Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

77/2021 Lækjargata

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. maí 2021 um að heimila byggingu fjölbýlishúsaklasa með 23 íbúðum og einu atvinnurými á lóðinni Lækjargötu 2, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2021, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eigendur fasteigna að Lækjargötu 4, 6, og 8 og Brekkugötu 5, 7, 9, 10, 11, 16 og 18 í Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. maí 2021 að heimila byggingu fjölbýlishúsaklasa með 23 íbúðum og einu atvinnurými á lóðinni Lækjargötu 2, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 25. júní 2021.

Málavextir: Lóðin Lækjargata 2 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Miðbær Hafnarfjarðar. Árið 2018 var gerð breyting á deiliskipulaginu er varðaði Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7, þar sem m.a. var gert ráð fyrir byggingu fimm hæða húss ásamt sameiginlegri bílageymslu í kjallara á lóð Lækjargötu 2. Deiliskipulagsbreytingin var kærð til úrskurðar­nefndarinnar af eigendum fasteigna við Lækjargötu og Brekkugötu og með úrskurði upp­kveðnum 12. desember 2019 í því kærumáli voru felldir úr gildi breyttir skilmálar fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7 um að heimilt yrði að setja glugga og dyr á austurhlið hússins að Suðurgötu 7, að fengnu leyfi Minjastofnunar. Að öðru leyti stóð hin kærða ákvörðun óröskuð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. maí 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishúsaklasa á lóðinni Lækjargötu 2. Byggingarnar yrðu ein til tvær hæðir, auk rishæðar og kjallara, með 23 íbúðum ásamt einu atvinnurými.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að teikningar þær sem liggi til grundvallar nefndu byggingarleyfi séu ekki í samræmi við aðalskipulag Hafnarfjarðar. Þær teikningar sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt geri aðeins ráð fyrir einu atvinnurými á jarðhæð og að megin­hluti jarðhæða húsanna sé íbúðarhúsnæði. Þetta sé í andstöðu við aðalskipulag bæjarins.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að á afgreiðslu­fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. maí 2021 hafi ekki verið samþykkt útgáfa á byggingar­leyfi heldur hafi verið um að ræða samþykki byggingaráforma, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Var vísað til meðfylgjandi fundargerðar afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 5. maí 2021. Telja bæjaryfirvöld að í kæru sé hvorki gerð grein fyrir atvikum né málsástæðum og að ekki verði annað séð en að kæran sé sett fram í þeim eina tilgangi að þrýsta á um endurskoðun á þeim byggingaráformum sem deiliskipulag lóðarinnar heimili. Hin samþykktu byggingaráform séu að öllu leyti í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar og formleg málsmeðferð byggingarfulltrúa lögum samkvæmt. Því beri að hafna framkominni kröfu kærenda.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í umsögn bæjarins sé því haldið fram að á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. maí 2021 hafi ekki verið samþykkt útgáfa byggingarleyfis heldur hafi verið um að ræða samþykki byggingaráforma. Þetta sé hins vegar ekki í samræmi við gögn frá bæjaryfirvöldum sem vísað hafi verið til enda komi fram í fundargerð að byggingarfulltrúi hefði samþykkt byggingarleyfi. Átt hefði að geta þess í bókuninni ef fundurinn hefði einungis fjallað um byggingaráform en ekki byggingarleyfi. Telja verði kæruna ná til hvoru tveggja samþykktar byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sem virðist hafa verið gefið út í beinu framhaldi, enda séu framkvæmdir á lóðinni hafnar. Þá sé það rangt að málsatvikum og málsástæðum sé ekki lýst í kærunni, enda sé greint frá þeirri ákvörðun sem kærð sé og rakið af hverju hún sé ólögleg með vísan til aðalskipulags og úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um deiliskipulag á lóðinni.

Niðurstaða: Samkvæmt fundargerð afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa 5. maí 2021 var þar samþykkt umsókn um byggingarleyfi til að reisa fjölbýlishúsaklasa á lóðinni Lækjargötu 2 í Hafnarfirði. Í þeirri afgreiðslu fólst samþykki byggingaráforma skv. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sem er stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðar­nefndina, sbr. 59. gr laganna. Útgáfa byggingarleyfis skv. 13. gr. fer fram í skjóli samþykktra byggingaráforma og hefur, að öðrum skilyrðum uppfylltum, þau réttaráhrif að hefja má samþykktar byggingarframkvæmdir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2024 er hið umdeilda svæði á miðsvæði M1. Í almennum ákvæðum aðalskipulagsins um miðsvæði kemur fram að á „miðsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóna heilu landsvæði, bænum í heild sinni eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustu­stofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði. Þar sem aðstæður leyfa má gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga.“ Í kafla um miðbæ Hafnarfjarðar M1 kemur fram að „[a]llt rými á jarðhæð í miðbænum verði nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu en stefnt skuli að aukinni íbúðarbyggð í miðbænum, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötuna.“

Í gildi er deiliskipulagið Miðbær Hafnarfjarðar sem tekur til lóðarinnar Lækjargötu 2. Deili­skipulagið tók gildi árið 2001 en deiliskipulagsbreyting fyrir nefnda lóð tók gildi 13. september 2018. Samkvæmt deiliskipulagi er heimilt að byggja á lóðinni fimm hús ásamt sameiginlegri bílageymslu í kjallara með nýtingarhlutfalli allt að 1,89. Lóðin var fyrir breytingu skilgreind sem iðnaðar- og athafnalóð en er nú skilgreind sem íbúðar- og atvinnulóð með verslun/þjónustu á jarðhæðum sem snúa að Lækjargötu. Í deiliskipulagsbreytingunni er ekki fjallað um hvernig nýtingu jarðhæða sem snúa að Suðurgötu og Brekkugötu skuli háttað en tekið er fram að skilmálar deiliskipulagsins Hafnarfjörður miðbær, sem öðlaðist gildi 19. október 2001, gildi að öðru leyti. Í deiliskipulaginu er ekki minnst á hvaða starfsemi skuli vera á jarðhæð þeirra húsa sem snúa að Suðurgötu eða Brekkugötu.

Í byggingarlýsingu sem lá til grundvallar hinu kærða byggingarleyfi segir m.a. „Um er að ræða fjölbýlishúsaklasa sem er ein til tvær hæðir auk nýtilegrar rishæðar og kjallara, með samtals 23 íbúðum, ásamt einu atvinnurými. Í kjallara eru geymslur og sameiginleg rými auk tæknirýma og bílageymslu. Innkeyrsla í bílageymslu er frá Suðurgötu en aðkoma fótgangandi og hjólandi í bíl- og hjólageymslu er frá Lækjargötu. Atvinnurými á horni Lækjargötu og Suðurgötu er ekki fullhannað en þar er möguleiki á verslun, þjónustu eða kaffihúsi. Sérafnotaflötur utanhúss fylgir atvinnurýminu. Gerðir verða sérstakir uppdrættir af innra skipulagi atvinnuhúsnæðisins sem taka mið af þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er. Mögulegt er að innrétta íbúðir á jarðhæð við Lækjargötu sem verslunar- og þjónusturými. Merkingar fyrir starfsemi atvinnurýmis skulu staðsettar innan sérstaklega tilgreindra reita á útlitsmyndum.“ Samkvæmt þessu sem og fyrir­liggjandi teikningum er ljóst að byggingarfulltrúi samþykkti með hinni kærðu ákvörðun byggingarleyfi fyrir fjölbýlis­húsa­­­klasa með íbúðum á jarðhæð.

Í 11. gr. mannvirkjalaga kemur m.a. fram að fyrirhuguð mannvirkjagerð sem sótt sé um byggingarleyfi fyrir þurfi að vera í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Þetta má einnig sjá í 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna, sem gerir það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar­leyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að í aðalskipulagi Hafnarfjarðar er gerð sú krafa að allt rými á jarðhæð í miðbænum skuli nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu og fer umdeilt byggingar­leyfi því í bága við gildandi skipulag svæðisins hvað landnotkun varðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. maí 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu fjölbýlishúsaklasa á lóðinni Lækjargötu 2.

25/2021 Efsti Dalur

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. febrúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Efsta-Dals 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. mars 2021, er barst nefndinni 5. s.m., kærir A, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi jarðarinnar Efsta-Dals 2 í Laugardal, sem fól í sér stofnun lóðar þar sem vélaskemma stendur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 14. apríl 2021.

Málavextir: Með kaupsamningi, dags. 19. apríl 1991, seldi þáverandi eigandi jarðarinnar Efsta-Dals 2 hluta jarðarinnar til sonar síns.­ Ber hinn seldi jarðarpartur heitið Efsti-Dalur 2, land­númer 167631, fnr. 2205918. Að fyrri eiganda látnum var bú hans tekið til opinberra skipta og samkvæmt fyrirliggjandi skiptayfirlýsingu lauk skiptum í dánarbúinu 17. janúar 2019. Þar kemur fram að í hlut sonarins sem áður hafði keypt fyrrnefndan jarðarpart hafi m.a. komið véla- og verkfæra­geymsla.­

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 11. desember 2020 var samþykkt að grenndarkynna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi Efsta-Dals umsókn um stofnun lóðar samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var um að ræða lóð undir fyrrnefnda véla- og verkfæra­geymslu sem fyrir var á svæðinu. Tillagan var grenndarkynnt fyrir eigendum aðliggjandi jarða, þ. á m. kæranda með bréfi, dags. 17. desember 2020. Athugasemd barst frá kæranda á kynningartíma tillögunnar um að umrædd véla- og verkærageymsla tilheyrði jörðinni Efsta-Dal 3, sem væri í eigu dánarbús föður kæranda. Sveitarfélagið svaraði þeirri athugasemd kæranda með tölvupósti 25. janúar 2021, þar sem skírskotað var til þess að samkvæmt skipta­yfirlýsingu hefði eignarhald þriggja fasteigna, þ. á m. véla- og verkfærageymslunnar, færst á hendur eiganda Efsta-Dals 2 við skipti dánarbúsins. ­­Á fundi sveitarstjórnar 4. febrúar 2021 var hin kærða deili­skipulagsbreyting samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. mars s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að véla- og verkfærageymslan sem um ræði sé án sérstakra lóðaréttinda og kveðið hafi verið á um það í kaupsamningi frá 1991 um hluta jarðarinnar Efsta-Dals 2 að seljandi, faðir kæranda, hefði umferðarrétt um hlaðið í kringum skemmuna enda hún í hans eigu. Samkvæmt skiptayfirlýsingu sé kaupandi fyrrnefnds jarðar­parts Efsta-Dals 2 á árinu 1991 nú eigandi véla­skemmunnar, en hann, kærandi og tvö systkini þeirra séu hins vegar sameigendur jarðarinnar Efsta-Dals 3. Jörðin Efsti-Dalur 3 og véla­skemman séu skráð með landnúmerið 199008 og séu hluti af einni og sömu fasteign. Kærandi sé á meðal eigenda fasteignarinnar og telji ekki unnt að gera breytingar á deiliskipulagi gegn vilja hans.

Málsrök Bláskógarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð athugasemd við lýsingu kæranda á málavöxtum og telur sveitarfélagið málatilbúnað hans á misskilningi byggðan. Skemman standi í reynd innan Efsta-Dals 2 en hafi tilheyrt Efsta-Dal 3 þar til eigandi Efsta-Dals 2 hafi keypt hana við dánarbússkipti foreldra þeirra í samræmi við kaupréttarákvæði áður­nefnds kaupsamnings. Vegna kaupanna hafi þurft að stofna lóð vegna skemmunnar og því orðið að breyta deiliskipulagi. Skipulagsskilmálar fyrir svæðið hafi haldist óbreyttir og breytingin hafi ekki áhrif á núgildandi skipulag að öðru leyti en því að stofnuð sé lóð fyrir vélaskemmu sem standi á landi Efsta-Dals 2, landnúmer 167631, en fyrir deiliskipulagsbreytinguna hafi skemman verið skráð á Efsta-Dal 3, landnúmer 199008, fnr. 2274314.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar sem fól í sér stofnun lóðar þar sem fyrrgreind véla- og verkfæraskemma stendur, en af fyrirliggjandi uppdráttum og landeignaskrá Þjóðskrár af svæðinu má ráða að skemman standi innan marka jarðarinnar Efsta-Dals 2. Byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að nefnd skemma tilheyri jörðinni Efsta-Dal 3 og sé skráð sem slík í fasteignaskrá, en sú jörð sé eign dánarbús sem kærandi eigi aðild að sem eitt barna arfláta. Ekki hafi verið aflað samþykkis kæranda sem eins erfingja dánar­búsins fyrir stofnun umræddrar lóðar við samþykkt hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kæru­málinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kæranda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Eins og fram er komið fól hin kærða deiliskipulagsbreyting einungis í sér stofnun lóðar innan marka jarðarinnar Efsta-Dals 2. Mun lóðin hafa verið stofnuð að beiðni eiganda jarðarinnar. Hefur sú breyting engin grenndaráhrif gagnvart mögulegum eignum kæranda sem til hans féllu við skipti dánarbús þess sem fyrr var getið. Þá getur skipulag eða breyting á skipulagi ekki falið í sér ráðstöfun á eða afstöðu til beinna eða óbeinna eignarréttinda.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða ákvörðun geti raskað lög­­vörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

39/2021 Naustabryggja

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 um að hafna kröfu húsfélags Naustabryggju 31-33 um að borgaryfirvöld tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 22. mars 2021 kærir húsfélag Naustabryggju 31-33, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 að hafna kröfu húsfélagsins um að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfihamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Er þess krafist að viðkomandi stjórnvald komi upp bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. apríl 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi og borgaryfirvöld hafa átt í samskiptum frá árinu 2017 vegna aðgengis fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 í Reykjavík. Byggingarfulltrúa barst tölvupóstur frá kæranda 10. janúar 2018, þar sem spurt var um hvort verk fengi lokaúttekt ef ákvæði um frágang, fjölda og stærð bílastæða fyrir hreyfihamlaða væri ekki fullnægt. Einnig var spurt hvort verktaki fengi leyfi fyrir slíkri framkvæmd, þar sem fyrir lægi að lóð aðalinngangs byggingar væri á einkalóð annarra en þeirra sem byggju í umræddri byggingu og hvort eða hvernig væri þá unnt að uppfylla skilyrði lokaúttektar um stæði fyrir hreyfihamlaða. Erindinu var svarað að hluta til með tölvupósti starfsmanns skipulagsfulltrúa 15. s.m. á þann veg að kæranda hefði í tvígang verið sendir tölvupóstar með fylgigögnum er vörðuðu svæðið.

Hinn 22. febrúar 2019 barst Reykjavíkurborg annað erindi frá kæranda þar sem vakið var máls á því að bygging Naustabryggju 31-33 og annar frágangur stangaðist á við byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem engin aðkoma væri fyrir hreyfihamlaða. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með tölvupósti 7. mars 2019, þar sem meðal annars var vísað til teikningar af bílakjallaranum á lóð Naustabryggju 17-19 og 31-33 og Tangabryggju 6-8, 10 og 12-12A, en þar komi fram að í kjallaranum séu fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða og önnur átta bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu á lóð fyrir utan bílageymslu sem tilheyri húsunum.

Með tölvupósti til skipulagsfulltrúa 20. júní 2019 fór kærandi fram á það við borgaryfirvöld að gildandi deiliskipulagi yrði breytt þannig að Naustabryggja 31-33 fengi afnot af bílastæðum norðan við húsið og stæði fyrir hreyfihamlaða yrði merkt hið fyrsta ásamt því að tryggja aðkomu neyðarbíla. Erindinu var svarað af hálfu skipulagsfulltrúa 12. september s.á. þar sem skipulagslegar aðstæður voru skýrðar. Í svarpósti skipulagsfulltrúa kom meðal annars fram að ef óskað væri eftir afstöðu skipulagsfulltrúa um hvort mögulegt væri að breyta deiliskipulagi þyrfti að senda fyrirspurn þess efnis í gegnum rafræna Reykjavík.

Hinn 5. nóvember 2019 sendi kærandi borgaryfirvöldum erindi að nýju og var því svarað með tölvupósti yfirverkfræðings byggingarfulltrúa 20. nóvember 2019 og fylgdi í viðhengi öryggis- og lokaúttekt byggingarfulltrúa vegna umræddrar byggingar ásamt umsókn um byggingarleyfi og afgreiðslu hennar í fundargerð. Byggingarfulltrúi svaraði jafnframt erindinu með tölvupósti sama dag. Þar kom meðal annars fram að ekki yrði annað séð en að gerð væri góð grein fyrir algildri hönnun og aðkomu fyrir alla á samþykktum teikningum. Með tölvupósti 24. nóvember 2019 til Reykjavíkurborgar áréttaði kærandi kröfu íbúa Naustabryggju 31-33 þess efnis að skilyrðum byggingarreglugerðar væri fylgt og a.m.k. þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða yrði komið fyrir innan 25 m fjarlægðar frá aðalinngangi þessara tveggja stigaganga. Erindinu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa 25. nóvember s.á. Ítrekaði hann að embættið hafi ekki komið að gerð deiliskipulags svæðisins. Kröfur um bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt byggingar­reglugerð væru uppfylltar í bílastæðakjallara. Vissulega væri erfitt að koma fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða við götu nálægt aðalinngögnum hússins vegna staðsetningar lóðarmarka til norðurs, en bæði væru merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða á lóðinni og við næstu götur. Þau væru þó vissulega ívið lengra frá aðalinngöngum en kveðið væri á um í byggingarreglugerð. Því yrði ekki breytt á meðan lóðarmörkin við norðurhlið húsanna nr. 31-33 við Naustabryggju væru eins og raun bæri vitni samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Með tölvupósti sem var sendur af hálfu skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til byggingarfulltrúa 21. janúar 2020 var þess óskað að tekin yrðu saman þau svör sem veitt hafi verið vegna fyrirspurna kæranda og honum sent heildstætt lokasvar vegna ítrekunar hans á því að ófullnægjandi svör hafi borist við erindi hans. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. s.m., voru samskipti borgaryfirvalda og kæranda reifuð og í niðurstöðu bréfsins var eftirfarandi tekið fram: „Ítrekað er að fyrirkomulag bílastæða fyrir hreyfihamlaða er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, en eins og áður hefur komið fram er kröfum um bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar fullnægt í bílakjallara hússins, en auk þeirra eru stæði fyrir hreyfihamlaða á lóð. Kröfu þinni um að Reykjavíkurborg tryggi, án tafar, aðgengi fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31-33 er því hafnað.“ Var og tilkynnt að embættið muni ekki aðhafast frekar vegna málsins og kæranda bent á að afgreiðsla erindis hans væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þessi afgreiðsla byggingarfulltrúa borin undir úrskurðarnefndina.

Með úrskurði nefndarinnar, dags. 28. ágúst 2020, var ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um að Reykjavíkurborg tryggi án tafar aðgengi fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33 felld úr gildi, þar sem 2. mgr. gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð um fjarlægð bílastæðanna frá aðalinngangi var ekki uppfyllt. Engu gæti breytt í því efni þótt fyrirkomulag bílastæða væri í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda geti deiliskipulag ekki vikið til hliðar ákvæðum byggingarreglugerðar og samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skuli samþykktir aðaluppdrættir vera í samræmi við ákvæði framangreindrar reglugerðar.

Í kjölfar úrskurðarins var embætti byggingarfulltrúa í samskiptum við kæranda og lagði til í tölvupósti dags. 2. september 2020 m.a. að gera bílastæði fyrir hreyfihamlaða á borgarlandi við norðausturhorn hússins nr. 31-33 við Naustabryggju. Kærandi hafnaði þeirri tillögu með tölvupósti, dags. 24. s.m., þar sem bílastæðið yrði enn of langt frá aðalinngangi Naustabryggju 33, fyrirkomulagið væri ekki í samræmi við væntingar sem hafa mætti til aðgengis að þjónustu til aðalinngangs fjölbýlishúss, tillagan þrengdi að umferð gangandi og hjólandi um svæðið og að breidd gönguleiðar frá bílastæði fyrir utan Naustabryggju 17 að aðalinngangi Naustabryggju 31 og 33 fullnægi ekki kröfum byggingarreglugerðar.

Með tölvupósti 5. mars 2021 kom fram að byggingarfulltrúa þætti ljóst að krafa kæranda fæli í sér að gerð yrðu bílastæði á aðliggjandi lóð Naustabryggju 35-57 og hún minnkuð sem því næmi. Ekki væri mögulegt að verða við þeirri kröfu án samþykkis viðkomandi lóðarhafa og embættið myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Er það sú ákvörðun sem er til umfjöllunar í máli þessu.

Málsrök kæranda: Bent er á að Reykjavíkurborg beri að tryggja aðgengi bæði að aðalinngangi Naustabryggju 31 og Naustabryggju 33, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála frá 28. ágúst 2020 í máli nr. 15/2020. Tillaga byggingarfulltrúa sé hins vegar þeim annmarka háð að yrði hún að veruleika yrði fjarlægð frá bílastæði fyrir hreyfihamlaða að aðalinngangi Naustabryggju 31 um 20 m en frá bílastæðinu að aðalinngangi Naustabryggju 33 um 40 m. Samkvæmt gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð megi fjarlægðin hins vegar ekki vera meiri en 25 m og yrði hún því í lengra lagi fyrir Naustabryggju 31 en myndi ekki uppfylla skilyrði reglugerðarinnar vegna Naustabryggju 33. Tillögunni sé því harðlega mótmælt og óskað eftir því að Reykjavíkurborg geri nýja tillögu sem sé í samræmi við úrskurðarorð framan­greinds úrskurðar og uppfylli kröfur byggingarreglugerðar.

Í nútímasamfélagi verði sífellt mikilvægara að eiga greitt aðgengi að ýmiskonar þjónustu heim að dyrum sem byggi í mörgum tilvikum á aðgengi bifreiða. Sem dæmi megi nefna heim­sendingu á matvöru eða aðgang að leigu- eða deilibifreiðum. Það geti ekki verið markmið Reykjavíkurborgar að nýjar íbúðir séu skipulagðar með þeim hætti að íbúar þurfi ávallt að gefa upp annað heimilisfang en þeirra eigið þegar þeir sæki sér slíka þjónustu. Þá telji kærandi að í þessu tilviki gangi það í reynd ekki upp þar sem gönguleið frá bílastæði fyrir utan Nausta­bryggju 17 uppfylli ekki kröfur byggingarreglugerðar um breidd gönguleiðar.

Tillaga borgarinnar þrengi aðgengi og umferð gangandi. Um sé að ræða gangstétt og þrátt fyrir að hún sé mikið nýtt sem bílastæði af íbúum nærliggjandi húsa sé um að ræða mikilvæga tengingu fyrir gangandi yfir á gangstétt norðan megin á milli húsanna Naustabryggju nr. 53 og 55 og út á bryggju eða til austurs meðfram bílskúrum fyrir utan Naustabryggju 57. Aðra hvora af þessum leiðum þurfi til dæmis að fara til þess að nota almenningssamgöngur og eigi leiðin að liggja um samfellda gangstétt þurfi að fara bryggjuleiðina því hvorki liggi samfelld gangstétt meðfram götunni sunnan megin, meðfram Naustabryggju 21-29, né norðan megin, meðfram Naustabryggju 57. Ekki sé ásættanlegt að Reykjavíkurborg geri húsfélaginu að velja með þessum hætti á milli hagsmuna gangandi í hverfinu og að skilyrði byggingarreglugerðar séu uppfyllt.

Þá sé gerð athugasemd við að breidd gönguleiðar á milli bílastæðis Naustabryggju 31-33 fyrir utan Naustabryggju 17 að aðalinngöngum hússins, sem liggi á milli lóða Naustabryggju 31 og 33 annars vegar og Naustabryggju 21 hins vegar, sé aðeins 90 cm á breidd en ekki 180 cm eins og gerð sé krafa um skv. gr. 6.2.3. í byggingarreglugerð, sem fjalli um algilda hönnun aðkomu að byggingum. Um þetta vísist einnig til greinar 6.2.1. í reglugerðinni um jafnt aðgengi að byggingum. Lítið pláss sé þar til að fara um með barnavagn eða kerru. Þá verði færðin enn verri yfir vetrartímann og á sumrin þurfi ekki mikið út af að bregða í snyrtingu á trjágróðri á aðliggjandi lóð til þess að leiðin verði ófær fyrir barnavagna. Leiðin frá bílastæði Nausta­bryggju 17 að bakdyrum Naustabryggju 31 og 33 uppfylli ekki heldur skilyrði reglugerðarinnar í gr. 6.2.4. þar sem þrep séu á þeirri leið. Líta verði til þessa við úrlausn málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að eins og fram komi í ákvörðun byggingar­fulltrúa frá 5. mars 2021 sé ljóst að krafa húsfélagsins í málinu feli í sér að gerð yrðu bílastæði inni á aðliggjandi lóð, Naustabryggju 35-57, og hún minnkuð sem því nemi, auk þess sem bílastæðakrafa á þeirri lóð yrði þá ekki uppfyllt þar sem stæðum myndi fækka. Ekki sé heldur mögulegt að verða við kröfu kæranda án samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir og sé Reykjavíkurborg ekki kunnugt um að kærandi hafi aflað slíks samþykkis. Það sé því ljóst að ekki sé hægt að verða við kröfu kæranda í málinu sökum ómöguleika.

Einnig sé vafaatriði gegn hverjum krafa um aðgerðir ætti að snúa, en húseiganda beri skv. ákvæðum kafla 2.7 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Sé ekki framkvæmt í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga eða byggingarreglugerðar hafi byggingar­fulltrúi heimildir til að beita þvingunarúrræðum.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða skv. mannvirkjalögum nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og sé tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræða verði að meta í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína, en mögulega eigi kærandi bótarétt gagnvart byggjanda hússins. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þurfi ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Reykjavíkurborg telji að ekki sé gengið í þeim mæli gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum að það réttlæti það inngrip sem kærandi fari fram á í málinu. Rétt sé að minna á að Reykjavíkurborg hafi lagt til að útbúið yrði bílastæði fyrir hreyfihamlaða við austurenda hússins en kærandi hafi hafnað þeirri tillögu. Bílastæðið sem byggingarfulltrúi hafi boðist til að gera yrði 13 m frá einum inngangi, 28 m frá þeim næsta og 44 m frá þeim þriðja. Embættið telji að sú ráðstöfun feli í sér fullnægjandi aðgang að inngöngum hússins fyrir hreyfihamlaða í ljósi aðstæðna og að ekkert hafi komið fram sem réttlæti þvingunaraðgerðir eða breytingar á deiliskipulagi sem óhjákvæmilega myndu bitna á aðliggjandi lóð kæranda og fela í sér verulegt inngrip í hagsmuni íbúa þar. Deiliskipulagsgerð sé heldur ekki á forræði byggingarfulltrúa.

Reykjavíkurborg telji enn fremur að hafna beri kröfu kæranda sökum tómlætis. Húsið hafi verið tekið í notkun árið 2016, en það sé ekki fyrr en tveimur til þremur árum síðar að athugasemdir hafi borist frá húsfélaginu varðandi umrædd bílastæði.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ekki sé fallist á að um tómlæti sé að ræða í máli þessu. Bent sé á að fyrstu íbúar hússins hafi flutt inn í desember árið 2016, en Naustabryggja 31-33 hafi verið eina fullbyggða einingin á þeim tíma. Lokaúttekt sé dagsett í janúar 2018. Fyrirsvars­maður kæranda hafi átt fund með starfsmanni Reykjavíkurborgar undir lok árs 2017 eða snemma árs 2018 ásamt fundi með byggingarfulltrúa. Á þeim fundum hafi komið fram að deiliskipulag reitsins væri annkanalegt og að skipulag þyrfti að skoða betur. Margir tölvupóstar hafi einnig verið sendir um ágreiningsefnið til borgaryfirvalda. Eftir fund með formanni skipulags- og samgönguráðs og lögfræðingi Reykjavíkurborgar hafi sjónarmiðum kæranda verið hafnað. Að lokum hafi málið verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem hafi kveðið upp úrskurð árið 2020.

Ekki skipti máli hvaða embættismenn stjórnkerfis Reykjavíkurborgar fari með tilteknar valdheimildir. Í upphafi hafi verið tekin ákvörðun hjá borgaryfirvöldum um útgáfu byggingar­leyfis og deiliskipulag verið samþykkt. Þá þegar hafi legið fyrir að skilyrði 6. kafla byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 væru ekki uppfyllt. Það hafi ekki verið fyrr en úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn sem Reykjavíkurborg leggi til lausn sem uppfylli ekki heldur ákvæði um fjarlægðir stæða fyrir hreyfihamlaða frá aðalinngöngum umrædds húss.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúa á erindi kæranda um að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að Naustabryggju 31-33 fyrir hreyfihamlaða þannig að upp­fyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur í úrskurði uppkveðnum 28. ágúst 2020 áður komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 2. mgr. gr. 6.2.4. byggingarreglugerðar um hámarksfjarlægð bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða frá aðalinngangi nefnds húss séu ekki uppfyllt. Fyrirkomulagi bílastæða á umræddu svæði hefur ekki verið breytt síðan framangreindur úrskurður var kveðinn upp.

Kærandi krefst þess að viðkomandi stjórnvald hlutist til um að útbúin verði bílastæði fyrir hreyfi­­­hamlaða í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að úrskurða um lögmæti ákvarðana stjórnvalda. Það fellur utan valdsviðs nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir stjórnvald að taka ákvörðun með tilteknu efni enda er það vald falið sveitarfélögum með lögum. Verður því ekki tekin afstaða til framangreindrar kröfu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda sé hafnað sökum tómlætis. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi hefur haldið máli sínu á lofti frá árinu 2017 með eðlilegum hraða. Þá féll úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 15/2020 kæranda í vil 28. ágúst 2020 og hefur kærandi síðan þá farið reglulega fram á úrbætur og viðbrögð frá borgaryfirvöldum. Verður því ekki fallist á málsástæðu Reykjavíkurborgar að um tómlæti af hálfu kæranda sé að ræða í máli þessu.

Af hálfu borgaryfirvalda hefur því verið haldið fram að ómögulegt sé að koma fyrirkomulagi bílastæða fyrir hreyfihamlaða í löglegt horf. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð deiliskipulagsáætlana. Þá hafa sveitarstjórnir heimild til að breyta deiliskipulagi líkt og mælt er fyrir um í 43. gr. laganna. Einnig má benda á að sveitarstjórn getur heimilað skiptingu lóða skv. 48. gr. eða ráðist í eignarnám skv. 50. gr. laganna. Engu breytir um þessar heimildir þótt byggingarfulltrúi fari ekki persónulega með þær enda tilheyrir embætti byggingarfulltrúa stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Fjallað er um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög í X. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna kemur fram að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Rétt þykir í þessu samhengi að benda á að skv. 1. mgr. 15. gr. laganna ber eigandi mannvirkis ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið eftir kröfum mannvirkjalaga og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Hönnuðir bera svo ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að hönnun þeirra sé faglega unnin og mannvirkið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar í mannvirkja­lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. 2. mgr. 23. gr. nefndra laga. Til hins ber að líta að staðsetningu bílastæða fyrir hreyfihamlaða við Naustabryggju verður ekki breytt nema að undangenginni deiliskipulagsbreytingu sem sveitarstjórn annast og ber ábyrgð á eins og að framan greinir.

Samkvæmt framansögðu hefur Reykjavíkurborg ýmsar leiðir til að koma fyrirkomulagi bíla­stæða fyrir hreyfihamlaða í lögmætt horf. Verður því ekki fallist á með borgaryfirvöldum, a.m.k. að svo stöddu, að ómöguleiki sé fyrir hendi, þar sem framangreind úrræði hafa ekki verið fullreynd.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. mars 2021 að hafna kröfu húsfélags Naustabryggju 31-33 að Reykjavíkurborg tryggi aðgengi að húsinu fyrir hreyfi­hamlaða þannig að uppfyllt séu skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

125/2021 Háafell

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. júní 2021 um veitingu starfsleyfis fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi með 6.800 tonna hámarkslífmassa.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnarlax ehf. þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. júní 2021 að veita Háafelli ehf. starfsleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi með 6.800 tonna hámarkslífmassa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Umhverfisstofnun að afgreiða umsóknir um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi í þeirri tímaröð sem framkvæmdaraðilar skiluðu matsskýrslum sínum inn til Skipulagsstofnunar.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hins kærða leyfis verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirra krafna kæranda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 29. júlí 2021.

Málavextir: Hinn 6. desember 2016 lagði Háafell ehf. fram frummatsskýrslu um framleiðslu á allt að 6.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi til athugunar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Matsskýrsla var send Skipulagsstofnun 4. maí 2017 og óskað eftir áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Stofnunin gaf út álit 3. apríl 2018, en í kjölfar athugasemda Háafells var álitið dregið til baka 4. s.m. Hinn 9. október 2020 sendi félagið að nýju matsskýrslu um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og óskaði eftir áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Var umbeðið álit gefið út 22. desember s.á. Gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi 25. júní 2021 með 6.800 tonna hámarkslífmassa. Sama dag gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi 25. júní 2021 með 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna frjós lax annars vegar og 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna ófrjós lax hins vegar. Hafa þau leyfi einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 122/2021.

 

Málsrök kæranda: Kærandi byggir kröfu sínar um stöðvun framkvæmda á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Séu framkvæmdir ekki hafnar er þess krafist að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til 3. mgr. sama lagaákvæðis. Einnig sé vísað til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segi að æðra stjórnvaldi sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæli með því. Í athugasemdum við lagagreinina í frumvarpi því sem orðið hafi að stjórnsýslulögum segi m.a. að ákvæðið hafi mesta þýðingu varðandi ákvarðanir sem feli í sér breytta réttarstöðu fyrir aðila. Hin kærða ákvörðun hafi verulega fjárhagslega þýðingu fyrir hagsmuni kæranda. Leyfishafi undirbúi nú útsetningu laxaseiða í sjó samkvæmt nýjum leyfum, en búið sé að fella niður rekstrar- og starfsleyfi sem heimili núverandi eldi regnbogasilungs. Því lengra sem framkvæmd laxeldis leyfishafa sé komin því umfangsmeiri og tímafrekari muni stöðvun eldisstarfseminnar verða. Ákvarðanir stjórnvalda vegna lifandi eldisfisks geti verið talsvert flóknar vegna sjónarmiða um dýravelferð og annarra sjónarmiða, s.s. óbeinna eignarréttinda þriðja aðila. Slíkt muni kalla á frekari tafir fyrir eldisáform kæranda sem hafi tök á að hefja eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi um leið og tilskilin leyfi fáist. Jafnframt verði að gera ráð fyrir þeim möguleika að leyfishafi framselji starfsleyfið til þriðja aðila sem væri mögulega betur í stakk búinn til að hefja laxeldi í sjókvíum fyrr. Í þessu sambandi sé rétt að hafa í huga að kaup á búnaði, fóðri og eftir atvikum laxaseiðum feli í sér mikinn kostnað fyrir fiskeldisfyrirtækin og tjón ef leyfi starfsleyfishafa verði fellt úr gildi. Ekki sé ólíklegt að fyrir hendi séu lagaskilyrði fyrir því að krefja ríkið um greiðslu á útlögðum kostnaði og óbeinu tjóni í slíku tilviki, enda starfsleyfishafi í góðri trú um lögmæti rekstrarleyfis.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að ekkert sé fram komið í gögnum málsins sem rökstyðji hvernig framsal starfsleyfis hefði neikvæð áhrif á stöðu kæranda. Stofnunin telji ekki möguleika á að taka tillit til slíkra hugsanlega áforma við ákvörðun um veitingu slíks leyfis. Meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki séu komnar fram ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Þá sé óþarfi að fresta réttaráhrifum til þess að vernda hagsmuni kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmanni leyfishafa verði seiði ekki sett út í kvíar fyrr en í maí 2022. Miðað við málsmeðferðarhraða úrskurðarnefndarinnar ætti niðurstaða að vera komin í málið fyrir þann tíma.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar hafnað, enda standi hvorki ríkar ástæður né knýjandi nauðsyn til þess að verða við fyrrgreindri kröfu. Til viðbótar sé ekki líklegt að kæran muni á nokkurn hátt breyta hinum kærðu ákvörðunum. Í athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að ákvæði 5. gr. byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meginreglan sé sú að kæra hvorki stöðvi framkvæmdir ef þær séu hafnar eða fyrirhugaðar né fresti kæra réttaráhrifum ákvörðunar, en túlka beri undantekningu frá því þröngt samkvæmt viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum. Úrskurðarnefndin hafi í fyrri úrskurðum hafnað því að stöðva framkvæmdir nema sýnt hafi verið með óyggjandi hætti að hagsmunir kæranda séu mjög brýnir og knýjandi nauðsyn sé til að fallast á slíka kröfu, m.a. þegar fyrirhugaðar séu óafturkræfar framkvæmdir eða framkvæmdir sem hafi mikil áhrif á umhverfið. Kærandi hafi ekki fært fram haldbærar málsástæður sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis eða sýnt fram á að félagið yrði fyrir tjóni vegna mögulegra framkvæmda leyfishafa á næstu mánuðum sem ekki sé varið af efniskröfu þeirra í málinu. Stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa breyti nákvæmlega engu varðandi áform kæranda um eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Aftur á móti sé augljóst að stöðvun framkvæmda kæmi til með að hafa í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafa. Tekið sé fram að engin áform séu uppi af hálfu leyfishafa um að framselja hið kærða starfsleyfi til þriðja aðila.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að leyfisveiting Umhverfisstofnunar sé íþyngjandi fyrir hann en engin tilraun hafi verið gerð af hálfu stofnunarinnar til að meta hagsmuni hans vegna ákvörðunar um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa. Það mæli með frestun réttaráhrifa ákvörðunar ef ákvörðun sé íþyngjandi fyrir aðila máls. Miklir hagsmunir séu í húfi þar sem eldi á frjóum laxi sé takmörkuð auðlind. Þar sem útsetning seiða sé ekki fyrirhuguð fyrr en í maí 2022 hljóti að vera skaðlaust vegna hagsmuna leyfishafa að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Undirbúningur fyrir útsetningu laxaseiða taki umtalsverðan tíma og því sé líklegt að undirbúningur fyrir útsetningu að vori 2022 sé þegar hafinn með þeim skuldbindingum og kostnaði fyrir leyfishafann sem því fylgi.

Af ófullkomnum rökstuðningi Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar við útgáfu leyfa leyfishafa verði ekki annað ráðið en að stofnanirnar miði stjórnsýslulega meðferð umsókna um leyfi fyrir sjókvíaeldi við dagsetningar á álitum Skipulagsstofnunar. Samkvæmt því muni stofnanirnar næst gefa út rekstrarleyfi og starfsleyfi til Arctic Sea Farm hf., en kærandi verði síðastur í röð umsækjenda. Við ákvörðun um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa beri einnig að taka mið af áætlunum og getu Arctic Sea Farm til uppbyggingar laxeldis í Ísafjarðardjúpi, þar sem ákvörðun úrskurðarnefndarinnar muni væntanlega verða fordæmi fyrir afgreiðslu sambærilegrar kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa vegna leyfisveitinga til Arctic Sea Farm.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi nefna þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Svo sem áður greinir telur kærandi hina kærðu ákvörðun hafa verulega fjárhagslega þýðingu fyrir hagsmuni hans. Því lengra sem framkvæmd laxeldis leyfishafa sé komin því umfangsmeiri og tímafrekari muni stöðvun eldisstarfseminnar verða. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ekki fyrirhugað að setja út laxaseiði í sjó fyrr en í maí 2022, en lög­bundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er þrír til sex mánuðir frá því að gögn máls berast frá viðkomandi stjórnvaldi, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Er úrskurðar í kærumáli þessu, svo og í kærumáli nr. 122/2021, að vænta innan þess tíma. Þá eru aðilar þessa máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta en slíkt mælir gegn því að fallist verði á kröfu kæranda. Ekki verður séð að kæra verði þýðingarlaus fyrir kæranda þótt réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði ekki frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni eða að af því hljótist tjón fyrir hann sem erfitt yrði að ráða bót á. Þá þykir ljóst að frestun réttaráhrifa hins kærða leyfis yrði verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber alla áhættu af úrslitum kærumálsins verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 25. júní 2021 um veitingu starfsleyfis fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi með 6.800 tonna hámarkslífmassa.

122/2021 Háafell

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2021, kæra á ákvörðunum Matvælastofnunar frá 25. júní 2021 um veitingu rekstrarleyfa fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi með 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna frjós lax annars vegar og 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna ófrjós lax hins vegar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnarlax ehf. þær ákvarðanir Matvælastofnunar frá 25. júní s.á. að veita Háafelli ehf. annars vegar rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi með 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna frjós lax og hins vegar vegna 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna ófrjós lax. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að lagt verði fyrir Matvælastofnun að afgreiða umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi í þeirri tímaröð sem framkvæmdaraðilar skiluðu matsskýrslum sínum inn til Skipulagsstofnunar.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana verði frestað eða framkvæmdir stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirra krafna kæranda.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 4. ágúst 2021.

Málavextir: Hinn 6. desember 2016 lagði Háafell ehf. fram frummatsskýrslu um framleiðslu á allt að 6.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi til athugunar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við ákvæði þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Matsskýrsla var send Skipulagsstofnun 4. maí 2017 og óskað eftir áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Stofnunin gaf út álit 3. apríl 2018, en í kjölfar athugasemda Háafells var álitið dregið til baka 4. s.m. Hinn 9. október 2020 sendi félagið að nýju matsskýrslu um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og óskaði eftir áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Var umbeðið álit gefið út 22. desember s.á. Matvælastofnun gaf síðan út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi 25. júní 2021 með 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna frjós lax annars vegar og 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna ófrjós lax hins vegar. Sama dag gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi með 6.800 tonna hámarkslífmassa. Hefur það leyfi einnig verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 125/2021.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir kröfur sínar um stöðvun framkvæmda á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Séu framkvæmdir ekki hafnar er þess krafist að úrskurðarnefndin fresti réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana með vísan til 3. mgr. sama lagaákvæðis. Einnig sé vísað til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segi að æðra stjórnvaldi sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra sé til meðferðar þar sem ástæður mæli með því. Í athugasemdum við lagagreinina í frumvarpi því sem orðið hafi að stjórnsýslulögum segi m.a. að ákvæðið hafi mesta þýðingu varðandi ákvarðanir sem feli í sér breytta réttarstöðu fyrir aðila. Hinar kærðu ákvarðanir hafi verulega fjárhagslega þýðingu fyrir hagsmuni kæranda. Leyfishafi undirbúi nú útsetningu laxaseiða í sjó samkvæmt nýjum leyfum, en búið sé að fella niður rekstrarleyfi og starfsleyfi sem heimili núverandi eldi regnbogasilungs. Því lengra sem framkvæmd laxeldis leyfishafa sé komin því umfangsmeiri og tímafrekari muni stöðvun eldisstarfseminnar verða. Ákvarðanir stjórnvalda vegna lifandi eldisfisks geti verið talsvert flóknar vegna sjónarmiða um dýravelferð og annarra sjónarmiða, s.s. óbeinna eignarréttinda þriðja aðila. Slíkt muni kalla á frekari tafir fyrir eldisáform kæranda sem hafi tök á að hefja eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi um leið og tilskilin leyfi fáist. Jafnframt verði að gera ráð fyrir þeim möguleika að leyfishafi framselji rekstrarleyfin til þriðja aðila sem sé mögulega betur í stakk búinn til að hefja laxeldi í sjókvíum fyrr. Í þessu sambandi sé rétt að hafa í huga að kaup á búnaði, fóðri og eftir atvikum laxaseiðum feli í sér mikinn kostnað fyrir fiskeldisfyrirtækin og tjón ef leyfin verði felld úr gildi. Ekki sé ólíklegt að fyrir hendi séu lagaskilyrði fyrir því að krefja ríkið um greiðslu á útlögðum kostnaði og óbeinu tjóni í slíku tilviki, enda rekstrarleyfishafi í góðri trú um lögmæti leyfanna.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu Matvælastofnunar er bent á að ef litið sé til skýringarsjónarmiða með 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá sé það almennt talið mæla gegn því að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað að fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi andstæðra hagsmuna að gæta. Leggja verði heildstætt mat á þau sjónarmið sem fjallað sé um við útgáfu leyfis með tilliti til réttmætra hagsmuna aðila og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Stofnunin telji að við útgáfu hinna kærðu leyfa hafi verið fylgt ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og ekki sé tilefni til að fallast á kröfu um ógildingu þeirra. Af þeim sökum og með hliðsjón af réttmætum væntingum leyfishafa verði ekki séð að tilefni sé til að fresta réttaráhrifum leyfanna.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er kröfum kæranda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana hafnað, enda standi hvorki ríkar ástæður né knýjandi nauðsyn til þess að verða við fyrrgreindum kröfum. Til viðbótar sé ekki líklegt að kæran muni á nokkurn hátt breyta hinum kærðu ákvörðunum. Í athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að ákvæði 5. gr. byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Meginreglan sé sú að kæra hvorki stöðvi framkvæmdir ef þær séu hafnar eða fyrirhugaðar né fresti kæra réttaráhrifum ákvörðunar, en túlka beri undantekningu frá því þröngt samkvæmt viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum. Úrskurðarnefndin hafi í fyrri úrskurðum hafnað því að stöðva framkvæmdir nema sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti að hagsmunir kæranda væru mjög brýnir og knýjandi nauðsyn væri til að fallast á slíka kröfu, m.a. þegar fyrirhugaðar væru óafturkræfar framkvæmdir eða framkvæmdir sem hefðu mikil áhrif á umhverfið. Kærandi hafi ekki fært fram haldbærar málsástæður sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis eða sýnt fram á að hann verði fyrir tjóni vegna mögulegra framkvæmda leyfishafa á næstu mánuðum sem ekki sé varið af efniskröfu þeirra í málinu. Stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa breyti nákvæmlega engu varðandi áform kæranda um eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Aftur á móti sé augljóst að stöðvun framkvæmda kæmi til með að hafa í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafa. Tekið sé fram að engin áform séu uppi af hálfu leyfishafa um að framselja hin kærðu rekstrarleyfi til þriðja aðila. Einnig sé bent á að framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfi til fiskeldis sé óheimilt án leyfis Matvælastofnunar, sbr. 17. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi nefna þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Svo sem áður greinir telur kærandi hinar kærðu ákvarðanir hafa verulega fjárhagslega þýðingu fyrir hagsmuni hans. Því lengra sem framkvæmd laxeldis leyfishafa sé komin því umfangsmeiri og tímafrekari muni stöðvun eldisstarfseminnar verða. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ekki fyrirhugað að setja út laxaseiði í sjó fyrr en í maí 2022, en lög­bundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er þrír til sex mánuðir frá því að gögn máls berast frá viðkomandi stjórnvaldi, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Er úrskurðar í kærumáli þessu, svo og í kærumáli nr. 125/2021, að vænta innan þess tíma. Þá eru aðilar þessa máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta en slíkt mælir gegn því að fallist verði á kröfu kæranda. Ekki verður séð að kæra verði þýðingarlaus fyrir kæranda þótt réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði ekki frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni eða að af því hljótist tjón fyrir hann sem erfitt verði að ráða bót á. Þá þykir ljóst að frestun réttaráhrifa hins kærða leyfis yrði verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber alla áhættu af úrslitum kærumálsins verði hinar kærðu ákvarðanir felldar úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á ákvörðunum Matvælastofnunar frá 25. júní 2021 um veitingu rekstrarleyfa fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi með 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna frjós lax annars vegar og 6.800 tonna hámarkslífmassa vegna ófrjós lax hins vegar.

79/2021 Skötufjörður

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 14. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2021, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 5. maí 2021 um að afturkalla rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi og regnbogasilungi í Skötufirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Arctic Sea Farm hf. þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 5. maí 2021 að afturkalla rekstrarleyfi kæranda fyrir sjókvíaeldi á laxi og regnbogasilungi í Skötufirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 1. júlí 2021.

Málavextir: Hinn 26. nóvember 2012 var gefið út rekstrarleyfi til handa Arctic Odda ehf. fyrir sjókvíaeldi á laxi og regnbogasilungi í Skötufirði með heimild til framleiðslu á allt að 200 tonnum árlega. Sama ár gaf Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða út starfsleyfi fyrir starfseminni á grundvelli þágildandi laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gildistími þess leyfis rann út án endurnýjunar og hefur Umhverfisstofnun ekki gefið út nýtt starfsleyfi, sbr. lög nr. 7/1998. Í febrúar 2016 sótti kærandi um framsal rekstrarleyfisins og var í kjölfarið gefið út nýtt rekstrarleyfi af hálfu Matvælastofnunar 22. s.m. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 27. janúar 2020, var kæranda tilkynnt um afturköllun rekstrarleyfisins. Sú ákvörðun var afturkölluð 6. febrúar s.á. á þeim grundvelli að kæranda hefði ekki verið veitt skrifleg viðvörun og hæfilegur frestur til úrbóta, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Var kæranda jafnframt veittur frestur til 1. október s.á. til að hefja starfsemi og honum gefinn kostur á að koma að andmælum til 27. febrúar s.á. Í bréfi kæranda til Matvælastofnunar, dags. 6. s.m., kom fram að starfsemi hefði ekki hafist á grundvelli rekstrarleyfisins þar sem starfsleyfi Umhverfisstofnunar hefði ekki fengist. Hinn 5. maí 2020 sendi Matvælastofnun kæranda bréf þar sem fram kom að stofnunin hefði ákveðið að frestur til að hefja starfsemi skyldi framlengdur til 5. maí 2021 og að stofnunin myndi fella starfsleyfið úr gildi í samræmi við 15. gr. laga nr. 71/2008 ef starfsemi myndi ekki hefjast fyrir þann dag. Með bréfi, dags. 5. maí 2021, afturkallaði Matvælastofnun rekstrarleyfið og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi skuli Matvælastofnun fella rekstrarleyfi úr gildi ef fiskeldisstöð hafi ekki hafið rekstur í samræmi við rekstraráætlun innan þriggja ára frá útgáfu þess. Heimilt sé þó að veita undanþágu ef málefnalegar ástæður búi að baki töfinni, þó ekki lengur en til 12 mánaða. Að mati kæranda hafi heimildin verið sett inn í lögin til að bregðast við því þegar leyfishafar nýttu ekki útgefin rekstrarleyfi og gátu þar með komið í veg fyrir að aðrir aðilar gætu hafið fiskeldi á viðkomandi stað. Aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar megi hins vegar rekja til bréfa Matvælastofnunar, dags. 27. janúar 2020 og 5. maí s.á. Kærandi hafi í kjölfarið sett fram mótmæli sín, bæði á fundi með starfsmönnum stofnunarinnar og með tölvupósti 27. janúar 2020. Á það hafi verið bent að kærandi hefði ekki haft möguleika á að hefja starfsemi þar sem útgáfa og endurnýjun starfsleyfa hefði færst frá heilbrigðisnefndum til Umhverfisstofnunar, en stofnunin hefði, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, ekki klárað endurnýjun starfsleyfisins.

Lögum samkvæmt sé aðeins hægt að reka fiskeldi að því gefnu að slíkur rekstur hafi bæði gilt starfsleyfi og rekstrarleyfi. Allt frá því að rekstrarleyfið hafi upphaflega verið gefið út hafi kærandi undirbúið rekstur í Skötufirði. Þá hafi félagið einnig unnið að rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum vegna framleiðsluaukningar á starfsemi sinni þar. Hinn 20. maí 2019 hafi verið sótt um rekstrarleyfi fyrir 8.000 tonna meðalársframleiðslu, þ.e. 10.100 tonna hámarkslífmassa, laxeldi og/eða silungseldi, í Ísafjarðardjúpi, en í umsókninni hafi m.a. verið tekið tillit til athugasemda Hafrannsóknastofnunar vegna nálægðar við rannsóknatogslóðir og rækjuveiðar á eldissvæði kæranda í Skötufirði. Þá komi fram í mati á umhverfisáhrifum vegna framleiðsluaukningar í Ísafjarðardjúpi og í matsskýrslu til Skipulagsstofnunar að fallið verði frá eldisstarfsemi á grundvelli þágildandi rekstrarleyfis að því gefnu að félagið fái útgefið rekstrarleyfi fyrir 8.000 tonna meðalársframleiðslu í Ísafjarðardjúpi. Tillaga um að falla frá eldisstarfsemi á grundvelli rekstrarleyfis í Skötufirði hafi verið sett fram af hálfu kæranda í þeim tilgangi að koma til móts við athugasemdir Hafrannsóknastofnunar. Tillagan hafi hins vegar verið háð því skilyrði að nýtt rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi yrði gefið út. Umsókn kæranda um rekstrarleyfi fyrir 8.000 tonna meðalársframleiðslu í Ísafjarðardjúpi sé enn til meðferðar hjá Matvælastofnun þrátt fyrir að álit Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir 28. janúar 2021 og sé alls óvíst hvenær vænta megi útgáfu leyfisins.

Vilji kæranda hafi staðið til þess að hefja rekstur á grundvelli rekstrarleyfis sem gefið hafi verið út 22. febrúar 2016. Það hafi hins vegar verið ómögulegt þar sem starfsleyfi, sem upphaflega hafi verið gefið út 2012 til eins árs samkvæmt þágildandi lögum nr. 7/1998 af Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, hafi ekki fengist endurnýjað af Umhverfisstofnun þrátt fyrir ítrekanir þess efnis. Höfnun Umhverfisstofnunar á útgáfu starfsleyfis eigi sér ekki lagastoð, enda hafi stofnunin ekki gefið viðhlítandi skýringar á afstöðu sinni. Að framangreindu virtu séu skilyrði fyrir afturköllun rekstrarleyfisins ekki uppfyllt þar sem kærandi hafi verið sviptur möguleikanum á að hefja rekstur á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða. Í 15. gr. laga nr. 71/2008 sé sérstaklega tekið fram að heimild til afturköllunar taki til þess þegar leyfishafi hefji ekki rekstur í samræmi við rekstraráætlun. Lagaákvæðið og þau sjónarmið sem liggi að baki ákvæðinu eigi ekki við um rekstrarleyfi kæranda, enda hafi félagið ítrekað lýst yfir vilja til þess að hefja rekstur en það hafi ekki gengið eftir þar sem Umhverfisstofnun, og eftir atvikum Matvælastofnun, hafi svipt kæranda möguleikanum á að hefja starfsemi með því að taka ekki endanlega, og þar með kæranlega, ákvörðun um útgáfu starfsleyfis fyrir rekstur fiskeldis í Skötufirði.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu Matvælastofnunar er vísað til þess að í 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi sé fjallað um forsendubresti rekstrarleyfis. Í 1. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um skyldu stofnunarinnar til að afturkalla rekstrarleyfi ef starfsemi hafi ekki hafist innan þriggja ára frá útgáfu leyfisins. Jafnframt skuli tilkynna rekstraraðila slíka ákvörðun áður en hún sé tekin og gefa bæði kost á andmælum og svigrúmi til að gera úrbætur og koma starfsemi af stað. Rekstrarleyfi kæranda hafi tekið gildi 22. febrúar 2016. Matvælastofnun hafi tilkynnt kæranda um boðaða afturköllun rekstrarleyfisins fjórum árum síðar. Kærandi hafi þá þegar gert grein fyrir ástæðu þess að starfsemin hefði ekki hafist. Matvælastofnun hefði metið það sem málefnalega ástæðu og því veitt kæranda undanþágu til eins árs.

Mótmælt sé því sjónarmiði kæranda að ekki beri að túlka 15. gr. laga nr. 71/2008 samkvæmt orðanna hljóðan heldur eigi að líta til tilgangs ákvæðisins og markmiðs þess. Það sé almenn regla í íslenskum rétti að lög séu túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan. Ef víkja eigi frá þeirri grunnreglu þurfi að koma til sérstök sjónarmið. Kærandi hafi vísað til þess að vegna sanngirnissjónarmiða eigi að líta fram hjá þeim hlutlægu tímamörkum sem kveðið sé á um í nefndri 15. gr. Matvælastofnun hafi hins vegar enga aðkomu að starfsleyfi aðra en að framsenda starfsleyfisumsókn til Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. b í lögum nr. 71/2008. Stofnunin leggi ekki efnislegt mat á umsóknina og það sé því ekki hennar að tjá sig frekar um þær ástæður sem liggi því til grundvallar að starfsleyfisumsóknin hafi ekki fengið efnislega meðferð.

Kærandi spyrði saman umræddu rekstrarleyfi við afgreiðslu umsóknar félagsins um rekstrarleyfi fyrir 8.000 tonna meðalársframleiðslu í Ísafjarðardjúpi. Þótt auðvitað sé það svo að virkt rekstrarleyfi á einum stað hafi áhrif á afgreiðslu rekstrarleyfa á nærliggjandi svæðum hafi hin kærða ákvörðun enga þýðingu fyrir afgreiðslu nýs rekstarleyfis í Ísafjarðardjúpi. Málflutningur kæranda bendi einmitt til þess að það sé ekki einlægur ásetningur hans að hefja starfsemi á grundvelli rekstrarleyfisins frá 2016, heldur virðist hann fremur líta á það sem skiptimynt í umsókn um nýtt rekstrarleyfi á svipuðum slóðum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að samskipti hans við Matvælastofnun, í tengslum við framtíðaráform fiskeldis á grundvelli rekstrarleyfa í Skötufirði og Önundarfirði, beri þess merki að félagið hafi fullan hug á að hefja nýtingu rekstrarleyfisins. Vegna sinnuleysis Umhverfisstofnunar, og eftir atvikum Matvælastofnunar, hafi félagið hins vegar ekki átt þess kost að hefja starfsemi sína. Matvælastofnun varpi allri ábyrgð af umsókn um starfsleyfi á Umhverfisstofnun. Bent sé á að skv. 4. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi fari Matvælastofnun með stjórnsýslulega framkvæmd laganna og eftirlit með því að ákvæðum þeirra sé fylgt. Stofnuninni hafi borið að tryggja að fyrirtæki sem starfi á grundvelli fiskeldislaga eigi möguleika á að starfa innan þeirra heimilda sem þau lög kveði á um og að umsóknir þessara aðila fái þá stjórnsýslulegu meðferð sem löggjafinn hafi ákveðið. Þannig komi fram í 17. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi að stofnunin skuli afhenda umsækjanda útgefin starfsleyfi og rekstrarleyfi samtímis auk þess sem að í 15. gr. reglugerðarinnar komi fram að stofnunin skuli tilkynna umsækjanda innan mánaðar hvort umsókn teljist fullnægjandi. Í þessu felist að lagðar séu skyldur á stofnunina til að tryggja faglega og gagnsæja málsmeðferð. Með framangreint í huga sé afstaða stofnunarinnar til 15. gr. laga nr. 71/2008 ólögmæt þar sem einungis sé horft til texta lagaákvæðisins, en hvorki til sjónarmiðsins að baki því né þeirra skyldna sem lagðar séu á stofnunina í lögum um fiskeldi eða reglugerð um fiskeldi.

Þá sé bent á að afgreiðsla umsóknar kæranda um rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi hafi tafist langt fram yfir lögbundna fresti Matvælastofnunar. Engar skýringar hafi verið gefnar á þeim töfum. Spurt sé hvort stofnunin hafi kerfisbundið frestað því að taka afstöðu til umsóknarinnar þar til rekstrarleyfi sem þetta mál lúti að hafi verið afturkallað. Ef svo sé liggi ólögmæt sjónarmið að baki afturköllun rekstrarleyfisins þar sem ákvörðunin ráðist af ótengdum umsóknum kæranda og annarra um útgáfu rekstrarleyfa í Ísafjarðardjúpi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 5. maí 2021 að afturkalla rekstrarleyfi kæranda frá 22. febrúar 2016 fyrir sjókvíaeldi á laxi og regnbogasilungi í Skötufirði með heimild til framleiðslu á allt að 200 tonnum árlega.

Í 4. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi er tekið fram að til starfrækslu fiskeldisstöðva þurfi starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar. Í V. kafla laganna er fjallað um afturköllun rekstrarleyfis. Segir í 1. mgr. 15. gr. laganna að ef fiskeldisstöð hafi ekki innan þriggja ára frá útgáfu rekstrarleyfis hafið starfsemi í samræmi við rekstraráætlun sem fylgt hafi umsókn samkvæmt ákvæðum 8. gr. skuli Matvælastofnun fella rekstrarleyfið úr gildi. Stofnunin geti veitt undanþágu frá 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. ef málefnaleg sjónarmið búi að baki töfinni, þó ekki lengur en 12 mánuði. Þá segir í 2. mgr. að áður en gripið sé til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skuli stofnunin ávallt veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.

Svo sem rakið er í málavöxtum hefur ekki verið starfrækt fiskeldisstöð á grundvelli rekstrarleyfis Matvælastofnunar sem kærandi fékk framselt til sín 22. febrúar 2016. Vegna áforma stofnunarinnar um afturköllun rekstrarleyfisins veitti hún kæranda skriflegar viðvaranir og hæfilegan frest til úrbóta í samræmi við 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008, auk þess að veita honum eins árs frest til að hefja starfsemi ellegar yrði rekstrarleyfið fellt úr gildi. Að loknum gefnum fresti felldi stofnunin rekstrarleyfið úr gildi, enda hafði kærandi þá ekki hafið starfsemi. Verður ekki annað séð en að stofnunin hafi við meðferð málsins fylgt skýrum fyrirmælum laga nr. 71/2008 um afturköllun rekstrarleyfisins að liðnum hlutlægum og lögbundnum tímafrestum. Breyta ástæður þess að starfsleyfi hafi ekki fengist engu í þeim efnum, enda sér Matvælastofnun ekki um útgáfu þess heldur Umhverfisstofnun á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að sama skapi geta áform kæranda um frekari uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi ekki haggað gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Kröfu kæranda um ógildingu kærðrar ákvörðunar er því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 5. maí 2021 um að afturkalla rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi og regnbogasilungi í Skötufirði.

17/2021 Fáskrúðsfjörður

Með

Árið 2021, mánudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 um að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands, Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) og Veiðifélag Breiðdæla þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 24. febrúar 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 19. mars 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2018 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram matsskýrslu vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir að ala 11.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Fáskrúðsfirði. Kom fram í skýrslunni að útsetningaráætlun myndi taka mið af nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og að samkvæmt matinu myndu 6.000 tonn sem áætlað væri að ala í Fáskrúðsfirði verða frjór lax og 5.000 tonn geldlax. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 14. júní s.á. Umhverfisstofnun veitti framkvæmdaraðila starfsleyfi 19. mars 2019 fyrir 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi, og 21. s.m. veitti Matvælastofnun framkvæmdaraðila rekstrarleyfi vegna sama eldis.

Hinn 4. nóvember 2020 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að í breytingunni fælist að leggja af eldissvæðið við Æðasker en í staðinn yrði afmarkað nýtt eldissvæði austan við Eyri sem myndi heita Einstigi. Svæðin við Höfðahúsabót og Eyri myndu flytjast austar. Einnig yrði gerð breyting á útsetningaráætlun, þ.e. að seiði yrðu sett út á hverju ári þannig að almennt yrðu tvö svæði í notkun á meðan það þriðja væri í hvíld. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Fjarðabyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar. Taldi enginn umsagnaraðili að breytingin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 13. janúar 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að umhverfisverndarsamtök þau sem að kærunni standi fullnægi skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og uppfylli af þeim sökum það skilyrði að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn fyrirliggjandi kæru, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr., enda samrýmist kæran tilgangi starfsemi þeirra. Þá eigi Veiðifélag Breiðdæla lögvarða hagsmuni vegna nálægðar Breiðdalsár í Breiðdalsvík við fyrirhugað laxeldi og þeirra áhrifa á náttúrulega laxastofna og veiði í ánni sem því fylgi, en með þeirri breytingu sem hin kærða ákvörðun lúti að sé fyrirhugað að næstum tvöfalda eldi frjórra laxa.

Hin kærða ákvörðun lúti að breytingum á framkvæmd sem falli í flokk B í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. gr. 11.1 og 13.2 í viðaukanum. Í samræmi við það og 1. mgr. 6. gr. laganna skuli breytingin háð mati á umhverfisáhrifum, ef hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar og sé jafnframt tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Skipulagsstofnun beri skv. 3. mgr. 6. gr. laganna að byggja ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hafi lagt fram, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eftir því sem við eigi, þ.m.t. upplýsingum sem fram komi í þeim umsögnum sem stofnunin hafi aflað í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðarinnar. Við ákvörðun sína á þessum grundvelli beri Skipulagsstofnun að fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna og rökstyðja niðurstöðuna með hliðsjón af þeim. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og við undirbúning slíkrar ákvörðunar beri stofnuninni m.a. að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá beri stofnuninni að haga efni rökstuðnings í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar þannig að uppfylltar séu þær lágmarkskröfur um efni rökstuðnings sem lögfestar séu í 22. gr. stjórnsýslulaga.

Í samræmi við framanrakinn lagagrundvöll hinnar kærðu ákvörðunar hafi Skipulagsstofnun borið, á grundvelli fullnægjandi upplýsinga um breytinguna og líkleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í heild að gerðum þeim breytingum, þ.m.t. fyrirliggjandi niðurstöðu um umhverfisáhrif hennar, upplýsinga um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir og umsagna leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila, sem hafi fullnægt kröfum reglugerðar nr. 660/2015, að taka rökstudda afstöðu til þess hvort breytt framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs síns, eðlis eða staðsetningar að virtum þeim viðmiðum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og færa fullnægjandi rök fyrir þeirri afstöðu með vísan til þessara viðmiða. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekki þær kröfur.

Tilkynning framkvæmdaraðila geri ráð fyrir þrenns konar breytingum á hlutaðeigandi framkvæmd, þ.e. breytingu á staðsetningu eldissvæða í firðinum, breytingu á útsetningaráætlun eldisins og að ala einungis frjóan lax í firðinum. Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar segi um síðastgreindu breytinguna að í fyrra mati á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir eldi á 11.000 tonna framleiðslu á frjóum laxi og sé gert ráð fyrir að hámarkslífmassi hverju sinni verði óbreyttur með breytingunni. Þessi forsenda sé röng því skýrlega segi í samantekt endanlegrar matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 19. mars 2018 að í Fáskrúðsfirði muni 6.000 tonn verða frjór lax og 5.000 tonn geldlax. Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrsluna 14. júní 2018 segi í kafla 3.4.4. að framkvæmdaraðili áformi eldi á 6.000 tonnum af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði. Samkvæmt framanröktu hafi fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið reist á þeirri forsendu að eldi framkvæmdaraðila á frjóum laxi í Fáskrúðsfirði yrði ekki umfram 6.000 tonn á ári. Eldi á allt að 11.000 tonnum af frjóum laxi, eins og gert sé ráð fyrir í tilkynningu framkvæmdaraðila, feli því í sér mjög veruleg frávik frá gildandi mati á umhverfisáhrifum og rúmist ekki innan þess. Hin kærða ákvörðun sé haldin þeim verulega annmarka að þar sé ekki fjallað um einn þriggja meginþátta sem breytingin lúti að, þ.e. aukningu á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn. Þegar af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt að fella hana úr gildi.

Framangreindan annmarka megi rekja til þess að í tilkynningu framkvæmdaraðila sé nánast ekkert fjallað um þá verulegu breytingu á framkvæmdinni sem þar sé gert ráð fyrir og felist í því að skipta yfir í eldi á frjóum laxi og hætta að ala ófrjóan lax. Þótt vikið sé að þessum áformum í tilkynningunni hafi hún hvergi nærri að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Tilkynningin sé að þessu leyti alls ófullnægjandi og ekki viðhlítandi grundvöllur undir hina kærðu ákvörðun. Beri að skilja tilkynningu framkvæmdaraðila svo að hún lúti ekki að fyrirhugaðri breytingu á umfangi á eldi frjós lax í Fáskrúðsfirði heldur einvörðungu að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi við útsetningu seiða, án tillits til frjósemi þeirra, skorti upplýsingar um það í hvaða farveg framkvæmdaraðili hafi lagt eða hyggist leggja þessa verulegu breytingu á framkvæmd sinni, sem í tilkynningunni sé sögð forsenda annarra breytinga sem þar sé lýst. Um sé að ræða tilkynningarskylda breytingu sem leggja þurfi fyrir Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Sérstök skilyrði séu sett um hámark ársframleiðslu á frjóum laxi í leyfum framkvæmdaraðila og áður en unnt sé að breyta framkvæmdinni þurfi sú breyting að koma til umfjöllunar Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000. Þá hafi tilkynning framkvæmdaraðila ekki að geyma þær upplýsingar sem áskildar séu skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um þá þætti hennar sem lúti að breyttri staðsetningu eldissvæða og breyttu fyrirkomulagi útsetningar og hvíldartíma sem af því leiði. Í tilkynningunni sé t.a.m. ekki fjallað um möguleg áhrif af aukinni nálægð eldissvæða við hverfisverndað svæði við Sandfell, áhrif minni fjarlægðar milli kvía og tíðari útsetningu seiða með tilliti til laxalúsar og sjúkdóma eða um áhrif breyttrar staðsetningar á samgöngur og áhættu samfara því að staðsetja kvíar í markaðri siglingaleið, svo dæmi séu nefnd.

Skipulagsstofnun sé skylt við meðferð mála á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 að afla umsagna, m.a. leyfisveitenda, í samræmi við fyrirmæli 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Uppfylli umsagnirnar ekki þær kröfur sem þar komi fram beri stofnuninni í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um skyldubundna álitsumleitan að leggja fyrir álitsgjafafa að bæta þar úr með nýrri umsögn. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar skuli í umsögn koma m.a. fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun og hvort og þá á hvaða forsendum umsagnaraðili telji að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum út frá þeim atriðum sem falli undir starfssvið umsagnaraðila og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka. Ef frá sé talin umsögn Umhverfisstofnunar sé ekki vikið í umsögnum umsagnaraðila að stóraukinni framleiðslu framkvæmdaraðila á frjóum laxi. Þessar umsagnir séu að þessu leyti haldnar mjög verulegum annmarka. Þá eigi umsagnir í málinu það sammerkt að þær uppfylli ekki áskilnað 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um að þar sé tekin rökstudd afstaða til þess hvort tilkynning framkvæmdaraðila sé fullnægjandi og þá hvort hinar tilkynntu breytingar skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Að því marki sem tekin sé afstaða til þessara atriða í umsögnunum fylgi henni takmarkaður, ef nokkur, rökstuðningur umsagnaraðila.

Þótt enga umfjöllun sé um það að finna í hinni kærðu ákvörðun verði ráðið af tilkynningu framkvæmdaraðila að hún sé m.a. sett fram með vísan til mats Hafrannsóknastofnunar 11. maí 2020 á áhættu erfðablöndunar á grundvelli 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem staðfest hafi verið af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 3. júní, sbr. auglýsingu nr. 562/2020 í B-deild Stjórnartíðinda. Eftir þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum nr. 71/2008 með breytingalögum nr. 101/2019 sé ótvírætt að áhættumat erfðablöndunar skv. 6. gr. a í lögunum og burðarþolsmat skv. 6. gr. b feli í sér framkvæmdaáætlanir í skilningi laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sem háðar séu umhverfismati samkvæmt fyrirmælum þeirra laga. Þar sem ekki liggi fyrir að framangreint áhættumat Hafrannsóknastofnunar hafi sætt meðferð samkvæmt fyrirmælum laga nr. 105/2006 geti niðurstöður þess ekki orðið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis í skilningi laga nr. 106/2000 án frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi áætlunar og framkvæmdar. Þar við bætist að mat samkvæmt lögum nr. 106/2000 geti ekki komið í stað mats samkvæmt lögum nr. 105/2006, þótt í vissum tilvikum sé heimilt að sameina skýrslugerð á grundvelli þessara laga.

Að því er varði rannsókn Skipulagsstofnunar á því hvort hinar tilkynntu breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningu seiða geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif skuli tekið fram að forsendur varðandi staðsetningu eldis og kynslóðaskiptingu, þ. á m. hvíldartíma fjarðarins í heild hans í 9-12 mánuði milli kynslóða, hafi verið lagðar til grundvallar mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, án þess að gerð hafi verið grein fyrir öðrum valkostum í þessu efni og þeir bornir saman. Þær upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, sem fyrir liggi í mati á umhverfisáhrifum, miði því við aðrar forsendur en þær sem lagðar hafi verið til grundvallar hinum tilkynntu breytingum. Staðsetning eldissvæða og fyrirkomulag varðandi útsetningu seiða og hvíld eldissvæða milli kynslóða séu atriði varðandi framkvæmd þauleldis á fiski í sjókvíum sem hafi verulega þýðingu þegar umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu metin. Af því leiði að unnt sé að draga takmarkaðar ályktanir um umhverfisáhrif þess að víkja frá forsendum mats á umhverfisáhrifum um þessi atriði. Fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar komi því að takmörkuðu gagni við rannsókn á því hvort hinar tilkynntu breytingar á henni kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Hér verði að hafa hugfast að spurningin um umtalsverð umhverfisáhrif lúti ekki að breytingunum sem slíkum heldur að umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í heild sinni að teknu tilliti til tilkynntra breytinga. Í hinni kærðu ákvörðun felist því sú afstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér að gerðum þessum breytingum, önnur en eða umfram þau umhverfisáhrif sem þegar hafi verið lagt mat á og tekin afstaða til við útgáfu fyrri framkvæmdarleyfa. Að þessari afstöðu stofnunarinnar sé ekki lagður fullnægjandi grundvöllur með þeim gögnum sem hin kærða ákvörðun sé reist á, en þau gögn hafi aðeins að geyma mjög takmarkaðar upplýsingar um möguleg áhrif breyttrar staðsetningar eldissvæða og breytts fyrirkomulags útsetningar.

Hér þurfi að hafa í huga að með breytingum á staðsetningu eldissvæða sé verið að færa eldissvæðin þrjú í firðinum nær hvert öðru, auk þess sem um ræði alveg nýtt eldissvæði. Því til viðbótar sé verið að leggja til útsetningaráætlun sem felist í að svæðin verði öll þrjú í notkun í senn á köflum. Um áhrif framkvæmdarinnar með þessum breytingum á meðal annars lífríki í firðinum liggi ekki fyrir nægilegar upplýsingar í gögnum málsins. Af gögnunum sé því ekki unnt að álykta að hin breytta framkvæmd geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem þegar hafi verið lagt mat á. Til viðbótar skorti á að Skipulagsstofnun hafi aflað gagna um ýmis atriði sem umsagnaraðilar bendi á í umsögnum sínum. Þannig séu takmarkaðar upplýsingar í gögnum málsins um áhrif breytinganna á samgöngur þrátt fyrir að fram komi í umsögn Vegagerðarinnar að fyrirhuguð eldissvæði séu í markaðri siglingaleið. Staðsetning kvía í siglingaleiðum eða í mikilli nálægð við þær kunni eðli málsins samkvæmt að hafa í för með sér aukna hættu á stórslysi sem gæti haft í för með sér veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif ef mikill fjöldi eldisfiska slyppi úr sjókví sem laskaðist við árekstur við skip. Þá skorti upplýsingar um áhrif breytinganna á nærliggjandi friðlýst æðarvörp sem að sé vikið í umsögn Fjarðabyggðar. Loks verði ekki séð að aflað hafi verið upplýsinga um áhrif breytinganna m.t.t. laxalúsar og fiskilúsar þrátt fyrir það mat Fiskistofu að þeim kunni að fylgja aukin smithætta.

Samandregið liggi ekki fyrir í gögnum málsins fullnægjandi upplýsingar um gerð og eiginleika mögulegra umhverfisáhrifa breyttrar framkvæmdar. Skipulagsstofnun hafi því ekki getað fullyrt, svo forsvaranlegt væri, á grundvelli þessara gagna að hin breytta framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau sem stofnunin hafi áður lagt mat á og tekið afstöðu til í áliti sínu um matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018. Samkvæmt framansögðu sé hin kærða ákvörðun ekki reist á fullnægjandi upplýsingum um möguleg umhverfisáhrif tilkynntra breytinga, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í hinni kærðu ákvörðun séu heldur ekki færð fullnægjandi rök fyrir þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að hin tilkynnta breyting geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í ákvörðuninni sé þannig ekki rökstutt, með vísan til eðlis, umfangs og staðsetningar fyrirhugaðrar framkvæmdar, að hún sé ekki líkleg, að gerðum hinum tilkynntu breytingum, til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif önnur en eða umfram þau, sem þegar hafi verið metin og tekin afstaða til. Rökstuðningurinn uppfylli hvergi nærri þær ströngu kröfur sem leiði af lögum nr. 106/2000. Hafa beri í huga að hér sé um verulega breytingu að ræða á umfangsmikilli framkvæmd sem fyrir liggi að haft geti í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna eðlis síns og staðsetningar í sjó. Í samræmi við flókið samspil slíkrar framkvæmdar við það lífríki sem fyrir sé í sjó og nærliggjandi ám og strandsvæðum krefjist ákvörðun Skipulagsstofnunar ítarlegs rökstuðnings. Í slíkum tilvikum kunni rök Skipulagsstofnunar að koma í stað frekara mats á umhverfisáhrifum hlutaðeigandi framkvæmdar. Ef lög nr. 106/2000 eigi að ná markmiði sínu verði því að vera tryggt að rökstuðningur stofnunarinnar sé réttur og fullnægjandi. Þá skorti mjög á að tekin sé rökstudd afstaða í hinni kærðu ákvörðun til þeirra atriða sem bent sé á í umsögnum umsagnaraðila. Sem dæmi megi nefna að engin rökstudd afstaða sé tekin til ábendinga Fiskistofu um aukna hættu á lúsasmiti. Samkvæmt framansögðu sé rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki í samræmi við fyrirmæli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. einnig 22. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að tilkynning framkvæmdaraðila beri með skýrum hætti þess merki að tilkynningin lúti aðeins að tveimur þáttum, þ.e. breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Hvergi komi fram í tilkynningunni að hún lúti að aukningu á eldi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn af frjóum laxi á ári. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi eingöngu snúið að tilfærslu eldissvæða og breytingu á útsetningaráætlun. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2018 hafi áhrif þess að ala allt að 11.000 tonn af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði verið metin. Í matsskýrslunni hafi komið fram að áhættumati Hafrannsóknastofnunar yrði fylgt og því hafi verið áformað að sækja um leyfi til að ala 6.000 tonn af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði í samræmi við áhættumatið, eins og það hafi verið þegar matsskýrsla hafi verið unnin. Í matsskýrslu hafi jafnframt verið tekið fram að áhættumatið gæti tekið breytingum og að framleiðsluáætlanir framkvæmdaraðila myndu taka breytingum til samræmis við áhættumatið hverju sinni. Framleiðslumagn frjós fisks myndi þó ekki fara yfir 20.800 tonn í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að framangreindu, þ.e. að breytingar hafi orðið á áhættumatinu og í ljósi þess sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu hafi framkvæmdaraðili óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis í Fáskrúðsfirði með það í huga að magn frjós fisks verði aukið í samræmi við breytt áhættumat. Að öðru leyti sé ekki fjallað um frjóan lax í tilkynningunni. Að mati Skipulagsstofnunar beri að skilja umfjöllunina á þann hátt að samhliða tilkynningu um breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði þá hyggist framkvæmdaraðili auka magn á frjóum fiski til samræmis við breytt áhættumat, líkt og fjallað hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá sé þess getið að í kjölfar álits Skipulagsstofnunar um mat á áhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Berufirði og Fáskrúðsfirði hafi framkvæmdaraðili óskað frekari skýringa á því hvort þörf væri á sérstakri málsmeðferð á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum kæmi til breytinga á áhættumati og aukningu á frjóum fiski í eldi fyrirtækisins til samræmis við breytt áhættumat.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé vikið að því að fjallið Sandfell sé að finna í Fáskrúðsfirði og sé það á náttúruminjaskrá, en ekki friðað. Það sé í samræmi við orðalag í síðari hluta d-liðar 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar segi að eldissvæði muni færast nær Sandfelli sem sé hverfisverndað útivistarsvæði og á náttúruminjaskrá. Það muni mögulega auka sýnileika kvíanna fyrir gesti svæðisins. Að mati stofnunarinnar verði áhrifin þó minniháttar umfram núverandi áhrif á ásýnd og landslag.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ekki beint fjallað um áhrif minni fjarlægðar milli kvía og tíðari útsetningar seiða m.t.t. laxalúsar og sjúkdóma, en samt sé fjallað um villta laxfiska í tilkynningunni. Þar sé lýst þeirri afstöðu framkvæmdaraðila að breytt staðsetning eldissvæða muni ekki hafa miklar breytingar í för með sér varðandi þá áhættuþætti sem snúi að hugsanlegum áhrifum á villta laxastofna. Ef breytingin leiði til bættrar velferðar eldisfisks þá muni breytt staðsetning hafa jákvæð áhrif m.t.t laxastofna. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að fyrirhuguð breyting á framkvæmdinni sé ekki líkleg til að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsar eða sjúkdóma. Lesa verði tilkynninguna og framangreinda afstöðu stofnunarinnar með hliðsjón af því sem fram komi í áliti stofnunarinnar frá 14. júní 2018 um mat á umhverfisáhrifum vegna 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Þar sé að finna umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús. Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ekki fjallað um áhrif breyttrar staðsetningar á samgöngur og áhættu samfara því að staðsetja kvíar í markaðri siglingaleið. Hins vegar komi fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að Hafnarnesviti marki siglingaleiðir út fjörðinn. Með tilfærslu eldissvæða lendi þau í markaðri siglingaleið. Vitinn sé innan hafnsögu Fáskrúðsfjarðarhafnar og sé leiðsaga frá Fáskrúðsfjarðarhöfn á ábyrgð hafnaryfirvalda. Með hliðsjón af umsögn Fjarðabyggðarhafna telji stofnunin að færsla eldissvæða komi ekki til með að hafa áhrif á öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð.

Ítrekað sé að tilkynning framkvæmdaraðila hafi ekki lotið að stóraukinni framleiðslu fyrirtækisins á frjóum laxi. Af því leiði að hjá þeim umsagnaraðilum sem stofnunin hafi leitað til hafi ekki verið fyrir hendi forsendur til að gefa álit á umræddu atriði. Þá sé bent á að í 3. mgr. 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum sé ekki gerð krafa um að umsagnaraðilar rökstyðji hvort þeir telji að tilkynning sé fullnægjandi um þau atriði sem talin séu upp í málsgreininni. Þá segi í málsgreininni „eftir því sem við á“ varðandi atriðin. Hins vegar beri þeim að rökstyðja hvort tilkynntar breytingar á framkvæmd skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. orðalagið „hvort og þá á hvaða forsendum“ og þá „út frá þeim atriðum sem falla undir starfssvið umsagnaraðila.“ Í umsögn flestra umsagnaraðila sé að finna fullnægjandi rökstuðning að baki því hvort umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Hjá tveim eða þrem umsagnaraðilum kunni að vera að rökstuðningur sé ekki fullnægjandi með tilliti til framangreinds reglugerðarákvæðis. Ekki fáist þó séð að slíkt, eitt og sér, geti leitt til þess að verulegur annmarki sé á ákvörðun um matsskyldu.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar varði ekki leyfisveitingu heldur hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Því taki ákvörðunin ekki afstöðu til þess hvort áhættumat erfðablöndunar og burðarþols falli undir gildissvið laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og geti verið grundvöllur fyrir útgáfu framkvæmdaleyfi.

Ljóst sé af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 3/2020 að ekki sé ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, sé að nýju metin umhverfisáhrif hinnar upphaflegu framkvæmdar heldur einskorðist ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin geti kallað fram. Hin kærða ákvörðun sé reist á fullnægjandi gögnum og því séu þær kröfur sem leiði af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 uppfylltar. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna eldis í Fáskrúðsfirði og Berufirði sem byggi m.a. á rannsóknum sem varði botndýr, hafstrauma, öldufar og súrefni í Fáskrúðsfirði. Þá hafi legið fyrir umsagnir þeirra sérfræðistofnana sem búi yfir þekkingu á þeim umhverfisþáttum sem fyrirhuguð breyting sé líkleg til að hafa áhrif á. Megi þar nefna að í umsögn Hafrannsóknastofnunar segi að stofnunin taki undir sjónarmið framkvæmdaraðila um að breytingin feli ekki í sér aukið álag á umhverfið frá því sem tilkynnt hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum árið 2018. Þá komi fram í umsögn Umhverfisstofnunar að breytingin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér aukin umhverfisáhrif umfram þau sem lýst hafi verið í upphaflegu umhverfismati. Einnig komi fram í umsögn Matvælastofnunar að ekki sé ástæða til að meta umhverfisáhrif breytingarinnar. Þá sé því hafnað að fyrir liggi takmarkaðar upplýsingar um áhrif breytinganna á samgöngur. Í ákvörðun stofnunarinnar sé vísað til umsagnar Fjarðabyggðarhafnar vegna umsagnar Vegagerðarinnar um að fyrirhuguð eldissvæði séu í markaðri siglingaleið. Í umsögn Fjarðabyggðarhafnar komi fram að merkingar við jaðra eldissvæðanna og ljósamerki Hafnarnesvita muni sameiginlega tryggja öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Af þessu leiði að fyrirhuguð breyting ógni ekki öryggi siglinga.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé að finna umfjöllun um áhrif framkvæmdarinnar á fuglalíf. Þar lýsi stofnunin þeirri afstöðu sinni að það sé líklegt að fiskur komi til með að leita í krækling í æti við kvíar sem geti þá orðið bráð ýmissa sjófugla. Þá sé mögulegt að æðarfugl komi til með að leita í krækling á eldisbúnaði og þar af leiðandi geti aukið fæðuframboð í nágrenni kvía haft áhrif á dreifingu fugla innan fjarðanna og jafnframt leitt til staðbundinnar fjölgunar tiltekinna fuglategunda. Að mati stofnunarinnar hafi því verið uppi óvissa um heildaráhrif fiskeldisins á fugla í fjörðunum, sem og á einstakar fuglategundir. Meðal óvissuþátta sé möguleg fjölgun máva í nágrenni sjókvía og áhrif þeirrar fjölgunar á aðrar fuglategundir eins og æðarfugl. Að sama skapi sé óvissa til staðar um hvort fiskeldið muni hrekja fugla frá búsvæðum og hvaða þýðingu það hafi fyrir fuglalíf í fjörðunum. Hafi stofnunin talið það gefa tilefni til að í starfsleyfi verði sett skilyrði um vöktun á fuglalífi í nágrenni eldissvæða. Með hliðsjón af skilgreiningu umtalsverðra umhverfisáhrifa, sbr. p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, telji stofnunin ólíklegt að fyrirhuguð færsla eldissvæða hafi umtalsverð umhverfisáhrif á æðarvarp. Bent sé á að hvorki í umsögn Umhverfisstofnunar né Náttúrufræðistofnunar hafi sérstaklega verið vikið að nærliggjandi friðlýstum æðarvörpum.

Í umsögn Fiskistofu komi fram að með fyrirhugaðri breytingu á staðsetningu eldissvæða styttist fjarlægð milli þeirra og útsetning seiða verði tíðari. Þessar breytingar geti aukið líkurnar á því að laxalús eða fiskilús verði vandamál í eldinu og geti borist milli eldissvæða, einkum með hafstraumi frá Eyri/Fögrueyri til Einstiga. Mikið sé í húfi til að verja þá góðu stöðu sem hafi verið á Austfjörðum en lús hafi ekki verið vandamál þar. Síðan segi í umsögninni að hin kynnta breyting muni þó ekki auka líkurnar svo mikið á neikvæðum áhrifum á villta stofna vegna mögulegs lúsasmits, frá því sem nú sé, að það kalli á að breytingin undirgangist mat á umhverfisáhrifum. Að því virtu, og í ljósi þess að í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé að finna umfjöllun um fisksjúkdóma og laxalús, hafi ekki verið tilefni fyrir stofnunina að afla upplýsinga um áhrif breytinganna m.t.t. laxalúsar og fiskilúsar.

Rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé að mati Skipulagsstofnunar fullnægjandi með tilliti til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hafi í stjórnsýsluframkvæmd sinni litið svo á að rökstyðja beri ákvörðun út frá þeim sjónarmiðum í 2. viðauka sem „við eiga í hverju máli.“ Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 53/2020 segi t.d.: „Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun varðar hvaða liðir vegi þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar geti talist umtalsverð.“ Í athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að breytingalögum nr. 96/2019 komi fram að Skipulagsstofnun beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem „skipti mestu máli“ hvað varði framkvæmdina. Samkvæmt því sem hér sé rakið þurfi ekki alltaf að víkja að öllum sjónarmiðum í viðaukanum. Hin tilkynnta framkvæmd hafi ekki kallað á frekari rökstuðning, en skoða verði rökstuðninginn með hliðsjón af áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018. Þá sé bent á að í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að stjórnsýslulögum komi fram að í flestum tilvikum ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur fyrir ákvörðunum að nægja í málum á „fyrsta stjórnsýslustigi.“ Jafnvel þó svo að úrskurðarnefndin telji rökstuðninginn annmarka á hinni kærðu ákvörðun þá sé hann ekki svo verulegar að leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er gerð krafa um að málinu verði vísað frá þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi umboð frá þeim kærendum sem séu náttúruverndarsamtök til þess lögmanns sem riti undir kæruna. Umboðin séu haldin ágalla þar sem þau séu óvottuð, auk þess sem hin kærða ákvörðun sé ranglega dagsett. Formenn félagasamtakanna geti ekki tekið ákvörðun um kæru fyrir hönd félaganna án þess að fyrir liggi viðeigandi heimild til þess. Of seint sé að bæta úr annmörkunum. Þá hafi samtökin ekki sýnt fram á að þau uppfylli skilyrði sem sett séu fyrir aðildarhæfi í 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn um hvaða hagsmuni þeir kunni að hafa af úrlausn málsins. Skorti þá því lögvarða hagsmuni í málinu og beri að vísa málinu frá, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1007/2020. Við mat á lögvörðum hagsmunum verði að miða við hvað breytingin feli í sér og hverju hún breyti frá skilgreindu ástandi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum, en umdeild breytingin hafi ekki áhrif á kærendur. Fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrir eldi á 11.000 tonnum af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði og feli tillaga að breytingu ekki í sér breytingu á framleiðslumagni eða nokkru því sem geti haft áhrif á hagsmuni kærenda eða félagsmenn þeirra. Að auki liggi fyrir mat sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á hættu á erfðablöndun af eldi í Fáskrúðsfirði og sé hún hverfandi eða engin. Í áhættumatinu viðurkenni stofnunin að Breiðdalsá sé hafbeitará og þar af leiðandi sé hún ekki með villtan fiskistofn, sbr. skilgreiningu 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi á villtum fiskistofni, sbr. einnig sömu skilgreiningu í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og lögum nr. 58/2006 um fiskirækt. Með því að flokka Breiðdalsá sem hafbeitará sé stofnunin að segja að áin eigi ekki að njóta verndar sem aftur feli í sér að engir lögvarðir hagsmunir séu tengdir ánni. Því mati séu stjórnvöld bundin af við úrlausn ágreinings.

Við mat á ógildingu þurfi að hafa hugfast að lax sé nú önnur verðmætasta útflutningsfiskafurð Íslands og fiskeldi sé megin atvinnustoð tveggja landsfjórðunga. Því þurfi mikið að koma til svo hin kærða ákvörðun verði ógild. Ákvörðun Skipulagsstofnunar og tilkynningar framkvæmdaraðila um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningu uppfylli þau skilyrði sem sett séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og samnefndri reglugerð nr. 660/2015. Skipulagsstofnun hafi aflað umsagna leyfisveitanda og annarra hlutaðeigandi umsagnaraðila og sé engin þessara umsagna háð annmörkum, a.m.k. ekki annmörkum sem geti leitt til þess að kröfur kærenda verði teknar til greina. Beiting 11. gr. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé háð mati Skipulagsstofnunar, enda sé gerður sá fyrirvari að meta skuli upplýsingaskyldu út frá eðli og umfangi hlutaðeigandi framkvæmdar, en jafnframt að leita skuli umsagnar annarra en leyfisveitenda eftir eðli máls, líkt og gert hafi verið.

Þegar rætt sé um eldi á frjóum laxfiski þá sé talað um lax, enda sé lax alltaf frjór nema það eigi sér stað inngrip í þroskaferil hans. Sé verið að ræða um eldi á ófrjóum laxi þá sé undantekningarlaust rætt um ófrjóan lax. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé eldi á 11.000 tonnum af frjóum fiski í Fáskrúðsfirði, en gerður sé fyrirvari um að framkvæmdin sé alltaf í samræmi við gildandi áhættumat á hverjum tíma. Matsskýrslan sé mjög skýr hvað þetta varði. Stefna framkvæmdaraðila hafi, allt frá því áhættumat erfðablöndunar hafi fyrst verið kynnt 14. júlí 2017, verið sú að fylgja matinu og sé það nú lagaskylda. Kærendur rugli saman annars vegar magni frjós fisks samkvæmt útsetningaráætlun, sem endurspegli ávallt áhættumat og taki breytingum, og svo tilgreindu magni fisks í eldi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Magn samkvæmt útsetningaráætlun geti því bæði hækkað og lækkað út frá gildandi áhættumati og leyfum, en alinn frjór fiskur fari þó aldrei yfir 20.800 tonn í báðum fjörðunum.

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila, þar sem fjallað sé um hættuna á sleppingum eldisfisks og þar af leiðandi hættu á erfðablöndun, miðist útreikningar við heildarfjölda útsettra seiða í Fáskrúðsfirði eða 4.000.000, sem sé það magn sem þurfi til að búa til 11.000 tonn af frjóum fiski. Ef matsskýrslan hefði verið unnin út frá því að alin væru 6.000 tonn af frjóum fiski þá hefði verið miðað við 2.200.000 seiði í umfjöllun um umhverfisáhrif. Eldi á frjóum fiski og ófrjóum sé ekki frábrugðið hvort öðru nema að því er taki til hættu á erfðablöndun við villta stofna. Ef fjallað hefði verið um eldi og áhrif eldis á ófrjóum fiski á villta stofna í matsskýrslunni hefði þá umfjöllun verið að finna í kafla 6.5.3. um umhverfisáhrif. Sá kafli matsskýrslunnar geri það hins vegar ekki. Um eldi á ófrjóum fiski sé fjallað í valkostagreiningu og eðli málsins samkvæmt lúti því megniefni skýrslunnar að eldi á frjóum fiski.

Því sé andmælt að ekki sé nægjanlega fjallað um aukningu á eldi á frjóum fiski í tilkynningu framkvæmdaraðila, en það sé Skipulagsstofnunar að meta hverju sinni út frá aðstæðum hversu ítarleg tilkynning þurfi að vera varðandi einstaka þætti. Breyting á útsetningaráætlun taki bæði til breytinga á kynslóðaskiptingu og magni frjós fisks. Fram komi í tilkynningu að framkvæmdaraðili hafi óskað eftir uppfærslu gildandi leyfis með það i huga að magn frjós fisks verði aukið, enda miðist fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar við það að meta hvaða áhrif 11.000 tonna lífmassi af frjóum fiski hafi á fjörðinn og umhverfið. Hinn 9. júní 2020, fimm mánuðum áður en tilkynningin hafi verið send til Skipulagsstofnunar, hafi framkvæmdaraðili óskað eftir því við Matvælastofnun að rekstrarleyfi yrði uppfært miðað við nýtt áhættumat. Sé byggt á því að stofnuninni ber skylda til að uppfæra rekstrarleyfi miðað við breytt áhættumat og kalli slíkt ekki á aðkomu Skipulagsstofnunar, sbr. 4. mgr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé ítarlega fjallað um tilfærslu svæða, uppdrættir sýndir og nákvæmar hnitsetningar. Einnig sé ítarleg eldisáætlun sett fram ásamt upplýsingum um hvíldartíma, en hann sé óbreyttur frá því sem segi í matsskýrslu. Þá sé ítarlega fjallað um svæðaskipulagið og þróun þess, en m.a. komi fram að rými til siglinga aukist mikið miðað við breytingar á eldissvæðum, sem minnki líkur á óhöppum við siglingar í firðinum. Jafnframt liggi fyrir umsögn Vegagerðarinnar um siglingaleiðir.

Umsagnir séu vel rökstuddar og einróma um að breytingin feli ekki í sér að framkvæmdin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Telji Hafrannsóknastofnun m.a. að nægilega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar og mótvægisaðgerðum hvað varði áhættumat erfðablöndunar. Í umsögn Umhverfisstofnunar sé fjallað ítarlega um þá ætlan framkvæmdaraaðila að ala eingöngu frjóan lax og staðfest að í fyrra mati á umhverfisáhrifum hafi verið gert ráð fyrir 11.000 tonna framleiðslu á frjóum laxi. Þar sem tilkynningin lúti að breytingu á eldisáætlun sé bæði vísað til breytingar á fjölda seiða í útsetning, sem og breytingar í frjóan fisk.

Áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat feli ekki í sér áætlanir sem marki stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda á tilteknu svæði. Hvort tveggja séu í eðli sínu rannsóknir og séu einungis hluti af mörgum rannsóknum og forsendum sem þurfi að vera fyrir hendi til að leyfi sé veitt til fiskeldis. Þannig geti niðurstaðan orðið sú að fiskeldi verði ekki leyft þó áhættumat og burðarþolsmat heimili það. Síðan kunni að koma upp sú staða að annað hvort áhættumat eða burðarþolsmat heimili eldi en hitt matið geri það ekki og þá verði ekki af eldi á viðkomandi stað. Áhættumat og burðarþolsmat séu því ekki afgerandi um útgáfu leyfa og séu auk þess háð breytingum og skulu endurskoðast reglulega, sbr. 3. mgr. 6. gr. a og 2. mgr. 6. gr. b í lögum nr. 71/2008.

Þegar áhættumat og burðarþolsmat liggi fyrir vinni Hafrannsóknastofnun svæðaskipulag eldissvæða skv. 4. gr. a í lögum nr. 71/2008, en jafnframt þá sé gert strandsvæðaskipulag af svæðisráðum samkvæmt lögum nr. 22/2008 um skipulag haf- og standsvæða. Að því loknu þá sé eldissvæðum úthlutað og þeir aðilar sem fái úthlutun geti farið með fyrirhugaðar framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. Slíkt mat byggi fjölda rannsókna, þ. á m. áhættumati og burðarþolsmati, og sé það ekki fyrr en að því loknu, ef því ljúki með áliti, sem leyfi geti hugsanlega verið gefið út, en um það eigi Umhverfisstofnun og Matvælastofnun sjálfstætt mat. Þar með sé sjónarmiðum um aðkomu almennings og málskotsrétt fullnægt en það séu einmitt þau sjónarmið sem lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana byggi á. Sú ákvörðun sem hér sé til umfjöllunar byggi á mati á umhverfisáhrifum þar sem allir þeir þættir sem ákvörðunin byggi á hafi verið kynntir almenningi og þeim gefist kostur á að gera athugasemdir. Umfang og eðli framkvæmdarinnar hafi ekki breyst frá því að matið hafi verið gert og sé því um að ræða óverulegar breytingar sem séu undanþegnar lögum nr. 105/2006 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, sbr. 10. gr. Um það hafi Skipulagsstofnun úrskurðað með ákvörðun sinni. Það að kynna framkvæmd aftur og gera um hana umhverfisskýrslu væri tvíverknaður og ekki í samræmi við markmið laga nr. 105/2006. Í því tilviki sem hér um ræði eigi eftir að gefa út rekstrarleyfi og starfsleyfi, sem verði auglýst og almenningi veittur réttur til athugasemda og málskots.

Kærð sé ákvörðun Skipulagsstofnunar sem falli ekki undir lög nr. 105/2006, en að auki sé í þeim lögum ekki heimild til ógildingar ákvörðunar, hvað þá sjálfstæðrar ákvörðunar sem ekki sé fjallað um í lögunum, eins og ákvörðun um matsskyldu sé. Eftir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019 hafi dómstólar og úrskurðarnefndin ítrekað fjallað um mál tengd leyfisveitingum til fiskeldis þar sem áhættumat og burðarþolsmat hafi komið til skoðunar og legið til grundvallar úrlausn máls, s.s. úrskurði í málum nr. 89/2020 og 3/2020 og úrskurð Landsréttar í máli nr. 10/2019. Í þeim málum hafi ekki verið vikið að því að áhættumat eða burðarþolsmat falli undir lög nr. 105/2006. Hafa beri hugfast að úrskurðarnefndinni beri að beita málsástæðum og lagarökum þótt málsaðilar hafi ekki haldið þeim fram í gögnum málsins.

Þá sé það Skipulagsstofnun sem skeri úr um ef vafi leiki á því hvort lög nr. 105/2006 eigi við. Af framkvæmd megi ráða að Hafrannsóknastofnun telji ekki að áhættumat og burðarþolsmat falli undir lögin og hafi það mat verið staðfest af ráðherra að því er taki til áhættumats. Skipulagsstofnun hafi gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar þar sem áhættumat og burðarþolsmat sé lagt til grundvallar og af því megi ráða að stofnunin meti það svo að lög nr. 105/2006 nái ekki yfir áhættumat og burðarþolsmat. Hin kærða ákvörðun byggi á áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar frá 14. júní 2018, en rekstrarleyfi hafi verið gefið út 21. mars 2019 og starfsleyfi 19. s.m. Allt hafi þetta farið fram fyrir gildistöku laga nr. 101/2019 þegar áhættumat og burðarþolsmat hafi verið lögfest. Ekki verði talið að lögum nr. 105/2006 verði beitt um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eða ákvörðun byggða á því mati, sem framkvæmt hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 101/2019.

Fyrir liggi ítarlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar ásamt valkostagreiningu. Matið byggi á því að hvíld milli kynslóða sjókvíaeldissvæðis sé 9-12 mánuðir og sé það óbreytt samkvæmt tillögu framkvæmdaraðila. Með breytingunni sé lífrænu álagi dreift betur um fjörðinn, fóðrun minnkuð, seiðum í sjó fækkað og lífmassinn færður utar og sunnar í fjörðinn, en það auki upplausn efna og minnki álag á fjörðinn sjálfan. Þá sé ítarleg umfjöllun um möguleg áhrif á æðarvörp í mati á umhverfisáhrifum. Í vöktunaráætlun framkvæmdaraðila, sem samþykkt sé af Umhverfisstofnun, sé gert ráð fyrir vöktun áhrif eldis á fuglalíf og taki það einnig til æðarvarps. Ekki hafi fundist laxalús á eldisfiski á Austfjörðum, en fiskilús hafi fundist og sé hún talin meinlaus.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í athugasemdum framkvæmdaraðila komi fram að breyting á útsetningaráætlun feli í sér breytingu á framleiðslumagni á frjóum fiski úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn. Liggi því fyrir að með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið tekin afstaða til matsskyldu vegna eins þeirra meginþátta sem hin tilkynnta breyting hafi lotið að. Óháð því hvort það eigi rætur að rekja til annmarka á tilkynningu framkvæmdaraðila eða ófullnægjandi mats og rannsóknar Skipulagsstofnunar sé hin kærða ákvörðun að þessu leyti haldin verulegum annmarka sem leiði óhjákvæmilega til þess að hún verði felld úr gildi.

Áréttað sé að hin kærða ákvörðun feli ekki í sér að breyting á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 11.000 tonn sé ekki matsskyld af þeirri ástæðu að umhverfisáhrif breyttrar framkvæmdar hafi þegar verið metin með fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum. Eins og skýrlega komi fram í umsögn Skipulagsstofnunar hafi stofnunin ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort þessi breyting á framkvæmdinni sé matsskyld. Ekki reyni því á gildissvið fyrirliggjandi mats á umhverfisáhrifum að þessu leyti við úrlausn kærumálsins. Mat á umhverfisáhrifum skv. 4. gr. a í samnefndum lögum nr. 106/2000 samanstandi af sex þáttum sem þar séu nánar tilgreindir, þ.m.t. athugun Skipulagsstofnunar á matsskýrslu framkvæmdaraðila, áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og að álit stofnunarinnar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi til framkvæmda. Hvað sem líða kunni áformum framkvæmdaraðila um síðari breytingar hafi álit Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2018 á matsskýrslu framkvæmdaraðila skýrlega verið reist á þeirri forsendu, sem einnig komi fram í matsskýrslunni, að í hinni metnu framkvæmd fælist framleiðsla á að hámarki 6.000 tonnum á ári af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuni að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna tilgreindra ákvarðana enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Framkvæmdaraðili hefur farið fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að kærendur uppfylli ekki skilyrði kæruaðildar laga nr. 130/2011. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja gögn er sýna fram á að náttúruverndarsamtök þau er standa að kærumáli þessu uppfylla fyrrnefnd skilyrði kæruaðildar. Þá verða fyrirliggjandi umboð samtakanna til lögmanns ekki talin ófullnægjandi, svo sem framkvæmdaraðili heldur fram. Við mat á því hvort Veiðifélag Breiðdæla uppfylli skilyrði um lögvarða hagsmuni verður að meta hagsmuni og tengsl félagsins við úrlausn málsins, þ.e. hvort það eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Almennt verður þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Þannig ber að jafnaði ekki að vísa málum frá vegna þess að þá skorti, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir þá hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Telur veiðifélagið sig eiga hagsmuni að gæta vegna nálægðar Breiðdalsár í Breiðdalsvík við fyrirhugað laxeldi og mögulegra áhrifa eldisins á náttúrulega laxastofna og veiði í ánni sem því fylgi.

Veiðifélagi Breiðdæla hefur áður verið játuð kæruaðild í málum fyrir úrskurðarnefndinni sem lúta að sjókvíaeldi á frjóum laxi. Var félagið þannig nýlega talið hafa lögvarða hagsmuni í kærumálum nr. 107 og 111/2020 en þar var kærð sú ákvörðun Matvælastofnunar að gefa út rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Reyðarfirði með 10.000 tonna hámarkslífmassa. Byggðist niðurstaðan m.a. á að í mati Hafrannsóknastofnunar á áhættu af erfðablöndun eldislaxa við íslenska laxastofna er Breiðdalsá talin vera við þröskuldsgildi ásættanlegs innstreymis eldislaxa í náttúrulega laxveiðiá. Jafnframt var litið til þess að innan við 40 km eru frá ósum Breiðdalsár að því eldissvæði sem þá var fyrirhugað yst í Reyðarfirði. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru sambærilegar aðstæður til staðar vegna sjókvíaeldis framkvæmdaraðila í Fáskrúðsfirði og með hliðsjón af því, sem og að virtum fyrrgreindum sjónarmiðum um aðild að stjórnsýslumáli, verður Veiðifélagi Breiðdæla játuð kæruaðild í máli þessu.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B skulu háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þegar framkvæmdaraðili hefur tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Niðurstöðu sína um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. nefndrar 6. gr., svo sem henni var breytt með lögum nr. 96/2019, rökstyðja með hliðsjón af þeim viðmiðum sem talin eru upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en þau eru í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, en undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða. Skal Skipulagsstofnun taka matsskylduákvörðun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina og er stofnuninni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun hennar sé hún ekki matsskyld að áliti stofnunarinnar. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 96/2019 er tekið fram að með breytingunni sé gerð skýrari krafa um innihald ákvörðunar Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Henni beri við rökstuðning niðurstöðu sinnar að horfa til þeirra þátta í 2. viðauka sem skipti mestu máli hvað varðar framkvæmdina. Rökstuðningur eigi bæði við um ákvörðun um að framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum og ákvörðun um að framkvæmd skuli ekki háð slíku mati. Skipulagsstofnun skuli byggja ákvörðun sína um matsskyldu á upplýsingum frá framkvæmdaraðila, en sé einnig heimilt að byggja hana á öðrum gögnum. Þar undir gætu til dæmis fallið forprófanir eða mat á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið á grundvelli annarra laga og ábendingar sem henni berist frá öðrum, til dæmis stofnunum og almenningi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Fjarðabyggðar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Telur Umhverfisstofnun í sinni umsögn að breytingin muni ekki koma til með að hafa neikvæð áhrif og að áhrif framkvæmdarinnar liggi ljós fyrir. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar er tekið undir sjónarmið framkvæmdaraðila um að breytingin feli ekki í sér aukið álag á umhverfið frá því sem tilkynnt hafi verið í mati á umhverfisáhrifum frá 2018. Fiskistofa bendir í sinni umsögn á að fyrirhuguð breyting á staðsetningu eldissvæða stytti fjarlægð milli þeirra og útsetning seiða verði tíðari. Þessar breytingar geti aukið líkurnar á því að laxalús eða fiskilús verði vandamál í eldinu og geti borist milli eldissvæða, einkum með hafstraumi frá Eyri/Fögrueyri til Einstiga. Breytingin muni þó ekki auka líkurnar svo mikið á neikvæðum áhrifum á villta stofna vegna mögulegs lúsasmits að það kalli á að breytingin undirgangist mat á umhverfisáhrifum. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að tillaga að breyttri staðsetningu sjókvía valdi því að þær lendi í markaðri siglingaleið um Fáskrúðsfjörð og vísar stjórnvaldið til ábyrgðar hafnaryfirvalda til að sjá til þess að öryggi siglinga sé tryggt. Í bókun hafnarstjórnar Fjarðabyggðar kemur fram að lögð sé áhersla á að ljósabúnaður við fyrirhugaðar eldiskvíar verði staðsettur með tilliti til núverandi vita. Merkingar við jaðra eldissvæðanna og ljósmerki vitans muni sameiginlega tryggja öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Að lokum telur Minjastofnun í umsögn sinni að áður en kvíarnar verði festar niður verði að skoða botninn nákvæmlega með tilliti til fornleifa.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, þ.e. áformum framkvæmdaraðila um tilfærslu eldissvæða og breytta útsetningaráætlun, fjallað er um umhverfisáhrif breytingar framkvæmdarinnar, eins og þeim var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og umsögnum umsagnaraðila, og vikið að leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla sínum vísar stofnunin til þess að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum skuli taka mið af eðli hennar, m.a. stærð og umfangi hennar og úrgangsmyndun. Einnig skuli taka mið af staðsetningu framkvæmdar, m.t.t. hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmd hafi áhrif á, s.s. með tilliti til þeirrar landnotkunar sem fyrir sé og álagsþols strandsvæða. Þá beri að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi eiginleika hugsanlegra áhrifa, einkum með tilliti til svæðis sem ætla megi að verði fyrir áhrifum, stærðar og fjölbreytileika áhrifa og tímalengdar.

Í umfjöllun stofnunarinnar um staðsetningu og eðli framkvæmdar er vísað til þess að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 20.800 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði frá 14. júní 2018. Um sé að ræða breytingu á þeirri framkvæmd sem felist í því að breyta staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði. Gera megi ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að einhverju leyti frábrugðin því sem gert hafi verið ráð fyrir í matsskýrslu. Fyrir liggi að megin straumstefna liggi inn fjörðinn að norðan og út að sunnan, auk þess sem meiri landhalli og dýpi sé undir fyrirhuguðum eldissvæðum í sunnanverðum firðinum. Með breyttri staðsetningu eldiskvía verði minni uppsöfnun næringarefna innar í firðinum þar sem umræddar breytingar muni leiða til þess að lífmassinn færist utar. Með hliðsjón af umsögnum Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar telji Skipulagsstofnun að breytt fyrirkomulag á eldi í firðinum komi ekki til með að auka umhverfisáhrif á botndýralíf og ástand sjávar. Taki stofnunin undir með umsögn Minjastofnunar um að sjávarbotn þeirra svæða sem tilfærsla eldissvæðanna nái til verði athugaður m.t.t. hugsanlegra minja. Þá bendir Skipulagsstofnun á að tilfærsla eldissvæða sé líkleg til að breyta áhrifum vegna ásýndar. Til að mynda muni eldissvæði færast nær Sandfelli sem sé hverfisverndað útivistarsvæði og á náttúruminjaskrá. Það muni mögulega auka sýnileika kvíanna fyrir gesti svæðisins, en að mati stofnunarinnar verði áhrifin þó að teljast minniháttar umfram núverandi áhrif á ásýnd og landslag. Jafnframt bendir stofnunin á að með tilfærslu eldissvæða lendi þau í markaðri siglingaleið en að með hliðsjón af umsögn Fjarðabyggðarhafna muni færsla eldissvæða ekki koma til með að hafa áhrif á öryggi siglingaleiða um Fáskrúðsfjörð. Loks tekur Skipulagsstofnun fram að fyrirhuguð færsla eldissvæða og breyting á útsetningaráætlun komi ekki til að breyta eiginleikum hugsanlegra umhverfisáhrifa af fiskeldi í Fáskrúðsfirði. Umhverfisáhrif komi að mestu til með að vera sambærileg og að með færslu eldissvæða í útstraum fjarðarins kunni að verða jákvæð áhrif af breytingu á dreifingu úrgangs og uppsöfnun næringarefna. Var niðurstaða Skipulagsstofnunar, eins og fyrr greinir, sú að hin umdeilda framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka laganna. Ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar skal Skipulagsstofnun byggja á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram, sbr. 2. mgr., og öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, ef við á. Tilkynning framkvæmdaraðila einskorðaðist við breytingu á eldissvæðum og útsetningaráætlun. Í texta tilkynningarinnar kemur fram að sett verði út seiði á hverju ári þannig að almennt verði tvö svæði í notkun á meðan það þriðja verði í hvíld. Fjallað er um fjölda og stærð seiða og tekið fram að lífmassi muni aldrei fara yfir 11.000 tonn, en ekki hver skipting verði í frjóan lax og ófrjóan. Ný útsetningar- og eldisáætlun í viðauka 1 með tilkynningunni tilgreinir sömu atriði, sömuleiðis án þess að slík skipting komi fram. Þótt vikið sé að þeirri fyrirætlan framkvæmdaraðila að fá leyfum sínum breytt á þann veg að meira magn frjós lax verði alið er ljóst að tilkynning hans lýtur ekki að þeim breytingum. Var því Skipulagsstofnun ekki skylt að fjalla um aukningu á eldi á frjóum laxi, svo sem kærendur telja að stofnuninni hafi borið að gera. Að sama skapi er það ekki ágalli á þeim umsögnum sem Skipulagsstofnun aflaði sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að ekki hafi verið fjallað um aukna framleiðslu á frjóum laxi. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum skal í umsögn umsagnaraðila koma fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á. Þegar litið er til eðlis og umfangs þeirrar breytingar á framkvæmd sem um ræðir verður ekki talið að frekari umfjöllun eða rökstuðningur umsagnaraðila hafi átt við í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.

Svo sem henni bar lagði Skipulagsstofnun að lokum sjálfstætt mat á það hvort breytingin á framkvæmdinni skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, en taldi að svo væri ekki. Ljóst er að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Verður að skoða röksemdir Skipulagsstofnunar fyrir niðurstöðu hennar í því ljósi. Þá fer það eðli máls samkvæmt eftir þeirri breytingu á framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvaða atriði sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif breytingarinnar teljist umtalsverð. Það að breyting framkvæmdar falli undir einhvern liðanna leiðir ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum kann að gefa vísbendingu um hver áhrif breytingarinnar kunni að verða. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt af framkvæmdaraðila. Þá tók Skipulagsstofnun við það mat, sem áður er fjallað um, viðhlítandi tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga.

Kærendur byggja m.a. á því að áður en hin kærða matsskylduákvörðun var tekin hafi umhverfismat áætlana samkvæmt samnefndum lögum nr. 105/2006 ekki farið fram vegna mats Hafrannsóknastofnunar á áhættu af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna, sbr. 6. gr. a í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 gilda þau um umhverfismat þeirra skipulags- og framkvæmdaáætlana og breytingar á þeim sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar er undanfari leyfis til framkvæmda sem fellur undir lög nr. 106/2000, s.s. þegar um er að ræða leyfi fyrir fiskeldi, en ákvörðunin sjálf felur ekki í sér slíkt leyfi. Raskar því skortur á umhverfismati áætlana, óháð því hvort það hefði átt að fara fram eða ekki vegna hinnar upprunalegu framkvæmdar, ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hin kærðu matsskylduákvörðun, lagt tilhlýðilegt mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti. Þar sem enga þá annmarka er að finna á hinni kærðu ákvörðun sem leiða ættu til ógildingar verður kröfu kærenda þar um hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 13. janúar 2021 um að breytingar á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun sjókvíaeldis í Fáskrúðsfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

126/2021 Fagribær

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru, sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 26. júlí 2021, kæra eigendur, Glæsibæ 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. ágúst 2021.

Málavextir: Hinn 5. nóvember 2019 tók gildi nýtt hverfisskipulag í Reykjavík fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda féllu eldri deiliskipulags­áætlanir á svæðinu niður við gildistökuna. Byggingarfulltrúi samþykkti hinn 8. júní 2021 um­sókn eigenda Fagrabæjar 13 um leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu á austurgafli hússins sem fyrir er á lóðinni. Áður en til samþykktar byggingaráforma kom leitaði byggingar­fulltrúi umsagnar skipulagsfulltrúa sem gerði ekki skipulagslegar athugasemdir við erindið og taldi það samræmast gildandi hverfisskipulagi. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var síðan gefið út hinn 2. júlí 2021.

­Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun og því beri að fella hana úr gildi. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, viðbyggingin sé fyrir utan byggingarreit, samþykktar teikningar fylgi ekki leiðbeiningum hverfisskipulags Reykjavíkur og enn fremur séu þær rangar. Samkvæmt mælingum kærenda sé viðbyggingin um 2 m frá lóðamörkum og þakskyggni muni koma til með að standa 1,36 m frá lóðamörkunum. Samkvæmt 5. tl. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé ekki heimilt að setja upp stakstæða skúra nær lóðamörkum en 3 m nema að fengnu samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar­ og gildi hið sama um hvers kyns viðbyggingar. Ljóst sé að hin kærða ákvörðun sé byggð á misvísandi og/eða röngum upplýsingum og fari í bága við ákvæði byggingar­reglugerðar þar sem byggingin standi of nærri lóðarmörkum Glæsibæjar 14 án samþykkis kærenda. Þegar af þeirri ástæðu beri að felli hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er ekki gerð athugasemd við máls­ástæður kærenda að öðru leyti en því að heimiluð viðbygging sé 2,5 m frá lóðamörkum, en ekki 2 m, líkt og kærendur haldi fram. Afstöðumynd hafi sýnt viðbygginguna 3 m frá lóða­mörkum og því hafi skipulagsfulltrúi ekki gert athugasemdir við byggingarleyfisumsóknina. Samkvæmt eldri gildandi teikningu að Fagrabæ 13 sé bílskúr málsettur 2,5 m frá lóðamörkum, sem sé villa, og viðbyggingin „því teiknuð í sömu línu og bílskúrinn“. Þó beri á það að líta að fjarlægð viðbyggingarinnar að húsi kærenda sé 17,17 m og ekki verði séð að núverandi staðsetning hennar hafi áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem búast hefði mátt við væri hún staðsett 50 cm fjær lóðamörkum. Eigi það frávik því ekki að leiða til ógildingar byggingar­leyfisins.

 Athugasemdir leyfishafa: Eigendur Fagrabæjar 13 vísa til þess að þau muni verða fyrir fjárhagslegu tjóni verði farið að kröfum kærenda og að munur á upphaflegum áætlunum og raun­verulegri framkvæmd teljist það lítill að hann eigi ekki að hafa áhrif á áframhaldandi framkvæmdir og frágang umþrættrar viðbyggingar. Kærendur hafi hvorki sýnt fram á að aukið skuggavarp muni hljótast af viðbyggingunni né fært fyrir því rök að slíkt skuggavarp hafi áhrif á athafnasvæði lóðar þeirra. Viðbyggingin sé vestan við hús kærenda, hafi því ekki áhrif á sólríkasta útisvæðið og skuggavarp verði ekki mikið meira en af núverandi girðingu á milli lóðanna, sem byggð hafi verið af núverandi eigendum lóðanna árið 2020. Mælingar á lóðinni vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar frá 27. júlí 2021 hafi byggst á upplýsingum frá land­upplýsingum Reykjavíkurborgar, LUKR. Þá eigi ákvæði 5. tl. g-liðar gr. 2.3.5 í byggingar­reglugerð ekki við þar sem ekki sé um að ræða framkvæmd sem undanþegin sé byggingar­leyfi. Þvert á móti sé hún háð umfjöllun og yfirferð byggingarfulltrúa á teikningum og öðrum gögnum sem kunni að skipta máli við leyfisveitinguna.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 að samþykkja umsókn eigenda Fagrabæjar 13 um leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu á austurgafl hússinns á lóðinni, en baklóð nefndrar lóðar og lóðar kærenda eiga sameiginleg lóða­mörk.

Hverfisskipulag fyrir Árbæ tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 5. nóvember 2019. Samkvæmt skilmálum þess er svæðinu skipt upp í skilmálaeiningar. Lóðin Fagribær 13 er innan skilmálaeiningar 7.2.3, Bæjarhverfi, en þar er eingöngu íbúðarbyggð. Kemur og fram að á meðal helstu áherslna innan einingarinnar sé að stækka byggingarreiti á lóðum og gefa viðbótarbyggingarheimildir fyrir viðbyggingum. Ónýttar byggingarheimildir sem fram komi í þeim deiliskipulagsáætlunum sem falli úr gildi með gildistöku hverfis­skipulagsins haldi sér í skipulagsskilmálum hverfisskipulagsins. Allar byggingar á lóð skuli vera innan byggingarreita og er gert ráð fyrir tvenns konar byggingarreitum. Annars vegar takmörkuðum byggingarreitum, en allar lóðir í skilmálaeiningunni sem hér um ræðir eru með slíkan byggingarreit, og hins vegar aðalbyggingarreitum. Um takmarkaða byggingarreiti er m.a. nánar tilgreint að þeir séu rúmir og að ekki sé gert ráð fyrir því að þeir séu fullnýttir heldur sýni þeir mögulegt svæði fyrir minni viðbyggingar og stakstæðar byggingar. Af skipulagsuppdrætti hverfisskipulagsins má ráða að byggingarreitur umræddrar lóðar sé í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum gagnvart lóð kærenda og að bílskúrinn nái að hluta út fyrir þann reit.

Misræmis gætir í aðaluppdráttum heimilaðrar viðbyggingar sem samþykktir voru 8. júní 2021.­ Á aðaluppdrætti með afstöðumynd, sem hefur að geyma byggingarlýsingu, er byggingar­reitur lóðarinnar sýndur 3 m frá mörkum lóðar kærenda og viðbyggingin að einhverju leyti fyrir utan byggingarreitinn, en bílskúr sá sem fyrir er á lóðinni sýndur innan byggingarreitsins. Á aðaluppdrætti sem sýnir grunnmynd og snið, og samþykktur var sama dag með áritun byggingarfulltrúa, er byggingarreiturinn hins vegar sýndur 2,5 m frá greindum lóðamörkum og viðbyggingin ásamt bílskúr þeim sem fyrir er á lóðinni sýnd á mörkum byggingarreitsins. Af framansögðu er ljóst að með hinni kærðu ákvörðun hefur verið samþykkt að veita eigendum Fagrabæjar 13 leyfi fyrir viðbyggingu í allt að 2,5 m fjarlægð frá mörkum lóðar kærenda.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykki byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Var hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi hverfisskipulag, svo sem áskilið er í fyrrgreindum ákvæðum mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13.

104/2021 Suðurgata

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 104/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 9. júní 2021 um að aðhafast ekki í máli kæranda vegna kjallaraíbúðar á Suðurgötu 13.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Suðurgötu 13, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 9. júní 2021 að aðhafast ekki frekar í máli hennar vegna íbúðar í kjallara hússins að Suðurgötu 13. Er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að taka út íbúðina og senda beiðni um breytingu á skráningu eignarinnar til Þjóðskrár. Einnig gerð krafa um að eigendum íbúðarinnar verði gert að fjarlægja vegg sem settur var upp til þess að tengja saman rými í kjallara hússins. Að lokum er farið fram á að eigendum íbúðarinnar verði gert að fjarlægja geymslu sem sett var upp í þurrkherbergi sameignar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. ágúst 2021.

Málavextir: Í kjallara hússins að Suðurgötu 13 er íbúð sem ekki er að finna í upprunalegum teikningum hússins, en var síðar skráður sem íbúð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Hluti sameignar allra íbúa hússins liggur í gegnum íbúðina. Fyrir liggur eignaskiptayfirlýsing, sem þinglýst var 1981, þar sem fjallað er um íbúð í kjallara hússins og henni lýst nánar. Byggingarleyfi fyrir breyttri notkun kjallarans mun ekki hafa verið gefið út.

Kærandi hefur átt í samskiptum við borgaryfirvöld vegna íbúðarinnar allt frá hausti 2019. Var kæranda tilkynnt með tölvupósti 27. maí 2020 að eigendum íbúðarinnar hafi verið sent bréf vegna málsins og veittur frestur til að gefa skýringar vegna hennar. Á næstu mánuðum hafði kærandi margsinnis samband við borgaryfirvöld og bárust honum nokkrar tilkynningar á þeim tíma um að eigendum íbúðarinnar hefði verið veittur frekari frestur til að þess að sækja um byggingarleyfi. Kæranda var tilkynnt 6. október 2020 að eigendum íbúðarinnar hefði verið sent bréf og þeim gefið færi á að sækja um byggingarleyfi. Ef umsókn bærist ekki innan tilskilins frests myndi embættið taka ákvörðun um hvort beita ætti þvingunarúrræðum. Samskipti kæranda og borgaryfirvalda héldu áfram með svipuðu sniði uns  kæranda var tilkynnt 25. mars 2021 að hönnuður eigenda íbúðarinnar hafi verið í viðræðum við arkitekta embættisins varðandi umsókn um byggingarleyfi og beðið væri eftir gögnum frá þeim. Þá var kæranda tilkynnt 30. maí s.á. að þrátt fyrir ítrekanir og ítrekaða veitta fresti hefði enn engin umsókn um byggingarleyfi borist embættinu frá eigendum íbúðarinnar. Fundað yrði með lögfræðingi og kærandi látinn vita í kjölfarið um næstu skref.

Hinn 9. júní 2021 barst kæranda tölvupóstur frá embætti byggingarfulltrúa. Fram kom að sökum þess að um ágreining milli eigenda um notkun sameiginlega rýma í húsinu væri að ræða myndi embætti byggingarfulltrúa ekki aðhafast frekar í málinu, og var athygli kæranda vakin á úrræðum sem íbúar fjöleignarhúsa hafa skv. III kafla fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Er þetta hin kærða ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ekki sé eingöngu um að ræða ágreining milli eigenda um notkun sameiginlegra rýma í húsinu að Suðurgötu 13, heldur snúist málið að mestu leyti um ólögmæta íbúð í kjallara hússins sem hafi ekki tilskilin leyfi. Ákvörðun embættisins um að vísa málinu frá á þeim grundvelli að um slíkan ágreining væri að ræða eigi ekki við rök að styðjast.

Að mati kæranda uppfylli kjallaraíbúðin ekki skilyrði gr. 6.7.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar sé kveðið á um að íbúð skuli hafa að lágmarki eitt íbúðarherergi sem er a.m.k. 18 m2 að stærð, eldhús og baðherbergi. Þar segi einnig að slík rými innan íbúðar skuli tengd innbyrðis og ekki skuli þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Ekki liggi fyrir hvort umrædd íbúð uppfylli skilyrði varðandi öryggi og brunavarnir, enda hafi hún aldrei verið tekin út af byggingarfulltrúa. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna. Þá sé það hlutverk byggingarfulltrúa að annast eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Samkvæmt nefndri 1. mgr. 9. gr. sé óheimilt að breyta notkun, útliti eða formi mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa.

Vísað sé til ákvæða laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Bendi skráning íbúðarinnar til þess að hún hafi verið skráð sem slík af vangá hjá Fasteignamati Ríkisins sem hafi engar forsendur haft eða leyfi til þess að samþykkja íbúðir án þess að þær hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa, sbr. 4. mgr. 17. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Það sé hlutverk byggingarfulltrúa að senda beiðni um breytingu á skráningu fasteigna til Þjóðskrár og því ætti erindi kæranda vissulega heima þar. Mjög brýnt sé fyrir alla eigendur hússins að eignin sé tekin út af byggingarfulltrúa svo unnt sé að breyta skráningu íbúðarinnar og gera nýja eignaskiptayfirlýsingu þar sem núverandi eignaskiptayfirlýsing sé röng og byggi ekki á réttum útreikningum og hlutfallstölum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að málið sé enn til skoðunar hjá skilmálaeftirliti Reykjavíkurborgar. Erindið, sem sent var kæranda 9. júní 2021, hafi varðað ágreining milli eigenda um notkun sameiginlegra rýma í húsinu. Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaatriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé ekki að leggja fyrir byggingarfulltrúa athafnir, heldur úrskurða um lögmæti ákvarðana embættisins.

Til vara gera borgaryfirvöld kröfu um að ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki verði staðfest. Samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi og falli léttur veggur innanhúss undir þá undanþágu.

Borgaryfirvöld bendi á að embætti byggingarfulltrúa hafi ekki aðkomu að ágreiningi eigenda um eignarhald eða eignaskipti. Embætti byggingarfulltrúa skorti heimild til að aðhafast varðandi ágreining um notkun þurrkherbergis sameignar í fjöleignarhúsi. Slíkt sé alfarið á forræði húsfélagsins sem gæti nýtt sér úrræði 55. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Athugasemdir íbúðareiganda: Eigandi kjallaraíbúðarinnar bendir á að hann hafi ekki farið í neinar framkvæmdir á íbúðinni frá því hún hafi verið keypt. Þá hafi fyrri eigandi ekki farið í stórar framkvæmdir á íbúðinni fyrir utan almennt viðhald á baðherbergi og innréttingum. Hvorki veggur né geymsla hafi verið sett upp eins og kærandi héldi fram. Lítil geymsla sem fylgi íbúðinni sé þar sem aðrar geymslur íbúa væru.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar fyrri málsrök sín og gerir jafnframt athugasemd við það sem fram kemur í greinargerð Reykjavíkurborgar um að málið sé enn til skoðunar hjá embættinu. Átti kærandi sig ekki á því hvort máli hans sé lokið eða ekki. Kærandi bendi á að Reykjavíkurborg hafi ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sé kveðið á um í 2. mgr. að stjórnvaldi beri að framsenda erindi á réttan stað berist erindi sem ekki sem snerti starfssvið þess. Kærandi haldi því ekki fram að núverandi eigandi hafi ráðist í umræddar breytingar, en ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum breytingum á sínum tíma og séu þær því ólögmætar. Upprunalegar teikningar geri ekki ráð fyrir umræddum vegg og auka geymslu í þurrkherbergi sameignar og því hafi þær breytingar vissulega farið fram seinna.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndinni heimild til þess að leggja tilteknar athafnir fyrir byggingaryfirvöld og borgara. Verður því ekki tekin afstaða til krafna kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að taka út kjallaraíbúðina og senda beiðni um breytingu á skráningu eignarinnar til Þjóðskrár og að eigendum íbúðarinnar verði gert að fjarlægja vegg  og geymslu sem sett hafi verið upp í sameign.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hefur kærandi verið í samskiptum við borgaryfirvöld frá því um haustið 2019 vegna íbúðar í kjallara hússins að Suðurgötu 13. Hin kærða ákvörðun um að aðhafast ekki frekar í máli kæranda laut að ágreiningi eigenda hússins um notkun rýma í sameign. Ákvörðunin tók hins vegar ekki til þess hluta málsins sem snýr að byggingaleyfi vegna breyttrar notkunar kjallarans og mögulegri beitingu þvingunarúrræða vegna þess. Sá þáttur málsins er að sögn borgaryfirvalda enn í vinnslu og styðja gögn málsins það. Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Um tvö ár eru liðin frá því að kærandi leitaði til borgaryfirvalda vegna kjallaraíbúðar í húsinu á Suðurgötu 13 og um 11 mánuðir frá því að honum var tilkynnt að eigendum íbúðarinnar hefði verið sent bréf og þeim gefið færi á að sækja um byggingarleyfi, ella mætti búast við að embætti byggingarfulltrúa myndi taka ákvörðun um hvort beita ætti þvingunarúrræðum. Er því ljóst að afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð á langinn. Með hliðsjón af því að málið hefur nú verið afgreitt að hluta og þeim upplýsingum borgaryfirvalda að meðferð þess standi enn yfir þykir þó ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið að svo stöddu. Enda hefur málið að þessu leyti ekki verið til lykta leitt í skilningi 2. mgr. 26. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að þegar niðurstaða byggingarfulltrúa liggur fyrir um hvort þvingunarúrræðum verði beitt er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, auk þess sem unnt að kæra frekari drátt á meðferð málsins til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

52 og 87/2021 Bergstaðastræti

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur­.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húss að Bergstaða­stræti 2 í veitingastað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra 10 íbúar að Skólavörðustíg 5, Skólavörðustíg 3A og Laugavegi 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun Bergstaðastrætis 2 í veitingastað. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem barst úrskurðarnefndinni 16. s.m., kærir Hótel Óðinsvé hf. einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 87/2021, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. og 25. júní 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. janúar 2020 var samþykkt umsókn um leyfi til að opna veitingastað í flokki II, tegund f, fyrir allt að 55 gesti og tvo starfsmenn, lækka kjallaragólf um 50 cm og setja stiga upp á 2. hæð við norðurgafl hússins að Bergstaðastræti 2.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áform um breytta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 hafi ekki verið kynnt nágrönnum og að kærendum hafi ekki verið kunnugt um málið fyrr en 21. mars 2021. Þá hafi einn kærenda fengið fregnir af málinu og samdægurs sent fyrirspurn til byggingar­fulltrúans í Reykjavík, en engin svör hefðu borist þegar kæra til úrskurðar­nefndarinnar hafi verið lögð fram. Kærendur byggja á því að í fyrirhugaðri krá muni verða spiluð tónlist fram á nætur auk þess sem drykkjuhljóð muni berast frá gestum. Afar stutt sé að svefnherbergis­gluggum í næstu íbúðum við Bergstaðastræti 2 og gerð hússins sé þess eðlis að ekki verði unnt að tryggja næturró íbúa í nærliggjandi húsum. Uppdrættir þeir sem samþykktir hafi verið 7. janúar 2020 sýni ekki nauðsynlegar hljóðvistarlegar breytingar. Reynsla kærenda af rekstri krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3 sé sú að hávaði sé mikill og að gestir hafi gengið örna sinna hvar sem er, m.a. í bakgörðum húsanna í kring. Einn kærenda bendir á að hann leigi út fjórar íbúðir á efri hæðum Bergstaðastrætis 4, sem sé við hlið Bergstaðastrætis 2, og að staðsetning kráarinnar/ölstofunnar að Bergstaðastræti 2 sé beint fyrir neðan svefnherbergi íbúðanna í húsi nr. 4. Hafi nú þegar ítrekað orðið að endurgreiða leigu af þessum sökum og hafi leiguhúsnæðið fengið slæmar umsagnir á netinu vegna reksturs krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3. Jarðhæð og kjallari Bergstaðastrætis 4 sé leigt út til verslunarreksturs og hafi starfsemin þar orðið fyrir ónæði vegna næturgesta Bergstaðastrætis 3. Svar frá lögfræðingi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, þar sem fram komi að leyfið sem um ræði falli undir flokk II, sem sé umfangslítill áfengisveitingastaður og ekki til þess fallinn að valda ónæði í nágrenninu, sé ekki í samræmi við raunverulega upplifun nágranna Bergstaðastrætis 2 af slíkum rekstri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt 7. janúar 2020 en kæran ekki lögð fram fyrr en 15. apríl 2021. Verði ekki fallist á kröfu um frávísun telja borgaryfirvöld að hafna eigi kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að deiliskipulag reitsins heimili þá starfsemi sem kæran lúti að og að starfsemin samræmis einnig aðalskipulagi. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi verið í sam­ræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga. Bergstaðastræti 2 sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og á svæðinu sé lögð sérstök áhersla á smávöruverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Í gildi sé deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3, Laugavegs- og Skólavörðustígsreits, sem tók gildi 10. desember 2002 ásamt síðari breytingum. Bergstaðastræti sé enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 og sé svæðið eitt af mörgum svæðum innan miðborgarinnar sem lúti starfsemiskvótum. Á skilgreindu götusvæði nr. 22 skuli hámarkshlutfall starfsemi, að smásöluverslun undan­skilinni, vera 50%. Við breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2 verði hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% og því innan heimilaðra marka eftir breytinguna. Í ljósi þess að heimiluð starfsemi samrýmist gildandi aðal- og deiliskipulagi hafi ekki verið þörf á grenndarkynningu.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri úrskurðarnefndinni að vísa kærunni frá. Leyfishafi telur að ástæða kærunnar sé sú að kærendur séu mótfallnir opnun veitingastaðar að Bergstaðastræti 2 og að þeir hafi fyrir fram gefnar væntingar til þess að veitingastaðurinn muni valda íbúum ónæði. Veitingastaðurinn falli undir skilgreiningu í flokki II sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Fyrirhugaðar framkvæmdir og opnun veitingastaðar í flokki II séu í fullu samræmi við deili­skipulag svæðisins, sem og aðalskipulag Reykjavíkur, og því hafi ekki verið þörf á grenndar­kynningu. Svæðið sem húsið að Bergstaðastræti 2 standi á sé skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni, þar sem lögð sé áhersla á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Bergstaðastræti 2 standi enn fremur á svæði sem teljist hafa rýmri veitinga­heimildir en almennt gildi á svæðinu samkvæmt korti sem flokki svæði í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar. Bergstaðastræti sé á kortinu á rauðu svæði.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi byggir á að byggingarleyfishafi haldi því ranglega fram að Bergstaða­stræti 2 sé á svæði með rýmri heimildir til vínveitinga en almennt gildi á svæðinu. Húsið standi þvert á móti á svæði sem teljist hafa takmarkaðar heimildir, litað með grænum lit á korti, og hvers kyns starfsemi sem valdið geti ónæði hljóti því að vera óheimil eftir kl. 23:00. Afgreiðsla byggingarfulltrúa sé samkvæmt framangreindu byggð á röngum forsendum og hana beri því að fella úr gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 7. janúar 2020 en kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni 20. apríl og 16. júní 2021, eða rúmu ári eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi lá fyrir. Kærendur bera því við að þeim hafi ekki verið kunnugt um heimilaða breytta notkun húsnæðisins að Bergstaðastræti 2 fyrr en 21. mars 2021 annars vegar og svo 15. júní s.á. hins vegar.

Samþykkt eða útgáfa byggingarleyfis sætir ekki opinberri birtingu og er að jafnaði aðeins tilkynnt umsækjanda leyfis. Leiðir af því að ekki er unnt að miða kærufrest þriðja aðila sem kann að eiga hagsmuna að gæta við dagsetningu ákvörðunar byggingarfulltrúa. Borgaryfirvöld hafa ekki sýnt fram á að kærendur hafi vitað eða mátt vita af samþykkt hins kærða byggingarleyfis fyrir þann tíma sem þeir halda fram, en rekstur samkvæmt hinni breyttu notkun var ekki hafinn þegar kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni. Verður upphaf kærufrests í máli þessu því miðað við þau tímamörk sem kærendur halda fram að þeim hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Teljast kærur í máli þessu því hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimilað var að breyta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 eru veitingastaðir í flokki II skilgreindir sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“.

Umrætt hús er innan staðgreinireits 1.171.3, Laugarvegs- og Skólavörðustígsreits. Í skilmálum deiliskipulagsins segir að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um samkvæmt aðalskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni. Um það segir svo: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Til þess að efla smásöluverslun staðbundið í miðborgarkjarnanum, stuðla að fjölbreyttri starfsemi og lifandi almenningsrýmum eru ákvæði um útlit og starfsemi við götuhliðar í miðborgarkjarna. Almennar veitingaheimildar miðsvæða gilda í miðborgarkjarna en á afmörkuðu svæði eru rýmri veitingaheimildir.“ Samkvæmt flokkun svæða í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar er Bergstaðastræti 2 í flokki „rýmri heimilda“ og er því heimilt að reka þar veitingastað í flokki III með heimilaðan opnunartíma til allt að kl. 04:30 um helgar og á frídögum. Bergstaðastræti 2 stendur enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 þar sem hlutfall annarrar starfsemi en smávöruverslunar skal vera að hámarki 50%. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% við umrædda breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2. Fellur hin breytta notkun því innan starfsemiskvóta svæðisins. Er hið kærða byggingarleyfi samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi deiliskipulag, m.a. hvað land­notkun varðar, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og var borgaryfirvöldum ekki skylt að láta fara fram grenndarkynningu áður en byggingarfulltrúi samþykkti leyfisumsóknina.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að umrætt húsnæði uppfylli kröfur reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Komi síðar í ljós að hávaði vegna notkunar húss eða starfsemi sem þar fer fram sé óásættanlegur gagnvart nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka. Umkvartanir kærenda um mögulegt ónæði og óþrif vegna reksturs umrædds veitingarstaðar lúta að eftirliti með starfseminni en varða ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar og koma þær því ekki til álita í málinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II.