Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

132/2022 Suðurleið, Tjarnarbyggð

Með

Árið 2022, föstudaginn 23. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 132/2022, kæra vegna tilkynningar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 16. nóvember 2022, um fyrirhugaða beitingu þvingunarúrræða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 22. nóvember 2022, kærir lóðarhafi Suðurleiðar 8, Sveitarfélaginu Árborg, tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 16. nóvember s.á., um fyrirhugaða beitingu þvingunar­úrræða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 23. nóvember 2022.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 16. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að við eftirlitsferð að lóðinni Suðurleið 8 í Tjarnarbyggð á Selfossi hefði komið í ljós að tvö hús og einn gámur væru staðsett á lóðinni. Í gagnagrunni byggingarfulltrúa væri ekki að finna nein gögn sem gæfu til kynna að gefið hefði verið út leyfi fyrir húsunum eða stöðuleyfi fyrir umræddum gámi. Var gerð sú krafa að húsin og gámurinn yrðu fjarlægð af lóðinni hið fyrsta. Ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir til að fjarlægja húsin og gáminn fyrir 7. desember s.á. myndi byggingarfulltrúi láta fjarlægja þau á kostnað eiganda sbr. 1. og 2. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.6.2 byggingar­reglugerðar nr. 112/2012. Yrði lóðarhafi ekki við tilmælunum yrðu dagsektum beitt, allt að kr. 500.000, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2 í byggingarreglugerð. Var kæranda leiðbeint um andmælarétt skv. 13. gr. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ásamt kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Kærandi bendir á að heimilt sé að reisa allt að þrjá kofa á hverri íbúðarhúsalóð án byggingarleyfis, séu þeir undir 15 m2, án vatns og raflagna. Þá megi samkvæmt nýorðnum breytingum á byggingarreglugerð nr. 112/2012 reisa frístundahús/aukahús, allt að 40 m2, með öllum lögnum, án byggingarleyfis og einungis beri að tilkynna slíka framkvæmd. Þau hús sem standi að Suðurleið 8 falli undir hvora regluna um sig. Húsin séu bæði án lagna og ekki jarðföst og teljist því ekki mannvirki. Hvað gáminn varði hafi farist fyrir að sækja um leyfi en verið sé að undirbúa lögsókn þess efnis að gámar sem standi á eignarlandi eigi ekki að falla undir sömu reglur og leyfisveitingar líkt og á leigulóðum eða innan bæjarmarka.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að við sendingu umrædds bréfs, dags. 16. nóvember 2022, hafi engin ákvörðun um þvingunarúrræði verið tekin en að ranglega hafi ratað inn í bréfið leiðbeiningar um kæruheimildir, þrátt fyrir að engin kæranleg ákvörðun lægi fyrir. Ljóst hafi orðið við nánari skoðun að bréf byggingarfulltrúa til kæranda hafi ekki verið eins skýrt og ákjósanlegt hefði verið og verði lóðarhöfum sent nýtt bréf þar sem skýrar verði kveðið á um feril máls af þessu tagi. Verði að lokum tekin ákvörðun um að beita þvingunarúrræðum verði lóðarhafa tilkynnt um það og hann upplýstur um viðeigandi kæruheimildir í því sambandi. Vísa beri málinu frá úrskurðarnefndinni þar sem skilyrði 2. mgr. 26. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé ekki uppfyllt þar sem ekki liggi fyrir ákvörðun í málinu sem leiði það til lykta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um bréf byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar þar sem kæranda er tilkynnt um fyrirhuguð þvingunarúrræði verði hann ekki við fyrirmælum um að fjarlægja tvö hús og gám af lóðinni Suðurleið 8 í Tjarnarbygg. Tilkynning um fyrirhugaða beitingu þvingunarúrræða er liður í málsmeðferð en ekki lokaákvörðun um beitingu þeirra enda var kæranda veittur frestur til andmæla samkvæmt 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Tilkynning stjórnvalds um fyrirhuguð þvingunarúrræði geta eðli málsins samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Fól bréf byggingarfulltrúa því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

31/2022 Völuskarð

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar­kaup­staðar frá 6. apríl 2022 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðar­innar Völuskarðs 32.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 12. apríl 2022, kærir eigandi fasteignarinnar að Völuskarði 32, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnar-fjarðarkaupstaðar frá 6. apríl 2022 að synja umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Völuskarðs 32. Er þess krafist að ákvörðuninni verði hnekkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 11. maí 2022.

Málavextir: Lóðin Völuskarð nr. 32, Landnúmer 227988, er í Skarðshlíð í Hafnarfirði. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Valla 7, nú nefnt Skarðshlíð, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. júlí 2013. Í deiliskipulaginu var vísað til lóðarinnar sem nr. 35 en í kjölfar breytinga frá árinu 2019 er lóðin nú merkt nr. 25 á skipulagsuppdrætti. Lóð kæranda stendur fyrir ofan götu og samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að á henni rísi einbýlishús.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 19. október 2021 var sam­þykkt að grenndarkynna umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina Völu­skarð 32, sem fól í sér að fyrirhugað einbýlishús á lóðinni yrði tvíbýlishús, bílastæðum yrði fjölgað um tvö og að gert yrði ráð fyrir opnu bílskýli. Með bréfum, dags. 7. desember s.á., var um­sókn kæranda grenndarkynnt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með athuga­semdafresti til 7. janúar 2022. Á kynningartímanum bárust tvær athugasemdir þar sem því var m.a. haldið fram að breytingin myndi valda aukinni bílaumferð og breyta ásýnd hverfisins. Í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar kom hins vegar fram að Völuskarð 32 lægi tiltölulega nærri gatnamótum og því væri ekki hægt að segja að umferð í götunni myndi aukast mikið þó fjölgun íbúða yrði heimiluð þar. Þá kom þar jafnframt fram að gildandi deiliskipulag veitti heimild fyrir „fleiri íbúðum í götunni en sótt [hefði] verið um.“ Í götunni væri heimilt að byggja 28 íbúðir á 17 lóðum og verið væri að byggja eða fram komin áform um byggingu 22 íbúða í botngötunni, en ekkert hefði verið samþykkt á lóð Völuskarðs 2 þar sem heimild væri fyrir tveimur íbúðum. „Þannig að segja [mætti] að fyrir [liggi] að íbúðir geti orðið 24 í götunni. Það er minna en deiliskipulagið gerir ráð fyrir.“ Á fundi skipulags- og byggingarráðs 18. janúar 2022 var tekið undir framkomnar athugasemdir og umsókn kæranda um breytingu á deili-skipulagi vegna Völuskarðs 32 hafnað. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 6. apríl s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að í því skyni að auðvelda fjármögnun eignarinnar hafi verið ætlunin að skipta henni upp í tvo hluta og að foreldrar hans yrðu eigendur annars hlutans. Lóðin sé tiltölulega nálægt gatnamótum og því muni akstur inn botngötu, sem fasteignin standi við, ekki aukast mikið við fjölgun íbúða. Ef litið sé til Völuskarðs 28 megi álykta að sú fasteign hefði fordæmisgildi fyrir umsókn kæranda en þar sé einbýli með þremur íbúðareiningum.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Bæjaryfirvöld vísa m.a. til þess að meðferð sveitar­félagsins hafi verið samkvæmt lögum og reglum og erindi kæranda hafi verið grenndarkynnt áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin. Gildandi deiliskipulag geri ráð fyrir einbýlishúsa-lóð og aðrir íbúar í götunni hafi keypt lóðir sínar í góðri trú um að sú yrði raunin. Með því að breyta einbýlishúsi í tvíbýlishús fjölgi íbúum og bílum sem þeim fylgi. Umferð um götuna muni óhjákvæmilega aukast með slíkri breytingu.

Niðurstaða: Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og geta þær með því haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Sveitastjórnir annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Við beitingu þessa skipulagsvalds ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Við töku ákvarðana um skipulagsmál ber sveitarstjórn sem endranær að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Þá eru sveitarstjórnir jafnframt bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað og heimild til að breyta deiliskipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð deiliskipulags Valla 7, nú Skarðshlíðar, frá 2013 kom m.a. fram að einkennandi væri fyrir skipulagssvæðið að fjölbýlishús og lóðir fyrir stofnanir og þjónustu stæðu á flötu landi, en í brekkunum fyrir ofan væru einbýlishús, parhús og raðhús. Einbýlishús gátu samkvæmt því staðið fyrir ofan og neðan götu. Var gert ráð fyrir að einungis yrðu lóðir fyrir einbýlishús við Völuskarð og að samtals yrðu 63 lóðir fyrir einbýlis­hús við Völuskarð og Tinnuskarð. Í kjölfar breytingar á deiliskipulaginu, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. mars 2019, tilheyra göturnar Völuskarð, Tinnuskarð og hluti Stuðlaskarðs nú þriðja áfanga Skarðshlíðar. Með breytingunni var einbýlishúsalóðum m.a. fækkað á svæðinu og áhersla lögð á blandaða byggð með einbýlis- og fjölbýlishúsum. Samkvæmt skipulags­skilmálum eru einbýlis-, tvíbýlis-, þríbýlis- og fjórbýlishús einkennandi fyrir skipulagið. Eftir breytinguna var gert ráð fyrir að við Völuskarð og Tinnuskarð yrðu 18 lóðir fyrir einbýlishús. Lóðum fyrir einbýlishús við Völuskarð var fækkað um 27 og í stað þeirra ýmist gert ráð fyrir lóðum fyrir svokölluð fjölskylduhús, allar fyrir ofan götu, eða tvíbýlishús, allar fyrir neðan götu. Í skil­málunum kemur fram að „Fjölskylduhúsin eru hugsuð sem þrjár einingar, tvær til þrjár íbúðir. Tvíbýlishús sem tengjast saman með bílskúr eða vinnustofu, eða þrjár íbúðir.“ Þá kom fram í gr. 5.1 umrædds skipulags að deiliskipulagsuppdráttur segði til um fjölda íbúða á lóð og að ekki væri heimilt að fjölga þeim umfram það. Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 5. mars 2021 tók gildi breyting á nefndri gr. 5.1 sem fól í sér að „mögulegt [yrði] að verða við fjölgun íbúða á einstaka lóðum.“ Jafnframt var tilgreint að „Ákvæðið næði til allra lóða í þriðja áfanga Skarðshlíðahverfis.“ Var eftirfarandi texta bætt við gr. 5.1: „Skipulags- og byggingarráð getur heimilað breytingar á deiliskipulagi Skarðshlíðar 3. áfanga er varða fjölgun íbúða innan hverfisins. […] Um málsmeðferð slíkra breytinga fer skv. skipulagslögum nr. 123/2010.“ Náði framangreind breyting á gr. 5.1 í skilmálum deiliskipulagsins til lóðar kæranda jafnt sem annarra lóða þriðja áfanga.

Fyrirliggjandi upplýsingar um breytingar á skipulaginu Vellir 7, nú Skarðshlíð, frá árinu 2013 bera með sér að þær séu 53 talsins og varða bæði almenna skilmála skipulagsins og einstakar lóðir. Til að mynda var skipulagssvæðinu skipt í þrjá áfanga á árunum 2016-2019. Þá hafa verið gerðar 16 breytingar vegna þriðja áfanga deiliskipulagsins varðandi einstakar lóðir við Völu- og Tinnuskarð. Kærandi hefur m.a. vísað til jafnræðissjónarmiða þar sem í grennd við hann sé tiltekin fasteign, einbýli með þremur íbúðareiningum. Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er sú fasteign skráð sem einbýli og ekki liggur fyrir að samþykki hafi verið veitt fyrir breyttri skráningu hennar eða fjölgun íbúða.

Hin kærða synjun á umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi var m.a. studd þeim rökum að eigendur annarra húsa í götunni mættu vænta þess að deili­skipulagið héldi. Er sá rökstuðningur ófullnægjandi í ljósi fyrirliggjandi umsagnar skipulags­fulltrúa að lokinni grenndarkynningu umræddrar breytingar og þeirrar breytingar á deili­skipulagi svæðisins frá árinu 2021 sem ber með sér stefnu skipulagsyfirvalda um að opna fyrir fjölgun íbúða á lóðum. Rökstuðningur bæjaryfirvalda upplýsir ekki með fullnægjandi hætti af hvaða ástæðu umsókn kæranda var hafnað þegar litið er til þess að bílastæðum á skipulags­svæðinu hefur alloft verið fjölgað, fyrir liggur að skipulaginu hefur ítrekað verið breytt og skipulagið heimilar auk þess fjölgun íbúða eftir áðurnefnda breytingu á gr. 5.1 í skilmálum fyrir þriðja áfanga. Var því ástæða til að gera grein fyrir hvaða hindranir stóðu því í vegi að heimila tvær fasteignaeiningar á lóð kæranda og er þá sérstaklega horft til þess að m.a. er gert ráð fyrir því að tvíbýlishús geti verið ofan götu sem væntanlega hafa sömu áhrif á umhverfið og umsótt breyting kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum ágöllum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 6. apríl 2022 um að synja um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Völuskarðs 32.

82/2022 Víðigrund

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. júní 2022, um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Víðigrundar 1-55 vegna lóðar nr. 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Víðigrund 23, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. júní 2022 að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Víðigrundar 1-55. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og framlögð tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði samþykkt en til vara að málið verði unnið aftur á hlutlausan og faglegan hátt. Að auki er gerð krafa um endurgreiðslu kostnaðar vegna grenndarkynningar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 26. ágúst 2022.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Víðigrundar 1-55 í Kópavogi frá árinu 1989. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá er stærð íbúðarhússins að Víðigrund 23 skráð 131,1  m2 og stærð lóðarinnar er 456 m2. Er núverandi nýtingarhlutfall því 0,28. Hinn 21. október 2021 sótti kærandi um leyfi til að byggja 70,3 m2 viðbyggingu við núverandi hús. Erindið var lagt fram á fundi skipulagsráðs 15. nóvember 2021 og var afgreiðslu málsins frestað. Hönnuði kæranda barst tölvupóstur 16. s.m. frá skipulagsdeild Kópavogsbæjar þar sem fram kom að undirritað samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, Víðigrundar 25, þyrfti ef framkvæmdir væru fyrir-hugaðar á lóðamörkunum sjálfum. Þá var einnig bent á að sækja þyrfti um breytingu á deiliskipulagi þar sem deiliskipulag væri í gildi á svæðinu.

Á fundi skipulagsráðs 31. janúar 2022 var samþykkt að grenndarkynna erindi kæranda um breytingu á umræddu deiliskipulagi vegna Víðigrundar 23 fyrir lóðarhöfum Víðigrundar 11, 13, 21, 25, 29 og 31. Í breytingunni fólst heimild til að byggja 70,3 m2 viðbyggingu sem yrði á 1. hæð og kjallara við núverandi hús. Deiliskipulagsbreytingin var grenndarkynnt 19. apríl 2022 með athugasemdafresti til 20. maí s.á. Á kynningartímanum bárust athugasemdir frá lóðarhöfum Víðigrundar 25. Erindi kæranda var hafnað á fundi skipulagsráðs 20. júní 2022 með vísan til umsagnar skipulagsdeildar, dags. 16. s.m., og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi sínum 28. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur verulega form- og efnisannmarka vera á hinni kærðu ákvörðun sem feli í sér brot á lögmætisreglunni, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, meginreglunni um bann við mismunun, meginreglunni um réttmætar væntingar o.fl.

Viðbygging sú sem umsóttar breytingar hafi falið í sér sé í samræmi við byggðamynstur, húsa- og götumynd og feli ekki í sér skuggamyndun eða útsýnisskerðingu. Nýtingar- og byggingarhlutfall sé jafnframt í samræmi við nýtingu á öðrum lóðum. Umsótt breyting sé sambærileg þeim breytingum sem gerðar hafi verið á öðrum húsum í götunni, en 12 af 38 húsum hafi verið breytt.

Heildarbyggingarmagn á lóð eftir breytingu verði 201,4 m2 sem muni gera nýtingar­hlutfallið 0,44. Meðaltalsnýtingarhlutfall á lóðum Víðigrundar 9-21 og 25-35 sé 0,37, minnst 0,27 og mest 0,77. Um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins sé að ræða þar sem íbúum sé mismunað. Ljóst sé að fjölda fasteigna í götunni hafi verið breytt og byggt hafi verið við þau sem og að nýtingarhlutfall og byggingarmagn sé meira en í umsóttum breytingum kæranda. Engin rök séu færð fyrir því hvers vegna umræddri tillögu að breytingu á deiliskipulagi hafi verið hafnað. Ekki sé bent á neikvæð áhrif hennar svo sem vegna götumyndar, byggðamynsturs, byggingarmagns, nýtingarhlutfalls, sjónmengunar, útsýnisskerðingar eða nein önnur málefnaleg sjónarmið.

Þá hafi sveitarfélagið ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum. Þegar kærandi hafi fyrst leitað til skipulagsdeildar hafi honum aðeins verið leiðbeint um að fá áritun aðliggjandi lóðahafa á teikningarnar. Í kjölfar þess að kærandi hafi bent á að sú krafa væri ekki í samræmi við gildandi lög hafi skipulagsyfirvöld ákveðið að málið skyldi fara í grenndarkynningu. Eftir synjun á umsókninni hafi ítrekað komið fram í samtölum við starfsmenn skipulagsyfirvalda að málið hefði ekki átt að fara í grenndarkynningu án nokkurs rökstuðnings. Hafi það verið afstaða sveitarfélagsins hafi leiðbeiningar þess efnis átt að berast í upphafi málsins haustið 2021, áður en kærandi hafi lagt út í kostnað og vinnu við grenndarkynningu. Í umsögn skipulagsdeildar, dags. 16. júní 2022, hafi ekki verið að finna leiðbeiningar og þá hafi ekki verið til staðar vilji til að leiðbeina frekar í kjölfar synjunar á umsókn um breytingu á deiliskipulagi. Starfsmenn skipulagsdeildar hafi neitað að hitta kæranda og hönnuð hans vegna málsins. Þá hafi borist ófullnægjandi leiðbeiningar með tölvupósti eftir fund með bæjarstjóra.

Kærandi hafi fengið heimsókn og hótanir frá fyrrum bæjarfulltrúa og fulltrúa í skipulagsráði Kópavogsbæjar. Eftir þá heimsókn hafi annar starfsmaður skipulagsdeildar tekið við málinu og hafi hann tekið aðra afstöðu í því. Ekki hafi fengist skýringar á því hvers vegna annar starfsmaður hafi verið látinn taka við málinu. Þegar kærandi hafi óskað skýringa á niðurstöðu málsins hjá þessum starfsmanni hafi hann fengið þau svör að viðbyggingin hafi verið of stór og ekki átt að fara í grenndarkynningu. Hann hafi þó ekki getað svarað því hvernig stærð viðbyggingarinnar hafi verið metin og hvað teldist umfangsmikið og hvað ekki. Þá hafi hann ekki getað svarað því hvers vegna sveitarfélagið hafi látið málið fara í grenndarkynningu ef mat þess væri það að málið hefði ekki átt að fara þá leið. Illa hafi gengið að fá fund með umræddum starfsmanni en þó gengið að lokum. Kærandi hafi haft samband við skipulagsfulltrúa sem hafi brugðist illa við. Að loknu símtalinu hafi kæranda borist tölvupóstur frá fyrrnefndum starfsmanni skipulagsdeildar þar sem fram hafi komið að fyrirhuguðum fundi hefði verið aflýst þar sem „lóðarhafi hafi þegar haldið þennan fund með skipulagsfulltrúa í síma hér rétt áðan og fengið sín svör“. Þarna hafi kæranda verið refsað fyrir að krefjast skýringa og upplýsinga um hvernig ferli málsins hafi verið en kærandi hafi einnig sent tölvupóst til allra bæjarfulltrúa Kópavogs og upplýst um léleg vinnubrögð skipulagsdeildar og meint pólitísk afskipti af málinu. Á fundi með bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa vegna málsins 6. júlí 2022 hafi bæjarstjóri talið að um misskilning væri að ræða og lagt til að skipulagsfulltrúi myndi senda kæranda almennilegar leiðbeiningar. Þær hafi borist samdægurs en verið ófullnægjandi.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kröfum kæranda verði hafnað. Með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Í henni felist að óheimilt sé að mismuna aðilum sem eins sé ástatt um og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi vísi til breytinga á lóðum nr. 35 og 55 við Víðigrund en aðstæður þar séu ekki sambærilegar og á lóðinni nr. 23. Breyting á deiliskipulagi Víðigrundar vegna lóðar nr. 55 hafi falið í sér heimild til að byggja 18,4 m2 sólstofu við vesturhlið hússins en sú breyting hafi óveruleg grenndaráhrif á aðliggjandi lóð hvað varði skuggavarp, nánd, innsýn og útsýni. Tillaga kæranda sé umfangsmeiri og grenndaráhrif hennar umtalsvert meiri. Breytingar vegna lóðar nr. 35 hafi falið í sér heimild til að reisa viðbyggingu og tengibyggingu á lóðinni, samtals 57 m2 að flatarmáli. Einnig hafi verið veitt heimild til að nýta áður gerðan kjallara undir íbúðarhúsinu og koma fyrir tveimur gluggum á vesturhlið kjallarans. Með breytingunni hafi nýtingarhlutfall farið úr 0,30 í 0,61. Á sínum tíma hafi engar athugasemdir borist vegna breytinga á framangreindum lóðum. Aðrar breytingar sem kærandi vísi til séu ekki sambærilegar tillögu kæranda en þar hafi verið um að ræða breytingar á staðsetningu bílskúra sem hefðu haft óveruleg grenndaráhrif. Þá hafi þær breytingar sem kærandi fjalli um verið samþykktar fyrir gildistöku Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040.

Við mat á tillögu kæranda hafi verið horft til síðustu breytinga á deiliskipulagi Víðigrundar 1-55. Nýjasta breytingin heimili m.a. dvalarrými í áður ónotuðu kjallararými hússins á lóð nr. 7 en við þá breytingu hafi nýtingarhlutfall lóðar farið í 0,57. Breyting sem gerð hafi verið þar á undan hafi falið í sér heimild til að byggja kjallara undir bílageymslu á lóð nr. 21, ásamt því að stækka grunnflöt bílageymslunnar um 25 m2. Eftir breytinguna hafi nýtingarhlutfall lóðar orðið 0,56 en engar athugasemdir hafi borist við tillöguna. Þá hafi bæjarstjórn einnig samþykkt breytingu á lóð nr. 35 sem hafi m.a. falið í sér heimild til að byggja kjallararými undir bílageymslu sem tengdist kjallara hússins. Eftir breytinguna sé nýtingarhlutfall lóðar 0,78. Engar athugasemdir hafi borist við framangreindar tillögur. Þessi dæmi teljist óverulegar breytingar í skilningi skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillaga kæranda teljist ekki óveruleg breyting í skilningi skipulagslaga þar sem hún hafi í för með sér neikvæð umhverfisáhrif fyrir lóð nr. 25 og þá einkum vegna skuggavarps og útsýnis-skerðingar. Ennfremur leiði tillagan til þess að aðkoma að útidyrum á lóð nr. 25 sé þrengri og hafi þannig neikvæð umhverfisáhrif á nánd og innsýn, þ.e. notkun eignarinnar, sbr. það sem fram kemur í umsögn skipulagsdeildar, dags. 16. júní 2022. Hefði tillaga kæranda verið samþykkt hefði nýtingarhlutfall lóðarinnar orðið nokkuð hærra en meðaltals nýtingarhlutfall á svæðinu. Slík breyting væri fordæmisgefandi fyrir nærliggjandi lóðir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 sé Víðigrund 23 á íbúðasvæði ÍB-2. Í 2. kafla greinargerðar aðalskipulagsins sé m.a. fjallað um skilgreiningu landnotkunar á íbúðasvæðum og sett fram viðmið um nýtingarhlutfall lóða, reita og svæða og tilgreint hlutfallið 0,2 til 0,35 fyrir einbýlishúsalóðir. Samkvæmt almennum rammaákvæðum aðalskipulags, sem séu stefnu­mótandi og gildi um þegar byggð hverfi, skuli nýtingarhlutfall að jafnaði ekki vera hærra en meðaltals nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða, sbr. kafla 7.2.2. í aðalskipulaginu. Jafnframt skuli breytingar á einstökum lóðum eða hluta götureita í eldri hverfum bæjarins ekki raska yfirbragði aðliggjandi byggðar þar sem m.a. sé gætt samræmis hvað varði götumynd, hlutföll bygginga og byggingarstíl, sbr. kafla 7.4.1.

Á umræddu svæði Víðigrundar sé í gildi deiliskipulag Víðigrundar 1-55 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn 26. september 1989. Deiliskipulagið byggi á heildarskipulagi og skilmálum frá september 1971. Þar sé m.a. tekið fram í kafla III fyrir einbýlishús við Víðigrund að á lóðinni skuli byggja 130 m2 einbýlishús á einni hæð. Form og stærð húss sé bundin skv. málblaði. Á austurhlið hússins skuli vera hátt sitjandi gluggar eða afskermun glugga til að hindra innsýn í garð hússins fyrir austan. Gafl í lóðamörkum skuli vera gluggalaus. Þá sé mesta leyfða þakhæð yfir skurðlínu vegg- og þakflatar 1,2 m.

Núverandi nýtingarhlutfall lóðar nr. 23 sé 0,29. Breytingartillagan geri ráð fyrir að heildarbyggingarmagn á lóð verði 201,4 m2 sem hækki nýtingarhlutfallið í 0,44. Þessir útreikningar geri ekki ráð fyrir bílageymslu en kæranda sé heimilt að byggja allt að 26 m2 bílageymslu á lóðinni skv. gildandi deiliskipulagi. Verði bílageymsla byggð hækki núverandi nýtingarhlutfall lóðar úr 0,29 í 0,34. Verði byggð 70,3 m2 viðbygging á lóðinni verði heildarbyggingarmagn lóðar 226,4 m2 en í dag sé það 157,1 m2. Hefði breytingin verið samþykkt hefði heimilað nýtingarhlutfall lóðar farið úr 0,34 í 0,50. Þess megi geta að meðaltals nýtingarhlutfall á lóðum Víðigrundar 9-21 og 25-35 sé 0,37. Hefði tillaga kæranda verið samþykkt hefði nýtingarhlutfall lóðar nr. 23 orðið nokkuð hærra en meðaltalsnýtingarhlutfall á nærliggjandi lóðum. Af heildarmati og samanburði við áðurnefndar breytingar á nærliggjandi lóðum hafi niðurstaðan verið sú að ekki hafi verið fullnægjandi rök fyrir því að veita slíkt fordæmi.

Þá hafi kæranda verið leiðbeint með fullnægjandi hætti og í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga, sbr. umsögn skipulagsdeildar, dags. 16. júní 2022, rökstuðning sveitarfélagsins í bréfi, dags. 20. júlí s.á., og önnur gögn málsins. Einnig sé fullyrðingum um meint pólitísk afskipti vísað á bug enda byggi ákvörðunin á faglegum og málefnalegum sjónarmiðum og fyrirliggjandi gögnum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi óskað eftir öllum gögnum málsins frá Kópavogsbæ og hluti þeirra gagna hafi borist en lykilskjöl vanti um samskipti fyrrum bæjarfulltrúa við skipulagsdeild. Við skoðun þeirra gagna sem borist hafi komi margt fram sem staðfesti það sem kærandi hafi haldið fram á fyrri stigum málsins um brot á jafnræðisreglu, lélega stjórnsýslu og pólitísk afskipti af skipulagsmálum í sveitarfélaginu.

Þá ítreki kærandi fyrri málsrök sín um að umrædd tillaga að deiliskipulagi hafi verið í samræmi við byggðamynstur, húsa- og götumynd. Sérstök áhersla hafi verið lögð á þessa þætti þrátt fyrir að ódýrara hefði verið að hanna viðbyggingu í nútímalegri stíl. Þá hafi tillagan verið í samræmi við fordæmi í hverfinu, hvort sem horft sé til nýtingarhlutfalls eða annarra mælikvarða.

Í leiðbeiningum frá skipulagsfulltrúa, sem sendar hafi verið með tölvupósti til kæranda 6. júlí 2022, sé vísað til Víðigrundar 35 sem fordæmis. Samkvæmt greinargerð sveitarfélagsins sé sú bygging samtals 57 m2 og nýtingarhlutfall lóðar hafi farið úr 0,30 í 0,61. Í tillögu kæranda sé gert ráð fyrir 35 m2 stækkun ofanjarðar og færi nýtingarhlutfall lóðar úr 0,29 í 0,44. Ef heimild til að byggja bílskúr sé bætt við hækki mögulegt nýtingarhlutfall í 0,50. Hvort sem litið sé á umfangið út frá nýtingarhlutfalli eða fjölda fermetra sé ljóst að viðbyggingin við Víðigrund 35 sé talsvert umfangsmeiri og verði því ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun sé brot á jafnræðisreglunni. Þetta fáist staðfest í þeim gögnum sem kærandi hafi fengið frá sveitarfélaginu en í tölvupósti 25. apríl 2022 frá starfsmanni skipulagsdeildar til fyrrum bæjarfulltrúa komi fram að fordæmi séu í hverfinu fyrir viðbyggingu sem svipi til fyrirhugaðra framkvæmda. Ekki verði séð hvað geti útskýrt breytingar á afstöðu skipulagsdeildar um fordæmi á rúmum mánuði og hafi kærandi ekki fengið þau svör frá sveitarfélaginu.

Þá hafi starfsmenn skipulagsdeildar fundað 3. maí 2022 með lóðarhöfum Víðigrundar 25. Kærandi hafi ítrekað óskað eftir fundi með skipulagsdeild vegna málsins og fengið tvívegis fundartíma sem í bæði skiptin hafi verið aflýst degi fyrir fyrirhugaðan fund. Sú staðreynd að starfsmenn skipulagsdeildar hafi neitað að funda með kæranda vegna málsins en á sama tíma fundað og verið í símasamskiptum við aðliggjandi lóðarhafa sé brot á jafnræðisreglunni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulagsráðs, sem staðfest var í bæjarstjórn, að synja um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 23 við Víðigrund.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings-málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Þá úrskurðar nefndin ekki um endurgreiðslu kostnaðar kæranda. Verður því einungis tekin afstaða til ógildingarkröfu kæranda í máli þessu.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Unnt er að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt en einstakir aðilar eiga almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitarstjórn aftur á móti að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins og jafnframt að beita valdi sínu á málefnalegan hátt.

Eins og rakið hefur verið fól tillaga kæranda að breyttu deiliskipulagi í sér heimild til að byggja 70,3 m2 viðbyggingu við núverandi hús á 1. hæð og kjallara. Skipulagsráð synjaði umsókn hans á fundi 20. júní 2022 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 28. s.m. en ekki var bókað um frekari rökstuðning í fundargerðum. Umsögn skipulagsdeildar vegna málsins, dags. 16. júní 2022, var lögð fram á báðum fundunum. Í henni er fjallað um athugasemdir lóðarhafa Víðigrundar 25 og áhrif umsóttrar breytingar á lóð hans. Kemur þar fram að „morgun skuggi“ muni stafa af fyrirhugaðri viðbyggingu, einkum við útidyr. Þá breytist útsýni þegar horft væri til norðausturs frá austurhluta Víðigrundar 25. Varðandi umhverfisáhrif af nánd og innsýn væri það mat skipulagsdeildar að fyrirhuguð viðbygging þrengdi aðkomu að útidyrum, þ.e. aukin nánd, en ekki væri tekið undir með lóðarhöfum að nánd raskist í barnaherbergi. Þá kom fram að með fyrirhugaðri breytingu yrði hámarksnýtingarhlutfall 0,44 sem væri yfir meðaltals-nýtingu Víðigrundar 9-35, en undir lóðarnýtingu Víðigrundar 7, 21 og 35 þar sem gerðar hefðu verið breytingar á deiliskipulagi. Um væri að ræða mikla breytingu á götumynd Víðigrundar 19-25 sem yrði fordæmisgefandi fyrir allt deiliskipulagssvæðið. Í Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 væru sett fram viðmið um nýtingarhlutfall lóða, reita og svæða og tilgreint hlutfallið 0,20-0,35 fyrir einbýlishúsalóðir. Þær breytingar sem hefðu verið gerðar á Víðigrund hefðu aðallega náð til stækkunar húsnæðis neðanjarðar og viðbygginga sem væru garðskálar og forstofur eða tengingar milli húss og bílageymslu þar sem grunnflötur væri undir framlengdu þaki, þ.e. ekki verið að gera kvisti. Ætti það við um Víðigrund 35, 37 og 57 en umrædd breyting yrði umtalsvert stærri en nefndar breytingar. Að baki hinni kærðu ákvörðun bjuggu því efnis- og skipulagsrök.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn máls gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að sambærilegar framkvæmdir sé að finna í sömu götu. Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu ákvörðunar verður að líta til þess að um er að ræða stjórnvaldsákvörðun sem veitir skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundins skipulagsvalds til að móta byggð einstakra svæða. Þær breytingar sem kærandi vísar máli sínu til stuðnings eru ekki sambærilegar þeirri sem hann sótti um og verður einnig að líta til þess að engin andmæli bárust vegna þeirra á sínum tíma.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. júní 2022 um að synja umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Víðigrundar 1-55 vegna lóðar nr. 23.

130/2022 Flekkudalur

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 20. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 130/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Kjósarhrepps frá 25. október 2022 um að stofnaðar yrðu þrjár íbúðarhúsalóðir

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. nóvember 2022, er barst nefndinni sama dag kæra eigendur Flekkudals 4, Flekkudals sumarh., Dalsbakka, Vatnsbakka og Fálkahreiðurs, þá ákvörðun sveitarstjórnar Kjósarhrepps frá 25. október 2022 að stofnaðar verði úr jörðinni Flekkudal þrjár íbúðarhúsalóðir, 0,5 hektarar eða stærri, samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Umsókn eiganda jarðarinnar Flekkudals í Kjósarhreppi, um heimild til að stofna þrjár íbúðarhúsalóðir í landi jarðarinnar sem yrðu 0,5 hektarar að stærð hver, var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 30. ágúst 2022. Í fundargerð var vísað til þess að samkvæmt aðalskipulagi Kjósarhrepps væri heimilt að stofna íbúðarhúsalóðir á landbúnaðarlandi án deiliskipulags. Samkvæmt aðalskipulagi mætti gera ráð fyrir átta íbúðarhúsalóðum á svæðinu að hámarki en í samræmi við umsóknina yrðu þær fjórar. Var umsóknin samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn staðfesti ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar á fundi 6. september s.á. Umsóknin var grenndarkynnt fyrir kærendum með bréfum, dags. 16. s.m., og var veittur fjögurra vikna frestur til að koma að athugasemdum sem kærendur gerðu með bréfi, dags. 14. október s.á. Málið var tekið fyrir að nýju í skipulags- og byggingarnefnd 20. október s.á. og var umsóknin samþykkt. Í fundargerð nefndarinnar kom fram að kærendur hefðu skilað inn athugasemdum við grenndarkynningu. Taldi nefndin athugasemdirnar ekki gefa ástæðu til synjunar á stofnun lóðanna en að áður en kæmi til umsóknar um byggingaráform skyldi liggja fyrir samþykkt deiliskipulag. Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi sveitarstjórnar 25. s.m.

Af hálfu kærenda er bent á að nauðsynlegt sé að réttaráhrif samþykktarinnar verði stöðvuð án tafar nema sveitarfélagið lýsi því yfir að lóðirnar verði ekki stofnaðar á meðan málið sé til meðferðar. Úrskurður um ólögmæti ákvörðunar um stofnun lóðanna sé marklaus ef búið verði að stofna nýjar fasteignir enda geti lóðirnar skipt um eigendur, veðsetning átt sér stað og skapast hagsmunir sem erfitt verði að vinda ofan af.

Sveitarfélagið bendir á að hin kærða ákvörðun feli ein og sér ekki í sér heimild til mannvirkjagerðar eða annarra framkvæmda á fyrirhuguðum lóðum. Áður en til þess komi verði landeigandi eða framkvæmdaraðili að óska eftir heimild sveitarstjórnar til að láta vinna gerð deiliskipulags. Í slíku deiliskipulagi fái kærendur og aðrir þeir sem hagsmuna hafi að gæta tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi ákvörðunar um stofnun lóða samkvæmt 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvörðunin felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, svo sem veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi ákvarðana um stofnun lóða.

 

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verða möguleg eigendaskipti og veðsetning lóðanna ekki taldar slíkar óafturkræfar aðgerðir, með tilliti til hagsmuna kærenda, að það gefi tilefni til frestunar réttaráhrifa.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.

70/2022 Starmýri

Með

Árið 2022, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2022, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 21. júní 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar-Álftamýrar vegna lóðar nr. 2 við Starmýri, Reykjavík. Jafnframt er kærð fyrirhuguð ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík sem tekin var 6. september 2022 þar sem samþykkt var umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi kjallara, bæta við fjórðu hæðinni og fjölga íbúðum um tvær þannig að þær verði 20 talsins í húsi nr. 2a við Starmýri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Starmýrar 4, Reykjavík, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 21. júní 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar-Álftamýrar vegna lóðar nr. 2 við Starmýri. Jafnframt er kærð fyrirhuguð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík sem tekin var 6. september 2022 þar sem samþykkt var umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi kjallara, bæta við fjórðu hæðinni og fjölga íbúðum um tvær þannig að þær verði 20 talsins í húsi nr. 2a við Starmýri, Reykjavík.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. ágúst 2022.

Málavextir: Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur 12. janúar 2022 og borgarráðs 20. s.m. var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Safamýrar-Álftamýrar vegna lóðar nr. 2 við Starmýri. Með breytingunni var bætt við heimild fyrir 4. hæð á suðurhluta hússins að Starmýri 2a sem nemur um helmingi þakflatar. Heimilt byggingarmagn 4. hæðar yrði þannig 350 m2 brúttó. Heimilt yrði að fjölga íbúðum á lóðinni Starmýri 2 um tvær þannig að hámarks­fjöldi þeirra verði 25.

Tillagan var auglýst 9. febrúar 2022 með athugasemdafresti til 23. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Í kjölfarið var tillögunni ásamt innsendum athuga­semdum vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á embættisafgreiðslufundi hans ­1. apríl s.á. var tillögunni vísað til skipulags- og samgönguráðs að nýju þar sem lagt var til að deiliskipulags­tillagan yrði samþykkt með tilteknum lagfæringum vegna misræmis í auglýstu byggingarmagni á deiliskipulagsuppdrætti annars vegar og auglýstum skuggavarps­uppdráttum hins vegar. Var tillagan samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs 27. apríl s.á. með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa og málinu vísað til borgarráðs. Á fundi borgarráðs 5. maí s.á. var málinu vísað til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar sem samþykkti deili­skipulagstillöguna á fundi sínum 21. júní 2022. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 20. júlí s.á., var ekki gerð athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulags­breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda og var hún birt þar 27. s.m.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. september 2022 var samþykkt umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi kjallara, bæta við fjórðu hæðinni, fjölga íbúðum um tvær þannig að þær væru samtals 20 og skráning yrði uppfærð í matshluta nr. 03 í húsi nr. 2a á lóðinni Starmýri 2.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skuggavarp sem sýnt hafi verið þegar gefið var upprunalegt leyfi fyrir byggingu umrædds húss sé gjörbreytt eftir að fjórðu hæðinni hafi verið bætt ofan á. Með auknu byggingarmagni muni síðdegissól á helstu viðverusvæðum í garðinum í Starmýri 4 hverfa í maí og fyrri hluta júní og mestan hluta júlí, ágúst og september. Þetta feli í sér verulega skerðingu á lífsgæðum íbúa Starmýrar 4. Verandi búsett í köldu landi sé það mikilvægt að geta nýtt það sólarljós sem í boði sé. Skert sólarljós, auknir skuggar og ásýnd á þessar stóru byggingar sem drottni yfir nálægum húsum muni hafa mikil áhrif á söluverðmæti Starmýrar 3. Þá hafi hin kærða ákvörðun einungis verið kynnt húsfélagi Starmýrar 4, en ekki fyrir eigendum hvers eignarhluta.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til umsagnar skipulags­fulltrúa, dags. 1. apríl 2022, þar sem skuggamyndum var ekki talin skerða lífsgæði nágranna. Aukið skuggavarp verði á bílastæðum norðan megin við fjölbýlishúsið á lóð nr. 32 við Álfta­mýri, en að öðru leyti sé ekki um aukið skuggavarp að ræða þar sem samþykkt hækkun hússins sé einungis á suðurhluta þaks, á helmingi þakflatar. Breytingin fæli því ekki í sér aukið skugga­varp norðanmegin við húsið umfram núverandi heimildir skv. eldra deiliskipulagi fyrir Star­mýri 2A sem hafi verið samþykkt 9. september 2020. Hvað varðaði þá málsástæðu að hækkun hússins væri ekki í samræmi við nærliggjandi byggð þá var bent á að í nágrenni hússins væru fjölmörg margra hæða fjölbýlishús, t.d. við Álftamýri.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að í málatilbúnaði kæranda felist rangfærslur og mis­skilningur. Ekki væri verið að auka byggingarmagn verulega líkt og kærandi haldi fram. Þegar fyrra deiliskipulag hafi verið gert hafi verið 2 hæða hús á lóðinni. Þá hafi verið heimild samkvæmt deiliskipulagi að auka byggingarmagn á lóðinni um eina hæð þannig að heimilt væri að hafa þrjár hæðir. Hvað varði fullyrðingar um aukið skuggavarp og myndir sem sýni fjórðu hæðina ofan á röngu húsi, eða húsi nr. 2b og 2c, þá séu rúmir 20 m frá austurenda Starmýrar 2a að austurhlið Starmýrar 2b og 2c og svo um 8 m þaðan að gafli Starmýrar 4. Því sé fjarlægðin milli Starmýrar 4 og Starmýrar 2a um 29 m auk þess sem þriðja hæð Starmýrar 2 sé inndregin um tæpa 2 m. Myndir frá kæranda séu ekki í réttum hlutföllum og til dæmis sjáist ekki í þriðju hæð ný­byggingar á Starmýri 2a þótt staðið sé við girðingu Starmýrar 4. Sá skuggi sem varpist á lóð Starmýrar 4 sé að mestu frá Starmýri 2b og 2c.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að það að bæta við fjórðu hæðinni hljóti augljóslega að teljast veruleg aukning á byggingarmagni. Ekki sé um neinn misskilning að ræða þar sem árið 2016 hafi legið fyrir leyfi til að bæta einni hæð á umrætt hús en nú sé verið að bæta við þremur hæðum. Það sé ekki rétt að íbúar Starmýrar 2b og c verði fyrir mestu áhrifum af byggingu 4. hæðarinnar enda myndist aldrei skuggi í garði sem tilheyri þeim húsum. Framkvæmdin muni hafa veruleg áhrif á lífsgæði og verðmæti eignar kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 21. júní 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar-Álftamýrar og ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 6. september s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi nr. 2a við Starmýri í Reykjavík.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórn gerð skipulagsáætlana og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. gr. og 38. gr. laganna. Í aðal­skipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags, m.a. varðandi land­notkun, sbr. 1. mgr. 28. gr., en við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags auk þess sem deiliskipulag skal rúmast innan heimilda aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. nefndra laga.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar sem og hann gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulags­laga. Stofnunin gerði ekki athugasemdir við að auglýsing um samþykkt deili­skipulags­breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda og tók hún gildi með auglýsingu þar um 27. júlí 2022. Var formleg málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar því í samræmi við lög.

Starmýri 2a er á svæði sem er flokkað sem íbúðarbyggð samkvæmt aðalskipulagi. Á svæðinu er að finna blandaða íbúðarbyggð sem saman stendur af fjölbýlishúsum, raðhúsum og sambýlishúsum ásamt litlum hverfiskjörnum með blandaðri notkun. Þá er einnig að finna þar skóla, leikskóla og íþróttasvæði. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er fyrst og fremst mörkuð stefna um svæða­nýtingu og þéttleika byggðar á stærri reitum og landnotkunarsvæðum, en nýtingarhlutfall á smærri reitum og einstökum lóðum er alfarið ákveðið í hverfis- og eða deiliskipulagi. Hin kærða deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir að heimilt sé að bæta við fjórðu hæðinni á hús nr. 2a á lóðinni Starmýri 2 og er hæð hússins sambærileg öðrum fjölbýlishúsum á hinu deiliskipulagða svæði.

Fjallað er um skuggavarp í 1. mgr. b-liðar í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar kemur fram að við ákvörðun um fjarlægð milli einstakra byggingarreita skuli taka tillit til sólar­hæðar og skuggavarps eftir því hver notkun bygginganna sé. Þá er fjallað um skýringarmyndir og önnur fylgiskjöl deiliskipulagstillögu í gr. 5.5.4. og kemur þar fram að ef skýringar­upp­drættir fylgi skuli vísa til þeirra í deiliskipulagi og að skýringaruppdrætti, svo sem skugga­varps­teikningar, sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deili­skipulags.

Í máli þessu fylgja skuggavarpsteikningar með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sem sýna skuggavarp á jafndægrum og sumarsólstöðum kl. 10:00, 11:00, 12:00, 14:00, 15:00, 17:00 og 19:00. Hafa því áhrif umræddrar deiliskipulagsbreytingar á skuggavarp verið könnuð í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar. Telja verður að skipulagsyfirvöld hafi nokkuð svigrúm við mat á því hvert ásættanlegt skuggavarp sé hverju sinni. Í umsögn skipulagsfulltrúa við innsendum athugasemdum kemur fram að þar sem áætluð hækkun hússins sé einungis á suður­hluta þaks gætti ekki aukins skuggavarps umfram heimildir gildandi deiliskipulags. Engin breyting yrði á skuggavarpi á lóð nr. 4 við Starmýri og að sá skuggi sem næði yfir lóðamörk stafaði af húsum nr. 2b og 2c. Miðað við þá fjarlægð sem er á milli húss kæranda og húss nr. 2a á lóðinni Starmýri 2, að á milli húsanna standa tvö önnur hús og í ljósi fyrirliggjandi skuggavarpsteikninga verður að telja að skuggavarp af fjórðu hæð hússins á lóð kæranda sé óverulegt.

Í kjölfar deiliskipulagsbreytingarinnar var gefið út byggingarleyfi fyrir fjórðu hæðinni á húsinu Starmýri 2a. Var byggingarleyfið í samræmi við skilmála deiliskipulagsins og málsmeðferð þess í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar og byggingarleyfis lögum samkvæmt og fór deiliskipulagsbreytingin ekki í bága við gildandi aðal­skipulag. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarstjórnar Reykjavíkur frá 21. júní 2022, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar-Álftamýrar vegna lóðar nr. 2 við Starmýri og ógildingu ákvörðunar byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 6. september 2022 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi kjallara, bæta við fjórðu hæðinni og fjölga íbúðum um tvær þannig að þær verði 20 talsins í húsi nr. 2a á lóð nr. 2 við Starmýri.

63/2022 Hrísateigur

Með

Árið 2022, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2022 um að synja um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Hrísateigi 15.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hrísateigi 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2022 að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Hrísateigi 15. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. ágúst 2022.

Málavextir: Hinn 20. september 2021 sóttu eigendur Hrísateigs 15 um leyfi til breytinga á húsinu sem fólust í áformum um að stækka stofur allra íbúða til suðurs, lengja svalir á 1. og 2. hæð, einangra húsið að utan og klæða það með bárujárni eða álklæðningu. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslu­fundum byggingarfulltrúa 28. september og 12. október 2021 þar sem henni var vísað til um­sagnar skipulagsfulltrúa. Umsóknin var enn á dagskrá afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 15. desember s.á. þar sem afgreiðslu hennar var frestað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 10. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að um væri að ræða mikla breytingu þar sem hlutföll og ásýnd hússins breyttust mikið og að umsókn kæranda væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Hinn 25. maí 2022 kærði kærandi drátt á afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krafðist þess að afgreiðslu umsóknar hans yrði lokið. Í kjölfarið var byggingarleyfisumsókn kæranda synjað á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 7. júní 2022 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var kærandi því ekki lengur talinn eiga lögvarða hagsmuni af því að knýja fram afgreiðslu og kæru hans þess efnis vísað frá úrskurðarnefndinni hinn 15. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi talið að heimildir væru í endurskoðuðu deiliskipulagi Teigahverfis frá árinu 2002 fyrir byggingaráformum hans. Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hefði árið 2017 tekið jákvætt í fyrirspurn hans um það hvort leyfi fengist fyrir því að stækka húsið að Hrísateig 15, lyfta þaki og setja kvisti. Fordæmi séu fyrir því að ekki hafi verið leitað eftir umsögn skipulagsfulltrúa þegar gerðar hafi verið rishæðir í hverfinu. Eitt dæmi af mörgum sé tilgreind fasteign þar sem umsóknaraðili hafi verið starfsmaður skipulags­fulltrúa. Húsið sem um ræði sé „fullar tvær hæðir og/eða fullar þrjár hæðir (3×250) […]“. Þá horfi kærandi á fjölmargar nýbyggingar og viðbyggingar út um gluggann hjá sér sem skipulags­fulltrúi og byggingarfulltrúi hafi lagt blessun sína yfir. Um skipulagssvæði 1, sem fasteign kæranda tilheyri, segi einfaldlega í deiliskipulaginu að leyfilegt sé að raska hlutföllum töluvert mikið og sérkennum frá því sem hefði verið, þ.e. ef farið sé í ítrustu leyfilegar framkvæmdir samkvæmt svigrúmi vegna fordæma og heimilda deili­skipulagsins. Af umsögn skipulags­fulltrúa megi ráða að hann standi í þeirri trú að Hrísateigur 15 sé forskalað timburhús en það sé í reynd steinsteypt. Kærandi bendi á að sérkenni svæðis 1 í skipulaginu sé að þar séu allskonar húsagerðir og eigi það við um þá götumynd sem fasteign kæranda tilheyri.

Fasteign kæranda þurfi endurnýjun lífdaga líkt og mælt sé með í álitum sérfræðinga, t.d. í skýrslu starfshóps Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um endurskoðun laga og reglugerða með tilliti til myglusvepps í húsnæði frá í mars 2015. Brýnt sé að hefja framkvæmdir sem allra fyrst þar sem svalir séu við það að hrynja og hafi kærandi því lagt áherslu á framkvæmdir sem vinna mætti fljótt og örugglega.

Af fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 7. júní 2022 megi ráða að hann hafi ekki sjálfur setið fundinn. Afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. desember 2021 með vísan í umsögn skipulagsfulltrúa frá 10. s.m. Kærandi hafi gert alvarlegar athugasemdir við þessa umsögn skipulagsfulltrúa og fengið upp­lýsingar um að skipulagsfulltrúi væri að endurskoða umsögnina og að hann yrði látinn vita um leið og ný umsögn lægi fyrir. Byggingarfulltrúi hafi m.a. staðfest þær upplýsingar með tölvu­pósti 3. maí 2022. Því hafi ekki verið haldbært að bera greinda umsögn skipulagsfulltrúa fyrir sig sem röksemdafærslu fyrir fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. „[A]ugljóslega hefði umsóknin átt að vera áfram í rökstuddum frestunarfasa, eða hún samþykkt með vísun til heimilda í deiliskipulagi[…].“

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að í umsögn skipulagsfulltrúa frá 10. desember 2021 hafi komið fram að samkvæmt skipulagsskilmálum Teigahverfis frá 2002 skyldu allar breytingar vera úr sama efni og í sama stíl og upphaflega hefði verið gert. Timbur­hús skyldu vera klædd bárujárni eða timbri, eftir því sem við ætti, og múrhúðaðar byggingar vera múrhúðaðar. Leitast skyldi við að endurgera upphaflega klæðningu þeirra húsa sem hefðu verið forsköluð. Frágangur útveggja með bárujárns- eða álklæðningu sé því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Í umsókn kæranda um byggingarleyfi hefði verið gert ráð fyrir að út­veggur að götuhlið skyldi lengdur fram yfir svalir en án þaks. Þetta þyki brjóta í bága við deili­skipulagið þar sem hlutföll hússins raskist mjög mikið. Svalir þyki enn fremur ekki falla vel að húsinu.

Niðurstaða: Kærandi hefur greint frá því að hann telji umsögn skipulagsfulltrúa frá 10. desem­ber 2021 vera á misskilningi byggða. Hann hafi átt í samskiptum við embættið um að fá um­sögnina leiðrétta og talið að verið væri endurskoða hana. Umsókn kæranda um byggingar­leyfi hefði því verið í „frestunarfasa“ og byggingarfulltrúa af þeim sökum ekki verið stætt að nota um­sögn skipulagsfulltrúa sem rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun svo sem hann hefði gert. Líkt og áður greinir kærði kærandi töf á afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auð­linda­mála og krafðist þess að byggingarfulltrúi lyki afgreiðslu þess. Í ljósi þeirrar kröfu kæranda og þeirra tafa sem þegar höfðu orðið á afgreiðslu málsins var byggingarfulltrúa rétt að ljúka málinu. Hafa borgaryfirvöld upplýst úrskurðarnefndina um að staðgengill byggingar­full­trúa hafi setið afgreiðslufund þann þar sem umsókn kæranda var afgreidd.

 Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.

Lóðin að Hrísateig 15 er í grónu hverfi í austurbæ Reykjavíkur. Á svæðinu er í gildi endur­skoðað deiliskipulag Teigahverfis (syðri hluti) sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 16. ágúst 2002. Er svæðinu þar skipt í tvö svæði og tilheyrir lóð kæranda svæði 1. Í greinargerð skipu­lagsins segir í yfirliti um núverandi aðstæður á skipulagssvæðinu að á svæði 1 sé gert ráð fyrir breytingum en að svæði 2 sé talið fullbyggt og einungis lagðar til lítilsháttar breytingar á því svæði. Er um bæði svæðin vísað til skipulagsuppdráttar. Í almennum skil­málum skipulagsins segir um svæði 1 að þar sé byggð mjög blönduð hvað varði stærðir, stíl og áferð. Húsin séu úr timbri, hlaðin hús úr grásteini eða steyptum steini en einnig séu þar stein­steypt hús. Gert sé ráð fyrir að grunnflötur húsa geti breyst og hámarksstærð grunnflatar geti orðið allt að 200 m2. Um stækkunarmöguleika er vísað til byggingarreita á skipulags­uppdrætti. Þá kemur jafnframt fram að „[a]llar breytingar skulu vera úr sama efni og í sama stíl og upphaflega var gert. Þ.e. timburhús skal klætt bárujárni eða timbri eftir því sem við á og múrhúðaðar viðbyggingar múrhúðaðar.“ Þá sé heimilt að byggja svalir út fyrir byggingarreit en garðstofur og aðrar viðbyggingar skuli vera innan reitsins.

Líkt og að framan greinir er vísað til skipulagsuppdráttar um hugsanlega stækkun húsa á skipulagssvæðinu. Eru þar sýndir byggingarreitir á þeim lóðum skipulagssvæðisins þar sem heimildir eru veittar til stækkunar húsa. Þá fylgja skýringarmyndir með greinargerð skipulagsins sem sýna með hvaða hætti byggingarreitir taki mið af verndun götumyndar. Á skipulags­upp­drættinum er sýndur byggingarreitur fyrir lóðina Hrísateig 15 og má þar sjá að töluverðar heimildir eru veittar til stækkunar hússins og rúmast stækkunaráform kæranda innan byggingarreitsins. Í umsögn skipulagsfulltrúa í tilefni af umsókn kæranda er vísað til leið­beininga með hverfisskipulagi um það þegar grafið sé frá húsum í gróinni byggð og um leið­beiningar um svalabreytingar. Þær leiðbeiningar hafa þó ekki þýðingu hér þar sem hverfis­skipulag fyrir umrætt svæði hefur ekki tekið gildi. Á hinn bóginn ber að líta til þess að umrætt hús er steinsteypt með múrhúð að utan. Er því ljóst að áform kæranda um að klæða það með bárujárni eða álklæðningu uppfylla ekki skilyrði 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki um sam­ræmi byggingarleyfis við skipulagsáætlanir. Að því virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. júní 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Hrísateig 15, Reykjavík.

124/2022 Holtsvegur

Með

Árið 2022, föstudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2022, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 15. febrúar 2022 um að veita leyfi til að byggja sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20, Garðabæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Holtsvegi 16, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 15. febrúar 2022 að veita leyfi til að byggja sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 9. nóvember 2022.

Málavextir: Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 15. febrúar 2022 var samþykkt afgreiðsla byggingar­fulltrúa um að veita leyfi til að byggja sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20, Garðabæ.

 Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkvæmt aðaluppdrætti muni byggingin verða 2,31 m hærri en leyfileg hámarkshæð samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í kafla 4.6.4 í greinar­gerð deiliskipulagsins segi: „Gefin verða út mæli- og hæðarblöð. Mæliblöð sýna nákvæmar stærðir lóða, lóðarmörk, byggingarlínur og byggingarreiti húsa og bílgeymslna, fjölda bíla­stæða og kvaðir á lóð ef einhverjar eru. Enn fremur skulu kvaðir um meðhöndlun ofanvatns koma fram á mæliblöðum. Hæðarblöð sýna bindandi hæð aðkomuhæðar húss og hæðir á lóðar­mörkum nær og fjær götu, og opnum svæðum og á milli lóða“. Kærandi hafi haft sambandi við höfund hæðarblaðs fyrir Holtsveg 20 til að fá úr því skorið hver aðkomuhæð hússins væri og svör hans hafi verið að aðkomuhæð hússins væri sú sama og hæð aðalgólfs GK 49,00.

Í kafla 4.6.10 í skipulagsgreinargerð segi: „Hæðafjöldi og hámarkshæð bygginga eru tilgreind í sérskilmálum fyrir hverja lóð. Hæð bygginga er gefin upp sem bindandi hæðafjöldi og hámarkshæð bygginga yfir viðmiðunarkóta aðkomuhæðar“. Í sérskilmálum fyrir lóðina Holts­veg 20 komi fram að húsið eigi að vera 1-2 hæðir og að miðað sé við að byggingin sé ein hæð að götu og lækki þaðan niður með landhalla lóðarinnar. Hámarkshæð húss sé 6 m frá aðkomu­kóta. Sett sé fram skýringarmynd þar sem bersýnilega komi fram að gert sé ráð fyrir 6 m frá aðkomuhæð hússins en leyfilegt sé að vera með kjallarahæð allt að 4 m niður frá aðkomu­hæð. Skýrt komi fram í sérskilmálum að hámarkshæð húss frá aðkomukóta séu 6 m og þar sem aðkomukóti hússins sé GK 49,00 sé leyfileg hámarkshæð hússins samkvæmt deiliskipulagi því 55,00. Samkvæmt aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis sé hæð hússins hins vegar 57,31 eða 2,31 m yfir leyfilegri hámarkshæð. Einnig sé húsið tvær hæðir að götu en ekki ein hæð eins og lýst sé í deiliskipulagi.

Mælt sé fyrir um í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að byggingaráform verði aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð sé í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verði byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Þar sem aðaluppdrættir byggingarinnar að Holtsvegi 20 brjóti gegn gildandi deiliskipulagi á þann hátt að hámarkshæð byggingarinnar sé 2,31 m yfir leyfilegri hámarkshæð fari kærandi fram á að byggingarleyfið verði fellt úr gildi.

 Málsrök Garðabæjar: Bent er á að í skilmálum deiliskipulags er gildi um lóðina Holtsveg 20 komi fram í lýsingu á lóðinni að hún standi í miklum halla til vesturs og að hæðamunur sé um 5-6 m innan lóðar. Taka þurfi tillit til þessa landhalla í lóðinni við hönnun aðkomu, bíla­stæða, byggingar og leiksvæða. Við hönnun og frágang bílastæða og aðkomu þurfi að hafa í huga hæðarmun milli stæðanna og aðkomunnar gagnvart Holtsvegi, en stæðin og inngangar muni liggja nokkru neðar. Í skilmálunum komi fram að hámarkshæð hússins megi vera 6 m frá aðkomukóta og á kennisniði komi fram að heimilt sé að byggja hús á tveimur hæðum sem sé 10 m. Augljóst sé að miða eigi í þessu tilviki við aðkomukóta lóðar við götu en ekki kóta aðkomuhæðar hússins. Hæðarkótar á lóðarmörkum við Holtsveg séu 50,85 næst Holtsvegi 14-18 og 51,50 við útivistarsvæði. Eðlilegt væri að miða við að aðkomukóti á Holtsvegi 20 sé 51,17 sem sé meðalhæðarkóti á lóðarmörkum við Holtsveg.

Leyfileg hámarkshæð hússins sé því í hæðarkóta 57,17 en hæð hússins sé í kóta 57,31 sem sé 14 cm yfir leyfilegri hæð. Telja verði að þar sé um svo óverulegt frávik að ræða að fallið geti undir 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 enda geti þar aldrei verið um að ræða skerðingu á hagsmunum nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýni. Skoðaður verði sá möguleiki að lækka hæð á þeim hluta hússins sem sé tvær hæðir og gefa út nýtt byggingar­leyfi þannig að húsið falli að öllu leyti að deiliskipulagsskilmálum sem gildi fyrir lóðina.

Í skilmálum deiliskipulagsins sé tekið fram að hámarkshæð húss frá aðkomukóta sé 6 m. Þar sem aðkomuhæð hússins sé á neðri hæð hafi ekki verið litið svo á að hægt væri að miða við að skilmálar kvæðu á um að hámarkshæð hússins sé 6 m frá neðri hæð þess. Heimilt sé að byggja 10 m hátt hús skv. kennisniði deiliskipulagsins en fallast megi á að íbúar hafi mátt gera ráð fyrir að hámarkshæð hússins færi ekki yfir 6 m frá aðkomukóta. Kennisnið í skilmálahefti séu leiðbeinandi og ekki beri að líta svo á að sá kóti sem gefinn sé upp á skýringarmyndum sé endanlegur hæðarkóti bygginga. Kennisniðið sem sýnt sé fyrir bygginguna sé skýringarmynd.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Ótvírætt sé að hámarkshæð bygginga sem gefinn sé upp í sérskilmálum hverrar lóðar miðist við aðkomuhæð enda sé það tilgreint í kafla 4.6.10 í skilmálum deiliskipulagsins. Aðkomuhæð byggingarinnar sé 49,00. Í skipulaginu á bls. 36 sé snið D-D sem tekið er í gegnum byggingarreit lóðarinnar. Þar megi sjá að aðkomuhæð byggingarinnar sé notuð til að skilgreina þá 6 m sem byggingin megi að hámarki vera. Aðkoman í deiliskipulagi sé jafnframt sá hluti byggingarinnar sem snúi að bílastæði, líkt og núverandi aðaluppdrættir geri ráð fyrir. Ef litið sé til bls. 34 í deiliskipulaginu, sem fjalli um útlit Holtsvegar 14-18, megi sjá að aðkomuhæð sérhvers húsnúmers sé mismunandi jafnvel þótt byggingarnar liggi allar að sömu lóð sem sé jafnframt hallandi. Það að miða eigi aðkomukóta lóðar við götu, eins og komi fram í greinargerð Garðabæjar, gangi bersýnilega á skjön við skilgreiningar og skýringarmyndir sem komi fram í deiliskipulagi. Augljóst sé að miða eigi við aðkomuhæð hússins óháð því hvernig lóðin liggur nema annað væri sérstaklega tekið fram í skilmálum lóðar. Ekkert slíkt sé tekið fram í sérskilmálum fyrir lóðina Holtsveg 20. Byggingin sé því 2,31 m yfir leyfilegri hámarkshæð en ekki 0,14 m eins og haldið sé fram af bæjaryfirvöldum. Þetta muni hafa veruleg áhrif á útsýni, skuggavarp og innsýn í íbúðir að Holtsvegi 14-18.

Niðurstaða: Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort greind lagaskilyrði séu uppfyllt, en kærandi telur að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki skilmálum deiliskipulags hvað varðar hámarkshæð húss á lóð Holtsvegar 20.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag norðurhluta Urriðaholts, 1. áfangi, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. mars 2014. Um Holtsveg 20 segir í skilmálum deiliskipulagsins að almennt skuli fylgja almennum lóðarskilmálum fyrir íbúðarhús í skilmálahefti. Um hæð húss og vegghæðir er fjallað í kafla 4.6.10 skilmálaheftisins þar sem segir: „Hæðafjöldi og hámarkshæð bygginga eru tilgreind í sérskilmálum fyrir hverja lóð. Hæð bygginga er gefin upp sem bindandi hæðafjöldi og hámarkshæð bygginga yfir viðmiðunarkóta aðkomuhæðar“. Í sérskilmálum fyrir lóðina Holtsveg 20 er fjallað um hæð byggingar á lóðinni. Þar kemur fram að húsið skuli vera 1-2 hæðir og að miðað sé við að byggingin sé ein hæð að götu og lækki þaðan niður með landhalla lóðarinnar. Hámarkshæð húss sé 6 m frá aðkomukóta. Í skilmálum deiliskipulagsins er enn fremur sýnd sneiðmynd D-D af byggingu á lóðinni og samkvæmt henni nemur efri hæð byggingarinnar við götu en neðri hæð er niðurgrafin. Samkvæmt sneið­myndinni er gert ráð fyrir að efri hæðin geti verið allt að 6 m að hæð frá aðkomuhæð en að kjallari, sem er niðurgrafinn á þeirri hlið sem snýr að götu, geti verið allt að 4 m að hæð. Geti húsið því hafi hámarks hæð samtals 10 m á þeirri hlið sem snýr frá götu.

Á uppdráttum sem fylgja skilmálahefti deiliskipulagsins er að finna tvær útgáfur af mögulegu kennisniði byggingar á umræddri lóð eftir því hvort um er að ræða byggingu á einni eða tveimur hæðum. Á því kennisniði sem sýnir byggingu á tveimur hæðum er sá hluti hússins sem liggur að götu á einni hæð og neðri hæð byggingarinnar er sýnd full niðurgrafin götu megin en er svo í lóðarhæð garð megin.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis var veitt leyfi til að byggja hús á tveimur hæðum þar sem það snýr að götu og er aðkomuhæðin á neðri hæðinni. Samkvæmt aðaluppdrætti er gólfkóti aðkomuhæðar 49,00 og hæðarkóti hússins 57,31. Er hæð hússins samkvæmt þessu 8,31 m.

Að framangreindu virtu verða skilmálar deiliskipulagsins fyrir lóðina Holtsveg 20 ekki túlkaðir á annað veg en að hámarkshæð hússins frá aðkomuhæð, sem er neðri hæð hússins, eigi að vera 6 m. Þar sem gólfkóti aðkomuhæðar er 49,00 verður að telja að samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins megi hæðarkóti húss á lóðinni mest vera 55,00 enda miða skilmálar skipulagsins við að byggingin sé einungis ein hæð að götu en ekki tvær líkt og hið kærða byggingarleyfi heimilar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

 Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 15. febrúar 2022 um að samþykkja leyfi til að byggja sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20.

125/2022 Hólmasel

Með

Árið 2022, 14. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 125/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Reykjavíkurborgar á erindi vegna umsóknar um samþykki byggingaráforma.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi eignarhluta 0104 að Hólmaseli 2, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um samþykki byggingaráforma. Er þess krafist að byggingarfulltrúi veiti nákvæmar upplýsingar um hvaða uppdrætti hann þurfti til að geta lokið erindi kæranda. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að úrskurðað verði að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda og að byggingarfulltrúi veiti upplýsingar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. desember 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Hinn 12. maí 1998 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn þáverandi eiganda fyrrgreinds eignarhluta í fasteigninni að Hólmaseli 2 um byggingarleyfi til að breyta atvinnuhúsnæði í rýmum 01-0103 og 01-0104 í íbúðir og breyta innbyrðis stærðarhlutföllum eignarhlutanna. Í rými 01-0103 hafði verið 37,7 m2 verslunarhúsnæði og í rými 01-0104 hafði verið 107 m2 sérhæfð eign. Í samþykkt byggingarfulltrúa var tekið fram að lokaúttekt byggingarfulltrúa væri áskilin og að leyfið félli úr gildi hæfust framkvæmdir ekki innan árs frá samþykki þess. Lokaúttekt þessi virðist aldrei hafa farið fram.

Reykjavíkurborg sendi engu að síður tilkynningu, dags. 5. desember 2000, til Fasteignamats ríkisins, nú Þjóðskrár, um að notkun rýmis 01-0104 skyldi breytt úr sérhæfðri eign í íbúð og var sú breyting skráð í fasteignaskrá 14. s.m. Skráningin byggðist á teikningu samþykktri 12. maí 1998 og meðfylgjandi skráningartöflu. Samkvæmt teikningunni er rými 01-0103 íbúð að stærð 91 m2 og rými 01-0104 íbúð að stærð 53,9 m2. Breytingar á innbyrðis stærðum eignarhlutanna, sem fram komu á teikningunni voru þó aldrei gerðar.

Hinn 26. október 2015 sendi Reykjavíkurborg aðra tilkynningu til Þjóðskrár þess efnis að samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu skyldi rými 01-0104 skráð sem þjónustuhúsnæði og sett í skattflokk með atvinnuhúsnæði og skráningu eignarhlutans breytt í samræmi við það sama dag. Kærandi fékk tilkynningu frá Reykjavíkurborg, dags. 28. nóvember 2015, um að álagning fasteignagjalda hefði verið endurskoðuð. Var tekið fram að breytingin tæki til þess að 107 m2 íbúðarhúsnæði yrði skattlagt sem atvinnuhúsnæði. Átti kærandi í nokkrum samskiptum við Reykjavíkurborg í kjölfar þessa og sótti hann um byggingarleyfi vegna umrædds húsnæðis 18. desember 2017. Í umsókninni var sótt um „[t]ilfærsl[u] á innveggjum vegna íbúðarbreytingar. Stækkun á íbúð og baðherbergi, þannig að bílskúr minnkar“. Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 15. desember 2017, kemur jafnframt fram að sótt sé um byggingarleyfi til að endurskrá rými 01-0104 sem íbúð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. febrúar 2018 var erindi kæranda tekið fyrir. Samkvæmt tilkynningu um afgreiðslu máls, dags. 21. s.m., kemur fram að „[s]ótt [sé] um leyfi til að breyta áður samþykktu erindi BN016633 sem ekki tók gildi en nú er búið að framkvæma og hefur að auki breyst þannig að íbúð 0103 minnkar og 0104 er að hluta til orðið bílskúr með hurð inn í hann á norðurhlið húss á lóð nr. 2 við Hólmasel.“ Erindi kæranda var hafnað þar sem samþykki meðeigenda skorti.

Niðurstaða byggingarfulltrúa var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kvað upp úrskurð 11. júní 2019, í máli nr. 47/2018. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að notkunarbreyting rýmisins frá árinu 1998 héldi gildi sínu. Þeir þættir byggingarleyfisins sem sneru að veggjum, mörkum og stærð eignarhlutanna hefðu aldrei verið framkvæmdir og ekki hefði farið fram lokaúttekt vegna þeirra. Hefðu þeir þættir því fallið úr gildi 12 mánuðum eftir útgáfu leyfisins skv. gr. 13.1 þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Þá hafi umsókn kæranda einungis varðað rými 01-0104, en ekki einnig rými 01-0103, líkt og byggingarfulltrúi hafi talið. Var ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi þar sem hin kærða ákvörðun hefði ekki byggst á viðhlítandi forsendum og  rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hefði verið verulega áfátt.

Í kjölfar úrskurðarins sendi kærandi nokkur bréf til Reykjavíkurborgar þar sem fram kom að með úrskurði í máli nr. 47/2018 hafi verið staðfest að byggingarleyfi hans væri í gildi og spyr af hvaða sökum málið hafi ekki verið afgreitt endanlega af borgarinnar hálfu. Kærandi sendi inn nýja umsókn 21. nóvember 2019 og 20. desember 2019 barst úrskurðarnefndinni kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda. Með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 27. febrúar 2020, í máli nr. 131/2019, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að byggingarfulltrúi tæki fyrirliggjandi umsókn kæranda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 21. apríl 2020, 28. s.m. og 12. maí s.á. var erindið tekið fyrir að nýju og að endingu var það samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á.

Úrskurðarnefndinni barst að nýju kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu málsins 3. desember 2020. Var kærunni vísað frá með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 8. febrúar 2021, í máli nr. 129/2020, þar sem umsóknin hafði þegar verið samþykkt. Kærandi sendi að nýju kæru vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 28. október 2022. Er það sú kæra sem er til afgreiðslu í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi engin svör fengið við fyrirspurnum sínum um hvaða uppdrætti hann þurfi að leggja fram til að fá byggingaráform sín samþykkt. Kærandi krefst þess að fá skýr svör um hvað þurfi að gera til að fá byggingarleyfi. Hvað snerti eignaskiptayfirlýsingu vegna Hólmasels 2, þá sé hún tilbúin en fáist ekki afgreidd hjá Reykjavíkurborg vegna skorts á samþykki annarra eigenda í húsinu. Þar sem eignarhlutar séu færri en sex þurfi samþykki einfalds meirihluta, en fengist hafi samþykki frá eigendum eignarhluta 01-0101, sem eigi 26% í húsinu. Kærandi og eiginkona hans eigi eignarhluta 01-0103 og 01-0104, sem séu 32% af húsinu. Eigandi eignarhluta 01-0102 eigi einn eignarhlut og 42% í húsinu. Sé því um brot á 33. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að ræða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er með umsögn dags 8. desember 2022 bent á að með umsókn um byggingarleyfi, dags. 21. nóvember 2019, hafi verið sótt um leyfi fyrir áður gerðum breytingum á fjölbýlishúsi á lóð nr. 2 við Hólmasel. Umsókn um byggingarleyfi hafi borist í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 47/2018. Erindið hafi verið tekið fyrir á embættis­afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. desember 2019, þar sem því hafi verið vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra. Málið hafi þar verið tekið fyrir 21. janúar 2020 þar sem afgreiðslu hafi verið frestað með vísan til athugasemda. Málinu hafi verið frestað á embættisafgreiðslufundum 21. apríl, 28. apríl og 12. maí 2020 með sambærilegri afgreiðslu. Erindið hafi að endingu verið samþykkt 10. nóvember 2020.

Ítrekaðar frestanir á afgreiðslu megi rekja til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum sem snúið hafi að uppfærðri skráningartöflu fyrir fasteignina. Í gátlista með umsókninni sé ítrekað að skila þurfi inn nýrri skráningartöflu. Jafnframt komi fram í gátlista að sækja hafi þurft um „hurð“ á norðausturhlið hússins með því að senda inn nýjar útlitsteikningar, sem og samþykki meðeigenda. Kærandi hafi brugðist við athugasemdunum með bréfi, dags. 30 október 2020, með nýrri skráningartöflu og yfirlýsingu um að steypt yrði upp í „hurðargat“ á norðausturhlið hússins. Nú liggi fyrir uppfærð eignaskipta­yfirlýsing sem sé í undirritun hjá meðeigendum að Hólmaseli 2 en um leið og undirskriftir muni berast þá muni  byggingarfulltrúi samþykkja yfirlýsinguna, sem síðan verði send til þinglýsingar. Með vísan til þessa sé því mótmælt sem röngu að málið hafi tafist með óeðlilegum hætti þannig að embætti byggingarfulltrúa verði um kennt. Hið rétta sé að kærandi hafi brugðist seint við athugasemdum sem gerðar hafi verið og enn sé beðið samþykkis meðeigenda í húsinu.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvörðun sem hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Fyrir liggi að kærandi hafi nú þegar fengið úrlausn erindis síns, enda hafi byggingarleyfi verið samþykkt. Með vísan til þess, sem og almennra meginreglna stjórnsýsluréttar, verði ekki séð að kærandi hafi lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins þar sem kæruefni hafi nú þegar verið afgreitt. Hefði kæra um drátt á málsmeðferð þurft að berast áður en ákvörðun hafi verið tekin, þ.e. undir meðferð málsins. Með vísan til þess sé gerð krafa um að þessum kærulið verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á því að gefa „allar nauðsynlegar upplýsingar“ til að hægt sé að „afgreiða málið með fullsamþykktu byggingarleyfi“. Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en til þeirra telst samþykki byggingaráforma.

Fyrir liggur í málinu að ástæða þess að það tafðist að samþykkja byggingarleyfi til kæranda má rekja til atriða sem voru á hendi kæranda sjálfs, sem eiganda eignarhluta í fasteigninni að Hólmaseli. Til nánari leiðbeiningar um gerð eignarskiptayfirlýsingar vísast til ákvæða laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 sem og reglugerðar nr. 910/2000 um eignaskiptayfirlýsingar. Ákvarðanir samkvæmt þeim lögum verða ekki bornar undir nefndina til úrskurðar.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi samþykkti umsókn kæranda um byggingarleyfi 10. nóvember 2020, en skráningartafla sú sem kærandi víkur að í kæru hefur verið samþykkt. Það hefur ekki þýðingu að lögum, við þessar aðstæður, að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi. Verður kröfu kæranda því vísað frá með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

128/2022 Gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu

Með

Árið 2022, föstudaginn 9. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 128/2022, kæra á ákvörðun  umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. október 2022 um að samþykkja að Vegagerðinni verði veitt leyfi til framkvæmda við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 15. nóvember 2022, kærir Húsfélag alþýðu, eigandi fasteigna við Hofsvallagötu 16 og Bræðraborgarstíg 47 og 49, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. október 2022 að samþykkja að Vegagerðinni verði veitt leyfi til framkvæmda við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafn­framt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni og verður nú aðeins tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik og rök: Hinn 12. júlí 2022 sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi fyrir lengingu vinstri-beygjureinar til norðurs við gatnamót Hofsvallagötu og Hringbrautar í vesturátt. Fram­kvæmdin felur m.a. í sér malbikun akreina að gatnamótunum, endurgerð miðeyju við gatna­mót og hliðfærslu akreina Hrinbrautar til suðurs vegna endurgerðar miðeyju og endurgerð hluta kantsteina. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúans í Reykjavík 11. ágúst 2022 var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir 87 hagsmunaaðilum og fengu þeir sent bréf, dags. 22. s.m., og var veittur frestur til 21. september s.á. til að koma að athugasemdum. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. október s.á. var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem sam­þykkti umsóknina á fundi sínum 19. s.m. með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 13. októ­ber 2022. Var leyfi fyrir framkvæmdinni gefið út 6. desember s.á.

Kærandi telur m.a. að umhverfis- og skipulagsráð hafi ekki séð til þess að nægjanlega hafi verið upp­lýst um öryggi vegfarenda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en framkvæmda­leyfi var veitt, og hafi í andstöðu við markmið aðalskipulags látið hagsmuni er varða þunga­flutninga vega þyngra en hagsmuni íbúa hverfisins.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kjósi leyfishafi að byrja eða halda áfram með framkvæmdir áður en efnisúrskurður liggi fyrir í málinu geri hann það á eigin ábyrgð og áhættu.

Vegagerðin hefur upplýst að þrátt fyrir að í útboðslýsingu hafi verið ráðgert að framkvæmdir hæfust í lok árs 2022 væri nú ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir við verkið hefjist fyrr en í fyrsta lagi á öðrum ársfjórðungi árið 2023. Verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi sé framkvæmdin afturkræf með tiltölulega einföldum hætti og verði því ekki séð að kærandi verði fyrir nokkru tjóni hljóti málið hefðbundna málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Vegagerðin hafi hins vegar mikla fjárhagslega hagsmuni af því að verk geti hafist á greindum tíma enda sé búið að semja við verktaka um verkið.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kæru­stjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að megin­reglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Svo sem áður greinir hefur Vegagerðin greint frá því að framkvæmdin sé afturkræf með tiltölulega einföldum hætti og að ekki sé fyrirhugað að hefja framkvæmdir fyrr en í fyrsta lagi á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Í ljósi þess eru líkur á að framkvæmdir hefjist ekki fyrr endanlegur úrskurður hefur verið kveðinn upp í málinu. Myndi því stöðvun framkvæmda á þessum tímapunkti ekki þjóna þeim tilgangi sem býr að baki réttarúrræðinu. Þá verður ekki séð að kæra verði þýðingarlaus fyrir kærendur þótt réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði ekki frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni eða að af hljótist tjón sem erfitt verði að ráða bót á. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna ákvörðunar umhverfis- og skipulags­ráðs Reykjavíkurborgar frá 19. október 2022 um að veita leyfi til framkvæmda við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu.

119/2022 Aðgangur að gögnum máls

Með

Árið 2022, 5. desember 2022, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 119/2022, kæra vegna dráttar á afhendingu gagna frá Reykjavíkurborg vegna máls er varðar fjölgun bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2022, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hlyngerði 1, Reykjavík, drátt á afhendingu gagna frá Reykjavíkurborg vegna máls er varðar fjölgun bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hlutist til um að gögn málsins verði afhent kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. nóvember 2022.

Málavextir: Í september 2020 sendi kærandi máls þessa erindi til Reykjavíkurborgar og fór fram á að borgin nýtti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæði sem stækkað hefði verið við Furugerði 2, án tilskilinna leyfa, yrði fært í fyrra horf. Hinn 5. maí 2021 synjaði embætti byggingarfulltrúa að beita úrræðum þeim er farið væri fram á. Málið var þó áfram til meðferðar hjá Reykjavíkurborg og í maí 2022 kærði kærandi óhæfilegan drátt á afgreiðslu þess til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 27. júní s.á. barst kæranda svar eftirlitsdeildar Reykjavíkurborgar þar sem m.a. kom fram að niðurstaða hennar væri sú að umrætt bílastæði væri ekki í samræmi við samþykktar heimildir og að áfram yrði unnið að úrlausn málsins. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 27. september s.á., í máli nr. 45/2022, var lagt fyrir embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík, í ljósi framvindu málsins, að taka erindi kæranda til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Við meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg var kærandi upplýstur um að „samtal“ stæði yfir við eigendur Furugerðis 2 vegna bílastæða á lóðinni og að unnið væri að lausn málsins. Í framhaldi óskaði kærandi eftir því með tölvupósti til eftirlitsdeildarinnar 15. júlí 2022 að fá afrit af „öllum gögnum tengdum þessum samskiptum, þar á meðal fundargerðum, bréfum, tölvupóstum og eftir atvikum öðrum gögnum sem liggja fyrir.“ Frekari tölvupóstsamskipti urðu á milli kæranda og deildarinnar vegna málsins og 18. ágúst s.á. var kæranda svarað á þann veg að óskað yrði eftir því að gögn sem tilheyrðu málinu yrðu tekin saman eftir því sem þau væru til. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvupósti 16. september 2022 og barst sama dag það svar að öll gögn sem til væru á sviðinu vegna málsins hefðu verið afhent kæranda. Jafnframt var bent á að unnt væri að kæra framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að honum hafi engin gögn borist þrátt fyrir að þrír mánuðir séu liðnir frá því að þeirra hafi verið óskað og því lofað að þau yrðu tekin saman. Dregið sé í efa að öll gögn málsins hafi verið afhent. Fram hafi komið í svari eftirlitsdeildar til kæranda 27. júní 2022 að deildin hygðist „upplýsa eiganda Furugerðis 2 um afstöðu eftirlitsins“, en kærandi hafi ekki fengið aðgang að þeim samskiptum sem gera verði ráð fyrir að átt hafi sér stað í framhaldi. Jafnframt hafi kærandi óskað eftir öllum fundargerðum vegna málsins en engar fengið. Í ljósi þessa sé þess óskað að úrskurðarnefndin staðreyni hvaða gögn séu fyrirliggjandi í málinu með því að óska eftir upplýsingum úr málaskrárkerfi Reykjavíkurborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá nefndinni. Kæra vegna dráttar á afhendingu gagna falli undir úrskurðarnefnd upplýsingamála en ekki úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum fer samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Nær réttur almennings til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum máls, þ.m.t. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum máls og lista yfir málsgögn, sbr. 2. tl. 2. mgr. 5. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls einnig rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varða og er sá réttur ríkari heldur en sá réttur sem almenningi er tryggður með lögum nr. 140/2012. Er réttur aðila máls til aðgangs að upplýsingum nátengdur andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en ljóst er að aðila getur borið nauðsyn til að fá aðgang að málsgögnum að loknu stjórnsýslumáli, t.d. í því skyni að meta réttarstöðu sína.

Þegar kærandi fór fyrst fram á að fá gögn málsins afhent hjá Reykjavíkurborg var hann aðili að kærumáli nr. 45/2022 fyrir úrskurðarnefndinni sem varðar sama mál og upplýsingabeiðni hans. Lauk því kærumáli með úrskurði sem kveðinn var upp 27. september 2022. Fyrir liggur að kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi ekki afhent honum nánar tilgreind gögn er málið varðar, en því er andmælt af hálfu sveitarfélagsins. Hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar borgarinnar, en gerir þá bendingu að gagnabeiðni sem þessi getur m.a. náð til yfirlita úr málaskrárkerfi.

Ákvörðun sveitarfélags um beitingu þvingunarúrræða er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og verður ágreiningur um synjun um aðgang að gögnum máls eða takmörkun á aðgangi gagna við málsmeðferðina því einnig borinn undir nefndina, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi, líkt og Reykjavíkurborg greinir frá, er ekki um að ræða synjun eða takmörkun á aðgangi á gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þessa er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.