Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2022 Trippadalur

Árið 2023, föstudaginn 6. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2010, fyrir:

Mál nr. 117/2022, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 17. desember 2021 að veita framkvæmdaleyfi vegna lagningar tveggja nýrra reiðleiðatenginga í Trippadal.

 Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Mjóadalsvegar í Almannadal þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 17. desember 2021 að veita framkvæmdaleyfi vegna lagningar tveggja nýrra reiðleiðatenginga í Trippadal. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 29. desember 2022.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 17. desember 2021 var samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi vegna lagningar tveggja nýrra reiðleiðatenginga í Trippadal. Framkvæmdaleyfi var gefið út 22. s.m. Kærendur reisa kröfu sína um stöðvun framkvæmda á 16. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi þar sem þær framkvæmdir sem málið varði séu í Almannadal. Framkvæmdaleyfið heimili aðeins framkvæmdir í Trippadal og séu þær því ólögmætar. Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að framkvæmdum sé lokið og því séu engar framkvæmdir til að stöðva.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar lagningu tveggja nýrra reiðleiðatenginga. Samkvæmt upplýsingum borgaryfirvalda kemur fram að framkvæmdum sé lokið. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda vegna ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 17. desember 2021 að veita framkvæmdaleyfi vegna lagningar tveggja nýrra reiðleiðatenginga í Trippadal.