Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2022 og 87/2022 Stóra Drageyri, Bakkakot

Árið 2023, þriðjudaginn 7. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 6. júlí 2022 að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðinni Stóru Drageyri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Skógræktin þá ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 6. júlí 2022 að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðinni Stóru Drageyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Skógræktin þá ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 6. júlí 2022 að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðinni Bakkakoti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 87/2022, sameinað máli þessu þar sem um sama málsgrundvöll er að ræða og sami kærandi stendur að þeim, enda þykja hagsmunir hans ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 9. september 2022.

Málavextir: Jarðirnar Stóra Drageyri og Bakkakot eru í eigu ríkissjóðs Íslands, en Skógræktin fer með umráð og nýtingu þeirra. Bakkakot hefur verið í umsjón Skógræktarinnar frá árinu 1964 og Stóra Drageyri frá árinu 1971. Sumarið 2022 hóf Skógræktin undirbúningsframkvæmdir á jörðunum fyrir gróðursetningu, en þær voru stöðvaðar 4. júní 2022 af lögreglu. Með bréfi dags. 27. s.m. var Skógræktinni tilkynnt um að hreppsnefnd Skorradalshrepps hefði á fundi sínum 11. s.m. staðfest stöðvun framkvæmda, þar sem ekki hefði verið aflað framkvæmdaleyfis, en um væri að ræða leyfisskyldar framkvæmdir.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 21. júní 2022 var fjallað um sjónarmið Skógræktarinnar sem þá lágu fyrir. Skógræktin sótti um framkvæmdaleyfi vegna gróðursetningar á jörðunum tveimur með bréfum til sveitarfélagsins, dags. 27. og 28. s.m. Í umsókn um framkvæmdaleyfi vegna Stóru Drageyrar kom fram að rækta ætti fjölnytjaskóg með blönduðum trjátegundum á 188,7 ha lands. Helstu markmið skógræktarinnar væru kolefnisbinding, jarðvegsvernd og nytjar auk þess sem skógurinn myndi nýtast til útivistar. Í umsókn vegna Bakkakots kom fram að til stæði að gróðursetja 50.000 birkiplöntur í gróðureyjar á 36 ha svæði. Tilgangurinn væri að stuðla að og efla endurheimt birkiskógavistkerfis, en birkitrén myndu sá sér út með tímanum.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 5. júlí s.á. var báðum þessum umsóknum hafnað með vísan til þess að þær samræmdust ekki Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010–2022. Hreppsnefndin staðfesti þá afgreiðslu á fundi 6. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að skógræktarsvæði þau sem umsóknir kæranda nái til sé flokkað til landbúnaðarnota í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010–2022 og að skógrækt teljist til slíkra nota samkvæmt þeirri víðtæku skilgreiningu landbúnaðar sem skipulagið byggi á. Af umfjöllun á bls. 82 í greinargerð aðalskipulags hreppsins megi telja ljóst að græn lína sem sýnd sé á aðalskipulagsuppdrætti innan landamerkja Stóru Drageyrar og Bakkakots sýni mörk skógræktarsvæða sem fyrir hendi hafi verið á jörðunum við gerð aðalskipulagsins árið 2010. Hvorki komi fram í greinargerðinni né á uppdrættinum að skógrækt á landbúnaðarlandi utan þeirra marka sé óheimil eða að frekari skógrækt á jörðum þar sem skógrækt hafi verið fyrir sé óheimil.

Væri túlkun Skorradalshrepps á aðalskipulaginu talin rétt að þessu leyti fæli það í sér að Skógræktinni hefði verið heimildarlaust að stunda gróðursetningu skóga á skógræktarjörðum í umráðum stofnunarinnar í sveitarfélaginu nema á þeim svæðum sem þegar hafi haft skóg að geyma í upphafi gildistíma skipulagsins árið 2010. Slíkt færi gegn þeim markmiðum um skógrækt sem lýst sé í greinargerð með aðalskipulaginu og eigi sér enga stoð í skipulags-gögnum. Hafi það verið ætlun Skorradalshrepps að takmarka þannig hina lögbundnu starfsemi Skógræktarinnar í sveitarfélaginu hefði slíkt þurft að koma skýrlega fram.

Náttúrufyrirbærið votlendi hafi hvorki verið skilgreint í skipulags- og byggingarlögum né skipulagsreglugerð. Í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd sé ekki heldur að finna skilgreiningu votlendis. Vísað sé til votlendis í a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna sem fjalli um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Í umfjöllun aðalskipulags um votlendi á bls. 15 komi fram að í gróðurfarsúttekt Náttúrufræðistofnunar árið 1999 segi að votlendissvæðið við ósa Fitjaár, um einn km2, sé eina óraskaða votlendið í Skorradalshreppi og teldist vera einstök mýrargerð og því verðmæt ekki einungis fyrir Skorradal heldur allt Borgarfjarðarhérað.

Samkvæmt áðurgildandi 6. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem vísað sé til í greinargerð með aðalskipulagi, sé hverfisvernd skilgreind sem ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja. Fjallað sé um hverfisvernd á bls. 99–102 í aðalskipulaginu. Undir yfirskriftinni „Innsti hluti Skorradals og heiðarlönd sunnar Fitjaár og votlendi 3 ha að flatarmáli eða stærri, ofan 300 m y s“ komi fram: „Um er að ræða hluta svæðis nr. 238 á Náttúruminjaskrá 1996, sem er utan áforma um friðland Vatnshorns. Að auki er allt land Efstabæjar, Fitja og Bakkakots sunnan Fitja hverfisverndað, auk alls Fitjakirkjulands. Svæðið er að stórum hluta heiðarland með votlendisflákum, ríkt af fuglalífi og með mikið útivistargildi. Að auki er lagt til að votlendissvæði sem eru 3 ha eða stærri njóti verndar. Hverfisvernd neðan 300 mys er ætlað að stuðla að endurheimt birkiskógarvistkerfis, en ofan 300 mys er vistkerfisvernd votlendis. Búfjárbeit er heimil utan friðunargirðingar á Botnsheiði. Skógrækt er heimil í samræmi við reglur í kafla 5.1. Svæði má ekki spilla með frekara jarðraski.“

Sú landspilda Stóru Drageyrar sem hafi á aðalskipulagsuppdrætti fengið merkingu hverfisverndar sé öll undir 300 m hæð yfir sjó og geti því ekki fallið undir lýsingu hverfisverndar. Þá verði ekki séð að unnt sé að líta á umrædda spildu sem votlendi undir neinum kringumstæðum, hvað þá sem eitt samfellt votlendi. Hverfisvernd geti einungis komið til álita á votlendissvæðum 3 ha eða stærri í 300 m y.s. eða hærra. Merking hverfisverndar á jörðinni Stóru Drageyri hljóti að hafa ratað inn á aðalskipulagsuppdrátt vegna misskilnings eða mistaka. Því til stuðnings sé vert að benda á umfjöllun í V. kafla aðalskipulags á bls. 78–79 í greinargerð þar sem fjallað er um landnotkun allra jarða í Skorradalshreppi samkvæmt aðalskipulagi 2010 – 2022 og hvernig hún hafi breyst frá eldra skipulagi. Í umfjöllun um Stóru Drageyri sé í engu vikið að hverfisvernd á jörðinni eða mannvirkjum hennar, ólíkt því sem gert sé í lýsingu landnotkunar á Bakkakoti, Efri-Hreppi, Efstabæ, Fitjakirkjulandi, Fitjum, Haga, Háafelli, Hálsi, Litlu Drageyri, Mófellsstöðum, Sarpi og Vatnshorni. Í umfjöllun um allar þessar jarðir sé hverfisverndar getið og til hvers hún skuli ná. Skipulagsuppdráttur stangist þannig á við greinargerð skipulagsins hvað þetta varði.

Bakkakot sé staðsett í innsta hluta Skorradals og svæði það er umsókn kæranda hafi lotið að sé í yfir 300 m hæð. Fram hafi komið í greinargerð með umsókninni að ekki yrði „jarðunnið eða gróðursett í votlendi sem hverfisvernd gildi um ofan 300 metra hæðarlínu í landi Bakkakots, enda er það gegn stefnu Skógræktarinnar að raska votlendi.“ Framsetning greinargerðar um hverfisvernd og hvaða hömlur á landnýtingu henni sé ætlað að setja sé nokkuð óskýr en þó hljóti skógrækt að teljast heimil á hverfisverndarsvæðum innst í Skorradal, nema í votlendi. Þá verði ekki séð að fyrir hendi hafi verið lagaheimild til að leggja á eignarhöft með hverfisvernd votlendis. Hverfisvernd hafi einungis falið í sér heimild til að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja. Hvorki verði séð að endurheimt vistkerfis votlendis né endurheimt vistkerfis birkiskóga geti fallið þar undir.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu Skorradalshrepps er tekið fram að skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli við umsókn um framkvæmdaleyfi fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Í Aðalskipulagi Skorradals-hrepps 2010–2022 komi fram að skógrækt umfram 20 ha sé háð framkvæmdaleyfi, einkum m.t.t. brunavarna.

Á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags sé skógræktarsvæði afmarkað á jörðinni Stóru Drageyri. Óumdeilt sé að framkvæmdaleyfisumsókn varðaði skógrækt utan þess svæðis. Aðalskipulagi hafi verið breytt þar sem áform landeigenda hafi staðið til þess að auka skógrækt, sbr. t.d. aðalskipulagsbreytingu vegna Dagverðarness. Það samrýmist því illa jafnræðisreglu og stefnu aðalskipulags að talið yrði heimilt að stækka skógræktarsvæði innan sveitarfélagsins án breytingar á aðalskipulagi.

Aðalskipulagið vísi til þess að skógrækt sé sérstakur „landnotkunarþáttur“, sbr. skipulagsuppdrátt og t.d. gr. 4.4. á bls. 55. Það sé í samræmi við gr. 4.3. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998 hafi verið gert ráð fyrir að skógræktarsvæði yrðu tilgreind með tvennu móti, þ.e. á óbyggðum svæðum þegar um væri að ræða skógræktarsvæði önnur en nytjaskógrækt á bújörðum, sbr. gr. 4.13., og á landbúnaðarsvæðum, sbr. gr. 4.14. Í síðarnefnda ákvæðinu hafi verið tekið fram að gera skuli sérstaklega grein fyrir ræktuðum svæðum, uppgræðslusvæðum og skógræktarsvæðum innan landbúnaðarsvæða. Bæði eldri og núgildandi skipulagsreglugerðir geri ráð fyrir sérstakri afmörkun skógræktar-svæða út frá landnotkunarflokkum.

Í aðalskipulagi sé fjallað um reglur um skógrækt innan landbúnaðarsvæða og tekið mið af þeirri löggjöf sem í gildi hafi verið við gildistöku skipulagsins. Umfjöllunin feli í sér stefnu sveitarfélagsins og beri að skýra hana sem fyllri reglur til viðbótar þeim reglum sem gildandi löggjöf á hverjum tíma kveði á um. Frá gerð aðalskipulagsins hafi komið til ný löggjöf, m.a. á sviði náttúruverndarmála og á sviði laga um mat á umhverfisáhrifum. Reglur aðalskipulagsins beri að skýra í ljósi núgildandi löggjafar.

Í bréfi Skorradalshrepps til kæranda, dags. 5. júlí 2022, hafi verið tilkynnt um höfnun umsóknar kæranda. Umrædd tilkynning feli ekki í sér fullnaðarrökstuðning eða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem máli hafi skipt vegna synjunar umsóknarinnar. Í samskiptum fulltrúa Skorradalshrepps við kæranda hafi m.a. verið bent á þann kost að óska eftir aðalskipulagsbreytingu og nauðsyn þess að fyrirhuguð skógrækt yrði endurskoðuð með tilliti til almennra ákvæða aðalskipulags og viðeigandi reglna. Vísað hafi verið til þess að fyrirliggjandi umsókn samræmdist ekki aðalskipulagi, en í svo almennri tilvísun felist ekki tæmandi talning á ástæðum þess að umsókn hafi verið hafnað.

Umsóknir kæranda hafi falið í sér skógrækt á svæðum sem ekki séu afmörkuð sem skógræktarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Texti aðalskipulags á bls. 82 um að skógræktarsvæði við gildistöku aðalskipulags séu afmörkuð verði skilinn á þann hátt að það beri að gera grein fyrir nýjum skógræktarsvæðum með breytingu aðalskipulags, standi til að leggja ný svæði undir skógrækt.

Á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags sé gerð grein fyrir hverfisverndarsvæði á því svæði innan Bakkakots sem umsóknin nái til, nánar til tekið í tungunni milli Villingadalsár og Hestadalsár. Svæðið sé hverfisverndað þar sem votlendi sé að finna. Skipulagsuppdrátturinn feli í sér verndun svæðisins, hvað sem líði skýrleika texta greinargerðar aðalskipulags. Í kafla 5.14 í aðalskipulagi komi fram að innsti hluti Skorradals og heiðarlönd sunnan Fitjaár og votlendi 3 ha að flatarmáli eða stærri, ofan 300 m y.s. falli undir hverfisvernd. Einnig komi fram að um sé að ræða hluta svæðis nr. 238 á Náttúruminjaskrá 1996, sem sé utan áforma um friðland Vatnshorns. Að auki sé allt land Efstabæjar, Fitja og Bakkakots sunnan Fitjaár hverfisverndað, auk alls Fitjakirkjulands. Svæðið sé að stórum hluta heiðarland með votlendisflákum, ríkt af fuglalífi og með mikið útivistargildi.

Skógræktaráætlun fyrir Stóru Drageyri hafi gert ráð fyrir plöntun annarra tegunda en birkis. Á svæðinu sé votlendi og öll málsmeðferð þurfi því að taka tillit til verndunar svæðisins skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna njóti votlendi sérstakrar verndar og skv. 2. mgr. ákvæðisins beri að forðast að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun. Áður en leyfi sé veitt skuli leyfisveitandi leita umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. liggi fyrir. Ekkert slíkt mat liggi fyrir og því hafi sveitarfélaginu verið heimilt að vísa til aðalskipulags um höfnun á framkvæmdaleyfinu. Staða svæðis samkvæmt hverfisvernd og/eða skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 leiði til þess að framkvæmdaleyfisumsókn vegna skógræktar á slíku svæði verði að skoða í ljósi laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og hafi ekki komið til greina skv. 25. gr. þeirra laga.

Skógræktaráætlun Skógræktarinnar feli í sér viðbót við það skógræktarsvæði sem þegar sé fyrir á jörð. Jafnframt liggi hluti nýs skógræktarsvæðis að eldra skógræktarsvæði. Stærð nýs skógræktarsvæðis og eldra svæðis sé samanlagt yfir 200 ha. Það sé því álitamál hvort tilkynningarskylda geti komið til vegna þessa. Með vísan til tilgangs umhverfismatslöggjafar og ákvæða aðalskipulags Skorradalshrepps um reglur um skógrækt standi rök til þess að þegar nýskógrækt liggi að eldra skógræktarsvæði og heildarstærð svæðanna sé yfir 200 ha beri að tilkynna áformin til Skipulagsstofnunar.

Reglur aðalskipulags um skógrækt hvíli á því að framkvæmdaleyfisumsóknir séu gerðar í samræmi við lög sem séu í gildi á hverjum tíma. Þannig verði að skýra ákvæði reglna í kafla 5.1. í aðalskipulagi með tilliti til gildandi löggjafar um náttúruvernd, umhverfismat framkvæmda og ákvæða skipulagslaga og skipulagsreglugerðar. Fyrirliggjandi umsókn geri ekki grein fyrir því hvernig skógræktaráætlun uppfylli stefnu aðalskipulags skv. kafla 5.1, þar sem segi að gera þurfi skógræktaráætlun fyrir nýskógrækt og skuli þær taka mið af vistkerfi, jarðmyndunum, sjónrænum áhrifum, brunavörnum, varðveislu menningarminja og sérkenna í landslagi. Umrædd atriði þurfi að liggja fyrir svo framkvæmdaleyfisumsókn verði afgreidd. Samkvæmt skýrslu Minjastofnunar frá 2019 um aðalskráningu fornminja í Skorradal (Niðurdalur) sé á skógræktarsvæðinu að finna fornminjar eða a.m.k. í nágrenni þess. Nýskógrækt hafi áhrif á stöðu annarra fasteigna og vegfarendur. Þá sé mikilvægt að staða brunavarna vegna nýskógræktar sé ígrunduð.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að árin 2013–2021 hafi verið gróðursett að Stóru Drageyri utan þess svæðis sem merkt sé sem skógrækt á aðalskipulagsuppdrætti. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þessa skógrækt þrátt fyrir að framkvæmdir hafi verið vel sýnilegar. Þá er gerð athugasemd við tilvísun Skorradalshrepps til jafnræðisreglu. Í henni felist ekki að stjórnvaldi sé skylt að endurtaka óréttmæta eða ólögmæta ákvörðun við afgreiðslu máls. Enga þýðingu hafi hvernig mál Dagverðarness hafi verið afgreitt.

Hin kærða ákvörðun hafi hvað Stóru Drageyri varðar einungis verið reist á því að skógræktarsvæði væri utan afmörkunar skógræktar í landi Stóru Drageyrar og að hluti svæðisins væri með hverfisvernd votlendis. Hvað varði Bakkakot hafi verið byggt á því að skógræktarsvæði væri utan afmörkunar skógræktar í landi Bakkakots og að um hverfisvernd væri að ræða ofan 300 m y.s. Við úrlausn um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar geti því einungis þessi atriði komið til skoðunar en ekki aðrar og nýjar forsendur fyrir synjun framkvæmdaleyfis.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á umsóknum um framkvæmdaleyfi til skógræktar. Aðalskipulag Skorradalshrepps 2010–2022 tók gildi með samþykki hreppsnefndar 15. október 2013 og birtist í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m. Svo sem tekið er fram í aðalskipulaginu var það sett samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. einnig 1. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Samkvæmt tölul. 1.04 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er nýræktun skóga sem tekur til 200 ha eða stærra svæðis í flokki B, þ.e. framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli umhverfismati. Þær framkvæmdaleyfisumsóknir sem deilt er um í máli þessu varða annars vegar 36 ha og hins vegar 188,7 ha svæði og eru framkvæmdirnar því ekki háðar umhverfismati.

 Jarðirnar Bakkakot og Stóra Drageyri eru á landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Skorradalshrepps. Í aðalskipulaginu segir að skilgreining á landbúnaði hafi breyst í áranna rás og sé nú t.d. viðurkennt að skógrækt sé landbúnaður. Í reglugerð nr. 400/1998 kemur fram í gr. 4.14.2 að sérstaklega skuli gera grein fyrir ræktuðum svæðum, uppgræðslusvæðum og skógræktarsvæðum innan landbúnaðarsvæða í aðalskipulagi og er sérstakur kafli í aðal-skipulagi hreppsfélagsins um reglur um skógrækt innan landbúnaðarsvæða. Þar er tekið fram að skógrækt umfram 20 ha sé háð framkvæmdaleyfi, einkum með tilliti til brunavarna.

Í reglugerð nr. 400/1998 er skipulagsáætlun skilgreind í gr. 1.3. sem áætlun sem geri grein fyrir markmiðum og ákvörðunum viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og lýsi forsendum þeirra ákvarðana. Skipulagsáætlun sé sett fram í greinargerð og á uppdrætti, sbr. einnig gr. 3.1.1. Þá er skipulagsuppdráttur skilgreindur sem uppdráttur sem sýni fyrirhugaða notkun lands í samræmi við þá stefnumörkun sem kynnt sé í skipulagsgreinargerð, sbr. einnig gr. 5.1.2.

Í skýringum á skipulagsuppdrætti aðalskipulags Skorradalshrepps er skógrækt afmörkuð með grænni línu. Leita má nánari skýringa í greinargerð aðalskipulagsins, en þar segir í kafla 5.1. sem varðar landbúnaðarsvæði að „[s]kógræktarsvæði, eins og þau voru í upphafi gildistíma 2010–2022, eru sýnd á aðalskipulagsuppdrætti með grænni línu á landbúnaðarsvæðum.“ Þrátt fyrir að skilja megi þetta sem svo að einungis sé um lýsingu á því ástandi sem uppi var við setningu aðalskipulags, sem sé ekki bindandi til framtíðar, verður ekki hjá framangreindum ákvæðum reglugerðar nr. 400/1998 litið, sem öll miða að því að skipulagsáætlanir og -uppdrættir sýni fyrirhugaða eða framtíðarnotkun lands. Þá má athuga að á sama stað í aðalskipulagi Skorradalshrepps verður eigi séð að lögð sé merkjanleg áhersla á nýræktun skóga innan landbúnaðarsvæða, en fremur horft til endurheimtar og verndar birkiskógavistkerfa, sem og umhirðu þegar ræktaðra skóga.

Hinar kærðu ákvarðanir byggjast m.a. á því að um sé að ræða svæði sem séu utan afmörkunar um fyrirhuguð skógræktarsvæði á landbúnaðarsvæðum samkvæmt aðalskipulagi. Á aðal-skipulagsuppdrætti er skógrækt merkt með grænni línu og eru þau svæði sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir utan þeirrar afmörkunar. Var hreppsnefnd Skorradalshrepps því rétt að hafna umsóknum um framkvæmdaleyfi með vísan til þess að fyrirhuguð skógrækt samræmdist ekki aðalskipulagi.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felldar verði úr gildi ákvarðanir hreppsnefndar Skorradalshrepps um að hafna umsóknum um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðunum Stóru Drageyri og Bakkakoti.