Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

91/2021 Kiðjaberg

Árið 2021, fimmtudaginn 1. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 91/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar í Kiðjabergi

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar nr. 111 í Kiðjabergi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar í Kiðjabergi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er þess krafist að réttaráhrif deili­skipulags­­breytingarinnar verði frestað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 24. júní 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 17. febrúar 2021 var samþykkt að grenndarkynna umsókn Kiðjabergs ehf. um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í umsókninni kom fram að þegar deiliskipulag Kiðjabergs hefði verið uppfært frá handteiknuðu í stafrænt form hefðu orðið þau mistök að ein lóðin hefði verið teiknuð 4 m of breið. Það hafi orðið til þess að hliðrun hefði orðið á teiknigrunni á fleiri lóðum. Í breytingunni felst að stærðir lóða 108, 109, 110 og 111 við Kamba eru leiðréttar í takt við þinglýst skjöl og núverandi kvaðir deiliskipulags. Mistök þau sem um ræðir munu hafa komið í ljós er sótt var um stækkun byggingarreits á lóðinni nr. 110 og er sú stækkun einnig hluti hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt 23. febrúar 2021 og var frestur veittur til 25. mars s.á. til að koma að athugasemdum. Athugasemd barst frá lögmanni kæranda 29. mars 2021 þar sem m.a. var gerð athugasemd við að mistök við skipulag svæðisins bitnuðu einvörðungu á eign hennar. Allar lóðir í kringum lóð kæranda hefðu verið stækkaðar, þeim breytt og leyfi veitt fyrir stærri húsum. Nú væri verið að minnka lóð hennar að því er virtist til að stækka aðrar lóðir á hennar kostnað. Áður hafði kærandi komið að athugasemdum vegna umsóknar um stækkun byggingarreits lóðar 110. Sveitarstjórn samþykkti hina kærðu deiliskipulags­breytingu á fundi sínum 21. apríl s.á. og auglýsing um gildistöku hennar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 21. maí s.á.

Kærandi krefst stöðvunar réttaráhrifa skipulagsins þar sem að á grundvelli þess muni vera hægt að breyta lóðarleigusamningum til framtíðar sem erfitt geti verið að vinda ofan af. Þá væri unnt að veita byggingarleyfi fyrir framkvæmdum og telji kærandi að erfitt yrði að breyta skipulaginu til rétts vegar verði veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem byggi á hinum nýju lóðarmörkum.

Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að komið hafi í ljós skekkja í deiliskipulagsgrunni á milli þinglýstra skjala og hafi landeigandi Kiðjabergs sótt um breytingu á deiliskipulagi vegna þessa. Þær athugasemdir sem hafi borist vegna deiliskipulagsbreytingarinnar hafi borist að athugasemdafresti liðnum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmda­leyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.