Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2024 Búrfellslundur

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2024, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 12. ágúst 2024 um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 120 MW vindorkuveri í Búrfellslundi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 11. september 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Skeiða- og Gnúpverjahreppur þá ákvörðun Orkustofnunar frá 12. ágúst 2024 að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 120 MW vindorkuveri í Búrfellslundi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Hinn 15. september 2015 lagði Landsvirkjun fram frummatsskýrslu um Búrfellslund, vindorkuver með allt að 200 MW uppsettu rafafli norðaustan við Búrfell í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra til athugunar hjá Skipulagsstofnun, samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 23. mars 2016 lagði Landsvirkjun fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar lá fyrir 21. desember 2016. Í febrúar 2020 birti Landsvirkjun skýrslu um endurhönnun Búrfellslundar með breyttu umfangi. Samkvæmt henni var gert ráð fyrir að uppsett afl virkjunar yrði 120 MW og árleg orkuframleiðslugeta um 440 GWst. Öll mannvirki Búrfellslundar yrðu staðsett innan sveitarfélagsins Rangárþings ytra. Deiliskipulag fyrir Búrfellslund var birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. maí 2024.

Með erindi, dags. 19. október 2022, sótti Landsvirkjun um leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka vindorkuverið Búrfellslund í Rangárþingi ytra til raforkuframleiðslu með allt að 120 MW uppsettu rafafli. Á fyrirhuguðu virkjunarsvæði væri gert ráð fyrir að staðsetja allt að 30 vindmyllur og væri áætluð turnhæð vindmylla allt að 95 m og hámarkshæð, þegar spaðar væru í efstu stöðu, allt að 150 m. Áætluð meðalorkuframleiðsla yrði 440 GWst á ári. Auglýsing um umsóknina birtist í Lögbirtingarblaðinu hinn 5. febrúar 2024 þar sem gefinn var umsagnarfrestur til 5. mars s.á. og barst ein umsögn sem stafaði frá kæranda þessa máls.

Með leyfi Orkustofnunar, dags. 12. ágúst 2024, var Landvirkjun veitt leyfi til að reisa og reka allt að 120 MW vindorkuver í Rangárþingi ytra með skilyrði um útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar Rangárþings ytra skv. skipulagslögum nr. 123/2010, og byggingarleyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. lög nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi sem sveitarfélag, á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun tilkynnt Skipulagsstofnun um frestun ákvörðunar um landnotkun vegna virkjunarkostsins Búrfellslundar, sem fjallað hafi verið um af verkefnisstjórn í 3. áfanga rammaáætlunar. Þar sem sá virkjunarkostur hafi því þá réttarstöðu að vera í biðflokki hafi Orkustofnun verið óheimilt að veita hið kærða virkjunarleyfi, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011.

Virkjunarkosturinn sem hafi verið fjallað um í 3. áfanga rammaáætlunar hafi verið innan marka beggja sveitarfélaganna Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Skipulagslög nr. 123/2010 geri ráð fyrir lögákveðnu hlutverki aðliggjandi sveitarfélaga gagnvart aðalskipulagi og deiliskipulagi. Kærandi hafi lögvarða hagsmuni vegna leyfisveitingar framkvæmda samkvæmt slíkum skipulagsáætlunum. Virkjunarleyfið lúti að landnotkun innan sveitarfélagsins er varði m.a. vöktun, ísingu, þætti varðandi hljóðvist, skuggaflökt o.fl. Þá hafi virkjunarleyfið fjölþætt áhrif á lögbundin verkefni kæranda sem sveitarfélags, s.s. á sviði skipulagslaga, mannvirkjalöggjafar, náttúruverndarlaga og ákvæða sveitarstjórnarlaga er varði málefni íbúa sveitarfélags.

Sá virkjunarkostur sem Orkustofnun hafi veitt virkjunarleyfi fyrir með hinni kærðu ákvörðun, R4301B, hafi hvorki fengið umfjöllun verkefnisstjórnar rammaáætlunar 3. áfanga né hafi hann fengið umfjöllun skv. 10. gr. laga nr. 48/2011.

Orkustofnun hafi borið að gæta að samræmi framkvæmdar við gildandi skipulagsákvarðanir og sú afstaða sem fram hafi komið í fylgibréfi stofnunarinnar um hlutverk hennar gagnvart skipulagsáætlunum hafi ekki verið rétt. Þá hafi greinargerð Orkustofnunar um samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar verið ófullnægjandi. Um sé í raun að ræða nýja framkvæmd og hefði því borið að kalla eftir áliti Skipulagsstofnunar um það hvort endurskoða þyrfti umhverfismat framkvæmdarinnar að hluta eða í heild.

Leyfisveitanda og leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um kæru í máli þessu, en ekki er ástæða til þess að rekja sjónarmið þeirra í ljósi niðurstöðu þessa máls. Þá skal þess getið að með tölvubréfi frá 25. september 2024 var þess óskað að kærandi gerði nánari grein fyrir aðildarhagsmunum sínum, þ.e. hvaða einstaklegra og verulegra hagsmuna hann hefði af úrlausn úrskurðarmálsins og bárust svör kæranda nefndinni 2. október s.á.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 120 MW vindorkuveri í Búrfellslundi.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sæta ákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa sem fjallað er um í 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 11. gr. laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laga er tekið fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en kærandi telst ekki til slíkra samtaka.

Í stjórnsýslurétti er álitið að stjórnvöld njóti eigi almennrar heimildar til þess að kæra ákvarðanir annarra stjórnvalda til æðra stjórnvalds, nema mælt sé fyrir um það í lögum. Hvorki í lögum nr. 130/2011 né raforkulögum er mælt fyrir um heimild sveitarfélaga til að kæra ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Þá verður hvorki álitið að samráðsskylda við aðliggjandi sveitarfélag, við gerð skipulagsáætlunar, né heldur ákvörðun um frestun landnotkunar skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 48/2011, leiði til kæruaðildar í stjórnsýslumáli. Má einnig benda á að gert er ráð fyrir framkvæmdum samkvæmt hinu kærða leyfi í skipulagsáætlunum. Hlutverk kæranda sem stjórnvalds er að gæta opinberra hagsmuna að lögum, til að mynda á grundvelli skipulagslaga og náttúruverndarlaga. Hvorki slík gæsla almannahagsmuna né hagsmuna er varða áhrif á íbúa sveitarfélags, stjórnsýslu þess eða atvinnulíf, sem kærandi hefur vísað til, geta almennt leitt til kæruaðildar, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 40/2014 (Kárahnjúks- og Lagarfossvirkjanir).

Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum er mögulegt að sveitarfélag sem lögaðili eigi slíka verulega einstaklingsbundna hagsmuni tengda stjórnvaldsákvörðun að leiði til kæruaðildar, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 3/2015 (Vatnsendakriki). Ekki verður ráðið af ítarlegum málsrökum kæranda að slíkum verulegum hagsmunum sé til að dreifa vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu verður kæru í máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. Verður að þeim ástæðum ekki tekin efnisleg afstaða til þeirra sjónarmiða sem kærandi færir fram í málinu.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

118/2024 Brúarhlöð

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 9. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 118/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 18. apríl 2024 um að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. október 2024, kærir eigandi lóðarinnar Einiholt Kálfholt í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps frá 18. apríl 2024 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð. Er þess krafist að deiliskipulagsbreytingin verði felld úr gildi en til vara að hún verði felldi úr gildi hvað varði þá hluta eyja í Hvítá sem ekki séu innan sveitarfélagamarka Hrunamannahrepps.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Hrunamannahrepps hinn 18. apríl 2024 var tekin fyrir og samþykkt tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Hrunamannahrepps 2016–2023 vegna verslunar- og þjónustusvæðis við Brúarhlöð. Í breytingunni fólst að skilgreint yrði 4 ha verslunar- og þjónustusvæði (VÞ7) með heildarbyggingarmagni allt að 500 m2 og að landbúnaðarsvæði myndi minnka sem því næmi. Á sama fundi var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi vegna ferðamannaaðstöðu í landi Brúarhlaða. Samþykkti sveitarstjórn deiliskipulagstillöguna með þeim fyrirvara að gerð yrði ítarlegri grein fyrir skilgreindri reiðleið um svæðið. Á fundi sveitarstjórnar hinn 8. júlí 2024 var tillagan tekin fyrir að nýju og bókaði sveitarstjórn að hún mæltist til þess að deiliskipulagið tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda, að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samhliða gildistöku aðalskipulagsbreytingarinnar.

Hinn 13. ágúst 2024 sendi Skipulagsstofnun Hrunamannahreppi bréf þar sem fram kom að stofnunin gæti ekki tekið afstöðu til forms deiliskipulagsins vegna tiltekinna atriða sem gera þyrfti betur grein fyrir. Var í bréfinu m.a. bent á að aðliggjandi sveitarfélag gæti þurft að staðfesta legu sveitarfélagamarka á eyjum í Hvítá. Skipulagsstofnun samþykkti aftur á móti aðalskipulagsbreytinguna 22. ágúst 2024 og tók sú breyting gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 5. september s.á. Á fundi sveitarstjórnar hinn 19. september 2024 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir að nýju og bókað að brugðist hafi verið við umsögn Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti. Mæltist sveitarstjórn til þess að deiliskipulagið tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi bendir á að sveitarfélagamörk Hrunamannahrepps og Bláskógabyggðar liggi um miðjulínu eyja í Hvítá. Þrátt fyrir það sjáist greinilega á deiliskipulagstillögu, sem byggi á hinni kærðu aðalskipulagsbreytingu, að skipulagssvæðið nái yfir eyjarnar í heild sinni. Hann hafi ítrekað bent Hrunamannahreppi á þetta, en þeim athugasemdum hafi ekki verið svarað.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og eftir atvikum ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki sveitarstjórnar Hrunamannahrepps á aðalskipulagsbreytingu en samkvæmt framangreindum ákvæðum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka þá ákvörðun til endurskoðunar.

Rétt þykir þó að leiðbeina kæranda um að hann geti komið að kæru vegna deiliskipulagstillögunnar ef auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins verður birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

103/2024 Búrfellslundur

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 11. september 2024 um að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi til vegagerðar og uppsetningu vinnubúða vegna vindorkuvers við Vaðöldu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 11. september 2024 að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi til vegagerðar og uppsetningu vinnubúða vegna vindorkuvers við Vaðöldu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 26. september 2024.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra 11. september 2024 var tekin fyrir umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi til þess að leggja veg og setja upp vinnubúðir vegna vindorkuvers við Vaðöldu (Búrfellslundur). Samþykkti sveitarstjórn að framkvæmdaleyfi skyldi veitt vegna umsóttra framkvæmda. Var bókað á fundinum að framkvæmdin væri í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og að tekin hefði verið saman greinargerð í samræmi við 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfi sem hann og gerði 27. september 2024.

Kærandi telur ýmsa efnis- og formannmarka vera á kærðri ákvörðun og bendir m.a. á að ekkert valkostamat farið fram í umhverfismati framkvæmdarinnar, ágallar hafi verið á umhverfismati deiliskipulags Búrfellslundar og hvorki hafi verið gætt að lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála né tekið mið af meginreglum náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Framkvæmdasvæðið sé á miðhálendi Íslands samkvæmt landsskipulagsstefnu, innan þjóðlendu, á skógræktar- og landgræðslusvæði og á eldhrauni. Einnig sé þar að finna gervigíga. Fyrirhugað sé að hefja framkvæmdir í lok septembermánaðar. Leyfi til að reisa vindorkuverið sjálft séu á borði úrskurðarnefndarinnar og myndi það vera í andstöðu við varúðarreglu umhverfisréttarins að heimila hina kærðu og óafturkræfu framkvæmd fyrr en þeim málum sé lokið með úrskurði. Verði framkvæmdir ekki stöðvaðar sé kæran næsta tilgangslítil auk þess sem kæruréttur almennings yrði með því hafður að engu.

Af hálfu Rangárþings ytra er tekið fram að engin rök standi til þess að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við lög og gildandi skipulagsáætlanir. Sú framkvæmd sem hér um ræði feli í sér lagningu á 5 m breiðum vegi að meðtöldum öxlum og með mætiútskotum á 500 m fresti, svo og tengingar að vindmylluplönum og snúningssvæði. Innan framkvæmdasvæðisins séu gamlir slóðar sem horft hafi verið til við staðsetningu nýrra vega. Áformuð fylling undir vinnubúðir sé 1,6 ha að stærð. Ákvörðunin hafi ekki íþyngjandi eða skaðleg áhrif á almanna- eða einkahagsmuni, né valdi hún fjárhagslegu tjóni. Stór hluti þess svæðis sem um ræði sé þegar raskað. Skipulagssvæðið sé um 1.771 ha og séu aðliggjandi svæði skilgreind iðnaðarsvæði, þ.e. Sultartangarstöð, Búrfellsstöð og Búðarhálsstöð, ásamt tilheyrandi flutningsmannvirkjum, vegum/slóðum, vatnsfarvegum, lónum og stíflumannvirkjum. Einnig liggi í gegnum svæðið tvær háspennulínur, Sigöldulína 3 og Hrauneyjafosslína 1, en meðfram þeim línum sé að finna vegi. Auk framangreinds hafi rask orðið vegna uppgræðsluaðgerða. Svæðið sé því verulega raskað og því ekkert tilefni til þess að stöðva framkvæmdir. Ákvörðun um stöðvun hefði aftur á móti mjög íþyngjandi áhrif á framgang framkvæmda við fyrirhugað vindorkuver.

Landsvirkjun bendir á að stöðvun framkvæmda feli í sér undanþágu frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum framkvæmdar. Beri því að beita þröngri lögskýringu við túlkun á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Um sé að ræða jarðvegsvinnu sem telja megi afturkræfa, en þannig sé tæknilega mögulegt að færa til jarðveg og jafna allt rask ef svo ólíklega vilji til að fyrirhuguð vegagerð teljist ólögmæt. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 20. desember 2023, hafi verið tekið fram að framkvæmdasvæðið væri mikið raskað og að af loftmyndum væri t.a.m. ekki að sjá að þar væri að finna heillega gervigíga. Stöðvun framkvæmda myndi líklega tefja heildarframkvæmdir um eitt ár þar sem vegagerð í haust sé forsenda annarra framkvæmda. Ekki þurfi að fjölyrða um þá ríku fjárhagslegu hagsmuni sem séu undirliggjandi í máli þessu auk þeirra almannahagsmuna sem búi að baki sjónarmiðum um orkuöryggi landsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sem skýra ber þröngt og verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda. Geta þar verið af þýðingu réttmætir hagsmunir allra aðila máls auk þess sem horfa þarf til þess hversu líklegt er að ákvörðuninni verði breytt.  Almennt mælir það á móti því að fallast á kröfu um stöðvun ef fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta. Einnig geta komið til álita þau tilvik þar sem kæruheimild verður í raun þýðingarlaus ef framkvæmdir eru ekki stöðvaðar.

Í máli þessu er gerð krafa um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi, en leyfið felur í sér heimild til þess að leggja vegi og setja upp vinnubúðir vegna vinnu við fyrirhugað vindorkuver við Vaðöldu (Búrfellslundur). Byggir kærandi kröfu sína um stöðvun framkvæmda á því að hin kærða ákvörðun sé háð annmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar. Framkvæmdirnar séu óafturkræfar og verði ekki fallist á kröfu um stöðvun sé kæran næsta tilgangslítil. Á hinn bóginn benda Rangárþing ytra og Landsvirkjun á að framkvæmdasvæðið sé þegar raskað og að stöðvun framkvæmda myndi vera verulega íþyngjandi fyrir framkvæmdina í heild sinni.

Af hálfu kæranda er bent á að hinar umræddu framkvæmdir muni raska umhverfi framkvæmdasvæðisins með óafturkræfum hætti. Slík sjónarmið leiða þó ekki sjálfkrafa til þess að fallist verði á stöðvunarkröfu enda verður við úrlausn á því hvort fallast eigi á kröfu um stöðvun að fara fram heildstætt og atviksbundið mat, m.a. á grundvelli þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan. Við úrlausn á fyrirliggjandi stöðvunarkröfu verður ekki hjá því litið að framkvæmdasvæðið er eigi ósnortið, enda staðsett á orkuvinnslusvæði sem hefur orðið fyrir raski eins og lýst er í 2. kafla í matsskýrslu Landsvirkjunar vegna Búrfellslundar. Í matsskýrslunni er bent á að ráðgert framkvæmdasvæði sé á eldhrauni frá nútíma undir gjóskulagi sem sé að meðaltali um 4 m að þykkt. Svæðið sé tiltölulega flatt og þar sé einnig nokkuð um gervigíga. Bæði eldhraun og gervigígar séu landslagsgerðir sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Landslagsgerðirnar séu þó vart sjáanlegar á yfirborði vegna gjósku sem þekur svæðið og gígana að mestu eða öllu leyti. Að þessu virtu og með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér verður ekki talið að knýjandi þörf sé á að fallast á framkomna beiðni kæranda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður henni af þeim sökum hafnað.

Rétt er að taka fram að Landsvirkjun ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi félagið að halda framkvæmdum áfram áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar Rangárþings ytra.

65/2024 Eyravegur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson vara­formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 18. apríl 2024 um að gefa út lokaúttektarvottorð vegna Eyravegar 26 á Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 20. júní 2024, kærir eigandi, Eyravegi 26, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 18. apríl 2024 að gefa út lokaúttektarvottorð vegna Eyravegar 26, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 21. júlí 2024.

Málavextir: Húsið að Eyravegi 26 á Selfossi var reist árið 2004 samkvæmt upplýsingum úr fasteigna­skrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. nóvem­ber 2020 voru samþykkt ný byggingaráform fyrir lóðina auk þess sem staðfest var fyrri sam­þykkt um breytta notkun hússins úr gistihúsi í íbúðir. Byggingarleyfi nr. 2008111 var útgefið 13. september 2021 með vísan til aðaluppdrátta, dags. 3. nóvember 2020. Kemur fram á árituðum teikningum að sótt sé um leyfi fyrir byggingu til að hýsa 32 sérgeymslur íbúða og sam­eigin­lega geymslu fyrir barnavagna, að mestu niðurgrafna. Einnig sé sótt um leyfi fyrir sameiginlega hjólageymslu, að hluta niðurgrafna, og sameiginlega sorpgeymslu, hvoru tveggja utan byggingarreits. Eftir útgáfu leyfisins sendi leyfishafi inn breyttar teikningar sem byggingar­­fulltrúi samþykkti, þ. á m. reyndarteikningar sem voru samþykktar 8. mars 2024, en undir öðru málsnúmeri, þ.e. 2310067. Á þeim teikningum eru sýnd hjólastæði í stað hjólageymslu og sorpgerði/-skýli. Í mars fór einnig fram úttekt byggingarfulltrúa á fasteigninni í kjölfar tilkynninga meistara og byggingarstjóra um verklok. Hinn 18. apríl s.á. gaf byggingar­fulltrúi út vottorð um lokaúttekt hússins þar sem staðfest var að húseignin teldist vera á byggingarstigi B4, þ.e. fullgerð bygging samkvæmt ÍST 51:2021.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi fyrst fengið vitneskju um lokaúttektina í lok maí 2024 þegar fasteignasali hafi haft samband við hann vegna afsals og lokauppgjörs. Hafi kærandi komið á framfæri athugasemdum við fasteignasalann um lokafrágang og að geymslur vantaði. Jafnframt hafi sveitarfélaginu verið send kvörtun vegna lokaúttektarinnar en því erindi hafi ekki verið svarað. Þá hafi kærandi haft samband við Neytendasamtökin sem hafi bent honum á að hægt væri að kæra úttektina. Á Eyravegi 26 hafi áður verið starfrækt gistiheimili og hver íbúð því ekki með geymslu. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu fyrir fasteignina frá 5. október 2021 sé gert ráð fyrir hjóla- og vagnageymslu ásamt sorpgeymslu á lóðinni, en hvorugar hafi verið reistar. Það séu hagsmunir húseigenda að varanleg lausn verði fundin fyrir sorp, hjól og vagna í húseigninni enda hafi verið gert ráð fyrir því á teikningum.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Nokkur byggingarleyfismál hafi verið til meðferðar hjá sveitarfélaginu á undanförnum árum vegna lóðarinnar. Eftir útgáfu byggingarleyfis 13. september 2021 í máli nr. 2008111 hjá sveitarfélaginu, hafi byggingarleyfishafi sent inn nýjar teikningar þar sem gerðar hafi verið breytingar á hjólageymslu. Einnig sé um að ræða nýrra mál vegna sömu lóðar, þ.e. mál nr. 2310067 hjá sveitarfélaginu. Það byggi að grunni til á máli nr. 2008111, en um sé að ræða nýjar og breyttar teikningar vegna sömu framkvæmdar.

Við yfirferð málsins hjá byggingarfulltrúa í tilefni af framkominni kæru hafi orðið ljóst að í tengslum við allan þann fjölda af umsóknum og breyttum teikningum sem borist hafi embættinu hafi 8. mars 2024 verið samþykktar breyttar teikningar á eigninni í tengslum við mál nr. 2310067. Á þeim teikningum hafi verið gerðar breytingar á frágangi sorpgeymslu og gert ráð fyrir að hjólagrindur kæmu í stað hjólageymslu. Þær breytingar séu byggingarréttarhafa al­mennt heimilar og því ekki óeðlilegt að þær hafi verið samþykktar. Í framhaldinu hafi verið gefið út lokaúttektarvottorð í máli nr. 2008111 án athugasemda þrátt fyrir að sú framkvæmd sem verið væri að taka út hafi í reynd byggt á þeim teikningum sem fyrir hafi legið í máli nr. 2310067. Sé það mat byggingarfulltrúa að eðlilegra hefði verið að gera athugasemdir við fyrir­komulag vegna hjólageymslu og sorpgerðis í lokaúttektarvottorði vegna máls nr. 2008111 eða að framkvæma lokaúttekt út frá byggingarleyfi í máli nr. 2310067.

Telja verði að þetta varði þó ekki ótvírætt ógildingu, enda hafi frágangur bygginga verið í samræmi við lög og fyrirliggjandi teikningar hjá embætti byggingarfulltrúa, þó svo að þær teikningar hafi í reynd heyrt undir annað málsnúmer hjá sveitarfélaginu. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gerð athugasemd við útgáfu vottorðsins um að frágangur á ruslatunnuskýli og hjóla­geymslu væri ekki í samræmi við teikningar sem fylgt hafi beiðni í máli nr. 2008111 sé ekki um verulegan annmarka að ræða og þegar af þeirri ástæðu hafi sveitarfélagið ekki afturkallað út­gáfu vottorðsins. Útgáfa þess sé þannig í samræmi við þær teikningar sem fyrir hafi legið í máli nr. 2310067 og varði í reynd sama byggingarhluta. Einnig sé ekki um að ræða annmarka sem hamli útgáfu vottorðs um lokaúttekt. Þá sé ágreiningur einstakra eigenda í húsinu við byggingarrétthafa vegna meintra vanefnda á kaupsamningum af einkaréttarlegum toga.

Athugasemdir byggingaraðila. Byggingaraðili tekur fram að á síðustu árum hafi þrjár íbúðir, lyftuhús og stigi verið byggð við húsið Eyraveg 26 að framan og sérstætt geymsluhús fyrir aftan upphaflega húsið, nú matshluti 2. Geymslurnar hafi verið tilbúnar í byrjun árs. Þær hafi verið afhentar eigendum hússins og ný eignaskiptayfirlýsing gerð sem samþykkt hafi verið af öllum eigendum, athugasemdalaust. Aldrei hafi verið talað um það við byggingaraðila að hann myndi byggja geymslur fyrir hjól, vagna og sorp. Nauðsynlegt hafi verið að sýna á teikningum hvar þessu mætti koma fyrir, að öðrum kosti hefðu teikningar ekki fengist teknar fyrir hjá byggingar­fulltrúa. Þá hafi byggingarfulltrúi mætt á staðinn vegna kvörtunar og í framhaldinu sent byggingaraðila nokkrar spurningar sem hann hafi svarað ítarlega. Hafi aðfinnslurnar meira og minna verið byggðar á misskilningi og enga stoð átt í raunveruleikanum.

 Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Svo sem fram kemur í málavöxtum gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt 18. apríl 2024 vegna, að því er fram kemur í vottorðinu, „geymsl[na] ásamt tengibyggingu“ Eyravegar 26. Af hálfu kæranda er bent á að honum hafi fyrst orðið kunnugt um útgáfu vottorðsins 28. maí s.á. og hafi hann þá m.a. komið á framfæri kvörtun við sveitarfélagið í framhaldinu sem ekki hafi verið svarað. Hefur sveitar­félagið ekki fært fram andmæli við þessum staðhæfingum. Verður því við það miðað að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun 28. maí 2024 og þá hafi kærufrestur byrjað að líða. Barst kæra í máli þessu því innan lögbundins kærufrests, en kæran barst úrskurðarnefndinni 20. júní s.á.

Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa um að gefa út vottorð um lokaúttekt en framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingar­fulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn.

Líkt og að framan greinir var húsið að Eyravegi 26 reist árið 2004. Hinn 13. september 2021 var gefið út byggingarleyfi nr. 2008111 með vísan til aðaluppdrátta, dags. 3. nóvember 2020. Í hinu kærða vottorði um lokaúttekt er staðfest að húseignin teljist vera á byggingarstigi B4, þ.e. fullgerð bygging samkvæmt ÍST 51:2021. Fram kemur í umsögn sveitarfélagsins til úr­skurðar­nefndarinnar að hið umdeilda vottorð hafi verið gefið út vegna máls nr. 2008111 hjá sveitar­félaginu, en hafi í reynd byggt á teikningum sem fyrir hafi legið í máli nr. 2310067 sem varði sama byggingarhlutann. Í ljósi þess að lokaúttektarvottorð á eðli máls samkvæmt að byggjast á þeim teikningum sem síðast voru samþykktar verður ekki gerð athugasemd við það mis­ræmi, en allt að einu verður að telja að byggingarfulltrúa hefði verið rétt að geta þessa á vottorðinu.

Af hálfu kæranda máls þessa er gerð athugasemd við að gefið hafi verið út lokaúttektarvottorð þegar fyrir liggi að ekki sé búið að reisa hjóla- og vagnageymslu ásamt sorpgeymslu á lóðinni, líkt og gert sé ráð fyrir. Fram kemur í 1. málslið 4. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 að útgefandi byggingar­leyfis geti gefið út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum ef mannvirki er ekki fullgert við lokaúttekt, það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði nefndra laga eða reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunar­gögn. Ekki er því áskilið að framkvæmdum sé að fullu lokið við gerð lokaúttektar. Þáttum sem varða aðgengi skal þó ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar og komi þá í ljós að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur getur eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skal þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hefur verið gert, sbr. 4. og 5. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga.

Samkvæmt gr. 7.2.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 skal koma fyrir á lóðum bygginga bíla­stæðum, bílgeymslu, sorpgeymslu, hjólageymslu, gróðri og öðru því sem hæfir notkun við­komandi byggingar og er í samræmi við ákvæði gildandi skipulags. Í skilmálum deiliskipulags Eyravegar 26 og 28–30 kemur m.a. fram að á lóð nr. 26 sé heimild fyrir stakri byggingu fyrir sérgeymslur og sameiginlega geymslu fyrir barnavagna og hjól. Jafnframt skal gera ráð fyrir hjólastæðum á báðum lóðum og hjólageymslum eins og við verði komið. Þá skal gera ráð fyrir sorpgeymslum og skal sýna staðsetningu þeirra á byggingarnefndarteikningum. Á reyndar­teikningum samþykktum af byggingarfulltrúa 8. mars 2024 er gert ráð fyrir á lóðinni hjóla­stæðum og sorptunnum, þ.e. sorpgerði/-skýli.

Áréttað er í 1. mgr. gr. 6.12.6. í byggingarreglugerð að í eða við allar byggingar skuli vera aðstaða til flokkunar og geymslu sorps. Fram kemur í 2. mgr. ákvæðisins að sorpgeymslur geti ýmist verið innbyggðar í byggingu, í tengslum við hana, neðanjarðar eða sem sorpgerði/-skýli. Sorplausnir utan lóða séu háðar samþykki leyfisveitanda. Nánar er fjallað um innbyggðar sorpgeymslur og sorpgeymslur byggðar í tengslum við byggingar í gr. 6.12.7. í reglugerðinni og í gr. 6.12.8. er fjallað um sorpgerði/-skýli. Verður að telja að fyrirkomulag sorpgeymslu á hinum samþykktu teikningum sé ekki í andstöðu við deiliskipulag svæðisins og kröfur byggingarreglugerðar þar um.

Í athugasemdareit á hinu kærða lokaúttektarvottorði er líkt og áður greinir tekið fram að um sé að ræða geymslur ásamt tengibyggingu, en ekki eru færðar inn aðrar athugasemdir. Af svonefndum gátlista byggingarfulltrúa vegna lokaúttektarinnar má ráða að við úttektina hafi sorptunnuskýli ekki verið fullfrágengið og hefði því verið tilefni til að gera athugasemd um það atriði á lokaúttektar­vottorðinu. Að framangreindu virtu verður þó að telja að slík athuga­semd hefði ekki staðið í vegi fyrir útgáfu vottorðsins. Þá var við lokaúttekt byggt á samþykktum hönnunargögnum og er það í samræmi við kröfur mannvirkjalaga þar um, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 18. apríl 2024 um að gefa út lokaúttektarvottorð vegna Eyravegar 26 á Selfossi.

70/2024 Brimslóð

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 8. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2024, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júlí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimslóð ehf. þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húna­byggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna fasteignar hans að Brimslóð 10C, Blönduósi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húnabyggð 2. ágúst 2024.

Málavextir: Kærandi er eigandi fasteigna að Brimslóð 10A, 10B, 10C og Brimslóð 8 í Gamla bænum á Blönduósi. Í fyrstgreindum þremur fasteignum hefur kærandi rekið ferðaþjónustu frá árinu 2015. Hann sótti upphaflega um byggingarleyfi 18. mars 2022 fyrir viðbyggingu við hús sem stendur á lóðinni Brimslóð 10C. Umrætt svæði er ekki deiliskipulagt og var umsóknin því grenndarkynnt í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en engar athugasemdir bárust á kynningartíma. Var umsóknin samþykkt á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðar­nefndar Blönduóssbæjar 4. maí s.á. og staðfest á fundi sveitarstjórnar 11. s.m.

Framkvæmdir hófust ekki á þeim tíma og hinn 7. mars 2023 sótti kærandi um breytingu á hinu upprunalega byggingarleyfi þar sem byggingarmagn var aukið lítillega. Var umsóknin send til skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar, en sameining sveitarfélaga hafði þá átt sér stað í millitíðinni. Umsóknin var tekin til umfjöllunar á fundi nefndarinnar 8. s.m. þar sem ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins þar til tekin yrði afstaða til fyrirhugaðs byggingarmagns á lóð í deiliskipulagstillögu sem væri í vinnslu og einnig afmörkun lóðar þar sem lóðarmörk lægju ekki fyrir. Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu 14. s.m. Var umsóknin aftur tekin fyrir á fundi nefndarinnar 5. apríl 2023 og hún samþykkt þar sem um óveruleg frávik frá fyrri umsókn væri að ræða. Var byggingarfulltrúa falið að vinna málið áfram. Sú afgreiðsla var samþykkt af sveitarstjórn 11. s.m.

Málið var síðan tekið upp að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar 6. september 2023 vegna erindis frá Þróunarfélagi Gamla bæjarins ehf. Nefndin afgreiddi erindið á þann veg að vísa því til byggingarfulltrúa þar sem tímarammi grenndarkynningar væri liðinn og óvissa ríkti um afmörkun lóða á svæðinu. Var niðurstaða fundarins að á meðan málið væri til skoðunar yrði ekki gefið út byggingarleyfi. Í kjölfar fundarins sendi lögmaður kæranda bréf til sveitarfélagsins, dags. 31. október 2023, þar sem krafist var að byggingarleyfi yrði gefið út án ástæðulauss dráttar. Þeirri kröfu var hafnað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember s.á., með þeim skýringum að ekki væri hægt að gefa út byggingarleyfi eftir að réttaráhrif grenndarkynningarinnar frá árinu 2022 væru útrunnin.

Hinn 6. maí 2024 lagði kærandi aftur inn umsókn sama efnis og samþykkt hafði verið árið 2023. Lyktir málsins urðu þær að á fundi skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar 29. s.m. var umsókninni synjað með skírskotun til umfjöllunar um Gamla bæinn í gildandi Aðalskipulagi Blönduóss 2010–2030, þar sem meðal annars kemur fram að á svæðinu sé hótel, trésmiðja, skrifstofur og íbúðir. Svigrúm væri fyrir stækkun á hóteli innan reitsins en annars teldist svæðið vera fullbyggt.

 Málsrök kæranda: Bent er á að fljótlega eftir að rekstur kæranda hófst á umræddum lóðum hafi fyrirsvarsmenn kæranda kannað möguleika á því að færa út kvíarnar m.a. með endurbótum og stækkun á fasteignum. Hafi áætlanir félagsins alla jafna mætt litlum skilningi og jafnvel dulbúinni andstöðu hjá hluta stjórnsýslunnar á Blönduósi. Hafi kærandi því þurft að leita á náðir úrskurðarnefndarinnar áður, en nefndin hafi lagt fyrir byggingarfulltrúa í úrskurði sínum í máli nr. 36/2018 að taka til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar umsókn hans um byggingarleyfi vegna lóða sinna nr. 10A og 10C við Brimslóð. Hafi byggingarfulltrúi látið úrskurðinn sem vind um eyru þjóta og eigi mál þetta sér því langan aðdraganda.

Kærandi hafi aftur sótt um byggingarleyfi 18. mars 2022 sem falið hafi í sér 40,3 m2 við­byggingu við mannvirki sem þegar standi á lóðinni Brimslóð 10C. Hafi kærandi talið að umsótt framkvæmd félli í umfangsflokk 1, sbr. 1.3.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og því hefði mátt veita byggingarheimild á grundvelli umsóknarinnar án grenndarkynningar, enda varðaði framkvæmdin ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda, sbr. 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þrátt fyrir það hafi umsóknin verið grenndarkynnt og engar athugasemdir borist. Hafi þáverandi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefnd Blönduóssbæjar ekki gert athugasemdir við útgáfu byggingarleyfis og hafi afgreiðsla nefndarinnar verið staðfest á fundi sveitarstjórnar 4. maí 2022.

Hinn 7. mars 2023 hafi kærandi uppfært umsókn sína þar sem byggingarmagn hafi verið aukið lítillega frá upphaflegri umsókn og sent til umfjöllunar skipulags- og byggingarnefndar Húna­byggðar, en sameining sveitarfélaga hafi átt sér stað frá því umsóknin hafi verið lögð fram í öndverðu. Hafi umsóknin verið tekin til umfjöllunar á fundi nefndarinnar 8. s.m. Þar hafi verið ákveðið að fresta afgreiðslu málsins þar til tekin yrði afstaða til fyrirhugaðs byggingarmagns á lóð í deiliskipulagstillögu sem væri í vinnslu og einnig afmörkun lóðar þar sem lóðarmörk lægju ekki fyrir. Hafi sveitarstjórn staðfest þá afgreiðslu 14. s.m.

Kærandi telji þessa frestun á afgreiðslu málsins ólögmæta, enda alltaf legið fyrir að deili­skipulag væri ekki til staðar á því svæði sem um ræði og umsótt framkvæmd í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi. Þá liggi lóðarmörk skýrlega fyrir á svæðinu. Jafnvel þótt formlegum leigusamningi sé einungis þinglýst á lóðina Brimslóð 10B, en ekki 10A og 10C, þá séu lóðamörk allra fyrrgreindra lóða skýrlega dregin upp á korti í mælikvarðanum 1:500, sem fylgt hafi lóðarleigusamningi um Brimslóð 10B og sé hluti hans. Þótt lóðarleigusamningum hafi ekki verið þinglýst á lóðirnar Brimslóð 10A og 10C sé það fullljóst að kærandi sé handhafi leigulóðarréttinda sem löglíkur séu fyrir að séu algerlega þau sömu sem veitt séu í lóðarleigusamningi sem þinglýst sé á lóðina Brimslóð 10B, enda hafi sveitarfélaginu verið greitt fyrir allar tilgreindar lóðir í samræmi við 4. gr. hins þinglýsta samnings. Hafi því engin lagaheimild verið fyrir frestun á afgreiðslu málsins.

Hafi nefndin um síðir áttað sig á ólögmæti fyrri afgreiðslu sinnar og uppfært umsókn kæranda og tekið fyrir á fundi nefndarinnar 5. apríl 2023. Þar hafi verið tekin ákvörðun um að heimila aukið byggingarmagn í byggingarleyfi þar sem um óveruleg frávik væri að ræða og byggingar­fulltrúa falið að vinna málið áfram. Hafi sú ákvörðun verið staðfest af sveitarstjórn 11. s.m. Þegar hér hafi verið komið sögu hafi verið tæpur mánuður þangað til frestur skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga rynni út. Hefði byggingarfulltrúa því verið í lófa lagið að gefa út hið umsótta byggingarleyfi.

Málið hafi svo enn og aftur komið til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingarnefnd Húna­byggðar 6. september 2023 og tilefnið verið erindi frá lögmanni Þróunarfélags Gamla bæjarins ehf. Hafi nefndin afgreitt erindið á þann hátt að vísa málinu til byggingarfulltrúa þar sem tímarammi grenndarkynningar væri liðinn og óvissa ríkti um afmörkun lóða á svæðinu. Einnig hafi komið fram að á meðan málið væri til skoðunar yrði ekki gefið út byggingarleyfi. Ljóst sé að ekkert nýtt hafi komið fram í erindi lögmanns Þróunarfélagsins hvað lóðarmörk varði sem breytt gæti afstöðu nefndarinnar til þess atriðis.

Lögmaður kæranda hafi sent sveitarfélaginu bréf, dags. 31. október 2023, þar sem þess hafi verið krafist að byggingarleyfi yrði gefið út án ástæðulauss dráttar. Þeirri kröfu hafi verið hafnað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember s.á., þar sem því hafi verið haldið fram að ekki væri hægt að gefa út umsótt byggingarleyfi áður en réttaráhrif grenndarkynningar rynnu út vegna atriða sem væru á ábyrgð kæranda. Þessu sé alfarið hafnað og bent á að aldrei hafi verið kallað eftir frekari gögnum frá kæranda eða honum verið leiðbeint um framhaldið.

Virðist kæranda sem sveitarfélagið hafi framselt skipulagsvald sitt að því er varði Gamla bæinn til fyrrnefnds þróunarfélags. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til álits skipulagsfræðings sveitarfélagsins ákvörðuninni til stuðnings. Misskilnings gæti í álitinu að því er varði þá staðhæfingu að svæðið sé fullbyggt, en þar sé verið að vísa til lýsingar á svæði V8 í aðal­skipulagi. Að mati kæranda sé ekki hægt að líta til hinnar tilvitnuðu setningar án þess að horfa til annarra ákvæða sem fram komi í skipulaginu. Lóðin Brimslóð 10C sé á skilgreindu verslunar- og þjónustusvæði/íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulaginu. Á lóðinni standi vöru­geymsla byggð árið 1956 úr steinsteypu og timbri alls 74,4 m2 að stærð og feli umsókn kæranda í sér endurbætur innanhúss og utan á geymslunni, auk viðbyggingar 40,3 m2 að stærð.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá sé lóðin Brimslóð 10C alls 366 m2 að stærð og sam­ræmist það uppdrætti þeim sem fylgt hafi lóðarleigusamningi um Brimslóð 10B. Nýtingar­hlutfall lóðarinnar verði því 0,31% að umsókn staðfestri. Víki stærð og hæð mannvirkja á lóðinni og nýtingarhlutfall ekki að marki frá nágrannalóðum og sé staðsetning mannvirkja innan lóðarinnar í samræmi við staðsetningu annarra mannvirkja á svæðinu.

Frekari tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu ólíðandi, enda sé málið fullrannsakað. Hafi því bæði óskráðar og skráðar reglur um málshraða verið ítrekað brotnar við afgreiðslu málsins. Fyrrgreind afgreiðsla sveitarstjórnar, sbr. fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 6. september 2023, hafi ekki falið í sér lokaákvörðun varðandi umsókn kæranda í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, heldur hafi verið liður í málsmeðferðinni og því ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Þar sem sveitarfélagið hafi vanrækt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina á nýjan leik í samræmi við 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga hafi kærandi ákveðið að sækja um byggingarleyfi að nýju og sent enn og aftur sömu umsókn 6. maí 2024 og átt von á því í samræmi við fyrri afgreiðslu að umsóknin færi í grenndarkynningu og ferli sem ákvarðað sé í 44. gr. skipulags­laga. Þeirri skyldu hafi sveitarfélagið vanrækt til þessa og sé umsókninni nú hafnað á algerlega nýjum forsendum sem sé í fullkomnu ósamræmi við fyrri afgreiðslu.

Í hinni kærðu ákvörðun segi að umsókninni sé hafnað á grundvelli aðalskipulags, en það verði ekki skilið öðruvísi en svo að álit sveitarstjórnar sé að aðalskipulag útiloki málsmeðferð í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Kærandi telji þá niðurstöðu ekki í samræmi við fyrri afstöðu sveitarstjórnar sem að framan hafi verið lýst og verði að telja stjórnvaldið bundið við þá afstöðu sína, enda enn í gildi sama aðalskipulag og ekkert komið fram sem réttlætt geti kúvendingu af þessu tagi.

 Málsrök Húnabyggðar: Bent er á að Brimslóð ehf. hafi upphaflega sótt um byggingarleyfi þann 18. mars 2022 fyrir viðbyggingu húss sem standi á lóðinni Brimslóð 10C. Þar sem ekki hafi verið útbúið deiliskipulag fyrir svæðið sem Brimslóð 10 er innan, hafi sveitarfélagið látið fara fram grenndarkynningu með vísan til 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 enda Brimslóð 10C innan þéttbýlis Húnabyggðar og ekki útilokað að viðbyggingin hefði áhrif á eignir í nágrenninu. Engar athugasemdir hafi borist í tilefni af grenndarkynningunni.

Málið hafi í framhaldinu fengið afgreiðslu hjá sveitarfélaginu og hafi útgáfa byggingarleyfis verið samþykkt á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduóssbæjar 4. maí 2022 og í framhaldi á fundi sveitarstjórnar 11. s.m. Næstum ári síðar, þann 7. mars 2023, hafi Brimslóð ehf. sent inn uppfærða umsókn þar sem byggingarmagn hafði verið aukið frá fyrri umsókn sem samþykkt hafði verið og grenndarkynnt vorið áður. Hafi málið aftur verið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd Húnabyggðar daginn eftir þar sem niðurstaðan hafi verið að fresta málinu þar til afstaða hefði verið tekin til breytinga á byggingarmagni á lóðinni inn í deiliskipulagstillögunni sem sé í vinnslu og einnig afmörkun lóðarinnar þar sem hún lægi ekki fyrir. Hafi niðurstaðan verið samþykkt á fundi sveitarstjórnar 14. mars s.á.

Sá dráttur sem hafi verið á málinu hafi ekki verið á ábyrgð sveitarfélagsins heldur megi rekja til ýmissa þátta sem tilgreindir eru í lögum nr. 160/2010 um mannvirki sem ekki hafi verið uppfylltir af hálfu umsækjanda, kæranda máls þessa, á þeim tíma og því ómögulegt fyrir sveitarfélagið að gefa út byggingarleyfið. Vísist þar einkum til 13. gr. laganna. Ekki hafi verið lagðar fram fullnægjandi teikningar eða skráningartafla, byggingarstjóri og iðnmeistarar ekki tilnefndir og afrit ábyrgðartryggingar ekki lögð fram.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. september 2023 hafi málinu verið vísað aftur til byggingarfulltrúa þar sem tímarammi grenndarkynningarinnar hafi verið liðinn og óvissa ríkti enn um afmörkun lóða á heildarsvæðinu. Tekið hafi verið fram að á meðan málið væri til skoðunar yrði ekki gefið út byggingarleyfi. Enn hafi verið fjallað um málið á fundi nefndarinnar 29. maí 2024 þegar ákvörðun hafi verið tekin sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn 11. júní s.á. Ákveðið hafi verið að hafna veitingu byggingarleyfis og byggi sú niðurstaða á ákvæðum aðalskipulags og framtíðarhugmyndum um uppbyggingu og ásýnd svæðisins sem Brimslóð 10 tilheyri. Ekki sé því um að ræða afturköllun á byggingarleyfi því það hafi aldrei verið gefið út.

Á því tímabili sem umsóknir kæranda um byggingarleyfi hjá sveitarfélaginu hafi verið til umfjöllunar hafi mikill framgangur verið í uppbyggingu og þróun á svæði því sem eign kæranda standi á og hafi mikil vakning orðið í þá átt að vernda gömlu bæjarmyndina og að allar framkvæmdir sem leyfðar verði séu í samræmi við þá stefnu. Í Aðalskipulagi Blönduóssbæjar 2010–2030 birtist þessi stefna og standi yfir vinna við gerð deiliskipulags á grundvelli þess og í anda þeirrar umfjöllunar um Gamla bæinn sem þar sé að finna. Í þeirri umfjöllun segi að á svæðinu sé hótel, trésmiðja, skrifstofa og íbúðir. Svigrúm sé fyrir stækkun hótelsins innan reitsins en að öðru leyti teljist svæðið vera uppbyggt. Þar sé einnig gert ráð fyrir samkomutorgi við Brimslóð o.fl.

Hvað varði afmörkun lóða innan Gamla bæjarins sé margt óljóst og hafi aðeins örfáar lóðir verið hnitsettar og afmarkaðar þannig að uppfylli núgildandi kröfur. Eitthvað sé til af teikningum og sé eina slíka að finna sem fylgiskjal með lóðarleigusamningi um lóðina Brim­slóð 10B sem dagsett sé 21. ágúst 1990 og þinglýst á þá lóð. Uppdrátturinn sé ekki staðfestur af sveitarfélaginu með stimpli og áritun, ekki hnitsettur og sýni hann mjög takmarkaða mynd af aðliggjandi lóðum. Geti sá uppdráttur alls ekki verið talinn leiða til þess að ákvörðun sveitarfélagsins um að synja að gefa út byggingarleyfi með heimild til stækkunar húss með vísan til þess m.a. að lóðamörk á svæðinu séu óljós, teljist ólögmæt. Hafni sveitarfélagið þeirri fullyrðingu. Eins og fram hafi komið sé unnið að því að deiliskipuleggja svæðið í heild sinni og séu lóðirnar nr. 10A, 10B og 10C þar á meðal.

Á síðustu tveimur til þremur árum hafi verið lögð aukin áhersla á svæðið þar sem Gamli bærinn á Blönduósi liggi og sveitarfélagið hafið þá stefnu að halda húsum sem allra mest í upprunalegri mynd og heimila ekki stækkun á þeim. Lóðir innan svæðisins séu ekki allar vel skilgreindar og mörk milli þeirra alls ekki alltaf ljós. Því hafi verið mörkuð sú stefna að samhliða vinnu við deiliskipulag verði lóðarleigusamningar uppfærðir og endurnýjaðir .

Kærandi haldi því fram að um misskilning eða mistúlkun á ákvæðum aðalskipulags sé að ræða hjá sveitarfélaginu þar sem ákvæði varðandi verndun Gamla bæjarins sem fjallað sé um í kafla V8 í greinargerð með skipulaginu, bls. 53, beri að lesa í samhengi við almenn ákvæði um landþörf og þéttleika byggðar á bls. 46 í sömu greinargerð. Sveitarfélagið hafni þessu og telji skýrt að sérstakt ákvæði um það að Gamli bærinn teljist fullbyggður gangi framar almennum ákvæðum um þéttleika byggðar. Þá sé skýrt að með því að taka fram að svigrúm sé til stækkunar á hóteli innan reitsins þá þýði það að ekki sé heimilt að stækka önnur mannvirki innan sama reits.

Við höfnun á útgáfu byggingarleyfis til kæranda sé litið til heildarhagsmuna af því að svæðið sem Brimslóð 10 standi á sé viðkvæmt og sé sveitarfélagið að vinna að því að deiliskipuleggja og skilgreina lóðir, opin svæði og annað sem nauðsynlegt sé til að gera svæðið aðlaðandi og sem næst þeirri bæjarmynd sem áður hafi verið á Gamla bænum.

Ekki sé fallist á að eigendum og rekstraraðilum sé mismunað, heldur sé stefna sveitarfélagsins að vernda svæðið og falli allir undir þær takmarkanir sem því fylgi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Hafnað er skýringum sveitarfélagsins á ástæðum fyrir drætti málsins. Það sem hafi í raun átt sér stað var að kærandi átti fund með byggingarfulltrúa og óskaði eftir leiðbeiningum með ákveðna útfærslu á þegar umsóttri framkvæmd. Hafi byggingarfulltrúi enga vankanta séð á þeim breytingum og fullvissað kæranda um að ekki þyrfti að grenndarkynna uppfærða umsókn. Ljóst sé að þrátt fyrir ólögmætar tafir á meðferð málsins hafi enn verið einn mánuður eftir af þeim ársfresti sem gefinn sé skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga þegar uppfærð umsókn hafi verið samþykkt. Hafi byggingarfulltrúa einnig borið að leiðbeina kæranda um tilvist tímafrestsins og enn fremur að kalla eftir gögnum ef eitthvað vantaði svo gefa mætti út byggingarleyfi áður en frestur rynni út. Hafi byggingarfulltrúi þar vanrækt lögbundna leiðbeiningarskyldu sína og að láta fara fram grenndarkynningu að nýju eftir að tímafresturinn hafi runnið út.

Eins og áður hafi komið fram hafi ástæða frestunarinnar verið bréf frá lögmanni Þróunarfélags Gamla bæjarins, félags sem hafði þá nýverið fest kaup á Hótel Blönduós, en sveitarfélagið hafði skrifað undir viljayfirlýsingu við eiganda þess félags um fjárfestingu í Gamla bænum. Í þeirri viljayfirlýsingu komi fram að ákveðnir fyrirvarar séu m.a. um skipulagsmál. Hafi sveitarfélagið komið sér undan því að gefa upp hvað fælist í greindum fyrirvörum.

Sú útskýring sveitarfélagsins að umsókn kæranda sé ekki í samræmi við aðalskipulag þar sem svæðið teljist þegar fullbyggt sé að hans mati eftiráskýring, sem auk þess sé rangur skilningur á ákvæðum aðalskipulagsins. Bent sé á að tillaga að deiliskipulagi sem lögð hafi verið fram til kynningar sýni greinilega að þróunarfélaginu sé hyglað á kostnað annarra lóðarhafa á svæðinu. Megi nefna sem dæmi að í deiliskipulagstillögunni séu lóðir kæranda minnkaðar verulega miðað við fyrirliggjandi gögn, án þess að nokkuð samráð hafi verið haft við hann og engar bætur boðnar. Þá hafi kærandi einnig heimildir fyrir því að þróunarfélagið hafi kostað gerð deiliskipulagstillögunnar með stoð í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Sé því skorað á sveitarfélagið að upplýsa hvort svo sé raunin og ef svo sé hvort ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 38. gr. þeirra laga hafi verið fylgt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir 40,3 m2 stækkun hússins að Brimslóð 10C, Blönduósi. Var synjun um útgáfu byggingarleyfisins byggð á ákvæðum aðalskipulags og framtíðarhugmyndum um uppbyggingu og ásýnd svæðisins.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er það í höndum sveitarstjórnar að annast gerð skipulagsáætlana innan marka sveitarfélags. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c–liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Þá ber að taka mið af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning og afgreiðslu ákvarðana á þessu sviði sem endranær. Við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi ber jafnframt að gæta þess að byggingaráform séu í samræmi við gildandi aðalskipulag sbr. 6. mgr. 32. gr. skipulags­laga og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Samkvæmt uppdrætti Aðalskipulags Húnaþings 2010-2030 er lóðin Brimslóð 10C á blönduðu svæði sem merkt er sem íbúðarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði. Í kafla 4.1.1 í greinargerð aðalskipulagsins er fjallað um íbúðarsvæði. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að fullbyggja núverandi íbúðarsvæði og auka þéttleika þannig að 12 eða fleiri íbúðir verði á hvern hektara. Á þeim svæðum sem teljist til framtíðar íbúðarsvæða sé æskilegt að hafa til viðmiðunar töflu um nýtingar­hlutfall eftir húsagerðum þegar unnið sé deiliskipulag eða það endur­skoðað, en samkvæmt töflunni er nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða á bilinu 0,2–0,4, raðhúsalóða á bilinu 0,4–0,6 og fjölbýlishúsalóða á bilinu 0,6–0,8. Í töflu 4.1 í greinargerð aðalskipulagsins eru talin upp götuheiti, hversu margar lóðir væru þegar byggðar og hve margar óbyggðar í viðkomandi götu. Þar kemur fram að við götuna Brimslóð sé þegar byggt á sjö lóðum en engin óbyggð lóð sé við götuna.

Í hinni kærðu synjun um útgáfu byggingarleyfis var vísað til umfjöllunar um Gamla bæinn í aðalskipulagi. Það svæði er merkt sem V8 í greinargerð aðalskipulagsins og er umfjöllun um Gamla bæinn að finna í kafla 4.2.2 þar sem fjallað er um verslunar- og þjónustusvæði. Um verslunar- og þjónustusvæði segir eftirfarandi: „Gefið er eðlilegt svigrúm fyrir þróun á núverandi og nýrrar verslunar- og þjónustustarfsemi. Deiliskipulagsskilmálar fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði miði að gæðum húsnæðis og vönduðu yfirbragði byggðar. Við skipulag byggðar og hönnun bygginga verði þess gætt að starfsemi geti þróast og breyst og hús og svæði nýst til annarra nota en upphaflega var áætlað. Þannig sé stuðlað að sveigjanleika og lífvænleika byggðarinnar.“ Þá segir að á svæðinu sé hótel, trésmiðja, skrifstofur og íbúðir. Svigrúm sé fyrir stækkun á hóteli innan reitsins en annars teljist svæðið fullbyggt. Gert verði ráð fyrir samkomutorgi við Brimslóð sem verði útfært sem fallegt almenningssvæði innan um gamla byggð. Stuðlað verði að aðlaðandi ásýnd byggðarinnar og áhersla lögð á frágang opinna rýma, s.s. hvað varði yfirborðsefni, gróður og lýsingu. Þá sé stærð svæðisins 2 ha. Á bls. 49 í greinar­gerð aðalskipulagsins kemur jafnframt fram að nýtingarhlutfall á verslunar- og þjónustu­svæðum skuli almennt vera að meðaltali um 0,2–0,6. Hefur kærandi í málatilbúnaði sínum vísað til þess að aðalskipulagið geri ráð fyrir enn frekari stækkun hótels á sama svæði og umrædd lóð hans liggur.

Lóðin Brimslóð 10C er 366 m2 og húsið sem stendur á henni er 74,7 m2 og er skráð sem vörugeymsla samkvæmt fasteignaskrá en fyrirhugað er að nýta húsið undir veitingastað og/eða kaffihús. Núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,2 en yrði 0,31 með umsóttri stækkun hússins í 115 m2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar Brimslóðar 10A er 0,44 og nýtingarhlutfall lóðarinnar Brimslóðar 10B er 0,30. Þessar lóðir eru allar í eigu kæranda og er þar rekið gisti­heimili. Innan sama svæðis er 2.500 m2 lóð sem Hótel Blönduós stendur á og er nýtingarhlutfall þeirrar lóðar 0,48 og er ráðagerð í aðalskipulaginu um frekari stækkun þess.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felst að aðilar við sambærilegar aðstæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan eigi að hindra að ákvarðanir verði tilviljunarkenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum viðhorfum.

Í hinni kærðu ákvörðun var einungis vísað til umfjöllunar um Gamla bæinn í aðalskipulagi. Það má telja til annmarka á hinni kærðu ákvörðun að ekki fylgdi nánari rökstuðningur, sérstaklega í ljósi heimilaðs nýtingarhlutfalls lóða samkvæmt ákvæðum gildandi aðalskipulags og þess misræmis sem gætir í nýtingarheimildum lóðar hótels á umræddu svæði og lóðar kæranda, en sömu skilmálar aðalskipulagsins eiga við um báðar lóðirnar. Í þessu sambandi verður að líta til sjónarmiða jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga er leiða til þess að fasteignaeigendur á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir eigi að njóta sambærilegra nýtingarheimilda á lóðum sínum nema að skipulagssjónarmið eða önnur efnisrök mæli því í mót. Sá texti í greinargerð aðalskipulagsins, að tilteknar lóðir við Brimslóð teljist fullbyggðar og vísað hefur verið til af hálfu skipulagsyfirvalda, felur í sér lýsingu á staðháttum á svæðinu við skipulagsgerð. Sú lýsing girðir ekki fyrir breytingar á þeim byggðu lóðum við deiliskipulagsgerð eða eftir atvikum með afgreiðslu umsóknar á grundvelli aðal­skipulags að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga, svo fremi sem breytingin sé í samræmi við skilmála aðalskipulagsins og viðmið þess um nýtingarhlutfall.

Þá verður að líta til þess að árið 2022 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Þó svo framkvæmdir hafi ekki hafist innan lögbundins tímafrests og að byggingarmagn hafi aukist lítillega með uppfærðri umsókn, var tekin ákvörðun 5. apríl 2023, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. s.m. um að heimila aukið byggingarmagn á lóðinni. Hafði því umsókn kæranda um umrædda viðbyggingu verið samþykkt í tvígang að undangenginni málsmeðferð samkvæmt 11. gr. laga um mannvirki, þar sem m.a. er kveðið á um að gengið sé úr skugga um að umsókn samræmist gildandi skipulagsáætlunum. Hefði kærandi því mátt hafa réttmætar væntingar til þess að umsókn hans frá 6. maí 2024 yrði samþykkt, en umsóknin var sama efnis og sú sem samþykkt hafði verið 5. apríl 2023.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin þeim ágöllum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húnabyggðar frá 29. maí 2024, sem staðfest var af sveitarstjórn 11. júní s.á., um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna fasteignarinnar að Brimslóð 10C, Blönduósi.

105/2024 Skógarhólar

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 2. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 105/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 22. nóvember 2022 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Skógarhóla 11A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 28. september 2024, kærir eigandi, Skógarhólum 11A, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar frá 22. nóvember 2022 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna byggingar raðhússins Skógarhóla 11A. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá krefst kærandi þess að íbúð hans verði keypt og að lögfræðikostnaður auk kostnaðar vegna byggingarmeistara verði greiddur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð 30. september 2024.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi íbúðar að Skógarhólum 11A en um er að ræða raðhús byggt árið 2022. Lokaúttekt fór fram 21. nóvember 2022 í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012 en vottorð um lokaúttekt var gefið út 22. s.m.

 Kærandi kveðst ekki geta selt íbúð sína að Skógarhólum 11A vegna vanefnda byggingaraðila. Galli í húsinu hafi komið upp og hafi þá komið í ljós að engin gögn séu til staðar fyrir húsið. Ekki verði séð að skilað hafi verið neinum teikningum af húsinu til embættis byggingarfulltrúa til skoðunar og samþykktar. Húsið hafi því verið byggt án samþykktra teikninga. Ekki liggi fyrir þau gögn sem þurfi að vera til staðar svo öryggisúttekt og lokaúttekt fari fram. Að vitund kæranda liggi ekki fyrir samþykktar teikningar af raflögnum, sérteikningum né pípulögnum fyrir húsið og þar af leiðandi séu úttektir ógildar. Þá sé vísað til 10. gr. og 22. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds-ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að íbúð hans verði keypt og að lögfræðikostnaður auk kostnaðar vegna byggingarmeistara verði greiddur.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Lokaúttekt vegna Skógarhóla 11A fór fram 21. nóvember 2022 og vottorð um lokaúttekt var gefið út daginn eftir, 22. s.m. Samkvæmt vottorðinu voru eigendur mannvirkisins viðstaddir vettvangsskoðun. Fram kemur á vottorðinu að kærandi sé meðal eigenda. Með hliðsjón af þessu verður að álíta að kæranda hafi verið kunnugt um ákvörðun um lokúttekt mannvirkisins, frá þeim tíma. Kæran í máli þessu barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 28. september 2024, sem var löngu síðar og að liðnum lögbundnum kærufresti.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

72/2024 Stórholt

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 1. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 72/2024, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 5. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir hópbifreiðar norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs, og stæði fyrir leigubifreiðar sunnan megin í Stórholti, beggja vegna Þverholts.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. júlí 2024, kæra A og B, Stakkholti 4a, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir leigubifreiðar í Stórholt. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með kæru er barst úrskurðarnefndinni 9. júlí 2024, kæra A og C, Stakkholti 4a, ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. júní 2024 um að setja safnstæði fyrir hópbifreiðar norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs. Er einnig gerð krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar. Verður það kærumál, sem er nr. 73/2024, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. ágúst 2024.

Málsatvik og rök: Kærendur eru íbúar Stakkholts 4a en húsið stendur að hluta til við Stórholt. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag stgr. 1.240, „Hlemmur og nágrenni og Hlemmur, umferðarskipulag“ er nær m.a. utan um almenningsrými við Hlemm og nærliggjandi göturými. Í skilmálum deiliskipulagsins um umferðarskipulag eru tilgreindar nýjar mögulegar staðsetningar fyrir safnstæði hópferðabíla og leigubíla og er ein þeirra við Stórholt.

Á afgreiðslufundi samgöngustjóra Reykjavíkurborgar 5. júní 2024, var samþykkt tillaga um að sjö bifreiðastæði sunnan megin í Stórholti, beggja vegna Þverholts yrðu merkt sem bílastæði fyrir leigubifreiðar. Jafnframt að bifreiðastæði norðan megin í Stórholti, milli Þverholts og Rauðarárstígs yrðu merkt sem biðstöð hópbifreiða, safnstæði. Þá var tekið fram að ofangreindar ráðstafanir yrðu merktar með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingu þar sem það ætti við, í samræmi við reglugerð nr. 250/2024 um umferðarmerki og notkun þeirra. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2024 var lögð fram fundargerð frá afgreiðslufundinum og 25. s.m. var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um umferð í Reykjavík nr. 754/2024, þar sem mælt var fyrir um að tillagan öðlaðist gildi.

Af hálfu kærenda er greint frá því að síðdegis 19. júní 2024 hafi þeir orðið þess varir að merkin “BUS” og “TAXI” hafi verið máluð á svæði þar sem áður hafi verið bílastæði í Stórholti. Hafi þessi ákvörðun ekki verið kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum með formlegum hætti þrátt fyrir að um breytingu sé að ræða sem hafi áhrif á nærumhverfi. Þá hafi íbúum ekki verið veittur möguleiki á að koma að athugasemdum áður stæðin hafi verið tekið í notkun. Í deiliskipulagi fyrir Hlemm hafi fjórar götur verið nefndar sem möguleg staðsetning undir safnstæði fyrir hópbifreiðar og leigubíla, þ.á m. Stórholt. Umræddar götur séu langar og því mörg svæði sem komið hafi getað til greina. Hafi það gert íbúum illkleift að hreyfa við mótmælum við staðsetningu stæðanna vegna ófullnægjandi kynningar á ákvörðuninni. Aukin umferð fylgi safnstæðum fyrir leigubíla og börn í húsinu búi við skert umferðaröryggi vegna mikillar umferðar hópbifreiða. Hávaðamengun fylgi safnstæðunum og gera megi ráð fyrir að þau hafi í för með sér aukna loftmengun vegna bifreiða sem standi í lausagangi.

 Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé umrætt svæði skilgreint sem M1b, blönduð miðborgarbyggð og eðli málsins samkvæmt sé þungamiðja almenningssamgangna og lykilstöðvar í hverju þéttbýli á miðborgarsvæðum. Fyrirhuguð safnstæði hafi verið kynnt og auglýst veturinn 2019-2020 og veittur frestur til að koma að andmælum. Deiliskipulagið hafi verið samþykkt 11. mars 2020 í skipulags- og samgönguráði, það „uppfært“ 18. janúar 2022 en engar breytingar hafi verið gerðar á kafla um safnstæði. Framkvæmdir og aðgerðir sem lúti að því að framfylgja skilmálum deiliskipulagsins, og færa safnstæðin á þá staði sem þegar hafi verið tilgreindir í skipulaginu, þurfi ekki að kynna eða auglýsa sérstaklega. Notkunarbreyting stæðanna hafi verið á grundvelli 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og samþykkt af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með tölvupósti, 5. júní 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra ákvörðunar Reykjavíkurborgar að staðsetja safnstæði fyrir leigubíla og hópferðabíla við Stórholt í Reykjavík, en umrædd stæði eru í grennd við íbúðir kærenda að Stakkholti 4a. Var ákvörðun um endanlega staðsetningu/merkingu bílastæðanna samþykkt á afgreiðslufundi samgöngustjóra 5. júní 2024. Verður að líta svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu fremur en ákvörðun borgarráðs frá 19. mars 2020 um að samþykkja deiliskipulag stgr. 1.240, „Hlemmur og nágrenni og Hlemmur, umferðarskipulag“ en kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar, er tók gildi 7. apríl 2020, er löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sama háttar til um síðari breytingu á deiliskipulaginu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Slíka kæruheimild er t.a.m. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun var hins vegar tekin á grundvelli 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 en þar er mælt er fyrir um að veghaldari geti kveðið á um varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar að höfðu samráði við sveitarstjórn, þegar það eigi við og að fengnu samþykki lögreglu, m.a. um stöðvun og lagningu ökutækis, sbr. a-lið ákvæðisins. Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í umferðarlögum. Verður kærumáli af þeim sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

53/2024 Eysteinseyri

Með

Árið 2024, mánudaginn 30. september, tók Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 53/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Tálknafjarðarhrepps á erindum kærenda varðandi gjaldtöku vegna sorphirðu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. maí 2024, er barst nefndinni 8. s.m., framsendi innviðaráðuneytið kæru eigenda, Eysteinseyri í Tálknafirði, er varðaði tafir á málsmeðferð sveitarfélagsins Tálknafjarðar vegna kröfu þeirra um endurgreiðslu oftekinna sorphirðugjalda.

Málavextir: Með kæru, dags. 26. mars 2024, kærðu ábúendur á Eysteinseyri í Tálknafirði drátt á svörum Tálknafjarðarhrepps við fyrirspurnum þeirra, dags. 6. nóvember og 15. desember 2023 og 26. janúar 2024. Var með erindunum óskað upplýsinga um innheimtu sorphirðugjalda.

Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð hafa nú sameinast í einu sveitarfélagi, Vesturbyggð, sem tekið hefur með því við fyrirsvari málsins. Öðlaðist sameiningin gildi 19. maí 2024.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að lögmaður kærenda hafi sent þrjú bréf til sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps, frá 6. nóvember, 15. desember 2023 og 26. janúar 2024 varðandi sorphirðugjöld á lögbýlinu Eysteinseyri fyrir árin 2022 og 2023. Bréfunum hafi ekki verið svarað. Samkvæmt stjórnsýslurétti og stjórnsýslulögum nr. 37/1993 sé það skylda stjórnvalda að svara slíkum fyrirspurnum.

Málsrök Vesturbyggðar: Í greinargerð Tálknafjarðarhrepps, dags. 20. apríl 2024, eru sjónarmið og rökstuðningur sveitarfélagsins vegna ákvörðunar sorphirðugjalds rakin en ekki er fjallað um svör við erindum kærenda, þ.e. hvort eða hvenær þeim hafi verið svarað. Úrskurðarnefndin sendi Vesturbyggð fyrirspurn með tölvupósti 26. september 2024 þar sem óskað var upplýsinga um hvort fyrirspurnum þeim sem kærumál þetta varðar hafi verið svarað. Með tölvupósti 27. s.m. upplýsti sveitarfélagið að ekki hafi verið brugðist við erindum með neinum hætti eftir að sameining sveitarfélaganna tók gildi.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla Tálknafjarðarhrepps, nú Vesturbyggðar, á erindum kærenda varðandi gjaldtöku vegna sorphirðugjalda hafi dregist óhóflega.

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er um undantekningarreglu að ræða frá 2. mgr. 26. gr. laganna, þar sem gengið er út frá því að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda enda á stjórnsýslumál fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í athugasemdum með 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þar sem viðfangsefni sem stjórnvöldum berist séu mjög margvísleg taki úrlausn þeirra óhjákvæmilega misjafnlega langan tíma. Sum erindi séu þess eðlis að fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni taka nokkurn tíma og eigi það t.d. við um mál þar sem afla þurfi umsagnar annarra aðila, svo og gagna. Með þessu er ljóst að um matskennda reglu er að ræða og verður við mat á því hvort dráttur sé á afgreiðslu máls að taka mið umfangi þess og atvikum öllum.

Fyrir liggur að Vesturbyggð svaraði innviðaráðuneytinu með greinargerð, dags. 30. apríl 2024, þar sem fjallað var um sjónarmið og rökstuðning sveitarfélagsins vegna ákvörðunar um sorphirðugjald. Aftur á móti hefur Vesturbyggð ekki svarað þeim erindum er kærendur beindu til sveitarfélagsins og kæra þessi varðar og af svörum sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar má ráða að ekki sé að vænta svara. Að því virtu verður að álíta að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð erindis kærenda.

 Úrskurðarorð:

Vesturbyggð skal taka fyrirliggjandi erindi kærenda er varða gjaldtöku vegna sorphirðugjalda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

83/2024 Stýrimannastígur

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 83/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tvöfaldri bílageymslu á lóð nr. 14 við Stýrimannastíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. ágúst 2024, kærir annar eigenda húss á lóð nr. 14 við Stýrimannastíg, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí 2024 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tvöfaldri bíla-geymslu á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. september 2024.

Málavextir: Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 tilheyrir lóð nr. 14 við Stýrimanna­stíg borgarhluta 1-Vesturbær og er hluti af íbúðarsvæði ÍB1-Framnes. Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir lóðina, en hverfisvernd hvílir á svæðinu samkvæmt aðalskipulagi. Með umsókn, dags. 23. apríl 2024, sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir tvöfaldri bílageymslu á lóðinni. Á fundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 19. júní 2024 var umsókninni vísað til skipulagsfulltrúa til umsagnar.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. júlí 2024, kom fram að um sé að ræða heilsteypt og rótgróið íbúðarhverfi frá þriðja og fjórða áratug 20. aldar. Byggðin endurspegli merkar skipulags­hugmyndir þriðja áratugarins. Hús séu stakstæð og staðsett innan garða með tilliti til sólaráttar. Nokkur dæmi séu um innkeyrslu og/eða bílageymslu inn á lóðum við Stýrimannastíg, en í flestum tilfellum séu þetta innkeyrslur og/eða bílageymslur sem séu á upprunalegum aðaluppdráttum. Þá séu ekki fordæmi fyrir tvöfaldri bílageymslu innan lóða í hverfinu og samræmist það ekki byggðarmynstri í kring. Samkvæmt samgönguskrifstofu Reykjavíkur­borgar væri tvöföld bílageymsla innan lóðar ,,töluvert umfram viðmið í reglum um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík, og er ekki í samræmi við það sem er í nágrenninu”. Niðurstaða umsagnar skipulagsfulltrúa var sú að ekki væri heimild fyrir innkeyrslu á lóðinni Stýrimanna­stíg 14 og að ekki væri leyfilegt að byggja þar bílageymslu. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa, dags. 9. júlí 2024, var umsókn kæranda um leyfi til að byggja bílageymslu á lóðinni synjað með vísan í fyrrgreinda umsögn skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mikill skortur sé á bílastæðum í íbúðarhverfinu. Gjaldskyldu hafi verið komið á í þeim tilgangi að losa íbúa við bifreiðar sem lagt hafi verið í hverfinu af fólki sem starfi í miðbænum. Birtingarmynd breytingarinnar sé sú að vandamálinu sé ýtt vestar, þ.e. nær kæranda, ásamt aukinni skattheimtu á íbúa hverfisins. Kærandi eigi oft erfitt með gang og verði þreyttur í fæti.

Þeim forsendum sem skipulagsfulltrúi noti til að komast að niðurstöðu sé hafnað og hafi hann brugðist rannsóknarskyldu sinni. Í niðurstöðu umsagnar hans hafi verið tekið fram að byggðin í hverfinu endurspegli merkilegar skipulagshugmyndir frá þriðja áratug síðustu aldar sem sé ekki rétt, en flest húsanna í nærumhverfi kæranda, sérstaklega við Stýrimannastíg, séu frá alda­mótunum 1900. Fullyrðingar skipulagsfulltrúa um að ekki séu fordæmi fyrir tvöfaldri bíla­geymslu innan lóða sem ekki hafi verið á upprunalegum aðaluppdráttum standist ekki skoðun. Engin bílageymsla í nærumhverfi lóðar kæranda sé á upprunalegum teikningum. Dæmi um bílageymslur í nærumhverfinu sýni hvernig afgreiðsla á byggingarleyfisumsókn kæranda feli í sér mismunun sem brjóti á rétti til jafnræðis. Umsögn skipulagsfulltrúa feli jafnframt í sér rang­færslur um staðhætti og sögu framkvæmda í hverfinu sem séu notaðar til rökstuðnings niður­stöðunni. Meðalhófs hafi ekki verið gætt af byggingaryfirvöldum borgarinnar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til gr. 2.4.4. í byggingar-reglugerð nr. 112/2012 þar sem komi fram skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis. Í 1. tl. þeirrar greinar segi að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis séu að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu eða fyrir liggi samþykkt sveitarstjórnar vegna leyfis­umsóknar samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir lóðina, en hverfisvernd hvíli á svæðinu.

Í kaflanum „borg fyrir fólk“ í Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2040 sé yfirkafli þar sem komi meðal annars fram um „borgarvernd“ að staðbundin, söguleg og listræn sérkenni í húsagerð og skipulagi, er gefi Reykjavík sérstöðu meðal borga, yrðu varðveitt og viðhaldið við þróun og endurskipulagningu byggðar. Í miðborg Reykjavíkur og eldri hverfum borgarinnar séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skuli á til framtíðar. Verndun menningararfsins og virðing fyrir sögunni og hinu staðbundna sé grundvöllur þess að auka gæði byggðarinnar og aðdráttarafl borgarinnar og tryggi sérstöðu hennar meðal borga. Verndun og efling menningar­arfsins sé einn af grunnþáttunum við að tryggja hagsæld borgarinnar til framtíðar. Um almenn markmið komi meðal annars fram að nýjar byggingar í eldri hverfum yrðu lagaðar að einkennum byggðarinnar og aðeins heimilaðar ef sýnt væri fram á að þær væru til bóta fyrir heildarsvip byggðarinnar. Skipulagsfulltrúi hafi metið það sem svo að tvöföld bílageymsla samræmdist ekki byggðarmynstrinu. Kærandi hefði heldur ekki fært fram rök þess efnis að byggingin sem hann hafi sótt um byggingarleyfi fyrir yrði til bóta fyrir heildarsvip hverfisins eins og áskilnaður sé gerður um.

Í reglum um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík megi sjá bæði viðmið og hámarkskröfur um fjölda bílastæða í borginni. Lóðin Stýrimannastígur 14 sé á svæði 1 þar sem sérstaklega sé stefnt að breyttum ferðavenjum, innan þessa svæðis sé eða fyrirhuguð blönduð landnotkun ásamt aðgengi að góðum almenningssamgöngum innan göngufjarlægðar. Þessir þættir ásamt öflugu göngu- og hjólastígakerfi borgarinnar stuðli að því að besti kosturinn sé að ferðast með vistvænum ferðamátum. Í fjórða kafla reglnanna komi fram að reglurnar eigi við um upp­byggingu og endurnýjun lóða. Jafnframt segi þar að kröfur um fjölda bílastæða séu viðmiðunar- og hámarksgildi. Í upphafi skuli ávallt miða fjölda bílastæða við viðmiðunargildi. Í samgöngu­mati sé mögulegt að rökstyðja bílastæði niður eða upp frá viðmiðinu en aldrei skuli fara yfir skilgreint hámark. Viðmið fyrir sérbýli sem eru þrjú herbergi og yfir fjögur herbergi á svæði 1 sé 0.75 bílastæði og hámarkið sé 1 bílastæði. Fjöldi bílastæða við Stýrimannastíg 14 sé því að hámarki eitt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir tvöfaldri bílageymslu á lóð nr. 14 við Stýrimannastíg.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er áskilið að byggingarleyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann skv. 2. mgr. 10. gr. laganna leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins.

Lóðin Stýrimannastígur nr. 14 er á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Ekki er í gildi deiliskipulag sem nær til lóðarinnar, en samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 gildir sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Svæðið innan gömlu Hringbrautar, þar sem lóðin er staðsett, nýtur hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi. Samkvæmt 12. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 123/2010 er hverfisvernd ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar, annarra menningar­sögulegra minja eða náttúruminja. Ef talin er þörf á slíkri hverfisvernd skal setja ákvæði um hana í viðkomandi skipulagsáætlunum, sbr. 6. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er í kafla um borgarvernd fjallað um skilgreind hverfis­verndarsvæði. Kemur þar fram að ákvæði hverfisverndar séu almenns eðlis og nái til stærri heilda og því sé nauðsynlegt að stefna um borgarvernd verði nánar útfærð og skýrð í hverfis- eða deiliskipulagi.

Í 17. kafla aðalskipulagsins er fjallað um samgöngur. Í undirkafla 17.2. er mælt fyrir um bíla- og hjólastæðastefnu, en þar kemur fram að í skipulaginu séu ekki sett fram bindandi ákvæði eða nákvæmar reglur um fjölda bíla- eða hjólastæði, gjaldaskyldu eða aðra gjaldtöku vegna stæða fyrir farartæki. Reglur um slíkt verði á hverjum tíma samþykktar í borgarstjórn og skipulags- og samgönguráði svo og aðferðir við hvernig meta skuli þörfina. Reglur um fjölda bílastæða og hjólastæða í Reykjavík voru samþykktar í borgarráði 14. mars 2024. Lýsa reglurnar kröfum um fjölda bíla- og hjólastæða innan lóða í Reykjavík vegna nýbygginga og/eða endurnýjunar byggðar. Samkvæmt reglunum tilheyrir Stýrimannastígur svæði 1. Í umræddum reglum er að finna töflu sem sýnir kröfur um fjölda bílastæða fyrir íbúðarhúsnæði. Á svæði 1 er viðmiðunargildi fjölda bílastæða fyrir fjölbýli og sérbýli með fjórum herbergjum eða fleirum 0,75 en hámarksfjöldi þeirra er 1. Fyrir gesti er gert ráð fyrir 0,1 stæði að hámarki, en í útskýringum með töflunni kemur fram að fyrir sérbýli megi gera ráð fyrir að bílastæði á borgarlandi nýtist sem gestastæði. Skipulagsfulltrúi veitti umsögn um það hvort byggingar­áform um bílageymslu samræmdust skipulagsáætlunum í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010. Í umsögninni kom fram að nokkur dæmi væru um innkeyrslu og/eða bílageymslu inn á lóðum við Stýrimannastíg. Í flestum tilfellum væru það innkeyrslur og/eða bílageymslur sem hefðu verið á upprunalegum aðaluppdráttum. Ekki væru fordæmi fyrir tvöfaldri bíla­geymslu innan lóða í hverfinu og kom fram að það samræmdist ekki byggða­mynstri. Skipulags­fulltrúi vísaði þá til þess að samkvæmt samgönguskrifstofu væri tvöföld bílageymsla innan lóðar „töluvert umfram viðmið í reglum um fjölda bíla- og hjóla­stæða í Reykjavík, og er ekki í samræmi við það sem er í nágrenninu“. Var það mat skipulags­fulltrúa að ekki væri heimild fyrir innkeyrslu á lóð nr. 14 við Stýrimannastíg og því ekki leyfilegt að byggja þar bílageymslu.

Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en 1. mgr. ákvæðisins kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sambærileg mál ber að afgreiða á sambærilegan hátt. Eins og kærandi bendir á eru dæmi um bílageymslur á svæðinu sem ekki var gert ráð fyrir á upprunalegum teikningum. Samþykktar teikningar af þeim bílageymslum eru frá árabilinu 1928 til 2009, það er fyrir gildistöku Aðal­skipulags Reykjavíkur 2010–2030 og gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 2040, þegar aðrar áherslur og markmið voru í gildi. Nú er meðal annars markmið í aðalskipulagi að fækka bílastæðum á miðsvæði borgarinnar og fasteignareigendum verði settar þrengri skorður hvað þau varðar.

Aðaluppdrættir sem fylgdu umsókn kæranda um byggingarleyfi sýna tvöfalda bílageymslu innan lóðar hans, en samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir innkeyrslu á lóðina og því hvorki gert ráð fyrir bílastæði né bílgeymslu innan lóðarinnar. Af loftmyndum af svæðinu má þó sjá að svæði norðan við húsið á lóðinni hafi verið nýtt sem innkeyrsla á lóðina og bílastæði. Samkvæmt umsókn kæranda fólst í byggingaráformum hans að bílastæði á lóðinni yrðu tvö, þ.e. inni í bílgeymslunni. Samræmist þetta því ekki fyrrgreindum reglum um fjölda bílastæða og hjólastæða í Reykjavík sem skírskotað er til í gildandi aðalskipulagi.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tvöfaldri bílageymslu á lóð nr. 14 við Stýrimannastíg, Reykjavík.

80/2024 Digranesvegur

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 18. júlí 2024 um að auglýsingaskilti á lóðinni Digranesvegi 81, Kópavogi verði fjarlægt að viðlögðum dagsektum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Digranesvegar 81, Kópavogi, ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 18. júlí 2024 um að auglýsingaskilti á lóð hans yrði fjarlægt innan sjö daga frá móttöku tilkynningarinnar að viðlögðum 50 þúsund króna dagsektum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka sérstaklega afstöðu til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 20. ágúst 2024.

Málavextir: Með umsókn, dags. 6. október 2022, sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir endur­nýjun á skilti á lóð nr. 81 við Digranesveg með því að setja upp LED skilti í stað prentaðs skiltis sem fyrir var. Kæranda voru sendir tölvupóstar, 6. og 10. október 2022 og 11. janúar 2023, þar sem byggingarfulltrúi óskaði eftir teikningum og byggingarlýsingu vegna umsóknar­innar. Umsóknin fékk ekki afgreiðslu þar sem umbeðin gögn bárust ekki.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 2024, upplýsti byggingarfulltrúi kæranda um að auglýsingaskilti á útvegg bílskúrs við Digranesveg 81 hefði ekki verið samþykkt af byggingaryfirvöldum en uppsetning auglýsingaskilta væri leyfisskyld. Krafðist byggingarfulltrúi þess að skiltið yrði tekið niður og slökkt á því án tafar. Var kærandi upplýstur um að ef ekki yrði brugðist við kröfum byggingarfulltrúa eða komist að samkomulagi við byggingaryfirvöld fyrir 15. febrúar s.á. kæmi til skoðunar að leggja á dagsektir í samræmi við gr. 2.9.2. byggingar­reglugerðar nr. 112/2012. Samkvæmt kæranda barst honum ekki framangreind bréf þar sem þau hafi verið send á rangt netfang. Gerði Kópavogsbær ekki athugasemd við þá fullyrðingu og staðfesti að það hefði fyrirfarist að senda umrædd bréf í ábyrgðarpósti.

Byggingarfulltrúi ítrekaði kröfur sínar í bréfi, dags. 22. febrúar 2024, þar sem fram kom að samkvæmt vettvangsskoðun hafi kærandi ekki orðið við kröfu byggingarfulltrúa um tafarlausa fjarlægingu auglýsingaskiltisins. Yrðu því lagðar á dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 frá og með 22. febrúar 2024 í samræmi við gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar. Kærandi sótti að nýju um byggingarleyfi fyrir auglýsingaskiltinu 6. mars 2024 og tekið var fram að verið væri að endurnýja prentað skilti sem hefði verið á þessum stað í 20 ár og setja upp LED skilti þess í stað. Skiltið væri 10 m frá lóðamörkum og 40 m frá nálægustu umferðargötu.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 18. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að veittur væri sjö daga lokafrestur frá móttöku bréfsins til að fjarlægja skiltið, ella yrðu lagðar á dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 fyrir hvern dag sem drægist að vinna verkið. Bæjaryfirvöld sendu kæranda tölvupóst 30. s.m. þar sem honum var tilkynnt að vegna framkominnar kæru á ákvörðun byggingar­­­fulltrúa væri embættið tilbúið að fresta ákvörðun um dagsektir þar til fyrirliggjandi umsókn um byggingar­­leyfi væri afgreidd. Þetta væri háð því að slökkt yrði á skiltinu þegar í stað. Í öðrum tölvu­pósti sama dag var fyrirspurn kæranda um önnur byggingarleyfi vegna LED skilta svarað og þess óskað að beiðni um upplýsingar yrði afmörkuð nánar þar sem ekki væri haldin sérstök skrá um slík leyfi. Þá var upplýst að byggingarfulltrúi hefði til meðferðar önnur skilti sem ekki hefðu viðeigandi leyfi. Kópavogsbær upplýsti síðan úrskurðarnefndina með tölvupósti 7. ágúst 2024, sem kærandi fékk afrit af, að í ljósi þess dráttar sem orðið hefði á að afgreiða byggingar­leyfis­umsókn vegna umrædds skiltið hefði hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa verið frestað þar til umsókn kæranda yrði afgreidd. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst s.á. var umsókn kæranda um byggingar­leyfi frá 6. október 2022 synjað með vísan til umsagnar skipulags­deildar, dags. 8. s.m., og gatnadeildar, ódagsett. Í tölvupósti frá Kópavogsbæ frá 19. september s.á. kemur fram að af hálfu bæjaryfirvalda sé litið svo á að með afgreiðslu fyrri umsóknar hafi síðari umsókn um skiltið einnig verið afgreidd.

Málsrök kæranda: Bent er á að byggingarfulltrúi hafi virt að vettugi grundvallarreglur stjórn­sýslulaga við meðferð málsins. Kæranda hafi ekki verið veittur andmælaréttur vegna ákvörðunar um dagsektir, dags. 18. júlí 2024, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfi byggingarfulltrúa hafi einungis komið fram að yrði skiltið ekki fjarlægt innan 7 daga yrðu lagðar á dagsektir. Þá hafi upplýsingaréttur kæranda verið virtur að vettugi þar sem svör við einföldum fyrirspurnum hafi ekki borist þrátt fyrir ítrekanir. Slíkur réttur sé tryggður með 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi ekki fengið neinar upplýsingar um meðferð umsóknar sinnar um leyfi fyrir skiltinu þrátt fyrir að fjórir mánuðir væru liðnir frá því að hún hafi verið lögð fram. Þá hafi málshraðaregla 1. mgr. 9. gr. og jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslu­laga ekki verið virtar við meðferð málsins. Við beitingu íþyngjandi ákvarðana og refsikenndra viður­laga hvíli sérstaklega ríkar skyldur á stjórnvöldum að virða þessi réttindi borgaranna.

Málsrök Kópavogsbæjar: Vísað er til þess að í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun, í ákvæðinu sé svo kveðið á um undanþágu frá þessu þegar fyrir liggi afstaða aðila í gögnum málsins og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Um matskennda undanþágu sé að ræða en í umræddu máli hafi atvik verið með þeim hætti að andmæli hefðu engu breytt, enda ljóst að skiltið hafi verið án byggingarleyfis. Bent sé á að byggingarfulltrúi hafi frestað réttar­áhrifum ákvörðunar á meðan byggingarleyfisumsókn hafi verið til meðferðar til að gæta meðal­hófs án þess þó að slíkt hafi verið skylt. Kærandi hafi átt í samskiptum við byggingar­fulltrúa eftir að hafa sótt um leyfi fyrir LED-skiltinu, aðallega til að spyrjast fyrir um framgang umsóknarinnar auk fyrirspurnar um fjölda byggingarleyfa fyrir LED-skiltum í Kópavogi. Þeirri fyrir­spurn hafi verið svarað með tölvupósti 30. júlí 2024. Skortur á svörum við ítrekuðum póstum kæranda um framgang málsins, sem hafi borist á tiltölulega stuttu tímabili, valdi ekki ógildi ákvörðunar byggingarfulltrúa sem sé undir í málinu enda hafi byggingarleyfisumsóknin verið afgreidd og hafi kærandi ekki hagsmuni af frekari svörum.

Kröfum kæranda um að ákvörðun byggingarfulltrúa verði frestað á meðan málið sé til með­ferðar hjá nefndinni sé mótmælt enda leiki enginn vafi á að skiltið sé án tilskilinna leyfa og séu ákvæði 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um heimildir byggingarfulltrúa til þvingunarúrræða skýrar. Það sé mat bæjaryfir­valda að skiltið feli í sér slysahættu og að áríðandi sé að það verði fjarlægt sem fyrst.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að um verulega íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða og í henni felist refsikennd viðurlög. Kærandi hafi aldrei fengið að tjá sig um ákvörðun um dagsektir, fjárhæð þeirra eða önnur atriði ákvörðunarinnar.

Kærandi telji að uppfærsla eldra skiltis sem fyrir var á lóðinni í LED skilti sé í raun óveruleg breyting og í umsókn um byggingarleyfi hafi komið fram að slökkt yrði á skiltinu á kvöldin. Skiltið sé 40 m frá vegamótum og uppfylli því skilyrði 2. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007. Ekki hafi verið sótt um deiliskipulagsbreytingu enda hafi Kópavogsbær veitt leyfi fyrir samskonar skilti á sama skipulagsreit án breytinga á deiliskipulagi, þ.e. á lóð nr. 5 við Dalsmára.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að krefjast þess að skilti á byggingu á lóð nr. 81 við Digranesveg verði fjarlægt ásamt ákvörðun um að leggja dagsektir á kæranda fyrir hvern dag sem ekki væri orðið við kröfum um að fjarlægja skiltið. Digranesvegur fellur í flokk sveitarfélagsvega og samkvæmt 9. gr. vegalaga nr. 80/2007 er Kópavogsbær veghaldari hans.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki falla skilti eins og um ræðir í máli þessu undir gildissvið laganna. Þá er fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar segir að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem séu yfir 1,5 m2 að flatarmáli. Þá skal stærð og staðsetning skilta vera í samræmi við gildandi skipulag. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa.

Í 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 kemur fram að spjöld, auglýsingar, ljósaskilti eða sambæri­legan búnað megi eigi setja á eða við veg þannig að honum sé beint að umferð nema með heimild veghaldara. Veghaldari geti synjað um leyfi eða gert kröfu um að slíkur búnaður verði fjarlægður ef hann telji hann draga úr umferðaröryggi, þar á meðal ef misskilja megi hann sem umferðarmerki, umferðarskilti eða vegmerkingu, búnaður tálmi vegsýn eða sé til þess fallinn að draga athygli vegfarandans frá vegi eða umferð.

Í 32. gr. vegalaga er fjallað um fjarlægð mannvirkja frá vegi. Þar kemur fram í 1. mgr. að ekki megi staðsetja byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skurði eða önnur mannvirki, föst eða laus, nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega nema leyfi veghaldara komi til. Þá segir í 2. mgr. að óheimilt sé að reisa mannvirki nema með leyfi veghaldara við vegamót skv. 1. mgr. á svæði sem takmarkist af beinum línum milli punkta á miðlínu vega 40 m frá skurðpunkti þeirra. Veghaldari geti ef sérstaklega standi á fært út mörk þessi allt að 150 m.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er.

Í máli þessu er um að ræða 18 m2 stafrænt skilti sem fellur undir ákvæði laga nr. 160/2010 og er háð leyfi byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. laganna. Fyrir liggur að hið umdeilda skilti var sett upp án byggingarleyfis og hefur umsókn kæranda um slíkt leyfi nú verið synjað. Í ljósi framangreinds verður að telja að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt, á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, að gera kröfu um að skiltið yrði fjarlægt.

Í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa veitt heimild til að beita dagsektum til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglu­gerðum eða láta af ólögmætu atferli. Beiting nefndra þvingunarúrræða er íþyngjandi ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Við mat á því hvort beita eigi þvingunar­aðgerðum, svo sem dagsektum, geta komið til álita ýmis sjónarmið svo sem hversu íþyngjandi aðgerða er krafist af þeim sem úrræðin beinast að, hvort og með hvaða hætti þeir tengjast meintum lögbrotum, hversu mikilvæga almannahagsmuni er verið að tryggja og hversu langur tími er liðinn frá atburði þar til ætlunin er að grípa til aðgerða af hálfu stjórnvalda.

Við mat á því hvort beita eigi dag­sektum þarf sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því. Andmælaréttur málsaðila grundvallast einkum á þeim rökum að honum sé veitt færi á því að gæta hagsmuna sinna áður en ákvörðun er tekin svo og að mál sé nægilega upplýst undir meðferð þess.

Ákvörðun um álagningu dagsekta var tekin af byggingarfulltrúa og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 18. júlí 2024, þar sem honum var veittur sjö daga frestur til að taka niður greint skilti, en kæranda var ekki gefið tækifæri til þess að koma að andmælum. Kærandi var aftur á móti meðvitaður um afstöðu byggingar­fulltrúa um að skiltið skyldi fjarlægt og heimildum hans til að beita dagsektum, sbr. bréf byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 22. febrúar 2024. Þá verður einnig að horfa til þess að með því að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar um beitingu dagsekta þar til niðurstaða umsóknar um byggingar­leyfi lá fyrir hafi sveitarfélagið komið til móts við hagsmuni kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin þeim annmörkum sem ráðið geta úrslitum um gildi hennar og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað. Eins og atvikum máls þessa er háttað þykir þó rétt með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga að áfallnar dagsektir til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 18. júlí 2024 um að auglýsingaskilti á lóðinni Digranesvegi 81, Kópavogi, verði fjarlægt innan sjö daga að viðlögðum 50 þúsund króna dagsektum.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.