Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

175/2021 Eskiás

Árið 2022, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 175/2021, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðabæjar frá 15. ágúst 2019 og 2. september 2021 um að samþykkja tillögur að breytingum á deiliskipulagi Ása – Grunda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2021, er barst nefndinni 5. s.m., kæra Lyngás 13 ehf., eigandi fasteignarinnar Lyngáss 13, og Akralind ehf., eigandi fasteignarinnar Lyngáss 15, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 2. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ása – Grunda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að hafa samráð við kærendur vegna breytingarinnar. Þá er þess krafist að sú ákvörðun bæjarstjórnar frá 15. ágúst 2019 að samþykkja breytingu á sama deiliskipulagi verði felld úr gildi og/eða tekin til endurskoðunar með vísan til framkominna athugasemda kærenda frá 21. apríl 2021. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir við Eskiás yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 17. desember 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 14. desember 2021.

Málavextir: Á lóðum kærenda, Lyngási 13 og 15, stendur atvinnuhúsnæði og eiga lóðirnar mörk að lóðunum Eskiási 6-10, sem eru enn óbyggðar. Lóðirnar Lyngás 13, Eskiás 6 og 8 eiga sameiginleg lóðamörk en Lyngás 15 á lóðarmörk að Eskiási 8 og 10. Í deili­skipulagi Ása – Grunda, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. mars 2002, var ekki gert ráð fyrir götu sunnan megin við lóðir kærenda heldur tilheyrði það svæði, þar sem nú er gatan Eskiás, lóðinni Stórási 4-6 og var sú byggð sem gert var ráð fyrir á lóðinni ekki við mörk lóða kærenda.

 Með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019 tók gildi breyting á deili­skipulagi svæðisins en í breytingunni fólst m.a. að gert var ráð fyrir nýrri götu sem myndi bera heitið Eskiás. Á fundi bæjarstjórnar 2. apríl 2020 var samþykkt að veita leyfi til fram­kvæmda fyrir gatnagerð ásamt lagningu veitumannvirkja í Eskiás. Var tiltekið að fram­kvæmdin væri í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag svæðisins og var leyfið gefið út daginn eftir. Kærendur skutu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði, upp­kveðnum 22. október 2021 í kærumáli nr. 72 og 100/2021, vísaði kærunni frá sem of seint fram kominni.

Hinn 11. febrúar 2021 samþykkti skipulagsnefnd Garðabæjar að auglýsa tillögu að breytingu deiliskipulags Ása – Grunda í samræmi við 1. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 18. febrúar 2021 var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Í fundargerð bæjarstjórnar kemur fram að breytingartillagan feli í sér að hæðum húsa við Eskiás 2, 4 og 6 verði fækkað um eina og heimilað verði að fjölga íbúðum í öðrum húsum á svæðinu sem nemi fækkun íbúða vegna færri hæða. Hámarkshæðir annarra húsa verði óbreyttar en byggingarreitum lóða nr. 8 og 10 verði breytt á þann veg að þar verði lokaðir innigarðar. Heildarfjöldi íbúða sé óbreyttur, eða 276 íbúðir. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 10. mars 2021 með fresti til athugasemda til 21. apríl s.á. og barst eitt erindi með athugasemdum frá kærendum. Á fundi skipulagsnefndar 16. júní 2021 var lögð fram tillaga að framangreindri deiliskipulags­breytingu ásamt minnisblaði deiliskipulagshöfundar með viðbrögðum við inn­sendum athuga­semdum. Var tillögunni vísað til úrvinnslu hjá tækni- og umhverfissviði. Á fundi skipulags­nefndar 26. ágúst s.á. var greinargerð með svörum Garðabæjar við innsendum athugasemdum samþykkt og bókað að farið hefði verið yfir inn­sendar athugasemdir af tækni- og umhverfis­sviði Garðabæjar og skipulagsráðgjafa. Þá kom fram að ekki væri talin ástæða til að breyta tillögunni enda hafi athugasemdirnar í flestum til­fellum ekki varðað breytingartillöguna. Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt. Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 2. september s.á. Athugasemdum kærenda var svarað með bréfi, dags. 14. september 2021, og var breytingin send Skipulagsstofnun til lögboðinnar meðferðar. Í bréfi Skipulagsstofnunar 11. október s.á. gerði stofnunin ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar en benti á að skila þyrfti inn uppfærðri greinargerð m.t.t. þeirra breytinga sem verið væri að gera og að sýna þyrfti skilmálatöflur fyrir og eftir breytingar á uppdrætti. Tillagan öðlaðist gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að lóðir þeirra heyri til deiliskipulags Ása – Grunda frá árinu 2019. Í verðlaunatillögu um skipulag svæðisins frá árinu 2016 hafi mátt finna sterka sýn á umgjörð og eiginleika skipulagsins, þróun byggðar og skipulag einstakra reita. Á grundvelli tillögunnar hafi verið unnið rammaskipulag á árinu 2017. Kynningarfundur vegna vinnu við deiliskipulag hafi verið haldinn fyrri part ársins 2019. Þar hafi áætlanir verið sýndar og áréttað að áframhaldandi vinna yrði unnin í samráði við hagsmunaaðila, sbr. ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og leiðbeiningar Skipulagsstofnunar. Meðal annars hafi verið rætt um að skilgreind þróunarsvæði L1 og L2, sem lóðir kærenda tilheyri, yrðu sameinuð að upp­fylltu því skilyrði að samið yrði við lóðareigendur lóða við Lyngás um útfærslur, m.a. á lóðamörkum. Kærendur hafi ekkert heyrt af umræddri vinnu þar til nýtt deiliskipulag hafi verið auglýst og síðan samþykkt af bæjarráði Garðabæjar 15. ágúst 2019. Málsmeðferð og andmælafrestur vegna framan­greindra deiliskipulagsáforma hafi farið fram hjá kærendum þar sem þeir hafi reiknað með að sveitarfélagið myndi hafa við þá samráð eins og lýst hafði verið yfir á fyrri stigum málsins. Þá hafi ekki verið staðið að deiliskipulaginu með lögformlega réttum hætti varðandi auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Í deiliskipulaginu halli umtalsvert á hagsmuni kærenda. Afar íþyngjandi kvaðir hafi verið settar á núverandi byggingar og byggingarreiti á lóðum þeirra, ólíkt nærliggjandi lóðum sem heyri undir sama skipulag. Ágreiningslaust sé að skipulag svæðisins hafi tekið umtalsverðum breytingum árið 2019. Í stað þess byggðamynsturs sem áður hafi verið gert ráð fyrir, þ.e. lægri byggingum við Ásabraut sem hækki með þéttingu byggðar í átt að Lyngási, sé gert ráð fyrir hærri byggingum á miðjum reitnum og mun þéttari byggð auk þess sem veittar séu heimildir fyrir umtalsvert meira byggingarmagni, sem leiði af sér mikla fjölgun íbúða á reitnum. Til að jafna út hæðarmun virðist sem skipulagið geri ráð fyrir kvöð um brekku inni á lóðum kærenda og þá séu byggingarreitir sem voru fyrir miðjum lóðunum færðir alveg út í Lyngás, að því er virðist til að gera öðrum kleift að byggja alveg út í mörk lóða kærenda. Farið hafi verið yfir málið á fundum með bæjarstjóra 24. september 2020, skipulagsstjóra 21. desember 2021 og með þeim báðum 24. mars s.á. Þá hafi kærendur hinn 10. janúar 2021 lagt fram erindi til skipulagssviðs sveitarfélagsins þar sem sjónarmiðum og mótmælum þeirra hafi verið komið á framfæri í því skyni að fá fram viðbrögð og skýringar sem nýst hefðu getað sem forsenda fyrir því að leggja inn tillögu að breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðir kærenda. Ekkert svar sem talist geti vera rökrétt afleiðing erindisins hafi borist, nú tæpu ári síðar.

Bæjaryfirvöld hafi litið á deiliskipulagsbreytinguna, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2021, sem verulega breytingu á deiliskipulagi og farið með hana sem um nýtt skipulag væri að ræða. Tekin hafi verið saman lýsing, sbr. ákvæði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga, sbr. einnig 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Að öðrum kosti hefði sveitarfélagið grenndarkynnt breytinguna, sbr. umrætt lagaákvæði, sem sé annars eðlis og sé beint að tilteknum hagsmunaaðilum. Um mjög mikilvægt atriði sé að ræða sem snúi að ríkum hagsmunum kærenda af málinu, en mikið ójafnræði sé á milli aðila. Byggt sé á því að „opnast hafi fyrir þann möguleika að koma að athugasemdum og mótmælum er varða deiliskipulagið [frá árinu 2019], en ekki einungis er snýr að deiliskipulagsbreytingunni [frá árinu 2021]. Sú nálgun á málið [fái] stoð af því hvernig [sveitarfélagið] meðhöndlar tiltekin atriði er snúa að deiliskipulagsbreytingunni, sbr. ákvæði [s]kipulagslaga nr. 123/2010.“

 Málsmeðferð Garðabæjar brjóti í bága við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi ekki svarað athugasemdum kærenda við fyrrgreinda deiliskipulagsbreytingu frá árinu 2021 með fullnægjandi hætti, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé skv. IV. kafla skipulagslaga, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna, lögð sú skylda á sveitarfélög við gerð og framkvæmd skipulagsáætlana að leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra sem hagsmuna eigi að gæta í því tilliti varðandi mörkun stefnu. Hafið sé yfir vafa að deiliskipulagsbreytingin, sem unnin hafi verið í kjölfar þess að erindi kærenda frá 10. janúar 2021 hafi borist sveitarfélaginu, hafi verið sett í auglýsingu án þess að nokkuð samráð væri haft við þá. Skipulagsbreytingunni sé ætlað að laga deiliskipulag sem auglýst hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019 að yfirstandandi óleyfisframkvæmdum fyrir ofan lóðir kærenda. Leiða megi að því líkum að sveitar­félagið hafi hvorki kynnt sér gildandi deiliskipulag nægilega vel né tiltekin efnisatriði í fyrr­greindu erindi kærenda til sveitarfélagsins og hafi málið því ekki verið nægilega upplýst þegar sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun um að auglýsa deiliskipulagsbreytinguna í mars 2021, sem samræmist ekki rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi ekki verið gætt jafn­ræðis og samræmis í lagalegu tilliti í efnislegri umfjöllun um fyrrgreint erindi kærenda, sbr. ákvæði 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga, ekki síst varðandi frágang á lóðamörkum, hæðarkótum og samtengingu húsa á lóðunum. Brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Óleyfisframkvæmd fyrir ofan lóðirnar feli óumdeilt í sér að verið sé að ganga freklega á lögvarinn rétt kærenda. Þeir hafi ítrekað óskað eftir því við bæjaryfirvöld að fá afhent gögn er varði framkvæmdina, m.a. uppdrætti og hæðarkóta á lóðamörkum, en af einhverjum ástæðum hafi ekki verið orðið við því.

Þá megi samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og fullt verð að koma fyrir. Engir almannahagsmunir séu svo ríkir að réttlæti að kærendur þurfi að sæta skerðingum og kvöðum á eignum sínum, sem birtist m.a. í samliggjandi byggingarreitum, minnkun byggingarreita og kvöð um svæði inni á lóðum þeirra. Þetta eigi sér stað án þess að nokkuð komi á móti í staðinn og sveitarfélagið hafi ekki gert tilraun til að semja um málið við kærendur. Aðrir hagsmunaaðilar á aðliggjandi og nálægum lóðum hafi ekki þurft að sæta viðlíka skerðingu og kvöðum og blasi við að sveitarfélagið sé að leggja á kærendur.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er m.a. vísað til þess að í þeirri breytingu á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 2. september 2021 hafi falist að einungis yrðu heimilaðar þrjár hæðir á lóðunum nr. 2, 4 og 6 við Eskiás í stað fjögurra áður. Gerðar hafi verið lítilsháttar breytingar á byggingarreitum lóðanna nr. 6, 7, 8 og 10 við Eskiás til að auðvelda fjölgun íbúða án þess að hækka húsin. Ytri mörkum byggingar­reita hafi ekki verið breytt en nýtingarhlutfall allra lóða við Eskiás hafi breyst og heildarfjöldi íbúða verði óbreyttur. Í kæru virðist gæta þess misskilnings að nýtt deiliskipulag fyrir svæðið hafi verið samþykkt en augljóst sé að aðeins sé um að ræða breytingu á deiliskipulaginu. Breytingin geti á engan hátt varðað hagsmuni kærenda. Aðrir þættir deiliskipulagsins byggi í grundvallaratriðum á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið haustið 2019 og sé kærufrestur hvað það varði löngu liðinn.

—–

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tveggja ákvarðana bæjarstjórnar Garðabæjar um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi Ása – Grunda.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Meira en tvö ár liðu frá upphafi kærufrests þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. ágúst 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulag Ása – Grunda þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 5. desember 2021, en nefnd skipulagsbreyting tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019. Verður þeim þætti málsins af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. Verður því einungis sú skipulagsbreyting sem samþykkt var í bæjarstjórn 2. september 2021 tekin til efnismeðferðar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórn gerð skipulagsáætlana og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðal­skipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. um þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr., en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við skipulagsgerð ber sveitarstjórnum enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, þ. á m. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c.-lið 1. mgr. ákvæðisins. Sveitarstjórn er einnig bundin af meginreglum stjórnsýsluréttarins, þ. á m. lögmætisreglunni er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitar­stjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað og heimild til að breyta deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. og 43. gr. skipulagslaga og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Í bréfi stofnunarinnar til bæjaryfirvalda kom fram að farið hefði verið yfir framlögð gögn og að ekki væru gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda, en þó var bent á að skila þyrfti inn uppfærðri greinargerð m.t.t. þeirra breytinga sem verið væri að gera og að sýna þyrfti skilmálatöflur fyrir og eftir breytingar á uppdrætti. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Var formleg málsmeðferð deiliskipulags-breytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Deiliskipulagsbreytingin sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. nóvember 2021 fól í sér að hæðum húsa við Eskiás 2, 4 og 6 var fækkað um eina og heimilað var að fjölga íbúðum í öðrum húsum á skipulagssvæðinu sem nam fækkun íbúða. Hámarkshæðir annarra húsa voru óbreyttar. Þá var byggingarreitum lóða nr. 8 og 10 við Eskiás breytt þannig að þar yrðu lokaðir innigarðar. Heildarfjöldi íbúða á skipulagssvæðinu var óbreyttur. Skilmálar gildandi deiliskipulags varðandi lóðir kærenda, þ.e. Lyngáss 13 og 15, breyttust ekki. Á skipulagsuppdrætti deiliskipulagsbreytingarinnar var sýnt með hvaða hætti lokuðum inni-görðum var komið fyrir á lóðum við Eskiás 8 og 10. Byggingar á lóðunum mynduðu innri garð sem var opinn gagnvart Eskiási. Eftir breytinguna er gert ráð fyrir að sá garður verði lokaður á allar hliðar. Farlægð frá Lyngási 13 og 15 er óbreytt. Þá var nýtingarhlutfall þeirra lóða sem liggja að lóðum kærenda sýnt og kom m.a. fram að nýtingarhlutfall Eskiáss 6 hefði áður verið 1,38 en yrði 1,06, nýtingarhlutfall Eskiáss 8 hefði áður verið 0,67 en yrði 1,06 og að nýtingar-hlutfall Eskiáss 10 hefði áður verið 0,69 en yrði 0,82. Um breytingar á fjölda íbúða í húsunum kom fram að áður hefði verið gert ráð fyrir því að í Eskiási 6 yrðu 33 íbúðir en viðmiðunarfjöldi íbúða yrði 26, í Eskiási 8 hefði áður verið gert ráð fyrir 18 íbúðum en viðmið yrði 27 íbúðir og í Eskiási 10 hefði áður verið gert ráð fyrir 12 íbúðum en miðað yrði við að þær yrðu 16.

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 er svæðið sem hér um ræðir skilgreint sem þróunar­svæði A og eru lóðir kærenda og svæði þar sem nú er gatan Eskiás á reitnum 2.07. Í greinargerð skipulagsins er vikið að svæðinu sem Lyngássvæðis og segir þar að gert sé ráð fyrir íbúðar­byggð á reit 2.07. Stefnt sé að þéttri blandaðri byggð í tengslum við miðbæ og hámarkshæð verði fjórar hæðir. Lögð sé áhersla á að þétta byggð á þróunarsvæðum A og B til að nýta land betur og tryggja betri þjónustu við íbúa. Reynt sé að draga úr neikvæðum áhrifum á landslag og ásýnd með almennum skilmálum um gæði hins byggða umhverfis og halda í byggðamynstur nærliggjandi svæða, þar sem það eigi við. Samkvæmt hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi var hæðum húsa við Eskiás 2, 4 og 6 fækkað um eina, eða úr fjórum hæðum í þrjár, og íbúðum í öðrum húsum á svæðinu, þ. á m. Eskiási 8 og 10, fjölgað. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting fari í bága við gildandi aðalskipulag.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir að benda á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar geta þeir átt rétt á bótum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ása – Grunda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 2. september 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ása – Grunda.