Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

182/2021 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 182/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar­sveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur tveggja jarða sem liggja að jörðinni Torfum í Eyjafjarðarsveit þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 22. desember 2021.

Málavextir: Hinn 28. mars 2019 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí s.á. Tiltekið er í auglýsingunni að skipulagssvæðið sé 15 ha spilda sunnan Finnastaðaár sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagið taki til byggingar tveggja gripahúsa, samtals u.þ.b. 5.700 m2 að flatarmáli, auk tilheyrandi fóðursílóa, haug­geymslu og starfsmannahúss. Kærendur kærðu ákvörðun Eyjafjarðarsveitar um að samþykkja deiliskipulag fyrir svæðið og með úrskurði, uppkveðnum 14. nóvember 2019 í máli nr. 49/2019, komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu að deiliskipulagið hefði ekki verið samþykkt með réttum hætti í sveitarstjórn og væri því ekki í gildi. Var kröfu um ógildingu skipulagsins því vísað frá þar sem ekki var til staðar gilt deiliskipulag til að kæra. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti hinn 25. nóvember 2019 nýtt deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa. Kærendur kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsins með úrskurði uppkveðnum 7. maí 2020 í máli nr. 133/2019. Hinn 19. nóvember 2021 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðarsveitar byggingarleyfisumsókn vegna svínabús á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hið umdeilda byggingarleyfi sé byggt á veikum for­sendum í eldri matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Sé því farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til dómsúrlausn liggi fyrir hjá héraðsdómi eða þar til Skipulagsstofnun hafi tekið afstöðu til endurupptökubeiðni kærenda.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu Eyjafjarðarsveitar er bent á að engin rök séu til að stöðva framkvæmdir auk þess sem krafa kærenda sé vanreifuð. Hvorki sé vísað til lagaheimildar né séu rök færð fyrir því hvers vegna hagsmunir þeirra krefjist þess að framkvæmdir verði stöðvaðar. Rétt sé að hafa í huga að stöðvun framkvæmda valdi leyfishafa miklu tjóni og erfiðleikum við fram­kvæmdina. Ákvörðun um stöðvun framkvæmda yrði í hróplegu ósamræmi við hagsmuni aðila máls af framvindu þess. Sú ákvörðun yrði verulega íþyngjandi fyrir leyfishafa en að sama skapi hafi kærendur aðeins haft uppi almennar yfirlýsingar um ætlaða réttindaskerðingu sína af því að reist verði svínabú og að áhrif þess nái u.þ.b. 500 m inn á jarðir þeirra, sem þó séu skipulagðar sem landbúnaðarsvæði. Engin tilraun sé gerð til að afmarka hvenær hið ætlaða tjón kærenda geti orðið. Mögulegt tjón kærenda verði ekki ljóst fyrr en svínabúið hefji rekstur en fyrst þurfi viðeigandi ­leyfi frá þar til bærum yfirvöldum, þ.e. heilbrigðiseftirliti, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. Byggingarnar einar og sér ættu ekki að trufla kærendur og hafi þeir ekki sýnt fram á tjón eða umfang neikvæðra áhrifa. Matsgerð sem unnin hafi verið að beiðni kærenda sé til að mynda ekki sönnunargagn um tjón þeirra. Að því sögðu blasi við að kærendur hafi enga hagsmuni af því að stöðva fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir og beri því að hafna kröfu um stöðvun framkvæmda.

Með sömu rökum sé á því byggt að það hafi engan hagnýtan tilgang að stöðva framkvæmdirnar. Hefjist framkvæmdir áður en málið sé til lykta leitt hjá úrskurðarnefndinni þá færu þær fram­kvæmdir fram á ábyrgð og áhættu leyfishafa. Verði að ætla honum þá skynsemi að leggja sjálfur mat á það hvort hagsmunum hans sé betur borgið með því að hefja byggingarframkvæmdir eða fresta þeim. Stöðvun framkvæmda sé mjög mikilsverð og íþyngjandi ákvörðun. Þar sem kæran snúi í raun að því hvort gefið verði út starfsleyfi fyrir svínabú að Torfum, en ekki hvort byggingar rísi, sé ótækt að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda við byggingu mannvirkja á skipulags­reitnum.

Meðalhófsregla stjórnsýsluréttar, um að ekki skuli taka meira íþyngjandi ákvarðanir en nauðsynlegt sé til að ná fram lögmætu markmiði, leiði til þeirrar niðurstöðu að ekki skuli stöðva byggingaráform. Í besta falli verði réttaráhrifum ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis frestað, en ekki hafi verið sótt um slíkt leyfi og því síður komið að því að gefa það út. Leyfishafi hafi áform um að reisa tvö hús samkvæmt deiliskipulaginu, en nú standi til að reisa aðeins annað þeirra. Að fenginni þeirri niðurstöðu að starfsemi sé ekki meiri að umfangi en svo að hún ekki skuli háð mati á umhverfisáhrifum, þá liggi fyrir að nægjanlegt myndi reynast að stöðva framkvæmdir að hluta þar sem einfalt sé að áfangaskipta framkvæmdinni. Það yrði þá á valdi umsækjanda sjálfs að leggja mat á það hvort hann myndi vilja hefja byggingu annars hússins með það fyrir augum að geta minnkað byggingarmagn og sótt um starfsleyfi fyrir minna búi sem því nemi. Verði að telja öruggt að starfsemin þannig minnkuð væri innan marka matsskyldu og í samræmi við landnotkun aðal­skipulags.

Ákvörðun um að stöðva framkvæmdir sé íþyngjandi fyrir leyfishafa og það þurfi að skýra heimildir til stöðvunar með tilliti til þess. Almennt fresti kæra ekki réttaráhrifum og því þurfi mikið til að koma svo vikið verði frá þeirri meginreglu. Íþyngjandi ákvarðanir sem beinast gegn ráðstöfun eiganda á landi hans, sem séu í samræmi við gildandi skipulag á eignarlandi, þurfi skýra lagastoð og takmarkist af meðalhófi og mati á gagnstæðum hagsmunum, enda sé eignarrétturinn stjórnarskrár­varinn. Þá sé ekki úr vegi að tiltaka og minna á atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar, en leyfishafi reki fjölskyldufyrirtæki um búrekstur eigenda félagsins sem hafi helgað búrekstrinum ævistarf sitt og byggi afkomu sína á honum.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til sömu röksemda og koma fram í athuga­semdum Eyjafjarðarsveitar vegna höfnunar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Jafn­framt er bent á að kærendur hafi tvívegis áður gert kröfu um stöðvun framkvæmda vegna fyrirhugaðs svínabús, annars vegar í kærumáli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 49/2019 og hins vegar í máli nr. 70/2019. Kröfunni hafi verið hafnað í fyrra málinu en vísað frá í því síðara. Leyfishafi telji skjóta skökku við að unnt sé að fara oft fram á stöðvun vegna sömu framkvæmdar, ekki síst þegar framkvæmdin hafi fengið jafn ítarlega umfjöllun hjá stjórnvöldum, þ. á m. fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærendur hafi sýnt af sér verulegt tómlæti við að halda á lofti kröfu sinni um að matsskyldu­ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 skyldi felld úr gildi. Kæru þeirra til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamáli í máli nr. 49/2019 hafi verið vísað frá með úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2019. Sá úrskurður hafi verið fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi en dómsmál hafi hins vegar ekki verið höfðað fyrr en í október 2021. Það skjóti því skökku við að aðrir eigi að bíða eftir niðurstöðu dómsmálsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafn­framt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu eru málsaðilar fleiri en einn og eiga þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Ekki verður talið að bygging eldishúss fyrir svínabú séu óafturkræfar framkvæmdir. Þá verður ekki hjá því litið að kærendur hafa í engu rökstutt sérstaklega hagsmuni sína af stöðvun framkvæmda.

Í ljósi framangreinds verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað en frekari fram­kvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu eldishúss fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

155/2021 Samkaup

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 155/2021, kæra á ákvörðun Neytendastofu nr. 32/2021 frá 17. september 2021 um að leggja bann við sölu og afhendingu tiltekinna kerta í verslunum Samkaupa hf.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Samkaup hf. þá ákvörðun Neytendastofu frá 17. september 2021 að leggja bann við sölu og afhendingu tiltekinna kerta í verslunum Samkaupa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Neytendastofu 12. nóvember 2021.

Málavextir: Neytendastofa tilkynnti Samkaupum hf. með bréfi, dags. 18. febrúar 2021, að stofnuninni hefði borist ábending varðandi tvær tegundir af kertum, með vörunúmerunum AC074646 og AC095477R, sem verslunin hefði til sölu. Ábendingin hafi varðað það að litaða húðin á kertunum væri svo þykk að bruni þeirra væri óeðlilegur og gæti valdið hættu. Neista­flug hefði í einhverjum tilfellum myndast og eldstrókur staðið upp í loft. Samkaup óskuðu 10. mars s.á. eftir fresti þar sem beðið væri svara frá framleiðanda kertanna en upplýstu um að kertin hafi verið tekin úr sölu á meðan. Þá hafi fulltrúi Samkaupa prófað nokkur kerti en ekki getað fengið sömu niðurstöðu og komið hafi fram í ábendingunni. Samkaup sendu Neytenda­stofu 12. mars 2021 prófunarskýrslu framleiðanda kertanna. Samkvæmt prófunarskýrslunni, sem var frá óháðum aðila, uppfylltu kertin staðla ÍST EN 15493:2019 Candles – Specification for fire safety og ÍST EN 15426:2018 Candles – Specification for sooting behaviour sem og fleiri gögn. Neytendastofa óskaði eftir frekari gögnum með bréfi, dags. 19. mars s.á., þar sem kertin sem ábendingin varðaði séu með annarskonar húð en þau sem prófuð hafi verið í prófunar­skýrslunum. Samkaup sendu Neytendastofu 23. mars s.á. prófunarskýrslu fyrir umrædd kerti. Neytendastofa tilkynnti Samkaupum 6. apríl s.á. að um væri að ræða sömu skýrslu og þegar hafi verið afhent og óskaði því eftir nýrri prófunarskýrslu. Samkaup upplýstu Neytendastofu með bréfi, dags. 10. júní s.á., að fyrirtækið hafi þegar sent stofnuninni prófunarskýrslu óháðs aðila fyrir sambærileg kerti auk skýrslna um prófun umræddra kerta frá framleiðanda og að engin frekari gögn yrðu send stofnuninni vegna málsins. Neytendastofa lagði bann við sölu og afhendingu umræddra kerta með ákvörðun, dags. 17. september 2021, með vísan til 1. mgr. 20. gr., sbr. 21. gr. og 2. mgr. 22. gr., laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu með síðari breytingum.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að Neytendastofa hafi brotið gegn form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ólögfestum reglum stjórnsýsluréttar með máls­meðferð og ákvörðun sinni. Umræddir annmarkar séu verulegir og til þess fallnir að hafa áhrif á efni ákvörðunar stofnunarinnar og því sé ákvörðunin haldin verulegum annmörkum og þar af leiðandi ógildanleg.

Niðurstaða Neytendastofu hafi byggst á því að stofnuninni hafi ekki borist prófunarskýrslur fyrir gyllt og rauðgyllt kerti, heldur einungis fyrir jóladagatalskerti. Ekki hafi verið rökstudd sú fullyrðing að umrædd kerti séu með annarri húðun og heldur verði hvorki séð að stofnunin hafi framkvæmt sjálfstæða skoðun á kertunum né framkvæmt eða látið framkvæma prófanir á þeim. Því sé óljóst á hvaða grundvelli fullyrðing stofnunarinnar hafi verið byggð. Neytenda­stofa hafi litið fram hjá skýrslum frá framleiðanda um prófun á kertunum. Ekki hafi verið fjallað um það í niðurstöðum stofnunarinnar af hverju prófanir sem sýndu fram á öryggi kertanna hafi ekki talist fullnægjandi. Þá hafi Neytendastofa byggt niðurstöðu sína á því að húðun kertanna hafi virst vera svo þykk að eldhætta skapaðist við notkun þeirra. Ekki verði séð af ákvörðuninni eða gögnum málsins á hverju stofnunin hafi byggt þá niðurstöðu sína. Hvorki hafi verið fjallað um það í ákvörðuninni hvort varan uppfylli þau viðmið sem bæri að hafa hliðsjón af við mat á því hvort vara teldist örugg skv. 8. gr. laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu né hvort hún uppfyllti skilyrði sem fram kæmu í Evrópustöðlum, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Engin sjálfstæð skoðun hafi verið framkvæmd af hálfu Neytendastofu á umræddum kertum, stofnunin hafi ekki aflað gagna um umrædd kerti eða óskað eftir sýnishorni af vörunni og hvorki hafi stofnunin framkvæmt né látið framkvæma prófanir á vörunni.

 Málsrök Neytendastofu: Af hálfu Neytendastofu er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ákvörðunin hafi verið tekin fyrir gildistöku laga nr. 18/2021, um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, og því hefði átt að beina kærunni til áfrýjunarnefndar neytendamála.

Ljóst sé af myndum sem fyrir liggja í málinu að húðun kertanna sé ólík. Húðun á dagatals­kertinu, sem fjallað hafi verið um í prófunarskýrslunni, hafi að mestu leyti verið glær og aðeins lituð að takmörkuðu leyti. Kertin sem málið varðaði hafi hins vegar verið heillituð og með glitrandi húðun. Þá hafi komið fram í tölvupósti frá framleiðanda, dags. 9. júní 2021, að ekki sé til prófunarskýrsla fyrir hin umræddu kerti og að ekki hafi verið lögð fram gögn í málinu sem hafi sýnt fram á að húðun kertanna væri sambærileg. Því hafi stofnunin ekki talið að sýnt hafi verið fram á með nægilegum hætti að prófunarskýrsla fyrir dagatalskerti nái jafnframt til þeirra kerta sem málið varðaði, enda hafi verið um aðgreinda vöru að ræða að mati stofnunarinnar.

Gera yrði kröfu um að framleiðandi og um leið dreifingaraðili vöru geti sýnt fram á að fram­leiðsla hennar sé í samræmi við viðmið laga, reglugerða, samhæfðra staðla og tilskipana um öryggi vöru. Prófunarskýrslan hafi verið lögð fram vegna annars kertis og ekki hafi legið fyrir prófunarskýrslur sem staðfestu samræmi kertanna við staðlana ÍST EN 15493:2019 Candles – Specification for fire safety, ÍST EN 15494:2019 Candles – Product safety lables og ÍST EN 15426:2018 Candles – Specification for sooting behaviour. Í gögnunum hafi ekki verið fjallað um að hvaða leyti kertin hafi verið prófuð til samræmis við samræmda staðla. Neytendastofa hafi tilkynnt kæranda að nauðsynlegt væri að framvísa skýrslu um að kertin séu framleidd í samræmi við viðeigandi staðla en engin frekari gögn hafi borist og í raun hafi þau ekki verið til staðar hjá framleiðanda. Þar sem gögnin málsins hafi ekki sýnt fram á að varan hafi verið framleidd í samræmi við nefnda staðla, og með vísan til þeirrar eldhættu sem gæti skapast við notkun hennar, hafi það verið mat stofnunarinnar að kertin séu ekki örugg vara í skilningi 8. og 9. gr. laga nr. 134/1995. Prófanir starfsmanns kæranda hafi ekki haft neina þýðingu fyrir úrlausn málsins.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir kröfu Neytendastofu um frávísun. Þegar ákvörðun stofnunarinnar hafi verið kærð hinn 12. október 2021 hafi lög nr. 18/2021, um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, tekið gildi. Hafi því á þeim tíma ekki verið heimild í lögum til að skjóta stjórnvaldsákvörðunum sem teknar væru á grundvelli laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Engin ákvæði hafi verið um lagaskil í lögum nr. 18/2021. Ef ætlunin hefði verið að stjórnvaldsákvarðanir Neytendastofu sem teknar hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 18/2021 og kærufrestur ekki verið liðinn við gildistöku laganna hefði þurft að kveða sérstaklega á um slíkt í gildistökuákvæði eða með bráðabirgðaákvæði í lögunum. Þar sem slíkt hafi ekki verið gert hafi kærandi, á þeim tíma sem kæra var lögð fram, einungis getað kært stjórnvaldsákvörðun Neytendastofu til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Neytendastofa haldi fram að ljóst sé af myndum sem liggi fyrir í málinu að húðun þeirra kerta sem ákvörðunin snúi að sé ólík húðun dagatalskerta sem fjallað hafi verið um í prófunarskýrslu. Ekki sé hægt að sjá hvernig Neytendastofa geti dregið þá ályktun af meðfylgjandi myndum. Myndirnar séu óskýrar og sýni ekki með neinum hætti hvernig húðun kertanna sé háttað eða hver sé þykkt hennar. Kærandi hafi lagt fram prófunarskýrslu sem framleiðandi hafi sagt vera fyrir þau kerti sem ákvörðun stofnunarinnar taki til. Það sé á ábyrgð Neytendastofu að sýna fram á að kertin séu öðrum eiginleikum gædd telji stofnunin svo vera. Stofnunin hefði getað útvegað sér umrædd kerti og skoðað þau, framkvæmt prófanir eða látið gera slíkt fyrir sig. Slíkt hafi ekki verið gert og íþyngjandi ákvarðanir verið byggðar á órökstuddum ályktunum sem dregnar hafi verið af óskýrum myndum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Neytendastofu um að leggja bann við sölu og afhendingu tiltekinna kerta í verslunum Samkaupa hf.

 Með gildistöku breytingarlaga nr. 18/2021, um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, voru ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu látnar sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Breytingalögin tóku gildi 1. október 2021 og féll þá úr gildi eldra ákvæði laga nr. 134/1995 um kæruheimild til áfrýjunarnefndar neytendamála, en kæra í máli þessu barst 12. október 2021. Í breytingalögunum var ekki kveðið á um sérstök lagaskil hvað varðar kæruheimild vegna ákvarðana sem teknar væru fyrir gildistöku laganna. Líta verður svo á að hafi áfrýjunarnefnd neytendamála verið ætlað að úrskurða í þeim málum sem kærð væru eftir 1. október 2021 hefði þurft að taka það skýrt fram í breytingalögunum. Að því virtu verður að telja að kærunni hafi réttilega verið beint til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í 8. gr. laga nr. 134/1995 segir að örugg vara merki sérhverja vöru sem við eðlileg eða fyrir­sjáanleg notkunarskilyrði, þ.m.t. endingartíma, svo og kröfur sem gerðar eru um uppsetningu, viðhald og hvernig hún skal tekin í notkun, telst vera hættulaus fyrir einstaklinga, heilsu þeirra og eignir enda fullnægi hún almennum kröfum sem gerðar eru vegna almannahagsmuna um öryggi og vernd heilsu, svo og umhverfis. Þá kemur fram í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 134/1995 að vara teljist örugg ef hún uppfyllir skilyrði sem fram koma í íslenskum stöðlum, sem innleiða Evrópustaðla, sem tilvísun hefur verið birt í hér á landi og í Stjórnartíðindum Evrópu­bandalagsins í samræmi við ákvæði tilskipunar um öryggi vöru. Í V. kafla laganna er síðan fjallað um réttarúrræði eftirlitsstjórnvalda, en meðal þeirra úrræða er að leggja banna við sölu og afhendingu vöru ef tilskilin lagaskilyrði eru ekki uppfyllt, sbr. 20., 21. og 22. gr. laganna.

Neytendastofa leiðbeindi kæranda um hvaða gögn væru nauðsynleg til að sýna fram á öryggi kertanna í skilningi nefnds lagaákvæðis, þ.m.t. prófunarskýrsla. Í tölvupósti framleiðanda kertanna frá 9. júní 2021 kemur fram að ekki sé til prófunarskýrsla fyrir kerti með vörunúmeri AC074646 en að afhent hafi verið skýrsla fyrir dagatalskerti sem væru sambærileg umræddum kertum. Slíkt felur þó ekki í sér að vörurnar séu framleiddar á sama hátt eða úr sama efni en af því leiðir að ekki verður fullyrt um öryggi hinna umdeildu kerta. Með hliðsjón af því, sem og að tilgangur laga nr. 134/1995 er öðru fremur að tryggja að vörur valdi ekki hættu fyrir neytendur, heilsutjóni eða skaða á umhverfi, verður því að telja að þau gögn sem lágu fyrir í málinu hafi ekki sýnt fram á að vörurnar teldust öruggar í skilningi 8. gr., sbr. 2. mgr. 9. gr., laga nr. 134/1995.

Þótt Neytendastofa hafi ekki rannsakað kertin getur það ekki talist annmarki á meðferð málsins, enda hefði rannsókn stofnunarinnar ekki fengið því breytt að ekki lá fyrir prófunarskýrsla umræddra vara. Þá verður á það bent að skv. 12. gr. laga nr. 134/1995 er framleiðendum og dreifingaraðilum skylt að beiðni eftirlitsstjórnvalda að veita þeim aðstoð í tengslum við aðgerðir sem stuðla eiga að auknu öryggi neytenda.

Að framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun Neytendastofu, um að leggja bann við sölu og afhendingu umræddra kerta á grundvelli 1. mgr. 20. gr., sbr. 21. gr. og 2. mgr. 22. gr., laga nr. 134/1995, ekki talin haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geta til ógildingar ákvörðunar stofnunarinnar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Neytendastofu frá 17. september 2021 um bann við sölu og afhendingu tiltekinna kerta í verslunum Samkaupa hf.

118/2021 Stígur Nesvegur

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 30. nóvember 2021 um að aðhafast ekki frekar vegna lokunar stígs er liggur milli húsa nr. 113, 115 og 117 við Nesveg á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Nesvegi 113, Seltjarnarnesi, þá afgreiðslu byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar að aðhafast ekki vegna beiðni kæranda um að fjarlægðar verði hindranir á stíg sem liggur milli húss kæranda og húsa nr. 115 og 117 við Nesveg. Þegar kæran barst úrskurðarnefndinni lá ekki fyrir afgreiðsla sveitarfélagsins á erindi kæranda en hún lá fyrir 30. nóvember 2021 þar sem beiðni kæranda var hafnað. Skaut kærandi þeirri ákvörðun til nefndarinnar með tölvupósti 12. desember s.á. Af hálfu kæranda er gerð krafa um að umræddur stígur „sé til staðar“ og að aðgengi að honum verði óheft.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 21. október og 1. desember 2021.

Málavextir: Vestan við lóðirnar Nesveg 111-113 og 115 og milli þeirra og lóðarinnar nr. 117-119 við Nesveg liggur malbikaður stígur en frá honum er unnt að komast niður að sjó. Allt frá árinu 2018 mun kærandi ítrekað hafa komið á framfæri athugasemdum við Sel­tjarnarnes­bæ um að ekki væri virt kvöð um umferðarrétt um stíginn. Eftir fund kæranda við m.a. byggingar­fulltrúa í júní 2019 mun sveitarfélagið hafa óskað eftir skriflegum sjónarmiðum kæranda og gagna frá sýslumanni, Þjóðskrá og Þjóðskjalasafni þar sem umræddar lóðir væru eignarlóðir. Einnig fór kærandi fram á það við eiganda fast­­eignarinnar að Nesvegi 115 að fjarlægð yrðu reynitré og jarðvegur er komið hefði verið fyrir á lóðar­mörkum fasteignarinnar til vesturs þannig að umferðarréttur væri virtur. Jafnframt beindi kærandi kvörtun til umboðsmanns Alþingis í nóvember 2019 um að sveitarfélagið hefði ekki brugðist við fyrrnefndum athuga­semdum. Að virtum skýringum sveitarfélagsins urðu lyktir málsins hjá umboðsmanni þær að ekki þætti tilefni til frekari afskipta af hans hálfu. Gengu áform sveitarfélagsins um áætluð lok málsins þó ekki eftir og sendi kærandi umboðs­manni aðra kvörtun í febrúar 2020, en umboðs­maður taldi sem fyrr ekki tilefni til frekari afskipta þar sem sveitarfélagið hafði þá upplýst að stefnt væri að því að ljúka afgreiðslu málsins í mars s.á.

Seltjarnarnesbær fól lögmannsstofu að gera minnisblað um málið og lá það fyrir 8. apríl 2020. Í því var m.a. vikið að sjónarmiðum kæranda en árið 1940 hefðu foreldrar hans keypt húsið Egilsstaðir ásamt stórri lóð austarlega á Seltjarnarnesi, nú lóðina nr. 111-113 við Nesveg. Lóðin hafi náð niður að sjó á sunnanverðu nesinu. Árið 1958 hefðu þau selt syðsta hluta lóðarinnar, nú Nesveg 115, þ.e. hluta sem náð hefði niður að sjó að undanskildri aðkomu að sjónum vestanmegin. Reist hefði verið hús á þeirri lóð og lóðin girt meðfram aðkomunni. Mætti ráða að ekki hefði verið seld aðkoman að sjónum. Jafnframt var rakin forsaga fyrrgreindra lóða frá árinu 1927. Var orðalag kvaðar í kaupsamningi frá 6. september 1940 talið benda sterklega til þess að kvöð um umferðarrétt næði yfir alla lóðina. Niðurstaða minnisblaðsins var því sú að svo virtist sem skýrt væri að lóðarhafar á lóðunum nr. 111-113 og 115 ættu kvöð um umferðarrétt í gegnum lóðina nr. 117-119. Lóðarhafar lóðarinnar nr. 117-119 ættu hins vegar lóðina eða þann lóðarhluta sem kvöðin lægi um. Eina skylda þeirra gagnvart kvaðarhöfum, þ.e. eigendum lóða nr. 111-113 og 115, væri að hindra ekki umferð þeirra um kvöðina.

Minnisblaðið var tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 15. apríl 2020 og byggingarfulltrúa falið að vinna málið áfram. Með bréfi hans til eiganda fasteigna að Nesvegi 115 og 117-119, dags. 20. s.m., var honum gefinn kostur á að tjá sig um niðurstöðu minnis­blaðsins. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort lóðarhafar á lóðinni nr. 117-119 myndu hreinsa kvöðina en ella kæmi til skoðunar hvort sveitarfélagið myndi beita þvingunarúrræðum 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Mun forsvarsmaður hluta eigenda í framhaldinu hafa sent byggingarfulltrúa tvö mæliblöð, annað frá mars 2004 undirritað af byggingarfulltrúa, en hitt óundirritað, dags. 7. nóvember 2011, og talið að sveitarfélagið hefði gert mistök við skráningu lóðarmarka miðað við framangreind gögn. Kærandi kom jafnframt að athugasemd með tölvupósti 3. maí 2020 um að faðir kæranda hafi á sínum tíma keypt helming af landi sem hafi verið 66 m. Hann hafi svo selt neðri hluta lóðarinnar sem væri 31 m að breidd samkvæmt sölusamningi frá 18. nóvember 1958 og óskaði kærandi upplýsinga um hvað orðið hefði um tvo metra, þ.e. mismun 33 m og 31 m.

Í kjölfarið var veitt ný umsögn með minnisblaði, dags. 7. júlí 2020, þar sem talið var að framkomnar athugasemdir og gögn breyttu ekki fyrri niðurstöðu og var hún áréttuð. Lóðin væri afmörkuð með uppdrætti sem fylgt hefði kaupsamningi lóðarinnar 6. september 1940 og þar væri breidd lóðarinnar sögð 31 m. Með bréfum sveitarfélagsins til m.a. kæranda, dags. 14. júlí 2020, kom fram að byggingarfulltrúi hefði gengið úr skugga um hvort hindranirnar hefðu verið fjarlægðar úr kvöðinni og að það myndi hafa verið gert. Sveitarfélagið myndi því ekki grípa til frekari aðgerða. Það myndi hins vegar beita sér fyrir lagfæringu á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði til að skýra kvöðina og byðist til þess að hafa milligöngu um gerð mæliblaða af lóðunum og kvöðinni yrði þess óskað af hálfu lóðarhafa.

Með tölvupósti kæranda til Seltjarnesbæjar 8. júlí 2021 var bent á að stígnum hefði verið lokað og óskað upplýsinga um hvað sveitarfélagið hefði aðhafst varðandi þessar aðgerðir lóðarhafa. Hinn 12. s.m. barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu þar sem m.a. var gerð athugasemd við að sveitarfélagið hefði ekki svarað beiðnum kæranda um að opna stíginn og var sveitarfélaginu tilkynnt um framkomna kæru. Var úrskurðarnefndinni tilkynnt með tölvupósti Seltjarnarnesbæjar 21. október 2021 að málið væri enn til skoðunar hjá sveitarfélaginu og vænta mætti viðbragða af þess hálfu til kæranda í vikunni þar á eftir. Úrskurðarnefndin óskaði upplýsinga hjá sveitarfélaginu 9. nóvember s.á. um stöðu málsins og í svarbréfi sama dag kom fram að fyrir lægi að lóðarhafi hygðist ekki setja hlið á grindverk sem hann hefði sett við suðurmörk lóðarinnar og yrði brugðist við í samræmi við það.

Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 30. nóvember 2021, að ekki yrði aðhafst frekar í málinu. Vísað var til þess að álit sveitarfélagsins lægi fyrir samkvæmt minnisblaði, dags. 7. júlí s.á. Jafnframt kom fram að borist hefðu ábendingar þá um sumarið um að lóðarhafi lóðarinnar nr. 117-119 hefði girt fyrir umrædda kvöð neðst eða syðst í lóðinni. Hefði byggingarfulltrúi rætt málið við forsvarsmanns eiganda hluta eigna á nr. 117 sem hefði upplýst, að fengnum ábendingum byggingarfulltrúa, að hann hygðist setja hlið á grindverkið til að tryggja kvöðina. Af því hefði hins vegar ekki orðið. Við nánari eftirgrennslan byggingarfulltrúa hefði forsvarsmaður lóðarhafa upplýst að hann teldi sér ekki skylt að setja hlið á grindverkið og hygðist því ekki gera það. Jafnframt kom fram í bréfinu að í ljósi þess að um væri að ræða einkaréttarlega kvöð sem byggði á einkaréttarlegu samkomulagi aðila og varðaði ekki með beinum hætti skipulag sveitarfélagsins teldi byggingarfulltrúi sig ekki hafa lagastoð til að beita þvingunarúrræðum til að knýja á um að kvöðinni væri framfylgt, s.s. með þeim hætti að sett yrði hlið á umrædda girðingu eða á annan hátt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi hvorki svarað beiðnum kæranda um að opna umræddan stíg né virðist það hafa haft samband við þann aðila sem hafi lokað stígnum. Stígurinn sé lokaður þrátt fyrir að umræddur aðili hafi fengið úrskurð frá Seltjarnarnesbæ um að hann skuli vera opinn. Hann hafi verið opinn í yfir 70 ár og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum skuli vera aðgengi að honum. Eigi kærandi og almenningur hagsmuni af því að aðgangur sé óheftur til að tryggja aðgang að sjávarsíðunni. Stígurinn sjáist á loftmynd hjá Seltjarnarnesbæ auk þess sem umboðsmaður Alþingis hafi strax séð að það ætti að vera stígur þarna. Þá sé kveðið á um rétt til að hafa umræddan stíg í sölusamningi sem faðir kæranda hafi gert við nánar tilgreindan aðila.

Málsrök Seltjarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess er fram kemur í bréfi sveitarfélagsins til kæranda, dags. 30. nóvember 2021 og áður er rakið í málavöxtum.

 Athugasemdir lóðarhafa lóðar nr. 117-119 við Nesveg: Lóðarhafi tekur fram að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé enginn vegur eða stígur niður að sjó á þessu svæði og hafi aldrei verið. Í áratugi hafi verið vegur á milli húsa nr. 113 og 117 við Nesveg, eins og fram komi í deiliskipulaginu, og sé hann fyrir aðkeyrslu að lóðunum Nesvegur nr. 115 og 119A. Hvorki kærandi né aðrir lóðarhafar hafi gert athugasemdir við það hvernig vegurinn hafi verið settur fram í deiliskipulaginu.

Vegurinn sé opinn og geti allir farið um hann. Á loftmynd frá árinu 1951 sjáist vel að enginn vegur sé niður að sjó. Í kaupsamningi föður kæranda um lóðina Egilsstaðir frá 6. september 1940 sé tekið fram að „umferðaréttur [sé] til handa kaupanda um veg þann, sem liggur nú yfir lóðareignina, en sem seljandi heldur áfram að eiga óskorðað“. Jafnframt sé skýrt hvað lóðin sé stór. Það sé rangt að hún hafi náð fram í sjó heldur aðeins 73 m frá Nesvegi. Í dag séu neðri eða syðri lóðarmörk tugi metra frá sjó. Hvorki kærandi né aðrir hafi lagt fram gögn þar sem sýnt sé fram á að keyra hafi þurft niður að sjó.

Samkvæmt fyrrnefndum kaupsamningi sé umferðarréttur eftir stígnum réttur „til handa kaupanda“ á 2.263 m² lóð. Hvergi komi fram að umferðarréttur fylgi lóðinni, hvað þá að eigandi lóðar hafi heimild til að skipta henni upp í fleiri lóðir og framselja fleirum umferðarrétt um lóðina. Með afsali, dags. 18. nóvember 1958, hafi faðir kæranda afsalað 1.007,5 m² af lóðinni með þeim eina umferðarrétti sem hann hafi fengið samkvæmt kaupsamningnum. Kærandi hafi engan rétt til umferðar um stíginn.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar afgreiðslu byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 30. nóvember 2021 að aðhafast ekki frekar vegna lokunar stígs sem liggur á milli húsa nr. 113 og 115 og húss nr. 117 við Nesveg. Í kröfu kæranda felst að beitt verði þvingunarúrræðum 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði getur byggingarfulltrúi krafist þess ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 160/2010 kæru til úrskurðarnefndarinnar, svo sem um synjun á beitingu þvingunarúrræða líkt og í máli þessu. Ágreiningur um umferðarrrétt og inntak hans á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina nema í þeim tilfellum þegar skipulagskvöð er sett í deiliskipulagi um slíkan rétt. Samkvæmt 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru skipulagskvaðir skilgreindar sem kvaðir sem lagðar eru á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt og legu lagna. Fram kemur í a-lið gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir því samgöngukerfi sem fyrir er og skal setja kvaðir um umferðarrétt þegar það á við. Þá segir jafnframt í gr. 5.3.2.2. reglugerðarinnar að í deiliskipulagi skuli tryggja aðkomu að hliðum stakstæðra mannvirkja sem standa við lóðarmörk og að baklóðum sambyggðra húsa með kvöðum eða öðrum hætti.

Ákvörðun um beitingu áðurnefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og er tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- eða heilbrigðishagsmunum, sbr. 1. gr. laga nr. 160/2010. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstakl­inga enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Við mat stjórnvaldsins þarf þó sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að í ljósi þess að um einkaréttarlega kvöð væri að ræða sem byggði á einkaréttarlegu samkomulagi aðila og varðaði ekki með beinum hætti skipulag sveitarfélagsins teldi byggingarfulltrúi sig ekki hafa lagastoð til að beita þvingunar­úrræðum til að knýja á um að kvöðinni væri framfylgt, s.s. með þeim hætti að sett yrði hlið á umrædda girðingu eða á annan hátt.

Fyrrnefndar lóðir eru á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Lambastaðahverfis frá árinu 2013. Á skipulagsuppdrætti eru húsin nr. 111 og 113 við Nesveg nefnd Egilsstaðir og hús nr. 117 og 119 Sólberg og er gert ráð nýju húsi á lóð Nesvegar 117-119, eða húsi nr. 119A. Á upp­drættinum er afmarkaður stígur frá Nesvegi milli húsa nr. 113, 117 og 119A að suðurmörkum hússins að Nesvegi 115. Merkt er kvöð um umferð um stíginn og í greinargerð með deiliskipulaginu er m.a. tilgreint í skilmálum fyrir húsið nr. 119A að kvaðir séu á lóðinni um umferð í bílgeymslur fyrir Nesveg 111-113 og aðkomu að Nesvegi 115. Í greinargerðinni segir og um Nesveg 111-113 að aðgengi í bílskúra sé um lóð Nesvegar 117-119. Samkvæmt afsali, dags. 18. nóvember 1958, afsalaði faðir kæranda til þar tilgreinds aðila 1.007,5 m² byggingarlóð úr Egilsstaðalóðinni, nánar tiltekið 31 m á breidd, meðfram sjó milli Marbakka að austan og Sólbergs að vestan. Í afsalinu segir: „Að norðan eru lóðarmörkin bein lína, sem liggur neðan við og meðfram húsi [X], 50 cm norðan við nyrsta vegg hússins.” Einnig segir: „Umferðarréttur fyrir bifreið og gangandi til og frá lóðinni er um stíg, sem liggur vestanvið og meðfram hinni seldu lóð og upp á Nesveg frammeð og milli Egilsstaða og Sólbergs“.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að sú kvöð sem greint er frá í deiliskipulagsuppdrætti Lambastaðahverfis og greinargerð skipulagsins telst vera skipulagskvöð í skilningi 2. gr. skipulagslaga, enda er kvöðinni ætlað að tryggja aðkomu að hliðum stakstæðra mannvirkja, sbr. gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð. Verður það því að teljast annmarki á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að vísa til þess að byggingarfulltrúi hafi ekki lagastoð til að beita þvingunar­úrræðum þar sem um sé að ræða kvöð byggða á einkaréttarlegu samkomulagi sem varði ekki skipulag sveitarfélagsins með beinum hætti. Við mat á því hvort um ógildingarannmarka er að ræða verður hins vegar ekki litið fram hjá því að umrædd skipulagskvöð nær einvörðungu til þess að tryggja aðkomu í bílgeymslur fyrir Nesveg 111-113 og að Nesvegi 115. Hin umþrætta girðing takmarkar á engan hátt þá aðkomu auk þess sem tilvist hennar varðar ekki almanna- eða öryggishagsmuni. Skal áréttað að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans á grundvelli einkaréttarlegra samninga heyrir ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar og tekur nefndin því ekki afstöðu til þess hvort sú kvöð sem fram kemur í áðurnefndu afsali feli í sér umferðarrétt í gegnum lóðina nr. 117-119.

 

Með hliðsjón af framangreindu eru því ekki efni til að ógilda hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnes­bæjar frá 30. nóvember 2021 um að aðhafast ekki frekar vegna lokunar stígs er liggur milli húsa nr. 113, 115 og 117 við Nesveg á Seltjarnarnesi.

4/2022 Isavia

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 24. febrúar fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2022, kæra vegna afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 17. desember 2021 á erindi kæranda varðandi leiðréttingu eftirlitsgjalds fyrir árið 2021. 

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Isavia ohf. afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 17. desember 2021 á erindi kæranda varðandi leiðréttingu eftirlitsgjalds fyrir árið 2021. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 25. janúar 2022.

Málsatvik og rök: Með reikningi, dags. 3. nóvember 2021, krafði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja Isavia ohf. um árlegt eftirlitsgjald vegna rekstrar alþjóðaflugvallar með yfir þrjár milljónir farþega í samræmi við gjaldskrá nr. 1188/2021 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði. Nam fjárhæð gjaldsins alls kr. 10.312.739. Með erindi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 9. desember 2021, óskaði Isavia eftir endurgreiðslu á ofgreiddum gjöldum vegna ársins 2020 og leiðréttingu reiknings vegna ársins 2021 með þeim rökum að farþegafjöldi áranna hafi gert það að verkum að ekki hafi verið heimild til gjaldtökunnar. Heilbrigðiseftirlitið svaraði erindinu 17. desember 2021 þar sem meðal annars kom fram að það muni á næstunni fara vandlega yfir hvern eftirlitsþátt í gildandi starfsleyfi og kanna hvort tilefni sé til lækkunar eftirlitsgjalds ársins 2021. Á meðan á því standi muni krafa vegna eftirlitsgjalds þess árs verða tekin úr innheimtuferli.

Kærandi tekur fram að greind bréfaskipti milli Isavia og heilbrigðiseftirlitsins beri ekki með sér, nú fremur en endranær, að vilji sé af hálfu eftirlitsins til að leysa þau álitamál sem uppi séu í langvinnum deilum, sem séu bæði tímafrekar og kostnaðarsamar, með neinskonar sátt. Engin heimild sé fyrir umdeildri gjaldtöku. Farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll árið 2020 hafi aðeins verið 1.338.046 og farþegafjöldi árið 2021 um 1,7 milljónir. Engin heimild hafi því verið í fylgiskjali með Gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit nr. 1188/2021 til gjaldtökunnar, en í reikningnum segi orðrétt um gjaldtökuheimildina: „Lýsing: Heilbrigðiseftirlitsgjöld: FLE – Alþjóðaflugvöllur > 3 milljónir farþega.“

 Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er gerð krafa um frávísun málsins. Byggist sú krafa í fyrsta lagi á því að ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Í öðru lagi komi ekki fram í kæru hvaða lögvörðu hagsmuni kærandi hafi af úrlausn málsins og í þriðja lagi sé byggt á því að kæran sé svo vanreifuð að eftirlitinu sé í raun ómögulegt að taka til varna. Heilbrigðiseftirlitsgjöldin hafi verið lögð á með reikningi, dags. 3. nóvember 2021. Hin kærða ákvörðun sé synjun heilbrigðiseftirlitsins á niðurfellingu á gjaldi en ekki gjaldtakan sjálf. Sjálf álagningin sé ekki kærð enda kærufrestur liðinn samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hin kærða ákvörðun sé efni bréfs frá 17. desember 2021 þar sem fram komi að farið verði vandlega yfir hvern eftirlitsþátt í gildandi starfsleyfi og kannað hvort tilefni sé til lækkunar eftirlitsgjalds. Á meðan á því ferli standi muni krafa vegna eftirlitsgjalds ársins 2021 tekin úr innheimtuferli. Hin kærða ákvörðun feli því ekki í sér ákvörðun um rétt eða skyldu kæranda.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Í bréfi kæranda til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 9. desember 2021, er meðal annars farið fram á leiðréttingu eftirlitsgjalds fyrir árið 2021. Í svari eftirlitsins með bréfi, dags. 17. s.m., kemur fram að eftirlitið hyggist fara yfir hvern eftirlitsþátt í gildandi starfsleyfi og kanna hvort tilefni sé til lækkunar eftirlitsgjalds. Á meðan á því standi muni krafa vegna eftirlitsgjalds ársins 2021 verða tekin úr innheimtu.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að í málinu liggi fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að ef óhæfilegur dráttur verður á afgreiðslu máls verður slíkur dráttur eftir atvikum borinn undir úrskurðarnefndina samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

153/2021 Íslenska gámafélagið

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 24. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 153/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 6. september 2021 um að veita Íslenska gámafélaginu ehf. starfsleyfi fyrir móttöku og meðhöndlun spilliefna að Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22 á Esjumelum í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi og íbúi við Kollafjarðarveg, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 6. september 2021 að veita Íslenska gámafélaginu ehf. starfsleyfi fyrir móttöku og með­höndlun spilliefna að Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22 á Esjumelum í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að fellt verði úr gildi „leyfi til meðhöndlunar spilliefna sem teljast til aukaafurða dýra.“

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 15. nóvember 2021.

Málavextir: Hinn 24. mars 2021 sótti Íslenska gámafélagið ehf. um starfsleyfi fyrir móttöku á allt að 1.000 tonnum af spilliefnum fyrir fyrirhugaða starfsstöð félagsins að Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22 á Esjumelum í Reykjavík. Í fylgiskjali umsóknar félagsins kom fram að félagið hafi gilt starfsleyfi en vegna flutnings starfseminnar á Esjumela þurfi það að sækja um nýtt starfsleyfi. Þar til endanleg aðstaða spilliefna­móttöku á Kalksléttu 1 verði tilbúin verði tíma­bundin aðstaða á Koparsléttu 22. Tillaga að starfsleyfi var auglýst á vefsíðu Umhverfis­stofnunar 25. júní 2021 með athugasemdafresti til og með 23. júlí s.á. og kom kærandi að athugasemdum á auglýsingatíma, en hún er eigandi fasteignar sem er í u.þ.b. 630 m fjarlægð frá fyrirhugaðri starfsstöð. Hinn 11. ágúst s.á. óskaði Umhverfisstofnun eftir upplýsingum frá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar hvort starfsleyfið samræmdist gildandi skipulagi. Skilaði skipulagsfulltrúi umsögn 27. s.m., þar sem bent er á að eftir breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 árið 2019 megi gera ráð fyrir starfsemi sem falli undir iðnaðarsvæði samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 á norðurhluta Esjumela, en tilgreina þurfi þá starfsemi sérstaklega í deiliskipulagi. Gerð hafi verið breyting á deiliskipulagi Esjumela þar sem heimilað var að hafa iðnað á lóð Koparsléttu 1. Í niðurstöðu skipulagsfulltrúa kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við starfsemi leyfishafa að Esjumelum en lagt til að starfsemin að Koparsléttu 22 verði einungis með tímabundna heimild fyrir móttöku á spilliefnum í eitt ár. Móttaka spilliefna sé þó talin falla innan almennra heimilda um athafnasvæði miðað við skilgreiningu í aðalskipulagi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur það óásættanlegt að gefa út hið kærða starfsleyfi fyrir tvær starfsstöðvar í einu og sama starfsleyfinu. Í deiliskipulagi svæðisins sé Koparslétta 22 á athafnasvæði en samkvæmt skilgreiningu e-liðar í 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 séu flokkunarmiðstöðvar og birgðastöðvar fyrir mengandi efni ekki á athafnasvæðum. Aðstæður til mengunarvarna, t.d. vegna leka í húsnæðinu, séu varla eða ekki í samræmi við bestu fáanlegu tækni þar sem ekki sé gerð krafa um söfnunarþrær í gr. 3.4 í starfsleyfinu. Þá sé leyfið fyrir Koparsléttu 22 auk þess ótímasett. Húsnæðið á Kalksléttu 1 hafi ekki verið sam­þykkt af byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar því öryggisúttekt vanti. Því hafi Heilbrigðis­eftirlit Reykjavíkur ekki enn gefið út starfsleyfi fyrir leyfishafa að Kalksléttu 1. Það sé óeðlilegt að Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir móttöku spilliefna án byggingarleyfis húsnæðis­ins. Í gr. 3.2 í starfsleyfinu sé gefið leyfi til meðhöndlunar spilliefna sem teljist til aukaafurða dýra. Leyfishafi hafi ekki sótt sérstaklega um það en hann hafi ítrekað kynnt að ekki verði nein meðhöndlun lífrænna efna í starfsstöðinni. Íbúar í næsta nágrenni hafi hafnað vinnslu á öllum lífrænum úrgangi í starfsstöðinni og komið þeim sjónarmiðum á framfæri við leyfishafa, en starfsemin sé einnig í mikilli nálægð við eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarinnar.

Kollafjörður sé skilgreindur sem viðkvæmur viðtaki í umsögn skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg vegna tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um iðnað og aðra landfreka starfsemi. Þrátt fyrir það sé enn einungis frárennslislögn til bráðabirgða frá Esjumelum út í Kollafjörðinn. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sinni vöktun og sýnatöku á frá­rennslinu en einungis með tilliti til coligerlar. Vísað sé til gr. 7.2 og 23 í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Meira mengað skólp muni renna út í fjörðinn þar sem fjölbreytt fuglalíf sé nú þegar í hættu. Starfsemin að Koparsléttu 22 sé án söfnunarþróar. Gera verði enn meiri kröfur til frárennslis og tíðari sýnatökur heldur en einu sinni á ári.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun telur að starfsleyfið fullnægi þeim kröfum sem gerðar séu í lögum og reglugerðum. Því sé ekki um annmarka að ræða sem séu til þess fallnir að hafa þau áhrif á efni ákvörðunarinnar að geta orðið grundvöllur fyrir ógildingu hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar. Starfsleyfið sé gefið út fyrir tvær samliggjandi lóðir sem báðar hýsi starfsemi rekstraraðila. Fordæmi séu fyrir starfsemi sem nái yfir fleiri en eina starfsstöð í einu og sama starfsleyfinu. Stofnunin líti þó svo á að um eina starfsstöð sé að ræða í þessu tilfelli.

Staðfest hafi verið að starfsemin samræmist gildandi skipulagi, en Umhverfisstofnun hafi sent skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar fyrirspurn þess efnis áður en starfsleyfið hafi verið gefið út. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi ekki verið gerðar athugasemdir við starfsemi rekstraraðila og sé spilliefnamóttaka talin falla innan almennra heimilda um athafnasvæði, sbr. skilgreiningu í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Rekstraraðila sé aðeins heimil móttaka og með­höndlun spilliefna að Koparsléttu 22 þar til aðstaða að Kalksléttu 1 verði tilbúin til notkunar. Aðstaðan að Koparsléttu 22 sé hönnuð sem framleiðslurými fyrir lífdísil, öll niðurföll séu lokuð og þar sé olíuskilja tengd við lokuð niðurföll. Rýmið henti því vel fyrir starfsemina til bráða­birgða. Umhverfisstofnun hafi ekki talið tilefni til að setja ákvæði um tímamörk á flutningi starf­seminnar þar sem skýrt komi fram í svari skipulagsfulltrúa að hún samræmist gildandi skipu­lagi. Stofnunin bendi á að verði breyting á skipulagi geti stofnunin endurskoðað leyfið, sbr. gr. 1.6 í stafsleyfinu.

Bestu aðgengilegri tækni (BAT) hafi ekki verið lýst fyrir starfsemi með þessu umfangi en niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni fyrir meðhöndlun úrgangs hafi verið höfð til hliðsjónar við vinnslu starfsleyfisins. Ekki sé rétt að leyfið fyrir Koparsléttu 22 sé ótímasett, enda sé um að ræða eitt starfsleyfi sem gildi til 6. september 2037.

Byggingarleyfi sé ekki grundvöllur fyrir veitingu starfsleyfis en ekki sé óalgengt að rekstrar­aðilar þurfi að sækja um önnur leyfi vegna starfsemi sinnar. Ekki sé gert ráð fyrir því í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir eða reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, sem hin kærða ákvörðun byggi á, að afla þurfi annarra leyfa fyrir útgáfu starfsleyfa. Umhverfisstofnun sé bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins. Hafi úrskurðarnefndin það til skoðunar að túlka lögbundin skilyrði starfsleyfis svo rúmt að undir þau falli atriði sem ekki sé kveðið á um í lögum sé það varhugavert.

Grein 3.2 í starfsleyfinu sé staðlað ákvæði í starfsleyfum fyrir spilliefnamóttökur og sé ætlað að ná utan um sóttmengaðan úrgang sem kynni að falla til, t.d. vegna aðgerða er tengjast dýra­heilbrigði. Í umsókn rekstraraðila komi ekki fram að móttaka spilliefna sem teljist til auka­afurða dýra sé fyrirhuguð í starfsstöðinni. Í svari rekstraraðila við fyrirspurn stofnunarinnar komi fram að slíkur úrgangur sé fluttur beint til förgunar án umpökkunar og því sé ekki þörf á að meðhöndla hann í spilliefnamóttöku fyrirtækisins. Stofnunin telji engu að síður nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði í leyfinu ef til þess komi að geyma þurfi slíkan úrgang og tekur fram að ekki sé heimilt að umpakka honum eða meðhöndla á annan hátt en að geyma hann í lekaheldum umbúðum samkvæmt ákvæðum starfsleyfisins. Þá falli það utan valdheimilda úrskurðar­nefndarinnar að breyta stjórnvaldsákvörðuninni með því að fella einstök ákvæði úr starfs­leyfinu.

Mikilvægt sé að koma í veg fyrir að mengun berist frá spilliefnamóttökunni sem gæti haft áhrif á lífríki Kollafjarðar. Sé því gerð krafa um að lokað sé fyrir frárennsli þar sem spilliefni séu geymd eða meðhöndluð og að aðstaðan sé útbúin lekavörnum. Með þeim mengunarvörnum sem starfsleyfið kveði á um, s.s. lekavarnarbúnaði, lokun niðurfella auk vöktunar á olíugildru og söfnunarþróm, séu litlar líkur á að mengun berist frá spilliefnamóttökunni í fráveitukerfi eða nærliggjandi umhverfi.

Samkvæmt reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp séu viðtakar skilgreindir viðkvæmir eða síður viðkvæmir þegar um losun á húsaskólpi frá þéttbýli í viðtaka sé að ræða. Hér sé ekki um að ræða losun frá þéttbýli í viðtaka. Þrátt fyrir það sé rétt að nefna að Umhverfisstofnun skilgreini viðtaka. Viðtakinn Kollafjörður hafi ekki verið skilgreindur af stofnuninni sam­kvæmt reglugerð nr. 798/1999. Kærandi vísi til umsagnar skrifstofu umhverfisgæða frá 27. nóvember 2018 því til stuðnings að viðtakinn sé skilgreindur sem viðkvæmur, en Umhverfis­stofnun telji óljóst á hvaða forsendum skrifstofan byggi þá niðurstöðu á. Áréttað sé að í starfs­leyfinu séu stíf skilyrði sem eigi að koma í veg fyrir að mengun berist í fráveitukerfi eða nærliggjandi umhverfi. Þá hafi stofnunin sent Veitum ohf. fyrirspurn 5. ágúst 2021 um stöðu fráveitumála á Esjumelum. Í svari Veitna hafi komið fram að þar sé unnið að undirbúningi aukinnar hreinsunar fráveitu frá svæðinu. Að mati Umhverfisstofnunar sé mikilvægt að hreinsun skólps frá athafnasvæðinu sé viðunandi og í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Auk þess telji stofnunin mikilvægt að óæskileg efni sem geti haft áhrif á fráveitukerfin berist ekki þangað þar sem það geti haft áhrif á virkni hreinsunarbúnaðar. Því sé gerð fyrrnefnd krafa um að lokað sé fyrir frárennsli og að lekahólf eða söfnunarþrær séu til staðar til að fanga afrennsli sem kunni að innihalda spilliefni. Stofnunin ítreki að litlar líkur séu á að mengun berist í fráveitu frá starfseminni með þeim kröfum sem kveðið sé á um í starfsleyfinu. Tíðni vöktunarmælinga séu viðeigandi miðað við umfang starfseminnar en hægt verði skv. gr. 2.11 í starfsleyfinu að fara fram á tíðari mælingar ef ástæða sé til.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 komi skýrt fram að skipuleggja þurfi í deiliskipulagi lóðir sem ætlaðar séu til iðnaðar­starfsemi. Í f-lið 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé iðnaðarstarfsemi skilgreint svo: „Svæði fyrir umfangsmikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem er talin geta haft mengun í för með sér, svo sem verksmiðjur, virkjanir, þ.m.t. vatnsfallsvirkjanir, jarðhitavirkjanir, sjávarfallavirkjanir og vindmyllur, tengivirki, veitustöðvar, skólpdælu- og hreinsistöðvar, endurvinnslustöðvar, brennslustöðvar, förgunarstöðvar, sorpurðunarsvæði, flokkunar­miðstöðvar og birgðastöðvar fyrir mengandi efni.“ Koparslétta 22 sé á athafnasvæði og hafi ekki verið deiliskipulögð sem lóð fyrir mengandi iðnað. Kalkslétta 1, áður D-melur 1, sé með sérstakt deiliskipulag þar sem leyfð sé iðnaðarstarfsemi með sérstökum skilyrðum. Þá sé bent á að Umhverfisstofnun hafi staðfestar upplýsingar frá Veitum ohf. um ófullnægjandi ástand fráveitu frá deiliskipulagssvæði AT5b í Kollafjörð.

———-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 6. september 2021 um að veita Íslenska gámafélaginu ehf. starfsleyfi fyrir móttöku og meðhöndlun spilli­efna að Kalksléttu 1 og Koparsléttu 22.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV í lögunum, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefi út. Í b-lið 9. tl. í viðauka II er tilgreint að Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir meðhöndlun og förgun úrgangs þar sem heimild er til meðhöndlunar á 500–2.500 tonnum af spilliefnum á ári eða til að endurmynda og nýta á staðnum 10.000 tonn af úrgangsolíu á ári eða meira. Koma sömu efnisatriði fram í reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Þá segir í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að Umhverfisstofnun veiti starfsleyfi fyrir meðhöndlun spilliefna, aðra en flutning.

Tillaga að hinu kærða starfsleyfi var auglýst í samræmi við 7. gr. laga nr. 7/1998 og gafst kæranda kostur á að koma að athugasemdum, sem og hún gerði. Meðal athugasemda kæranda vegna tillögunnar, sem einnig eru tíundaðar í kæru, eru að gefið hafi verið út starfsleyfi fyrir tvær starfsstöðvar í einu og sama starfsleyfinu, að byggingarleyfi hafi ekki verið samþykkt fyrir húsnæðið að Kalksléttu 1, að aðstæður til mengunarvarna að Koparsléttu 22 séu ekki í samræmi við bestu aðgengilegu tækni og að starfs­leyfið hafi fjallað um spilliefni sem teljist til auka­afurða dýra.

Í gr. 1.1 í hinu umrædda starfsleyfi kemur fram að rekstraraðila sé heimilt að taka á móti og meðhöndla spilliefni að Koparsléttu 22 þar til aðstaða spilliefnamóttöku að Kalksléttu 1 sé tilbúin til notkunar. Er því ljóst að um bráðabirgðaaðstöðu er að ræða í húsnæði að Koparsléttu 22, en sú lóð er við hliðina á lóð Kalksléttu 1. Verður ekki ráðið af lögum nr. 7/1998 eða reglugerðum sem settar eru á grundvelli laganna að skorður séu við því að sú starfsemi geti verið rekin í sitt hvoru húsinu á sama svæði, svo fremi að önnur lögbundin skilyrði séu uppfyllt. Þá er veiting starfsleyfis ekki háð því að byggingarleyfi hafi verið samþykkt vegna húsnæðis þess sem á að hýsa viðkomandi starfsemi. Á hinn bóginn skal tekið fram að ef húsnæðið er tekið í notkun áður en öryggisúttekt fer fram er hægt að fara fram á það við byggingarfulltrúa að beitt verði þvingunarúrræðum á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998 segir að Umhverfisstofnun skuli taka mið af BAT-niðurstöðum við útfærslu starfsleyfisskilyrða, en skv. orðskýringu 8. mgr. 3. gr. laganna er með BAT-niður­stöðu átt við tilvísun til reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 5. gr., þar sem settar eru fram niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni. Þá segir í 4. mgr. 9. gr. laganna að ákvæði um mengunarvarnir skuli taka mið af BAT-niðurstöðum þegar þær liggja fyrir. Eðli málsins samkvæmt getur starfs­leyfið ekki tekið mið af BAT-niðurstöðum nema þegar slík niðurstaða hefur verið tekin saman fyrir tiltekna starfsemi. Ekki hefur verið gefin út hér á landi BAT-niðurstaða um meðhöndlun spilliefna en í gr. 3.1 í starfsleyfinu segir að rekstraraðili skuli nota bestu aðgengilegu tækni (BAT) við mengunarvarnir, hafi hún verið skilgreind. Þá fær úrskurðarnefndin ekki séð að einhver slíkur annmarki sé á þeim starfsskilyrðum um mengunarvarnir sem mælt er fyrir um í 3. kafla starfs­leyfisins að varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Að sama skapi verður það ekki talið varða ógildi hins kærða starfsleyfis þótt mælt sé fyrir um skilyrði fyrir meðhöndlun spilliefna sem teljast til aukaafurða dýra þurfi að uppfylla, sbr. gr. 3.2 í starfsleyfinu.

Þá hefur kærandi gert athugasemd við að einungis frárennslislögn til bráðabirgða sé frá Esju­melum út í Kollafjörð þótt fjörðurinn sé skilgreindur sem viðkvæmur viðtaki. Vísar kærandi um það efni til þess sem fram kemur í umsögn skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg frá 27. nóvember 2018, vegna tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um iðnað og aðra landfreka starfsemi, að aukin mengandi starfsemi á Esjumelum muni gera enn meiri kröfur um eðli og virkni ofanvatnskerfisins og auka álag á viðkvæma viðtaka. Þá segir einnig í umsögninni að Kollafjörður sé viðtaki ofanvatns af norðurhluta Esjumela og hafi verið skilgreindur sem viðkvæmur viðtaki þótt hann sé ekki á verndarsvæði. Er því andmælt af hálfu Umhverfisstofnunar sem vísar til þess að það sé í verkahring stofnunarinnar að skilgreina viðkvæma viðtaka samkvæmt reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, en stofnunin hafi ekki skilgreint viðtakann Kollafjörð sem viðkvæman. Fram kemur í svari Veitna ohf. við fyrirspurn Umhverfisstofnunar um fráveitumál á staðnum að fyrirkomulag fráveitu sé tvöfalt fráveitukerfi með eins þreps hreinsvirki, byggt á árinu 2002, og að til standi að ráðast í frekari framkvæmdir vegna framtíðarfyrirkomulags skólphreinsunar.

Hvað sem líður ágreiningi um hvort Kollafjörður sé skilgreindur sem viðkvæmur viðtaki eða ekki er óumdeilt að umfang mengandi starfsemi á Esjumelum hefur farið vaxandi á undan­förnum árum. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fyrirkomulag fráveitna á svæðinu sé ekki í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttarins, sbr. og varúðarreglu 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Verður að telja það annmarka á hinni kærðu ákvörðun. Hins vegar verður það þó ekki talið leiða til ógildingu hennar þegar litið er til umfangs starfseminnar og þeirra skilyrða um mengunarvarnir sem mælt er fyrir um í 3. kafla starfsleyfisins.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er tekið fram að allur atvinnurekstur sem sótt sé um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Vegna umsóknar leyfishafa óskaði Umhverfisstofnun eftir upplýsingum frá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar um hvort hin umsótta starfsemi samræmdist skipulagi. Í niðurstöðu umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. ágúst 2021 kom fram að hann gerði ekki athugasemdir við starfsemi leyfishafa. Fyrirhuguð starfsemi væri „norðan vatnaskila Norður­grafarvegar“ en á því svæði mætti gera ráð fyrir starfsemi sem falli undir iðnaðarsvæði samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Taldi skipulagsfulltrúi þó rétt að starfsemi að Koparsléttu 22 yrði einungis með tímabundna heimild fyrir móttöku á spilliefnum í eitt ár þar til aðstaða yrði tilbúin að Kalksléttu 1. Umrædd móttaka á spilliefnum væri þó talin falla innan almennra heimilda um athafnasvæði.

Í 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð segir að stefna um landnotkun skuli sýnd með einum landnotkunarflokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem fellur undir fleiri en einn landnotkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem er ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Landnotkunarflokkurinn athafnasvæði er skil­greindur svo í e-lið 2. mgr. reglugerðarákvæðisins: „Svæði fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun svo sem léttur iðnaður, hreinleg verkstæði, bílasölur og umboðs- og heild­verslanir. Einnig atvinnustarfsemi sem þarfnast mikils rýmis, t.d. vinnusvæði utandyra á lóðum eða starfsemi sem hefur í för með sér þungaflutninga, svo sem vörugeymslur og matvæla­iðnaður.“ Í f-lið sama reglugerðarákvæðis er iðnaðarsvæði skilgreint sem svæði fyrir umfangs­mikla iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem sé talin geta haft mengun í för með sér og eru þar m.a. taldar upp endurvinnslustöðvar, flokkunarmiðstöðvar og birgðastöðvar fyrir mengandi efni.

Í þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 var svæðið AT5 Esjumelar upphaflega skil­greint með landnotkuninni athafnasvæði og kveðið á um að þar væri fyrst og fremst iðnaður og önnur starfsemi sem ekki hafi teljandi mengunarhættu í för með sér, s.s. verkstæði, gagnaver og vörugeymslur. Árið 2019 var gerð breyting á aðalskipulaginu þar sem við var bætt að á norðurhluta svæðisins, svæði AT5b, mætti einnig gera ráð fyrir „starfsemi sem falli undir iðnaðarsvæði, sbr. skipulagsreglugerð, en tilgreina þarf þá starfsemi sérstaklega í deili­skipulagi“ og tók sú breyting gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. september 2019. Samhliða nefndri aðalskipulagsbreytingu var gerð breyting á deiliskipulagi athafnasvæðis á Esjumelum á Kjalarnesi frá árinu 2016, en sú breyting tók gildi 13. september 2019. Í greinar­gerð deiliskipulagsbreytingarinnar segir að markmið skipulagsins sé m.a. að tryggja aukið framboð lóða fyrir mengandi iðnað sem víki af öðrum iðnaðarsvæðum. Þá kemur fram að með breytingunni verði starfsemi sem flokkist undir mengandi iðnað leyfð á lóðinni D-melar 1, sem heitir nú Kalkslétta 1. Í inngangi greinargerðarinnar eru efnisvinnslustöðvar og flokkunar­miðstöðvar teknar sem dæmi um starfsemi sem verði heimiluð með breytingunni.

Telja verður að skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, um samræmi starfsleyfis við skipulag samkvæmt skipulagslögum, séu uppfyllt hvað varðar lóð Kalksléttu 1, enda heimila áður­nefndar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og deiliskipulagi Esjumela starf­semi sem fellur undir skilgreiningu iðnaðarsvæðis samkvæmt skipulagsreglugerð.

Við mat á því hvort sömu skilyrði séu uppfyllt vegna lóðar Koparsléttu 22 er til þess að líta að fyrrnefnd deiliskipulagsbreyting tók ekki til þeirrar lóðar og er því einvörðungu heimilt að reka þar starfsemi sem fellur undir skilgreiningu athafnasvæðis samkvæmt skipulagsreglugerð. Svo sem áður greinir fellur undir athafnasvæði atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun, s.s. léttur iðnaður, hreinleg verkstæði, bílasölur og umboðs- og heildverslanir, sbr. e-lið 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð, en á iðnaðarsvæðum er gert ráð fyrir starfsemi sem talin er geta haft mengun í för með sér og flokkunarmiðstöð talin upp í dæmaskyni, sbr. f-lið sama reglugerðar­ákvæðis. Með hlið­sjón af framangreindu verður ekki talið að umdeild starfsemi, sem felur í sér móttöku og meðhöndlun spilliefna, samræmist landnotkuninni athafnasvæði í skilningi skipulagsreglugerðar. Eru því skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, um samræmi starfsleyfis við skipulag samkvæmt skipulagslögum, ekki uppfyllt með fyrirhugaðri starfsemi leyfishafa á lóð Koparsléttu 22.

 

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi að því er varðar heimild fyrir móttöku og meðhöndlun spilliefna að Koparsléttu 22. Að öðru leyti er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 6. september 2021 um að veita Íslenska gámafélaginu ehf. starfsleyfi fyrir móttöku og meðhöndlun spilliefna að því er varðar heimild fyrir starfsemi að Koparsléttu 22 á Esjumelum í Reykjavík. Að öðru leyti stendur ákvörðunin óröskuð.

7/2022 Kirkjubraut

Með

Árið 2022, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20.

 Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigandi, Kirkjubraut 18, eigandi, Kirkjubraut 18, eigandi, Kirkjubraut 17, eigandi, Kirkjubraut 16 og eigandi, Kirkjubraut 21, Seltjarnarnesi, framkvæmdir á Kirkjubraut 20, Seltjarnarnesi. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 20. janúar 2022.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar 17. september 2021 var samþykkt breyting á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæðis. Bæjar­stjórn staðfesti afgreiðsluna á fundi sínum 22. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók svo gildi 14. október 2021 við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Í breytingunni fólst skilgreining á nýrri lóð, Kirkjubraut 20, og heimild til að reisa á lóðinni hús að hámarki 560 m2 á einni hæð með samtals sex íbúðum. Hinn 7. desember 2021 gaf byggingarfulltrúi út heimild til jarðvegs­könnunar á lóðinni og 16. s.m. samþykkti hann byggingaráform og gaf út byggingarleyfi til að byggja sex íbúða sambýli á einni hæð að Kirkjubraut 20.

Málsrök kærenda: Kærendur gera athugasemd við upphaf framkvæmdar en byggingarleyfi hafi verið gefið út 16. desember 2021 en framkvæmdir hafi byrjað nokkrum dögum fyrr, áður en skilyrði byggingarreglugerðar hefðu verið uppfyllt. Endanlegur gólfkóti nýrrar byggingar sé ekki skilgreindur í samþykktu deiliskipulagi og þar með séu skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis ekki uppfyllt. Hagsmunir kærenda liggi fyrst og fremst í ákvörðun um gólfkóta byggingarinnar þar sem hæð hennar hafi veruleg áhrif á húsnæði þeirra. Jafnframt hafi það áhrif á líf þeirra hvernig framkvæmdum sé háttað. Ekki hafi farið fram kynning á fram­kvæmdinni meðal íbúa og því hafi skilyrðum 9. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða ekki verið uppfyllt. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis hafi kærendum verið tjáð að það væri á hendi bæjaryfirvalda að fylgja því eftir að skilyrði reglugerðarinnar séu uppfyllt. Kærendur hafi þurft að kalla til lögreglu til að stöðva framkvæmdir með brotvélum á tímum sem ekki sé heimilt að viðhafa slíkar framkvæmdir samkvæmt reglugerðinni. Þá sé umrætt deiliskipulag sem byggt sé á ekki endanlegt. Íbúar í fleiri húsum við götuna hafi sammælst um að styðja kæruna.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að fyrsta skóflustunga að hinum nýja búsetukjarna hafi verið tekin 8. desember 2021. Daginn áður hafi byggingarfulltrúi gefið út heimild til jarðvegskönnunar í samræmi við gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 16. desember 2021 í samræmi við gildandi deili­skipulag og samþykkta aðaluppdrætti. Á skipulagsuppdrætti sé lega nýbyggingar í landi sýnd og leiðbeinandi gólfkóti gefinn. Á aðaluppdráttum komi fram endanlegar hæðir nýbyggingar með hæðarkótum og legu húsnæðisins í landinu gerð skil. Þá hafi framkvæmdirnar og áætlaður framkvæmdatími verið kynntur í Nesfréttum og á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar.

 Niðurstaða: Fyrir liggur að 7. desember 2021 gaf byggingarfulltrúi út leyfi til jarðvegs­könnunar á lóðinni Kirkjubraut 20. Þá var byggingarleyfi gefið út vegna fyrirhugaðra fram­kvæmda á lóðinni 16. desember 2021. Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er heimilt að veita umsækjanda leyfi til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæði án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Verður ekki annað séð að framkvæmdir þær sem voru hafnar áður en byggingarleyfi var gefið út hafi verið í samræmi við framangreint ákvæði.

Markmið reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða er að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Í 9. gr. er fjallað um hávaða vegna framkvæmda og segir m.a. í 2. mgr. ákvæðisins að framkvæmdaraðili skuli kynna fyrir íbúum nærliggjandi svæða með sannarlegum hætti um háværar framkvæmdir, s.s. byggingar, gröft, sprengingar og gatnagerð á íbúðarsvæðum eða nágrenni þeirra, áður en framkvæmd hefst. Fram skuli koma tímalengd framkvæmdar, hvaða þættir hennar séu líklegir til að valda ónæði og hvenær unnið verði að þeim þáttum.

Útgefandi byggingarleyfis hefur eftirlit með því að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda, sbr. 16. gr. laga um mannvirki. Þá skulu heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaða undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar. Hafi farist fyrir að kynna framkvæmdina samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar um hávaða verður það hins vegar ekki talið hafa áhrif á gildi byggingarleyfisins þótt rétt hefði verið að kynna nærliggjandi íbúum framkvæmdina sérstaklega, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 9. gr.

Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti fyrir Valhúsahæð og aðliggjandi útivistarsvæði er byggingarmagn fyrir umrædda lóð að hámarki 560 m2 og má þar reisa hús á einni hæð með samtals sex íbúðum. Hámarksmænishæð er 4,5 m og mesta vegghæð 3,5 m. Þá er hámarks­nýtingarhlutfall 0,3. Á sniðmynd deiliskipulagsuppdráttar er gólfkóti heimilaðrar nýbyggingar 22,50. Fram kemur að gólfkótinn sé ekki bindandi og gæti breyst við frekari hönnun. Í gr. 5.5.4. í byggingarreglugerð kemur fram að skýringaruppdrætti, svo sem götumyndir, skuggavarps­teikningar og sniðmyndir, líkön og hreyfimyndir sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags. Skýringargögn samkvæmt framansögðu eru ekki bindandi nema það sé sérstaklega tekið fram. Samkvæmt framangreindu er ekki gerð krafa um að skilgreindur sé bindandi gólfkóti í deiliskipulagi.

Á aðaluppdráttum með hinu kærða byggingarleyfi er gólfkóti fyrirhugaðs húss sýndur 22,50. Hámarksmænishæð er 4,32 m og mesta vegghæð 3,42 m. Verður ekki annað séð en að hið kærða byggingarleyfi hafi verið í samræmi við framangreint deiliskipulag svo sem kveðið er á um í 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að hið kærða byggingarleyfi sé haldið þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað getur gildi þess. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk geta kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem lætur framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða eftir þörfum samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um hávaða og getur eftir atvikum beitt þvingunarúrræðum samkvæmt 12. gr. sömu reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 16. desember 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sex íbúða sambýli að Kirkjubraut 20.

176/2021 Stafafellsfjöll

Með

Árið 2022, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 176/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 11. nóvember 2021 um að víkja frá kröfu 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingar frístundahúss á lóð nr. 8 í Stafafellsfjöllum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál, er barst nefndinni 7. desember 2021, kærir eigandi lóðar nr. 7 í Stafafellsfjöllum, þá ákvörðun sveitar­stjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 11. nóvember 2021 að víkja frá kröfu 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingar frístundahúss á lóð nr. 8 í Stafafellsfjöllum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 6. janúar 2022.

Málavextir: Hinn 16. ágúst 2021 fékk byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar ábendingu um að framkvæmdir hefðu hafist við byggingu húss á lóð nr. 8 í Stafafellsfjöllum. Í kjölfarið stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdirnar á grundvelli heimilda í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Horna­fjarðar 1. september 2021 var tekin fyrir beiðni eiganda lóðarinnar Stafafellsfjöll 8 um heimild til að vikið yrði frá kröfu um breytingu deiliskipulags Stafafellsfjalla, frístundasvæðis, frá árinu 2014, vegna byggingar frístundahúss á lóðinni hvað varðaði skilmála deiliskipulags um stærð aukahúss og mænisstefnu. Var samþykkt að fela starfsmanni að vinna málið áfram. Hinn 2. september 2021 sendi byggingarfulltrúi tölvupóst á lóðarhafa aðliggjandi lóða þar sem óskað var eftir afstöðu þeirra til framkvæmdanna. Kærandi skilaði inn athugasemd þar sem lagst var gegn fyrirhugaðri stefnu aðalmænis og hæð hússins. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 5. október s.á. var bókað að nefndarmönnum yrði falið að skoða aðstæður á lóðinni. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar 3. nóvember s.á. þar sem samþykkt var að heimild yrði veitt til að víkja frá kröfu um breytingu á skipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á grundvelli 3. mgr. sama ákvæðis. Var jafn­framt bókað um að heimildin væri ekki líkleg til að hafa neikvæð áhrif á hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Var sú afgreiðsla samþykkt af bæjar­stjórn sveitarfélagsins á fundi hennar 11. s.m.

Málsrök kæranda: Í kæru gerir kærandi ekki athugasemd við að reist verði hús á lóð nr. 8 í Stafafellsfjöllum, svo lengi sem farið verði eftir gildandi deiliskipulagi og ákvæðum byggingar­reglugerðar nr. 112/2012. Lagst sé gegn fyrirhugaðri stefnu aðalmænis þar sem hún verði ósamsíða hlíðum sem séu norðaustan við lóðina. Slík staðsetning sé í ósamræmi við skýrt orðalag í greinargerð deiliskipulags svæðisins. Þá leggist kærandi gegn því að hæð þaks verði 3,39 m en slíkt sé í ósamræmi við byggingarreglugerð sem kveði á um lægra hámark þakhæðar. Þetta varði hagsmuni kæranda, sem og aðra landeigendur, þar sem ákvörðunin geti verið fordæmis­gefandi. Grenndarkynningin hafi verið meira en lítið undarleg. Landeigendur hafi fengið tölvupóst frá byggingarfulltrúa þar sem þeir hafi verið spurð út í framkvæmdirnar en ekki hafi verið tekið fram að um grenndarkynningu hafi verið að ræða. Þá séu byggingarfulltrúi og skipulags­stjóri vanhæf til að taka á máli þessu vegna tengsla við eiganda lóðar nr. 8 í Stafafells­fjöllum.

Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kærumáli þessu verði vísað frá en til vara að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi deiliskipulagsbreytingarinnar, en skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Athugasemdir kæranda lúti að fyrirhugaðri stefnu aðalmænis annars vegar og hæð hússins hins vegar. Sveitarfélaginu sé heimilt að falla frá grenndarkynningu ef byggingaráform varða aðeins hagsmuni sveitarfélagsins og umsækjanda, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eða ef hagsmunir nágranna skerðist í engu að því er varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, sbr. 3. mgr. 43. gr. sömu laga. Síðarnefnda undanþágan gefi vísbendingu um hvers konar grenndar­hagsmunir geti gefið tilefni til kæruaðildar að ákvörðunum sem teknar séu í kjölfarið og á grunni grenndarkynningar. Sveitarfélagið hafi haft þann háttinn á að senda ávallt boð um að gera athugasemdir vegna skipulagsmála í Stafafellsfjöllum á landeigendur og á þeim grundvelli hafi fyrirhugaðar breytingar verið kynntar fyrir kæranda, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, sem hafi komið að athugasemdum af því tilefni. Það eitt og sér leiði hins vegar ekki sjálfkrafa til kæruheimilar, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 33/2016. Í þessu tilfelli hafi sveitarfélagið talið að um svo óverulegar breytingar á deiliskipulagi væri að ræða að hefðbundin grenndarkynning þyrfti ekki að eiga sér stað.

Rétt sé að mænisstefna verði ekki í samræmi við leiðbeiningar deiliskipulags fyrir Stafafells­fjöll en sveitarfélagið telji það ekki hafa teljandi áhrif þar sem hæð hússins verði langt undir leyfilegri mænishæð sem sé 6 m samkvæmt skipulagi, en hæð hússins verði 3,39 m. Auk þess verði langhlið hússins styttri en leyfileg lengd skammhliðar og innan byggingar­reits. Heimild sé að byggja 120 m2 aðalhús á lóðinni.

Nefndarmenn í umhverfis- og skipulagsnefnd hafi farið á vettvang og tekið út aðstæður. Niður­staða þeirra hafi verið sú að veita bæri umsótta heimild fyrir mænisstefnu sem ekki væri í samræmi við deiliskipulag, enda sé orðalag í greinargerð með deiliskipulaginu ekki afdráttar­laust varðandi þetta þar sem fram komi að „stefna aðalmænis fylgi sem mest meginstefnu í landinu og verði að jafnaði samsíða hlíðum.“ Hagsmunir kæranda verði að teljast harla litlir og taki til að mynda ekki til landnotkunar, útsýnis, skuggavarps eða innsýnar. Fyrirhuguð bygging verði 36,1 m2 auk þess sem aukahús sé 22,3 m2 en heimilt sé að byggja 120 m2 aðalhús á lóðinni með 6 m leyfilegri mænishæð og 30 m2 gestahús.

Hafi mænisstefna átt að vera bindandi þá hefði verið æskilegt að hún væri skilgreind á upp­drætti, en að öðrum kosti sé það mat sveitarfélagsins hvort mænisstefnan sé samsíða hlíðum sem geti verið matskennd ákvörðun í fjölbreyttum aðstæðum eins og í Stafafellsfjöllum. Jafn­framt sé það mat sveitarfélagsins hvort heimilt sé að víkja frá þeim leiðbeiningum. Þá segi í greinargerðinni að frístundahús/aðalhús megi vera allt að 120 m2 og ekki minna en 30 m2. Um óverulega breytingu sé að ræða sem ekki sé háð grenndarkynningu, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Húsið verði aðeins 36,1 m2 svo langhliðar þess verði styttri en skammhliðar mættu vera og verði að öllu leyti innan byggingarreits. Stærð hússins sé vel undir stærðarmörkum sem sett séu í deiliskipulagi, stað­setning sé í samræmi við fjarlægðarmörk gagnvart öðrum lóðum og eðlilegt sé, miðað við aðstæður á lóðinni, að stafn snúi til suðvesturs. Þá sé bent á að sveitarfélagið fari með skipulagsvald í þessum málefnum.

Varðandi hæð hússins gæti misskilnings hjá kæranda um að miða skuli við ótilgreind ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hið rétta sé að miða skuli við deiliskipulag fyrir Stafafells­fjöll þar sem fram komi að leyfileg mænishæð sé sex metrar. Ekki hafi verið óskað eftir neinni breytingu á deiliskipulagi hvað varði hæð hússins. Eftir sitji að eina þrætuepli þessa máls sé mænisstefnan. Vakin sé athygli á að miðað verði við að hús sem fyrir sé á lóðinni verði aukahús og nýbygging aðalhús.

Munnlegt samkomulag sé milli sveitarfélagsins og landeigenda í Stafafellsfjöllum að þeim sé gefinn kostur á að senda inn umsagnir varðandi framkvæmdir sem fyrirhugaðar séu og hafi það verið gert í þessu tilfelli. Það ferli byggi í raun á 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga þar sem land­eigendur gætu átt hagsmuna að gæta í einhverjum tilfellum. Láðst hafi að tilgreina athugasemdarfrest í bréfum til landeigenda. Kærandi hafi þó komið sínum athugasemdum á framfæri tímanlega. Því séu ekki slíkir annmarkar á málsmeðferðinni að það eigi að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar.

Að því er varði vanhæfi skipulagsstjóra og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins sé því mótmælt að þeir hafi verið vanhæfir til að vinna í málinu þrátt fyrir að eigandi lóðar nr. 8 í Stafafellsfjöllum sé starfsmaður sveitarfélagsins á umhverfis- og skipulagssviði. Ákvarðanir um óverulegar breytingar á deiliskipulagi að því er varði mænisstefnu hússins sem um ræði séu teknar hjá umhverfis- og skipulagsnefnd og síðan í bæjarstjórn. Hvorki skipulags­stjóri né byggingarfulltrúi taki ákvarðanir um að heimila þá breytingu sem kæran fjalli um. Þá sé ekki um að ræða neinar þær aðstæður sem um sé getið í 1.-6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að því er varði vanhæfi. Í 5. tl. segi að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eigi sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Eigandi umræddar lóðar sé hvorki yfirmaður byggingarfulltrúa né skipulagsstjóra, auk þess sem hann sé ekki venslamaður neins sem að málinu hafi komið hjá sveitarfélaginu. Þá sé þáttur viðkomandi starfsmanna í málinu svo óverulegur að ekki verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi haft áhrif á ákvörðunina.

Athugasemdir eiganda lóðar nr. 8 í Stafafellsfjöllum: Eigandi lóðar nr. 8 í Stafafellsfjöllum bendir á að fyrirhugað hús verði vel innan byggingarreits en hús á lóð nr. 7 sé 2 m utan byggingar­reits. Grunnurinn hafi verið færður um 2 m til að hægt yrði að hafa 10 m á milli húsa eins og byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi til um. Búið sé að kreppa vel að byggingarreit hans sem geri það að verkum að húsið þurfi að snúa svona.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til þess að eigandi lóðar nr. 8 í Stafafells­fjöllum hafi ákveðið að kaupa fasteign án þess að kynna sér gildandi reglur. Það sé skiljanlegt að sveitarfélagið vilji koma til móts við hann af sanngirni og vinskap en það sé óhjákvæmilega gert á kostnað kæranda. Ekki sé um að ræða smávægileg frávik á deiliskipulagi. Stærð og mænis­stefna sé ekki í samræmi við ákvæði skipulagsins auk þess sem hvorki hafi verið farið eftir ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 né stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Erfitt sé að sjá hvernig skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga teljist uppfyllt í þessu tilviki en framkvæmdin hafi bersýnilega áhrif á útsýni frá lóð kæranda. Einnig rýri það verðgildi fasteignar hans. Þá hafi grenndarkynning ekki uppfyllt skilyrði 44. gr. laganna, en kynnt hafi verið fyrir land­eigendum sem hvorki búi á svæðinu né eigi fasteignir þaðan sem hægt sé að sjá þær framkvæmdir sem standi til að ráðast í. Þá hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir einstaklingi sem eigi bústað nálægt fyrirhuguðum framkvæmdum.

Viðbótarathugasemdir Sveitarfélagsins Hornarfjarðar: Bent er á að framkvæmd við byggingu frístundahúss á lóð nr. 8 í Stafafellsfjöllum sé í umfangsflokki 1 skv. gr. 1.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og því undanþegin byggingarleyfi en háð byggingarheimild byggingarfulltrúa, sbr. 1. mgr. gr. 2.3.2. í sömu reglugerð. Skilyrði fyrir veitingu byggingar­heimildar séu skilgreind í gr. 2.3.8. reglugerðarinnar. Um leið og byggingarstjóri með samþykkt gæðakerfi afhendir byggingarfulltrúa undirritaða yfirlýsingu um ábyrgð sína mun þetta skilyrði vera uppfyllt og heimildin gefin út.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 11. nóvember 2021 um að víkja frá kröfu 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingar frístundahúss á lóð nr. 8 í Stafafells­fjöllum.

Í 43. gr. skipulagslaga er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þá segir í 3. mgr. lagaákvæðisins að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndar­kynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.

Hin umdeilda ákvörðun sveitarstjórnar um að víkja frá kröfu um breytingu á deiliskipulagi var tekin á grundvelli nefndrar 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Sambærilega reglu er að finna í gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 en þar segir jafnframt að byggingarfulltrúi eða skipulags­fulltrúi geti að lokinni samþykkt sveitarstjórnar, um heimild til að víkja frá breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, sbr. gr. 5.8.2. reglugerðarinnar, afgreitt byggingarleyfið eða framkvæmdaleyfið. Frávik séu bundin viðkomandi leyfi og verði ekki sjálfkrafa hluti skipulagsskilmála. Að þeim réttarreglum virtum veitir kærð heimild hvorki leyfi til framkvæmda né felur hún í sér breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Hins vegar er ljóst að um skipulags­ákvörðun að ræða sem veitir eiganda lóðar nr. 8 rétt, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, til að fá útgefið byggingarleyfi sem víkur frá gildandi deiliskipulagi. Verður því að líta svo á að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun að ræða, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindmála og 52. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Kærandi er eigandi aðliggjandi lóðar nr. 7 og verður áformuð bygging á lóð nr. 8 í um 10 m fjarlægð frá lóðamörkum. Vegna grenndar og áhrifa byggingar­innar á útsýni frá fasteign kæranda telst hann hafa lögvarða hagsmuni af hinni kærðu ákvörðun.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Stafafellsfjalla, frístundasvæðis, frá árinu 2014. Í greinargerð skipulagsins er í kafla 2.2 að finna skipulagsskilmála um frístundalóðir, m.a. að því er varðar staðsetningu húsa, húsagerðir og húsastærðir. Segir þar að miðað sé við að húsin falli sem best að landi og að stefna aðalmænis fylgi sem mest meginstefnu í landinu og verði að jafnaði samsíða hlíðum. Jafnframt kemur fram að frístundahús/aðalhús megi að flatarmáli vera allt að 120 m2 en ekki minna en 30 m2. Þá getur aukahús/gestahús verið allt að 30 m2 en þó ekki stærra en helmingur af flatarmáli aðalhúss.

Svo sem rakið er í málavöxtum óskaði eigandi lóðar nr. 8 eftir heimild til að víkja frá kröfu um breytingu deiliskipulags vegna byggingar frístundahúss á lóð hans, en beiðni hans laut að því að vikið yrði frá skilmálum um mænisstefnu og stærð aukahúss. Stefna mænis er að mestu þvert á meginstefnu í landi miðað við þegar steyptar undirstöður. Þá kemur fram í umræddri beiðni að fyrirhugað sé að reisa 36,1 m2 frístundahús sem aðalhús og að núverandi 22,3 m2 bústaður verði aukahús.

Ljóst er að 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga er undanþáguákvæði sem ber að túlka þröngt, en orðalag ákvæðisins ber skýrt með sér að hagsmunir kæranda mega í engu skerðast hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Þrátt fyrir að skipulagsskilmáli deiliskipulagsins um mænisstefnu sé til viðmiðunar verður að telja fyrirhugað frávik verulegt miðað við megin­stefnu lands og hlíðar. Þá liggur jafnframt fyrir að stærð eldra húss lóðarinnar, sem mun verða aukahús, verður ekki í samræmi við skilmála skipulagsins um að það megi ekki vera stærra en helmingur af stærð aðalhúss. Verður því að telja að umdeild heimild sveitarstjórnar hafi áhrif á hagsmuni kæranda hvað útsýni varðar. Breytir í þeim efnum engu þótt bygging sem fylgt hefði skilmálum skipulagsins til hlítar hefði jafnframt haft áhrif á útsýni kæranda. Þá telur úrskurðar­nefndin rétt að benda á að á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 5. október 2021 sagði að umbeðnar heimildir væru „ekki líklegar“ til að hafa neikvæð áhrif á hagsmuni nágranna hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, en það uppfyllir ljóslega ekki þau ströngu skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga að hagsmunir nágranna skerðist í engu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 11. nóvember 2021 um að víkja frá kröfu 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingar frístundahúss á lóð nr. 8 í Stafafellsfjöllum.

151/2021 Úlfarsbraut

Með

Árið 2022, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 151/2021, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 7. júlí 2021 um að samþykkja deiliskipulagsbreytingu vegna lóðanna Úlfarsbrautar 100-110.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 27. september 2021, kærir eigandi, Úlfarsbraut 98, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipu­lags­ráðs Reykjavíkurborgar frá 7. júlí 2021 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu vegna lóð­anna Úlfarsbrautar 100-110. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og ef við eigi að samþykki byggingaráforma á lóðunum verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2021.

Málsatvik og rök: Auglýsing vegna samþykktar skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur­borgar á til­lögu að breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2021 og var leiðrétting birt 17. ágúst s.á. Kom þar m.a. fram að breytingin væri vegna lóðanna Úlfars­­­­­­brautar 84-88, 90-94, 100-104 og 106-110 og hefði verið samþykkt án staðfestingar borgar­­­­ráðs með vísan til a-liðar 1. gr. í viðauka 1.1. um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgöngu­­­­ráðs. Í auglýsingunni frá 9. júlí 2021 kom m.a. fram að „[auk] þess eru byggingar­reitir færðir um 1 metra frá götunni og innar á lóðina.“ Í leiðréttingunni frá 17. ágúst s.á. kom fram að í stað tilvitnaðs texta kæmi „[a]uk þess færast byggingarreitir á lóðum 84-88 og 90-94 við Úlfars­­­braut um 1 m frá götu og innar á lóðina og byggingarreitir á lóðum 100-104 og 106-110 um 70 cm í átt hvor að öðrum.“ Byggingaráform fyrir fjölbýlishús hafa verið samþykkt með áritun byggingarfulltrúa á aðal­upp­drætti vegna Úlfarsbrautar 100 og 106, 31. ágúst 2021 vegna fyrrnefndu lóðarinnar og 14. desember s.á. vegna þeirrar síðarnefndu.

Kærandi telur hagsmuni íbúa að Úlfarsbraut 98 hafa verið fyrir borð borna með því að þvingaðar hafi verið fram sömu breytingar „á nágrannalóð“ þeirra og fyrir þegar byggð hús á lóðunum Úlfarsbraut 84-94. Hús á þeim lóðum hafi verið byggð í trássi við deiliskipulag. Þau hafi verið rangt staðsett miðað við byggingarreiti, stigahús þeirra hafi verið opin og fyrir utan byggingarreiti, sem ekki hafi verið heimilt samkvæmt deiliskipulagi fyrir svæðið. Þá vísar kærandi til stuðnings kæru sinni til andmæla íbúa til borgaryfirvalda vegna fyrirhugaðrar breytingar á deili­­­skipulagi.

Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndar­innar einn mánuður. Auglýsing um breytingu á deiliskipulagi hafi verið birt í B-deild Stjórnar­tíðinda 9. júlí 2021 og leiðrétting 17. ágúst s.á. en kæra ekki borist fyrr en 27. september s.á.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auð­linda­­mála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opin­­­berri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2021 og leiðrétting 17. ágúst s.á. Rétt þykir að miða kærufrest við birtingu leiðréttingar 17. ágúst 2021 enda laut hún að efni ákvörðunarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga tekur kærufrestur að líða degi eftir opinbera birtingu ákvörðunar. Kæra vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar barst úrskurðarnefndinni 27. september 2021 og því ljóst að kærufrestur var þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kæru­máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni að því er varðar umdeilda deiliskipulagsbreytingu enda ekki talið unnt, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undantekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi telst vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Þá er jafnframt í málinu deilt um ákvarðanir byggingarfulltrúa að samþykkja byggingaráform á umræddum lóðum. Líkt og áður greinir voru byggingaráform fyrir fjölbýlishús samþykkt hinn 31. ágúst 2021 vegna Úlfarsbrautar 100 og 14. desember s.á. vegna Úlfarsbrautar 106. Sam­kvæmt sam­þykktum aðaluppdráttum eru byggingarnar í samræmi við gildandi deili­skipu­lag Úlfarsárdals. Voru hin kærðu byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mann­virkjalaga nr. 160/2010. Með vísan til þess, og þar sem ekki verður ráðið að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við töku ákvarðana um hin umdeildu byggingarleyfi, verður gildi þeirra ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar vegna lóðanna Úlfars­brautar 100-110 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvarðana byggingarfulltrúans í Reykjavík um sam­þykkt byggingaráforma frá 31. ágúst 2021 og 14. desember s.á. á lóðunum Úlfarsbraut 106 og Úlfars­braut 110.

138/2021 Hafnargata

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2021, kæra á ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 um að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndarkynn­ingu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innan húss að Hafnargötu 32, Fáskrúðs­firði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Búðavegi 24, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði 22. september 2021 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað.

 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 30. ágúst 2021.

 

Málavextir: Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 7. júní 2021 var umsókn leyfishafa lögð fram þar sem sótt var um leyfi til að byggja tvær viðbyggingar, 147,5 m2 og 652,7 m2 að flatarmáli, í kverk austan frystitækjasalar og norðan við núverandi pökkunarsal og starfsmannaaðstöðu í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 32, Fáskrúðsfirði. Kemur fram í umsókninni að bæta eigi við eimsvala norðan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði í því skyni að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í samræmi við reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Nefndin samþykkti að grenndarkynna umsóknina. Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi 24. júní s.á. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 22. júlí 2021 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 23. s.m. Þar kom fram að hljóðvist við fasteign kærenda yrði mæld að framkvæmdum loknum til að sannreyna að útreikningar um að hljóðstig yrði innan tilskilinna marka væru réttir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að hús þeirra sé einbýlishús sem standi á ódeili­skipulögðu svæði innan reitar M1, miðsvæðis, samkvæmt aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Til suð­austurs við fasteign kærenda standi vinnslustöð leyfishafa við Hafnargötu, einnig á ódeili­skipulögðu svæði en innan reitar H3/I1, sem sé hafnar- og iðnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Frá suðausturhorni húss kærenda að norðvesturhorni fasteignar leyfishafa séu um 23 m. Hávaði frá vinnslustöðinni hafi veruleg áhrif á nýtingarmöguleika og verðgildi fasteignar kærenda sem hafi allt frá því að þau hafi keypt fasteignina árið 2017 gert athugasemdir við hávaða frá starfsemi leyfishafa, án þess að gripið hafi verið til viðeigandi úrræða. Þau hafi því verulegra og einstaklegra hagsmuna að gæta í tengslum við ákvörðun um veitingu byggingarleyfis sem hafi áhrif á umfang starfsemi leyfihafa.

Óumdeilt sé að hávaði frá núverandi starfsemi leyfishafa sé meiri en heimilt sé samkvæmt reglu­gerð um hávaða nr. 724/2008. Mestur hávaði berist frá eimsvölum sem staðsettir séu við norð­vesturhorn fasteignar leyfishafa gegnt fasteign kærenda. Einnig berist hljóð frá öðrum þáttum starfseminnar, svo sem þegar slegið sé úr frystipönnum, frá öðrum tækjum og umgangi starfsfólks. Samkvæmt mælingum verkfræðistofu sem framkvæmdar hafi verið að beiðni leyfishafa 8. september 2020 hafi jafngildishljóðstig 0,5 m frá húsveggjum kærenda verið á bilinu 57,8-61,9 dB og hámarkshljóðstig farið allt upp í 74,1 dB. Samkvæmt reglugerð um hávaða skuli hávaði frá atvinnustarfsemi ekki vera yfir 50 dB við húsveggi nærliggjandi íbúðarhúsa yfir daginn, 45 dB að kvöldi og 40 dB að nóttu. Umrædd mæling hafi verið gerð að degi til en eimsvalarnir séu í gangi allan sólarhringinn.

Kærendur byggi á því að leyfishafi hafi ekki sýnt fram á að með hinum umdeildu framkvæmdum verði ráðin slík bót á þeim hávaða sem frá starfseminni berist að hún verði innan leyfilegra marka samkvæmt framangreindri reglugerð um hávaða. Þá telji kærendur að bæjarráð og eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðarbyggðar hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Sé ákvörðun um veitingu byggingarleyfis þegar af þeirri ástæðu ógildanleg.

Hávaði sem berist frá núverandi starfsemi vinnslustöðvarinnar að Hafnargötu 32-36 sé yfir leyfi­legum mörkum. Á meðan svo sé ástatt sé brýnt að leyfishafi sýni fram á með óyggjandi hætti að fyrirhugaðar breytingar muni tryggja að hávaði verði án undantekninga innan þessara marka áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum sem hafi í för með sér stækkun húsnæðis vinnslustöðvarinnar um 147,5 m2 og auki umsvif starfseminnar. Eftir að ákvörðun hafi verið tekin um að grenndar­kynna byggingarleyfisumsóknina hafi leyfishafi lagt fram minnisblað frá verkfræðistofu þar sem segi m.a.: „Frá fyrirhuguðum breytingum má búast við að hávaði verði að mestu frá eimsvala/kæliviftum. […] Í eftirfarandi útreikningum er gert ráð fyrir að jafngildishljóðstig yfir sólarhringinn frá eimsvala sé 43 dB við 70% afköst skv. framleiðanda. […] Á lóðamörkum í um 10 m fjarlægð frá eimsvala má búast við að hljóðstigið sé um Laeq 46 dB. Jafngildishljóðstigið utan við húsvegg Búðavegar 24 er áætlað um Laeq 39,5 dB.“ Í umsögn eigna,- skipulags- og umhverfis­nefndar, dags. 20. júlí 2021, sé á því byggt að með þessu minnisblaði sé nægilega sýnt fram á að tryggt verði að hávaði frá starfseminni verði innan marka reglugerðar nr. 724/2008.

Kærendur telji hins vegar skorta verulega á að fyrir liggi fullnægjandi gögn um hver raunverulegur hávaði verði frá starfseminni eftir breytingar. Umrætt minnisblað sé ýmsum annmörkum háð og þær upplýsingar sem það veiti séu alltof takmarkaðar til að á því verði byggð ákvörðun um veitingu byggingarleyfis. Þeir útreikningar sem settir séu fram í minnisblaðinu horfi aðeins til eins hljóðgjafa, þ.e. nýs eimsvala, sem fyrirhugað sé að koma fyrir við vélasal vinnslustöðvarinnar. Útreikningarnir byggi ekki á raunmælingum á þessum búnaði, heldur aðeins á upplýsingum frá framleiðanda um eiginleika hans. Slíkar grunnupplýsingar, svo sem um gerð búnaðarins, stærð hans og hljóðstig sem hann gefi frá sér við mismunandi vinnslu, komi hins vegar ekki fram í minnisblaðinu og verði heldur ekki séð að þær liggi fyrir í öðrum gögnum málsins. Eins komi ekkert fram um fyrirhugaða staðsetningu eimsvalans né hljóðstyrk við uppsprettu hljóðsins. Það sé því engin leið að sannreyna þessa útreikninga eða heimfæra þá á aðstæður við vinnslustöðina.

Þá séu niðurstöður minnisblaðsins um jafngildishljóðstig frá þessum eina hljóðgjafa, nýjum eimsvala, aðeins 0,5 dB undir þeim mörkum sem sett séu í reglugerð um hávaða. Ekkert tillit sé tekið til þess að aðrar hljóðuppsprettur hafi áhrif á heildarhávaða frá starfseminni. Jafnvel þó gengið sé út frá því að hávaði berist „að mestu frá eimsvala/kæliviftum“ eins og lagt sé upp með í umræddu minnisblaði, sé ljóst að afar lítið þurfi að bætast við svo samanlagður hljóðstyrkur fari yfir leyfileg mörk. Með hliðsjón af þessu telji kærendur minnisblaðið engan veginn sýna fram á með fullnægjandi hætti að fyrirhugaðar breytingar tryggi ásættanlega hljóðvist við fasteign þeirra. Með því að byggja ákvörðun sína alfarið á þessu minnisblaði hafi Fjarðarbyggð brugðist rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur telji það eðlilega kröfu að hljóðvist verði bætt og tryggt verði að hávaði sem frá starfseminni berist sé innan leyfilegra marka áður en leyfi verði veitt fyrir frekari framkvæmdum sem komi til með auka umfang starfseminnar. Uppsetning nýs eimsvala sé óháð öðrum byggingar­áformum og ekkert sem standi því í vegi að setja þann búnað upp áður en ráðist sé í aðrar fram­kvæmdir. Nauðsynlegt sé að sannreyna með nýjum hljóðmælingum, framkvæmdum af óháðum aðila, að hávaði frá starfseminni haldist innan leyfilegra marka áður en leyfi verði veitt fyrir framkvæmdum sem óhjákvæmilega muni auka umfang hans.

Lítið hald sé í þeim almennt orðaða fyrirvara sem settur hafi verið við veitingu byggingarleyfisins „að tryggt verði í hönnunar- og framkvæmdaferli að hljóðvist verði innan tilskilinna marka“. Fyrir liggi að framkvæmdir séu hafnar án þess að gerðar hafi verið mælingar eða lögð fram ítarlegri hönnunargögn sem staðfesti að hljóðvist verði innan leyfilegra marka. Þá hafi ekki verið sett nein skýr skilyrði um eftirlit óháðra aðila eða úttekt að þessu leyti, hvorki fyrir framkvæmdir, meðan á þeim standi né að þeim loknum. Leyfishafa virðist þannig alfarið í sjálfsvald sett hvort og að hvaða leyti þessum óljósa fyrirvara verði fylgt eftir.

Málsrök Fjarðabyggðar: Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að málsmeðferð við veitingu umdeilds byggingarleyfis hafi verið fullnægjandi og fyrirliggjandi gögn þess eðlis að forsendur hafi verið til að samþykkja framkvæmdirnar. Áréttað sé að meginreglur ógildingarfræða stjórnsýsluréttar feli í sér að ógilding stjórnvaldsákvörðunar komi ekki til greina nema að ákvörðun sé háð efnisannmarka eða að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt og að sá annmarki geti hafa haft áhrif á efni ákvörðunar. Þessi skilyrði ógildingar séu ekki uppfyllt. Þá sé bent á að meðalhófs hafi verið gætt sem birtist m.a. í því að byggingarleyfi hafi verið samþykkt með skilyrðum sem varði hags­muni kærenda.

Mikilvægt sé að huga að hlutverki stjórnvalda á grundvelli reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Reglugerðin sé sett með stoð í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Eftirlit og þvingunaraðgerðir varðandi hljóðmengun frá atvinnurekstri sé í grunninn hjá eftirlitsstjórnvöldum sem fari með starfsleyfi viðkomandi rekstrar eða heilbrigðisnefndum sveitarfélaga almennt. Það virðist því vera á valdsviði starfsleyfisveitanda að gera kröfur á starfsemi leyfishafa svo hljóðvist verði bætt.

Hins vegar sé ljóst að við útgáfu byggingarleyfa beri að líta til þýðingar framkvæmda varðandi hljóðvist, sbr. m.a. ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, einkum ákvæði 11. kafla og gr. 14.2.10. um hljóðvistarkröfur hita- og kælikerfa. Í gr. 14.2.10. komi m.a. fram að við ákvörðun á staðsetningu á pípum, tækjum og stjórnbúnaði skuli tryggt að hávaði frá þeim valdi ekki óþægindum í byggingu eða umhverfi hennar og að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist, sbr. 11. kafla reglugerðarinnar. Reyndar sé tekið fram að umdeilanlegt geti verið hvort ákvæði gr. 14.2.10. eigi við um framkvæmdir vegna uppsetningar nýs eimsvala. Líta megi svo á að þegar byggingar­reglugerð vísi til hita- og kælikerfis sé átt við kerfi sem þjóni viðkomandi byggingu. Því eigi möguleg kæli- eða hitakerfi sem séu fremur hluti af þeirri verksmiðjustarfsemi eða iðnaði sem fram fari í byggingu ekki beinlínis undir gr. 14.2. Meginreglur 11. kafla reglugerðarinnar gildi þó í öllu falli. Markmið 11. kafla séu m.a. að byggingar og önnur mannvirki skuli þannig hönnuð og byggð að heilsu og innra umhverfi sé ekki spillt af völdum hávaða og óþægindum af hans völdum sé haldið í lágmarki. Hávaði sem fólk í mannvirki eða næsta nágrenni skynji skuli vera viðunandi og ekki hærri en svo að það geti sofið, hvílst og starfað við eðlileg skilyrði.

Það verði eðli máls samkvæmt að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða hönnun bygginga varðandi hljóðvist eða áhrif tækjabúnaðar og almennrar starfsemi á hljóðvist. Áhersla byggingar­reglugerðar sé á hönnun mannvirkja varðandi hljóðvist en ekki eftirlit með þeirri starfsemi sem fari fram eða muni fara fram. Þetta birtist t.d. í c-lið gr. 11.1.3 byggingarreglugerðar þar sem segi: „Sé byggt við hús eða annað mannvirki eða hluti þess eða heild er endurnýjuð ber hönnuði að staðfesta að hljóðvist hins nýja, breytta eða endurnýjaða mannvirkis fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til hljóðvistar vegna þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er í mannvirkinu skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til.“

Það sé hins vegar ljóst að huga beri að staðsetningu tækjabúnaðar utanhúss, þ.m.t. kælikerfa, en eftirlit með tækjabúnaði eða virkni verksmiðjutækja, m.a. varðandi hljóðmengun, liggi hjá starfsleyfisveitanda. Hvað sem þessu líði sé sýnt að leyfisveitandi hafi í þessu máli byggt ákvörðun sína á tilliti til áhrifa eimsvala á hljóðvist í umhverfinu. Í umsögn byggingarfulltrúa, dags. 20. júlí 2021, sé fjallað um skipulagslega stöðu svæða sem málið varði. Í fasteign leyfishafa hafi um langa hríð verið starfrækt fiskvinnsla. Fasteign kæranda sé á skilgreindu miðsvæði en um Búðaveg séu mörk svæðanna. Ekki sé verið að breyta notkun fasteignar leyfishafa.

Það sé í verkahring þess stjórnvalds sem starfsleyfi leyfishafa heyri undir að fylgja því eftir að hávaði frá starfsemi uppfylli kröfur reglugerðar um hávaða. Leyfisveitandi þurfi hins vegar að taka til umfjöllunar byggingarleyfisumsóknir og leggja mat á þær varðandi kröfur byggingar­reglu­gerðar. Þær kröfur varði einkum hönnun mannvirkja varðandi hljóðvist og staðsetningu lagna og tæknibúnaðar með tilliti til hljóðvistar. Í þessu tilviki megi líta svo á að leyfisveitandi hafi gengið lengra en kröfur byggingarreglugerðar gangi um hvernig líta skuli til sjónarmiða um bætta hljóð­vist þegar hávaða sé að rekja til starfsleyfisskyldrar starfsemi og tækjabúnaðar sem ekki séu hluti af þjónustukerfi viðkomandi byggingar. Leyfisveitanda hafi þó verið heimilt að líta til slíkra þátta og í raun tekið tillit til áhrifa framkvæmda samkvæmt byggingarleyfisumsókn á hljóðvist, bæði vegna framkvæmdarinnar sjálfrar og varðandi heildaráhrif fyrir starfsemi á fasteign leyfishafa.

Í byggingarleyfisumsókn komi fram: „Bæta á við hljóðlátum eimsvala ofan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði ofan vélasalar til að uppfylla viðmiðunar mörkin Laeq07-19 50 dB fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í reglugerð um hávaða nr. 724/2008.“ Í minnisblaði verkfræðistofu, dags, 8. júní 2021, sé gerð grein fyrir áhrifum eimsvala á hljóðvist á grunni upplýsinga um hljóðstig tækisins frá framleiðanda. Þar komi fram eftirfarandi niðurstaða: „Miðað við framangreindar forsendur og útreikninga er talið að í öllum tilfellum mun hljóðstig frá eimsvala vera innan marka reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.“

Í afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar hafi svo komið fram að hljóðvist yrði mæld þegar framkvæmdum væri lokið og búnaður kominn í fulla virkni til að sannreyna útreikninga um að hljóðstig verði innan tilskilinna marka. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 26. júlí 2021, komi fram bein skilyrði byggingarleyfis samkvæmt bókunum eigna,- skipulags- og umhverfisnefndar og bæjarráðs. Í því felist að eftirliti yrði fylgt eftir af hálfu leyfisveitanda og að ráðin yrði bót á hávaða frá starfsemi leyfishafa svo að hún yrði innan leyfilegra marka skv. reglugerð um hávaða. Það verði áfram hlutverk eftirlitsstjórnvalda með starfsleyfisskyldum rekstri leyfishafa að gæta að því að vélbúnaður og skipulag starfsemi í heild verði með þeim hætti að kröfur reglugerðar um hávaða verði uppfylltar. Ef ástæða sé til frekari úrbóta megi gera ráð fyrir að leyfishafi þurfi þá samkvæmt athugasemdum viðkomandi eftirlitsstjórnvalds með starfsleyfi að leggja til frekari úrbætur sem mögulega geti verið byggingarleyfisskyldar þegar þar að kæmi.

Rannsókn leyfisveitanda hafi verið fullnægjandi og tekið mið af hlutverki hans samkvæmt byggingarreglugerð og þeim framkvæmdum sem sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir en gæta þurfi að hlutverki og valdsviði eftirlitsstjórnvalda með starfsleyfi varðandi heildaráhrif vélbúnaðar og skipulags starfseminnar á hljóðvist. Þar fyrir utan liggi fyrir að leyfisveitandi byggi á því með vísan til gagna að framkvæmdir séu til þess fallnar að bæta hljóðvist fyrir starfsemina í heild og setja skilyrði um að það verði kannað og brugðist við ef á þurfi að halda.

Eðlilegt sé að leyfisveitandi leggi til grundvallar upplýsingar sem umsækjandi byggingarleyfis kynni vegna umsóknar sinnar. Það sé þó matsatriði hvort og að hve miklu leyti leyfisveitandi ráðist í heildarendurskoðun slíkra upplýsinga. Löggjöf um mannvirkjagerð á Íslandi byggi með almennum hætti á því að sá sem byggi mannvirki, þ.m.t. byggingarstjóri í hans umboði, og þeir fagaðilar sem komi að hönnun og byggingu mannvirkja beri ábyrgð á þeim. Gögn og útreikningar sem séu settir fram með forsvaranlegum hætti verði því lagðir til grundvallar við leyfisveitingar nema sérstakt tilefni sé til að véfengja þau. Minnisblöðin tvö sem unnin hafi verið af verkfræðistofu séu rökstudd og feli í sér greinilegar niðurstöður sem ekki hafi verið tilefni til að endurmeta. Þá sé einnig óraunhæft að framkvæma raunmælingar á hljóðstigi frá væntanlegum eimsvala áður en hann verði tekinn í notkun. Hins vegar sé gert ráð fyrir raunmælingum eftir að búnaðurinn verði tekinn í notkun.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er því mótmælt að hávaði hafi veruleg áhrif á nýtingarmöguleika og verðgildi fasteignar kærenda. Þeim hafi verið fullkunnugt um að starfsemi færi fram að Hafnargötu 32 sem myndi framkalla hávaða þegar þau hafi keypt húsið. Bent sé á að ásett verð fasteignar kærenda hafi numið 14,5 m. kr. þegar hún hafi verið sett á sölu í október 2014. Kærendur hafi hins vegar keypt fasteignina á 24 m. kr. þann 24. júní 2017. Fæst því ekki staðist að hávaði hafi haft áhrif á verðgildi fasteignarinnar. Þá taki leyfisveitandi fram að aldrei hafi komið fram í svörum leyfishafa til kærenda að til standi að byggja nýtt hús og vinnslu á öðrum stað. Slík fjárfesting gæti numið á bilinu 5-6 ma. kr.

Eftir að kærendur hafi keypt fasteign sína hafi leyfishafi fundað með þeim og ákveðið að setja hljóðdeyfi á seinni eimsvalann strax í kjölfarið. Áður hefði verið settur hljóðdeyfir á hinn eim­svalann. Einnig sé rétt að benda á að leyfishafa sé ekki kunnugt um að kvartanir vegna hávaða hafi borist til Heilbrigðiseftirlits Austurlands vegna starfseminnar. Hávaði vegna álpanna vinnslunnar muni verða að engu með plastpönnum í nýju vinnslukerfi. Með sjálfvirkni hinnar nýju vinnslu muni hávaði frá öðrum tækjum og umgangi starfsfólks einnig minnka til mikilla muna.

Hinn nýi eimsvali, svokallaður „low noice“ eimsvali, sé sérstaklega hannaður til að vera hljóðlátur. Auk þess afkasti hann um 77% af heildarþörf frystibúnaðar. Samanlagt sé því nýi eimsvalinn og hinir eldri tveir í yfirstærð, þ.e. 38% yfir þörfinni og þurfi því ekki að keyra eldri eimsvala á eins miklu álagi og þeir séu keyrðir í dag. Hinar nýju frystivélar, eimsvali og annar búnaður sé keyptur í einu lagi og afgreiddur frá sama framleiðanda sem hluti af nýju kerfi. Fullyrðingar kærenda um að uppsetning nýs eimsvala sé óháð öðrum byggingaráformum samkvæmt umsókninni eigi því ekki við rök að styðjast.

Minnisblað frá verkfræðistofu liggi fyrir þar sem niðurstaða mælinga tilgreini að í öllum tilvikum muni hljóðstig vera innan marka reglugerðar um hávaða nr. 724/2008. Hafi kærendur ekki sýnt fram á að fyrirliggjandi útreikningar séu rangir. Afstaða kærenda virðist frekar byggja á tilfinningu þeirra án þess að nokkur gögn eða útreikningar styðji fullyrðingar þeirra um að útreikningarnir séu rangir. Að lokum sé því mótmælt að fyrirvari byggingarleyfisins hafi ekkert vægi enda muni umræddar framkvæmdir leiða til þess að hljóðvist verði innan tilskilinna marka. Leyfisveitandi hafi fullar heimildir til að knýja á um að skilyrðum í byggingarleyfi verði framfylgt í hvívetna.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32, en í húsinu er rekin fiskvinnsla. Kærendur byggja málatilbúnað sinn helst á því að hávaði frá starfsemi á fasteigninni verði yfir þeim mörkum sem getið er um í reglugerð um hávaða nr. 724/2008.

Í 4. gr. reglugerðar um hávaða kemur fram að í viðauka, töflum I-III, séu tilgreind viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá umferð ökutækja, flugumferð og hvers konar atvinnustarfsemi. Þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess jafnframt gætt að hljóðstig sé undir LAeq 55 dB(A). Á kyrrlátu svæði skal hljóðstig í þéttbýli ekki fara yfir Lden 50 dB(A). Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að rekstraraðilar atvinnustarfsemi skuli miða rekstur sinn við að hljóðstig í byggð, sem verði fyrir áhrifum af starfseminni, verði ekki yfir mörkum í töflu III í viðauka. Í töflu III er fjallað um mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi. Samkvæmt töflunni eru mörk fyrir atvinnustarfsemi gagnvart íbúðarhúsnæði á verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum LAeq 55 dB(A).

Samkvæmt þéttbýlisuppdrætti fyrir Fáskrúðsfjörð í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 er Hafnargata 32 á hafnar- og iðnaðarsvæði, H3/I1, en fasteign kærenda er á miðsvæði M1. Í framkvæmdalýsingu hinnar samþykktu byggingarleyfisumsóknar kemur fram að bæta eigi við hljóðlátum eimsvala ofan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði ofan vélasalar til að uppfylla viðmiðunarmörkin LAeq, (07-19) 50 dB(A) fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í reglugerð um hávaða. Jafnframt var tekið fram við afgreiðslu umsóknarinnar að hljóðvist við fasteign kærenda yrði mæld að framkvæmdum loknum til að sannreyna að út­reikn­ingar um að hljóðstig verði innan tilskilinna marka séu réttir.

Eðli máls samkvæmt er ekki mögulegt að mæla mun á hávaða frá starfseminni fyrir og eftir fram­kvæmdir fyrr en af þeim afstöðnum. Verður því að telja að með útreikningum á hávaða hafi málið að því leyti verið nægjanlega upplýst áður en hið kærða byggingarleyfi var samþykkt, sbr. rann­sóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mörk samkvæmt útreikningum eru undir þeim mörkum sem tilgreind eru í töflu III sem fylgir reglugerð um hávaða.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og að ekki liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið form- eða efnisannmörkum verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk geta kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem lætur framkvæma eftirlitsmælingar á hávaða eftir þörfum skv. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um hávaða og getur eftir atvikum beitt þvingunarúrræðum skv. 12. gr. sömu reglugerðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 um að samþykkja umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32.

137/2021 Austurvegur

Með

Árið 2022, föstudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson vara­formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 137/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ár­­borgar frá 13. júlí 2021 um að afturkalla ákvörðun sína frá 28. apríl s.á. vegna sam­þykkis á byggingarleyfi fyrir breyttri notkun á annarri og þriðju hæð í fjöleignar­húsinu að Austurvegi 38 og fjölgun eignar­hluta á þriðju hæð í sama húsi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. ágúst 2021, kæra Ice­land­­­­bus all kind of bus ehf. og Hamraborg 105 ehf., eigendur annarrar og þriðju hæðar í fjöl­eignar­húsinu að Austurvegi 38, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins Ár­­borgar frá 13. júlí 2021, sem tilkynnt var kæranda með tölvupósti degi síðar, um að afturkalla ákvörðun sína frá 28. apríl s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun eignar­hluta kærenda á nefndum hæðum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 10. september 2021.

Málavextir: Á lóðinni Austurvegi 38, Selfossi, stendur þriggja hæða hús með fimm séreignar­hlut­um sem eru í fasteignaskrá skráðir með notkunina „skrifstofa“. Á fyrstu hæð eru tveir sér­eignar­hlutar og hið sama á við um aðra hæð, en á þriðju hæðinni er einn séreignarhluti. Icelandbus all kind of bus ehf. er eigandi eins séreignarhluta á annarri hæð, F2243456, og er Hamra­borg 105 ehf. eigandi tveggja séreignarhluta. Er annar þeirra á annarri hæð, F2185448 og hinn á þriðju hæðinni, F2185449. Á fyrstu hæðinni eru tveir séreignar­hlutar og eru aðrir eigendur að þeim.

Annar kærenda, Icelandbus all kind of bus ehf., sótti 9. apríl 2021 um byggingarleyfi vegna breytinga á Austurvegi 38. Í umsókninni kom fram að búið væri að „innrétta 4 íbúðir á 2 og 3 hæð eða 2 á hvorri hæð“ og að sótt væri um „breytta skráningu eða úr skrifstofuhúsnæði í íbúðar­húsnæði.“ Umsókninni fylgdi óundirritaður aðaluppdráttur þar sem íbúðirnar og stærðir þeirra voru sýndar og kom þar jafnframt fram að gera skyldi nýjan eignaskiptasamning um eignina. Á aðaluppdrættinum var jafnframt sýnd skráningartafla þar sem skráðar voru tvær íbúðir á þriðju hæð, nr. 0301 og 0302, flatarmál þeirra tilgreint og rúmmáli fjöleignarhússins skipt á milli sex eignarhluta í húsinu í séreign og sameign. Samþykki f.h. Hamraborgar 105 ehf. barst byggingarfulltrúa 26. apríl s.á. með tölvupósti og kom þar fram að staðfest væri „samþykki fyrir þeim breytingum á skrifstofuhúsnæði yfir í íbúðarhúsnæði að Austurvegi 38 Selfossi.“

Framangreind umsókn var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Sveitar­félagsins Ár­borgar að morgni 28. apríl 2021. Í fundargerð kom fram að sótt væri um leyfi til að breyta notkun á annarri og þriðju hæð fjöleignarhússins þannig að þar verði fjórar íbúðir. Þá kom þar m.a. fram að samþykki meðeiganda lægi fyrir og að byggingaráformin væru samþykkt með fyrir­­vara um skil á skráningartöflu og gátlista. Síðar sama dag gerðu fulltrúar eigenda sér­eignar­­hlutana á fyrstu hæð athugasemdir við framangreinda afgreiðslu byggingarfulltrúa í tölvu­­póstum og kom m.a. fram að samþykki meðeiganda lægi ekki fyrir. Í svari byggingar­fulltrúa til annars þeirra kom fram „[þ]arna hef ég hlaupið á mig. Ég kallaði eftir samþykki með­­eigenda frá umsækjenda og fékk sent samþykki meðeiganda á efri hæðum, gætti ekki að jarð­­hæðinni. Reyni að bæta úr þessu.“ Í kjölfarið fór fulltrúi annars eiganda á jarðhæðinni fram á að málið yrði endurupptekið. Þann sama dag sendi byggingarfulltrúi kærendum tölvupóst þar sem hann fór fram á að samþykki annarra meðeiganda að fjöleignarhúsinu yrði framvísað og minnti á skráningartöfluna.

Hinn 13. júlí 2021 endurupptók byggingarfulltrúi framangreinda ákvörðun sína með vísan til 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var nánar tilgreint að ákvörðunin hefði verið byggð á ófull­nægj­andi upplýsingum og að samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 41 gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 yrði varan­leg skipting séreignar í fleiri einingar ekki gerð nema með samþykki allra eigenda fjöl­eignar­­húss.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að skv. 1. mgr. 23 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé stjórnvaldi óheimilt að breyta ákvörðun eftir að hún hafi verið tilkynnt málsaðilum nema um sé að ræða leiðréttingu á bersýnilegum villum. Almennar málsmeðferðarreglur gildi við endur­upp­­­­­­­töku og afturköllun mála og hefði byggingarfulltrúa borið að vekja athygli kærenda á því að mál þeirra væri til meðferðar og gefa þeim færi á að kynna sér og koma á framfæri sjónar­mið­­um sínum áður en ákvörðun um afturköllun væri tekin. Þá sé aftur­köllun aðeins heimil skv. 25. gr. sömu laga sé það ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðunin sé ógildanleg. Af til­kynningu bygg­ingar­­fulltrúa sé ljóst að hann hafi að eigin frumkvæði endur­upp­tekið mál kærenda með vísan til 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Byggingarfulltrúa hafi verið það óheimilt „enda myndi rísa óviðunandi réttaróvissa ef stjórnvöld hefðu frjálsar hendur um það hvort og hvenær þau tækju ákvarðanir til endurskoðunar.“ Þá hafi tilvísun byggingar­fulltrúa til þess að ákvörðunin hefði verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum ekkert gildi þar sem byggingar­­full­­­trúi hefði engin ný gögn eða upplýsingar fengið frá því að ákvörðunin var tekin 28. apríl 2021 og þar til málið var endurupptekið 13. júlí s.á. Jafnframt séu ákvæði laga um fjöl­­­eignar­­­hús nr. 26/1994 ekki á valdsviði byggingarfulltrúa. Þá mót­mæli kærendur því að fjölgun eignar­hluta hafi falist í framangreindri samþykkt byggingar­áforma. Fyrir­­huguð rými á þriðju hæð hússins séu og verði í eigu sama aðila og muni sama fjöl­skylda nýta alla hæðina þrátt fyrir að henni verði tímabundið skipt upp í tvö rými. Aðrir eigendur eigi ekki hags­­muna að gæta af því að fá bygg­ingar­­­áformunum hnekkt þó svo að þriðju hæð yrði skipt í tvær not­­kun­­­ar­­einingar enda væri það einvörðungu til samræmis við skiptingu rýma á fyrstu og annarri hæð húss­ins.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar er bent á að kær­endur hafi óskað eftir samskonar breytingu á fasteigninni vorið 2020 og þá verið upplýstir um að farið yrði fram á að samþykki allra eigenda hússins lægi fyrir áður en fallist yrði á breytingu á fjölda sér­­eigna í húsinu. Í umsókn kærenda frá 9. apríl 2021 hafi ekki komið fram að breyting yrði á fjölda séreignarrýma. Þá hafi samþykki meðeigenda fylgt umsókninni en láðst hafi að geta þess að aðeins væri um að ræða hluta þeirra. Hinn 28. apríl s.á. hafi verið gefið út „bráða­­­­­birgða sam­þykki fyrir breyttri notkun húsrýmis að Austurvegi 38“ með fyrirvara um að skila þyrfti skráning­ar­töflu og gátlista og jafnframt upplýst um að byggingarleyfi yrði ekki gefið út fyrr en tilskildum gögnum samkvæmt byggingarreglugerð ásamt undirrituðum aðal­upp­­­­dráttum væri skilað. Í kjölfar birtingar fundargerðar afgreiðslufundar byggingar­fulltrúa 28. apríl 2021 hafi eigendur á fyrstu hæð hússins, þann sama dag, gert athugasemdir við afgreiðslu byggingar­­full­trúa og bent á að ranglega væri farið með að samþykki með­eigenda lægi fyrir. Síðar þann sama dag hafi byggingarfulltrúi sent tölvupóst til fulltrúa kærenda og farið fram á að sam­­þykki annarra meðeigenda yrði lagt fram. Í kjölfarið hafi byggingarfulltrúa borist fundar­­gerð hús­­fundar frá 7. maí 2020 þar sem fram hafi komið að 67% eigenda væru samþykkir breytingu á hag­­nýtingu skrif­stofu­­húsnæðis á annarri og þriðju hæð í íbúðir. Ekki hafi verið vikið að því að verið væri að fjölga eignar­­hlutum hússins, en fjölgun séreignarhluta í fjölbýli krefjist sam­þykkis allra eigenda, sbr. 4. tl. a-liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Endur­upptaka byggingarfulltrúa á ákvörðun sinni skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið byggð á athugasemdum og beiðni eigenda fyrstu hæðar hússins frá 17. maí 2021. Byggingar­­­fulltrúi hafi jafnframt talið ákvörðunina geta verið afturkallanlega skv. 25. gr. stjórn­sýslu­­laga enda hafi verið verulegur ágalli á þeirri ákvörðun að veita skilyrt sam­þykki fyrir breytingunum þar sem samþykki meðeigenda skorti. Þá hafi afturköllunin ekki verið til tjóns fyrir kærendur enda höfðu önnur skilyrði sem sett höfðu verið fyrir samþykkinu ekki verið upp­­fyllt. Kærendum hafi gefist færi á að koma að frekari gögnum og sjónarmiðum í kjölfar tölvu­­pósts byggingarfulltrúa í lok dags 28. apríl 2021. „Var kærendum þannig frá því tíma­marki ljóst að til stæði að binda endanlegt samþykki byggingar­fulltrúa því skilyrði að sam­þykki allra eigenda lægi fyrir.“ Eftir á að hyggja kunni að vera að heppilegra hefði verið að greina skýrar frá því að mögulega yrði að endurupptaka fyrri ákvörðun í ljósi þess en engu að síður hafi kærendum verið kunnugt um ferli málsins, þær kröfur sem gerðar væru til samþykkis með­eigenda og að þeir gætu komið athugasemdum og gögnum á framfæri við byggingar­fulltrúa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti afturköllunar á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitar­­félagsins Ár­­borgar að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun sér­eignar á annarri og þriðju hæð fjöleignarhússins að Austurvegi 38 „þannig að þar yrðu fjórar íbúðir“. Stóð annar kærenda einn að umsókninni en hinn veitti sam­þykki sitt fyrir breytingunni. Eigandi þriðju hæðar var því ekki umsækjandi um bygg­ingar­­leyfið en báðir eigendur sér­eignar­hluta á annarri og þriðju hæð standa að kæru í málinu. Hin kærða ákvörðun var tekin að undangenginni endur­upp­­töku fyrri ákvörðunar samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að beiðni full­trúa eiganda annars eignarhluta á fyrstu hæð umrædds húss sem komið hafði verið á fram­færi við byggingarfulltrúa í tölvupósti 28. apríl 2021. Fram er komið að byggingarfulltrúi hafi jafn­­­framt talið skilyrði fyrir afturköllun máls samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga uppfyllt í máli þessu.

Af greindri umsókn og ákvörðun bygg­ingar­fulltrúa frá 28. apríl 2021 verður ekki annað ráðið en að sótt hafi verið um fjölgun sér­eignar­hluta á þriðju hæð í fjöleignarhúsi því sem hér um ræðir og að byggingarfulltrúi hafi samþykkt þá tilhögun, en óundirritaður aðaluppdráttur sem fylgdi um­sókninni ber með sér ráðagerð um að í húsinu yrðu sex eignarhlutar eftir breytingu en ekki fimm eins og fyrir eru. Þær breytingar sem samþykktar voru með ákvörðun byggingar­fulltrúa voru því tvíþættar, annars vegar að breyta notkun séreignarrýma kærenda úr skrif­stofu­­­hús­­­­næði í íbúðarhúsnæði og hins vegar að fjölga eignarhlutum á þriðju hæð.

Í 1. mgr. 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnota­hafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Hins vegar kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að sé um að ræða breytta hagnýtingu sem ekki sé veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meirihluta miðað við fjölda eignarhluta liggi fyrir. Kærendur lögðu fram samþykki 67% eigenda að Austurvegi 38 fyrir breyttri notkun á umræddum rýmum. Framangreind breyting á hagnýtingu séreignar verður ekki talin veruleg og þ.a.l. byggði ákvörðun byggingarfulltrúa hvað þann þátt varðaði ekki á ófullnægjandi upp­lýsing­um og verður ekki ráðið að sú ákvörðun sé ógildanleg.

Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga um fjöleignarhús er varanleg skipting séreignar í sjálfstæðar notkunareiningar, án þess að sala sé fyrirhuguð, háð samþykki allra eigenda og því að gerð sé ný eignaskiptayfirlýsing og henni þinglýst. Slíkt samþykki lá ekki fyrir vegna skiptingar eins séreignar­hluta á þriðju hæð umrædds fjöleignarhúss í tvo og var ákvörðun þess efnis því ógildanleg. Var byggingarfulltrúa rétt að endurupptaka fyrri ákvörðun sína frá 28. apríl 2021 þar sem hún byggði á því að samþykki meðeigenda fyrir fjölgun séreignarhluta í umræddu húsi lægi fyrir, en líkt og fram kom í málavaxtalýsingu greindi byggingarfulltrúi fulltrúa annars eigenda á fyrstu hæð fjöleignarhússins frá því að hann hefði kallað eftir því frá umsækjanda að hann legði fram samþykki meðeigenda, en hafi ekki gætt að því að samþykki eigenda á fyrstu hæð hafi skort.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 13. júlí 2021 að afturkalla fyrri ákvörðun sína frá 28. apríl s.á. felld úr gildi að því er varðar heimild til breyttrar notkunar umræddra séreignarhluta úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

 Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 13. júlí 2021 að því er varðar afturköllun fyrri ákvörðunar hans frá 28. apríl s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun séreignarhluta kærenda í fjöleignarhúsinu að Austurvegi 38. Að öðru leyti stendur ákvörðunin óröskuð.