Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2023 Heiðarbrún

Árið 2023, fimmtudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 18. janúar 2023 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðina Heiðarbrún 6-6b, Stokkseyri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 23. febrúar 2023, kærir eigandi Heiðarbrúnar 8, Stokkseyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 18. janúar 2023 að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðina Heiðarbrún 6-6b á Stokkseyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 27. mars 2023.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 23. mars 2022 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðina Heiðarbrún 6. Gerði tillagan ráð fyrir að lóðin fengi númerið 6–6b og að heimilt yrði að byggja á henni parhús með stakstæðum eða sam­byggðum bílskúr. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 4. apríl 2022. Tillagan var auglýst í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og héraðsblaðinu Dagskránni 13. s.m. með fresti til athuga­semda til 25. maí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma sem lutu að skerðingu á út­sýni og skuggavarpi. Skipulags- og byggingarnefnd tók tillöguna fyrir á fundi 27. júlí s.á. og bókaði að fyrirhuguð bygging parhúss gengi ekki á rétt nágranna vegna skerðingar á útsýni. Einnig var bókað að lagður hefði verið fram uppdráttur og af honum væri ekki að sjá að skugga­varp myndi verða á húsið að Heiðarbrún 8. Samþykkti nefndin tillöguna og fól skipulags­fulltrúa að auglýsa niðurstöðuna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Á fundi bæjarráðs 28. júlí 2022 var tillagan samþykkt.

Kæra barst úrskurðarnefndinni 13. ágúst 2022 en þar benti kærandi á að ekki hafi verið stuðst við réttar teikningar hússins á lóð Heiðarbrún 8 við mælingu á skuggavarpi. Því væru forsendur hinnar kærðu ákvörðunar brostnar. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 27. september 2022 var málið tekið fyrir að nýju og bókað að gögn sem send hefðu verið nágrönnum hefðu verið röng. Var lagt til að málið yrði endurupptekið með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 5. október 2022. Í kjölfarið var kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði, dags. 31. s.m.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. nóvember 2022 var deiliskipulagstillaga fyrir Heiðarbrún 6-6b lögð fram að nýju og samþykkt að auglýsa hana í samræmi við 41. gr. skipulags­laga. Var sú afgreiðsla samþykkt á fundi bæjarstjórnar 23. s.m. Á fundi skipulags- og byggingar­nefndar 16. janúar 2023 var tillaga að deiliskipulagi lögð fram að lokinni auglýsingu. Fram kom að ein athugasemd hefði borist á auglýsingatíma og hún hefði varðað það að gert væri ráð fyrir parhúsi á lóðinni í stað einbýlishúss. Taldi nefndin að parhús af þessari stærð myndi sóma sér vel og félli vel að nærliggjandi húsum auk þess að skapa fjölbreytileika í byggðarformi. Gerð hafi verið skuggavarpsgreining sem sýndi fram á að eigendur húss við Heiðarbrún 8 yrðu fyrir óverulegri skerðingu vegna skuggavarps. Samþykkti skipulagsnefnd deiliskipulagstillöguna. Á fundi bæjarstjórnar 18. janúar 2023 var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt og tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars s.á.

 Málsrök kæranda: Bent er á að ekki hafi verið kveðið á um hæðarkóta á botnplötum í deili­skipu­laginu sem geti haft áhrif á útkomu skuggavarps. Hækka gæti þurft fyrirhugað hús á lóðinni til þess að ná halla á klóak. Ekki hafi verið fyrirmæli um hvort byggja megi kvist á risið og myndi það hafa veruleg áhrif á skuggavarpsmælingu út frá mænisstefnu. Virði eigna í ein­býlis­húsahverfi séu ávallt hærri en í parhúsahverfi og því liggi hagsmunir kæranda í því að lóðin verði áfram einbýlishúsalóð. Skuggavarpsmæling hafi aftur verið röng þar sem ekki hafi verið stuðst við réttar teikningar til að sýna staðsetningu húsnæðis við Heiðarbrún 8 né hafi verið gerð skuggamæling með tilliti til mögulegra kvista. Deiliskipulagið geri það að verkum að skuggi verði óbærilegur á sólpalli húss nr. 8 við Heiðarbrún og rýri þannig lífsgæði íbúa. Svo virðist sem sveitarfélagið hafi gengið erinda lóðarhafa, ekki hafi verið gætt hlutleysis og skipulags­fulltrúi hafi ekki leiðbeint kæranda þegar leitað hafi verið til hans vegna málsins. Þá telji kærandi að brotið hafi verið gegn lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónu­upplýsinga með birtingu heimilisfangs hans í auglýsingu vegna deiliskipulagsins þar sem tekið hafi verið fram að ein athugasemd hefði borist og þar hafi heimilisfang hans verið tilgreint.

 Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Sveitarfélagið bendir á að líkt og fram hafi komið í kæru hafi deiliskipulagið upphaflega verið kært til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 13. ágúst 2022. Þegar unnið hafi verið að greinargerð vegna kærunnar hafi komið í ljós að málið hefði verið unnið á grundvelli ófullnægjandi gagna og því hafi verið tekin ákvörðun um að afturkalla upp­haf­lega ákvörðun. Á grundvelli þeirrar afgreiðslu hafi kærumálinu verið vísað frá úrskurðar­nefndinni með úrskurði, dags. 31. október 2022. Málið hafi í framhaldi verið endur­upptekið og unnið áfram á grundvelli fullnægjandi gagna. Nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Heiðarbrún 6-6b á Stokkseyri hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda þann 17. mars 2023. Um sé að ræða nýtt deiliskipulag en ekki breytingu á deiliskipulagi.

Tillaga að hinu umdeilda deiliskipulagi hafi verið auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og frestur til að skila athugasemdum hafi verið til 11. janúar 2023. Athugasemdir hafi borist frá eigendum Heiðarbrúnar 8, en með rökstuddum hætti hafi ekki verið fallist á að þær hefðu áhrif á framgang tillögunnar. Niðurstaða bæjarstjórnar hafi verið auglýst í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við stefnu og markmið sveitarfélagsins í gildandi Aðal­skipulagi Árborgar 2020-2036 og sé á svæði sem sé skilgreint sem ÍB 34 á þéttbýlisuppdrætti. Í greinargerð með aðalskipulagi segi meðal annars í kafla 3.2.1 um íbúabyggð (ÍB) að byggð skuli vera lágreist, á 1-3 hæðum. Nýtingarhlutfall skuli vera á bilinu 0,2-0,4 og að samsetning íbúða­tegunda sé fjölbreytt og komi til móts við þarfir íbúa. Þá sé tillagan í samræmi við þær áherslur sem fram komi í skipulagsreglugerð nr. 112/2012 þar sem fram komi að deili­skipulags­skilmálar geti bæði verið almennir og náð til alls skipulagssvæðis í heild eða sértækir og gilt um stök mannvirki eða lóðir.

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulagslaga. Skipulagsvald sé í höndum viðkomandi sveitarstjórnar, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna og sveitar­stjórn hafi talsvert svigrúm við þróun byggðar og umhverfis eftir því sem talin sé þörf á hverju sinni. Fasteignaeigendur og aðrir hagsmunaaðilar geti ekki gengið út frá því að skipulag, skipu­lags­leysi eða ásýnd lands og útsýni haldist óbreytt um ókomna tíð. Fullnægjandi gögn hafi legið fyrir og ekki sé fallist á það með kæranda að gögn hafi verið röng eða óskýr, hvorki varð­andi skuggavarp né annað. Hvað varði hæðarkóta sé vísað til þess að um sé að ræða deili­skipulagstillögu fyrir lóðarreit í þegar byggðu hverfi. Kóti verði útfærður á lóðarblaði þegar að því komi og verði þá tekið mið af kótum húsa beggja vegna við Heiðarbún 6-6b. Venja sé að hús skuli vera 20 cm yfir landhæð. Aðstæður á svæðinu séu þannig að ekki standi nauðsyn til þess að tiltaka hæðarkóta meðal skipulagsskilmála.

Ekkert liggi fyrir um að hækka gæti þurft mannvirki sem kynni að verða byggð á lóðinni seinna til þess að „ná halla á klóak“. Hvað varði hugsanlega kvisti á þaki mannvirkis sem kunni að verða byggð á lóðinni þá er bent á það að í inngangi að bókun skipulagsnefndar frá 16. janúar 2023 sé gerð grein fyrir því þakformi sem deiliskipulagstillagan hljóði upp á, þ.e. risþak. Hvergi sé minnst á möguleikann á kvisti í þaki og því væri ekki unnt að fallast á að byggt yrði mann­virki með slíku þaki þar sem það væri í ósamræmi við deiliskipulagið. Skýringarmynd skugga­varps taki mið af fullbyggðum byggingarreit þar sem hjúpur mannvirkis sé með 3,0 m vegg­hæð og 5,0 m mænishæð líkt og lýst sé í greinargerð deiliskipulagsins. Skýringarmyndir skugga­varps sýni því mesta mögulega skuggavarp sem af byggingunni geti stafað.

Málsmeðferðin hafi ekki falið í sér nokkra sérhygli gagnvart lóðareiganda að Heiðarbrún 6. Málið hafi hlotið hefðbundna meðferð. Erindum og fyrirspurnum kæranda hafi verið svarað og tillagan auglýst í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Bent sé á að hámarksbyggingarmagn á lóðinni Heiðarbrún 6-6b sé minna en á aðliggjandi lóð kæranda að Heiðarbrún 8, en sú lóð sé 852 m2 lóð með byggingarmagn upp á 185,3 m2 sem gefi nýtingarhlutfall upp á 0,22. Heiðarbrún 6-6b sé 853 m2 lóð þar sem heimilað verði samkvæmt deiliskipulagi nýtingar­hlutfall upp á 0,2 eða 170 m2 byggingu, sem sé talsvert minna byggingarmagn en á sambæri­legri lóð að Heiðar­brún 8. Af þessu leiði að samræmi milli lóða sé mikið og á engan hátt verði séð að verið sé að ívilna eigendum Heiðarbrúnar 6-6b á nokkurn hátt eða raska jafnræði íbúa við Heiðarbrún með deiliskipulaginu.

Í lögbundnu samráði, sem viðhaft hafi verið í málinu, felist ekki endilega að fallist verði á sjónar­mið allra þeirra sem geri athugasemdir eða telji sig verða fyrir áhrifum af framkominni deili­skipulags­tillögu. Þannig hafi sveitarfélaginu verið heimilt að fallast á fyrirliggjandi deili­skipulagstillögu þrátt fyrir að skuggavarpsmæling sýni fram á að á ákveðnum tíma geti einhver skuggi fallið á eign kæranda, enda sé ekki um veruleg áhrif að ræða. Fasteignaeigendur geti þurft að sæta því að þola eitthvað rask af því þegar lóðir í nágrenni þeirra byggjast upp.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að lóðin Heiðarbrún 6-6b eigi sér langa sögu sem og það hús sem þar stóð. Þegar núverandi lóðareigandi hafi komið til sögunnar hafi hann reynt að fá í gegn grenndarkynningu á þriggja íbúða raðhúsi, með nýtingarhlutfall upp á 0,5 með því að hringja í fólk í götunni. Kærandi hafi bent á að lóð nr. 4 við Heiðarbrún væri laus og hvort ekki væri hægt að samnýta lóðirnar undir húsið. Því næst hafi verið komið með tillögu að par­húsi en þá hefði deiliskipulagstillagan verið ólögleg þar sem notast hefði verið við röng gögn. Í málsmeðferð sveitarfélagsins vegna hins kærða deiliskipulags sem nú reyni á hafi enn á ný verið notast við rangar teikningar af húsi kæranda og skuggavarpsteikningar því ekki réttar. Aldrei í ferlinu hafi sveitarfélagið haft samband við kæranda að fyrra bragði heldur einungis gengið erinda lóðareiganda Heiðarbrúnar nr. 6.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hefur Persónuvernd eftirlit með lögum og reglum um vinnslu persónu­upplýsinga. Telji kærandi að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 90/2018 með birtingu heimilisfangs hans við málsmeðferð sveitarfélagsins getur hann leitað til stofnunar­innar með kvörtun þar að lútandi.

Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar að samþykkja deiliskipulag vegna Heiðarbrúnar 6-6b. Með deiliskipulaginu er lóðinni breytt úr einbýlis- í par­húsa­lóð og gert ráð fyrir að heimilt verði að byggja þar parhús á einni hæð með risi. Hámarks­vegghæð verði allt að 3,0 m og mænishæð allt að 5,0 m. Nýtingarhlutfall verði allt að 0,2.

Hið kærða deiliskipulag var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna þess sem og hann gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulags­stofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Tók deili­skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars 2023. Var formleg málsmeðferð deiliskipulagsins í samræmi við lög.

Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2022-2036 er lóðin Heiðarbrún 6-6b á Stokkseyri staðsett á svæði ÍB34. Fjallað er um íbúðarbyggð á Eyrarbakka og Stokkseyri í kafla 3.2.1 í greinargerð aðal­skipulags Árborgar. Þar kemur fram í almennum skilmálum að byggð skuli vera lágreist, á einni til þremur hæðum, nýtingarhlutfall skuli vera á bilinu 0,2-0,4, samsetning íbúðategunda sé fjölbreytt og komi til móts við þarfir íbúa. Þá kemur fram að svæðið ÍB34 sé að hluta til deiliskipulagt, en frekari skilmála fyrir þetta svæði er ekki að finna í aðalskipulaginu. Samkvæmt þeim skil­málum sem hið kærða deiliskipulag kveður á um er það innan þeirra heimilda sem aðalskipulag mælir fyrir um.

Tilgangur deiliskipulags er að setja fram skipulagsskilmála fyrir uppbyggingu og framkvæmdir á afmörkuðu svæði. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga. Þrátt fyrir að ekki hafi verið tilgreindir hæðar­kótar á uppdráttum er ekki um annmarka að ræða við deiliskipulagsgerðina. Eru hæðarblöð fyrir einstakar lóðir unnar í kjölfar gildistöku deiliskipulags og þá með stoð í skipulaginu.

Fjallað er um skuggavarp í 1. mgr. b-liðar í gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar kemur fram að við ákvörðun um fjarlægð milli einstakra byggingarreita skuli taka tillit til sólar­hæðar og skuggavarps eftir því hver notkun bygginganna sé. Þá er fjallað um skýringarmyndir og önnur fylgiskjöl deiliskipulagstillögu í gr. 5.5.4. og kemur þar fram að ef skýringar­uppdrættir fylgi skuli vísa til þeirra í deiliskipulagi og að skýringaruppdrætti, svo sem skugga­varpsteikningar, sé heimilt að nota til að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deili­skipulags.

Í máli þessu fylgja skuggavarpsteikningar með hinu kærða deiliskipulagi sem sýnir skuggavarp á sumarsólstöðum og jafndægrum kl. 9:00, 14:00, 16:00 og 18:00. Á umræddum teikningum er sýndur byggingarreitur á lóð Heiðarbrúnar 8 eins og hann kemur fram á lóðar­blaði en ekki nákvæm teikning af húsinu sem þar stendur. Verður það ekki talinn annmarki við skipu­lags­gerðina að skuggavarpsteikningar taki mið af byggingarreit lóðar nr. 8 samkvæmt lóðar­blaði enda er húsið innan reitsins.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun kærandi verða fyrir einhverri skerðingu vegna skugga­varps. Það verður þó ekki meira en almennt má búast við í þéttbýli og verður að horfa til þess að skipulagsskilmálar fyrir fyrirhugað hús á lóðinni eru vel innan heimilda aðalskipulags, nýtingar­hlutfall lóðarinnar er í samræmi við grannlóðir og í lágmarki þess sem gert er ráð fyrir í aðalskipulaginu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Árborgar frá 18. janúar 2023 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðina Heiðarbrún 6-6b, Stokkseyri.