Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2022 Aflífun hunds

Árið 2023, miðvikudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2022, kæra á ákvörðun sveitarfélagsins Fjallabyggðar frá 19. ágúst 2022 um að aflífa hundinn X. 

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál, dags. 26. ágúst 2022, er barst nefndinni 29. s.m. kærir A, þá ákvörðun sveitarfélagsins Fjallabyggðar frá 19. ágúst 2022, að aflífa hund hennar. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá sveitarfélaginu Fjallabyggð 22. september 2022.

 Málavextir: Hinn 18. ágúst 2022 barst lögreglunni á Norðurlandi eystra símtal frá lækni á Siglufirði um að hann hafi verið að annast bitsár á hendi manns eftir hund og um töluverða áverka væri að ræða. Að sögn þess er fyrir árásinni varð, fyrir lögreglu, hafði hundurinn verið í taumi en mikill órói verið í honum. Þegar árásarþoli hafi gengið út af bensínstöð þar sem atvikið átti sér stað hafi hundurinn rifið sig lausan frá umráðamanni og stokkið á hann og bitið. Hann hafi fengið þrjú sár, tvö á handarbak og annað í lófa. Í framhaldinu hafði varðstjóri lögreglu samband við deildarstjóra tæknideildar hjá Fjallabyggð,  sem ber ábyrgð á eða fer með verkefni hundaeftirlitsmanns á Siglufirði sem tjáði varðstjóra að tveir starfsmenn frá sveitarfélaginu myndu fara með lögreglu og fjarlægja hundinn af heimilinu.

Lögregla hafði samband við skráðan eiganda hundsins og tjáði honum að samkvæmt reglum um hundahald í Fjallabyggð yrði að fjarlægja hundinn af heimilinu og koma í vörslu hundaeftirlitsmanns og síðan yrði metið hvort hundurinn yrði aflífaður. Var hundurinn síðan sóttur af varðstjóra og starfsmönnum Fjallabyggðar. Fram kemur  í skýrslu lögreglu að starfsmenn sveitarfélagsins kváðust þekkja til hundsins og sögðu hann stórhættulegan. Nágrannar hundsins þyrðu ekki að hengja föt út á snúru og börn ekki leika sér nálægt þar sem það væru allir hræddir við hann.

Starfsmenn sveitarfélagsins sögðu varðstjóra að fara ætti með hundinn til dýralæknis á Akureyri og þá yrði tekin ákvörðun um afdrif hans. Hundurinn hafi verið mjög æstur og að beiðni starfsmanna Fjallabyggðar var settur á hann múll og hundurinn síðan vistaður í búri. Samkvæmt lögregluskýrslu var aðili á heimili hundsins  spurður að því hvort þau vildu kveðja hann ef svo færi að hann yrði svæfður og svaraði heimilismaðurinn  því neitandi. Samkvæmt lögregluskýrslu fékk dýralæknir sem tók á móti hundinum á dýralæknaþjónustu á Akureyri fyrirmæli frá yfirmanni sínum um að skoða ekki hundinn ein. Yfirmaðurinn hafiþekkt til hundsins þar sem hún þjónusti Fjallabyggð í ormahreinsun og að hann væri styggur, óútreiknanlegur og hugsanlega hættulegur. Í framhaldi hafi verið tekin ákvörðun um að lóga hundinum með vísan til 10. gr. reglna um hundahald í Fjallabyggð og þeirri ákvörðun framfylgt. Lögregla hafði síðan samband við skráðan eiganda hundsins sem óskaði eftir að rætt yrði við dóttur hans, sem væri eigandi hundsins, og var henni í því samtali m.a. bent á að kæra mætti ákvörðun um aflífun hundsins, en „reglurnar væru svona“ og hundurinn yrði aflífaður. Óskaði kærandi eftir að fá að sjá hundinn og var henni bent á að síma til dýralæknisins. Hundurinn var deyfður þegar hann kom á dýralæknaþjónustuna og síðar um kvöldið var hann aflífaður.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur að umræddan dag, þegar hundurinn hafi bitið í handlegg eldri manns, hafi hundurinn verið sérstaklega spenntur og kátur. Foreldrar kæranda hafi komið heim daginn áður eftir mánaðarlanga dvöl erlendis og hundurinn hafi ætíð verið háður þeim. Um sé að ræða 9 ára gamlan fjölskylduhund sem hafi alla tíð verið hluti af heimilisfólkinu og alvanur börnum og gamalmennum án þess að nokkuð hafi komið upp á. Hann gelti eins og kyn hans eigi til en hafi almennt verið vinalegur, án skapgerðarbresta og ekki sýnt af sér árásargirni í garð fjölskyldumeðlima né gesta á heimili fjölskyldunnar. Engar kvartanir hafi borist kæranda vegna hundsins nema einu sinni þar sem starfsmaður Fjallabyggðar hafi beðið kæranda um að hreinsa upp hundaskít í eigin garði sem hafi verið vel sýnilegur vegna snjófargs.

Meginreglur stjórnsýsluréttar hafi ekki verið virtar við meðferð málsins og ekki hafi verið farið eftir samþykkt um hundahald í Fjallabyggð nr. 631 frá 2. júlí 2012. Í samþykktinni sé kveðið á um að lögreglustjóri og hundaeftirlitsmaður taki ákvörðun um hvernig farið skuli með hunda sem teknir hafi verið í vörslu. Ljóst sé að enginn starfandi hundaeftirlitsmaður sé í Fjallabyggð og að ekki liggi fyrir hvort að lögreglustjóri hafi verið á vakt þetta kvöld eða hvort almennur lögreglumaður hafi átt þátt í umræddri ákvörðun. Að auki hafi ákvörðunin verið tekin með stuttum fyrirvara án þess að kannað hafi verið hver væri skráður eigandi hundsins þar sem ekki var haft samband við hana út af málinu. Einnig hafi hundurinn verið fjarlægður út af heimilinu og aflífaður á svo stuttum tíma að ólíklegt sé að náðst hefði að framkvæma einhvers konar skapgerðarmat eða atferlisskoðun sem réttlætti ákvörðunina. Hafi þar af leiðandi ranglega verið staðið að ákvörðuninni.

Brotið hafi verið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf. Um hafi verið að ræða íþyngjandi ákvörðun og hafi ekki verið gætt að því að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn bæri til. Þá hafi fjölskyldunni ekki gefist tækifæri til að kveðja hundinn og andmælaréttar skv. 13. gr. stjórnsýslulaga ekki verið gætt. Hefði kæranda verið veittur sá réttur hefði hann verið nýttur til þess að krefjast skapgerðarmats og/eða atferlisskoðunar á hundinum.

Að öllu þessu virtu og ekki síst því að aldrei var haft á fullnægjandi hátt samband við sjálfan eiganda hundsins, hafi skort lagastoð fyrir fyrirvaralausri aflífun hans og verulegir annmarkar verið á meðferð málsins.

Málsrök sveitarfélags Fjallabyggðar: Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt lögregluskýrslu hafi eigandi hundsins verið upplýstur um það strax hvaða afleiðingar bit hundsins gæti haft. Var honum tjáð að til þess gæti komið að hundinum yrði lógað. Eiganda hundsins hafi jafnframt verið boðið að kveðja hundinn, færi svo að hann yrði aflífaður, sem hann kaus að gera ekki. Eins og fram komi í lögregluskýrslunni hafi hundurinn verið æstur og eigendur hans verið beðnir um að setja hann í búr og hafa á honum múl. Hið sama hafi verið upp á teningnum þegar komið var með hundinn til dýralæknis.

Kærandi sé ekki skráður eigandi hundsins og eigi því enga lögvarða hagsmuni af úrlausn þess, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Skráður eigandi hundsins sé faðir kæranda sem sótt hafi um leyfi til hundahalds 6. janúar 2014 og fengið útgefið leyfisbréf 16. s.m. og að auki fengið útgefið tryggingarskírteini vegna hundsins. Sé því ljóst að vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni.

Það mat Fjallabyggðar að nauðsyn bæri að aflífa hundinn hafi byggt á mati dýralæknis sem kannaðist við hundinn og taldi hann stórhættulegan. Ráðlagði hún vakthafandi dýralækni að gera ekki tilraun til þess að nálgast hann eða eiga við hann nema að einhver hefði á honum fullkomna stjórn. Samkvæmt 10. gr. samþykktar um hundahald í Fjallabyggð sé það í höndum lögreglustjóra og hundaeftirlitsmanns að taka ákvörðun um hvernig fara skuli með hunda sem talin er hætta af og hunda sem ráðist hafa á fólk. Ljóst sé að um alvarlega árás hafi verið að ræða eins og fram komi í lögregluskýrslu og hafi læknir á Siglufirði tilkynnt málið til lögreglu og tekið fram að um töluverða áverka hafi verið að ræða. Eftir samráð við lögreglu og dýralækni var það ákvörðun Fjallabyggðar að aflífa hundinn.

Kæra málsins virðist byggð á þeim misskilningi að kærandi sé eigandi hundsins og að mikið sé gert úr því að hvorki hafi verið haft við hana samráð né samband meðan á ferlinu stóð. Slíkt sé þó skiljanlegt í ljósi þess að kærandi sé ekki skráður eigandi hundsins samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafi verið fram í málinu og séu einu gögnin sem til séu í fórum Fjallabyggðar um eignarhald hundsins og  styðjast beri við. Eins og gögn málsins beri með sér hafi strax verið haft samband við skráðan eiganda hundsins. Það sé því ekki rétt að eigandi hundsins hafi ekki verið upplýstur um það hvað stæði til og hugsanlegar afleiðingar þess að hundurinn hafi bitið eða að eigandi hundsins hafi ekki verið viðstaddur þegar hundurinn var fjarlægður. Að sama skapi fáist það vart staðist að eigandi hundsins hafi ekki haft tækifæri til að koma að andmælum eða gæta hagsmuna sinna.

Því sé sérstaklega mótmælt að deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar hafi ekki haft umboð til þess að taka ákvörðun um að aflífa hundinn og ljóst sé af gögnum málsins að haft var samband við lögreglustjóra í gegnum allt ferlið. Þá hafi bæði almennir lögreglumenn sem og löglærður fulltrúi embættisins á Norðurlandi eystra komið að málinu. Í lögregluskýrslu sé vísað til „E.Þ“ sem sé væntanlega löglærður fulltrúi við embættið.

Fjallabyggð hafnar ásökunum þess efnis að í ferlinu hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga, enda sé skýr heimild í 10. gr. samþykktar um hundahald í Fjallabyggð að aflífa hunda sem talin er stafa hætta af sem og hunda sem ráðist hafi á menn eða skepnur, að höfðu samráði við dýralækni. Í gildandi samþykkt um hundahald í Fjallabyggð megi finna reglur í 10. og 11. gr. um það hvernig skuli fara að í málum sem þessu og ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til þess að ætla að eitthvað hafi verið athugasamt við vinnslu þess innan stjórnsýslu Fjallabyggðar.

Með vísan til alls þessa telur Fjallabyggð að vísa beri málinu frá nefndinni en að öðrum kosti að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Þann 4. október sl. barst úrskurðarnefnd beiðni þess efnis að T, fái að taka við sem aðili máls af dóttur sinni D. Fram kom að D, dóttir T, hafi verið einungis 17 ára þegar hún eignaðist hundinn og hafi faðir hennar því verið skráður fyrir tryggingum og gjöldum vegna hundsins. D hafi þó ávallt verið skráður eigandi hundsins hjá dýralækni. Kröfur T, voru þær sömu og í upprunalegri kæru til nefndarinnar, þ.e. að ákvörðun um að aflífa þegar í stað hundinn K, verði felld úr gildi.

Kærandi bendir á að hann sé fæddur og uppalinn í Rúmeníu og tali ekki íslensku. Þar af leiðandi hafi hann ekki skilið allt sem fram hafi farið í samskiptum hans við yfirvöld þann 19. ágúst s.l. Hann kannist ekki við að fjölskyldunni hafi verið boðið að kveðja hundinn ef til aflífunar kæmi. Hann hafi staðið í þeirri trú að til stæða að geyma hundinn, framkvæma atferlismat á honum og í framhaldinu yrði ákvörðun tekin eftir að fjölskyldunni gæfist kostur á að koma sínum sjónarmiðum að.

Kærandi hafi sérstaklega óskað eftir því eins og fram komi í lögregluskýrslu að lögregla ræddi við dóttur sína, sem verið hafi raunverulegur eigandi hundsins. Einnig komi fram í skýrslunni að hún hafi sérstaklega spurt hvort að þau gætu eitthvað gert til þess að koma í veg fyrir aflífun og var henni tjáð að þau gætu kært ákvörðunina. Skömmu síðar hafi hins vegar verið búið að aflífa hundinn. Þau samskipti sem kærandi  hafi átt við yfirvöld voru því eftir að búið var að fjarlægja hundinn af heimilinu og sennilega um það leyti sem verið var að aflífa hann. Ástæða þess að óskað var eftir því að lögregla ræddi við dóttur hans var að hann skildi ekki allt sem fram fór í samskiptum sínum við yfirvöld. Var honum ekki boðinn túlkur á nokkrum tímapunkti.

Ítrekað sé að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið fylgt. Þá komi fram í skýrslu dýralæknaþjónustunnar að starfsmenn hafi ekki haftsérmenntun til að framkvæma atferlismat. Eins og fram komi í skýrslunni hafi hundurinn verið mjög stressaður og hræddur. Komið hafi verið með hann til dýralæknis um kl. 21 að kvöldi. Á þeim tíma hafi hundurinn verið í vörslu starfsmanna Fjallabyggðar í 1-2 tíma, í búri með ól, múl og taum. Dýralæknir hafi tekið skýrt fram við varðstjóra hjá lögreglunni að ekki hafi verið hægt að framkvæma skoðun á hundinum, en samt sem áður hafi verið búið að aflífa hann þegar dóttir hans hringdi kl. 22.11 sama kvöld.

Áréttað sé að ekki hafi verið kvartað undan hundinum sem hafi verið vænn fjölskylduhundur í 9 ár. Frekar virðist sem einhverskonar orðrómur hafi orðið til þess að hundurinn hafi verið stimplaður „stórhættulegur“. Því veki það furðu að sveitarfélagið hafi ekki beint kvörtun til eigenda á einhverjum tímapunkti með áskorun um úrbætur svo sem um hlýðninámskeið eða annað. Í greinargerð dýralækna segi að dýralæknir hefði hitt hundinn í aðeins eitt skipti við ormahreinsanir og þar hafi hann sýnt af sér ógnandi hegðun. Í lögregluskýrslu er þetta skráð sem svo að yfirmaður vakthafandi dýralæknis hafi sagst „þekkja“ hundinn þar sem hún þjónustaði Fjallabyggð með ormahreinsun og fleira og að þessi hundur væri styggur, óútreiknanlegur og hugsanlega hættulegur. Það fylgdi þó ekki sögunni hvort að þetta eina skipti við ormahreinsun hafi verið þegar hundurinn var ungur eða hvort að um nýlegt atvik væri að ræða.

Kærandi ítrekar að lagastoð fyrir fyrirvaralausri aflífun hundsins hafi skort og að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins og því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar heilbrigðisyfirvalda Fjallabyggðar að aflífa hund kæranda.

Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Ljóst er að umræddur hundur hefur nú þegar verið aflífaður. Úrskurðarnefndin telur engu að síður, eins og atvikum er hér háttað, að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar.

Samþykkt um hundahald í Fjallabyggð nr. 631 frá 2 júlí 2012, á sér stoð í þáverandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. núverandi 59. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um heimild heilbrigðisnefndar og heilbrigðisfulltrúa til að knýja á um framkvæmdir samkvæmt lögunum, reglugerð og samþykktum sveitarfélaga með ákveðnum þvingunar-úrræðum. Hins vegar geymir lagagreinin ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um aflífun dýra. Í 65. gr. laga nr. 7/1998 er sett kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga.

Við meðferð þessa máls var óskað breyttrar aðildar að málinu, þ.e. að skráður eigandi hundsins, tæki við aðild þess af dóttur sinni sem verið hafi raunverulegur eigandi hundsins. Var fallist á þetta af hálfu nefndarinnar.

Í 10. gr. samþykktar um hundahald í Fjallabyggð eru sett fyrirmæli um hvernig fara skuli með hættulega hunda, en til þeirra teljast hundar sem „hætta stafar af“ og hundar sem „ráðast á menn og skepnur“. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal tilkynna slíka hunda til lögreglu þegar í stað, fjarlægja þegar í stað og færa í vörslu hundaeftirlitsmanns. Séu hundar teknir í vörslu skulu lögreglustjóri og hundaeftirlitsmaður taka ákvörðun um það hvernig með þá skuli farið. Síðan segir: „Heimilt er að afturkalla leyfi og fyrirskipa aflífun hættulegs hunds, að höfðu samráði við dýralækni.“ Í 11. gr. samþykktarinnar er kveðið á um að sé óskráður hundur eða hættulegur hundur fjarlægður, skuli honum komið í vörslu hundaeftirlitsmanns sem skuli sjá um geymslu og fóðrun hunda á kostnað eiganda fram að afhendingu, nema um sé að ræða hund sem skuli aflífaður skv. 10. gr.

Svo sem greinir hér að framan var umræddur hundur tekinn af hundaeftirlitsmanni úr vörslu skráðs eiganda í framhaldi tilkynningar læknis um töluverða áverka eftir bit. Var þetta gert í samráði við skráðan eiganda hundsins, svo sem rakið er í lögregluskýrslu. Var þessi málsmeðferð samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar um hundahald, en boðað var um leið að tekin yrði ákvörðun um hvort hundurinn yrði aflífaður svo sem þar er gert ráð fyrir. Við þetta hefur kærandi gert athugasemd. Hann hefur borið fyrir sig takmarkaða kunnáttu í íslensku. Hann hafi talið að til stæði að geyma hundinn, að framkvæmt yrði svokallað atferlismat á honum og í framhaldi tekin ákvörðun eftir að fjölskyldunni gæfist kostur á að koma sínum sjónarmiðum að. Þessum viðhorfum lýsti kærandi hvorki fyrir lögreglu né starfsmönnum Fjallabyggðar svo séð verði af málsgögnum. Þá er ekkert bókað í lögregluskýrslu um hvort tungumálaörðugleikar hafi hamlað samskiptum. Af þessu tilefni má taka fram að ekki er tiltekið í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 að sveitarfélagi beri að bjóða þjónustu túlks við samskipti sín við íbúa.

Í bæði skýrslu lögreglu og skýrslu dýralækna, sem liggja fyrir í málinu, kemur fram að það hafi verið sameiginleg ákvörðun lögreglustjóra og hundaeftirlitsmanns að aflífa hundinn svo sem gert er ráð fyrir í samþykktinni. Verður að telja að deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar hafi haft stöðuumboð til þess að taka slíka ákvörðun, en fram hefur komið af hálfu sveitarfélagsins að hann beri ábyrgð á hundaeftirliti. Í samþykktinni er gert ráð fyrir því að haft sé samráð við dýralækni í tengslum við slíka ákvörðun.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að skylt hafi verið að framkvæma svokallað skapgerðarmat á hundinum. Í þessu sambandi hefur af hálfu kæranda verið vísað til þess sem segir í áðurnefndri skýrslu dýralækna að starfsmenn dýralæknaþjónustunnar á Akureyri hafi ekki þá sérmenntun sem þurfi til að framkvæma slíkt mat né geti tekið ákvörðun um það hvort aflífa skuli hundinn. Eina skoðunin sem hefði verið hægt að gera við hundinn á þessum tímapunkti hefði verið almenn heilsufarsskoðun, en þá hefði einhver þurft að taka hundinn úr búri og halda við hann, sem enginn hafi treyst sér til. Fyrir þessum sjónarmiðum um beitingu skapgerðarmats er engin stoð í samþykkt um hundahald í Fjallabyggð. Til samanburðar er heimilt af stjórnvöldum að krefjast skapgerðarmats, með tilliti til þess sem vitað er um eðli viðkomandi hundategundar, þegar sótt er um leyfi til að flytja inn hund, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 935/2003 um innflutning gæludýra og hundasæðis. Þar er hins vegar um aðrar aðstæður að ræða sem ekki verður jafnað til atvika þessa máls.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að dýralæknir sá sem tók á móti hundinum á dýralæknaþjónustu á Akureyri hafi fengið fyrirmæli frá yfirmanni sínum um að skoða ekki hundinn ein. Vitað var að hann hafði bitið mann fyrr um daginn en fram kemur að yfirmaðurinn þekkti til hundsins þar sem hún þjónusti Fjallabyggð í ormahreinsun og hann væri styggur, óútreiknanlegur og hugsanlega hættulegur. Þetta fær frekara hald í skýrslu dýralæknanna þar sem kemur fram að af þessum ástæðum hafi verið ákveðið að eiga ekkert við hundinn en gefa honum róandi lyf. Var starfsmanni sveitarfélagsins greint frá þessu í símtali og sýnist af atvikum að þetta hafi haft þýðingu við ákvörðun um að lóga hundinum. Verður að telja að með þessu hafi átt sér stað fullnægjandi samráð við dýralækni í skilningi tilvísaðrar samþykktar.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Andmælaréttur málsaðila grundvallast einkum á þeim rökum að honum sé veitt færi á því að gæta hagsmuna sinna áður en ákvörðun er tekin svo og að mál sé nægilega upplýst undir meðferð þess. Fram kemur í skýrslu lögreglu að kæranda gafst færi á því þegar hundurinn var sóttur heim til hans að tjá sig um bit það sem varð kveikja málsins. Fram kom að hann sagðist ekki skilja af hverju hundurinn hafi bitið. Að mögulega hafi hundinum stafað ógn af manninum og hundurinn viljað verja eigendur sína. Þá hafi hundurinn verið stressaður undanfarið vegna fjarveru eigenda. Fékk kærandi með þessu möguleika á því að tjá sig um atvik málsins um leið og honum var gerð grein fyrir reglum um hundahald í Fjallabyggð sem gera verður ráð fyrir að hann hafi þekkt til sem handhafi leyfis til hundahalds. Fram kemur að honum hafi verið boðið að kveðja hundinn, yrði tekin ákvörðun að lóga honum, sem hann hafi afþakkað. Þessu til viðbótar hringdi lögregla í kæranda síðar þennan sama dag og ræddi við hann og dóttur hans í framhaldi þess að ákvörðun var tekin um að lóga hundinum. Voru þar ítrekuð fyrri sjónarmið af hálfu dóttur kæranda um ástæður þess að hundurinn hafi bitið, sem áður er rakið, en leiddu ekki til þess að ákvörðun yrði endurskoðuð.

Álíta verður með vísan til framangreinds að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. og andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af rannsóknarreglunni leiðir að stjórnvöld verða að líta til allra atvika í viðkomandi máli, sem nauðsynlegt er að upplýsa, til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun og lögum samkvæmt. Það ræðst síðan af eðli stjórnsýslumáls og þeirri réttarheimild sem er grundvöllur ákvörðunar, hvaða upplýsinga þarf að afla til þess að rannsókn teljist fullnægjandi. Þá verður ekki séð að tilvísun til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga hafi þýðingu enda skýr heimild í samþykktinni um hundahald til að láta aflífa hættulega hunda. Til greina hefði komið að fresta því uns unnt væri að skoða hundinn nánar og jafnvel leita frekari sjónarmiða, sbr. 2. mgr. 18. gr. stjórnsýslulaga, enda ljóst að engin hætta stafaði af hundinum eftir að hann hafði verið fangaður í búr. Verður að álíta, engu að síður, af gögnum málsins að leiðbeiningum um kæruheimild hafi verið áfátt þar sem ekki hafi verið gerð bending um að unnt hefði verið að óska frestunar réttaráhrifa fyrir kærustjórnvaldi. Getur þetta þó ekki talist til ógildingarannmarka við meðferð málsins, þar sem vandséð er að þetta hefði getað leitt til annarrar niðurstöðu.

Af framangreindu verður að álíta að ákvörðun sveitarfélagsins Fjallabyggðar sem tekin var í samráði við lögregluna um að láta lóga umræddum hundi á þeim grundvelli að hann væri hættulegur, hafi verið í samræmi við valdheimildir 10. gr. samþykktar um hundahald í Fjallabyggð. Verður því ekki fallist á kröfu um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarfélags Fjallabyggðar frá 19. ágúst 2022 um að aflífa skuli hund kæranda þegar í stað.