Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2022 Hverfisgata

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. janúar 2022, er barst nefndinni 5. s.m., kærir íbúi, Álfaskeiði 40, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2022, mótteknu næsta dag, kærir íbúi, Álfaskeiði 40, sömu ákvörðun. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 4. janúar 2022, er barst nefndinni næsta dag, kærir íbúi, Mjósundi 16, Hafnarfirði, jafnframt sömu ákvörðun. Af hálfu allra kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Verða tvö síðargreindu kærumálin, sem eru nr. 2/2022 og 3/2022, sameinuð máli þessu enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 10. febrúar 2022.

Málavextir: Á lóð Hverfisgötu 49 í Hafnarfirði er 145,7 m² þríbýlishús, reist árið 1925 sam-kvæmt upp­lýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deili­skipu­­lagið Miðbær Hraun vestur og samkvæmt skilmálum þess var heimilt að byggja bílskúr á lóðinni en hámarks­­byggingar­­­­magn á henni var 175 m². Hinn 23. október 2020 tók gildi breyting á nefndu skipulagi er fól í sér stækkun lóðarinnar úr 289,1 í 512,9 m² til norð­­­austurs. Byggingar­­­­heimildir voru óbreyttar og fór nýtingarhlutfall lóðarinnar við breyt­inguna úr 0,61 í 0,34.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 3. mars 2021 var samþykkt sú afgreiðsla skipulags- og byggingar­ráðs að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Hverfisgötu 49 er gerði ráð fyrir að skilgreindur yrði nýr byggingarreitur norðan við núverandi hús á lóðinni fyrir þriggja hæða einbýlis­hús, allt að 280 m² að heildarflatarmáli. Jafnframt var samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingar­fulltrúa 14. apríl s.á. að grenndarkynna tillöguna með vísan til 2. mgr. 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Fór grenndarkynning og auglýsing tillögunnar fram 5. maí 2021 og var veittur frestur til 16. júní s.á. til að skila inn athugasemdum. Bárust athugasemdir við tillöguna á kynningar­tíma, m.a. frá kærendum máls þessa, og á fundi skipulags- og byggingar­ráðs 29. júní 2021 var skipulagsfulltrúa falið að vinna greinargerð vegna framkominna athuga­semda.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs 10. ágúst 2021, þar sem greinar­gerð skipulags­fulltrúa, dags. 26. júlí s.á., var samþykkt og lagt til við umsækjanda að leggja fram upp­færð gögn í samræmi við nefnda greinargerð. Lagði skipulagsfulltrúi m.a. til að í greinar­gerð deiliskipulagsins yrðu sett skýrari ákvæði um uppbrot, hlutföll, þakgerðir og efnisval sem og að byggingarmagn nýbyggingarinnar færi úr 280 í 230 m². Á fundi skipulags- og byggingar­­­ráðs 21. september 2021 voru uppfærð gögn samþykkt og að erindið yrði afgreitt í samræmi við skipulagslög. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 29. s.m. Í framhaldinu var deili­skipu­lagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar sem með bréfi, dags. 11. nóvember 2021, gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt breytingar­innar þegar stofnuninni hefðu borist lagfærð gögn. Með bréfi, dags. 23. s.m., mun þeim er gert höfðu athugasemdir innan frests hafa verið send greinargerð skipulagsfulltrúa og þeir upp­lýstir um afgreiðslu málsins og kæruheimild. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. desember 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að 17 íbúar nærliggjandi eigna hafi sent Hafnarfjarðar­kaupstað sameiginlegar athugasemdir sínar vegna umræddrar breytingar. Hafi greindar athuga­semdir verið að engu hafðar og hagmunir eiganda Hverfisgötu 49 verið teknir fram yfir hagsmuni eigenda nærliggjandi eigna þrátt fyrir skýra afstöðu þeirra gegn þessari breytingu. Ekki hafi verið færð fram nægileg rök fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á tillögunni áður en hún hafi hlotið samþykki séu langt frá því að vera nægjanlegar til að byggingin falli að núverandi byggð og hafi jákvæð áhrif á götumynd. Þá hafi ekki verið rétt staðið að grenndarkynningu tillögunnar, en hún hafi t.a.m. ekki verið kynnt fyrir íbúum Hverfisgötu 46 sem eigi beinna og augljósra hagsmuna að gæta.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé langt yfir hlutfalli nærliggjandi einbýlishúsalóða og geti því með engu móti fallið að götumyndinni án þess að skaða hana. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið komi m.a. fram að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu. Byggja megi við eldri hús í hverfinu þar sem það sé mögulegt þó þannig að nýtingarhlutfall á einbýlis­húsa­lóðum fari að jafnaði ekki yfir 0,45 og á fjölbýlishúsalóðum yfir 0,70. Nýtingarhlutfall skuli aldrei fara yfir það sem gefið sé upp í töflu með greinargerðinni. Horfa beri til nýtingar­hlutfalls nær­liggjandi lóða en ekki til deiliskipulagsins í heild sinni varðandi fordæmi fyrir svona háu nýtingarhlutfalli. Það hafi verið nánast fullnýtt samkvæmt framangreindum viðmiðum fyrir breytinguna og því ekki heimild til staðar fyrir byggingu af þessari stærðargráðu.

Horft sé fram hjá ákvæði gildandi deiliskipulags um hverfisvernd götumyndar Hverfisgötu 30-62. Þar komi m.a. fram að við byggingu nýrra húsa verði að taka mið af mælikvarða og hlut­föllum byggðarinnar. Einnig sé óheimilt að raska hrauni. Samþykkt tillaga sé ekki nægilega skýr og gefi á engan hátt mynd af því hvernig fyrirhuguð bygging muni falla að nærliggjandi byggð. Skýrari gögn þurfi að liggja fyrir svo unnt sé að meta það og ekki verði séð hvernig sveitar­félagið geti metið slíkt út frá fyrirliggjandi gögnum málsins. Hin umrædda bygging taki á engan hátt mið af mælikvarða nærliggjandi bygginga. Flest nærliggjandi einbýlishús séu 151-175 m² að stærð og því sé 230 m² bygging vel umfram það sem eðlilegt geti talist. Einnig hafi sveitar­félagið engin svör veitt við því hvort raska þurfi hrauni eða hvort sprengt verði upp úr klöpp á lóðinni. Ekki verði séð hvernig byggingin geti rúmast á lóðinni án þess að átt sé við klöppina.

Gert sé ráð fyrir að aðkoma að húsinu verði um Mjósund og að íbúar við Mjósund 16 og Álfa-skeið 40 muni deila aðgenginu með Hverfisgötu 49. Sveitarfélagið hafi að engu áhyggjur um hvort fyrir hendi sé aðgengi fyrir viðbragðsaðila, þjónustuaðila eða íbúa Mjósunds eða Álfa­skeiðs. Til að tryggja öryggi allra íbúa hafi verið nauðsynlegt að fá mat Slökkviliðs höfuð­borgar­­­svæðsins bs. hvað þetta varði áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt. Málið hafi ekki fengið sanngjarna og réttmæta meðferð hjá sveitarfélaginu og gangi þvert á þau viðmið sem séu í gildandi deiliskipulagi.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Hið umdeilda deiliskipulag hafi hlotið meðferð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 enda hafi tillagan geta talist óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi. Sú ákvörðun að grenndar­kynna hana jafnframt hafi verið tekin til að tryggja að breytingin færi ekki fram hjá þeim er byggju í nánasta umhverfi við Hverfisgötu 49. Á fyrri stigum hafi farið fram grenndar­kynning á tillögu sem ekki hafi hlotið brautargengi og því hafi verið talið eðlilegt að ný tillaga yrði einnig grenndarkynnt. Engin skylda sé til að grenndarkynna tillögu sem auglýst sé skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð skipulagsfulltrúa sé fjallað um nýtingarhlutfall og hverfisvernd. Þar komi m.a. fram að fordæmi séu fyrir jafnháu eða hærra nýtingarhlutfalli í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið og sé hærri nýting áætluð á um 42 lóðum. Skilmálar séu almennt hámarksheimildir og leyfi­legt sé að byggja minna. Þá sé ljóst að markmið deiliskipulagsins sé að viðhalda þeim blæ sem einkenni eldri hluta byggðar í Hafnarfirði. Muni endanleg byggingarleyfisumsókn hljóta með­ferð skipulags- og byggingarráðs fyrir útgáfu byggingarleyfis. Hvað aðkomumál varði sé vísað til kafla 4.11. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta áður framkomin sjónarmið sín. Umrædd deiliskipulagsbreyting geti ekki talist óveruleg og því sé alfarið hafnað að rétt hafi verið staðið að grenndarkynningunni. Kynna þurfi tillöguna að nýju fyrir öllum hagsmunaaðilum svo þeir hafi tækifæri til að gera athugasemdir. Hafnarfjarðarkaupstað beri að virða gildandi deili­skipulag og ekki aðlaga það að sínum hentugleika. Kærendur séu með öllu ósammála því að bygging af þeirri stærðargráðu sem fyrirhuguð sé falli að nærliggjandi byggð, sérstaklega í ljósi þess hve hátt nýtingarhlutfall lóðarinnar verði. Mjó­sund sé að öllu jöfnu nýtt sem bílastæði beggja vegna götunnar sem geri hana þrönga og erfiða. Það sé fráleitt að samþykkja umrædda byggingu án þess að nægilegt aðgengi sé tryggt.

——-

Lóðarhafa Hverfisgötu 49 var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins. Kom hann sjónarmiðum sínum á framfæri við úrskurðarnefndina en gerði ekki skriflegar athuga­semdir við kærurnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðar­­­­innar nr. 49 við Hverfisgötu. Á umræddri lóð er 145,7 m² þríbýlishús samkvæmt upp­lýsingum úr fast­­eigna­skrá Þjóðskrár Íslands og samkvæmt skilmálum nefnds deiliskipulags fyrir hina kærðu breyt­ingu var hámarksbyggingarmagn lóðarinnar 175 m² og heimilt að byggja þar bílskúr. Árið 2020 tók gildi breyting á deiliskipulaginu er fól í sér að lóðin var stækkuð úr 289,1 í 512,9 m² og breyttist þá nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,61 í 0,34. Með umþrættri breytingu á deiliskipu­laginu, sem tók gildi 6. desember 2021 og er tilefni kærumáls þessa, var staðsettur byggingar­reitur norðan við núverandi hús á lóðinni og þar gert ráð fyrir þriggja hæða einbýlishúsi, allt að 230 m² að heildarflatarmáli. Felld var út heimild til að byggja bílskúr á lóðinni. Heildarbyggingarmagn á lóð­inni eftir greinda breytingu getur orðið allt að 375,7 m² og leyfilegt nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,73.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitar­stjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, og eru skipulagsyfirvöld þar af leiðandi ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu. Þess ber þó að gæta að innbyrðis samræmi sé á milli gildandi skipulagsáætlana, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Er ákvörðun um samþykkt deiliskipulags eða breytingu á því ákvörðun sem veitir skipu­lags­yfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð ein­stakra svæða.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hún var einnig grenndarkynnt, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Bæjar­stjórn samþykkti tillöguna að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingaráðs þar sem tekin var afstaða til framkominna athugasemda. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Þá var aðilum er gert höfðu athuga­semdir send greinargerð skipulagsfulltrúa sem var samþykkt í bæjarstjórn. Máls­meðferðin var því í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og geta hugsanlegir annmarkar á grenndarkynningu við meðferð málsins ekki leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, enda var sveitarfélaginu ekki skylt að grenndar­kynna breytingartillöguna þótt það hafi kosið að gera það.

Upphafleg tillaga að breytingu á deiliskipulaginu gerði ráð fyrir byggingu 280 m² þriggja hæða einbýlis­húss og að nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,83. Að lokinni kynningu tillögunnar lagði skipulags­fulltrúi til að byggingarmagn yrði minnkað í 230 m² og eftir þá breytingu fór nýtingar­hlutfall lóðarinnar í 0,73. Lagði skipulagsfulltrúi jafnframt til að sett yrðu í greinargerð deili­skipulags­breytingarinnar skýrari ákvæði til að tryggja að mælikvarði nýbyggingar félli betur að þeim hlut­föllum og efnis­vali sem væri að finna í aðliggjandi byggð. Var í framhaldinu bætt við skilmálum í greinar­gerðina um að við hönnun nýbyggingar skyldi taka mið af mælikvarða, efnisvali og gerð mannvirkja í næsta nágrenni lóðar og um það vísað til leiðbeininga sem fram kæmu í aðal­skipu­lagi Hafnar­fjarðar og skilmálum deiliskipulagsins. Nýbyggingin skyldi brotin upp í stærð, hlutföllum og þakformi til að falla vel að nánasta umhverfi lóðar og skyldi efsta brún þaks á ný­byggingu ekki vera hærra en mænishæð núverandi íbúðarhúss á Hverfisgötu 49. Jafn­framt skyldi skoða mismunandi stefnur á mæni nýbyggingar til að draga úr skuggavarpi á að­liggjandi lóðir. Þá er áskilnaður í greinargerðinni um að aðaluppdrætti skuli leggja fyrir skipulags- og byggingarráð áður en byggingarleyfi er samþykkt. Var með þessu að nokkru komið til móts við athugasemdir er bárust við tillöguna, en íbúar eiga ekki skilyrðis­lausan rétt á að sveitarfélagið fari eftir þeim óskum eða athugasemdum sem gerðar eru við tillögu að deili­skipulagi.

Hverfisgata 49 er á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 og er götumynd Hverfisgötu 30-62 hverfisvernduð, sbr. kafla 2.2.23 í aðalskipulaginu. Í almennum ákvæðum hverfisverndarsvæðis segir m.a. að nýbyggingar í þegar byggðum hverfum skuli taka mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar. Þá segir í hverfisverndarákvæði byggðasvæðisins að við byggingu nýrra húsa verði að taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar. Jafnframt sé óheimilt að raska hrauni. Svo sem fyrr segir er umrædd lóð á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Miðbær Hraun vestur og má þar finna sömu skilmála um hverfisvernd. Skipulags­svæðið er frá Austurgötu að miðju Arnarhrauns, á milli Reykjavíkur­vegar og suður að Læk auk húsa á milli Álfaskeiðs og Tjarnarbrautar. Eitt af markmiðum skipu­lagsins er að stuðla að heildstæðu byggða- og götumynstri í grónu hverfi og tryggja að ný­byggingar og viðbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir er. Í almennum skilmálum skipu­lagsins kemur fram að því markmiði verði náð með að virða byggingarstíl núverandi húsa og gæta að því að ný­byggingar og breytingar á eldri húsum falli vel að umhverfi sínu. Áhersla skuli lögð á heildar­mynd og mælikvarða hins byggða umhverfis. Í almennum skilmálum fyrir öll hús kemur m.a. fram að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu. Þá er tekið fram að við byggingu nýrra húsa og viðbygginga skuli taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar, yfirbragði hennar og sérkennum.

Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins er nýtingarhlutfall lóða við Hverfisgötu 37-57 mis­jafnt, eða allt frá því að vera 0,50 á Hverfisgötu 51 í 0,83 á Hverfisgötu 41. Nýtingarhlutfall lóðanna við Hverfisgötu 45, 53 og 55 er 0,57 og á lóð Hverfisgötu 47 er það 0,52. Nýtingar­hlutfall lóðar Hverfisgötu 49 verður sem fyrr segir 0,73 eftir hina umdeildu breytingu. Er því ljóst að nýtingar­hlutfall lóðarinnar er heldur hærra en almennt gerist á næstu lóðum er liggja sömu megin götunnar en sker sig þó ekki úr með afgerandi hætti. Þá er að finna hærra nýtingarhlutfall á nokkrum lóðum hinum megin við Hverfisgötuna, t.d. á lóðum nr. 38 og 40. Einnig verður ekki talið að fyrirhugað hús verði úr hófi stærra borið saman við önnur hús í næsta nágrenni, jafnvel þótt byggingarheimild skipulagsins verði fullnýtt. Að því virtu verður ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi farið gegn áðurnefndum skilyrðum hverfis­verndar um að taka mið af mælikvarða og hlutföllum byggðarinnar. Þá verður að telja fyrr­greinda skilmála deiliskipulags­breytingarinnar stuðli að því að fyrirhuguð bygging taki mið af hefðum og yfirbragði nærliggjandi byggðar eins og almennir skilmálar aðalskipulags um hverfisvernd mæla fyrir um.

Í greinargerð skipulagsfulltrúa frá 26. júlí 2021, vegna framkominna athugasemda við tillögu að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, eru færð fram þau rök fyrir breytingunni að stefnu­mörkun liggi fyrir um fjölgun eigna í þegar byggðum hverfum og skírskotað hvað það varðar til umfjöllunar í aðalskipulagi Hafnarfjarðar og svæðisskipulaginu Höfuðborgarsvæðið 2040 um þéttingu byggðar. Í greinargerð aðalskipulagsins er tekið fram að þétting íbúðarbyggðar sé möguleg innan eldri hluta Hafnarfjarðar við endurskipulagningu svæða með úrelta starfsemi eða starfsemi sem ekki sé lengur þörf fyrir eða sé betur staðsett annars staðar. Er ljóst að sú heimild fyrir þéttingu byggðar getur ekki átt við um hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu, enda felur hún ekki í sér endurskipulagningu svæðisins. Hins vegar segir í aðalskipulaginu að minni þéttingasvæði séu fyrirhuguð á skipulagstímabilinu og breytt skipulag á einstökum lóðum í bænum. Þá er í kjölfarið að finna töflu yfir íbúðarsvæði sveitarfélagsins og segir þar um íbúðarbyggðina Hraun, ÍB4, að ekki sé fyrirhuguð frekari uppbygging nema á einstökum lóðum. Eru hin umdeildu byggingaráform á lóð Hverfisgötu 49 því í samræmi við stefnu aðal­skipulags sveitarfélagsins um þéttingu byggðar og lágu af þeim sökum málefnaleg rök að baki breytingunni. Þá verður ekki talið að framangreindur skilmáli deiliskipulagsins, um að almennt sé ekki heimilt að fjölga eignum á svæðinu, girði fyrir að eignum sé fjölgað heldur að slíkt sé heimilt í undantekningartilvikum með breytingu á skilmálum fyrir einstakar lóðir líkt og í máli því sem hér um ræðir.

Svo sem að framan greinir felst jafnframt í hverfisvernd götumyndar Hverfisgötu 30-62 að óheimilt sé að raska hrauni. Í greinargerð skipulagsfulltrúa kemur fram að nýr byggingarreitur að Hverfisgötu 49 sé um 170 m² að stærð og að innan reitsins skuli auk grunnflatar húss m.a. koma fyrir út­byggingum, stöllum og svölum. Ef allar hæðir hússins verði jafn stórar, þ.e.a.s. rúmlega 90 m² að grunnfleti, sé ljóst að byggingarreitur sé vel rúmur. Ekki er að sjá að frekari afstaða sé tekin til þess hvort hrauni verði raskað en fyrir liggur að leggja skal aðaluppdrætti fyrir skipulags- og byggingarráð áður en byggingarleyfi er samþykkt. Þá er það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og ber því að líta til þess við meðferð umsóknar um byggingar­leyfi hvort hrauni verði raskað.

Af deiliskipulagsuppdrætti og staðháttum verður ráðið að aðkoma að nýbyggingunni sé frá Mjó­sundi og eru tvö bílastæði innan lóðarinnar. Verður ekki annað séð en að hún fullnægi áskilnaði í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um aðkomu neyðarbíla. Er hvað það varðar rétt að benda á að byggingarfulltrúi getur við afgreiðslu umsóknar um byggingar­leyfi metið hvort nauðsynlegt sé að leita umsagnar slökkviliðs, en áskilið er í gr. 9.8.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 að á lóðum skuli vera greið aðkoma fyrir sjúkra- og slökkvibifreiðar. Jafnframt skal sýna á aðaluppdrætti hvernig haga skuli fólks- og vöruaðkomu að húsi og lóð, gáma­stæðum og aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla. Sama skal og koma fram á lóða­uppdráttum, eftir því sem við á. Meðferð byggingarleyfisumsóknar getur því gefið tilefni til nánari athugunar en við skipulagsgerð. Þá kemur fram í greinargerð skipulagsfulltrúa að aðkoma og athafnamöguleikar slökkviliðs og sjúkraflutninga séu alltaf skoðaðir og samþykktir af hálfu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. áður en leyfi fyrir nýbyggingum sé veitt.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að benda á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna deiliskipulags­breytingarinnar geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. september 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Miðbær Hraun vestur vegna lóðarinnar nr. 49 við Hverfisgötu í Hafnarfirði.

35/2022 Hlaðbrekka

Með

Árið 2022, mánudaginn 13. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 35/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars 2022, um að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17, Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2022, er barst nefndinni 23. apríl s.á., kæra eigendur Fögrubrekku 18 og 20 þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars s.á. að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er farið fram á að byggingarleyfi verði fellt úr gildi ef það hafi verið gefið út áður en úrskurður nefndarinnar liggi fyrir í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 23. maí 2022.

Málsatvik og rök: Með erindi, dags. 2. febrúar 2021 óskuðu lóðarhafar Hlaðbrekku 17 eftir leyfi til viðbyggingar og breytinga á innra skipulagi húss sem stendur á lóðinni. Að lokinni grenndarkynningu umsóknarinnar var erindinu hafnað á fundi skipulagsráðs 5. júlí 2021 og staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi 15. s.m. Lóðarhafar fóru fram á endurupptöku málsins með bréfi dags. 10. nóvember s.á. og á fundi bæjarráðs 18. s.m. var samþykkt að vísa málinu til skipulagsráðs til nýrrar meðferðar. Á fundi skipulagsráðs 14. mars 2022 var erindi lóðarhafa samþykkt og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsráðs 22. s.m..

Kærendur benda á að við endurupptöku málsins hafi verið lögð fram gögn sem séu röng og tekið hafi verið tillit til röksemda sem ekki væru í samræmi við þau viðmið sem hafa skuli til hliðsjónar við slíkt mat. Alvarlegir misbrestir hafi verið á afgreiðslu málsins, nýtingarhlutfall lóðar sé mun meira en gefið hafi verið upp í umsókn auk þess sem hæð í framlagðri umsókn sé vel rúmum meter hærri en sú lína sem dregin sé milli aðliggjandi húsa og því í andstöðu við þau viðmið sem Kópavogsbær hafi sett. Umbeðnar breytingar á húsinu muni hafa áhrif á útsýni kærenda auk þess að breyta ásýnd götunnar þar sem gatan sé einsleit með húsum byggðum á svipuðum tíma með sambærilega hönnun.

Bæjaryfirvöld benda á að byggingarfulltrúi hafi enn ekki samþykkt byggingaráform fyrir greindri viðbyggingu. Samþykki skipulagsráðs og staðfesting bæjarstjórnar feli ekki í sér endanlega afgreiðslu á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en það sé hlutverk byggingar­fulltrúa sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða þar sem endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. Þá hafi orðið eigendaskipti á húsinu og ekki liggi fyrir hvort nýir eigendur ætli að halda málinu áfram í samræmi við þær teikningar sem hafi verið grenndarkynntar. Samþykkt skipulagsráðs hafi byggt á þeim forsendum að það væri í samræmi við rammahluta gildandi aðalskipulags og að grenndaráhrif væru óveruleg. Þá væri að finna fordæmi í næsta nágrenni hvað varðaði þakform og dvalarsvæði.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja fyrir sitt leyti viðbyggingu og breytingu á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki er það hlutverk byggingarfulltrúa í viðkomandi sveitarfélagi að veita byggingarleyfi vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er slíku leyfi, eftir atvikum að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfis á ódeiliskipulögðu svæði og afgreiðslu skipulagsyfirvalda eins og á við í máli þessu. Byggingarfulltrúi hefur ekki samþykkt eða gefið út slíkt leyfi fyrir viðbyggingu eða breytingum á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Þrátt fyrir að ákvörðun bæjarstjórnar feli í sér afstöðu til beiðni um byggingarleyfi verður sú afstaða ekki talin binda enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda um að ræða lið í málsmeðferða byggingarleyfsumsóknar.

 Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

18/2022 Vallnaholt

Með

Árið 2022, föstudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 14. maí 2021 um að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. mars 2022, kærir Þ. P., arkitekt og löggiltur hönnuður, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múla­þings frá 14. maí 2021 að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar umræddrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 17. mars 2022.

Málavextir: Með tölvupósti 14. maí 2021 kom byggingarfulltrúi Múlaþings þeim leið­bein­ingum á framfæri við umsækjanda um byggingarleyfi vegna Vallna­holts 8 að einungis hönnuðir með samþykkt gæðakerfi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mættu skila inn aðal­upp­dráttum. Höfundur þess uppdráttar er fylgt hefði umsókninni hefði ekki samþykkt gæða­kerfi og væri honum því ekki heimilt að skila inn uppdráttum til leyfisveitanda. Er höfundur uppdráttarins kærandi þessa máls.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi hvorki átt sér stoð í lögum né reglugerð. Ákvörðunin hafi að auki brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 þar sem brotið hafi verið gegn meðal­hófs­reglu og gegn ákvæði um að tilkynna beri um íþyngjandi ákvörðun og benda á kæruleiðir. Byggingar­fulltrúi hafi neitað að taka við einfaldri grunnmynd af herbergjaskipan hússins að Vallnaholti 8.

Í júlí árið 2016 hafi kærandi mælt upp milliveggi og herbergjaskipan í húsinu að Vallnaholti 8, en hönnun hússins hafi ekki verið á hans könnu. Mælingunum hafi hann skilað til húseiganda, sem hafi lagt þær fyrir byggingarfulltrúa þáverandi Fljótsdalshéraðs án þess að athugasemdir væru gerðar. Í febrúar árið 2021 hefði húseigandinn á ný leitað til kæranda og tjáð honum að í einu af rýmum hússins hefði verið bætt við millivegg og hann jafnframt beðið kæranda  um að færa þessa breytingu inn með sama hætti og áður. Kærandi hafi því farið á staðinn með málband og laser fjarlægða­mæli og bætt þessum vegg inn á sama riss og hann hafi áður gert. Sem fyrr hafi kærandi engan hlut átt að því hvar eða hvernig þessum vegg væri komið fyrir heldur aðeins skráð orðinn hlut. Þetta nýja riss hafi ekki hlotið náð fyrir augum byggingarfulltrúa Múlaþings þar sem kærandi hafi ekki verið með skráð gæða­stjórnunar­kerfi. Ekki hafi verið um að ræða hönnun eða forsögn um fram­kvæmdir af hálfu kæranda heldur einungis staðfestingu á einfaldri mælingu með málbandi sem færð hafi verið á A4-örk. Hafi kærandi sem hönnuður ekki komið nærri framkvæmdum í húsinu að Vallna­holti 8. Ekki hafi því verið um að ræða verk sem hafi krafist hönnuðar með gæða­stjórnunar­kerfi eða starfsábyrgðartryggingu. Vegið sé að starfs­heiðri kæranda og langri starfs­reynslu hans með því að dæma hann óhæfan til að fara með einfalt mál­band. Kærandi sé arkitekt og löggiltur hönnuður á eftirlaunum og hafi sagt upp starfs­ábyrgðartryggingu sinni árið 2019 en aldrei komið sér upp gæðastjórnunarkerfi. Kærandi hafi fullan skilning á því að þeir sem stundi hönnun eða séu hönnunarstjórar verði að hafa gæða­stjórnunar­kerfi og ábyrgðar­tryggingu í gildi, en að fara fram á slíkt þegar gamall arkitekt taki upp á því að aðstoða nágranna sína með notkun málbands og skrá annarra manna verk sé of langt gengið. Kærandi vilji ekki sitja uppi með það að mega ekki hafa samskipti við byggingar­full­trúa út af neinu máli, jafnvel þótt þau hafi ekkert með hönnun að gera.

Málsrök Múlaþings: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að byggingarfulltrúa sé ekki heimilt að taka við gögnum sem séu grunnur að útgáfu byggingarleyfis þegar hönnuður hafi ekki samþykkt gæðastjórnunarkerfi. Málið hafi varðað breytingu á notkun Vallnaholts 8 úr leik­skóla í gistiheimili. Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé gerð krafa um byggingar­leyfi þegar um breytingu á notkun mannvirkis sé að ræða. Engar stórvægilegar breytingar hafi verið gerðar innan­húss en þó einhverjar. Kærandi hafi skilað inn teikningu að húsinu sem hafi verið ófull­gerð. Sveitar­félagið hafi ráðfært sig við Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun um hvort það hefði heimild til að taka við gögnum til skráningar og varðveislu frá hönnuði sem ekki hefði samþykkt gæða­kerfi. Túlkun stofnunarinnar hefði verið sú að samkvæmt reglu­gerð nr. 271/2014 um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra væri ekki skil­yrði að hönnuður hefði gæðastjórnunarkerfi en að viðkomandi gæti þá ekki skilað inn teikningum vegna byggingarleyfis, sbr. gr. 4.6.1. í byggingarreglugerð.

Niðurstaða: Í kærumáli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt áritaðan af kæranda. Sveitarfélagið hefur upplýst að eigandi Vallna­holts 8 hafi í febrúar 2022 fengið byggingarleyfi á grundvelli uppdrátta frá öðrum hönnuði vegna sömu byggingaráforma. Hins vegar verður að líta svo á að hin kærða ákvörðun varði atvinnuréttindi kæranda sem arkitekts og löggilts hönnuðar og hefur hann því lögvarða hags­muni af úrlausn kærumáls þessa.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kæru­frestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Svo sem fyrr er rakið tilkynnti byggingarfulltrúi Múla­þings eiganda Vallnaholts 8 með tölvupósti 14. maí 2021 að kærandi hefði ekki samþykkt gæðakerfi og mætti því ekki skila inn uppdráttum til leyfis­veitanda. Kærandi hefur upplýst að eigandi Vallnaholts 8 hafi „nokkuð fljótt“ upplýst hann um greinda ákvörðun. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 3. mars 2022 og verður að framangreindu virtu talið að lögbundinn kærufrestur hafi þá verið liðinn.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að byggingarfulltrúi Múlaþings hafi hvorki til­kynnt kæranda um hina kærðu ákvörðun né leiðbeint honum um kæruheimild til úrskurðar­nefndarinnar. Þar sem ákvörðunin varðaði ekki aðeins hagsmuni eiganda Vallnaholts 8 af því að fá byggingaráform sín samþykkt heldur jafnframt atvinnuréttindi kæranda bar byggingarfulltrúa að veita honum slíkar leiðbeiningar. Verður því talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu hönnuðir og hönnunar­stjórar hafa gæðastjórnunarkerfi í samræmi við nánari fyrirmæli í reglugerð. Er nánar kveðið á um þá skyldu í gr. 4.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar er í 4. mgr. kveðið á um skyldu hönnuða og hönnunarstjóra til að tilkynna Húsnæðis- og mann­virkja­stofnun um gæðastjórnunarkerfi sitt til samþykktar og skráningar í gagnasafn stofnunar­innar. Þá kemur þar fram að sé gæðastjórnunarkerfi hönnuðar ekki vottað af faggiltri vottunar­stofu skuli Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gera úttekt á gerð þess og virkni. Að öðrum kosti sé leyfisveitanda óheimilt að taka til afgreiðslu gögn sem hönnuðir leggi fram til samþykktar. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki vottað gæðastjórnunarkerfi í samræmi við lög nr. 160/2010 og byggingarreglugerð og var byggingarfulltrúa þegar af þeirri ástæðu rétt að neita að taka til af­greiðslu umræddan uppdrátt sem áritaður var af kæranda. Þá skal bent á að í 6. mgr. gr. 4.1.1. í byggingarreglugerð er kveðið á um að hafi hönnuður ekki lengur full­nægjandi ábyrgðar­tryggingu sé honum ekki lengur heimilt að leggja uppdrætti fyrir leyfis­veitanda, en svo sem greint er frá í kæru sagði kærandi upp ábyrgðartryggingu sinni árið 2019.

Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Múlaþings frá 14. maí 2021 um að neita að taka til afgreiðslu aðaluppdrátt vegna Vallnaholts 8.

174/2021 Stórikriki

Með

Árið 2022, föstudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 174/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika nr. 59-61 í Mosfellsbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Stórakrika 57, Mosfellsbæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 að sam­þykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61. Jafnframt er kærð ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 5. nóvember s.á. um að málið skyldi sæta meðferð í samræmi við ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar vikið er óverulega frá deiliskipulagi. Er þess krafist að greindar ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 17. janúar 2022.

Málavextir: Lóðin Stórikriki 59-61 er innan Krikahverfis í Mosfellsbæ og á svæðinu er í gildi deiliskipulag Krikahverfis frá árinu 2005. Hinn 13. nóvember 2019 tók gildi breyting á deili­skipulaginu sem fólst í því að umræddri lóð yrði breytt úr lóð fyrir einbýlishús í lóð fyrir parhús af gerðinni P-IIc. Þeirri ákvörðun var skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði í máli nr. 80/2021, uppkveðnum 12. ágúst 2021, vísaði málinu frá sökum þess að kæra hefði borist eftir að kærufresti lauk.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 1. nóvember 2021 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa umræddrar lóðar um leyfi til að byggja þar tveggja hæða parhús með innbyggðum bíl­geymslum. Umsókninni var vísað til umsagnar skipulagsnefndar, sem samþykkti á fundi 5. s.m. að málið yrði meðhöndlað í samræmi við 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna lögunar og lóðar byggingarreits. Bókað var að byggingar­fulltrúa væri heimilt að gefa út byggingarleyfi þegar umsókn væri í samræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki, byggingarreglugerð nr. 112/2012 og kynnt gögn. Einnig var fært til bókar að hjálagt væri minnisblað skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021. Bæjarstjórn staðfesti greinda afgreiðslu á fundi sínum 10. nóvember 2021 og var byggingar­leyfisumsóknin samþykkt á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 11. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að samkvæmt teikningu að fyrirhuguðu parhúsi sé um að ræða slíkar breytingar frá deiliskipulagi umrædds svæðis og mæli- og lóðarblöðum að ekki geti verið um að ræða óverulegt frávik í skilningi 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umrætt ákvæði heimili að vikið sé bæði frá grenndarkynningu og breytingu á deiliskipulagi. Þegar metið sé hvort um óverulegt frávik sé að ræða í skilningi ákvæðisins skuli beita þröngri túlkun. Að baki meginreglunni um þrönga túlkun skipulagsáætlana liggi ríkir almanna­hags­munir og réttmætar væntingar þeirra sem eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta. Sé vafi á hvort breyting teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga beri að fara með hana sem verulega. Enn strangari sjónarmið eigi við um mat á óverulegu fráviki samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laganna. Tengja verði matið við hagsmuni kærenda. Minnsti vafi eigi að leiða til þess að fara eigi eftir fyrirmælum 1. eða 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í sérákvæði gildandi deiliskipulags um parhús komi fram að allir hlutar húss skuli standa innan byggingarreits eins og hann sé sýndur á deiliskipulagi og mæliblaði fyrir hverja lóð. Um parhús af gerð P-IIc segi í skipulagsskilmálum að um sé að ræða tvær hæðir, dýpt meginhúsforms sé 10 m og almenn breidd parhúsaeininga 9 m. Almennir skilmálar um parhús kveði á um að misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulagsbreytinga. Hús­formið geri ráð fyrir samhverfu parhúsi á hvorri lóð. Í deiliskipulagi segi að hámarkshæð par­húsa sé 7,8 m yfir kóta 1. hæðar. Samkvæmt teikningu að Stórakrika 59-61 fari fyrirhugað hús út fyrir byggingarreit. Þá sé vikið verulega frá fyrirskipuðu formi. Fyrirhugað hús sé 10 cm hærra en heimilt sé samkvæmt framangreindum skilmálum. Gólfkóti lóðarinnar sé 63,10 og hámarkshæðarkóti húss því 70,90, en samkvæmt teikningu sé hæsti kóti hússins 71,00. Í minnis­blaði skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021, sé farið með rangt mál þegar sagt sé að húsið sé 40 cm lægra en deili­skipulag heimili.

Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar frá maí 2019 komi fram að lóðarmörk, byggingar­reitur og nýtingarhlutfall séu óbreytt frá gildandi deiliskipulagi. Fyrir umrædda breytingu hafi verið gert ráð fyrir að á lóðinni yrði stallað einbýlishús, en nú sé fyrirhugað að byggja tvö tveggja hæða hús. Byggingarmagn og nýtingarhlutfall á lóðinni muni því aukast. Í minnisblaði skipulagsfulltrúa sé viðurkennt að lóðin hafi ekki verið skoðuð sérstak­lega m.t.t. parhúss þegar umrædd deiliskipulagsbreyting hafi verið gerð. Í fyrrnefndu minnisblaði sé einnig viðurkennt að ekki sé hægt að fara eftir skilmálum um meginhúsform samkvæmt deiliskipulagi Krikahverfis. Ekki sé kveðið á um nýtingarhlutfall einbýlis- og par­húsalóða í nefndu deiliskipulagi en gert hafi verið ráð fyrir að hús á lóðinni væri 418,4 m2. Skilja verði orðalag í greinargerð með framangreindri deiliskipulagsbreytingu varðandi óbreytt nýtingar­hlutfall svo að átt sé við þá hússtærð sem þegar hafi verið gert ráð fyrir á lóðinni.

Samkvæmt almennum sérskilmálum um parhús sé heimilt að laga hús að landi með stallaðri gólfplötu, háum sökkli o.fl. Stöllun húsa verði alltaf að taka mið af neðsta kóta á gólfplötu sem gefinn sé upp á mæli- og lóðarblaði. Heimild til stöllunar húss sé takmörkuð við lóðina sem það standi á. Ekki sé hægt að stalla hús „á milli lóða“. Upphaflega hafi verið um eina lóð að ræða, þ.e. lóð nr. 59, og gólfkóti á henni 63,10. Þeirri lóð hafi verið skipt upp í tvær lóðir með deili­skipulagi og mælt fyrir um að sami gólfkóti skyldi vera á hinni nýju lóð, sem sé nr. 61. Við þessa breytingu hafi ekki verið hróflað við gólfkóta á lóðinni nr. 59. Að öllu framangreindu virtu sé ekki heimilt að víkja frá kröfum 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þar sem frávik frá sam­þykktu deiliskipulagi geti ekki talist óverulegt. Sveitarfélagið hefði þurft að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi samkvæmt áður tilvitnaðri lagagrein og láta fara fram grenndar­kynningu áður en umsókn um byggingarleyfi væri samþykkt, eða eftir atvikum láta gera breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna.

Í 12. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna komi fram að allar fasteignir skuli bera fast auðkenni, fasteignanúmer, sem Þjóðskrá Íslands úthluti. Sveitarstjórn sé skylt að tilkynna Þjóðskrá um breytingar á skráningu staðfanga, sbr. 16. gr. sömu laga. Enn fremur sé sveitar­stjórn skylt að hlutast til um að fasteign verði skráð í fasteignaskrá áður en heimild sé veitt til veðsetningar eða mannvirkjagerðar á leigulóð eða landi í eigu sveitarfélags, sbr. 17. gr. laganna. Þegar umsókn um byggingarleyfi á Stórakrika 59-61 hafi verið samþykkt á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 11. nóvember 2021 hafi engin lóð nr. 61 verið skráð í fasteignaskrá. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá sé lóðin Stórikriki 59 skráð sem 903 m2 íbúðarhúsalóð og að á henni standi 418 m2 einbýlishús. Lóðin nr. 61 beri hins vegar ekkert auðkenni eða fasteignanúmer hjá Þjóðskrá. Óheimilt sé að samþykkja byggingar­leyfi nema lóð sé skráð í fasteignaskrá, sbr. áðurnefnda 17. gr. laganna.

Eftir að lóðinni nr. 59 við Stórakrika hafi verið skipt upp með deiliskipulagsbreytingu í maí 2019 sé ekki hægt að koma þar fyrir parhúsi. Það sé andstætt meginreglum grenndar- og skipulagsréttar að freista þess að lagfæra ágalla og óvönduð vinnubrögð við gerð deili­skipulags­breytingar án kynningar fyrir nágrönnum.

Málsrök Mosfellsbæjar: Sveitarfélagið bendir á að umfjöllun í kæru um eldra deiliskipulag lóðarinnar séu máli þessu óviðkomandi. Þess sé krafist að kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsnefndar frá 5. nóvember 2021 og ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 11. s.m. verði hafnað. Ekki verði séð að fyrir hendi séu atvik sem leiði til ógildingar framangreindra ákvarðana.

Við ritun andmæla hafi komið í ljós að mistök hefðu átt sér stað við afgreiðslu byggingarfulltrúa á útprentuðum aðaluppdráttum parhússins að Stórakrika 59-61. Aðaluppdrættir sem byggingarfulltrúi hafi undirritað og afhent kærendum hafi borist sveitarfélaginu 8. október 2020, en réttir aðal­uppdrættir hafi legið til grundvallar umfjöllun skipulagsnefndar á fundi 5. nóvember 2021 og við ritun minnisblaðs skipulagsfulltrúa. Einnig hafi réttir aðaluppdrættir legið fyrir við afgreiðslu byggingarfulltrúa á samþykkt hans á byggingaráformum 11. s.m.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé umrædd lóð skilgreind sem parhúsalóð en lóðaskiptilína sé fyrir hvora einingu innan byggingarreits. Um sé að ræða eina lóð en á henni sé fyrirhugað hús með tveimur íbúðum ásamt séreignasvæðum utandyra samkvæmt væntanlegum eigna­skiptasamningi lóðarinnar. Samkvæmt 68. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu sérbýli skilgreind sem íbúðarhús þar sem ekki teljist til sameignar annað en lóð og ytra byrði húss og hluti lagnakerfa eftir eðli máls, t.d. einbýlishús, raðhús eða parhús. Húsið í heild muni því miðast við einn gólfkóta, 63,10, og verði mesta hæð húss samkvæmt deiliskipulagi mæld út frá þeim kóta.

Skipulagsnefnd hafi samþykkt að meðhöndla málið sem óverulegt frávik deiliskipulags sam­kvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt tilvitnaðri lagagrein geti sveitar­stjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. 43. gr. laganna um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Vísað sé til minnisblaðs skipulagsfulltrúa, dags. 1. nóvember 2021. Gert sé ráð fyrir í 3. mgr. 43. gr. að unnt sé að taka fyrir og afgreiða frávik frá samþykktu deiliskipulagi í tilteknum tilvikum án þess að meðferð þeirra breytinga fari eftir 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna. Í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðisins segi að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist veruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þegar litið sé til þeirra þátta sem tilgreindir séu í 43. gr. skipulagslaga, þ.e. landnotkunar, útsýnis, skuggavarps, innsýnis eða annars sem skert geti hagsmuni nágranna, megi nefna að í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar breytist landnotkun ekki þar sem enn sé um íbúðarbyggð að ræða. Þá rúmist hæð hússins innan heimilda deiliskipulags en samkvæmt skipulaginu sé heimilt að byggja hús innan byggingarreits mest í 7,8 m hæð frá uppgefnum kóta 63,10. Útsýni nærliggjandi húsa sé því hið sama. Skuggavarp á lóð kærenda eigi að vera óbreytt eða lítið sem ekkert þar sem lóðin Stórikriki 59-61 sé norðaustan við Stórakrika 57. Skuggavarp gagnvart Litlakrika 76 teljist óbreytt þar sem hæð hússins sé hin sama og nokkur fjarlægð á milli húsa. Innsýn hafi jafnframt ekki breyst.

Í kæru komi ekki fram með hvaða hætti hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar brjóti í bága við framangreint ákvæði skipulagslaga eða að hvaða leyti samþykkt á óverulegu fráviki deili­skipulags skerði hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Það sé hafið yfir allan vafa að umrædd frávik teljist óveruleg í skilningi ákvæða skipulagslaga.

Umrætt parhús muni standa á einni lóð og því sé rangt að lóðinni hafi verið skipt upp í tvær lóðir, líkt og haldið sé fram í kæru. Nýtingarhlutfall húsa sé ekki reiknað út frá rúmmetrum heldur fermetrum húsa samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en nýtingarhlutfall sérbýlis sé ekki fastsett í skipulagsskilmálum deiliskipulags Krikahverfis. Tilvísun kærenda til þess að fermetrafjöldi húss samkvæmt eldra skipulagi marki hámark byggingarmagns á lóðinni eigi ekki við rök að styðjast, enda séu þau fallin úr gildi og geti með engu móti gengið framar gildandi deiliskipulagi. Í almennum skilmálum parhúsa í greinargerð gildandi deiliskipulags sé tekið fram að misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulags­breytinga. Hönnun geti því verið áþekk en breytileg. Einnig segi í skilmálunum að samtengd hús skuli hönnuð af sama aðila og lögð fyrir byggingarnefnd sem ein heild. Aðaluppdrættir fyrirhugaðs parhúss séu í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags fyrir utan þau óverulegu frávik sem heimiluð hafi verið af skipulagsnefnd.

Þá verði ekki séð að athugasemdir er varði skráningu fasteignar í Þjóðskrá Íslands varði kæru þessa, samþykkt byggingaráforma eða afgreiðslu skipulagsnefndar. Þá sé bent á að ekki sé risið hús á lóðinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta sjónarmið sín en benda jafnframt á að ekki sé gert ráð fyrir þeirri húsagerð sem sýnd sé á aðaluppdrætti fyrirhugaðs parhúss að Stórakrika 59-61 í skilmálum gildandi deiliskipulags. Misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingar­reits lóðar án deiliskipulagsbreytinga en ekki sé fjallað um misdjúpar einingar. Sú afstaða sem komi fram í minnisblaði skipulagsfulltrúa um að ekki sé hægt, eða erfitt, að fylgja útgefnu mæliblaði, byggingarreit og byggingarheimildum lóðarinnar og fara eftir skilmálum deili­skipulags, sem varði meginhúsform vegna aðstæðna á lóð sem ekki hafi verið skoðað sérstak­lega við breytingu skipulagsins, styðji kröfu kærenda um að ekki sé heimilt að með­höndla málið sem óverulegt frávik samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á að hagsmunir kærenda hafi í engu skerst hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn, en það beri sönnunarbyrði fyrir því. Útsýni muni skerðast verulega þar sem hús kærenda hafi verið hannað með það í huga að húsið fyrir neðan það væri stallað einbýlishús. Ef breyting verði á skuggavarpi eða útsýni þá beri sveitarfélaginu skylda til að grenndarkynna breytingar. Einungis megi víkja frá þeirri skyldu ef grenndaráhrif vegna breytinganna séu engin.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir tveggja hæða parhúsi að Stórakrika 59-61 en umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Krikahverfis frá árinu 2005.

Ákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fjalla um málsmeðferð við breytingu á deili­skipulagi. Í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á sam­þykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndar­kynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Þá segir í 3. mgr. lagaákvæðisins að við útgáfu framkvæmda- eða byggingar­leyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deili­skipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Við meðferð umsóknar um byggingarleyfi í máli þessu samþykkti bæjarstjórn að vikið væri frá kröfum skipulagslaga um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þar sem um óverulegt frávik frá deiliskipulagi væri að ræða, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð nefnds deiliskipulags er í kafla 5.4 að finna skipulagsskilmála um parhús. Kemur þar m.a. fram að á deiliskipulagsuppdrætti séu húsaeiningar í parhúsalengjum almennt sýndar jafnbreiðar en misbreiðar einingar séu heimilar innan byggingarreits lóðar án deiliskipulags­breytinga. Segir einnig að allir hlutar húss skuli standa innan byggingarreits eins og hann sé sýndur á deiliskipulagi og mæliblaði fyrir hverja lóð. Á deiliskipulagsuppdrætti er gert ráð fyrir parhúsi af gerðinni P-IIc á lóðinni Stórakrika 59-61, en samkvæmt greinargerð skipu­lagsins séu slík parhús með tvær heilar hæðir. Dýpt meginhúsforms sé 10 m og almenn breidd parhúsa­eininga 9 m. Þá séu útbyggingar við meginhúsform heimilar við suðlægar langhliðar og gafla og megi lengd þeirra nema allt að helmingi viðkomandi húshliða.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa, sem lá fyrir við afgreiðslu bæjarstjórnar, kemur m.a. fram að fyrirhugað parhús sé ekki samhverft um miðju heldur lagi sig að aðstæðum á lóð og byggingar­reit. Þannig falli það betur að götumynd sem einkennist frekar af einbýlis­húsum, sumum með tveimur íbúðum. Við breytingu á deiliskipulagi árið 2019 hafi ráðgjafar og lóðarhafar valið skilgreininguna P-IIc fyrir lóðina. Byggingarreit hafi ekki verið breytt með sama hætti og þekkist um aðra byggingarreiti rað- og parhúsa í hverfinu, en form og lögun þeirra taki mið af skilmálum sem skuli hanna innan. Umrædd lóð sé sérkennileg í laginu. Í skilmálum deili­skipulags um parhús P-IIc standi „heldur fastmótuð hugmynd um stærð og gerð megin­húsforma“. Þá segir einnig í minnisblaðinu að ætli hönnuður „að reyna að fylgja útgefnu mæliblaði, byggingar­reit og heimildum lóðar er ljóst að ekki er hægt, eða erfitt, að fara eftir skilmálum er varða megin­húsform vegna aðstæðna á lóð sem ekki hefur verið skoðuð sérstaklega við breytingu skipulagsins.“ Bendir skipulagsfulltrúi á að fyrirhugað hús sé stallað í samræmi við skilmála og aðstæður innan lóðar. Uppbrot þess sé mikið sem hafi jákvæð áhrif á umfang hússins með tilliti til meginhúsforma. Þá sé húsið 40 cm lægra en deiliskipulag heimili og útbygging lækki um 55 cm næst aðliggjandi húsi.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum fyrirhugaðs parhúss verður dýpt hússins nr. 59 við Stórakrika 17 m og hússins nr. 61 verður 12 m. Breidd hússins nr. 59 er innan heimilda skilmála deiliskipulags en mesta breidd hússins nr. 61 er 11,55 m. Dýpt og breidd fyrirhugaðs parhúss er því nokkuð umfram heimildir gildandi deiliskipulags svæðisins. Þá er lögun hússins önnur en samkvæmt skilmálum deiliskipulags Krikahverfis. Verður að telja að umdeild frávik frá gildandi deiliskipulagi muni hafa grenndaráhrif gagnvart kærendum umfram það sem þar er heimilað. Voru því þau ströngu skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulags­laga fyrir því að vikið yrði frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis, um að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Þá þykir rétt að benda á að í bókun skipulagsnefndar á fundi hennar 5. nóvember 2021, sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 10. s.m., var sam­þykkt að málið skyldi meðhöndlað sem óverulegt frávik skipulags samkvæmt fyrrnefndu laga­ákvæði vegna lögunar lóðar og byggingarreits. Aftur á móti verður ekki séð að einnig hafi farið fram mat á áðurnefndum áhrifum umræddra frávika deiliskipulags á hagsmuni nágranna. Var enda slíkt mat ekki að finna í minnisblaði skipulagsfulltrúa að undanskildu því er fram kemur um hæð fyrirhugaðs húss.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61 í Mosfellsbæ úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 11. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að reisa tveggja hæða parhús á lóðinni Stórakrika 59-61 í Mosfellsbæ.

182/2021 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 182/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyja­fjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Holt ehf., eigandi Grundar I, og Ljósaborg ehf., eigandi Grundar II A, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gerðu kærendur jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 11. mars 2021 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 22. desember 2021.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 29. nóvember 2018 var samþykkt tillaga skipulagsnefndar um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir svínabú í landi Torfa. Í tillögunni fólst m.a. að byggt yrði upp svínabú fyrir 2.400 grísi (30 kg og stærri) og 400 gyltur. Afmörkuð yrði 5,45 ha lóð undir fyrirhugaðar byggingar, sem yrðu 2.600 m² eldishús, 3.100 m² gyltu- og fráfærugrísahús, 300 m² starfsmanna- og gestahús, allt að átta síló, samtals 80 m² að grunn­flatar­máli, og 1-2 haugtankar, samtals um 6.000 m³. Að loknum kynningartíma tillögunnar fjallaði skipulagsnefnd um innkomnar athugasemdir á fundi sínum 14. mars 2019 og bókaði að nefndin legði til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipu­lagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar væru í afgreiðslu nefndarinnar á tilteknum athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 28. mars 2019 var afgreiðsla skipulags­nefndar samþykkt og var deiliskipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí s.á. Samhliða meðferð deiliskipulagsins var framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem framkvæmd í flokki B samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 12. mars 2019 þar sem stofnunin komst að þeirri niður­stöðu að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærendur kærðu framangreindar ákvarðanir, þ.e.a.s. ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabús að Torfum skyldu ekki háðar mati á umhverfis-áhrifum og afgreiðslu sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. s.m. á deiliskipulagstillögu vegna svína­búsins, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2019 í máli nr. 49/2019 var þeim hluta kærunnar sem varðaði mats­skylduákvörðunina vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn. Þá vísaði nefndin einnig þeim hluta kærunnar frá sem laut að deiliskipulaginu á þeim grundvelli að það hefði ekki verið sam­þykkt með réttum hætti í sveitarstjórn og bæri því að vísa málinu frá, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 27. nóvember 2019 óskuðu kærendur eftir því við Skipulagsstofnun að stofnunin endurupptæki matsskylduákvörðun sína, en þeirri beiðni var hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. janúar 2020. Kærendur óskuðu eftir endurupp­töku málsins að nýju með bréfi, dags. 17. desember 2021, en þeirri beiðni var einnig hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. febrúar 2022. Þá stefndu kærendur íslenska ríkinu fyrir dóm 4. október 2020 til að fá matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar hnekkt.

Hinn 13. ágúst 2019 gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi til handa landeigenda að Torfum sem tók til vegtengingar við Eyjafjarðarbraut vestri og borunar eftir neysluvatni innan lóðar fyrirhugaðs svínabús. Kærendur kærðu greinda ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 70/2019, uppkveðnum 22. ágúst 2019, var málinu vísað frá þar sem kærendur voru ekki taldir eiga lögvarðir hagsmuni af úrlausn málsins. Var í forsendum þeirrar niðurstöðu vísað til þess að þótt framkvæmdirnar væru óum­deilanlega hluti af undirbúningi vegna svínabús væri ekki um slík tengsl framkvæmda að ræða að kærendur gætu byggt aðild sína á því.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti 25. nóvember 2019 nýtt deiliskipulag umrædds svæðis vegna títtnefnds svínabús. Kærendur kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sem hafnaði kröfum kærenda með úrskurði uppkveðnum 7. maí 2020 í máli nr. 133/2019. Hinn 19. nóvember 2021 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðarsveitar byggingarleyfis­umsókn vegna svínabús á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ógilda beri hin kærða ákvörðun þar sem enn sé beðið úrlausnar dómstóla um lögmæti ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um matsskyldu hins fyrirhugaða svínabús að Torfum samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Vísað sé til 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki þar sem segi að óheimilt sé að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirki sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Rekið sé dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið sé fram á ógildingu nefndrar ákvörðunar Skipu­lagsstofnunar, en í málinu liggi fyrir matsgerð frá 14. júní 2021 sem staðfesti að hið fyrirhugaða svínabú muni hafa meiri umhverfisáhrif en svínabú að þröskulds­viðmiðunarstærðum skv. 1. viðauka laga nr. 106/2000. Vegna stefnunnar og niðurstöðu matsgerðarinnar virðist fram­kvæmdaraðilinn hafa farið þá leið að draga úr umfangi hins fyrirhugaða svínabús. Ekki liggi fyrir hvernig þessi nýja staða muni hafa áhrif á niðurstöðu dómsmálsins.

Sú staða sé uppi að verulegur vafi sé um lögmæti matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar og hvort að sú ákvörðun geti verið grundvöllur byggingarleyfis. Hin nýja framkvæmd hafi ekki stoð í lögmætri ákvörðun Skipulagsstofnunar á þessum tímapunkti, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Horfa verði til þess að verulegar breytingar virðist hafa verið á hinni fyrirhuguðu framkvæmd sem geti haft áhrif á gildi matsskylduákvörðun stofnunarinnar. Kærendur hafi því sent erindi til Skipulagsstofnunar um að endurupptaka ákvörðunina.

Þá verði einnig að líta til þess að sumarið 2021 hafi Finnstaðaá, sem renni meðfram hinni fyrir­huguðu byggingu, flætt verulega yfir bakka sína. Flóðið hafi farið yfir nær allan byggingareit hins fyrirhugaða húss, en hefði það verið risið hefði það mögulega legið undir alvarlegum skemmdum og öll dýr drepist. Hefði flóðið komist í haugtanka hefði mögulega verið um stór­slys að ræða. Þetta séu grundvallar­forsendur sem hefðu breytt fyrri ákvörðunum Skipulags­stofnunar og valkostamati á skipulagsstigi. Hið kærða byggingaleyfi sé því grundvallað á afar veikum forsendum í umræddri ákvörðun stofnunarinnar.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu Eyjafjarðarsveitar er bent á að íbúðarhús kærenda að Grund I og Grund II A séu staðsett langt utan þeirra fjarlægðarmarka sem í gildi séu um fjar­lægð svínahúsa frá íbúðarhúsum. Þau séu í kílómetra fjarlægð frá hinu fyrirhugaða svínabúi. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína segi að svínabú með meira en 2.000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 500 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum á skipulögðum landbúnaðarsvæðum. Vegna þessarar miklu fjarlægðar eigi kærendur ekki lög­varða hagsmuni af kærumáli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 sé svæðið skipulagt sem landbúnaðarsvæði. Ljóst sé að tilkoma svínabúsins muni ekki skerða nýtingarmöguleika kærenda á jörðum sínum jafnvel þó 500 m radíus fari inn á jarðir þeirra og ekkert sem gefi til kynna að svæðið verði nýtt til annars en landbúnaðar í framtíðinni. Vegna þessa geti kærendur ekki talist eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins.

Aðeins sé verið að heimila byggingar húsa en ekki veita starfsleyfi auk þess sem búið sé að samþykkja deiliskipulag vegna spildunnar sem leyfið eigi sér stoð í. Rétt sé að geta þess að byggingarleyfið nái aðeins til húsakosts sem dugi fyrir 300-400 gyltum, u.þ.b. 2.000 smágrísum og 200 eldisgrísum. Sá fjöldi dýra sé ekki skilgreindur berum orðum á uppdráttum en með því að bera fermetrafjölda einstakra deilda í húsnæðinu saman við kröfur reglugerðar nr. 1276/2014 um velferð svína megi álykta með vissu að byggingarleyfið sé langt frá því að fullnýta heimild deiliskipulagsins. Sveitarfélagið telji ekkert athugavert við að heimilað sé að byggja aðeins hluta heimilaðs byggingarmagns nú en að síðar verði veitt leyfi sem fullnýti heimild skipu­lagsins. Ef áðurgreindur fjöldi dýra sé borinn saman við fjarlægðarmörk samkvæmt reglugerð nr. 520/2015 þá sé hann mun minni heldur en fjarlægðarmörk vegna bús með meira en 2.000 stæði fyrir eldisgrísi eða 750 stæði fyrir gyltur, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Fjarlægðarmörkin virðast vera um 300 m miðað við útgefið byggingarleyfi, sbr. viðauka við reglugerðina, þ.e. 400 stæði fyrir gyltur gefi 290 m. Bent sé á að heimild samkvæmt deiliskipulagi nái til allt að 2.400 eldisgrísa og 400 gylta.

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 70/2019 hafi kæru á ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar og borunar eftir vatni á spildunni úr Torfum undir svínabúið verið vísað frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Í því máli hafi verið um að ræða afmarkaðan hluta framkvæmdarinnar, rétt eins og hið kærða byggingar­leyfi í máli þessu. Veiting byggingarleyfis sé aðeins einn afmarkaður hluti framkvæmdarinnar en umfjöllun um framkvæmdina hafi farið fram við gerð deiliskipulagsins fyrir svínabú í landi Torfa. Kærendur hafi getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri við þá málsmeðferð. Skipu­lagið hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 21. nóvember 2019 og hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnað kröfu kærenda að fella það úr gildi, sbr. úrskurð í máli nr. 133/2019. Fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að svínabúið sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en í máli nr. 49/2019 hafi úrskurðarnefndin vísað frá kæru kærenda vegna þeirrar ákvörðunar auk þess sem Skipulagsstofnun hafi hafnað beiðni kærenda um endurupp­töku ákvörðunarinnar. Af þessu megi vera ljóst að kærendur hafi fengið tækifæri til að koma að sínum andmælum og sjónarmiðum og fengið umfjöllun um andmæli sín vegna fram­kvæmdarinnar. Í ljósi þess að byggingarleyfið eigi stoð í gildandi deiliskipulagi og mats­skylduákvörðun Skipulagsstofnunar, sem og að kærendur hafi fengið öll tækifæri til að and­mæla þessum ákvörðunum, þá verði ekki séð hvaða lögvörðu hagsmuni kærendur hafi af byggingar­leyfinu, sem aðeins sé hluti af umræddri heildarframkvæmd.

Kærendur hafi höfðað dómsmál til ógildingar fyrrnefndrar matsskylduákvörðun Skipulags­stofnunar auk þess sem þeir hafi beðið Skipulagsstofnun um að endurupptaka ákvörðunina. Í kæru þessa máls ætlist þeir til að úrskurðarnefndin hafi matsskylduákvörðun Skipulags­stofnunar að engu og að byggingarleyfið verði fellt úr gildi þar sem vafi leiki á um gildi mats­skyldu­ákvörðunarinnar. Þeir ætlist til þess að Skipulagsstofnun, úrskurðarnefndin og dómstólar fjalli um matsskylduákvörðunina á sama tíma, en samkvæmt reglunni um litis pendens áhrif megi ekki höfða fleiri en eitt mál vegna sömu kröfunnar, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómstólar teljist æðri stjórnvöldum og á meðan krafa kærenda um ógildingu á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé til meðferðar hjá dómstólum beri stjórnvöldum að vísa kröfum frá sem lúti að ógildingu ákvörðunarinnar. Felli dómstólar ákvörðunina úr gildi yrði komin upp ný staða sem skoða yrði þegar þar að kæmi, en deili­skipulag sem sé í gildi myndi eftir sem áður halda velli. Öll lögbundin skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfisins séu því til staðar.

Kærendur haldi því fram að byggingaráætlun svínabúsins hafi verið breytt og virðast telja það vera út af dómsmáli þeirra og matsgerð sem þeir hafi aflað. Eyjafjarðarsveit sé ekki kunnugt um að byggingaráformum hafi verið breytt. Leyfishafi geti byggt búið í áföngum og verði að hafa svigrúm til þess út frá sínum eigin viðskiptalegu forsendum. Órökstutt sé af hálfu kærenda hvers vegna byggingaráætlunum hafi verið breytt eða hvers vegna málshöfðun þeirra og mats­gerð ættu að hafa áhrif á uppbyggingu búsins.

Það hafi verið vitað frá upphafi að Finnastaðaá eigi það til að flæða yfir bakka sína í miklum leysingum. Hluti af framkvæmdum vegna svínabúsins feli í sér gerð varnargarða til að varna flóðum, lítilsháttar færslu árfarvegar og dýpkun hans. Bakkavarnir við Finnastaðaá séu ekki óyfirstíganlegar fremur en við önnur smærri, sambærileg eða stærri vatnsföll hér á landi.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er farið fram á frávísun málsins með sambæri­legum rökum og gert var af hálfu Eyjafjarðarsveitar. Leyfishafi bendir jafnframt á að mats­skylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé í fullu gildi og hafi hvorki verið hnekkt af æðra stjórn­valdi né dómstólum. Skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki um að fyrir liggi ákvörðun um að ekki sé þörf á mati á umhverfisáhrifum sé því uppfyllt.

Engin breyting hafi verið gerð á framkvæmdinni líkt og kærendur haldi fram. Til standi að reisa byggingar um 3.000 m2 að stærð í þessum áfanga en aðrir áfangar verði framkvæmdir síðar. Deiliskipulagið heimili 5.700 m2 byggingarmagn. Heimilt sé að hafa allt að 2.400 alisvín og allt að 400 gyltur. Leyfishafa sé ekki skylt að nýta allt byggingarmagnið í einu. Viðskiptalegar forsendur ráði byggingarhraða og uppbyggingu en framkvæmdin fari fram í samræmi við gildandi deiliskipulag og leyfi yfirvalda. Upphaflega hafi svínabúið átt að vera um 8.500 m2 að stærð. Forsvarsmaður kærenda hafi boðist til að hanna búið í þeirri stærð og hafi gert forsvars­manni leyfishafa tilboð í verkið og tekið fram að ekki væri þörf á mati á umhverfisáhrifum. Það hafi því komið á óvart þegar kærendur hafi síðar sett sig upp á móti því að búið yrði reist, þó það væri aðeins tæplega 5.700 m2, og að ofuráherslu hafi verið lögð á að búið skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Það skipti greinilega engu máli hver stærð búsins komi til með að verða, kærendur muni alltaf setja sig upp á móti því sem gert verði.

Algjörlega órökstutt sé hvers vegna stórslys geti orðið þegar Finnastaðaá flæði yfir bakka sína. Það sé vel þekkt staðreynd að áin geti flætt yfir bakka sína í miklum leysingum en það gerist þó ekki nema með nokkurra áratuga millibili. Leyfishafi sé meðvitaður um að það geti gerst oftar og því sé fyrirhugað að gera varnargarða fyrir byggingarnar. Einnig sé fyrirhugað að færa farveg árinnar lítilsháttar og gera hana aðgengilega svo unnt sé að grafa reglulega upp úr farvegi hennar, dýpka hann og hreinsa framburð. Þetta hafi verið hluti af framkvæmdaáætlun svína­búsins frá upphafi. Ef byggingar hefðu verið reistar og svínabúið væri komið í fullan rekstur hefðu varnargarðar varið byggingarnar fyrir flóði og þær ekki orðið fyrir skemmdum. Einnig hefðu þeir varið haugtanka, sem auk þess verði vel varðir og muni halda vatni og vindum. Þó svo að flóðið hefði lent á byggingum hefðu dýr ekki drepist enda gólf það hátt að vatn hefði ekki komist að þeim. Haugtankar hefðu líklega ekki orðið fyrir skemmdum þó vatn hefði komist að þeim og varnargarðar ekki haldið. Þá sé bent á að svínabúið sé háð starfsleyfi og verði undir eftirliti þess til bærra aðila, t.a.m. Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits og Matvæla­stofnunar. Öryggi muni verða að fullu tryggt í rekstri búsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingar­fulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa.

Eyjafjarðarsveit hefur gert kröfu um frávísun málsins vegna svokallaðra litis pendens áhrifa, þ.e. að aðeins megi höfða eitt mál vegna sömu kröfunnar, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kærendur í máli þessu reka nú mál fyrir dómstólum vegna mats­skylduákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að fyrirhuguð framkvæmd svína­bús að Torfum í Eyjafjarðarsveit sé ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þetta ljóslega ekki sama krafa og höfð er uppi í máli þessu, þar sem krafist er ógildingar á byggingarleyfi, auk þess sem 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 á við um rekstur tveggja dómsmála en ekki dómsmáls og stjórn­sýslukæru. Verður því kærumáli þessu því ekki vísað frá á þeim grundvelli. Þá er haldlaus sú málsástæða sveitarfélagsins að vísa beri málinu frá þar sem kærendur hafi áður komið að sínum sjónarmiðum vegna deiliskipulags svæðisins og matsskylduákvörðunar Skipulags­stofnunar, enda fá þær staðreyndir engu breytt um þá kæruheimild sem er til staðar vegna samþykkis byggingaráforma í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Bæði Eyjafjarðarsveit og leyfishafi telja að vísa beri kærumáli þessu frá þar sem kærendur uppfylli ekki greint skilyrði um lögvarða hagsmuni með hliðsjón af fjarlægð íbúðarhúsa þeirra frá hinu fyrirhugaða svínabúi. Byggingarleyfið heimili aðeins byggingu húsa fyrir svínabú en veiti ekki starfsleyfi vegna starfsemi fyrirhugaðs svínabús.

Af ákvæðum laga nr. 160/2010 leiðir að byggingarleyfi felur ekki einvörðungu í sér heimild til að reisa mannvirki heldur kveður það líka á um notkun þess, sbr. m.a. 6. tl. 3. gr., 1. mgr. 9. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Við mat á lögvörðum hagsmunum vegna veitingu byggingarleyfis ber því einnig að líta til þeirrar notkunar sem leyfið heimilar þrátt fyrir að önnur leyfi séu tilskilin svo að fyrirhuguð starfsemi geti hafist. Á samþykktum aðalupp­dráttum hins kærða byggingarleyfis kemur fram að hin umdeilda bygging sé ætluð til reksturs svínabús. Ekki er útilokað að sú starfsemi geti haft áhrif á hagsmuni kærenda umfram aðra, s.s. vegna lyktarmengunar, og með hliðsjón af því teljast kærendur uppfylla skilyrði kæruaðildar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hins kærða byggingarleyfis fyrst og fremst á því að vafi sé uppi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 að fyrirhugað svínabú að Torfum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Vísa þeir til þess að mál sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið sé fram á ógildingu matsskylduákvörðunarinnar. Svo sem rakið er í málavöxtum komu kærendur að kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna umþrættrar matsskylduákvörðunar, en með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 49/2019, upp-kveðnum 14. nóvember 2019, var þeim hluta kærunnar sem varðaði þá ákvörðun vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn. Þá liggur fyrir að Skipulagsstofnun hefur í tvígang synjað beiðni kærenda um endurupptöku ákvörðunarinnar. Er því ljóst að sú ákvörðun hefur gildi að lögum, enda hefur henni hvorki verið hnekkt né hún endurupptekin eða afturkölluð af hálfu Skipulags­stofnunar. Þá verður ekki talið að tilvist áðurnefnds dómsmáls geti ein og sér leitt til ógildingar hins kærða byggingarleyfis. Skal á það bent að ef fallist verður á dómkröfur kærenda þá standa þeim til boða önnur réttarúrræði til að verja hagsmuni sína, s.s. með því að hlutast til um að byggingarfulltrúi beiti þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010.

Á samþykktum aðaluppdrætti má sjá að gert er ráð fyrir malarplani allt í kringum svínabúið sem og malarveg frá planinu að Finnastaðaá þar sem koma á fyrir brunahana auk þess sem vísað er til þess að brunavarnir verði samkvæmt brunahönnunarskýrslu frá 20. október 2021. Í kafla 7.4 þeirrar skýrslu kemur fram að tryggja skuli slökkviliði aðkomu að Finnastaðaá til öflunar á slökkvivatni með akfærri leið niður að á og athafnasvæði við ánna með grófjöfnuðu malarplani. Hinn fyrirhugaði malarvegur, hluti malarplans og brunahani eru utan skipulags­svæðis deiliskipulags Torfa, svínabú, og felur því byggingarleyfið í sér framkvæmdir á ódeili­skipulögðu svæði að hluta. Í ljósi þess að þær framkvæmdir verða á lóð leyfishafa og einungis lítillega utan deiliskipulagssvæðisins, sem og að virtum þeim hagsmunum sem framkvæmdum er ætlað að verja með því að tryggja aðkomu slökkviliðs, verður sá annmarki þó ekki talinn slíkur að varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verður heldur ekki séð að það eigi að leiða til ógildingar byggingarleyfisins þó að Finnastaðaá geti flætt yfir bakka sína, en fram hefur komið af hálfu Eyjafjarðarsveitar og leyfishafa að sú staðreynd sé vel þekkt og til standi að gera varnargarða vegna þess.

Að framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum form- eða efnisannmörkum að varði ógildingu þess verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

177/2021 Hvaleyrarbraut

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 177/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar­bæjar frá 10. nóvember 2021 um að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Marás, vélar ehf. og Arctic Sport ehf., eigendur tveggja fasteigna að Hvaleyrarbraut 29 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. nóvember 2021 að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 7. janúar 2022.

Málavextir: Húsnæðið að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði er tveggja hæða atvinnuhúsnæði. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru sex iðnaðar- eða vörugeymslubil á neðri hæð hússins og sex iðnaðarbil á efri hæð. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, samþykktri af byggingar­­fulltrúa 1. október 2010 og þinglýstri 3. desember s.á., var eignarhluta 01 0103 skipt upp í tvo eignarhluta, 01 0103 og 01 0105. Á meðfylgjandi teikningum er sýndur veggur á milli rýma 01 0103 og 01 0105, en hann mun aldrei hafa verið settur upp. Þá mun lokaúttekt á húsinu ekki hafa farið fram. Eru kærendur máls þessa eigendur umræddra rýma.

Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 18. ágúst 2021, sóttu kærendur um leyfi til að fella niður vegg á milli fyrrgreindra rýma. Í kjölfarið fóru fram tölvupóstsamskipti á milli kærenda og byggingarfulltrúa þar sem m.a. kemur fram að í umsóttum breytingum felist að tvær fasteignir séu sameinaðar í eina með því að fjarlægja eignamörkin á milli þeirra. Við það falli annað rýmisnúmerið niður, en eitt rými geti ekki verið með tvö rýmisnúmer eða fasteignanúmer. Var vísað til ákvæða laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 10. nóvember 2021 var fyrrnefnd umsókn kærenda tekin fyrir og synjað á þeim grundvelli að hún væri ekki í samræmi við reglur um skráningu fasteigna.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að Hvaleyrarbraut 29 sé fjöleignarhús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Umræddar fasteignir séu séreignir og nýttar sem geymslu­húsnæði. Á milli þeirra hafi aldrei verið veggur og hafi kærendur því sótt um byggingarleyfi Hafnarfjarðarbæjar fyrir þeirri skipan mála.

Af samskiptum kærenda við byggingarfulltrúa áður en umdeild ákvörðun hafi verið tekin verði ráðið að hún byggi á því mati byggingarfulltrúa að það samræmist hvorki skilgreiningu fjöleignarhúsalaga á séreign að ekki sé veggur á milli rýmanna né ákvæðum laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Engin stoð sé fyrir því í lögum eða reglugerðum að skylda eigendur tveggja séreignahluta í fjöleignarhúsi til að hafa vegg á milli þeirra.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 26/1994 sé séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið ásamt því sem honum fylgi. Byggingarfulltrúi hafi í samskiptum við kærendum vísað til tilgreinds ákvæðis en það veiti ekki fullnægjandi lagastoð fyrir þeirri afstöðu bæjaryfirvalda að kærendum sé skylt að hafa vegg á milli fasteignanna. Ákvæðið hafi að geyma almenna skilgreiningu á hugtakinu séreign sem verði ekki túlkuð á þann veg að lagðar séu sérstakar og íþyngjandi skyldur á herðar fasteignareigenda. Í lögum nr. 6/2001 komi fram að séreignarhluta í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. laganna. Umræddar fasteignir séu skráðar sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, þær hafi verið metnar fasteignamati sem slíkar og af þeim greiddir fasteignaskattar. Engu skipti í því sambandi hvort veggur sé á milli þeirra eða ekki enda fari ekki á milli mála samkvæmt teikningum og eignaskiptayfirlýsingu hver mörkin milli fasteign­anna séu. Í 2. mgr. 15. gr. sömu laga segi enda að fasteignir í fjöleignarhúsum skuli afmarkaðar á grunnteikningum og skráningartöflu húss. Ekki sé hægt að túlka ákvæði laganna á þann veg að þau skyldi eigendur séreigna í fjöleignarhúsi til að hafa vegg á milli eignanna og þaðan af síður að þau veiti nægjanlega skýra stoð fyrir slíkum íþyngjandi kröfum á borgarana. Ýmis dæmi séu um að eigendur mismunandi séreignahluta í fjöleignarhúsum hafi opnað á milli þeirra og nýtt sem eina heild, bæði í íbúðarhúsum og atvinnuhúsnæði, án þess að bæjaryfirvöld hafi amast við því.

Hvorki verði séð að ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki né byggingarreglugerð nr. 112/2012 geri þá kröfu að hafður sé veggur á milli fasteignanna heldur uppfylli umrædd rými allar þær kröfur sem lögin og reglugerðin geri til fasteigna, þ.m.t. um brunavarnir. Hafnarfjarðarbær hafi ekki orðið við kröfu kærenda um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun og brjóti það gegn 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin eigi sér ekki stoð í lögum, hún sé efnislega röng og því beri að fella hana úr gildi. Jafnframt sé hún háð slíkum formannmörkum að ekki verði hjá því komist að ógilda hana.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að málsástæða kærenda sé röng og órökstudd og krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Í c-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna segi að fasteignir, hluti þeirra og einstök mannvirki skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá. Séreignahluta í fjöleignarhúsum skuli skrá samkvæmt lögum um fjöleignarhús. Hugtakið séreign sé skilgreint í 4. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús sem afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskipta­yfirlýsingu. Í 5. gr. sömu laga sé fjallað nánar um séreign en samkvæmt 1. málslið ákvæðisins falli þar undir allt afmarkað húsrými sem gert sé að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum og allt sem liggi þar innan veggja, sbr. 1. málslið ákvæðisins.

Hver fasteign, eða séreign, afmarkist af veggjum, t.d. geti íbúð í fjölbýli verið með mörg herbergi en afmarkist við aðra séreign eða sameign með veggjum. Jafnframt afmarkist geymsla í sameign með veggjum. Hvert rými sem sé séreign skuli hafa veggi sem umlyki viðkomandi bil til að kallast sér fasteign. Eigendum hafi verið boðið að sækja um eitt fasteignanúmer fyrir rýmin en þá myndi rýmið verða að einu með engum vegg. Að öðrum kosti yrði veggnum bætt við og rýmin með tvö fasteignanúmer.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Túlkun sveitarfélagsins á skilgreiningu 4. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús á séreign er mótmælt. Í umræddu ákvæði sé um afmörkun séreignar vísað til þinglýstra heimilda um húsið. Ákvæðið áskilji ekki að veggur sé milli séreignarhluta í fjöleignarhúsi, heldur að þeir séu afmarkaðir í þinglýstum heimildum. Þessi skilningur eigi sér einnig stoð í orðalagi 5. gr. laganna þar sem segi í 1. tölulið, að undir séreign fjöleignarhúss falli: „Allt afmarkað húsrými sem gert er að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum“. Af þessu ákvæði sé ljóst að afmörkun fasteignar í fjöleignarhúsi ráðist af teikningum. Framan­greind ákvæði laga nr. 26/1994 og laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, verði með engu móti túlkuð þannig að veggur milli séreignarhluta sé skilyrði þess að þeir geti talist fasteignir í skilningi laganna. Þvert á móti sé það undir eigendum viðkomandi séreignarhluta komið að ákveða hvort á milli þeirra skuli vera veggur eða ekki, að gættum öllum reglum laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar að synja umsókn um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29. Líkt og greinir í málavöxtum var með eignaskipta­yfirlýsingu, sem þinglýst var 3. desember 2010, eignarhluta 01 0103 í húsinu skipt upp í tvo eignarhluta sem fengu númerin 01 0103 og 01 0105. Á teikningu sem fylgdi með eignaskipta­yfirlýsingunni er sýndur veggur á milli framangreindra rýma en hann mun aldrei hafa verið settur upp. Í ljósi þess munu kærendur hafa lagt fram umrædda umsókn sem byggingarfulltrúi synjaði með vísan til þess að erindið samræmdist ekki reglum um skráningu fasteigna.

Fjöleignarhús telst vera hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem getur bæði verið allra og sumra, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús. Gilda lögin m.a. um hús sem alfarið eru nýtt til annars en íbúðar, svo sem fyrir atvinnu­starfsemi, sbr. 3. tölulið 3. mgr. 1. gr. laganna. Hugtakið séreign er skilgreint í 4. gr. laganna sem afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgi sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laganna eða eðli máls. Nánari útlistun á því sem fellur undir séreign fjöleignarhúss er að finna í 1.-11. tölulið 5. gr. laganna.

Séreignahlutar í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús skal skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Í 2. mgr. 15. gr. sömu laga segir að fasteignir í fjöleignarhúsum skuli afmarkaðar á grunn­teikningum og skráningartöflu húss. Um skráningu fasteigna í fjöleignarhúsum fari samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

Umsókn kærenda var synjað með eftirfarandi rökstuðningi: „Erindinu er synjað samræmist ekki reglum um skráningu fasteigna.“ Af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum milli kærenda og byggingarfulltrúa áður en umsókninni var hafnað má ráða að byggingarfulltrúi sé í þessu sambandi að vísa til c-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 og 4. gr. og 1. töluliðar 5. gr. laga nr. 26/1994. Í greinargerð sveitarfélagsins er einkum byggt á því að séreign skuli vera innan veggja, sbr. síðastnefnda lagagrein.

Í 1. tölulið 5. gr. laga nr. 26/1994 segir að undir séreign falli allt afmarkað húsrými sem gert er að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum og allt sem liggur þar innan veggja. Þrátt fyrir að vísað sé til „veggja“ í umræddum tölulið verður ekki séð að veggur sé skilyrði fyrir skráningu fasteignar sem séreignar enda er í fleiri töluliðum ákvæðisins fjallað um aðrar tegundir séreigna sem ekki er skilyrði að veggir umlyki, s.s. bílastæði samkvæmt 9. tölulið. Þá segir í 10. tölulið að undir séreign falli aðrir hlutar húss eða lóðar, bílskúr á lóð húss eða búnaður og lagnir sem þinglýstar heimildir segja séreign og teljist það samkvæmt eðli máls. Enn fremur kemur fram í skilgreiningu hugtaksins séreign samkvæmt 4. gr. laganna að séreign skuli afmörkuð samkvæmt þinglýstum heimildum en ekki er getið hvers eðlis sú afmörkun skuli vera. Er því ekki gerð fortakslaus krafa í lögum um fjöleignarhús um að séreign skuli afmörkuð með veggjum á allar hliðar og átti umdeild synjun byggingarfulltrúa þar af leiðandi sér ekki stoð í framan­greindum lagaákvæðum.

Um efni rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar er fjallað í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir m.a. að vísa skuli í rökstuðningi til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á, sbr. 1. mgr. lagagreinarinnar. Verður að telja að rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við fyrrnefnt ákvæði en hvergi er vísað til hvaða reglna um skráningu ákvörðunin byggir á. Er því ekki hægt að sjá hvort ákvörðunin hafi byggst á öðrum reglum en vísað hafði verið til í tölvupóstsamskiptum milli kærenda og byggingar-fulltrúa í aðdraganda ákvörðunarinnar.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé slíkum annmörkum háður að valdi ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði.

48/2022 Flókagata

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 24. maí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 48/2022, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. apríl 2022 á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra Ljóshólar ehf. afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. apríl s.á. á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Hinn 1. apríl 2022 sendi lögmaður kæranda á þar til gerðu eyðublaði fyrirspurn til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem farið var fram á samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4, eignarhluta 01 0001. Erindinu fylgdi bréf og önnur gögn. Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. s.m. þar sem bókað var að spurt hafi verið um leyfi til að skrá áður gerða íbúð í kjallara sem sér fasteign á grundvelli fordæmis á samþykktu erindi frá 1998 og skoðunarskýrslu vegna brunavirðis frá 1938 í húsi á lóð nr. 4 við Flókagötu. Er erindinu svarað „neikvætt“ og vísað til umsagnar á athugasemda­blaði.

Kærandi bendir á að Flókagata 4-6 sé fjöleignarhús sem skiptist í fimm eignarhluta. Flókagata 6 skiptist í þrjár íbúðir og þrjá eignarhluta, ein íbúð á hvorri hæð og ein í kjallara. Flókagata 4 skiptist einnig í þrjár íbúðir, ein á hvorri hæð og ein í kjallara, en einungis tvo eignarhluta þar sem íbúð í kjallara og íbúð á 1. hæð séu undir sama fasteignanúmeri. Í báðum húsum hafi verið íbúðir í kjallara frá upphafi en íbúðin í kjallara Flókagötu 6 hafi verið samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 24. febrúar 1998 á þeim grundvelli að það samræmdist reglum um áður gerðar íbúðir. Þegar aflað hafi verið upplýsinga vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar fyrir Flókagötu 4 hafi starfsmaður byggingarfulltrúa upplýst um að íbúðin í kjallara hússins yrði að vera samþykkt af byggingarfulltrúa, annars yrði hún skráð sem geymslur. Af því tilefni hafi fyrirspurn verið lögð fyrir byggingarfulltrúa um samþykki fyrir áðurgerðri íbúð í kjallara. Þótt einungis hafi verið um afgreiðslu á fyrirspurn að ræða þá liggi ljóst fyrir að um endanlega ákvörðun hafi verið að ræða sem kæmi í veg fyrir að kærandi gæti lokið við gerð eignaskiptayfirlýsingar.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á fyrirspurn kæranda, dags. 1. apríl 2022, um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4 í Reykjavík. Erindi kæranda var sett fram sem fyrirspurn þótt orðalagið benti til þess að sótt væri eftir samþykki. Afgreiðsla byggingarfulltrúa ber þess einnig merki að um afgreiðslu á fyrirspurn sé að ræða þar sem erindið og svör við því er bókað undir „ýmis mál“ í fundargerð frá afgreiðslufundi 12. apríl 2022 og það afgreitt „neikvætt“ en erindinu ekki hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Neikvæð afgreiðsla byggingarfulltrúa á fyrirspurn kæranda fól því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

163/2021 Neðan-Sogsvegar

Með

Árið 2022, föstudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 163/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafn­ings­­hrepps frá 6. október 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norður­kots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3, varðandi lóðina Neðan-Sogsvegar 4.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Neðan-Sogsvegar 4, samþykkt skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 14. október s.á. um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3, þar sem byggingar­reitur lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4 er minnkaður. Fyrir liggur að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti 6. október 2021 ofangreinda breytingu á deili­skipu­lagi Norðurkots og verður að líta svo á að það sé ákvörðun sú sem kærð sé í máli þessu. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 21. desember 2021.

Málavextir: Í febrúar 2020 samþykkti sveitarstjórn umsókn kæranda máls þessa um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots i Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3. Tók breytingin gildi 2. júní s.á. með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Í henni fólst að gert væri ráð fyrir stofnun lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4C úr landi lóðar nr. 4, auk lagfæringa á legu og stærð lóða. Jafnframt voru á uppdrætti deiliskipulagsbreytingarinnar markaðir byggingarreitir 10 m frá lóðarmörkum umræddra lóða, þ.e. lóða nr. 4, 4A, 4B og 4C Neðan-Sogsvegar.

Síðar kom í ljós að grenndarkynning vegna fyrrgreindrar deiliskipulags­breytingar hafði ekki náð til lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A. Var þeim boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum sem þeir og gerðu. Lutu þær m.a. að því að framkvæmdir eða bygging á „tungu“ á lóð nr. 4, á milli lóða nr. 4A og 4B, gæti ógnað friðhelgi greindra lóðarhafa vegna nálægðar við hús þeirra. Í kjölfar þessa samþykkti sveitarstjórn á fundi 21. október 2020 að óveruleg breyting yrði gerð á deiliskipulaginu og byggingarreitur á lóðinni nr. 4 yrði minnkaður um 950 m². Hlaut breytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 16. mars 2021. Skaut kærandi máls þessa greindri ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 34/2021, uppkveðnum 15. júní s.á., felldi hana úr gildi vegna annmarka á grenndarkynningu við meðferð málsins.

Hinn 7. júlí 2021 var málið tekið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar og samþykkti sveitarstjórn að grenndarkynna fyrrgreindar breyt­ingar á deiliskipulagi svæðisins sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu var málið til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 22. september 2021 þar sem tekin var afstaða til framkominna athugasemda og mælst til þess við sveitarstjórn að ekki yrði gerð athugasemd við gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar. Á fundi sveitarstjórnar 6. október s.á. var m.a. fært til bókar að röksemdir og athugasemdir lóðarhafa lóðar nr. 4A Neðan-Sogsvegar hefðu verið með þeim hætti að ástæða væri til að bregðast við þeim, enda lægi hluti þess svæðis sem um ræddi hærra í landinu og gætu því framkvæmdir innan þess haft grenndaráhrif á aðliggjandi lóð með beinum og/eða óbeinum hætti. Taldi sveitarstjórn því eðlilegt að byggingarreitur lóðar nr. 4 yrði minnkaður í samræmi við framlagðan uppdrátt. Var og bókað að ekki væri gerð athugasemd við gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar. Tilkynning um samþykkt breytingarinnar var send Skipulags­stofnun 21. október 2021 og 28. s.m. öðlaðist hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun sveitarstjórnar til úrskurðar­nefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að lítill hluti umræddrar lóðar liggi hærra en lóðin Neðan-Sogsvegar 4A og óhugsandi að þar verði nokkurn tíma byggt. Það svæði sem standi hærra en húsið á lóð nr. 4A sé hóll og því óheppilegt sem byggingarsvæði. Núverandi hús á landi kæranda sé barn síns tíma og því fyrirsjáanlegt að það verði endurnýjað. Hvort það verði á núverandi stað eða öðrum sé óvíst, en engin ákvörðun hafi verið tekin um að byggja á umræddu svæði. Engin ástæða sé því til að skerða byggingarréttinn á lóð nr. 4, sérstaklega ekki á því svæði sem liggi fjarri og neðar en húsið á lóðinni nr. 4A. Skipulagsnefnd sé í sjálfsvald sett að hafna beiðni um að heimilt sé að byggja innan byggingarreitsins auk þess sem reglu­gerðarákvæði takmarki nálægð milli húsa og landamerkja.

Skipulagsnefnd telji landið það stórt að það muni kæranda engu að taka á sig skerðingu á byggingar­reit lóðarinnar. Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið freklega á eignarrétt kæranda að ástæðulausu og sá möguleiki að skipta landinu í tvær 0,67 ha spildur verði nánast úr sögunni. Muni verðgildi eignarinnar rýrna umtalsvert með umræddri breytingu og hafi aðrir lóðarhafar ekki rétt til að krefjast skerðingar á byggingarreitnum. Skipulagsnefnd hafi farið fram úr vald­heimildum sínum með því að samþykkja athugasemdir lóðarhafa nr. 4A án röksemda.

Þegar foreldrar eigenda lóðar nr. 4A hafi keypt hana í september 1988 hafi öll landamerki verið skil­greind nákvæmlega og þeim hafi ekki verið breytt. Það sé því ekki um „nýtilkomna land­ræmu“ að ræða. Lóð nr. 4A hafi verið ranglega færð inn á deiliskipulagsuppdrátt fyrir svæðið frá 1996 og náð inn á land lóðar nr. 4, en það hafi verið leiðrétt með breytingunni á skipulaginu. Engin breyting hafi átt sér stað á lóðum nr. 4A og 4B. Umrædd „tunga“ hafi alla tíð legið fyrir og verið lóðarhöfum kunn. Há tré í landi lóðarhafa nr. 4A gætu valdið skugga á hús þeirra og verönd en landið sé austur og suður af því landi sem um sé deilt og því ekki um skuggavarp þaðan að ræða. Sé því alfarið hafnað að settar séu íþyngjandi kvaðir á land nr. 4 með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarfélagið telur að hafna beri sjónarmiðum kæranda. Eingöngu sé um að ræða lagfæringu á skilgreiningu á byggingarreit að teknu tilliti til athugasemda nágranna. Ólíklegt sé að sú breyting rýri umtalsvert verðgildi eignarinnar en fyrir breytinguna hafi enginn byggingarreitur verið skilgreindur innan lóðarinnar. Geti eigendur lóðarinnar nr. 4A ekki talist óviðkomandi aðilar þar sem lóð þeirra liggi að lóð kæranda. Gangi viðkomandi byggingarreitur út á landsvæði sem sé nokkuð hærra í landi og megi því ætla að grenndaráhrif geti orðið nokkur líkt og tíundað hafi verið í bókunum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar. Muni umrædd minnkun ekki hafa veruleg áhrif á möguleika til framkvæmda innan lóðarinnar.

Ákvörðunin sé í takt við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og gætt hafi verið réttrar máls­meðferðar við afgreiðslu málsins. Sveitarstjórn fari með afgreiðslu skipulagsmála að undan­genginni yfirferð skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. Færð hafi verið fram rök fyrir ákvörðuninni í bókunum. Við meðferð málsins hafi verið gætt jafnræðis og hags­muna allra hlutaðeigandi án þess að ganga freklega á rétt kæranda. Almennt leggist sveitar­félagið gegn uppskiptingu lóða innan þegar byggðra frístundasvæða, sbr. skilmála aðal­skipu­lags Grímsnes- og Grafningshrepps er varði stefnumörkum fyrir frístundasvæði. Ólíklegt sé að heimild fengist fyrir frekari uppskiptingu lóða á svæðinu í takt við þá stefnumörkun.

Athugasemdir lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A: Lóðarhafar vísa til þess að við kaup foreldra þeirra á lóðinni Neðan-Sogsvegar 4A hafi lóðirnar nr. 4A og 4B legið saman og fyrir­huguð staðsetning húsa á þeim lóðum hafi þá legið fyrir. Síðan hafi lóðunum nr. 4 og 4B verið breytt á þann veg að nú liggi lóð nr. 4B vestar í landinu, ný lóð nr. 4C hafi verið stofnuð og uppruna­landið nr. 4 eigi tungu á milli lóða nr. 4A og 4B. Byggingarreiturinn á tungunni sé það sem deilan snúist um. Bygging eða framkvæmdir á byggingarreitnum ógni verulega friðhelgi lóðar­hafa lóðar nr. 4A og feli í sér truflun og sjónmengun vegna nálægðar við hús og verönd á þeirra lóð.

Hin nýja skipting lands sé lóðarhöfum að meinalausu svo fremi sem byggingarlína verði dregin nokkuð norðar. Landeigendur eða umráðamenn lóðanna nr. 4, 4B og 4C hafi lýst því yfir að þeir vilji ekki fá hús á tungunni. Samt hafi verið lagst gegn þessum breytingum sem ekki geti talist verulegar eða hamlandi fyrir núverandi eða framtíðareigendur lóðarinnar nr. 4, þar sem betra byggingarland sé enn innan byggingarreitsins. Sé kærandi í mótsögn við sjálfan sig þar sem hann krefjist þess að fá byggingarreit skilgreindan á ný tilkominni landræmu milli lóðanna en ítreki enn og aftur að það sé „óhugsandi að nokkru sinni verði byggt á þeim bletti“.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. október 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots, sumarhúsahverfis, svæðis 3, er fól í sér að byggingarreitur á lóðinni Neðan-Sogsvegar 4 yrði minnkaður um 950 m².

Hinn 2. júní 2020 tók gildi breyting á fyrrgreindu skipulagi sem samkvæmt greinargerð deili­skipulagsbreytingarinnar fól í sér lagfæringar á skipulaginu til að samræma það nýjum sam­þykktum lóðarblöðum, lagfæringu á legu lóðar nr. 4A og breytingu á legu og stærð lóðanna nr. 4, 4B og 4C Neðan-Sogsvegar. Á uppdrætti skipulagsins voru staðsettir byggingarreitir í 10 m fjarlægð frá lóðarmörkum á þeim lóðum sem breytingin tók til. Eftir gildistöku breytingarinnar samþykkti sveitarstjórn 21. október 2020 að nýju breytingu á deiliskipulaginu í þá veru að byggingarreitur lóðarinnar Neðan-Sogs­vegar 4 var minnkaður um 950 m² vegna framkominna athugasemda lóðarhafa nr. 4A um möguleg grenndaráhrif byggingar á reitnum. Sú ákvörðun var felld úr gildi 15. júní 2021 með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og 6. október s.á. samþykkti sveitarstjórn á ný umrædda skipulagsbreytingu sem er tilefni kæru­máls þessa.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Við beitingu þessa skipulagsvalds ber m.a. að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Að gættum þessum markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi eða breytingu á því skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum. Við matið geta togast á andstæð sjónarmið þess sem hagnýta vill eign sína með ákveðnum hætti og annarra sem láta sig málið varða.

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á sam­þykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur það í sér að byggingarreitur Neðan-Sogsvegar 4 er minnkaður um 950 m², sem telja verður óverulega breytingu á reitnum miðað við stærð lóðar. Verður því að líta svo á að um óverulega breytingu á deiliskipulagi hafi verið að ræða og var sveitarstjórn því heimilt að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulags­laga.

Byggingarreitir eru meðal þess sem setja skal fram í deiliskipulagi, sbr. 37. gr. skipulagslaga, og hafa sveitarstjórnir í skjóli skipulagsvalds síns mat um það hvernig staðsetningu og stærð byggingarreita skuli háttað, þó að teknu tilliti til þeirra laga og reglna sem áhrif geta haft á það mat. Kveðið er á um það í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að við ákvörðun um fjarlægð milli einstakra byggingarreita í deiliskipulagi skuli taka tillit til sólarhæðar og skugga­varps, vindstrengja o.fl., eftir því hver notkun bygginganna er. Í gr. 5.3.2.12. reglugerðarinnar er svo mælt fyrir um að ekki skuli byggja frístundahús ásamt tilheyrandi mannvirkjum nær lóðarmörkum en 10 m. Þá skal samkvæmt gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 stað­setja byggingu og fella að landi innan byggingarreits þannig að góð tenging sé milli umhverfis, útisvæðis byggingarinnar og byggingarinnar sjálfrar.

Í gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps er að finna stefnumörkun varðandi svæði fyrir frístundabyggð. Þar kemur m.a. fram að ekki sé heimilt að skipta upp sumarhúsa­lóðum í þegar byggðum sumarhúsahverfum, sbr. einnig 30. gr. þágildandi skipulags- og byggingar­laga nr. 73/1997, en sambærilegt ákvæði er nú að finna í 48. gr. skipulagslaga. Þá er í aðal­skipulaginu gert ráð fyrir að við deiliskipulagningu sumarhúsasvæða skuli enn fremur taka mið af því að sumarhúsabyggð skuli að jafnaði vera lágreist og að fjarlægð húss frá lóðarmörkum skuli vera minnst 10 m eða í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Skuli nýtingarhlutfall sumarhúsalóða ekki fara yfir 0,03.

Kveðið er á um byggingarheimildir í gildandi deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norður­kots sem hér um ræðir. Skal hámarksbyggingarmagn lóða miðast við nýtingarhlutfallið 0,03 með þeirri undantekningu að á lóðum sem eru 0,4 ha eða minni miðast hámarks-byggingarmagn við 120 m². Þetta þýðir samkvæmt greinargerð skipulagsins að á lóðum sem eru 0,5 ha að stærð er hámarksbyggingarmagn 150 m², en á lóðum sem eru 0,75 ha getur byggingarmagn verið allt að 225 m². Á hverri lóð má reisa eitt frístundahús auk tveggja aukahúsa sem mega að hámarki vera 40 m². Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóð-skrár Íslands er stærð lóðarinnar nr. 4 Neðan-Sogsvegar 13.420 m² og á lóðinni er 44,2 m² sumarhús, reist árið 1962, og því ljóst að byggingarheimildir á lóðinni samkvæmt gildandi skipulagi hafa aðeins verið nýttar að litlu leyti.

Afmörkun byggingarreita í deiliskipulagi getur eftir atvikum haft þýðingu gagnvart nágrönnum varðandi grenndaráhrif mannvirkis sem heimilt er að reisa innan byggingarreitsins. Sveitar­stjórn færði fram þau rök fyrir hinni kærðu ákvörðun að í ljósi athugasemdar rétthafa lóðar nr. 4A við þá breytingu á deiliskipulagi svæðisins sem tók gildi 2. júní 2020, hafi verið talið eðli­legt að verða við henni enda hefði fyrrgreind breyting átt að falla úr gildi vegna rangrar máls­meðferðar þar sem láðst hefði að grenndarkynna málið fyrir rétthafa lóðar nr. 4A. Talið hefði verið eðlilegt að byggingarreitur lóðar nr. 4 yrði minnkaður í takt við framlagðan uppdrátt. Jafnframt var eftirfarandi fært til bókar: „Lóðarhafar Neðan-Sogsvegar 4 telja engar líkur á skuggavarpi eða minnkuðu friðhelgi þar sem meirihluti umrædds svæðis sé neðar í landinu og hafi því ekki áhrif á aðliggjandi lóð 4A. Sveitarstjórn fellst á að hluti reitsins liggi neðar og hafi því ekki bein grenndaráhrif á það svæði en að mati sveitarstjórnar eru röksemdir og athugasemdir lóðarhafa 4A þó með þeim hætti að ástæða sé til að bregðast við þeim enda liggur hluti þess svæðis sem um ræði hærra í landinu og geti því framkvæmdir innan þess sannarlega haft grenndaráhrif á lóðarhafa aðliggjandi lóðar með beinum og/eða óbeinum hætti.“

Bjuggu samkvæmt framangreindu málefnaleg sjónarmið að baki hinni kærðu ákvörðun og fer breytingin hvorki gegn stefnumörkun aðalskipulags Grímsnes-og Grafningshrepps um fjar­lægð byggingarreita frá lóðarmörkum né skilyrði gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð um fjarlægð frístundahúsa og tilheyrandi mannvirkja frá lóðarmörkum. Þá ber til þess að líta að þrátt fyrir skerðingu byggingarreits lóðar nr. 4 Neðan-Sogsvegar nær hann eftir breytinguna engu að síður yfir meginhluta lóðarinnar.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að benda á að geti kærandi sýnt fram á tjón vegna hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar getur hann eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 6. október 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norðurkots í Grímsnesi, sumarhúsahverfis, svæðis 3, varðandi lóðina Neðan-Sogsvegar 4.

159/2021 Leirutangi

Með

 

 

Árið 2022, föstudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 159/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 22. september 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka rishæð húss á lóðinni Leirutanga 10 og innrétta þar íbúðarrými.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Leiru­tanga 2, 4, 6, 8, 12, 14 og 16, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfells­bæ frá 22. september 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka rishæð húss á lóðinni Leiru­tanga 10 og innrétta þar íbúðarrými. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 26. nóvember 2021.

Málavextir: Lóðin Leirutangi 10 er í grónu hverfi og á svæði þar sem ekki er í gildi deili­skipulag. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er á lóðinni 158,4 m2 einbýlishús sem reist var árið 1983 og 39,2 m2 bílskúr. Allt frá árinu 2017 hafa eigendur lóðarinnar leitast við að fá leyfi byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar til að hækka rishæð hússins og innrétta þar íbúðarrými en eigendur nærliggjandi lóða hafa andmælt þeim áformum.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur áður haft til úrlausnar kærur vegna fyrirhugaðra byggingar­áforma á umræddri lóð. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 14/2019, uppkveðnum 31. október 2019, var felld úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 1. febrúar 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir stækkun hússins þannig að nýtingar­hlutfall lóðarinnar færi úr 0,25 í 0,43. Var niðurstaða nefndar­innar á því reist að með hinu umþrætta leyfi væri svo vikið frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gerðist á grannlóðum á svæðinu að óheimilt hefði verið að grenndarkynna umsóknina, enda hefði umdeild hækkun nýtingar­hlutfallsins óhjákvæmilega talsverð áhrif á þéttleika byggðar og byggðamynstur. Í framhaldinu var lögð inn ný umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun hússins þar sem tekið var fram að fyrir mistök hefði nýtingarhlutfall verið skráð of hátt í skráning­ar­­töflu er fylgt hefði eldri umsókn um byggingarleyfi. Synjaði byggingarfulltrúi um­sókninni með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar er taldi að ekki væri kostur á að grenndar­­kynna umsóknina í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með tilliti til nýtingar­hlut­falls. Hlutfallið færi yfir þau mörk er fram kæmu í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leiru­­tanga frá 19. maí 1981. Skaut eigandi Leirutanga 10 greindri afgreiðslu til úrskurðar­nefndar­innar sem með úrskurði í máli nr. 124/2020, uppkveðnum 31. mars 2021, felldi hina kærðu ákvörðun úr gildi. Í úrskurðinum kom fram að skipulags­nefnd hefði ekki verið heimilt að synja grenndar­kynningu ein­vörðungu með vísan til þess að nýtingarhlutfall lóðar­innar færi yfir þau mörk sem fram kæmu í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leiru­tanga frá 19. maí 1981 og var sérstaklega tekið fram að niðurstaða nefndarinnar í máli nr. 14/2019 hefði ekki verið leidd af skipulags- og byggingar­skilmálum svæðisins heldur af samanburði á nýtingar­hlut­­falli grannlóða á svæðinu. Þá var og vísað til þess að fram kæmi í greinargerð sveitar­félagsins að ekki yrði séð að skilmálarnir hefðu verið sendir Skipulagsstofnun til samþykktar fyrir 1. janúar 1998 í samræmi við 5. tl. ákvæðis til bráða­­­birgða í skipulagslögum.

Í kjölfar þessa var á fundi skipulagsnefndar 16. apríl 2021 tekin fyrir að nýju umsókn um hækkun á risi húss að Leirutanga 10 og samþykkti nefndin að grenndar­­kynna byggingar­áformin í samræmi við 44. gr. skipulags­laga þegar full­nægjandi gögn lægju fyrir. Greind afgreiðsla var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 21. apríl s.á. Hinn 11. maí s.á. var umsóknin grenndarkynnt fyrir eigendum Leiru­tanga 2-16 og þeim veittur frestur til 14. júní s.á. til að koma athuga­semdum sínum á framfæri. Einnig var birt frétt á vef­­síðu Mos­fells­bæjar um grenndar­kynninguna 12. s.m.­­­ Bárust athuga­­­semdir frá kærendum við fyrirhuguð áform innan tilskilins frests og kom leyfishafi að sjónarmiðum sínum um framkomnar athuga­semdir með bréfi, dags. 23. júní 2021. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulags­­nefndar 1. júlí 2021 þar sem fram­­komnar athugasemdir voru kynntar ásamt bréfi leyfishafa og skipulags­fulltrúa falið að vinna drög að svörum við þeim. Erindið var aftur tekið fyrir á fundi skipulags­nefndar 10. septem­­­ber s.á. og voru drög að svörum við framkomnum athugasemdum lögð fram til kynningar og afgreiðslu. Byggingar­­áformin voru sam­þykkt og skipulagsfulltrúa falið að svara athuga­­semdum í samræmi við drög skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Jafnframt var byggingar­fulltrúa heimilað að gefa út byggingar­­leyfi þegar umsóknin samræmdist lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglu­­gerð nr. 112/2012. Hinn 15. september 2021 samþykkti bæjar­stjórn af­greiðslu skipulags­nefndar og á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 22. s.m. samþykkti hann framlagða aðal­upp­drætti með áritun sinni.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að málsmeðferð skipulagsyfirvalda Mos­fells­­­­­bæjar, grenndarkynning og viðbrögð sveitarfélagsins við athugasemdum kærenda hafi ekki verið í samræmi við forskrift laga. Hæð húsa að Leirutanga 2-16 hafi haldist óbreytt í um 40 ár. Lóðin Leirutangi 10 tilheyri botngötu þar sem séu sex einbýlishúsalóðir og séu húsin svo­kölluð Hosby-hús, þ.e. dönsk múrsteinshlaðin einingahús. Engin fordæmi séu fyrir hækkun húsa í botngötunni eða á lóðum nærliggjandi Leiru­tanga 10. Megi því segja að búið sé að festa byggða­mynstrið með núverandi hæð bygginga, gerð þeirra og uppröðun. Samkvæmt 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 megi eingöngu veita leyfi án deili­skipulags­­gerðar sé fram­kvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þétt­leika byggðar. Í norðanverðri götunni séu þrjú lágreist einbýlishús í línu, þ.e. Leirutangi 8-12, með íbúðar­rými á einni hæð og sé hámarks­hæð þeirra öll sú sama, eða 4,87 m. Húsin að sunnan­verðu, þ.e. að Leirutanga 2, 4 og 6, séu ger­ólík en þar séu einbýlishúsin í línu með íbúðarrými á tveimur hæðum. Hækkun á húsi að Leiru­tanga 10 í 6,58 m sé ekki í samræmi við núverandi byggða­­mynstur og hafi bæjar­yfir­völdum því skv. 44. gr. skipulagslaga ekki verið heimilt að veita um­rætt byggingar­leyfi. Vísi kærendur máli sínu til stuðnings til úrskurðar úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála frá 17. nóvember 2020 í máli nr. 54/2020.

Grenndar­kynning skuli eingöngu notuð þegar um óverulegar breytingar sé að ræða. Í áliti umboðs­manns Alþingis í máli nr. 2907/1999 hafi m.a. komið fram að sveitarstjórn væri eingöngu heimilt að gefa út byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þar sem deili­skipulag lægi ekki fyrir ef breytingar á byggðamynstri hverfisins teldust óverulegar. Það teljist veruleg breyting á byggðamynstri þriggja einbýlishúsa, sem raðist í beina línu, að miðju­húsið sé hækkað með íbúðarrými á tveimur hæðum á meðan aðliggjandi hús sitt hvoru megin séu lág­reist með íbúðar­­rými á einni hæð. Var sveitarfélaginu því ekki stætt á að grenndarkynna byggingar­leyfisumsóknina.

Núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar Leirutanga 10 sé 0,25 en með fyrirhugaðri stækkun húss á lóðinni verði það rúmlega 0,35. Ekkert af húsunum í norðanverðri botn­götunni sé með nýtingar­­hlut­fall yfir 0,3 og yrði Leirutangi 10 því með 61% hærra nýtingar­hlut­fall en núverandi meðal­­tal. Þegar horft sé til meðalnýtingarhlutfalls næstu lóða, þar sem styttra en 5 m sé á milli lóða­­marka, sé meðalnýtingarhlutfall þeirra 0,20 og yrði meðalnýtingarhlutfall Leiru­tanga 10 því 79% hærra en þeirra. Ekki sé því um að ræða lítilsháttar breytingar á byggingar­­magni.

Verði fyrirhuguð breyting á fasteigninni að Leirutanga 10 að veruleika muni hún skerða hags­muni nágranna, sérstaklega eigenda að Leirutanga 2, 4 og 6, með skertu útsýni. Þá muni hún skerða hagsmuni eigenda að Leirutanga 8 og 12 vegna skuggavarps og hagsmuni eigenda Leiru­tanga 8, 12, 14 og 16 með aukinni inn­sýn í hús þeirra og garða. Þá virðist sveitarfélagið skauta framhjá þeirri stað­reynd að hækkunin muni skerða hags­muni eigenda að Leirutanga 12 sem muni einnig verða fyrir birtu­skerðingu. Sveitar­félagið hefði því með réttu átt að útbúa teikningar sem sýndu áhrif fyrir­hugaðrar framkvæmdar á skuggavarp fyrir alla nágranna. Megin­inntak athugasemda eigenda að Leirutanga 8 hafi verið að fyrirhuguð hækkun á Leiru­tanga 10 myndi varpa skugga á megin útisvæði íbúanna í Leirutanga 8, þ.e. suðvestur- og vestur­hluta lóðar þeirra. Eigendurnir hafi lagt í umtalsverða vinnu og lagt út fjármuni til þess að gera útisvæðið að sælureit fjölskyldunnar. Verði fyrirhugaðar framkvæmdir að veruleika muni sólarstundum fækka um u.þ.b. 30-45 mínútur síðdegis á vorin og 45-60 mínútur síðdegis á sumrin, en það skerði lífsgæði íbúanna í Leirutanga 8 og óttist þeir að framkvæmdin muni draga úr verðmæti eignarinnar. Fordæmi séu fyrir því að bæjar­yfir­völd hafi hafnað leyfis­um­sóknum eigenda að Leirutanga 8 og 16 um hækkun á risi til að unnt væri að gera þar íbúðarrými. Synjun þeirra umsókna hafi verið rökstudd með þeim hætti að húsin við hlið Leirutanga 16 séu ekki með íbúðarrisi. Kærendur telji því núverandi leyfis­veitingu brjóta gegn fyrri fram­kvæmd og sé um að ræða brot á jafnræðisreglu stjórn­sýslu­réttar, sbr. 11. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Þrátt fyrir ítrekanir hafi bæjar­yfir­völd ekki sinnt upplýsinga­skyldu sinni og útvegað gögn um eldri afgreiðslur frá því upp úr árinu 1980, hvort sem þeim hafi verið synjað, líkt og um Leirutanga 8 og 16, eða þær samþykktar.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga gildi sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir ein­­­­stök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og hafi það verið sérstaklega nefnt í fyrri úrskurði nefndarinnar frá 31. október 2019 í máli nr. 14/2019. Sú skylda hvíli aug­­­ljós­lega á sveitarfélögum að deiliskipuleggja svæði séu framkvæmdir fyrirhugaðar þar. Í svörum bæjar­­­­yfirvalda við þeirri athugasemd kærenda hafi komið fram að deiliskipulag sé unnið þegar áform séu um frekari uppbyggingu svæða en í þessu tilfelli sé hverfið fullbyggt. Að mati kærenda séu þau svör í ósamræmi við framangreint lagaákvæði og virðist sveitar­félagið ekki vilja ráðast í gerð deiliskipulags fyrir svæðið.

Fyrir liggi að þær teikningar sem skipulags­nefnd hafi samþykkt að grenndarkynna 16. apríl 2021 hafi ekki verið þær sömu og hafi verið grenndarkynntar. Bæjarfulltrúar hafi ekki fengið í hendur réttar teikningar þegar drög að svörum við athuga­semdum hafi verið lögð fram til kynningar hjá nefndinni. Því hafi þeir ekki verið upplýstir um að búið væri að draga verulega úr um­fangi íbúðar á rishæð á milli útgáfu teikninga, líklega til að minnka nýtingarhlutfall, en hæð hússins hafi enn verið 6,58 m og því um sömu hagsmuna­skerðingu að ræða fyrir nágranna. Nýjar teikningar hafi verið kynntar fyrir nefndar­mönnum á fundi skipulagsnefndar 10. septem­ber 2021 og sé það enn eitt dæmið um óeðlilega málsmeðferð skipulags­yfirvalda bæjarins í máli þessu. Þá hefðu kærendur gert athugasemdir vegna ófullnægjandi kynningar­gagna, m.a. að þau hefðu ekki sýnt fyrirhugaða framkvæmd á fullnægjandi hátt. Bæjar­yfirvöld hefðu svarað því til að aðeins væri um leið­beininga­­blað að ræða. Kærendur árétti að samkvæmt gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 séu gerðar ákveðnar kröfur til þeirra gagna sem skuli fylgja með grenndarkynningu en teikningarnar hafi hvorki sýnt þau mann­virki sem fyrir séu á svæðinu eða hæðarlínur né hafi verið gerð grein fyrir landmótun eða götumyndun.

Frestur til að skila athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar hafi verið til 14. júní 2021. Á fundi skipulagsnefndar 1. júlí s.á. hafi m.a. verið kynntar athugasemdir frá lögmanni eigenda að Leirutanga 10 frá 23.júní s.á. þar sem athugasemdum kærenda hafi verið svarað. Athuga­semdir leyfishafa hafi þar með verið orðnar hluti af gögnum málsins þrátt fyrir að frestur til að skila inn athuga­semd­um hafi þá verið liðinn. Slíkt geti ekki talist eðlileg stjórnsýsla.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfum kærenda sé hafnað enda hafi afgreiðsla áðurgreindrar umsóknar um byggingarleyfi verið lögmæt og uppfyllt skilyrði skipulags­laga nr. 123/2010, skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, laga nr. 160/2010 um mann­­virki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sú ákvörðun skipulags­nefndar að grenndarkynna um­sókn leyfishafa sé í sam­ræmi við upphaflega afstöðu skipulags­nefndar frá því í janúar 2018 og hafi grenndar­kynningin farið fram í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Umsóknin hafi verið til umfjöllunar hjá skipulagsnefnd sem lagt hafi mat á það hvort hún samræmdist land­notkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar og tekin hafi verið ákvörðun um grenndar­kynningu þar sem skilyrðin hafi verið talin uppfyllt.

Leyfishafi hafi lagt fram umsókn um útlitsbreytingu og hækkun á þaki húss í þegar byggðu hverfi þar sem ekki sé í gildi deili­­skipulag sökum aldurs svæðisins. Ákvæði 44. gr. skipu­lags­laga sé nokkuð skýrt um af­greiðslu og málsmeðferð umsókna um útlitsbreytingu og beri sveitarstjórn ábyrgð á því að taka til­löguna til afgreiðslu og meta hvort hún sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þétt­leika byggðarinnar. Umsóknin hafi að fullu samræmst byggðarmynstri hverfisins og líti bæjaryfirvöld svo á að skoða beri byggð í ­Leiru­tanga­ sem heild, en hún einkennist af lágreistri byggð sérbýla á stökum stórum íbúðar­húsa­­lóðum. Ein­kennist byggðin af einbýlis- og parhúsum á einni til tveimur hæðum þar sem mann­­gengt sé víða í risi. Húsum í hverfinu hafi verið breytt og sum þeirra stækkuð. Hús snúi að rólegri húsa­götu í botngötum þar sem innkeyrsla sé að sam­byggðum eða stakstæðum bílskúrum. Þakgerð sé heldur frjálsleg en flest hús skarti tvíhalla- eða valmaþaki­. Þrjú stök hús myndi ekki sitt eigið byggðar­mynstur í götu eða hverfi sem telji sam­tals 51 íbúðareiningu í ein- eða tvíbýlum. Þó svo að þrjú hús í einni botngötu séu svokölluð Hosby­-hús séu þau ekki einkenni byggðar­mynsturs í Leirutanga­. Að hækka hús í þá hæð sem m.a. þekkist í hverfinu teljist ekki umfangsmikil breyting byggðar­mynsturs. Breytingar eða viðbætur hafi verið unnar bæði á húsum í kring sem og víða í sveitarfélaginu og sé matið og afgreiðslan því í sam­ræmi við fordæmi. Um sé að ræða breytingu á húsi innan íbúðarsvæðis í Leirutanga og verði það áfram einbýlishús. Breytingin miði að því að auka umfang þess lítillega með hækkun á þaki sem leiði til betri nýtingar.

Við mat á því hvort umsókn falli að markmiðum grenndar­kynningar séu bæjar­yfirvöld óbeint að taka afstöðu til þess hvort gera þurfi deiliskipulag á svæðinu og hafi það í þessu tilviki verið talið óþarft. Bæjaryfirvöld séu ósammála þeirri túlkun kærenda á skipulags­­lögum að nauð­synlegt hefði verið að gera nýtt deiliskipulag. Í kæru sé í flestum til­vikum vísað til ákvæða sem jafnan eigi við um gerð deiliskipulags á nýjum svæðum þar sem upp­bygging sé ekki hafin eða þar sem frekari upp­bygging sé fyrirhuguð næstu ár. Á um­­ræddu svæði í Leirutanga sé frekari upp­bygging ekki fyrirhuguð þar sem allar skilgreindar lóðir séu full­byggðar. Með vísan til úr­skurðar í máli nr. 124/2020 sé ljóst að ekki sé í gildi ákvæði um fast nýtingar­­hlut­fall hverfisins og að óheimilt hafi verið að byggja afstöðu í málinu á nýtingar­hlut­falli eldri skilmála. Þvert á móti hafi bæjaryfirvöldum borið að leggja mat á öll atriði málsins, þ. á m. nýt­ingarhlutfall Leirutanga 10 í saman­burði við nýtingar­­hlutfall grann­lóða á svæðinu. Þá hafi reikniaðferðir um stærðir húsa breyst frá því að hverfið hafi byggst upp. Prósentuútreikningar á nýtingarhlutfalli geti því ekki einir og sér legið til grundvallar við mat skipulagsnefndar á byggingar­áformum eins og fyrri úrskurðir sama máls meðal annars sýni. Við hækkun á þaki í mann­gengna rishæð stækki hlut­­fallslegt heildarumfang hússins, bæði í innra og ytra rúmmáli, lítil­lega frá því sem áður hafi verið. Leiru­tangi 10 verði þannig einnar hæðar hús með risi í sam­ræmi við helming húsa í botngötunni.

Rétt sé að grenndar­­kynningu hafi ekki fylgt afstöðumynd hnitsett í mæli­kvarða 1:500–1:2.000, en í leið­beininga­­­blaði Skipulagsstofnunar komi m.a. fram að í kynningar­­gögnum skuli vera „Aðal­teikningar eða sambærileg hönnunargögn. Götu­myndir eða önnur skýringargögn sem lýsa um­ræddri framkvæmd á þann hátt að hagsmunaaðilar geti tekið afstöðu til hennar.“ Mark­mið þeirra krafna sé að þeir sem eigi hagsmuni að gæta geti á grund­velli gagnanna myndað sér afstöðu til þeirra breytinga sem séu til kynningar. Nær full­unnar byggingar­nefndarteikningar og útlitsmyndir hússins séu full­nægjandi til þess að lýsa um­­fangi framkvæmdarinnar. Þá verði ekki ráðið af athugasemdum kærenda við grenndar­kynninguna að óljóst hafi verið hvert eðli eða umfang breytingarinnar væri. Hvað varði tilvísun kærenda til álits umboðsmanns Alþingis nr. 2907/1999 sé bent á að umrædd grenndar­­­kynning varði ekki deiliskipulag eða breytingu á því heldur umsókn um byggingar­leyfi sem afgreidd hafi verið á grundvelli skýrra heimilda í skipulagslögum. Þá sé inntak og orða­lag ákvæðis um grenndarkynningar ekki með sama hætti nú og hafi verið í eldri skipulags- og byggingarlögum. Skipulagsnefnd hafi lagt mat á athuga­semdir og tilkynnt um niðurstöðu sína í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þá hafi hin kærða afgreiðsla byggingar­fulltrúa hlotið meðferð og afgreiðslu í samræmi við lög um mann­virki og gr. 2.4.2. í byggingar­reglugerð.

Líkt og fram komi í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 20/2021 séu ákvæði um skugga­varp heldur óljós þegar litið sé til skipulagsreglugerðar og því verði að telja að skipulags­yfir­völd hafi nokkuð svigrúm til þess að meta hvert sé ásættanlegt skuggavarp framkvæmda. Við hönnun húsa og skipulags hafi skapast sú hefð og venja að kanna skuggavarp og birtuskilyrði yfir þann tíma dags þegar sólar njóti helst við á sex mánaða tímabili. Algengt viðmið sé frá því klukkan níu um morgun, klukkan hálf tvö að hádegi og klukkan fimm seinnipart dags en það séu sólríkustu tímar dags. Að jafnaði séu skoðaðar sumarsólstöður og jafndægur. Við mat á því hvort skuggavarp skerði birtuskilyrði fast­eigna eða íverurýma íbúða sé almennt ekki litið til afmarkaðs tíma seint að degi til á völdum dögum ársins. Sjá megi að bæði bílskúr á lóð Leiru­tanga 10 og norðurhluti húss Leirutanga 8 varpi skugga á svæði á lóð Leirutanga 8, hvort sem húsið verði hækkað eður ei. Óbreyttur réttur til útsýnis sé ekki bundinn í lög og geti íbúar í þéttbýli átt von á því að nánasta umhverfi þeirra taki einhverjum breytingum.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að sú framkvæmd sem sótt hafi verið um leyfi fyrir muni ekki leiða til þess að nýtingarhlutfall hússins að Leirutanga 10 skeri sig úr þegar horft sé til annarra húsa í hverfinu. Nýtingarhlutfall lóða að Leirutanga 2, 4 og 6 sé yfir því 35% nýtingarhlutfalli sem stækkun að Leirutanga 10 myndi fela í sér. Um sé að ræða helming húsa í botngötunni og séu þau öll einbýlishús. Húsin séu vel yfir leyfilegri hæð samkvæmt skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leirutanga frá 19. maí 1981. Raunverulegt nýtingar­hlut­fall Leirutanga 2 sé 0,38 en ekki 0,37 og nýtingarhlutfall Leirutanga 4 sé 0,40 en ekki 0,36. Bæjar­yfirvöld hafi strax í kjölfar nefndra skilmála veitt leyfi fyrir byggingum umfram leyfi­legt nýtingarhlutfall og/eða umfram leyfilega hæð. Því hafi svo verið haldið áfram þegar veitt hafi verið leyfi vegna við­bygginga framangreindra húsa. Þá standi framkvæmdir yfir að Leiru­­tanga 2 og að sögn eigenda þess húss eigi að byggja þar sólstofu við húsið. Muni nýtingar­­hlut­fall þess hús þá hækka en það sé þegar langt umfram heimilað nýtingarhlutfall. Að auki séu fjöl­mörg önnur hús í Leirutanga þar sem nýtingarhlutfall sé langt umfram leyfilegt hlut­fall.

Hvergi sé kveðið á um að húsin norðan megin í botngötunni skuli vera á einni hæð og húsin sunnan megin á tveimur hæðum. Í botngötunni á móti, þ.e. Leirutanga 1-9, séu t.a.m. hús bæði á einni og tveimur hæðum á víxl. Ekkert sam­ræmi sé því á ásýnd botngötunnar og fráleitt að halda því fram að hækkun á þaki húss leyfishafa brjóti gegn henni. Í fyrirhugaðri stækkun sé hækkun þaksins um 1,5 m, þ.e. til jafns við hús að Leirutanga 5, sem sé norðan megin í botn­götunni á móti, þannig að hæð hússins verði 6,60 m líkt og heimilað sé í nefndum skipulags- og byggingar­skilmálum. Hæð hússins verði því minni en húsa að Leiru­tanga nr. 2, 4 og 6 sem séu 7,4 m að hæð. Þá verði halli á þakinu og engir kvistir. Ekki sé verið að bæta heilli hæð ofan á húsið heldur einungis að nýta þar ris líkt og gert sé að Leirutanga 5. Sú mynd af gróðri á milli lóða að Leirutanga 8 og 10 sem fylgt hafi kæru sé villandi enda skyggi hús leyfishafa lítið á þann blett. Hús að Leiru­tanga nr. 2, 4 og 6 standi það ofarlega að auðvelt sé að horfa frá annarri hæð húsanna yfir húsið að Leirutanga 10 og yrði engin breyting á því með fyrir­hugaðri hækkun. Frá fyrstu hæð húsanna sé hins vegar lítið útsýni í dag vegna trjá­gróðurs í görðunum og verði því engin breyting þar á útsýni. Þá hafi engin gögn verið lögð fram um að umsóknum eigenda Leirutanga 8 og 16, um hækkun á risi til að útbúa þar íbúðarrými, hafi áður verið hafnað og engin slík gögn fundist hjá Mos­fells­bæ.

Þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við grenndar­kynningu hafi verið sendar leyfishafa og hafi hann í kjölfarið komið á framfæri ábendingum vegna þeirra. Vilji allra hljóti að standa til þess að upplýsa málið að fullu enda skuli stjórn­vald sjá til þess að mál sé nægjanlega upp­lýst áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá mótmæli leyfishafi tilvísun kærenda til úrskurðar úrskurðar­nefndarinnar í máli nr. 14/2019 enda hafi nefndin ekki á þeim tíma búið yfir upplýsingum um nýtingarhlutfall grann­lóða leyfis­hafa auk þess sem rangar upplýsingar hafi legið fyrir hjá nefndinni um það hvert nýtingar­­hlutfall lóðar leyfishafa yrði eftir fyrirhugaða stækkun. Ekkert styðji þær fullyrðingar kærenda að fyrirhuguð hækkun á húsi leyfishafa muni hafa áhrif á hags­muni kærenda og ekkert því komið fram í málinu sem réttlæti að ógilda beri hið kærða byggingar­leyfi. Að öðrum kosti yrði staða leyfishafa verri en margra nágranna og væri þannig verið að mismuna aðilum í sömu íbúðar­götu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að ekki séu önnur hús austan eða vestan megin við Leirutanga 5 sem verði fyrir jafn miklum áhrifum af skuggavarpi og innsýn líkt og hækkun á húsinu að Leirutanga 10 hefði í för með sér. Þá hafi bæjaryfirvöld ekki enn látið útbúa teikningar sem sýni skuggavarp fyrir Leirutanga 12 vegna fyrirhugaðra fram­kvæmda en búast megi við því að íbúar þess húss verði einnig fyrir verulega skertum hags­munum vegna færri sólarstunda á lóð sinni. Ekki sé eitt einasta fordæmi fyrir því að bæjar­yfirvöld hafi samþykkt hækkun á rishæð húss til að innrétta þar íbúðarrými eftir byggingu þess. Um gróið hverfi sé að ræða sem staðið hafi óbreytt í um 40 ár. Þótt fordæmi finnist fyrir hinum ýmsu undanþágum þýði það ekki að sveitarfélaginu beri að samþykkja allar umsóknir um sömu undanþágu. Megi nefna sem dæmi að bæjaryfirvöld hafi hafnað umsókn eigenda að Bjargar­tanga 4 og 6 um gerð bílastæðis á norðurhluta lóðar út að Álfatanga, jafnvel þó fordæmi séu fyrir slíkri útfærslu á Bjargartanga 10.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 22. september 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka rishæð húss á lóðinni Leiru­tanga 10. Fól umsóknin m.a. í sér hækkun þakmænis úr 4,87 m í 6,58 m og fá með því nýtanlega rishæð, innrétta þar íbúðarrými og gera svalir, 16,3 m2 að stærð. Þá voru á aðaluppdrætti sem fylgdu umsókninni sýndar tvær svokallaðar franskar svalir, en gert var ráð fyrir dyrum við útvegg sunnan megin og kom fram að við þær væru sett svonefnd frönsk svala­handrið. Af uppdrættinum má ráða að ekki er gert ráð fyrir að unnt sé að stíga út á svalirnar. Umrædd lóð er staðsett í botngötu ásamt Leirutanga 2-12. Standa allir eigendur annarra lóða við botngötuna að kæru í máli þessu ásamt eigendum Leirutanga 14 og 16, en þær lóðir eru við næstu botngötu og er göngustígur á bæjarlandi á milli þeirra lóða og Leirutanga 10.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipu­lag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar.­­­­­­­­­­­­­­­­­ Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er hins vegar að finna undantekningu frá framangreindri meginreglu um gerð deiliskipulags þegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar, en þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmda­leyfi fyrir fram­kvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitar­­stjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deili­skipulags­gerðar ef framkvæmdin er í samræmi við land­notkun, byggða­mynstur og þétt­leika byggðar. Skuli skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndar­kynningu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 tilheyrir lóðin Leirutangi 10 Höfða-, Tanga- og Holtahverfi og er á skilgreindu íbúðarsvæði 115-Íb. Í aðalskipulaginu er umfjöllun um skipulag svæðisins af skornum skammti en því er þó lýst sem fullbyggðu með þéttinga­mögu­leika. Húsið á umræddri lóð er 158,4 m² að stærð sam­­­kvæmt upp­lýsingum úr fasteigna­skrá Þjóð­skrár Íslands, en með bílskúr sem stendur á lóð­inni er heildarflatarmál húsa á lóðinni 197,6 m². Með hinum kærðu byggingaráformum stækkar íbúðar­húsið í 237,4 m² og að meðtöldum bílskúr fer heildarflatarmál bygginga á lóðinni því í 276,6 m². Um­rædd lóð er 789 m² að flatarmáli og fer nýtingarhlutfall hennar því úr 0,25 í 0,35 og er um að ræða 40% hækkun á hlutfallinu. Samkvæmt upplýsingum úr fast­eigna­skrá Þjóðskrár Íslands er stærð lóða í næsta nágrenni, þ.e. að Leirutanga 2-8 og 12-16, á bilinu 711 til 1.198,3 m2. Stærðir húsa á lóðunum eru á bilinu 192 til 287,4 m2. Nýtingarhlutfall lóðanna er á bilinu 0,18-0,30 að Leirutanga 2 og 4 undanskildum, en þær lóðir hafa ­hlutföllin 0,33 og 0,36. Í sömu botngötu eru lóðirnar Leiru­tangi 2-12 og á þremur þeirra má finna hús sem eru yfir 250 m2 að stærð, þ.e. Leirutanga 2, 4 og 6. Þá eru hús á meðal nærliggjandi húsa með rishæð, m.a. í sömu botngötu og Leirutangi 10. Þrátt fyrir að þau hús sem standi sitt hvoru megin við Leirutanga 10 séu á einni hæð verður af heildarmati og samanburði við framangreinda staðhætti ekki annað ráðið en að umsókn leyfis­hafa um hækkun á þaki hafi verið í samræmi við gildandi landnotkun, byggðamynstur og þétt­leika byggðar, svo sem áskilið er í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Umsókn um greint byggingar­­­leyfi var grenndarkynnt með lög­mæltum fjögurra vikna athuga­semda­­­fresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga fyrir þeim sem hagsmuna áttu að gæta og komu kærendur að athugasemdum sínum við grenndar­­kynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í skipulags­nefnd og hún sam­­þykkt auk þess sem afstaða var tekin til fram­kom­inna athugasemda. Þá sam­þykkti bæjar­stjórn framan­­­­greinda afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum 15. september 2021. Svör skipulagsnefndar bæjar­ins við athuga­semdum kærenda og leyfishafa ásamt niðurstöðu var send kærendum með bréfi, dags. 16. septem­ber 2021. Byggingar­­fulltrúi samþykkti síðan umsóknina á afgreiðslu­fundi sínum 22. s.m. Meðferð málsins var að þessu leyti í samræmi við 2. mgr. 44. gr. gr. skipulagslaga.

Í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um hönnunargögn sem fylgja skulu grenndar­kynningu á byggingar- eða framkvæmdaleyfisumsókn. Í greininni kemur fram að fylgja skuli af­­stöðu­­mynd, hnitsett í mælikvarða 1:500 – 1:2000 eða í öðrum læsilegum mæli­kvarða, sem sýni fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og að landi, þ.e. sýni mannvirki sem fyrir séu á svæðinu, hæðarlínur og annað í landslagi sem skipti máli fyrir út­­­færslu framkvæmdar. Gera þurfi grein fyrir landmótun, götumyndum og öðru sem nauðsyn­legt sé til að hagsmunaaðilar geti tekið afstöðu til framkvæmdarinnar. Hönnunar­gögn þurfi ekki að vera fullunnin á þessu stigi. Með umræddri grenndarkynningu fylgdu tveir upp­drættir af fyrir­huguð­­um breytingum sem dagsettir eru 5. maí 2021. Annar uppdrátturinn sýnir grunn­­mynd fyrstu hæðar og rishæðar Leiru­­tanga 10 en hinn sýnir útlit allra hliða hússins. Upp­drættirnir eru í mæli­kvarðanum 1:100 og eru þeir því í ósamræmi við þau viðmið sem sett eru fram í gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð. Mælikvarðinn er þó læsilegur en sýnir samt ekki afstöðu fyrirhugaðrar breytingar gagn­vart grann­­lóðum auk þess sem engar hæðarlínur er að finna á honum. Með grenndarkynningunni fylgdu engin gögn sem sýndu skuggavarp.

Eigendur Leirutanga 10 hafa nú í hartnær fimm ár leitast við að fá leyfi frá bæjaryfirvöldum Mosfells­bæjar fyrir því að hækka þakmæni og útbúa nýtanlegt rými á rishæð. Af kæru má ráða að kærendur æski þess að umrætt svæði verði deiliskipulagt. Heimild sveitar­stjórna til þess að veita byggingarleyfi að undan­genginni grenndarkynningu skv. 1. mgr. 44. gr. skipu­lagslaga er líkt og áður greinir undan­tekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 37. gr. sömu laga að þeim sé skylt að gera deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrir­hugaðar.

Fyrir liggur að frá því að umdeild byggingaráform voru fyrst grenndarkynnt 12. mars 2018 hafa kærendur gagnrýnt og komið á framfæri athugasemdum við bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar vegna ófull­nægjandi grenndarkynningargagna. Þannig óskuðu eigendur Leirutanga 16 eftir því hinn 15. mars s.á. að fá sendar afstöðumyndir og skuggavarpsmyndir og gerði fyrri eigandi Leiru­tanga 8 slíkt hið sama 13. febrúar 2019, en af gögnum málsins verður ekki séð að sveitarfélagið hafi orðið við þeim beiðnum. Við meðferð kærumáls nr. 14/2019 létu eigendur Leirutanga 8 gera sínar eigin skuggavarpsmyndir og gerði byggingarfulltrúi í kjölfarið athugasemdir við þær, m.a. að ekki væri ljóst á hvaða forsendum þær byggðu. Með grenndarkynningu hins kærða byggingar­leyfis 11. maí 2021 fylgdu engar skuggavarpsmyndir eða nánari skýringar á afstöðu eða áhrifum fyrirhugaðra breytinga á byggðina í kring. Verður það að teljast annmarki á með­ferð málsins, sér í lagi í ljósi forsögu þess. Af hálfu bæjaryfirvalda hefur þó verið greint frá því að þau hafi látið vinna þrívítt skuggalíkan við rýni á tillögu leyfishafa auk þess sem bæjar­yfir­völd hafa greint frá því að þær myndir sem kærendur sendu með athugasemdum við grenndar­kynningu og myndir sem Mosfellsbær hafi unnið til rýni hafi hvorar tveggja verið nýttar við endan­­lega afgreiðslu málsins. Verður því þrátt fyrir framan­greindan annmarka ekki ráðið að hann hafi haft áhrif á efni ákvörðunarinnar þar sem fyrir lágu frekari upplýsingar um skugga­varp og afstöðu fyrirhugaðrar breytingar á byggðina í kring, m.a. frá kærendum. Verður ann­mark­inn því ekki talinn raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærendur telja umrædda leyfisveitingu brjóta gegn jafnræðisreglu íslensk stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með vísan til þess að bæjaryfirvöld hafi áður synjað um hækkun á risi að Leirutanga 8 og 16. Í gögnum þessa máls eða gögnum fyrri kæru­mála vegna um­deildra byggingaráforma liggur ekkert fyrir um að slíkum beiðnum hafi verið hafnað, en sveitar­­félagið hefur upplýst að það hafi kannað afgreiðslur eldri byggingar­leyfis­umsókna í hverfinu en ekki fundið sambærileg dæmi um höfnun. Verður því ekki séð að með samþykki umsóknar hins umdeilda byggingarleyfis hafi verið brotið gegn jafnræðisreglunni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 22. september 2021 um að samþykkja hækkun rishæðar húss á lóðinni Leirutanga 10 og innrétta þar íbúðarrými.

6/2022 Upplýsingaskilti Landspítalans

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 18. maí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 6/2022, kæra á synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar frá 13. desember 2021 á beiðni húsfélagsins Sléttuvegi 19, 21 og 23, um að fjarlægja upplýsingaskilti á lóð er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið Sléttuvegi 19, 21 og 23, synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar frá 13. desember 2021 á beiðni um að taka niður upplýsingaskilti Landspítalans í Fossvogi á lóð er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 1. febrúar 2022.

Málsatvik og rök: Með afnotasamningi við Reykjavíkurborg, dags. 15. september 2011, tók húsfélagið Sléttuvegi 19, 21 og 23 að sér alla umhirðu og rekstur á flága sem liggur frá gangstétt að lóðarmörkum Sléttuvegar 19-23. Var samningurinn gerður til 70 ára og þinglýst sem kvöð á lóðinni Sléttuvegur 19-23. Um mánaðarmótin nóvember/desember 2021 var upplýsingaskilti fyrir Landspítalann í Fossvogi sett upp á umræddum flága. Kærandi mótmælti framkvæmdinni og í tölvupósti, dags. 8. desember s.á, var þess krafist að skiltið yrði fjarlægt. Verkefnastjóri framkvæmda- og viðhalds hjá Reykjavíkurborg hafnaði beiðni kæranda með tölvupósti 13. s.m.

 Af hálfu kæranda er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að taka einhliða ákvörðun um að setja umdeilt upplýsingaskilti á lóðarflágann við lóð kæranda. Afnota­samningur feli í sér að hann hafi afnot flágans og því hafi borgaryfirvöldum borið að bera ákvörðun um uppsetningu skiltisins á lóðinni undir kæranda og taka tillit til afstöðu hans þegar tekin hafi verið ákvörðun um notkun flágans. Borgaryfirvöldum hafi borið að óska eftir breytingum á deiliskipulagi og hefði kærandi þá átt kost á að koma að athugasemdum við hefðbundna meðferð málsins samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé það óeðlilegt að upplýsingaskilti fyrir Landspítalann sé á lóð nágranna. Skiltið feli í sér verulega sjónmengun vegna stærðar sinnar og lýsingar sem sé á skiltinu auk þess sem það gæti blindað útsýni þeirra sem aki Sléttuveginn í austur og taki vinstri beygju upp Háaleitisbraut.

 Borgaryfirvöld benda á að afnotasamningur vegna flágans snúi einungis að rekstri og umhirðu. Ekkert í samningnum komi í veg fyrir að borgin, sem sé eigandi flágans, geti nýtt hann með þessum hætti enda verði ekki séð að skiltið raski neinum hagsmunum kæranda. Hann hafi engar heimildir til nýtingar flágans og ekki verði séð að skiltið hafi áhrif á möguleika kæranda til reksturs og umhirðu hans. Staðsetning skiltisins sé ekki deiliskipulagsskyld þar sem ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Stærð og umfang skiltisins sé aðeins 2,32 m á breidd og 1,35 m á hæð og af því sé engin sjónmengun. Verkfræðistofa hafi verið fengin til að kanna aðstæður m.t.t. umferðaröryggis og niðurstaða athugunarinnar hafi verið sú að útsýni skerðist óverulega frá gatnamótum. Skiltið sé nauðsynlegt til að leiðbeina þeim sem eigi erindi á Landspítalann og því málefnaleg rök fyrir tilvist þess.

 Kærandi tekur fram í athugasemdum sínum við rök borgaryfirvalda að orðalag afnotasamningsins um rekstur flágans taki til ákvarðana um framkvæmdir á fláganum, s.s. að reisa upplýsingaskipti. Um sé að ræða framkvæmd sem feli í sér að steypa undirstöður, leggja rafmagn að skiltinu fyrir lýsingu o.fl. Um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi sem þarfnist kynningar eða a.m.k. grenndarkynningar með vísan til 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kafla 2.5 byggingarreglugerðar nr. 112/2012 komi fram að stærð og staðsetning skilta skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi skipulags. Sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum, en svo hafi ekki verið gert í þessu tilviki. Því sé ekki mótmælt að skiltið sé nauðsynlegt en ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að það standi á umræddri lóð í stað þess að standa á lóð Landspítalans.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð synjun skrifstofu framkvæmda- og viðhalds Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um að fjarlægja upplýsingaskilti á landflága er liggur að lóð Sléttuvegar 19-23.

Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki annast byggingarfulltrúi eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og eftir atvikum útgefnu leyfi. Kveðið er á um í 55. og 56. gr. laganna heimildir byggingarfulltrúa til að beita þar greindum þvingunarúrræðum, svo sem í því skyni að fjarlægja ólögmæt mannvirki. Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var í tölvupósti kæranda, dags. 8. desember 2021 farið fram á beitingu slíkra úrræða. Barst kæranda tölvupóstur 13. s.m. frá starfsmanni skrifstofu framkvæmda- og viðhalds á vegum borgarinnar þar sem fram kom að beiðni hans væri hafnað. Þrátt fyrir að þar komi fram ákveðin afstaða til erindis kæranda verður sú afstaða ekki talin binda endi á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda ekki um að ræða afgreiðslu byggingarfulltrúa sem til þess er bær að lögum að taka ákvörðun um hvort umdeilt skilti skyldi fjarlægt eður ei. Hefur umrætt erindi kæranda því ekki verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi.

Liggur samkvæmt framangreindu ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðanefndina, sbr. fyrrgreinda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.