeim eldri. Í bráðabirgðaákvæði II. breytingalaganna sé að finna lagaskilareglu. Í ákvæðinu komi fram að umsóknir, sem ekki hafi hlotið málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum eða frummatsskýrslu hafi ekki verið skilað fyrir gildistöku ákvæðisins til Skipulagsstofnunar, falli niður og sé þá viðkomandi eldissvæðum úthlutað á grundvelli útboðs, sbr. 4. gr. a. laga um fiskeldi. Í þessu máli hafi málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 lokið 6. mars 2014, en sú ákvörðun hafi verið staðfest með úrskurði nefndarinnar 14. júlí 2015 í máli nr. 22/2014. Tilvísun kærenda til þess að frummatsskýrslu hafi ekki verið skilað fyrir gildistöku bráðabirgðaákvæðis hafi því enga þýðingu, enda aðeins þörf á að skila frummatsskýrslu þegar framkvæmdaraðila beri að vinna skýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum sem Skipulagsstofnun auglýsi til kynningar.

Leyfishafi vísi til sömu sjónarmiða og Matvælastofnun varðandi málsrök kærenda um lúsafár, sjúkdómasmit og strokufiska. Vegna fullyrðinga kærenda um strok fiska sé bent á að fá dæmi séu um að eldisfiskur veiðist í íslenskum ám. Á síðustu þremur árum hafi 15 laxfiskar með uppruna úr fiskeldi í sjó hjá tilteknu fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum verið greindir í vöktun Hafrannsóknastofnunar. Sníkjudýr séu vöktuð í eldiskvíum með áherslu á bæði laxalús og fiskilús. Þegar hitastig leyfi séu eldisfiskar athugaðir í hverri viku samkvæmt reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi og niðurstöður sendar til Matvælastofnunar ásamt því að vera aðgengilegar á heimasíðu leyfishafa. Einnig séu hrognkelsi nýtt í kvíum en þau éti lýs af eldisfiskum og hafi nýst vel sem mótvægisaðgerð gegn lúsasmiti. Innan raða leyfishafa sé mikil þekking á eldi og velferðarmálum laxa og regnbogasilungs í vestfirskum sjó. Hafi sú reynsla sýnt að lúsasmit á regnbogasilungi hafi reynst mun minni en á laxi. Sú reynsla sé staðfest með gögnum um talningu lúsa á eldisfiskum á heimasíðu Matvælastofnunar.

Tekið sé undir það sjónarmið kærenda að við meðferð umsókna um leyfi til fiskeldis beri að taka mið af grundvallarreglum laga nr. 71/2008, þ. á m. að gæta skuli þess að sem minnst röskun verði á vistkerfum villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í raun sýni málsmeðferð rekstrarleyfisins að vandað hafi verið til verka og að markmið laganna hafi verið uppfyllt.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að Matvælastofnun hafi gefið út hið kærða rekstrarleyfi sem falli undir 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum án þess að gæta fyrirmæla 13. gr. sömu laga og þar með brotið með athafnaleysi sínu gegn þátttökurétti almennings sem þar sé tryggður. Hin leyfða framkvæmd sé önnur en sú sem tilkynnt hafi verið til Skipulagsstofnunar 13. desember 2013 og matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar 6. mars 2014 hafi varðað. Kæran falli skýrlega undir kæruheimild þá sem mælt sé fyrir um í d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, eins og það ákvæði beri að túlka með hliðsjón af ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/92/ESB frá 13. desember 2011 og rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA frá 4. maí 2016. Uppfylli Náttúruverndarsamtök Íslands og náttúruverndarfélagið Laxinn lifi því skilyrði 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, enda lúti kæra þeirra að því að brotið hafi verið gegn þátttökurétti almennings með fyrrgreindu athafnaleysi. Sama eigi við varðandi kæruaðild eigenda Haffjarðarár, Veiðifélags Laxár á Ásum og eiganda hluta veiðiréttar í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá. Vísist einnig til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 27. september 2018 í máli nr. 5/2018 varðandi aðild þeirra á grundvelli lögvarinna hagsmuna.

Í tilkynningu leyfishafa til Skipulagsstofnunar hafi verið skýrlega tekið fram að ráðgerð heildarframleiðsla yfir þriggja ára tímabil yrði 6.700 tonn. Þá hafi verið lagt til grundvallar að fyrirhugað eldissvæði skyldi hvílt í a.m.k. 6 mánuði milli kynslóða. Engar takmarkanir af þessum toga sé að finna í hinu kærða leyfi. Þvert á móti sé leyfishafa þar heimilaður rekstur fiskeldisstöðvar með allt að 5.300 tonna lífmassa á hverjum tíma án ofangreindra takmarkana í 16 ár. Þá sé út frá því gengið í leyfinu að um hvíldartíma fari samkvæmt ákvæðum reglugerðar þar sem einungis sé gert ráð fyrir 90 daga lágmarkshvíldartíma. Áherslu beri að leggja á í þessu sambandi að tilgreindur 6 mánaða lágmarkshvíldartími hafi verið meðal forsenda ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar og sérstaklega vísað til hans sem mótvægisaðgerðar sem væri til þess fallin að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Enginn vafi sé þannig um að hið útgefna leyfi víki verulega frá þeim forsendum sem stofnunin hafi lagt til grundvallar mati sínu.

Framkvæmdaraðili verði að bera hallann af því ef lýsing hans á framkvæmd, sem lögð hafi verið til grundvallar þeim farvegi sem umsókn hans um framkvæmdaleyfi hafi verið lögð í af hálfu stjórnvalda, reynist síðar ófullnægjandi. Vafa um það, hvort umsókn um leyfi til framkvæmda sem kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér rúmist innan lýsingar sem lögð hafi verið til grundvallar ákvörðun um matsskyldu, verði jafnframt að skýra í ljósi varúðarreglu 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Hvorki náttúran né almenningur eigi að bera hallann af slíkum vafa. Mat á umhverfisáhrifum feli ekki í sér bann við framkvæmd heldur aðeins áskilnað um að umhverfisáhrif framkvæmdar skuli könnuð með viðhlítandi hætti áður en hún hefjist. Rekstrarleyfið hafi því verið gefið út án þess að Matvælastofnun hafi sinnt athafnaskyldu sinni samkvæmt 13. gr. laga nr. 106/2000 um að tryggja að fyrir lægi álit Skipulagsstofnunar eða ákvörðun hennar um matsskyldu í samræmi við þá framkvæmd sem leyfið taki til.

Framangreint brot gegn ákvæðum laga nr. 106/2000 hafi einnig í för með sér að hið útgefna leyfi sé reist á röngum lagagrundvelli samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. ákvæði II. til bráðabirgða við þau lög. Þar með talið án þess að gætt væri að ákvæði 4. gr. a. og leyfið gefið út án þess að lagt hafi verið mat á það af hálfu Matvælastofnunar hvernig framkvæmdin horfi við efnisákvæðum fiskeldislaga, þ. á m. með tilliti til smithættu og annarra áhrifa á villta laxfiskastofna, annað hvort á grundvelli neikvæðrar matsskylduákvörðunar Skipulags­stofnunar um þá framkvæmd eða á grundvelli álits stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Málsmeðferð Matvælastofnunar hafi að þessu leyti einnig verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt umsögn Matvælastofnunar eigi ákvæði 4. gr. a. laga um fiskeldi ekki við í málinu þar sem matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar hafi verið tekin 6. mars 2014 fyrir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019. Hins vegar hafi verið byggt á því í umsögn Matvælastofnunar að 6.700 tonna hámarksframleiðsla yfir þrjú ár, sem lögð hafi verið til grundvallar sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, eigi ekki við um útgáfu rekstrarleyfisins vegna þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á 10. gr. laga um fiskeldi með nefndum breytingalögum. Matvælastofnun telji þannig að breytingar sem gerðar hafi verið á lögum um fiskeldi eigi bæði við og ekki við um meðferð og afgreiðslu hinnar kærðu ákvörðunar. Ákvörðunin sé að þessu leyti reist á þverstæðu og þar með röngum lagagrundvelli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 4. september 2020 að gefa út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á regnbogasilungi með 5.300 tonna hámarkslífmassa við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Eins og fram kemur í kæru eru kærendur annars vegar náttúruverndarsamtök og hins vegar Veiðifélag Laxár á Ásum auk þeirra sem telja til veiðiréttar, ýmist í heild eða að hluta, í Hvannadalsá, Langadalsá og Þverá í innanverðu Ísafjarðardjúpi og í Haffjarðará í Hnappadal.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hags­muna að gæta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. þegar um er að ræða ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr., og athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda sem lúta að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. d-lið nefndrar málsgreinar.

Svo sem rakið var í málavöxtum komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu 6. mars 2014 að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, en kröfu um ógildingu hennar var hafnað með úrskurði kveðnum upp 14. júlí 2015 í kærumáli nr. 22/2014. Hefur þeirri niðurstöðu ekki verið hnekkt af dómstólum. Hið kærða rekstrarleyfi tekur mið af 5.300 tonna hámarkslífmassa en matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar fjallar um 4.000 tonna ársframleiðslu. Í tilkynningu leyfishafa til stofnunarinnar vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar kom hins vegar fram að hámarkslífmassi yrði 5.300 tonn. Verður að telja ljóst að um sömu framkvæmd sé að ræða og í ljósi þess að fyrir lá ákvörðun um að hún væri ekki matsskyld verður ekki séð að Matvælastofnun hafi brotið gegn 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum með því að gefa út umdeilt leyfi, enda var almenningi kynnt matsskylduákvörðunin. Eru því hvorki uppfyllt skilyrði b- né d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður náttúruverndarsamtökunum ekki játuð kæruaðild að málinu á grundvelli þeirra.

Um veiðifélög gilda ákvæði VI. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi í því skyni að markmiðum laganna skv. 1. gr. verði náð, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, en þau markmið eru m.a. að kveða á um skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Verður að teknu tilliti til þessa við það að miða að veiðifélög geti átt aðild að kærumálum, svo fremi sem skilyrði kæruaðildar eru að öðru leyti uppfyllt. Við mat á því hvort Veiðifélag Laxár á Ásum og veiðiréttarhafar uppfylli skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um lögvarða hagsmuni verður að meta hagsmuni og tengsl þeirra kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra og sérstakra hagsmuna að gæta. Almennt verður að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Telja framangreindir kærendur sig eiga mikilla hagsmuna að gæta af því að ekki verði stefnt í hættu lífríki viðkomandi veiðiáa sem og hinum villtu lax- og silungsstofnum þeirra, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og mengun frá erlendum og framandi regnbogasilungi auk þess sem stórfelld saur- og fóðurleifamengun verði í nágrenni eldiskvíanna. Laxá á Ásum er laxveiðiá í Austur-Húnavatnssýslu sem rennur í Húnavatn og síðan um Húnaós í Húnaflóa. Haffjarðará er í Hnappadal á Snæfellsnesi og rennur laxveiðiáin til sjávar á sunnanverðu nesinu. Sjókvíaeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er með leyfinu heimilað eldi á regnbogasilungi en sá stofn hefur ekki náð að tímgast hér á landi og veldur því ekki áhættu á erfðablöndun. Með hliðsjón af því og vegna fjarlægðar ánna frá umræddu eldi verða veiðifélag og eigendur umræddra áa ekki taldir hafa hagsmuna að gæta umfram þá hagsmuni sem almenna má telja. Þar sem á þykir skorta að greindir kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kröfum þeirra vísað frá úrskurðarnefndinni. Aðrar ár þær sem um ræðir eru í innanverðu Ísafjarðardjúpi og verður að játa þeim kæranda sem þar á veiðirétt kæruaðild vegna nándar við fyrirhugað eldi, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er hann einn eigenda Rauðumýrar og eru hlunnindi í Langadalsá einn matshluti þeirrar fasteignar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er markmið laganna að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnun og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Taka lögin tillit til þeirrar hættu er stafað getur af erfðablöndun og slysasleppingum og eru í því skyni settar reglur til að ekki verði röskun á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra verði ekki stefnt í hættu, sbr. t.d. 6. gr. laganna um staðbundið bann við starfsemi, 13. gr. um veiðar fisks sem sleppur og bótareglur 2. og 3. mgr. 18. gr. laganna. Að því virtu hefur löggjafinn beinlínis gert ráð fyrir að umrædd starfsemi geti haft áhrif á umhverfi sitt, en allt að einu gert ráð fyrir því að hún sé heimiluð, að teknu tilliti til þeirra takmarkana og skilyrða sem lög og reglugerðir áskilja.

Kærandi hefur m.a. vísað til þess að eldisfiskur sleppi ávallt úr sjókvíum og að strokufiskur geti borið með sér laxalús og sjúkdómasmit í villta laxfiskastofna. Í matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar vegna umþrættrar framkvæmdar var sem fyrr segir komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið. Kemur þar jafnframt fram um fisksjúkdóma að ætla megi að aukinn lífmassi á svæðinu muni auka líkur á því að sjúkdómar valdi tjóni. Gripið verði til tilgreindra aðgerða til að draga úr hættu á að sjúkdómar valdi áföllum eða berist út í umhverfið, t.d. að hver kynslóð verði alin aðskilin í sérhverjum firði, að samstarf verði við önnur eldisfyrirtæki í sama firði um hvíldartíma og framkvæmd eldis og að fylgt verði ráðleggingum yfirdýralæknis fisksjúkdóma um bólusetningu seiða. Þá kemur fram að regnbogasilungur virðist minna móttækilegur fyrir smiti á laxalús og almennt sé vandamálið minna hjá þeirri tegund en laxi. Um áhrif á laxfisk segir að regnbogasilungur geti ekki lifað og fjölgað sér í íslenskri náttúru. Ekki þekkist að regnbogasilungur hafi myndað náttúrulegan stofn þrátt fyrir að eldi á þessari tegund hafi verið stundað hér á landi í meira en hálfa öld. Í greinargerð Matvælastofnunar með hinu kærða rekstrarleyfi er síðan vísað til þess að við útgáfu leyfisins noti stofnunin burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar sem takmarki lífmassa í fiskeldi fyrir tiltekin svæði vegna lífræns álags. Að teknu tilliti þess sem að framan er rakið verður ekki talið að útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi brotið í bága við fyrrgreint markmið laga nr. 71/2008.

Í tilkynningu leyfishafa 20. desember 2013 til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða framleiðsluaukningu kemur fram að ráðgert sé að hvíla eldissvæðið í a.m.k. 6 mánuði að lokinni slátrun. Þá er vísað til þess í greinargerð tilkynningarinnar að almennt sé talið að þriggja mánaða hvíldartími sé nægur til að tryggja að lúsasmit berist ekki milli kynslóða en eftir því sem hitastigið sé lægra og þroskunarhraði lúsarinnar hægari þurfi hvíldartími að vera lengri. Hvíld svæða sé einnig mikilvæg til að botndýralíf undir eldiskvíum verði ekki fyrir langvarandi röskun og til að tryggja endurnýjun á botndýrafánu. Í niðurstöðu matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar er bent á að fyrirhugað 4.000 tonna eldi sé nálægt 10% af áætluðu heildarburðarþoli Ísafjarðardjúps á einungis einu eldissvæði, sem hljóti að auka staðbundið álag. Því megi búast við uppsöfnun lífrænna leifa og þar með staðbundnum neikvæðum áhrifum á botndýralíf á eldissvæðinu. Með fyrirhugaðri hvíld svæðisins, sem lýst sé í gögnum framkvæmdaraðila, megi draga úr neikvæðum áhrifum á botndýralíf og auka líkur á afturkræfni áhrifanna.

Leyfihafi sótti um hið kærða rekstrarleyfi 1. september 2016 en í umsókninni er hvíldartími ekki tilgreindur nákvæmlega. Í janúar 2020 sendi leyfishafi Matvælastofnun framleiðsluáætlun til fimm ára og kemur þar fram að gert verði ráð fyrir einu eldissvæði með að lágmarki þriggja mánaða hvíldartíma. Er greint frá því að á umsóknartíma hafi þekkingar verið aflað um umhverfisáhrif á eldissvæðum og sé tekið mið af því, straumum og botnssvæði verði að teljast ólíklegt að þörf sé á lengri hvíldartíma en þeim sem getið sé á um í lögum. Í greinargerð er fylgdi hinu kærða rekstraleyfi kemur fram að við fyrirhugaða framkvæmd sé gert ráð fyrir að eldissvæðið verði hvílt samkvæmt ákvæðum reglugerðar um fiskeldi. Samkvæmt 46. gr. reglugerðar nr. 540/2020 skal sjókvíaeldissvæði vera hvílt í a.m.k. 90 daga þegar eldi og slátrun hverrar kynslóðar lýkur. Liggur því fyrir að sá lágmarkshvíldartími sem hið kærða rekstrarleyfi mælir fyrir um er ekki í samræmi við þá sex mánaða hvíld sem gert var ráð fyrir í matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Telja kærendur að með því víki rekstrarleyfið verulega frá þeirri forsendu ákvörðunarinnar.

Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf bæði starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar, sbr. 4. gr. a. laga nr. 71/2008. Málsmeðferð vegna veitingar rekstrarleyfis fer eftir ákvæðum nefndra laga, en meðal markmiða þeirra er sem fyrr segir að gæta að því að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Starfsleyfi er hins vegar gefið út á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en meðal markmiða þeirra laga er að koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið, sbr. 1. gr. laganna. Þegar kemur að veitingu leyfa fyrir fiskeldi hefur löggjafinn því kveðið á um málefnaleg valdmörk milli nefndra stofnana og eiga þau einnig við þegar veitt eru leyfi í kjölfar matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar. Í títtnefndri matsskylduákvörðun í máli þessu tekur umfjöllun um hvíld eldissvæðisins fyrst og fremst mið af áhrifum á botndýralíf. Í starfsleyfi leyfishafa, sem Umhverfisstofnun gaf út 1. apríl 2015, er hvíldartími eldissvæðisins þó ekki tilgreindur. Telja verður að full ástæða hafi verið til þess með hliðsjón af þeirri forsendu sem lá til grundvallar matsskylduákvörðunar, þ.e. að með þeirri hvíld sem lýst var í tilkynningu leyfishafa mætti draga úr neikvæðum áhrifum á botndýralíf, en lögmæti nefnds starfsleyfis er ekki til umfjöllunar í máli þessu. Fyrir liggur að í júní 2020 sendi leyfishafi Umhverfisstofnun drög að vöktunaráætlun í samræmi við skilyrði þess efnis í gildandi starfsleyfi. Í umræddu starfsleyfisskilyrði segir að vakta skuli dreifingu á losun mengunarefna til viðtaka og vistfræðilegar afleiðingar hennar, svo og að meta skuli umhverfisástand sjávarbotns og breytingar af völdum eldisins. Í drögum leyfishafa að vöktunaráætlun kemur fram að hvíldartími verði að minnsta kosti 6 mánuðir en að mögulega verði hægt að víkja frá því heimili ástand botns það samkvæmt niðurstöðum mælinga og að höfðu samráði við Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Umhverfisstofnun mun endanleg vöktunaráætlun ekki verða samþykkt fyrr en leyfishafi tilkynnir að hann sé að hefja rekstur. Með hliðsjón af valdmörkum umræddra stofnana og að teknu tilliti til þess að vöktunaráætlun hefur ekki verið samþykkt verður, eins og atvikum í máli þessu er sérstaklega háttað, ekki talið að misræmi í hvíldartíma hins kærða rekstrarleyfis og matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar varði ógildingu leyfisins.

Svo sem fyrr greinir verður ekki fallist á með kæranda að kært rekstrarleyfi varði allt aðra framkvæmd en fjallað hafi verið um í þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar 6. mars 2014 að framleiðsluaukningin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Fyrir liggur að málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 lauk með greindri ákvörðun Skipulagsstofnunar auk þess sem kröfu um ógildingu hennar var hafnað með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 22/2014. Verður því ekki talið að nauðsynlegt hafi verið að rannsaka og bera saman aðra valkosti á grundvelli 3. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, enda á það ákvæði einungis við þegar framkvæmd er háð mati á umhverfisáhrifum. Að sama skapi verður heldur ekki talið að meðferð og afgreiðsla umsóknar rekstrarleyfisins hafi átt að fara eftir nýjum ákvæðum laga nr. 71/2008 sem tóku gildi 18. júlí 2019, sbr. breytingalög nr. 101/2019. Kveður enda bráðabirgðaákvæði II. á um að meðferð og afgreiðsla umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols fari eftir eldri ákvæðum laganna í þeim tilvikum þegar málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 160/2000 er lokið fyrir gildistöku breytingalaganna, rétt eins og í þessu tilviki. Skírskotun ákvæðisins tekur samkvæmt orðanna hljóðan einungis til meðferðar og afgreiðslu umsóknar, en að öðru leyti fer um rekstrarleyfi eftir gildandi ákvæðum laganna eins og lagaskilareglur gera ráð fyrir. Fær sú niðurstaða einnig stoð í lögskýringargögnum að baki áðurnefndum breytingalögum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum Náttúruverndarsamtaka Íslands, náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi, Veiðifélags Laxár á Ásum, svo og Akurholts ehf. og Geiteyrar ehf., sem eigenda Haffjarðarár í Hnappadal.

Hafnað er kröfu A um ógildingu ákvörðunar Matvælastofnunar frá 4. september 2020 um veitingu rekstrarleyfis fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á regnbogasilungi með 5.300 tonna hámarkslífmassa við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.