Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

95/2023 Urðarstígur

Árið 2023, föstudaginn 25. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 95/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. júlí 2023, um leyfi fyrir viðbyggingu við suðurgafl hússins við Urðarstíg 4, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2023, er barst nefndinni þann 9. s.m., kærir eigandi Urðarstígs 6 og 6a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. júlí 2023, að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi gerir m.a. þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. ágúst 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars. sl. var samþykkt leyfi til að byggja viðbyggingu við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Var sú samþykkt kærð til úrskurðarnefndarinnar og fékk málsnúmerið 78/2023. Þeirri kæru var vísað frá úrskurðarnefndinni sökum þess að eftir að kæran barst nefndinni voru framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa vegna ónógra brunavarna. Gefið var út nýtt byggingarleyfi 11. júlí sl. Með því var fyrra leyfi fellt niður en með því hafði kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn nefndarinnar um gildi þess. Útgáfa hins nýja byggingaleyfis hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinu kærða byggingarleyfi sé farið gegn ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um bil á milli bygginga. Samkvæmt byggingareglugerð um bil á milli húsa sem bæði flokkist í EI 30 eigi að vera minnst 8 metrar milli þeirra, séu húsin bæði með klæðningu í flokki 2. Sé engin eldvarnarveggur á milli, bætist 1 m við fyrir hvora byggingu, samtals 10 m. Það bil hafi verið á milli bygginganna fyrir umrædda viðbyggingu. Húsin nr. 4, nr. 6 og 6A á Urðarstíg séu ekki í flokki EI 60 og eigi því kröfur um 6 m bil á milli bygginga ekki við. Ljóst sé að  byggingafulltrúi hafi ekki tekið til greina að klæðningar á húsi nr. 4 og nr. 6 séu í flokki 2. Jafnframt hafi byggingafulltrúi ekki tekið tillit til fjarlægða á milli húsa nr. 4 og nr. 6A, sem sé undir tveimur metrum í stað níu metra. Það valdi því umtalsverðum áhyggjum að leyfð sé viðbygging í um 2 m fjarlægð frá húsinu nr. 6A, og um í 4 m fjarlægð frá 15 m2 timburskúr sem sé staðsettur í 13 cm fjarlægð frá húsi nr. 6A og innan lóðarmarka.

 Við grenndarkynningu vegna breytinga á deiliskipulagi fyrir Urðarstíg 4 hafi kærandi sent inn athugasemd þar sem óskað var eftir því að farið yrði eftir lögum og reglum um brunavarnir hvað varði bil á milli tveggja timburhúsa. Einnig hafi kærandi óskað eftir því að tillit yrði tekið til þess í tillögu um skipulagsbreytingu að raunveruleg lóðarmörk Urðarstígs 6A og 6 nái töluvert inn á lóð Urðarstígs 4, og miðist ekki við núverandi girðingu. Ekki hafi verið tekið tillit til þessara athugasemda og sé viðbyggingin því  ólöglega staðsett.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Ekki er fallist á málatilbúnað kæranda og vísað til breytingar á deiliskipulagi Urðarstígsreits vegna lóðarinnar nr. 4 sem tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, dags. 7. október 2022. Samkvæmt breytingunni hafi verið gerður nýr byggingarreitur fyrir viðbyggingu sunnan hússins ásamt því að heimiluð hafi verið viðbygging sem sé nær lóðarmörkum Urðarstígs 6a, en 3 m. Komi því ekki til þess að afla hefði þurft samþykkis kæranda fyrir byggingunni. Farið hafi verið eftir ákvæðum byggingarreglugerðar um bil á milli bygginga ásamt áliti sérfræðings í brunavörnum sem staðfest hafi að brunavörnum hafi verið fullnægt.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafi hafnar málatilbúnaði kæranda og vísar til gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð varðandi bil á milli bygginga. Komi þar skýrt fram að um viðmiðunarreglur sé að ræða sem séu frávíkjanlegar að uppfylltum skilyrðum sem komi fram í b og c-lið gr. 9.2.2. í reglugerðinni.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi óskaði eftir því við meðferð stöðvunarkröfu þessarar að fá að tjá sig um umsögn Reykjavíkurborgar. Í viðbótarathugasemdum sínum fór hann fram á að frávísunarkröfu borgarinnar yrði hafnað, framkvæmdir stöðvaðar og að úrskurðarnefndin fengi óháðan aðila til að meta aðstæður á lóðunum hvað varði ákvæði byggingareglugerðar um bil á milli húsa. Þá fór hann fram á að heimild deiliskipulags og byggingafulltrúa til að leyfa viðbyggingu og timburviðbyggingu með timburklæðningu á útveggjum sem teljist eitt brunahólf með eldri byggingu sem sé byggð úr timbri, með timburklæðningu að innan og einangruð með sagi, verði sérstaklega rannsökuð. Einnig fór hann fram á að umsögn verkfræðistofu sem lögð hafi verið fram verði ekki tekin til greina og vísað frá í umfjöllun nefndarinnar. Hún sé ekki unnin á hlutlausan hátt né sé þar tekið tillit til aðstæðna á lóðunum eða forsendna reglna um bil á milli húsa í byggingareglugerð. Hitamælingar þjóni litlum tilgangi í þessu samhengi enda sé sambruni ekki bara háður bili á milli húsa heldur líka veðurfarsaðstæðum.

Kærandi gerði athugasemd við að byggingafulltrúi vísaði til umsagnar verkfræðistofunnar þar sem þess hafi verið aflað einhliða af leyfishafa. Einnig óskaði hann eftir því að nefndin tæki afstöðu til fjölda glugga á viðbyggingunni. Bent sé á að byggingafulltrúi vísi ekki í fjarlægð glugga frá  húsi nr. 6A, eða fjarlægð timburbyggingar annarrar hæðar á húsi nr. 4 frá húsi nr. 6A. Þá óskaði kærandi eftir að úrskurðarnefndin tæki afstöðu til þess að byggingafulltrúi hafi í meðferð sinni ítrekað samþykkt rangar teikningar sem sýni meira bil á milli húsa nr. 4 og 6A en raunverulega sé, röng lóðarmörk, og ranga afstöðu bygginga. Byggingafulltrúi hafi enn á ný lagt fram leiðrétta teikningu leyfishafa, þrátt fyrir að teikningarnar séu villandi. Kærandi álítur að byggingarfulltrúi hafi brotið stjórnsýslulög við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Umsögn skipulagsfulltrúa og byggingafulltrúa endurspegli að reglugerðir, samþykktir og stjórnsýslulög hafi verið brotin eða túlkuð út fyrir þann ramma sem sé eðlilegur með tilliti til meðalhófs.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um útgáfu leyfis til viðbyggingar við hús nr. 4 við Urðarstíg í Reykjavík.  Með hliðsjón af því fleiri en einn aðili eru að málinu í skilningi stjórnsýslulaga og að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram með framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir við byggingu við suðurgafl hússins við Urðarstíg 4, Reykjavík verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.