Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

147/2022 Heiðarbrún

Árið 2023, þriðjudaginn 14. mars 2023, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 147/2022, kæra á stjórnsýslulegri meðferð Grímsness- og Grafningshrepps við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna lóðanna Heiðarbrúnar 2–10 og Tjarnholtsmýri 1–15 á jörðinni Bjarnastöðum 1.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 21, desember 2022, er barst nefndinni 23. s.m., kæra eigandi lóðanna Tjarnholtsmýri 5 og Heiðarbrúnar 6 og 8 og eigandi lóðarinnar Heiðarbrúnar 4, stjórnsýslulega meðferð Grímsness- og Grafningshrepps við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna lóðanna Heiðarbrúnar 2–10 og Tjarnholtsmýri 1–15 á jörðinni Bjarnastöðum 1. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 27. janúar 2023.

Málsatvik og rök: Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008–2020 var jörðin Bjarnastaðir 1 á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð. Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveit bs. 12. ágúst 2020 var tekin fyrir umsókn um breytingu á aðalskipulagi, en breytingin fól það í sér að lóðirnar Heiðarbrún 2–10 yrðu skilgreindar sem landbúnaðarsvæði. Mæltist skipulagsnefndin til þess að umsóknin yrði samþykkt og að málsmeðferð yrði í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti sveitarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum 21. ágúst 2020. Í október sama ár tók sveitarstjórn fyrir tillögu um breytt aðalskipulag og deiliskipulag vegna lóðarinnar Heiðarbrúnar 10, en í breytingunni fólst að landnotkun myndi breytast úr frístundasvæði í landbúnaðarsvæði. Gerðu kærendur í kjölfarið athugasemdir við að breytingin tæki einungis til einnar lóðar en ekki alls svæðisins eins og upphaflega hefði verið gert ráð fyrir. Á fundi sveitarstjórnar 3. febrúar 2021 var tillagan tekin fyrir að nýju og samþykkt að vísa henni til heildarendurskoðunar aðalskipulags sem stóð þá yfir. Hinn 13. desember 2022 staðfesti Skipulagsstofnun Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 og tók það gildi 29. s.m. við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Í nýju aðalskipulagi er umrætt svæði merkt sem L3, landbúnaðarsvæði.

Kærendur telja að málsmeðferð sveitarfélagsins uppfylli ekki form- og efnisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnsýsluréttarins. Málsmeðferðin hafi verið ómálefnaleg vegna náinni vintengsla fyrrverandi sveitarstjóra og lóðareiganda Heiðarbrúnar 10. Reynt hafi verið að breyta aðalskipulagi fyrir þann eiganda einan en aðrir lóðareigendur, þ. á m. kærendur, hafi fengið neitun á umsókn þeirra án rökstuðnings. Kærendur hafi keypt lóðir sínar í trausti þess að aðalskipulag og deiliskipulag myndi halda og að hámark væri á byggingarmagni á lóðum. Með fyrirliggjandi breytingum sé búið að færa einum lóðareiganda aukið byggingarmagn og samþykkja breytta landnotkun, en það geti kærendur ekki sætt sig við. Áðurgildandi skipulag hafi heimilað léttan landbúnað en ekki stórbúskap. Samþykkt hafi verið tiltekin flokkun, L3, sem heimili rúmar byggingarheimildir, landbúnað og minni háttar atvinnustarfsemi, sem jafnvel sé ótengd landbúnaði. Kærendur hefðu aldrei keypt lóðir sínar ef fyrir hefði legið að hægt hefði verið að breyta landnotkun svæðisins á þann hátt sem gert hafi verið. Engin rök séu fyrir umræddum breytingum nema þau að verið sé að hygla einum lóðareiganda. Breytingarnar hefðu aldrei átt að ná fram að ganga nema með samþykki allra lóðareigenda Heiðarbrúnar 2–10. Sé þess krafist að hinar ólögmætu samþykktir á aðalskipulagi verði felldar úr gildi, en í því felist að skilgreining á flokkuninni L3 fyrir landbúnaðarsvæði falli niður.

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er gerð krafa um frávísun málsins en til vara að kröfum kærenda verði hafnað, enda hafi málsmeðferð sveitarfélagsins að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Heildarendurskoðun aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps, sem sé lokið og hafi tekið gildi í samræmi við fyrirmæli skipulagslaga, sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. laganna. Engar aðrar ákvarðanir er varði skipulagsmál á svæðinu hafi tekið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

 Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Eins og fram kemur í málavöxtum var Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 staðfest af Skipulagsstofnun 13. desember 2022 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hið kærða aðalskipulag til endurskoðunar samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga. Þá hefur hvorki nýtt deiliskipulag verið samþykkt fyrir svæðið né breyting verið gerð á gildandi deiliskipulagi Bjarnastaða við Heiðarbrún frá árinu 2005, en fallið var frá deiliskipulagstillögu vegna lóðarinnar Heiðarbrúnar 10. Með hliðsjón af því og gögnum málsins að öðru leyti verður ekki séð að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.