Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2021 Laugarnesvegur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2021, kæra vegna framkvæmda í fjöleignarhúsinu að Laugar­nesvegi 83.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi efri hæðar hússins að Laugarnesvegi 83, Reykjavík, ætlaðar óleyfisframkvæmdir í húsinu. Er þess krafist að mannvirkinu verði komið í fyrra horf og rask afmáð að fullu. Jafnframt er þess krafist að skúr á lóðinni verði fjarlægður og rask vegna hans verði afmáð að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2021.

Málavextir: Í byrjun mars 2020 mun kærandi hafa orðið var við framkvæmdir á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83. Hinn 6. s.m. sendi hann byggingarfulltrúanum í Reykjavík tölvupóst þar sem spurst var fyrir um hvort embættið vissi af umræddum framkvæmdum. Upplýsti kærandi um að eigandi neðri hæðar hússins væri búinn að bora í og brjóta hluta af burðarveggjum. Óskaði embættið 11. s.m. eftir skýringum frá eigendum íbúðar á neðri hæð hússins á framkvæmdunum. Svar barst embættinu 24. s.m. þar sem fram kom að umræddar framkvæmdir væru hluti af viðhaldi innanhúss og endurnýjun innréttinga. Húsasmíðameistari hafi verið fenginn til að meta burðarvirki hússins og hafi það verið hans mat að það að fjarlægja tiltekinn veggbút hefði ekki áhrif á burðarvirki hússins. Jafnframt kom fram að leyfi íbúa í kjallara og á efri hæð hafi verið fengið til að taka vatnið af húsinu meðan skipt hefði verið um rör. Við þá vinnu hafi ryð stíflað blöndunartæki í íbúð í risi og hafi pípulagningarmeistari verið fenginn til að losa ryð úr tækjum og rörum auk þess sem keypt hafi verið nýtt blöndunartæki fyrir eiganda efri hæðar hússins. Sama dag mun eftirlitsmaður skilmálaeftirlits byggingar­fulltrúa hafa tekið út framkvæmdina vegna kvörtunar kæranda. Í skoðunarskýrslu hans frá sama degi kemur fram að brotið hafi verið um 20 cm bútur af vegg til að stækka dyraop. Framkvæmdin sé minniháttar breyting á burðarvirki hússins. Ennfremur hafi neysluvatns­lögnum verið breytt þannig að nú séu kaldavatnslagnir íbúðanna aðskildar. Þá tók eftirlitsmaður skilmálaeftirlits framkvæmdina aftur út 30. mars 2020. Í skoðunarskýrslu vegna þeirrar úttektar kom m.a. fram að varmaskiptir hafi verið settur upp fyrir neysluvatnslögn.

Kærandi kom á framfæri frekari athugasemdum vegna framkvæmdanna við byggingarfulltrúa með tölvupóstum 6., 12., 13., 19. og 28. mars 2020. Í svari frá byggingarfulltrúa 31. s.m. var vísað til framangreindra samskipta eigenda neðri hæðar og embættisins auk þess eftirlits sem átti sér stað. Kom fram í svarinu að framkvæmd vegna umræddrar breytingar á burðarvirki væri tilkynningarskyld skv. a-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og að óskað hafi verið eftir því að tilkynnt yrði um þá framkvæmd. Einnig kom fram að lagnaframkvæmdir væru byggingarleyfisskyldar og að óskað hafi verið eftir því að sótt yrði um leyfi fyrir þeim. Þá hafi aðrar framkvæmdir verið skoðaðar og teldust þær til eðlilegs viðhalds sem væru undanþegnar byggingarleyfi. Með umsókn, dags. 10. október 2020, sóttu eigendur íbúðar á neðri hæð hússins um byggingarleyfi fyrir stækkun tveggja hurðargata, breytingu á lagnaleiðum í eldhúsi og uppsetningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn í geymslu í kjallara. Með umsókninni fylgdi m.a. minnisblað byggingar­verkfræðings þar sem m.a. kom fram að breytingin hafi ekki áhrif á burð hússins, hvorki lárétt né lóðrétt, og samþykki meirihluta eigenda í húsinu væri fyrir breytingunum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2021 var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að 1. mars 2020 hafi framkvæmdaraðilar komið óvænt inn í húsið að Laugarnesvegi 83 og hafið stórframkvæmdir sem engin heimild hafi verið fyrir. Gerðar hafi verið breytingar á burðarveggjum og sameiginlegum lögnum án leyfis. Strax í byrjun mars hafi verið farið fram á það við byggingarfulltrúa að óleyfisframkvæmdir yrðu stöðvaðar strax og þeim sem að framkvæmdunum stæðu gert að afmá allt rask og bæta kæranda tjón. Það hafi byggingarfulltrúi ekki gert heldur lagt fyrir framkvæmdaraðila að sækja um leyfi fyrir óleyfisframkvæmdunum. Framkvæmdirnar hafi stíflað allt vatnsinntak í íbúð efri hæðar og búi kærandi enn við ónothæfan og ónýtan baðvask. Því sé harðlega andmælt að framkvæmdar­aðilar geti snúið inntaksrými hússins á hvolf bara fyrir sig. Eigendur kjallaraíbúðar hafi samþykkt framkvæmdirnar löngu seinna en slíkt dugi ekki fyrir framkvæmdunum þar sem samþykki allra, eða að lágmarki 2/3 hluta, þurfi fyrir þeim, sbr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Framkvæmdaraðilar hafi sett íbúð sína á sölu í lok janúar 2021 með óleyfisskúr á lóð. Með fasteignaauglýsingu hafi þeir reynt að selja inntaksrými allra sem þvottarými fyrir þvottavél og þurrkara og ranglega sagt að enginn hafi nýtt rýmið nema neðri hæð. Ítrekuð sé krafa kæranda um að hinn ólöglegi skúr verði fjarlægður af lóðinni og allt rask afmáð að fullu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er litið svo á að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingar­leyfi til að stækka tvö dyraop og breyta lagnaleiðum í íbúð á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83 og setja upp varmaskipti í kjallara. Ljóst sé að umrædd stækkun á dyraopum sé minniháttar breyting eins og fram hafi komið í skoðunarskýrslu 24. mars 2020. Í a-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé fjallað sérstaklega um minniháttar breytingar á burðarveggjum sem undanþegnar séu byggingarleyfi, en sú krafa sé gerð að slíkt sé tilkynnt til byggingarfulltrúa. Með umsókn um byggingarleyfi hafi fylgt umsögn burðarþolshönnuðar þar sem hann taldi breytinguna ekki hafa áhrif á burð hússins. Önnur göt sem boruð hafi verið hafi óveruleg áhrif á burðarþol veggja eða platna.

Óverulegar breytingar hafi verið gerðar á lögnum, þ.e. vatnslagnir hafi verið endurnýjaðar þannig að lögn, sem áður hafi verið fyrir íbúðir neðri og efri hæðar, sé nú bara fyrir íbúð efri hæðar. Ný lögn fyrir íbúð neðri hæðar hafi verið komið fyrir, lagnaleið snúið við og varma­skiptir settur upp fyrir neysluvatnslögn. Þessar lagnaframkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar og í kjölfar eftirlitsferðar hafi verið óskað eftir að sótt yrði um leyfi vegna breytinganna. Á þeim teikningum sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn komi fram að sú breyting hafi verið gerð á lagnaleiðum íbúðar á neðri hæð að nú kvíslist þær frá lögnum íbúðar á efri hæð í inntaksrými í kjallara. Séu neysluvatnslagnir fyrir íbúð efri hæðar óbreyttar. Kalt vatn í íbúð á neðri hæð fari nú fyrst inn í eldhús og þaðan inn á baðherbergi en áður hafi það verið öfugt. Umrædd breyting hafi því ekki áhrif á íbúð efri hæðar þar sem vatnið kvíslist frá áður en lögn fari inn í íbúð á neðri hæð.

Framangreindar framkvæmdir falli ekki undir skilyrði a.-c. liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Dugi því samþykki einfalds meirihluta fyrir framkvæmdunum og hafi slíkt samþykki fylgt byggingarleyfisumsókn.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er upphaf máls þessa að rekja til ýmissa framkvæmda í íbúð á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83 í mars 2020. Í október s.á. sóttu leyfishafar um byggingarleyfi til að stækka tvö dyraop og breyta lagn­a­leiðum í íbúð á neðri hæð og setja upp varmaskipti í kjallara og var sú umsókn samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2021. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður því litið svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu enda liggur ekki fyrir önnur stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. synjun um beitingu þvingunarúrræða. Verður þar af leiðandi ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að skúr á lóðinni verði fjarlægður.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er gerð krafa um að með byggingarleyfis­umsókn fylgi nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga verður ekki ráðist í framkvæmdir sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu nema allir eigendur samþykki, ef um er að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi breytingar á sameign, utan húss eða innan, í för með sér sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir. Að lokum er mælt fyrir um það í 3. mgr. að til smávægilegra breytinga og endurnýjana nægi þó alltaf samþykki einfalds meiri hluta miðað við eignarhluta.

Hinar umdeildu framkvæmdir fólu í sér stækkun dyraopa, breytingu á lagnaleiðum og upp­setningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn. Fyrir liggur í máli þessu minnisblað byggingar­verkfræðings um að framkvæmdin hafi ekki áhrif á burð hússins. Að því virtu verður sú breyting er felur í sér stækkun dyraopa talin smávægileg í skilningi 3. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga og gildir hið sama um breytingu á lagnaleiðum í eldhúsi. Þá verður að telja uppsetningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn fela í sér endurnýjun í skilningi sama ákvæðis. Með umsókn leyfishafa fylgdi tilskilið samþykki eigenda meiri hluta miðað við eignarhluta og getur því skortur á samþykki kæranda fyrir framkvæmdunum ekki varðað ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verður ekki séð að aðrir form- eða efnisannmarkar séu á hinu kærða byggingar­leyfi sem raskað geti gildi þess og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að „stækka tvö hurðargöt í íbúð 0101, breyta lagnaleiðum í eldhúsi og setja varmaskipti í kjallara húss nr. 83 við Laugarnesveg.“

58/2021 Leirvogstungumelur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2021, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til svæði hans á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Vaka hf., eigandi lands á Leirvogstungumelum, ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til svæði hans á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis 15. júní 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með bréfi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis til kæranda, dags. 18. júlí 2018, kom fram að í ljós hafi komið í eftirlitsferð á landsvæði í eigu kæranda að þar væri fjöldinn allur af númerslausum bifreiðum og að svæðið væri óþrifalegt. Ekki hafi verið sótt um starfsleyfi fyrir þessari starfsemi, engar mengunarvarnir hafi verið til staðar og svæðið sé skilgreint sem óbyggt svæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Var því farið fram á að lóðin yrði hreinsuð fyrir 18. ágúst 2018.

Kærandi sótti um starfsleyfi fyrir geymslusvæði fyrir bifreiðar og tæki á Leirvogstungumelum 2. desember 2019. Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar gerði athugasemd við uppsöfnun bifreiða í niðurníðslu, gáma og aðra lausamuni á lóðinni og við slæma umgengni sem henni fylgir. Óskað var eftir úrbótum fyrir 17. febrúar 2020.

Á fundi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis 19. maí 2020 kom fram að ábendingar hafi borist um slæma umgengni kæranda og eftirlit hafi leitt í ljós að það ætti við rök að styðjast. Nefndin bókaði að heilbrigðiseftirlitinu væri falið að setja málið í forgang. Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar 20. s.m. var bókað að þrátt fyrir loforð kæranda um hreinsun á svæðinu hafi ekki verið brugðist við athugasemdum sveitarfélagsins og sé úrbóta krafist tafarlaust. Farið var fram á að heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis brygðist hart við og beitti tiltækum heimildum til að sjá til þess að brotum kæranda yrði hætt tafarlaust. Á fundi heilbrigðisnefndar 16. júní s.á. var umsókn kæranda um starfsleyfi hafnað og kæranda veittur lokafrestur til 1. september 2020 til að hreinsa öll svæði. Með bréfi kæranda, dags. 14. s.m., var óskað eftir fresti til að ljúka hreinsun svæðisins til 31. október s.á. Erindið var tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar 15. september s.á. Á fundinum kom fram að í eftirlitsferð 3. s.m. hafi komið í ljós að mikið væri búið að taka til en tiltekt væri enn ekki lokið. Var fallist á að framlengja lokafrest til 31. október 2020. Á fundi heilbrigðisnefndar 29. s.m. var framkvæmdastjóra falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda skv. XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ef ekki væri búið að fjarlægja allan úrgang af svæðinu 1. nóvember 2020.

Hinn 16. nóvember 2020 óskaði kærandi enn eftir fresti til hreinsunar, nú til 10. desember s.á. og var fallist á þá beiðni hans. Farið var í eftirlitsferð 12. janúar 2021 og kom í ljós að tiltekt var ekki lokið á svæði 1 en svæði 2-4 væru orðin hér um bil hrein. Á fundi heilbrigðisnefndar 19. s.m. bókaði nefndin að framkvæmdastjóra væri falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda skv. XVII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kæranda var kynnt framan­greind bókun með bréfi, dags. 26. s.m., og um möguleika á að koma andmælum að. Kærandi andmælti fyrirhugaðri áminningu með bréfi, dags. 9. febrúar s.á., og óskaði eftir fresti til 31. maí s.á. til að klára hreinsun á svæðinu endanlega. Kæranda var veitt formleg áminning með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, og tilkynnt um að frekari þvingunaraðgerðir væru fyrirhugaðar og til skoðunar væri að leggja á dagsektir. Á fundi heilbrigðisnefndar 7. apríl 2021 var ákveðið að leggja dagsektir á kæranda frá og með 1. maí 2021 þar til svæðið á Leirvogstungumelum hafi verið hreinsað af öllum úrgangi. Upphæð dagsekta var ákveðin 20.000 kr. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina næsta dag. Við skoðun á svæðinu 28. s.m. var niðurstaðan sú að hreinsun væri ekki lokið og ekki væri ástæða til að fresta álagningu dagsekta.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á það bent að ekki sé rétt að andmæli hafi ekki borist frá honum vegna áminningarinnar, dags. 24. febrúar 2021. Þeim hafi verið komið á framfæri símleiðis 25. s.m. við framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, þar sem málið hafi verið rætt í 11 mínútur og fyrirhuguðum dagsektum harðlega mótmælt. Kærandi hafi verið að losa efni statt og stöðugt af svæðinu frá síðustu vettvangsferð, dags. 12. janúar 2021.

Einnig hafi verið reynt að fá fund með formanni heilbrigðiseftirlitsins án árangurs, fyrst 26. febrúar 2021, en þá hafi formaður bent kæranda á að hafa samband við framkvæmdastjóra. Ítrekað hafi verið 3. mars s.á. að óskað væri eftir fundi með formanni en ekki framkvæmda­stjóra. Formaðurinn hafi svarað á þann veg að hann hefði það fyrir reglu að hitta ekki aðila eina sem óski eftir því vegna heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Senda ætti erindið á framkvæmda­stjóra og nefndin myndi svo taka erindið fyrir á fundi. Ekki hafi verið boðið upp á fund með formanni og öðrum með honum né fjarfund eins og tíðkist.

Ákvörðun heilbrigðisnefndar frá 7. apríl 2021 byggi á úttekt sem fram hafi farið 12. janúar s.á. Nefndin hafi því ekki kynnt sér aðstæður áður en ákvörðun hafi verið tekin en miklar breytingar hafi orðið á svæðinu frá þeim tíma. Ákvörðunin hafi því verið tekin að óathuguðu máli sem sé í andstöðu við góða og vandaða stjórnsýsluhætti.

Forsaga málsins sé sú að hreinsunarstarf á lóð kæranda hafi staðið yfir frá því um vorið 2020. Mörg hundruð tonn hafi verið flutt af svæðinu og kærandi verið í góðu samstarfi við framkvæmdastjóra heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Vegna þess hve umfangsmikið verkið hafi verið hafi það tekið þennan tíma þó vonir hafi staðið til að hægt yrði að ljúka því fyrr. Hafi kærandi því ekki setið auðum höndum heldur unnið í verkinu allan tímann. Sé ákvörðunin bæði íþyngjandi og tekin að óathuguðu máli. Hafi kærandi unnið verkið eins hratt og kostur hafi verið en það hafi reynst tímafrekara en áætlanir hafi gert ráð fyrir. Sé það í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti að ekki hafi verið veittir nægjanlegir tímafrestir til að klára verkið áður en þvingunaraðgerðum hafi verið beitt. Lágmark sé að rannsaka málið áður en slíkar ákvarðanir séu teknar en engin skoðun hafi farið fram eftir 12. janúar 2021 þar til nefndin hafi tekið ákvörðun um álagningu dagsekta 7. apríl s.á. Í kjölfar úttektarinnar hafi kærandi sent heilbrigðisnefndinni bréf, dags. 19. s.m., þar sem farið hafi verið yfir stöðuna og framhaldið og bent á að það myndi taka tíma fram á vor að klára málið endanlega.

Með bréfi heilbrigðisnefndarinnar, dags. 26. janúar 2021, hafi kæranda verið send bókun nefndarinnar frá 59. fundi hennar 19. s.m. Í bréfinu sé vísað til skoðunar á svæðinu 12. s.m. og bréfs kæranda frá 19. s.m. Hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hreinsun á svæðinu hafi ekki verið lokið hyggist heilbrigðiseftirlitið hefja þvingunarferli skv. XVII. kafla laga um hollustu­hætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum. Sé til skoðunar að veita fyrirtækinu formlega áminningu samkvæmt 60. gr. laganna. Kærendum hafi verið gefinn kostur á að koma andmælum að innan tveggja vikna.

Kærandi hafi sent andmæli með bréfi, dags. 9. febrúar 2021, þar sem bent hafi verið á að stjórnvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess gætt að ekki verði farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Þar hafi einnig verið bent á að frá því að farið hafi verið í vettvangsferð 12. janúar 2021, væri búið að tæma átta gáma og að því yrði haldið áfram. Þar var einnig lagt til að kærandi fengi frest út 31. maí s.á. til að klára að fjarlægja efni í gámum sem framkvæmdastjóri teldi til úrgangs sem kærandi sé ósammála. Einnig hafi verið lagt til að á þessu tímabili færi framkvæmdastjóri heilbrigðisnefndarinnar í eftirlitsferð fyrir fundi nefndarinnar svo hægt væri að halda fulltrúum nefndarinnar upplýstum um stöðu málsins.

Þegar nefndin hafi haldið fund 7. apríl 2021 hafi ekki verið farin vettvangsferð síðan 12. janúar s.á. en svæðið hafi tekið miklum breytingum á þeim tíma og sé til fyrirmyndar í dag. Því hafi verið tekin mjög íþyngjandi ákvörðun með því að setja á dagsektir án þess að kynna sér stöðuna á lóð kæranda. Slíkt standist ekki stjórnsýslulög. Framkvæmdastjóri heilbrigðisnefndar Kjósar­svæðis hafi viðurkennt að svæðið hafi tekið miklum breytingum frá því í janúar þegar farið hafi verið í vettvangsferð 28. apríl 2021. Hafi kærandi óskað eftir því að dagsektir yrðu felldar niður fyrir 1. maí s.á. en framkvæmdastjórinn sagðist ekki hafa heimild til þess, það yrði að bíða næsta fundar nefndarinnar. Sá fundur yrði hins vegar ekki haldinn áður en kærufrestur rynni út.

Ákvörðun um beitingu dagsekta sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds. Við það mat þurfi sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins svo sem um meðal­hóf, rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið. Við mat á því hvort beita eigi þvingunaraðgerðum, svo sem dagsektum, geti komið til álita ýmis sjónarmið, svo sem hversu íþyngjandi aðgerða sé krafist af þeim sem úrræðin beinist að, hvort og með hvaða hætti þær tengist meintum lögbrotum, hversu mikilvæga almannahagsmuni sé verið að tryggja og hversu langur tími sé liðinn frá atburði þar til ætlunin sé að grípa til aðgerða af hálfu stjórnvalda. Með vísan til þess sem að framan rakið sé á því byggt að rannsókn málsins hafi verið haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Málsrök heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis: Af hálfu heilbrigðisnefndarinnar er bent á að kærandi hafi hafið starfsemi á svæðinu án þess að óska eftir starfsleyfi líkt og fyrirtækinu hafi borið að gera. Á það hafi verið bent með bréfi, dags. 18. júlí 2018. Kærandi hafi starfrækt óleyfilegt geymslusvæði á Leirvogstungumelum án starfsleyfis í a.m.k. þrjú ár og fyrir liggi að félagið muni ekki fá heimild fyrir slíka starfsemi að óbreyttu skipulagi. Hlutverk heilbrigðis­nefndar sé að hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem falli undir lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og veita starfsleyfi á grundvelli laganna. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki sinnt kröfum um úrbætur og ekki staðið við þá fresti sem honum hafi verið settir til úrbóta. Með þessa stöðu í huga hafi verið eðlilegt næsta skref af hálfu heilbrigðisnefndar að grípa til þeirra þvingunarúrræða sem löggjöfin geri ráð fyrir að beitt sé í slíkum tilvikum. Áminning hafi verið veitt og þegar legið hafi fyrir að það hafi ekki leitt til tilætlaðs árangurs hafi verið gripið til þess ráðs að leggja á dagsektir frá 1. maí 2021 að upphæð 20.000 kr. þar til staðfesting á að hreinsun svæðisins hafi verið lokið liggi fyrir. Kæranda hafi verið í lófa lagið í nokkuð langan tíma að ljúka hreinsun og hafi hann sjálfur gert ráð fyrir að hreinsun yrði lokið 31. maí 2021, sem ekki hafi gengið eftir frekar en fyrri fyrirætlanir kæranda í þessum efnum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs er umráðamönnum lóða skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Í 2. mgr. nefndrar greinar kemur fram að heilbrigðisnefnd fari með eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutist til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Í 3. mgr. er kveðið á um að nefndinni sé heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og loks er tekið fram í 4. mgr. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun. Óumdeilt er í máli þessu að kærandi hefur ekki gilt starfsleyfi á þessum tiltekna stað, þ.e. á Leirvogstungumelum, samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 skal atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum. Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 kemur jafnframt fram að afrit af gildandi deiliskipulagi eða gildandi aðalskipulagi sé deiliskipulag ekki til staðar skuli fylgja starfsleyfisumsókn. Umrætt svæði er skilgreint sem óbyggt svæði í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 og ekki hefur verið gert deiliskipulag fyrir svæðið. Var því rétt að hafna umsókn kæranda um starfsleyfi að óbreyttu skipulagi.

Fjallað er um þvingunarúrræði í XVII. kafla laga nr. 7/1998. Samkvæmt 60. gr. laganna er heilbrigðisnefnd heimilt að veita áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt þeim lögum, reglugerðum eða samþykktum sveitar­félaga. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Kærandi fékk fyrst áskorun þess efnis að fjarlægja númerslausar bifreiðar af landsvæði sínu með bréfi, dags. 18. júlí 2018. Heilbrigðisnefnd bókaði á fundi sínum 29. október 2020 að framkvæmdastjóra væri falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda. Í millitíðinni voru haldnir fjöldi funda með kæranda og eftirlitsferðir farnar á svæðið. Frestir til úrbóta voru margoft framlengdir, oftast að frumkvæði kæranda, jafnvel þótt tekið hafi verið fram að um lokafrest hafi verið að ræða. Á fundi heilbrigðisnefndar 19. janúar 2021 var framkvæmdastjóra aftur falið að hefja þvingunar­ferli samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis sendi kæranda bréf, dags. 26. janúar 2021, þess efnis að þar sem hreinsun væri ekki lokið þrátt fyrir margítrekaða fresti stæði til að veita kæranda formlega áminningu samkvæmt 60. gr. framangreindra laga. Kæranda var veitt formleg áminning með bréfi dags. 24. febrúar s.á. Í því bréfi var tekið fram að til stæði að beita frekari þvingunarúrræðum og væri til skoðunar að leggja á dagsektir skv. 61. gr. laga nr. 7/1998. Fullreynt væri að veita frekari fresti og var í því samhengi bent á að frá því að umsókn kæranda um starfsleyfi hafi verið hafnað 16. júní 2020 hafi verið veittir þrír frestir til að ljúka hreinsun svæðisins og enginn þeirra staðist.

Af framangreindri atburðarrás er ljóst að heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis fylgdi málsmeðferðar­reglum 60. og 61. gr. laga nr. 7/1998 við álagningu dagsekta. Fyrst var veitt áminning skv. 60. gr. ásamt fresti og dagsektum að lokum beitt skv. 1. mgr. 61. gr. þegar ljóst var að kærandi varð ekki við fyrirmælum.

Ekki verður fallist á með kæranda að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda fékk kæranda ítrekað frest til að sinna hreinsun umrædds svæðis. Þá var gætt að andmælarétti kæranda á öllum stigum málsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga þykir rétt að dagsektir frá og með móttöku kæru 7. maí 2021 til og með uppkvaðningar úrskurðar 8. júlí 2021 falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til landsvæði kæranda á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi.

68/2021 Arnarnesvegur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 um að breyting á útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Jóruseli 20, Reykjavík, og eigandi, Jóruseli 12, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 að breyting á útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að nýtt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna 3. kafla Arnarnesvegar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 23. júní 2021.

Málavextir: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra, sem staðfesti hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur farið fram í áföngum en framkvæmdir eru fyrirhugaðar við 1,3 km langan vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík.

Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfis­áhrifum. Fæli útfærslan í sér brú yfir Breiðholtsbraut og ljósastýrð gatnamót og kom fram í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar að um væri að ræða sameiginlega niðurstöðu Vega­gerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Við meðferð málsins óskaði Skipulags­stofnun eftir umsögnum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Fiskistofu, Hafrannsókna­stofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogs­svæðis, Landverndar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vina Vatnsendahvarfs. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun sinni vísaði stofnunin m.a. til þess að í framkvæmdinni fælist breyting á útfærslu gatnamóta frá fyrri áformum sem kæmi ekki til með að auka ónæði af umferð eða mengun í íbúðarbyggð eða á útivistarsvæðum. Fæli framkvæmdin jafnframt í sér minna inngrip í ásýnd svæðanna. Samtökin Vinir Vatnsendahvarfs kærðu ákvörðun Skipulagstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 25. maí 2021, í máli nr. 32/2021, var kæru samtakanna vísað frá þar sem þau voru ekki talin uppfylla skilyrði kæruaðildar skv. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir séu íbúar í grennd við framkvæmdina. Í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi fram að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila ef forsendur hafi breyst verulega frá því álitið lá fyrir. Þar sem 18 ár séu liðin frá því mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi legið fyrir hafi forsendur breyst verulega. Landnotkun á áhrifasvæði, löggjöf um umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar, allt hafi þetta tekið breytingum. Sé þess því krafist að nýtt umhverfismat verði gert fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar. Líklegt sé að umferðarlíkanið sem stuðst hafi verið við í upphaflegu mati á umhverfisáhrifum sé úrelt. Svifryksmengun verði í návígi við skóla og leiksvæði barna. Endurmeta þurfi áhrif stóraukinnar umferðar með tilliti til mengunar, hljóðvistar og fleiri þátta í návígi við fjölmenn íbúahverfi, skóla og vinsælt útivistarsvæði. Skipulagsstofnun telji sig ekki hafa heimild til að fara fram á nýtt umhverfismat þar sem stofnunin telji að byrjað hafi verið á framkvæmdinni innan 10 ára. Það hafi þó aldrei verið byrjað á þriðja áfanga Arnarnesvegar heldur hafi jarðvegur verið færður úr hlíðinni um síðustu aldamót.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir, sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta, kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Í kæru sé ekki vikið nánar að því í hverju grenndarhagsmunir kærenda séu fólgnir, t.d. hve langt þeir búi frá fyrirhugaðri framkvæmd Vegagerðarinnar. Að öðru leyti sé kærufrestur liðinn, en hann hafi verið til 22. mars 2021, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá falli það ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til kröfu kærenda. Að mati stofnunarinnar verði að leggja þann skilning í kæruna að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærendur hafi ekki heimild til að krefjast þess að mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar frá árinu 2003 verði endurskoðað. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé það viðkomandi leyfisveitandi sem beri að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda sé veitt. Stofnunin hafi ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um endur­skoðun mats á umhverfisáhrifum, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 77/2017.

Skilyrði fyrir því að framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum sé að fram­kvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skilgreiningu á slíkum áhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, en þar séu umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind þannig að um sé að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Skipulagsstofnunin fái ekki séð að hin tilkynnta framkvæmd hafi þau áhrif sem lýst sé í framangreindri skilgreiningu.

Athugasemdir Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar er aðallega gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kæran hafi borist að liðnum kærufresti skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Einn af kærendum hafi undirritað þá kæru sem vísað hafi verið frá í máli nr. 32/2021 og hafi sá kærandi því fulla vitneskju um hvenær hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þá sé bent á að sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna varnaraðila liggi að baki kærufresti laga nr. 130/2011, en Vegagerðin hafi ríka hagsmuni af því að framkvæmdir geti haldið áfram sem fyrst. Ef fallist yrði á að afsakanlegt teldist að kæra þessi hefði borist utan frests, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, væri í reynd búið að lengja kærufresti í málum af þessu tagi nánast út í hið óendanlega. Þá sé bent á að kærendur fjalli ekki um aðildarhæfi eða leggi fram gögn til skýringar þar um. Telji úrskurðarnefndin að málið sé tækt til meðferðar sé bent á að hin kærða ákvörðun sé vel rökstudd og í samræmi við gildandi lög og framlögð gögn. Málsmeðferð hafi verið vönduð og engin ný gögn eða upplýsingar hafi verið lagðar fram af hálfu kærenda sem breytt geti efnislegri niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Um málsmeðferð og kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um kærufrest en einnig að þeir einir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri stjórnvaldsákvörðun geti kært til úrskurðarnefndarinnar þá ákvörðun eða ætlað brot á þátttöku­rétti almennings. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Er gert ráð fyrir því að meta verði heildstætt hverju sinni hversu verulegir hagsmunirnir eru og hversu náið þeir tengjast úrlausn máls þess sem um ræðir.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu fór fram á árinu 2003 mat á umhverfisáhrifum á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjensbrautar og Breiðholtsbrautar. Hefur lagning vegarins farið fram í áföngum. Hin kærða ákvörðun lýtur að því hvort ný útfærsla á á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar, sem er hluti af fyrirhuguðum framkvæmdum á 1,3 km vegkafla, skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. samnefndra laga nr. 106/2000. Í mati á umhverfisáhrifum var fjallað um tvær útfærslur mislægra gatnamóta og féllst Skipulagsstofnun á þær báðar í úrskurði sínum árið 2003. Ný útfærsla gerir ráð fyrir brú yfir Breiðholtsbraut og tengingu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut með gatnamótum í plani með umferðarljósum og einskorðast hin kærða matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar við þá breytingu, auk breytinga á útfærslu Arnarnesvegar næst Breiðholtsbraut.

Málsrök kærenda lúta fyrst og fremst að því að fram fari að nýju mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar vegna vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík, en það álitaefni var ekki til umfjöllunar í hinni kærðu matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Vísa þeir einkum til þess að umferð aukist til muna og að af því hljótist mengun, auk þess að benda á neikvæð áhrif á hljóðvist. Fasteignir kærenda eru í meira en hálfs kílómetra fjarlægð frá gatnamótunum og verða þau á sama stað og áður var gert ráð fyrir. Í því mati á umhverfisáhrifum sem lauk með úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2003 var fjallað um aukna umferð og hljóðvist vegna heildarframkvæmdarinnar. Af gögnum má ráða að ný útfærsla hinna umdeildu gatnamóta verði umfangsminni og standi lægra í landi, auk þess að kalla hvorki á aukna umferð né lakari hljóðvist.

Að teknu tilliti til alls þessa þykja hagsmunir kærenda hvorki svo verulegir né svo tengdir ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að ný útfærsla gatnamóta sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli ekki háð mati á umhverfis­áhrifum, að skapi þeim kæruaðild. Þar sem ekki verður talið að kærendur hafi þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem eru skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

91/2021 Kiðjaberg

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 1. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 91/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar í Kiðjabergi

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar nr. 111 í Kiðjabergi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar í Kiðjabergi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er þess krafist að réttaráhrif deili­skipulags­­breytingarinnar verði frestað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 24. júní 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 17. febrúar 2021 var samþykkt að grenndarkynna umsókn Kiðjabergs ehf. um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í umsókninni kom fram að þegar deiliskipulag Kiðjabergs hefði verið uppfært frá handteiknuðu í stafrænt form hefðu orðið þau mistök að ein lóðin hefði verið teiknuð 4 m of breið. Það hafi orðið til þess að hliðrun hefði orðið á teiknigrunni á fleiri lóðum. Í breytingunni felst að stærðir lóða 108, 109, 110 og 111 við Kamba eru leiðréttar í takt við þinglýst skjöl og núverandi kvaðir deiliskipulags. Mistök þau sem um ræðir munu hafa komið í ljós er sótt var um stækkun byggingarreits á lóðinni nr. 110 og er sú stækkun einnig hluti hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt 23. febrúar 2021 og var frestur veittur til 25. mars s.á. til að koma að athugasemdum. Athugasemd barst frá lögmanni kæranda 29. mars 2021 þar sem m.a. var gerð athugasemd við að mistök við skipulag svæðisins bitnuðu einvörðungu á eign hennar. Allar lóðir í kringum lóð kæranda hefðu verið stækkaðar, þeim breytt og leyfi veitt fyrir stærri húsum. Nú væri verið að minnka lóð hennar að því er virtist til að stækka aðrar lóðir á hennar kostnað. Áður hafði kærandi komið að athugasemdum vegna umsóknar um stækkun byggingarreits lóðar 110. Sveitarstjórn samþykkti hina kærðu deiliskipulags­breytingu á fundi sínum 21. apríl s.á. og auglýsing um gildistöku hennar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 21. maí s.á.

Kærandi krefst stöðvunar réttaráhrifa skipulagsins þar sem að á grundvelli þess muni vera hægt að breyta lóðarleigusamningum til framtíðar sem erfitt geti verið að vinda ofan af. Þá væri unnt að veita byggingarleyfi fyrir framkvæmdum og telji kærandi að erfitt yrði að breyta skipulaginu til rétts vegar verði veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem byggi á hinum nýju lóðarmörkum.

Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að komið hafi í ljós skekkja í deiliskipulagsgrunni á milli þinglýstra skjala og hafi landeigandi Kiðjabergs sótt um breytingu á deiliskipulagi vegna þessa. Þær athugasemdir sem hafi borist vegna deiliskipulagsbreytingarinnar hafi borist að athugasemdafresti liðnum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmda­leyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.

24/2021 Birkihlíð

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Þá tók og þátt Ásgeir Magnússon dómstjóri um fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósar­hrepps frá 21. janúar 2021 um að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóðinni Birkihlíð 1, Kjósarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 3. mars 2021, er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 4. s.m., kærir eigandi lóðarinnar Birkihlíðar 1 í Kjósarhreppi, landnr. 218849, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 21. janúar 2021 að hafna umsókn hans um byggingar­leyfi fyrir íbúðarhúsi á téðri lóð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá skipulags- og byggingarfulltrúa Kjósarhrepps 30. mars 2021.

Málavextir: Kærandi öðlaðist eignarhald lóðarinnar Birkihlíðar 1 með nauðungarsöluafsali árið 2015. Í minnisblaði frá 30. október 2019, sem Kjósarhreppur lét gera vegna ágreinings um lóðarblað lóðarinnar, kemur fram að lóðin hafi verið stofnuð sem sérgreind íbúðarhúsalóð árið 2009 úr landi jarðarinnar Þúfukots. Af breytingasögu lóðarinnar hjá Þjóðskrá má ráða að lóðin hafi verið skráð sem slík eigi síðar en 2. desember 2012. Á fundi skipulags- og byggingar­nefndar 2. mars 2020 voru áform kæranda um byggingu íbúðarhúss á lóðinni samþykkt með fyrirvara um athugasemdalausa grenndarkynningu. Fór grenndarkynning fram 10. desember s.á., með fjögurra vikna fresti til að skila athugasemdum. Ein athugasemd barst þar sem því var haldið fram að fyrirhugaður byggingarreitur væri innan gildandi deiliskipulags fyrir frístunda­byggð. Umsókn kæranda um byggingarleyfi, dags. 3. nóvember s.á., var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 21. janúar 2021 og synjað með vísan til fram­kominnar athugasemdar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að deiliskipulag fyrir frístundabyggð sé frá árinu 1991. Það hafi verið handteiknað á blað og sé ekki í samræmi við kortasjár. Á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar megi t.a.m. sjá að frístundabyggðin sé fyrir neðan veg en lóð kæranda sé hins vegar fyrir ofan veg. Þá undrist kærandi að Kjósarhreppur hafi getað skráð lóð sem íbúðarhúsalóð í skipulagðri frístundabyggð. Vísað sé til áðurnefnds minnisblaðs þar sem stofnun lóðarinnar sem íbúðarhúsalóðar og eignarhaldsskipti að henni hafi verið reifuð.

Málsrök Kjósarhrepps: Kjósarhreppur vísar til þess að umrædd lóð hafi verið stofnuð árið 2009 inn á gildandi deiliskipulag frístundabyggðar frá árinu 1992 og því hafi sveitarfélaginu ekki verið annað unnt en að synja erindinu. Þá tekur Kjósarhreppur undir það með kæranda að virst geti sem lóðin Birkihlíð 1 tilheyri ekki deiliskipulagssvæðinu og að á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar virðist lóðin utan marka þess svæðis. Kjósarhreppur telji þó skjal með hnitasjá, sem sé á meðal gagna málsins, sýna fram á hið gagnstæða.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps að synja kæranda um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóð hans Birkihlíð 1, að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Landnotkun á svæðinu er í gildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 að hluta skilgreind sem landbúnaðarsvæði en hluti landsins er ætlaður undir frístundabyggð. Áður var landnotkunin skilgreind í Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2017. Af aðalskipulagsuppdrætti með Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2007 má ráða að jörðin Þúfukot hafi verið á landbúnaðarsvæði og að í næsta nágrenni hennar hafi verið gert ráð fyrir svæði fyrir landbúnað/búgarða, B3. Í greinargerð skipulagsins kom fram að framan­greint landsvæði væri skipulagt úr landi Þúfukots og væri 26,4 ha að stærð. Af aðalskipulagsuppdrætti gildandi aðalskipulags má ráða að jörðin Þúfukot er á landbúnaðar­svæði og að í næsta nágrenni hennar sé skipulagt svæði fyrir frístundabyggð, F6. Í kafla 2.2.2 í greinargerð gildandi aðalskipulags er að finna nánari umfjöllun um frístundabyggðir og er áðurnefnt svæði, F6, þar nefnt Þúfukot og m.a. nánar tilgreint að svæðið sé skipulagt að hluta fyrir allt að 12 lóðir og sé 16 ha að stærð. Á deiliskipulagsuppdrætti frá 1992, „Skipulag Þúfukots“, er gert ráð fyrir 13 lóðum og liggur vegur í gegnum svæðið, þar sem lóðir nr. 1-13 eru fyrir neðan veg og lóðir nr. 2-12 fyrir ofan veg. Á þeim uppdrætti eru lóðirnar hins vegar ekki hnitsettar og ekkert er þar tiltekið um landnotkun svæðisins. Framangreindir uppdrættir eiga það sameiginlegt að þeir sýna svæði norðvestan við Þúfukot að hlíð, sem samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti ber heitið Brekkur.

Af framangreindum skipulagsuppdráttum og gögnum málsins, þ. á m. áðurnefndu skjali með hnitaskrá frá verkfræðistofunni Eflu, dags. 30. desember 2020, og ódagsettu stofnskjali lóðarinnar, árituðu af byggingarfulltrúa Kjósarhrepps, verður sú ályktun dregin að lóðin Birkihlíð 1 sé staðsett á mörkum frístundabyggðar skv. núgildandi aðalskipulagi. Líkt og áður greinir tók Kjósarhreppur að nokkru undir það með kæranda að virst gæti sem lóðin Birkihlíð 1 tilheyrði ekki deiliskipulagssvæðinu og eins og skráning lóðarinnar í fasteignaskrá Þjóðskrár ber með sér hafa skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins tilkynnt hana sem íbúðarhúsalóð á sínum tíma. Hreppurinn telji skjal með hnitaskrá hins vegar sýna fram á hið gagnstæða. Þar var vísað til skjalsins frá verkfræðistofunni Eflu. Áréttað skal að svæðið sem hér er til umfjöllunar hefur ekki verið deiliskipulagt sem frístundabyggð, heldur er í gildandi deiliskipulagi einvörðungu mælt fyrir um nánar tilteknar lóðir án þess að landnotkun þeirra sé þar skilgreind. Í aðalskipulagi er þó, líkt og áður greinir, afmarkað sérstakt svæði fyrir frístundabyggð norðvestan við Þúfukot, F6. Á skipulagsuppdrætti núgildandi aðalskipulags markast svæðið m.a. af vegslóða þannig að frístundabyggðin er fyrir neðan veg og landbúnaðarsvæði er fyrir ofan veg. Hefur kærandi haldið því fram að umrædd lóð hans sé fyrir ofan nefndan vegslóða. Á skipulagsuppdrætti núgildandi aðalskipulags er vegurinn sýndur sem bein lína á þeim vegkafla sem um ræðir. Af samanburði framangreindra skjala má þó ráða að áðurnefndur vegslóði er í reynd ekki alveg beinn.

Stofnskjal lóðar kæranda Birkihlíðar 1 er hnitsett. Hið sama á við um áðurnefnt skjal frá verkfræðistofunni Eflu, þar sem hnit eru skráð og gildandi deiliskipulag er dregið inn á loftmynd. Við samanburð þeirra kemur í ljós að hnit lóðarinnar samkvæmt skjölunum eru þau sömu. Stofnskjal lóðarinnar sýnir hins vegar lóðina alfarið liggja fyrir ofan beinan veg á meðan loftmynd Eflu sýnir að vegurinn, sem ekki er sýndur beinn, liggur í gegnum lóðina. Af loft­myndinni má ráða að lóðin sé ekki í samræmi við áðurnefnt deiliskipulag og nær að mismiklu leyti yfir fjórar lóðir samkvæmt deiliskipulaginu, þ.e. lóðir nr. 11 og 13 fyrir neðan veg og lóðir nr. 10 og 12 fyrir ofan veg. Mörk umræddrar frístundabyggðar samkvæmt núgildandi aðal­skipulagi eru miðuð við veginn.

Af samanburði gagna málsins sem hér hafa verið reifuð verður að telja að lóðin Birkihlíð 1 nái yfir fyrrgreindan veg og taki að hluta yfir lóðir nr. 11 og 13 fyrir neðan veg. Lóðin er því bæði innan og utan frístundabyggðar samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Þar af er stór hluti lóðarinnar utan þess svæðis sem samkvæmt skipulaginu er skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð. Ekki liggur fyrir að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið til skoðunar hvort íbúðarhús það sem kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir kynni að vera innan landbúnaðarsvæðis og lyti þ.a.l. öðrum skilmálum en væri það innan frístundabyggðar.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum annmörkum að leiða eigi til ógildingar hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 21. janúar 2021 um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóð hans Birkihlíð 1.

65/2021 Ísólfsskáli

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2021, kæra á ákvörðun sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar um að veita leyfi fyrir lagningu jarðstrengja rafmagns og ljósleiðara í landi jarðarinnar Ísólfsskála.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru, sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 22. maí 2021, kærir einn af eigendum jarðarinnar Ísólfsskála, þá ákvörðun sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar að veita leyfi fyrir lagningu jarðstrengja rafmagns og ljósleiðara í landi jarðarinnar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er krafist bóta vegna þess tjóns sem óleyfilegar framkvæmdir hafi valdið eða muni valda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 8. júní 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2021 hófst eldgos við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga en áhugi almennings á að sjá eldgosið hefur leitt til mikillar umferðar um svæðið. Mun ríkislögreglustjóri hafa af þeim sökum óskað eftir því við Neyðarlínuna ohf. að hún stæði fyrir uppbyggingu fjarskipta á svæðinu, en félagið sér um neyðar- og öryggisþjónustu á Íslandi í samræmi við lög nr. 40/2008 um samræmda neyðarsvörun. Hinn 20. apríl s.á. óskaði Neyðarlínan eftir leyfi landeigenda Ísólfsskála til að koma rafstreng og ljósleiðara frá plani við upphaf gönguleiðar að gosstöðvunum við Langahrygg. Sama dag sendi kærandi tölvupóst til sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs hjá Grindavíkurbæ þar sem fram kom að kærandi hefði komið að verktökum með vinnuvélar sem sögðust vera að hefja lagningu jarðstrengja á Langahrygg og að til þess hefðu þeir leyfi formanns Landeigendafélags Hrauns. Spurðist hann fyrir um hvort skipulagsfulltrúi hefði veitt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni. Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs svaraði fyrirspurn kæranda 6. maí s.á. þar sem fram kom að sveitarfélagið hefði  fyrir sitt leyti gefið leyfi að lokinni vettvangsferð um svæðið með framkvæmdaraðila. Leyfið hefði ekki verið gefið út formlega heldur munnlega með fyrirvara um samþykki landeiganda. Jafnframt var upplýst að formaður Landeigendafélags Ísólfsskála hefði samþykkt framkvæmdina með tölvupósti til Neyðarlínunnar 21. apríl s.á. Umræddum framkvæmdum mun nú vera lokið.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að framkvæmdaleyfi til lagningar jarðstrengja til fjarskiptareksturs hafi verið veitt án heimildar landeigenda óskipts eignarlands Ísólfsskála. Leyfið feli í sér afsal eignarlands skv. 69. gr. laga nr. 81/2003, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hvorki liggi fyrir gögn er sýni að landeigendur hafi veitt leyfi til framkvæmda né að hluti landsins hafi verið tekinn eignarnámi á grundvelli 70. gr. laga nr. 81/2003. Framkvæmdaleyfið stangist því á við 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, en reglugerðin sé sett með stoð í skipulagslögum nr. 123/2010. Jafnframt staðfesti 5. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar að framkvæmdin sé framkvæmdaleyfisskyld. Landareignin hafi verið í eigu og ábúð forfeðra og ættingja kæranda síðustu 150 ár. Sveitarfélagið hafi mátt vita að þörf væri á samþykki allra landeigenda til útgáfu hins kærða leyfis. Leyfið hafi fjárhags- og tilfinningaleg áhrif í för með sér, m.a. vegna takmarkaðri notkunar lands vegna landhelgunar jarðstrengja, óafturkræfs jarðrasks og rýrnunar landsgæða.

Málsrök Grindavíkurbæjar: Af hálfu Grindavíkurbæjar er gerð sú krafa að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því kæranda var kunnugt um kærða ákvörðun en ljóst sé af gögnum málsins að kærandi vissi af umræddum framkvæmdum 20. apríl 2021. Kærufrestur hafi því verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Þá hafi ekki nein leyfi verið gefin út vegna framkvæmdanna en það leyfi sem kærandi vísi til sé einungis leyfi Grindavíkurbæjar sem landeiganda. Þá hafi beiðni um framkvæmdina komið frá ríkis­lögreglustjóra í samræmi við 2. mgr. 72. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Af þeirri ástæðu beri sömuleiðis að vísa málinu frá.

Sveitarfélagið hafi ekki gefið út framkvæmdaleyfi fyrir umræddri framkvæmd enda sé framkvæmdin ekki framkvæmdarleyfisskyld. Hún hafi verið unnin í samræmi við lög nr. 81/2003 og lög nr. 82/2008 um almannavarnir, en þar að auki hafi samþykki landeigenda legið fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess. Framkvæmdin sé ekki matsskyld skv. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hún falli heldur ekki í flokk þeirra framkvæmda sem kunni að vera háð mati á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. sömu laga. Niðurgrafnir strengir/lagnir sem séu 10 km eða lengri utan þéttbýlis falli í flokk B samkvæmt lið 10.21 í 1. viðauka laganna, en lengd skurðstæðis sé 9,5 km frá spennustöð í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík upp á Langahrygg nærri gosstöðvum. Falli framkvæmd ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum skuli leyfisveitandi meta hvort hún sé framkvæmdaleyfisskyld, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í sömu grein komi fram að við mat á því hvort framkvæmd teljist meiriháttar skuli hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdarinnar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif. Sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin sé ekki meiriháttar í skilningi laganna. Framkvæmdarsvæðið sé tiltölulega lítið og fari framkvæmdin fram að langmestu leyti í röskuðu landi. Einnig hafi verið litið til þess að um brýna nauðsyn hafi verið að ræða og sé framkvæmdin nauðsynleg til að tryggja öryggi almennings og annarra á svæðinu.

Þá sé því mótmælt að gefið hafi verið munnlegt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni. Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs hafi samþykkt umrædda framkvæmd í landi Grindavíkur. Það hafi verið formaður Landeigendafélags Ísólfsskála sem hafi samþykkt framkvæmdina fyrir hönd landeigenda. Landamerki séu að einhverju leyti óljós á framkvæmdasvæðinu en það hafi þó ekki verið talið koma að sök þar sem allir landeigendur, þ.e. Grindavíkurbær, landeigendur Hrauns og landeigendur Ísólfsskála, hafi veitt leyfi fyrir framkvæmdinni. Auk leyfis frá formanni landeigendafélagsins hafi samningar Neyðarlínunnar og landeigenda um framkvæmdina verið undirritaðir. Sveitarfélagið líti því svo á að framkvæmdin hafi verið unnin í samræmi við 1. mgr. 69. gr. laga nr. 81/2003. Telji kærandi að stjórn landeigendafélagsins hafi farið út fyrir valdssvið sitt með samþykki framkvæmdarinnar þá eigi það álitamál ekki undir úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að athugasemdir Grindavíkurbæjar staðfesti að sveitarfélagið hafi veitt framkvæmdaleyfi til jarðstrengjalagna í óskiptu eignarlandi Ísólfs­skála. Formaður Landeigendafélags Ísólfsskála hafi ekki heimild til að samþykkja framkvæmdir í nafni þinglýstra eigenda landsins, en í 4. gr. félagssamnings landeigenda Ísólfsskála sé kveðið á um að samþykki allra eigenda þurfi til að skuldbinda félagið eða afsala eignum. Sveitarfélagið hafi ekki stöðvað framkvæmdir þegar þess hafi verið krafist, sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Sveitarfélagið ætli að fría sig ábyrgð á veitingu framkvæmdaleyfis vegna fullyrðinga um neyðartilvik sem hafi aldrei verið lýst yfir vegna eldgossins á Reykjanesskaga. Hafi það verið staðfest af aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þá hafi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið staðfest að ráðuneytinu hafi ekki borist beiðni frá embætti ríkislögreglustjóra á grundvelli 2. mgr. 72. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Loks kveðst kærandi óska eftir að úrskurðað verði um greiðslutryggingu eignarnámsbóta kærða vegna brota á þeim lögum og reglugerðarákvæðum sem verja eigna- og umráðarétt eigenda Ísólfsskála.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta ná valdheimildir nefndarinnar til lögmætisathugunar á þeim álitaefnum sem undir hana eru bornar á grundvelli kæruheimilda í lögum. Leysir úrskurðarnefndin því hvorki úr eignaréttarlegum ágreiningi né tekur hún afstöðu til bótakrafna. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um greiðslu bóta vegna umþrættra framkvæmda.

Í máli þessu er deilt um framkvæmd vegna lagningar jarðstrengja rafmagns og ljósleiðara í landi jarðarinnar Ísólfsskála. Grindavíkurbær mun hafa veitt Neyðarlínunni ohf. munnlegt leyfi fyrir framkvæmdinni með fyrirvara um samþykki landeiganda og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Hefur sveitarfélagið vísað til þess að umrætt leyfi hafi verið leyfi Grindavíkurbæjar sem landeiganda en ekki leyfi til framkvæmda á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010, enda sé framkvæmdin ekki framkvæmdaleyfisskyld. Samkvæmt því liggur ekki fyrir framkvæmdaleyfi  vegna umræddrar framkvæmdar eða önnur ákvörðun á grundvelli skipulagslaga sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2021 Minna-Hof

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. desember 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir spildu úr landi Minna-Hofs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 5. mars 2021, kæra eigendur jarðanna Árgilsstaða 2, Vallarhjáleigu og Bakkavallar þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. desember 2020 að samþykkja deiliskipulag fyrir spildu úr landi Minna-Hofs. Er þess krafist að ákvörðunin, ásamt samhliða breytingum á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028, verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að sá hluti deiliskipulagsins sem lýtur að öllum lóðum við Lækjarstíg, sem sé á svonefndu dúasvæði Eystri-Rangár og Stokkalækjar, verði felldur úr gildi. Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir að Minna-Hofi yrðu stöðvaðar. Var af hálfu úrskurðarnefndarinnar litið svo á að í þeirri kröfu fælist krafa um frestun réttaráhrifa og með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 30. mars 2021 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 17. mars 2021.

Málavextir: Á árinu 2019 samþykkti sveitarstjórn Rangárþings ytra að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir spildu úr landi Minna-Hofs, en í tillögunni fólst m.a. að skipuleggja 41 lóð fyrir íbúðir. Að virtum athugasemdum og ábendingum ákvað skipulagsnefnd- og umferðarnefnd sveitarfélagisns á fundi sínum 10. febrúar 2020 að gera þyrfti breytingu á landnotkun svæðisins. Að undangenginni auglýsingu skv. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti sveitarstjórn sveitarfélagsins á fundi sínum 10. desember 2020 tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028, sem fólst í því að breyta landnotkun á hluta jarðarinnar Minna-Hofs úr landbúnaðarsvæði í svæði fyrir íbúðarbyggð, merkt ÍB-30. Tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. janúar 2021. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni var unnið að gerð deiliskipulags fyrir svæðið en í deiliskipulagstillögunni fólst sem fyrr m.a. að skipuleggja 41 lóð fyrir íbúðir. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 24. ágúst 2020 var samþykkt að auglýsa tillöguna skv. 41. gr. skipulagslaga og var það gert 2. september 2020 með fresti til að skila inn athugasemdum til 15. október s.á. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 9. nóvember s.á. var bókað um framkomnar athugasemdir, en nefndin taldi ekki þörf á að bregðast við þeim. Staðfesti sveitarstjórn þá bókun á fundi sínum 12. s.m. Tillagan var svo endanlega samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. desember s.á. og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 10. s.m. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. febrúar 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi lögvarinna hagsmuni að gæta sem eigendur aðliggjandi jarða við Eystri-Rangá, en um sé að ræða jarðirnar Árgilsstaði 2, Vallar­hjáleigu og Bakkavöll. Landa- og sveitarfélagamörk séu um Eystri-Rangá miðja. Vallarhjáleiga og Bakkavöllur eigi land að hinu deiliskipulagða svæði úr landi Minna-Hofs. Í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024 sé land Árgilsstaða og Vallarhjáleigu skilgreint sem vatns­verndarsvæði og Vallarnes í landi Vallarhjáleigu og Bakkavallar sé hverfisverndarsvæði (Hv-303), líkt og Eystri-Rangá frá upptökum að Hólsá (Hv-340). Landið hafi fram að þessu haft yfirbragð landbúnaðarsvæðis og mikilvægustu nytjar þess séu laxveiði, útivist, búfjárbeit, skógrækt og tún til heyskapar. Byggð hafi hingað til takmarkast við bóndabæi og stöku sumarbústaði. Ljóst sé að fyrirhuguð íbúðarbyggð muni spilla nærútsýni og náttúruupplifun við Eystri-Rangá frá Hofsbæjum og Vallarkrók upp að Tungufossi og brjóta í bága við hverfisvernd Eystri-Rangár og dúasvæði hennar. Kærendur telji bæði óvarlegt og gróft brot á grenndarrétti að skipuleggja íbúðahúsalóðir á bökkum Eystri-Rangár og út í miðja á að mörkum sveitar­félagsins og landa kærenda. Hafa verði í huga að um langt skeið hafi Eystri-Rangá verið ein besta laxveiðiá landsins. Auk þess séu lóðirnar næst ánni og kaldavermslum á þekktu flóða­svæði. Af framangreindu leiði að fyrirhugaðar framkvæmdir séu til þess fallnar að rýra upplifun og verðmæti eigna kærenda. Þá sé hætta á því að veiðimenn, sem sækist í að veiða í ósnortinni náttúru og friði, hætti komum sínum í ána. Sé því ljóst að kærendur eigi verulega hagsmuni í málinu.

Ekki verði séð að hið kærða deiliskipulag samræmist stefnumörkun í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 heldur þvert á móti stangist það á við markmið þess í flestum veigamiklum atriðum, s.s. um sjálfbærni, hagkvæma þróun byggðar og að íbúðarbyggð verði á samfelldum svæðum í grennd við núverandi veitur og vegi. Deiliskipulagið gangi í berhögg við áherslur aðalskipulagsins um að fyrirhuguð uppbygging miði að því að halda í dreifbýlis­yfirbragð í sveitarfélaginu, að hvorki sé lokað almennum gönguleiðum né aðgengi takmarkað að áhugaverðum stöðum eða svæðum og að tekið sé tillit til verndarsvæða. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu fallnar til þess að raska öryggi og vatnsvernd á svæðinu, sérstaklega m.t.t. þess að enginn einn beri ábyrgð á rotþró heldur sé hverjum og einum falið að sjá um hana, en það geti auðveldlega brugðist. Þá sé í þessu sambandi rétt að vekja sérstaka athygli á skilmálum fyrir lóð undir vatnsból sem þjóna eigi hverfinu. Þar segi m.a. að innan lóðarinnar sé öll starfsemi óheimil, þ.m.t. notkun og geymsla á hættulegum efnum, s.s. olíu, bensíni, eiturefni, salti o.fl. þess háttar. Af því verði ekki annað ráðið en að notkun og geymsla á hættulegum efnum sé heimil á lóðum á bökkum Eystri-Rangár og Stokkalækjar.

Ekki verði séð af umfjöllun í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi að frárennslismál séu leyst með ábyrgum hætti og byggingaraðilum gert að ganga frá rotþróm utan lóðar, hvort sem er sér eða sameiginlega með næstu nágrönnum. Þá sé heimild fyrir allt að 600 m2 byggingum og allt að sex húsum á hverri lóð, auk þess sem opnað sé á gisti- og veitingarekstur. Fyrirliggjandi framkvæmdir séu mun umfangsmeiri en gera megi ráð fyrir til sveita þar sem stundaður sé landbúnaður og útivist. Umrætt íbúðarhverfi sé algjörlega á skjön við nýtingu aðliggjandi svæða í dag. Ekki hafi verið haft samband við þá jarðareigendur sem hafi stórvægilegra grenndarhagsmuna að gæta og þeim kynnt fyrirhugað skipulag. Einnig sé athygli vakin á að framkvæmdir við vega- og lóðagerð hafi verið hafnar áður en skipulagið hafi fyrst verið lagt fram.

Í 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sé fjallað um heimild til mannvirkjagerðar í og við veiðivatn. Þar segi í 1. mgr. að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatns að öðru leyti, sé háð leyfi Fiskistofu. Þá segi í 2. mgr. að umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns og álit viðkomandi veiðifélags skuli fylgja. Loks segi í 3. mgr. 33. gr. að ef sérstök ástæða þyki til geti Fiskistofa krafist þess að framkvæmdaraðili geri líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfið sé veitt. Í fyrirliggjandi máli liggi engar upplýsingar fyrir um að framangreindra umsagna hafi verið aflað. Þá komi skýrlega fram á teikningum fyrirhugaðra framkvæmda að lóðamörk nái út í miðja á, þ.e. alveg að landamörkum kærenda. Fyrirhuguð mannvirki séu ekki nema u.þ.b. 50 m frá bakka Eystri-Rangár. Málsmeðferðin hafi því ekki verið í samræmi við lög nr. 61/2006.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélaginu er bent á að sú breyting hafi verið gerð á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2018 að hinu umrædda svæði hafi verið breytt úr landbúnaðarsvæði í íbúðarbyggð með 41 lóð fyrir íbúðir. Lóðir kærenda séu staðsettar í öðru sveitarfélagi en á milli sveitarfélaganna renni Eystri-Rangá. Kærendur hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í þessu máli, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 124 og 128/2019, þar sem íbúar í Breiðholti voru ekki taldir hafa lögvarða grenndarhagsmuni vegna áforma um byggingu gróðurhvelfingar í Elliðaárdal.

Athugasemdir landeiganda Minna-Hofs: Af hálfu landeiganda er kröfu kærenda og sjónar­miðum alfarið hafnað. Ljóst sé að kröfugerð þeirra hafi ekki lagastoð.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að með hinu kærða deiliskipulagi hafi verið samþykkt fordæmalaus breyting á landnotkun á viðkvæmu náttúrusvæði. Verið sé að heimila gríðarlega atvinnustarfsemi á svæðinu en heimilt verði að reka gistiþjónustu í flokki II í tveimur húsum á hverri lóð. Samtals verði því heimilt að starfrækja atvinnustarfsemi í 82 húsum á svæðinu. Slíkt yrði aldrei heimilað í íbúðarbyggð og því samræmist skipulagið ekki lögum að þessu leyti. Tilvísun sveitarfélagsins til máls nr. 124 og 128/2019 eigi vitaskuld ekki við enda ólíku saman að jafna, þ.e. annars vegar þéttbýli og hins vegar dreifbýli. Flóðahætta sé á lóðum nálægt Eystri-Rangá, en áin hafi breytt farvegi sínum talsvert á undanförnum árum. Landamerki milli Minna-Hofs og Vallarhjáleigu/Bakkavallar séu um Eystri-Rangá og því óglögg þar sem áin breyti um farveg. Lóðum sé úthlutað út í miðja á samkvæmt uppdrætti og því hugsanlega yfir á eignarland kærenda. Fram komi í svari skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra að hvorki hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi né byggingarleyfi. Því sé farið fram á að úrskurðarnefndin endurskoði ákvörðun um að hafna stöðvun framkvæmda enda byggi hún á röngum eða misvísandi upplýsingum frá sveitarfélaginu. Þá sé bent á að ekkert samráð hafi verið milli skipulagsyfirvalda Rangárþings ytra og Rangárþings eystra varðandi breytingu á aðalskipulagi Rangárþings ytra og við gerð hins kærða deiliskipulags.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra að samþykkja deiliskipulag fyrir spildu úr landi Minna-Hofs. Nær deiliskipulagið til 42 lóða, þ.e. 41 lóð fyrir íbúðir og ein lóð fyrir vatnsbrunn. Liggur deiliskipulagssvæðið að mörkum sveitarfélagsins Rangárþings eystra, þar sem þau liggja um miðja Eystri-Rangá.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærendur í máli þessu eru eigendur þriggja jarða sem liggja að Eystri-Rangá. Mörk jarðanna Vallarhjáleigu og Bakkavallar liggja að hinu deiliskipulagða svæði og verður af þeim sökum að játa eigendum þeirra kæruaðild í máli þessu. Jörðin Árgilsstaðir 2 liggur ekki að deili­skipulagssvæðinu en mörk hennar eru þó í Eystri-Rangá, í rúmlega 700 m fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði. Telja verður með hliðsjón af því skipulagi sem um er deilt og staðháttum að hið kærða deiliskipulag geti einnig snert grenndarhagsmuni eigenda þeirrar jarðar með þeim hætti að játa verði þeim kæruaðild í máli þessu skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011­ er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kæru­málum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt skýrum fyrirmælum 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta, ekki bornar undir nefndina. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka afstöðu til kröfu kærenda um að fella úr gildi tilteknar breytingar á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028.

Skipulagsvald innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, en með því getur sveitarstjórn haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr., en við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags auk þess sem deiliskipulag skal rúmast innan heimilda aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. nefndra laga. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 var umrætt deiliskipulagssvæði upphaflega skilgreint sem landbúnaðarland. Með breytingu á aðalskipulaginu, sem tók gildi 21. janúar 2021, var svæðið skilgreint sem íbúðarsvæði, en auk þess var skilgreint svæði fyrir vatnsból. Í a-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarsvæði skilgreint sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulags. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er skipulögð 41 lóð fyrir íbúðir og ein fyrir vatnsból.

Hvorki verður séð að hið kærða deiliskipulag sé í ósamræmi við stefnumótun aðalskipulagsins um íbúðarbyggð í kafla 2.2.1, s.s. um að íbúðarbyggð í dreifbýli skuli taka mið af yfirbragði dreifbýlis og að nýjar byggingar verði í góðum tengslum við núverandi vega- og veitukerfi, né að skilmálar skipulagsins um heimild til gistiþjónusta fyrir 10 manns á hverri lóð fari í bága við landnotkun svæðisins, sbr. áðurgreinda skilgreiningu á íbúðarsvæði í skipulagsreglugerð. Byggir hið kærða deiliskipulag því á stefnu aðalskipulags í samræmi við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og er því uppfyllt skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Hið kærða deiliskipulag var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð um auglýsingu og samþykkt deiliskipulags skv. 1. mgr. 41. gr. laganna og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Verður að því virtu ekki talið valda ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að ekki hafi verið haft sérstakt samráð við þá kærendur sem eru eigendur jarða sem liggja að deiliskipulagssvæðinu áður en tillagan var samþykkt til auglýsingar, sbr. gr. 5.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá var deili­skipulagstillagan ekki kynnt sveitarstjórn Rangárþings eystra, svo sem mælt er fyrir um að gera skuli í 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga, en mörk þess sveitarfélags liggja að mörkum umrædds deiliskipulagssvæðis. Hins vegar mun skipulagslýsing vegna breytinga á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2018, þar sem fram kom að til stæði að skipuleggja svæði með stórum íbúðarlóðum í landi Minna-Hofs, hafa verið kynnt fyrir skipulagsfulltrúa Rangárþings eystra og ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu sveitarfélagsins af því tilefni. Í ljósi þessa verður nefndur annmarki ekki talinn raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók afstöðu til innsendra athugasemda og var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð og athugasemdir var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og gerði stofnunin athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deili­skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Að gerðum breytingum var tillagan send að nýju til Skipulagsstofnunar, sem gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deili­skipulagsins. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 5. febrúar 2021. Þá verður ekki talið að samþykkt hins kærða deiliskipulags hafi verið háð leyfi Fiskistofu skv. 1. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði vegna framkvæmda í eða við veiðivatn, enda felur skipulagsáætlun ekki í sér leyfi til framkvæmda.

Í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að svæðið hafi ekki verið notað til landbúnaðar og ekki sé ástæða til að ætla að það sé mjög gott til akuryrkju. Með skipulaginu sé verið að mæta eftirspurn eftir fjölbreyttum búsetumöguleikum með dreifbýlisyfirbragði í nálægð við þéttbýli. Verður því að telja að efnis- og skipulagsrök hafi búið að baki hinu kærða deiliskipulagi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar.

Rétt þykir að benda á að skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga getur sá sem sýnir fram á tjón vegna skipulags eftir atvikum átt rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Slík bótaákvörðun á hins vegar ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 10. desember 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir spildu úr landi Minna-Hofs.

55/2021 Tjaldsvæði Hveragerði

Með

Árið 2021, mánudaginn 28. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 55/2021, kæra á afgreiðslu bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 1. október 2020 vegna erindis kæranda í tilefni af truflandi áhrifum reksturs tjaldsvæðis á búsetu kæranda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru, dags. 2. maí 2021, sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sama dag, kærir eigandi Reykjamerkur 16, Hveragerði, afgreiðslu bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 1. október 2020 vegna erindis kæranda og fleiri aðila í tilefni af truflandi áhrifum reksturs tjaldsvæðis á búsetu hans. Gerir kærandi þá kröfu að rekstraraðila tjaldsvæðisins verði gert að haga starfseminni í samræmi við gildandi skipulag.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 10. júní 2021.

Málsatvik og rök: Umrætt tjald- og þjónustusvæði er í næsta nágrenni lóða við Reykjamörk í Hveragerði og er gert ráð fyrir því í gildandi deiliskipulagi, sem og aðalskipulagi bæjarins. Með ódagsettu bréfi íbúa við Reykjamörk 14 og 16 til Hveragerðisbæjar var komið á framfæri kvörtun þeirra um verulega truflandi áhrif reksturs tjald- og þjónustusvæðisins. Var erindið tekið fyrir á fundi bæjarráðs 1. október 2020 og afgreitt með svofelldri bókun: „Bæjarráð bendir bréfriturum á að samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir afþreyingar og ferðamannasvæði á reit AF1 sem er skýrt afmarkaður á uppdrætti á aðalskipulagi. Rekstur tjaldsvæðis á þessum stað samræmist því gildandi aðalskipulagi. Samkvæmt samningi Hveragerðisbæjar og rekstraraðila tjaldsvæðisins ber að sjá til þess að farið sé að leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar varðandi brunavarnir á svæðinu og einnig eig að sjá til þess að ekki séu undir 2 metrar að jafnaði frá lóðamörkum aðliggjandi íbúðarbyggðar að tjöldum og ferðavögnum. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ítreka þessi ákvæði samningsins við rekstraraðila og vonast til þess að sátt skapist um rekstur svæðisins sem þarna hefur verið rekið í hátt í 20 ár.“ Er þessi bókun bæjarráðs tilefni kærumáls þessa.

Kærandi bendir á að umrætt tjaldsvæði liggi að mörkum lóðar hans sem geri það að verkum að nálægðin við reksturinn sé mikil. Lóðarmörk séu ekki virt og brotið sé á friðhelgi einkalífs hans. Ýmislegt bendi til þess að lögboðnar umgengnisreglur séu brotnar og brunavörnum sé ábótavant. Kvartanir til Hveragerðisbæjar hafi ekki borið árangur.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er vísað til þess að starfsemi á tjaldsvæðinu við Reykjamörk 18 sé í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Í gr. 3.8.4 í greinargerð með Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 sé tekið fram að tjaldsvæðið sé sérstaklega ætlað tjaldvögnum, hjólhýsum og húsbílum. Í gildandi deiliskipulagi komi fram að innan tjaldsvæðisins séu tekin frá svæði þar sem koma megi fyrir reitum fyrir húsbíla og stór og lítil fellitjöld. Í  samningi milli Hveragerðisbæjar og rekstraraðila tjaldsvæðisins séu ákvæði varðandi brunavarnir og lágmarksfjarlægð stæða fyrir tjöld og ferðavagna frá lóðarmörkum aðliggjandi íbúðarbyggðar. Hafi bæjarráð falið bæjarstjóra að ítreka þessi ákvæði samningsins við rekstraraðila og vonast sé til þess að sátt skapist um rekstur svæðisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Eins og að framan er getið sendi kærandi yfirvöldum Hveragerðisbæjar erindi sem fól í sér kvörtun vegna reksturs tjald- og þjónustusvæðis sem liggur að mörkum lóðar hans. Var erindið afgreitt af bæjarins hálfu með því að fela bæjarstjóra að ítreka við rekstraraðila tjaldsvæðisins skyldur hans samkvæmt samningi hans við Hveragerðisbæ um rekstur svæðisins. Ekki er um stjórnvaldsákvörðun að ræða, né heldur fyrirfinnst kæruheimild í lögum vegna greindrar afgreiðslu. Þar sem nefnd afgreiðsla felur ekki í sér neina þá ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli kæruheimildar í lögum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það skal þó á það bent að heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir starfsemi tjald- og hjólhýsasvæða, sbr. lið 103 í IV. viðauka við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sé ekki farið að skilyrðum starfsleyfa, t.d. um umgengni, öryggi o.fl., er unnt að beina erindi vegna þessa til heilbrigðisnefndar. Loks skal þess getið að kveðið er á um í 4. gr. lögreglusamþykktar nr. 955/2017 fyrir sveitarfélög í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi að bannað sé að aðhafast nokkuð sem veldur ónæði eða raskar næturró manna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

76/2021 Geldingadalir

Með

Árið 2021, föstudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður og Ómar Stefánsson varaformaður. Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2021, kæra vegna tveggja varnargarða við Geldingadali  sem byrjað var að reisa 13. eða 14. maí 2021.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til dómsmálaráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 21. maí 2021, er umhverfis- og auðlindaráðuneytið framsendi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 2. júní s.á., kæra samtökin Náttúrugrið og stjórnarformaður samtakanna persónulega, gerð tveggja varnargarða við Geldingadali, sem byrjað var að reisa 13. eða 14. maí 2021. Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu framkvæmdir verði þegar í stað stöðvaðar, að ógiltar verði þær ákvarðanir sem kunni að liggja að baki þeim og að ákvörðun verði tekin um endurheimt fyrra ástands eftir því sem aðstæður séu til. Þá er krafist viðeigandi úrræða vegna athafnaleysis framkvæmdaraðila og Grindavíkurbæjar. Krafa um stöðvun framkvæmda var afturkölluð 10. júní s.á.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 7. júní 2021.

Málavextir: Á fundi bæjarráðs Grindavíkur 4. maí 2021 voru prófanir á hraunrennslisvörnum til umræðu. Eftirfarandi var bókað í fundargerð: „Fyrir liggja útfærslur á prófunum á mögulegum hraunrennslisvörnum í Meradölum út frá núverandi gosi í Geldingadölum. Tilgangur þessara prófana er að afla reynslu og þekkingar á uppbyggingu varnargarða sem gæti þurft að byggja síðar til að verja mikilvæga innviði eða íbúðabyggð á Reykjanes­skaga. Bæjarráð Grindavíkur leggur mikla áherslu á að þær aðstæður sem nú eru til staðar í Meradölum verði tafarlaust nýttar til að framkvæma prófanir á hraunrennslisvörnum að veittum tilskyldum leyfum til framkvæmdanna.“

Að kvöldi 13. maí 2021 barst Grindavíkurbæ tölvupóstur þar sem óskað var „formlega eftir f.h. Almanna­varna, framkvæmdaleyfi vegna byggingu tveggja varnargarða í syðstu Mera­dölum/Nafnlausadal, ofan við Nátthaga.“ Var tekið fram að stefnt væri að því að hefja framkvæmdir strax morguninn eftir. Bæjarstjóri Grindavíkurbæjar svaraði póstinum á þann veg að sveitarfélagið væri ekki í aðstöðu til að veita framkvæmdaleyfi með þessum hætti þótt fullur vilji væri til að ganga tafarlaust í verkið. Hlyti að „gilda ek. neyðarréttur almannavarna sem gengur lengra en heimildir starfsmanna sveitarfélaga til flýtimeðferðar.“ Munu framkvæmdir vegna tveggja fjögurra metra hárra varnargarða vegna hraunflæðis hafa hafist við Geldingadali 14. maí ofan við Nátthaga. Tilkynning þess efnis birtist á vef almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra þann dag þar sem fram kom m.a. að vinna þessi væri í samstarfi við lögreglustjórann á Suðurnesjum, almannavarnir í Grindavík og Grinda­víkur­bæ.

Annar kærenda, stjórnarformaður samtakanna Náttúrugriða, var í kjölfarið í tölvupóst­samskiptum við hin ýmsu stjórnvöld til að fá frekari upplýsingar um framkvæmdirnar, leyfi sem þeim lægju að baki og hver stæði að þeim. Að endingu sendu kærendur samhljóða kæru, dags. 21. maí 2021, til dómsmálaráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Dómsmálaráðuneytið vísaði kærunni frá 27. s.m. þar sem ráðuneytið taldi kæruna ekki falla undir starfssvið þess. Afrit af frávísunarpóstinum var sent annars vegar til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hins vegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið framsendi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæruna 2. júní s.á. með vísan til 4. og 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála nr. 130/2011, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er hvað kæruheimild varðar vísað til fullgildingar Íslands á Árósasamningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sbr. þingsályktun nr. 46/139 frá 16. september 2011, lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Vísað sé til skuldbindingar í 3. mgr. 9. gr. samningsins þar sem segi: „Til viðbótar og með fyrirvara um þær endurskoðunar­leiðir sem vísað er til í 1. og 2. mgr. hér að framan skal sérhver samningsaðili tryggja að uppfylli almenningur þau viðmiðunarskilyrði, ef einhver eru, sem mælt er fyrir um í landslögum skuli hann hafa aðgang að stjórnsýslu- og dómstólameðferð til að geta krafist þess að aðgerðir og aðgerðaleysi af hálfu einstaklinga og stjórnvalda, sem ganga gegn ákvæðum eigin landslaga um umhverfið, verði tekin fyrir.“ Þá sé vísað til almennra reglna íslensks stjórnsýsluréttar um kæruheimild til æðra stjórnvalds.

Kærendur telji dómstólameðferð ekki tiltækt úrræði í þessu máli. Íslandi hafi valið að fara svokallaða stjórnsýsluleið við fullgildingu Árósasamningsins. Stjórnsýsluákvörðun samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 virðist ekki hafa verið tekin í málinu og njóti því ekki við kæruréttar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. laganna. Kæranlegar ákvarðanir samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi heldur ekki verið teknar. Hið sama eigi við um athafnir og athafnaleysi.

Málsrök Grindavíkurbæjar: Af hálfu Grindavíkurbæjar er bent á að sveitarfélaginu hafi ekki borist krafa um beitingu þvingunarúrræða vegna hinna kærðu framkvæmda. Þá hafi ekki verið sótt um framkvæmdaleyfi og það því ekki verið gefið út, en framkvæmdaraðili sé almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Bæjarráð hafi hins vegar á fundi sínum 4. maí 2021 bókað að mikilvægt væri að nýta þær aðstæður sem uppi væru til að framkvæma prófanir á hraunrennslisvörnum að fengnum tilskyldum leyfum til þeirra framkvæmda.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur komu að viðbótarathugasemdum 10. júní 2021 þegar þeim var ljóst að kæra þessi hefði verið framsend til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í viðbótarathugasemdum var bent á að málið varðaði annars vegar athafnir og hins vegar athafnaleysi. Athafnirnar felist í gerð framkvæmdaraðila á varnargörðum í trássi við lög. Athafnaleysið sé að framkvæmdaraðili hafi ekki sótt um og Grinda­víkur­bær ekki fjallað um framkvæmdaleyfi, í trássi við lög og gegn skýrum tilmælum Skipulags­stofnunar. Aðkoma ráðuneyta að þessum athöfnum og athafnaleysi sé enn óskýr af gögnum máls, en upplýst sé að hópur ráðuneytisstjóra hafi haft einhver afskipti af málum og hafi að því virðist hafnað að leggja blessun sína yfir tillögur sem komið hafi frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um varnargarðagerð við eldgosið í Geldingadölum. Hluti sama hóps hafi fjallað um málið að nýju á uppstigningardag og þá fallist á að varnargarðar yrðu gerðir vegna mats almannavarnadeildar á því að nauðsynlegt væri að verja mikilvæga innviði. Ekki sé vitað á hvaða lagagrundvelli þessi ákvörðun hafi verið tekin en ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlinda­ráðuneytisins hafi ekki verið á þeim fundi. Hvorki liggi fyrir hverjar efnislegar forsendur þessarar ákvörðunar hafi verið né hvers vegna farið hafi verið gegn áliti hluta sama hóps ráðuneytisstjóra, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar. Samkvæmt minnisblaði forsætis­ráðuneytisins frá 19. mars 2021 sé stjórnskipuleg aðkoma umhverfis- og auðlindaráðuneytisins bundin við vöktun og náttúruvá, en þar séu hins vegar hvorki talin upp náttúruvernd né skipulagsmál, sem séu þeir málaflokkar sem kæra þessi lúti að.

Byggt sé á því að tiltekin landslög hafi verið brotin, þ.e. að ekki hafi verið farið að nánar tilteknum ákvæðum laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslaga nr. 123/2010 og laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Málsmeðferð hafi ekki verið sú sem mælt sé fyrir um í lögum nr. 106/2000 um ákvörðun um matsskyldu og/eða undanþágu frá umhverfismati. Þá sé framkvæmdaraðili óþekktur og hafi ekki aflað framkvæmdaleyfis skv. skipulagslögum. Að lokum hafi ekki verið gætt meginreglna II. kafla laga nr. 60/2013, einkum varúðarreglu og reglunnar um vísindalegan grundvöll, sem og hinnar almennu aðgæsluskyldu. Um fyrri atriðin tvö sé byggt á því áliti sem fram hafi komið frá Skipulagsstofnun þegar hinar kærðu athafnir og athafnaleysi hafi átt sér stað og vísað sé til í kærum. Byggt sé á því að samkvæmt fullgiltum alþjóðasamningi eigi íslensk stjórnvöld að gera almenningi kleift að krefjast endurskoðunar slíkra meintra brota einkaaðila eða stjórnvalda á landslögum, hvort sem um sé að ræða athafnir eða athafnaleysi viðkomandi, annað hvort með endurskoðunarleið innan stjórnsýslunnar eða fyrir dómstólum, eða eins og segi í 3. mgr. 9. gr. Árósasamningsins: „[…] where they meet the criteria, if any, laid down in its national law, members of the public have access to administrative or judicial procedures to challenge acts and omissions by private persons and public authorities which contravene provisions of its national law relating to the environment“.

Kæruefnið varði þannig að mati kærenda ekki ákvarðanir tengdar umhverfismati framkvæmda í þröngum skilningi laga nr. 130/2011. Kærur hafi í samræmi við þann skilning verið sendar ráðuneytum. Af tölvupósti umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 2. júní 2021 og tölvupósti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 4. s.m. megi hins vegar ráða að kæruefnið eigi undir ákvæði skipulagslaga. Af hálfu kærenda sé ekki gerð athugasemd við þennan skilning, eins og hátti í máli þessu, enda teljist ekkert annað stjórnvald til þess bært.

Kærendur sendu aftur inn viðbótarathugasemdir 11. júní 2021. Kom þar fram að annar kærenda hefði átt samtal við sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar. Hafi kærandinn fengið þær upplýsingar að framkvæmdaleyfi hefði verið gefið út fyrir göngustígum vegna eldgossins í Geldingadölum. Hins vegar hefði það ekki verið gert vegna varnargarðanna, sem þá hefðu verið í byggingu. Skilja hafi mátt að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin um að veita ekki framkvæmdaleyfi. Í því samhengi hafi neyðarréttur verið nefndur. Kæranda, sem sé ólöglærður og hafi ekki notið aðstoðar lögmanns á þeim tíma, hafi ekki verið leiðbeint um úrræði, teldi hann brotið á almannarétti. Áréttað sé að frumkvæðisskylda sveitarfélags skv. 53. gr. skipulagslaga sé skýr og að krafa einstaklings eða lögaðila þurfi ekki að koma til. Hefði frumkvæði kæranda verið nauðsynlegt hefði þurft að leiðbeina honum um slíkt, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé áréttað að kærur fjalli ekki um ákvarðanir Grinda­víkurbæjar, þ. á m. stjórnvaldsákvarðanir, heldur um aðgerðaleysi og eftir atvikum aðgerðir í skilningi 3. mgr. 9. gr. Árósasamningsins.

Niðurstaða: Um kæruheimild vísa kærendur í kæru sinni til samnings efnahagsnefndar Evrópu um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, Árósasamningsins, sem fullgiltur var með þingsályktun 46/139 frá 16. september 2011, svo og til laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og laga nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósa­samningsins. Í viðbótarathugasemdum gera kærendur þó ekki athugasemd við að kæru­efnið teljist eiga undir lög nr. 130/2011 þar sem brotið hafi verið gegn lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Ísland hefur tekið á sig ákveðnar skuldbindingar með aðild sinni að Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Samhliða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu nefnds samnings, og til að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum, hlutu meðferð Alþingis frumvörp sem síðar urðu að fyrrnefndum lögum nr. 130/2011 og lögum nr. 131/2011 Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Löggjafinn hefur því tekið afstöðu til þess með lögum hvernig uppfylla skuli samningsskyldur Íslands skv. Árósasamningnum, þ. á m. hvaða ágreiningur verði borinn undir úrskurðarnefndina. Samkvæmt fyrrnefndri 1. gr. laga nr. 130/2011 þarf að vera til staðar sérstök lögbundin kæruheimild hverju sinni og verður ekki byggt á Árósasamningum eingöngu til að unnt sé að bera mál undir nefndina.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga. nr. 130/2011 geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir eða ætlað brot á þátttökurétti almennings til úrskurðar­nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um tilteknar ákvarðanir og ætlað brot á þátttökurétti er að ræða. Í d-lið nefndrar greinar er athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nefnt sérstaklega. Fjallað er um matsskyldu í III. kafla laga nr. 106/2000 um matsskyldar framkvæmdir. Ekki verður séð að hinar kærðu framkvæmdir eigi undir lögin skv. 5. gr. laganna, sbr. og 1. viðauka við þau, auk þess sem ekki liggur fyrir ákvörðun skv. 6. gr. þeirra um að þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Er rétt í þessu sambandi að benda á að skv. 8. mgr. nefndrar 6. gr. er öllum, þ. á m. kærendum, heimilt að bera fram fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort tiltekin framkvæmd falli í flokk B eða flokk C í 1. viðauka við lögin og skal stofnunin þá leita upplýsinga um framkvæmdina hjá framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og taka ákvörðun um hvort hún eigi undir lagagreinina.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 52. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæruheimild samkvæmt lögunum er því bundin við að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin en í máli þessu liggur fyrir að engin stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdaleyfi. Er því ekki til staðar kæranleg ákvörðun samkvæmt skipulagslögum. Þó skal tekið fram að skv. 1. mgr. 53. gr. laganna skal skipulagsfulltrúi stöðva framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd, sem hafin er án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið fengið, tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar. Í 3. mgr. 53. gr. kemur svo fram að ef 1. og 2. mgr. eigi við geti skipulagsfulltrúi krafist þess að hin ólöglega framkvæmd sé fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Framangreindar ákvarðanir, eða synjun skipulagsfulltrúa um að beita slíkum þvingunarúrræðum, eru eftir atvikum kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar skv. 52. gr. skipulagslaga, svo fremi sem uppfyllt eru skilyrði kæruaðildar fyrir nefndinni, s.s. um að viðkomandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun sem kærð er, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá þykir rétt að benda á að heimild 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar, leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi, er bundin við umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórnaryfirvöld.

Ekki er að finna almenna kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála  í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, heldur eingöngu vegna ákvarðana Umhverfisstofnunar skv. 63. gr., sbr. 91. gr., en engin slík ákvörðun hefur verið tekin í máli þessu. Rétt þykir þó að benda á að skv. 2. mgr. 13. gr. laganna fer Umhverfisstofnun m.a. með eftirlit með framkvæmd laganna, en í því eftirlitshlutverki stofnunarinnar felst m.a. eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. laganna. Hefur stofnunin eftir atvikum heimild til beitingar þvingunarúrræða skv. XV. kafla nefndra laga. Kærandi hefur því þann möguleika að vekja athygli stofnunarinnar á hinum kærðu framkvæmdum.

Kærendur hafa einnig vísað til athafnaleysisbrots þar sem „framkvæmdaraðili hafi ekki sent og Grindavíkurbær ekki fjallað um framkvæmdaleyfisumsókn og að skipulagsfulltrúi Grindavíkurbæjar hafi ekki aðhafst til að stöðva óleyfisframkvæmd.“ Enga kæruheimild er að finna í skipulagslögum vegna athafnaleysis. Líkt og hér að framan er rakið er því ekki um kæranlegar ákvarðanir að ræða. Hér þykir þó rétt að benda á að skv. 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum, en kærendum hefur áður verið leiðbeint um þessar almennu yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir. Hins vegar þykir ekki rétt að framsenda kæru þessa til ráðuneytisins þar sem kæruheimild lýtur aðeins að stjórnvaldsákvörðunum skv. 111. gr. sveitarstjórnarlaga, en líkt og áður hefur komið fram hefur slík ákvörðun ekki verið tekin í máli þessu. Í þessu samhengi er þó sérstaklega bent á að ráðuneytið getur að eigin frumkvæði gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélags, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 112. gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu er ekki til staðar nein sú ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem sætt getur lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar. Kærumáli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

138/2020 Svínabú áminning

Með

Árið 2021, föstudaginn 25. júní kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2020, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 24. nóvember 2020 um að veita áminningu vegna fráviks frá starfsleyfi fyrir svínabú að Melum í Hvalfjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 24. nóvember s.á. að veita kæranda áminningu vegna fráviks frá gr. 2.8. í starfsleyfi þess fyrir svínabú að Melum í Hvalfjarðarsveit. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 21. janúar 2021.

Málavextir: Kærandi hefur um margra ára skeið stundað svínaeldi að Melum í Hvalfjarðarsveit. Hinn 29. júní 2011 samþykkti heilbrigðisnefnd Vesturlands starfsleyfi honum til handa til að starfrækja þar þauleldi á fráfærugrísum, allt að 8.000 stæðum. Samkvæmt útgefnu starfsleyfi er gildistími þess til 29. júní 2023. Í því kemur m.a. fram að starfsleyfishafi skuli hlíta ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, tilgreindum reglugerðum sem um starfsemina gildi á hverjum tíma, svo og skilyrðum á fylgiskjali með leyfinu. Í gr. 2.8. á fylgiskjali segir eftirfarandi: „Safnþrær skulu yfirbyggðar, þéttar og þannig frá þeim gengið að ekki leki úr þeim út í umhverfið. Frestur til að byggja yfir þrærnar er veittur til 1. maí 2013“. Sætti nefnd ákvörðun um útgáfu starfsleyfis kæru til umhverfisráðuneytisins og var krafist ýmissa breytinga á því. Hinn 5. mars 2012 lá úrskurður ráðuneytisins fyrir. Með honum var útgáfa hins kærða starfsleyfis staðfest með ákveðnum breytingum, en m.a. var fyrrgreindur frestur til að byggja yfir safnþrær felldur brott. Skyldi starfsleyfishafi því strax uppfylla kröfur um safnþrær í 1. ml. gr. 2.8. í fylgiskjalinu.

Með breytingu á lögum nr. 7/1998 árið 2017 tók Umhverfisstofnun við eftirliti með starfsemi vegna þauleldis og fór fyrsta eftirlit stofnunarinnar með starfsemi kæranda að Melum fram 24. ágúst 2018. Með bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 26. september s.á., var bent á að við eftirlitið hefðu komið í ljós frávik frá starfsleyfi kæranda, m.a. frá gr. 2.8., en fremri safnþró væri ekki yfirbyggð. Var þess óskað að stofnuninni bærist tímasett áætlun um úrbætur eigi síðar en 10. október 2018, í samræmi við 58. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit. Mun Umhverfisstofnun hafa borist úrbótaáætlun 13. desember 2018 og kom þar fram að leitað hefði verið ýmissa leiða til úrbóta og að áætluð verklok væru 1. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 11. janúar 2019, tilkynnti Umhverfisstofnun kæranda að fallist væri á úrbótaáætlun hans og fór stofnunin fram á að vera upplýst þegar fyrir lægi hvaða lausn yrði valin. Með bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 7. febrúar 2020, var vísað til þess að við eftirlit 17. desember 2019 hefði komið í ljós að fremri safnþró væri enn óyfirbyggð. Vindstyrkur væri talinn of mikill fyrir segldúk yfir þróna. Verið væri að skoða með verkfræðingi hvernig hægt væri að byggja yfir tankinn og nokkrar aðrar lausnir væru einnig í skoðun samkvæmt rekstraraðila. Óskaði stofnunin þess að send yrði tímasett áætlun um úrbætur eigi síðar en 28. febrúar 2020.

Hinn 9. júní 2020 fór Umhverfisstofnun að nýju í eftirlit að Melum. Fram kom í eftirlits­skýrslu af því tilefni að staðfest væri að úrbótum væri ekki lokið og að ekki lægi fyrir tímasett úrbótaáætlun varðandi frávik um yfirbyggingu safnþróar. Hefði rekstraraðili rætt um að náttúrleg skorpa væri nefnd sem möguleg lausn í stað yfirbyggingar, en m.a. var tekið fram í skýrslunni að miðað við BAT-niðurstöður ætti náttúruleg skorpa e.t.v. ekki við í köldu loftslagi og/eða á fljótandi húsdýraáburði sem innihéldi lítið af þurrefni. Þegar spýtu hefði verið stungið í gegnum yfirborð skítsins hefði komið í ljós að ekki væri skorpa á yfirborðinu. Með tölvupósti  Umhverfisstofnunar til kæranda 8. júlí 2020 var honum gefið færi á að tjá sig um eftirlitsskýrsluna. Bárust athugasemdir hans 29. s.m. þar sem m.a. var gerð athugasemd við fyrrgreinda skoðun á skorpunni. Svaraði Umhverfisstofnun athugasemdum kæranda með tölvupósti 7. september 2020. Var fallist á að taka út fullyrðingu í skýrslunni um að þróin uppfyllti ekki skilyrði BAT-niðurstaðna, en ljóst væri að skilyrði gr. 2.8. í starfsleyfi væri ekki uppfyllt.

Með bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 8. október 2020, voru tilkynnt áform stofnunarinnar um áminningu, sbr. 60. gr. laga nr. 7/1998. Jafnframt var gerð krafa um úrbætur. Í bréfinu kom fram að ekki hefði borist staðfesting á því að brugðist hefði verið við greindum frávikum með fullnægjandi hætti og að úrbótum væri lokið. Var kæranda veittur frestur til 22. s.m. til að skila inn staðfestingu á úrbótum eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri, sem hann og gerði. Tók hann m.a. fram að skoðaðar hefðu verið nokkrar lausnir og m.a. verið leitað tilboðs í að steypa þak á tankinn. Var þess óskað að veittur yrði frekari frestur til úrbóta. Annars vegar þar til svör bærust frá erlendum aðilum um það hvort þeir hefðu lausnir sem staðist gætu íslensk veðurskilyrði og hins vegar til að ganga úr skugga um hvort náttúruleg skorpumyndun teldist fullnægjandi að teknu tilliti til veðurfars og aðstæðna. Yrði ráðist í þær lausnir sem erlendir aðilar mæltu með strax og hægt væri. Fyndust ekki lausnir sem væru of íþyngjandi fyrir kæranda umfram aðra rekstraraðila þá þyrfti að skoða breytingu á starfsleyfinu.

Brást Umhverfisstofnun við með bréfi til kæranda, dags. 24. nóvember 2020. Reifaði stofnunin m.a. framkomin sjónarmið og vék að afstöðu umhverfisráðuneytisins í fyrrgreindum úrskurði frá 5. mars 2012 um starfsleyfi kæranda. Í honum kæmi skýrt fram að yfirbygging safnþróarinnar væri ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir starfseminni og að ekki væri lagaheimild til að veita frest til að uppfylla umrædda kröfu. Taldi stofnunin að ekki væru forsendur til að veita kæranda þann viðbótarfrest til úrbóta sem hann hefði lagt til. Hafnaði Umhverfisstofnun úrbótaáætlun kæranda og veitti honum áminningu sbr. 60. gr. laga nr. 7/1998. Jafnframt var gerð krafa um úrbætur og veittur frestur til 9. desember 2020 til að skila inn fullnægjandi tímasettri úrbótaáætlun. Einnig skyldi, eigi síðar en 30. s.m., berast staðfesting á því að samningur hefði verið gerður við verktaka um yfirbyggingu safnþróarinnar. Loks var vikið að heimild Umhverfisstofnunar til að ákveða dagsektir yrði kærandi ekki við kröfum stofnunarinnar.

Kom kærandi að sjónarmiðum sínum með bréfi, dags. 9. desember 2020, þar sem fyrri sjónarmið hans voru áréttuð. Jafnframt kom fram að til stæði að fá efnaverkfræðing til að mæla þykkt náttúrulegrar skorpu í safnþrónni. Teldust niðurstöður þeirrar mælingar leiða til þess að skorpumyndunin teldist fullnægja áskilnaði reglugerðar nr. 804/1999, um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, og BAT-niðurstaðna, væri kærandi reiðubúinn til að skila inn umsókn um breytingu á gildandi starfsleyfi fyrir svínabú sitt að Melum eigi síðar en 20. janúar 2021. Einnig áskildi hann sér rétt til að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þá teldi hann að með framangreindri úrbótaáætlun hefði hann orðið við kröfum Umhverfisstofnunar og óskaði eftir því að úrbótaáætlunin yrði tekin til tilhlýðilegrar meðferðar og afgreiðslu hjá stofnuninni. Í kjölfarið fékk kærandi verkfræðistofu til að meta þykkt flotlags í safnþrónni fyrir svínamykju frá svínabúi hans og lágu niðurstöður þeirra mælinga fyrir 18. desember 2020.  Hinn 21. s.m. barst úrskurðarnefndinni síðan kæra í máli þessu, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi ekki talið mögulegt að uppfylla kröfur gildandi starfsleyfis um yfirbyggingu umræddrar safnþróar. Um mikið mannvirki sé að ræða, raunar miklu frekar stóran safntank en safnþró í hefðbundnum skilningi. Við blasi að hönnun mannvirkisins og gerð þess geri ekki ráð fyrir því að yfir það verði byggt. Ekki þurfi sérfræðiþekkingu til að sjá að svo gott sem útilokað sé að útveggir beri yfirbyggingu. Væri slík framkvæmd á annað borð möguleg myndi hún hafa í för með sér óheyrilegan kostnað. Umhverfisstofnun hafi verið bent á að það stæðist hvorki sjónarmið um málefnalega stjórnsýslu né meðalhóf að gera kröfu um að kærandi réðist í slík fjárútlát af þessu tilefni.  Leitað hafi verið annarra leiða í því skyni að verða við kröfum um yfirbyggingu tanksins en ekki hafi verið talið framkvæmanlegt að reisa dúkþak þar yfir. Umhverfisstofnun hafi verið bent á öll þessi atriði, en á þau hafi ekki verið fallist. Ekki verði annað séð en að lagðar séu ríkari kröfur á kæranda en almennt séu lagðar á rekstraraðila svínabúa annars staðar á landinu. Þá sýni m.a. umfjöllun í fagtímaritum um uppbyggingu á nýjum haugtönkum að aðrir rekstraraðilar telji sig ekki skylduga til að byggja yfir slíka tanka. Krafa um yfirbyggingu virðist frekar heyra til algerra undantekninga en að teljast vera almenn regla.

Krafa í starfsleyfi um yfirbyggingu safnþróa eigi sér ekki lagastoð. Gangi hún lengra en gildandi réttarheimildir mæli fyrir um og íþyngi kæranda því umfram það sem lög og reglur heimili. Af bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 24. nóvember 2020, verði ekki annað ráðið en að umrædd krafa styðjist við gr. 6.2 í reglugerð nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri. Meginmarkmið reglugerðarinnar lúti að vatnsvernd og beri að túlka ákvæði hennar og þær kröfur sem starfsleyfið mæli fyrir um í samræmi við það meginmarkmið. Í samræmi við markmiðsákvæði reglugerðarinnar sé svo mælt fyrir um að við staðsetningu og frágang á hauggeymslum skuli taka mið af vatnsverndarsvæðum, fjarlægðarmörkum fyrir vatnsból og starfsreglum fyrir góða búskaparhætti, sbr. 14. gr. reglugerðarinnar, en að öðru leyti fara að fyrirmælum heilbrigðisnefndar um gerð og staðsetningu hauggeymslna og áburðargeymslna.

Starfsemi svínabúsins sé að öllu leyti í samræmi við markmið og ákvæði reglugerðar nr. 804/1999. Mannvirki og búnaður við búið, þ. á m. umrædd safnþró uppfylli allar kröfur reglugerðarinnar og annarra laga og reglna sem um þau gildi. Engin merki séu um að mengunarhætta stafi af starfseminni. Með því að byggja safntankinn við búið í núverandi mynd hafi verið gripið til viðhlítandi aðgerða til að tryggja traustar varnir gegn mögulegri mengun vatns af starfseminni. Öðru hafi raunar aldrei verið haldið fram af hálfu Umhverfisstofnunar auk þess sem engin þekkt vatnsból séu í næsta nágrenni við svínabúið.

Hvorki í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir né í reglugerð nr. 804/1999 sé gerð krafa um að safnþrær, safntankar eða hauggeymslur, eins og sú sem hér um ræði, skuli vera yfirbyggð. Slíka kröfu sé heldur ekki að finna í öðrum lögum eða reglum sem um starfsemina gildi. Krafa um yfirbyggingu á safnþróm eða á geymslum fyrir fljótandi húsdýraáburð sé heldur ekki gerð í þeim evrópsku reglum sem gildi um starfsemi kæranda. Í þessu sambandi sé vísað til BAT-niðurstaðna, um bestu fáanlegu tækni, vegna þéttbærs eldis alifugla eða svína, sbr. innleiðingarákvörðun framkvæmdarstjórnarinnar (ESB) 2017/302, sjá gr. 1.11., BAT 16.

Ákvæði 6.2 í reglugerð nr. 804/1999 geri aðeins kröfu um að hauggeymslur við svínabú skuli vera vandaðar og þéttar en í því felist ekki krafa um að geymslurnar skuli jafnframt vera yfirbyggðar. Slík krafa þyrfti að koma fram með skýrum hætti í texta ákvæðisins, en svo sé ekki. Það leiði af almennum lögskýringarsjónarmiðum að túlka beri ákvæðið þröngt, enda sé það íþyngjandi og raunar sérlega fyrir kæranda ef sú túlkun stæðist að í orðalaginu „vandaðar og þéttar“ fælist einnig krafa um yfirbyggingu. Allan vafa við túlkun á orðalagi ákvæðisins beri því að meta kæranda í vil. Umhverfisráðuneytið hafi þegar látið í ljós þá afstöðu sína að ákvæði reglugerðarinnar beri að túlka þröngt og að ekki séu lagaskilyrði fyrir því að túlka ákvæði hennar með ívilnandi eða rýmkandi hætti. Ef túlka beri heimildir stjórnvalda til að veita borgurunum undanþágur frá ákvæðum reglugerðarinnar þröngt hljóti sama lögskýringarregla að gilda um heimildir stjórnvalda til þess að leggja ríkari kröfur á herðar þeim en beinlínis séu orðaðar í reglugerðartextanum sjálfum. Þar sem ekki sé áskilið sérstaklega í texta reglugerðarinnar að safnþrær eða hauggeymslur við svínabú skuli vera yfirbyggðar þá séu hvorki lagaskilyrði fyrir því að krefjast þess að í slíka yfirbyggingu sé ráðist né fyrir því að áminna kæranda fyrir að hafa ekki lagt fram áætlanir um framkvæmd yfirbyggingarinnar. Þegar af þeirri ástæðu beri að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun þar sem grundvöll hennar skorti lagastoð.

Einnig beri að túlka ákvæðið með hliðsjón af framangreindu markmiði reglugerðarinnar um að tryggja skuli að sú mykja sem safnist í tankinn berist ekki í vatn og mengi það. Útveggir safnþróarinnar/tanksins séu vandaðir og þéttir. Engin merki séu um að mykja úr búinu eða efnasambönd úr henni hafi smitast út í jarðveginn og blandast vatni í nágrenni búsins, enda hafi því aldrei verið haldið fram. Slík mengun gæti aðeins átt sér stað við aðstæður þar sem tankurinn myndi fyllast og yfirfall yrði úr honum. Slíkt yfirfall hafi aldrei átt sér stað á búi kæranda en kæmi til þess sé ljóst að yfirbygging yfir tankinn, hvort sem væri með steinsteyptum einingum eða dúk, myndi ekki forða slíku yfirfalli. Að sama skapi verði krafa um yfirbyggingu ekki studd því sjónarmiði að slík yfirbygging komi í veg fyrir eða sé til þess fallin að draga úr loftmengun í nágrenni tanksins. Auk þess sé ekki íbúabyggð í nánasta umhverfi búsins.

Túlka beri ákvæði gr. 6.2 í reglugerðinni með hliðsjón af því með hvaða hætti staðið hafi verið að söfnun og geymslu áburðar í landbúnaði í framkvæmd. Flestar ef ekki allar safnþrær á búum í landbúnaði á Íslandi séu án yfirbygginga. Það standist ekki jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að gera aðrar, ríkari og kostnaðarsamari kröfur til kæranda en gerðar séu til annarra rekstraraðila í sömu grein. Standist krafan ekki meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, ekki síst þegar fyrir liggi að kostnaður við slíka framkvæmd muni nema vel á fimmtu tug milljóna króna. Engu breyti þótt í starfsleyfinu sjálfu sé gerð krafa um yfirbyggingu, krafan sé eftir sem áður óhófleg. Augljóst sé að meðalhófs hafi ekki verið gætt þegar öðrum rekstraraðilum í sömu atvinnugrein sé ekki gert að ráðast í slíkar fjárfestingar af sama tilefni.

Mótmælt sé því sjónarmiði Umhverfisstofnunar að ákvæði í starfsleyfi geti gengið lengra en gildandi lög hverju sinni telji útgefandi leyfisins þess vera þörf. Stjórnsýslan sé lögbundin og sé stjórnvaldi ekki heimilt að ganga lengra við setningu skilyrða eða íþyngjandi krafna en gildandi lög heimili hverju sinni. Samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins verði stjórnvaldsákvarðanir að vera í samræmi við lög og eiga sér viðhlítandi stoð í þeim. Af reglunni leiði að kæranda verði ekki íþyngt umfram lagaheimildir.

Áminning teljist íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun enda sé hún samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 eitt þeirra þvingunarúrræða sem Umhverfisstofnun sé veitt til að knýja á um framkvæmdir tiltekinna ráðstafana. Með vísan til lögmætisreglunnar og annarra meginreglna stjórnsýsluréttarins verði slíkum þvingunarúrræðum ekki beitt af hálfu stjórnvalda til að knýja á um tilteknar íþyngjandi ráðstafanir eigi þær sér ekki fullnægjandi lagastoð. Slíkt sé ólögmætt.

Fyrir liggi nú mælingar efnaverkfræðings á þykkt náttúrulegrar skorpu og bendi þær eindregið til þess að þykkt hennar fullnægi þeim skilyrðum sem fram komi í BAT-niðurstöðunum. Kærandi hafi þegar hafið undirbúning að umsókn um breytingu á gildandi starfsleyfi. Eigi þær ráðstafanir sem kærandi hafi þegar gripið til í þessum efnum, til viðbótar framangreindum málsástæðum, að leiða til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Falli þá jafnframt úr gildi kröfur Umhverfisstofnunar um úrbætur og framlagningu úrbótaáætlana.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að vegna mannlegra mistaka hafi kæranda í eftirlitsskýrslu, dags. 7. febrúar 2020, verið veittur frestur til 1. ágúst s.á. til að ljúka úrbótum. Málinu hafi því ekki verið fylgt eftir af fullum þunga með beitingu þvingunarúrræða þrátt fyrir að úrbótum væri ekki lokið. Kærandi hafi þó ítrekað verið minntur á útistandandi frávik í samskiptum við Umhverfisstofnun, m.a. í tölvupóstsamskiptum og reglubundnum eftirlitsferðum.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar hafi verið á því byggð að hvorki hafi verið komin fram fullnægjandi tímasett áætlun um úrbætur né önnur sjónarmið sem gæfu tilefni til þess að falla frá áður kynntum áformum stofnunarinnar að veita kæranda umrædda áminningu. Hafi stofnunin rökstutt þá ákvörðun sína og ítrekað fyrri kröfur um úrbætur. Sé ekki tilefni til frekari fresta í málinu, enda hafi krafan verið sett fram í starfsleyfi árið 2011. Kæranda hafi nú þegar verið veitt umtalsvert svigrúm til að leita lausna til úrbóta án árangurs.

Eftirlitsaðila beri við lögbundið eftirlit sitt að fylgja þeim skilyrðum sem fram komi í útgefnu starfsleyfi, sem og gildandi lögum og reglugerðum hverju sinni. Útgefið starfsleyfi sé forsenda þess að rekstraraðili hafi heimildir til að starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Viðeigandi mengunarvarnir séu skilyrði heimildar til losunar mengunarefna. Ákvæði er fram komi í starfsleyfi hverju sinni séu sett með tilliti til aðstæðna hvers og eins rekstrar og geti í vissum tilfellum gengið lengra en gildandi lög, telji útgefandi starfsleyfisins þess vera þörf, m.a. með tilliti til mengunarvarna.

Ákvörðun um að áminna kæranda fyrir brot á skilyrðum starfsleyfis byggist fyrst og fremst á þeim grundvelli að um frávik frá gildandi starfsleyfi sé að ræða. Telji kærandi starfsleyfið of íþyngjandi, þannig að ómögulegt sé fyrir hann að starfa samkvæmt því, geti hann óskað formlega eftir endurskoðun þess. Hafi Umhverfisstofnun ítrekað bent kæranda á þetta og leiðbeint honum um það hvernig sækja eigi um breytingu á starfsleyfi.

Við túlkun á skilyrði starfsleyfis um yfirbyggingu safnþróarinnar hafi m.a. verið litið til þeirrar umfjöllunar og sjónarmiða sem fram hafi komið við útgáfu þess. Í úrskurði umhverfisráðuneytisins, dags. 5. mars 2012, hafi verið talið að sú skylda sem kveðið sé á um í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 804/1999 um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, sem umrætt skilyrði í starfsleyfi kæranda byggist á, sé ótvíræð. Það er að við gripahús, þ.m.t. svínabú, skuli vera vandaðar og þéttar hauggeymslur. Bent hafi verið á að haughús sem ekki væru yfirbyggð gætu tæplega uppfyllt kröfu reglugerðarinnar um þéttleika og væri tilgreint ákvæði starfsleyfisins því í samræmi við kröfu hennar. Í reglugerð nr. 804/1999 sé ekki að finna ákvæði er heimili undanþágu frá umræddri kröfu eða frest til að uppfylla hana. Þá sé vísað til niðurstöðu ráðuneytisins varðandi gr. 2.8. í starfsleyfi. Í ljósi framangreinds sé ekki tækt að veita kæranda frekari frest til úrbóta, enda bendi ekkert til þess að raunverulegar úrbætur séu yfirvofandi þar sem ekki sé komin fram eiginleg áætlun þar sem fram komi upplýsingar um hvaða úrbóta kærandi ætli sér að grípa til eða hvernig þær úrbætur verði framkvæmdar af hans hálfu.

Samkvæmt BAT-16 niðurstöðum sem kærandi vísi til sé náttúruleg skorpa nefnd sem einn möguleiki fyrir yfirbyggingu safnþróa við svínabú. Umhverfisstofnun hafi ekki útilokað þann möguleika, ef sýnt sé fram á að slík skorpa væri nægjanlega traust til að líta mætti á hana sem yfirbyggingu. Jafnframt þyrfti að sýna fram á að slík lausn myndi henta í aðstæðum að Melum í Hvalfjarðarsveit. Að mati stofnunarinnar hafi kærandi ekki sýnt fram á það.

Í eftirliti Umhverfisstofnunar 9. júní 2020 hafi skorpan í safnþrónni verið tekin til sérstakrar skoðunar, teknar hafi verið myndir af þrónni og spýtu stungið ofan í skítinn til að athuga hvort skorpa hefði myndast. Af könnun á þykkt skorpunnar hafi ekki verið hægt að sjá að um eiginlega yfirbyggingu gæti verið að ræða, a.m.k. ekki á þeim tíma, og þar af leiðandi ekki allt árið í kring. Í BAT-niðurstöðunum sé tekið fram að náttúruleg myndun skorpu eigi e.t.v. ekki við í köldu loftslagi og/eða á fljótandi húsdýraáburði sem innihaldi lítið af þurrefni. Náttúruleg skorpa eigi heldur ekki við í geymslum þar sem hræring, fylling og/eða losun fljótandi húsdýraáburðar geri náttúrulega skorpu ótrausta. Í svínabúinu að Melum sé fráveiturör út í safnþróna, sem staðsett sé á þann hátt að rennsli falli ofan á yfirborðið og hindri þannig möguleika á myndun skorpu. Að mati sérfræðinga stofnunarinnar valdi slíkt sírennsli því að nær ómögulegt sé að þykk skorpa geti myndast þar undir. Sé það í samræmi við fyrirvara í BAT-niðurstöðunum. Til þess að hægt sé að líta á náttúrulega skorpumyndun sem varanlega og fullnægjandi yfirbyggingu safnþróarinnar þurfi kærandi að sýna fram á það með óyggjandi hætti að skorpan sé nægjanlega þykk til að traust geti talist. Hvorki hafi verið sýnt fram á það nú né þegar ákvörðun um að veita kæranda áminningu hafi verið tekin.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til og áréttar það er fram komi í kæru. Aðrar hefðbundnar leiðir til yfirbyggingar eða yfirbreiðslu séu ekki tækar, a.m.k. ekki aðgengilegar í skilningi BAT-niðurstaðna. Umhverfisstofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en stofnunin hafi enga tilraun gert til að benda kæranda á færar leiðir til að verða við kröfum hennar um úrbætur. Ætla megi að skortur á leiðbeiningum sé einkum vegna þess að stofnunin hafi ekki heldur komið auga á raunhæfar aðgengilegar lausnir.

Úrskurður umhverfisráðuneytisins frá 5. mars 2012 sé nærri 12 ára gamall og alls óvíst að niðurstaða málsins hefði orðið sú sama í dag. Miklar breytingar hafi orðið á þessu sviði frá uppkvaðningu úrskurðarins, þ. á m. tæknibreytingar, en einnig hafi réttarheimildir og viðhorf á þessu réttarsviði þróast og breyst. Þannig hafi BAT-niðurstöður ekki verið fyrir hendi þegar úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp.

Staðhæfingu um að ekkert bendi til þess að raunverulegar úrbætur séu yfirvofandi sé mótmælt. Lagðar hafi verið fram niðurstöður efnaverkfræðings um þykkt skorpunnar sem sýni að hún rúmist innan BAT-niðurstaðna og fullnægi skilyrðum í öðrum löndum Evrópu um notkun náttúrulegrar skorpu í stað yfirbyggingar. Geti hún komið í stað yfirbyggingar yfir tankinn og þannig sé komið til móts við kröfur Umhverfisstofnunar um úrbætur. Ekki komi fram hvaða mælikvarða, viðmið eða gögn stofnunin telji að leggja beri til grundvallar og teljist fullnægjandi til að hún telji sig geta litið á náttúrulega skorpu sem lausn í stað yfirbyggingar. Byggi mat Umhverfisstofnunar fremur á tilfinningu eða skoðunum en á gögnum eða upplýsingum sem hægt sé að staðreyna og byggja niðurstöður eða ákvarðanir á. Virðist gengið út frá því að til að náttúruleg skorpa sem lausn teljist fullnægjandi þurfi að geyma innihald tanksins í honum um aldur og ævi þannig að skorpan sem þar myndist sé varanleg. Þetta sé augljóslega á skjön við þau sjónarmið sem búi að baki BAT 16-niðurstöðunum og leiði það af eðli máls. Þá leiði það af orðalagi BAT 16 að kalt loftslag komi ekki í veg fyrir að náttúruleg skorpa teljist tæk lausn í stað yfirbyggingar, heldur sé einungis tekið fram að hún eigi ef til vill ekki við.

Telji kærandi eðlilegt að úrskurðarnefndin fari á vettvang og kynni sér aðstæður á Melum.

Niðurstaða: Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu fékk kærandi árið 2011 starfsleyfi til að starfrækja þauleldi á fráfærugrísum í allt að 8.000 stæðum að Melum í Hvalfjarðarsveit. Eitt skilyrði starfsleyfisins, sbr. gr. 2.8., er að safnþrær skuli yfirbyggðar, þéttar og þannig frá þeim gengið að ekki leki úr þeim út í umhverfið. Starfsleyfið sætti kæru til umhverfisráðuneytisins og með úrskurði uppkveðnum 5. mars 2012 var útgáfa leyfisins staðfest, m.a. með þeirri breytingu að fyrrgreint skilyrði skyldi uppfyllt þegar í stað. Í kærumáli þessu gerir kærandi framangreindan úrskurð ráðuneytisins að umfjöllunarefni og lögmæti þess skilyrðis sem fram kemur í nefndri gr. 2.8. Er af því tilefni rétt að taka fram að samkvæmt þágildandi 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er úrskurður ráðuneytisins fullnaðarúrskurður og sætir hann því ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar. Breytir engu þar um þótt langt sé um liðið frá uppkvaðningu úrskurðarins. Einskorðast lögmætisathugun nefndarinnar því við þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 24. nóvember 2020 að veita kæranda áminningu og krefjast úrbóta á fráviki frá áðurnefndri gr. 2.8. Í ákvörðuninni vísaði stofnunin til 60. gr. laga nr. 7/1998 og þykir rétt, með tilliti til nýlegra breytinga á tilvitnaðri lagagrein, að rekja forsögu þeirrar heimildar sem í ákvæðinu felst.

Lög nr. 12/1969 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit voru fyrstu heildarlög á því sviði, en áður giltu þar um lög nr. 35/1940 um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir. Í 3. gr. laga nr. 12/1969 var mælt fyrir um hlutverk heilbrigðisnefnda og í 2. mgr. fólst nýmæli þess efnis að heilbrigðisnefnd væri heimilt að stöðva starfrækslu eða notkun, ef skilyrðum laga, heilbrigðisreglugerðar, heilbrigðissamþykktar eða fyrirmælum heilbrigðisnefndar samkvæmt heimildum í þeim ákvæðum væri ekki fullnægt um starfræksluna eða húsnæði það, land eða tæki, sem notað væri. Um það nýmæli segir í frumvarpi því sem varð að nefndum lögum að ákvæðið sé efnislega í flestum heilbrigðissamþykktum, en rétt þyki að í lögunum sjálfum séu ákvæði um vald heilbrigðisnefnda til að stöðva starfrækslu eða notkun sem sé óviðunandi eða hættuleg af hollustuástæðum að dómi nefndarinnar. Að sjálfsögðu eigi valdbeiting ekki að koma til nema í brýnni nauðsyn og því aðeins, að fortölur, fræðsla og leiðbeiningar beri engan árangur, en þetta séu þau vopn, sem heilbrigðisnefndum og starfsmönnum þeirra sé framar öllu ætlað að beita í viðskiptum við eftirlitsskylda aðila.

Við gildistöku laga nr. 50/1981 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit féllu lög nr. 12/1969 úr gildi. Í 27. gr. hinna nýju laga var fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði. Sagði í gr. 27.1. að til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, hollustuverndarreglugerð, mengunarvarnareglugerð, hollustusamþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum, gæti hollustunefnd beitt eftirfarandi aðgerðum: 1. Veitt áminningu. 2. Veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta. 3. Stöðvað viðkomandi starfsemi eða notkun að öllu leyti eða að hluta til, með aðstoð lögreglu ef með þyrfti.

Í almennum athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/1981 var tekið fram að lögð væru til skýr ákvæði um valdsvið hollustueftirlits og þvingunarráðstafanir með það fyrir augum að ná fram nauðsynlegum umbótum, en samhliða því væru ákvæði um sérstaka úrskurðarnefnd til þess að tryggja sem best rétt þeirra, sem eftirlit væri haft með. Um helstu nýmæli var tiltekið að í 6. kafla frumvarpsins væri fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði. Samkvæmt gildandi lögum hefðu heilbrigðisnefndir mjög mikið vald til afskipta af öllu, er snerti hollustuhætti, sbr. 3. gr. gildandi laga. Þar væru hins vegar engin ákvæði um það, hvernig beita skyldi þessu mikla valdi og væri hér með reynt að gera bragarbót þar á, með því að kveða á um það, hvernig hollustunefnd skyldi starfa þyrfti hún að knýja á um framkvæmd ráðstafana er vörðuðu hollustuháttamál. Lagt væri til, að í fyrsta lagi yrði veitt áminning, í öðru lagi veitt áminning og tilhlýðilegur frestur til úrbóta, þar sem slíkt ætti við, og í þriðja lagi yrði stöðvuð viðkomandi starfsemi eða notkun að öllu leyti eða að hluta til, með aðstoð lögreglu ef með þyrfti. Þó væri ekki gert ráð fyrir að stöðvun yrði beitt, nema um alvarleg tilvik eða ítrekun væri að ræða, eða ef aðilar sinntu ekki úrbótum innan tiltekins frests. Í athugasemdum með 27. gr. var áréttað að gert væri ráð fyrir áðurgreindum þrennskonar úrræðum. Hefðu heilbrigðisnefndir mjög viðamikið vald til þess að stöðva starfrækslu eða notkun, ef skilyrðum laga, heilbrigðisreglugerðar eða heilbrigðissamþykkta eða fyrirmælum heilbrigðisnefnda, samkvæmt heimildum í þeim ákvæðum væri ekki fullnægt um starfrækslu eða húsnæði það, land eða tæki, sem notað væri. Ekki væri verið að auka vald hollustunefnda heldur gera tillögur um það hvernig því skyldi beitt. Með því að kveða nánar á um framkvæmd valdsins ættu þeir sem beittu því að vera betur varðir gegn gagnrýni og þolendur að vera betur í stakk búnir til að skilja þær ákvarðanir, sem þar lægju að baki.

Lög nr. 50/1981 voru endurútgefin sem lög nr. 109/1984 og eftir heildarendurskoðun síðar meir urðu þau að lögum nr. 81/1988. Sagði þá í gr. 23.1 að heilbrigðisnefnd gæti beitt sömu aðgerðum og áður segir til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum, heilbrigðisreglugerð, mengunarvarnareglugerð, heilbrigðissamþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum. Óbreytt orðalag var að finna í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998 þegar þau tóku gildi. Í kjölfar breytinga sem tóku gildi með lögum nr. 58/2019 segir nú í 60. gr. laga nr. 7/1998 að Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd sé heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum eða samþykktum sveitarfélaga. Er því ekki lengur að finna í ákvæðinu það orðalag að greindum aðilum sé heimilt að veita áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingalögum nr. 58/2019 segir að í frumvarpinu séu lagðar til nokkrar breytingar á orðalagi ákvæða laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sem kveði á um þvingunarúrræði. Þá segir í athugasemdum með 15. gr. breytingalaganna að í henni sé lögð til breyting á 60. gr. laganna þannig að hún fjalli einungis um þvingunarúrræðið áminningu og kröfu um úrbætur. Gert sé ráð fyrir að ákvæði laganna sem heimili heilbrigðisnefndum og Umhverfisstofnun að beita þvingunarúrræðinu stöðvun til bráðabirgða verði fært í 63. gr. laganna, sbr. 18. gr. frumvarpsins. Í greininni sé lagt til að heilbrigðisnefndum og Umhverfisstofnun verði heimilt að beita áminningu. Orðalag ákvæðisins taki meðal annars mið af efnalögum nr. 61/2013.

Heimild til að veita áminningu hefur verið að finna í lögum um hollustuhætti frá því að lög nr. 50/1981 tóku gildi. Sú heimild hefur allt frá þeim tíma verið bundin við það að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum um hollustuhætti, samkvæmt reglugerðum settum með stoð í þeim lögum og samkvæmt samþykktum sveitarfélaga settum með stoð í sömu lögum. Einnig til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt eigin fyrirmælum samkvæmt „þessum ákvæðum“, en skilja verður það orðalag svo að þau ákvæði vísi til ákvæða laganna, reglugerða og samþykkta sveitarfélaga.

Fjallað er um skyldur rekstraraðila í XI. kafla laga nr. 7/1998. Skulu rekstraraðilar skv. 40. gr. laganna, sbr. viðauka I-IV, tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við ákvæði laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, starfsleyfisskilyrði og almennar kröfur, sbr. 8. gr. Er og mælt fyrir um eftirlit með atvinnurekstri í XIV. kafla laga nr. 7/1998. Skal skv. 54. gr. laganna vera eftirlit með atvinnurekstri, sbr. viðauka I-IV með lögunum, sem taki til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipti, sem og hollustuhátta. Fellur eldi svína með fleiri en 2.000 stæði fyrir alisvín undir viðauka I með lögunum, sbr. og viðauka I í reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Mælt er fyrir um í 57. gr. reglugerðarinnar að Umhverfisstofnun skuli annast eftirlit með atvinnurekstri, sbr. I., VII. og IX. viðauka reglugerðarinnar, og sætir svínabú kæranda að Melum því eftirliti þeirrar stofnunar. Skal stofnunin hafa eftirlit með atvinnurekstrinum til að tryggja að farið sé að skilyrðum fyrir starfsemina, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 7/1998, og verði frávik skal stofnunin krefja rekstraraðila um að gera hverjar þær viðeigandi viðbótarráðstafanir sem eftirlitsaðilinn telur nauðsynlegar til að koma reglufylgni á aftur, sbr. 2. mgr. Svo sem áður er rakið fór Umhverfisstofnun ítrekað fram á það við kæranda að hann uppfyllti hið umdeilda skilyrði í starfsleyfi hans, en starfsleyfið, sem gefið var út á grundvelli laga nr. 7/1998, og skilyrði þess sættu lögmætisathugun umhverfisráðuneytisins á sínum tíma.

Með hinni kærðu ákvörðun áminnti Umhverfisstofnun kæranda vegna þess að fyrirmælum hennar um framkvæmd viðbótarráðstafana til að tilgreint skilyrði starfsleyfisins yrði uppfyllt var ekki sinnt með fullnægjandi hætti að mati stofnunarinnar. Fyrirmælin áttu sér stoð í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 7/1998, enda var með þeim farið fram á þær viðbótarráðstafanir sem stofnunin taldi nauðsynlegar. Fram kemur í frumvarpi því sem varð að breytingalögum nr. 66/2017, í athugasemdum við ákvæði það sem varð 55. gr., að ekki sé um efnisbreytingu að ræða á núverandi framkvæmd við eftirlit. Ef eftirlit leiði í ljós að einhverju sé ábótavant í hlutaðeigandi starfsemi hafi stjórnvöld gert athugasemdir og eftir atvikum beitt þvingunarúrræðum til þess að bætt yrði úr ágöllum og sé með frumvarpinu ætlað að kveða skýrar á um núverandi framkvæmd. Lögskýringargögn benda ekki til þess að það hafi verið ætlun löggjafans með breytingalögum nr. 58/2019 að þrengja heimildir þar til bærra stjórnvalda til að veita áminningu. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að lög nr. 7/1998 tiltaka ekki lengur að þeim stjórnvöldum sé heimilt að veita áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt „eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum“.

Skýra lagaheimild þarf til þess að beitt verði þvingunarúrræðum og ber að túlka slíka lagaheimild þröngt, enda um íþyngjandi úrræði að ræða. Má og ráða af forsögu þeirra lagaákvæða sem rakin hafa verið að valdheimildir þær sem um ræðir séu ríkar og að þeim beri að beita af varfærni. Að teknu tilliti til alls þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Umhverfisstofnun hafi ekki haft nægilega skýra og ótvíræða heimild í lögum til að fylgja eftir eigin fyrirmælum með áminningu. Þá athugist að starfsleyfi vegna mengandi starfsemi eru gefin út á grundvelli laga nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 550/2018. Í 61. gr. reglugerðarinnar er að finna það orðalag sem áður gilti samkvæmt lögunum, þ.e. að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðum settum samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti eftirlitsaðili beitt ákvæðum XVII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hins vegar er ljóst að með reglugerð verður ekki kveðið á um að þvingunarúrræðum verði beitt í ríkari mæli en heimild er fyrir í lögum. Að öllu framangreindu virtu verður því ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 24. nóvember 2020 um að veita kæranda áminningu vegna fráviks frá gr. 2.8. í starfsleyfi hans fyrir svínabú að Melum í Hvalfjarðarsveit.