Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2025 Svalvogavegur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 45/2025, kæra á afgreiðslu Ísafjarðarbæjar frá 18. ágúst 2023 um að synja um aðgerðir til að færa ós Sandár í Dýrafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. mars 2025, kærir eigandi Steypustöðvarinnar í Dýrafirði, þá afgreiðslu Ísafjarðarbæjar frá 18. ágúst 2023 að synja beiðni um aðgerðir til að færa ós Sandár í Dýrafirði. Er þess krafist að ábyrgð til að verja fasteign Steypustöðvarinnar fyrir ágangi Sandár og/eða vegna sjávargangs verði skilgreind og viðkomandi aðila gert að bregðast við. Einnig er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Ísafjarðarbæjar.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 18. ágúst 2023 óskaði kærandi eftir viðbrögðum Ísafjarðarbæjar vegna landbrots af völdum ágangs sjávar og áróss Sandár í Dýrafirði. Í erindinu kom fram að ágangur sjávar lokaði árósum Sandár á tveggja ára fresti að meðaltali og beindi með því ánni til austurs í átt að mannvirkjum Steypustöðvarinnar. Áður hafi Þingeyjahreppur látið grafa út árósinn reglulega til að viðhalda landamerkjum og vernda mannvirki og eftir sameiningu sveitarfélaga hafi Ísafjarðarbær viðhaldið því að varna ágangi árinnar og sjávar til að vernda mannvirki. Nú væri áin komin nálægt girðingu umhverfis Steypustöðina og væri farin að stefna mannvirkjum hennar í hættu. Var óskað eftir að sveitarfélagið, í samráði við aðliggjandi landeiganda, myndi bregðast við og láta færa ósinn til fyrri vegar. Kæranda var svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kom að beiðninni væri hafnað þar sem um væri að ræða lögbundið hlutverk Vegagerðarinnar sbr. lög nr. 28/1997 um sjóvarnir.

Kærandi vísar til þess að Ísafjarðarbær hafi hafnað skyldu sinni til að verja fasteignir á landi bæjarins í Dýrafirði fyrir ágangi Sandár og/eða sjávar á þeirri forsendu að málið heyri undir Vegagerðina eða Land og skóga. Bærinn hafi hins vegar grafið út ós árinnar alla tíð að eigin frumkvæði og síðast árið 2019. Kæranda hafi borist lögfræðiálit frá sveitarfélaginu í desember 2023 þess efnis að því beri ekki skylda til að verja fasteignir einstaklinga fyrir ágangi sjávar eða áa. Vegagerðin og Land og skógar hafi einnig hafnað ábyrgð sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila. Hin kærða ákvörðun var send kæranda með tölvupósti 18. ágúst 2023 en kæra barst úrskurðarnefndinni 20. mars 2025, eða rúmu einu og hálfu ári síðar. Þar sem meira en ár er liðið frá hinni kærðu ákvörðun verður máli þessu því óhjákvæmilega vísað frá úrskurðar­nefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 28/1997 um sjóvarnir fer ráðherra með yfirstjórn mála er varða sjóvarnir en Vegagerðin með framkvæmd þeirra. Er erindum um framkvæmdir vegna sjóvarna þannig réttilega beint til Vegagerðarinnar eða eftir atvikum til innviðaráðuneytisins.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

181/2024 Nökkvavogur

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 20. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 181/2024, kæra á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að eigandi að Nökkvavogi 24 skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa en ella fjarlægja girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2024, kærir eigandi að Nökkvavogi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 að hann skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins en ella fjarlægja girðingu sem reist hafi verið á lóðarmörkum Nökkvavogar 22 og 24 innan þrjátíu daga frá dagsetningu bréfsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík 3. febrúar 2025.

Málavextir: Í byrjun árs 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að búið væri að reisa girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24 í Reykjavík án þess að fyrir lægi samþykki eiganda aðliggjandi lóðar. Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, var þinglýstum eiganda að Nökkvavogi 24 gert að leggja fram slíkt samþykki eða láta í té skriflegar skýringar vegna málsins innan 14 daga. Umbeðið samþykki eða skýringar bárust ekki og með bréfi, dags. 31. október s.á., gerði byggingarfulltrúi honum að leggja fram samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar innan 14 daga en ella að fjarlægja viðkomandi girðingu innan 30 daga. Í sama bréfi var tilkynnt að byggingarfulltrúi hygðist ekki beita þvingunarúrræðum vegna girðingarinnar, þar sem ekki stafaði almannahætta af henni.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að ónæði hafi verið af óviðkomandi umferð yfir lóð kæranda að Nökkvavogi 24 og því hafi girðing verið reist á lóðarmörkum Nökkvavogs 22 og 24, meðfram runnum sem þar voru. Þessi fyrirætlun hafi verið rædd í vitna viðurvist við eigendur Nökkvavogs 22 á óformlegum fundi úti í garði í október 2022 og þau hafi samþykkt hana. Þegar girðingin var reist hafi þau hins vegar ekki kannast við að hafa gefið samþykki sitt. Eigendur Nökkvavogs 22 hafi síðan farið í framkvæmdir á lóðamörkum sín megin sumarið 2024 og fellt þá runnana sem voru við girðingu kæranda. Kærandi hafi ekki heyrt frá þeim aftur fyrr en þau sendu ábendingu til byggingarfulltrúa og mál þetta hófst. Kærandi álítur að munnlegt samþykki fyrir girðingunni hafi legið fyrir og að byggingarfulltrúi hafi í umsögn vísað í 3. mgr. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sem geri ekki kröfu um að samþykki aðliggjandi lóðarhafa sé skriflegt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að kærandi hafi fengið rúman tíma til að leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa. Þar sem aðliggjandi lóðarhafi hafi gert ábendingu um framkvæmdina sé ljóst að ekki sé samkomulag um girðinguna eins og krafist sé í 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hún hafi verið sett upp í óleyfi og kæranda beri að fjarlægja hana. Ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu ákvörðunarinnar og þess sé krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun í máli þessu er frá 31. október 2024, en hún var birt kæranda 25. nóvember s.á. og miðar nefndin við þann dag sem upphafsdag kærufrests sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæran barst nefndinni 24. desember s.á. eða innan kærufrests. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í báðum erindum byggingarfulltrúa þar sem kæranda er gert að leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa vegna uppsetningar girðingar á lóðamörkum er vísað í e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem segir m.a: „Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.“ Í máli þessu áttu sér stað nokkur samskipti milli kæranda og lóðarhafa Nökkvavogs 22, en ótvírætt er að ekki liggur fyrir undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina og hefur staðhæfingum kæranda um munnlegt samþykki verið mótmælt.

Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 er kveðið á um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki verði fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slíkt verk á hans kostnað. Fyrir liggur að uppsetning umræddrar girðingar á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24 er háð skriflegu samþykki rétthafa að þeim lóðum samkvæmt áðurnefndum e-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar. Slíkt samþykki liggur ekki fyrir. Var byggingarfulltrúa því rétt að taka hina kærðu ákvörðun um að skjólveggurinn skyldi fjarlægður. Með vísan til þessa verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að kærandi skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa en ella fjarlægja girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24.

35/2025 Aflífun hunds

Með

Árið 2025, þriðjudaginn 18. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 

Mál nr. 35/2025, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um aflífun hundsins Bonzo.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. mars 2025, kærir eigandi hundsins Bonzo, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 að aflífa skuli Bonzo. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um frestun réttaráhrifa á meðan kæran er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Í úrskurði þessum er tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kærenda.

Leitað var umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um kæruna í máli þessu og barst hún nefndinni 17. mars 2025.

Málavextir og rök: Hinn 27. október 2024 beit hundurinn Bonzo, sem er í eigu kæranda, einstakling sem var á heimili hans. Bitið var alvarlegt og hinn 13. febrúar 2025 tók heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ákvörðun um að aflífa hundinn. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu sem jafnframt er óskað frestunar réttaráhrifa á.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mótmælir ekki kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa, en krefst þess að málið verði tekið til flýtimeðferðar skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, enda um mikilvæga öryggis- og almannahagsmuni að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um aflífun hunds. Framfylgd ákvörðunar um að aflífa hundinn er eðli máls samkvæmt varanleg og óafturkræf. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2010 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fellst nefndin á að fresta réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um aflífun hundsins Bonzo meðan kæra þeirrar ákvörðunar er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 13. febrúar 2025 um aflífun hundsins Bonzo meðan kæra þeirrar ákvörðunar er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

8/2025 Bráðabirgðaheimild Álfsnesi

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 12. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2025, kæra á ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 um að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 12. janúar 2025 kærir eigandi, Stekk, 162 Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi, þar til starfsleyfi hefur verið gefið út en þó eigi lengur en til 5. janúar 2026. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og orkustofnun 7. febrúar 2025.

Málsatvik og rök: Tvö félög hafa á annan áratug rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi og hafa álitamál vegna þeirra áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis, sem veitt var til fjögurra mánaða frá 5. september 2024. Á meðal þess sem kærandi byggir á er að óeðlilegt sé að hvorki við útgáfu bráðabirgðaheimildarinnar né við framlengingu hennar hafi hagaðilum verið tilkynnt um ákvörðun.

Niðurstaða: Af hálfu Umhverfis- og orkustofnunar hefur verið upplýst að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi veitt starfsleyfi fyrir starfseminni. Var það gefið út 13. febrúar 2025 og gildir til 31. desember 2028. Með vísan til orðalags hinnar kærðu bráðabirgðaheimildar er gildi hennar nú liðið undir lok og hefur hún því ekki lengur réttaráhrif. Á kærandi því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

164/2024 Hraunkot

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 164/2024, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. október 2024 um að samþykkja deiliskipulag frístundasvæðis í Hraunkoti.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2024, kæra A, B, Verkfræðiþjónusta JGB, D, E, F, G og H lóðarleigutakar að Viðeyjarsundi í landi Hraunkots, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. október 2024 um að samþykkja deiliskipulag frístundasvæðis í Hraunkoti. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krefjast kærendur þess jafnframt að þeim verði tryggður réttur til yfirtöku fjögurra lóða á fullu verði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 7. janúar 2025.

Málavextir: Hinn 2. maí 2022 lagði eigandi jarðarinnar Hraunkots, Hraunborgum, Grímsnes- og Grafningshreppi, fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundabyggðina. Samkvæmt tillögunni var meðal annars stærð húsa breytt, lóðum fjölgað og sameining skipulagssvæða, A og B. Umsóknin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 1. júní 2022, þar sem samþykkt var að kynna tillöguna og leita umsagna í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan kynnt og auglýst á vefsvæði umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita frá 16. júní 2022 til 7. júlí s.á.

Gerðar voru breytingar á hinni upphaflegu tillögu til að koma til móts við athugasemdir sem borist höfðu á kynningartímanum og voru breytingarnar samþykktar á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 14. desember 2022 og á fundi sveitarstjórnar 19. s.m.

Var deiliskipulagstillagan því næst auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga með fresti til athugasemda frá 9. febrúar 2023 til 24. mars s.á. Vegna fjölda athugasemda sem bárust mæltist skipulagsnefnd umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita til þess við sveitarstjórn á fundi sínum 27. september 2023 að afgreiðslu málsins yrði frestað. Á fundi sveitarstjórnar 4. október s.á. var samþykkt að fresta afgreiðslu málsins og skipulagsfulltrúa falið að vinna sjálfstæða greinargerð vegna þeirra athugasemda sem höfðu borist.

Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 11. október 2023 var tillagan lögð fram að nýju. Jafnframt voru lagðar fram umsagnir og athugasemdir sem höfðu borist við skipulagstillöguna ásamt samantekt á þeim og uppfærðum gögnum. Á fundinum lagði skipulagsnefndin til að afgreiðslu málsins yrði frestað ásamt því að skipulagsfulltrúa yrði falið að annast samskipti við málsaðila og rekstraraðila varðandi nánari umfjöllun um viðkomandi starfsemi innan svæðisins. Var sú tillaga skipulagsnefndar staðfest á fundi sveitarstjórnar 18. s.m.

Á fundi skipulagsnefndar 28. febrúar 2024 lagði landeigandi fram uppfærða tillögu að deiliskipulagi fyrir Hraunkot. Mælst var til þess við sveitarstjórn að tillagan yrði samþykkt og auglýst aftur á grundvelli 41. gr. skipulagslaga. Á fundi sínum 6. mars 2024 samþykkti sveitarstjórn að auglýsa deiliskipulagstillöguna með fresti til athugasemda frá 14. mars s.á. til og með 26. apríl s.á. Á fundi sveitarstjórnar 8. júlí s.á. var deiliskipulagstillagan lögð fram ásamt athugasemdum sem bárust og andsvörum landeiganda og hún samþykkt. Deiliskipulagstillagan var send Skipulagsstofnun til yfirferðar hinn 17. júlí 2024.

Í umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 13. ágúst 2024, kom fram að stofnunin teldi tillöguna í ósamræmi við ákvæði Aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 hvað varðaði fjölda lóða og stærð frístundalóða, stærð íþróttasvæðis, stærð verslunar- og þjónustusvæðis og ákvæði fyrir útleigu gistirúma á verslunar- og þjónustusvæði. Þá benti stofnunin einnig á önnur atriði sem þyrfti að yfirfara. Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju í skipulagsnefnd umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 25. september s.á. þar sem lögð var fram samantekt á umsögnum, athugasemdum og viðbrögðum skipulagnefndar. Í samantektinni var m.a. bent á að stefnumörkun aðalskipulags setti ekki takmarkanir við fjölda lóða og stærð frístundasvæðis, íþróttasvæðis og verslunar- og þjónustusvæðis heldur lýsti aðeins skilmálum þess deiliskipulags sem var í gildi þegar aðalskipulagið var staðfest. Skipulagsnefnd taldi að brugðist hafi verið við umsögn Skipulagsstofnunar sem barst vegna málsins með fullnægjandi hætti og mæltist til þess að deiliskipulagið tæki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 2. október 2024 var deiliskipulagstillagan samþykkt og tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.

Málsrök kærenda: Vísað er til deiliskipulags frá 20. desember 2007 þar sem segi m.a. að svæði frístundabyggðarinnar, merkt A, sé að mestu fullbyggt, en gert hafi verið ráð fyrir leiksvæðum, sparkvöllum og golfvelli. Heildarfjöldi lóða undir frístundahús hafi verið áætlaður 208 á svæði 1 og 3 og að 21 frístundahús yrðu á svæði 2. Nýtt deiliskipulag, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 29. október 2024, hafi gjörbreytt svæðinu með fjölgun lóða sem m.a. skermi af útsýni og gangi þvert á fyrri loforð og skýringar við sölu leigulóða frá fyrri tíma. Eftir eigi að selja 72 lóðir frá eldra skipulagi og með þéttingu frístundabyggðarinnar bætist 50 lóðir við og verði þá 132 lóðir til sölu.

Með því að gjaldfella þau verðmæti sem fólgin eru í staðsetningu bústaðanna og umhverfi þeirra ásamt því að brjóta á félagslegum og menningarlegum þörfum, heilbrigði og öryggi sé farið gegn markmiðum 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé í byggingarreglugerð nr. 112/2012 leitast við að mannvirki og trjágróður samliggjandi lóða trufli ekki og séu hæðarmörk trjáa tekin fram nema að lóðarhafar semji um annað. Sömu markmið ráði mænishæð húsa í frístundabyggð og sama hljóti að gilda um nýbyggingar á nýjum lóðum. Vegna þessa hafi stjórn Hrauns, félags sumarbústaðaeigenda í Hraunborgum, talið að allar nýjar lóðir undir frístundahús væru háðar samþykki þeirra sem fyrir væru á eldri lóðum og þeim sem byggðar væru samkvæmt eldra skipulagi. Mótmælt hafi verið að frísvæði með göngustígum samkvæmt eldra skipulagi yrði aflagt og nýjar lóðir skipulagðar á því landsvæði. Á því svæði sem göngustígur hafi verið á deiliskipulagi væri búið að leggja skólplagnir fyrir fyrirhugaða bústaði við Rauðavík, en samkvæmt eldra skipulagi hafi þær verið fyrirhugaðar ofar í landinu.

Með sérstöku leyfi hafi verið byrjað að planta trjám á svæðinu og frá árinu 1974 hafi kærendur gróðursett tré á hinum nýju skipulögðu lóðum án athugasemda og hafi með því hefðað þá reiti til gróður- og trjáræktunar. Þá sé svæðið fyrir ofan Hofsvík og neðan Asparvík mikið berjaland. Verið sé að skerða landnotkun, sbr. 43. gr. skipulagslaga, og verðfella lóðir og eignir með breytingum á samþykktu deiliskipulagi sem í gildi hafi verið þegar lóðarleigusamningar voru auglýstir og gerðir af hálfu landeiganda sem jafnframt sé beiðandi deiliskipulagsbreytinganna.

Það sé markmið samkvæmt c-lið 1. gr. skipulagslaga að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi og því sé það krafa að göngustígar og gönguleiðir á fyrra skipulagi verði látnar halda sér. Bent hafi verið á það að með byggingu nýrra lóða á landi milli Skipasunds og Engeyjarsunds sé verið að brjóta gegn b-lið 1. gr. skipulagslaga þar sem segi að tryggja skuli vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu. Landsvæði við Skipasund njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Í skeyti, dags. 13. apríl 2018, hafi byggingarfulltrúi umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita varað við óþarfa raski á landinu vegna framkvæmda við lóð í ljósi þessarar sérstöku verndar. Í tillögu að nýju deiliskipulagi hafi komið fram að á svæðinu sé að finna hraun sem njóti verndar, en á gögnum sé hvergi sýnt hvar það sé.

Tillaga að nýju skipulagi hafi verið auglýst 16. júní 2022 á vefsvæði umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita. Þá hafi ný tillaga verið auglýst 9. febrúar 2023 þar sem tekið hafi verið tillit til athugasemda Hrauns, en jafnframt hafi stórum hluta fyrri tillögunnar verið breytt. Nýrri tillögu hafi verið mótmælt þar sem hún hafi verið ólík þeirri tillögu sem auglýst hafi verið 16. júní 2022. Samkvæmt 12. gr. skipulagslaga verði ekki skipulögð ný lóð við hlið lóðar sem skipulögð hafi verið samkvæmt eldra skipulagi án samráðs við umráðendur eldri lóðar og án þeirra samþykkis.

Mótmælt hafði verið að Lundeyjarsundi og Hólmasundi yrði breytt í stofnbrautir, en göturnar séu botngötur. Íbúar á því svæði búi við lágmarksumferð og telji sig búa við öryggi sem muni hverfa með breytingunni. Þá þoli breidd götustæðis ekki breiðari veg. Þá hafi vegi úr hverfinu upp að Biskupstungum verið breytt í akfæran göngustíg. Öll sú byggð sem ætlunin sé að rísa muni þá hafa eina færa leið úr hverfinu um Engeyjarsund. Stofnvegir í Hraunborgum, Engeyjarsund og Álfasteinssund, séu hvorki tvíbreiðir né einbreiðir, þ.e.a.s. ekki nógu breiðir svo bifreiðar geti mæst án þess að báðar víki út í kant. Breikkun þessara vega sé löngu tímabær, en með aukinni umferð aukist óhöpp sem geti teppt umferð og skapi hættur.

Forsendur þess að fólk fjárfesti í frístundahúsalóðum fjarri þéttbýli sé sú staðreynd að verið sé að fara úr þéttbýli í kyrrðarreit frístundabyggðarinnar. Kærendur telji verulega á sér brotið með því að þétta byggðina og fara þvert á fyrra deiliskipulag, þar sem jaðarlóðir þeirra voru með gott útsýni og beint aðgengi að golfvelli og ásamt því að loforð um að byggð yrði ekki þétt í nánd við lóðir þeirra lá fyrir. Kærendur telji að verðmæti fasteignar þeirra skerðist verulega, umfram það sem við eigi um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, sbr. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga. Sú skerðing sé ekki eingöngu í fjárhagslegu tilliti heldur einnig í ljósi þess að þau gæði sem fólgin hafi verið í staðsetningu og legu lóðanna sem jaðarlóða muni breytast með deiliskipulaginu.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshreppur byggir á því að umrætt deiliskipulag sé ekki haldið neinum form- eða efnisannmörkum sem geti varðað ógildingu þess. Skipulagið sé í samræmi við ákvæði laga og gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum skipulagslaga og stjórnsýslulaga við afgreiðslu þess. Skipulagsvaldið sé í höndum sveitarfélagsins og því eigi kærendur ekki rétt á því að deiliskipulag lóða í kringum leigulóðir þeirra haldist óbreytt til frambúðar. Þurfi því ekki samþykki kærenda fyrir nýjum lóðum undir frístundahús í landi Hraunkots. Sveitarfélagið verði að geta breytt skipulagsáætlunum sínum í samræmi við breyttar þarfir, m.a. hvað varði stækkun frístundabyggðar. Í skipulagslögum nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir því að íbúar þurfi að þola ýmsar takmarkanir á grundvelli laganna og megi lóðarhafar ganga út frá því að til aukinnar uppbyggingar kunni að koma á þegar skipulögðum svæðum. Það fari ekki í bága við skipulagslög að samþykkja breytingu sem feli í sér þéttingu byggðar, þrátt fyrir að hún kunni að valda þeim sem fyrir eru einhverju óhagræði. Það hafi enga þýðingu fyrir gildi deiliskipulags hverju landeigandi kunni að hafa lofað kærendum við leigu lóða á svæðinu eða hvernig lóðaleigusamningum hafi verið háttað, enda sé skipulagsvaldið í höndum sveitarfélagsins og samningar landeiganda geti ekki takmarkað það vald.

Þá feli 12. gr. skipulagslaga ekki í sér að engin ný lóð verði skipulögð án samráðs við eða án samþykkis lóðarhafa eldri lóða á svæðinu. Við breytingu á deiliskipulaginu í landi Hraunkots hafi samráð verið haft við lóðarhafa á svæðinu með því að þeim hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við deiliskipulagið og þeim hafi verið svarað af hálfu skipulagsnefndar Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita og landeiganda. Komið hafi verið til móts við sumar athugasemdir sem hafi borist, en aðrar hafi ekki þótt á rökum reistar. Það sé ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að skera úr um hvort kærendur hafi orðið fyrir tjóni vegna gildistöku hins kærða deiliskipulags. Meint tjón kærenda geti ekki leitt til ógildingar á deiliskipulaginu, enda hafi ekki verið sýnt fram á að það sé haldið ógildingarannmarka að lögum. Tilgangur deiliskipulagsbreytingarinnar hafi einkum verið að nýta innviði svæðisins betur. Allar nýjar lóðir sem séu skilgreindar undir frístundahús samkvæmt deiliskipulaginu séu á landi sem þegar hafi verið skipulagt frístundasvæði. Að mati sveitarfélagsins sé skynsamlegt og rökrétt að nýta núverandi vegi, veitur og innviði og það landsvæði sem sé skilgreint sem frístundasvæði fyrir uppbyggingu fleiri frístundahúsalóða í takt við þróun byggðar og í samræmi við landnotkun á svæðinu, í stað þess að hefja uppbyggingu frístundabyggðar og innviða á öðrum, óröskuðum svæðum innan sveitarfélagsins. Lögmæt og málefnaleg sjónarmið búi að baki fjölgun frístundahúsalóða á svæðinu. Gert sé ráð fyrir opnum svæðum og útivistarsvæðum í frístundabyggðinni ásamt greiðum gönguleiðum innan og utan deiliskipulagssvæðisins.

Hið kærða deiliskipulag feli í sér fjölgun lóða á frístundasvæði og þéttingu frístundabyggðar, ásamt því að tvö skipulagssvæði verði sameinuð í eitt. Deiliskipulagsbreytingin hafi ekki í för með sér breytingu á landnotkun svæðisins eða verulega breytingu á skipulagi þess að öðru leyti. Allar meginforsendur deiliskipulagsins liggi fyrir í gildandi aðalskipulagi, en allt það svæði sem deiliskipulagsbreytingin nái til sé skilgreint sem frístundasvæði í aðalskipulagi. Á deiliskipulagssvæðinu sé gert ráð fyrir að lóðir undir frístundahús séu á bilinu 0,5 til 0,8 ha og að nýtingarhlutfall lóða fari ekki yfir 0,03. Í skilmálum aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps segi að á frístundarsvæðum skuli lóðir að jafnaði vera á bilinu hálfur til einn ha og nýtingarhlutfall allt að 0,03. Deiliskipulagið samræmist því aðalskipulagi að því leyti, en stærð lóða og nýtingarhlutfall þeirra beri skýrlega með sér að um sé að ræða frístundabyggð en ekki þéttbýli. Lóðir í þéttbýli séu almennt undir 1000 m2 að stærð og með mun hærra nýtingarhlutfall. Þannig verði uppbygging á grundvelli deiliskipulagsins ekki líkt við þéttbýli og feli ekki í sér breytingu á landnotkun á svæðinu enda sé áfram um frístundabyggð að ræða.

Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 setji auk þess engar takmarkanir við fjölgun frístundahúsalóða á skipulögðum frístundasvæðum. Þar sé eingöngu gerð grein fyrir þeim fjölda frístundahúsalóða sem hafði verið skipulagður samkvæmt deiliskipulagsáætlunum sem hafi verið í gildi þegar aðalskipulagið hafi verið samþykkt árið 2022, en feli ekki í sér takmörkun á heimiluðum fjölda frístundahúsalóða á viðkomandi svæðum. Var sveitarfélaginu því heimilt að fjölga lóðum í frístundabyggðinni Hraunborgum með breytingu á deiliskipulagi fyrir land Hraunkots. Þá samræmist deiliskipulagsbreytingin stefnu aðalskipulags þar sem segi að frístundabyggð skuli vera sem mest á samfelldum svæðum innan hverrar jarðar svo vegir og veitur nýtist sem best.

Markmiðsákvæði 1. gr. skipulagslaga feli í sér almennar stefnuyfirlýsingar og njóti sveitarfélög svigrúms til mats á því hvernig markmið laganna verði tryggð. Ekkert hald sé í tilvísun kærenda til ákvæðisins í gr. 7.2.2 í byggingarreglugerð 112/2012, en þaksvæðið sé í engum tengslum við umrætt deiliskipulag. Lög nr. 44/1999 séu ekki lengur í gildi og því sé ekkert hald í þeirri málsástæðu kærenda. Frístundasvæðið Hraunborgir hafi nú þegar verið byggt upp með tilheyrandi röskun á svæðinu, en sú fjölgun frístundahúsalóða sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu leiði ekki til aukinnar röskunar á jarðminjum svæðisins frá því sem nú sé. Með deiliskipulagsbreytingunni sé verið að þétta frístundabyggð á landi sem nú þegar sé að verulegu leyti raskað, til þess að ekki þurfi að byggja á óröskuðu landi. Þá hafi landeigandi brugðist við athugasemdum lóðarleigutaka á svæðinu hvað varði verndun hraunmyndana með því að fækka lóðum samkvæmt deiliskipulaginu og breyta fyrirkomulagi þeirra til þess að vernda hraunmyndanir og jarðminjar á svæðinu eins og kostur sé. Komið hafi verið til móts við umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands við deiliskipulagið með breytingum á skipulagi lóða. Hraunmyndanir hafi verið merktar inn á skipulagsuppdrátt með bláum hringjum og því sé það rangt hjá kærendum að hvergi sé sýnt á gögnum hvar sé að finna hraun sem njóti verndar. Syðsti hluti jarðarinnar Hraunkots muni haldast óraskaður og verði mólendi því ekki raskað.

Vegir í frístundabyggðinni Hraunborgum séu einkavegir og sé landeigandi veghaldari. Vegirnir séu ekki flokkaðir sem stofnvegir eða stofnbrautir, enda ekki um að ræða þjóðvegi í skilningi vegalaga nr. 80/2007, auk þess sem þeim sé ekki ætlað að tengja saman þéttbýlisstaði. Frístundahúsaeigendur á svæðinu eigi ekki sérstakt tilkall til þess að deiliskipulag kveði á um að vegagerð verði hrint í framkvæmd innan ákveðinna tímamarka. Bent sé á að í umsögn Vegagerðarinnar frá 23. apríl 2024 um deiliskipulag fyrir Hraunkot segi að ekki séu gerðar athugasemdir við deiliskipulagið enda hafi verið komið til móts við fyrri athugasemdir Vegagerðarinnar sem fram hafi komið í bréfi hennar frá 13. apríl 2023. Þá liggi fyrir umsögn frá eldvarnareftirliti Brunavarna Árnessýslu frá 18. mars 2024 um deiliskipulagið þar sem engar athugasemdir séu gerðar hvað brunavarnir varði. Deiliskipulagið hafi ekki í för með sér breytingu á lóðarmörkum eða minnkun á lóðum kærenda, en lóðamörk séu ekki skilgreind með nákvæmum hætti í skipulaginu.

 Athugasemdir landeiganda: Af hálfu eiganda jarðarinnar Hraunkots er tekið fram að jörðin hafi allt frá áttunda áratug síðustu aldar verið skipulögð undir frístundabyggð. Á jörðinni sé meðal annars þjónustuhúsnæði, tjaldsvæði, golfvöllur og fjöldi leigulóða undir frístundahús. Um nokkurt skeið hafi verið unnið að breytingum á deiliskipulagi til að tryggja frekari uppbyggingu á svæðinu. Með hinu nýja deiliskipulagi sé m.a. kveðið á um fjölgun leigulóða auk þess sem hið nýja deiliskipulag taki til svæðisins sem einnar heildar í stað tveggja deiliskipulaga, líkt og áður hafi verið. Kærendur hafi hvorki greitt meira fyrir lóðirnar né hærri lóðarleigu en aðrir auk þess sem leigusamningar innihaldi hvorki ákvæði sem skuldbindi landeiganda eða aðra til að tryggja óhindrað útsýni kærenda né ákvæði þess efnis að lóðirnar eigi um ókomna tíð að vera á jaðri skipulagssvæðisins. Í leigusamningi sé að finna ákvæði um fjárhelda girðingu sem megi með engu móti skilja sem svo að hún afmarki einhverskonar eignarréttindi kærenda gagnvart landeiganda, enda sé þar vísað til þess að hún skuli vera „umhverfis landareignina“.

Eldra deiliskipulag geti ekki verið til þess fallið að veita leigutökum réttmætar væntingar til að ætla að nýtt deiliskipulag verði aldrei gert. Landeigandi hafi aldrei skuldbundið sig með þeim hætti sem kærendur byggi á. Gætt hafi verið að öllum kröfum og skilyrðum laga, þ. á m. skipulagslaga nr. 123/2010 við meðferð málsins varðandi hið nýja deiliskipulag. Tekið hafi verið tillit til ýmissa sjónarmiða við gerð þess, svo sem með vernd hraunmyndana o.fl. Þá sé því mótmælt að ákvæðum byggingarreglugerðar um trjágróður megi lögjafna þannig að þau taki til mannvirkja, enda sé fjöldi annarra ákvæða byggingarreglugerðar ætlað að tryggja að gætt sé að nábýlisrétti nágranna þegar mannvirki eru annars vegar.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi bendir á að verðlagning lóða á jaðri þágildandi deiliskipulags hafi verið hærri en annarra á sama tíma. Lóðir sem hafi sérstöðu, t.d. staðsettar við vatn eða útivistarsvæði hafi meira verðgildi. Þá hafi eldra deiliskipulag gefið til kynna hvers mætti vænta, sérstaklega í ljósi þess að lega lóðanna hafi verið á mörkum byggðar og útivistar á svæðinu.

Skipulag sé formleg og bindandi áætlun sveitarstjórnar um fyrirkomulag byggðar og mótun umhverfis. Skipulag eigi að tryggja hagkvæma og sjálfbæra nýtingu lands. Þá lúti þétting íbúðarbyggðar öðrum lögmálum en frístundabyggðar þar sem verði að taka tillit til fjarlægðar og víðáttu þar sem það eigi við. Ekki verði séð hvaða þörf hafi verið til þess að gera breytingar á umþrættum jaðri. Þétting byggðar á þeim jaðri sem kærendur hafi talið lóðir sínar vera á breyti verulega umhverfi, nýtingu og verðmætum lóðanna til framtíðar.

Því sé mótmælt að eldra skipulag geti aldrei eitt og sér verið til þess fallið að veita leigutökum réttmætar væntingar til að ætla að nýtt deiliskipulag verði aldrei gert. Kærendur hafi kynnt sér deiliskipulagið við kaupin á leiguréttinum. Þar hafi komið fram að hverfið væri nánast fullbyggt og með vísan til þess, auk áratuga skipulags í Viðeyjarsundi, væri ekki hægt að ætla annað en að sá hluti Viðeyjarsunds sem snúi að kærendum hafi verið fullbyggður.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að samþykkja nýtt deiliskipulag frístundasvæðis í Hraunkoti sem felur m.a. í sér fjölgun lóða og stækkun aðalhúsa, geymslu- og gestahúsa á svæðinu.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Úrskurðarnefndin er því ekki til þess bær að lögum að skera úr um eignarréttarlegan ágreining. Verður því ekki tekin afstaða til gildis slíkra samninga, hefðar eða meintrar skerðingar verðmæta. Að sama skapi er það ekki á sviði úrskurðarnefndarinnar að tryggja kærendum rétt til þess að krefjast yfirtöku fjögurra lóða. Slíkan ágreining um bein eða óbein eignarréttindi verður eftir atvikum að leiða til lykta fyrir dómstólum, en rétt þykir að geta þess að deiliskipulagsákvarðanir geta ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórn gerð skipulagsáætlana og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. gr. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr., en við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags og skal deiliskipulag rúmast innan heimilda aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. nefndra laga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 er landnotkun á hinu umdeilda svæði skilgreind sem frístundabyggð (F45). Hvað teljist til frístundabyggðar samkvæmt skipulaginu eru svæði fyrir frístundahús, tvö eða fleiri og nærþjónusta sem þeim tengist, þ.m.t. orlofshús og varanlega staðsett hjólhýsi. Á bls. 14–15 í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram stefna þess varðandi frístundabyggð auk almennra skilmála. Meðal þeirra atriða sem þar koma fram er að við gerð deiliskipulags sé stefnt að því að frístundabyggð verði sem mest á samfelldum svæðum innan hverrar jarðar, þannig að vegir og veitur nýtist sem best. Gera þurfi grein fyrir aðkomu að húsum og flóttaleiðum, huga að aðkomu sjúkra- og slökkvibifreiða og tryggja gott aðgengi að slökkvivatni. Þá er það stefna aðalskipulags að frístundabyggð verði utan svæða sem mikilvægt er að vernda vegna náttúrufars, auðlinda, náttúruvár, sögu eða útivistargildis. Í almennum skilmálum kemur fram að á frístundasvæðum skuli lóðir að jafnaði vera á stærðarbilinu 0,5–1 ha og nýtingarhlutfall allt að 0,03. Heimilt byggingarmagn sé þó allt að 100 m2 á lóðum sem hafi verið stofnaðar fyrir 2021, þrátt fyrir að þær séu minni en 1/3 af ha, nema meira byggingarmagn sé heimilt skv. gildandi deiliskipulagi. Almennt er gert ráð fyrir að lóðir taki til allt að 2/3 hluta frístundasvæða. Í töflu 2 á bls. 16–18 í greinargerð aðalskipulagsins er yfirlit yfir öll frístundasvæði í sveitarfélaginu og tilgreindur fjöldi lóða á deiliskipulögðum svæðum. Í lýsingu og skilmálum fyrir svæði F45, Hraunborgir (svæði A og B), Hraunkoti, kemur fram að deiliskipulagt sé fyrir 325 lóðir, þar af séu um ¾ þeirra byggðar. Á svæðinu sé jafnframt 21 orlofshús auk veitinga- og þjónustuhúss fyrir byggðina. Sá fjöldi lóða og húsa sem tilgreindur er fyrir svæðið felur í sér lýsingu á gildandi deiliskipulagi þess tíma sem aðalskipulagið tók gildi en felur ekki í sér bindandi hámark við deiliskipulagsgerð.

Í greinargerð með deiliskipulagi Hraunkots kemur fram að meðal þeirra markmiða sem stefnt sé að sé að sameina tvær eldri deiliskipulagsáætlanir í eina þar sem aðeins ein aðalaðkoma er fyrir svæðið. Jafnframt þurfi að skipuleggja nýja rýmingarleið fyrir neyðartilvik. Þá sé stefnt að því að skapa heildarsýn fyrir svæðið sem tekur mið af náttúrulegu umhverfi staðarins. Með deiliskipulaginu verður fjöldi frístundalóða 466 auk þjónustulóðar og golfvallar. Deiliskipulagssvæðið stækki ekki miðað við fyrri deiliskipulagsáætlanir enda sé verið að þétta frístundabyggðina. Þá kemur fram í skilmálum deiliskipulagsins að lóðir fyrir frístundabyggð séu á bilinu 0,5–0,8 ha með örfáum undantekningum og að heildarbyggingarmagn innan hverrar lóðar sé allt að 150 m2 en heildarbyggingarmagn minni lóða skuli taka mið af nýtingarhlutfallinu 0,03.

Í greinargerð deiliskipulagsins er fjallað um brunavarnir á svæðinu. Þar eru tilgreindar tvær flóttaleiðir af svæðinu sem skuli vera burðarhæfar fyrir slökkvibíla auk þess sem kveðið er á um að við gróðursetningu á svæðinu verði gert ráð fyrir allt að 1,5 m öryggissvæði umhverfis hús, þar sem gróðri sé haldið í lágmarki. Þá liggur fyrir umsögn eldvarnaeftirlits brunavarna Árnessýslu vegna deiliskipulagsins þar sem engar athugasemdir voru gerðar. Í kafla greinargerðarinnar um náttúruminjar kemur fram að á skipulagssvæðinu sé að finna hraun sem njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og að forðast skuli röskun þess eins og kostur sé. Þær hraunmyndanir sem séu að finna á svæðinu séu merktar inn á deiliskipulagsuppdrátt og lóðir og götur skipulagðar framhjá þeim. Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að umdeilt deiliskipulag Hraunkots sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulagsins svo sem áskilið er í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Í 61. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Falla þar undir eldvörp, eldhraun, gervigígar og hraunhellar sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökulstíma, sbr. a-lið 2. mgr. 61. gr. laganna. Í 3. mgr. 61. gr. er tiltekið að m.a. beri að forðast að raska jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Við gerð deiliskipulags á svæðum sem njóta sérstakrar verndar skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefnda, sbr. 2. mgr. 68. gr. náttúruverndarlaga. Þessar álitsumleitanir eru liður í rannsókn máls en eru ekki bindandi gagnvart skipulagsyfirvöldum.

Fyrir liggja umsagnir Minjastofnunar, Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna skipulagsins. Athugasemdir Náttúrufræðistofnunar lutu einkum að fuglalífi á svæðinu, en stofnunin benti á að skipulagið gæti haft í för með sér neikvæð áhrif á búsvæði vaðfugla. Í umsögn Umhverfisstofnunar dags. 31. mars 2023 kemur fram að stofnunin telji skipulagstillöguna geta valdið óafturkræfu raski á hrauni sem njóti sérstakrar verndar. Þá var vísað til 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 og að ekki hafi komið fram hvað brýnu almannahagsmunir réttlættu röskun á hrauninu. Vegna þessara athugasemda umsagnaraðila voru gerðar breytingar á deiliskipulagstillögunni þar sem lóðir sem fyrirhugaðar voru á svæðinu voru endurmetnar. Þá voru lóðir ýmist felldar út eða lögun þeirra eða byggingarreit breytt svo minjum og hraunmyndunum yrði ekki raskað.

Skipulagslög áskilja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. c-lið og d-lið 1. gr. laganna. Á öllum skipulagsstigum er lögð áhersla á samráð við almenning og hagsmunaaðila. Í gr. 5.2. í skipulagsreglugerð er nánar fjallað um kynningu og samráð við gerð deiliskipulags og um samráð og samráðsaðila er sérstaklega fjallað í gr. 5.2.1. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta.

Hið kærða deiliskipulag var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Tillagan var afgreidd í skipulagsnefnd að kynningu lokinni, þar sem lögð var fram samantekt á umsögnum og athugasemdum sem höfðu borist. Tillagan var staðfest í sveitarstjórn lögum samkvæmt og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var því farið að lögum við málsmeðferð deiliskipulagsins.

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Rétt þykir að benda á að í 51. gr. skipulagslaga kemur fram að leiði skipulag eða breyting á því til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við eigi um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, eigi sá er geti sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Þá er mælt fyrir um það í 2. mgr. 51. gr. a. sömu laga að sá sem telur sig eiga rétt á bótum skuli senda kröfu sína til sveitarstjórnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. október 2024 um að samþykkja deiliskipulag frístundasvæðis í Hraunkoti.

157/2024 Tungnáreyrar

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 157/2024, kæra á tveimur ákvörðunum sveitarstjórnar Rangárþings ytra, annars vegar frá 9. október 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum og hins vegar frá 13. nóvember s.á. um að samþykkja í þess stað nýtt framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. október 2024 að samþykkja umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi á allt að 50.000 m3 efnistöku á 5 ha svæði á Tungnaáreyrum. Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar 2. janúar 2025 kæra samtökin Náttúrugrið jafnframt ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. nóvember 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á 2,4 ha svæði á Tungnaáreyrum.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er krafist stöðvunar framkvæmda sé efnistaka hafin eða hún yfirvofandi. Þykir málið nægilega upplýst til að taka það til efnislegrar meðferðar og verður því ekki kveðinn upp úrskurður um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 13. desember 2024.

Málavextir: Hinn 15. september 2015 lagði Landsvirkjun fram frummatsskýrslu um Búrfellslund, vindorkuver með allt að 200 MW uppsettu rafafli, norðaustan við Búrfell í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra, til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í mars 2016 var lögð fram matsskýrsla þar sem m.a. kom fram að fjöldi vindmylla yrði 58–67 og hámarkshæð þeirra, miðað við spaða í efstu stöðu, yrði 150 m. Þá voru kynntar þrjár útfærslur á afmörkun framkvæmdarinnar og gerð grein fyrir mögulegri skiptingu hverrar þeirrar í fjóra 50 MW áfanga. Í matsskýrslunni kom fram að gerð hefði verið athugun á mögulegum efnistökustöðum fyrir framkvæmdir í Búrfellslundi og væri efnisþörf áætluð um 700–1.000 m3. Stefnt væri að því að stærstur hluti efnis yrði fenginn úr tveimur námum, Guðmundareyri og úr frárennslisskurði Sultartangavirkjunar vestan Þjórsár. Einnig yrði endurnýtt efni sem kæmi úr uppgreftri af framkvæmdasvæðinu. Kæmi til þess að fyrrnefndar námur hentuðu ekki að öllu leyti við uppbyggingu fyrirhugaðs Búrfellslundar yrði efni sótt í aðrar námur. Tvær þeirra, Trippavað og Tungnaá væru skilgreindar í viðkomandi aðal- og/eða deiliskipulagsáætlunum. Væru efnistökusvæði þau sem ætlunin væri að nýta hvorki á svæðum sem hefðu verndargildi samkvæmt aðalskipulagi né náttúruverndarlögum og yrðu óveruleg áhrif á jarðmyndanir með verndargildi.

Hinn 21. desember 2016 lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að matsskýrslan uppfyllti að hluta skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað það varði að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt svo sem nánar var lýst í álitinu. Hvað efnistöku vegna framkvæmdarinnar varðaði var bent á að hún væri fyrirhuguð á sama svæði og nýtt hefði verið við stækkun Búrfellsvirkjunar. Í skipulagsvinnu vegna þessarar framkvæmdar og umhverfismati þeirra skipulagstillagna þyrfti að gera nánari grein fyrir áformaðri efnistöku og samlegðaráhrifum með efnistöku vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar.

Taldi Skipulagsstofnun að niðurstöður um mikil umhverfisáhrif gæfu tilefni til að skoða hvort önnur landsvæði hentuðu betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi. Þá kynni að vera tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging ætti betur við á þessu svæði, bæði hvað varðaði hæð og fjölda vindmylla. Þyrfti frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að gerast á öðrum vettvangi í ljósi þess að matsferli framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, eins og hún væri nú áformuð, lyki með álitinu. Einnig kynni framkvæmdin að koma aftur til skoðunar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda yrðu breytingar á framkvæmdaáformum.

Um Búrfellslund er fjallað í svonefndri rammaáætlun, þ.e. verndar- og orkunýtingaráætlun skv. lögum nr. 48/2011, þar sem er mótuð stefna á landsvísu um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Virkjunarkostir í vindorku komu í fyrsta sinn til umfjöllunar verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og í lokaskýrslu hennar, dags. í ágúst 2016, var lagt til að Búrfellslundur yrði settur í biðflokk, en í þann flokk er virkjunarkostum skipað þegar talið er að afla þurfi frekari upplýsinga. Í febrúar 2020 birti Landsvirkjun skýrslu um endurhönnun Búrfellslundar með breyttu umfangi þar sem gert var ráð fyrir að uppsett afl virkjunarinnar yrði 120 MW, vindmyllur yrðu 30 í stað 58–67 og afl hverrar þeirrar 4–5 MW í stað 3–3,5 MW áður. Hæð vindmylla var óbreytt og framkvæmdasvæðið minnkað í 18 km2. Ársframleiðsla raforku var áætluð 440GWst í stað 705GWst áður. Tekið var fram að styrkur staðsetningarinnar fælist einnig í þeim innviðum sem þegar væru fyrir hendi og hægt yrði að nýta við uppbyggingu og rekstur virkjunarkostsins, m.a. efnisnámur. Í febrúar 2022 mælti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun, þar sem lagt var til að Búrfellslundur yrði í biðflokki. Við síðari umræðu um ályktunina lágu fyrir álit og breytingartillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar og urðu lyktir þær að Búrfellslundur var settur í orkunýtingarflokk, sbr. samþykkt þingsályktunar nr. 24/152.

Hinn 24. og 28. maí 2024 tóku gildi með auglýsingum í B-deild Stjórnartíðinda breyting á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 vegna Búrfellslundar og deiliskipulag fyrir allt að 120 MW vindlundi við Vaðöldu. Landsvirkjun var veitt virkjunarleyfi Orkustofnunar 12. ágúst 2024 vegna Búrfellslundar. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og með úrskurði uppkveðnum 5. febrúar 2025 í máli nr. 98/2024 hafnaði meirihluti nefndarinnar kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar. Ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 11. september 2024 um að samþykkja að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi til vegagerðar vegna Búrfellslundar sætti einnig kæru til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum 4. mars 2025 í máli nr. 103/2024 hafnaði kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.

Með umsókn, dags. 16. september 2024, óskaði Landsvirkjun eftir því að sveitarstjórn Rangárþings ytra gæfi út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku á allt að 50.000 m3, á allt að 5 ha svæði á efnistökustað E70 við Tungnaá. Tekið var fram að fyrirhuguð efnistaka væri ætluð til framkvæmda við vindorkuver við Vaðöldu sem gengið hefði undir vinnuheitinu Búrfellslundur. Á fundum skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 19. s.m. og 3. október s.á. var lagt til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis. Var niðurstaða nefndarinnar samþykkt á fundi sveitarstjórnar 9. október s.á. Í október 2024 óskaði Rangárþing ytra eftir umsögn forsætisráðuneytisins varðandi efnistökuna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur. Barst umsögn frá ráðuneytinu 21. s.m. þar sem fram kom að af hálfu þess væri ekki gerð athugasemd við að leyfið yrði veitt.

Með tölvubréfi Landsvirkjunar til Rangárþings ytra 5. nóvember 2024 var bent á að eftir nánari athugun og vettvangsskoðun hefði komið í ljós að búið væri að taka um 10.000 m3 á svæðinu og væri hér með óskað eftir því að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 á um 2,4 ha svæði. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. s.m. þar sem fram kom að Landsvirkjun hefði óskað eftir breytingum á fyrrnefndri umsókn um framkvæmdaleyfi. Málið væri því endurupptekið að beiðni félagsins á grundvelli nýrra gagna og upplýsinga. Fyrirhuguð efnistaka væri ætluð til framkvæmda við vindorkuverið við Vaðöldu og væri framkvæmdin ekki matsskyld. Lagt var til við sveitarstjórn að samþykkt yrði útgáfa framkvæmdaleyfis enda væri efnistaka í samræmi við skipulagsáætlanir. Þá væri ekki talin þörf á því að kalla eftir umsögnum að nýju með hliðsjón af því að breytingin fæli í sér að dregið væri úr fyrirhuguðum framkvæmdum. Var lagt til að skipulagsfulltrúa yrði falið að gefa út leyfið og hafa eftirlit með framkvæmdum. Á fundi sveitarstjórnar 13. nóvember 2024 var greind niðurstaða samþykkt og gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi degi síðar fyrir efnistöku á allt að 40.000 m3 af steypu- og fyllingarefni, á um 2,4 ha svæði á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta sé nátengt þremur öðrum kærumálum hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem varða vindorkuverið Búrfellslund. Umfjöllun um þau verði ekki slitin í sundur með vísan til þeirra grunnraka umhverfismatslöggjafar að ekki sé heimilt að skilja að umfjöllun um einstaka þætti framkvæmdar, sbr. einnig tölulið 13.02 í 1. viðauka og v-lið 3. töluliðar 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Hin kærða ákvörðun varði hluta af umhverfismetinni framkvæmd. Ákvörðunin hafi verið tekin án þess að athugun hafi farið fram á samrýmanleika efnistökunnar við bindandi umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, málsmeðferðarreglur laga nr. 111/2021 og skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi heldur verið gætt að því hvort leyfi samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði lægi fyrir eða leyfi Orkustofnunar til efnistöku í þjóðlendum samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Um sé að ræða framkvæmd sem hafi verið hluti leyfisbeiðnar Landsvirkjunar frá 2. september 2024 og kærumál nr. 103/2024 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fjalli um. Engar skýringar komi fram í gögnum máls hvers vegna leyfisbeiðnum sé skipt upp og þær afgreiddar með mörgum leyfum. Ljóst sé að það geri almenningi verulega örðugt fyrir að njóta þátttökuréttar síns.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um frávísun málsins á þeim grundvelli að hin kærða ákvörðun hafi ekki lengur gildi þar sem hún hafi verið endurupptekin vegna beiðni Landsvirkjunar þar um. Kærandi eigi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunnar. Verði ekki á það fallist sé farið fram á frávísun kærumálsins með vísan til þess að kæruefnið uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ljóst sé að gildandi ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi á efnistöku á allt að 40.000 m3 falli ekki undir gildissvið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka laganna. Vísað sé til fordæmis úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í úrskurði nefndarinnar frá 9. október 2024 í máli nr. 90/2024. Þá beri úrskurðarnefndinni að skoða aðild kæranda sjálfstætt í hverju máli.

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé bent á að engir ágallar séu á þeirri ákvörðun sveitarfélagsins að samþykkja framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar. Mótmælt sé þeim fullyrðingum kæranda að efnistaka sú sem um sé rætt í máli þessu sé hluti framkvæmdar við uppbyggingu á vindorkuveri í Vaðöldu. Þótt efnistakan hafi verið tilgreind í matsskýrslu framkvæmdaraðila fyrir Búrfellslund sé engu að síður um sitthvora framkvæmdina að ræða, enda geti framkvæmdaraðili eins nýtt efni til vegagerðar frá öðrum efnistökusvæðum. Ekki verði einungis nýtt efni frá E70 í allar þær framkvæmdir sem fylgi uppbyggingu vindorkuversins við Vaðöldu. Það sé ekki hægt að telja efnistöku á allt öðrum stað en á deiliskipulagssvæði vindorkuversins sem sömu framkvæmd heldur sé um að ræða tvær framkvæmdir í skilningi laga nr. 111/2021. Landsvirkjun sé ekki bundið við að taka efni úr tiltekinni efnisnámu til uppbyggingar vindorkuversins eða tengdra framkvæmda. Töluliður 13.02 í 1. viðauka sömu laga eigi ekki við um efnistökuna, enda sé ekki um að ræða breytingar eða viðbætur á framkvæmd sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum. Þá verði hvorki séð að skylt sé að umhverfismeta efnistökuna, sbr. 2. kafla í 1. viðauka laganna, né að hún sé tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021.

Því sé mótmælt að málsmeðferð Rangárþings ytra hafi verið ómálefnaleg eða að almenningi hafi á einhvern hátt verið gert erfitt fyrir að kynna sér málið. Sveitarfélagið birti fundargerðir nefnda og sveitarstjórnar á heimasíðu sinni sem og framkvæmdaleyfi. Þá hafi ekki þurft að afla leyfis Fiskistofu fyrir efnistökunni þar sem framkvæmdin hafi engin áhrif á t.a.m. fiskigengd.

 Athugasemdir Landsvirkjunar: Leyfishafi fer fram á frávísun málsins á grundvelli sömu sjónarmiða og fram koma í umsögn Rangárþings ytra. Er þar að auki bent á að málið hafi verið endurupptekið hjá sveitarfélaginu áður en framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út og því beri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að vísa kærumálinu frá, sbr. athugasemdir við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í frumvarpi því er orðið hafi að lögunum, þar sem segi að ef óskað sé eftir endurupptöku áður en mál sé kært beri æðra stjórnvaldi almennt að vísa málinu frá.

Verði ekki fallist á framangreint sé bent á að afgreiðsla málsins hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og reglugerða um veitingu framkvæmdaleyfa. Ekki hvíli skylda á sveitarfélaginu að afgreiða hvern og einn hluta umsóknar um leyfi á sama tíma eða með útgáfu sama framkvæmdaleyfis. Ljóst sé að umfangsmiklar framkvæmdir á borð við þá sem hér um ræði feli í sér marga framkvæmdarþætti sem hver og einn geti krafist sjálfstæðs leyfis. Málsmeðferð sveitarfélagsins hafi verið opinber og öllum ljós sem áhuga hafi á að fylgjast með. Brjóti það í engu gegn sjónarmiðum umhverfisréttar, s.s. um þátttöku almennings, þó að almenningur þurfi eftir atvikum að fylgjast með leyfisveitingum sveitarfélagsins um einstaka hluta umfangsmikilla framkvæmda.

Framkvæmdir vegna uppbyggingar vindorkuversins hafi nú þegar sætt ítarlegri og lögbundinni málsmeðferð innan stjórnsýslunnar, þ.m.t. af hálfu leyfisveitenda og umsagnaraðila. Auk þess hafi sveitarfélagið, sem handhafi skipulagsvalds á svæðinu, tekið afstöðu til nýtingar á efni við Tungnaáreyrar í aðalskipulagi, en ávallt hafi legið fyrir þörf á efnistöku vegna framkvæmda við Búrfellslund, s.s. úr Tungnaáreyrum. Svæðið hafi endurtekið verið nýtt til efnistöku um áratugaskeið allt frá því að uppbygging við Búðarhálsvirkjun hafi hafist. Umrædd efnistaka sé ekki úr námu heldur sé aðeins um að ræða töku yfirborðsefnis á svæðinu sem ekki sé framkvæmd með uppgreftri. Efnistakan falli hvorki undir gildissvið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála né laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þrátt fyrir nafngift námunnar beri að árétta að öll eiginleg efnistaka fari fram í meira en 150 m fjarlægð frá bakka og vatnsfarvegi Tungnaár.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur ljóst að með síðari ákvörðun sveitarstjórnar um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku við Tungnaáreyrar hafi hvort tveggja leyfishafi sem og stjórnvald verið að koma sér undan ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum með því að færa rúmmál efnistökunnar niður fyrir þröskuldsviðmið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Um sé að ræða málamyndaákvörðun og beri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að fjalla um fyrri ákvörðunina líka. Jafnframt sé bent á að samkvæmt tölvupósti lögmanns stjórnvalds finnist ekki leyfi fyrir þeirri 10.000 m3 efnistöku sem leyfishafi haldi fram að hafi þegar átt sér stað á umræddum stað.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er annar vegar deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. október 2024 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku á 5 ha svæði á Tungnaáreyrum og hins vegar ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. nóvember s.á. um að veita framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á 2,4 ha svæði á Tungnaáreyrum.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið málsgreinarinnar.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. viðauka við lögin ávallt háðar umhverfismati, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka laganna. Fellur efnistaka þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira undir A flokk í 1. viðauka við lögin, sbr. tölulið 2.01 í 1. viðauka. Undir B flokk fellur efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka við lögin.

Líkt og rakið hefur verið samþykkti sveitarstjórn 9. október 2024 umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi til efnistöku á allt að 50.000 m3 á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum. Á fundi sveitarstjórnar 13. nóvember s.á. var hins vegar samþykkt að endurupptaka og samþykkja breytta umsókn leyfishafa um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á Tungnaáreyrum og var gefið út framkvæmdaleyfi 14. s.m. í samræmi við það, eða vegna efnistöku á allt að 40.000 m3 á efnistökustað E70. Að því virtu hefur ákvörðun sveitarstjórnar frá 9. október s.á. um að samþykkja 50.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum ekki lengur réttarverkan að lögum. Hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirrar ákvörðunar og verður þeim hluta kærumálsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu leyfishafa var gefin sú skýring á breyttri umsókn um framkvæmdaleyfi að komið hefði í ljóst að búið væri taka um 10.000 m3 á svæðinu og væri því óskað eftir því að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 efnistöku. Ekki kemur þó fram hvenær téð efnistaka hafi farið fram en sveitarfélagið hefur bent úrskurðarnefndinni á að við vettvangsskoðun hafi komið í ljós að rask hafi átt sér stað á efnistökusvæði E70, en að engin gögn hafi fundist hjá sveitarfélaginu um rask eða efnistöku á svæðinu. Hvað sem líður ástæðum þess að leyfishafi óskaði eftir breytingum á umsókn sinni liggur allt að einu fyrir að hið umdeilda leyfi er samþykkt var 13. nóvember 2024 tekur aðeins til 40.000 m3 efnistöku. Með þeirri breytingu fór umfang efnistökunnar því undir þau viðmið sem að framan greinir svo hún sé háð ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati, sbr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. tölulið 2.02 í flokki B í 1. viðauka við lögin. Verður jafnframt að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd, sbr. tölulið 13.02 í sama viðauka.

Í 30. gr. laga nr. 111/2021 er heimild til málskots til úrskurðarnefndarinnar bundin við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd, samkvæmt þeim lögum, skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað. Er um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna tekið fram að fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður með vísan til þessa, sbr. einnig b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að álíta að kærandi njóti ekki kæruaðildar hvað varði kæru á ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. nóvember 2024. Að öllu framangreindu virtu verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

169/2024 Urðarhvarf

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 169/2024, kæra á ákvörðun Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2024 um að vísa frá beiðni Akralindar ehf. um að lokaúttekt fari fram á fasteigninni Urðarhvarfi 4.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Akralind ehf., þá ákvörðun Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2024 um að vísa frá beiðni Akralindar ehf. um að lokaúttekt fari fram á fasteigninni Urðarhvarfi 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin beini því til sveitarfélagsins að taka málið til meðferðar án tafar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 6. janúar 2025.

Málavextir: Akralind ehf. seldi fasteignina að Urðarhvarfi 4 með kaupsamningi, dags. 12. maí 2022, til félagsins DCP ehf. Samkvæmt kaupsamningi átti kærandi að láta framkvæma lokaúttekt á fasteigninni í síðasta lagi 1. desember 2022. Með tölvupósti til byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 30. maí 2022 óskaði kærandi eftir lokaúttekt á umræddri fasteign. Ber kærendum og Kópavogsbæ ekki saman um viðbrögð bæjarins við þessu erindi og þau samskipti sem hafi átt sér stað í kjölfarið, en ljóst er af gögnum málsins að deilt var um gerð stoðveggjar á lóðinni sem væri forsenda lokaúttektar af hálfu byggingarfulltrúa.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2022 ítrekaði kærandi beiðni um lokaúttekt og að viðurkennt yrði að ekki væri skylt að reisa umdeildan stoðvegg. Byggingarfulltrúi svaraði 13. janúar 2023 þar sem afstaða hans til lokaúttektar var ítrekuð. Frekari samskipti og fundir áttu sér stað og með tölvupósti 12. júlí 2023 var óskað eftir formlegri ákvörðun bæjarins um það hvort kæranda væri heimilt að ganga frá lóðinni og að fá lokaúttekt. Var erindinu svara sama dag þar sem vísað var til þess að umræddan stoðvegg vantaði og að það hamlaði því að öryggis- og lokaúttekt gæti farið fram. Var kærandi jafnframt upplýstur um fyrirhugað samkomulag bæjarins við kaupanda fasteignarinnar.

Kærandi sendi bæjarlögmanni Kópavogs tölvupóst 14. september 2023 og ítrekaði beiðni sína frá 12. júlí s.á. og óskaði eftir að málið yrði sett í viðeigandi farveg og afgreitt. Í svari bæjarins sem barst 14. s.m. var ítrekuð sú afstaða að málinu væri lokið með samkomulagi við kaupanda fasteignarinnar. Kærandi svaraði sama dag og benti á að sem afsalshafi og samkvæmt kaupsamningi við kaupanda væri það skylda kæranda að fá lokaúttekt. Var erindið ítrekað. Frekari ítrekanir og samskipti áttu sér stað þar til kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis 28. október 2024 með kvörtun vegna tafa Kópavogsbæjar á afgreiðslu beiðni um framkvæmd lokaúttektar.

Með tölvupósti 6. desember s.á. barst kæranda tölvupóstur frá bæjarlögmanni þar sem sagði: „Þegar umbj. þinn selur fasteignina er kveðið á um þann rétt kaupanda að klára lokaúttekt á kostnað seljanda, hafi seljandi ekki gert það fyrir 1. desember 2022. Líkt og áður hefur komið fram í okkar samskiptum hefur Kópavogsbær komist að samkomulagi við núverandi eigendur fasteignarinnar um frágang stoðveggjar sem var forsenda þess að lokaúttekt væri gefin út. Ég sé því ekki að umbj. þinn hafi lögvarða hagsmuni af málinu eða eigi kröfu á að Kópavogsbær taki afstöðu til þeirra teikninga sem hann lagði fram eftir að samið hafði verið við nýja eigendur um gerð stoðveggjarins. Ágreiningur um kostnað við gerð hans er alfarið á milli seljanda og kaupanda sbr. ákvæði kaupsamnings sem vísað er til hér að ofan.“ Er þetta svar bæjarlögmanns hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann eigi lögvarða hagsmuni af málsmeðferð og framkvæmd Kópavogsbæjar á lokaúttekt á fasteigninni að Urðarhvarfi 4. Kærandi sé verktaki og byggingaraðili fasteignarinnar og þrátt fyrir að fasteignin hafi verið seld í maí 2022 sé hann enn afsalshafi hennar. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup sé það eingöngu þegar kaupandi hafi efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi sem hann eigi rétt á afsali úr hendi seljanda. Það hafi grundvallarþýðingu fyrir hagsmuni kæranda að hann sé enn afsalshafi fasteignarinnar enda hafi þá endanlegur eignarréttur verið yfirfærður til kaupanda.

Kærandi beri ábyrgð á mannvirkinu, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar sé kveðið á um að eigandi beri ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra. Í d. lið 4. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 sé vikið að því hverjir teljist eigendur í þessum skilningi, en þar komi fram að sé mannvirki selt í heild eða að hluta áður en lokaúttekt hafi farið fram beri fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. ásamt nýjum eiganda nema um annað sé samið í skriflegum samningi milli þeirra. Skuli þá koma skýrt fram að nýr eigandi gangi inn í samning fyrri eiganda við byggingarstjóra mannvirkisins eða nýr byggingarstjóri sé ráðinn fyrir mannvirkið í heild. Í kaupsamningi kæranda við nýjan eiganda fasteignarinnar hafi ekki verið samið um að kaupandi myndi ganga inn í samning kæranda við byggingarstjóra mannvirkisins eða að nýr byggingarstjóri yrði ráðinn fyrir mannvirkið í heild. Þegar af þeirri ástæðu beri kærandi ábyrgð á mannvirkinu sem eigandi þess í skilningi 15. gr. laga nr. 160/2010. Enn fremur sé kærandi greiðandi byggingastjóratryggingar vegna fasteignarinnar og hafi með vísan til laga nr. 160/2010 og reglugerð nr. 271/2014 um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra augljósa fjárhagslega hagsmuni af því að lokaúttekt fari fram.

Ekki sé um að ræða ágreining um aðild fyrir kærunefndinni heldur aðild að málsmeðferð á fyrsta stjórnsýslustigi. Mikilvægt sé að úr því sé skorið hvort kærandi njóti stöðu aðila máls þar sem honum hafi ekki verið veitt þau réttindi sem aðili máls eigi að njóta á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo sem andmælarétt og rétt á rökstuðningi. Einkaréttarlegur samningur bæjarins við nýjan eiganda fasteignarinnar geti ekki vikið til hliðar lögbundnum skyldum á grundvelli laga nr. 160/2010. Stjórnvald geti ekki undirritað einkaréttarlegan gerning þar sem aukið sé við skuldbindingar aðila máls eða þeim breytt án hans aðkomu og í kjölfarið lýst því yfir að kærandi njóti engra hagsmuna lengur. Þrátt fyrir að kaupandi hafi heimild til að klára lokaúttekt samkvæmt kaupsamningi, felist ekki í því heimild til handa Kópavogsbæ að semja á einkaréttarlegum grundvelli við kaupanda og „kippa úr sambandi“ öllum réttindum kæranda á grundvelli laga nr. 160/2010 og stjórnsýslulaga. Kærandi og kaupandi fasteignarinnar hafi jafna hagsmuni af því að lokaúttekt fari fram og geti annar þeirra ekki skuldbundið hinn með þeim hætti að réttindum hans sé vikið til hliðar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Vísað er til þess að ekki sé neinni kæranlegri ákvörðun til að dreifa í málinu. Afstaða bæjarlögmanns til tiltekins lögfræðilegs álitaefnis, þ.e. hvort kærandi hafi hagsmuni af því að afstaða sé tekin til fyrirspurnar varðandi tillögur um aðra útfærslu á lóðafrágangi, verði ekki jafnað til endanlegrar afgreiðslu málsins í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Engin byggingarleyfisumsókn hafi borist frá kæranda né óskir um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar sem hægt sé að taka afstöðu til. Af tölvupósti bæjarlögmanns verði ekki með óyggjandi hætti ráðið að ákvörðun hafi verið tekin um að vísa erindi hans frá heldur einungis að bæjarlögmaður fái ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af málinu eða eigi kröfu á að bærinn taki afstöðu til þeirra teikninga sem kærandi hafi lagt fram. Því eigi að vísa málinu frá.

Ef ekki verði fallist á frávísun málsins sé byggt á því að rétt hafi verið að líta svo á að kærandi nyti ekki lögvarinna hagsmuna af því að fyrirspurn hans um útfærslu á lóðamörkum yrði tekin til afgreiðslu í ljósi samkomulags bæjarins við kaupendur fasteignarinnar. Því sé ekki mótmælt að kærandi hafi á fundi 27. febrúar 2023 verið beðinn um að leggja inn tillögur að útfærslu annarrar lausnar á lóðamörkum en stoðveggs. Í því hafi hins vegar ekki falist loforð um að slíkar tillögur yrðu samþykktar. Engar tillögur hafi borist frá kæranda fyrr en 12. júlí 2023 og í millitíðinni hafi kaupendur hússins verið í samskiptum við bæinn um gerð stoðveggjarins og 17. júní 2023 hafi verið gerður samningur við kaupendur fasteignarinnar um frágang á stoðveggnum á grundvelli ákvæðis í kaupsamningi milli kæranda og kaupenda. Þar hafi komið skýrt fram að kaupanda væri heimilt að klára lokaúttekt á kostnað seljanda hafi seljandi ekki gert það fyrir 1. desember 2022. Þar sem það samkomulag hafi náðst hafi ekki þótt ástæða til að taka afstöðu til tillögu kæranda að breyttri útfærslu á frágangi lóðarinnar. Kærandi sé ekki lengur eigandi fasteignarinnar og eigi því ekki kröfu á að bærinn geri samkomulag við hann um útfærslu lóðar. Sérstaklega þar sem kaupandi hafi tekið að sér að reisa umræddan stoðvegg með samkomulagi við bæinn. Ekki sé heldur hægt að fallast á að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá lokaúttekt framkvæmda sem ábyrgðarmaður mannvirkis með vísan til þess sem komið hafi fram um heimild kaupanda til að ljúka verkinu á kostnað kæranda.

Í 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki komi fram í 1. mgr. að eigandi beri ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og settra reglugerða á grundvelli þeirra. Þá sé í 4. mgr. ákvæðisins útlistað hverjir teljist vera eigendur samkvæmt ákvæðinu. Samkvæmt d. lið teljist eigandi mannvirkis í byggingu vera eigandi, en sé mannvirki selt í heild eða hluta áður en lokaúttekt hafi farið fram beri fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. ásamt nýjum eiganda, nema um annað sé samið í skriflegum samningi milli þeirra. Ljóst sé að kærandi og kaupandi eignarinnar hafi samið sín á milli um að kaupanda væri heimilt að reisa umræddan stoðvegg á kostnað seljanda. Þá sé vakin athygli á að gerð umrædds stoðveggjar snúi að öryggi vegfarenda á lóðamörkum, en samkvæmt 5. mgr. 36. gr. laga nr. 160/2010 sé óheimilt að gefa út lokaúttektarvottorð uppfylli mannvirki ekki öryggis- og hollustukröfur.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Vísað er til þeirrar afstöðu bæjarins að afstöðu bæjarlögmanns verði ekki jafnað til endanlegrar afgreiðslu málsins þar sem um hafi verið að ræða „bollaleggingar“. Kópavogsbæ beri skylda til þess að haga málsmeðferð sinni í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti. Hafi verið um frummat að ræða hefði átt að taka það skýrt fram og veita kæranda frest til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með formlegum hætti. Afstaða bæjarins beri hins vegar öll merki um að vera endanleg afgreiðsla gagnvart kæranda. Líkt og samskipti aðila hafi borið með sér hafi kærandi margítrekað óskað eftir því að tekin yrði ákvörðun í málinu. Þegar vafi leiki á því hvort um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða eigi almennt að gera ráð fyrir því að stjórnsýslulög gildi fremur en ekki. Hin kærða stjórnvaldsákvörðun hafi komið fram eftir að kærandi hafi leitað til umboðsmanns Alþingis.

Kópavogsbær hafi vísað til 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til stuðnings máli sínu. Ekki hafi hins vegar ekki verið vísað til þess ákvæðis sem skipti öllu máli, þ.e. 2. ml., d-liðar, 4. mgr. 15. gr. laganna, um að skýrt eigi að koma fram að nýr eigandi gangi inn í samning fyrri eiganda við byggingarstjóra mannvirkisins eða nýr byggingarstjóri sé ráðinn fyrir mannvirkið í heild. Það sé augljóst að kaupsamningurinn beri þess ekki merki að svo hafi verið samið. Af þeim sökum teljist kærandi ábyrgðaraðili fasteignarinnar í skilningi ákvæða laga nr. 160/2010. Þá sé ljóst að kærandi hafi ekki samið við kaupanda fasteignarinnar að honum væri heimilt að reisa stoðvegginn á kostnað kæranda heldur hafi hann heimilað kaupanda að ganga frá lokaúttekt í samræmi við þá málsmeðferð sem viðhöfð sé af hálfu sveitarfélaga.

Lög nr. 160/2010 geri ráð fyrir að lokaúttekt skuli fara fram. Ekki sé um að ræða valkvæða skyldu. Það sé hins vegar grundvallarmunur á því að framkvæma lokaúttekt annars vegar og gefa út lokaúttektarvottorð hins vegar. Það sé skylda bæjarins að framkvæma lokaúttekt og það sem komi út úr slíkri framkvæmd marki grunninn að útgáfu lokaúttektarvottorðs, ýmist með útgáfu vottorðs án athugasemda, með athugasemdum eða höfnun á útgáfu. Gerð sé krafa um að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort bærinn hafi brotið gegn málshraðareglu stjórnsýslulaga. Ef svo sé væri nauðsynlegt að úrskurður kvæði á um skyldu til að framkvæma lokaúttekt án tafar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um svar bæjarlögmanns Kópavogs frá 6. nóvember 2024 vegna beiðni kæranda um að lokaúttekt fari fram á fasteigninni Urðarhvarfi 4.

Í fyrrgreindu svari bæjarlögmanns sagði: „Þegar umbj. þinn selur fasteignina er kveðið á um þann rétt kaupanda að klára lokaúttekt á kostnað seljanda, hafi seljandi ekki gert það fyrir 1. desember 2022. Líkt og áður hefur komið fram í okkar samskiptum hefur Kópavogsbær komist að samkomulagi við núverandi eigendur fasteignarinnar um frágang stoðveggjar sem var forsenda þess að lokaúttekt væri gefin út. Ég sé því ekki að umbj. þinn hafi lögvarða hagsmuni af málinu eða eigi kröfu á að Kópavogsbær taki afstöðu til þeirra teikninga sem hann lagði fram, eftir að samið hafði verið við nýja eigendur um gerð stoðveggjarins. Ágreiningur um kostnað við gerð hans er alfarið á milli seljanda og kaupanda sbr. ákvæði kaupsamnings sem vísað er til hér að ofan.“ Að öðru leyti er ekki tekin afstaða til erindis kæranda um lokaúttekt.

Kópavogsbær hefur borið því við í máli þessu að afstöðu bæjarlögmanns í greindu svari verði ekki jafnað til endanlegrar afgreiðslu málsins í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af orðalagi svars bæjarlögmanns verður ekki ráðið að um sé að ræða lokaákvörðun í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga enda hlutverk byggingarfulltrúa að taka endanlega ákvörðun um lokaúttekt mannvirkis, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Kærandi hefur í máli þessu einnig krafist þess að komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að svar Kópavogsbæjar hafi ekki falið í sér lokaákvörðun í skilningi greindrar 26. gr. stjórnsýslulaga að tekin verði afstaða til þess hvort brotið hafi verið gegn málshraðareglu stjórnsýslulaga. Í 9. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að stjórnvald skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Í 4. mgr. 9. gr. kemur enn fremur fram að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, þar á meðal ákvarðanir um lokaúttekt, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hefur kærandi verið í samskiptum við Kópavogsbæ um lengri tíma vegna umdeilds stoðveggjar og lokaúttektar vegna fasteignarinnar að Urðarhvarfi 4 og hefur beiðni kæranda um ákvörðun um lokaúttekt frá 12. júlí 2023 enn ekki verið svarað með þeim hætti að það teljist til lokaákvörðunar í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga. Er því ljóst að afgreiðsla málsins hefur dregist úr hófi. Að þeim atvikum virtum er það mat úrskurðarnefndarinnar að rétt sé af byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að taka erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Rétt þykir að benda á að þegar niðurstaða byggingarfulltrúa liggur fyrir um hvort lokaúttekt verði framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, auk þess sem unnt er að kæra frekari drátt á meðferð málsins til nefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, beiðni kæranda um lokaúttekt á fasteigninni að Urðarhvarfi 4.

175/2024 Kirkjuból

Með

Árið 2025, fimmtudaginn 13. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 175/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2024 um að stöðva notkun skiltis sem stendur á jörðinni Kirkjubóli og slökkva á því.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir S23 ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2024 um að stöðva notkun skiltis sem stendur á jörðinni Kirkjubóli og slökkva á því. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 20. desember 2024, að leggja á kæranda dagsektir kr. 150.000 frá og með 7. janúar 2025 fyrir hvern dag sem ekki væri orðið við kröfum um að fjarlægja greint skilti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 12/2025, sameinað máli þessu þar sem málin eru samofin og kærandi sá sami í báðum málum.

Í báðum framangreindum kærum var krafist stöðvunar réttaráhrifa á meðan málin væru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 10. og 27. janúar 2025.

Málavextir: Hinn 20. maí 2022 var sótt um breytingu á skilti er stendur við Hvalfjarðargöng til skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalsfjarðarsveitar. Fram kom að skiltinu yrði breytt í einnar eða tvíhliða LED upplýsinga- og auglýsingaskilti með klukku og vindmæli. Skiltið yrði að svipaðri stærð og skilti sem fyrir væri. Engar jarðvegsframkvæmdir væru fyrirhugaðar og skiltið yrði sambærilegt öðrum sem víða væri að sjá við þjóðveg 1. Umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar 21. september s.á. þar sem henni var hafnað á grundvelli gr. 6.9.4. og 6.9.5. í þágildandi reglum Hvalfjarðarsveitar um skilti. Með bréfi, dags. 24. september 2022, var tilhögun skiltisins útskýrð nánar og óskað eftir að umsóknin yrði tekin til umfjöllunar að nýju. Það hafi verið gert og fyrri ákvörðun staðfest með vísan til þess að skiltið félli ekki að reglum sveitarfélagsins um skilti.

Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, var umsækjandi leyfisins upplýstur um að byggingarfulltrúi hefði orðið þess var að þrátt fyrir synjun um breytingu á skiltinu hefði umrætt skilti samt sem áður verið reist á gatnamótum við enda Hvalfjarðarganga. Gaf byggingarfulltrúi umsækjandanum kost á að koma á framfæri upplýsingum og gögnum um framkvæmdina áður en gripið yrði til ráðstafana vegna meintrar óleyfisframkvæmdar. Með svarbréfi, dags. 19. febrúar s.á. kom fram að eigendur skiltisins teldu að fyrir lægi leyfi fyrir skilti á þessum stað og hefðu verið í góðri trú við uppfærslu þess. Þessi afstaða byggði á staðfestum og óstaðfestum samtölum við embættismenn sveitarfélagsins veturinn 2022 og sumarið 2023. Samkvæmt þeim samtölum hefði legið fyrir að breyta ætti reglum um skilti í sveitarfélaginu og skiltið myndi falla innan hinna nýju reglna. Á grundvelli þessara samtala hafi verið hafist handa við að uppfæra skiltið. Var óskað eftir að tekið yrði upp samtal um lausn málsins í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi væru.

Byggingarfulltrúi sendi umsækjanda leyfisins bréf, dags. 19. júlí 2024, þar sem vísað var til gildandi ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um skilti. Þá kom fram að hið umdeilda skilti væri háð byggingarleyfi samkvæmt ákvæðum laga og reglugerðar, en slíkt leyfi lægi ekki fyrir. Teldi byggingarfulltrúi að grípa þyrfti til aðgerða á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar, og krefjast þess að hið ólöglega mannvirki yrði fjarlægt. Í svarbréfi til sveitarfélagsins, dags. 4. október s.á., kom fram að sá einstaklingur sem sveitarfélagið hefði beint kröfu sinni að hefði ekki lögmæta hagsmuni af boðaðri stjórnvaldsákvörðun og væri því ekki réttur móttakandi hennar. Viðkomandi hefði aldrei verið eigandi, leigutaki eða lóðarhafi umrædds landskika eða eigandi eða umráðamaður umrædds skiltis. Með sama hætti væri hann ekki leigutaki skiltisins og af því leiddi að erindinu hefði verið beint að röngum móttakanda. Lóðarleigutaki og eigandi skiltisins væri félagið S23 ehf.

Í kjölfarið sendi byggingarfulltrúi bréf til þinglýstra eigenda Kirkjubóls, L133697,  dags. 11. nóvember 2024, þar sem forsaga málsins var reifuð. Þá var fjallað um þau ákvæði laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar er fjalla um skilti og umsókn um byggingarleyfi fyrir þeim. Þá var einnig fjallað um heimildir byggingarfulltrúa til að bregðast við óleyfisframkvæmdum með þvingunarráðstöfunum. Upplýsti byggingarfulltrúi að sem eigendur lóðarinnar bæru þau ábyrgð á að uppfyllt væru skilyrði laga og reglugerðar um ásigkomulag og frágang lóðarinnar. Væri honum því heimilt að beina kröfum sínum varðandi umrætt skilti að þeim. Til viðbótar var bent á að engin lóð hefði verið stofnuð vegna umrædds landskika sem skiltið stæði á og engum leigusamningi hefði verið þinglýst. Fór byggingarfulltrúi fram á að hið ólöglega mannvirki yrði fjarlægt. Yrði ekki farið eftir þeirri ákvörðun væri byggingarfulltrúa heimilt skv. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 að beita dagsektum. Með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 fór byggingarfulltrúi fram á að notkun skiltisins yrði stöðvuð tafarlaust með því að slökkt yrði á skiltinu. Yrði þeirri kröfu ekki sinnt innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins myndi hann láta vinna verkið á þeirra kostnað, sbr. 2. mgr. 55. gr. laganna.

Eigendur Kirkjubóls andmæltu fyrirhuguðum aðgerðum byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 25. nóvember 2024. Var bent á að á umræddum stað hefði verið skilti í yfir 24 ár og að forveri hins nýja skiltis hefði verið þarna í meira en 10 ár. Óumdeilt væri að leyfi hefði verið fyrir skilti á þessum stað og það hafi verið staðfest af fulltrúum sveitarfélagsins. Leigusamningur væri í gildi um landskika undir skiltið og hefði verið frá árinu 2013. Leigutaki væri félagið S23 ehf. og væri félagið einnig eigandi skiltisins. Sá aðili sem ætti hvað mestu lögvörðu hagsmuna að gæta í málinu væri það félag og bæri sveitarfélaginu því að beina erindi sínu að því.

Byggingarfulltrúi sendi í kjölfarið bréf, dags. 29. nóvember 2024, til S23 ehf. þar sem forsaga málsins var reifuð ásamt þeim laga og reglugerðarákvæðum sem málinu tengdust. Þá var bréf byggingarfulltrúa til eigenda Kirkjubóls, frá 11. s.m., meðfylgjandi. Í bréfinu kom einnig fram að engin lóð hefði verið stofnuð um spilduna sem skiltið væri staðsett á og ekki lægi fyrir leigusamningur, þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram að slíkur samningur hefði verið gerður. Vegna upplýsinga um að S23 ehf. hefði hagsmuna að gæta vegna greinds skiltis væri upplýst um þá ákvörðun byggingarfulltrúa að notkun skiltisins yrði stöðvuð tafarlaust og á því slökkt. Yrði það ekki gert fyrir 13. desember myndi byggingarfulltrúi láta vinna verkið á kostnað eiganda landsins, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010. Var afrit bréfsins sent á landeigendur Kirkjubóls.

Með tölvupósti 10. desember s.á. upplýsti framkvæmdastjóri S23 ehf. um vilja til að ná sáttum en vegna erfiðleika við niðurtöku skiltisins og viðkvæms tækjabúnaðar væri veruleg hætta á skemmdum ef slökkt væri fyrirvaralaust á skiltinu sem og niðurtöku þess. Væri það einkum vegna kulda og veðurskilyrða á svæðinu. Kostnaður við skiltið hlypi á tugum milljóna króna og ljóst að skemmdir kynnu að nema háum fjárhæðum ef farið yrði í boðaðar aðgerðir. Var boðist til að gert yrði samkomulag um að slökkt yrði á skiltinu og það tekið niður eigi síðar en 1. júní 2025. Í svari byggingarfulltrúa, dags. 11. s.m., sem sent var bæði landeigendum og S23 ehf., hvatti hann til að slökkt yrði á skiltinu fyrir 13. s.m. Ekki væri spáð frosti á umræddu svæði og aðstæður væru hagstæðar til að slökkva á skiltinu og taka það niður ef vilji væri til, áður en byggingarfulltrúi gripi til áður greindra ráðstafana.

Með bréfum til landeigenda og S23 ehf., dags. 20. desember s.á., krafðist byggingarfulltrúi að slökkt yrði tafarlaust á skiltinu og það fjarlægt. Þá tilkynnti hann að ákveðið hefði verið að leggja dagsektir á eigendur skiltisins sem og landeigendur þar til skiltið yrði fjarlægt sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010. Fjárhæð dagsekta væri kr. 150.000 frá og með 7. janúar 2025.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að á þeim stað sem hið umdeilda skilti standi hafi verið auglýsingaskilti í yfir 24 ár án þess að við það hafi verið gerðar athugasemdir. Óumdeilt sé að leyfi sé fyrir skilti á þessum stað og það hafi verið staðfest af fulltrúum sveitarfélagsins. Það skilti sem verið hafi fyrir núverandi skilti hafi verið 14 m2 á stærð. Engar athugasemdir hafi verið settar fram af byggingarfulltrúa á byggingartíma núverandi skiltis, en uppsetning þess hafi tekið nokkra mánuði.

Fyrstu kröfur gagnvart kæranda hafi komið með bréfi, dags. 11. nóvember 2024, og svo með bréfi, dags. 29. s.m. Þegar íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir séu boðaðar í bréfum verði að vanda til verka enda gildi um slíkar ákvarðanir ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og lög nr. 160/2010 um mannvirki. Gæta verði meðalhófs við töku ákvarðana og forðast að valda óþarfa tjóni.

Ekki hafi verið tilefni til að grípa til þeirra úrræða sem boðuð hafi verið og hvað þá án frekari undirbúnings eða í andstöðu við stjórnsýslulög og lög um mannvirki. Byggingarleyfi sé til staðar fyrir skilti á þeim stað sem um ræði og einungis sé um að ræða nýtt skilti á sama stað og á sama stöpli með nýrri og nútímalegri útfærslu. Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til þess að skiltið fengi að vera eftir samskipti við fulltrúa sveitarfélagsins, bæði fyrir uppsetningu og eftir. Sú skylda hvíli á sveitarfélaginu að sýna fram á að skiltið sé í andstöðu við gildandi byggingarleyfi, en það hafi ekki verið gert.

Kærandi hafi boðist til að slökkva á skiltinu og taka það niður fyrir 1. júní 2025 til að koma í veg fyrir að það yrði fyrir skemmdum. Það að taka skiltið niður tæki nokkrar vikur og væri slökkt á skiltinu fyrirvaralaust lægi fyrir að töluverðar skemmdir yrðu á viðkvæmum tölvubúnaði þess.

Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 160/2010 komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, meðal annars með tilliti til meðalhófs. Við mat á því hvort beita eigi þvingunaraðgerðum geti komið til álita ýmis sjónarmið, svo sem hversu íþyngjandi aðgerða sé krafist gagnvart þeim sem úrræðin beinist að, hvort og með hvaða hætti þeir tengist meintum lögbrotum, hversu mikilvæga almannahagsmuni sé verið að tryggja og hversu langur tími hafi liðið frá atburði þar til ætlunin sé að grípa til aðgerða af hálfu stjórnvalda. Kærandi telji ljóst að reglum um meðalhóf hafi ekki verið fylgt enda fyrirséð að félagið verði fyrir umtalsverðu fjártjóni og eigur þess verði fyrir skemmdum verði gripið til þeirra úrræða að slökkva á skiltinu.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Sveitarfélagið vísar til þess að umrædd framkvæmd sé háð byggingarleyfi og þar sem engin slík heimild liggi fyrir hafi byggingarfulltrúi heimild til að krefjast þess, með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, að notkun skiltisins verði stöðvuð með því að slökkt verði á skiltinu. Þá hafi byggingarfulltrúi heimild til að láta vinna verkið á kostnað landeiganda verði þeirri kröfu ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010. Fyrirsvarsmaður S23 ehf. hafi greint frá því að skiltið sé í eigu félagsins og að félagið hafi umráð með landi sem skiltið standi á. Veittir hafi verið rúmir frestir til að bregðast við kröfum byggingarfulltrúa en ekki hafi verið brugðist við. Fullyrðingar kæranda um að það fari illa með skiltið að slökkva á því og að margar vikur taki að fjarlægja það séu ótrúverðugar og hafi auk þess engin áhrif á réttmæti ákvörðunarinnar. Áður en skiltið hafi risið hafi legið fyrir að óheimilt væri að reisa það enda hefði umsókn vegna þess verið hafnað í tvígang. Vegna þessa sé einnig afar ótrúverðugt að kærandi hafi talið leyfi vera til staðar vegna umrædds skiltis. Þá sé bent á að sá aðili sem upphaflega sendi inn umsókn um leyfi vegna skiltisins hefði verið í stjórn S23 ehf. þar til 14. desember 2024.

Engin lóð hafi verið stofnuð um spilduna er skiltið standi á og engin gögn, nema staðhæfingar landeigenda og fyrirsvarsmanna S23 ehf., liggi fyrir um eignarhald á skiltinu eða leigu S23 ehf. á umræddri lóð. Hinn 23. desember 2024 hafi sveitarfélaginu verið afhentur leigusamningur milli þriðja aðila og annars eiganda Kirkjubóls þar sem fram komi að leigutaka sé heimilt að hafa á skikanum auglýsingaskilti. Engin gögn liggi fyrir um að samningurinn hafi verið framseldur eða að leigutaki hafi nýtt heimild samningsins til framleigu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að óljóst sé hvaða ákvörðun sé í gildi og hafi verið tekin. Sveitarfélagið hafi tekið tvær ákvarðanir vegna skiltisins, annars vegar að slökkt yrði á skiltinu og hins vegar að leggja á dagsektir þar til skiltið verði fjarlægt. Félagið S23 ehf. sé eigandi skiltisins sem sé staðsett í landi Kirkjubóls. Félagið sé leigutaki að landskika þar sem skiltið standi samkvæmt undirrituðum lóðarleigusamningi. Að mati kæranda sé ákvörðun sveitarfélagsins um að slökkt verði á skiltinu liðin undir lok, enda hafi sveitarfélagið ekki ráðist í að slökkva á skiltinu fyrir 13. desember 2024. Ótækt sé að stjórnvald taki tvær ósamrýmanlegar ákvarðanir sem báðar séu til þess fallnar að valda tjóni og gangi lengra en góðu hófi gegni. Sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun um að svara ekki tilraunum til að finna lausn á málinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2024 að gera kröfu um að slökkt verði á LED-auglýsingaskilti sem stendur á jörðinni Kirkjubóli og skiltið fjarlægt. Þá lýtur málið einnig að ákvörðun byggingarfulltrúa um að leggja á dagsektir þar sem fyrirmælum um að fjarlægja skiltið hafi ekki verið fylgt.

Hið umdeilda skilti var samkvæmt gögnum málsins sett upp í stað eldra skiltis sem staðið hafði á sama stað í þónokkur ár. Ljóst er að fyrirsvarsmenn skiltisins og starfsmenn sveitarfélagsins höfðu átt í einhverjum samskiptum fyrir uppsetningu nýs skiltis, þar á meðal hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir skiltinu af fyrrum stjórnarmanni S23 ehf., en þeirri umsókn verið synjað.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Fram kemur 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 að skilti falla undir gildissvið laganna. Í 8. tl. 1. mgr. 60. gr. laganna segir að kveða skuli á um staðsetningu, gerð og frágang skilta í reglugerð auk ákvæða um hvaða skilti skuli háð byggingarleyfi. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m2. Undanþegin byggingarleyfisskyldu eru þó skilti allt að 2,0 m2 að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Í gögnum málsins kemur fram að hið umdeilda skilti sé um 20 m2 og er það því byggingarleyfisskylt, sbr. áðurgreind ákvæði laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Í málatilbúnaði kæranda hefur því verið haldið fram að eldra skiltið hafi verið með byggingarleyfi. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu var umsókn um byggingarleyfi fyrir skilti samþykkt í hreppsnefnd Innri- Akraneshrepps hinn 25. maí 2000. Hins vegar hafi skilyrði fyrir útgáfu leyfis ekki verið fullnægt og leyfið aldrei gefið út.

Kærandi telur einnig að félagið hafi haft réttmætar væntingar til þess að skiltið fengi að vera eftir samskipti við fulltrúa sveitarfélagsins. Þrátt fyrir að kærandi kunni að hafa haft væntingar til þess að skiltið fengi leyfi verður ekki hjá því litið að skýrt er kveðið á um í lögum nr. 160/2010 og byggingarreglugerð að auglýsingaskilti, líkt og um ræðir í máli þessu, séu byggingarleyfisskyld. Þá geta önnur lög, svo sem vegalög nr. 80/2007, umferðarlög nr. 77/2019, sem og reglugerð nr. 941/2011 um auglýsingar meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis gilt um uppsetningu skiltisins. Geta réttmætar væntingar ekki leitt til þess að vikið sé frá ákvæðum laga um byggingarleyfisskyldu eða takmarkað heimildir byggingarfulltrúa til að bregðast við óleyfisframkvæmdum og beitingu þeirra úrræða er finna má í lögum nr. 160/2010.

Í máli þessu hefur byggingarfulltrúi beint kröfum sínum um fjarlægingu skiltisins til bæði eiganda skiltisins, sem og eigendum jarðarinnar Kirkjubóls. Samkvæmt áðurnefndum ákvæðum laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beina kröfum sínum að eiganda jafnt sem umráðamanni mannvirkis eða lóðar. Bera báðir aðilar samkvæmt ákvæðinu ábyrgð á að uppfyllt séu skilyrði laga og reglugerðar. Var byggingarfulltrúa því heimilt að beina kröfum sínum að bæði eiganda skiltisins sem og eigendum Kirkjubóls þar sem hið umdeilda skilti stendur.

Hvað varðar málsmeðferð byggingarfulltrúa vegna málsins verður að telja að kærendum hafi verið veittur kostur á að koma að andmælum sínum í málinu. Verður það ekki talið til annmarka að byggingarfulltrúi hafi ekki stöðvað framkvæmdir á uppsetningartíma hins nýja skiltis enda hafði þáverandi varamaður í stjórn félagsins sótt um og fengið synjun á umsókn um byggingarleyfi fyrir skiltinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir þó rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar um að stöðva notkun skiltis sem stendur á jörðinni Kirkjuból og slökkva á því og sú ákvörðun byggingarfulltrúa að leggja á kæranda dagsektir að upphæð 150.000 kr. frá og með 7. janúar 2025 fyrir hvern dag sem ekki væri orðið við kröfum um að fjarlægja greint skilti.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.

173/2024 Suður Reykjaland

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 12. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 173/2024, kæra á þeirri afgreiðslu skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024  að synja fyrirtöku erindis um heimild landeiganda til að vinna að gerð deiliskipulags á eigin landareign.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. desember 2024, kærir eigandi lands í Mosfellsbæ með landnúmer 125425, afgreiðslu skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024 um að synja því að skipulagsnefnd taki fyrir beiðni hennar um heimild til að vinna að deiliskipulagi á eigin landareign.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 15. janúar 2025.

Málavextir: Hinn 4. maí 2023 sendi kærandi skipulagsnefnd Mosfellsbæjar rökstudda beiðni um heimild til að vinna sjálfur að deiliskipulagi á eigin landareign, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Beiðninni fylgdu drög að deiliskipulagslýsingu þar sem greind voru áform um skipulag landsins. Að fenginni umsögn skipulagsfulltrúa hafnaði nefndin þessari beiðni á fundi 16. júní 2023. Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun 19. s. m. Með tölvupósti til formanns skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 24. október 2024 óskaði kærandi að nýju eftir heimild til að vinna að deiliskipulagi fyrir eigin landareign. Skipulagsfulltrúi bæjarfélagsins svaraði þeirri beiðni í tölvupósti dags. 25. nóvember s.á. með þeim orðum að erindið hefði þegar hlotið efnislega meðferð, verið hafnað með rökstuddum hætti og þar sem eðli og innihald þess væri óbreytt mundi það ekki hljóta frekari fyrirtöku skipulagsnefndar. Sú afstaða er hin kærða afgreiðsla í máli þessu.

Málsrök kæranda/kærenda: Kærandi telur ekki heimilt að synja landeigendum um að gera deiliskipulag á eigin landi. Þá hafi verið skylt að taka erindið frá 24. október 2024 til afgreiðslu í skipulagsnefnd í samræmi við skipulagslög en ekki einungis með afgreiðslu skipulagsfulltrúa.

Málsrök Mosfellsbæjar: Bæjarfélagið bendir á að erindi kæranda frá 24. október 2024 hafi verið algjörlega samhljóða því sem hann hafi sent árið 2023 að því frágreindu að nokkrum skýringarmyndum hefði verið bætt við drög að deiliskipulagslýsinguna, án þess að texta hefði verið breytt. Því hafi skipulagsfulltrúi talið að það hefði þegar fengið tilhlýðilega meðferð og ekki væri hægt að líta svo á að um endurupptökubeiðni hefði verið að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 2024 sem fólst í synjun um að skipulagsnefnd tæki fyrir beiðni kæranda um heimild til að vinna að deiliskipulagi á eigin landareign. Þess er um leið krafist að kærandi „fái heimild til að gera deiliskipulag að eigin landi“. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga fara sveitarstjórnir með vald til skipulags innan marka sveitarfélags og bera ábyrgð á deiliskipulagsgerð. Í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga er m.a. mælt fyrir um að sveitarstjórn geti veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila heimild til að vinna að gerð deiliskipulags. Skal hann þá taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. 1. mgr. 40. gr., og skal hún lögð fyrir sveitarstjórn á sama tíma og beiðni um heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi. Um kynningu, samráð, auglýsingu og samþykkt deiliskipulags fer þá skv. 40. og 41. gr. laganna.

Kærandi beindi erindi sínu í upphafi að formanni skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, sem sendi það áfram til skipulagsfulltrúa til afgreiðslu. Í svari skipulagsfulltrúa við erindinu upplýsti hann að þar sem um sama mál væri að ræða og áður hefði verið afgreitt mundi skipulagsnefnd ekki taka það til afgreiðslu. Við athugun á gögnum málsins sýnist ljóst að um sömu umsókn sé að ræða og fylgdi deiliskipulagslýsingu sem send var Mosfellsbæ 4. maí 2023 og 24. október 2024. Í samræmi við það segir í kæru í máli þessu til nefndarinnar að málinu hafi áður verið synjað af skipulagsnefnd og hafi erindið verið ítrekað. Virðist eðlilegt að líta svo á að í hinni kærðu afgreiðslu hafi með þessu falist synjun um endurupptöku máls eða um afturköllun fyrri ákvörðunar sbr. 24.  og 25. gr. stjórnsýslulaga.

Sá möguleiki borgara að leita til stjórnvalds með erindi sem áður hefur hlotið afgreiðslu þess getur vakið álitamál um hvort líta beri fremur á erindið sem nýtt mál eða beiðni um endurupptöku máls. Það getur haft þýðingu varðandi beitingu réttarheimilda auk þess að ný atvik geta verið komin til. Synjun um afgreiðslu felur ekki í sér breytingu á réttarstöðu umsækjanda. Í þeim tilvikum að fyrir liggur að erindi hafi áður verið synjað virðist því nærtækara að líta svo á að um nýtt mál sé að ræða, sem tekið verði til umfjöllunar sem slíkt. Verður að sýna varúð við að hafna efnislegri umfjöllun um mál við slíkar aðstæður enda þótt færa megi fram almenn rök um að með endurtekinni málsmeðferð sé grafið undan ákvæðum stjórnsýslulaga um endurupptöku mála.

Hvað sem þessu líður verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að erindi kærenda hafi komið til umfjöllunar hjá því stjórnvaldi sem valdbært verður talið til að taka afstöðu til þess, þ.e. skipulagsnefnd sveitarfélagsins Mosfellsbæjar. Liggur því ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds um lyktir máls sem borin verði undir úrskurðarnefndina sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður því að vísa þessu máli frá úrskurðarnefndinni. Jafnframt verður bent á að dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í máli verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2025 Bráðabirgðaheimild Álfsnesi

Með

Árið 2025, föstudaginn 7. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 19/2025, kæra á ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 um að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2025, er barst nefndinni þann sama dag, kærir eigandi, Arnarhóli II, 162 Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi, þar til starfsleyfi hefur verið gefið út en þó eigi lengur en til 5. janúar 2026. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og orkustofnun 5. mars 2025.

Málsatvik og rök: Tvö félög hafa á annan áratug rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi og hafa álitamál vegna þeirra áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar frá 3. janúar 2025 að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis, sem veitt var til fjögurra mánaða frá 5. september 2024. Á meðal þess sem kærandi byggir á er að athugasemdafrestur í auglýsingu um áform um framlengingu bráðabirgðaheimildarinnar, sbr. 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, hafi verið skammur, eða aðeins einn sólarhringur.

Niðurstaða: Af hálfu Umhverfis- og orkustofnunar var við meðferð þessa máls fyrir úrskurðarnefndinni upplýst að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefði veitt starfsleyfi fyrir starfseminni sem gefið var út 13. febrúar 2025 og gildir til 31. desember 2028. Með vísan til orðalags hinnar kærðu bráðabirgðaheimildar er gildi hennar nú liðið undir lok og hefur hún því ekki lengur réttaráhrif. Á kærandi því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni. Sú leiðbeining er um leið gerð að ákvörðun um veitingu starfsleyfis kann þó eftir atvikum að vera kæranleg til nefndarinnar sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 og er kærufrestur þá einn mánuður sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.