Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

106/2023 Mjólkárlína 2

Árið 2023, miðvikudaginn 6. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 106/2023, kæra á ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 17. júlí 2023 um að samþykkja tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 31. ágúst 2023, er barst nefndinni 3. september s.á., kærir íbúi í Ísafjarðarbæ, og 2 handhafar rækjuveiðiheimilda í Arnarfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 17. júlí 2023 að samþykkja tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að nýtt umhverfismat fari fram.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar 12. september 2022 lagði Landsnet hf. fram tillögu að breytingu Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2 í Arnarfirði, þ.e. þess hluta sem liggur innan marka Ísafjarðarbæjar. Fól tillagan í sér áform um að lagður yrði jarðstrengur frá Mjólká að Hrafnseyri og þaðan með sæstreng yfir Arnarfjörð í átt að Bíldudal. Samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að hefja málsmeðferð í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 15. september 2022 var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt. Að lokinni frekari málsmeðferð og auglýsingu tillögunnar var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 11. júlí 2023. Samþykkti nefndin að fela skipulagsfulltrúa að svara umsögnum og athugasemdum og að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillöguna óbreytta með vísan til 32. gr. skipulagslaga. Í fjarveru bæjarstjórnar tók bæjarráð málið fyrir á fundi sínum 17. s.m. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar.

Kærendur telja að aðalskipulagsbreytingin gangi gegn 12. gr stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf. Vegna skammtíma hagsmuna Landsnets hafi ekki allir valkostir um lagnaleið yfir Arnarfjörð verið metnir. Þrír aðrir möguleikar um lagnaleið séu til staðar sem hafi minni áhrif á aðra nýtingu fjarðarins og væru sennilega álíka góðir kostir og sá sem Landsnet hafi kynnt, en þeir hafi ekki verið skoðaðir í valkostagreiningu. Fyrirhuguð lagnaleið muni skerða mikilvægasta veiðisvæði rækjusjómanna í firðinum um a.m.k. 11 km2 en ef strengurinn yrði lagði samhliða öðrum af þeim ljósleiðurum sem nú þveri fjörðinn yrði skerðingin mun minni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að taka þá ákvörðun til endurskoðunar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.