Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2023 Gufunesvegur

Árið 2023, þriðjudaginn 14. mars 2023, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 1/2023, kæra vegna „vanefnda Reykjavíkurborgar“ varðandi aðkomu og aðgengi að húsum á lóð Gufunesvegar 34.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. janúar 2023, kærir Loftkastalinn ehf., lóðarhafi Gufunesvegar 34, „[vanefndir] Reykjavíkurborgar“ varðandi aðkomu og aðgengi að húsum á lóð Gufunesvegar 34. Gerir kærandi þá kröfu að úrskurðarnefndin leggi fyrir borgaryfirvöld að framkvæma nánar tilgreindar aðgerðir í tengslum við aðkomu og aðgengis að húsum á lóð Gufunesvegar 34.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. janúar 2023.

Málavextir: Í janúar 2018 keypti kærandi af Reykjavíkurborg þrjár húseignir, ásamt lóðarréttindum og byggingarrétti, í Gufunesi. Við kaupin var um eina lóð að ræða en með deiliskipulagi, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 1. mars 2019, var lóðinni skipt í tvennt. Hinn 29. september s.á. var gefið út framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1. Skaut kærandi þeirri samþykkt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hann taldi m.a. að hæð götu við lóð hans gengi gegn skipulagi svæðisins. Var kröfu hans um ógildingu leyfisins hafnað af nefndinni með úrskurði uppkveðnum 1. desember 2020 í máli nr. 79/2020. Fór kærandi í tvígang fram á endurupptöku málsins en þeim beiðnum var báðum synjað. Vegna síðari endurupptökubeiðni kæranda skilaði Reykjavíkurborg umsögn, dags. 2. mars 2022, þar sem m.a. kom fram að verið væri að skoða frekari lausnir í samráði við kæranda.

Kærandi og Reykjavíkurborgar funduðu saman hinn 1. september 2022 um breytta hæðarlegu gatna í kringum Gufunesveg 34 og við Þengilsbás. Í kjölfarið voru drög að hæðarblaði útbúin og þau send til kæranda. Hinn 30. s.m. gerði kærandi athugasemdir við drögin og fór fram á að annað hvort yrði athugasemdunum svarað með útskýringum og rökstuðningi eða að boðnar yrðu ásættanlegri úrlausnir við hverri og einni athugasemd. Starfsmaður skrifstofu framkvæmda og viðhalds Reykjavíkurborgar svaraði athugasemdunum 18. nóvember s.á. Í tölvupósti til borgarritara 8. desember 2022 lýsti kæranda yfir vonbrigðum með svörum Reykjavíkurborgar við athugasemdum hans. Kom og fram að kærandi væri fús til að gera lokatilraun til að leita sátta í málinu og færi í því ljósi fram á einhver jákvæð viðbrögð frá borgaryfirvöldum fyrir 15. desember s.á., en að öðrum kosti myndi hann leita annarra leiða við að ná fram rétti sínum.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi í fjögur ár reynt að fá til baka þá eign sem keypt hafi verið árið 2018. Það sé hreinn ásetningu hjá Reykjavíkurborg að „leiðrétta ekki aðkomur og lóð um hús þar sem þau standa að hluta utan lóðar.“ Gerð sé krafa um að borgaryfirvöld skrásetji og merki inn í skipulag í samræmi við fullyrðingar í svarbréfi borgarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. mars 2022, en þar hafi verið fullyrt að ekkert skert aðgengi væri að neinu húsnæði á svæðinu. Merktar verði innkeyrslur að malbikuðum bílastæðum sem hafi verið við húsin frá 1984 og snúi út að Gufunesvegi. Þinglýstur verði umferðarréttur um göngugötu að innkeyrsluhurð og leyfi til að afferma og fylla á í göngugötu. Umferðarréttur og aðkoma haldist óskert að húsum þar sem innkeyrsluhurð, gönguhurð og gluggar séu á lóðamörkum Gufunesvegar 34 og Þengilsbási 1. Ekki hafi verið gefinn upp hæðarkóti á Þengilsbás 1 í fjögur ár frá skipulagi þrátt fyrir að gefa skuli upp hæð 1. hæðar samkvæmt skipulagsreglugerð.

Þá sé þess krafist að staðið verði við ummæli í svarbréfi Reykjavíkurborgar um hönnun gangstétta í tengslum við fráveitukerfi. Borgaryfirvöld bendi oft á að um þróunarsvæði sé að ræða en það gefi ekki afslátt á því að fara að lögum og reglugerðum. Borginni beri að fara að reglum um bil milli bygginga, en kærandi muni ekki breyta veggjum á núverandi húsum í eldvarnarveggi og göngugata sé of þröng samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá sé þess krafist að Reykjavíkurborg stækki lóð svo að hús standi innan lóðar, að vatnsinntök fyrir Gufunesveg 36 eða Þengilsbás 3, sem lögð séu inn á lóð Þengilsbás 1, verði fjarlægð og að merkt verði aðkoma að bílakjallara á sama stað.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði. Ekki sé neinni kæranlegri ákvörðun til að dreifa í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en svo virðist sem kærandi sé að fara fram á að úrskurðað verði um skyldu Reykjavíkurborgar til tiltekinna athafna eða aðgerða. Um slíka skyldu sé úrskurðarnefndin ekki bær til að kveða á um.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur sig hafa kæruheimild í máli þessu þar sem Reykjavíkurborg hafi látið líta svo út í fjögur ár að verið sé að lagfæra gögn svo þau standist eignarrétt og lóðarétt kæranda, en gögn málsins sýni fram á allt annan veruleika. Borgaryfirvöld hafi þóst vera að vinna að lausn málsins en kæranda hafi verið það ljóst 16. desember 2022 að sú stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að tryggja ekki að aðkomur og innkeyrslur myndu verða í samræmi við eignarrétt og lóðarrétt kæranda. Vísað sé til c-liðar 1. gr., 53. og 55. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.2.1, 5.3.2.2. og 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

Eins og greinir í málavöxtum er tilefni kæru þessa máls ágreiningur milli kæranda og Reykjavíkurborgar um hæðarlegu gatna í kringum Gufunesveg 34. Til að koma til móts við kröfur kæranda um breytta hæðarlegu lögðu borgaryfirvöld fram drög að hæðarblaði, en kærandi féllst á ekki þau drög. Lýsti hann yfir vilja til að ná sáttum í málinu og fór af því tilefni fram á að „einhver jákvæð viðbrögð“ kæmu frá borginni fyrir 15. desember s.á., en það er sá dagur sem kærandi tilgreinir sem dagsetningu hinnar kærðu ákvörðunar. Er og ljóst að umræddur ágreiningur er einkaréttarlegs eðlis sem framangreind kæruheimild tekur ekki til. Verður ekki séð af framangreindri atburðarás eða gögnum málsins að öðru leyti að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.