Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2022 Sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlinda­fræðingur tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 14. júlí 2022 um að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar m.a. staðsetningu eldissvæða, hvíldartíma og heimild til notkunar ásætuvarna sem innihalda koparoxíð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2022, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Efri-Tungu II og helmings hlutar í Efri-Tungu, ákvörðun Umhverfisstofnunar, dags. 14. júlí 2022, um að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar m.a. staðsetningu eldissvæða, hvíldartíma og heimildir til notkunar ásætuvarna sem innihalda koparoxíð. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að synja umsókn leyfishafa um breytingu á starfsleyfi. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að yfirvofandi framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 25. ágúst 2022 var þeirri kröfu kæranda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 23. ágúst 2022.

Málavextir: Skipulagsstofnun barst tilkynning 16. október 2020 frá Arctic Sea Farm ehf. og Fjarðalaxi ehf. um fyrirhugaða breytingu á eldissvæðum þeirra í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í breytingunni fólst tilfærsla á þremur eldissvæðum auk nýs eldissvæðis er nefnt var Háanes og mun liggja beint út af Örlygshöfn. Sömu félög sendu svo tilkynningu til Skipulagsstofnunar 11. maí 2021 um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma á eldissvæðum þeirra til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. áðurnefnda 6. gr. laga nr. 106/2000.  Þá tilkynnti Arctic Sea Farm 16. september 2021 um breytt fyrirkomulag á eldissvæðum þess í Patreksfirði. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindra tilkynntra breytinga lá fyrir 8. nóvember s.á. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 12. desember s.á. kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. kærumál nr. 180/2021, en kröfu hans um ógildingu ákvörðunarinnar var hafnað með úrskurði uppkveðnum 12. september 2022.

Skipulagsstofnun barst tilkynning 14. janúar 2022 vegna fyrirhugaðrar notkunar ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 31. mars 2022 en niðurstaða stofnunarinnar var sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Var sú ákvörðun einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, en í kærumáli nr. 41/2022 var kröfu um ógildingu hennar hafnað með úrskurði uppkveðnum 29. september 2022.

Hinn 20. apríl 2022 birti Umhverfisstofnun á heimasíðu sinni tillögu að breytingu á starfsleyfi Arctic Sea Farm fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma. Fól tillagan einnig í sér heimild til notkunar ásætuvarna sem innihalda koparoxíð. Kom kærandi að athugasemdum vegna tillögunnar. Hinn 14. júlí 2022 gaf Umhverfisstofnun út breytt starfsleyfi í samræmi við auglýsta tillögu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun lúti að því að heimila Arctic Sea Farm ehf. að stunda sjókvíaeldi laxfiska 400 metra utan við netlög fasteignar kæranda. Jörðin Efri-Tunga njóti umfangsmikillar verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en þar að auki sé æðarvarp meðal hlunninda jarðarinnar. Hagsmunir kæranda byggi á því að jörðin verði ekki fyrir tjóni vegna umhverfisáhrifa sem leiði af breytingum starfsleyfisins. Eigi hann því beinna, verulegra, sérstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og uppfylli því skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Byggt sé á því að skort hafi á það í umsókn um breytingar á eldissvæði að framvísað væri heimildum til hagnýtingar þess særýmis sem stækkun eldissvæðisins taki til. Af þeim sökum hafi Umhverfisstofnun farið út fyrir valdmörk sín, en skylt hefði verið að krefjast gagna um að gætt hefði verið þeirrar málsmeðferðar sem geti í 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. 3. gr. laga nr. 101/2019, þar sem kveðið sé á um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra.

Með lögum nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengist fiskeldi, hafi verið mælt fyrir um lagaskilaákvæði sem orðið hafi að ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008. Ákvæðið hljóði svo: „Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lokið fyrir gildistöku þessa ákvæðis eða frummatsskýrslu hefur verið skilað fyrir gildistöku þessa ákvæðis til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, fer eftir eldri ákvæðum laganna.“ Núverandi starfsemi leyfishafa byggi á umsóknum sem hafi haldið gildi sínu vegna þessa ákvæðis.

Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar eftir 1. umræðu á Alþingi hafi komið fram að bráðabirgðaákvæðið lyti að því „hvernig fara skuli með umsóknir sem þegar liggja fyrir um rekstrarleyfi til fiskeldis.“ Auk þess komi fram að með gagnályktun frá ákvæðinu sé ljóst að um „umsóknir sem berast eftir gildistöku laganna á hafsvæðum sem metin hafa verið til burðarþols fer samkvæmt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir í lögunum og því á úthlutunarregla 4. gr. a við um þau svæði og þau svæði sem ekki hafa verið metin til burðarþols.“ Sambærilegar athugasemdir hafi verið í nefndaráliti með breytingartillögu eftir 2. umræðu.

Með lögum nr. 101/2019 hafi verið innleidd í lög um fiskeldi nýtt ákvæði um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra, sbr. 4. gr. a. laganna. Ákvæðið geri ráð fyrir að til þess að taka í notkun ný eldissvæði þurfi framkvæmdaraðili fyrst að afla sér réttar yfir viðkomandi hafsvæði, síðan óska eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort viðkomandi framkvæmd þyrfti að undirgangast mat á umhverfisáhrifum og að lokum sækja um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Fái sá skilningur stoð í almennum athugasemdum frumvarps því er orðið hafi að lögum nr. 101/2019. Jafnframt sé ljóst að málsmeðferð 4. gr. a. eigi við hvort sem um sé að ræða nýtt eldissvæði eða breytingar á þegar úthlutuðu svæði og sé allur vafi um það atriði tekinn af í athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum nr. 101/2019.

Í 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi sé fjallað um breytingar á gildandi rekstrarleyfum til fiskeldis. Í 1. mgr. greinarinnar komi fram að Matvælastofnun sé heimilt að fenginni viðhlítandi umsókn að gera breytingar á eldistegundum, staðsetningu eldissvæða eða hvíldartíma. Ákvörðunarvald um þessa þætti sé þó ekki undir stofnuninni komið heldur þurfi atbeina annarra stjórnvalda eftir því í hverju breytingarnar felist hverju sinni. Breyting á staðsetningu eldissvæðis þurfi þannig að byggja á því að Hafrannsóknastofnun hafi skilgreint viðkomandi svæði sem eldissvæði og umsækjandi hafi fengið hinu breytta svæði úthlutað á grundvelli 4. gr. a. laga nr. 71/2008, sbr. 1. tl. 2. mgr. 13. g. reglugerðar nr. 540/2020. Engin gögn þar að lútandi hafi fylgt umsókn leyfishafa og því hafi Umhverfisstofnun borið að hafna umsókninni, sbr. 9. gr. laga nr. 71/2008. Með því að fallast á stækkun eldissvæðis við Kvígindisdal hafi stofnunin farið út fyrir valdmörk sín.

Breytingin á eldissvæðinu við Kvígindisdal feli í raun í sér úthlutun á nýju svæði til viðbótar við önnur eldissvæði leyfishafa. Upphaflega hafi leyfishafi sótt um stækkun svæðisins við Kvígindisdal auk nýs svæðis við Tungurif. Vegna matsskyldufyrirspurnar hafi Skipulagsstofnun bent á að úthlutun nýs eldissvæðis væri utan valdmarka stofnunarinnar en hafi talið sér heimilt að taka til matsskylduákvörðunar tillögu um stækkun sem næði yfir bæði svæðin. Í kjölfarið hafi leyfishafi sótt um eina stækkun á eldissvæðinu við Kvígindisdal sem næði til beggja svæða og alls særýmisins þar á milli. Í athugasemdum leyfishafa við kæru kæranda í máli nr. 180/2021 segi að breytingin sé „eingöngu til þess fallin að koma auka kvíum fyrir og það á sama stað og ef um auka eldissvæði væri að ræða.“ Af þessu megi skýrlega ráða að umsókn leyfishafa um gríðarstóra stækkun á eldissvæði, þegar ófært hafi verið að óska eftir nýju svæði, hafi í raun hvort tveggja verið umsókn um stækkun á fyrra svæði og umsókn um nýtt eldissvæði sem ávallt yrðu aðskilin innbyrðis af grynningum sem geri særýmið milli svæðanna ótækt til fiskiræktar. Bersýnilegt sé að engin heimild að lögum standi til töku slíkrar ákvörðunar. Stofnunin hafi því farið út fyrir valdmörk sín og um leið brotið gegn lögmætisreglunni og hinni almennu efnisreglu stjórnsýsluréttar um bann við misbeitingu valds á leiðum til úrlausnar máls.

Þá sé á því byggt að hin kærða ákvörðun byggi á ógildum matsskylduákvörðunum Skipulagsstofnunar.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skuli allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefi út. Mælt sé fyrir um það í 2. mgr. nefnds lagaákvæðis að útgefanda starfsleyfis sé heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess sé liðinn vegna breyttra forsendna. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 7/1998, og 13. gr. reglugerðar nr. 550/2018, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, skuli rekstraraðili upplýsa útgefanda starfsleyfis tímanlega um allar fyrirhugaðar breytingar á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar sem geti haft afleiðingar fyrir umhverfið. Við framkomin áform um slíkar breytingar sé útgefanda starfsleyfis skylt að bregðast við. Með 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 sé greinarmunur gerður milli þess hvort um ræði útgáfu nýs starfsleyfis eða endurskoðun og breytingu gildandi starfsleyfis, sbr. einnig 14. og 15. gr. laganna. Útgáfa nýs starfsleyfis komi aðeins til þegar umsækjandi hafi ekki gilt starfsleyfi þegar fyrir þeirri starfsemi sem sótt er um leyfi til. Mismunandi kröfur séu gerðar eftir því hvort umsókn varði nýtt starfsleyfi eða breytingu á starfsleyfi. Hin kærða ákvörðun hafi varðað breytingu á leyfi, þ.e. tilkynningu um fyrirhugaða breytingu á starfsemi.

Vegna sjónarmiða í kæru um heimild til notkunar hins breytta eldissvæðis vísar Umhverfisstofnun til þess að 19. júlí 2019 hafi tekið gildi lög nr. 101/2019 um breytingu á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Meðal breytinganna var að Hafrannsóknastofnun myndi ákveða skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði, sem auglýst yrðu opinberlega og úthlutað af ráðherra, sbr. nú 4. gr. a í lögum nr. 71/2008. Í bráðabirgðaákvæðum laganna sé að finna ákvæði um lagaskil og komi fram í II-lið ákvæðisins að um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem metin hefðu verið til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum væri lokið fyrir gildistöku ákvæðisins eða frummatsskýrslu hefði verið skilað fyrir gildistöku ákvæðisins til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, færi eftir eldri ákvæðum laganna. Hafsvæðum hafi ekki enn sem komið er verið skipt upp í eldissvæði og úthlutað, skv. 4. gr. a. laga nr. 71/2008. Ekki sé mælt fyrir um í lögum eða reglugerðum að forsenda þess að fá leyfi breytt, líkt og um sé að ræða í þessu máli, sé að svæðinu hafi verið skipt og úthlutað. Þá sé umrætt svæði utan netlaga sjávarjarða og geti enginn því talið til beinna eignarréttinda yfir því.

Hvað snerti það hvort umsókn um breytingu á eldissvæði hafi í raun falið í sér umsókn um úthlutun viðbótar eldissvæðis þá hafi á málsmeðferðartíma verið gerð breyting frá upphaflegri umsókn þannig að í stað þess að bætt yrði við nýju eldissvæði, áður kennt við Háanes, hafi verið ákveðið að stækka eldissvæðið kennt við Kvígindisdal, þannig að það kæmi til með að ná yfir stærra svæði, þ.m.t. það svæði sem áður hafi verið kennt við Háanes. Með því að hafa stærra svæði geti rekstraraðili fært kvíarnar ef þess þurfi við t.d. vegna strauma. Svæðið allt þurfi að hvíla í a.m.k. 90 daga á milli eldislota, sbr. gr. 3.2. í starfsleyfi. Með því sé ekki heimilt að setja út fisk hjá Háanesi þegar svæðið í heild er hvílt. Með breytingunni hafi ekki verið sótt um aukningu lífmassa heldur stækkun á svæði sem rekstraraðili hafi þegar verið með til að minnka umhverfisáhrif eldisins og leitast við að bæta velferð eldisfiska. Það hafi ekki verið markmið breytingarlaga nr. 101/2019 og síðan breytingarlaga nr. 59/2021, sem varðað hafi ráðstöfun á vannýttum lífmassa hafsvæðis, að banna eða frysta allar breytingar á núverandi eldissvæðum. Eldissvæði séu skilgreind í 3. gr. laga nr. 71/2008, sem svæði þar sem fiskeldi sé leyft og afmarkað með sérstökum hnitum. Hafsvæði séu ekki skilgreind í 3. gr. en á hafsvæði geti verið nokkur eldissvæði. Burðarþolsmat sé gefið út fyrir hafsvæði líkt og Patreksfjörð og Tálknafjörð. Með breytingunni á starfsleyfi hafi aðeins verið gerð breyting á eldissvæði og hafi ekki falist í henni úthlutun nýs slíks svæðis.

Vegna sjónarmiða í kæru um að bíða hefði átt úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdar, vísi Umhverfisstofnun til þess að ekki hefði verið hægt að réttlæta tafir á útgáfu starfsleyfisins á þeim grunni, en ekki hafi heldur verið um slíka annmarka að ræða á ákvörðuninni, að hefðu getað leitt til ógildingar þeirrar ákvörðunar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að þeim hluta kröfugerðar kæranda þar sem gerð sé krafa um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taki nýja ákvörðun um synjun umsóknar leyfishafa verði vísað frá. Lesa megi úr stjórnsýsluframkvæmd úrskurðarnefndarinnar að nefndin taki almennt ekki nýjar efnisákvarðanir í málum sem bornar séu undir hana. Þá sé þess krafist að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Málsmeðferð Umhverfisstofnunar hafi verið vönduð og að öllu leyti í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sérlaga sem um stofnunina gildi. Stofnunin hafi auglýst tillögu að breyttu starfsleyfi en við þá málsmeðferð hafi ein athugasemd borist og hafi hún verið frá kæranda. Í greinargerð hinnar kærðu ákvörðunar séu athugasemdir kæranda raktar sem og rökstuðningur Umhverfisstofnunar, þar sem sjónarmið kæranda séu hrakin. Gætt hafi verið að andmælarétti og áhrif breytinganna rannsökuð til hlítar. Hvorki séu form- né efniságallar á hinni kærðu ákvörðun.

 Því sé hafnað að umsókn um breytingu á eldissvæði hafi í raun falið í sér umsókn um úthlutun viðbótar eldissvæðis. Tillagan um breytingu á eldissvæðinu miði eingöngu að því að bæta dýravelferð og að fiskeldi verði rekið í sem bestri sátt við umhverfið. Með breytingunni megi koma fyrir fleiri kvíum þannig að færri fiskar verði aldir í hverri kví. Séu þessar breytingar byggðar á reynslu og þekkingu leyfishafa af eldi laxfiska í sjó á Vestfjörðum og sé engin framleiðsluaukning eða aukning á hámarkslífmassa bundin við breytinguna. Umhverfisáhrif hennar séu auk þess óveruleg, eins og staðfest hafi verið af Skipulagsstofnun. Engar reglur mæli fyrir um að ekki megi stækka það svæði þar sem heimilt sé að stunda fiskeldisstarfsemi, með breytingu á starfsleyfi. Stærð svæðisins, lögun og staðsetning innan viðkomandi hafsvæðis ráðist alfarið af þeim sjónarmiðum sem kveðið sé á um í lögum og reglugerðum, sem fyrst og fremst lúti að því að lágmarka umhverfisáhrif og tryggja velferð eldisdýra.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 14. júlí 2022 um að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar breytingar á tilhögun eldissvæða ásamt heimild til notkunar ásætuvarna sem innihalda koparoxíð. Einnig voru gerðar aðrar breytingar á ákvæðum einstakra greina leyfisins.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta nema í undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kæranda skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Kærandi er eigandi jarðarinnar Efri-Tungu II og helmings hlutar í jörðinni Efri-Tungu, en báðar jarðirnar eru í Örlygshöfn í Patreksfirði. Hin kærða ákvörðun lýtur m.a. að breytingu á staðsetningu eldissvæðis framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm ehf. við Kvígindisdal, en með þeirri breytingu munu eldiskvíar verða staðsettar út af Örlygshöfn. Vegna nándar landareigna kæranda við það eldissvæði og með hliðsjón af hinum sérstöku landfræðilegu aðstæðum á svæðinu, þ.m.t. vegna sjónrænna áhrifa, er ekki hægt að útiloka að kærandi verði fyrir áhrifum af sjókvíaeldinu umfram aðra. Að virtum framangreindum sjónarmiðum um aðild að kærumálum verður kærandi því talinn eiga þá lögvörðu hagsmuni sem krafist er skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

_ _

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út, sbr. þó 8. gr. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, s.s. ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarna er ráðherra heimilt skv. 5. gr. að setja í reglugerð almenn ákvæði, m.a. um starfsleyfi, og hefur ráðherra sett slíka reglugerð, nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Við gerð starfsleyfis og útgáfu þess ber stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar sem og lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í lokamálslið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er tiltekið að starfsleyfi skuli veitt uppfylli starfsemi þær kröfur sem til hennar séu gerðar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar, en útgáfa starfsleyfis getur m.a. verið háð mati á umhverfisáhrifum.

Í kæru eru færð þau rök fram að matsskylduákvarðanir Skipulagsstofnunar frá 8. nóvember 2021 um breytta staðsetningu eldiskvía og hvíldartíma og frá 31. mars 2022 um heimild til notkunar ásætuvarna, séu haldnar ógildingarannmörkum. Kröfu um ógildingu þessara ákvarðana var hafnað í úrskurðum nefndarinnar uppkveðnum 12. september 2022 og 29. s.m. í kærumálum nr. 180/2021 og 41/2022. Verður þessum sjónarmiðum því hafnað.

_ _

Í greindri ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 31. mars 2022 var fjallað um hvort notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Var þar álitið að áhrif af notkun koparoxíðs sem ásætuvarnar fælust fyrst og fremst í hugsanlegri uppsöfnun kopars í botnseti sem gæti haft skaðleg áhrif á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum. Vísað var til þess að styrkur kopars í Patreksfirði og Tálknafirði á eldissvæðum Arctic Sea Farm við Hvannadal og Kvígindisdal árið 2019, sem og á eldissvæðum Arnarlax við Eyri árin 2018 og 2020 og Laugardal 2019, hafi mælst á bilinu 26,9-45,3 mg/kg, en styrkur undir 70 mg/kg flokkist sem lág eða mjög lág gildi samkvæmt reglugerð nr. 796/1999 um mengun vatns þar sem finna megi umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land.

Skipulagsstofnun taldi rétt að í starfsleyfi væri skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráði við Umhverfisstofnun skyldi vera háttað sem og hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi svo heimilt yrði að nota ásætuvarnir sem innihaldi koparoxíð. Var talið á grunni þessa að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og að þeir þættir sem féllu undir eðli, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa kölluðu ekki á að framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum. Í greindum úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 29. september 2022 í kærumáli nr. 41/2022 var fjallað um þessa ákvörðun og álitið að Skipulagsstofnun hefði lagt viðhlítandi og sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka laga nr. 111/2021.

Um varnir gegn mengun eru ákvæði í 3. hluta starfsleyfisins. Þar segir m.a. að leyfishafa beri að uppfylla gildandi lög og reglugerðir á starfssviði sínu. Hann skuli nota bestu aðgengilegu tækni (BAT) sem skilgreind hafi verið við mengunarvarnir og nýta vel orku og vatn. Þegar aðferðum sé beitt við mengunarvarnir sem valdi því að mengun færist á milli andrúmslofts, vatns og jarðvegs skuli lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið (samþættar mengunarvarnir). Besta aðgengilega tækni hafi verið skilgreind í „Bat for fiskeopdræt i Norden“, sem komið hafi út í TemaNord skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar, 2013:529, en hana má nálgast á vef Umhverfisstofnunar.

Með breytingum á grein 3.4. í hinu kærða starfsleyfi er mælt fyrir um heimild til að nota eldisnætur sem litaðar eru með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð. Heimildin er bundin skilyrði um vöktun kopars í umhverfinu samkvæmt vöktunaráætlun. Tekið er fram að bendi vöktunarmælingar til að kopar safnist upp á eldissvæðum sé Umhverfisstofnun heimilt að endurskoða heimildina fyrir notkun ásætuvarna. Tekið skuli mið af umhverfismörkum II vegna kopars í sjávarseti í reglugerð nr. 796/1999 við þá endurskoðun. Tekið er fram að leyfishafi hafi ekki heimild til að lita nætur á eigin vegum. Að auki sé óheimilt að háþrýstiþvo litaðar nætur í sjó og sé skylt að koma þeim í viðurkennda þvottastöð að lokinni eldislotu.

Um vöktunaráætlun er fjallað í grein 5.1. í starfsleyfinu og er tekið fram að mælingar skuli vera samkvæmt staðlinum IST ISO 12878 um umhverfisvöktun á áhrifum fiskeldis á mjúkbotn og samþykktum líffræðilegum og eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum. Um þetta er vísað til laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Skulu mælingar gerðar samkvæmt áætlun sem rekstraraðili leggur fram og Umhverfisstofnun samþykkir. Fram kemur m.a. að meta skuli umhverfisástand sjávarbotns, t.d. með myndatökum af botninum, og að taka skuli mið af leiðbeiningum Umhverfisstofnunar „Upplýsingar um vöktunaráætlanir fiskeldisstöðva“ og útfæra áætlunina í samræmi við staðbundnar aðstæður.

Í greindum leiðbeiningum Umhverfisstofnunar kemur fram að við vöktun á botnseti skuli taka nægilega mörg sýni á hverjum sýnatökustað, við punktuppsprettu og auk þess taka sýni til dæmis í 20 m, 50 m, 200 m og 500 m fjarlægð frá henni í straumstefnu. Nota megi aðra fjarlægðarpunkta ef það eigi við. Fram kemur að mæla skuli heildarmagn lífræns kolefnis (TOC) í sýninu og styrk skaðlegra efna sem tengjast eldinu, þar með talið innihald koparoxíðs í seti ef notuð er ásætuvörn sem inniheldur slíkt efni.

Á vef Umhverfisstofnunar er birt vöktunaráætlun 2022-2028 fyrir starfsemi leyfishafa í Patreksfirði og Tálknafirði. Þar segir að skipulag, tíðni, staðsetning, aðferðafræði og úrvinnsla miðist við að farið sé að eftirfarandi stöðlum: NS 9410:2016, IS12878:2012 og ISO 5667-19:2004. Einnig sé tekið mið af stöðlum ASC þar sem Arctic Sea Farm sé með svonefnda ASC vottun. Lýst er nánar tilhögun og tíðni sýnatöku, og skulu tekin sýni til greiningar á kopar í botnseti samkvæmt ASC staðlinum, verði kopar nýttur í ásætuvarnir nótapoka. Skuli sýni tekin fyrir útsetningu nótapoka svo bakgrunnsgildi séu þekkt.

Í staðlinum NS9410:2016 er lýst aðferðum til að safna heimildum um umhverfisáhrif við fiskeldiskvíar með svonefndum B- og C-mælingum. Skulu mælingarnar fara fram reglulega og því oftar sem starfsemi er viðameiri. Í C-mælingum er m.a. skylt að mæla uppsöfnun á kopar og zinki í sjávarseti á nærsvæði (25-30 metra frá kvíum) og á fjærsvæði (30-50 metra frá kvíum). Á sömu staðsetningum er gert ráð fyrir mælingum sem byggja á stöðluðum gildum um vistfræðilegt gæðahlutfall (EQR/nEQR).

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 36/2011 er markmið þeirra að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Mat á yfirborðsvatnshloti skal byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við á. Umhverfismarkmið eru skilgreind eftir gerðum vatnshlota og skulu vera samanburðarhæf, sbr. 11. gr. laganna.

Í vatnavefsjá Umhverfisstofnunnar, sem Veðurstofan rekur, kemur fram að Patreksfjörður og Tálknafjörður séu sérstök vatnshlot strandsjávar. Fram kemur að bæði vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand þeirra sé óflokkað.

Í reglugerð nr. 796/1999 hafa verið sett umhverfismörk fyrir málma í sjávarseti hér við land. Með hinu útgefna leyfi hafa verið sett skilyrði sem ætlað er að tryggja að unnt verði að bregðast við ef vísbendingar eru um að kopar safnist upp í sjávarseti á eldissvæðinu þannig að yfirstígi umhverfismörk II í reglugerðinni. Við þær aðstæður er Umhverfisstofnun heimilt að bregðast við með því að mæla fyrir um aðgerðir sem geta falið í sér takmörkun eða bann við notkun ásætuvarna sem innihalda koparoxíð. Verður að álíta að með þessu hafi stofnunin lagt fullnægjandi grundvöll að hinni kærðu ákvörðun hvað þennan þátt varðar þótt ekki sé nánari lýsing á því í starfsleyfinu um með hvaða hætti lög nr. 36/2011 hafi þá þýðingu.

_ _

Af hálfu kæranda sem og leyfishafa er fjallað ítarlega um ákvæði laga um fiskeldi nr. 71/2008, þá einkum fyrirmæli um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, hvort í breyttu starfsleyfi hafi falist úthlutun á slíku svæði og hvort gætt hafi verið fyrirmæla 4. gr. a. í lögunum. Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að hafsvæðum hafi ekki verið skipt upp í eldissvæði og úthlutað samkvæmt þessari lagagrein. Þá sé ekki mælt fyrir um í lögum eða reglugerðum að það sé forsenda breytinga á starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998 að svæði hafi verið skipt og úthlutað.

Það má telja eðlilegt að samræmis sé gætt af hálfu leyfisveitenda milli útgefinna starfs- og rekstrarleyfa til fiskeldis í sjókvíum, þar sem leyfin eru háð hvort öðru. Er þó jafnframt rétt að benda á að framkvæmdaraðili hefur ákveðið forræði á framkvæmd sinni hvað snertir umsóknir og mat á umhverfisáhrifum þeirra. Njóti framkvæmdaraðili ekki fullnægjandi heimilda samkvæmt skipulagi eða áskilinna opinberra réttinda, þegar að framkvæmdum kemur, er það hlutverk leyfisveitanda, að meta hvort synjað verður um leyfi af þeim sökum.

Í gildi eru lög nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Með þeim var mörkuð stefna um að sett yrði strandsvæðisskipulag á afmörkuðum svæðum við Ísland. Var tekið fram í ákvæði I. til bráðabirgða að vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum skyldi hefjast 1. september 2018. Tillaga að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði, skv. 12. gr. laganna, var auglýst 15. júní 2022. Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998, eins og þeim var breytt með lögum nr. 88/2018, segir að: „varði umsókn um leyfi strandsvæði samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða þar sem tillaga að strandsvæðisskipulagi hefur verið auglýst er leyfisveitanda heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn þar til strandsvæðisskipulag hefur tekið gildi fyrir svæðið. Frestunin skal þó ekki vera lengri en sjö mánuðir nema sérstakar ástæður mæli með því.“ Verður ekki séð af gögnum málsins að þetta ákvæði hafi komið til sérstakrar skoðunar við undirbúning hins kærða leyfis, en tilgangur þess er eins og laganna í heild að skapa grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu auðlinda haf- og strandsvæða sem byggist á heildarsýn á málefni hafsins, vistkerfisnálgun og vernd náttúru og menningarminja, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, svo vísað sé í markmiðsgrein laga nr. 88/2018.

Líkt og greinir í kæru voru í júlí 2019 samþykkt á Alþingi lög nr. 101/2019 um breytingu á lögum nr. 71/2008. Með þeim var fellt brott ákvæði úr 3. mgr. 4. gr. a. laganna sem mælti fyrir um heimild til að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn vegna framkominnar tillögu að strandsvæðisskipulagi, sem var samhljóða tilvísuðu ákvæði laga nr. 7/1998. Í stað þessa komu fyrirmæli í nýja 3. mgr. 4. gr. a. í lögunum, þar sem heimild til slíkrar frestunar er nú bundin við það hvort tillaga að standsvæðisskipulagi hafi verið auglýst þegar umsókn var lögð fram. Yfirsögn 4. gr. b. er „Móttaka og afgreiðsla umsókna“ og varðar lagagreinin bæði starfsleyfi og rekstrarleyfi, svo sem ráða má m.a. af 1. mgr. lagagreinarinnar. Í 3. mgr. lagagreinarinnar er tekið fram að leyfisveitendum, í fleirtölu, sé heimilt við þessar aðstæður að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn. Tekur ákvæði þetta því samkvæmt orðalagi sínu bæði til starfsleyfis Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfis Matvælastofnunar. Verður með vísan til þessa að álíta að fyrirmæli 4. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998, verði að víkja fyrir yngri rétti og verði því ekki beitt um umsóknir um fiskeldisstarfsemi, en umsókn um breytt starfsleyfi kom fram áður en tillagan að hinu nýja strandsvæðisskipulagi var auglýst.

Verður því ekki talið að skilyrði séu til þess að taka til nánari athugunar hvort rétt hefði verið að fresta útgáfu hins kærða leyfis uns strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði öðlast gildi.

_ _

Á uppdrætti greindrar tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði má sjá að lega hins kærða leyfis hefur verið mörkuð sem „staðbundin nýting“ (SN), en með því er gert ráð fyrir starfsemi svo sem fiskeldi, skeldýrarækt, efnistöku og ræktun og slætti sjávargróðurs. Í greinargerð með tillögunni eru nánari ákvæði um reitinn, sem nefnist SN1 Kvígindisdalur. Þar segir m.a.: „Á skipulagsreitnum er leyfi til fiskeldis. Áformað er aukið fiskeldi innan reitsins.“ Síðar segir: „Reiturinn er að hluta innan siglingageira Ólafsvita sem hefur áhrif á fyrirkomulag búnaðar innan reitsins þar sem ekki má sigla nær jaðri sjókvíaeldisstöðva en 50 metra samkvæmt reglugerð um fiskeldi nr. 540/2020.“ Að lokum segir: „Við ákvörðun um leyfisveitingar skal leita umsagnar Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu um staðsetningu sjókvíaeldisstöðvar og festinga.“

Svo sem þarna kemur fram hagar svo til að hið kærða leyfi er að hluta til innan siglingageira Ólafsvita. Varðar þetta þann hluta þess sem nær til ráðgerðs nýs kvíastæðis utan Örlygshafnar. Af þessu tilefni vísast til 4. gr. laga nr. 132/1999 um vitamál, en þar segir að óheimilt sé að byggja hús eða mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki frá sjónum á þeim boga sjóndeildarhringsins þar sem því er ætlað að þjóna sjófarendum, og hæfilega langt til beggja handa. Getur Vegagerðin látið rífa húsið eða mannvirkið á kostnað eiganda þess ef brotið er á móti þessu. Í sömu lagagrein segir að óheimilt sé að setja upp ljós eða önnur merki sem kynnu að villa um fyrir sjófarendum. Þá vísast einnig til 6. mgr. 10. gr. sömu laga þar sem segir að leita skuli umsagnar Samgöngustofu um legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó, svo sem fiskeldiskvía, mælitækja í sjó og veðurdufla. Gildir þetta um öll mannvirki í sjó, einnig þau sem eru utan svæðis sem tilgreint er í 4. gr.

Nefndin leitaði upplýsinga hjá Umhverfisstofnun um hvort og þá með hvaða hætti hafi verið aflað umsagnar Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu um staðsetningu sjókvíaeldisstöðvar og festinga samkvæmt hinu kærða leyfi. Í tölvubréfi stofnunarinnar til nefndarinnar frá 28. nóvember sl., segir að á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin „var þessi umræða um ljósgeisla ekki hafin.“ Siglingaryfirvöld hafi aðeins nýlega áttað sig á því að fiskeldi sé innan hvíts ljósgeisla og hafi verið samráð á milli siglingaryfirvalda og stofnunarinnar vegna þess. Einnig megi benda á að vitalög séu ekki á forræði stofnunarinnar. Hafi stofnunin því ekki leitað sérstaklega umsagnar Landhelgisgæslunnar né Samgöngustofu enda væri starfsleyfið auglýst og það geti allir gert athugasemdir við leyfin. Í framtíðinni muni stofnunin hins vegar leita umsagnar þessara stofnanna vegna fiskeldis. Loks er bent á að heimilt er að endurskoða starfsleyfi ef breyting verður á skipulagi, sbr. grein 1.6. í ákvæðum hins kærða leyfis.

Telja verður að botnföst mannvirki í sjó, svo sem fastar fiskeldiskvíar og tengd mannvirki, fóðurprammar og/eða aðstöðuhús á flotkví teljist til mannvirkja skv. 4. gr. laga nr. 132/1999, en mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast til mannvirkja skv. 13. tl. 3. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þá var við undirbúning hins kærða starfsleyfis ekki leitað álits hins sérfróða stjórnvalds, Samgöngustofu, um legu og merkingu þeirra mannvirkja, sem hér um ræðir, þrátt fyrir skýrt orðalag 6. mgr. 10. gr. laga nr. 132/1999 og þær sérstöku landfræðilegu aðstæður sem eru fyrir hendi. Í þessu fólst slíkur annmarki við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar að fella verður hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 14. júlí 2022 um að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar breytta staðsetningu eldissvæðis sem kennt er við Kvígindisdal, en ákvörðun staðfest að öðru leyti.

121/2022 Selvogsgata

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 1. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 121/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 31. ágúst 2022, um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2022, er barst nefndinni 20 s.m., kærir eigandi, Brekkugötu 25, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 31. ágúst 2022 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars varðandi lóðina að Selvogsgötu 3. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðjarkaupstað 14. nóvember 2022.

Málsatvik og rök: Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar hinn 31. ágúst 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars þar sem hámarksbyggingarmagn á lóðinni að Selvogsgötu 3 var aukið í 225 m2, hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar var aukið og gerður nýr byggingarreitur fyrir geymslu í NV-horni lóðarinnar.

Kærandi telur að ekki séu skilyrði til samþykktar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Hafi stækkun lóðarinnar að Selvogsgötu 3 þar, sem nú eigi að heimila byggingu skúrs, ekki öðlast lögformlegt gildi og líta beri á deiliskipulagið fyrir svæðið eins og það hafi verið áður en stækkuninni hefði verið bætt við, en þá hefði lóðarparturinn ekki tilheyrt þeirri lóð.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að fyrirhugaður skúr muni ekki hafa nein áhrif á lóð kæranda þar sem fyrir sé hár steyptur veggur og einnig sé þak á garðskúr kæranda sem nái meðfram veggnum. Ef einhver skuggamyndun verði af fyrirhuguðum skúr muni sá skuggi falla á þak geymsluskúrs kæranda.

 Niðurstaða: Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefur ekki enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga 123/2010, en kærufrestur ákvarðana sem sæta opinberri birtingu telst frá birtingu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Hefur deiliskipulagsbreytingin ekki öðlast gildi og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

 Kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er vísað frá úrskurðarnefndinni.

80/2022 Sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 1. desember 2022, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2022 kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 um að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. júlí 2022, kærir eigandi Efri-Tungu II og helmings hlutar í Efri-Tungu, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022, að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og breytingu á hvíldartíma. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að synja umsókn leyfishafa um breytingu á rekstrarleyfi. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að yfirvofandi framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 25. ágúst 2022 var þeirri kröfu kæranda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 26. júlí 2022.

Málavextir: Skipulagsstofnun barst tilkynning 16. október 2020 frá Arctic Sea Farm ehf. og Fjarðalaxi ehf. um fyrirhugaða breytingu á eldissvæðum þeirra í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í breytingunni fólst tilfærsla á þremur eldissvæðum auk nýs eldissvæðis er nefnt var Háanes og mun liggja beint út af Örlygshöfn. Sömu félög sendu tilkynningu til Skipulagsstofnunar 11. maí 2021 um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma á eldissvæðum þeirra til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. áðurnefnda 6. gr. laga nr. 106/2000. Þá tilkynnti Arctic Sea Farm 16. september 2021 um breytt fyrirkomulag á eldissvæðum þess í Patreksfirði. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindra tilkynntra breytinga lá fyrir 8. nóvember s.á. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 12. desember s.á. kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. kærumál nr. 180/2021, en kröfu hans um ógildingu ákvörðunarinnar var hafnað með úrskurði uppkveðnum 12. september 2022.

Skipulagsstofnun barst tilkynning 14. janúar 2022 vegna fyrirhugaðrar notkunar ásætuvarna í sjókvíaeldi Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 31. mars 2022, en niðurstaða stofnunarinnar var sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Var sú ákvörðun einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, en í kærumáli nr. 41/2022 var kröfu um ógildingu hennar hafnað með úrskurði uppkveðnum 29. september 2022.

Hinn 20. apríl 2022 birti Matvælastofnun á heimasíðu sinni tillögu að breytingu á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma. Kom kærandi að athugasemdum vegna tillögunnar. Hinn 15. júlí 2022 gaf Matvælastofnun út breytt rekstrarleyfi í samræmi við auglýsta tillögu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun lúti að því að heimila Arctic Sea Farm ehf. að stunda sjókvíaeldi laxfiska 400 m utan við netlög fasteignar kæranda. Jörðin Efri-Tunga njóti umfangsmikillar verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en þar að auki sé æðarvarp meðal hlunninda jarðarinnar. Hagsmunir kæranda byggi á því að jörðin verði ekki fyrir tjóni vegna umhverfisáhrifa sem leiði af breytingum rekstrarleyfisins. Eigi hann því beinna, verulegra, sérstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og uppfylli því skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Byggt sé á því að skort hafi á það í umsókn um breytingar á eldissvæði að framvísað væri heimildum til hagnýtingar þess særýmis sem stækkun eldissvæðisins taki til. Af þeim sökum hafi Matvælastofnun farið út fyrir valdmörk sín, en skylt hefði verið að krefjast gagna um að gætt hefði verið þeirrar málsmeðferðar sem geti í 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. 3. gr. laga nr. 101/2019, þar sem kveðið sé á um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra.

Með lögum nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengist fiskeldi, hafi verið mælt fyrir um lagaskilaákvæði sem orðið hafi að ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008. Ákvæðið hljóði svo: „Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lokið fyrir gildistöku þessa ákvæðis eða frummatsskýrslu hefur verið skilað fyrir gildistöku þessa ákvæðis til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, fer eftir eldri ákvæðum laganna.“ Núverandi starfsemi leyfishafa byggi á umsóknum sem hafi haldið gildi sínu vegna þessa ákvæðis.

Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar eftir 1. umræðu á Alþingi hafi komið fram að bráðabirgðaákvæðið lyti að því „hvernig fara skuli með umsóknir sem þegar liggja fyrir um rekstrarleyfi til fiskeldis.“ Auk þess komi fram að með gagnályktun frá ákvæðinu sé ljóst að um „umsóknir sem berast eftir gildistöku laganna á hafsvæðum sem metin hafa verið til burðarþols fer samkvæmt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir í lögunum og því á úthlutunarregla 4. gr. a við um þau svæði og þau svæði sem ekki hafa verið metin til burðarþols.“ Sambærilegar athugasemdir hafi verið í nefndaráliti með breytingartillögu eftir 2. umræðu.

Með lögum nr. 101/2019 hafi verið innleidd í lög um fiskeldi nýtt ákvæði um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra, sbr. 4. gr. a. laganna. Ákvæðið geri ráð fyrir að til þess að taka í notkun ný eldissvæði þurfi framkvæmdaraðili fyrst að afla sér réttar yfir viðkomandi hafsvæði, síðan óska eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort viðkomandi framkvæmd þyrfti að undirgangast mat á umhverfisáhrifum og að lokum sækja um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Fái sá skilningur stoð í almennum athugasemdum frumvarps því er orðið hafi að lögum nr. 101/2019. Jafnframt sé ljóst að málsmeðferð 4. gr. a. eigi við hvort sem um sé að ræða nýtt eldissvæði eða breytingar á þegar úthlutuðu svæði og sé allur vafi um það atriði tekinn af í athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum nr. 101/2019.

Í 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi sé fjallað um breytingar á gildandi rekstrarleyfum til fiskeldis. Í 1. mgr. greinarinnar komi fram að Matvælastofnun sé heimilt að fenginni viðhlítandi umsókn að gera breytingar á eldistegundum, staðsetningu eldissvæða eða hvíldartíma. Ákvörðunarvald um þessa þætti sé þó ekki undir stofnuninni komið heldur þurfi atbeina annarra stjórnvalda eftir því í hverju breytingarnar felist hverju sinni. Breyting á staðsetningu eldissvæðis þurfi þannig að byggja á því að Hafrannsóknastofnun hafi skilgreint viðkomandi svæði sem eldissvæði og umsækjandi hafi fengið hinu breytta svæði úthlutað á grundvelli 4. gr. a. laga nr. 71/2008, sbr. 1. tl. 2. mgr. 13. g. reglugerðar nr. 540/2020. Engin gögn þar að lútandi hafi fylgt umsókn leyfishafa og því hafi Matvælastofnun borið að hafna umsókninni, sbr. 9. gr. laga nr. 71/2008. Með því að fallast á stækkun eldissvæðis við Kvígindisdal hafi stofnunin farið út fyrir valdmörk sín.

Breytingin á eldissvæðinu við Kvígindisdal feli í raun í sér úthlutun á nýju svæði til viðbótar við önnur eldissvæði leyfishafa. Upphaflega hafi leyfishafi sótt um stækkun svæðisins við Kvígindisdal auk nýs svæðis við Tungurif. Vegna matsskyldufyrirspurnar hafi Skipulagsstofnun bent á að úthlutun nýs eldissvæðis væri utan valdmarka stofnunarinnar, en hafi talið sér heimilt að taka til matsskylduákvörðunar tillögu um stækkun sem næði yfir bæði svæðin. Í kjölfarið hafi leyfishafi sótt um eina stækkun á eldissvæðinu við Kvígindisdal sem næði til beggja svæða og alls særýmisins þar á milli. Í athugasemdum leyfishafa við kæru kæranda í máli nr. 180/2021 segi að breytingin sé „eingöngu til þess fallin að koma auka kvíum fyrir og það á sama stað og ef um auka eldissvæði væri að ræða.“ Af þessu megi skýrlega ráða að umsókn leyfishafa um gríðarstóra stækkun á eldissvæði, þegar ófært hafi verið að óska eftir nýju svæði, hafi í raun hvort tveggja verið umsókn um stækkun á fyrra svæði og umsókn um nýtt eldissvæði sem ávallt yrðu aðskilin innbyrðis af grynningum sem geri særýmið milli svæðanna ótækt til fiskiræktar. Bersýnilegt sé að Matvælastofnun hafi ekki haft heimild að lögum til töku slíkrar ákvörðunar. Stofnunin hafi því farið út fyrir valdmörk sín og um leið brotið gegn lögmætisreglunni og hinni almennu efnisreglu stjórnsýsluréttar um bann við misbeitingu valds á leiðum til úrlausnar máls.

Þá sé á því byggt að hin kærða ákvörðun byggi á ógildum matsskylduákvörðunum Skipulagsstofnunar.

Málsrök Matvælastofnunar: Matvælastofnun gerir kröfu um frávísun málsins þar sem skorti lögvarða hagsmuni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af fyrri úrskurðum nefndarinnar sé ljóst að nálægð ein og sér geti tæplega verið grundvöllur kæruaðildar, sbr. úrskurð í máli nr. 3/2020. Einnig sé rétt að benda á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-100/2020, en úrskurðurinn hafi verið staðfestur af Landsrétti, sbr. mál nr. 174/2021. Stofnunin fái ekki séð að jörðin Efri-Tunga hafi verið færð inn í náttúruminjaskrá í samræmi við lög nr. 60/2013 um náttúrvernd auk þess sem bent sé á að starfsemin verði í meira en 250 m frá helgunarsvæði æðarvarps, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl. Vart verði séð að hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar hafi nein áhrif á hagsmuni kæranda sem nokkru nemi umfram þá hagsmuni sem almennir teljist.

Með lögum nr. 101/2019 hafi verið gerðar umfangsmiklar breytingar á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Fyrirkomulagi úthlutunar eldissvæða hafi verið breytt í þá veru að eldissvæði skyldu fyrst burðarþolsmetin og áhættumetin með tilliti til erfðablöndunar, þeim skipt á grundvelli tillögu Hafrannsóknastofnunar og loks auglýst opinberlega til úthlutunar. Þær breytingar hafi ekki enn raungerst í stjórnsýsluframkvæmd vegna ákvæðis II til bráðabirgða í lögum um fiskeldi sem kveði á um að meðferð og afgreiðsla umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem metin hafa verið til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé lokið fyrir gildistöku ákvæðisins eða frummatsskýrslu skilað fyrir gildistöku þess ákvæðis til Skipulagsstofnunar fari eftir eldri ákvæðum laganna. Hið kærða rekstrarleyfi hafi verið gefið út í samræmi við bráðabirgðaákvæðið.

Það hafi ekki verið ætlun löggjafans að ráðast í skiptingar á svæðum sem þegar væru í nýtingu, þ.m.t. í Patreksfirði. Í kæru séu rakin ummæli í nefndarálitum, en þar sé vissulegt nefnt að úthlutunarregla samkvæmt breytingalögum nr. 101/2019 eigi einnig við þau hafsvæði sem ekki séu nýtt á grundvelli burðarþolsmats. Þar sé hins vegar svo að Patreksfjörður teljist vera fullnýtt sjókvíaeldissvæði m.t.t. útgefins burðarþolsmats og áhættumats erfðablöndunar. Breyting á rekstrarleyfi kæranda feli ekki í sér úthlutun á frekari réttindum og þar af leiðandi sé ekki gengið á möguleika nokkurs aðila til uppbyggingar á fiskeldi í firðinum. Tilgangur þess sé að bæta rekstrarskilyrði þegar útgefins leyfis sem samræmist markmiði laga um fiskeldi, sbr. 1. gr. þeirra laga.

Í kæru sé vísað til 1. tl. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 540/2012 um fiskeldi þar sem kveðið sé á um að í umsókn um breytingu á rekstrarleyfi skuli tiltaka hvort hún sé í samræmi við margnefnda skiptingu Hafrannsóknastofnunar í eldissvæði. Reglugerðin taki ekki til málsmeðferðar vegna umsókna leyfishafa vegna gildistökuákvæðis 64. gr. reglugerðarinnar. Efnislega fari um meðferð umsóknar um breytingu á rekstrarleyfinu eftir ákvæðum eldri reglugerðar nr. 1170/2015.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að sá hluti kröfugerðar kæranda þar sem þess er krafist að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taki nýja ákvörðun um synjun umsóknar leyfishafa verði vísað frá. Lesa megi úr stjórnsýsluframkvæmd úrskurðarnefndarinnar að nefndin taki almennt ekki nýjar efnisákvarðanir í málum sem bornar séu undir hana. Þá sé þess krafist að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Málsmeðferð Matvælastofnunar hafi verið vönduð og að öllu leyti í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sérlaga sem um stofnunina gildi. Stofnunin hafi auglýst tillögu að breyttu rekstrarleyfi en við þá málsmeðferð hafi ein athugasemd borist og hafi hún verið frá kæranda. Í greinargerð hinnar kærðu ákvörðunar séu athugasemdir kæranda raktar sem og rökstuðningur Matvælastofnunar, þar sem sjónarmið kæranda séu hrakin. Gætt hafi verið að andmælarétti og áhrif breytinganna rannsökuð til hlítar. Hvorki séu form- né efniságallar á hinni kærðu ákvörðun.

Krafa kæranda sé reist á þeim forsendum að tilfærsla á staðsetningu fiskeldis leyfishafa í Patreksfirði feli í raun í sér úthlutun á nýju eldissvæði á grundvelli 4. gr. a. laga nr. 71/2008 um fiskeldi og að breyting á tilhögun úthlutunar hafsvæða til fiskeldis sem tekin hafi verið upp með lögum nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, eigi við um öll hafsvæði sem tekin verði undir fiskeldi eftir gildistöku laganna. Báðar forsendurnar séu rangar. Fyrir það fyrsta feli hin kærða ákvörðun ekki í sér aukningu á framleiðslu eldisfisks og þegar af þeirri ástæðu geti ekki falist í breytingunni „úthlutun eldissvæðis“ eins og það hugtak sé skilgreint í áðurnefndri 4. gr. a., en augljóst sé af ákvæðinu að þar sé fjallað um aðferð við úthlutun á heimildum til að ala tiltekið magn eldisfisks á skilgreindu eldissvæði. Ákvæðið eigi ekki við um breytta staðsetningu.

Í þeim nefndarálitum atvinnuveganefndar sem kærandi vísi til sé vikið að nýjum umsóknum sem bærust eftir gildistöku laga nr. 101/2019 á hafsvæðum sem þá hefðu verið metin til burðarþols. Segir í báðum nefndarálitum að gagnályktun frá ákvæðinu leiði til þess að um slíkar úthlutanir fari samkvæmt 4. gr. a. laga nr. 71/2008. Engin slík regla komi þó fram í ákvæðinu sjálfu. Þá sé bent á að umfjöllunin lúti að nýjum umsóknum um eldi á lífmassa sem ekki hafi verið úthlutað með rekstrarleyfi, en ekki breytingar á gildandi leyfum. Hvað sem líði þýðingu framangreindra ummæla í álitum atvinnuveganefndar sé ljóst að sú regla, sem nefndin taldi eiga við með gagnályktun frá bráðabirgðaákvæði II og kærandi byggi á, eigi ekki við í dag. Löggjafinn hafi breytt lögum um fiskeldi með breytingalögum nr. 59/2021 og tekið þar af öll tvímæli um hvaða reglur gildi um útgáfu nýrra rekstrarleyfa á hafsvæðum sem metin hafi verið til burðarþols þegar breytingalög nr. 101/2019 hafi tekið gildi, sbr. bráðabirgðaákvæði IX í lögum um fiskeldi.

Hafsvæðið sem breytingin taki til sé hið sama og hafsvæðið sem núverandi starfsemi sé á að því leyti að þar gildi sama burðarþolsmat, það teljist til sama „fiskeldissvæðis“ og sama „sjókvíaeldissvæðis“, eins og þau hugtök séu skilgreind og notuð í lögum nr. 71/2008. Engar reglur mæli fyrir um að ekki megi stækka það svæði þar sem heimilað sé að stunda fiskeldi með breytingu á rekstrarleyfi. Stærð svæðisins, lögun og staðsetning innan viðkomandi hafsvæðis ráðist alfarið af þeim sjónarmiðum sem kveðið sé á um í lögum um fiskeldi og gildandi reglugerðum, sem fyrst og fremst lúti að því að lágmarka umhverfisáhrif og tryggja velferð eldisdýra. Ítarlegar og áralangar rannsóknir hafi sýnt að hin breytta staðsetning sé til þess fallin, jafnvel þó það feli í sér að stærri hafflötur sé tekinn undir starfsemi leyfishafa. Það eitt og sér geti aldrei leitt til ógildingar ákvörðunarinnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi gerir athugasemd við að Matvælastofnun krefjist tiltekinna málsúrslita. Aðilar að stjórnsýslumáli eigi almennt rétt á gera kröfu um málsúrslit en stjórnvald sem taki ákvörðun í máli sé ekki talinn aðili máls. Matvælastofnun hafi því engan rétt til að gera kröfu í málinu. Umsögn stofnunarinnar beri ekki með sér það hlutleysi sem stjórnsýslulög, sannleiksregla stjórnsýsluréttar og aðrar almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins leggi á stjórnvöld, þ.e. að gæta hlutleysis í málum og leita hinnar réttu lagalegu niðurstöðu. Vegna þeirra ummæla stofnunarinnar að ekki verði séð að jörðin Efri-Tunga hafi verið færð í náttúruminjaskrá sé bent á að leirurnar í Hafnarvaðli og skeljasandsfjörur Tungurifs, sem séu hluti af jörðinni Efri-Tunga, hafi verið færð í náttúruminjaskrá undir svæði nr. 308 og njóti því verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ummælin stafi annað hvort af þekkingarleysi eða vítaverðri vankunnáttu.

Matvælastofnun telji að meðferð umsóknar leyfishafa eigi að fara eftir eldri reglugerð um fiskeldi nr. 1170/2015 vegna gildistökuákvæðis 64. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um sama efni. Hér þurfi að líta til lögmætisreglu og reglna um rétthæð réttarheimilda. Þegar réttarheimildum af mismunandi rétthæð lýsti saman ráði rétthæð þeirra hvernig með skuli fara. Gildistökuákvæði reglugerðar nr. 540/2020 þurfi því að túlka með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Því sé andmælt að úrskurðarnefndin hafi ekki valdheimild til að taka nýja ákvörðun. Niðurstaða kærumáls hjá æðra stjórnvaldi eða úrskurðarnefnd geti verið frávísun, staðfesting, ógilding, breyting eða heimvísun. Ekkert í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála bendi til þess að einhver sérsjónarmið gildi um valdmörk nefndarinnar.

Leyfishafi haldi því fram að í greinargerð Matvælastofnunar með hinni kærðu ákvörðun hafi athugasemdir kæranda verið hraktar. Þær athugasemdir hafi að mestu lotið að fyrirsjáanlegum áhrifum hins nýja eldissvæðis á Örlygshafnarsvæðið. Engar rannsóknir eða umsagnir liggi fyrir sem lúti að þeim þáttum sem kærandi hafi bent á. Eina gagnið sem tengist beint áhrifum sjókvíaeldisins á umrætt svæði sé umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 9. júní 2022, varðandi fyrirspurn um hvort villtir stofnar laxfiska með sjálfbæra nýtingu væru í Örlygshöfn, en þar sé ekki að finna neitt mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á svæðið.

Leyfishafi dragi þá ályktun af almennum athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 101/2019 að úthlutunarregla 4. gr. a. í lögum um fiskeldi taki aðeins til hafsvæða sem ekki hefðu verið burðarþolsmetin við gildistöku laganna. Sú ályktun sé án tengingar við texta bráðabirgðaákvæðisins og gangi gegn því. Ákvæðið feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að stjórnvaldsákvörðun skuli lúta málsmeðferð samkvæmt gildandi rétti og beri því að túlka það þröngt. Reglan feli eingöngu í sér að tilteknar umsóknir sem hafi verið komnar á tiltekið stig málsmeðferðar við gildistöku breytingalaga nr. 101/2019 skyldu hljóta málsmeðferð samkvæmt eldri ákvæðum laganna. Ákvæðið geti ekki haft þá þýðingu að rekstrarleyfin sjálf og breytingar á þeim yrðu föst í eldra lagaumhverfi um ókomna tíð.

Bráðabirgðaákvæði III fjalli um þær aðstæður þegar rekstrarleyfi, byggt á umsókn sem hlotið hafi málsmeðferð eldri ákvæða laganna, sé fellt úr gildi vegna annmarka í málsmeðferð þeirrar tilteknu umsóknar. Eðli málsins samkvæmt eigi í slíkum tilvikum að endurupptaka málið á sömu forsendum og verið hafi til staðar í fyrri málsmeðferð. Reglan sé sanngjörn og skynsamleg en hafi ekki réttaráhrif út fyrir orðanna hljóðan.

Bráðabirgðaákvæði IX í lögum nr. 71/2008, sem bætt hafi verið við lögin með lögum nr. 59/2021, hafi verið sett til að mögulegt væri að fullnýta gildandi burðarþolsmat á tilteknum svæðum. Þar sem Hafrannsóknastofnun hafi ekki verið búin að afmarka eldissvæði, sbr. 1. mgr. 4. gr. a. laga nr. 71/2008, hafi ekki verið mögulegt að nýta þessar heimildir með því að úthluta nýjum eldissvæðum á grundvelli ákvæðisins. Ekkert í frumvarpinu eða hinum endanlega texta ákvæðisins mæli fyrir um að eldissvæði í Patreksfirði skuli fara eftir öðrum reglum en gildandi rétti hverju sinni.

Ljóst sé hver afstaða löggjafans hafi verið með hinum umdeildu lagaskilum og ítreki kærandi þau ummæli sem finna megi í nefndaráliti atvinnuveganefndar sem athugasemdir við 3. gr. í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 101/2019. Við túlkun lagaskilareglnanna beri að líta til markmiðs og tilgangs laganna, en lög nr. 101/2019 hafi verið sett með þann tilgang í forgangi að koma á nýju úthlutunarkerfi sjókvíaeldissvæða.

Gera verði greinarmun á þeim tilvikum þegar sótt sé um ný rekstrarleyfi annars vegar og þegar sótt sé um breytingu á gildandi rekstrarleyfi hins vegar. Bent sé á að samkvæmt skilgreiningu 5. tl. 3. gr. laga nr. 71/2008 sé eldissvæði skilgreint sem svæði þar sem fiskeldi sé leyft og afmarkað með sérstökum hnitum. Ef Matvælastofnun væri heimilt að gera breytingu á eldissvæði rekstrarleyfa án þess að fyrir lægi heimild frá ráðherra fyrir breyttu eldissvæði þá yrði tilgangur laga nr. 101/2019 hafður að engu, réttaráhrif 4. gr. a. myndu falla niður og engir rekstrarleyfishafar yrðu bundnir af hinu nýja úthlutunarkerfi.

Í kæru sé byggt á því að ákvörðun Matvælastofnunar hafi falið í sér hvort tveggja breytingu á eldissvæði og úthlutun nýs eldissvæðis. Hafi Matvælastofnun ekki haft heimild til að úthluta viðbótar eldissvæði vestan við grynningarinnar við Hafnarmúla, í mynni Örlygshafnar, hafi stofnuninni bersýnilega ekki verið heimilt að úthluta til leyfishafa risastóru eldissvæði sem náði til svæðis beggja megin við grynningarnar. Að fella ónothæft svæði fyrir sjókvíaeldi undir eldissvæði til þess eins að komast hjá flóknari málsmeðferð brjóti skýrlega gegn almennri efnisreglu stjórnsýsluréttar um bann við misbeitingu valds á leið til úrlausnar máls.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 um að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og breytingu á hvíldartíma.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta nema í undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kæranda skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Kærandi er eigandi jarðarinnar Efri-Tungu II og helmings hlutar í jörðinni Efri-Tungu, en báðar jarðirnar eru í Örlygshöfn í Patreksfirði. Hin kærða ákvörðun lýtur m.a. að breytingu á staðsetningu eldissvæðis framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm ehf. við Kvígindisdal, en með þeirri breytingu munu eldiskvíar verða staðsettar út af Örlygshöfn. Vegna nándar landareigna kæranda við það eldissvæði og með hliðsjón af hinum sérstöku landfræðilegu aðstæðum á svæðinu, þ.m.t. vegna sjónrænna áhrifa, er ekki hægt að útiloka að kærandi verði fyrir áhrifum af sjókvíaeldinu umfram aðra. Að virtum framangreindum sjónarmiðum um aðild að kærumálum verður kærandi því talinn eiga þá lögvörðu hagsmuni sem krafist er skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

_ _

Í kæru eru færð þau rök fram að matsskylduákvarðanir Skipulagsstofnunar frá 8. nóvember 2021 um breytta staðsetningu eldiskvía og hvíldartíma og frá 31. mars 2022 um heimild til notkunar ásætuvarna, séu haldnar ógildingarannmörkum. Kröfu um ógildingu þessara ákvarðana var hafnað í úrskurðum nefndarinnar uppkveðnum 12. september 2022 og 29. s.m. í kærumálum nr. 180/2021 og 41/2022. Verður þessum sjónarmiðum því hafnað.

_ _

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála er markmið þeirra að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Mat á yfirborðsvatnshloti skal byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við á. Umhverfismarkmið eru skilgreind eftir gerðum vatnshlota og skulu vera samanburðarhæf, sbr. 11. gr. laganna.

 

Í vatnavefsjá Umhverfisstofnunnar, sem Veðurstofan rekur, kemur fram að Patreksfjörður og Tálknafjörður séu sérstök vatnshlot strandsjávar. Fram kemur að bæði vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand fjarðarins sé óflokkað.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laga um stjórn vatnamála, skyldi ná umhverfismarkmiðum samkvæmt 11. gr. laganna eigi síðar en sex árum eftir að fyrsta vatnaáætlunin hefði verið staðfest og var gefinn frestur til þess, í ákvæði til bráðabirgða við lögin, að setja hana til 1. janúar 2018. Það dróst nokkuð uns vatnaáætlun var staðfest þann 4. apríl 2022 sem tekur til áranna 2022–2027. Þar eru upplýsingar um stöðu skilgreindra vatnshlota ásamt því að þar eru sett umhverfismarkmið fyrir þau og gerð áætlun um nauðsynlegar verndaraðgerðir til þess að ná eða viðhalda góðu ástandi einstakra vatnshlota.

Í vatnaáætluninni er um viðmiðunarmörk fyrir ástand strandsjávar vísað til skýrslunnar Gæðaþættir og viðmiðunaraðstæður strandsjávarvatnshlota sem Hafrannsóknastofnun gerði á árinu 2019. Með þeirri skýrslu eru prentuð bréfaskipti milli Hafrannsóknastofnunnar og Umhverfisstofnunnar vegna undirbúnings fyrstu vatnaáætlunar. Fjallað er um stöðu þekkingar og lagt til að nota fyrst og fremst styrk næringarefna til að skilgreina mörkin milli góðs ástands strandsjávar og ekki viðunandi ástands. Um leið verði beitt sérfræðimati vegna annarra þátta, þar sem þess verði þörf. Fram kemur að á þeim tíma hafi ekki verið hægt að búa til fimm flokka vistfræðilega ástandsflokkun á öllum gæðaþáttum þar sem nær öll gögn sem fyrirliggjandi væru kæmu frá vatnshlotum þar sem álag væri lítið.

Ákvæði laga nr. 71/2008 um fiskeldi sem varða burðarþol eru nátengd lögum um stjórn vatnamála. Í 6. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi segir að Matvælastofnun skuli hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem feli í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þolir samkvæmt burðarþolsmati. Mat á burðarþoli er skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Þar segir ennfremur að hluti burðarþolsmats sé að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir, að fenginni bindandi umsögn stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun skal vakta lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols og endurskoða matið svo oft sem þurfa þykir að mati stofnunarinnar. Skylt er að endurskoða rekstrarleyfi fiskeldis sé burðarþolsmat lækkað, sbr. 6. gr. b í lögum um fiskeldi.

Á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar má nálgast fyrirliggjandi burðarþolsmat Patreksfjarðar og Tálknafjarðar m.t.t. sjókvíaeldis sem síðast var endurskoðað í febrúar 2022. Þar segir að forsendur mats á burðarþoli séu reiknaðar með umhverfislíkani sem byggi á mati á áhrifum eldisins á gæðaþætti strandsjávarvatnshlota, sbr. reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Horft sé sérstaklega til eðlisefnafræðilegra gæðaþátta, svo sem súrefnisstyrks og styrks næringarefna, og líffræðilegra gæðaþátta, svo sem botndýra. Einkum sé það álag á hafsbotn og áhrif þess á lífríki botns nærri eldissvæðum sem hafi rík áhrif á mat á burðarþoli. Með tilliti til stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk telur Hafrannsóknastofnun að hægt sé að leyfa allt að 20 þúsund tonna eldi í Patreksfirði og Tálknafirði á ári. Gert er ráð fyrir að heildarlífmassi verði aldrei meiri en 20 þúsund tonn og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun yrði forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt yrði á raungögnum. Jafnframt er bent á að æskilegra sé að meiri eldismassi sé frekar utar í fjörðunum en innar.

Í skýrslu óháðrar nefndar þriggja sérfræðinga um athugun á aðferðafræði, áhættumati og greiningum á fiskeldisburðarþoli á vegum Hafrannsóknastofnunar, sem prentuð var á 150. löggjafarþingi (þskj. 2029) og er dagsett 21. maí 2020, eru athugasemdir sem benda má á til nánari skýringar. Þar segir að skilja ætti „burðarþol“ samkvæmt áætlun Hafrannsóknastofnunar, einungis sem efri mörk sem byggi á takmörkuðum fjölda viðmiða sem tengist lífrænu álagi, þ.e. súrefni, stöðu næringarefna og vistfræði sjávarbotnsins. Áætlað burðarþol teljist vera sá hámarkslífmassi sem haldi áhrifunum á botnvistkerfi, súrefnisstigi og uppsöfnun næringarefna neðan við viðmiðunarmörk. Í athugasemdum Hafrannsóknastofnunnar í skýrslunni er tekið undir þetta og segir þar að stofnunin hafi horft til þess að halda öllum þessum þáttum innan tilgreindra marka þeirra.

Í nóvember 2022 birti Hafrannsóknastofnun nýja skýrslu, „Vistfræðileg viðmið við ástandsflokkun strandsjávar“, sem unnin var samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun. Ráðgert er að hagnýta skýrslu þessa við ástandsflokkun strandsjávar á Íslandi eins og kveðið sé á um í lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Eru í henni lögð fram viðmið þriggja ástandsflokka fyrir strandsjó sem lýsa mjög góðu, góðu og ekki viðunandi ástandi. Við gerð skýrslunnar var lögð áhersla á að útbúa viðmið fyrir alla líffræði‐ og eðlisefnafræðilega gæðaþætti í strandsjó sem Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um að nota við ástandsflokkun í fyrsta vatnahring, á árunum 2022 til 2027.

Í gildandi burðarþolsmati fyrir Patreksfjörð er bent á að æskilegra sé að meiri eldismassi sé frekar utar í firðinum en innar. Þá hefur framkvæmdaraðili vísað til eigin mælinga á straumum. Er framkvæmdin því líkleg til að draga úr umhverfisálagi í firðinum miðað við óbreytt framleiðslumagn. Um leið verður að líta til þeirra verulegu krafna sem gerðar eru með leyfisveitingu til framkvæmdaraðila, um vöktun lífræns álags, sem byggja á forsendum um að náð sé umhverfismarkmiðum í samræmi við lög um stjórn vatnamála. Jafnframt skal bent á heimildir til að endurskoða burðarþol, svo oft sem þurfa þykir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. b. í lögum nr. 71/2008. Verður því ekki talið að skorti á fullnægjandi grundvöll að hinni kærðu ákvörðun hvað þennan þátt varðar.

_ _

Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að Matvælastofnun hafi ekki haft lagaheimild til að gera hinar kærðu breytingar á eldissvæðum í rekstrarleyfi, en skilja hefði átt umsókn leyfishafa sem beiðni um nýtt rekstrarleyfi fiskeldis, sem þá hefði borið að fara með samkvæmt 4. gr. a. laga nr. 71/2008.

Með lögum nr. 101/2019 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 71/2008, m.a. um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, opinbera auglýsingu svæðanna og um úthlutun þeirra samkvæmt hagstæðasta tilboði, sbr. 4. gr. a. Í b-lið 24. gr. breytingalaganna, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008, var af þessu tilefni mælt fyrir um lagaskil, þannig að kveðið var á um að um „meðferð og afgreiðslu“ umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem þá hefðu verið metin til burðarþols færi eftir eldri ákvæðum laganna að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Útgáfa rekstrarleyfis leyfishafa til sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði hvíldi á þessum fyrirmælum.

Með téðum breytingarlögum, nr. 101/2019, var gert ráð fyrir því, svo sem segir í skýringum með þeim, að Matvælastofnun muni „breyta ákvæðum rekstrarleyfa í samræmi við breytingar á útgefnu áhættumati erfðablöndunar eða breytingar á útgefnu burðarþoli“, sem um voru settar nýjar reglur með lögunum. Á þessum grunni eru fyrirmæli í lögunum og í 10. gr., sbr. 24. gr., reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Má til hliðsjónar einnig vísa til 2. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða við lögin, þar sem segir að gilt rekstrarleyfi á hafsvæði sem ekki er búið að meta til burðarþols haldi gildi sínu, en „skuli taka breytingum þegar burðarþolsmat hefur farið fram.“ Síðan segir: „Að öðru leyti gilda ákvæði laganna um slík rekstrarleyfi.“ Með þessu er gert ráð fyrir því að þær heimildir, sem í rekstrarleyfi felast, til að ala tiltekið magn af fiski, taki þeim breytingum sem leitt geta af lögum eða skilmálum leyfisveitingar, s.s. um breytingar á áhættumati erfðablöndunar og burðarþoli fjarðar.

Með 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 er kveðið á um að Matvælastofnun sé heimilt, að undangenginni umsókn, að gera breytingar á rekstrarleyfi fiskeldis varðandi eldistegundir, staðsetningu eldissvæða eða hvíldartíma. Meðal skilyrða þessa eru að framkvæmdinni sé lýst nægilega, þ.m.t. hvort hún sé í samræmi við skiptingu Hafrannsóknastofnunnar í eldissvæði, en slíkri skiptingu er ekki til að dreifa í Patreksfjarðarflóa. Stendur því slík ákvörðun ekki í vegi þess að afmörkun eldissvæðis í rekstrarleyfi sé breytt til þess vegar, sem gert var með hinni kærðu ákvörðun, en svo sem segir í umsögn Matvælastofnunar telst Patreksfjörður vera fullnýtt sjókvíaeldissvæði með tilliti til útgefins burðarþols og áhættumats erfðablöndunar.

_ _

Í gildi eru lög nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Með þeim var mörkuð stefna um að sett yrði strandsvæðisskipulag á afmörkuðum svæðum við Ísland. Var tekið fram í ákvæði I. til bráðabirgða að vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum skyldi hefjast 1. september 2018. Tillaga að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði, skv. 12. gr. laganna, var auglýst 15. júní 2022. Í 3. mgr. 4. gr. a. laga um fiskeldi er heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn hafi tillaga að standsvæðisskipulagi verið auglýst þegar umsókn var lögð fram, en svo hagar ekki til í máli þessu og því ekki skilyrði til að taka til athugunar hvort ástæða hefði verið til að fresta útgáfu hins kærða leyfis uns skipulagið öðlaðist gildi.

Á uppdrætti greindrar tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði má sjá að lega hins kærða leyfis hefur verið mörkuð sem „staðbundin nýting“ (SN), en með því er gert ráð fyrir starfsemi svo sem fiskeldi, skeldýrarækt, efnistöku og ræktun og slætti sjávargróðurs. Í greinargerð með tillögunni eru nánari ákvæði um reitinn, sem nefnist SN1 Kvígindisdalur. Þar segir m.a.: „Á skipulagsreitnum er leyfi til fiskeldis. Áformað er aukið fiskeldi innan reitsins.“ Síðar segir: „Reiturinn er að hluta innan siglingageira Ólafsvita sem hefur áhrif á fyrirkomulag búnaðar innan reitsins þar sem ekki má sigla nær jaðri sjókvíaeldisstöðva en 50 metra samkvæmt reglugerð um fiskeldi nr. 540/2020.“ Að lokum segir: „Við ákvörðun um leyfisveitingar skal leita umsagnar Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu um staðsetningu sjókvíaeldisstöðvar og festinga.“

Svo sem þarna kemur fram hagar svo til að hið kærða leyfi er að hluta til innan siglingageira Ólafsvita. Varðar þetta þann hluta þess sem nær til ráðgerðs nýs kvíastæðis utan Örlygshafnar. Af þessu tilefni vísast til 4. gr. laga nr. 132/1999 um vitamál, en þar segir að óheimilt sé að byggja hús eða mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki frá sjónum á þeim boga sjóndeildarhringsins þar sem því er ætlað að þjóna sjófarendum, og hæfilega langt til beggja handa. Getur Vegagerðin látið rífa húsið eða mannvirkið á kostnað eiganda þess ef brotið er á móti þessu. Í sömu lagagrein segir að óheimilt sé að setja upp ljós eða önnur merki sem kynnu að villa um fyrir sjófarendum. Þá vísast einnig til 6. mgr. 10. gr. sömu laga þar sem segir að leita skuli umsagnar Samgöngustofu um legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó, svo sem fiskeldiskvía, mælitækja í sjó og veðurdufla. Gildir þetta um öll mannvirki í sjó, einnig þau sem eru utan svæðis sem tilgreint er í 4. gr.

Nefndin leitaði upplýsinga hjá Matvælastofnun um hvort aflað hafi verið umsagnar Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu um staðsetningu sjókvíaeldisstöðvar og festinga samkvæmt hinu kærða leyfi. Svo var ekki samkvæmt svari stofnunarinnar. Tekið var um leið fram að umræddur ljósgeisli frá vita hafi einnig náð inn á eldissvæðið, fyrir stækkun þess, „þótt að það liggi í eðli hluta að um sé að ræða stærra svæði sem falli undir ljósgeisla með stækkun.“ Af þessu leiði, segir í bréfi stofnunarinnar, að leita þurfi lausna á því viðfangsefni að sætta saman siglingaleiðir á svæðinu og heimilaðan atvinnurekstur, óháð því hvort að umrædd breyting á rekstrarleyfi hefði verið heimiluð eður ei.

Telja verður að botnföst mannvirki í sjó, svo sem fastar fiskeldiskvíar og tengd mannvirki, fóðurprammar og/eða aðstöðuhús á flotkví teljist til mannvirkja skv. 4. gr. laga nr. 132/1999, en mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast til mannvirkja skv. 13. tl. 3. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þá var við undirbúning hins kærða rekstrarleyfis ekki leitað álits hins sérfróða stjórnvalds, Samgöngustofu, um legu og merkingu þeirra mannvirkja, sem hér um ræðir, þrátt fyrir skýrt orðalag 6. mgr. 10. gr. laga nr. 132/1999 og þær sérstöku landfræðilegu aðstæður sem eru fyrir hendi. Í þessu fólst slíkur annmarki við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar að fella verður hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 um að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar breytta staðsetningu eldissvæðis sem kennt er við Kvígindisdal, en ákvörðun staðfest að öðru leyti.

55/2022 Móhóll

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík.  Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 28. september 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja frístundahús og frístandandi geymslu á lóðinni Móhól 7, Hvalfjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðanna Móhóls 13, 14, 9 og 10 og spildunnar Móhólsmela, í Hvalfjarðarsveit,  þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 28. september 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja frístundahús og frístandandi geymslu á lóðinni Móhól 7. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 8. júlí 2022.

Málavextir: Árið 2007 var deiliskipulagi Ölvers og Móhóls í Hvalfjarðarsveit breytt og meðal annars var bætt við átta nýjum lóðum fyrir frístundabyggð, Móhóll 4-15. Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt í sveitarstjórn 20. mars 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 1. júní 2007.

Lóðin Móhóll 7 var stofnuð í fasteignaskrá 27. maí 2008 og fékk hún landnúmerið L216474 og fasteignarnúmer F2334158. Við stofnun lóðarinnar var hún upphaflega skráð 3.000 m2 en stærð hennar var leiðrétt 4. júní s.á. og staðfest af þáverandi Fasteignamati Ríkisins 14. s.m. þannig að lóðin var skráð 3.136 m2. Stofnskjal lóðarinnar var innfært í þinglýsingarbók sýslumanns 19. september s.á. Upphaflegir landeigendur seldu lóðina með kaupsamningi og afsali, dags. 6. febrúar 2018, sem þinglýst var 8. s.m. Leyfishafi eignaðist Móhól 7 með afsali, dags. 10. október 2018, sem þinglýst var 14. s.m. Byggingarfulltrúi Hvalfjarðarsveitar samþykkti byggingaráform og gaf út byggingarleyfi 28. september 2021 fyrir byggingu frístundahúss og frístandandi geymslu á lóðinni Móhóli 7.

 Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í kjölfar kaupa þeirra á lóðinni Móhólsmelum og lóðunum Móhól 13, 14, 9 og 10 árið 2021 hafi komið í ljós ósamræmi milli þinglýstra gagna og upplýsinga og afstöðu eigenda lóða um staðsetningar þeirra. Lóðin Móhólsmelar sé samkvæmt fasteignaskrá 36 ha, en á svæðinu hafi verið unnið deiliskipulag sem geri ráð fyrir lóðunum Móhól 1-15. Stofnskjal vegna lóðarinnar Móhóls 7 sé dagsett 23. maí 2008 og því hafi verið þinglýst en ekki liggi fyrir að neinn uppdráttur af mörkum lóða hafi fylgt þinglýsingu. Með kaupsamningi og afsali, dags. 6. febrúar 2018, hafi þáverandi eigendur lóðanna Móhóll 7 og 8 selt lóðirnar og samkvæmt samningnum séu landnúmer lóðanna tilgreind 216474 og 216475 og þær sagðar vera 3.000 og 4.000 m2 samkvæmt uppdrætti. Lóðunum hafi svo verið afsalað til núverandi eiganda 10. október 2019.

Kærendur hafi orðið þess varir sumarið 2021 að eigandi Móhóls 7 og 8 byggði á því að staðsetning lóðanna færi eftir deiliskipulagstillögu frá árinu 2006, en ekki á deiliskipulagstillögu frá 2005 sem sé þinglýst með fyrsta afsali um lóðirnar. Haft hafi verið samband við sveitarfélagið vegna lóðanna og óskað eftir afriti af uppdrætti sem hefði átt að fylgja stofnskjali um staðsetningu þeirra. Var sveitarfélagið einnig upplýst um að þinglýst skjöl, þ.e. deiliskipulagstillaga frá 2005, sýndi lóðina Móhól 7 á öðrum stað en deiliskipulagið frá 2006. Haft hafi verið samband við sveitarfélagið að nýju 3. maí 2022 og þá hafi kærendur fengið upplýsingar um að eigandi Móhóls 7 hefði fengið útgefið byggingarleyfi haustið 2021. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem kærendur hefðu fengið upplýsingar um byggingarleyfið þrátt fyrir að hafa verið í samskiptum við sveitarfélagið fyrr á árinu.

Útgáfa umrædds byggingarleyfis byggi ekki á fullnægjandi heimildum á sviði skipulags- og mannvirkjalöggjafar auk þess sem byggingarleyfið varði svæði sem þinglýst gögn staðfesti ekki að tilheyri eiganda Móhóls 7. Honum hafi verið sent erindi þar sem lögð var fram tillaga um lagfæringu á lóðarmálum til samræmis við þinglýst gögn þannig að eigandi fengi fullgilt stofnskjal fyrir lóð nyrst á svæðinu sem væri staðsett sem næst þeirri tilgreiningu sem þinglýsti deiliskipulagsuppdrátturinn frá 2005 sýni. Sveitarfélaginu hafi verið ljóst eða mátt vera ljósir þeir annmarkar sem væru á eignarheimild eiganda lóðarinnar og „skorts á staðsetningu hennar“. Skilyrði útgáfu byggingarleyfis, sbr. gr. 2.3.7. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé að fyrir liggi gögn sem sýni fram á eignarheimildir. Ekki hafi legið fyrir uppdráttur staðfestur af þinglýstum eigendum um afmörkun lóða, sbr. stofnskjal, og hafi lóðirnar verið stofnaðar án lögformlegrar staðsetningar af hálfu landeigenda. Stærð lóðarinnar hafi verið breytt úr 3.000 m2 í 3.136 m2. Einn kærenda hafi fyrir útgáfu byggingarleyfisins upplýst sveitarfélagið um að hann teldi þinglýst gögn sýna að lóðin Móhóll 7 væri á öðrum stað en þinglýstur lóðarhafi teldi lóðina vera. Sú staða hefði átt að leiða til höfnunar byggingarleyfis eða í öllu falli frekari rannsóknar máls og andmælaréttar kærenda, áður en ákvörðun væri tekin.

Þinglýst eignarhald á Móhól 7 segi ekkert til um staðsetningu og afmörkun lóðarinnar. Staðfesting á eignarhaldi sé því ekki nægjanlegt gagn í skilningi gr. 2.3.7. byggingarreglugerðar. Sveitarfélagið hafi verið í óvissu um staðsetningu lóðarinnar þar sem ekki hafi legið fyrir hnitsettar eða stafrænar útgáfur af deiliskipulagi svæðisins frá 2006. Það, að sveitarfélagið hafi haft upp á slíkum teikningum árið 2021, geti ekki með neinum hætti verið ígildi eða komið í staðin fyrir þá lögbundnu kröfu að landeigandi þurfi að staðfesta afmörkun lóða úr eignarhaldi hans.

 Athugasemdir Hvalfjarðarsveitar: Sveitarfélagið vísar til þess að á þeim tíma sem lóðin Móhóll 7 hafi verið stofnuð hafi 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 kveðið á um  að eigandi skuli gefa út stofnskjal fyrir hverja lóð eða heildarsafn lóða sem myndaðar séu í Landskrá fasteigna og að í stofnskjali skuli koma fram heiti landeignar, landnúmer lóða/-r, landnúmer þess lands sem lóðir eru teknar úr og fastanúmer hverrar lóðar eða jarðar sem hefði beina tilvísun í þá skika sem henni tilheyri. Ákvæðið hafi einnig kveðið á um að í stofnskjali eigi að koma fram afmörkun lóðar á uppdrætti sem staðfestur hafi verið af skipulagsyfirvöldum. Þessu hafi verið breytt með lögum nr. 83/2008 þar sem nú sé gerð krafa um að uppdráttur skuli vera hnitsettur en breytingin hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 2009 og því hafi ekki þurft hnitsettan uppdrátt við stofnun lóðarinnar Móhóls 7. Þrátt fyrir að það hafi ekki verið skylda sé skipulagsuppdráttur fyrir þann hluta deiliskipulagssvæðisins sem Móhóll 7 sé á, svæði A, hnitsettur að hluta. Var umræddur skipulagsuppdráttur sendur með stofnskjali lóðanna í þinglýsingu á sínum tíma og hafi fulltrúi sýslumannsins á Vesturlandi staðfest það. Skipulagsuppdrátturinn sé hins vegar í svo stóru broti að uppdrátturinn hafi ekki verið skannaður inn með stofnskjalinu auk þess að hann hafi verið geymdur sér en ekki í þinglýsingarbókinni sjálfri.

Aðkoma sveitarfélagsins að lóðarstofnuninni hafi einskorðast við það að stofna lóðina í þar til gerðum hugbúnaði og afhenda eiganda hennar að því loknu lóðarnúmer sem þurfti að koma fram í stofnskjalinu og svo afhenda þáverandi Fasteignamati ríkisins skráninguna til yfirferðar. Lóðin Móhóll 7 hafi verið formlega stofnuð í kerfinu „BYGGING“ af byggingarfulltrúa 27. maí 2008. Byggingarfulltrúi hafi tekið við áætluðum stærðum lóðanna frá eigendum til að byrja með og stofnað lóðirnar miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Fasteignamat ríkisins hafi að því loknu yfirfarið skráninguna og óskað eftir leiðréttingu á stærð lóðarinnar þar sem hún hafi ekki verið rétt samkvæmt deiliskipulaginu. Stærð lóðarinnar hafi verið lagfærð 4. júní s.á. og stofnun hennar þá staðfest af starfsmanni Fasteignamats ríkisins. Í kjölfarið hafi stofnskjal lóðarinnar verið sent í þinglýsingu og það verið innfært í þinglýsingarbók 19. september s.á. Frá þeim degi hafi lóðin Móhóll 7 verið skráð 3.136 m2 í landeignaskrá.

Ranglega sé haldið fram að ekki liggi fyrir staðfesting frá landeiganda um staðsetningu lóða við Móhól. Fyrir liggi hnitsett deiliskipulagsbreyting frá árinu 2006 sem útbúin hafi verið að undirlagi og í nafni þáverandi landeigenda. Þegar deiliskipulagsbreytingin hafi verið lögð fram hjá sveitarfélaginu hafi þáverandi landeigendur staðfest staðsetningu nýrra lóða sem fengu nöfnin Móhóll 4-15. Þá hafi deiliskipulagsuppdrátturinn verið lagður inn til þinglýsingar með stofnskjali lóðanna.

Rétt sé að með kaupsamningi og afsali um lóðirnar Móhóll 7 og 8 frá árinu 2018 hafi verið þinglýst uppdrætti samkvæmt deiliskipulagstillögu frá árinu 2005. Það hafi hins vegar ekkert vægi við mat á því hvort staðið hafi verið rétt að stofnun lóðanna við Móhól. Uppdrátturinn hafi ekki formlegt gildi og í umræddum kaupsamningi og afsali sé vísað til þess að lóðirnar Móhóll 7 og 8 séu með landnúmerið 216474 og 216475 og fastanúmer 233-4158 og 233-4159 sem séu réttu auðkennin samkvæmt Landskrá fasteigna. Fyrrum landeigendur hafi selt fleiri lóðir við Móhól frá stofnun þeirra og enginn vafi hafi verið á stærð eða staðsetningu þeirra lóða. Þar á meðal sé lóðin Móhóll 12 sem eigi lóðarmörk að Móhól 7. Óumdeilt sé að lóðin Móhóll 7 sé staðsett í samræmi við hnit- og málsett deiliskipulag sem þinglýst hafi verið með stofnskjali hennar og miðað við skráningu hennar í dag.

Staðsetning lóða við Móhól sé óumdeild. Þáverandi landeigendur lóða við Móhól hafi lagt fram deiliskipulagstillögu hjá sveitarfélaginu til staðfestingar. Þar hafi komið fram hnit í fjórum hornum lóðanna Móhóll 5 og 6 en þess utan séu aðrar lóðir nákvæmlega málsettar. Þá hafi deiliskipulagsuppdrátturinn fylgt með til þinglýsingar. Lóðin Móhóll 7 eigi lóðarmörk að Móhól 6 og því séu tvö horn lóðarinnar hnitsett. Mælingarmaður á vegum byggingarfulltrúa sveitarfélagsins hafi farið á vettvang til að mæla út fyrir leyfilegri staðsetningu mannvirkis á Móhól 7 og í framhaldi hafi verið sótt um byggingarleyfi. Að mælingu lokinni hafi byggingarfulltrúi gefið út leyfið þar sem umsóknin og framlögð fylgigögn hafi uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um útgáfu þess.

Treysta verði því sem þinglýst hafi verið hjá sýslumanni varðandi eignarhald lóða og sveitarfélagið sé ekki til þess bært að meta hvaða skjöl séu fullnægjandi um eignarhald. Haustið 2021 hafi sveitarfélagið áttað sig á að til staðar var hnitsett deiliskipulagsáætlun en erfitt sé að sjá það á því eintaki sem finna megi skannað inn á skipulagssjá Skipulagsstofnunar. Það hefði verið óeðlilegt ef sveitarfélagið hefði ekki stuðst við slík gögn um stofnun og staðsetningu lóðarinnar sem stafað hafi frá landeigendum sjálfum. Landeigendur hafi með gerð deiliskipulagsins staðfest afmörkun umræddra lóða gagnvart sveitarfélaginu með skýrum og lögformlega fullnægjandi hætti og á þeim grundvelli hafi sveitarfélagið gefið hið kærða byggingarleyfi út til þinglýsts eiganda lóðarinnar Móhóls 7. Þá hafi deiliskipulagsuppdrættinum verið þinglýst með stofnskjali lóðarinnar.

 Málsrök leyfishafa: Bent er á að málið varði einkaréttarlegan ágreining sem eigi rætur að rekja til deiliskipulags svæðisins sem um ræði, Móhóls í Hvalfjarðarsveit. Gildandi deiliskipulag svæðisins sé upprunalega frá 1997 en gerðar hafi verið breytingar á því árið 2006. Þá hafi m.a. verið bætt við 8 lóðum fyrir frístundabyggð. Með breytingunum hafi fylgt uppdráttur af svæðinu þar sem gerð var grein fyrir hinum nýju lóðum og þær merktar lóðanúmerum á uppdrættinum, þar á meðal lóðir nr. 7 og 8. Lóð nr. 7 hafi verið skráð 3.136 m2 en lóð nr. 8 4.400 m2. Breytingarnar hafi verið samþykktar 8. mars 2006 og feli í sér gildandi deiliskipulag. Árið 2008 hafi landeigendur stofnað lóðirnar Móhól 4 og Móhól 7-15 en svo virðist sem stofnskjalið hafi verið háð nokkrum annmörkum. Uppdráttur sem hafi átt að fylgja stofnskjalinu hafi ekki fundist sem og að lóðarstærðir sem tilgreindar voru í skrám Fasteignamats ríkisins hafi ekki verið í fullu samræmi við þær stærðir sem tilgreindar séu í gildandi deiliskipulagi. Í útprentuninni sé lóðin Móhóll 7 skráð 3.000 m2 og Móhóll 8 skráð 4.000 m2. Ljóst sé samkvæmt núgildandi skráningu að stærð þeirra lóða og annarra lóða sem voru stofnaðar á sama tíma sé í samræmi við tilgreiningu deiliskipulags frá 2006 þar sem lóð nr. 7 sé 3.136 m2 og lóð nr. 8 sé 4.400 m2.

Árið 2018 hafi lóðirnar Móhóll 7 og 8 verið seldar og í kaupsamningi og afsali hafi verið vísað til landnúmeranna 216474 og 216475 og tiltekið að samkvæmt uppdrætti mældust þær 3.000 m2 og 4.000 m2. Á uppdrætti sem fylgt hafi kaupsamningnum væru lóðir 7 og 8 nyrstar á svæðinu, norðan við lóðir nr. 6 og 9. Þá hafi lega svæðisins einnig verið önnur en í gildandi deiliskipulagi. Við þennan uppdrátt sé hins vegar að athuga að lóðir nr. 7 og 8 voru tilgreindar 4.000 m2 að stærð hvor en ekki 3.000 m2 og 4.000 m2 sem hafi verið í ósamræmi við kaupsamning. Árið 2019 hafi leyfishafi keypt lóðirnar Móhól 7 og 8. Í afsali hafi verið vísað til landeignanúmeranna 216474 og 216475 og stærðir lóðanna tilgreindar sem 3.136 m2 og 4.400 m2. Árið 2021 hafi kærendur keypt lóðir á svæðinu og í kjölfarið hafi sprottið upp ágreiningur sem leyfishafi átti sig ekki á enda hafi þeim mátt vera ljóst hvaða lóðir með tilgreindum landeignanúmerum þau hafi keypt.

Bent er á að byggingarleyfið hafi verið gefið út 28. september 2021 en kæran hafi borist 30. maí 2022. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Kærendur hafi staðið í mikilli rannsóknarvinnu tengdu þessu máli auk þess að eiga nokkrar lóðir á umræddu svæði og hafi því augljóslega orðið vör við framkvæmdir leyfishafa löngu fyrir þann tímapunkt sem kærendur haldi fram að sé sá tímapunktur sem þeir hafi orðið varir við hið útgefna byggingarleyfi. Þá hafi þeim í öllu falli mátt vera kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins löngu áður. Verði því að telja að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst.

Kærendur byggi málatilbúnað sinn á því að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis hafi ekki verið uppfyllt og vísi til gr. 2.3.7. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem kveðið sé á um að umsókn um byggingarheimild fylgi gögn sem sýni fram á eignarheimildir. Umsókn leyfishafa hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis, þar á meðal gögn sem sýndu fram á eignarheimildir. Sömu landeignarnúmer hafi fylgt lóðunum frá stofnun þeirra árið 2008 og lóðirnar verið í samræmi við gildandi deiliskipulag.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að umfjöllun Hvalfjarðarsveitar um verklag við stofnun lóða sé villandi varðandi aðkomu sveitarfélagsins við stofnun lóða á þessum tíma. Ljóst sé að sveitarfélagið hafi átt að gæta að afmörkun lóða, þ.e. á grundvelli hnitaskrár og uppdrátta. Engin hnitaskrá hafi legið fyrir vegna lóðanna við Móhól sbr. stofnskjal lóðanna, dags. 23. maí 2008, og að enginn uppdráttur af lóðunum hafi verið staðfestur af sveitarfélaginu. Ágallar á aðkomu sveitarfélagsins við lóðastofnunina séu grunnurinn að því að síðari aðkoma Fasteignamats ríkisins og þinglýsingastjóra séu einnig ófullnægjandi. Órökrétt sé að vísa til þess að deiliskipulagsuppdrátturinn vegna Móhóla hafi falið í sér afmörkun lóðanna þar sem ósamræmi er um stærð lóða samkvæmt stofnskjalinu annars vegar og deiliskipulagsuppdrættinum hins vegar.

Misskilnings gæti um fyrirkomulag þinglýsingar. Afhending Fasteignamats ríkisins til þinglýsingar felist í því að stofnunin hafi staðfest skráningu byggingarfulltrúa í Landsskrá fasteigna en það sé hins vegar landeigandi sem færi stofnskjal til þinglýsingar ásamt staðfestum uppdrætti eða hnitaskrá. Þá verði ekki séð að staðfesting frá sýslumanni breyti stöðu málsins. Skjal sem finnist lagt til hliðar á skrifstofu sýslumanns hafi ekki verið þinglýst ef það komi ekki fram í opinberri þinglýsingaskráningu. Þinglýsing felist í slíkri skráningu en ekki stimplun skjalsins.

Umfjöllun sveitarfélagsins staðfesti það sem fram hafi komið í kæru að því hafi verið ljósir annmarkar á afmörkun umræddrar lóðar og þar af leiðandi hafi þinglýsingarvottorð um eignarhald hennar verið háð óvissu um það hvaða land fylgdi lóðinni. Því falli málið undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar þar sem óvissa sé um afmörkun, staðsetningu og stærð lóðarinnar sem þinglýsingarvottorðið snúi að. Fullyrðingar leyfishafa um að kærendur hafi fengið upplýsingar um hið kærða byggingarleyfi fyrr en gerð hafi verið grein fyrir í kæru séu rangar. Slíkt sé ekki stutt neinum gögnum og engar þær aðstæður hafi verið til staðar að þeir hafi mátt vita af byggingarleyfinu fyrr.

 Viðbótarathugasemdir Hvalfjarðarsveitar: Á þeim tíma sem lóðin Móhóll 7 hafi verið stofnuð hafi 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 ekki gert kröfu um að í stofnskjali væri kveðið sérstaklega á um stærð lóðar, heldur aðeins að hún væri afmörkuð á uppdrætti sem hafi verið staðfestur af skipulagsyfirvöldum. Draga megi það í efa að skilgreining stærða lóða við Móhól í fylgiskjali með stofnskjali lóðarinnar hafi nokkurt lögformlegt gildi eitt og sér eða geti með nokkrum hætti gengið framar þeim deiliskipulagsuppdrætti sem óumdeilanlegt sé að var til staðar þegar lóðin var stofnuð. Þannig hafi hlutverk lista sem hafi verið fylgiskjal stofnskjals vegna lóðanna Móhóls 4 og 7-15 einungis verið að tilgreina landnúmer þeirra lóða sem myndaðar voru við gerð skjalsins en hlutverk skipulagsuppdráttarins hafi verið að afmarka lóðirnar og þar með að ákveða stærðir þeirra. Uppdrátturinn hafi óumdeilanlega einnig verið fylgiskjal stofnskjalsins og hluti þess þegar það var afhent til þinglýsingar af landeigendum, sbr. dagbókarfærslu sýslumanns. Umræddur listi sem hafi ekki verið staðfestur af skipulagsyfirvöldum geti aldrei gengið framar þeim ákvörðunum sem komi fram um lóðarstærðir í hinu samþykkta deiliskipulagi sem telja verði hluta stofnskjals framangreindra lóða. Ákvæði 20. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 hafi kveðið á um sömu skilyrði fyrir þinglýsingu stofnskjals fasteignar og 14. gr. laga nr. 6/2001. Samkvæmt því hefði ekki átt að þinglýsa stofnskjalinu ef deiliskipulagsuppdrátturinn hefði ekki fylgt með því til þinglýsingarstjóra og hann metið stofnskjalið og fylgiskjöl þess fullnægjandi lögum samkvæmt.

Einkennilegt sé að halda því fram að enginn uppdráttur af lóðunum hafi verið staðfestur af sveitarfélaginu enda liggi fyrir í málinu deiliskipulagsuppdráttur, hnitsettur að hluta auk frekari málsetninga, sem staðfestur hafi verið af sveitarstjórn. Stærð lóðarinnar sé í samræmi við uppgefna stærð hennar í margumræddum deiliskipulagsuppdrætti og við útgáfu byggingarleyfisins hafi lóðin Móhóll 7 verið skráð 3.136 m2 að stærð, í samræmi við deiliskipulagsuppdrátt sem óumdeilanlega hafi verið hluti stofnskjals lóðarinnar frá stofnun hennar árið 2008. Verði því ekki séð að óvissa ríki um stærð og staðsetningu lóðarinnar. Tilvísun kæranda til afsals sem gert hafi verið um lóðina árið 2018 hafi ekkert gildi hvað þetta varði.

 —–

Aðilar hafa gert frekari grein fyrir atvikum málsins sem verður ekki rakið nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 28. september 2021 en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 30. maí 2022, eða rúmum átta mánuðum eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa lá fyrir. Kærendur byggja á því að þeim hafi ekki verið kunnugt um heimilaða byggingu frístundahúss á lóðinni Móhóll 7 fyrr en 3. maí 2022.

Samþykkt eða útgáfa byggingarleyfis sætir ekki opinberri birtingu og er að jafnaði aðeins tilkynnt umsækjanda leyfis. Leiðir af því að ekki er unnt að miða kærufrest þriðja aðila, sem kann að eiga hagsmuna að gæta, við dagsetningu ákvörðunar byggingarfulltrúa. Samkvæmt upplýsingum frá Hvalfjarðarsveit hófust framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi ekki fyrr en vorið 2022. Þá voru kærendur ekki upplýstir af sveitarfélaginu um hið umdeilda byggingarleyfi fyrr en í maí s.á. Verður upphaf kærufrests í máli þessu því miðað við þann tíma sem kærendur halda fram að þeim hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun enda liggja ekki vísbendingar fyrir um að þeim hafi mátt vera kunnugt um hana fyrr. Telst kæran því hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

 Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir frístundahúsi og frístandandi geymslu á lóðinni Móhól 7 í Hvalfjarðarsveit. Sú lóð er skráð í landeignaskrá með landeignanúmerið L216474 og í fasteignaskrá með fasteignarnúmerið F2334158. Lóðin er afmörkuð á gildandi deiliskipulagsuppdrætti frístundabyggðar í landi Hafnar, Ölvers og Móhóls, í samræmi við  breytingar á upphaflegu deiliskipulagi sem tóku gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. maí 2007.

Fyrir liggur að leyfishafi er eigandi lóðarinnar Móhóls 7 samkvæmt afsali, dags. 10 október 2019, sem þinglýst var 14. s.m. Þinglýsingum fylgir ákveðinn áreiðanleiki að lögum og verður að styðjast við þær við töku stjórnvaldsákvarðana hverju sinni á meðan þeim hefur ekki verið hnekkt. Þinglýsingastjórar hafa eftir atvikum heimildir til að endurskoða úrlausnir sínar í þinglýsingarmálum og heyrir ágreiningur um efni þinglýstra réttinda undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Var byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar því rétt að samþykkja umsókn þinglýsts eiganda fyrrgreindrar lóðar um byggingarleyfi enda voru byggingaráform í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Ágreiningur um eignarréttindi eða efni þinglýstra réttinda verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, þar á meðal ágreiningur sem kann að stafa af óvissu um afmörkun lóðar. Slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir dómstóla. Rétt þykir að taka hér fram að beinum eða óbeinum eignaréttindum verður ekki ráðstafað með deiliskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 28. september 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja frístundahús og frístandandi geymslu á lóðinni Móhól 7.

93/2022 Ástu-Sólliljugata

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2022, kæra á „athafnaleysi og synjun bæjaryfirvalda“ Mosfellsbæjar á erindum kæranda frá 26. ágúst 2019, 23. mars 2020, 3. febrúar 2022 og 7. júlí 2022 varðandi vegstæði norðan lóðar hans.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Ástu-Sólliljugötu 19-21, Mosfellsbæ, „athafnaleysi og synjun bæjaryfirvalda“ á erindum hans. Er þess krafist að Mosfellsbær gangi frá svæðinu norðan við lóðina Ástu-Sólliljugötu 19-21 í samræmi við deiliskipulag 2. áfanga Helgafellshverfis frá 13. desember 2006. Skilja verður málsskot kæranda sem svo að kærðar séu synjanir bæjaryfirvalda á erindum hans og þess sé krafist að þær verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 21. september 2022.

Málavextir: Ástu-Sólliljugata í Mosfellsbæ er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag 2. áfanga Helgafellshverfis frá árinu 2006. Hinn 26. ágúst 2019 sendi kærandi erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar og óskaði hann þess að vegur norðan lóðarmarka Ástu-Sólliljugötu 19-21 upp að Helgafellslandi 1 yrði aflagður og að aðfluttur jarðvegur vegna vegarins yrði fjarlægður af lóðinni. Þá var farið fram á að landið norðan við lóðina yrði mótað frá lóðarmörkum upp í hlíðina norðan við núverandi veg og hæð lóðarmarka yrði því sem næst 66,1 metrum yfir sjávarmáli og hallandi þaðan upp í um 70 metra yfir sjávarmáli. Að auki yrði gengið frá Bergrúnargötu upp að Helgafellslandi 1 svo hægt væri að ganga frá lóðarmörkum Bergrúnargötu 7-9 og Ástu-Sólliljugötu 19-21. Í umsögn framkvæmdastjóra umhverfissviðs, dags. 7. október 2019 sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum 10. s.m. kom m.a. fram að kvöð væri um aðkomu að Helgafellslandi 1 að vestanverðu í þinglýstum gögnum. Vegurinn væri á einkalandi og yrði því ekki aflagður að svo komnu. Gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir að aðkomuvegur að Helgafelli 1 yrði um Bergrúnargötu en ekkert deiliskipulag væri í gildi fyrir landið norðan þess. Þá væri ekki mögulegt að fara út fyrir lóðir með landmótun þar sem landið norðan við Ástu-Sólliljugötu væri í einkaeigu. Tryggja þyrfti að nýtt deiliskipulag Helgafellslands spili saman við gildandi deiliskipulag 2. áfanga áður en farið yrði í framkvæmdir við veg sem tengi saman tvo skipulagsáfanga. Því væri illmögulegt að fara í framkvæmdir við umrædda tengingu fyrr en það lægi fyrir.

Kærandi áréttaði óskir sínar í bréfi til bæjarráðs, dags. 23. mars 2020. Á fundi sínum 2. apríl s.á. vísaði bæjarráð erindinu til umsagnar og afgreiðslu umhverfissviðs. Kærandi ítrekaði erindi sitt 17. ágúst 2020. Framkvæmdastjóri umhverfissviðs svaraði sama dag með tölvubréfi og var umsögnin frá 7. október 2019 meðfylgjandi. Fram kom m.a. að svör vegna lokunar vegarins væru óbreytt. Á meðan ekki væri búið að ljúka við skipulagningu svæðisins ofan við Ástu-Sólliljugötu væri ómögulegt að afleggja aðkomuveg að Helgafellslandi 1 sem og móta land og lækka utan lóðar Ástu-Sólliljugötu 19-21. Hinn 25. ágúst 2020 var haldinn fundur þar sem kærandi og starfsmenn sveitarfélagsins hittust á Ástu-Sólliljugötu 19-21 og mun fundarefni hafa verið mögulegur frágangur við baklóð. Í minnispunktum starfsmanna sveitarfélagsins vegna fundarins kemur fram að kærandi hafi óskað eftir að aðkomuvegur að Helgafellslandi 1 yrði færður, núverandi aðkomuvegur mokaður burt, land lækkað og göngustíg komið fyrir. Starfsmenn sveitarfélagsins hefðu þá bent á að ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir svæðið fyrir ofan og því ekki heimilt að fara í þá framkvæmd að breyta aðkomuveginum. Ekki lægi fyrir hönnun að stíg eða fjárveiting nema í bráðabirgðafrágang á deiliskipulagsmörkum, eins og t.d. lagnaframkvæmdir og uppsetningu „vegagerðarsteina“. Aðkoma að Helgafellslandi 1 hefði verið á þessum stað frá árinu 1989 og yrði ekki færð nema eftir gildistöku deiliskipulags á svæðinu.

Í erindi kæranda, dags. 3. febrúar 2022, til bæjarráðs var vísað til fyrri erinda hans og þess að ekki hefðu borist efnisleg svör. Að auki fór hann fram á að sveitarfélagið félli frá því að leggja göngustíg norðan lóðarmarka hans. Á fundi bæjarráðs 3. mars s.á. var lögð fram umsögn framkvæmdastjóra umhverfissviðs en í henni var m.a. vísað til þess að um væri að ræða „þriðja samstofna bréfið“ sem og að fyrri erindi hefðu verið lögð fyrir bæjarráð og formleg svarbréf send kæranda. Svör sveitarfélagsins væru enn á þá vegu að ekki væri heimilt að hefja framkvæmdir á ódeiliskipulögðu landi og ekki væri unnt að leggja af aðkomuveg sem væri í notkun. Þá væri gert ráð fyrir gönguleið ofan lóðarmarka Ástu-Sólliljugötu 19-21 bæði í gildandi deiliskipulagi og vinnslutillögu fyrir Helgafellstorfu. Um væri að ræða mikilvægan tengistíg. Ekki væru rök fyrir því að fórna megingönguleiðum hverfisins samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar og gildandi deiliskipulagi 2. áfanga Helgafellshverfis. Bæjarráð synjaði erindi kæranda um að leggja af gönguleið ofan lóðamarka Ástu-Sólliljugötu með vísan til rökstuðnings í umsögn framkvæmdastjóra umhverfissviðs. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu bæjarráðs með bréfi, dags. 7. mars 2022.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa bréf, dags. 7. júlí 2022, en því fylgdu einnig fyrri erindi hans. Jafnframt vísaði hann til 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og fór fram á að byggingarfulltrúi færi fram á „við Mosfellsbæ sem lóðarhafa að ganga frá lóðinni/svæðinu norðan lóðarmarka lóðarinnar Ástu-Sólliljugötu 19-21 til samræmis við gildandi deiliskipulag“. Framkvæmdastjóri umhverfissviðs svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 20. júlí 2022. Þar kemur fram að eldri erindi liggi fyrir um málið og hefði þeim verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. Ekki liggi fyrir tímasettar áætlanir um uppbyggingu á svæðinu en landið sé að mestu í einkaeigu og samkomulag við lóðarhafa m.a. grundvöllur uppbyggingar á svæðinu. Var vísað til fyrra bréfs sveitarfélagsins, dags. 7. október 2019, og fyrri sjónarmið sveitar-félagsins ítrekuð.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að núverandi vegur á svæðinu eigi ekki að vera þar. Svæðið sé ófrágengið og ekki í samræmi við deiliskipulag frá 13. desember 2006. Jarðvatn og yfirborðsvatn hafi ekki verið fangað og leki það óhindrað inn á lóð kæranda af þessu ófrágengna svæði. Mikil skuggamyndun sé á íbúðir og truflun af umferð. Þess sé krafist að sveitarfélagið klári og lagi svæðið. Svæðið sé að lágmarki tveimur metrum of hátt.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að nokkuð mikil samskipti hafi verið við kæranda vegna erinda hans. Helgafellshverfi í Mosfellsbæ sé stórt svæði en samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 sé gert ráð fyrir 816 nýjum íbúðum í Helgafellslandi og landnotkun fyrir nýja íbúðabyggð um 64 hektarar. Uppbygging á svo stóru svæði sé áfangaskipt en lóðin við Ástu-Sólliljugötu tilheyri 2. áfanga uppbyggingarinnar. Fyrstu fjórir áfangar uppbyggingarinnar séu ýmist enn í uppbyggingu eða henni lokið en 5. og 6. áfangi séu í skipulagsferli auk þess sem unnin hafi verið drög að deiliskipulagi Helgafellstorfu, þ.e. svæðinu fyrir ofan lóðina Ástu-Sólliljugötu 19-21. Ekki liggi fyrir tímasettar áætlanir um uppbyggingu á því svæði en landið sé að mestu í einkaeigu. Samkomulag við lóðarhafa sé m.a. grundvöllur uppbyggingar á svæðinu.

Kærandi hafi ekki sætt sig við svör sveitarfélagsins við upphaflegu erindi hans en óskir hans nú séu þær sömu og komi fram í því erindi. Málin hafi hlotið afgreiðslu í bæjarráði og hafi niðurstöðu þeirra verið komið á framfæri við kæranda. Þá hafi nokkuð mikil samskipti verið við kæranda í ágúst 2020 og jafnframt verið fundað með honum og veittar leiðbeiningar um mögulegar útfærslur á lóðarfrágangi. Svör sveitarfélagsins hafi verið og séu enn á þá vegu að hvorki sé heimilt að hefja framkvæmd á ódeiliskipulögðu svæði né unnt að afleggja aðkomuveg sem sé í notkun. Þá sé gert ráð fyrir gönguleið ofan lóðarmarka Ástu-Sólliljugötu 19-21 í gildandi deiliskipulagi sem og vinnslutillögu fyrir Helgafellstorfu. Mikilvægt sé að stígurinn verði þar áfram en um sé að ræða tengistíg milli hverfishluta í Helgafellshverfi. Hefði verið gengið frá lóð við Ástu-Sólliljugötu 19-21 eins og stimplaðar og samþykktar teikningar geri ráð fyrir væru þau vandamál sem lýst sé í erindum kæranda ekki til staðar. Athugasemd hefði verið gerð við frágang lóðamarka norðurhliðar við lokaúttekt byggingarfulltrúa.

Aðkoma að íbúðarhúsi við Helgafellsland 1 hefði verið með umræddum hætti frá árinu 1989 en húsið sé á svæði sem enn hefði ekki verið deiliskipulagt. Nýr aðkomuvegur að Helgafelli 1 sé á vinnslustigi í nýrri deiliskipulagstillögu og því útilokað að færa veginn að svo komnu máli enda yrði þá aðkoma að áðurnefndu húsi tekin úr sambandi. Óskir kæranda séu ekki í samræmi við skipulag og varði ódeiliskipulagt svæði sem sé í einkaeigu. Auk þess hefði falist í erindum kæranda að sveitarfélagið myndi ráðast í breytingar á lóð sem ekki séu í samræmi við lóðarleigusamninga og skipulags- og byggingarskilmála sem gildi um lóðina. Kærandi hafi ekki lokið frágangi á lóð sinni í samræmi við innsend hönnunargögn en það sé forsenda þess að sveitarfélagið geti lokið frágangi utan lóðar.

Af orðalagi kærunnar megi ráða að kærðar séu afgreiðslur sveitarfélagsins á erindum kæranda. Bæjarráð hafi oftar en einu sinni fjallað um erindi hans og hafi síðasta afgreiðsla bæjarráðs verið gerð á fundi 3. mars 2022 og hafi hún verið kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. mars 2022. Það sé síðasta stjórnvaldsákvörðun sem tekin hefði verið í málinu af hálfu sveitarfélagsins og kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar því liðinn. Í bréfi kæranda, dags. 7. júlí 2022, séu gerðar sömu kröfur og í fyrri erindum sem þegar hefðu fengið afgreiðslu. Það skjóti skökku við að annars vegar sé vísað til athafnaleysis og hins vegar höfnunar á erindum. Sveitarfélagið hafi ekki sýnt af sé athafnaleysi í málinu, heldur þvert á móti tekið efnislegar stjórnvaldákvarðanir sem kynntar hafi verið kæranda. Í bréfi sveitarfélagsins, dags. 22. júlí 2022, felist ekki stjórnvaldsákvörðun heldur sé um að ræða samantekt á fyrri svörum til kæranda vegna sama máls þar sem erindum hans hafi verið hafnað. Með vísan til hinnar óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttarins um að skriflegum erindum beri að jafnaði að svara skriflega hafi verið eðlilegt að svara erindinu. Það geti ekki talist eðlileg túlkun á kærurétti til úrskurðarnefndar að málsaðili geti endurvakið kærufrest með því að senda stjórnvöldum sama erindi og þegar hefði hlotið afgreiðslu til að endurvekja kærufrest í máli sem þegar hafi verið afgreitt.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að fyrsta erindi sitt hefði hann sent inn til að vekja máls á því sem sveitarfélagið ætti eftir að gera á svæðinu, annað erindið hefði hann skrifað eftir fund með bæjarstjóra sem lagði til við hann að skrifa annað erindi með von um að málið yrði leyst og þriðja erindið hefði hann sent inn eftir að fulltrúi umboðsmanns Alþingis hefði lagt það til. Kærandi væri aðeins að fara fram á að sveitarfélagið gengi frá svæðinu samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Ekki verði séð að hægt sé að tala um kærufrest í máli þessu. Sveitarfélagið teldi sig geta tekið ákvörðun sem einhverskonar stjórnvald og að það sem það ákveði skuli standa óhaggað og því sé ekki hægt að taka málið upp eftir að einhver tími sé liðinn.

 Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla Mosfellsbæjar á fjórum erindum kæranda, dags. 26. ágúst 2019, 23. mars 2020, 3. febrúar 2022 og 7. júlí s.á. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum lúta öll erindin að mestu að beiðni kæranda um að vegur norðan lóðarmarka Ástu-Sólliljugötu 19-21 að Helgafellslandi 1 verði aflagður og gengið verði frá svæðinu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindmála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvald að taka ákvörðun um tiltekið efni.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr., eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni kæranda frá 26. ágúst 2019 var tekin fyrir og afgreidd í bæjarráði 10. október s.á. Þá var erindi kæranda frá 23. mars 2020 svarað með bréfi, dags. 17. ágúst s.á. Voru því annars vegar tæplega þrjú ár og hins vegar tvö ár liðin frá afgreiðslu greindra erinda þar til kæra barst og verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í erindi kæranda frá 3. febrúar 2022 eru fyrri erindi hans áréttuð og fylgdu jafnframt með fyrri bréf hans til bæjarráðs. Til viðbótar lagði kærandi einnig fram beiðni um að bæjarfélagið félli frá því að leggja göngustíg samkvæmt gildandi skipulagi og mótaði landið til samræmis við fyrri erindi kæranda. Bæjarráð synjaði erindinu á fundi sínum 3. mars 2022 og var kærufrestur því liðinn þegar kæra barst nefndinni hinn 22. ágúst 2022. Í bréfi, dags. 7. mars s.á., þar sem kæranda var tilkynnt um afgreiðslu málsins er hins vegar ekki að finna leiðbeiningar um málskotsrétt til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest svo sem bar að gera skv. 2. tl 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af því þykir afsakanlegt að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Stjórnvöld skulu samkvæmt skipulagslögum þróa byggð og landnotkun með bindandi skipulagsáætlunum. Kemur nánar fram í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hvaða leyti fjallað skuli um samgöngur í aðalskipulagi og hvernig skuli háttað umfjöllun í deiliskipulagi um samgöngukerfi. Tiltekin útfærsla á aðkomu að Helgafellslandi 1 er í gildandi deiliskipulagi 2. áfanga Helgafellshverfis, en tilefni kærumáls þessa er að framkvæmdir hafi ekki hafist í samræmi við þá útfærslu. Hafa nokkur samskipti verið milli kæranda og sveitarfélagsins vegna þessa og verður af þeim ráðið að kærandi vilji knýja á um framkvæmdir í samræmi við gildandi deiliskipulag. Hins vegar liggur ekki fyrir ákvörðun um að breyta þeim hluta deiliskipulagsins sem um ræðir eða að framkvæma á annan hátt en þar er mælt fyrir um. Í 37. gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Það má þó ljóst vera að framkvæmdaraðili eða sveitarfélag verða ekki knúin til framkvæmda samkvæmt deiliskipulagi enda geta framkvæmdir eðli málsins samkvæmt verið háðar ýmsum ytri aðstæðum. Þar sem ekki verður séð að fyrir liggi ákvörðun samkvæmt skipulagslögum sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga, verður þessum þætti málsins vísað frá nefndinni.

Með erindi kæranda frá 7. júlí 2022 fór hann fram á að byggingarfulltrúi beitti sveitarfélagið þeim þvingunarúrræðum sem honum eru falin í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og að gengið yrði frá „lóðinni/svæðinu í samræmi við gildandi deiliskipulag“. Beiðni kæranda lýtur að því að umræddur vegur yrði lagður af þar sem hann sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og að sveitarfélagið ráðist í tilteknar framkvæmdir. Þar sem lög nr. 160/2010 um mannvirki gilda ekki um vegi eða önnur samgöngumannvirki, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, verður ekki talið að það sé á hendi byggingarfulltrúa að taka ákvörðun í máli kæranda. Í 1. mgr. 28. gr. vegalaga nr. 80/2007 kemur fram að vegir skuli lagðir í samræmi við gildandi skipulags-áætlun eins og nánar er kveðið á um í skipulagslögum. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er það skipulagsfulltrúi sem tekur ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda sem brjóta í bága við skipulag eða eru án framkvæmdaleyfis. Þrátt fyrir að fram komi ákveðin afstaða til erindis kæranda í svari framkvæmdastjóra umhverfissviðs verður sú afstaða ekki talin binda endi á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga enda ekki um að ræða afgreiðslu skipulagsfulltrúa og/eða bæjarstjórnar sem til þess er bær að lögum að taka ákvörðun um hvort leggja skuli af umræddan veg eða ráðast í aðrar framkvæmdir sem eftir atvikum eru háðar framkvæmdaleyfi. Ekki liggur fyrir að framkvæmdastjóra umhverfissviðs hafi verið veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu slíkra mála í samþykkt sveitarfélagsins sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda. Hefur umrætt erindi kæranda því ekki verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli verður kærumáli þessu vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

65/2022 Kaupvangur

Með

Árið 2022, föstudaginn 25. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 31. maí 2022 um að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna íbúðar í húsinu að Kaupvangi 6 á Egilsstöðum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir HH ehf., eigandi eignarhluta 01-0201 í húsinu að Kaupvangi 6, Egilsstöðum, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 31. maí 2022 að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna íbúðar í húsinu á nefndri lóð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 6. september 2022.

Málavextir: Kærandi er eigandi eignarhluta í húsinu að Kaupvangi 6 en í einum eignarhluta þess er að finna íbúð. Kærandi sendi sveitarfélaginu Múlaþingi tölvupóst 5. janúar 2022 og spurði hvort leyfi væri fyrir þeirri íbúð. Í svari þjónustufulltrúa umhverfis- og framkvæmda-sviðs frá 11. s.m. kom fram að samkvæmt gildandi deiliskipulagi væru íbúðir heimilaðar á svæðinu. Jafnframt var bent á að þáverandi byggingarfulltrúi Fljótsdalshéraðs hefði í ágúst 2013 samþykkt umsókn um breytta notkun eignarhlutans í íbúð. Í tilefni af því benti kærandi á að eldra skipulag hefði heimilað verslun og þjónustu og að samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár væri eignarhlutinn skráður sem skrifstofa en ekki íbúð. Í kjölfarið áttu sér stað frekari samskipti þar til kærandi fór fram á hinn 4. maí 2022 að þvingunarúrræðum skv. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki yrði beitt. Með tölvupósti 31. s.m. synjaði byggingarfulltrúi beiðni kæranda með vísan til meðalhófs og þess að langt væri liðið frá því þáverandi byggingarfulltrúi Fljótsdals-héraðs hefði samþykkt breytta notkun, auk þess sem gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir íbúðum á svæðinu.

Málsrök kæranda: Kærandi óskar eftir að skorið verði úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

Athugasemdir Múlaþings: Sveitarfélagið vísar til þess að íbúð í húsinu að Kaupvangi 6 sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Skipulagsáætlunin hafi tekið gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 14. júlí 2021, en í greinargerð hennar segi að markmið skipulagsins sé m.a. að þétta byggðina til að stuðla að betri landnýtingu, skapa fjölbreytt og líflegt bæjarumhverfi „með möguleika fyrir íbúðir á efri hæðum við Göngugötu.“ Með orðinu „Göngugata“ sé átt við „strikið“ en göngugatan fyrir neðan Kaupvang 6 gangi undir því nafni. Þá komi fram í skilmálatöflu að hámarksfjöldi íbúða við Kaupvang 6 séu sex en í dag sé einungis ein íbúð til staðar. Sé því ljóst að íbúðin brjóti ekki í bága við skipulag.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt breytta notkun fyrir íbúð í greindu húsi hafi verið í gildi skipulag sem ekki hafi gert ráð fyrir íbúðabyggð á svæðinu. Einungis sé gert ráð fyrir íbúðum á þeim svæðum sem séu bleikmerkt á skipulagsuppdrætti. Engin grenndarkynning hafi farið fram á sínum tíma þegar byggingarleyfisumsókn fyrir breyttri notkun eignarhlutans hafi verið samþykkt. Þá hafi aðrir eigendur Kaupvangs 6 ekki fengið leyfi fyrir því að breyta eignarhlutum sínum í íbúðir.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til þvingunarúrræða ef byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. laganna brýtur í bága við skipulag. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og er tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Með heimildinni er sveitarfélögum gefinn kostur á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishags-munum. Með hliðsjón af þessu er einstaklingum ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af  fyrrgreindum almannahagsmunum og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Í ágúst 2013 samþykkti þáverandi byggingarfulltrúi Fljótsdalshéraðs umsókn um byggingarleyfi til að breyta skrifstofuhúsnæði í íbúð að Kaupvangi 6 en á þeim tíma mun ekki hafa verið gert ráð fyrir íbúðum á svæðinu samkvæmt deiliskipulagi. Hin kærða synjun um beitingu þvingunarúrræða var rökstudd með vísan til meðalhófs og að langt væri liðið frá því breytt notkun hefði verið samþykkt, auk þess sem gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir íbúðum á svæðinu.

Lóðin Kaupvangur 6 er á skilgreindu miðsvæði á Egilsstöðum, M1, samkvæmt Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008 – 2028. Í b-lið 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er miðsvæði skilgreint sem svæði „fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“ Í 1. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar segir að ef gert sé ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn landnotkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum.

Í greinargerð fyrrgreinds aðalskipulags segir um miðsvæði M1 að heimilaðar séu nýbyggingar, viðbyggingar og stækkanir þannig að þær falli að landi, yfirbragði byggðar sem fyrir sé og hlutverki svæðisins sem miðkjarna. Leitast verði við að þétta byggðina þar sem tækifæri er til og að beina nýrri verslun og þjónustu á miðsvæði. Þá gerir aðalskipulagið jafnframt ráð fyrir blönduðum svæðum, L1 – L5, með íbúðabyggð og tilheyrandi nærþjónustu ásamt fjölþættri atvinnustarfsemi sem samræmist íbúðabyggð.

Samkvæmt aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs er lóðin Kaupvangur 6 á miðsvæði en ekki á svæði fyrir blandaða byggð. Í áðurgreindri skilgreiningu skipulagsreglugerðar á landnotkuninni miðsvæði er ekki minnst á íbúðir eða íbúðabyggð. Verður því að líta svo á að íbúðir á miðsvæðum séu ekki heimilaðar nema það sé sérstaklega tekið fram í aðalskipulagi, sbr. 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð. Í gildandi aðalskipulagi er ekki fjallað um íbúðir á miðsvæði Egilsstaða. Er hin umdeilda íbúð því ekki í samræmi við skipulagsáætlun svæðisins og breytir engu þótt gert sé ráð fyrir íbúðum á svæðinu samkvæmt deiliskipulagi enda er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Með hliðsjón af framangreindu er sá annmarki á rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Múlaþings frá 31. maí 2022 um að synja beiðni um beitingu þvingunarúrræða vegna íbúðar í húsinu að Kaupvangi 6, Egilsstöðum.

56/2022 Höfðabakki

Með

Árið 2022, föstudaginn 25. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2022 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins að Höfða-bakka 1, matshluta 02.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. júní 2022, kærir einkahlutafélagið JB Eignir, eigandi hluta 1. og 2. hæðar í húsinu að Höfðabakka 1, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2022 að synja umsókn kæranda um breytingar á innra skipulagi hússins að Höfðabakka 1, matshluta 02. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. september 2022.

Málavextir: Með umsókn, dags. 18. mars 2022, sótti kærandi um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins að Höfðabakka 1, matshluta 02. Í breytingunni fólst að stigahús yrði gert að sérrými og að skrifstofurými í eignarhluta 02-0201 yrði breytt í fjórar íbúðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. apríl 2022 var umsókninni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Lá umbeðin umsögn fyrir 9. s.m. þar sem tekið var neikvætt í erindið. Skilgreina þyrfti sérstaklega í deiliskipulagi ef heimila ætti íbúðarhúsnæði á svæðinu en það hafi ekki verið gert í gildandi deiliskipulagi. Á fundi byggingarfulltrúa 10. s.m. var umsókn kæranda synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að fordæmi séu fyrir íbúðum í umræddu húsi en nú þegar séu um 20 íbúðir á 2. og 3. hæð hússins. Deiliskipulag svæðisins samþykki blandaða byggð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé lóðin Höfðabakki 1 á svæði skilgreindu sem miðsvæði, M4b, en í skipulaginu segi að ekki sé gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði á svæðinu nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Í deiliskipulaginu Ártúnshöfði – Eystri frá árinu 2002 segi að heimilt sé að hafa „núverandi starfsemi á lóðum eins og hún sé í dag“ og að ekki sé gert ráð fyrir nýrri íbúðabyggð. Ekki þyki rétt að taka eitt hús fyrir í einu heldur þurfi að fara í heildarendurskoðun svæðisins til að ekki verði árekstrar á milli nýrrar íbúðabyggðar og þeirrar starfsemi sem fyrir sé. Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu synjunar verði að líta til þess að um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun sem veiti skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð einstakra svæða.

 Niðurstaða: Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er svæðisskipulag rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Breytt notkun mannvirkis er háð byggingarleyfi, sbr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og skv. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga skal útgefið byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir.

Lóðin Höfðabakki 1 er á skilgreindu miðsvæði, M4, samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í greinargerð aðalskipulagsins er tekið fram að fyrst og fremst sé gert ráð fyrir rýmisfrekum verslunum, heildsölum og skrifstofum á svæðinu. Léttur iðnaður og verkstæði séu leyfð. Að öllu jöfnu sé ekki gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði, gistiheimilum eða hótelum nema það sé sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi. Á því svæði sem hér um ræðir er í gildi deiliskipulag Ártúnshöfða – Eystri frá árinu 2002 þar sem fram kemur að heimilt sé að hafa „núverandi starfsemi á lóðum eins og hún er í dag“ en að ekki sé gert ráð fyrir nýrri íbúðabyggð. Er því ljóst að áform kæranda um að breyta skrifstofurými í íbúðir í húsinu á lóðinni Höfðabakka 1 uppfyllir ekki skilyrði 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki um samræmi byggingarleyfis við skipulagsáætlanir.

Kærandi skírskotar til þess að fordæmi séu fyrir því að heimila íbúðir í húsinu. Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kveður sú regla á um að við úrlausn mála skuli stjórnvald gæta samræmis og jafnræðis milli aðila. Í reglunni felst að almennt er óheimilt að mismuna aðilum sem eins er ástatt um svo og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljanakenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum viðhorfum. Þó hefur verið talið að réttlætanlegt geti verið að afgreiða sambærileg tilvik með ólíkum hætti ef slík niðurstaða byggir á frambærilegum og málefnalegum sjónarmiðum.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár voru 18 eignarhlutar í húsinu að Höfðabakka 1 skráðir sem hótelíbúðir í júní 2002 en á árinu 2008 var skráningu þeirra breytt í íbúðir. Verður því ekki annað séð en að byggingarfulltrúi hafi á þeim tíma heimilað breytta skráningu í andstöðu við skipulag svæðisins og ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þ.e. 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna, sem sambærileg eru 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að kærandi getur ekki unnið betri rétt en honum ber að lögum og reglum með vísan til afgreiðslu annarra mála, leiki vafi á því hvort viðkomandi stjórnvald mat atvik þar með réttum hætti að teknu tilliti til gildandi laga og reglna. Með hliðsjón af þeim skýru skilmálum deiliskipulagsins, sem gilda um nýjar íbúðir á svæðinu, verður kærandi ekki talinn eiga rétt á því að umsókn hans fái sambærilega afgreiðslu og umsóknir þær sem afgreiddar munu hafa verið á árinu 2008.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. maí 2022 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins að Höfðabakka 1, matshluta 02.

173/2021 Rio Tinto

Með

Árið 2022, föstudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari. Þátt tók í gegnum fjarfundabúnað Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 173/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. október 2021 um að veita Rio Tinto á Íslandi hf. starfsleyfi til framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum af áli í álveri ISAL í Straumsvík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. nóvember 2021, kæra Sína Þorleif Þórðardóttir, Leifur Sörensen, Gréta Sörensen og Birgir Sörensen, hluti eigenda Óttarsstaða, 220 Hafnarfirði, L217937 og L220975, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. október 2021 að veita Rio Tinto á Íslandi hf. nýtt starfsleyfi til framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum af áli á ári í álveri ISAL í Straumsvík er gildi til 28. október 2037. Er þess aðallega krafist að hið nýja starfsleyfi verði afturkallað en til vara að leyfið verði ógilt og lagt verði fyrir Umhverfisstofnun að taka málið fyrir að nýju.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 29. desember 2021.

Málavextir: Álver hefur verið rekið í Straumsvík skammt sunnan Hafnarfjarðar í yfir fimmtíu ár. Aðdraganda þess má rekja til samnings ríkisstjórnar Íslands og Sviss Aluminium Limited frá árinu 1966, um byggingu og rekstur álbræðslu við Straumsvík, sbr. lög nr. 76/1966. Við samninginn hafa verið gerðir átta viðaukasamningar, sjá síðast lög nr. 145/2010. Í 12. gr. samningsins er fjallað um ábyrgð Íslenska álfélagsins, ISAL, og kemur m.a. fram að það beri ábyrgð á hverju því tjóni sem hljótist af gastegundum og reyk frá bræðslunni, „utan við svæði með ummáli reiknuðu frá miðju bræðslukerjasalarins, eins og sýnt sé á uppdrætti II með bræðsluáætluninni (fylgiskjal C með hafnar- og lóðarsamningnum).“ Á uppdrættinum er svæði þetta nefnt „svæði takmarkaðrar ábyrgðar“ en það mun m.a. ná til landsvæðis sem að hluta er í eigu kærenda.

Með ákveðnum skilyrðum um m.a. mælingar á styrk brennisteinstvíoxíðs og flúors var með úrskurði Skipulagsstofnunar, dags. 26. júlí 2002, um mat á umhverfisáhrifum vegna stækkunar álvers ISAL í Straumsvík, Hafnarfirði, fallist á fyrirhugaða stækkun þess í allt að 460 þúsund tonn á ári. Fór matið fram á grundvelli þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í fyrri áfanga var gert ráð fyrir stækkun í allt að 330 þúsund tonn á ári og í öðrum áfanga í allt að 460 þúsund tonn á ári. Í úrskurðinum kom m.a. fram að helstu mannvirki fyrirhugaðrar stækkunar væru tveir kerskálar, súrálsgeymir, tvær þurrhreinsistöðvar, skautsmiðja, kersmiðja og stækkun steypuskála, spennistöðvar og geymslu.

Á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir gaf Umhverfisstofnun 7. nóvember 2005 út starfsleyfi fyrir álver Alcan á Íslandi hf., ISAL Straumsvík, Hafnarfirði. Veitti leyfið heimild til framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum af áli á ári í kerskálum álversins, þar af allt að 50 þúsund tonn af hreináli, auk reksturs tilheyrandi málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfja fyrir eigin framleiðsluúrgang, verkstæða og annarrar þjónustu fyrir eigin starfsemi og var leyfið í gildi til 1. nóvember 2020. Tekið var fram í leyfinu að þar sem við ætti giltu einnig ákvæði í aðalsamningi ríkisstjórnar Íslands og Sviss Aluminium Limited frá árinu 1966 eins og honum hefði verið breytt með fimm viðaukasamningum, síðast 16. nóvember 2005.

Rio Tinto á Íslandi hf., sem nú rekur álverið í Straumsvík, sótti um nýtt starfsleyfi 29. apríl 2020 og samþykkti Umhverfisstofnun 13. október s.á. að komin væri fram fullnægjandi umsókn til að hefja gerð þess. Óskaði félagið þann sama dag eftir framlengingu á gildandi starfsleyfi. Með bréfi, dags. 15. s.m., tilkynnti Umhverfisstofnun að gildandi starfsleyfi hefði verið framlengt, með vísan til 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, og myndi gilda þar til nýtt starfsleyfi yrði gefið út, þó ekki lengur en til 1. nóvember 2021. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála af eigendum Óttarsstaða I og II, þ. á m. kærendum máls þessa. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 117/2020, uppkveðnum 30. mars 2021, var kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar hafnað.

Tillaga að nýju starfsleyfi fyrir Rio Tinto var auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar 24. ágúst 2021. Kom þar m.a. fram að tillagan, ásamt umsóknargögnum frá rekstraraðila, yrði aðgengileg á vefsíðu stofnunarinnar og var veittur frestur til og með 21. september s.á. til að skila inn athugasemdum. Þá kom og fram að auk starfsleyfistillögunnar yrði einnig hægt að gera athugasemdir við drög að vöktunaráætlun fyrir tímabilið 2021–2029 sem fyrirtækið hefði lagt fram og að þau drög væru auglýst samhliða. Rafrænn kynningarfundur var haldinn 14. september 2021. Átta umsagnir bárust um starfsleyfistillöguna og vöktunaráætlunina, þ. á m. frá kærendum máls þessa.

Starfsleyfi til handa Rio Tinto til framleiðslu áls í álveri ISAL í Straumsvík var gefið út 29. október 2021 og gildir til 28. október 2037. Með leyfinu er veitt heimild til að framleiða allt að 460 þúsund tonn af áli á ári í kerskálum álversins auk reksturs tilheyrandi málmsteypu, ker- og skautsmiðju og flæðigryfja fyrir kerbrot og eigin framleiðsluúrgang, ásamt því að starfrækja verkstæði og aðra þjónustu sem heyri beint undir starfsemina. Í starfsleyfinu kemur m.a. fram að það byggi á sama grundvelli og fyrra starfsleyfi leyfishafa og að um sé að ræða efnislega sömu framkvæmd og áður. Starfsleyfið, ásamt greinargerð og þeim umsögnum sem bárust, var birt á heimasíðu Umhverfisstofnunar 2. nóvember 2021, sbr. ákvæði 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998. Í 3. kafla starfsleyfisins er fjallað um varnir gegn mengun umhverfis á grundvelli bestu aðgengilegu tækni við mengunarvarnir. Jafnframt segir að verði breytingar á bestu aðgengilegu tækni skuli þær taka gildi í samræmi við ákvæði reglugerða.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að útgáfa hins nýja starfsleyfis sé ólögleg þar sem ekki liggi fyrir gilt og/eða fullnægjandi umhverfismat fyrir framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum á áli á ári. Nú eigi við allt önnur viðmið, lög og reglugerðir um umhverfismál og mengun heldur en þegar mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins um tvo nýja kerskála var framkvæmt árið 2002. Fallið hefði verið frá þeim hugmyndum sem lýst var í því mati sem byggði m.a. á forsendum um að losun mengandi efna mætti vera yfir viðmiðunarmörkum innan þynningarsvæðis í landi sem ekki sé í eigu álversins. Á jörð kærenda hafi m.a. í skipulagsgögnum frá Hafnarfjarðarbæ verið mörkuð tvö svæði þessu tengt, annars vegar svæði takmarkaðrar ábyrgðar og hins vegar þynningarsvæði. Forsendur fyrir þessum viðmiðum, sem hafi verið ákveðnar einhliða af ríkisvaldinu, hafi breyst með breytingum á lögum.

Á kynningarfundi Umhverfisstofnunar 14. september 2021 hafi komið fram að mengun utan verksmiðjulóðar væri óheimil og að starfsleyfið myndi taka mið af því. Óskiljanlegt sé hvers vegna stofnunin taki svo ákvörðun um að tiltaka sérstaklega í leyfinu að lög nr. 76/1966, um lagagildi samnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík, gildi samhliða starfsleyfinu. Það liggi í hlutarins eðli að lög nr. 76/1966 hafi í raun verið numin úr gildi með nýjum lögum sem banni mengun utan lóðar. Í greinargerð með starfsleyfinu hafi Umhverfisstofnun svo bent á að ekki hefði verið átt við lóðarmörk ISAL heldur við iðnaðarsvæði samkvæmt skipulagi sem sé óheimilt.

Umhverfisstofnun hefði ekki átt að gefa út starfsleyfi fyrr en fyrir lægi að Rio Tinto væri fært um að uppfylla gildandi lög og reglugerðir frá og með útgáfudegi þess. Þá hefði stofnunin vanrækt að hefja undirbúning fyrir útgáfu nýs starfsleyfis þegar fyrir hefði legið að þynningarsvæði yrðu afnumin úr starfsleyfum. Þar sem fyrra starfsleyfi hafi gert ráð fyrir þynningarsvæði liggi ekki fyrir gögn sem varði mengun sem dreifst hafi á landi kærenda vestan við álverið eða hvernig hún muni dreifast eftir að hið nýja starfsleyfi hafi tekið gildi. Þó liggi fyrir gögn sem staðfesti að mengun berist út fyrir lóðarmörk, sbr. sýni sem hafi verið tekin af krækiberjum á eignarlandi kærenda. Til þess að breyta dreifingu á mengun þurfi að draga úr framleiðslu eða með uppsetningu eins fullkomins mengunarvarnarbúnaðar og völ sé á.

Í starfsleyfi hafi verið veittur frestur til 1. október 2022 til að setja upp loftgæðamælistöð vestan við álverið. Á kynningarfundi Umhverfisstofnunar hafi komið fram að frá útgáfu starfsleyfisins gæti verið um þriggja ára ferli að ljúka þeim mælingum sem þörf væri á til þess að fá fulla vitneskju um dreifingu mengunar frá álverinu. Óásættanlegt sé að stofnunin leggi það á herðar landeigenda að sýna fram á að mengun berist frá álverinu út fyrir lóðarmörk þess og valdi þeim tjóni í stað þess að stofnunin geti sjálf sýnt fram á að svo sé ekki.

Í starfsleyfinu sé mikið gert úr BAT-niðurstöðum og að ISAL noti þær reglur. Kærendur telji þó upplýst að ISAL noti ekki bestu mögulegu tækni. Mengað loft streymi frá álverinu, t.d. upp um mæni á öllum kerskálunum og skautsmiðju. Suma daga í það miklum mæli að mengunarský liggi yfir álverinu og landi Óttarsstaða, t.d. séð frá Hafnarfirði. Ástæða þess sé að hreinsibúnaður sé ekki eins fullkominn og kostur sé. Kerskálarnir sjálfir séu t.d. loftræstir með svokallaðri náttúrulegri loftræsingu án hreinsunar og vélræns búnaðar. Þegar hreinsibúnaður bili aukist magn mengaðs lofts sem streymi upp um mæni kerskálanna þriggja margfalt, en enginn hreinsibúnaður sé í mæni þeirra. Í starfsleyfinu og fylgiskjölum þess sé það staðfest að núverandi mengun frá ISAL í Straumsvík muni halda áfram að berast yfir á jörð kærenda en ekki hafi verið gert ráð fyrir nýjum og bættum mengunarvarnarbúnaði í álverinu. Það skjóti skökku við að í starfsleyfinu séu gerðar auknar kröfur til mengunarvarna í fyrirhuguðum nýjum kerskálum álversins samanborið við þá gömlu. Sömu kröfur ætti að gera til mengunarvarna í öllum kerskálunum.

Eigendur Óttarsstaða hafi gert fjölmargar athugasemdir við tillögu að framangreindu starfsleyfi en Umhverfisstofnun hafi láðst að svara þeim öllum og þá séu flest þau svör sem þó hafi verið sett fram ófullnægjandi. Miklir annmarkar hefðu verið á umsóknarferlinu og undirbúningur þess verið ófullnægjandi. Þannig hefðu ekki legið fyrir upplýsingar um það hvernig ákveðin lagaskilyrði væru uppfyllt eða nákvæm og áreiðanleg gögn um dreifingu mengunar utan lóðar álversins, þá sérstaklega vestan við álverið. Starfsleyfið sé óskýrt og víða séu notuð orðasamböndin „eins og kostur er“, „stendur til“ og „stefnt að“. Lágmarkskrafa sé að Umhverfisstofnun hafi fulla vitneskju um að ISAL uppfylli kröfur um mat á umhverfisáhrifum áður en nýtt starfsleyfi sé gefið út en af svörum stofnunarinnar megi ráða að svo sé ekki.

Hafnarfjarðarbær vinni nú að því að endurskoða aðalskipulag umhverfis álverið og tali um að gefa fyrrum þynningarsvæði nýtt nafn, „umhverfismörk í kringum álverið“, sem ekki sé í samræmi við gildandi lög eða stefnu stjórnvalda um afnám þynningarsvæða. Leiða megi að því líkum að ástæða þess að Umhverfisstofnun hafi verið svo óskýr um merkingu þess að halda mengun innan lóðar sé til að gefa bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði svigrúm til að gefa þynningarsvæðinu nýtt nafn með fjárhagslega hagsmuni bæjarsjóðs og Rio Tinto að leiðarljósi. Kærendur hafi bótalaust orðið að þola skerðingu á eignarréttindum sínum yfir stórum hluta jarðar sinnar og muni ekki fallast á að land þeirra verði áfram notað til að spara álverinu kostnað við fullkominn hreinsibúnað.

Skýrsla gerð af Resource International ehf. um endurskoðun á þynningarsvæði og svæðis takmarkaðrar ábyrgðar vegna álversins í Straumsvík frá 3. nóvember 2020 staðfesti að mengun berist út fyrir lóð álversins. Þar sé niðurstaðan að mengun muni halda áfram að mælast yfir leyfilegum hámarks gildum fyrir utan lóðarmörk ISAL og í landi Óttarsstaða þrátt fyrir að notuð séu útreiknuð meðaltalsgildi. Um leið séu forsendur við útreikningana rangar vegna skorts á gögnum frá bæði áreiðanlegri veðurmælingarstöð og raungögnum frá símælistöðvum sem mæli mengun umhverfis allt álverið, en ekki bara að hluta. Á mynd sem fylgi kæru megi sjá hversu mikil áhrif mannvirki hafi á stefnu og styrk vinds sem veðurstöð mæli. Mæligögn frá þeirri veðurmælistöð séu því ónothæf til útreikninga á dreifingu loftmengunar frá álverinu. Veðurstöðin sé aðeins 7 m yfir sjávarmáli á meðan mannvirkin umhverfis hana séu á bilinu 20-65 m yfir sjávarmáli, ásamt því að vera fleiri þúsundir fermetrar að stærð. Stöðin þyrfti að vera staðsett á allt öðrum stað til að fá fullnægjandi veðurmælingar.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað og bent á að ekki sé um að ræða breytingu frá fyrra starfsleyfi varðandi framkvæmd eða umfang starfseminnar. Þá hafi ekki komið fram ábendingar um annmarka á málsmeðferð hins kærða starfsleyfis. Umhverfisstofnun sé stjórnvald sem sé við málsmeðferð sína bundið af lögmætisreglunni og meginreglum stjórnsýsluréttarins. Ekki sé deilt um að rannsóknarskylda um áhrif rekstursins á umhverfið hvíli á stofnuninni. Sú rannsóknarskylda hafi verið uppfyllt og áhersla lögð á góða stjórnsýsluhætti við meðferð málsins. Rio Tinto á Íslandi hf. hafi uppfyllt þau laga- og reglugerðaskilyrði sem útgáfa hins kærða starfsleyfis byggi á, en það hafi verið veitt samkvæmt reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, sbr. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá sé öllum athugasemdum sem berist á auglýsingatíma tillagna að starfsleyfum ávallt svarað í greinargerð sem birt sé opinberlega með útgefnu starfsleyfi. Rekstri álvera fylgi losun mengunarefna og sé í starfsleyfi kveðið á um stjórnun þeirrar losunar og umhverfisvöktunar í samræmi við samræmdar reglur sem gildi á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Í eldra starfsleyfi álversins, sem fellt hafi verið úr gildi með gildistöku hins kærða leyfis, hafi í grein 1.7 verið kveðið á um að mengun brennisteinsdíoxíðs og svifryks mætti vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum innan þynningarsvæðis. Þynningarsvæði hafi verið skilgreind sem sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar eigi sér stað og ákvæði starfsleyfis kveði á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum sbr. skilgreiningar í 3. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði og 3. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Grundvöllur fyrir þynningarsvæðum sé þó brostinn eftir setningu laga nr. 66/2017 um breytingu á lögum nr. 7/1998 sem hafi innleitt tilskipun 2010/75/ESB um losun í iðnaði. Við útgáfu hins kærða starfsleyfis hafi verið miðað við BAT-niðurstöður sem hafi verið skilgreindar í Best Available Techniques (BAT) Reference Document for the Non Ferrous Metals Industries og birtar á formi framkvæmdarákvörðunar framkvæmdarstjórnarinnar (ESB) nr. 2016/1032, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna iðnaðar með járnlausan málm. Breyting á lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 550/2018 sem hafi innleitt framangreinda tilskipun hafi ekki breytt ákvæðum í starfsleyfum um þynningarsvæði og vinni Umhverfisstofnun nú að því að taka upp og afnema ákvæði um þynningarsvæði úr starfsleyfum samhliða uppfærslu á BAT-niðurstöðum. Brottfall þynningarsvæða sé til þess fallið að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum en leiði ekki eitt og sér til þess að meta þurfi umhverfisáhrif á ný eða tilkynna um breytingu.

Í neðanmálsgrein við starfsleyfið sé ákvæði þar sem vísað sé til þess að á meðan samningurinn milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminum Ltd., um álbræðslu við Straumsvík hefði lagagildi, gildi hann samhliða starfsleyfinu. Með þessu hefði aðeins verið bent á lagagildi samningsins en hvorki hann né einstök ákvæði, t.d. í 12. gr. um svæði takmarkaðrar ábyrgðar, hafi verið tekin upp í starfsleyfið. Ekki verði séð að lög nr. 76/1966 um lagagildi samningsins hafi verið felld úr gildi, en það hefði þó engin áhrif á efni hins kærða starfsleyfis. Mengun frá álverinu hafi minnkað mjög frá þeim tíma er ástæða hafi þótt til að koma á svæði takmarkaðrar ábyrgðar með samninginum. Ekkert hafi komið fram sem gefi til kynna að rekstraraðili geti ekki uppfyllt strangari skilyrði hins kærða starfsleyfis. Þvert á móti gefi fyrirliggjandi gögn, m.a. skýrsla ReSource International ehf. frá 3. nóvember 2020 sem kærendur vísi til, það til kynna að rekstraraðili uppfylli líklega nú þegar skilyrði um að mengun brennisteinsdíoxíðs og svifryks mælist ekki umfram umhverfismörk innan þynningarsvæðis í kjölfar niðurfellingar þess.

Leyfishafi hafi spurst fyrir um það hjá Skipulagsstofnun hvort útgáfa nýs starfsleyfis myndi kalla á einhverja málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og af viðbrögðum og svörum Skipulagsstofnunar að dæma sé stofnunin sammála mati Umhverfisstofnunar á því að þess sé ekki þörf. Í starfsleyfi séu viðmiðanir sem varði mælingar, viðmiðanir um það hvernig fylgst sé með losun og flestar aðrar kröfur sóttar í BAT-niðurstöður. Með kröfu um símælingar í útblæstri sé tryggt að mengunartoppar séu teknir inn í meðaltalið en ekki sé krafa í BAT-niðurstöðum um mælingar mengunartoppa en þeir geti þó haft áhrif á meðaltalið. Tekið hefði verið tillit til athugasemda kærenda varðandi staðsetningu veðurmælingarstöðvar og verði hún á öðrum stað. Fyrirkomulagið verði ekki eins og lýst hafi verið í kæru heldur muni veðurstöðvar fylgja loftgæðamælistöðvum samkvæmt vöktunaráætlun.

Með hinu kærða leyfi hafi kröfur um mengunarvarnir verið uppfærðar til samræmis við nýjustu reglur og áherslur og gerðar kröfur um auknar mælingar og vöktun. BAT-niðurstöður hafi verið uppfærðar og kröfur, þ.m.t. um mengunarvarnabúnað, verið miðaðar við skilyrði sem fram komi í þeim. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sé gert ráð fyrir að tækni sem þar sé áskilin sé notuð í álverinu. Umhverfisstofnun geri ráð fyrir að rekstraraðili geti uppfyllt þær kröfur sem á hann hafi verið lagðar með starfsleyfi en stofnunin búi yfir úrræðum sem hún geti beitt ef komi til frávika eða vanefnda, sbr. XVII. kafla laga nr. 7/1998.

Í starfsleyfinu sé kveðið á um að álag á umhverfið sé vaktað innan fyrrum þynningarsvæðis og eigi loftgæði hvað varði brennisteinsdíoxíð og svifryk nú að uppfylla ákvæði laga og reglna og vera innan umhverfismarka. Krafa í grein 4.6 í starfsleyfinu um loftgæðamælistöð vestan við álverið ásamt veðurstöð sé bein afleiðing af þessari breytingu. Þá séu í vöktunaráætluninni nýir sýnatökustaðir fyrir gróðursýni sem séu innan fyrrum þynningarsvæðis. Greint umhverfismat sé enn í gildi og þar sem forsendur umhverfismatsskýrslu hafi ekki breyst verulega hafi verið stuðst við það við vinnslu hins kærða starfsleyfis. Ekkert hafi komið í stað þynningarsvæðis og hafi Hafnarfjarðarbær tilkynnt um fyrirhugaða niðurfellingu þess úr aðalskipulagi til samræmis við niðurfellingu í hinu kærða starfsleyfi. Þar sem stýring mengunaráhrifa gangi út á það að vernda nærliggjandi byggð og náttúru hafi þótt rétt að mælingar væru gerðar utan iðnaðarsvæðis eins og það sé skilgreint í skipulagi. Í samskiptum við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, m.a. í bréfi til Umhverfisstofnunar, dags. 10. júlí 2019, hafi ráðuneytið miðað við lóðamörk iðnaðarsvæða en ekki lóðar og bent á að niðurfelling þynningarsvæða gæti kallað á breytingar á skipulagi, t.d. að stækka þyrfti viðkomandi iðnaðarsvæði. Þá hafi í samskiptum við ráðuneytið verið áréttað að miða skyldi við iðnaðarsvæði samkvæmt skipulagi.

Þar sem umhverfismörk fyrir flúoríð hafi hvorki verið skilgreind í lögum né reglugerð sé ekki kveðið á um umhverfismörk þess í hinu kærða starfsleyfi. Þá séu engin skilgreind umhverfismörk til fyrir hámarksgildi flúors. Hins vegar sé í leyfinu fjallað um mælingar flúoríðs í tengslum við losun mengunarefna frá álverinu og telji Umhverfisstofnun mikilvægt og rétt að rekstraraðili vakti og að fylgst sé með dreifingu flúors á svæðinu. Ef nota ætti þau umhverfismörk sem byggt sé á í greindri skýrslu ReSource International væru þau 0,3 μg/m3 á vaxtartíma gróðurs. Í samantekt ritgerðarinnar Vöktun á loftbornum flúor í gróðri sé vikið að raunmælingum í mælistöðinni í Hvaleyrarholti og segi þar að meðaltöl ársins 2016 yfir vaxtartímabil gróðurs á Hvaleyrarholti hefðu verið um 0,01 μg/m3 fyrir rykkenndan flúor og 0,02 μg/m3 fyrir gaskenndan flúor og sé því heildarflúor reiknaður sem 0,03 μg/m3. Hæsta mæligildi yfir árið mældist á fimm daga tímabili 0,20 μg F/m3 að meðaltali. Rétt sé að benda á hversu langt undir viðmiðunum þessar tölur séu, ef fallist sé á að miða við 0,3 μg/m3 á vaxtartíma gróðurs.

Í kjölfar þess að kærendur hafi upplýst Umhverfisstofnun um niðurstöðu sýnatöku á krækiberjum á jörð þeirra, þar sem greinst hafi nokkuð hár styrkur flúors, hafi í starfsleyfið verið bætt við kröfu um flúorsýnatöku úr gróðri í landi kærenda. Líkt og fram hafi komið í svörum Matvælastofnunar til kærenda hafi umræddar mælingar verið gerðar á óhreinsuðum og ómeðhöndluðum berjum. Kærendur hafi fullyrt að í greindri skýrslu hefði verið staðfest að mengun bærist út fyrir lóð álversins og að sviðsmynd hafi sýnt að „miðað við gefnar forsendur fyrir 3 klst. bilun í þurrhreinsivirki 3 þá fer styrkur HF og PM10 margfalt yfir viðmiðunarmörk.“ Umhverfisstofnun telji að vísað sé í mælingar á svifryki og flúoríði við óeðlilegar aðstæður þar sem gert sé ráð fyrir bilun í búnaði. Bent sé á að búnaður geti bilað og að gert sé ráð fyrir skjótum viðbrögðum rekstraraðila við slíkar aðstæður.

Ýmsar umbætur hafi verið gerðar í nýju starfsleyfi. Megi þar t.a.m. nefna skyldu til að starfrækja umhverfisstjórnunarkerfi. Losunarmörkum fyrir ársmeðaltal heildarlosunar flúoríðs, brennisteins og ryks frá kerskálum hafi verið breytt í samræmi við BAT-niðurstöður og önnur losunarmörk hafi einnig verið aðlöguð að BAT-niðurstöðum. Val á tæknilausnum til að draga úr losun og minnka önnur umhverfisáhrif hafi verið sett fram í takti við BAT-niðurstöður og mælikröfur á losun álversins hafi verið auknar. Í starfsleyfinu séu einnig ákvæði (losunarmörk) sem virkist ef um aukna framleiðslu verði að ræða í álverinu og taki hert ákvæði gildi fari ársframleiðsla yfir 330 þúsund tonn. Þá sé einnig gerð krafa um auknar sýnatökur úr gróðri og nýja mælistöð vestan við álverið. Ítarlegar kröfur séu settar á leyfishafa um mengunarvarnarbúnað, starfshætti og vöktun á losun í samræmi við það sem m.a. sé mælt fyrir um í BAT og niðurstöðum þeirra um járnlausa málma. Rekstraraðila beri að halda sig innan þeirra losunarmarka sem skilgreind séu í starfsleyfi og BAT.

Umhverfisstofnun hafi eftirlit með starfseminni í samræmi við 1. og 2. mgr. 40. gr. laga nr. 7/1998 sem og 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 og birti allar eftirlitsskýrslur á vef stofnunarinnar. Komi fram frávik í eftirliti sé þeim fylgt eftir. Álver ISAL sé ekki nýtt álver og tæknilegt svigrúm þess til endurbóta ráðist nokkuð af þeim möguleikum sem upphafleg hönnun gefi færi á. Verði byggðir nýir kerskálar virkist kröfur í starfsleyfinu sem séu eins og þær sem gerðar séu til nýrri álvera, en kröfur BAT séu mismunandi milli nýrra og eldri álvera og byggi mismunandi kröfur því á BAT-niðurstöðum. Tilteknar kröfur í BAT-niðurtöðum séu ekki gerðar til eldri búnaðar enda ráðist tæknilegt svigrúm til endurbóta af þeim möguleikum sem upphafleg hönnun gefi færi á.

Umhverfisstofnun hafi óskað álits Skipulagsstofnunar um það hvort endurskoða þyrfti að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en starfsleyfi yrði veitt. Skipulagsstofnun hafi í svari sínu hinn 17. ágúst 2021 bent á að í því umhverfismati sem lokið hefði verið með úrskurði 26. júlí 2002 hefði verið gert ráð fyrir stækkun álvers í tveimur áföngum og að í þeim hefði verið gert ráð fyrir ýmis konar uppbyggingu til að gera mögulegt að auka framleiðsluna. Í svari Skipulagsstofnunar hafi komið fram að skv. 12. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hefði stofnunin eingöngu talið sig geta tekið ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu, þ.e. úrskurðar Skipulagsstofnunar í þeim tilvikum þar sem framkvæmdir hefðu ekki hafist innan tíu ára frá útgáfu álits.

Umhverfisstofnun telur að ekki sé hægt að halda því fram að framkvæmdir samkvæmt matsskýrslu hafi aldrei hafist en framleiðsla hefði verið aukin á grundvelli umhverfismats sem lokið hefði verið með úrskurði Skipulagsstofnunar 26. júlí 2002. Starfsleyfi sem hefði verið í gildi til ársins 2005 hefði aðeins veitt heimild til allt að 200 þúsund tonna ársframleiðslu á áli. Árið 2005 hafi verið gefið út starfsleyfi sem hefði veitt heimild til allt að 460 þúsund tonna ársframleiðslu. Þessi aukna framleiðsluheimild hafi grundvallast á fyrrgreindum úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2002 og leyfið hafi því veitt heimild til stækkunarinnar. Samkvæmt gögnum um framleiðsluna sem Umhverfisstofnun hafi yfirfarið „hefur framleiðsla á tímabilinu sum árin verið meiri en sem nemi 200 þúsund tonnum á ári. Stækkunarferli álversins sé því hafið enda hefði svo mikil framleiðsla ella verið ólögmæt og leitt til skráningar fráviks í eftirliti Umhverfisstofnunar og eftirfylgni með því fráviki.“ Í beinum tengslum við aukna framleiðslu hefðu m.a. eftirfarandi verklegar framkvæmdir verið gerðar: Aðveitustöð stækkuð, tvær viðbótar þurrhreinsistöðvar teknar í notkun, steypuskáli stækkaður og aukið við skrifstofu- og geymslurými. Í fyrrnefndri matsskýrslu frá árinu 2002 og greindum úrskurði Skipulagsstofnunar s.á. hafi komið fram að á meðal helstu framkvæmda fyrirhugaðrar stækkunar væru tvær þurrhreinsistöðvar og stækkun steypuskála og sé því ljóst að þessar verklegu framkvæmdir sem tilteknar hafi verið í mati á umhverfisáhrifum hafi komið til framkvæmda. Sem leyfisveitandi telji Umhverfisstofnun forsendur umhverfismatsskýrslu ekki hafa breyst verulega enda sé ekki um að ræða breytta framkvæmd og áfram sé um sömu framleiðsluheimild að ræða. Þá hafi stofnunin sérstaklega litið til þess að ekki hefðu orðið breytingar á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar sem breytt gætu forsendum umræddrar umhverfismatsskýrslu.

Fyrir útgáfu hins kærða starfsleyfis hafi Rio Tinto starfað á grundvelli eldra leyfis og þeirra skilyrða sem þar hefðu komið fram. Umhverfisstofnun hafi ekki talið sér stætt að krefjast aukinnar vöktunar innan þynningarsvæðis áður en slíkar kröfur hefðu tekið gildi með nýju starfsleyfi en skylda rekstraraðila til að uppfylla einstök skilyrði starfsleyfisins stofnist ekki fyrr en við útgáfu þess. Hertum kröfum í núgildandi starfsleyfi sé aðeins hægt að fylgja eftir með framvirkum hætti, eftir að breytingar hafi verið kynntar og rekstraraðila og almenningi gefinn kostur á að tjá sig um þær, ellegar væri um að ræða brot gegn 11., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir hendi séu upplýsingar um losun frá álverinu á liðnum árum sem gefi góðar upplýsingar og tengja megi dreifilíkönum þar til mælingar liggi fyrir. Skýrslur um grænt bókhald álversins nái aftur til ársins 2003 og hafi verið birtar. Þá hafi Umhverfisstofnun í tíu ár birt mæli- og vöktunarskýrslur, eftirlitsskýrslur, bréf er varði eftirfylgni og fleiri upplýsingar er varði umhverfisáhrif álversins og annars reksturs sem háður sé starfsleyfi stofnunarinnar. Þessi gögn séu öllum aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar og hafi hún verið í forystu í Evrópu hvað varði birtingu gagna um starfsleyfi og eftirlit.

Umhverfisstofnun hafi ekki komið að gerð skýrslu ReSource International og ekki byggt á henni við vinnslu á hinu kærða starfsleyfi. Samkvæmt skýrslunni séu þó ekki miklar líkur á að mengun brennisteinsíoxíðs og svifryks komi til með að greinast umfram umhverfismörk innan þynningarsvæðis í kjölfar niðurfellingar þess. Til að meta loftgæði verði ný mælistöð sett upp innan fyrrum þynningarsvæðis vestan við álverið og gert sé ráð fyrir nýjum og reglubundnum sýnatökum í gróðri í vesturátt frá álverinu. Uppsetning mælistöðvar krefjist undirbúnings og sé því ekki talið raunhæft að láta ákvæði þar um taka gildi sama dag og önnur ákvæði starfsleyfisins þar sem um nýja kröfu sé að ræða. Þynningarsvæði samrýmist ekki núgildandi lögum og því hafi stofnuninni ekki verið stætt á því að fresta niðurfellingu þess við útgáfu hins kærða starfsleyfis. Eðlilegt þyki að gefa rekstraraðila raunhæft svigrúm til að undirbúa og klára aðgerðir til að uppfylla strangari skilyrði hins kærða starfsleyfis og hafi frestur til að setja upp loftgæðamælistöð verið veittur til 1. október 2022. Stuðst verði við önnur gögn þar til mælingar hefjist í umræddri loftgæðastöð. Með auknum kröfum um vöktun fái Umhverfisstofnun bráðlega skýrari mynd á stöðuna sem byggt verði á í mengunarvarnareftirliti stofnunarinnar. Vöktun og sýnatökur auk reglubundins eftirlits stofnunarinnar veiti rekstraraðila viðeigandi aðhald að mati stofnunarinnar og verði niðurstöður mælinga og umhverfisvöktunar áfram birtar á heimasíðu hennar.

Kærendur hafi m.a. gert athugasemdir um að starfsleyfið væri óskýrt og að leyfisveitanda bæri að setja fram skýr skilyrði og mörk og nota orðið „skal“ frekar en orðalag á borð við „eins og kostur er“, „stendur til“ og „stefnt að“. Umhverfisstofnun bendi á að með framangreindu orðalagi sé ekki um að ræða tilslökun á þeim kröfum sem gerðar séu í starfsleyfinu heldur sé þvert á móti almennt um að ræða viðbótarkröfur. Þessar greinar hafi talsverða þýðingu þrátt fyrir að geta mögulega í einhverjum tilfellum verið matskenndar. Í þessu felist aðhald og að áréttað sé að ekki eigi að láta staðar numið við tiltekin losunarmörk eða áður skilgreindar aðferðir ef tækifæri skapist til að ná enn betri árangri með einföldum aðgerðum. Rekstraraðila beri því ekki aðeins að fara að tilgreindum losunarmörkum heldur hafi einnig þá skyldu að reyna að ná losun eins langt niður og mögulegt sé og öðrum umhverfisgæðaviðmiðunum í átt að eins góðu ástandi og hægt sé, t.d. bæta nýtingu vatns og koma meðhöndlun úrgangs í gott horf.

 Athugasemdir leyfishafa: Sjónarmið leyfishafa eru um flest á sömu lund og hjá Umhverfisstofnun. Leyfishafi telur að starfsleyfisumsókn hans hafi verið staðfest af Umhverfisstofnun sem fullgild og séu engar forsendur fyrir því að hafna henni eða líta svo á að óheimilt hafi verið að gefa leyfið út. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir komi fram að Umhverfisstofnun sé heimilt að setja strangari starfsleyfisskilyrði en þar komi fram ef kveðið sé á um það í reglugerð sem ráðherra setji. Ekki hafi verið mælt fyrir um slík skilyrði í reglugerð og því sé Umhverfisstofnun óheimilt að mæla fyrir um strangari kröfur. Með útgáfu nýs starfsleyfis hafi kröfur um mengunarvarnir verið uppfærðar til samræmis við nýjustu lög og þær áherslur sem við eigi.

Ljóst sé að hreinsibúnaður álversins uppfylli kröfur laga, reglugerða og starfsleyfis um losunar- og umhverfismörk. Fjarri lagi sé að verið sé að spara fjármuni hvað varði fullkomnun hreinsibúnaðar. Þvert á móti hafi verið gerðar stífar kröfur í starfsleyfi álversins um mengunarvarnarbúnað og séu þær kröfur uppfærðar reglulega eftir því sem þörf sé á. Lög geri ekki ráð fyrir því að starfsleyfi kveði nákvæmlega á um hvaða búnað skuli nota til að draga úr mengun. Hins vegar skuli í starfsleyfi setja losunarmörk og tilteknar starfsreglur fyrir viðkomandi rekstur. Allar viðmiðanir sem varði mælingar og hvernig fylgst sé með losun mengunar séu sóttar í BAT-niðurstöður samkvæmt lögum og reglugerðum. Ætti að miða við önnur viðmið þá verði að gera ráð fyrir slíku með viðeigandi hætti í lögum.

Varðandi athugasemd kærenda um að mengun berist út fyrir lóðarmörk bendir leyfishafi á að það sé með öllu óvíst að öll sú mengun sem fram komi í tilvísuðum mælingum sé vegna starfsemi hans. Á svæðinu starfi einnig önnur fyrirtæki með mengandi starfsemi. Þá sé í starfsleyfinu kveðið á um að mælingar á losun þungmálma frá ISAL skuli fara fram á a.m.k. átta ára fresti, en Umhverfisstofnun sé heimilt að kveða á um aukna tíðni mælinga mælist losun mikil. Með slíkri heimild geti stofnunin brugðist við ef tilefni þyki til. Vöktunaráætlun sé þannig háð breytingum og því hversu mikil losun mælist. Í lögum nr. 7/1998 sé kveðið á um að veita skuli hæfilegan frest til úrbóta ef þörf sé á.

Starfsleyfi álvera séu sértæk og flókin í vinnslu. Hið sama gildi um mælingar á mengun og mengunarvarnarbúnað sem settur sé upp í því skyni að takmarka losun mengandi efna. Víðtækar breytingartillögur, líkt og tillögur um afnám þynningarsvæða og auknar eftirlitskröfur, þurfi eðlilegan aðlögunartíma. Umhverfisstofnun hafi mælt fyrir um auknar loftgæðamælingar og séu slíkar kröfur íþyngjandi fyrir leyfishafa. Stofnuninni sé því bæði rétt og skylt að veita eðlilegan aðlögunartíma svo hægt sé að bregðast við með viðeigandi hætti. Umhverfisstofnun hafi veitt frest til þess að setja upp mælistöð vestan við álverið til 1. október 2022 sem telja verði eðlilegan í ljósi aðstæðna. Kröfur um loftgæðamælingar í vesturátt frá álverinu og áætlun stofnunarinnar um að bæta við gróðursýnatökum innan þess svæðis sem áður hefði verið þynningarsvæði séu viðbrögð Umhverfisstofnunar vegna niðurfellingar þynningarsvæðisins.

Leyfishafi hafi gert athugasemdir við þá ákvörðun í hinu nýja starfsleyfi að gert væri ráð fyrir nýrri loftgæðamælistöð vestan megin við álverið. Í 9. gr. reglugerðar nr. 920/2016 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings segi m.a. að Umhverfisstofnun skuli sjá til þess að mælistöðvar séu settar upp svo fara megi að ákvæðum reglugerðarinnar og að fjöldi þeirra og staðsetning sé í samræmi við VI. viðauka reglugerðarinnar. Umhverfisstofnun beri þannig ávallt að ákvarða staðsetningu og fjölda mælistöðva í samræmi við það sem þar komi fram, en stofnunin hafi ekki frjálsar hendur við töku slíkrar ákvörðunar. Í viðaukanum komi m.a. fram að meta skuli gæði andrúmslofts á öllum stöðum, þó ekki á svæðum sem ekki séu aðgengileg almenningi og enginn hafi fasta búsetu. Í 1. tl. a-liðar í kafla B sama viðauka segi svo að ef mælistöðvar tengist heilsuvernd manna skuli þær vera staðsettar þar sem þær veiti gögn um þá staði innan svæða og þéttbýlisstaða þar sem styrkur sé mestur og líklegast sé að íbúar verði fyrir beinum eða óbeinum váhrifum efnanna.

Ljóst sé að enginn hafi fasta búsetu á svæðunum vestan megin við álverið sem liggi að iðnaðarsvæði þess. Þar sé hvorki íbúabyggð samkvæmt skipulagi né áætlað að svo verði. Sé því ólíklegt að nokkur íbúi verði fyrir váhrifum vegna mengunar sem kunni að verða á svæðinu, hvorki beinum né óbeinum. Í 1. tl. e-liðar sama kafla viðaukans komi fram að þegar meta eigi mengun sem stafi frá iðnaðarupptökum, skuli a.m.k. ein mælistöð vera í næstu íbúðarbyggð, hlémegin við upptökin. Orðalagið styðji þann skilning að við ákvörðun um staðsetningu mælistöðva varðandi heilsuvernd manna skuli leitast við að staðsetja þær þar sem raunveruleg hætta sé á að íbúar verði fyrir váhrifum efnanna, en ekki á svæðum þar sem enginn hafi fasta búsetu og váhrif á íbúa séu mjög ólíkleg. Umhverfisstofnun hefði átt að hafa framangreindar leiðbeiningar í huga við töku ákvörðunar um staðsetningu mælistöðvarinnar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Í viðbótarathugasemdum áréttuðu kærendur fyrri sjónarmið sín í kæru. Hið kærða starfsleyfi kveði á um heimild til framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum af áli á ári, líkt og fyrra leyfi hafi gert, en þynningarsvæði hafi nú verið afnumin og séu því gerðar strangari kröfur hvað varði mengun. Hvorki Rio Tinto né Umhverfisstofnun hafi reitt fram ný gögn sem sýni fram á að álverið geti staðist þær kröfur sem gerðar séu verði framleiðsla aukin í 460 þúsund tonn líkt og heimilað hafi verið, en hámarksafköst ISAL hafi hingað til verið 230 þúsund tonn.

Í skýringum með lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana hafi komið fram að meginreglan sé að stjórnvöld þurfi að vera fullviss um að umhverfismat framkvæmdar eigi enn við og þarfnist ekki endurskoðunar áður en leyfi sé veitt fyrir henni. Það að langt sé um liðið frá því að matið hafi verið gert leiði ekki sjálfkrafa til þess að slík endurskoðun verði að fara fram en úrslitum ráði hvort forsendur hafi breyst verulega. Þær forsendur séu t.d. breytingar á löggjöf líkt og hér um ræði. Þynningarsvæði hafi verið afnumin og því sé mengun heimil á mun minna svæði en byggt hefði verið á í því umhverfismati sem lagt hefði verið til grundvallar. Alls ófullnægjandi sé að veita nýtt starfsleyfi þegar ekki sé fyrir hendi vitneskja um dreifingu mengunar frá álverinu. Um sé að ræða grundvallaratriði varðandi rannsókn málsins en brot á rannsóknarreglu eigi að leiða til afturköllunar ákvörðunar eða að öðrum kosti til ógildingar hennar.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 920/2016 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings komi m.a. fram að Umhverfisstofnun skuli sjá til þess að mælistöðvar séu settar upp svo fara megi að ákvæðum reglugerðarinnar og að fjöldi þeirra og staðsetning stöðvanna sé í samræmi við VI. viðauka reglugerðarinnar. Í viðaukanum komi m.a. fram að meta skuli gæði andrúmsloftsins á öllum stöðum, þó ekki á svæðum sem ekki séu aðgengileg almenningi og enginn hafi fasta búsetu. Enn fremur sé í 1. tölul. a-liðar í kafla B greinds viðauka kveðið á um að ef mælistöðvar tengist heilsuvernd manna skuli þær vera staðsettar þar sem þær veiti gögn um þá staði innan svæða og þéttbýlisstaða þar sem styrkur sé mestur og líklegast sé að íbúar verði fyrir beinum eða óbeinum áhrifum efnanna.

Hjá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun liggi fyrir upplýsingar sem staðfesti að mengun hafi borist frá álverinu og út fyrir lóðarmörk þess. Mengunin geti haft áhrif á land í eigu kærenda sem sé opið almenningi, en svæðið vestan við álverið sé vinsælt útivistarsvæði enda þótt ekki sé þar gert ráð fyrir íbúabyggð að svo stöddu. Umhverfisstofnun hafi mælt fyrir um að sett verði upp mælistöð vestan við álverið og veitt frest til að reisa hana til 1. október 2022 en búnaður álversins hafi ekki verið uppfærður og muni því mengun halda áfram á meðan ekki verði gerð bót á. Við þessar aðstæður hefði ekki átt að veita hið kærða leyfi enda sé mælistöðin ekki komin upp og liggi því ekki fyrir með fullnægjandi hætti hver áhrif mengunar vestan megin við álverið verði. Þá sé því mótmælt að leyfishafi muni sjá um mælingar en slíkt geti ekki leitt til hlutlausrar rannsóknar í samræmi við skyldu stjórnvalds. Rio Tinto hafi enda af því ríka hagsmuni að mæld gildi séu sem lægst.

———-

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki þykja efni til að rekja nánar en úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þau sjónarmið.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. október 2021 að veita Rio Tinto á Íslandi hf. nýtt starfsleyfi til framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum af áli á ári í álveri ISAL í Straumsvík. Við gildistöku leyfisins féll úr gildi eldra starfsleyfi álversins fyrir sama framleiðslumagn af áli sem upphaflega var gefið út til handa Alcan á Íslandi 7. nóvember 2005. Það starfsleyfi gilti til 1. nóvember 2020 en gildistími þess var framlengdur um eitt ár 15. október s.á. með heimild í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að baki leyfinu frá 2005 bjó fyrirhuguð stækkun álversins úr 200 þúsund tonna framleiðslugetu af áli á ári í allt að 460 þúsund tonn og lauk málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar stækkunar með úrskurði Skipulagsstofnunar 26. júlí 2002 samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I-V, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út, sbr. þó 8. gr. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, s.s. ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarna er ráðherra heimilt skv. 5. gr. að setja í reglugerð almenn ákvæði, m.a. um starfsleyfi, og hefur ráðherra sett slíka reglugerð, nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Við gerð starfsleyfis og útgáfu þess ber stofnuninni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar sem og lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í lokamálslið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er tiltekið að starfsleyfi skuli veitt uppfylli starfsemi þær kröfur sem til hennar séu gerðar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar, en útgáfa starfsleyfis getur m.a. verið háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 7/1998 gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur samkvæmt viðauka I-III við lögin og skal efnisinnhald starfsleyfa samrýmast þeim reglum sem fram koma í II. kafla laganna. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 skal útgefandi starfsleyfis vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur útgefanda starfsleyfis innan fjögurra vikna frá auglýsingu. Þá er í 16. gr. laganna kveðið á um að þegar starfsemi feli í sér notkun, framleiðslu eða losun tiltekinna hættulegra efna skuli rekstraraðili, með hliðsjón af mögulegri jarðvegs- og grunnvatnsmengun á iðnaðarsvæði starfseminnar, taka saman og leggja fyrir Umhverfisstofnun skýrslu um grunnástand svæðisins áður en starfsemin hefst eða áður en starfsleyfi starfseminnar er uppfært.

Í 4. mgr. 7. gr. sömu laga segir að útgefandi skuli innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi rann út taka ákvörðun um útgáfu þess. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir tilkynnt um afgreiðsluna. Samkvæmt 5. mgr. skal útgefandi starfsleyfis auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Í samræmi við 5. mgr. 7. gr. telst birting á vefsíðu útgefanda starfsleyfis vera opinber birting. Í 6. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 kemur fram að sé atvinnurekstur háður mati á umhverfisáhrifum eða tilkynningarskyldu skuli niðurstaða matsins eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu liggja fyrir áður en tillaga að starfsleyfi er auglýst. Þá skuli útgefandi starfsleyfis kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Samkvæmt 10. mgr. sömu greinar skal í greinargerð sem fylgja ber starfsleyfi m.a. taka afstöðu til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum ef við eigi.

Samkvæmt gögnum málsins var tillaga að hinu umdeilda starfsleyfi ásamt vöktunaráætlun auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar 24. ágúst 2021. Samhliða var m.a. birt áhættumat vegna efnis í flæðigryfjum og grunnástandsskýrsla leyfisbeiðanda. Haldinn var rafrænn kynningarfundur 14. september s.á. Átta umsagnir bárust, þ. á m. frá kærendum. Starfsleyfið var svo auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar 2. nóvember 2021. Kærendur hafa haldið því fram að þeim hafi ekki verið tilkynnt um afgreiðsluna en birting á vefsíðu stofnunarinnar telst vera opinber birting. Með starfsleyfinu fylgdi greinargerð í samræmi við 10. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Þar er í 3. kafla lýst breytingum sem gerðar voru á leyfinu frá auglýstri tillögu, en að mestu vísað til þess að í svörum við athugasemdum séu ítarlegri upplýsingar um þær greinar starfsleyfisins sem breyttust frá auglýstri tillögu. Í 4. kafla segir að árið 2002 hafi verið lögð fram matsskýrsla um stækkun álversins og að fyrra starfsleyfi hefði byggst á umfjöllun skýrslunnar. Þá kemur fram að leyfið sé byggt á sama grundvelli og fyrra starfsleyfi og að um sé að ræða efnislega sömu framkvæmd og áður. Þá er þar tiltekið að leyfið samræmist úrskurði Skipulagsstofnunar sem enn sé í gildi enda séu framkvæmdir hafnar á grundvelli þess mats.

_ _

Við undirbúning að útgáfu starfsleyfisins voru í gildi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana öðluðust gildi 1. september 2021, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna. Í 1. tölulið ákvæðis til bráðabirgða við þau segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem falli undir lögin sé lokið við gildistöku þeirra skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Tillaga að nýju starfsleyfi var sem fyrr segir auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar 24. ágúst 2021.

Í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 eru framkvæmdir flokkaðar í A-, B- og C-flokk. Í flokki A eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum, en samkvæmt lið 4.01 teljast álver til þeirra. Í lið 13.02 eru tilgreindar „allar breytingar eða viðbætur“ við framkvæmdir samkvæmt flokki A sem „þegar hafa verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif“. Þessar framkvæmdir teljast til B-flokks og þarf því að meta í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Í p-lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B. Skipulagsstofnun skal innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmdina berast, taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum. Skal stofnunin við þá ákvörðun byggja á viðmiðum í 2. viðauka. Skal Skipulagsstofnun byggja ákvörðun sína á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili hefur lagt fram og ef við á öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdar. Ákveði Skipulagsstofnun að framkvæmd sé ekki matsskyld er henni heimilt að setja fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar. Ákvörðun stofnunarinnar samkvæmt ákvæðinu má bera sérstaklega undir úrskurðarnefndina til úrskurðar.

Með bréfi leyfishafa til Skipulagsstofnunar 9. desember 2019 var greint frá því að rekstraraðili myndi sækja um endurskoðun á starfsleyfi fyrir álverið í Straumsvík samkvæmt reglugerð nr. 550/2018 og var óskað upplýsinga um hvort tilkynna þyrfti nánar um framkvæmdina. Fram kom að sótt yrði um óbreytt starfsleyfi fyrir 460 þúsund tonna framleiðslu. Í svari Skipulagsstofnunar 6. janúar 2020 kom fram að þar sem ekki væri um framleiðsluaukningu að ræða miðað við þáverandi starfsleyfi og sama framleiðslumagn og fjallað hefði verið um í ferli mats á umhverfisáhrifum árið 2002 og úrskurður Skipulagsstofnunar lægi fyrir um, ekki væri verið að stækka mannvirki og ekki verið að breyta starfseminni miðað við umfjöllun í umhverfismatsferlinu árið 2002 þannig að ætla mætti að það yrði aukið álag á umhverfið, kallaði endurnýjunin ekki á málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000.

Þessi afstaða byggir að því best verður séð á því að gildissvið laga nr. 106/2000 er bundið við framkvæmdir, en skv. c. lið 3. gr. þeirra, telst til þeirra „hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, sem undir lögin falla.“ Í áformum leyfishafa, eins og þeim var lýst, fólst ekki ný eða breytt framkvæmd í þessum skilningi og verður að því leyti til ekki gerð athugasemd við svarið sem fól í sér að ekki væri þörf á formlegri tilkynningu um framkvæmdina skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.

_ _

Kærendur telja útgáfu starfsleyfisins ólöglega þar sem ekki liggi fyrir gilt og/eða fullnægjandi umhverfismat fyrir framleiðslu á allt að 460 þúsund tonnum af áli á ári. Þar hafi einkum þýðingu breyttar forsendur þar sem þynningarsvæði hafi verið afnumið. Hafa kærendur af þessu tilefni vísað til nýrra laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem í 26. og 27. gr. er mælt fyrir um skyldu til að greina frá því hvort forsendur matsskylduákvörðunar eða mats á umhverfismatsskýrslu og áliti um umhverfismat framkvæmdarinnar hafi breyst af nánar tilgreindum ástæðum, þegar komi til leyfisútgáfu. Í skýringum sem fylgdu frumvarpi til þeirra laga komi m.a. fram að meginreglan sé að stjórnvöld þurfi að vera fullviss um að umhverfismat framkvæmdar eigi enn við og þarfnist ekki endurskoðunar áður en leyfi sé veitt.

Svo sem áður greinir giltu lög nr. 106/2000 um matsferli þeirrar framkvæmdar að stækka álverið úr 200 þúsund tonna heildarframleiðslu á áli á ári í tveimur áföngum í alls 460 þúsund tonn og var við leyfisveitingu byggt á mati á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar sem lauk með úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2002. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segir að ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skuli viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar stofnunarinnar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Í skýringum með ákvæðinu, sem kom inn í lögin með 11. gr. laga nr. 74/2005, kom fram að einvörðungu væri verið að vísa til þess að um sömu framkvæmd væri að ræða. „Sé framkvæmdinni breytt í veigamiklum atriðum [fari] að sjálfsögðu um hana sem um nýja framkvæmd.“ Með þessu er lögð sú skylda á leyfisveitanda, hér Umhverfisstofnun, að leggja á það mat hvort skilyrði séu til að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu vegna framkvæmdar á grundvelli þess hvort um sömu framkvæmd sé að ræða og ef svo er hvort hún sé hafin.

Með tölvupósti 12. ágúst 2021 óskaði Umhverfisstofnun eftir áliti Skipulagsstofnunar um það hvort óska þyrfti ákvörðunar um endurskoðun matsskýrslu. Í svari Skipulagsstofnunar 17. s.m. sem líta má á sem leiðbeiningu um málsmeðferð kom fram að í því umhverfismati sem lokið hefði með úrskurði stofnunarinnar árið 2002 hefði verið gert ráð fyrir stækkun álvers í tveimur áföngum. Í báðum áföngum hefði verið gert ráð fyrir ýmissi uppbyggingu til að gera mögulegt að auka framleiðsluna. Skipulagsstofnun hefði ekki upplýsingar um hvort framkvæmdir hefðu átt sér stað síðan úrskurðurinn lá fyrir og benti á að ákvæði 12. gr. ætti eingöngu við ef „framkvæmdir, sbr. matsskýrslu,“ hefðu aldrei hafist. Ákvæðið ætti því ekki við ef ISAL hefði hafið framkvæmdir en þeim væri ekki lokið að öllu leyti, t.d. ef búið væri að framkvæma samkvæmt fyrsta áfanga en ekki öðrum. Í svari Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar frá 18. ágúst 2021 kom m.a. fram að steypuskálinn hefði verið stækkaður og að aukið hefði verið umfang spennustöðva og að þar með væri hluti þeirra framkvæmda sem lýst væri í matsskýrslu komnar af stað. Þá hefði framleiðsla verið aukin sem væri vísbending um að verið væri að nota umhverfismatið, þar sem matið fjallaði að hluta almennt um aukna framleiðslu óháð því hvernig hún fengist. Engin frekari samskipti urðu milli stofnananna um þetta atriði síðar svo séð verði. Var því aldrei við undirbúning að útgáfu starfsleyfis með formlegum hætti óskað álits Skipulagsstofnunar samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2002 var lagt mat á umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdar að stækka álverið í tveimur áföngum, þeim fyrri með stækkun í allt að 330 þúsund tonn og þeim seinni í allt að 460 þúsund tonn. Samkvæmt matsskýrslu var í fyrri áfanga gert ráð fyrir að bætt yrði við tveimur tæplega 500 m löngum kerskálum með um 150 kerum sunnan Reykjanesbrautar. Á milli skálanna var áætlað að staðsetja þurrhreinsistöð og norðan við þá nýja skautsmiðju. Þá var gert ráð fyrir að stækka spennustöðina, steypuskálann og vörugeymsluna. Í seinni áfanga var áætlað að lengja kerskálana úr fyrri áfanga stækkunarinnar til vesturs þannig að þeir yrðu 950 m langir með 300 kerum. Þar vestan við, áfast kerskálunum, yrði reist kersmiðja. Á milli kerskálanna yrði reist önnur þurrhreinsistöð. Af öðrum mannvirkjum yrði steypuskáli stækkaður enn frekar og bætt við hafnargeymsluna. Þá þyrfti einnig að reisa nýjan súrálsgeymi við hlið þeirra tveggja sem fyrir væru. Af skýringarmyndum í matsskýrslunni, 14.1, 14.2 og 14.3, má sjá að stækkunaráform álversins voru að mestu sunnan Reykjanesbrautar. Ekkert varð af þessum áformum í framhaldi þess að ósk um breytingu á deiliskipulagi fyrir stækkað athafnasvæði álversins í Straumsvík var hafnað í atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins svo sem m.a. er rakið í greinargerð með Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025.

Í umsókn um hið kærða starfsleyfi víkur leyfishafi lítið sem ekkert að þessum framkvæmdum sem voru forsendur starfsleyfisins frá 2005. Þar er á hinn bóginn fjallað um núverandi framleiðsluaðferðir og umhverfisáhrif þeirra. Þó má geta samantektar í viðauka við umsóknina, þar sem segir að áætlanir um framleiðsluaukningu í 460 þúsund tonn á ári hafi „ekki komið til framkvæmda“, en gert sé ráð fyrir óbreyttum framleiðsluheimildum í nýju starfsleyfi, þó þannig að nýir kerskálar sem yrðu byggðir muni uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 935/2018 um BAT (bestu aðgengilegu tækni) o.fl. á sviði atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun. Komi til framkvæmda í tengslum við framleiðsluaukningu í nýjum kerskálum „muni þær dreifast á nokkurra ára tímabil og verði það kynnt sérstaklega“. Í umsókninni kemur fram að með framþróun í tækni sé hægt að auka framleiðslugetu í núverandi kerskálum úr 212 þúsund tonnum á ári í 230 þúsund tonn á ári, án þess að bæta við framleiðslukerum, en búið sé að bæta ýmis stoðkerfi og uppfæra í samræmi við bestu aðgengilegu tækni (BAT).

Í úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2002 var greint frá því að ársframleiðsla álversins væri þá um 170 þúsund tonn á ári, en starfsleyfi sem gilti til ársins 2005 heimilaði allt að 200 þúsund tonna ársframleiðslu. Áformað væri að þeirri framleiðsluaukningu sem upp á vantaði til að fullnýta það starfsleyfi yrði náð í núverandi hluta álversins og/eða í fyrirhugaðri stækkun með auknum rafstraumi og bættri nýtingu kera. Af skýrslum álversins samkvæmt reglugerð nr. 851/2002 um grænt bókhald sem nálgast má á vef Umhverfisstofnunar má sjá að frá árinu 2003 hefur ársframleiðsla álversins í sex skipti verið umfram 200 þúsund tonn, þ.e. árin 2014-2018 og árið 2021, þar af mest rétt rúm 212 þúsund tonn. Árið 2004 var heildarframleiðsla þess 178 þúsund tonn og kom fram að sú framleiðsla væri 19% meiri en kerskálarnir væru hannaðir fyrir. Í skýrslum álversins fyrir árin 2007 og 2008 kemur m.a. fram að niðurstaða íbúakosningar það ár hefði „hamlað þeim stækkunaráformum sem ráðgerð voru“ og að verið væri að kanna möguleika annars vegar á framleiðsluaukningu í núverandi kerskálum án stækkunar og hins vegar hvaða möguleikar væru í boði til að byggja nýtt álver á Íslandi. Áform um hugsanlegar framkvæmdir sem myndu lúta að því að hækka strauminn á kerum álversins og auka þannig framleiðslugetu þess um u.þ.b. 20% voru kynnt í skýrslu fyrir árið 2009 og kom fram í skýrslu fyrir næsta ár að tekin hefði verið „endanleg ákvörðun um að auka framleiðsluna um 20% og skömmu síðar að breyta framleiðslu steypuskálans þannig að framleiddir yrðu svokallaðir boltar í stað barra.“ Er þessum framkvæmdum og breyttri framleiðslu lýst í skýrslum næstu ára eða þar til að greint er frá því í skýrslu fyrir árið 2013 að dregið hefði verið úr þessum áformum og stefnt yrði að um 8% framleiðsluaukningu í stað 20%, þannig að hún yrði um 206 þúsund tonn. Í skýrslu fyrir árið 2017 segir að helsta framleiðsluafurð ISAL séu stangir sem séu tilbúnar til þrýstimótunar hjá viðskiptavinum fyrirtækisins og væru framleiddar í fjölmörgum málmblöndum.

Af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir að stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Í ljósi þess sem nú hefur verið rakið verður að álíta að Umhverfisstofnun hefði verið rétt að leggja heildstæðara mat á það hvort skilyrði væru til þess að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þyrfti að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaaðila samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Fyrir liggur að aðeins óverulegur hluti af þeim framkvæmdum sem lýst var í ákvörðun Skipulagsstofnunar árið 2002 urðu að veruleika. Þjóna þær framkvæmdir auk þess einvörðungu áformum, sem hafa gengið eftir í nokkru um aukna framleiðslu innan núverandi kerskála í Straumsvík. Við þessar aðstæður hefði stofnuninni verið rétt að leiðbeina leyfishafa nánar um hvort og þá við hvaða aðstæður leita skyldi ákvörðunar Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Þá vekur athygli það viðhorf Umhverfisstofnunar að þótt talið yrði að matsskýrsla gæti sætt endurskoðun skv. 12. gr. laga nr. 106/2000, þar sem framkvæmdir hefðu aldrei hafist, þá væri ekki til að dreifa breyttum forsendum sem leitt gætu til endurskoðunar hennar. Í 2. mgr. 12. gr. laganna eru talin þau sjónarmið sem skylt er að líta til við undirbúning ákvörðunar um það hvort endurskoða skuli matsskýrslu, þ.e. hvort til sé að dreifa breyttum forsendum frá þeim tíma að álit kom út, s.s. vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar. Athuga verður að ein forsenda stækkunar álversins var að Reykjanesbraut yrði færð, sem ekki varð af. Þá hafa umtalsverðar breytingar orðið á löggjöf um umhverfismál frá þeim tíma að úrskurður Skipulagsstofnunar frá 2002 lá fyrir svo sem áður er rakið. Verður að álíta með hliðsjón af þessu að rík ástæða hefði verið til þess að leita álits Skipulagsstofnunar um hvort þörf væri á endurskoðun matsskýrslu að hluta eða í heild, skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Það að svo var ekki gert verður að telja annmarka á málsmeðferð sem leitt geti til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

 _ _

Við auglýsingu að nýju starfsleyfi var af hálfu Umhverfisstofnunar tekið fram að rekstraraðili hefði óskað eftir því að starfsleyfið myndi veita sömu heimildir til framleiðslu og eldra starfsleyfi og hafi verið orðið við því. Þá kom þar fram að eftir sem áður þurfi að liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum ef farið verði í aukna framleiðslu sem krefjist nýrra mannvirkja. Á þessum grundvelli voru sett nánari fyrirmæli í grein 1.4 í hinu kærða starfsleyfi. Með henni er skylt að tilkynna um fyrirhugaðar breytingar á rekstri með góðum fyrirvara svo að unnt sé að taka ákvörðun um hvort nauðsynlegt sé að gefa út nýtt starfsleyfi, sbr. 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Skuli slík breyting vera í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu eða álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, ef við eigi. Í umsókn leyfishafa og við undirbúning starfsleyfisins af hálfu Umhverfisstofnunar var hvað sem þessu líður í megindráttum miðað við framleiðslu og framleiðsluaðferðir þær sem verið hafa í álverinu á síðustu árum. Um þetta eru ákvæði starfsleyfisins þó ekki nægilega afmörkuð, en þar eru t.d. sett loftgæðamörk tengd heildarframleiðslu sem miða við fyrsta áfanga stækkunar álversins, þar sem miðað var við að framleiðsla yrði allt að 330 þúsund tonn á ári.

Það er meginregla í stjórnsýslurétti að með vísan til meðalhófs skuli jafnan beita vægara úrræðinu, sem gagnast geti, sé fleiri kosta völ, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þessa kemur til álita hvort hið kærða starfsleyfi verði aðeins fellt úr gildi að hluta, þ.e. hvað snertir þær framkvæmdir og starfsemi sem um var fjallað í ákvörðun Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum árið 2002 og voru forsenda hinna auknu framleiðsluheimilda, í starfsleyfi frá 2005. Er sá annmarki sem er á meðferð málsins samkvæmt lögum nr. 106/2000 enda afmarkaður við þann þátt málsmeðferðar við undirbúning leyfisins, þ.e. að ekki var tekin fullnægjandi afstaða til þess hvort þörf stæði til þess að endurskoða matsskýrslu framkvæmdaaðila skv. 12. gr. laga nr. 106/2000. Þannig verður ekki séð að hefði leyfishafi miðað umsókn um starfsleyfi við óbreytta starfsemi í álverinu, að skylt hefði verið að leita álits um hana, enda þá ekki um að ræða nýframkvæmd eða breytingu á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, sbr. c. lið 3. gr., 1. mgr. 6. gr. laganna og lið 13.02 í 1. viðauka við lögin. Verður á þessu byggt og annmarki þessi ekki látinn varða ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar nema að hluta til. Núverandi framleiðslugeta í álverinu nemur 212 þúsund tonnum á ári að því fram kemur í starfsleyfisumsókn og verður við það miðað hér á eftir en með því er tekið mið af þróun framleiðslunnar á gildistíma starfsleyfisins frá árinu 2005. Þess skal getið að samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði hjá leyfishafa nemur áætluð framleiðsla álversins í ár alls 201.750 tonnum og um 205 þúsund tonnum á næsta ári.

_ _

Kemur þá til álita hvort frekari annmarkar séu á hinu kærða starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998. Með leyfinu eru gerðar ýmsar breytingar samanborið við fyrra starfsleyfi og tilgreindi Umhverfisstofnun sérstaklega eftirgreinda þætti við auglýsingu á tillögu að leyfinu: i) umhverfisstjórnunarkerfi, ii) brottfall þynningarsvæða, iii) breytt losunarmörk fyrir ársmeðaltal heildarlosunar flúoríðs, brennisteins og ryks fyrir heildarlosun frá kerskálum í samræmi við BAT-niðurstöður, iv) önnur losunarmörk aðlöguð að BAT-niðurstöðum, v) tilgreindar kröfur BAT-niðurstaðna um val á tæknilausnum til að draga úr losun og minnka önnur umhverfisáhrif og loks vi) að mælikröfur á losun álversins séu auknar. Þá fylgdi umsókn um starfsleyfi grunnástandsskýrsla um stöðu jarðvegs- og grunnvatnsmengunar á iðnaðarsvæði starfseminnar þar sem einnig var að finna yfirlit yfir efnanotkun álversins á rekstrartíma þess sem getur haft áhrif á grunnvatn skv. 16. gr. laga nr. 7/1998. Jafnframt var þar gerð frekari grein fyrir flæðigryfjum, tilurð þeirra, notkun í gegnum tíðina, mengun sem frá þeim stafar og mælingum á þeirri mengun.

Í gr. 1.7 í starfsleyfi álversins frá 2005 var fjallað um þynningarsvæði, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði og kom þar fram að það fylgdi gildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 varðandi brennisteinsdíoxíð og svifryk en svæði takmarkaðrar ábyrgðar gilti varðandi flúoríð, sbr. ákvæði 12. greinar í aðalsamningi, sbr. lög nr. 76/1966. Í bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til Umhverfisstofnunar frá 10. júlí 2019 komu fram tilmæli ráðuneytisins til stofnunarinnar um að fella brott ákvæði um þynningarsvæði úr starfsleyfum. Var þar jafnframt tiltekið að með reglugerð nr. 550/2018 væri almennt miðað við að viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna skyldu gilda á losunarstað efnanna við stöðina og að í reglugerðinni væri ekki gert ráð fyrir þynningarsvæðum. Í hinu kærða starfsleyfi er því ekki að finna heimild til sérstaks þynningarsvæðis. Um leið er slíkt svæði ekki lengur markað í aðalskipulagi Hafnarfjarðar en auglýsing þess efnis birtist í B-deild Stjórnartíðinda 23. ágúst 2022, þ.e. um ári eftir að hið kærða starfsleyfi var veitt. Með breytingunni var varúðarsvæði VA1 breytt á þann veg að þynningarsvæði var fellt út en í staðinn sett ákvæði um vöktun á losun álversins með fjölgun á mælingum nær byggð í Vallarhverfi, Skarðshlíð og Hamranesi. Vegna athugasemda kærenda skal tekið fram að engin breyting hefur verið gerð á ábyrgð rekstraraðila álversins skv. lögum nr. 76/1966.

Afnám þynningarsvæða leiddi af lögum nr. 66/2017 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum (EES-reglur, losun frá iðnaði og skráningarskylda). Með lögum nr. 66/2017 var 9. gr. laga nr. 7/1998 breytt í þá veru að þar má finna starfsleyfisskilyrði í liðum a-h 1. mgr. Eru skilyrðin nánar útfærð í 8. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998 segir að Umhverfisstofnun skuli taka mið af BAT-niðurstöðum við útfærslu starfsleyfisskilyrða. Meðal annars þurfa í starfsleyfi skv. a-lið 1. mgr. 9. gr. laganna að vera skilyrði um viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna og viðeigandi kröfur um vöktun losunar, sbr. c-lið. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skulu viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna gilda á losunarstað efnanna við stöðina og þegar viðmiðunarmörk losunar eru ákvörðuð skal ekki taka tillit til þynningar sem á sér stað áður en að losunarstað er komið.

Í þriðja kafla starfsleyfisins er mælt fyrir um varnir gegn mengun ytra umhverfis. Í gr. 3.1 segir að rekstraraðili skuli nota bestu aðgengilegu tækni (BAT) við mengunarvarnir og nýta orku vel. Þá er jafnframt tiltekið að verði breytingar á bestu aðgengilegu tækni skuli þær taka gildi í samræmi við ákvæði reglugerða. Ítrekað er í leyfinu vísað til BAT niðurstaðna samkvæmt framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2016/1032/ESB og ljóst að ákvæði leyfisins taka mið af þeim, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998. Í gr. 3.8 starfsleyfisins eru sett losunarmörk fyrir heildarlosun mengunarefnanna, flúoríðs, ryks og brennisteins, í útblæstri frá kerskálum, og kemur fram að ársmeðaltöl séu ákvörðuð út frá gildum sem fram komi í BAT 67.

Í starfsleyfinu kemur fram að sýnum skuli safnað frá raflausnarkerum og loftopum á þaki og því ljóst að mörkin gilda á losunarstað þeirra við stöðina í samræmi við 1. mgr. 10. laga nr. 7/1998. Um losunarmörk vegna útblásturs frá þurrhreinsistöð er mælt fyrir um í gr. 3.9 leyfisins og taka þau til ryks, vetnisflúoríðs og heildarflúoríðs. Af mæliáætlun má sjá að sýnin eru tekin úr strompum og gilda því einnig á losunarstað þeirra við stöðina. Í gr. 4.1 starfsleyfisins kemur fram að mæliáætlun skuli liggja fyrir vegna þeirra mælinga sem gera þurfi vegna þeirra atriða sem fram komi í starfsleyfinu og viðaukum þess. Á vefsíðu Umhverfisstofnunar er með starfsleyfinu birt mæliáætlun Rio Tinto Alcan á Íslandi frá 10. janúar 2014 og var vísað til hennar hér að framan. Þar má sjá að mælingar fara fram við stöðina að undanskildum mælingum á hávaða sem fara fram við lóðamörk. Til viðbótar við framangreindar mælingar er þar gert ráð fyrir mælingum á tilteknum uppsprettum þar sem mælistaðir eru sjö strompar, einn í súrálsblöndunarkrana, tveir í kerbrotastöð, tveir í skautskála og tveir í efnisvinnslu, og fara þar fram mælingar á ryki, annað en frá þurrhreinsibúnaði. Þá er í gr. 3.10 leyfisins vísað til þess að losun rokgjarnra lífrænna efna skuli eftir því sem við eigi vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 550/2018. Vísað er til BAT 19 um takmarkanir á lyktarmengun í gr. 3.12 starfsleyfisins. Um mörk losunar í andrúmsloft frá bræðslu og meðhöndlun á fljótandi málmefni og steypingu er kveðið á um í gr. 3.13 og er vísað í BAT 68 um þau.

Þá er í gr. 3.21 fjallað um vatnshlot og meðhöndlun vatns og tekið fram í hvaða vatnshlotum starfsemin er í en vatnshlot hafa verið flokkuð samkvæmt reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun, sbr. og lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Er tekið fram í nefndri grein starfsleyfisins að reksturinn megi hvorki valda því að vistfræðilegu ástandi eða efnafræðilegu ástandi strandsjávar vatnshlotsins hraki né heldur efnafræðilegu ástandi grunnvatnshlotsins. Þá kemur fram að vistfræðilegir gæðaþættir ásamt efna- og eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum vatnshlota séu í samræmi við reglugerð nr. 535/2011 og séu útfærðir nánar m.t.t. til ástandsflokka í vatnaáætlun. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laga um stjórn vatnamála, skyldi ná umhverfismarkmiðum samkvæmt 11. gr. laganna eigi síðar en sex árum eftir að fyrsta vatnaáætlunin hefði verið staðfest og var gefinn frestur til þess í ákvæði til bráðabirgða við lögin að setja hana til 1. janúar 2018. Það dróst nokkuð uns vatnaáætlun var staðfest hinn 4. apríl 2022 sem tekur til áranna 2022–2027. Var það eftir að hið kærða starfsleyfi var gefið út.

Lög um stjórn vatnamála fela í sér skyldu til að tryggja að ástandi vatns verði viðhaldið þannig að það falli ekki um ástandsflokk. Þó geta ýmis atvik réttlætt að vikið sé frá meginreglum laganna og hafa þau að geyma ákvæði sem gera það kleift að uppfyllt séu ákvæði þeirra á grundvelli ítarlegrar greiningar og hagsmunamats, þótt farið sé gegn meginreglunum eða umhverfismarkmiðunum ekki náð, sbr. nánar 16.–18. gr. laganna. Í vatnavefsjá Umhverfisstofnunnar, sem Veðurstofan rekur má finna strandsjávaravatnshlotið Straumsvík-Kjalanes (104-1391-C). Þar kemur fram að bæði vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand þess sé óflokkað. Sett eru hins vegar markmið um gott vistfræðilegt ástand sem og um gott efnafræðilegt ástand. Í ljósi þess hversu takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir með þessu verður að telja óljóst hvernig hafi verið gætt að ákvæðum laga um stjórn vatnamála við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Á móti kemur að Umhverfisstofnun, sem fer með framkvæmd laga um stjórn vatnamála, hefur heimild til endurskoðunar leyfis, sbr. gr. 1.6 í starfsleyfinu, ef mengun af völdum rekstrar er meiri en búast mátti við þegar leyfið var gefið út eða ef vart verður mengunar sem ekki var gert ráð fyrir við útgáfu leyfisins. Verður þetta því ekki talið til verulegs annmarka við undirbúning hins kærða leyfis.

Með starfsleyfinu er leyfishafa einnig veitt heimild til reksturs flæðigryfja fyrir kerbrot og eigin framleiðsluúrgang. Í gr. 3.22 – 3.24 þess er fjallað um meðhöndlun úrgangs og er í gr. 3.22 kveðið á um hvernig fara skuli með kerbrot og losun í flæðigryfjur. Skal rekstraraðili vera með skipulagðar aðgerðir á rekstrarsvæði til að auðvelda ytri endurvinnslu á kerbrotum og skal liggja fyrir áætlun um það. Um þetta er vísað til BAT 73. Veitt er heimild til að setja kerbrot í flæðigryfjur ef ekki finnast leiðir til endurvinnslu sem eru í samræmi við niðurstöður um bestu aðgengilegu tækni. Þá er að undangengnu áhættumati og ef ekki liggja fyrir hentugar endurvinnsluleiðir heimild til að setja annan rekstrarúrgang í flæðigryfjur. Eru sett sex skilyrði sem flæðigryfjurnar verða að uppfylla. Þarf staðsetning þeirra að vera samþykkt af Umhverfisstofnun og vera hnitsett í samræmi við gildandi deiliskipulag. Meðhöndlun og frágangur skal vera í samræmi við áhættumatsgreiningu sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 73/2003 um urðun úrgangs og lið 3.4 í viðauka I í reglugerðinni. Flæðigryfjan skal eingöngu vera fyrir úrgang rekstraraðila og skal svæðið vera lokað nema þegar losun í hana fer fram. Þá skal flæðigryfjan varin fyrir ágangi sjávar. Þegar efni er sett i flæðigryfju skal losun til lofts haldið í lágmarki. Þegar svæði flæðigryfju er fullnýtt skuli það hulið með þekjuefni sem falli inn í umhverfið. Greind ákvæði reglugerðar nr. 73/2003 og viðauka við hana kveða m.a. á um heimild Umhverfisstofnunar til að ákveða í starfsleyfi að minnka þær kröfur sem settar eru fram í liðum 3.2 og 3.3. í I. viðauka, sbr. a-lið 1. mgr. 25. gr. eða að ákvæði 20. gr. gildi ekki um urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang, sbr. c-lið 1. mgr. Skal ákvörðun skv. 1. mgr. byggjast á framlögðum gögnum um áhættumat í umsókn um starfsleyfi og ef við eigi mat á umhverfisáhrifum og vera tekin í samræmi við lið 2 í I. viðauka. Líkt og fram hefur komið var í grunnástandsskýrslu gerð nokkur grein fyrir flæðigryfjum og þá var við auglýsingu starfsleyfistillögu 24. ágúst 2021 jafnframt birt á heimasíðu Umhverfisstofnunar áhættumat vegna efnis í flæðigryfjum frá því í júní s.á.

Í fjórða kafla starfsleyfisins er mælt fyrir um innra eftirlit og vöktun. Var að framan vikið að gr. 4.1 um mæliáætlun. Til viðbótar því sem áður greinir er þar mælt fyrir um að Umhverfisstofnun geti farið fram á að mældir séu aðrir þættir ef grunur vaknar um marktæk áhrif á styrk efna í umhverfinu eða annað álag á umhverfið af völdum starfsemi álversins sem ekki er vitað um við útgáfu leyfisins. Í gr. 4.2 er vísað til Viðauka 7 og ákvæða starfsleyfisins um tíðni mælinga og notkun staðla um tilteknar mælingar. Mælingar fyrir sýnatöku úr vatni skal samkvæmt gr. 4.3 framkvæma samkvæmt staðlinum ISO 5667 og skal vakta losun í vatn á staðnum þar sem losun fer út. Vísað er til Viðauka 8 og BAT 16 um vöktunarkröfur og þá er heimild til að aðlaga tíðni vöktunar ef gagnaraðir sýni með skýrum hætti að losunin sé stöðug. Um hávaða er mælt fyrir um í gr. 4.4 og skal rekstraraðili vera með yfirlit yfir þær hávaðauppsprettur sem kunni að valda hávaða yfir leyfilegum mörkum, sbr. gr. 3.25, utan eigin iðnaðarsvæðis samkvæmt skipulagi. Þá segir í gr. 4.6 að stofnunin geti tekið ákvarðanir um að gera breytingar á fyrirkomulagi umhverfisvöktunarinnar og loftgæðamælistöðvar, telji hún ástæðu til á grundvelli niðurstaðna vöktunar.

Af hálfu Umhverfisstofnunar hefur við meðferð þessa máls verið bent á að í hinu kærða starfsleyfi sé kveðið á um að álag á umhverfið sé vaktað innan fyrrum þynningarsvæðis og eigi loftgæði hvað varði brennisteinsdíoxíð og svifryk að uppfylla ákvæði laga og reglna og vera innan umhverfismarka. Hvað snerti staðsetningu mælistöðva til mælinga á umhverfismörkum, þá er háð mati stjórnvaldsins hvernig þeim verði best fyrir komið þannig að þær geti tryggt bestu mælingar. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir hluta af þeim fyrirmælum í starfsleyfinu sem mæla fyrir um mælingar við stöðina á losun og þeim viðmiðunarmörkum sem um þær mælingar gilda. Þá hefur af hálfu Umhverfisstofnunar m.a. verið bent á að krafa í grein 4.6 í starfsleyfinu um loftgæðamælistöð vestan við álverið ásamt veðurstöð sé bein afleiðing af afnámi þynningarsvæða. Í umhverfisvöktunaráætlun fyrir árin 2021-2029 séu nýir sýnatökustaðir fyrir gróðursýni sem séu innan fyrrum þynningarsvæðis. Þá kemur fram að þar sem stýring mengunaráhrifa gangi út á það að vernda nærliggjandi byggð og náttúru hafi þótt rétt að mælingar væru gerðar utan iðnaðarsvæðis eins og það sé skilgreint í skipulagi. Verður ekki gerð athugasemd við það mat stofnunarinnar.

Með vísan til umfjöllunar um skilyrði starfsleyfisins og þrátt fyrir það hve langt sé frá gerð mæliáætlunar verður að telja að efnislegt innihald hins kærða starfsleyfis sé ásættanlegt, þ. á m. varðandi mengunarvarnir og vöktun. Verður að álíta á þeim grundvelli og að öðru leyti með vísan til sjónarmiða sem Umhverfisstofnun hefur fært fram fyrir nefndinni, að stofnunin hafi lagt nægilegan grundvöll að hinu útgefna starfsleyfi hvað snerti óbreytta starfsemi álversins. Stofnunin hafi með viðeigandi hætti sett þau viðmið sem fyrirfinnast í gildandi lögum og reglugerðum, tekið tillit til aðstæðna og reynt að tryggja gagnsæi líkt og kostur var að teknu tilliti til þess að starfsleyfið tekur til margra mismunandi og sérhæfðra þátta, s.s. áskilið er í lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 550/2018.

_ _

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður hafnað kröfu kærenda um ógildingu hins kærða starfsleyfis í heild sinni, en það þó fellt úr gildi hvað varðar aukningu á framleiðslumagni umfram óbreytta starfsemi leyfishafa. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu starfsleyfis Umhverfisstofnunar til Rio Tinto á Íslandi hf. frá 29. október 2021 að öðru leyti en því að felldur er úr gildi sá hluti ákvörðunarinnar sem lýtur að framleiðsluheimildum umfram 212 þúsund tonn af áli á ári, sbr. grein 1.2 í starfsleyfinu, þ.e. í stað orðanna 460.000 tonn af áli í þeirri grein komi: 212.000 tonn af áli.

 

Sérálit Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors: Ég tel ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita hið kærða starfsleyfi haldna verulegum annmörkum sem leiða eigi til ógildingar.

Svo sem greinir í forsendum meirihlutans var í tölvubréfi leyfishafa til Skipulagsstofnunar 9. desember 2019 ekki lýst áformum sem fólu í sér nýja og breytta framkvæmd í skilningi þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ólíkt meirihlutanum tel ég að í ljósi þess sem rakið hefur verið um þær breytingar sem orðið hafa á áformum álversins um starfsemi þess frá árinu 2002 hafi hvílt ríkari skyldur á Skipulagsstofnun við meðferð erindisins sem sent var stofnuninni undir þeirri forskrift að það væri „[f]yrirspurn um málsmeðferð“. Stofnuninni hefði því verið rétt að líta á erindið sem tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd, skv. 1. málslið 2. mgr. 6. gr. laganna, enda var stofnuninni með því tilkynnt að áformað væri að sækja um óbreytt starfsleyfi fyrir 460 þúsund tonna ársframleiðslu fyrir álver Rio Tinto hf. á Íslandi (ISAL) og að fyrir lægi mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2002 ásamt viðbótarloftdreifingarspá fyrir 460 þúsund tonna ársframleiðslu frá 2006.

Málsmeðferð samkvæmt 6. gr. laganna hvað varðar tilkynningu á fyrirhugaðri framkvæmd í flokki B er að hluta til lýst í niðurstöðu meirihlutans. Í ákvæðinu er gerð krafa um að framkvæmdaraðili leggi fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð áhrif hennar á umhverfið, sbr. einnig þágildandi 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Þá ber Skipulagsstofnun skv. 3. mgr. lagagreinarinnar að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum, innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmdina berast, og skal við ákvörðunartökuna fara eftir viðmiðum í 2. viðauka og rökstyðja niðurstöðuna með hliðsjón af þeim. Skal ákvörðun stofnunarinnar vera byggð á þeim upplýsingum sem framkvæmdaðili hefur lagt fram og ef við eigi á öðrum gögnum um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Þá skal stofnunin gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni, hafa hana aðgengilega á vef stofnunarinnar og kynna almenningi.

Skipulagsstofnun svaraði leyfishafa 6. janúar 2020. Í svari stofnunarinnar kom fram að hún teldi að þar sem ekki væri um framleiðsluaukningu að ræða miðað við núverandi starfsleyfi og sama framleiðslumagn og fjallað hefði verið um í ferli mats á umhverfisáhrifum árið 2002 og úrskurður Skipulagsstofnunar lægi fyrir um, ekki væri verið að stækka mannvirki og ekki væri verið að breyta starfsemi miðað við umfjöllun í umhverfismatsferlinu árið 2002 þannig að ætla mætti að það væri aukið álag á umhverfið, kallaði endurnýjunin ekki á málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000. Niðurstaða Skipulagsstofnunar byggist líkt og fram kemur í forsendum meirihlutans að öllum líkindum á skilgreiningu c-liðar 3. gr. laga nr. 106/2000 þar sem segir að „framkvæmd“, sé hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir sem undir lög þessi falla. Framangreint breytir því á hinn bóginn ekki að á undanförnum áratugum hafa orðið verulegar breytingar á þeim kröfum sem gerðar eru til starfsemi álvera eins og efni starfsleyfis Umhverfisstofnunar endurspeglar. Um leið hafa orðið breytingar á landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, eins og lýst er af meirihlutanum.

Ekki liggur fyrir að Skipulagsstofnun hafi gert að því reka að afla sér upplýsinga um starfsemi álversins eða þá starfsemi sem þar væri fyrirhuguð áður en hún tók stjórnvaldsákvörðun um að ekki þyrfti að koma til málsmeðferðar skv. lögum nr. 106/2000. Hvort sem litið er til 6. gr. tilvitnaðra laga eða 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði stofnuninni áður en hún svaraði leyfishafa 6. janúar 2020 borið að upplýsa málið með forsvaranlegum hætti. Ákvörðun sinni til stuðnings vísar stofnunin m.a. til þess að ekki væri verið að breyta starfsemi álversins, en líkt og fram hefur komið verður ekki séð að nokkrar upplýsingar, aðrar en yfirlýsing leyfishafa, nærri 20 ára gömul matsskýrsla og tæplega 15 ára gömul dreifingarspá fyrir stækkun álversins, hafi legið þeirri niðurstöðu til grundvallar. Þá var þátttökuréttur almennings, skv. 6. málslið 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, jafnframt sniðgenginn. Mat Skipulagsstofnunar á því hvort til þurfi að koma nýtt mat á umhverfisáhrifum skv. gr. 13.02 í 1. viðauka, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 er því bæði haldið form- og efnisannmarka.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða Skipulagsstofnunar frá 6. janúar 2020 þess efnis að ekki þyrfti að koma til málsmeðferðar skv. lögum nr. 106/2000 ekki lögð til grundvallar nýju starfsleyfi Rio Tinto á Íslandi hf. Ljóst er að eitt skilyrða fyrir útgáfu starfsleyfis er að í þeim tilvikum þegar að atvinnurekstur er háður mati á umhverfisáhrifum eða tilkynningarskyldur skuli niðurstaða matsins eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu liggja fyrir áður en tillaga að starfsleyfi er auglýst, sbr. 6. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Á það við um rekstur álvera en vinnsla járnlausra málma, þ.m.t. framleiðsla og bræðsla, er tiltekin í lið 2.5. í I. viðauka reglugerðarinnar.

Þegar lög eða reglugerðir settar með stoð í lögum gera ráð fyrir því að ákvörðun stjórnvalds sé háð því að fyrir liggi ákvörðun annars stjórnvalds leiðir af 10. gr. stjórnsýslulaga að rík skylda er fyrir fyrrnefnda stjórnvaldið að afla með forsvaranlegum hætti nægilegra upplýsinga um hvort ákvörðun síðarnefnda stjórnvaldsins liggi fyrir og hvers efnis hún sé.

Með tölvupósti 12. ágúst 2021 óskaði Umhverfisstofnun eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort óska þyrfti ákvörðunar um endurskoðun matsskýrslu, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Í svari Skipulagsstofnunar 17. s.m. kom m.a. fram að í því mati á umhverfisáhrifum sem lokið hefði með úrskurði stofnunarinnar árið 2002 hefði verið gert ráð fyrir stækkun álvers í tveimur áföngum, en stofnunin hefði ekki upplýsingar um hvort framkvæmdir hefðu farið fram og 12. gr. ætti eingöngu við ef framkvæmdir hefðu ekki hafist. Ákvæðið ætti því ekki við ef framkvæmdir væru hafnar en ekki lokið að öllu leyti. Afstaða Skipulagsstofnunar rímar illa við þá staðreynd að rekstur álvers er starfsemi sem eðli málsins samkvæmt er ætlað að standa yfir til lengri tíma, en ekki framkvæmd sem hefst og lýkur á fyrir fram gefnu tímamarki.

Um er að ræða umfangsmikla mengandi starfsemi í nágrenni þéttbýlis sem hefur staðið í meira en hálfa öld og mun að öllu óbreyttu halda áfram. Einnig ber að hafa í huga að þótt ekki hafi orðið af þeirri framleiðsluaukningu sem stefnt var að árið 2002 er starfræksla álvera áfram sem hingað til starfsemi sem hefur í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Framangreind afstaða Skipulagsstofnunar leiðir til þess að rekstur álversins getur á grundvelli úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum frá 2002 haldið áfram endalaust, þ.e.a.s. ef framleiðslan er innan þeirra 460 þúsund tonna á ári sem þá voru viðfangsefni matsins. Afleiðingar framangreinds eru m.a. þær að sniðgenginn er tilgangur mats á umhverfisáhrifum og meginreglan um að slíkt mat fari fram áður en leyfi er veitt. Jafnframt er markmið opinnar málsmeðferðar með þátttöku almennings í þeim tilgangi að tryggja almannahagsmuni sniðgengið, sjá nánar 1. gr. laga nr. 106/2000.

Af þessum sökum bar Umhverfisstofnun að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar án tillits til þess hvort framkvæmdir væru taldar hafnar innan tíu ára. Jafnframt er tekið undir þá niðurstöðu meirihlutans að mat Umhverfisstofnunar á því hvort framkvæmdir hefðu hafist innan tíu ára væri ófullnægjandi. Á grundvelli 2. mgr. 12. gr. bar Skipulagsstofnun að endurskoða matsskýrsluna vegna verulegra breyttra forsendna. Hér eru fyrst og fremst hafðar í huga þær umfangsmiklu breytingar sem orðið hafa á umhverfisrétti síðastliðinn áratug og þeim kröfum sem gerðar eru til mengandi starfsemi. Einnig þarf að hafa hugfast að afstaða þorra almennings til umhverfismála hefur gjörbreyst á sl. áratugum. Þá á almenningur rétt á því samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu sé auglýst í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið er út á landsvísu innan tveggja vikna frá því að ákvörðun liggur fyrir og skal í auglýsingu tilgreina kæruheimildir og kærufresti. Ljóst er að kærendur eiga lögvarða hagsmuni af því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá eiga umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök lögvarinna hagsmuna að gæta við gæslu almannahagsmuna og geta skotið til úrskurðarnefndarinnar tilgreindum ákvörðunum, þ.m.t. ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu skv. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og einnig skv. b-lið sömu málsgreinar varðandi ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, m.a. vegna ætlaðs brots á þátttökuréttindum almennings með athöfnum eða athafnaleysi eða annars ágalla sem kann að hafa verið á málsmeðferðinni.

Þar sem efnisleg afstaða Skipulagsstofnunar til þess hvort áframhaldandi rekstur álversins í núverandi mynd sé háður mati á umhverfisáhrifum liggur ekki fyrir í málinu verður að ógilda ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita hið kærða starfsleyfi. Skal það tekið fram að ég tel hvorn annmarkann um sig vera ógildingarannmarka, sérstaklega þegar litið er til ákvæða 6. og 12. gr. laga nr. 106/2000.

Þá skal jafnframt tekið fram að í ljósi þess hversu takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir í starfsleyfinu um áhrif rekstursins á viðkomandi vatnshlot og meðhöndlun vatns og hvort og með hvaða hætti lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála var fylgt við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar er ég ósammála því mati meirihlutans að það sé ekki verulegur annmarki á starfsleyfinu.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið tel ég að fella beri hið kærða starfsleyfi úr gildi í heild sinni.

118/2022 Vesturgata

Með

Árið 2022, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Kristín Benediktsdóttir dósent og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2022, kæra á útgáfu byggingarleyfis, dags. 15. september 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2022 á lóð Vesturgötu 67 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir B, Vesturgötu 73, f.h. nánar tilgreindra íbúa og eigenda Vesturgötu 65, 65a, 69, 73 og Seljavegi 10, öll í Reykjavík, útgáfu byggingarleyfis, dags. 15. september 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi með sex íbúðum auk starfsmannarýmis á lóð Vesturgötu 67, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst s.á. um að samþykkja umsókn Félagsbústaða hf. um greint leyfi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. október 2022.

Málavextir: Lóðin Vesturgata 67 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag milli Seljavegar og Ánanausta, staðgreinireitur 1.133.1, sem samþykkt var í borgarráði 24. janúar 1984 og tók gildi 18. apríl s.á. Með skipulaginu var gert ráð fyrir að reist yrði tveggja og hálfs hæðar íbúðarhús á lóðinni. Hinn 15. október 2020 tók gildi breyting á deiliskipulaginu er fól m.a. í sér að á lóðinni yrði heimilt að reisa fjögurra hæða hús með sex íbúðum ásamt sameiginlegum rýmum á jarðhæð. Byggingarmagn færi úr 349 í 606 m². Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. desember 2020 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi með sex íbúðum auk starfsmannarýmis „sem [yrði] „léttur“ búsetukjarni í notkunarflokki 5“ á lóðinni. Byggingarleyfi var gefið út 27. janúar 2022 og munu framkvæmdir hafa byrjað í mars sl.

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 57/2022, kveðnum upp 2. ágúst 2022, var byggingarleyfið, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans um að samþykkja umsókn um leyfi, fellt úr gildi. Taldi nefndin að ekki yrði séð að við hönnun götuhliðar hússins hefði verið tekið tillit til aðliggjandi húsa, eins og kveðið væri á um í skilmálum skipulagsins. Nýbyggingin yrði með flötu þaki og óreglubundna gluggasetningu og myndi götuhlið hennar stinga verulega í stúf við aðliggjandi hús sem öll væru með mænisþaki og reglubundna gluggasetningu.

Hinn 10. ágúst s.á. barst byggingarfulltrúa ný umsókn um byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni sem var í öllu sambærileg fyrri umsókn utan þess að sótt var um leyfi til að breyta gluggasetningu á norðurhlið, þ.e. götuhlið hússins. Tók byggingarfulltrúi erindið fyrir á afgreiðslufundi 16. s.m. og vísaði því til umsagnar skipulagsfulltrúa sem gerði ekki athugasemd við það, en taldi að rýna þyrfti hámarkshæð þakkants hússins. Hinn 30. ágúst 2022 var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og hún samþykkt með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Byggingarleyfi var gefið út 15. september s.á. og munu framkvæmdir við húsið hafa hafist að nýju í framhaldi þess.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir búi í aðliggjandi húsum og í nágrenni við Vesturgötu 67, en um sé að ræða sömu kærendur og í fyrra máli fyrir nefndinni. Reykjavíkurborg virðist hafa virt úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í því máli að vettugi og gefið út nýtt byggingarleyfi sem sé í öllum meginatriðum eins og það sem fellt hafi verið úr gildi. Samkvæmt deiliskipulagi fyrir lóðina skuli götuhlið hússins taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, en þetta þýði m.a. að nýbyggingin skuli vera með mænisþak, eins og reyndar sé á öllum húsum í nærliggjandi götum. Á Vesturgötu 67 eigi hins vegar að reisa hús með flötu þaki og passi það alls ekki inn í götumyndina.

Af hálfu eigenda Vesturgötu 65a eru að auki gerðar athugasemdir varðandi framkvæmdir á byggingarlóð og samtengingu húsaraðar Vesturgötu 65, 65a, 67 og 69. Engar upplýsingar liggi fyrir um hvaða áhrif sambinding húsa á misþykkum malarpúða í hallandi landslagi hafi m.a. á jarðskjálftasvörun þeirra. Hafi Reykjavíkurborg ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni um fyrirhugaðar framkvæmdir og með því gengið á eignarrétt kærenda. Þá muni fyrirhuguð bygging byrgja fyrir gluggann á gafli Vesturgötu 65a.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir lóðina skulu götuhliðar taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Hámarksvegghæð hússins skuli miðast við vegghæð baklóðar Vesturgötu 65a (ofan á steyptan kant), en þak megi fara upp í sömu hæð og þak húss nr. 65a ef húsið hafi mænisþak. Ekki sé fallist á að samþykktir uppdrættir séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Götuhliðar taki tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé og hæðarkótar þaks samræmist skilmálum deiliskipulagsins. Gluggasetning sé einnig í samræmi við aðliggjandi hús svo og efnisval, en framhlið hússins sé sléttpússaður múr með einangrun að innan, líkt og hjá aðliggjandi húsum.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að farið hafi verið í umfangsmikla vinnu við breytingu á framhlið hússins. Breytingar hafi verið gerðar á útliti og staðsetning glugga samræmd við götumynd og gildandi deiliskipulag. Engar breytingar hafi verið gerðar á þaki hússins, enda séu ekki ákvæði í deiliskipulagi um mænisþak. Því sé alfarið hafnað að úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 57/2022 hafi verið virtur að vettugi.

Við meðferð málsins komu fram athugasemdir frá arkitektum hússins. Þar er bent á að útliti hússins hafi verið breytt til að koma til móts við sjónarmið úrskurðarnefndarinnar og gluggar settir í reglulegri röð en áður. Þess hafi verið gætt að halda götulínu og nota sömu áferð á veggi og aðliggjandi hús. Gluggagerð vísi í húsið að Vesturgötu 69 varðandi stærðir og hlutföll, þó svo að röðun glugga sé ekki hefðbundin. Stigi sé í útvegg norðurhliðar og þar með riðlist gluggaröðin. Umrædd húsaröð sé nokkuð dæmigerð fyrir gamla Vesturbæinn. Hús séu mjög ósamstæð, þau reist á ólíkum tímum og endurspegli því hvert sinn tíðaranda. Þau séu einnig misstór, allt frá einni upp í fjóra og hálfa hæð með risi neðst við Ánanaust. Gríðarleg uppbygging sé hafin hinum megin við götuna og muni fjölbýlishús á þeim reit gnæfa yfir húsaröðina. Mikil breyting verði því á ásýnd og upplifun götunnar og í því samhengi virðist hlutfallsleg stærð Vesturgötu 67 falla ágætlega inn í götumyndina. Ef húsið yrði með mænisþaki yrði það verra fyrir fyrirhugaða starfsemi í húsinu þar sem aðgengismál yrðu þá ófullnægjandi.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að ef nýbyggingin eigi að vera hár kassi með flötu þaki þá sé hvorki tekið tillit til forms né nærliggjandi húsa eins og kostur sé. Þótt ekki standi að þakið skuli vera mænisþak þá liggi það í augum uppi miðað við skilmála deiliskipulagsins. Þrátt fyrir að gluggasetningu hússins hafi verið breytt muni það enn „stinga í stúf“. Almenn óánægja virðist með húsið hjá íbúum Vesturbæjar. Þá hefði verið skynsamlegt að huga að því í byrjun hvort umrætt rými hentaði fyrir sex íbúða rými og fyrirhugaða starfsemi í stað þess að þvinga svona byggingu þarna inn. Að halda því fram að nýting hússins kalli á að litið sé fram hjá skilmálum deiliskipulagsins séu einfaldlega ekki gild rök. Þá komi þau hús sem reist verði andspænis Vesturgötu 67 til að falla betur að götumyndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. september 2022 um að gefa út byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sem verður „léttur búsetukjarni“ á lóð Vesturgötu 67.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.

Svo sem greinir í málavöxtum felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi 2. ágúst 2022, í máli nr. 57/2022, leyfi fyrir byggingu húss að Vesturgötu 67 þar sem ekki yrði séð að við hönnun götuhliðar hússins hefði verið tekið tillit til aðliggjandi húsa eins og kveðið væri á um í skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir lóðina. Í kjölfarið samþykkti byggingar-fulltrúi að nýju óbreytt byggingaráform, utan þess að gerðar höfðu verið breytingar á glugga-skipan hússins. Telja kærendur, sem fyrr, að húsið samræmist ekki götumynd þar sem það verði með flötu þaki, en öll aðliggjandi og nærliggjandi hús séu með mænisþaki. Þá er gerð athugasemd við að ekki sé fjallað um glugga á gafli húss á Vesturgötu 65a.

Lóðin að Vesturgötu 67 er í gamalgrónu hverfi í Vesturbæ Reykjavíkur, á reit sem markast af Seljavegi, Holtsgötu, Ánanaustum og Vesturgötu. Samkvæmt húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur frá 2007 standa 12 hús á reitnum, sex þeirra eru einlyft, þrjú eru tvílyft og þrjú eru þrílyft. Húsin eru byggð á ýmsum tímum og er elsta húsið byggt árið 1881. Húsið að Vesturgötu 65a, sem liggur að Vesturgötu 67, er reist árið 1946 og Vesturgata 69 árið 1987.

Fram kemur í gildandi deiliskipulagi lóðarinnar Vesturgötu 67 að á henni sé heimilt að reisa fjögurra hæða hús. Segir að hámarksvegghæð miðist við vegghæð bakhliðar Vesturgötu 65a ofan á steyptan kant, en þak megi fara upp í sömu hæð og þak Vesturgötu 65a ef húsið að Vesturgötu 67 hafi mænisþak. Á skipulagsuppdrættinum er sýnt hvernig þak Vesturgötu 67 muni líta út miðað við mænisþak annars vegar og flatt þak hins vegar. Í skipulagsskilmálum segir einnig að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum mun hin umþrætta bygging verða fjögurra hæða og með flatt þak. Vegghæð hússins á norðurhlið verður 19,52 m, en skuli þó taka mið af þakkanti á bakhlið húss nr. 65a. Er gluggaskipan hússins reglulegri en á fyrri uppdráttum hússins. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. ágúst 2022, er fjallað um hönnun hússins með hliðsjón af gildandi deiliskipulagi og ekki gerð athugasemd við erindið.

Af gögnum þeim sem liggja fyrir í málinu frá arkitektum hússins, þ.m.t. útlitsmynd og tölvuteiknuð mynd af Vesturgötu séð frá gatnamótum Ánanausta, verður að telja að götuhlið Vesturgötu 67 muni enn stinga nokkuð í stúf við aðliggjandi hús sem öll eru með mænisþaki og reglubundna gluggaskipan. Ljóst er að þrátt fyrir fyrrgreindan áskilnað í deiliskipulagi um að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, girða skilmálar þess þó ekki fyrir að þak fyrirhugaðrar nýbyggingar geti verið flatt. Að framangreindu virtu, og þar sem húsið tekur að öðru leyti nokkurt tillit til efnisvals og gluggagerða aðliggjandi húsa verður kröfum kærenda um ógildingu hafnað.

Vegna athugasemda kærenda um rask á byggingartíma þykir rétt að benda á að byggingarstjóra og iðnmeisturum er skylt samkvæmt gr. 4.11.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að sjá um að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stafi af framkvæmdum. Jafnframt hefur byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð sem fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010, sbr. 8. gr. laganna.

Vegna athugasemda í kæru um að byrgt verði fyrir glugga á gafli Vesturgötu 65a skal bent á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna breytinga sem gerðar eru á skipulagi geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010. Verður kröfum kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um að fellt verði úr gildi byggingarleyfi, dags. 15. september 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2022 á lóð Vesturgötu 67 í Reykjavík.

 

21/2022 Norðurá bs.

Með

Árið 2022, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um álagningu viðbótargjalds að fjárhæð kr. 541.200 vegna mengunareftirlits árið 2020.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Norðurá bs. þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að leggja viðbótargjald á fyrirtækið að fjárhæð kr. 541.000 vegna mengunareftirlits árið 2020. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og til vara að sú fjárhæð sem innheimt sé verði lækkuð til muna.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 7. apríl 2022.

Málavextir: Kærandi hefur starfsleyfi frá Umhverfisstofnun fyrir urðun úrgangs á urðunarstaðnum við Stekkjarvík í landi Sölvabakka, Blönduósbæ. Starfsleyfið var gefið út í samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Gjaldskrá Umhverfisstofnunar, nr. 535/2015 gildir um gjöld vegna reglubundins eftirlits sem og vegna viðbótareftirlits, vanefnda eða rökstuddra kvartana sem greiðast sérstaklega skv. gjaldskrá, sbr. 5. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit.

Á grundvelli 4. mgr. 54. gr. laga nr. 7/1998 mat Umhverfisstofnun áhættu af starfsemi kæranda svo að fara skyldi í tvö eftirlit, vettvangsheimsóknir, á árinu 2020 og fóru þau fram 20. maí og 13. nóvember það ár. Samkvæmt 25. gr. gjaldskrárinnar er árlegt gjald fyrir eftirlit í 2. gjaldflokki, sem kærandi fellur í, kr. 724.000. Byggir gjaldið á þeim forsendum að 42 klst. sé varið í eftirlitið. Með bréfi, dags. 9. apríl 2021, var kæranda tilkynnt að skráðir tímar í verkbókhaldi stofnunarinnar hefðu verið umtalsvert fleiri og að innheimt yrði viðbótargjald vegna 41 klst. eða kr. 541.000 fyrir viðbótarvinnu. Kærandi andmælti álagningu viðbótargjaldsins 15. s.m. sem Umhverfisstofnun svaraði með bréfi, dags. 3. júní s.á., þar sem fram kom að stofnunin teldi ekki hafa komið fram upplýsingar sem gæfu tilefni til að breyta fyrri ákvörðun.

Hinn 8. júní 2021 gaf Umhverfisstofnun út reikning fyrir viðbótargjaldi með gjalddaga sama dag og eindaga 8. júlí s.á. Kærandi fór fram á frekari rökstuðningi með bréfi, dags. 3. júlí s.á, og svaraði Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 24. september s.á. þar sem fram kom að stofnunin hefði lagt fram gögn úr verkbókhaldi stofnunarinnar og gefið skýringar á því í hverju tímaskráningin hefði falist og hvers vegna hún hafi orðið jafn mikil og raunin var. Ekki hefði verið um óeðlilega marga tíma að ræða og beinlínis væri gert ráð fyrir því í gjaldskrá að innheimt væri tímagjald vegna þeirrar vinnu sem færi í eftirlit umfram fastagjald.

 Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að rökstuðningur Umhverfisstofnunar fyrir viðbótarvinnu vegna umfangsmikils eftirlits 2020 hafi verið frekar almennur og takmarkaður og að mestu hafi verið vísað til tímaskráninga starfsmanna. Ekki sé samræmi milli þeirra tíma sem tilgreindir séu í bréfum stofnunarinnar frá 9. apríl og 3. júní 2021 en í öðru bréfinu hafi verið tilgreindir 83 tímar en í hinu 78 tímar. Erfitt væri fyrir kæranda að átta sig á út frá yfirliti yfir tímaskráningar hvað hafi legið að baki þeim tímum sem þar væru skráðir. Í örfáum tilvikum væru settar inn skýringar við einstaka færslur en almennt séu skýringarnar rýrar eða engar. Ekki hafi verið með skýrum hætti verið færð rök fyrir því hvað hafi leitt til þess að þörf hafi verið á svo mikilli fjölgun á tímum við eftirlitið miðað við fyrri ár, sérstaklega þar sem frávik frá skilyrðum starfsleyfis hafi verið fátíð. Meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveði á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Einnig skuli þess gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Svo virðist sem Umhverfisstofnun telji sig hafa ótakmarkaðar heimildir til að ákveða viðbótarvinnu sem sé umfram hið fasta árgjald og að nægjanlegt væri að vísa til tímaskráningar starfsmanna.

 Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er vísað til þess að hún byggi gjaldtökuheimild sína vegna eftirlits á 2. tl. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem fram komi að stofnuninni sé heimilt að taka gjald fyrir eftirlit, þ.m.t. sýnatöku. Einnig sé gjaldtökuheimild að finna í 4. mgr. 65. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Á grundvelli þessara gjaldtökuheimilda setji ráðherra, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða stofnunin taki að sér. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður og birta skuli gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Kveðið sé á um gjald fyrir vinnu við eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi í 25. gr. gjaldskrárinnar. Þegar vinna stofnunarinnar við eftirlit með mengandi starfsemi sé innan þess tímaramma er birtist í 2. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar sé grunngjald innheimt. Með grunngjaldinu séu áætlaðir tímar vegna eftirlits fyrir þá rekstraraðila sem um ræði. Stofnunin leggi áherslu á að um sé að ræða áætlun sem taki til margra mismunandi rekstraraðila og hafi stofnunin því heimild til innheimtu viðbótargjalds þegar eftirlit með rekstraraðila verði umfangsmeira en gert sé ráð fyrir í gjaldskrá.

Í 1. mgr. 54. gr. laga nr. 7/1998 komi fram að eftirlit með atvinnurekstri, sbr. viðauka I-IV, taki til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipti og hollustuhátta. Mengunarvarnareftirlit sé skilgreint í 4. mgr. 3. gr. laganna þar sem komi fram að mengunarvarnaeftirlit taki til eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins teljist til mengunarvarnaeftirlits. Af þessu megi ráða að mengunarvarnaeftirlit stofnunarinnar með rekstraraðilum skv. viðaukum I-III skuli vera nokkuð víðtækt, sbr. orðalag 1. mgr. 54. gr. Vinna eftirlitsmanna vegna eftirlits skv. lögum nr. 7/1998 felist ekki einungis í eftirlitsferðinni sjálfri heldur sé margt fleira sem í eftirliti felist, t.d. úrvinnsla frávika og annarra atvika, kvartana, fyrirspurna, yfirferð ýmissa gagna, mælinga, umhverfisvöktunar, samráðsfundir, kynningarfundir og aðrir fundir. Verði einhver af þessum atriðum umfangsmeiri en búist var við sé viðbúið að vinna við eftirlit verði yfirgripsmeiri en gert sé ráð fyrir skv. gjaldskrá stofnunarinnar.

Í 3. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar séu talin upp nokkur atriði sem geti leitt til þess að vinna við eftirlit sé umfangsmeiri en skv. grunngjaldi 2. mgr. 25. gr. Í 3. mgr. segi að verði eftirlit umfangsmikið, t.d. vegna sérstakra aðstæðna, fjölda frávika eða ófullnægjandi upplýsinga rekstraraðila, skuli innheimta tímagjald sem því nemi skv. 1. gr. gjaldskrárinnar. Sú upptalning sé ekki tæmandi. Önnur og fleiri tilvik gætu því fallið undir ákvæðið. Bent sé á að eitt þeirra atriða sem talin séu upp í ákvæðinu, þ.e. ófullnægjandi upplýsingar frá rekstraraðila, eigi við í málinu.

Gert sé ráð fyrir því í gjaldskrá að innheimta skuli tímagjald vegna þeirrar vinnu sem fari í vinnslu leyfisins umfram grunngjald, sbr. orðalag 3. mgr. 25. gr. Sú forsenda sem búi þar að baki sé sú að kostnaður vegna vinnu stofnunarinnar við eftirlit með starfseminni eigi samkvæmt greiðslureglu umhverfisréttarins og mengunarbótareglu ekki að falla á almenning heldur rekstraraðila. Að sama skapi sé um að ræða þjónustugjald, en grundvöllurinn að baki þjónustugjöldum sé að greiddur sé raunkostnaður fyrir veitta þjónustu. Eins og sjá megi á yfirliti tímaskráningar hafi vinnan við eftirlitið verið sundurliðuð eftir því hverju viðkomandi eftirlitsmaður sinnti, undirbúningi, eftirlitsferð og fyrirspurnum. Stofnunin hafi rökstutt í bréfi sínu, dags. 24. september 2021, hvers vegna vinna eftirlitsteymis við undirbúning eftirlits, eftirlitsferðir, skýrslugerð og bréfaskriftir, mælingar o.fl. hafi verið umfangsmeiri en gert væri ráð fyrir í viðmiðum 25. gr. gjaldskrár nr. 535/2015.

Í bréfum stofnunarinnar til kæranda hafi verið rakið að á árinu 2020 hafi tvö eftirlit verið framkvæmd í starfsstöð fyrirtækisins við Stekkjarvík. Í fyrri eftirlitsferðinni, 20. maí 2020 hafi meðal annars verið farið yfir uppfærslu úrbótaáætlunar vegna útistandandi frávika. Aftur hafi verið farið yfir úrbótaáætlun í eftirliti sem framkvæmt hafi verið rafrænt 13. nóvember s.á. sem og nýtt frávik frá starfsleyfi staðfest. Skýrsluskrif og vinna við eftirlit sé almennt tímafrekari þegar frávik hafi verið skráð heldur en þegar rekstraraðili uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til hans í starfsleyfi, reglugerðum og lögum. Þegar eldri frávik séu opin, þ.e. að rekstraraðili hafi ekki brugðist við kröfum stofnunarinnar og að viðkomandi fráviki frá starfsleyfi hafi ekki verið lokað, sé undirbúningstími eftirlitsmanna umfangsmeiri en þegar engin frávik hafi verið skráð.

Fyrra frávikið hafi varðað skráningar vegna tl. 2.-7. og 9.-13. í gr. 5.1 í starfsleyfi. Við seinna eftirlit ársins 2020 hafi komið fram eitt nýtt frávik frá gr. 5.3. í starfsleyfi þar sem mælingar á sigvatni hafi ekki verið framkvæmdar. Eitt eldra frávik úr eftirliti 2. maí 2019 hafi enn verið opið og að rekstraraðili hafi á þessum tíma unnið eftir samþykktri úrbótaáætlun. Beðið hefði verið eftir að niðurstöður mælinga á sigvatni vorið 2020 lægju fyrir en þær mælingar hafi ekki farið fram.

Vegna fráviksins hafi verið mikilvægt að yfirfara vel niðurstöður mælinganna og bera saman við mælingar undanfarinna ára svo eftirlitsmaður gæti metið hvort forsendur fráviksins væru enn til staðar og þar af leiðandi hvort eða hvaða aðgerða þyrfti að grípa til. Yfirferð gagnanna hafi verið tímafrek þar sem gögnin hefðu ekki verið nægilega vel framsett og illa samanburðarhæf við fyrri ár. Nýr greiningaraðili hefði tekið við greiningum mælinganna og notað aðrar mælieiningar en áður hafi verið gert, mæliniðurstöður fyrri ára hafi ekki verið settar fram á áreiðanlegan hátt, gögnin hafi verið á formi sem ekki hafi verið hægt að færa inn í önnur forrit nema handvirkt og lítil túlkun hefði fylgt gögnunum. Tími eftirlitsmanns hafi því farið í að koma auga á framangreinda galla í mæliniðurstöðunum en það hafi krafist ítarlegrar yfirferðar gagnanna. Breyta hafi þurft milli mælieininga til að gera niðurstöðurnar samanburðarhæfar, finna hvar villurnar lægju og skrá niðurstöðurnar handvirkt til að ná samfellu í mæliniðurstöðum. Þessari vinnu hafi einnig fylgt samskipti við annan eftirlitsmann, rekstraraðila og mæliaðila. Meiri tíma hafi verið ráðstafað í eftirlitið árið 2020 en 25. gr. gjaldskrár stofnunarinnar geri ráð fyrir en þó væri ekki um óeðlilega marga tíma að ræða og að gert væri ráð fyrir því í gjaldskrá að innheimt væri tímagjald vegna þeirrar vinnu sem fari í eftirlit umfram fastagjald.

Misræmið sem kærandi hafi bent á í bréfum stofnunarinnar, þ.e. annars vegar 83 tímar og hins vegar 78, hafi verið útskýrt í svari stofnunarinnar við andmælum rekstraraðila, dags. 24. september 2021. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. júní s.á., hafi komið fram að meðfylgjandi væri yfirlit um tímaskráningu starfsmanna stofnunarinnar vegna eftirlits á árinu 2020 og að þeim tímum til viðbótar væru skráðar 5,16 klukkustundir vegna umsjónar og áhættumats. Þessir tímar hafi ekki verið inni í tímaskráningum sem fylgdu síðara bréfinu heldur tekið fram í bréfinu að þeir kæmu til viðbótar.

Kærandi hafi bent á að erfitt væri að átta sig á út frá yfirliti yfir tímaskráningar hvað hafi legið að baki þeim tímum sem voru skráðir. Vinna stofnunarinnar varðandi eftirlit með mengandi starfsemi sé fólgin í ýmsu. Þegar samskipti eigi sér stað á milli sérfræðinga stofnunarinnar og rekstraraðila sé oft svo að viðkomandi sérfræðingur þurfi að huga að ýmsu öðru, t.d. leita sér upplýsinga tengdum þeim samskiptum sem um ræði. Sá tími sem búi að baki tímaskráningu sérfræðings varðandi samskipti við rekstraraðila séu oft fólgin í fleiru en eingöngu beinum samskiptum. Sérfræðingar stofnunarinnar skrái ekki nákvæmlega hvaða verkefnum þeir sinni hverju sinni og hvernig. Vinnan sé skráð í verkbókhald stofnunarinnar en undir hverju verknúmeri séu nokkrir verkhlutar. Áhersla sé lögð á að sérfræðingar skrái niður undir hvaða verkhluta viðkomandi vinna falli en ekki nákvæmlega hvaða faglegu þáttum þeir sinni.

Tímar sem skráðir hafi verið í eftirlit 2020 hafi ekki verið fleiri en skráðir hafi verið í eftirlit stofnunarinnar með rekstraraðila undanfarin ár. Árið 2019 hafi verið innheimt viðbótargjald vegna 49,22 tíma. Um sambærilegan tímafjölda væri að ræða vinnulega séð þar sem síðara eftirlit ársins 2020 hafi verið rafrænt og færri tímar skráðir sem nemur ferðatíma. Viðbótargjald vegna mengunareftirlits hafi ekki verið innheimt markvisst fyrr en árið 2019, en áður hafi það einungis verið innheimt í sérstökum tilvikum. Stofnunin telji mikilvægt að rekstraraðilar greiði kostnað vegna eftirlits með starfseminni fremur en skattgreiðendur. Í verkferli stofnunarinnar um innheimtu viðbótargjalds komi fram að það sé innheimt ef tímafjöldi umfram grunngjald séu 10 eða fleiri.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar viðbótargjalds vegna mengunarvarnaeftirlits Umhverfisstofnunar með starfsemi kæranda.

Að meginstefnu er fjár vegna lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga aflað með almennri skattheimtu nema fyrir hendi sé gjaldtökuheimild í lögum.

Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir setur ráðherra, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér. Skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal hún byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Gjaldskrá nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2015. Gjald fyrir útselda vinnu sérfræðings skv. 1. gr. gjaldskrárinnar er kr. 13.200 á hverja klukkustund fyrir verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar innheimtir Umhverfisstofnun gjald af fyrirtækjum sem stofnunin hefur eftirlit með skv. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit og stunda atvinnurekstur sem talinn sé upp í viðauka I, VII og IX með reglugerðinni. Samkvæmt 54. gr. laga nr. 7/1998 skal eftirlit vera með atvinnurekstri, sbr. viðauka I-IV, sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta, sem og hollustuhátta.

Í 2. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar segir að vegna reglubundins eftirlits skv. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 og eftirlits sem nánar sé kveðið á um í starfsleyfi fyrirtækis skuli innheimta nánar tilgreint gjald. Í gjaldaflokki 2 er gjaldið að fjárhæð kr. 724.000 og í því gjaldi er gert ráð fyrir 42 klst. vinnu. Þá segir í 3. mgr. 25. gr. gjaldskrárinnar að sé framkvæmd eftirlits, undirbúningur og/eða úrvinnsla sérlega umfangsmikil, t.d. vegna sérstakra aðstæðna, fjölda frávika eða ófullnægjandi upplýsinga rekstraraðila, skuli innheimta tímagjald sem því nemi skv. 1. gr. Reikningur skuli gefinn út þegar eftirlitsskýrsla liggi fyrir.

Meðal framlagðra gagna í máli þessu er svonefnt verkbókhald Umhverfisstofnunar vegna vinnu stofnunarinnar við eftirlit með starfsemi kæranda. Skráningar í verkbókhaldið, sem voru til grundvallar álagningu umþrætts viðbótargjalds, eru þar í litlu útskýrðar og fela að mestu í sér tímaskráningar starfsmanna án nánari tilgreiningar. Nefndin kallaði eftir nánari skýringum frá stofnuninni um tiltekna liði í verkbókhaldi. Fram kom m.a. í svörum stofnunarinnar að samtals 1,5 klst. hafi farið í svör við erindum frá starfsmanni Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra vegna seinkunar á sýnatöku þar sem sýnatökuglös voru ekki komin til landsins. Undir verkhlutanum „undirbúningur“ hafi meðal annars verið skráður tími vegna vinnu við boðun funda við eftirlit og tilfærslu ábyrgðar milli starfsmanna vegna eftirlits með starfsemi kæranda.

Telja verður að þessir verkþættir beri einkenni almenns reglubundins verkefnis Umhverfisstofnunnar. Var stofnuninni því ekki, án frekari skýringa, mögulegt að telja þá með við álagningu umdeilds viðbótargjalds. Með vísan til þessa og að öðru leyti ófullkominns rökstuðnings Umhverfisstofnunar á forsendum hinnar umdeildu gjaldtöku, verður ekki séð hvaða verkefni stofnunarinnar voru í raun grundvöllur gjaldsins.

Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið verður ekki talið sýnt að umrædd gjaldtaka, sem nemur um 74,5% af fastagjaldi við eftirlit með starfsemi kæranda samkvæmt gjaldskrá, uppfylli skilyrði 53. gr. laga nr. 7/1998 þess efnis að upphæð gjalds vegna eftirlits megi ekki vera hærri en kostnaður við veitta þjónustu. Verður hin kærða álagning því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 3. júní 2021 um innheimtu viðbótargjalds að fjárhæð kr. 541.000 vegna mengunareftirlits árið 2020 á kæranda.