Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

108/2022 Eyravegur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 7. september 2022, um að synja umsókn um leyfi fyrir byggingu við íbúðarhús að Eyravegi 22.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. september 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar að synja umsókn hans um leyfi fyrir byggingu á einni hæð við íbúðarhúsið að Eyravegi 22, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt umbeðið byggingarleyfi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 28. október 2022.

Málavextir: Með umsókn, dags. 8. ágúst 2022, sótti kærandi um byggingaráform og leyfi fyrir byggingu á einni hæð við íbúðarhúsið að Eyravegi 22. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. ágúst. s.á. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Framkvæmdin er í umfangsflokki 1, deiliskipulag liggur ekki fyrir. Fyrir liggur yfirlýsing meðeigenda um aðild að umsókninni og samþykki. Vísað til skipulagsnefndar.“ Kæranda var tilkynnt þessi ákvörðun með tölvupósti sama dag, auk þess sem byggingarfulltrúi átti í samskiptum við hönnunarstjóra varðandi athugasemdir við uppdrættina.

Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa á ný 7. september s.á. Á fundinum var bókað að skipulags- og byggingarnefnd teldi að áform um fjölgun íbúða á lóðinni væru ekki tímabær á meðan ekki hefði verið unnið rammaskipulag fyrir svæðið í heild, eins og endurskoðað Aðalskipulag Árborgar 2020–2036 gerði ráð fyrir, þar sem svæðið meðfram Eyravegi væri skilgreint sem miðsvæði/þróunarsvæði. Var kæranda tilkynnt með tölvupósti 8. september 2022 að með vísan til framangreindra sjónarmiða væri umsókn hans hafnað og hann jafnframt upplýstur um kæruleiðir og kærufresti.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur að jafnræðis hafi ekki verið gætt þegar umsókn hans um byggingarleyfi hafi verið hafnað á þeim forsendum að ekki hafi verið unnið rammaskipulag fyrir svæðið í heild, þar sem núverandi aðalskipulag sé í gildi til ársins 2036. Viðbyggingin sem sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir muni ekki skyggja á útsýni fyrir nágrönnum og komi ekki til með að sjást frá götu. Fordæmi séu fyrir því að veitt hafi verið leyfi til stækkunar húsa á Eyravegi. Bæði hafi staðið hótel við götuna sem síðar hafi verið breytt í íbúðir, ásamt því að gefin hafi verið út leyfi fyrir þremur viðbyggingum fyrir framan hótelið og þær síðar seldar sem íbúðir.

 Málsrök sveitarfélags: Sveitarfélagið áréttar að heimilt sé, að svo stöddu, að hafna fjölgun íbúða á svæðum sem skilgreind verði sem þróunarsvæði með nýju aðalskipulagi sem taki gildi von bráðar. Við höfnun á umþrættri umsókn hafi legið fyrir umsögn skipulags- og byggingar-nefndar, sbr. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Höfnun á umsókninni byggi einvörðungu á því að eins og sakir standi varðandi aðalskipulag og fyrirhugaða vinnu varðandi deiliskipulag á svæðinu telji sveitarfélagið ekki rétt að heimila viðbyggingar íbúðarhúsnæðis og fjölgun íbúða.

Þegar leitað hafi verið álits skipulags- og byggingarnefndar hafi ekki fengist staðfesting á að fyrirhuguð framkvæmd væri í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu eins og framangreind 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga kveði á um. Þvert á móti hafi verið bent á að ekki lægi fyrir deiliskipulag á svæðinu og að fyrirhugaðar væri frekari endurskoðun á svæðinu með skilgreiningu þess sem þróunarsvæðis og með frekari vinnu við rammaskipulag svæðisins.

Því sé hafnað að brotið sé gegn jafnræði íbúa með ákvörðun sveitarfélagsins. Þær viðbyggingar við hótelið á Eyrarvegi 26 sem kærandi vísi til að hafi verið seldar sem íbúðir, hafi upphaflega verið ætlaðar undir hótelstarfsemi, en síðar hafi verið samþykkt að breyta notkun húsnæðisins. Hafi skipulags- og byggingarnefnd afgreitt þá umsókn með því að vísa málinu í grenndarkynningu. Að henni lokinni hafi beiðnin verið samþykkt þar sem hún samrýmdist Aðalskipulagi Árborgar 2020–2036 og hafi forsendur í skipulagsáætlunum sveitarfélagsins á þeim tíma verið aðrar en þær séu nú.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 31. ágúst 2022 um að synja kæranda um leyfi fyrir byggingu við hús sitt að Eyravegi 22, Selfossi. Var synjun byggingarleyfis byggð á þeim rökum að áform um fjölgun íbúða á lóðinni séu ekki tímabær á meðan ekki hafi verið unnið rammaskipulag fyrir svæðið í heild, en í endurskoðuðu Aðalskipulagi Árborgar 2020–2036 væri gert ráð fyrir að svæðið meðfram Eyravegi yrði skilgreint sem miðsvæði/þróunarsvæði. Þá er ekki í gildi deiliskipulag fyrir svæðið.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er það í höndum sveitarstjórnar að annast gerð skipulagsáætlana innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar umdeildu ákvörðunar verður að líta til þess að um er að ræða stjórnvaldsákvörðun sem veitir skipulagsyfirvöldum ákveðið svigrúm í skjóli lögbundinna skipulagsheimilda til að móta byggð einstakra svæða. Stjórnvöldum ber þó við töku stjórnvaldsákvarðana, svo sem útgáfu byggingarleyfis að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og þeim lagagrundvelli sem ákvörðun byggist á hverju sinni.

Á svæðum þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar er meginreglan sú að gera skuli deili-skipulag, sbr. 2. mgr. 37. gr skipulagslaga. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir, svo sem hagaði til í máli þessu. Við þær aðstæður getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. skipulagslaga, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar hefði byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar verið rétt að leggja mat á það samkvæmt þessari lagagrein hvort um óverulega breytingu væri að ræða sem vert væri að grenndarkynna. Þessa var ekki gætt að því séð verði í málinu. Þá er til þess að líta að við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er stefna gildandi aðalskipulags bindandi, sbr. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga. Því er óheimilt að leggja til grundvallar ákvæði í aðalskipulags-tillögu sem ekki hefur fengið þá afgreiðslu sem lög kveða á um.

Með þessu verður að telja að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi verið svo áfátt að ekki verði komist hjá því að fella hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun um að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu við Eyraveg 22 er felld úr gildi.

88/2022 Gissurargata

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reynisvatnsáss og á synjun byggingar-fulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2022 um að hafna kröfu um beitingu þvingunar-úrræða vegna skorsteins og þakgluggakúpla á húsinu nr. 4 við Gissurargötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. ágúst 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Haukdælabrautar 1, Reykjavík, „tillögur starfsmanna Reykjavíkur til að breyta núgildandi deiliskipulagi með nýju deiliskipulagi fyrir hverfið og það látið gilda mörg ár aftur í tímann“ og hins vegar ákvörðun þeirra að „gangast ekki í það að beita þeim aðferðum sem þarf til þess að láta fjarlægja núverandi ólöglegan steyptan skorstein og tvo þakgluggakúpla af þaki húss við Gissurargötu 4 eins og fyrri úrskurður kvað á um að ætti að gera samkvæmt gildandi deiliskipulagi“. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að kærð sé ákvörðun borgarráðs frá 7. júlí 2022 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Reynisvatnsáss, er varðar m.a. skorsteina. Eftir að kæra í máli þessu barst nefndinni tók byggingarfulltrúinn í Reykjavík þá ákvörðun 12. október 2022 að beita ekki þvingunarúrræðum líkt og kærendur höfðu farið fram á og lítur nefndin svo á að kæran taki einnig til þeirrar ákvörðunar. Skilja verður kröfugerð kærenda á þann veg að gerð sé krafa um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. nóvember 2022.

Málavextir: Lóðin að Gissurargötu 4 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir Reynisvatnsás og var samþykkt leyfi fyrir byggingu húss á lóðinni árið 2018. Á árinu 2020 fór annar kærenda máls þessa fram á við Reykjavíkurborg að skorsteinn og gluggar á þaki hússins yrðu fjarlægð, en mannvirkin færu upp fyrir hámarksvegghæð þess samkvæmt skilmálum í deiliskipulagi og skertu útsýni úr húsi hans verulega. Urðu lyktir þær að byggingarfulltrúi hafnaði kröfu um beitingu þvingunarúrræða og var sú afgreiðsla kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Taldi nefndin, í úrskurði uppkveðnum 25. febrúar 2021 í máli nr. 101/2020, að sá rökstuðningur byggingarfulltrúa að hinar umdeildu framkvæmdir ættu sér stoð í deiliskipulagi ætti ekki við rök að styðjast og væri því haldinn þeim annmörkum að ógildingu varðaði.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. mars 2022 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á almennum skilmálum deiliskipulagsins sem fól í sér heimild til að skorsteinar og loftnet næðu upp fyrir skilgreindar hámarkshæðir húsa og samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 10. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 23. mars 2022 til og með 11 maí s.á. og bárust nokkrar athugasemdir, m.a. frá kærendum máls þessa. Að lokinni auglýsingu var tillagan lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 29. júní 2022 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. júní s.á., og uppfærðri tillögu að skilmálabreytingu. Var tillagan samþykkt með þeim breytingum er fram kæmu í umsögn skipulagsfulltrúa og málinu vísað til borgarráðs sem samþykkti erindið á fundi 7. júlí 2022. Með bréfi Skipulagsstofnunar til Reykjavíkurborgar, dags. 10. ágúst s.á., var ekki gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt breytingarinnar. Öðlaðist hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 24. ágúst 2022.

Í breytingunni felst að við almenna skilmála deiliskipulagsins bætist eftirfarandi setning: „Á húsum á svæðinu er heimilt að gera skorsteina og loftnet og aðra byggingarhluti sem fara upp úr uppgefnum hámarkshæðum húsa um allt að 110 cm, enda sé vandað til hönnunar og séu ekki hærri en þarf til að þjóna vel sínu hlutverki og skerða ekki hagsmuni nágranna, breyta eða hafa áhrif á götumynd né fela í sér stækkun húss á nokkurn hátt“. Að öðru leyti gilda skilmálar gildandi deiliskipulags.

Með bréfi Reykjavíkurborgar til kærenda, dags. 12. október 2022, var tilkynnt sú ákvörðun byggingarfulltrúa að embætti hans myndi ekki beita sé fyrir því að umræddir byggingarhlutar hússins að Gissurargötu 4 yrðu fjarlægðir með beitingu þvingunarúrræða. Ekki yrði séð að umræddur skorsteinn eða þakgluggar ógnuðu öryggis- eða almannahagsmunum, auk þess sem þeir samræmdust núgildandi deiliskipulagi Reynisvatnsáss.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til niðurstöðu í fyrra kærumáli þeirra fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en ljóst sé að hin kærða breyting hafi beinlínis verið gerð „til höfuðs“ þeim. Þegar lóðum hafi verið úthlutað í hverfinu hafi kærendur fengið þær upplýsingar að húsið að Gissurargötu 4 yrði með flötu þaki. Hafi kærendur fengið leyfi til að hækka gólfkóta aðalhæðar húss síns um 0,20 m til að tryggja útsýni og séu forsendur fyrir byggingu hússins nú brostnar.

Á kynningartíma tillögurnar hafi verið gerðar athugasemdir við m.a. breidd og lengd umræddra mannvirkja, en ekki hafi verið tekin afstaða til þeirra athugasemda við meðferð málsins. Breiddin sé nú ótakmörkuð og það sé aðeins byggingarreiturinn sem afmarki mannvirkið. Raunin sé því sú að heimilt sé að hækka allan byggingarreitinn upp um 110 cm.

Einungis örfá hús í hverfinu séu með steypta skorsteina en fleiri í útjaðri byggðar sem trufli engan. Þeir séu almennt um 800 mm á breidd og 900 mm á lengd. Fá dæmi séu um lengri skorsteina, en þess sé þá gætt að mjórri hlið þeirra snúi að því húsi sem hugsanlega gæti tapað útsýni. Skorsteinn á Gissurargötu 4 snúi um tveggja metra langhlið sinni að húsi kærenda og skerði verulega útsýni frá húsi þeirra. Þetta sé eini skorsteininn í hverfinu sem snúi þvert á útsýnisáttina niður í dalinn til norðvesturs. Þakgluggakúplar komi oftast ofan á steypta veggi og afmarkast því einnig af deiliskipulaginu vegna hámarksvegghæðar. Gissurargata 4 sé líklega eina húsið sem sé með tvo þakgluggakúpla og þeir séu um 1,5 metrar í þvermál. Með þessum breytingum á deiliskipulagi hverfisins, sem sé nánast fullbyggt, sé í raun aðeins verið að verja hagsmuni eigenda Gissurargötu 4.

Teikningar sem settar hafi verið fram við meðferð málsins séu eins villandi og hægt sé, en staðfesti þó að um útsýnisskerðingu sé að ræða. Auðvitað sé útsýnið breytilegt úr húsi kærenda eftir því hvar maður sé staddur. Ekki sé sýnd sneiðing á teikningunum til að sýna hversu há mannvirkin séu í raun miðað við „eðlilega augnhæð fólks í þessum aðalrýmum Haukdælabrautar 1“ og ekkert sé minnst á hæðarkóta. Þá hafi enginn starfmaður borgarinnar óskað eftir að kanna aðstæður á staðnum þrátt fyrir að þeim hafi margoft verið boðið það.

Skorsteinninn og þakgluggakúplarnir nái nú langt yfir þak hússins og lokað sé fyrir allt útsýni. Einnig séu steyptir skorsteinar settir undir sama hatt og reykpípur en engan veginn sé hægt að líkja þessu saman. Samkvæmt reglugerðum þurfi skorsteinar að ná 80 cm upp fyrir þakflöt og oft séu portveggir sem lækki ásýnd þessara skorsteina. Það sé því engin ástæða til að hafa steypta skorsteina eða reykrör hærri en nauðsynlegt sé samkvæmt reglugerðum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 101/2020 hafi verið ákveðið að gera breytingu á deiliskipulagi fyrir svæðið sem heimilaði umrædda byggingarhluta þar sem hverfið væri nánast fullbyggt og margir skorsteinar reistir í tíð eldri reglna og því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Ekki sé heldur fallist á að skorsteinn sá er um ræði á þaki Gissurargötu 4 skerði útsýni verulega. Málefnaleg rök hafi því staðið til þess að breyta deiliskipulaginu. Sé í þessu sambandi sérstaklega vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 23. júní 2022.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og sé tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að greindum lögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ákvæði 55. gr. og 56. gr. laganna gefi stjórnvöldum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, sbr. 1. gr. sömu laga. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingsbundinna hagsmuna, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja þá hagsmuni sína. Ekki verði séð að umræddur skorsteinn eða þakgluggar ógni öryggis- eða almannahagsmunum auk þess sem umræddir hlutar samræmist nú gildandi deiliskipulagi Reynisvatnsáss.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda m.a. á að eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 101/2020 hafi byggingarfulltrúa borið að kalla eftir því að skilað yrði inn nýjum teikningum af Gissurargötu 4, í samræmi við gildandi deiliskipulag. Hús kærenda sé byggt samkvæmt skipulagsskilmálum umrædds svæðis og verið sé að brjóta á hagsmunum þeirra með samþykktri breytingu. Verið sé að verja hagsmuni eigenda og aðalhönnuðar hússins að Gissurargötu 4 sem og hagsmuni borgarinnar vegna mistaka eigin starfsmanna. Verðmæti húss með góðu útsýni sé mun meira en húss með skertu útsýni. Kostnaður við að breyta umræddum skorsteini og þakgluggakúplum í reykpípu og lárétta glugga sé aðeins brot af kostnaði við framkvæmd hússins og hafi engin áhrif á notkun þess.

Athugasemdir lóðarhafa Gissurargötu 4: Lóðarhafi hefur ekki látið málið til sín taka, en sjónarmið hans liggja fyrir úr fyrra kærumáli.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar borgarráðs að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Reynisvatnsáss sem og lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að hafna kröfu kærenda um að beita þvingunarúrræðum til að fjarlægja skorstein og þakgluggakúpla á húsinu nr. 4 við Gissurargötu.

Umræddu deiliskipulagi var breytt í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 101/2020 sem kveðinn var upp 25. febrúar 2021. Í því máli hafði annar kærenda máls þessa gert kröfu um að sömu mannvirki og um er deilt í máli þessu yrðu fjarlægð þar sem þau færu yfir hámarksvegghæð hússins samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins. Hafnaði byggingarfulltrúi þeirri kröfu og taldi að framkvæmdirnar ættu sér stoð í deiliskipulaginu. Skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar og var niðurstaða hennar sú að svo væri ekki og þótti rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar því haldinn þeim annmörkum að ógildingu varðaði. Tók nefndin þó ekki afstöðu til þess hvort umrædd mann-virki skyldu fjarlægð.

Í framhaldi þessa var gerð breyting á skilmálum umrædds deiliskipulags. Felur hún í sér heimild að „gera skorsteina og loftnet og aðra byggingarhluti sem fara upp úr uppgefnum hámarkshæðum húsa um allt að 110 cm, enda sé vandað til hönnunar og séu ekki hærri en þarf til að þjóna vel sínu hlutverki og skerða ekki hagsmuni nágranna, breyta eða hafa áhrif á götumynd né fela í sér stækkun húss á nokkurn hátt“.

Gerð skipulags innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skal deiliskipulag byggja á stefnu aðalskipulags og rúmast innan heimilda þess, sbr. 3. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Við töku skipulags-ákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. lögmætisreglunni sem felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum og sem endranær er hún bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 23. júní 2022, sem samþykkt var á fundi borgarráðs 7. júlí s.á., kemur m.a. fram að með hliðsjón af meðalhófi og jafnræðisreglu hafi verið ákveðið að gera breytingu á deiliskipulagi þar sem hverfið sé nánast fullbyggt. Á mörgum húsum í hverfinu sé skorsteinn og sumir þeirra byggðir í tíð eldri reglugerða um skipulags- og byggingarmál. Samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 101/2020 væru skorsteinar sem heimilaðir væru eftir 2013 ekki heimilir samkvæmt deiliskipulagi fyrir svæðið. Með tillögunni væri verið að gæta hagsmuna þeirra húseigenda og bregðast við úrskurðinum. Þá hefði nefndin ekki tekið ákvörðun um það í úrskurðinum að skylt væri að fjarlægja byggingarhluta.

Með vísan til framangreinds verður að álíta að efnisleg og lögmæt markmið hafi búið að baki hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Með henni eru einnig settar tilteknar skorður við hæð og umfang byggingarhluta á þaki. Jafnframt var undirbúningur og meðferð hennar í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Þá skal bent á að telji hagsmunaaðilar sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagi þarf það ekki að raska gildi skipulagsbreytingarinnar, en getur eftir atvikum orðið grundvöllur bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga, en það álitaefni á ekki undir úrskurðarnefndina.

Kærendur hafa einnig kært þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafna beitingu þvingunarúrræða til að fjarlægja hin umdeildu mannvirki. Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því felst m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 55. gr. laganna er kveðið á um að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað.

Lög nr. 160/2010 öðluðust gildi 1. janúar 2011 og var þeim ásamt skipulagslögum nr. 123/2010 ætlað að leysa af hólmi þágildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Í lögum nr. 73/1997 var einnig mælt fyrir um þvingunarúrræði ef framkvæmdir brytu í bága við skipulag eða væru án leyfis. Sá veigamikli munur er þó á að lög nr. 73/1997 kváðu á um að byggingarfulltrúa bæri að grípa til aðgerða, en samkvæmt núgildandi lögum er honum það heimilt að loknu mati hverju sinni. Er tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstaklinga enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Ákvörðun byggingarfulltrúa var tilkynnt kærendum með bréfi er undirritað var af starfsmanni Reykjavíkurborgar fyrir hönd byggingarfulltrúa. Óskaði úrskurðarnefndin upplýsinga um það hvort fyrir lægi fundargerð þar sem bókað hefði verið um ákvörðunina eða hvort erindið hefði verið tekið fyrir á afgreiðslufundi skilmálaeftirlits borgarinnar. Í svari kom fram að svo hefði ekki verið en að byggingarfulltrúi hefði tekið ákvörðunina. Líkt og fyrr greinir er það á for-ræði byggingarfulltrúa að taka ákvörðun um beitingu þeirra heimilda sem um ræðir. Þrátt fyrir að málið hafi ekki verið tekið fyrir á formlegum fundi þykir, í ljósi fyrrnefnds svars og fyrir-liggjandi gagna málsins, ekki ástæða til að efast um aðkomu byggingarfulltrúa að málinu.

Sú niðurstaða byggingarfulltrúa að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða var studd þeim rökum að ekki yrði séð að umræddur skorsteinn eða þakgluggar ógnuðu öryggis- eða almannahagsmunum, auk þess sem þeir hlutar samræmdust núgildandi deiliskipulagi Reynisvatnsáss. Þótt ljóst sé að fyrir hendi er ágreiningur um hvort mannvirkin séu í samræmi við núgildandi deiliskipulag þar sem kærendur telja að hagsmunum þeirra sé raskað verður þó ekki séð að þau ógni öryggis- eða almannahagsmunum, sbr. t.d. ákvæði a-liðar 1. gr. mannvirkjalaga. Þykir því ekki efni til að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa en kærendum eru önnur úrræði tæk til að gæta hagsmuna sinna, svo sem áður er komið fram.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reynisvatnsáss.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2022 um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skorsteins og þak-gluggakúpla á húsinu nr. 4 við Gissurargötu í Reykjavík.

13/2023 Indriðastaðir

Með

Árið 2023, föstudaginn 17. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 13/2023, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 8. nóvember 2022 um að vatnstaka Vatnsveitufélags frístundalóðaeigenda í Indriðastaðalandi sé ekki leyfisskyld.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 11. janúar 2023, kærir landeigandi jarðarinnar Indriðastaða þá ákvörðun Orkustofnunar frá 8. nóvember 2022 að vatnstaka Vatnsveitufélags frístundalóðaeigenda í Indriðastaðalandi sé ekki leyfisskyld samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 23. janúar 2023.

Málavextir: Vatnsveitufélag frístundalóðaeigenda í Indriðastaðalandi óskaði eftir nýtingarleyfi á köldu vatni með umsókn til Orkustofnunar 27. apríl 2022. Með bréfi, dags. 8. nóvember s.á., vísaði Orkustofnun umsókninni frá með vísan til þess að tilgreind framkvæmd félli undir ákvæði vatnalaga nr. 15/1923 en ekki laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og að framkvæmdin væri því ekki leyfisskyld.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi ekki verið upplýstur um að málefni sem varði landareign hans hafi verið til meðferðar hjá Orkustofnun, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi ekki verið afhent gögn málsins eða gefinn kostur á andmælum skv. 13. gr. laga nr. 37/1993 áður en endanleg ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tekin um að vísa frá umsókn leyfishafa um nýtingarleyfi skv. lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með vísan til vatnalaga nr. 15/1923. Málsmeðferð Orkustofnunar brjóti í bága við grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins um andmælarétt. Sé þess krafist að umrædd ákvörðun Orkustofnunar verði metin ólögmæt og felld úr gildi.

Lög nr. 57/1998 taki til auðlinda í jörðu í landi, m.a. grunnvatns í eignarlandi. Nýting auðlinda úr jörðu, annarra en landeigenda til einkanota allt að 70 l/sek, sbr. 14. gr. laganna, sé háð leyfi Orkustofnunar, sbr. 1. mgr. 6. gr. Lög nr. 57/1998 geri ráð fyrir að aðrir en landeigendur geti aflað sér nýtingarleyfis, en bæði þeir og vatnsveitur sveitarfélaga þurfi að ná samkomulagi við landeiganda um þau atriði sem nýtingarleyfi taki til, þ.m.t. um endurgjald fyrir auðlindina, ella geti ráðherra tekið þær auðlindir eignarnámi. Forsenda grunnvatnsnýtingar sé lögformlegt ferli nýtingarleyfis. Stofnunin vísi hins vegar til þess að vatnsból merki skv. 23. tölul. 4. mgr. 1. gr. vatnalaga „mannvirki, t.d. brunnar, eða virkjaðar lindir, eða náttúruleg vatnsleg þar sem vatn er tekið eða nytjað á staðnum“. Því eigi lög nr. 57/1998 ekki við þar sem ekki sé um grunnvatnsnýtingu að ræða.

Orkustofnun vísi til aldargamals ákvæðis 31. gr. laga nr. 15/1923 sem varði það ef maður geti ekki aflað sér vatns í landareign sinni til heimilis- og búsþarfa. Samkvæmt 4. tölul. 4. mgr. 1. gr. vatnalaga merki heimilis- og búsþarfir einungis nýtingu til heimilis- og búsþarfa ábúenda við búrekstur og annan atvinnurekstur á sviði landbúnaðar. Vatnsveitufélagið fyrirhugi hins vegar að koma fyrir fjórum vatnstöknum í landi kæranda, án endurgjalds, sem hver yrði 25.000 lítrar og vinna allt að 4 l/sek neysluvatns með vísan til hinnar kærðu ákvörðunar Orkustofnunar um að vatnstakan sé ekki leyfisskyld heldur til heimilis og búsþarfa. Félagið sé að sjálfsögðu ekki bú í skilningi ábúðarlaga, sem sé forsenda og skilyrði þeirra ákvæða vatnalaga sem hin kærða ákvörðun byggi á. Umfangsmikill rekstur hjá því falli ekki undir búrekstur samkvæmt ábúðarlögum nr. 80/2004 og veiti ekki réttindi á grundvelli ákvæða laga nr. 15/1923 eða eldri laga, heldur sé um að ræða eftirlitsskylda atvinnustarfsemi vatnsveitufélags sem Orkustofnun, heilbrigðisstjórnvöld og öðrum stjórnvöldum beri að hafa eftirlit með og hafi ekkert með landbúnað að gera.

Í dómi héraðsdóms Vesturlands, sem staðfestur hafi verið með dómi Landsréttar frá 17. maí 2019 í máli nr. 894/2018, hafi m.a. komið fram að skipulagskvöð samkvæmt samþykktu deiliskipulagi um fyrirkomulag vatnsveitu í landi kærða að Indriðastöðum gæti ekki ein og sér skapað frístundalóðaeiganda rétt til vatns úr borholu jarðarinnar án þess að annað kæmi þar til, svo sem sérstakt samkomulag við kæranda. Þá hafi komið fram í dómnum að ekki væri hægt að túlka ákvæði vatnalaga nr. 15/1923 svo að þau hafi veitt lóðareiganda sjálfstæðan rétt til vatns sem dælt væri upp úr borholu jarðarinnar. Hin kærða ákvörðun Orkustofnunar fari gegn þessari niðurstöðu Landsréttar. Þá hafi Landsréttur talið ákvæði í kaupsamningi um að seljandi skyldi útvega vatn að lóðarmörkum ekki bindandi fyrir kæranda í máli þessu, sem síðari rétthafa, enda hefði kvöðinni ekki verið þinglýst á jörðina, sbr. 1. og 2. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Engu að síður hafi kærandi útvegað vatn til frístunda-byggðarinnar, þó svo að samkomulag um endurgjald liggi enn ekki fyrir og hafi sjálfur kostað rekstur veitunnar. Dómurinn leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt vatnsveitufélag þurfi að gera sérstakt samkomulag við landeiganda, vilji það skapa sér ótvíræðan rétt til grunn- eða neysluvatns, eftir atvikum á grundvelli ákvæða auðlindalaga um nýtingarleyfi og endurgjald.

Forðast skuli að valda öðrum sem tilkall eigi til sama vatns tjóns eða óhagræði við hvers konar nýtingu vatnsréttinda, sbr. 2. mgr. 80. gr. laga nr. 15/1923. Hin kærða ákvörðun fari gegn þessu ákvæði að því varði eignarréttarlega hagsmuni kæranda og rekstur vatnsveitu í eigu hans í þágu orlofsbyggðarinnar.

Málsrök Orkustofnunar: Af hálfu Orkustofnunar er vísað til þess að þar sem svo hátti til að grunnvatn streymi upp á yfirborð með náttúrulegum hætti, þ.e. lind, falli vatnstaka úr henni undir vatnalög en ekki auðlindalög. Til þess að nýtingin falli undir auðlindalög þurfi sértæka meiriháttar mannvirkjagerð eða borun sem ætlað sé til að koma vatni upp á yfirborðið. Með hliðsjón af því geti Orkustofnun ekki veitt leyfi á grundvelli auðlindalaga til þeirrar nýtingar sem tilgreind sé í umsókn vatnsveitufélagsins.

Í vatnalögum séu margvísleg ákvæði er fjalli um heimildir til vatnstöku, m.a. til heimilis- og búsþarfa. Vísað sé til 29. gr. laganna þar sem fjallað sé um vatnsveitur á vegum vatnsveitufélaga, sbr. einnig 25.-27. gr. laganna. Með vísan til þessara greina, sbr. einnig 11., 12. 17., 25., 31. og 32. gr. vatnalaga sé slík vatnstaka ekki háð leyfi Orkustofnunar. Hins vegar megi vísa til 2. mgr. 144. gr. laganna þar sem segi: „Skylt er að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir sem er fyrirhugað að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari, þar á meðal framkvæmdir sem ekki eru sérstaklega leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum.“

 Athugasemdir umsækjanda: Bent sé á að sú stjórnvaldsathöfn sem kæran beinist að sé sú niðurstaða Orkustofnunar að vísa frá umsókn Vatnsveitufélags frístundalóðaeigenda í Indriðastaðalandi um nýtingarleyfi á köldu vatni í landi Indriðastaða. Sú niðurstaða feli ekki í sér nokkurs konar leyfi eða heimild né hafi hún í för með sér nein þau réttarskapandi áhrif að kærandi geti krafist stöðvunar þar á. Niðurstaða Orkustofnunar byggist á þeirri forsendu að fyrirhuguð vatnstaka falli ekki undir ákvæði laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, heldur geti farið fram á grundvelli tilgreindra ákvæða vatnalaga nr. 15/1923.

Þetta feli jafnframt í sér að tilkynna þurfi Orkustofnun um fyrirhugaðar framkvæmdir með vísan til 4. og 5. mgr. 144. gr. vatnalaga, sem Orkustofnun hafi svo fjórar vikur til að gera athugasemdir við. Slík tilkynning hafi verið send Orkustofnun 2. janúar 2023. Renni frestur Orkustofnunar til að gera athugasemdir út án þess að athugasemdir berist sé rétt að líta svo á að engar athugasemdir séu gerðar. Þá fyrst, eftir atvikum, væru forsendur til að hefja frekari undirbúning framkvæmda. Engum kæranlegum stjórnvaldsákvörðunum sé því til að dreifa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Orkustofnunar að vísa frá umsókn um nýtingarleyfi skv. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, til töku á köldu vatni, með vísan til þess að framkvæmdin eigi undir ákvæði vatnalaga nr. 15/1923.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laga nr. 57/1998 sæta ákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun rannsóknar- eða nýtingarleyfa kæru til úrskurðarnefndarinnar, en aðrar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna eru kæranlegar til ráðherra skv. 3. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi Orkustofnunar. Af 2. mgr. 1. gr. laganna er ljóst að grunnvatn telst til auðlindar samkvæmt lögunum, en það er skilgreint í 6. mgr. 2. gr. laganna sem vatn sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi og sem unnið er í öðrum tilgangi en að flytja varma til yfirborðs jarðar eða nýta staðarorku þess. Ekki er fjallað um yfirborðsvatn í lögunum en í athugasemdum við 2. mgr. 1. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 57/1998 er vísað til þess að vatnalög nr. 15/1923 taki til yfirborðsvatns.

Í umsókn Vatnsveitufélags frístundalóðaeigenda í Indriðastaðalandi til Orkustofnunar kom fram að upphaflega hefði vatnstönkum verið komið fyrir árið 1998 til að safna vatni úr lindum. Síðustu ár hafi vatni verið veitt úr borholu og í gegnum vatnstankana inn á vatnsveituna. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag við landeigendur Indriðastaða um áframhaldandi nýtingu borholunnar sé sótt um um nýtingarleyfi til að safna vatni úr lindum í tanka sem veitt geti vatni inn á vatnsveituna.

Vatnalög nr. 15/1923 taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar, í föstu eða fljótandi formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki þar um. Í lögunum er  vatnsból skilgreint í 23. tölul. 1. gr. sem mannvirki, t.d. brunnar, eða virkjaðar lindir, eða náttúruleg vatnsleg þar sem vatn er tekið eða nytjað á staðnum. Af hálfu Orkustofnunar hefur verið vísað til þess að þar sem svo háttar til að grunnvatn streymir upp á yfirborð með náttúrulegum hætti, þ.e. í lindir, falli vatnstaka með þessu undir vatnalög en ekki auðlindalög. Til þess að nýtingin falli undir lög nr. 57/1998 þurfi sértæka meiriháttar mannvirkjagerð eða borun sem ætlað er til að koma vatni upp á yfirborðið.

Svo sem mál þetta var lagt fyrir Orkustofnun, verður að áliti úrskurðarnefndarinnar að fallast á sjónarmið stofnunarinnar og telja, með vísan til þeirra, að stofnuninni hafi verið heimilt að vísa frá umræddri umsókn um nýtingarleyfi skv. lögum nr. 57/1998. Verður því kröfu kæranda í máli þessu hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 8. nóvember 2022 um að vatnstaka Vatnsveitufélags frístundalóðaeigenda í Indriðastaðalandi sé ekki leyfisskyld.

98/2022 Leiðhamrar

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 16. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræð-ingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2022 um að hafa ekki frekari afskipti af máli vegna girðingar á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 52, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2022 að hafa ekki frekari afskipti af máli vegna girðingar á lóðarmörkum Leiðhamra 52 og 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. september 2022.

Málavextir: Árið 2021 gerðu lóðarhafar Leiðhamra 52 og 54 í Reykjavík með sér munnlegt samkomulag um að reist yrði girðing á mörkum lóðanna. Með tölvupósti til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar óskaði kærandi eftir því að byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdir á Leiðhömrum 54 þar sem hæð girðingar færi yfir leyfileg mörk. Barst honum svar frá borgaryfirvöldum 12. janúar 2022 þar sem fram kom að bréf yrði sent á lóðarhafa Leiðhamra 54 og honum gert að virða ákvæði byggingarreglugerðar. Í tölvupósti frá borgaryfirvöldum 31. s.m. kom fram að lóðarhafi Leiðhamra 54 ætlaði að leggja fram tillögu að lækkaðri girðingu á lóðarmörkum.

Kærandi sendi borgaryfirvöldum erindi 22. febrúar 2022 þess efnis að lóðarhafi Leiðhamra 54 hefði ekki staðið við að lækka girðinguna nema að hluta. Kærandi krafðist þess að Reykjavíkurborg hlutaðist til um aðgerðir þar sem ekki hefði verið staðið við samkomulag aðila. Ítrekaði kærandi erindi sitt 2. og 5. maí, 8. júní og 8. ágúst s.á. Með tölvupósti 9. ágúst 2022 var kæranda tilkynnt að umrædd girðing væri í samræmi við gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vegna hæðarmunar á lóðarmörkum skv. útgefnu lóðarblaði væri það mat byggingarfulltrúa að miða bæri við hæð girðingar þeim megin lóðarmarka sem liggi hærra í landi. Hygðist byggingarfulltrúi því ekki hafa frekari afskipti af málinu.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 tiltaki þau minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem séu undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt e-lið ákvæðisins séu skjólveggir og girðingar undanþegin byggingarleyfi í nánar tilgreindum tilvikum. Samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar séu girðingar eða skjólveggir á lóðamörkum þó alltaf háðir samþykki beggja lóðarhafa, óháð hæð girðingar eða skjólveggjar. Skuli slíks samþykkis aflað áður en hafist sé handa við smíði girðingar eða skjólveggjar og sé ákvæðið fortakslaust.

Samkvæmt upphaflegu hæðarplani sé lóð Leiðhamra 52 1,3 m hærri en lóð Leiðhamra 54, en einnig sé nokkur hæðarmunur innan lóðar nr. 52 þannig að suðvestur og suðaustur-hlutar lóðarinnar séu lægri. Af þeirri ástæðu hafi verið gert ráð fyrir því í munnlegu samkomulagi lóðarhafa að girðingin myndi lækka til beggja enda. Girðingin í suðaustur, sem snúi að götu, hafi verið lækkuð af lóðarhafa Leiðhamra 54 til samræmis við upphaflegt munnlegt samkomulag og sé nú undir leyfilegum hæðarmörkum til að teljast undanþegin byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Eftir standi staurarnir sem séu hærri en 1,8 m. Girðingin í suðaustur hafi þó ekki verið lækkuð að fullu til samræmis við munnlegt samkomulag. Þá sé girðingin til suðvesturs hærri en 1,8 miðað við hæð lóðar nr. 52. Samkvæmt fyrrnefndum e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð sé hún því of há til þess að vera undanskilin byggingarleyfi, enda liggi umrædd girðing á mörkum lóða nr. 52 og 54. Ekki liggi fyrir samþykki kæranda um að svo há girðing verði reist og sé skilyrði 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar ekki heldur uppfyllt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Að mati borgaryfirvalda er umrædd girðing í samræmi við gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og því hafi ekki verið ástæða til frekari afskipta í málinu af hálfu byggingarfulltrúa. Vegna hæðarmunar á lóðamörkum, sbr. útgefið hæðarblað, beri að miða við hæð girðingar þeim megin lóðamarka sem liggi hærra í landi. Það komi fram í skoðunarskýrslu byggingarfulltrúa, dags. 18. maí 2022.

Viðbótarathugasemdir: Kærandi mótmælir mælingu þeirri sem fjallað sé um í skoðunarskýrslu byggingarfulltrúa, dags. 18. maí 2022. Telji kærandi að notast hafi verið við grunnpunkta sem gefi ekki rétta mynd af hæð girðingarinnar. Hvorki kærandi né fulltrúi á hans vegum hafi verið viðstaddir mælinguna. Þá hafi honum ekki verið gefið færi á því að koma að athugasemdum sínum við þessa mælingu eða skoðunarskýrslu, hvorki á meðan skoðunin hafi farið fram né síðar í ferlinu. Kærandi hafi raunar ekki séð umrædda skoðunarskýrslu fyrr en með tölvupósti frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 31. janúar 2023. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi þar af leiðandi verið tekin án þess að kæranda hafi verið gefinn kostur á því að tjá sig um þetta veigamikla atriði. Málsmeðferð hafi með þessu farið í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 13. gr. sömu laga um andmælarétt. Að öðru leyti árétti kærandi fyrri málsrök sín um að ákvörðunin sé ekki í samræmi við ákvæði e-liðar gr. 2.3.5. og 3. mgr. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna girðingar á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

 Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis og heilbrigðishagsmunum. Ekki verður talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einkaréttarlegra hagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum.

Auk mannvirkja taka lög nr. 160/2010 m.a. til gróðurs á lóðum, frágangs og útlits lóða og til girðinga í þéttbýli, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Á grundvelli 60. gr. sömu laga hefur verið sett byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd þeirra og er þar m.a. að finna ákvæði um girðingar. Í gr. 7.2.3. reglugerðarinnar er kveðið á um að hæð girðinga á lóðum skuli vera í samræmi við skipulagsskilmála og afla skuli byggingarleyfis nema framkvæmdirnar séu undanþegnar slíku leyfi. Þá sé girðing eða skjólveggur á mörkum lóða alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar og leita skuli samþykkis áður en hafist sé handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Í gr. 2.3.5. reglugerðarinnar er mælt fyrir um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarleyfum enda sé hún í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt e-lið ákvæðisins er lóðarhöfum samliggjandi lóða heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Miða skal við jarðvegshæð lóðar sem hærri er ef hæðarmunur er á milli lóða á lóðarmörkum.

Hin kærða ákvörðun um að hafa ekki frekari afskipti af málinu var studd þeim rökum að umrædd girðing væri í samræmi við gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Vegna hæðarmunar á lóðamörkum, sbr. útgefið hæðarblað, bæri að miða við hæð girðingar þeim megin lóðarmarka sem lægi hærra í landi. Meðal gagna í máli þessu er skoðunarskýrsla starfsmanna borgaryfirvalda, dags. 18. maí 2022. Í henni kemur fram að kvörtun hafi borist frá eiganda Leiðhamra nr. 52 um að girðing á lóðarmörkum við lóð nr. 54 væri of há og ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Í kvörtuninni hefði komið fram að samkomulag væri milli aðila um að setja upp girðingu á lóðamörkum en hæð hennar væri umfram 1,80 m. Farið hefði verið á vettvang og mæling framkvæmd. Girðingin hafi hæst reynst vera 1,77 m. Samkvæmt því sé girðingin undanþegin byggingarleyfi, sbr. greint ákvæði reglugerðarinnar.

Þótt munnlegt samkomulag hafi verið um framkvæmdina uppfyllti það ekki þær formkröfur sem gerðar eru í áðurnefndum e-lið gr. 2.3.5., sbr. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð. Í því ljósi hefði byggingarfulltrúa verið rétt að beina því til lóðarhafa að samkomulagið yrði gert skriflegt svo leggja mætti réttan grundvöll að rannsókn málsins. Hefði byggingafulltrúa því verið rétt að rannsaka málið betur að þessu leyti til. Hvað sem þessu líður hafa stjórnvöld við matskenndar ákvarðanir sem þessar alla jafna nokkuð svigrúm. Er og til þess að líta að þvingunarúrræðum mannvirkjalaga verður, sem svo áður segir, fyrst og fremst beitt til gæslu almannahagsmuna. Að þessu virtu verður framangreindu mati byggingarfulltrúa ekki hnekkt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2022 um að hafa ekki frekari afskipti af máli vegna girðingar á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

14/2023 Presthús

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 14. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Fyrir var tekið mál nr. 14/2023, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 6. desember 2022, um að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Presthús, Kjalarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Brautaholts 1, Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 6. desember 2023 að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Presthús, Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og til vara að sá hluti deiliskipulagsins sem heimili umferð að Presthúsum um veg í landi Brautarholts 1, án samþykkis eiganda, verði felldur úr gildi.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hinn 24. nóvember 2022 deiliskipulag fyrir jörðina Presthús. Var málinu vísað til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar sem staðfesti niðurstöðu borgarráðs á fundi sínum 6. desember 2022. Í hinu kærða deiliskipulagi fólust áform um íbúðarhús, dvalar- og vinnuaðstöðu fyrir listamenn o.fl. Lýst var aðkomuvegi, gönguleiðum, byggingarreitur var staðsettur og skilmálar settir fyrir uppbyggingu svæðisins.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að aðkoma að Presthúsum verði um veg sem liggi í gegnum eignarjörð hans Brautarholt 1. Samþykki landeiganda sé forsenda þess að heimilt sé að nýta veginn sem aðkomuveg, en það liggi ekki fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bíður deiliskipulagið afgreiðslu Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

72/2022 Hraungata

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 1. júlí 2022 um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna stoðveggjar á lóðinni Hraungötu 10.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Hraungötu 8, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 1. júlí 2022 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna stoðveggjar á lóðinni Hraungötu 10. Skilja verður málskot kærenda sem svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að gera eigendum umdeilds veggjar aðvart um ólögmæti hans og að lagt verði fyrir þá að bæta úr því sem áfátt sé að viðlögðum dagsektum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 18. október 2022. Jafnframt liggja fyrir gögn úr fyrri málum kærenda vegna sama stoðveggjar, sbr. úrskurð í máli nr. 37/2021 frá 24. júní 2021 og máli nr. 128/2021 frá 16. desember 2021.

Málavextir: Árið 2017 keyptu kærendur lóðina Hraungötu 10 en sú lóð er nú nr. 8 við sömu götu. Ein hlið lóðarinnar á sameiginleg lóðamörk með lóð nr. 10 og hafa verið steyptir veggir meðfram lóðamörkunum innan hvorrar lóðar. Á árinu 2016 voru samþykkt byggingaráform og gefið út byggingarleyfi vegna framkvæmda á síðarnefndu lóðinni sem tók til húsbyggingar og lóðarfrágangs. Vottorð vegna lokaúttektar var gefið út 25. júní 2021.

Kærendur sendu fyrirspurn til sveitarfélagsins 17. maí 2019 um lögmæti steinsteypts veggjar á lóðinni Hraungötu 10. Með bréfi, dags. 7. október s.á., kröfðust þeir þess, með vísan til ákvæða 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, að veggurinn eða hluti hans yrði fjarlægður til að koma mætti á lögmætu ástandi. Í kjölfar þess að úrskurðarnefndin lagði fyrir byggingar-fulltrúa með úrskurði í máli nr. 37/2021 að svara erindi kærenda án ástæðulauss dráttar, synjaði byggingarfulltrúi kröfu þeirra 2. júlí 2021. Kærendur skutu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði í máli nr. 128/2021 hafnaði kröfu þeirra um ógildingu þar sem efnisleg rök voru talin hafa búið að baki ákvörðun um að synja um beitingu þvingunarúrræða.

Með bréfi, dags. 27. janúar 2022, fóru kærendur á ný fram á það við byggingarfulltrúa að hann beitti eigendur Hraungötu 10 þvingunarúrræðum þar sem samkvæmt nýlegum mælingum væri veggurinn ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti. Vísuðu kærendur sérstaklega til 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki og þess að þar væri kveðið á um skyldu byggingarfulltrúa að gera eigendum aðvart og leggja fyrir þá að bæta úr því sem áfátt væri. Með ákvörðun, dags. 1. júlí 2022, synjaði byggingarfulltrúi um að grípa til úrræða varðandi færslu á veggnum til samræmis við samþykktar teikningar enda væri það mat hans og með tilliti til meðalhófs að ekki lægju fyrir brýnir almanna-, öryggis- eða heilbrigðishagsmunir sem krefðust þess að gripið yrði til aðgerða.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að útgefið byggingarleyfi hafi veitt leyfi fyrir vegg inni á lóð Hraungötu 10 í 1,45 m fjarlægð frá lóðamörkum að Hraungötu 8. Slíkur veggur hafi ekki verið byggður heldur veggur sem sé 1,1146 m frá lóðamörkunum. Sá veggur sé ólögmætur, þ.e. hvorki í samræmi við uppdrætti né byggingarleyfi og hafi byggingarfulltrúi Garðabæjar gengist við ólögmæti hans. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé ekki um að ræða neitt mat eða val byggingarfulltrúa heldur skuli hann gera það sem greini í ákvæðinu og fara að lögum. Í ákvæðinu segi að ef ekki sé gengið frá mannvirki samkvæmt samþykktum uppdráttum skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem sé áfátt. Þrátt fyrir skýrt orðalag hafni byggingarfulltrúi að fara eftir ákvæðinu. Rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun sé ekki í samræmi við kröfur um tilvísun til réttarreglna heldur sé niðurstaðan byggð á mati án þess að vísað sé til þeirra heimilda sem það mat sé reist á.

Umræddur veggur sé utan byggingarreits og sé burðarveggur fyrir svalir en ekki stoðveggur. Úrskurðarnefndin myndi átta sig á því ef hún kæmi á staðinn og rannsakaði málið í samræmi við rannsóknarregluna. Þar sem um burðarvegg fyrir svalir sé að ræða verði að telja að hann kalli á breytingu á deiliskipulagi þar sem hann sé hluti af formi hússins og langt fyrir utan byggingarreit.

Málsrök Garðabæjar: Bæjaryfirvöld telja 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ekki eiga við í málinu. Ákvæðið eigi m.a. við um það tilvik þegar ekki sé gengið frá mannvirki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu. Ákvæðið eigi því við um frágang mannvirkis og af samhenginu megi ráða að löggjafinn hafi haft í huga að frágangur mannvirkis fullnægi ekki kröfum um öryggi og hollustuhætti.

Í 55. gr. laga um mannvirki sé fjallað um það tilvik þegar mannvirki sé reist á annan hátt en leyfi standi til og í því tilviki séu ákvæðin um atbeina byggingarfulltrúa aðeins heimildarákvæði samkvæmt orðanna hljóðan. Þetta sé í samræmi við þá breyttu stefnu löggjafans að nema úr gildi þá ströngu reglu sem áður gilti skv. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en í stað þess hefði verið tekin upp sú regla að það ætti að velta á málefnalegu mati sveitarstjórnar eða byggingarfulltrúa hvort knýja ætti fram úrbætur, niðurrif, eða leyfa mannvirki að standa eftir atvikum að undangenginni leyfisveitingu. Séu þess mörg dæmi að brugðist hafi verið við óleyfisframkvæmd eða framkvæmd sem sé á annan veg en leyfi standi til með því að veita byggingarleyfi fyrir henni, eftir atvikum að undangenginni grenndarkynningu eða breytingu á deiliskipulagi og kunni það að koma til álita í þessu tilviki.

Við úrlausn málsins verði að hafa í huga að eitt sé að beina því til byggingarleyfishafa að bæta úr því sem áfátt kunni að vera og annað að fylgja því eftir með dagsektum eða með því að láta vinna verk á hans kostnað enda sé beiting þvingunarúrræða alfarið háð sjálfstæðu mati viðkomandi stjórnvalds og beri við beitingu slíkra úrræða að gæta meðalhófs. Beri því að taka til skoðunar hvort unnt sé að ná lögmætu markmiði með öðru og vægara móti, svo sem með því að veita byggingarleyfi fyrir þegar byggðu mannvirki áður en ákvörðun sé tekin um að knýja fram niðurrif mannvirkisins. Ákvæði um þvingunarúrræði séu fyrst og fremst sett til að tryggja almannahagsmuni. Nágrönnum standi hins vegar önnur réttarúrræði til boða telji þeir rétt á sér brotinn.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu eigenda Hraungötu 10 er vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

—-

Aðilar málsins hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort beita eigi þvingunarúrræðum til þess að stoðveggur á lóðinni Hraungötu 10 nærri lóðamörkum að Hraungötu 8 verði fjarlægður. Í kæru er þess krafist að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að senda áskorun um úrbætur vegna veggjarins skv. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 að viðlögðum dagsektum skv. 2. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Tekið skal fram að áskorun skv. 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga er liður í undirbúningi mögulegrar ákvörðunar um beitingu þvingunarúrræða skv. 56. gr. en felur ekki í sér lokaákvörðun um beitingu þeirra. Verður sú ákvörðun því ekki ein og sér borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að byggingarfulltrúa verði gert að beita 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki heldur einungis til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

Byggingarleyfi vegna lóðarinnar Hraungötu 10 var gefið út á árinu 2016. Á samþykktum aðaluppdráttum er sýndur stoðveggur innan lóðarmarka hennar sem liggur meðfram lóðarmörkum Hraungötu 8. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að umræddur veggur sé um 30 cm nær mörkum lóðanna en samkvæmt uppdráttunum. Um sé að ræða mistök við byggingu hússins sem séu á ábyrgð húseigenda og byggingarstjóra.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum sé út af því brugðið, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé í hverju tilviki tekin, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið er gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína.

Í hinni kærðu ákvörðun frá 1. júlí 2022 kom fram það mat byggingarfulltrúa að ekki lægju fyrir brýnir almannahagsmunir eða öryggis- og heilbrigðishagsmunir sem krefðust þess að gripið yrði til úrræða gagnvart eigendum Hraungötu 10. Þá kom fram að veggurinn væri stoðveggur sem byggður hefði verið á sökklum og yrði ekki færður nema með viðamikilli framkvæmd. Jafnframt var vísað til meðalhófs. Verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða enda verður ekki talið að almannahagsmunum hafi verið raskað með hinum umdeilda vegg.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun frá sveitarfélaginu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 1. júlí 2022 um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna stoðveggjar á lóð Hraungötu 10.

112/2022 Bergrúnargata

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 20. september 2022 um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna meintra ólöglegra skjól- og stoðveggja á lóð nr. 9 við Bergrúnargötu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Ástu-Sólliljugötu 19-21 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 20. september s.á. að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna meintra ólöglegra skjól- og stoðveggja á lóð nr. 9 við Bergrúnargötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 4. nóvember 2022.

Málavextir: Með tölvupósti til byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar 5. janúar 2021 vakti kærandi athygli á að frágangur á lóð Bergrúnargötu 9 væri ekki í samræmi við gildandi reglugerðir. Fór hann fram á að lóðarhafi yrði látinn fjarlægja ólöglega skjól- og stoðveggi á lóðinni og lagfæra hana til samræmis við gildandi reglur. Sendi kærandi byggingarfulltrúa frekari upplýsingar með tölvupósti 29. mars s.á. Þann sama dag var verktaki fenginn til að mæla lóðarmörk, girðingar og stoðveggi við Bergrúnargötu 7-9 og Ástu-Sólliljugötu 19-21. Með bréfi, dags. 12. október s.á, tilkynnti sveitarfélagið lóðarhafa Bergrúnargötu 9 niðurstöður mælinganna. Var honum gert að leita eftir samkomulagi við kæranda varðandi þætti lóðarfrágangs sem vikju frá gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Var hann jafnframt upplýstur um að ef samkomulag myndi ekki nást að öllu leyti yrði honum gert að leiðrétta framkvæmdir við lóðarmörk til samræmis við ákvæði byggingarreglugerðar.

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2022, óskaði kærandi eftir viðbrögðum bæjarráðs Mosfellsbæjar þar sem byggingarfulltrúi hefði ekki brugðist við erindi hans. Á fundi bæjarráðs 3. mars s.á. var samþykkt að vísa erindinu til umsagnar og afgreiðslu byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi svaraði með bréfi, dags. 7. s.m., þar sem fram kom að fyrir lægi að á tveimur stöðum væru veggir á lóðamörkum yfir skilgreindum leyfilegum hæðum tilgreindum á lóðarblaði. Ekki lægi fyrir samkomulag milli aðila um fráganginn og ekki hefðu verið lögð fram hönnunargögn til samþykktar sem sýndu frávik frá lóðarfrágangi beggja lóða miðað við þegar samþykkt hönnunargögn. Ítrekun þess efnis yrði send til lóðarhafa beggja lóða. Með bréfi, dags. 8. s.m., upplýsti kærandi byggingarfulltrúa um að steinhleðsla á lóðamörkum hefði verið unnin í samráði lóðarhafa og greidd til jafns af hvorum aðila. Engar athugasemdir væru gerðar við hana. Hins vegar væri ekkert samkomulag milli lóðarhafa varðandi þau fimm umkvörtunaratriði sem fram hefðu komið í tölvupósti sem sendur hafi verið byggingarfulltrúa 29. mars 2021.

Með kæru til úrskurðarnefndarinnar, er barst nefndinni 20. apríl 2022, kvartaði kærandi máls þessa yfir því að byggingarfulltrúi hefði ekki svarað þeim hluta erindis hans frá 5. janúar 2021 er varðaði beitingu þvingunarúrræða. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 34/2022 frá 30. júní 2022 var lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka fyrirliggjandi erindi kæranda um beitingu þvingunarúrræða til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 20. september s.á., var beiðni um beitingu þvingunarúrræða synjað á þeim grundvelli að hinir umdeildu veggir færu ekki gegn almannahagsmunum, drægju ekki úr umferðaröryggi og væru ekki hættulegir heilsu fólks. Þá hefðu þeir ekki veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Það væri mat hans að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum. Þá var skorað á lóðarhafa beggja lóða að leggja fram uppfærð hönnunargögn ásamt skriflegu samþykki þeirra vegna frágangs á lóðamörkum Ástu-Sólliljugötu 19-21 og Bergrúnargötu 9.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi hafi ekki aðhafst í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 34/2022. Leyfisskyld mannvirki hafi verið byggð í leyfisleysi á lóðamörkum og innan lóðar Bergrúnargötu 9. Mannvirkin hafi veruleg hamlandi áhrif á lóð kæranda og íbúðir í húsinu. Engar samþykktir væru fyrirliggjandi varðandi þessi mannvirki líkt og ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2010 kvæðu á um. Byggingarfulltrúi hafi með bréfi sínu verið að draga athyglina frá því sem sé aðalatriði málsins. Hann hafi ekki tekið á málinu eins og honum bæri að gera með tilkynningarskyldar framkvæmdir sem hafi verið gerðar í óleyfi.

 Málsrök Mosfellsbæjar: Vísað er til þess að á tveimur stöðum á lóðamörkum lóðanna Bergrúnargötu 9 og Ástu-Sólliljugötu 19-21 séu veggir yfir skilgreindum hæðum lóðarblaða. Byggingarfulltrúi hafi vísað til ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um að lóðarmörk skuli vera frágengin í samræmi við útgefin lóðarblöð og samþykkt hönnunargögn eða, ef vikið sé frá þeim gögnum, skriflegri staðfestingu á samráði og samþykki lóðarhafa samliggjandi lóða um frágang á lóðarmörkum. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir milli aðila en fram hafi komið í samskiptum að grjóthleðsla milli húsa hafi verið unnin sameiginlega af lóðarhöfum. Ítrekun hafi verið send til lóðarhafa beggja lóða en þeir hafi ekki brugðist við.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um það hvort til greina komi að beita þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé háð mati hverju sinni. Einstaklingum sé ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingarfulltrúa og byggingaryfirvöld til að beita þvingunarúrræðum vegna einstaklingsbundinna hagsmuna enda sé þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja slíka hagsmuni sína. Í málinu reyni fyrst og fremst á einkaréttarlega hagsmuni kæranda og lóðarhafa við Bergrúnargötu 9 en ekki almannhagsmuni. Við ákvörðunina hafi verið horft til heildarmats á aðstæðum og sjónarmiðum um meðalhóf. Þótt veggir væru á tveimur stöðum á lóðamörkum yfir skilgreindum hæðum lóðarblaða, drægi það ekki úr umferðaröryggi, væri ekki hættulegt heilsu fólks og hefði ekki veruleg áhrif á skipulag svæðisins.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Verið sé að krefja lóðarhafa um uppáskrifaðar samþykktir vegna frávika á lóðarmörkum. Eðlilega sé hann ekki með neitt slíkt enda engin frávik á lóðarmörkum af hans hálfu að öðru leyti en því sem lóðarhafar séu sammála um og hafi gert sameiginlega. Hins vegar yrði lóðarhafi Bergrúnargötu 9 að leggja fram samþykktir sem ekki séu til þar sem hann væri með frávik á lóðarmörkum og lóð. Allt sem hann hafi gert innan lóðar væri án samþykkis byggingarfulltrúa og án samþykkis kæranda.

Niðurstaða: Eins og að framan greinir hefur kærandi átt í samskiptum við bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar frá árinu 2021 vegna frágangs á mörkum lóðar kæranda, Ástu-Sólliljugötu 19-21, og Bergrúnargötu 9 sem og frágangi innan þeirrar lóðar. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 34/2022 var lagt fyrir byggingarfulltrúa að svara beiðni kæranda um beitingu þvingunarúrræða.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því felst meðal annars að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 56. gr. laganna er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur. Er þar meðal annars tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt mannvirkjalögum er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að þeim lögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- eða heilbrigðishagsmunum, sbr. 1. gr. laga nr. 160/2010. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingsbundinna hagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis, líkt og endranær, að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til þess að hinir umdeildu veggir færu ekki gegn almannahagsmunum, drægju ekki úr umferðaröryggi og væru hvorki hættulegir heilsu fólks né hefðu þeir veruleg áhrif á skipulag svæðisins. Það væri mat byggingarfulltrúa að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum. Með hliðsjón af greindum atvikum verður að telja að efnisleg rök hafi búið að baki þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 20. september 2022 um að synja kröfu hans um beitingu þvingunarúrræða vegna skjól- og stoðveggja á lóð nr. 9 við Bergrúnargötu.

116/2022 Laufásvegur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2022 um að beita sér ekki fyrir því að skjólveggur á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B verði fjarlægður.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur hússins að Laufásvegi 43, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2022 að beita sér ekki fyrir því að skjólveggur á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B verði fjarlægður. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. nóvember 2022.

Málavextir: Hinn 27. ágúst 2021 sendi leigjandi Laufásvegar 43 erindi til byggingarfulltrúans í Reykjavík þar sem fram kom að á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B væri steyptur veggur sem væri að hrynja og stafaði af honum slysahætta. Svaraði byggingarfulltrúi samdægurs og benti á að það væri á ábyrgð lóðarhafa við Laufásveg 45B að sinna viðhaldi veggjarins, væri hann allur í eigu þeirra lóðar, og að venjan væri að lóðarhafar hefðu samráð um frágang á lóðamörkum. Tækist ekki að finna lausn á málinu gæti byggingarfulltrúi skorað á eiganda að lagfæra vegginn. Samkvæmt gögnum málsins munu í kjölfarið hafa orðið nokkur tölvupóstsamskipti milli leigjanda Laufásvegar 43 og eigenda Laufásvegar 45B. Með tölvupósti til byggingarfulltrúa 5. október s.á. greindi leigjandinn frá því að veggurinn hefði verið fjarlægður en í stað hans reistur timburveggur og kvartaði hann yfir frágangi og útliti veggjarins. Þá sendi annar kæranda í máli þessu erindi til byggingarfulltrúa 6. s.m. og kvartaði einnig yfir veggnum og óskaði upplýsinga um hver réttur hans væri í málinu.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 13. apríl 2022, til lóðarhafa Laufásvegar 45B var skorað á þá að leggja fram skriflegt samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar fyrir skjólveggnum innan 14 daga frá móttöku bréfsins. Ekkert samþykki mun hafa borist byggingarfulltrúa og með bréfi, dags. 9. ágúst 2022, var skorað á lóðarhafa að færa skjólvegginn til fyrra horfs innan 30 daga og tilkynna verklok til byggingarfulltrúa. Var jafnframt tilkynnt að byggingarfulltrúi myndi taka ákvörðun um framhald máls með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga og gæti sú ákvörðun falið í sér beitingu dagsekta. Engin viðbrögð munu hafa orðið við bréfinu. Þá tilkynnti byggingarfulltrúi með bréfi til annars kærenda, dags. 28. september 2022, að hann myndi ekki krefjast þess að skjólveggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að stjórnvöld eigi að hlutast til um að farið sé eftir byggingarreglugerð hvort sem mál séu smá eða stór og þau hafi viðeigandi úrræði til að leysa mál. Húseigandi að Laufásvegi 45B hafi frá upphafi ekki svarað efnislega fyrirspurnum um lausn í þessu máli.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Að mati borgaryfirvalda er málið ekki þannig vaxið að ógildingu varði. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið sé fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki mannvirkjalögum svo sem skipulags-, öryggis og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þurfi ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki ákvæðum laga um mannvirki. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið rökstudd með því að ekki yrði séð að skjólveggurinn ógnaði öryggis- eða almannahagsmunum og því hafi ákvörðun byggingarfulltrúa verið studd fullnægjandi efnisrökum.

 Athugasemdir eigenda Laufásvegar 45B: Eigendur Laufásvegar 45B benda á að í umræddum framkvæmdum hafi falist lagfæring og endurbygging steintrappa og handriðs. Ákveðið hafi verið að notað timbur í stað steypu, en timbur geti verið sleipt og því sé handriðið upp tröppurnar mikilvægt fyrir þá sem búi í húsinu. Handriðið sé því öryggisatriði og endurgerð á steinhandriðinu sem hafi verið áður. Ekki sé um að ræða skjólvegg heldur handrið og framhald þess sem líklega megi flokka undir girðingu. Töluverður hæðarmunur sé á lóðunum en handriðið sé 100 cm mælt frá lóð Laufásvegar 45B.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi ekki haft neitt á móti því að samskonar veggur yrði reistur og áður hefði verið. Engin tillaga hafi komið frá eigendum Laufásvegar 45B og þeir hafi ekki leitað eftir samkomulagi við kærendur um þann vegg sem hafi verið byggður. Samkvæmt byggingarreglugerð hefðu eigendur Laufsásvegar 45B ekki haft heimild til þess að reisa umræddan vegg þar sem ekki hafði verið aflað samþykkis kærenda. Í hinni kærðu ákvörðun sé hafnað að beita þvingunarúrræðum þar sem skjólveggurinn ógni ekki öryggis- eða almannahagsmunum. Mikið skuggavarp myndist vegna veggjarins enda snúi hann á móti suðri. Því rýri veggurinn nýtingu garðsins að Laufásvegi 43. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé markmið laganna að vernda eignir og umhverfi. Í 2. gr. sömu laga komi fram að lögin gildi m.a. um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða og girðingar í þéttbýli. Því sé mótmælt að byggingarfulltrúi geti með einhliða ákvörðun vikið sér undan því að beita þvingunarúrræðum þó málið sé ekki stórt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafna því að beita þvingunarúrræðum í tilefni erinda kærenda vegna skjólveggjar á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Ekki verður talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim almannahagsmunum sem áður greinir.

Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að ekki yrði séð að umræddur skjólveggur ógnaði almannahagsmunum. Af þeim sökum myndi embætti byggingarfulltrúa ekki beita sér fyrir því að skjólveggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða. Lágu samkvæmt þessu efnisleg rök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. september 2022 um að beita sér ekki fyrir því að skjólveggur á lóðamörkum Laufásvegar 43 og 45B verði fjarlægður.

151/2016 Eftirlitsgjöld Isavia

Með

Vinsamlegast athugið að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í þessum úrskurði varðandi eftirlit með flugstöðvarbyggingu, sbr. kafli I í niðurstöðu nefndarinnar, hefur verið afturkölluð. Nýr úrskurður um þann hluta málsins var kveðinn upp 31. mars 2023, sjá hér.

Árið 2023, miðvikudaginn 8. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Endurupptekið var mál nr. 151/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016, um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits á Keflavíkurflugvelli.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 17. september 2021, er barst nefndinni sama dag, fór kærandi í máli nr. 151/2015, Isavia ohf., fram á endurupptöku málsins, en úrskurður í því var áður kveðinn upp 10. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 15. desember 2021, tilkynnti úrskurðarnefndin kæranda og hlutaðeigandi stjórnvaldi að málið skyldi endur-upptekið.

Málavextir: Með reikningi, dags. 19. október 2016, var kæranda gert að greiða alls kr. 7.299.143 í heilbrigðiseftirlitsgjöld fyrir árið 2016. Samkvæmt eftirlitsáætlun námu gjöldin kr. 9.225.033, en vegna tímabundinna aðstæðna voru gjöldin lækkuð um kr. 1.925.890. Samkvæmt gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði, sem birt var með auglýsingu nr. 927/2015 í B-deild Stjórnartíðinda, er árlegt eftirlitsgjald vegna alþjóðaflugvallar með meira en þrjár milljónir farþega kr. 9.205.423.

 Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 151/2016, uppkveðnum 10. ágúst 2018, var ógildingarkrafa kæranda tekin greina að því er varðaði kr. 19.610. Hin kærða ákvörðun stóð að öðru leyti óröskuð. Hinn 28. janúar 2019 leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016 um að leggja á kæranda gjald vegna heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlits á Keflavíkurflugvelli. Jafnframt var kvartað yfir greindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Með áliti nr. 9970/2019, dags. 13. september 2021, komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurður nefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við lög, bæði hvað varðaði málsmeðferð og niðurstöðu um fjárhæð tímagjalds fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesja-svæði, sem og tíðni og umfang eftirlitsins á Keflavíkurflugvelli.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 17. september 2021, er barst nefndinni sama dag, fór Isavia ohf. fram á endurupptöku málsins. Hinn 20. s.m. var endurupptökubeiðnin kynnt Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og því gefið kostur á að tjá sig um beiðnina, sem það og gerði með bréfi, dags. 29. s.m. Með bréfi, dags. 15. desember 2021, upplýsti úrskurðarnefndin Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og Isavia ohf. um að ákveðið hafi verið að endurupptaka kærumál nr. 151/2016. Var Isavia veittur kostur á að koma að athugasemdum vegna áðurgreindrar umsagnar Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og þeirra gagna sem henni fylgdu og barst greinargerð Isavia úrskurðarnefndinni 6. janúar 2022.

 Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 151/2016 er greint ítarlega frá sjónarmiðum kæranda vegna hinnar umþrættu gjaldtöku og einnig gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja færði fram í málinu. Fyrir nefndinni hafa þessi sjónarmið verið ítrekuð, en um efni þeirra vísast til greinds úrskurðar. Þá hafa þessir aðilar fært fram nokkur frekari sjónarmið og lagt fram gögn við meðferð þessa endurupptökumáls og verður nú gerð grein fyrir þeim.

 Viðbótarathugasemdir Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins eru áréttuð þau sjónarmið að um tímagjald hinnar kærðu álagningar hafi verið byggt á gjaldskrá sem hafi verið sett með hliðsjón af auglýsingu nr. 254/1999 um leiðbeinandi reglur umhverfisráðherra um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit. Nákvæmari útreikninga á álögðu gjaldi, eftir formúlu þeirri sem auglýsingin noti í dæmaskyni, hefði mátt leggja fram í málinu ef eftir því hefði verið óskað. Það sé álit eftirlitsins að öll framsetning á skýringum hafi verið í samræmi við kröfur um álagningu þjónustugjalda, þ.e. að innheimt gjöld hafi ekki mátt nema hærri fjárhæð en kostnaður við að veita þjónustuna.

Fram kemur að Heilbrigðiseftirlitið hafi endurreiknað tímagjald fyrir árið 2016 samkvæmt aðferð auglýsingar nr. 254/1999 á grundvelli samþykkts ársreiknings ársins 2016 og bókhaldsgagna. Það frávik hafi þó verið gert að í auglýsingu nr. 254/1999 sé gert ráð fyrir 1.320 virkum vinnustundum á ári fyrir hvert heilt stöðugildi, en miðað hafi verið við rauntölur úr rekstri eftirlitsins, þar sem séu um 1.000–1.200 virkar vinnustundir á ári, þ.e. 1.100 virkar vinnustundir. Með þessum forsendum nemi endurreiknað tímagjald 17.900 kr./klst. Álagt tímagjald samkvæmt gjaldskránni sem hafi verið kært hafi numið 17.340 kr./klst. Með þessu sé ljóst að tímagjald hinnar kærðu álagningar hafi verið lægra en raunkostnaður miðað við forsendur auglýsingar nr. 254/1999.

Í starfsleyfi Isavia hafi að áliti eftirlitsins verið skýrt nákvæmlega hverjir væru eftirlitsskyldir þættir í starfseminni. Sú skýrsla sem Isavia hafi látið vinna fyrir sig og ætlað hafi verið að endurmeta þörf á heilbrigðiseftirliti hafi verið unnin einhliða og í henni hafi birst mikil vanþekking á eftirlitsskyldum þáttum og þeim tíma sem fari í að sinna eftirliti. Augljóst sé af gögnum málsins, útreikningi á tímagjaldi, forsendum þess, áhættumati og eftirlitsáætlun að kostnaður eftirlitsins sé í reynd meiri en álögð gjöld. Upplýsingar um rekstrarafkomu á tilteknu tímabili (2014–2016) sé til stuðnings því að álögð gjöld séu lægri en kostnaður við rekstur, en í málinu hafi legið fyrir að viðvarandi rekstrarhalli hafi verið á heilbrigðiseftirlitinu og þess vegna hafi verið ráðist í endurskoðun á gjöldum til að gera þann hluta starfseminnar sjálfbæran.

Viðbótarathugasemdir Isavia ohf: Af hálfu Isavia ohf. er vísað til og tekið undir sjónarmið sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9970/2019, dags. 13. september 2021.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um upphæð eftirlitsgjalds. Hið umdeilda gjald var lagt á með útgáfu reiknings, dags. 19. október 2016, og verður því í máli þessu að skoða lagaumhverfið eins og það var á þeim tíma.

Að meginstefnu til er fjár vegna lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga aflað með skattheimtu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafa sveitarfélög þó einnig m.a. tekjur af leyfisgjöldum eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, sbr. og 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Í lögum er víða gert ráð fyrir því að borgurunum, einstaklingum og lögaðilum, sé með slíkum gjöldum, gert að greiða sérgreint endurgjald til stjórnvalda, t.d. vegna þjónustu eða leyfa, sem látin eru í té og greiðslunni er þá ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði vegna þjónustu eða leyfa.

Samkvæmt þágildandi 10. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skyldi ekkert sveitarfélag vera án heilbrigðiseftirlits. Í skýringum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 7/1998 kom fram að mestur hluti kostnaðar heilbrigðiseftirlits, eða á bilinu 70–80%, væri á þeim tíma borinn af atvinnuvegunum. Í 1. mgr. 12. gr. laganna sagði að við gerð fjárhagsáætlana heilbrigðiseftirlits skyldi miða við að allar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi á svæðinu rynnu í sameiginlegan sjóð til greiðslu rekstrarkostnaðar heilbrigðiseftirlits á svæðinu. Í framhaldinu var tekið fram að sá kostnaður sem eftirlitsgjöld stæðu ekki undir væru greidd af sveitarfélögum í samræmi við íbúafjölda næstliðins árs.

Í þágildandi 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 voru síðan ákvæði um ákvörðun gjaldskrár fyrir eftirlitsskylda starfsemi heilbrigðiseftirlits, en málsgreinin var svohljóðandi: „Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Leita skal umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar áður en gjaldskrá er sett. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. […]. Ráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga.“

Af þessum fyrirmælum leiddi að leggja varð fullnægjandi grundvöll að umþrættri gjaldtöku, s.s. með viðhlítandi áætlun. Átti það bæði við um ákvörðun fjárhæðar tímagjalds samkvæmt gjaldskrá og fyrir eftirlitsskylda starfsemi samkvæmt eftirlitsáætlun. Hér höfðu þýðingu leiðbeinandi reglur umhverfisráðherra um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit, sbr. auglýsingu nr. 254/1999, sem sett var með heimild í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998. Með þeim var gert ráð fyrir að tímagjald væri heildarkostnaður ákveðinna kostnaðarliða, sumra aðeins að hluta, deilt með tilgreindum, virkum vinnustundum, en um þær sagði að notast væri við þekkta stærð, 110 stundir á mánuði, eða 1.320 stundir í ársverki. Í II. kafla reglnanna var fjallað um álagningu eftirlitsgjalda. Þau áttu að byggjast á eftirlitsáætlun fyrir viðkomandi flokk fyrirtækja. Mátti gjaldið ekki vera hærra en sem næmi reiknuðum kostnaði, þ.e. margfeldi tímagjalds og heildartíma í viðkomandi flokki fyrirtækja.

Í fyrri úrskurði nefndarinnar í máli þessu, nr. 151/2016, er rakið að heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi bent á að rekstrartekjur hafi ekki staðið undir kostnaði af eftirlitinu og því hafi verið nauðsynlegt að hækka gjaldskrá ársins 2016. Til grundvallar hækkuninni hafi legið greining á ársverkum og kostnaðarliðum og þekkt stærð varðandi virkar vinnustundir við eftirlitið. Útreiknað tímagjald hafi verið fundið út með því að deila heildarlaunakostnaði með virkum vinnustundum við útselt eftirlit og við það hafi verið bætt hlutdeild í föstum kostnaði og stjórnunarkostnaði. Í nefndum forsendum hafi verið undanskilinn sérkostnaður, sem fram komi í sundurliðun ársreiknings á öðrum rekstrarkostnaði og varði meindýr, dýralækna-þjónustu, rannsóknarþjónustu og sérstakar vátryggingar. Framangreindar forsendur hafi verið í samræmi við leiðbeinandi reglur í auglýsingu nr. 254/1999. Eftirlitsgjöld heilbrigðis-eftirlitsins hafi verið óbreytt milli ára vegna aðhalds í rekstri. Við embættið starfi 5 manns í 4,7 stöðugildum. Í forsendum hafi verið gert ráð fyrir því að reikna yrði með 4.700 útseldum virkum vinnustundum. Kostnaðarverð miðað við launakostnað hafi því verið kr. 15.340 á klukkustund og við það hafi verið bætt kr. 2.000 á klukkustund fyrir fastan kostnað, stjórnunarkostnað og annað, sem sé talið algert lágmark. Þannig hafi reiknað útselt tímagjald heilbrigðiseftirlitsins verið kr. 17.340 á útseldan tíma samkvæmt gjaldskrá nr. 927/2015.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9970/2019 var fjallað um rökstuðning nefndarinnar í máli nr. 151/2016 áhrærandi ákvörðun eftirlitsgjaldsins, þar sem litið var til þeirra gagna og skýringa sem heilbrigðiseftirlitið lagði fram fyrir nefndina. Var álitið af hálfu umboðsmanns að nokkuð hafi verið á reiki hvernig fjárhæð tímagjaldsins hefði verið ákveðin, þ. á m. væru ekki útreikningar eða áætlanir sem sýndu fram á það. Málið hefði því ekki verið nægilega upplýst til að úrskurðarnefndin gæti úrskurðað um lögmæti fjárhæðar tímagjaldsins. Hefði verið tilefni fyrir nefndina til að kalla eftir nánari upplýsingum og taka að svo búnu rökstudda afstöðu til forsendna að baki ákvörðunar tímagjaldsins. Gæti þá einnig komið til álita, svo sem rakið er í álitinu, hvaða þýðingu það hefði ef eftirlitið legði ekki fram viðhlítandi gögn.

Við meðferð þessa endurupptökumáls hefur heilbrigðiseftirlitið lagt fram endurreikning tímagjalds fyrir árið 2016, þar sem fylgt er náið þeirri aðferð sem gert er ráð fyrir í leiðbeinandi reglum ráðherra. Fram kemur að endurreikningurinn sé samkvæmt samþykktum ársreikningi rekstrarársins 2016 og bókhaldsgögnum þess árs. Hefur úrskurðarnefndin farið yfir þessa reikninga og eru þeir settir upp í samræmi við fyrrnefndar leiðbeinandi reglur. Samkvæmt þessu nam kostnaður vegna eftirlitsskyldra fyrirtækja og stofnanna kr. 63.752.674, sbr. gr. 2.1. í leiðbeinandi reglum ráðherra. Til að reikna tímagjaldið þarf að deila í þessa tölu með fjölda virkra vinnustunda. Í hinum leiðbeinandi reglum var sagt að notast væri við þekkta stærð, 110 stundir á mánuði, eða 1.320 stundir í ársverki. Eins og áður er komið fram hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja vísað til þess að virkar vinnustundir þess hafi verið 1.000–1.200 á ári og er því í reikningnum miðað við meðalár við útreikning tímagjalds, þ.e. 1.100 klst. Verður ekki talið að leiðbeinandi reglur ráðherra hafi girt fyrir slíka aðra viðmiðun. Eru virkar vinnustundir í heildina samkvæmt þessu 3.520 á ári. Miðað við þetta hefði heilbrigðiseftirlitinu verið heimilt að innheimta tímagjald sem næmi allt að 18.111 kr./klst.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar benda þessi nýju gögn ekki til þess að innheimt hafi verið hærra tímagjald en numið hafi raunverulegum kostnaði við eftirlitið skv. þágildandi 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998. Verður því ákvörðun tímagjalds vegna ársins 2016 látin óröskuð af hálfu nefndarinnar.

—–

Í fyrri úrskurði nefndarinnar í máli þessu, nr. 151/2016, var rakið að kærandi hafi gert athugasemdir við þá flokka og tíðni eftirlits sem að baki hinu kærða gjaldi lágu. Var í nokkru tekin afstaða til þessa og álitið að þeir flokkar sem um ræddi teldust eðlilegur hluti starfsemi alþjóðaflugvallar. Væri og ljóst að eftirlit færi fram með þeirri starfsemi sem fram færi í raun, en væri ekki bundið við eftirlit með starfsleyfisskilyrðum. Af þeirri ástæðu yrði ekki gerð athugasemd við að við gjaldtökuna væri m.a. gert ráð fyrir eftirliti með jarðvegstippi, en komið hafi fram að slíkur tippur væri á athafnasvæði flugvallarins.

Að auki er í úrskurðinum vísað til 12. gr. þágildandi reglugerðar nr. 786/1999 þar sem fjallað er um reglubundið mengunarvarnaeftirlit. Skiptist það í 5 flokka skv. gr. 12.1 og féll alþjóðaflugvöllur í flokk 3 skv. fylgiskjali 2. Skyldi haga reglubundnu eftirliti eftir töflu A nema annað segði í reglugerðinni eða starfsleyfum. Í töflu A var yfirlit yfir meðaltíðni eftirlits og samkvæmt henni var meðalfjöldi skoðana í flokki 3 einu sinni á ári og eftirlitsmælingar tíunda hvert ár. Einnig var rakið í úrskurðinum að nefndri reglugerð var breytt með reglugerð nr. 375/2015 og sagði í þágildandi gr. 12.6 eftir breytinguna að eftirlitsaðila væri heimilt að haga tíðni reglubundins eftirlits út frá kerfisbundnu áhættumati sem gert væri fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki. Slíkt mat hafi verið meðal gagna málsins, auk þess sem meðaltíðni feli í sér samkvæmt orðanna hljóðan að um meðaltal væri að ræða.

Með vísan til þessa og gagna málsins var það álit nefndarinnar í fyrri úrskurði að ekkert væri komið fram annað en að mat heilbrigðiseftirlitsins á þörf á eftirliti með starfsemi flugvallarins hafi verið framkvæmt á málefnalegum grundvelli og verið byggt á efnisrökum, hvað sem líði áliti þess sérfræðings sem kærandi tefldi fram í málflutningi sínum. Áréttaði nefndin um leið að rekstur Keflavíkurflugvallar væri einstakur á landsvísu og mætti gera ráð fyrir því að umfang eftirlits með þeirri atvinnustarfsemi miðaðist við það. Kæmi innra eftirlit kæranda því ekki í stað þess, en um nánari forsendur þessarar niðurstöðu vísast til annarra þátta úrskurðarins.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9970/2019 er vakin athygli á að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um tíðni og umfang eftirlits samkvæmt eftirlitsáætlun hefði mátti skjóta til nefndarinnar sérstaklega, en það hafi ekki verið gert. Hvað sem því líði sé þess að gæta að nefndin hafi fjallað efnislega um ákvörðunina í úrskurði nefndarinnar nr. 151/2016. Umrædd ákvörðun byggðist á fagþekkingu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja á sviði heilbrigðis- og mengunarvarna. Af þeim sökum og í ljósi stjórnsýslulegrar stöðu eftirlitsins sem stofnunar sveitarfélaga var fallist á með úrskurðarnefndinni að eftirlitið hafi haft svigrúm til að meta og ákveða þörf á eftirliti með starfsemi Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli. Nefndinni hafi engu að síður borið að endurskoða það mat sem lá hinni kærðu stjórnvaldsákvörðun til grundvallar. Verður nú að nýju leitast við það af hálfu úrskurðarnefndarinnar að endurskoða það mat sem lá til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hvað snertir þá flokka og tíðni eftirlits sem að baki hinu kærða gjaldi lágu samkvæmt starfsleyfi kæranda.

Við þessa endurskoðun skal athugað að heilbrigðiseftirlitsgjaldið er svonefnt þjónustugjald, en um ákvörðun slíkra gjalda gilda ýmis sjónarmið. Það er m.a. skilyrði að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald. Upphæð þjónustugjalds verður að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Þá hefur jafnan ekki verið litið svo á að hver og einn gjaldandi eigi rétt  á því að reiknaður sé út kostnaður við að veita þjónustu í hans tilviki sérstaklega.

—–

Verður nú fjallað um tíðni og umfang eftirlits samkvæmt eftirlitsáætlun, á grundvelli þessara sjónarmiða.

Starfsleyfi til Isavia ohf. var gefið út 21. ágúst 2015. Í því var tiltekið að starfsleyfið næði til starfsemi sem sé háð leyfi heilbrigðiseftirlits skv. matvælalögum nr. 93/1995 og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Þá taki starfsleyfið til tóbaksvarnarlaga nr. 6/2002. Fram kemur að rekstur Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli falli undir starfsleyfið, þ.m.t. almennur rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, umsjón með bílastæðum og ytra umhverfi flugstöðvarinnar, rekstur og viðhald á mengunarvarnarbúnaði og kerfum flugvallarins og flugstöðvarinnar. Mengunarvarnir fyrir svæði þar sem mengandi starfsemi fari fram eða önnur mengunarhætta eigi við um, þ.m.t. mengunarvarnir fyrir flughlöð og brautir, afísingar- og frostvarnasvæði flugvéla, svæði sem ætluð séu til afgreiðslu flugvélaeldsneytis og æfingarsvæði slökkviliðs. Enn fremur fjalli leyfið um fráveitu flugstöðvarinnar og flughlaða, verkstæði fyrir bifreiðar og tæki félagsins, úrgangsmál, þ.m.t. söfnun og vörslu spilliefna, meðhöndlun á olíumenguðum jarðvegi, neysluvatnsdreifingu, þ.m.t. vatnstökustaði fyrir flugvélar.

I.  Eftirlit með flugstöðvarbyggingu.

Fjallað var um hollustuhætti og heilnæmi í flugstöð Leifs Eiríkssonar í 3. kafla starfsleyfis Isavia ohf. Þar sagði að í rekstri, þrifum og viðhaldi flugstöðvarinnar skuli með efnavali og verklagi tryggja heilnæm lífsskilyrði og koma í veg fyrir að mengun hafi skaðleg áhrif á heilsufar og líðan þeirra sem flugstöðina nýta. Halda skuli rými flugstöðvarinnar ómenguðu m.t.t. eðlisfræðilegra þátta, s.s. hita, raka, hávaða, titrings, og efnafræðilegra þátta s.s. ryks, efna og lyktar. Þá kom fram að Isavia skuli undirbúa þrifaáætlun og bera undir Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, en þar til hún liggi fyrir gildi samræmd starfsleyfisskilyrði fyrir almenningssalerni og samræmd starfsleyfisskilyrði fyrir samgöngumiðstöðvar.

Samkvæmt gr. 7.2. í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 786/1999 voru alþjóðaflugvellir og flugvellir með eldsneytisafgreiðslu í eftirlitsflokki 3, en meðalfjöldi skoðana skyldi samkvæmt þeim flokki vera einu sinni á ári. Þrátt fyrir að starfsemi Keflavíkurflugvallar hafi verið umfangsmeiri en annarra alþjóðaflugvalla og flugvalla með eldsneytisafgreiðslu verður ekki hjá skýrum fyrirmælum reglugerðarinnar litið að þessu leyti og var Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja því óheimilt að áætla fjórar eftirlitsferðir í flugstöðina á árinu 2015. Þar sem áætlað var að ein ferð tæki 15 klst. á tímagjaldinu 17.340 kr./klst. gætti með þessu ofáætlunar um kr. 780.300.

II.  Vöktun grunnvatns.

Samkvæmt eftirlitsáætlun heilbrigðiseftirlitsins var ekki gert ráð fyrir vöktun vegna grunnvatns árið 2016 og ekki var lagt á eftirlitsgjald vegna þess þáttar.

III.  Eftirlit með olíuskiljum, settjörnum, brunnum og siturlögnum.

Í starfsleyfi kæranda voru ítarleg fyrirmæli um meðhöndlun olíu, þ.m.t. að afgreiðsla eldsneytis á flugvélar væri einungis heimiluð á bundnu slitlagi þar sem afrennsli væri leitt um olíuskiljur og settjarnir/lón. Mælt var fyrir um viðbragðsáætlun og fyrirkomulag mengunarvarna á svæðum ætluðum til eldsneytisáfyllinga á flugvellinum. Fjallað var um viðbúnað annars vegar þar sem áfylling fari fram á plönum sem tengd séu við fullnægjandi olíuskiljur og hins vegar búnað og viðbragðsbíl til olíuhreinsunar. Var mælt fyrir um skyldu til að skrá mengunaróhöpp og fara með olíumengaðan jarðveg þannig að hann yrði fluttur til förgunar.

Í II. viðauka reglugerðar nr. 785/1999 var að finna skrá yfir reglugerðir þar sem fram koma losunarmörk, viðmiðunarmörk og eða gæðaviðmið og er reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang tiltekin í 11. tölul. viðaukans. Samkvæmt gr. 3.4 í reglugerðinni eru eftirlitsaðilar viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og einnig eftir atvikum faggiltir skoðunaraðilar. Er heilbrigðisnefndum skylt að sjá til þess að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt skv. 4. gr. hennar. Um eftirlit með olíu, þ.m.t. með eftirlitsbrunnum, var einnig fjallað í reglugerð nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi. Í þessum reglugerðum var ekki fjallað um tíðni eftirlits með olíuskiljum, settjörnum, brunnum eða siturlögnum. Heilbrigðiseftirlitið áætlaði að þörf væri á sex eftirlitsferðum á árinu og að hver ferð reiknaðist sem 13 vinnustundir. Þykir það mat, sem byggt er á áhættumati og staðbundinni sérfræðiþekkingu, ekki úr hófi.

IV.  Æfingasvæði slökkviliðs – eftirlit með mengunarvarnarbúnaði.

Fjallað var um æfingasvæði björgunar og eldvarna í kafla 2.5. í starfsleyfinu. Þar kom fram að meðhöndlun olíu væri einungis heimiluð á bundnu slitlagi þar sem afrennsli væri leitt um olíuskiljur og síðan í settjarnir/lón eða fráveitu sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefði samþykkt. Samkvæmt gr. 9.7. í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 786/1999 er æfingasvæði slökkviliðs í eftirlitsflokki 5 og er tíðni því ákveðin af eftirlitsaðila. Heilbrigðiseftirlitið áætlaði að þörf væri á einni eftirlitsferð á árinu, alls 13 klst., sem virt var sem kr. 225.420. Verður það mat ekki talið úr hófi. Af hálfu kæranda hefur verið bent á að í gjaldskrá nr. 927/2015 var tiltekið að eftirlitsgjöld vegna æfingasvæðis slökkviliðs væru kr. 53.754. Þetta hefur enga þýðingu í þessu máli þar sem eftirlit með slökkviliði var hluti af umræddu starfsleyfi kæranda og fellur þannig undir gjaldflokk gjaldskrárinnar um alþjóðaflugvöll þar sem fara um meira en þrjár milljónir farþega á ári.

V.  Eftirlit með hávaða.

Í 4. kafla starfsleyfisins var fjallað um eftirlit með hávaða og skyldi Isavia skuli í rekstri flugvallarins leitast við að draga úr og koma í veg fyrir ónæði og skaðleg áhrif af völdum hávaða í byggð, sbr. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá flugumferð voru þar tilgreind og skyldi m.a. leitast við að lágmarka hávaða af flugumferð yfir íbúabyggð og hátta hreyfingum flugvéla þannig að sem fæstir íbúar yrðu fyrir ónæði. Var mælt fyrir um reglubundnar mælingar samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar sem skyldu fara fram eigi sjaldnar en ársfjórðungslega.

Í starfsleyfi Isavia kom fram að reglubundnar mælingar skyldu fara fram eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og að niðurstöður skyldu sendar heilbrigðiseftirliti. Var með þessu uppfyllt skilyrði gr. 12.2 í reglugerð nr. 786/1999 um að mælt sé fyrir um tíðni í starfsleyfi. Í ljósi eðli starfseminnar þykir mat þetta ekki úr hófi, sér í lagi í ljósi þess að Isavia var gert kleift að endurskoða tíðni og fyrirkomulag mælinga í samráði við heilbrigðiseftirlitið, en bent var á það fyrir nefndinni að yrðu teknar upp símælingar mundi það hafa áhrif til lækkunar á eftirlitskostnaði. Verður því fallist á að heilbrigðiseftirlitinu hafi verið rétt að áætla fjórar eftirlitsferðir á ári vegna eftirlits með hávaða eða samtals 64 klukkustundir á einu ári.

VI:  Eftirlit með úrgangi.

Fjallað var ítarlega um úrgangsmál í kafla 5 í starfsleyfi kæranda. Sett voru fram markmið um að draga úr myndun úrgangs. Úrgang sem hægt væri að endurnota, endurnýta eða endurvinna skyldi flokka og lágmarka skyldi þann úrgang sem sendur væri til endanlegrar förgunar. Standa skyldi að söfnun, geymslu og annarri meðhöndlun á úrgangi sem til félli á athafnasvæði flugvallarins þannig að ekki ylli ónæði, lýti, mengunarhættu eða annarri hættu fyrir heilbrigði manna og dýra. Tryggt skyldi að úrgangur sem til félli fengi viðeigandi meðhöndlun og væri fluttur til meðhöndlunar eða förgunar af aðilum með starfsleyfi.

Um sóttvarnir var vísað til leiðbeininga sóttvarnarlæknis „um forvarnir gegn sýkingum hjá lögreglumönnum, tollvörðum og starfsmönnum Isavia á Keflavíkurflugvelli, júní 2014“. Tekið var fram að kæmi upp tilfelli þar sem úrgangur væri sóttmengaður eða grunur léki á um að svo væri skyldi heilbrigðiseftirlitið kallað til og unnið samkvæmt sérstöku verkferli. Sama mundi gilda ef grunur vaknaði á því að alvarlegur smitsjúkdómur kæmi upp í flugvél og var vísað um það til viðbragðsáætlunar Landlæknisembættisins „fyrir starfsfólk sem annast þrif á flugvöllum og í flugvélum, 28. apríl 2003“. Skylt var að safna sóttmenguðum úrgangi í þar til gerð traust ílát, sem skyldu merkt vandlega með upplýsingum um innihald og komið til förgunar.

Í þágildandi 3. mgr. 5. gr. a. laga nr. 7/1998 kemur fram að í starfsleyfi skuli vera ákvæði um meðferð úrgangs. Líkt og áður segir eru slík ákvæði í starfsleyfi Isavia. Ekki er kveðið sérstaklega á um tíðni við framkvæmd eftirlits vegna meðferðar úrgangs, en Heilbrigðis-eftirlitið áætlaði að þörf væri á fjórum eftirlitsferðum, sem hver tæki 19 klukkustundir. Í ljósi mikillar flugumferðar og umfangsmikillar starfsemi á Keflavíkurflugvelli fær úrskurðarnefndin ekki séð að mat þetta geti talist óforsvaranlegt.

VII. Eftirlit með spilliefnum.

Í kafla 5.1. í starfsleyfi kæranda sagði að um söfnun og geymslu spilliefna sem féllu til á athafnasvæði flugvallarins skyldi eftir því sem við ætti farið að skilyrðum um æskilegar lágmarkskröfur um starfshætti og mengunarvarnir í leiðbeiningum Umhverfisstofnunar „Söfnunar- og móttökustöðvar sem eru með starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd“. Í leiðbeiningum þessum eru nánari fyrirmæli um söfnun og tímabundna geymslu spilliefna svo varna megi mengun. Tekið var fram í starfsleyfinu að spilliefnum skyldi komið til móttökuaðila sem hefði starfsleyfi til meðhöndlunar eða förgunar efnanna og skyldu kvittanir fyrir förgun efnanna varðveittar í skrá viðbragðsáætlunar.

Samkvæmt gr. 3.5 í reglugerð nr. 806/1999 felst meðhöndlun spilliefna m.a. í söfnun, geymslu og flutningi spilliefna og skv. gr. 10.1 skal atvinnurekstur sem sér um einstaka þætti meðhöndlunar spilliefna hafa starfsleyfi. Þá fara heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins með eftirlit samkvæmt reglugerðinni, sbr. 4. gr. hennar. Ekki er fjallað um tíðni eftirlits vegna spilliefna í reglugerðinni. Heilbrigðiseftirlitið áætlaði að þörf væri á fjórum eftirlitsferðum, sem hver tæki 19 klst. Í ljósi eðlis og umfangs starfsemi Isavia á Keflavíkurflugvelli verður mat heilbrigðiseftirlitsins hvað þennan þátt varðar talið forsvaranlegt.

VIII.  Landmótun/tippar.

Fjallað er um nýtingu óvirks úrgangs til landfyllingar/landmótunar í kafla 5.3. í starfsleyfi Isavia ohf. Þar kemur fram að samkvæmt reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs teljist notkun úrgangsefna til landmótunar vera endurnýting sem háð sé starfsleyfi skv. reglugerð nr. 785/1999. Starfsleyfi þetta gildi hins vegar ekki til endurnýtingar jarðvegsefna og óvirks úrgangs sem falli til á svæðinu á jarðvegstippi eða aðra landmótun innan svæðisins. Jarðvegsefni sem heimilt sé að nota til landfyllingar/landmótunar skuli einungis nýtt til landmótunarverkefna sem samræmist skipulagsáætlunum og hafi starfsleyfi viðkomandi heilbrigðisnefndar. Áformi Isavia endurnýtingu óvirks úrgangs innan flugvallarsvæðisins skuli félagið gera viðeigandi ráðstafanir í skipulagsáætlunum og sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að landmótun/tippar var ekki hluti starfsleyfisins og var heilbrigðiseftirlitinu því óheimilt að taka gjald fyrir eftirlit vegna eftirlits samkvæmt starfsleyfinu. Bar heilbrigðiseftirlitinu að hlutast til um að starfsleyfisskyld starfsemi hefði gilt starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 eða beita þeim þvingunarúrræðum sem lög heimiluðu, sbr. VI. kafla sömu laga. Gætti oftöku gjalda vegna þessa eftirlitsþáttar sem nam kr. 190.070.

IX.  Vatnsveita.

Kafli 6 í starfsleyfi kæranda fjallaði um vatns- og dreifiveitu sem kærandi virðist reka á Keflavíkurflugvelli. Vísað var m.a. til skyldu til að reka innra eftirlit vegna hennar og vatnsveituhandbókar Samorku „Leiðbeiningar um innra eftirlit GÁMES, febrúar 2003“. Um sýnatöku og rannsóknir á neysluvatninu skyldi fara skv. I. viðauka í reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn, en þar er kveðið á um lágmarksfjölda eftirlitssýna við reglulegt eftirlit með vatnsveitu og lágmarkstíðni sýnatöku samkvæmt íbúafjölda veitusvæðis, sbr. töflu 6.

Í eftirlitsáætlun var gert ráð fyrir því farnar yrðu sjö eftirlitsferðir vegna eftirlits með vatnsveitu þessari og tekin yrðu sjö sýni. Taflan við reglugerðina miðar við fastan íbúafjölda en ekki starfsemi alþjóðaflugvallar, en taka skal samkvæmt henni að lágmarki sjö sýni í reglubundnu eftirliti þegar íbúar veitusvæðis eru fimm til tíu þúsund talsins. Að lágmarki skal taka fjögur slík sýni þegar íbúar veitusvæðis eru frá einu þúsundi til fimm þúsund en það var viðmiðun sem kærandi hefur vísað til. Að áliti nefndarinnar verður að telja mat heilbrigðiseftirlitsins á eftirlitsþörf hafi verið málefnalegt og ekki úr hófi, en árið 2015 fóru um 18.000 manns um flugstöðina daglega og áætlanir þess tíma gerðu ráð fyrir að sá fjöldi yrði 24.000 árið 2016.

X.  Skólp og fráveita.

Í 7. kafla starfsleyfis kæranda kom fram að skólp skyldi meðhöndlað og því fargað þannig að heilsu manna stafaði ekki hætta af. Vísað var til ákvæða reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, en fram kom að viðtakinn væri strandsjór vestan Stafness sem teldist síður viðkvæmur í skilningi B-liðs II. viðauka reglugerðarinnar. Sett voru fyrirmæli um m.a. hreinsun á skólpi til að hindra að föst efni bærust út í viðtakann sem og um umhverfismörk fyrir saurmengun. Skylt var að meta virkni hreinsivirkis og mæla og skrá efnisflæði. Þá var skylt að gera grein fyrir losun fljótandi efna út í viðtakann og taka sýni til að meta álag á hann. Í starfsleyfinu var jafnframt lögð sú skylda á kæranda að gera tillögu um vöktun, mælingar og rannsóknir til að meta áhrif á vistkerfið.

Við mat á eftirlitsþörf áætlaði heilbrigðiseftirlitið að líklegt magn skólps sem félli til hjá kæranda væri umfram 10.000 persónueiningar. Með þessu mati, sem er forsvaranlegt að áliti nefndarinnar, féll skólphreinsistöð kæranda í eftirlitsflokk 2, sbr. a. lið gr. 8.1. í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 786/1999. Af því leiddi samkvæmt töflu A í gr. 12.2 í reglugerðinni að meðaleftirlitstíðni skyldi vera einu sinni á ári og eftirlitsmælingar fimmta hvert ár, nema annað segði í starfsleyfi. Í starfsleyfi var tekið fram að taka skyldi sýni fjórum sinnum á ári vegna tiltekinna þátta og að lágmarki skyldi taka 10 sýni vegna annarra þátta, sbr. einnig umhverfismörk sem tilgreind væru í fylgiskjali 2 með reglugerð nr. 798/1999.  Um tíðni sýnatöku vegna skólps frá þéttbýli var vísað til I. viðauka við reglugerðina.  Í 3. tölul. D-liðar viðaukans er fjallað um lágmarksfjölda sýna á ári og tekið fram að sýnum skuli safnað með reglulegu millibili allt árið. Í flokknum 10.000–49.999 persónueiningar skuli taka 12 sýni á ári. Með vísan til þessa var heilbrigðiseftirlitinu heimilt að fara í fjórar eftirlitsferðir á ári og taka 12 sýni, líkt og áætlun þess gerði ráð fyrir. Hver eftirlitsferð tók 11 klst. og verður það ekki talið óhóflegt.

XI.  Eftirlit með loftgæðum.

Fjallað var um loftgæði í 8. kafla starfsleyfis kæranda. Voru fyrirmæli þar um að takmarka skyldi loftmengun eins og kostur væri og lýst aðgerðum sem grípa skyldi til. Gerð var krafa um að kærandi mundi annast mælingar á loftgæðum og gengi úr skugga um að styrkur efna færi ekki yfir umhverfismörk utan athafnasvæðis flugvallarins, sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði. Skyldi þessi vöktun hefjast innan sex mánaða frá útgáfu starfsleyfisins og ná til þeirra efna sem tilgreind væru í I. viðauka reglugerðarinnar.

Heilbrigðiseftirlitið gerði ráð fyrir því að í áætlun sinni að til þessa eftirlits yrði varið vinnu í 12 klst. fjórum sinnum á ári sem mundi að mesta felast í yfirferð gagna sem aflað væri frá kæranda. Verður ekki talið óeðlilegt að nokkrum tíma sé varið til þessa, en ekki er ástæða til að taka nánari afstöðu til þess í málinu, þar sem heilbrigðiseftirlitið innheimti vegna þessa eftirlitsþáttar ekki nema fyrir tvær vinnustundir á árinu 2016, þar sem dregist hafði að kærandi kæmi upp áskyldum vöktunarbúnaði fyrir loftgæði, svo sem segir í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 20. september 2016, sem er meðal málsgagna. Verður því ekki gerð athugasemd við þennan þátt heilbrigðiseftirlitsgjaldsins.

XII. Önnur mengandi starfsemi – bifreiðaverkstæði með smurstöð, sandblástur, sprautuverkstæði og járnsmíði.

Fjallað var um aðra starfsemi sem gæti haft í för með sér mengun í kafla 2.8. í starfsleyfi kæranda. Þar kom fram að kærandi skyldi stuðla að því með upplýsingagjöf til heilbrigðiseftirlitsins að öll starfsemi á flugvallarsvæðinu sem félli undir starfsleyfisskyldu laga nr. 7/1998, sbr. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun, hefði starfsleyfi. Um slíka starfsemi skyldu gilda að lágmarki almenn starfsleyfisskilyrði, sbr. auglýsingu nr. 582/2000, og eftir atvikum sértæk starfsleyfisskilyrði fyrir viðkomandi starfsemi. Var um þetta jafnframt vísað til reksturs sprautuverkstæðis, almenns bifreiðaverkstæðis og skylds rekstrar sem og fyrir sandblástur og skylda starfsemi. Heilbrigðiseftirlitið áætlaði eftirlit vegna þessa þannig að næmi 5,5 klst. með tíðnina 0,25. Það svarar til einnar eftirlitsferðar á fjögurra ára fresti. Verður það talið hóflegt með hliðsjón af flokkun starfseminnar í viðauka 2 með reglugerð nr. 786/1999.

—–

 Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var eftirlitsgjald fyrir alþjóðaflugvöll þar sem um fara meira en þrjár milljónir farþega á ári ákveðið kr. 9.205.423 með gjaldskrá nr. 927/2015 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði. Það grunngjald sem gjöld þau sem kærandi var krafinn um fyrir árið 2016 byggjast á voru hins vegar kr. 9.225.033, samkvæmt eftirlitsáætlun. Það gjald var síðan lækkað um kr. 1.925.890 og var reikningur fyrir eftirlitsgjöldum, dags. 19. október 2016, sem mál þetta snýst um, að fjárhæð kr. 7.299.143. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 151/2016, uppkveðnum 10. ágúst 2018, var álagning þessa gjalds felld úr gildi hvað varðaði kr. 19.610, en að öðru leyti var kröfum um ógildingu gjaldsins hafnað.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja óheimilt að áætla fjórar eftirlitsferðir í flugstöðvarbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á árinu 2015, og nam gjaldtaka vegna þeirrar ofáætlunar kr. 780.300, sbr. kafli I hér að framan. Þá var heilbrigðiseftirlitinu óheimilt að taka eftirlitsgjald vegna landmótunar/tippa, sem nam kr. 190.740, sbr. kafli VIII hér að framan.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 19. október 2016 um álagningu gjalda vegna heilbrigðis- og mengunarvarnareftirlits á Keflavíkurflugvelli að þeim hluta er varðar kr. 971.040. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

101/2022 Þúfulækur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 2. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 101/2022, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. ágúst 2022, um álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Þúfulæk 21, Sveitarfélaginu Árborg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 31. ágúst 2022, kærir A, ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. ágúst s.á. um álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Þúfulæk 21. Er þess krafist að upphæð hins kærða skipulagsgjalds verði lækkuð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 21. október 2022.

Málavextir: Með tilkynningu 15. febrúar 2021 frá Þjóðskrá Íslands í pósthólf á www.island.is, upplýsinga- og þjónustuveitu opinberra aðila á Íslandi, var kæranda, eiganda Þúfulæks 21 á Selfossi, gert kunnugt um tilkynningu frá byggingarfulltrúa, dags. 12. s.m., um að hús á lóðinni væri fullbúið og hefði verið tekið í notkun. Húsið væri skráð á byggingarstig 7 samkvæmt lokaúttekt byggingarfulltrúa. Var kæranda leiðbeint um skyldu húseigenda til að brunatryggja húseignir skv. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar og hann upplýstur um að ef ekki bærist svar innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi stofnunin reikna brunabótamat án skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, sbr. 10. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994. Þá yrði skipulagsgjald, 0,3% af brunabótamatsfjárhæð, innheimt af embætti tollstjóra í samræmi við 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Brunabótamat og skipulagsgjald var lagt á eignina 11. ágúst 2022.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi flutt inn í húsið að Þúfulæk 21, sem var nýbygging, 10. október 2020 og fengið lokaúttekt 11. febrúar 2021. Í lok ágúst 2022 hafi hann tekið eftir greiðsluseðlum fyrir skipulagsgjald. Vegna ruglings hafi hann ekki klárað að ganga frá brunabótamati á sínum tíma. Einungis hafi verið send tilkynning til hans á www.island.is, en hann fari aldrei inn á þá síðu. Upphæð skipulagsgjaldsins ætti að vera í samræmi við þær upphæðir sem tíðkast hafi á byggingarárum hússins 2020-2021 en ekki samkvæmt núgildandi verðlagi og hækkunum. Fasteignamat hússins hafi hækkað um 35,75% og því megi ætla að brunabótamat hússins hafi verið talsvert lægra á árunum 2020-2021 þótt það stýrist ekki af fasteignamati.

 Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Bent er á að húseigendum sé samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli metin brunabótamati ekki síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar ljúki eða eftir að hún er tekin í notkun. Húseigandi beri ábyrgð á að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 48/1994 annist stofnunin virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar. Markmið brunabótamatsins sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma sem virðing fari fram. Matið eigi að taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem geti eyðilagst af eldi og miðist við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti.

Álagning skipulagsgjald fari fram á grundvelli brunabótamats sbr. 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur að minnsta kosti 1/5 verðs eldra hússins. Skipulagsgjald verði fyrst lagt á þegar brunabótamat liggi fyrir. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna komi fram að húseigandi skuli óska eftir brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að nýtt hús sé tekið í notkun og ef húseign uppfylli ekki vátryggingarskyldu þá skuli byggingarfulltrúi synja um lokaúttekt. Byggingarfulltrúi hafi eftirlit með mannvirkjagerð og beri ábyrgð á því að stofnuninni berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Samkvæmt 6 gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald skuli Fasteignamat ríkisins, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar eða stofnverðs þar sem það eigi við, þegar að virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð. Samkvæmt 4. gr. falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hafi farið fram eða stofnverð tilkynnt og stofnunin hafi tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir.

Skipulagsgjald nýbyggingarinnar að Þúfulæk 21 hafi ekki fallið í gjalddaga fyrr en við brunabótavirðingu 11. ágúst 2022. Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi skýrt fram að stjórnvaldsákvörðun sé bindandi eftir að hún hafi verið birt. Af ákvæðinu sé ljóst að upphafstími réttaráhrifa miðist við það þegar ákvörðun sé komin til aðila máls. Af greinargerð með 20. gr. sé ljóst að ekki sé gert að skilyrði að ákvörðun sé komin til vitundar málsaðila. Yfirleitt sé nægilegt að ákvörðun sé komin þangað sem almennt megi búast við að aðili geti kynnt sér hana. Stofnun telji að sú málsástæða að kæranda hafi ekki verið gert viðvart um þá skyldu sem á honum hvíldi varðandi brunabótamat standist ekki. Tilkynning hafi borist kæranda og verið aðgengileg inni á www.island.is. Því sé málsástæða kæranda um að hann skoði aldrei heimasíðuna málinu óviðkomandi. Kærandi hafi ekki sótt um brunabótamat þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögum. Tómlæti kæranda eigi ekki að leiða til þess að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi eða breytt.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann sé ekki að reyna að sleppa undan því að greiða hið umþrætta gjald heldur telji hann rétt að gjaldið væri í samræmi við þá byggingar­vísitölu sem hafi verið á þeim tíma sem húsið fékk lokaúttekt. Komið hafi fram á tilkynningunni sem barst inn á www.island.is að ef ekki væri óskað eftir skoðun innan fjögurra vikna myndi Þjóðskrá reikna matið. Kærandi sé forvitinn um hvort ekki væru einhver takmörk fyrir því hversu langan tíma stofnunin mætti taka sér í það.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild til að mynda að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997 um skipulagsgjald.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.

Húsið á lóðinni Þúfulækur 21 var tekið í notkun í október 2020, fékk lokaúttekt 11. febrúar 2021 og var í kjölfarið fært á byggingarstig 7 samkvæmt ákvörðun byggingarfulltrúa. Ekki er um það deilt í málinu að kæranda beri að greiða skipulagsgjald samkvæmt framangreindum ákvæðum skipulagslaga, sem nemur 0,3% af brunabótamati húseignar. Snýr ágreiningur málsins um tímasetningu ákvörðunar um brunabótamat og upphæð þess, en skipulagsgjaldið tekur mið af þeirri upphæð.

Samkvæmt 10. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna er heimilt að vísa ágreiningi um brunabótamat til yfirfasteignamatsnefndar. Á kæruheimild reglugerðar nr. 737/1997 því ekki við um ákvarðanir um brunabótamat þrátt fyrir að upphæð skipulagsgjalds ráðist af því. Í ljósi þessa mun nefndin framsenda þann hluta málsins er varðar ágreining um brunabótamat hússins til yfirfasteignamatsnefndar til þóknanlegrar meðferðar sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í ljósi þess að brunabótamati vegna fasteignarinnar hefur að svo stöddu ekki verið hnekkt verður að öllu framangreindu virtu að hafna kröfu kæranda um ógildingu hins kærða skipulagsgjalds.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. ágúst 2022

um álagningu skipulagsgjalds er hafnað.