Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2022 Norðurá bs.

Með

Árið 2022, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um álagningu viðbótargjalds að fjárhæð kr. 541.200 vegna mengunareftirlits árið 2020.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Norðurá bs. þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að leggja viðbótargjald á fyrirtækið að fjárhæð kr. 541.000 vegna mengunareftirlits árið 2020. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og til vara að sú fjárhæð sem innheimt sé verði lækkuð til muna.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 7. apríl 2022.

Málavextir: Kærandi hefur starfsleyfi frá Umhverfisstofnun fyrir urðun úrgangs á urðunarstaðnum við Stekkjarvík í landi Sölvabakka, Blönduósbæ. Starfsleyfið var gefið út í samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Gjaldskrá Umhverfisstofnunar, nr. 535/2015 gildir um gjöld vegna reglubundins eftirlits sem og vegna viðbótareftirlits, vanefnda eða rökstuddra kvartana sem greiðast sérstaklega skv. gjaldskrá, sbr. 5. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit.

Á grundvelli 4. mgr. 54. gr. laga nr. 7/1998 mat Umhverfisstofnun áhættu af starfsemi kæranda svo að fara skyldi í tvö eftirlit, vettvangsheimsóknir, á árinu 2020 og fóru þau fram 20. maí og 13. nóvember það ár. Samkvæmt 25. gr. gjaldskrárinnar er árlegt gjald fyrir eftirlit í 2. gjaldflokki, sem kærandi fellur í, kr. 724.000. Byggir gjaldið á þeim forsendum að 42 klst. sé varið í eftirlitið. Með bréfi, dags. 9. apríl 2021, var kæranda tilkynnt að skráðir tímar í verkbókhaldi stofnunarinnar hefðu verið umtalsvert fleiri og að innheimt yrði viðbótargjald vegna 41 klst. eða kr. 541.000 fyrir viðbótarvinnu. Kærandi andmælti álagningu viðbótargjaldsins 15. s.m. sem Umhverfisstofnun svaraði með bréfi, dags. 3. júní s.á., þar sem fram kom að stofnunin teldi ekki hafa komið fram upplýsingar sem gæfu tilefni til að breyta fyrri ákvörðun.

Hinn 8. júní 2021 gaf Umhverfisstofnun út reikning fyrir viðbótargjaldi með gjalddaga sama dag og eindaga 8. júlí s.á. Kærandi fór fram á frekari rökstuðningi með bréfi, dags. 3. júlí s.á, og svaraði Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 24. september s.á. þar sem fram kom að stofnunin hefði lagt fram gögn úr verkbókhaldi stofnunarinnar og gefið skýringar á því í hverju tímaskráningin hefði falist og hvers vegna hún hafi orðið jafn mikil og raunin var. Ekki hefði verið um óeðlilega marga tíma að ræða og beinlínis væri gert ráð fyrir því í gjaldskrá að innheimt væri tímagjald vegna þeirrar vinnu sem færi í eftirlit umfram fastagjald.

 Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að rökstuðningur Umhverfisstofnunar fyrir viðbótarvinnu vegna umfangsmikils eftirlits 2020 hafi verið frekar almennur og takmarkaður og að mestu hafi verið vísað til tímaskráninga starfsmanna. Ekki sé samræmi milli þeirra tíma sem tilgreindir séu í bréfum stofnunarinnar frá 9. apríl og 3. júní 2021 en í öðru bréfinu hafi verið tilgreindir 83 tímar en í hinu 78 tímar. Erfitt væri fyrir kæranda að átta sig á út frá yfirliti yfir tímaskráningar hvað hafi legið að baki þeim tímum sem þar væru skráðir. Í örfáum tilvikum væru settar inn skýringar við einstaka færslur en almennt séu skýringarnar rýrar eða engar. Ekki hafi verið með skýrum hætti verið færð rök fyrir því hvað hafi leitt til þess að þörf hafi verið á svo mikilli fjölgun á tímum við eftirlitið miðað við fyrri ár, sérstaklega þar sem frávik frá skilyrðum starfsleyfis hafi verið fátíð. Meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveði á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Einnig skuli þess gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Svo virðist sem Umhverfisstofnun telji sig hafa ótakmarkaðar heimildir til að ákveða viðbótarvinnu sem sé umfram hið fasta árgjald og að nægjanlegt væri að vísa til tímaskráningar starfsmanna.

 Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er vísað til þess að hún byggi gjaldtökuheimild sína vegna eftirlits á 2. tl. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem fram komi að stofnuninni sé heimilt að taka gjald fyrir eftirlit, þ.m.t. sýnatöku. Einnig sé gjaldtökuheimild að finna í 4. mgr. 65. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Á grundvelli þessara gjaldtökuheimilda setji ráðherra, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða stofnunin taki að sér. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður og birta skuli gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Kveðið sé á um gjald fyrir vinnu við eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi í 25. gr. gjaldskrárinnar. Þegar vinna stofnunarinnar við eftirlit með mengandi starfsemi sé innan þess tímaramma er birtist í 2. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar sé grunngjald innheimt. Með grunngjaldinu séu áætlaðir tímar vegna eftirlits fyrir þá rekstraraðila sem um ræði. Stofnunin leggi áherslu á að um sé að ræða áætlun sem taki til margra mismunandi rekstraraðila og hafi stofnunin því heimild til innheimtu viðbótargjalds þegar eftirlit með rekstraraðila verði umfangsmeira en gert sé ráð fyrir í gjaldskrá.

Í 1. mgr. 54. gr. laga nr. 7/1998 komi fram að eftirlit með atvinnurekstri, sbr. viðauka I-IV, taki til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipti og hollustuhátta. Mengunarvarnareftirlit sé skilgreint í 4. mgr. 3. gr. laganna þar sem komi fram að mengunarvarnaeftirlit taki til eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins teljist til mengunarvarnaeftirlits. Af þessu megi ráða að mengunarvarnaeftirlit stofnunarinnar með rekstraraðilum skv. viðaukum I-III skuli vera nokkuð víðtækt, sbr. orðalag 1. mgr. 54. gr. Vinna eftirlitsmanna vegna eftirlits skv. lögum nr. 7/1998 felist ekki einungis í eftirlitsferðinni sjálfri heldur sé margt fleira sem í eftirliti felist, t.d. úrvinnsla frávika og annarra atvika, kvartana, fyrirspurna, yfirferð ýmissa gagna, mælinga, umhverfisvöktunar, samráðsfundir, kynningarfundir og aðrir fundir. Verði einhver af þessum atriðum umfangsmeiri en búist var við sé viðbúið að vinna við eftirlit verði yfirgripsmeiri en gert sé ráð fyrir skv. gjaldskrá stofnunarinnar.

Í 3. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar séu talin upp nokkur atriði sem geti leitt til þess að vinna við eftirlit sé umfangsmeiri en skv. grunngjaldi 2. mgr. 25. gr. Í 3. mgr. segi að verði eftirlit umfangsmikið, t.d. vegna sérstakra aðstæðna, fjölda frávika eða ófullnægjandi upplýsinga rekstraraðila, skuli innheimta tímagjald sem því nemi skv. 1. gr. gjaldskrárinnar. Sú upptalning sé ekki tæmandi. Önnur og fleiri tilvik gætu því fallið undir ákvæðið. Bent sé á að eitt þeirra atriða sem talin séu upp í ákvæðinu, þ.e. ófullnægjandi upplýsingar frá rekstraraðila, eigi við í málinu.

Gert sé ráð fyrir því í gjaldskrá að innheimta skuli tímagjald vegna þeirrar vinnu sem fari í vinnslu leyfisins umfram grunngjald, sbr. orðalag 3. mgr. 25. gr. Sú forsenda sem búi þar að baki sé sú að kostnaður vegna vinnu stofnunarinnar við eftirlit með starfseminni eigi samkvæmt greiðslureglu umhverfisréttarins og mengunarbótareglu ekki að falla á almenning heldur rekstraraðila. Að sama skapi sé um að ræða þjónustugjald, en grundvöllurinn að baki þjónustugjöldum sé að greiddur sé raunkostnaður fyrir veitta þjónustu. Eins og sjá megi á yfirliti tímaskráningar hafi vinnan við eftirlitið verið sundurliðuð eftir því hverju viðkomandi eftirlitsmaður sinnti, undirbúningi, eftirlitsferð og fyrirspurnum. Stofnunin hafi rökstutt í bréfi sínu, dags. 24. september 2021, hvers vegna vinna eftirlitsteymis við undirbúning eftirlits, eftirlitsferðir, skýrslugerð og bréfaskriftir, mælingar o.fl. hafi verið umfangsmeiri en gert væri ráð fyrir í viðmiðum 25. gr. gjaldskrár nr. 535/2015.

Í bréfum stofnunarinnar til kæranda hafi verið rakið að á árinu 2020 hafi tvö eftirlit verið framkvæmd í starfsstöð fyrirtækisins við Stekkjarvík. Í fyrri eftirlitsferðinni, 20. maí 2020 hafi meðal annars verið farið yfir uppfærslu úrbótaáætlunar vegna útistandandi frávika. Aftur hafi verið farið yfir úrbótaáætlun í eftirliti sem framkvæmt hafi verið rafrænt 13. nóvember s.á. sem og nýtt frávik frá starfsleyfi staðfest. Skýrsluskrif og vinna við eftirlit sé almennt tímafrekari þegar frávik hafi verið skráð heldur en þegar rekstraraðili uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til hans í starfsleyfi, reglugerðum og lögum. Þegar eldri frávik séu opin, þ.e. að rekstraraðili hafi ekki brugðist við kröfum stofnunarinnar og að viðkomandi fráviki frá starfsleyfi hafi ekki verið lokað, sé undirbúningstími eftirlitsmanna umfangsmeiri en þegar engin frávik hafi verið skráð.

Fyrra frávikið hafi varðað skráningar vegna tl. 2.-7. og 9.-13. í gr. 5.1 í starfsleyfi. Við seinna eftirlit ársins 2020 hafi komið fram eitt nýtt frávik frá gr. 5.3. í starfsleyfi þar sem mælingar á sigvatni hafi ekki verið framkvæmdar. Eitt eldra frávik úr eftirliti 2. maí 2019 hafi enn verið opið og að rekstraraðili hafi á þessum tíma unnið eftir samþykktri úrbótaáætlun. Beðið hefði verið eftir að niðurstöður mælinga á sigvatni vorið 2020 lægju fyrir en þær mælingar hafi ekki farið fram.

Vegna fráviksins hafi verið mikilvægt að yfirfara vel niðurstöður mælinganna og bera saman við mælingar undanfarinna ára svo eftirlitsmaður gæti metið hvort forsendur fráviksins væru enn til staðar og þar af leiðandi hvort eða hvaða aðgerða þyrfti að grípa til. Yfirferð gagnanna hafi verið tímafrek þar sem gögnin hefðu ekki verið nægilega vel framsett og illa samanburðarhæf við fyrri ár. Nýr greiningaraðili hefði tekið við greiningum mælinganna og notað aðrar mælieiningar en áður hafi verið gert, mæliniðurstöður fyrri ára hafi ekki verið settar fram á áreiðanlegan hátt, gögnin hafi verið á formi sem ekki hafi verið hægt að færa inn í önnur forrit nema handvirkt og lítil túlkun hefði fylgt gögnunum. Tími eftirlitsmanns hafi því farið í að koma auga á framangreinda galla í mæliniðurstöðunum en það hafi krafist ítarlegrar yfirferðar gagnanna. Breyta hafi þurft milli mælieininga til að gera niðurstöðurnar samanburðarhæfar, finna hvar villurnar lægju og skrá niðurstöðurnar handvirkt til að ná samfellu í mæliniðurstöðum. Þessari vinnu hafi einnig fylgt samskipti við annan eftirlitsmann, rekstraraðila og mæliaðila. Meiri tíma hafi verið ráðstafað í eftirlitið árið 2020 en 25. gr. gjaldskrár stofnunarinnar geri ráð fyrir en þó væri ekki um óeðlilega marga tíma að ræða og að gert væri ráð fyrir því í gjaldskrá að innheimt væri tímagjald vegna þeirrar vinnu sem fari í eftirlit umfram fastagjald.

Misræmið sem kærandi hafi bent á í bréfum stofnunarinnar, þ.e. annars vegar 83 tímar og hins vegar 78, hafi verið útskýrt í svari stofnunarinnar við andmælum rekstraraðila, dags. 24. september 2021. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. júní s.á., hafi komið fram að meðfylgjandi væri yfirlit um tímaskráningu starfsmanna stofnunarinnar vegna eftirlits á árinu 2020 og að þeim tímum til viðbótar væru skráðar 5,16 klukkustundir vegna umsjónar og áhættumats. Þessir tímar hafi ekki verið inni í tímaskráningum sem fylgdu síðara bréfinu heldur tekið fram í bréfinu að þeir kæmu til viðbótar.

Kærandi hafi bent á að erfitt væri að átta sig á út frá yfirliti yfir tímaskráningar hvað hafi legið að baki þeim tímum sem voru skráðir. Vinna stofnunarinnar varðandi eftirlit með mengandi starfsemi sé fólgin í ýmsu. Þegar samskipti eigi sér stað á milli sérfræðinga stofnunarinnar og rekstraraðila sé oft svo að viðkomandi sérfræðingur þurfi að huga að ýmsu öðru, t.d. leita sér upplýsinga tengdum þeim samskiptum sem um ræði. Sá tími sem búi að baki tímaskráningu sérfræðings varðandi samskipti við rekstraraðila séu oft fólgin í fleiru en eingöngu beinum samskiptum. Sérfræðingar stofnunarinnar skrái ekki nákvæmlega hvaða verkefnum þeir sinni hverju sinni og hvernig. Vinnan sé skráð í verkbókhald stofnunarinnar en undir hverju verknúmeri séu nokkrir verkhlutar. Áhersla sé lögð á að sérfræðingar skrái niður undir hvaða verkhluta viðkomandi vinna falli en ekki nákvæmlega hvaða faglegu þáttum þeir sinni.

Tímar sem skráðir hafi verið í eftirlit 2020 hafi ekki verið fleiri en skráðir hafi verið í eftirlit stofnunarinnar með rekstraraðila undanfarin ár. Árið 2019 hafi verið innheimt viðbótargjald vegna 49,22 tíma. Um sambærilegan tímafjölda væri að ræða vinnulega séð þar sem síðara eftirlit ársins 2020 hafi verið rafrænt og færri tímar skráðir sem nemur ferðatíma. Viðbótargjald vegna mengunareftirlits hafi ekki verið innheimt markvisst fyrr en árið 2019, en áður hafi það einungis verið innheimt í sérstökum tilvikum. Stofnunin telji mikilvægt að rekstraraðilar greiði kostnað vegna eftirlits með starfseminni fremur en skattgreiðendur. Í verkferli stofnunarinnar um innheimtu viðbótargjalds komi fram að það sé innheimt ef tímafjöldi umfram grunngjald séu 10 eða fleiri.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar viðbótargjalds vegna mengunarvarnaeftirlits Umhverfisstofnunar með starfsemi kæranda.

Að meginstefnu er fjár vegna lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga aflað með almennri skattheimtu nema fyrir hendi sé gjaldtökuheimild í lögum.

Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir setur ráðherra, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér. Skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal hún byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Gjaldskrá nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2015. Gjald fyrir útselda vinnu sérfræðings skv. 1. gr. gjaldskrárinnar er kr. 13.200 á hverja klukkustund fyrir verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar innheimtir Umhverfisstofnun gjald af fyrirtækjum sem stofnunin hefur eftirlit með skv. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit og stunda atvinnurekstur sem talinn sé upp í viðauka I, VII og IX með reglugerðinni. Samkvæmt 54. gr. laga nr. 7/1998 skal eftirlit vera með atvinnurekstri, sbr. viðauka I-IV, sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta, sem og hollustuhátta.

Í 2. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar segir að vegna reglubundins eftirlits skv. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 og eftirlits sem nánar sé kveðið á um í starfsleyfi fyrirtækis skuli innheimta nánar tilgreint gjald. Í gjaldaflokki 2 er gjaldið að fjárhæð kr. 724.000 og í því gjaldi er gert ráð fyrir 42 klst. vinnu. Þá segir í 3. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar að sé framkvæmd eftirlits, undirbúningur og/eða úrvinnsla sérlega umfangsmikil, t.d. vegna sérstakra aðstæðna, fjölda frávika eða ófullnægjandi upplýsinga rekstraraðila, skuli innheimta tímagjald sem því nemi skv. 1. gr. Reikningur skuli gefinn út þegar eftirlitsskýrsla liggi fyrir.

Meðal framlagðra gagna í máli þessu er svonefnt verkbókhald Umhverfisstofnunar vegna vinnu stofnunarinnar við eftirlit með starfsemi kæranda. Skráningar í verkbókhaldið, sem voru til grundvallar álagningu umþrætts viðbótargjalds, eru þar í litlu útskýrðar og fela að mestu í sér tímaskráningar starfsmanna án nánari tilgreiningar. Nefndin kallaði eftir nánari skýringum frá stofnuninni um tiltekna liði í verkbókhaldi. Fram kom m.a. í svörum stofnunarinnar að samtals 1,5 klst. hafi farið í svör við erindum frá starfsmanni Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra vegna seinkunar á sýnatöku þar sem sýnatökuglös voru ekki komin til landsins. Undir verkhlutanum „undirbúningur“ hafi meðal annars verið skráður tími vegna vinnu við boðun funda við eftirlit og tilfærslu ábyrgðar milli starfsmanna vegna eftirlits með starfsemi kæranda.

Telja verður að þessir verkþættir beri einkenni almenns reglubundins verkefnis Umhverfisstofnunnar. Var stofnuninni því ekki, án frekari skýringa, mögulegt að telja þá með við álagningu umdeilds viðbótargjalds. Með vísan til þessa og að öðru leyti ófullkominns rökstuðnings Umhverfisstofnunar á forsendum hinnar umdeildu gjaldtöku, verður ekki séð hvaða verkefni stofnunarinnar voru í raun grundvöllur gjaldsins.

Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið verður ekki talið sýnt að umrædd gjaldtaka, sem nemur um 74,5% af fastagjaldi við eftirlit með starfsemi kæranda samkvæmt gjaldskrá, uppfylli skilyrði 53. gr. laga nr. 7/1998 þess efnis að upphæð gjalds vegna eftirlits megi ekki vera hærri en kostnaður við veitta þjónustu. Verður hin kærða álagning því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 3. júní 2021 um innheimtu viðbótargjalds að fjárhæð kr. 541.000 vegna mengunareftirlits árið 2020 á kæranda.

79/2022 Arnarnesvegur

Með

Árið 2022, föstudaginn 4. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 79/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2022 um að samþykkja deiliskipulag Arnarnesvegar, 3. áfanga, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra 40 íbúar við Akrasel, Fljótasel, Jakasel, Jórusel, Kambasel, Klyfjasel, Ystasel, Neðstaberg og Torfufell í Reykjavík; 10 íbúar við Dofrakór, Fjallakór, Gnitakór, Klappakór í Kópavogi; Vinir Kópavogs og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2022 að samþykkja deiliskipulag Arnarnesvegar, 3. áfanga, frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að engin framkvæmdaleyfi verði gefin út á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður að líta svo á að síðari hluti kröfugerðar kærenda feli í sér þá kröfu að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra sem staðfesti hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur síðan þá farið fram í áföngum en framkvæmdir eru fyrirhugaðar við 1,3 km langan vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík. Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Tillaga um deiliskipulag vegna 3. áfanga Arnarnesvegar innan marka Reykjavíkurborgar var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. júní 2022 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi ráðsins 7. júlí s.á. Þá var á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 30. maí s.á. samþykkt tillaga um deiliskipulag vegna sömu framkvæmdar innan sveitarfélagsmarka Kópavogs og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 14. júní s.á. Deiliskipulagið öðlaðist gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 28. október 2022.

Kærendur benda á að forsendur vegna þriðja áfanga Arnarnesvegar hafi breyst verulega frá því úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir árið 2003. Framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi, útisvist og hljóðvist á svæðinu og breyta ásýnd þess og notagildi á neikvæðan hátt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

123/2022 Svínabú á Kjalarnesi

Með

Árið 2022, föstudaginn 4. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 123/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 30. september 2022 um að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 29. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Stjörnugrís hf. þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 30. september 2022 að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis fyrirtækisins fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 30. október 2022.

Málsatvik og rök: Kærandi fékk útgefið starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 8. október 2013 fyrir svínabúi að Brautarholti á Kjalarnesi með gildistíma til 8. október 2025. Fer Umhverfisstofnun nú með eftirlit með starfseminni samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 30. september 2022, var kæranda tilkynnt um að þörf væri á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfisins. Var í bréfinu vísað til þess að endurskoðunin færi fram á grundvelli ákvæða í starfsleyfinu og skv. 2. mgr. 5. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Var gerð athugasemd varðandi losun blauthluta svínamykju í sjó og að ekki fengist séð að starfsemin samræmist skipulagi. Kom þar einnig fram að ekki væri krafist þess að send yrði inn formleg umsókn en bent á að rekstraraðila væri skylt að leggja fram upplýsingar sem nauðsynlegar væru til að endurskoða starfsleyfisskilyrði að beiðni starfsleyfisútgefanda, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 7/1998.

Með bréfi, dags. 21. október 2022, andmælti kærandi ákvörðun Umhverfisstofnunar um að þörf væri á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfisins. Í bréfinu er þess krafist að stofnunin felli úr gildi eða afturkalli ákvörðunina með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem kærandi vekur athygli á að skilyrði fyrir endurupptöku ákvörðunarinnar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga kunni að vera fyrir hendi.

Í kæru sinni bendir kærandi á að Umhverfisstofnun hafi haldið því fram að hin kærða ákvörðun teldist ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulaga heldur væri hún „liður í málsmeðferð.“ Sé þeirri staðhæfingu mótmælt enda verði vart annað séð en að ákvörðunin sé bindandi fyrir stofnunina. Jafnframt leiði af efni ákvörðunarinnar og rökstuðningi að hún teljist vera íþyngjandi. Umhverfisstofnun hafi ekki aflað nægjanlegra upplýsinga vegna málsins og því fari hin kærða ákvörðun í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Þeir annmarkar leiði einir og sér til þess að falla beri á ógildingarkröfu kæranda. Þá sé ákvörðunin einnig haldin efnisannmarka, svo sem rakið er nánar í kæruni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um erindi Umhverfisstofnunar til kæranda frá 30. september 2022 þar sem bent er á að þörf sé á endurskoðun og uppfærslu starfsleyfis kæranda fyrir svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi. Svo sem rakið er í málavöxtum sendi kærandi bréf til Umhverfisstofnunar, dags. 21. október s.á., þar sem farið var fram á að stofnunin afturkallaði hina kærðu ákvörðun á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess sem bent er á að skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. sömu laga kunni að vera fyrir hendi. Þrátt fyrir að í þessu erindi hafi einungis verið vakin athygli á að skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga kynnu að vera fyrir hendi verður að líta svo á að erindið hafi í raun falið í sér beiðni um endurupptöku málsins, enda eru færð rök fyrir því að ákvörðunin hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í athugasemdum við 24. gr. stjórnsýslulaga í frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1993 segir að ef óskað er eftir endurupptöku áður en mál er kært beri æðra stjórnvaldi almennt að vísa málinu frá af þeim sökum. Þá segir einnig að eftir að „ný ákvörðun hefði svo verið tekin í málinu af hinu lægra stjórnvaldi væri aðila heimilt að kæra málið á ný.“ Fyrir liggur að Umhverfistofnun hyggst afgreiða erindi kæranda frá 21. október sem beiðni um endurupptöku. Þá liggur einnig fyrir að umrætt erindi er að nærri öllu leyti samhljóða þeirri kæru sem lögð var fram til úrskurðarnefndarinnar 29. s.m. Þar sem ekki þykir æskilegt að fjallað sé efnislega um sama mál á tveimur stjórnsýslustigum á sama tíma verður kærumáli þessu því frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga rofnar kærufrestur þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests. Þá segir í 2. málslið að hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila. Hins vegar er ljóst að ef fallist er á endurupptökubeiðni kæranda hefst nýr kærufrestur þegar ákvörðunin hefur verið tekin að nýju.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

91/2022 Heiðarbrún

Með

Árið 2022, mánudaginn 31. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 91/2022, kæra á ákvörðun bæjarráðs Árborgar frá 28. júlí 2022 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6, Stokkseyri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 13. ágúst 2022, kærir eigandi, Heiðarbrún 8, Stokkseyri, þá ákvörðun bæjarráðs Árborgar frá 28. júlí 2022 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 28. september 2022.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 23. mars 2022 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6 á Stokkseyri. Gerði tillagan ráð fyrir að lóðin fengi númerið 6–6a og að heimilt yrði að byggja á henni parhús með stakstæðum eða sambyggðum bílskúr. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagsaga nr. 123/2010. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 4. apríl 2022. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og héraðsblaðinu Dagskráin 13. s.m. með fresti til athugasemda til 25. maí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma sem lutu að skerðingu á útsýni og skuggavarpi. Skipulags- og byggingarnefnd tók tillöguna fyrir á fundi 27. júlí s.á. og bókaði að fyrirhuguð bygging parhús gengi ekki á rétt nágranna vegna skerðingar á útsýni. Einnig var bókað að lagður hefði verið fram uppdráttur og af honum væri ekki að sjá að skuggavarp myndi verða á húsið að Heiðarbrún 8. Samþykkti nefndin tillöguna og fól skipulagsfulltrúa að auglýsa niðurstöðuna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Á fundi bæjarráðs 28. júlí 2022 var tillagan samþykkt.

Kæra barst úrskurðarnefndinni 13. ágúst 2022 en þar bendir kærandi á að ekki hafi verið stuðst við réttar teikningar hússins á lóð Heiðarbrún 8 við mælingu á skuggavarpi. Því séu forsendur hinnar kærðu ákvörðunar brostnar. Á fundi skipulag- og byggingarnefndar 27. september 2022 var málið tekið fyrir að nýju og bókað að gögn sem send hefðu verið nágrönnum hefðu verið röng. Var lagt til að málið yrði endurupptekið með vísan til 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hennar 5. október 2022.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

26/2022 Orustustaðir

Með

Árið 2022, föstudaginn 28. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson, formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2022, kæra vegna synjunar skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 25. janúar 2022 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja fyrsta hluta hótelbyggingar á Orustustöðum í Skaftárhreppi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir A synjun byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 22. febrúar s.á. um leyfi til að byggja fyrsta hluta hótelbyggingar á eignarjörð hans Orustustöðum í Skaftárhreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skaftárhreppi 29. apríl 2022.

Málavextir: Jörðin Orustustaðir mun hafa farið í eyði um 1950, en hún liggur þar sem heitir Brunasandur í Skaftárhreppi. Kærandi hefur unnið að því um nokkurt skeið að þar verði byggt hótel og tengd starfsemi, svo sem nánar er rakið í kæru. Árið 2015 tók gildi breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010–2022. Fól breytingin m.a. í sér að landbúnaðarsvæði var breytt í 15 ha verslunar- og þjónustusvæði og á því gert ráð fyrir um 7.000 m² hóteli á tveimur hæðum. Þá kom fram í greinargerð með breytingunni að skilgreina þyrfti héraðsveg að svæðinu, en enginn vegur lægi að jörðinni, aðeins slóðar að austan- og vestanverðu.

Árið 2016 öðlaðist gildi deiliskipulag hótels í landi Orustustaða. Í greinargerð með því segir að skipulagssvæðið nái yfir tæplega 40 ha svæði, þar af séu 28 ha innan Orustustaða, 10 ha innan óskipts lands Hraunbóls/Sléttabóls og 0,5 ha innan Fossjarða. Gert er ráð fyrir að hótelið verði með 200 gistirýmum auk annarrar aðstöðu. Skipulagið nær um leið til aðkomuvegar sem myndi vera að hluta til í landi Hraunbóls/Sléttabóls og Foss á Síðu, en aðkoma að hótelinu yrði þannig frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi að Hraunbóli og síðan eftir nýjum 1,7 km vegkafla, sem liggja myndi suður fyrir bæjarstæði Hraunbóls austur að Orustustöðum. Árið 2016 lá jafnframt fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað hótel og aðkomuvegur að því skyldu ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Voru báðar þessar ákvarðanir kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, m.a. af hálfu eigenda Hraunbóls, og þess krafist að þær yrðu felldar úr gildi. Með úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 26/2016, uppkveðnum 22. desember 2017, og nr. 31/2016, uppkveðnum 25. janúar 2018, var þeim kröfum hafnað.

Ágreiningur hefur verið um lagningu aðkomuvegar að Orustustöðum. Hinn 27. ágúst 2019 synjaði Vegagerðin umsókn kæranda um að fyrirhugaður nýr vegur að jörðinni, samkvæmt deiliskipulagi, yrði gerður að héraðsvegi, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir samþykki eigenda þeirra jarða sem vegurinn mundi liggja um. Með úrskurði, dags. 8. maí 2020, var sú ákvörðun staðfest af ráðherra samgöngumála. Eina núverandi vegtenging að Orustustöðum virðist vera vegslóði sem liggur frá næstu jörð, Hraunbóli. Um hann er ágreiningur. Hefur sá ágreiningur komið til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði frá 16. október 2020 í máli nr. 38/2020, felldi nefndin úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja framkvæmdaleyfi til lagfæringar á vegslóðanum. Byggði niðurstaða nefndarinnar m.a. á því að við meðferð málsins hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir, en fyrir lá að hluti vegslóðans hafði verið afmáður af aðalskipulagsuppdrætti. Þá hefði ekki verið uppfyllt lagaskilyrði til að veita hið umdeilda framkvæmdaleyfi án grenndarkynningar. Benti nefndin enn fremur á að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans ættu ekki undir úrskurðar-nefndina, en hvorugur aðili málsins hefði gert reka að því að fá úr honum skorið fyrir dóm-stólum.

Í sama máli var vísað frá kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis fyrir þremur starfsmannahúsum að Orustustöðum. Í niðurstöðu sinni tók nefndin fram að umræddar byggingar myndu standa í töluverðri fjarlægð frá fasteignum kærenda í landi Hraunbóls og með hliðsjón af því yrði ekki séð að hagsmunir þeirra myndu skerðast í þeim mæli að skapaði þeim kæruaðild. Væri þá jafnframt til þess að líta að byggingarleyfið veitti einvörðungu heimild til byggingar téðra húsa, en fæli t.d. ekki í sér heimild til umferðar um land kærenda. Þættu framkvæmdir samkvæmt leyfinu því ekki vera þess eðlis að þær snertu grenndarhagsmuni eða aðra einstak-lega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir gætu talist eiga kæruaðild. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti einnig leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á jörðinni en sú afgreiðsla sætti ekki kæru til nefndarinnar.

Hinn 1. desember 2021 sótti kærandi um byggingarleyfi til að reisa fyrsta hluta hótelbyggingar á Orustustöðum innan byggingarreits hótels samkvæmt deiliskipulagi. Kom fram í umsókninni að um væri að ræða einnar hæðar gistihús með 18 herbergjum úr þegar gerðum einingum, sem settar yrðu á steyptan sökkul. Í tölvubréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda af því tilefni, frá 25. janúar 2022, kom fram að byggingarleyfi fyrir frekari hóteluppbyggingu yrðu ekki gefin út á meðan aðkomuleið að Orustustöðum væri ekki tryggð og vegur samkvæmt samþykktu deiliskipulagi hefði ekki verið byggður upp. Fyrir uppbyggingu hótels sem þessa væri það grundvallarþáttur að tryggja öllum greiða aðkomu að svæðinu, þ.m.t. verktökum, sjúkrabílum, slökkviliði og gestum og gangandi. Í tölvubréfinu voru fleiri erindi frá kæranda til meðferðar, en í lok þess var gefið yfirlit um ákvæði byggingarreglugerðar nr.112/2012 um brunavarnir á gististöðum, sem tekið var saman af slökkviliðsstjóra Skaftárhrepps. Var þar m.a. vísað til ákvæða í gr. 9.2.6., gr. 9.2.4 -h og gr. 4.3.3. í reglugerðinni.

Með tölvubréfi frá 3. febrúar s.á. kom kærandi að athugasemdum og staðhæfði m.a. að sveitarstjórn hefði gefið það út að honum væri leyft að hagnýta vegslóðann þangað til nýr vegur yrði lagður. Í framhaldi var skipulags- og byggingarfulltrúi inntur eftir því hvort líta bæri á svar hans sem endanlega afgreiðslu og þar með synjun umsóknarinnar. Í svari skipulags- og byggingarfulltrúa í tölvubréfi frá 22. febrúar 2022 sagði að honum hefði verið ráðið frá því að gefa út fleiri byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi að Orustustöðum á meðan ekki lægi fyrir afstaða eða niðurstaða ráðuneytisins varðandi eignarnám. Þá lægi ekki fyrir stjórnsýsluákvörðun um að kærandi hefði heimild til að hagnýta sér slóðann þar til nýr vegur yrði lagður samkvæmt deiliskipulagi.

Í kæru er rakið að kærandi hafi leitast við að fá Vegagerðina, ráðherra samgöngumála og sveitarstjórn til að leita samninga við landeigendur um vegstæði og um lagningu vegar eða hlutast til um eignarnám á landi undir hann ella. Þær beiðnir hafi ekki borið árangur og standi á því, sem áður, að ekki liggi fyrir samþykki eigenda vegstæðis.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að nú liggi fyrir afstaða ráðherra samgöngumála í úrskurði um að ekki verði ráðist í eignarnám vegna hins nýja vegar. Synjun á samþykkt byggingaráforma geti við svo búið ekki verið reist á því að beðið sé eftir slíkri afgreiðslu. Jafnframt sé það ekki lögmætur grundvöllur að hafna því að samþykkja frekari byggingaráform að engin stjórnsýsluákvörðun liggi fyrir um að kærandi hafi heimild til að hagnýta sér vegslóða að Orustustöðum þar til nýr vegur verði lagður. Kærandi þurfi ekki samþykki sveitarstjórnar til að nota núverandi aðkomu. Hann eigi rétt á því samkvæmt eðli máls og með vísan til hefðarréttar að fara eftir núverandi vegi/slóða að jörð sinni enda sé það eina aðkoman að jörðinni.

Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir umrætt svæði sé gert ráð fyrir því að aðkoma að hótelinu verði frá þjóðvegi 1, eftir núverandi vegi að Hraunbóli og síðan vegslóða. Skipulagið geri einnig ráð fyrir hinum nýja vegi, lengra frá Hraunbóli, en hvergi komi fram að nýr vegur sé skilyrði fyrir uppbyggingunni samkvæmt skilmálum skipulagsins. Verði kæranda ekki gert að leggja nýja veginn enda sé honum það ekki fært nema með samþykki eigenda Fossjarða og eigenda á Hraunbóli eða að landið verði tekið eignarnámi af hálfu Vegagerðarinnar eða sveitarfélagsins, sem bæði hafi hafnað því að hafa forsendur til þess að fara í eignarnám. Eigi kærandi því ekki annan kost en að nota núverandi aðkomu.

Umrætt deiliskipulag taki ekki til núverandi vegar eða aðkomu. Hún sé því örugglega ekki felld niður með skipulaginu. Muni kærandi nota núverandi aðkomu að jörðinni, þ.e. um núverandi veg og slóða, a.m.k. þangað til honum verði gert kleift að leggja nýjan veg. Sé litið til um-fjöllunar sveitarfélagsins vegna athugasemda er borist hafi við áætlanagerð vegna fyrirhugaðra framkvæmda sé ljóst að alltaf hafi verið gert ráð fyrir að núverandi vegur yrði áfram og að hann yrði notaður auk hins nýja vegar. Synjun á samþykkt byggingaráforma á þeim forsendum að nýr vegur hafi ekki verið lagður eigi sér því ekki stoð í skipulagi, heldur þvert á móti.

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 38/2020 hafi staðfest heimild til framkvæmda á svæðinu óháð hinum nýja vegi. Í málinu hafi nefndin staðfest gildi hinna umdeildu byggingarleyfa á þeirri forsendu að kærendur málsins, sem þó séu næstu nágrannar kæranda í máli þessu, ættu ekki lögvarða hagsmuni af útgáfu leyfanna. Með vísan til þess fái kærandi ekki skilið hvaða hagsmunir það séu sem væru lögmætir af hálfu sveitarfélagsins til að takmarka frekari útgáfu byggingarleyfa sem séu í samræmi við deiliskipulag. Sveitarfélagið hafi engin lögmæt og málefnaleg sjónarmið til að synja um samþykkt frekari byggingaráforma eða útgáfu byggingarleyfa.

Málsrök Skaftárhrepps: Sveitarfélagið mótmælir kröfum kæranda. Byggingarfulltrúi hafi gefið út framkvæmdaleyfi 31. desember 2019 fyrir vegabótum á vegslóða sem notaður hafi verið undanfarna áratugi sem heimreið að Orustustöðum. Leyfið hafi verið háð því skilyrði að skriflegt samþykki eiganda aðliggjandi jarða lægi fyrir. Kærandi hafi í engu skeytt um þau skilyrði sem sett hafi verið og hafi ráðist í framkvæmdir án tilskilinna leyfa. Umræddur vegslóði liggi að hluta til í gegnum óskipt land jarðanna Hraunbóls/Sléttabóls 2 og Sléttabóls sem liggi að jörðinni Orustustöðum að vestanverðu.

Í greinargerð Aðalskipulags Skaftárhrepps 2010–2022 segi að skilgreina þurfi héraðsveg að hótelsvæðinu. Tillögur hafi verið gerðar um sex veglínur og hafi veglína C verið valin en þar sé gert ráð fyrir rúmlega 1,7 km nýjum vegkafla. Þessi vegur hafi hins vegar ekki verið lagður, fyrst og fremst vegna djúpstæðs ágreinings kæranda og eigenda Hraunbóls. Hafi ágreiningur ratað fyrir dómstóla, sbr. mál nr. E-784/2020 hjá Héraðsdómi Suðurlands, en dómur í því hafi verið kveðinn upp 14. febrúar 2022. Þrátt fyrir að um einkaréttarlegan ágreining hafi verið að ræða sem sveitarfélagið hafi ekki átt aðild að lýsi hann í hnotskurn þeirri pattstöðu sem fyrir hendi sé varðandi frekari uppbyggingu innan Orustustaða.

Núverandi staða í skipulagslegum skilningi sé sú að ekki sé unnt að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagfæringu og/eða endurbótum á vegslóða þeim er um ræði. Forsendur séu ekki til slíks fyrr en endanleg niðurstaða liggi fyrir um skipan mála varðandi vegslóðann með áherslu á eignar- og afnotarétt. Lögð sé áhersla á að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir nýjum aðkomuvegi í deiliskipulagi fyrir jörðina þá hafi það ekki sjálfkrafa þá réttarverkan í för með sér að framkvæmdaleyfi skuli veitt. Eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt framkvæmdaleyfi við veginn úr gildi liggi fyrir að skipulagsvald sveitarfélagsins nái ekki til þess hluta vegslóðans sem liggi í gegnum jarðirnar Hraunból og Sléttaból. Það sé engin aðkoma að Orustustöðum líkt og gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi fyrir jörðina. Samkvæmt framansögðu sé hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem áskilið sé að lögum og því beri að hafna kröfu um útgáfu þess.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar fyrri sjónarmið sín. Jafnframt er bent á að í greinargerð sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar sé byggt á allt öðrum málsástæðum en skipulags- og byggingarfulltrúi hafi byggt synjun sína á. Þegar af þeirri ástæðu sé greinargerðin þýðingarlaus enda sé ekki hægt að breyta rökstuðningi eða forsendum fyrir synjun eftir á. Þá sé því mótmælt að „skipulagsvald sveitarfélagsins“ nái ekki til vegslóðans þar sem hann liggi um land Hraunbóls eða Sléttabóls enda taki það til alls lands innan sveitarfélagsins, skv. 1. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Rétt sé að ekki hafi verið gerð ný aðkoma að Orustustöðum eins og gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi. Það að sá vegur hafi ekki verið lagður veiti sveitarfélaginu hins vegar ekki heimild til að hafna frekari framkvæmdum á jörðinni. Ávallt hafi verið gert ráð fyrir að núverandi vegur yrði áfram og að hann yrði notaður auk hins nýja vegar. Hafi vegurinn verið lagfærður þannig að hann sé nú fær allri umferð. Engar forsendur hafi breyst frá því að sveitarfélagið hafi gefið út byggingarleyfi á jörðinni.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja fyrsta hluta hótelbyggingar á Orustustöðum innan byggingarreits fyrir þá starfsemi samkvæmt deiliskipulagi. Um er að ræða einnar hæðar gistihús með 18 herbergjum úr þegar gerðum einingum, sem settar yrðu á steyptan sökkul (Orustustaðavegur 4, matshluti 01). Telja verður að hin kærða ákvörðun komi fram í tölvubréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda 25. janúar 2022. Í kæru er aðallega vísað til tölvubréfs skipulags- og byggingarfulltrúa frá 22. febrúar s.á., þar sem sú ákvörðun var áréttuð. Samkvæmt þessu verður eigi að síður að telja að kæranda hafi þegar mátt vera ljós afstaða til umsóknar hans 25. janúar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 22. mars s.á., eða að liðnum lögbundnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður þó talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr í ljósi þess að ekki verður séð að kæranda hafi verið leiðbeint um kærurétt og kæruheimild og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Hin kærða ákvörðun er reist á þeirri forsendu að byggingarleyfi fyrir frekari hóteluppbyggingu yrðu ekki gefin út á meðan aðkoma að Orustustöðum væri ekki tryggð og vegur samkvæmt samþykktu deiliskipulagi hefði ekki verið lagður. Fyrir uppbyggingu hótels sem þessa væri það grundvallarþáttur að tryggja öllum greiða aðkomu að svæðinu. Þá var einnig vísað til þess að beðið væri með að gefa út fleiri byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi að Orustustöðum á meðan ekki lægi fyrir afstaða eða niðurstaða ráðuneytis varðandi eignarnám lands undir veg. Jafnframt að ekki lægi fyrir „stjórnsýsluákvörðun“ um að kærandi hefði heimild til að hagnýta sér vegslóðann sem fyrir væri þar til nýr vegur yrði lagður samkvæmt deiliskipulagi.

Mælt er fyrir um í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að byggingaráform verði aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga, en synjun skipulags- og byggingarfulltrúa var m.a. á því reist að vegur samkvæmt samþykktu deiliskipulagi hefði ekki verið lagður.

Fyrir liggur að sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur samþykkt skipulagsáætlanir sem gera ráð fyrir hóteli á Orustustöðum. Í þeim er gert ráð fyrir að lagður verði nýr aðkomuvegur að hótelinu. Um veginn er fjallað ítarlega í bæði greinargerð með breytingu á Aðalskipulagi Skaftárhrepps  2010–2022 og í greinargerð með deiliskipulagi hótels í landi Orustustaða. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lá fyrir að ágreiningur væri um vegarlagninguna. Var sveitarfélaginu kunnugt um úrskurð ráðherra samgöngumála, dags. 8. maí 2020, þar sem staðfest var ákvörðun Vegagerðarinnar um að synja umsókn um að nýr aðkomuvegur að Orustustöðum yrði héraðs-vegur, gegn mótmælum eigenda vegstæðisins. Kærandi hefur mótmælt þessum úrskurði og að eigin sögn leitast við að fá Vegagerðina, ráðherra samgöngumála og sveitarstjórn til að leita samninga við landeigendur um vegstæði og um lagningu vegar eða hlutast til um eignarnám á landi undir hann ella. Hann hefur þó ekki talið rétt, a.m.k. að svo stöddu, að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum.

Nýr aðkomuvegar er hluti af deiliskipulagi hótels á Orustustöðum. Í skilmálum þess er þó ekki tekið fram beinum orðum að bygging mannvirkja hótelsins sé háð því að nýr aðkomuvegur verði áður lagður. Þá veitir byggingarleyfi einvörðungu heimild til byggingar mannvirkja, en felur t.d. ekki í sér heimild til umferðar um vegi sem að þeim mannvirkjum kunna að liggja.

Það skal athugað að þeir sem fá byggingarleyfi bera sjálfir ábyrgð á því að njóta þeirra heimilda að einkarétti sem þarf til þess að tryggja eðlileg not viðkomandi fasteignar. Ágreiningur um eignarréttindi sem þessi verður hvorki leiddur til lykta með málafærslu fyrir sveitarfélögum né fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla.

Undanfari deiliskipulagsins var álit Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 um að fyrirhugað hótel á Orustustöðum og aðkomuvegur að því skyldu ekki háð mati á umhverfisáhrifum þar sem talið var að þau væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í niðurstöðum álitsins sagði að kæmi til þess að breytt yrði út frá þeirri aðkomuleið að hótelinu sem áformuð væri, þá bæri framkvæmdaraðila að tilkynna að nýju til Skipulagsstofnunar um þær breytingar. Það sama ætti við ef aðrar breytingar yrðu á framkvæmdaáformum, en slíkar breytingar gætu fallið undir tölulið 13.02 í 1. viðauka við þágildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væru því tilkynningaskyldar. Í kæru segir frá því að aðkoma að Orustustöðum sé „nokkuð erfið“ um vegslóðann. Í framhaldsathugasemdum kæranda segir á hinn bóginn að slóðinn hafi verið „lagfærður þannig að hann sé nú fær allri umferð bæði stórra og smárra bíla.“ Virðist ljóst með þessu að kærandi hyggist nota vegslóða eða veg þennan sem aðkomuveg að hótelinu. Virðist eðlilegt í því ljósi að kæranda verði leiðbeint af hálfu sveitarfélagsins um að ef standi til af hans hálfu að breyta frá þeirri aðkomuleið að hótelinu sem áformuð er í deiliskipulagi, þá geti verið skylt að tilkynna um þá breytingu til Skipulagsstofnunar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar sé svo áfátt að það beri af þeirri ástæðu að ógilda hana.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 25. janúar 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi til að byggja fyrsta hluta hótelbyggingar á Orustustöðum í Skaftárhreppi.

99/2022 Nesvegur

Með

Árið 2022, föstudaginn 28. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2022, kæra á ákvörðun bæjarráðs Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar frá 18. ágúst 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir atvinnuhúsnæði á lóð Nesvegar 22A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. september 2022, kærir eigandi, Nestúni 4, þá ákvörðun bæjarráðs Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar frá 18. ágúst 2022 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir atvinnuhúsnæði á lóðinni Nesvegi 22A. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með þremur kærum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárust nefndinni 9. september 2022, kæra 11 íbúar við götuna Nestún í Stykkishólmi sömu ákvörðun. Krefjast kærendur ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verða þau kærumál, sem eru nr. 100/2022, 103/2022 og 104/2022, sameinuð máli þessu enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkrafna kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ og Helgafellssveit 20. október 2022.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar 24. febrúar 2022 var lögð fram umsókn fyrirtækisins Asco Harvester ehf. um að fá úthlutað lóð nr. 22A við Nesveg í Stykkishólmi vegna áforma þess um öflun og vinnslu sjávarþörunga. Samþykkti bæjarstjórn að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við fyrirtækið í samræmi við erindi þess. Hinn 26. apríl s.á. sótti fyrirtækið um byggingarleyfi fyrir 958,9 m2 atvinnuhúsnæði á greindri lóð. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 15. júní s.á. var umsókninni vísað til skipulagsnefndar þar sem ekki lá fyrir deiliskipulag. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi sínum 22. s.m. og samþykkti meirihluti nefndarinnar að leyfisumsóknin yrði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir lóðarhöfum Nesvegar 20 og 24 auk þess sem á sama tíma yrði boðið upp á opinn kynningar­fund fyrir íbúa. Á fundi bæjarráðs 23. júní 2022 var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar 30. s.m. þar sem afgreiðslan var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Byggingarleyfisumsóknin var grenndarkynnt 24. júní 2022 með athugasemdafresti til 22. júlí s.á. og á kynningartíma bárust athugasemdir frá lóðarhöfum Nesvegar 20 og 24. Þá fór fram opinn kynningarfundur á Amtsbókasafninu í Stykkishólmi 10. ágúst s.á. vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Á fundi skipulagsnefndar 15. s.m. var málið tekið fyrir að nýju þar sem lögð var fram og samþykkt tillaga skipulagsfulltrúa að svörum við framkomnum athugasemdum við grenndarkynningu. Jafnframt var lögð fram samantekt skipulagsfulltrúa á athugasemdum og/eða spurningum sem fram höfðu komið á kynningarfundi. Afgreiðsla skipulagsnefndar var staðfest á fundi bæjarráðs 18. s.m., auk þess sem endanlegri afgreiðslu byggingarleyfisins var vísað til byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi hans 5. september s.á. voru byggingar­áform samþykkt og bókað að byggingarleyfi yrði gefið út að uppfylltum skilyrðum í gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Var byggingarleyfi gefið út 14. október 2022.

Á fyrrgreindum fundi skipulagsnefndar 15. ágúst 2022 voru bornar upp þrjár tillögur, þ. á m. að nefndin leiti umsagnar Skipulagsstofnunar um það hvort byggingarleyfið félli innan ramma laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Var sú tillaga felld en skipulags­fulltrúi ákvað samt sem áður að spyrjast fyrir um það hjá Skipulagsstofnun hvort framkvæmdin væri háð umhverfismati samkvæmt þeim lögum. Í svörum stofnunarinnar kom fram að hún taldi svo ekki vera en minnti á að útgáfa byggingarleyfisins þyrfti að vera í samræmi við aðalskipulag og hvatti sveitarfélagið til að gera deiliskipulag fyrir svæðið þar sem fram kæmu skýrir skipulagsskilmálar, m.a. varðandi ásýnd og yfirbragð byggðar á athafna- og hafnarsvæðinu, umfang mannvirkja, vatn og fráveitumál og aðkomu ásamt því að gera grein fyrir umhverfisáhrifum. Jafnframt þyrfti að óska eftir umsögnum frá lögbundnum umsagnar­aðilum. Sæi sveitarfélagið sér ekki fært að vinna deiliskipulagið mælti stofnunin með því að settir yrðu skýrir skilmálar varðandi framangreinda þætti í byggingarleyfið. Með tilliti til ábendinga Skipulagsstofnunar leitaði sveitarfélagið eftir umsögnum Heilbrigðiseftirlits Vestur­lands, Umhverfisstofnunar, Breiðafjarðarnefndar og Minjastofnunar. Þá óskaði sveitarfélagið eftir úttekt frá óháðri verkfræðistofu þar sem skoða skyldi hvort hávaði eða lykt gæti borist frá starfseminni að íbúðarbyggð. Skilaði stofan minnisblaði 13. október s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í fyrirhugaðri byggingu við Nesveg 22A, sem muni verða 958,9 m2 að stærð og 10 m að hæð, muni fara fram þurrkun á þangi, en fyrirhugað sé að vinna um 5.000 tonn á ári í verksmiðjunni. Meirihluti bæjarstjórnar hafi hafnað því að gera deiliskipulag vegna verksmiðjunnar en í stað þess talið nægjanlegt að grenndarkynna hana fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóða. Ekki hafi verið grenndarkynnt fyrir íbúum á nærliggjandi svæðum en einungis um 100 m séu í næsta íbúðarhús. Ekkert faglegt mat utanaðkomandi aðila hafi verið gert. Fyrir liggi að ef þurrkunin sé í líkingu við það sem þekkt sé hljótist af starfseminni lyktarmengun og hljóðmengun sem hafi í för með sér verðlækkun á fasteignum í nágrenni við verksmiðjuna. Jafnframt verði þungaflutningar á svæðinu með tilheyrandi ónæði.

Í Aðalskipulagi Stykkishólms 2002–2022 sé lóðin á skilgreindu hafnarsvæði. Í gr. 3.3.8 í greinargerð skipulagsins segi m.a.: „Markmiðið er að hafa tiltæk sem fjölbreyttasta atvinnu­starfsemi. Stefnt er að enn betri nýtingu núverandi hafnar- og athafnasvæða og er deili­skipulagning þeirra verkfæri til þess. Í deiliskipulagi verður tekið á nýtingu svæðanna með tilliti til hagkvæmni og landslags og aðlögunar að bæjarmyndinni.“ Þá hafi skipulagsfulltrúi látið bóka að gera ætti deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar.

Málsrök Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að um sé að ræða rúmlega 960 m2 iðnaðarhús á þegar röskuðu hafnarsvæði þar sem áður hafi verið rekin steypustöð. Leyfið sé því í samræmi við uppbyggingu og starfsemi sem kærendur hafi mátt búast við.

Málsmeðferð sveitarfélagsins hafi byggt á heimild 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en þar segi m.a.: „Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6.gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags­gerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þétt­leika byggðar.“ Sú framkvæmd sem hér um ræði falli algjörlega að þeim skilyrðum sem sett séu í greininni. Starfsemin sé í samræmi við landnotkun samkvæmt aðalskipulagi. Byggingin sé í samræmi við það sem búast megi við á slíkum svæðum. Stærð og umfang hennar sé alls ekki meira en almennt megi búast við á slíkum svæðum. Fyrir liggi að áhrif vegna lyktar og hávaða verði engin og a.m.k. ekki meiri en búast megi við á slíkum svæðum. Umferð verði heldur ekki veruleg og ekki meiri en almennt megi gera ráð fyrir á slíkum svæðum.

Því hafi verið haldið fram að um sé að ræða framkvæmd sem sé háð mati á umhverfisáhrifum framkvæmda eða áætlana en Skipulagsstofnun hafi staðfest að svo sé ekki. Þá hafi því líka verið haldið fram að framkvæmdirnar kunni að raska minjum á svæðinu. Fyrir liggi umsögn Minjastofnunar þar sem fram komi að ekki sé gerð athugasemd við framkvæmdina og að hún sé utan allra minja samkvæmt aðalskipulagi og minjaskráningu í Stykkishólmi frá 1987.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að vegna áforma fyrirtækisins um umhverfisvæna fullframleiðslu sjávarþörunga hafi verið haldinn vel sóttur íbúafundur í apríl 2022. Þar hafi verið farið yfir teikningar og hönnun en lögð sé áhersla á að vinnslan falli vel í umhverfið, bæði það sem snúi að útliti og litavali. Þá hafi einnig verið haldinn kynningarfundur 10. ágúst s.á. þar sem sýnt hafi verið myndband sem gefi til kynna að sjónræn áhrif íbúa í nágrenninu verði lítil sem engin. Búast megi við að þegar hámarksafakastagetu verði náð muni ein vörubifreið fara frá verksmiðjunni í hverri viku með fullunnar afurðir.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að meginreglan sé sú að gera eigi deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Grenndarkynning á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laganna sé undan­tekningarheimild sem túlka beri þröngt. Samkvæmt gr. 3.3.8 í Aðalskipulag Stykkishólms 2002–2022 sé gert ráð fyrir deiliskipulagningu svæðisins, en engin bygging hafi risið á svæðinu frá því árið 2001. Setja þurfi deiliskipulag til að tryggja að allir sem hafi hagsmuna að gæta hafi tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum og þannig að réttaröryggi og almanna­hagsmunir séu tryggðir á þann hátt sem mælt er fyrir um í skipulagslögum. Bæði Skipulags­stofnunar og Umhverfisstofnunar telja æskilegt að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið. Í umsögn Skipulagsstofnunar komi einnig fram að ef ekki yrði unnið skipulag sé mælt með því að skýrir skilmálar varðandi ásýnd og yfirbragð byggðar, umfang mannvirkja, vatn og fráveitu­mál og aðkomu yrðu settir í byggingarleyfið. Það hafi ekki verið gert. Telji úrskurðarnefndin að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að beita 1. mgr. 44. gr. skipulags­laga sé ljóst að grenndar-kynna hefði átt leyfisumsóknina fyrir íbúum í nágrenninu. Því hafi málsmeðferðin ekki verið í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

———-

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki þykja efni til að rekja nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun bæjarráðs Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar frá 18. ágúst 2022 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir 958,9 m2 atvinnuhúsnæði á lóðinni Nesvegi 22A vegna söfnunar og vinnslu á sjávarþörungum. Sú ákvörðun er liður í máls­meðferð umsóknar leyfishafa um byggingarleyfi sem lýkur með samþykki byggingar­áforma, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 2. mgr. 9. gr. og 13. gr. sömu laga. Verður að því virtu litið svo á að fyrirliggjandi kærur lúti að þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa frá 5. september 2022 að samþykkja byggingaráform leyfishafa og að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr skipulagslaga nr. 123/2010 gildir sú meginregla að gera skal deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við land­notkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndar­kynningu. Í máli þessu er m.a. tekist á um það hvort heimilt hafi verið að veita umdeilt byggingar­leyfi að undangenginni grenndarkynningu eða hvort þurft hefði að gera deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Sveitarstjórn ber við gerð skipulagsáætlunar sem og við mat á því hvort víkja eigi frá gerð deiliskipulags að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. laganna, en meðal þeirra markmiða er að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála og tryggja að samráð sé haft við gerð skipulags­áætlana, sbr. b-, c- og d-lið ákvæðisins. Með það í huga þykir rétt að benda á að í skipulags­áætlunum er ekki einungis tekin ákvörðun um hvaða landnotkunarflokki viðkomandi svæði tilheyrir heldur er þar einnig mótuð stefna um byggðaþróun og sett fram stefnumið einstakra þátta á borð við náttúruvernd, vatnsvernd, landslag og náttúruvá, sbr. 2. mgr. 12. gr. skipulags­laga, auk þess sem skv. 7. mgr. sömu lagagreinar skal gera grein fyrir umhverfisáhrifum skipulags­áætlunar og einstökum stefnumiðum hennar. Deiliskipulags­áætlun hefur jafnframt þann tilgang að setja skipulagsforsendur fyrir byggingarleyfi og framkvæmda­leyfi, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en slíkt er aðallega gert með skipulags­skilmálum sem eru bindandi ákvæði um útfærslu skipulags. Þá verður og bent á að skv. 2. mgr. 37. gr. skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu.

Að teknu tilliti til framangreindra lagaákvæða og sjónarmiða sem að baki þeim búa er ljóst að skipulagsáætlanir þjóna fjölþættum tilgangi og ber því að sýna varkárni við beitingu undantekningarheimildar 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sem ber að skýra þröngt. Með hliðsjón af því verður að telja að grenndarkynning byggingar­leyfisumsóknar fyrir atvinnuhúsnæði á hafnarsvæði ekki tæka nema fjallað hafi verið um framkvæmdina með fullnægjandi hætti í aðalskipulagi þannig að þeir almennu og einstaklings­bundnu hagsmunir sem skipulagslögum er ætlað að vernda séu þar tryggðir.

Fyrir liggur að lóðin Nesvegur 22A er á skilgreindu hafnarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Stykkishólms 2002–2022, en ekki hefur verið gert deiliskipulag fyrir svæðið. Í greinargerð aðal­skipulagsins er fjallað um athafnasvæði/hafnarsvæði í kafla 3.3.8 og segir þar: „Markmiðið er að hafa tiltæk svæði fyrir sem fjölbreyttasta atvinnustarfsemi. Stefnt er að enn betri nýtingu núverandi hafnar- og athafnasvæða og er deiliskipulagning þeirra verkfæri til þess.“ Þá segir einnig að í deiliskipulagi verði tekið á nýtingu svæðanna með tilliti til „hagkvæmni og landslags og aðlögunar að bæjarmyndinni.“ Í aðalskipulaginu er á engan hátt fjallað um hinu umdeildu byggingaráform. Gerir skipulagið þar að auki ráð fyrir deiliskipulagningu svæðisins. Með hliðsjón af framansögðu verður að líta svo á að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði áðurnefndrar 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um samræmi byggingarleyfis við aðalskipulag þegar samþykkt var að grenndarkynna umsókn leyfishafa, sbr. einnig sambærilegt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis í 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem að á svæðinu eru enn óbyggðar lóðir verður að telja að þörf hafi verið á að deiliskipuleggja svæðið áður en byggingarleyfisumsókn leyfishafa var samþykkt. Eru því þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að fella ber hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar frá 5. september 2022 um að samþykkja byggingaráform fyrir 958,9 m2 atvinnuhúsnæði á lóðinni Nesvegi 22A.

95/2022 Skotvöllur í Álfsnesi

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 26. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindmála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 95/2022, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá 26. júlí 2022 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis fyrir rekstri skotvallar í Álfsnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 25. ágúst 2022, er barst nefndinni 26. s.m., kæra sjö íbúar og fasteignaeigendur í Kollafirði þá ákvörðun Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá 26. júlí 2022 að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis fyrir rekstri skotvallar í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að hlutlausir sérfræðingar framkvæmi hljóðmælingar og rannsaki blýmengun í fjöru og sjó í Djúpavík. Þá verður einnig að skilja kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Hinn 15. febrúar 2022 sótti Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis um starfsleyfi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fyrir starfsemi félagsins á skotvelli þess í Álfsnesi á Kjalarnesi. Heilbrigðiseftirlitið óskaði 1. mars s.á. eftir umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur um hvort umsóknin væri í samræmi við skipulag. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 18. maí s.á. er komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 að endurnýja starfsleyfi einstakra rekstraraðila til skemmri tíma, enda gildistími starfsleyfis innan tímamarka gildandi skipulagstímabils og uppbygging. Leggur skipulagsfulltrúi til að gefið verði út starfsleyfi til skemmri tíma með ákveðnum skilyrðum um þau atriði sem helst hafi verið gerðar athugasemdir við og varða opnunartíma, umhverfisþætti og hljóðmengun. Tillaga að starfsleyfi var auglýst á vefsvæði heilbrigðiseftirlitsins 3. júní 2022 og var frestur til að koma að athugasemdum veittur til 1. júlí s.á. Á afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 26. s.m. var samþykkt að gefa út starfsleyfi til 31. október 2026 með sértækum starfsleyfisskilyrðum fyrir starfsemi skotvallarins auk almennra starfsleyfisskilyrða fyrir mengandi starfsemi.

Kærendur benda á að samkvæmt rannsókn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á blý- og hávaðamengun vegna skotvallar á Álfsnesi frá árinu 2020 berist blýhögl niður í fjöru og sjó. Djúpavík í Kollafirði sé mikilvæg byggð fyrir sjófugla og sé mikið varp í klettunum, en að auki sé mikið lífríki í fjöru, á grunnsævi og hafsbotninum. Heilbrigðiseftirlitið hafi virt að vettugi kröfu kærenda um að lagt verði bann við blýnotkun á Álfsnesi. Þá hafi það aldrei krafið leyfishafa um að framkvæma jarðvegsmælingu þó kveðið hafi verið á um það í starfsleyfi þess í 17 ár að sú mæling eigi að fara fram á fimm ára fresti. Leyfishafi hafi heldur aldrei lagt yfirborðslag úr jarðefni sem bindi vel þungmálma heldur hafi blýi verið skotið út í fjöru og sjó í tæp 20 ár. Evrópusambandið hafi bannað allt blý við votlendi þar sem ein milljón fugla drepist ár hvert í Evrópu þegar þeir innbyrði blýhögl.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vekur athygli á að notkun á blýhöglum á skotvelli leyfishafa sé bönnuð í hinu kærða starfsleyfi, sbr. gr. 2.1 í starfsleyfisskilyrðum skotvallarins. Starfsemin valdi því ekki blýmengun þar sem notkun blýhagla sé þegar óheimil. Því sé ekki tilefni til að stöðva starfsemina af þeirri ástæðu sem kærendur vísi til.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna fyrirliggjandi kröfu um frestun réttaráhrifa en hann hefur ekki nýtt sér það tækifæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Þá segir í athugasemdum við 5. gr. með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta, en sem fyrr greinir mælir slíkt gegn því að fallist verði á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa. Málsrök kærenda varða hættu á blýmengun í fjöru og sjó í Djúpavík vegna notkunar blýhagla í starfsemi leyfishafa. Samkvæmt gr. 2.1 í starfsleyfisskilyrðum fyrir skotvöll í Álfsnesi er notkun blýhagla óheimil. Verður af þeim sökum ekki ætlað að hætta sé á blýmengun af völdum umdeildrar starfsemi og verður kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa starfsleyfisins því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 26. júlí 2022 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis fyrir rekstri skotvallar í Álfsnesi.

24/2022 Árbæjarstífla

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 20. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2022, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 15. febrúar 2022 varðandi lón við Árbæjarstíflu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. mars 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Heiðarbæjar 17, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 15. febrúar 2022 að hafna kröfu kæranda um að stöðva tafarlaust ólögmæta háttsemi Orkuveitu Reykjavíkur sem fólst í því að fjarlægja lón við Árbæjarstíflu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að Orkuveitu Reykjavíkur verði gert án tafar að mynda Árbæjarstíflulón að nýju á þeim stað sem það á að vera samkvæmt gildandi deiliskipulagi með því að loka aftur þeim stjórnlokum Árbæjarstíflu sem opnaðar voru, en að öðrum kosti verði það gert á kostnað Orkuveitu Reykjavíkur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. apríl 2022.

Málavextir: Í október árið 2020 opnaði Orkuveita Reykjavíkur lokur Árbæjarstíflu í Reykjavík með þeim afleiðingum að lón sem verið hefur á svæðinu frá því um árið 1920 hvarf. Kærandi sendi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar í kjölfarið bréf, dags. 13. janúar 2022, þar sem hann fór fram á að skipulagsfulltrúi stöðvaði ólögmæta háttsemi Orkuveitu Reykjavíkur tafarlaust og að fyrirtækinu yrði gert að mynda lónið að nýju á þeim stað sem það ætti að vera samkvæmt gildandi deiliskipulagi, en að öðrum kosti yrði það gert á kostnað Orkuveitunnar.

Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2022, var kröfunni hafnað á grundvelli 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var m.a. vísað til þess að hin umdeilda framkvæmd væri ekki framkvæmdaleyfisskyld í skilningi skipulagslaga og reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þá benti skipulagsfulltrúi á að í ákvæðum deiliskipulags fælist almennt heimild en ekki skylda til framkvæmda eða eftir atvikum til að halda úti nánar tilgreindri starfsemi. Kærandi kærði synjun skipulagsfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að umrætt lón hafi verið fyrir framan lóð hans. Kærandi hafi notið þess landslags, útsýnis og dýralífs sem lónið hafi boðið upp á. Auk þess eigi hann hagsmuna að gæta vegna þeirrar hættu sem fjarlæging lónsins skapi fyrir hús hans vegna mögulegra áhrifa sem breytingar á vatnsbúskap svæðisins kunni að hafa á fasteign hans og aðrar fasteignir á svæðinu.

Lónið hafi verið tæmt fyrirvaralaust, án samráðs við íbúa á svæðinu, í andstöðu við fyrirliggjandi deiliskipulag og án lögboðins framkvæmdaleyfis. Lónið hafi verið andlit Elliðaárdals í a.m.k. 100 ár eða frá því að Árbæjarstífla hafi verið byggð árið 1921. Bendi margt til þess að lón hafi verið þar í einhverri mynd áður en Árbæjarstífla hafi verið byggð og að það lón hafi síðan verið stækkað með stíflunni. Á svæðinu sé flatlendi og fyrir liggi að við gerð stíflunnar hafi verið sprengd stór skörð í kletta til að hleypa vatni að henni, en ummerki um þetta sjáist nú ofan stíflunnar eftir að hleypt hafi verið úr henni. Alkunna sé að stíflum sé valinn staður í útjaðri vatnasvæða þar sem vatn safnist saman á flatlendi og þau náttúrulegu vötn stækkuð með myndun lóns. Sé því líklegt að um sé að ræða spjöll á landslagi og náttúru sem verið hafi á svæðinu í hundruðir ára.

Tæming lónsins hafi veruleg áhrif á landslag stærsta útivistasvæðis Reykjavíkur og um leið veru­leg áhrif á nærumhverfi tugþúsunda íbúa í Reykjavík, en að Elliðaárdalnum liggi Árbæjarhverfi, Breiðholtshverfi, Ártúnsholt og Norðlingaholt. Íbúar þessara hverfa séu vel á fjórða tug þúsunda en auk þess sæki svæðið tugþúsundir annarra íbúa Reykjavíkur. Um sé að ræða ákvörðun um að tæma og fjarlægja þannig með varanlegum hætti lón sem hafi verið um 20.000 m2 að stærð. Ljóst sé að ákvörðunin hafi mikil áhrif á landslag svæðisins og umhverfi borgara sem þar búi, en lónið hafi haft mikið aðdráttarafl og skartað fjölbreyttu fuglalífi sem sett hafi mikinn svip á Elliðaárdalinn sem dragi til sín um 50 þúsund gesti ár hvert. Almenn afstaða til lónsins og mikilvægi þess sem hluti af landslagi Elliðaárdals komi m.a. fram í skipulagsgreinargerð sem fylgt hafi tillögu að endurskoðun deiliskipulags Elliðaárdals sem samþykkt hafi verið 15. desember 2020. Segi þar að Árbæjarlón sé eitt helsta sérkenni svæðisins. Fjarlæging lónsins án deiliskipulagsbreytingar sé í andstöðu við lög og gildandi deiliskipulag, bæði það sem tekið hafi gildi í desember 2020 og eldra deiliskipulag.

Fjarlæging lónsins hafi mætt harðri andstöðu íbúa á svæðinu og hafi verið töluvert fjallað um málið í fjölmiðlum. Skipaður hafi verið stýrihópur af Reykjavíkurborg sem hafi m.a. átt að fjalla um tæmingu þess og hafi verið bundnar vonir við að niðurstaða hans yrði á þann veg að hætt yrði við tæminguna. Svo hafi hins vegar ekki verið þrátt fyrir að bæði skipulagsfulltrúi Reykjavíkur og Skipulagsstofnun hafi staðfest að um brot á gildandi deiliskipulagi væri að ræða. Stýrihópurinn hafi fyrst og fremst byggt á minnisblaði borgarlögmanns þar sem fram hafi komið að tæming lónsins væri ekki í andstöðu við gildandi deiliskipulag og ekki þyrfti framkvæmdaleyfi fyrir henni. Þessi niðurstaða sé í andstöðu við skipulagslög nr. 123/2010, gildandi deiliskipulag og framangreind álit skipulagsfulltrúa og Skipulagsstofnunar. Niðurstaðan sé jafnframt í andstöðu við skýr ákvæði laga sem mæli fyrir um að ekki megi fara út í framkvæmdir sem þessar nema að fyrir liggi framkvæmdaleyfi eða eftir atvikum byggingarleyfi.

Í minnisblaði skipulagsfulltrúa, sem fundað hafi með stýrihópnum fyrir hönd skipulagsyfirvalda, hafi verið bent á að tæming lónsins væri í andstöðu við gildandi deiliskipulag. Þar segi að ekki sé hægt að túlka gildandi deiliskipulag Elliðaárdals öðruvísi en svo að gert sé ráð fyrir ákveðnu vatnsyfirborði stíflulónsins fyrir ofan Árbæjarstíflu líkt og verið hafi í áranna rás. Síðan segi í minnisblaðinu: „Lónið hefur afgerandi áhrif á ásýnd og upplifun af svæðinu og er hluti af því menningarlandslagi sem orðið hefur til í dalnum í góðum takti við náttúru og lífríki svæðisins. Það er því erfitt að sjá að tæming lónsins til frambúðar sé í samræmi við gildandi deiliskipulag Elliðaárdals né nýlega auglýsta endurskoðun á deiliskipulagi svæðisins.“

Það sé því ljóst að ekki sé einungis verið að fjalla um fjarlægingu lóns sem hafi verið stór hluti af landslagi Elliðaárdals heldur jafnframt þann hluta dalsins sem hafi verið miðpunktur og helsta sérkenni svæðisins í 100 ár. Sé það ekki að ástæðulausu enda hafi verið um mjög fallegt lón að ræða sem speglað hafi nærumhverfi sitt og himinn auk þess sem það hafi skartað fjölbreyttu fuglalífi sem fólk hafi sótt í. Auk þess hafi lónið prýtt forsíður kynningarbæklinga Reykjavíkurborgar og erlendar vefsíður sem fjalli um útivistarmöguleika í Reykjavík en í þessu sambandi megi benda á að fagurt fuglalíf á Reykjavíkurtjörn blasi við á forsíðu heimasíðu Reykjavíkurborgar. Náttúrufegurð og fuglalíf sem þetta geri öll svæði fegurri og auki ánægju þeirra sem svæðin sæki. Njóti slík svæði því mikilla vinsælda um allan heim og njóti ríkrar verndar fyrir hverskonar breytingum eða spjöllum. Að Orkuveita Reykjavíkur hafi tekið sér það vald að eyða þessu andliti og sérkenni Elliðaárdals og breyta þannig varanlega landslagi dalsins, umhverfi borgaranna og vinsælasta útivistarsvæði Reykjavíkur sé fullkomlega óásættanlegt.

Skýrt komi fram í 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga að markmið laganna sé m.a. að tryggja vernd landslags og náttúru og rétt borgara til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt og gefa almenningi kost á að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnvalda við gerð skipulagsáætlana. Þar komi einnig fram að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir og að koma eigi í veg fyrir umhverfisspjöll. Í 2. gr. laganna er hugtakið „landslag“ skilgreint svo: „Landslag merkir svæði sem hefur ásýnd og einkenni vegna náttúrulegra og/eða manngerðra þátta og samspils þar á milli. Landslag tekur þannig til daglegs umhverfis, umhverfis með verndargildi og umhverfis sem hefur verið raskað. Undir landslag fellur m.a. þéttbýli, dreifbýli, ósnortin víðerni, ár, vötn og hafsvæði.“ Í 13. gr. skipulagslaga komi fram að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess.

Lög mæli fyrir um að þéttbýli sé skipulagt m.a. með deiliskipulagi þannig að ákvarðað sé hvernig uppbygging og landslag viðkomandi svæða skuli vera. Mikilvægt sé að skipulagsyfirvöld og dómstólar standi vörð um framangreind ákvæði skipulagslaga og deiliskipulagsskilmála og að markmið þeirra séu virt og þess gætt að enginn, hvorki borgarar né stórfyrirtæki, geti tekið sér það vald að ganga gegn þeim með jafn grófum hætti og gert sé í því tilviki sem kært sé.

Hæstiréttur Íslands hafi ítrekað dæmt svo að þegar vikið hafi verið frá deiliskipulagsskilmálum þá beri fortakslaust að koma viðkomandi svæði eða mannvirkjum í það horf sem mælt sé fyrir um í deiliskipulagi. Megi sem dæmi nefna dóma Hæstaréttar í málum nr. 32/2008 og 138/2012. Framangreindir dómar hafi byggt á því að fortakslaust ætti að beita viðurlagaákvæðum skipulagslaga þegar brotið væri gegn deiliskipulagi með framkvæmdum. Einnig megi nefna nýleg dæmi um hörð viðbrögð skipulagsyfirvalda í Reykjavík vegna niðurrifs húsa við Skólavörðustíg og Tryggvagötu, en þar voru hús rifin í andstöðu við deiliskipulag og án leyfis.

Fyrir liggi deiliskipulagsuppdráttur frá 1994 og breyting á deiliskipulagi frá árinu 2000 þar sem gert sé ráð fyrir því að lónið sé til staðar í Elliðaárdal fyrir ofan Árbæjarstíflu auk þess að þar sé sérstaklega tekið fram í skipulagsgreinargerð að lónið sé eitt helsta sérkenni svæðisins. Sé hafið yfir allan vafa að einhliða tæming og varanleg fjarlæging Orkuveitu Reykjavíkur á lóninu sé skýrt brot gegn gildandi skipulagi og lögum um leið og það sé gróft brot gegn hagsmunum almennings.

Í mannvirkjalögum nr. 160/2010 séu skýr ákvæði um að ekki sé heimilt að ráðast í breytingar á mannvirkjum eða fjarlægja þau án þess að til staðar séu tilskilin leyfi. Það sé ótvírætt að lónið við Árbæjarstíflu hafi verið hluti af Elliðaárvirkjun og falli þannig undir skilgreiningu mannvirkja samkvæmt mannvirkjalögum, sbr. m.a. 13. tl. 3. gr. laganna. Hvorki megi byggja né fjarlægja mannvirki nema á grundvelli framkvæmda- eða byggingarleyfis sé mannvirkið á deiliskipulögðu svæði. Sú framkvæmd að tæma Árbæjarlón varanlega án leyfa frá Orkustofnun feli í sér brot gegn fjölmörgum ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923. Sé ætlunin að koma virkjun eða virkjanasvæði í upprunalegt horf þá verði það að gerast með leyfi Orkustofnunar og í samræmi við önnur lög, sbr. 3. mgr. 1. gr. vatnalaga. Þannig beri að gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi og afla leyfa frá skipulagsyfirvöldum samhliða leyfi frá Orkustofnun áður en ráðist er í framkvæmdir við að fjarlægja lón með varanlegum hætti og breyta þannig landslagi svæða. Eigi að koma svæði sem þessu í upprunalegt horf þá þurfi að liggja fyrir upplýsingar um það hvernig svæðið hafi litið út áður en Árbæjarstífla hafi verið reist og lónið orðið til. Til staðar séu augljós ummerki um að sprengd hafi verið umfangsmikil klettahöft til að opna fyrir vatnsrennsli í gegnum stífluna. Bendi það til þess að það hafi verið lón á svæðinu áður en stíflan hafi verið byggð. Eins þurfi að vera til staðar áætlanir og úrræði til að ráðast í viðgerðir á því landi sem raskað hafi verið með sprengingum og komi undan vatni við tæmingu lónsins. Lónið hafi unnið sér sess sem forn vatnsfarvegur skv. 3. mgr. 8. gr. vatnalaga og eigi það því að standa óhaggað þótt starfsemi virkjunarinnar sé hætt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Í 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé kveðið á um skyldu skipulagsfulltrúa til að stöðva framkvæmdir sem hafi ekki verið gefið framkvæmdaleyfi fyrir, framkvæmdaleyfi sé í bága við skipulag eða það fallið úr gildi. Skipulagsfulltrúi geti, ef við eigi, krafist þess að ólögleg framkvæmd sé fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt og sé þeirri kröfu ekki sinnt geti hann látið framkvæma slíkar aðgerðir á kostnað framkvæmdaraðila. Greinin vísi til framkvæmda í skilningi 13. gr. laga nr. 123/2010, þ.e. meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Í 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi komi fram að framkvæmdir sem tilgreindar séu í lögum um mat á umhverfisáhrifum séu ávallt háðar framkvæmdaleyfi. Sú framkvæmd að tæma uppistöðulón virkjunar falli ekki undir þær framkvæmdir sem tilgreindar séu í lögunum. Þá sé í 5. gr. reglugerðarinnar að finna upptalningu á þeim framkvæmdum sem teljist framkvæmdaleyfisskyldar. Í ákvæðinu sé sérstaklega kveðið á um að stíflur vegna virkjana séu undanþegnar framkvæmdaleyfi. Tæming og/eða fylling Árbæjarstíflulóns sé því ekki framkvæmdaleyfisskyld aðgerð í skilningi laga nr. 123/2010 og þegar af þeirri ástæðu eigi 53. gr. laganna og heimild skipulagsfulltrúa til stöðvunar framkvæmda á grundvelli hennar ekki við.

Deiliskipulag feli almennt í sér heimild en ekki skyldu til framkvæmda eða eftir atvikum að halda úti þar tilgreindri starfsemi nema sú skylda komi skýrt fram í gildandi skipulagsáætlun. Þessi skilningur hafi verið staðfestur í úrskurðum úrskurðarnefndum umhverfis- og auðlindamála, m.a. í málum nr. 101/2013 og nr. 127/2019. Þeir Hæstaréttardómar sem vísað sé til, þ.e. dómar nr. 32/2008 og nr. 138/2012 byggi báðir á lagagrein sem hafi verið að finna í eldri skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sem ekki séu lengur í gildi og eigi ekki við í máli þessu.

Í eldra deiliskipulagi og gildandi deiliskipulagi fyrir Elliðaárdal sé gert ráð fyrir lóni við Árbæjarstíflu, sett fram hvernig lega lónsins skuli vera samkvæmt uppdrætti sem og árstíðarbundnar breytingar á því. Ekki sé að finna skyldu í deiliskipulaginu til þess að starfrækja miðlunarlón né sé óheimilt samkvæmt skilmálum þess að tæma lónið varanlega.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafi á síðasta ári óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þess hvort gera þyrfti grein fyrir varanlegri tæmingu lónsins í deiliskipulagi og þá hvenær það skyldi gert. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 2. maí 2021, hafi komið fram að gera þyrfti grein fyrir varanlegum breytingum á lóninu sem hefði áhrif á umfang lónsins og umhverfi þess í deiliskipulagi. Aftur á móti hafi sagt í bréfinu að ef ekki væru fyrirhugaðar framkvæmdir á því svæði sem í gildandi deiliskipulagi sé skilgreint undir Árbæjarlón, þyrfti að leggja mat á það hvenær tilefni væri til að ráðast í breytingu á deiliskipulaginu.

Í deiliskipulagi fyrir Elliðaárdalinn sem tekið hafi gildi árið 1994 segi í greinargerð að dalurinn sé friðaður samkvæmt borgarvernd, en í því felist að borgarstjórn hafi heitið því að leitast við að halda svæðinu ósnortnu frá náttúrunnar hendi. Elliðaárdalurinn eða einstakir hlutar hans hafi ekki verið friðlýstir. Elliðaárvirkjun sjálf hafi aftur á móti verið friðuð af mennta- og menningarmálaráðherra árið 2012 og hafi auglýsing nr. 688/2012 verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. júlí 2012. Friðunin taki einungis til mannvirkjanna sjálfra en nái ekki til Árbæjarlóns. Engin breyting hafi verið gerð á Árbæjarstíflu við tæmingu lónsins heldur hafi gangverk stíflunnar einungis verið notað til að opna lokur hennar.

 Athugasemdir Orkuveitu Reykjavíkur: Af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur er þess krafist að kærunni verði vísað frá nefndinni. Kærandi sé ekki skráður eigandi fasteignarinnar Heiðarbæjar 17, heldur sé einkahlutafélagið E. Ágústsson ehf. skráður eigandi. Jafnvel þótt ný kæra kæmi fram í nafni eiganda telji Orkuveita Reykjavíkur hann ekki geta talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og fram hafi komið í úrskurðum nefndarinnar hafi skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild að stjórnsýslurétti verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir, sjá t.d. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 150/2021. Þau skilyrði séu ekki uppfyllt vegna Heiðarbæjar 17. Væri talið að einhverjir eigendur fasteigna í nágrenni Elliðaáa ættu hagsmuna að gæta vegna tæmingar lónsins verði að telja að hagsmunir eiganda Heiðarbæjar 17 geti hvorki talist verulegir né umfram aðra. Það að ekki sé lón í farvegi árinnar að vetrarlagi geti með engu móti talist til einstaklegra, lögvarinna hagsmuna kæranda, hvað þá að hagsmunir hans teljist verulegir.

Heimildir til vatnsmiðlunar séu samkvæmt lögum og starfsleyfi Elliðaárstöðvar bundnar við rekstur virkjunarinnar. Eftir að rekstur hennar hafi verið stöðvaður, eins og raunin sé með Elliðaárstöð, séu slíkar heimildir ekki lengur fyrir hendi og við taki skylda til niðurlagningar mannvirkis skv. 79. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Niðurlagningaráætlun sé í vinnslu og verði umsókn um heimild Orkustofnunar til niðurlagningar mannvirkja send stofnuninni. Í 79. gr. vatnalaga sé tekið fram að við niðurlagningu mannvirkis skv. VI. kafla laganna skuli umhverfið fært eins og kostur sé til fyrra horfs. Að öðru leyti sé tekið undir sjónarmið Reykjavíkurborgar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er kröfu um frávísun mótmælt. Allar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á grundvelli 52. gr. laganna. Einu stjórnvaldsákvarðanirnar sem séu undanþegnar þessari heimild séu stjórnvaldsákvarðanir sem Skipulagsstofnun eða ráðherra beri að staðfesta. Svo sé ekki í þessu tilviki og því falli hin kærða ákvörðun undir framangreinda kæruheimild. Kæruheimild þessa verði að túlka rúmt og verði hún ekki þrengd nema með skýrri lagaheimild og að ótvírætt sé að hún eigi við. Verði að túlka öll vafaatriði kæranda í hag. Reykjavíkurborg hafi jafnframt staðfest þetta í bréfi sínu dags. 15. febrúar 2022, en þar komi fram að hin kærða ákvörðun sé kæranleg á grundvelli 52. gr. skipulagslaga. Sé sú afstaða bindandi á grundvelli 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eftir að hún hafi verið tilkynnt kæranda og verði ekki afturkölluð eftir það tímamark, sbr. 1. mgr. 23. gr. sömu laga. Áskilnaður 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við í máli þessu enda sé um endanlega ákvörðun að ræða. Ákvörðunin sé án skilyrða eða fyrirvara og sé málinu þannig lokið á stjórnsýslustigi Reykjavíkurborgar og sé til lykta leidd á grundvelli skipulagslaga.

Umfjöllun Reykjavíkurborgar um að tæming lónsins hafi ekki falið í sér deiliskipulagsbreytingu eða útgáfu framkvæmdaleyfis hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Vandséð sé hver tilgangurinn með þeirri umfjöllun sé enda varði mál þetta ekki breytingu á deiliskipulagi eða útgáfu framkvæmdaleyfis. Ef skilja eigi málsástæðu þessa þannig að einungis sé talið að mál sem feli í sér breytingu á deiliskipulagi eða útgáfu framkvæmdaleyfis geti fallið undir kæruheimild 52. gr. skipulagslaga eða að málið sé ekki til lykta leitt fyrr en að deiliskipulagi hafi verið breytt eða framkvæmdaleyfi gefið út þá sé því mótmælt sem órökstuddri verulega þröngri skýringu á 52. gr. skipulagslaga. Þvert á móti þá snúi kæra að framkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur sem hafi falið í sér varanlega tæmingu lóns ofan við Árbæjarstíflu sem sé í andstöðu við gildandi skipulag og að hún sé jafnframt framkvæmdaleyfisskyld.

Enginn vafi leiki á því að ef byggja ætti lón á umræddu svæði í dag þá væri það háð byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Með sama hætti þá verði að fá leyfi til þess að fjarlægja mannvirkið. Tæming lónsins falli á engan hátt undir eðlilega starfsemi virkjunar og eigi þeir úrskurðir nefndarinnar sem Reykjavíkurborg vísi til ekki við í þessu máli. Rétt sé að gerðar hafi verið lagabreytingar en meginatriði tilvitnaðra Hæstaréttardóma um að stöðva beri óleyfisframkvæmdir sem séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag hafi enn fullt fordæmisgildi, enda kveði 1. mgr. 53. gr. núgildandi skipulagslaga skýrt á um að stöðva skuli framkvæmdir sem séu í andstöðu við skipulag eða ef ekki séu til staðar tilskilin leyfi. Í því tilviki sem hér eigi við sé bæði um að ræða framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd og augljóst brot gegn deiliskipulagi. Tilvitnaðir dómar Hæstaréttar vísi m.a. til þeirrar stöðu þegar um sé að ræða fortakslausa skyldu skipulagsyfirvalda til þess að stöðva óleyfisframkvæmdir. Mál það sem hér sé til skoðunar sé sérstakt að því leyti að hin ólögmæta framkvæmd og háttsemi sé fólgin í því að láta lokur Árbæjarstíflu standa opnar í þeim tilgangi að fjarlægja Árbæjarlón. Framkvæmdin sé því í gangi og sé stöðvanleg. Beri því að stöðva hana skv. 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga og sé um skyldu að ræða en ekki valkvæða heimild.

Hvað varði athugasemdir Orkuveitu Reykjavíkur sé því mótmælt að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu máls þessa. Tilgangur skipulagslaga sé m.a. að koma í veg fyrir að umhverfi borgara sé breytt eða því spillt án þess að þeir geti varist slíkum breytingum á umhverfi, sbr. 1. og 13. gr. skipulagslaga. Kærandi búi og eigi lögheimili að Heiðarbæ 17 og eigi þegar af þeirri ástæðu lögvarinna hagsmuna að gæta vegna nábýlis við það svæði þar sem Árbæjarlón hafi áður verið. Heiðarbær 17 standi örfáa metra frá því svæði. Kærandi eigi auk þess lögvarinna hagsmuna að gæta sem eini eigandi að öllum hlutum einkahlutafélagsins E. Ágústsson ehf., en hann sé auk þess stofnandi, eini stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins. Eigi kærandi þannig beinna fjárhagslegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins bæði beint og í gegnum félag sitt E. Ágústsson ehf. Auk þess eigi kærandi rétt á því að kæra stjórnvaldsákvörðun þessa á grundvelli sérstakrar kæruheimildar sem fram komi í 52. gr. skipulagslaga, enda sé hann aðili að því máli og stjórnvaldsákvörðuninni beint að honum. Hagsmunir kæranda séu verulegir bæði hvað varði rask á umhverfi hans og þeirrar hættu sem fasteignum á svæðinu stafi af þeirri þurrkun svæðisins sem eigi sér stað við verulega röskun á vatnsbúskap með fjarlægingu lónsins og lækkun á vatnsyfirborði Elliðaánna.

Því sé mótmælt að mynd sem Orkuveitan hafi lagt fram í málinu sýni náttúrulegan farveg Elliðaánna sem verið hafi til staðar í um hálfa öld. Hið rétta sé að myndin sýni það ástand sem sé á svæðinu eftir að Árbæjarlón hafi verið fjarlægt. Árbæjarlón hafi verið í þeirri stöðu sem fram komi í deiliskipulagi á sumrin og hafi náð yfir það svæði sem komi fram á myndinni sem uppþornuð gróðurlaus svæði í kringum ána. Þetta megi sjá af ótal myndum af lóninu sem teknar séu að sumarlagi auk þess sem það sé staðfest í minnisblaði skipulagsfulltrúa að staðan í deiliskipulaginu sé sumarstaða lónsins. Sú staða sem fram komi á myndinni í athugasemdum Orkuveitu Reykjavíkur sýni því aðeins ástandið eftir tæmingu lónsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 15. febrúar 2022 að hafna kröfu kæranda um að stöðva meinta ólögmæta háttsemi Orkuveitu Reykjavíkur sem fólst í því að fjarlægja lón við Árbæjarstíflu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einstaklingar einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærandi býr í húsi í íbúðargötu í næsta nágrenni við lónstæði Árbæjarstíflu. Verður hann af þeim sökum talinn hafa lögvarða hagsmuni af meðferð þessa máls sökum grenndarhagsmuna og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur að jafnaði ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að Orkuveitu Reykjavíkur verði gert án tafar að mynda Árbæjarstíflulón að nýju á þeim stað sem það eigi að vera samkvæmt gildandi deiliskipulagi með því að loka aftur þeim lokum Árbæjarstíflu sem opnaðar voru, en að öðrum kosti verði það gert á kostnað Orkuveitu Reykjavíkur.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal skipulagsfulltrúi stöðva framkvæmdir tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni, framkvæmdaleyfi brjóti í bága við skipulag eða það sé fallið úr gildi. Fyrir liggur að framkvæmdaleyfi var ekki gefið út vegna tæmingar Árbæjarstíflulóns.

Fjallað er um framkvæmdaleyfi í 13. gr. skipulagslaga. Í 1. mgr. 13. gr. kemur fram að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Verður að telja ljóst að sú aðgerð að tæma Árbæjarlón hafi verið framkvæmd sem áhrif hafi haft á umhverfið og breyti ásýnd þess. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi kemur fram að allar framkvæmdir sem teljist meiriháttar, hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Óheimilt sé að hefja slíkar framkvæmdir nema fyrir liggi samþykki leyfisveitanda um útgáfu framkvæmdaleyfis og að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út. Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að við mat á því hvort framkvæmd teljist meiriháttar skuli hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif.

Í 1. mgr. 5. gr. téðrar reglugerðar eru taldar í dæmaskyni framkvæmdir sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi. Þar eru m.a. nefndar stíflur eða breytingar á árfarvegi en tekið fram að það gildi þó ekki um stíflur vegna virkjana. Í svari skipulagsfulltrúa til kæranda er vakin athygli á þessu. Í máli þessu er ekki deilt um stíflumannvirkið sjálft heldur tæmingu þess lóns sem stíflan myndar. Virðist nærtækt að líta á þá framkvæmd sem breytingar á vatnsfarvegi sem geti eftir atvikum fallið undir ákvæði XVI. kafla, sbr. einnig ákvæði VI. kafla vatnalaga nr. 15/1923, en fram hefur m.a. komið við meðferð þessa máls að unnið sé að svonefndri niðurlagningaráætlun vegna Árbæjarstíflu með vísun til 79. gr. laganna.

Að áliti nefndarinnar fólst í tæmingu Árbæjarlóns meiri háttar framkvæmd sem hafði áhrif á umhverfið og breytti ásýnd þess. Samkvæmt framansögðu hefði borið að afla framkvæmdaleyfis vegna hennar. Af þeim ástæðum bar skipulagsfulltrúa að stöðva hana tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar í samræmi við 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 15. febrúar 2022 um að hafna kröfu kæranda um að stöðva framkvæmdir á grundvelli 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

110/2022 Ljósleiðarastrengur

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 20. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2022, beiðni sveitarstjórnar Rangárþings ytra um að úrskurðað verði um hvort lagning ljósleiðara frá Þjórsá að Hólsá sé háð framkvæmdaleyfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2022, er barst nefndinni sama dag, óskar sveitarstjórn Rangárþings ytra eftir því að úrskurðað verði um hvort lagning ljósleiðara frá Þjórsá að Hólsá sé háð framkvæmdaleyfi.

Málsatvik og rök: Fjarskiptafyrirtækið Ljósleiðarinn ehf. vinnur að lagningu ljósleiðarastrengs frá Þorlákshöfn að Landeyjasandi á Suðurlandi í því skyni að tengja saman sæstrengina DANICE og ÍRIS. Hluti af þeirri framkvæmd er lagning ljósleiðara um Þykkvabæ og Háfshverfi í Rangárþingi ytra, nánar tiltekið frá Þjórsá að Hólsá, og sótti fyrirtækið um framkvæmdaleyfi fyrir þeim hluta framkvæmdarinnar 8. júní 2022. Í umsókninni kom fram að plægt yrði niður þríburarör og að verið væri að semja við landeigendur á svæðinu. Þar sem samningar náðust ekki leitaði fyrirtækið til Fjarskiptastofu og krafðist viðurkenningar, samkvæmt heimild í þágildandi lögum nr. 81/2003 um fjarskipti, á rétti þess til aðgangs að því landi og þeim jörðum sem til þyrfti til að leggja ljósleiðarastreng í samræmi við fyrirhugaða lagnaleið. Í ákvörðun stofnunarinnar nr. 8/2022 sem tekin var 22. september 2022 var fallist á með fyrirtækinu að það ætti rétt til aðgangs að eignarlöndum í Þykkvabæ til lagningar ljósleiðarastrengs samkvæmt tilgreindri lagnaleið. Með tölvupósti lögmanns sveitarfélagsins 28. s.m. var fyrirtækið upplýst að til skoðunar væri hvort framkvæmdin væri háð framkvæmdaleyfi. Hinn 30. s.m. barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála beiðni sveitarfélagsins um að úrskurðað yrði um hvort hin umrædda lagning ljósleiðara væri háð framkvæmdaleyfi samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Af hálfu Rangárþings ytra er vísað til þess að í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010–2022 sé gert ráð fyrir lagnaleið ljósleiðara um það landsvæði sem hér um ræði. Hins vegar sé fyrirhuguð lagnaleið ekki að öllu leyti í samræmi við aðalskipulagið en deiliskipulag sé ekki fyrir hendi.

Í athugasemdum Ljósleiðarans ehf. er áréttað að réttur fyrirtækisins til lagningar ljósleiðarastrengs sé skýr. Nauðsynlegt sé að hafa í huga að framkvæmd sem feli í sér lagningu fjarskiptastrengs í jörðu lúti sérstökum sjónarmiðum þegar komi að útgáfu framkvæmdaleyfis. Um lagningu ljósleiðara gildi lög nr. 125/2019 um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta en eitt af meginmarkmiðum laganna sé að einfalda ferli leyfisveitinga í tengslum við uppbyggingu háhraðaneta og samnýtingu innviða tengdum þeim. Með lögunum sé innleitt efni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2014/61/ESB, en í inngangsákvæðum tilskipunarinnar sé m.a. vísað til þess að ætlunin sé að undanskilja tiltekna flokka umfangslítilla eða staðlaðra mannavirkja frá leyfisveitingum. Lög nr. 125/2019 og greind tilskipun feli í sér sérreglur sem gangi framar almennum reglum skipulagslaga og ákvæðum reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Fyrirhuguð framkvæmd sé umfangslítil aðgerð og því beri þegar af þeirri ástæðu að undanskilja hana frá veitingu framkvæmdaleyfis.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skuli afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Með vísan til almennra athugasemda með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 138/2014, sem falið hafi í sér breytingu á þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sé hafið yfir allan vafa að strengir sem plægðir séu í jörðu falli ekki undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá teljist framkvæmdin hlutlægt séð ekki til meiri háttar framkvæmda í skilningi 13. gr. skipulagslaga með hliðsjón af stuttum framkvæmdatíma og verklagi sem feli í sér lágmarksinngrip í landið, umhverfið og ásýnd þess. Að loknum framkvæmdatíma sjáist engin ummerki um ljósleiðaralögnina sjálfa og tengibrunna ofan jarðar fyrir utan litlar stikur sem gefi til kynna staðsetningu strengsins. Hvorki sé nauðsynlegt að þvera vegi, gangstéttir eða önnur mannvirki né ár eða vötn auk þess sem engar þekktar minjar séu á fyrirhugaðri lagnaleið. Bent sé á að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 17/2010 hafi lagning vatnslagna og jarðstrengs ekki verið talin framkvæmdaleyfisskyld. Úrskurðurinn hafi fordæmisgildi en sú framkvæmd sem hér um ræði hafi minni áhrif á umhverfið en sú framkvæmd sem lýst sé í þeim úrskurði.

Fjarskiptastofa og Farice ehf., sem er eigandi og umráðandi sæstrengjanna DANICE og ÍRIS, komu á framfæri athugasemdum við úrskurðarnefndina vegna fyrirliggjandi beiðni Rangárþings ytra. Fjarskiptastofa vísar til þess að stjórnsýsluframkvæmd sveitarfélaga hafi verið mismunandi varðandi útgáfu framkvæmdaleyfa fyrir lagningu ljósleiðarastrengja. Gagnlegt geti verið að fá leiðbeiningar frá úrskurðarnefndinni um hvort slíkar framkvæmdir séu almennt háðar leyfisveitingu og þá hvernig málsmeðferð slíkra leyfa skuli háttað. Einnig eru raktar þær breytingar sem orðið hafi á evrópsku fjarskiptaregluverki en tilgangur þeirra sé m.a. að stuðla að einföldu og skilvirku leyfisveitingaferli. Horfa þurfi til þeirra sjónarmiða við mat á því hvort framkvæmdin sé framkvæmdaleyfisskyld. Í athugasemdum Farice ehf. er bent á að fyrirhuguð framkvæmd muni styrkja kerfi félagsins á Suðvesturlandi. Ljósleiðarinn þurfi að vera tengdur í síðasta lagi 15. nóvember 2022 svo að kerfið geti farið í gang á fyrstu vikum ársins 2023.

Niðurstaða: Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, er umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarfélagi heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi. Sker úrskurðarnefndin því úr um framkvæmdaleyfisskyldu vegna þeirrar framkvæmdar sem um ræðir hverju sinni en veitir ekki almennar leiðbeiningar um leyfisskyldu vegna tiltekinna tegunda framkvæmda, enda ræðst hún af atvikum og staðháttum hverju sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 772/2012, skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þó þarf ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. Í 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að þau lög gildi um alla þætti mannvirkja, m.a. lagnir og fjarskiptabúnað. Í 9. gr. laganna er síðan fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta og breytingar á slíkum mannvirkjum undanþegin byggingarleyfi.

Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að við mat á því hvort framkvæmd teljist meiri háttar, þ.e. aðrar framkvæmdir en þær sem falli undir lög um mat á umhverfis­áhrifum, skuli hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif. Í fyrirliggjandi gögnum er umræddri framkvæmd lýst svo að plægt verði niður þríburaröri á lagnaleið. Þar sem jarðvegur sé aðallega mold, sandur eða möl sé hægt að plægja fjarskipta­strenginn beint í jörðu án þess að notast við hefðbundinn skurðgröft. Notast verði við jarðýtu og fín rák rist í jarðveginn sem lokist að mestu af sjálfu sér. Á eftir jarðýtunni fari lítil skurðgrafa sem loki plógsárinu. Brunnar verði grafnir niður en ofanjarðar verði sýnilegar litlar stikur. Í ljósi framangreindra staðhátta og aðferðar við lagningu strengsins verður talið að framkvæmdin muni vart hafa nokkrar breytingar á umhverfi í för með sér eða varanleg áhrif á ásýnd þess.

Ekki liggur fyrir hversu löng lagnaleiðin verður en ljóst virðist að hún verður lengri en 10 km. Í flokki B í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana eru tilgreindar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki hvort skuli háðar umhverfismati. Í lið 10.16 er tilgreind „lagning strengja í jörð, vatn eða sjó sem eru a.m.k. 10 km og utan þéttbýlis.“ Í lok 5. kafla almennra athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögunum er nánari skýring gefin. Þar segir að átt sé við niðurgrafna strengi, en ekki plægða strengi. Má hér einnig vísa til athugasemda með frumvarpi því er varð að lögum nr. 138/2014 um breytingu á lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Á þessi liður því ekki við um þá framkvæmd sem hér er til umfjöllunar.

Að öllu framangreindu virtu telst umrædd framkvæmd ekki framkvæmdaleyfisskyld.

 Úrskurðarorð:

Fyrirhuguð lagning ljósleiðara frá Þjórsá að Hólsá í Rangárþingi ytra er ekki háð framkvæmdaleyfi.

33/2022 Ölver

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 20. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor­.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2022, kæra á afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar frá 18. mars 2022, á erindi um að sveitarfélagið beiti sér fyrir lausn á aðkomu að sumarbústað kæranda á lóðinni Ölveri 12, Hvalfjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 20. apríl 2022, kærir A, afgreiðslu Hvalfjarðarsveitar frá 18. mars 2022 á erindi um að sveitarfélagið beiti sér fyrir lausn á aðkomu að sumarbústað hennar á lóðinni Ölveri 12, Hvalfjarðarsveit. Er þess krafist að sveitarfélagið tryggi að kærandi geti notað veg sem liggur um land Narfastaða og að vegurinn verði settur í deiliskipulag.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 20. maí 2022.

Málavextir: Árið 2021 auglýsti kærandi sumarbústað sinn á lóðinni Ölveri 12, til sölu. Í kjölfarið hafði eigandi lóðarinnar Háholts 22 samband við kæranda og benti á að vegurinn að Ölveri 12 lægi í gegnum land hans sem hann hefði ákvörðunarvald um hver æki um.

Kærandi hafði samband við sveitarfélagið og benti á að aðkoma að Ölveri 12 hefði frá árinu 1976, þegar bústaðurinn var byggður, legið í gegnum land Narfastaða. Árið 1997 hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Ölvers þar sem gert væri ráð fyrir að­komunni. Tíu árum síðar hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir aðliggjandi land Narfastaða og þar væri nú gert ráð fyrir sumarhúsi á lóðinni Háholti 22, á þeim stað sem vegurinn að lóðinni Ölveri 12 liggi. Kærandi óskaði eftir að sveitarfélagið skoðaði málið og beitti sér fyrir ásættanlegri lausn.

Sveitarfélagið svaraði kæranda með bréfi, dags. 18. mars 2022, þar sem upplýst var að sveitarfélagið teldi sér ekki bera skyldu til að aðhafast í málinu á grundvelli gildandi skipulagsáætlana. Sá hluti deiliskipulagsuppdráttar frá 1997 sem gerður hafi verið fyrir Ölver og Móhól og sýni aðkomu að Ölveri 12 um veg í landi Narfastaða væri ekki skuldbindandi fyrir landeigendur Narfastaða, enda sé vegurinn utan skipulagssvæðis umrædds deiliskipulags. Sá hluti landsins sem vegurinn lægi um væri innan deiliskipulags frístundabyggðar að Narfastöðum. Hvorki eigandi jarðarinnar Ölvers né sá sem reisti sumar­bústaðinn Ölver 12 hafi mátt ganga út frá því að aðkoma að húsinu gæti um ókomna tíð verið um umræddan veg án þess að landeigandi Narfastaða, eða nú eigandi lóðarinnar Háholts 22, veitti því sérstakt samþykki eða með sérstökum samningi þar um. Þannig ætti sveitarfélagið ekki aðkomu að úrlausn málsins og yrðu lóðarhafar og eftir atvikum fyrri eigendur lóðanna að leysa úr málinu sín á milli.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að vegur að sumarbústaðinn Ölver 12 hafi verið á deiliskipulagi allt til ársins 2007, en að þá hafi hann verið tekinn út af skipulaginu. Vegurinn hafi verið í notkun frá árinu 1976 og sé eina mögulega aðkoman að bústaðnum. Fer kærandi fram á að mega nota veginn að Ölveri 12 óhindrað af landeiganda og að umræddur vegur komi aftur inn í deiliskipulag Hvalfjarðarsveitar.

 Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að kröfu kæranda um óhindraða notkun vegarins að Ölveri 12 sé ekki beint að réttum aðila þar sem krafan varði afnot af landi sem sé í eigu einkaaðila. Þá sé vegurinn á öðru skipulagssvæði en þess sem lóðin Ölver 12 sé á. Frístundabyggðin Ölver sé staðsett innan marka deiliskipulags frístundabyggðar í landi Hafnar, Ölvers og Móhóls. Deiliskipulagið hafi öðlast gildi árið 1997 en það hafi verið unnið að undirlagi og á kostnað landeigenda. Samkvæmt skipulaginu sé gert ráð fyrir því að aðkoma að lóð kæranda liggi um land jarðarinnar Narfastaða en ekki liggi fyrir samþykki landeigenda Narfastaða um þessa aðkomu.

Árið 2007 hafi deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Narfastaða verið staðfest, en skipulagið hafi verið unnið að undirlagi og á kostnað landeigenda. Samkvæmt deiliskipulaginu sé lóðin Háholt 22 staðsett þar sem heimreið að lóðinni Ölveri 12 liggi og umræddur vegur þveri byggingarreit Háholts 22. Vegspottinn hafi verið í landi Narfastaða frá árinu 1976 og því eðlilegt að gera grein fyrir honum þegar deiliskipulag frístundabyggðar í landi Hafnar, Ölvers og Móhóls var útbúið. Deiliskipulag fyrir svæðið sem vegurinn liggi um hafi hins vegar ekki öðlast gildi fyrr en árið 2007 með deiliskipulagi fyrir frístundabyggð að Narfastöðum. Ekki væri rétt að vegurinn hafi verið á deiliskipulagi Hvalfjarðarsveitar fram til ársins 2007 þar sem engin deiliskipulagsáætlun sem nái til þess landssvæðis sem vegurinn sé á hafi nokkurn tímann gert ráð fyrir umræddum vegi.

Umræddur vegur sé ekki sveitarfélagsvegur heldur sé um einkaveg að ræða sem sveitarfélagið hafi engin yfirráð yfir, sbr. vegalög nr. 80/2007. Málið verði einungis leyst með einka­réttarlegum hætti en ekki á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 eða skipulagsákvarðana sveitarfélagsins. Þá eigi málið ekki undir úrskurðarnefndina þar sem um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða. Ekki hafi verið sett fram krafa til sveitarfélagsins um að umræddur vegur yrði settur inn á deiliskipulag og því hafi slíkt erindi ekki verið tekin til umfjöllunar. Því lægi ekki endanleg ákvörðun fyrir hjá sveitarfélaginu sem væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að eigendur Ölvers 12 hafi notað veginn sem liggi um jörðina Narfastaði í um 46 ár og hann sé eina aðkoman að sumarhúsinu og hafi verið notaður sem slíkur án athugasemda svo áratugum skipti. Deiliskipulag svæðisins hafi ekki verið kynnt fyrir eigendum Ölvers 12 jafnvel þótt það gæti haft fyrirsjáanleg áhrif á aðkomu að sumarhúsinu og réttindi eigenda. Það hafi ekki verið fyrr en sumarhúsið hafi verið sett á sölu sem eigendum Ölvers 12 hafi orðið kunnugt um deiliskipulag frístundabyggðar að Narfa­stöðum frá árinu 2007. Sveitarfélaginu beri að gæta þess að deiliskipulagsgerð samræmist lögum, reglum og fyrirliggjandi skipulagsáætlunum og geti það ekki fríað sig ábyrgð. Ekki hafi verið gætt að lögum og reglum þegar deiliskipulag í landi Narfastaða var samþykkt og því sé það ógildanlegt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreining­smálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulags­lögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um kröfu kæranda um að honum verði tryggð aðkoma að sumarbústað sínum eftir vegi sem liggur um land Narfastaða, nánar tiltekið yfir lóðina Háholt 22. Erindi kæranda til sveitarfélagsins sem og málsmeðferð og afgreiðsla þess ber ekki með sér að um sé að ræða ákvörðun sem tekin hafi verið á grundvelli skipulagslaga af þar til bærum stjórnvöldum, svo sem varðandi skipulagsbreytingu. Liggur því ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Hvað varðar kröfu kæranda um að honum verði tryggður réttur til umferðar um um nefndan veg í landi Narfastaða skal bent á að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans á grundvelli hefðarréttar heyrir ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar heldur eftir atvikum dómstóla. Rétt þykir jafnframt að benda á að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna.

Bent er á að kærandi getur óskað eftir því við Hvalfjarðarsveit að gerð verði tillaga að breytingu á deiliskipulagi til að tryggja aðkomu að lóðinni Ölveri 12. Afgreiðsla slíks erindis væri eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.