Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2021 Tjaldsvæði Hveragerði

Árið 2021, mánudaginn 28. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 55/2021, kæra á afgreiðslu bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 1. október 2020 vegna erindis kæranda í tilefni af truflandi áhrifum reksturs tjaldsvæðis á búsetu kæranda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru, dags. 2. maí 2021, sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sama dag, kærir eigandi Reykjamerkur 16, Hveragerði, afgreiðslu bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 1. október 2020 vegna erindis kæranda og fleiri aðila í tilefni af truflandi áhrifum reksturs tjaldsvæðis á búsetu hans. Gerir kærandi þá kröfu að rekstraraðila tjaldsvæðisins verði gert að haga starfseminni í samræmi við gildandi skipulag.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 10. júní 2021.

Málsatvik og rök: Umrætt tjald- og þjónustusvæði er í næsta nágrenni lóða við Reykjamörk í Hveragerði og er gert ráð fyrir því í gildandi deiliskipulagi, sem og aðalskipulagi bæjarins. Með ódagsettu bréfi íbúa við Reykjamörk 14 og 16 til Hveragerðisbæjar var komið á framfæri kvörtun þeirra um verulega truflandi áhrif reksturs tjald- og þjónustusvæðisins. Var erindið tekið fyrir á fundi bæjarráðs 1. október 2020 og afgreitt með svofelldri bókun: „Bæjarráð bendir bréfriturum á að samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir afþreyingar og ferðamannasvæði á reit AF1 sem er skýrt afmarkaður á uppdrætti á aðalskipulagi. Rekstur tjaldsvæðis á þessum stað samræmist því gildandi aðalskipulagi. Samkvæmt samningi Hveragerðisbæjar og rekstraraðila tjaldsvæðisins ber að sjá til þess að farið sé að leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar varðandi brunavarnir á svæðinu og einnig eig að sjá til þess að ekki séu undir 2 metrar að jafnaði frá lóðamörkum aðliggjandi íbúðarbyggðar að tjöldum og ferðavögnum. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ítreka þessi ákvæði samningsins við rekstraraðila og vonast til þess að sátt skapist um rekstur svæðisins sem þarna hefur verið rekið í hátt í 20 ár.“ Er þessi bókun bæjarráðs tilefni kærumáls þessa.

Kærandi bendir á að umrætt tjaldsvæði liggi að mörkum lóðar hans sem geri það að verkum að nálægðin við reksturinn sé mikil. Lóðarmörk séu ekki virt og brotið sé á friðhelgi einkalífs hans. Ýmislegt bendi til þess að lögboðnar umgengnisreglur séu brotnar og brunavörnum sé ábótavant. Kvartanir til Hveragerðisbæjar hafi ekki borið árangur.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er vísað til þess að starfsemi á tjaldsvæðinu við Reykjamörk 18 sé í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Í gr. 3.8.4 í greinargerð með Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 sé tekið fram að tjaldsvæðið sé sérstaklega ætlað tjaldvögnum, hjólhýsum og húsbílum. Í gildandi deiliskipulagi komi fram að innan tjaldsvæðisins séu tekin frá svæði þar sem koma megi fyrir reitum fyrir húsbíla og stór og lítil fellitjöld. Í  samningi milli Hveragerðisbæjar og rekstraraðila tjaldsvæðisins séu ákvæði varðandi brunavarnir og lágmarksfjarlægð stæða fyrir tjöld og ferðavagna frá lóðarmörkum aðliggjandi íbúðarbyggðar. Hafi bæjarráð falið bæjarstjóra að ítreka þessi ákvæði samningsins við rekstraraðila og vonast sé til þess að sátt skapist um rekstur svæðisins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Eins og að framan er getið sendi kærandi yfirvöldum Hveragerðisbæjar erindi sem fól í sér kvörtun vegna reksturs tjald- og þjónustusvæðis sem liggur að mörkum lóðar hans. Var erindið afgreitt af bæjarins hálfu með því að fela bæjarstjóra að ítreka við rekstraraðila tjaldsvæðisins skyldur hans samkvæmt samningi hans við Hveragerðisbæ um rekstur svæðisins. Ekki er um stjórnvaldsákvörðun að ræða, né heldur fyrirfinnst kæruheimild í lögum vegna greindrar afgreiðslu. Þar sem nefnd afgreiðsla felur ekki í sér neina þá ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli kæruheimildar í lögum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það skal þó á það bent að heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir starfsemi tjald- og hjólhýsasvæða, sbr. lið 103 í IV. viðauka við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sé ekki farið að skilyrðum starfsleyfa, t.d. um umgengni, öryggi o.fl., er unnt að beina erindi vegna þessa til heilbrigðisnefndar. Loks skal þess getið að kveðið er á um í 4. gr. lögreglusamþykktar nr. 955/2017 fyrir sveitarfélög í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi að bannað sé að aðhafast nokkuð sem veldur ónæði eða raskar næturró manna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.