Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

182/2021 Svínabú að Torfum

Árið 2022, miðvikudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 182/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyja­fjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Holt ehf., eigandi Grundar I, og Ljósaborg ehf., eigandi Grundar II A, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gerðu kærendur jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 11. mars 2021 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 22. desember 2021.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 29. nóvember 2018 var samþykkt tillaga skipulagsnefndar um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir svínabú í landi Torfa. Í tillögunni fólst m.a. að byggt yrði upp svínabú fyrir 2.400 grísi (30 kg og stærri) og 400 gyltur. Afmörkuð yrði 5,45 ha lóð undir fyrirhugaðar byggingar, sem yrðu 2.600 m² eldishús, 3.100 m² gyltu- og fráfærugrísahús, 300 m² starfsmanna- og gestahús, allt að átta síló, samtals 80 m² að grunn­flatar­máli, og 1-2 haugtankar, samtals um 6.000 m³. Að loknum kynningartíma tillögunnar fjallaði skipulagsnefnd um innkomnar athugasemdir á fundi sínum 14. mars 2019 og bókaði að nefndin legði til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipu­lagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar væru í afgreiðslu nefndarinnar á tilteknum athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 28. mars 2019 var afgreiðsla skipulags­nefndar samþykkt og var deiliskipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí s.á. Samhliða meðferð deiliskipulagsins var framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem framkvæmd í flokki B samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 12. mars 2019 þar sem stofnunin komst að þeirri niður­stöðu að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærendur kærðu framangreindar ákvarðanir, þ.e.a.s. ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabús að Torfum skyldu ekki háðar mati á umhverfis-áhrifum og afgreiðslu sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. s.m. á deiliskipulagstillögu vegna svína­búsins, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2019 í máli nr. 49/2019 var þeim hluta kærunnar sem varðaði mats­skylduákvörðunina vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn. Þá vísaði nefndin einnig þeim hluta kærunnar frá sem laut að deiliskipulaginu á þeim grundvelli að það hefði ekki verið sam­þykkt með réttum hætti í sveitarstjórn og bæri því að vísa málinu frá, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 27. nóvember 2019 óskuðu kærendur eftir því við Skipulagsstofnun að stofnunin endurupptæki matsskylduákvörðun sína, en þeirri beiðni var hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. janúar 2020. Kærendur óskuðu eftir endurupp­töku málsins að nýju með bréfi, dags. 17. desember 2021, en þeirri beiðni var einnig hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. febrúar 2022. Þá stefndu kærendur íslenska ríkinu fyrir dóm 4. október 2020 til að fá matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar hnekkt.

Hinn 13. ágúst 2019 gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi til handa landeigenda að Torfum sem tók til vegtengingar við Eyjafjarðarbraut vestri og borunar eftir neysluvatni innan lóðar fyrirhugaðs svínabús. Kærendur kærðu greinda ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 70/2019, uppkveðnum 22. ágúst 2019, var málinu vísað frá þar sem kærendur voru ekki taldir eiga lögvarðir hagsmuni af úrlausn málsins. Var í forsendum þeirrar niðurstöðu vísað til þess að þótt framkvæmdirnar væru óum­deilanlega hluti af undirbúningi vegna svínabús væri ekki um slík tengsl framkvæmda að ræða að kærendur gætu byggt aðild sína á því.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti 25. nóvember 2019 nýtt deiliskipulag umrædds svæðis vegna títtnefnds svínabús. Kærendur kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sem hafnaði kröfum kærenda með úrskurði uppkveðnum 7. maí 2020 í máli nr. 133/2019. Hinn 19. nóvember 2021 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðarsveitar byggingarleyfis­umsókn vegna svínabús á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ógilda beri hin kærða ákvörðun þar sem enn sé beðið úrlausnar dómstóla um lögmæti ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um matsskyldu hins fyrirhugaða svínabús að Torfum samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Vísað sé til 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki þar sem segi að óheimilt sé að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirki sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Rekið sé dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið sé fram á ógildingu nefndrar ákvörðunar Skipu­lagsstofnunar, en í málinu liggi fyrir matsgerð frá 14. júní 2021 sem staðfesti að hið fyrirhugaða svínabú muni hafa meiri umhverfisáhrif en svínabú að þröskulds­viðmiðunarstærðum skv. 1. viðauka laga nr. 106/2000. Vegna stefnunnar og niðurstöðu matsgerðarinnar virðist fram­kvæmdaraðilinn hafa farið þá leið að draga úr umfangi hins fyrirhugaða svínabús. Ekki liggi fyrir hvernig þessi nýja staða muni hafa áhrif á niðurstöðu dómsmálsins.

Sú staða sé uppi að verulegur vafi sé um lögmæti matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar og hvort að sú ákvörðun geti verið grundvöllur byggingarleyfis. Hin nýja framkvæmd hafi ekki stoð í lögmætri ákvörðun Skipulagsstofnunar á þessum tímapunkti, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Horfa verði til þess að verulegar breytingar virðist hafa verið á hinni fyrirhuguðu framkvæmd sem geti haft áhrif á gildi matsskylduákvörðun stofnunarinnar. Kærendur hafi því sent erindi til Skipulagsstofnunar um að endurupptaka ákvörðunina.

Þá verði einnig að líta til þess að sumarið 2021 hafi Finnstaðaá, sem renni meðfram hinni fyrir­huguðu byggingu, flætt verulega yfir bakka sína. Flóðið hafi farið yfir nær allan byggingareit hins fyrirhugaða húss, en hefði það verið risið hefði það mögulega legið undir alvarlegum skemmdum og öll dýr drepist. Hefði flóðið komist í haugtanka hefði mögulega verið um stór­slys að ræða. Þetta séu grundvallar­forsendur sem hefðu breytt fyrri ákvörðunum Skipulags­stofnunar og valkostamati á skipulagsstigi. Hið kærða byggingaleyfi sé því grundvallað á afar veikum forsendum í umræddri ákvörðun stofnunarinnar.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu Eyjafjarðarsveitar er bent á að íbúðarhús kærenda að Grund I og Grund II A séu staðsett langt utan þeirra fjarlægðarmarka sem í gildi séu um fjar­lægð svínahúsa frá íbúðarhúsum. Þau séu í kílómetra fjarlægð frá hinu fyrirhugaða svínabúi. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína segi að svínabú með meira en 2.000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 500 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum á skipulögðum landbúnaðarsvæðum. Vegna þessarar miklu fjarlægðar eigi kærendur ekki lög­varða hagsmuni af kærumáli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 sé svæðið skipulagt sem landbúnaðarsvæði. Ljóst sé að tilkoma svínabúsins muni ekki skerða nýtingarmöguleika kærenda á jörðum sínum jafnvel þó 500 m radíus fari inn á jarðir þeirra og ekkert sem gefi til kynna að svæðið verði nýtt til annars en landbúnaðar í framtíðinni. Vegna þessa geti kærendur ekki talist eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins.

Aðeins sé verið að heimila byggingar húsa en ekki veita starfsleyfi auk þess sem búið sé að samþykkja deiliskipulag vegna spildunnar sem leyfið eigi sér stoð í. Rétt sé að geta þess að byggingarleyfið nái aðeins til húsakosts sem dugi fyrir 300-400 gyltum, u.þ.b. 2.000 smágrísum og 200 eldisgrísum. Sá fjöldi dýra sé ekki skilgreindur berum orðum á uppdráttum en með því að bera fermetrafjölda einstakra deilda í húsnæðinu saman við kröfur reglugerðar nr. 1276/2014 um velferð svína megi álykta með vissu að byggingarleyfið sé langt frá því að fullnýta heimild deiliskipulagsins. Sveitarfélagið telji ekkert athugavert við að heimilað sé að byggja aðeins hluta heimilaðs byggingarmagns nú en að síðar verði veitt leyfi sem fullnýti heimild skipu­lagsins. Ef áðurgreindur fjöldi dýra sé borinn saman við fjarlægðarmörk samkvæmt reglugerð nr. 520/2015 þá sé hann mun minni heldur en fjarlægðarmörk vegna bús með meira en 2.000 stæði fyrir eldisgrísi eða 750 stæði fyrir gyltur, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Fjarlægðarmörkin virðast vera um 300 m miðað við útgefið byggingarleyfi, sbr. viðauka við reglugerðina, þ.e. 400 stæði fyrir gyltur gefi 290 m. Bent sé á að heimild samkvæmt deiliskipulagi nái til allt að 2.400 eldisgrísa og 400 gylta.

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 70/2019 hafi kæru á ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar og borunar eftir vatni á spildunni úr Torfum undir svínabúið verið vísað frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Í því máli hafi verið um að ræða afmarkaðan hluta framkvæmdarinnar, rétt eins og hið kærða byggingar­leyfi í máli þessu. Veiting byggingarleyfis sé aðeins einn afmarkaður hluti framkvæmdarinnar en umfjöllun um framkvæmdina hafi farið fram við gerð deiliskipulagsins fyrir svínabú í landi Torfa. Kærendur hafi getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri við þá málsmeðferð. Skipu­lagið hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 21. nóvember 2019 og hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnað kröfu kærenda að fella það úr gildi, sbr. úrskurð í máli nr. 133/2019. Fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að svínabúið sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en í máli nr. 49/2019 hafi úrskurðarnefndin vísað frá kæru kærenda vegna þeirrar ákvörðunar auk þess sem Skipulagsstofnun hafi hafnað beiðni kærenda um endurupp­töku ákvörðunarinnar. Af þessu megi vera ljóst að kærendur hafi fengið tækifæri til að koma að sínum andmælum og sjónarmiðum og fengið umfjöllun um andmæli sín vegna fram­kvæmdarinnar. Í ljósi þess að byggingarleyfið eigi stoð í gildandi deiliskipulagi og mats­skylduákvörðun Skipulagsstofnunar, sem og að kærendur hafi fengið öll tækifæri til að and­mæla þessum ákvörðunum, þá verði ekki séð hvaða lögvörðu hagsmuni kærendur hafi af byggingar­leyfinu, sem aðeins sé hluti af umræddri heildarframkvæmd.

Kærendur hafi höfðað dómsmál til ógildingar fyrrnefndrar matsskylduákvörðun Skipulags­stofnunar auk þess sem þeir hafi beðið Skipulagsstofnun um að endurupptaka ákvörðunina. Í kæru þessa máls ætlist þeir til að úrskurðarnefndin hafi matsskylduákvörðun Skipulags­stofnunar að engu og að byggingarleyfið verði fellt úr gildi þar sem vafi leiki á um gildi mats­skyldu­ákvörðunarinnar. Þeir ætlist til þess að Skipulagsstofnun, úrskurðarnefndin og dómstólar fjalli um matsskylduákvörðunina á sama tíma, en samkvæmt reglunni um litis pendens áhrif megi ekki höfða fleiri en eitt mál vegna sömu kröfunnar, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómstólar teljist æðri stjórnvöldum og á meðan krafa kærenda um ógildingu á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé til meðferðar hjá dómstólum beri stjórnvöldum að vísa kröfum frá sem lúti að ógildingu ákvörðunarinnar. Felli dómstólar ákvörðunina úr gildi yrði komin upp ný staða sem skoða yrði þegar þar að kæmi, en deili­skipulag sem sé í gildi myndi eftir sem áður halda velli. Öll lögbundin skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfisins séu því til staðar.

Kærendur haldi því fram að byggingaráætlun svínabúsins hafi verið breytt og virðast telja það vera út af dómsmáli þeirra og matsgerð sem þeir hafi aflað. Eyjafjarðarsveit sé ekki kunnugt um að byggingaráformum hafi verið breytt. Leyfishafi geti byggt búið í áföngum og verði að hafa svigrúm til þess út frá sínum eigin viðskiptalegu forsendum. Órökstutt sé af hálfu kærenda hvers vegna byggingaráætlunum hafi verið breytt eða hvers vegna málshöfðun þeirra og mats­gerð ættu að hafa áhrif á uppbyggingu búsins.

Það hafi verið vitað frá upphafi að Finnastaðaá eigi það til að flæða yfir bakka sína í miklum leysingum. Hluti af framkvæmdum vegna svínabúsins feli í sér gerð varnargarða til að varna flóðum, lítilsháttar færslu árfarvegar og dýpkun hans. Bakkavarnir við Finnastaðaá séu ekki óyfirstíganlegar fremur en við önnur smærri, sambærileg eða stærri vatnsföll hér á landi.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er farið fram á frávísun málsins með sambæri­legum rökum og gert var af hálfu Eyjafjarðarsveitar. Leyfishafi bendir jafnframt á að mats­skylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé í fullu gildi og hafi hvorki verið hnekkt af æðra stjórn­valdi né dómstólum. Skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki um að fyrir liggi ákvörðun um að ekki sé þörf á mati á umhverfisáhrifum sé því uppfyllt.

Engin breyting hafi verið gerð á framkvæmdinni líkt og kærendur haldi fram. Til standi að reisa byggingar um 3.000 m2 að stærð í þessum áfanga en aðrir áfangar verði framkvæmdir síðar. Deiliskipulagið heimili 5.700 m2 byggingarmagn. Heimilt sé að hafa allt að 2.400 alisvín og allt að 400 gyltur. Leyfishafa sé ekki skylt að nýta allt byggingarmagnið í einu. Viðskiptalegar forsendur ráði byggingarhraða og uppbyggingu en framkvæmdin fari fram í samræmi við gildandi deiliskipulag og leyfi yfirvalda. Upphaflega hafi svínabúið átt að vera um 8.500 m2 að stærð. Forsvarsmaður kærenda hafi boðist til að hanna búið í þeirri stærð og hafi gert forsvars­manni leyfishafa tilboð í verkið og tekið fram að ekki væri þörf á mati á umhverfisáhrifum. Það hafi því komið á óvart þegar kærendur hafi síðar sett sig upp á móti því að búið yrði reist, þó það væri aðeins tæplega 5.700 m2, og að ofuráherslu hafi verið lögð á að búið skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Það skipti greinilega engu máli hver stærð búsins komi til með að verða, kærendur muni alltaf setja sig upp á móti því sem gert verði.

Algjörlega órökstutt sé hvers vegna stórslys geti orðið þegar Finnastaðaá flæði yfir bakka sína. Það sé vel þekkt staðreynd að áin geti flætt yfir bakka sína í miklum leysingum en það gerist þó ekki nema með nokkurra áratuga millibili. Leyfishafi sé meðvitaður um að það geti gerst oftar og því sé fyrirhugað að gera varnargarða fyrir byggingarnar. Einnig sé fyrirhugað að færa farveg árinnar lítilsháttar og gera hana aðgengilega svo unnt sé að grafa reglulega upp úr farvegi hennar, dýpka hann og hreinsa framburð. Þetta hafi verið hluti af framkvæmdaáætlun svína­búsins frá upphafi. Ef byggingar hefðu verið reistar og svínabúið væri komið í fullan rekstur hefðu varnargarðar varið byggingarnar fyrir flóði og þær ekki orðið fyrir skemmdum. Einnig hefðu þeir varið haugtanka, sem auk þess verði vel varðir og muni halda vatni og vindum. Þó svo að flóðið hefði lent á byggingum hefðu dýr ekki drepist enda gólf það hátt að vatn hefði ekki komist að þeim. Haugtankar hefðu líklega ekki orðið fyrir skemmdum þó vatn hefði komist að þeim og varnargarðar ekki haldið. Þá sé bent á að svínabúið sé háð starfsleyfi og verði undir eftirliti þess til bærra aðila, t.a.m. Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits og Matvæla­stofnunar. Öryggi muni verða að fullu tryggt í rekstri búsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingar­fulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa.

Eyjafjarðarsveit hefur gert kröfu um frávísun málsins vegna svokallaðra litis pendens áhrifa, þ.e. að aðeins megi höfða eitt mál vegna sömu kröfunnar, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kærendur í máli þessu reka nú mál fyrir dómstólum vegna mats­skylduákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að fyrirhuguð framkvæmd svína­bús að Torfum í Eyjafjarðarsveit sé ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þetta ljóslega ekki sama krafa og höfð er uppi í máli þessu, þar sem krafist er ógildingar á byggingarleyfi, auk þess sem 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 á við um rekstur tveggja dómsmála en ekki dómsmáls og stjórn­sýslukæru. Verður því kærumáli þessu því ekki vísað frá á þeim grundvelli. Þá er haldlaus sú málsástæða sveitarfélagsins að vísa beri málinu frá þar sem kærendur hafi áður komið að sínum sjónarmiðum vegna deiliskipulags svæðisins og matsskylduákvörðunar Skipulags­stofnunar, enda fá þær staðreyndir engu breytt um þá kæruheimild sem er til staðar vegna samþykkis byggingaráforma í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Bæði Eyjafjarðarsveit og leyfishafi telja að vísa beri kærumáli þessu frá þar sem kærendur uppfylli ekki greint skilyrði um lögvarða hagsmuni með hliðsjón af fjarlægð íbúðarhúsa þeirra frá hinu fyrirhugaða svínabúi. Byggingarleyfið heimili aðeins byggingu húsa fyrir svínabú en veiti ekki starfsleyfi vegna starfsemi fyrirhugaðs svínabús.

Af ákvæðum laga nr. 160/2010 leiðir að byggingarleyfi felur ekki einvörðungu í sér heimild til að reisa mannvirki heldur kveður það líka á um notkun þess, sbr. m.a. 6. tl. 3. gr., 1. mgr. 9. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Við mat á lögvörðum hagsmunum vegna veitingu byggingarleyfis ber því einnig að líta til þeirrar notkunar sem leyfið heimilar þrátt fyrir að önnur leyfi séu tilskilin svo að fyrirhuguð starfsemi geti hafist. Á samþykktum aðalupp­dráttum hins kærða byggingarleyfis kemur fram að hin umdeilda bygging sé ætluð til reksturs svínabús. Ekki er útilokað að sú starfsemi geti haft áhrif á hagsmuni kærenda umfram aðra, s.s. vegna lyktarmengunar, og með hliðsjón af því teljast kærendur uppfylla skilyrði kæruaðildar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hins kærða byggingarleyfis fyrst og fremst á því að vafi sé uppi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 að fyrirhugað svínabú að Torfum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Vísa þeir til þess að mál sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið sé fram á ógildingu matsskylduákvörðunarinnar. Svo sem rakið er í málavöxtum komu kærendur að kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna umþrættrar matsskylduákvörðunar, en með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 49/2019, upp-kveðnum 14. nóvember 2019, var þeim hluta kærunnar sem varðaði þá ákvörðun vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn. Þá liggur fyrir að Skipulagsstofnun hefur í tvígang synjað beiðni kærenda um endurupptöku ákvörðunarinnar. Er því ljóst að sú ákvörðun hefur gildi að lögum, enda hefur henni hvorki verið hnekkt né hún endurupptekin eða afturkölluð af hálfu Skipulags­stofnunar. Þá verður ekki talið að tilvist áðurnefnds dómsmáls geti ein og sér leitt til ógildingar hins kærða byggingarleyfis. Skal á það bent að ef fallist verður á dómkröfur kærenda þá standa þeim til boða önnur réttarúrræði til að verja hagsmuni sína, s.s. með því að hlutast til um að byggingarfulltrúi beiti þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010.

Á samþykktum aðaluppdrætti má sjá að gert er ráð fyrir malarplani allt í kringum svínabúið sem og malarveg frá planinu að Finnastaðaá þar sem koma á fyrir brunahana auk þess sem vísað er til þess að brunavarnir verði samkvæmt brunahönnunarskýrslu frá 20. október 2021. Í kafla 7.4 þeirrar skýrslu kemur fram að tryggja skuli slökkviliði aðkomu að Finnastaðaá til öflunar á slökkvivatni með akfærri leið niður að á og athafnasvæði við ánna með grófjöfnuðu malarplani. Hinn fyrirhugaði malarvegur, hluti malarplans og brunahani eru utan skipulags­svæðis deiliskipulags Torfa, svínabú, og felur því byggingarleyfið í sér framkvæmdir á ódeili­skipulögðu svæði að hluta. Í ljósi þess að þær framkvæmdir verða á lóð leyfishafa og einungis lítillega utan deiliskipulagssvæðisins, sem og að virtum þeim hagsmunum sem framkvæmdum er ætlað að verja með því að tryggja aðkomu slökkviliðs, verður sá annmarki þó ekki talinn slíkur að varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verður heldur ekki séð að það eigi að leiða til ógildingar byggingarleyfisins þó að Finnastaðaá geti flætt yfir bakka sína, en fram hefur komið af hálfu Eyjafjarðarsveitar og leyfishafa að sú staðreynd sé vel þekkt og til standi að gera varnargarða vegna þess.

Að framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum form- eða efnisannmörkum að varði ógildingu þess verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.