Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2021 Ísólfsskáli

Árið 2021, miðvikudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Ásgeir Magnússon dómstjóri tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2021, kæra á ákvörðun sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar um að veita leyfi fyrir lagningu jarðstrengja rafmagns og ljósleiðara í landi jarðarinnar Ísólfsskála.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru, sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 22. maí 2021, kærir einn af eigendum jarðarinnar Ísólfsskála, þá ákvörðun sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar að veita leyfi fyrir lagningu jarðstrengja rafmagns og ljósleiðara í landi jarðarinnar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er krafist bóta vegna þess tjóns sem óleyfilegar framkvæmdir hafi valdið eða muni valda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 8. júní 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2021 hófst eldgos við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga en áhugi almennings á að sjá eldgosið hefur leitt til mikillar umferðar um svæðið. Mun ríkislögreglustjóri hafa af þeim sökum óskað eftir því við Neyðarlínuna ohf. að hún stæði fyrir uppbyggingu fjarskipta á svæðinu, en félagið sér um neyðar- og öryggisþjónustu á Íslandi í samræmi við lög nr. 40/2008 um samræmda neyðarsvörun. Hinn 20. apríl s.á. óskaði Neyðarlínan eftir leyfi landeigenda Ísólfsskála til að koma rafstreng og ljósleiðara frá plani við upphaf gönguleiðar að gosstöðvunum við Langahrygg. Sama dag sendi kærandi tölvupóst til sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs hjá Grindavíkurbæ þar sem fram kom að kærandi hefði komið að verktökum með vinnuvélar sem sögðust vera að hefja lagningu jarðstrengja á Langahrygg og að til þess hefðu þeir leyfi formanns Landeigendafélags Hrauns. Spurðist hann fyrir um hvort skipulagsfulltrúi hefði veitt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni. Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs svaraði fyrirspurn kæranda 6. maí s.á. þar sem fram kom að sveitarfélagið hefði  fyrir sitt leyti gefið leyfi að lokinni vettvangsferð um svæðið með framkvæmdaraðila. Leyfið hefði ekki verið gefið út formlega heldur munnlega með fyrirvara um samþykki landeiganda. Jafnframt var upplýst að formaður Landeigendafélags Ísólfsskála hefði samþykkt framkvæmdina með tölvupósti til Neyðarlínunnar 21. apríl s.á. Umræddum framkvæmdum mun nú vera lokið.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að framkvæmdaleyfi til lagningar jarðstrengja til fjarskiptareksturs hafi verið veitt án heimildar landeigenda óskipts eignarlands Ísólfsskála. Leyfið feli í sér afsal eignarlands skv. 69. gr. laga nr. 81/2003, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hvorki liggi fyrir gögn er sýni að landeigendur hafi veitt leyfi til framkvæmda né að hluti landsins hafi verið tekinn eignarnámi á grundvelli 70. gr. laga nr. 81/2003. Framkvæmdaleyfið stangist því á við 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, en reglugerðin sé sett með stoð í skipulagslögum nr. 123/2010. Jafnframt staðfesti 5. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar að framkvæmdin sé framkvæmdaleyfisskyld. Landareignin hafi verið í eigu og ábúð forfeðra og ættingja kæranda síðustu 150 ár. Sveitarfélagið hafi mátt vita að þörf væri á samþykki allra landeigenda til útgáfu hins kærða leyfis. Leyfið hafi fjárhags- og tilfinningaleg áhrif í för með sér, m.a. vegna takmarkaðri notkunar lands vegna landhelgunar jarðstrengja, óafturkræfs jarðrasks og rýrnunar landsgæða.

Málsrök Grindavíkurbæjar: Af hálfu Grindavíkurbæjar er gerð sú krafa að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því kæranda var kunnugt um kærða ákvörðun en ljóst sé af gögnum málsins að kærandi vissi af umræddum framkvæmdum 20. apríl 2021. Kærufrestur hafi því verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Þá hafi ekki nein leyfi verið gefin út vegna framkvæmdanna en það leyfi sem kærandi vísi til sé einungis leyfi Grindavíkurbæjar sem landeiganda. Þá hafi beiðni um framkvæmdina komið frá ríkis­lögreglustjóra í samræmi við 2. mgr. 72. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Af þeirri ástæðu beri sömuleiðis að vísa málinu frá.

Sveitarfélagið hafi ekki gefið út framkvæmdaleyfi fyrir umræddri framkvæmd enda sé framkvæmdin ekki framkvæmdarleyfisskyld. Hún hafi verið unnin í samræmi við lög nr. 81/2003 og lög nr. 82/2008 um almannavarnir, en þar að auki hafi samþykki landeigenda legið fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess. Framkvæmdin sé ekki matsskyld skv. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hún falli heldur ekki í flokk þeirra framkvæmda sem kunni að vera háð mati á umhverfisáhrifum skv. 6. gr. sömu laga. Niðurgrafnir strengir/lagnir sem séu 10 km eða lengri utan þéttbýlis falli í flokk B samkvæmt lið 10.21 í 1. viðauka laganna, en lengd skurðstæðis sé 9,5 km frá spennustöð í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík upp á Langahrygg nærri gosstöðvum. Falli framkvæmd ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum skuli leyfisveitandi meta hvort hún sé framkvæmdaleyfisskyld, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í sömu grein komi fram að við mat á því hvort framkvæmd teljist meiriháttar skuli hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdarinnar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif. Sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin sé ekki meiriháttar í skilningi laganna. Framkvæmdarsvæðið sé tiltölulega lítið og fari framkvæmdin fram að langmestu leyti í röskuðu landi. Einnig hafi verið litið til þess að um brýna nauðsyn hafi verið að ræða og sé framkvæmdin nauðsynleg til að tryggja öryggi almennings og annarra á svæðinu.

Þá sé því mótmælt að gefið hafi verið munnlegt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni. Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs hafi samþykkt umrædda framkvæmd í landi Grindavíkur. Það hafi verið formaður Landeigendafélags Ísólfsskála sem hafi samþykkt framkvæmdina fyrir hönd landeigenda. Landamerki séu að einhverju leyti óljós á framkvæmdasvæðinu en það hafi þó ekki verið talið koma að sök þar sem allir landeigendur, þ.e. Grindavíkurbær, landeigendur Hrauns og landeigendur Ísólfsskála, hafi veitt leyfi fyrir framkvæmdinni. Auk leyfis frá formanni landeigendafélagsins hafi samningar Neyðarlínunnar og landeigenda um framkvæmdina verið undirritaðir. Sveitarfélagið líti því svo á að framkvæmdin hafi verið unnin í samræmi við 1. mgr. 69. gr. laga nr. 81/2003. Telji kærandi að stjórn landeigendafélagsins hafi farið út fyrir valdssvið sitt með samþykki framkvæmdarinnar þá eigi það álitamál ekki undir úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að athugasemdir Grindavíkurbæjar staðfesti að sveitarfélagið hafi veitt framkvæmdaleyfi til jarðstrengjalagna í óskiptu eignarlandi Ísólfs­skála. Formaður Landeigendafélags Ísólfsskála hafi ekki heimild til að samþykkja framkvæmdir í nafni þinglýstra eigenda landsins, en í 4. gr. félagssamnings landeigenda Ísólfsskála sé kveðið á um að samþykki allra eigenda þurfi til að skuldbinda félagið eða afsala eignum. Sveitarfélagið hafi ekki stöðvað framkvæmdir þegar þess hafi verið krafist, sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Sveitarfélagið ætli að fría sig ábyrgð á veitingu framkvæmdaleyfis vegna fullyrðinga um neyðartilvik sem hafi aldrei verið lýst yfir vegna eldgossins á Reykjanesskaga. Hafi það verið staðfest af aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þá hafi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið staðfest að ráðuneytinu hafi ekki borist beiðni frá embætti ríkislögreglustjóra á grundvelli 2. mgr. 72. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Loks kveðst kærandi óska eftir að úrskurðað verði um greiðslutryggingu eignarnámsbóta kærða vegna brota á þeim lögum og reglugerðarákvæðum sem verja eigna- og umráðarétt eigenda Ísólfsskála.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta ná valdheimildir nefndarinnar til lögmætisathugunar á þeim álitaefnum sem undir hana eru bornar á grundvelli kæruheimilda í lögum. Leysir úrskurðarnefndin því hvorki úr eignaréttarlegum ágreiningi né tekur hún afstöðu til bótakrafna. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um greiðslu bóta vegna umþrættra framkvæmda.

Í máli þessu er deilt um framkvæmd vegna lagningar jarðstrengja rafmagns og ljósleiðara í landi jarðarinnar Ísólfsskála. Grindavíkurbær mun hafa veitt Neyðarlínunni ohf. munnlegt leyfi fyrir framkvæmdinni með fyrirvara um samþykki landeiganda og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Hefur sveitarfélagið vísað til þess að umrætt leyfi hafi verið leyfi Grindavíkurbæjar sem landeiganda en ekki leyfi til framkvæmda á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010, enda sé framkvæmdin ekki framkvæmdaleyfisskyld. Samkvæmt því liggur ekki fyrir framkvæmdaleyfi  vegna umræddrar framkvæmdar eða önnur ákvörðun á grundvelli skipulagslaga sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.