Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/1998 Skólatún

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 17. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/1998, kæra eigenda Skólatúns 1, Vatnsleysustrandarhreppi vegna ákvörðunar byggingarnefndar um að synja umsókn þeirra um leyfi til að láta skúr á lóðinni standa áfram og um að skúrinn skuli fjarlægður.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 2. júlí 1998, kæra V og M, Skólatúni 2, Vatnsleysustrandarhreppi í umboði V og S, eigenda Skólatúns 1, ákvörðun byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 5. júní 1998 um að synja umsókn kærenda um leyfi til að láta skúr þann sem stendur á jörðinni standa áfram og um að skúrinn skuli fjarlægður fyrir 10. ágúst 1998.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps hinn 18. júní 1998.  Kæruheimild er skv. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997. Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en jafnframt er þess krafist, að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um að skúrinn fái að standa þar til niðurstaða úrskurðarnefndar í málinu liggi fyrir.

Málavextir:  Kærendur keyptu fasteignina Skólatún 1, Vatnsleysustrandarhreppi af Byggingarsjóði ríkisins með kaupsamningi dags. 30. maí 1996 og var eignin afhent þeim þann dag.   Nokkru eftir að kærendur höfðu fengið eignina afhenta sóttu þeir um leyfi til að byggja 2ja metra háa skjólgirðingu úr timbri við skúr á landi Skólatúns 1.  Á fyrirliggjandi uppdrætti kemur fram að umrædd girðing myndar þrjár hliðar um rétthyrnt, ferhyrnt svæði sem er 8 metra breitt og 9 metra langt en skúrinn, sem girðingin er byggð við, myndar aðra langhlið svæðisins og lokar því.  Á fundi í byggingarnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hinn 18. júlí 1996 var umsókn kærenda um leyfi fyrir skjólgirðingunni samþykkt og gerð um erindið svofelld bókun: „Uppsetning á skjólveggnum er samþykkt.  Ennfremur eru húseigendurnir bent á að klára klæðningu á húsinu.  Byggingarfulltrúa falið að kanna hvort leyfi sé fyrir skúrnum.“

Kærendum var tilkynnt með bréfi byggingarfulltrúa Vatnsleysustrandarhrepps dags. 2. ágúst 1996 að uppsetning á skjólveggjum hefði verið samþykkt á fundi byggingarnefndar hinn 18. júlí 1996 og að húseigendum sé bent á að klára klæðningu á húsinu.  Ekki er í bréfi þessu nefnt að byggingarfulltrúa hafi verið falið að kanna hvort leyfi sé fyrir skúrnum eða nokkuð að skúrnum vikið. Kærendur settu upp girðingu þá sem samþykkt hafði verið en munu áður hafa gert talsverðar lagfæringar á skúrnum.  Mun hafa vakað fyrir kærendum að starfrækja hundagæslu í skúrnum og innan skjólgarðsins og liggur fyrir að þeir hafa reist þar fjögur stór útibúr og komið þar fyrir minni búrum.  Hafa þeir steypt gólf í allt svæðið innan skjólgarðsins og komið fyrir niðurföllum í gólfinu.  Sóttu kærendur ekki um leyfi byggingarnefndar fyrir þessum framkvæmdum.

Áformaður rekstur hundagæslu á staðnum mun eftir þetta hafa verið kynntur með dreifibréfi sem prentað var og látið liggja frammi í nokkrum gæludýrabúðum. Í tilefni af þessari auglýsingu fóru tveir byggingarnefndarmenn ásamt fyrrverandi og núverandi byggingarfulltrúa hinn 2. júní 1998 að Skólatúni 1 og skoðuðu aðstæður á staðnum. Jafnframt komu fram mótmæli allmargra íbúa í Brunnastaðahverfi á undirskriftarlista dags. 4. júní 1998 þar sem þeir mótmæla starfrækslu hundagæslu í hverfinu.  Hinn 5. júní 1998 var lögð fram umsókn f. h. kærenda um að fá leyfi til að láta skúrinn standa áfram á lóðinni að Skólatúni 1 en kærendum hafði við heimsókn byggingarnefndarmanna og byggingarfulltrúa verið bent á að ekki væri leyfi fyrir skúrnum.  Jafnframt lögðu kærendur fram athugasemdir af sinni hálfu þar sem fram kemur að þeir telji sig ekki hafa haft ástæðu til að ætla annað en að leyfi væri fyrir skúrnum.  Á fundi í byggingarnefnd Vatnsleysustrandarhrepps síðar sama dag eða hinn 5. júní 1998 var umsókn kærenda um leyfi til að láta skúrinn standa áfram á lóðinni hafnað og þeim gert að fjarlægja hann fyrir 10. ágúst 1998.  Ákvörðun þessi var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 18. júlí 1998 og eru það þessar ákvarðanir sem kærendur krefjast ógildingar á í máli þessu.

Eftir að mál þetta kom til meðferðar úrskurðarnefndarinnar féllst sveitarstjórn Vatnsleysustrandarhrepps á tilmæli nefndarinnar um að framfylgja ekki ákvörðun byggingarnefndar um að fjarlægja skúrinn meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni.  Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun á framkvæmd þeirrar ákvörðunar.

Málsástæður og lagarök kærenda og sveitarstjórnar:  Kærendur styðja kröfur sínar einkum þeim rökum að þeim hafi ekki verið gert viðvart um það að ekki væri leyfi fyrir umræddum skúr.  Þeir hafi talið svo vera og hafi það styrkt þá trú þeirra að byggingarleyfi var veitt er heimilaði uppsetningu á varanlegum skjólgarði við skúrinn.  Þeim hafi fyrst verið tilkynnt um það í byrjun júní 1998 að bráðabirgðaleyfi hafi verið fyrir skúrnum og það runnið út á árinu 1991.  Hafi byggingarnefnd og hreppsnefnd þannig haft 7 ár til þess að koma athugasemdum á framfæri um þetta efni. Þá benda kærendur á að í næsta nágrenni séu skúrar í miður góðu ástandi sem virðist fá að standa óáreittir.  Telja kærendur ákvarðanir byggingarnefndar og hreppsnefndar í málinu vera geðþóttaákvarðanir en ekki byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Loks telja kærendur að hefðarréttur hafi stofnast fyrir skúrnum eða að tómlæti byggingarnefndar og sveitarstjórnar eigi a. m. k. að leiða til þess að skúrinn fái að standa áfram.

Af hálfu sveitarstjórnar er því haldið fram að kærendur hefðu mátt vita að ekki var leyfi fyrir margnefndum skúr þegar þeir sóttu um leyfi fyrir skjólgirðingunni.  Þeir hafi hins vegar ekki sótt um leyfi fyrir skúrnum fyrr en eftir að byggingu girðingarinnar var lokið.  Þá sé ljóst að vakað hafi fyrir kærendum að haga uppsetningu og nýtingu skjólgirðingarinnar með allt öðrum hætti en gefið hafi verið í skyn með umsókn um byggingu  „skjólgirðingar“.  Hafi kærendur byggt mikið mannvirki innan skjólgirðingarinnar án þess að fyrir þeim framkvæmdum hafi verið nokkurt leyfi.  Af hálfu sveitarstjórnar er byggt á ákvæði 56. gr. laga nr. 73/1997 um heimild byggingarnefndar til þess að fjarlægja ólöglegar byggingar eða byggingarhluta.  Eigi þetta við um hinn umdeilda skúr.  Sé byggingarnefnd ekki settur neinn tímafrestur til að bregðast við óleyfisframkvæmdum og eigi málsástæður kærenda um að tómlæti byggingarnefndar hafi skapað þeim rétt því ekki við í málinu. Byggingarnefnd hafi verið rétt að synja um leyfi fyrir því að skúrinn fái að standa áfram á lóðinni vegna þess að bráðabirgðaleyfi sem veitt hafi verið fyrir skúrnum á árinu 1989 hafi einungis verið til tveggja ára en auk þess liggi fyrir að skúrinn uppfylli ekki ákvæði byggingarreglugerðar og standist ekki þær kröfur sem gerðar séu til slíkra mannvirkja.  Er af hálfu sveitarstjórnar vitnað til þriggja dóma Hæstaréttar sem hún telur styðja sjónarmið sín í málinu.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni þetta. Í umsögn stofnunarinnar kemur fram það álit  að byggingarnefnd hafi verið rétt að krefjast niðurrifs skúrsins með vísun til 5. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997 enda hafi bráðabirgðaleyfi fyrir skúrnum verið runnið út og hann ekki staðist þær kröfur sem gerðar séu í byggingarreglugerð.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 31. ágúst 1998 að viðstöddum umboðsmanni kærenda og fulltrúum og lögmanni Vatnsleysustrandarhrepps.  Skúr sá sem um er deilt í máli þessu er járnklæddur timburskúr og ber með sér að á honum hafa verið gerðar allnokkrar endurbætur.  Við skúrinn hefur verið byggð skjólgirðing sú sem byggingarnefnd heimilaði hinn 18. júlí 1996 og er ágætlega frá henni gengið. Innan skjólgirðingarinnar hafa verið byggð allmikil mannvirki eins og lýst er í greinargerð hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps í málinu.

Niðurstaða: Hinn 18. júlí 1996 fengu kærendur leyfi byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps til að setja upp skjólgirðingu við skúr á lóð sinni að Skólatúni 1. Skjólgirðing þessi er að mati úrskurðarnefndar varanlegt mannvirki, áföst við hinn umdeilda skúr og tengd honum með þeim hætti að tilvist skúrsins er augljós forsenda girðingarinnar.  Með því að samþykkja uppsetningu skjólgirðingarinnar samkvæmt fyrirliggjandi uppdrætti, án fyrirvara, gaf byggingarnefnd kærendum því tilefni til þess að ætla að byggingarleyfi væri fyrir skúrnum eða að slíkt leyfi myndi að öðrum kosti verða veitt.  Ekki er um það deilt í málinu að land það sem hinn umdeildi skúr stendur á tilheyrir fasteign kærenda að Skólatúni 1 og höfðu kærendur því ekki ástæðu til að kynna sér sérstaklega lóðarréttindi skúrsins umfram lóðarréttindi annarra mannvirkja á landinu.

Við umfjöllun sína um umsókn kærenda um leyfi fyrir girðingunni tók byggingarnefnd réttindi skúrsins til athugunar enda er bókað á fundi byggingarnefndar hinn 18. júlí 1996 að byggingarfulltrúa sé falið að kanna hvort leyfi sé fyrir skúrnum. Í bréfi til kærenda dags. 2. ágúst 1996 er kærendum kynnt bókun byggingarnefndar um umsókn þeirra um skjólgirðinguna þar sem fram kemur að uppsetning á skjólveggjum hafi verið samþykkt en ekki er þess þar getið að byggingarfulltrúa hafi verið falið að kanna hvort leyfi sé fyrir skúrnum. Verður ekki séð af gögnum málsins að kærendum hafi nokkru sinni verið gerð grein fyrir því að ekki væri leyfi fyrir skúrnum fyrr en í byrjun júní 1998. Sú fullyrðing sem fram kemur í greinargerð Vatnsleysustrandarhrepps að kærendum hafi verið ljóst að hinn umdeildi skúr væri leyfislaus er ekki studd neinum gögnum.  Verður sveitarstjórn að bera hallann af þeim vafa sem er um þetta atriði í málinu enda var það á hennar færi að fylgja eftir fyrri ákvörðun byggingarnefndar frá 20. september 1989 um að leyfa skúrinn aðeins tímabundið til tveggja ára.  Einnig var það á valdi sveitarstjórnar að láta þinglýsa á fasteignina Skólatún 1 bráðabirgðaleyfi því, sem veitt var fyrir skúrnum, með þeim takmörkunum á réttindum sem í því fólust.

Fyrir liggur að kærendur keyptu eignina Skólatún 1 af Byggingarsjóði ríkisins  hinn 30. maí 1996.  Er í kaupsamningi þeirra um eignina tekið fram að seljandi hafi eignast hina seldu eign á nauðungaruppboði og sé því ekki fullkunnugt um ástand hins selda.  Verður að ætla að hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hafi mátt vera kunnugt um þessar aðstæður og um takmarkaða vitneskju kærenda um eignina enda var kaupsamningi þeirra framvísað á skrifstofu Vatnsleysustrandarhrepps til þess að hreppsnefnd gæti tekið afstöðu til forkaupsréttar.  Er á samningnum áritun hreppsins um að fallið sé frá forkaupsrétti.

Eins og atvikum er háttað í máli þessu þykir byggingarnefnd Vatnsleysustrandarhrepps ekki hafa gætt réttrar aðferðar við meðferð erinda kærenda varðandi umræddan skúr.  Í fyrsta lagi telur úrskurðarnefndin að byggingarnefnd hafi þegar á árinu 1996, við afgreiðslu á umsókn kærenda um varanlega skjólgirðingu við skúrinn, borið að aðvara þá um að skúrinn skorti réttindi áður en leyfi fyrir henni var veitt. Í öðru lagi telur úrskurðarnefndin að rökstuðningi fyrir synjun byggingarnefndar hinn 5. júní 1998 á umsókn kærenda um leyfi til að láta hinn umdeilda skúr standa áfram á lóðinni hafi verið svo  áfátt að eigi hafi verið fullnægt skilyrðum 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Er hér vísað til þess að í rökstuðningi nefndarinnar er fullyrt að skúrinn standist ekki kröfur sem gerðar eru í byggingarreglugerð án þess að tilgreint sé hvaða kröfur það séu sem skúrinn teljist ekki standast.  Verður ekki ráðið af bókun nefndarinnar undir liðnum 2. mál, þar sem fjallað er um starfrækslu hundagæslu á eign kærenda og framkvæmdir henni tengdar, hvort reglugerðarákvæði sem þar eru tilgreind eru talin eiga við um skúrinn  eða þau mannvirki, sem byggð hafa verið innan skjólgarðsins. Loks er það skoðun úrskurðarnefndar að byggingarnefnd hafi borið að leiðbeina kærendum er þeir sóttu um leyfi fyrir skúrnum hinn 5. júní 1998 um það hvaða skilyrðum byggingarreglugerðar þyrfti að fullnægja til þess að til álita gæti komið að veita leyfi það sem um var sótt.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 5. júní 1998, sem staðfest var af sveitarstjórn 18. júní 1998, um að synja umsókn kærenda um leyfi fyrir hinum umdeilda skúr og um að skúrinn skuli fjarlægður.  Ber að gefa kærendum kost á að sækja að nýju um leyfi fyrir skúrnum með þeim breytingum sem nauðsynlegt  kann að þurfa að gera til þess að fullnægt sé lágmarkskröfum byggingarreglugerðar um sambærileg mannvirki.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 5. júní 1998 sem staðfest var af sveitarstjórn þann 18. sama mánaðar er felld úr gildi.  Gefa ber kærendum kost á að sækja að nýju um leyfi fyrir skúr þeim, sem hin kærða ákvörðun varðar, með þeim skilmálum sem að framan greinir.

26/1998 Keilugrandi

Með

Ár 1998, föstudaginn 4. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/1998, kærur eigenda Fjörugranda 2, 14, 16, og 18  vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 1998 um að veita Grýtu-Hraðhreinsun ehf. leyfi til að breyta austureiningu húseignarinnar að Keilugranda 1 til reksturs þvottahúss með brennslu svartolíu og reisa þar 12 metra háan reykháf.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 5. júlí 1998 sem móttekið var 6. sama mánaðar kæra M, Fjörugranda 14, Á, Fjörugranda 16 og E, Fjörugranda 18 byggingarleyfi til breytinga á starfsemi og húsnæði að Keilugranda 1 í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun er samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 14. maí 1998 á umsókn Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. um leyfi til að breyta austureiningu Keilugranda 1 til reksturs þvottahúss með brennslu svartolíu og til að setja upp 12 metra háan reykháf við húsið.  Ákvörðun þessi var staðfest af borgarstjórn hinn 4. júní 1998.  Með kæru dags. 6. júlí 1998, sem móttekin er hinn 7. sama mánaðar, kærir Tryggvi Gunnarsson hrl. f. h. eigenda Fjörugranda 2, Reykjavík,  sömu ákvörðun.  Ákvað úskurðarnefndin að sameina kærur þessar og fjalla um kæruefnið í einu máli enda eru kröfur kærenda hinar sömu og reistar á sömu eða sambærilegum ástæðum.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Af hálfu eigenda Fjörugranda 2 er gerð sú varakrafa að hinni kærðu ákvörðun verði breytt þannig að ekki verði heimilaðar breytingar á húsnæðinu eða viðbætur við það (reykháfur) til brennslu á svartolíu.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 sbr. 8. grein sömu laga.

Málavextir:  Hinn 1. október 1997 lagði Grýta-Hraðhreinsun ehf. fyrirspurn fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur um það hvort leyft yrði að byggja 80 fermetra viðbyggingu úr timbri fyrir ketilhús og verkstæði við austurhlið hússins nr.  1 við Keilugranda.  Fyrirspurn þessari var af hálfu byggingarnefndar vísað til umsagnar Borgarskipulags Reykjavíkur.  Lá umsögn Borgarskipulags fyrir hinn 29. október 1997 og kemur fram í henni að fyrirhuguð starfsemi sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Er því lagt til að leyfi fyrir viðbyggingunni verði veitt tímabundið og bundið við starfsemi þá sem sótt er um en viðbyggingin sé til komin af öryggisástæðum.  Einnig er tekið fram að samþykki eigenda Boðagranda 2 þurfi að liggja fyrir og að kynna þurfi breytinguna fyrir eigendum nálægra húsa við Boðagranda og Fjörugranda.  Byggingarfulltrúi óskaði umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um málið með bréfi dags. 24. nóvember 1977.  Í umsögn þess er gerð grein fyrir ákvæðum laga og reglugerða sem gæta þurfi og er leitast við að leggja mat á hættu á loftmengun frá hinni fyrirhuguðu starfsemi.  Taldi Heilbrigðiseftirlitið ekki ástæðu til að leggjast gegn staðsetningu þvottahúss á þessum stað enda yrði tryggt eftir föngum að loftmengun ylli nágrönnum ekki heilsutjóni eða óþægindum.  Á fundi byggingarnefndar hinn 11. desember 1997 var lögð fram umsókn Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. um byggingarleyfi. Fylgdu umsókninni uppdrættir, sem m. a. sýna fyrirhugað ketilhús og 8,5 metra háan reykháf.  Var málinu frestað með vísun til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en í umsögninni hafði verið lagt til að umsækjanda yrði gert að leggja fram útreikninga og skýringar er sýndu að fyrirhuguð skorsteinshæð nægði til að tryggja að loftmengun við nærliggjandi íbúðarhús væri innan ásættanlegra marka áður en málið yrði endanlega afgreitt af byggingarnefnd.  Með bréfi verkfræðings umsækjanda til byggingarfulltrúa dags. 20. janúar voru kynntir útreikningar á skorsteinshæð og kemur fram að 12 metra skorsteinshæð sé fullnægjandi til þess að tryggja að loftmengun við nærliggjandi hús verði ásættanleg. Á fundi byggingarnefndar hinn 29. janúar 1998 var erindi Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. vísað til skipulags- og umferðarnefndar til kynningar.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar var ákveðið að kynna erindi Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. fyrir nágrönnum með vísun til 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og var húseigendum að Boðagranda 2, 6, og 8 og Fjörugranda 14, 16 og 18 gefinn kostur á að tjá sig um málið og koma að athugasemdum fyrir 13. mars 1998.  Einnig mun eiganda Fjörugranda 8 hafa verið sent erindi sama efnis.  Áður en frestur til athugasemda rann út bárust  Borgarskipulagi athugasemdir frá meirihluta þeirra sem málið hafði verið kynnt fyrir en jafnframt mótmæli fjölda annarra íbúa og eigenda fasteigna við Fjörugranda, Boðagranda og Keilugranda.  Lagði Borgarskipulag til að tekið yrði tillit til íbúa og bygging ketilhúss ekki leyfð.  Í framhaldi af þessari niðurstöðu lagði Grýta-Hraðhreinsun ehf. fram nýja uppdrætti þar sem fallið var frá byggingu ketilhússins en ketillinn færður inn í hús það sem fyrir er á lóðinni og aðeins reykháfi við hann ætlað að standa utan við austurvegg hússins.  Í umsögn Borgarskipulags vegna þessarar breytingar dags. 20. mars 1998 er lagt til að starfsemin verði leyfð tímabundið, leyft verði að reisa skorstein sem fullnægi kröfum Heilbrigðiseftirlits og að bílastæðum verði fækkað.  Á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 23. mars 1998 var samþykkt að kynna nýjar teikningar fyrir hagsmunaðilum. Var þeim nágrönnum, sem áður höfðu verið kynnt fyrri áform og sent höfðu inn athugasemdir af því tilefni,  sent erindi til kynningar á hinum nýju teikningum og gefinn kostur á að tjá sig um þær fyrir 2. apríl 1998. Íbúar Fjörugranda 14, 16 og 18 áréttuðu fyrri mótmæli og gerðu athugasemdir við hinn stutta frest, sem veittur var til andsvara. Rituðu þeir jafnframt, ásamt íbúum að Keilugranda 8, bréf til borgarstjóra þar sem sjónarmið þeirra voru rakin.

Umsókn Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. var samþykkt í byggingarnefnd hinn 14. maí 1998 og staðfest í borgarstjórn 4. júní 1998.  Frekari mótmæli voru send Borgarskipulagi vegna þessara ákvarðana, m. a. mótmæli eigenda Fjörugranda 2, kærenda í máli þessu, sem mótmæltu því að þeim hefðu ekki verið kynntar fyrirhugaðar breytingar.  Með kærum sem að ofan greinir vísuðu kærendur málinu síðan til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Málsástæður og lagarök málsaðila:  Af hálfu kærenda er í fyrsta lagi á því byggt að byggingarleyfi það, sem um er deilt í málinu, sé ekki í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Samkvæmt staðfestu aðalskipulagi fyrir Reykjavík 1996-2016 sé svæði það sem lóðin nr. 1 við Keilugranda er á áætlað til blandaðrar notkunar, íbúðar- og stofnanasvæði. Fyrir liggi staðfesting Borgarskipulags á því að starfsemi sú, sem byggingarleyfishafi ætli að hafa í húsinu sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 sé óheimilt að veita leyfi til framkvæmda nema þær séu í samræmi við staðfest aðalskipulag og sé enga heimild að finna í lögum til að veita byggingarleyfi í andstöðu við aðalskipulag. 

Í öðru lagi benda kærendur á að hið umdeilda byggingarleyfi sé ekki í samræmi við samþykkt hverfaskipulag.  Hverfaskipulag sé skipulagsáætlun sem fjalli um flesta þætti skipulags svo sem húsnæði, umferð og umhverfi.  Með því séu sett ákveðin markmið.  Í hverfaskipulagi fyrir svæði það sem hér um ræði komi fram sú stefna að tilgreindum atvinnulóðum á svæðinu skuli breytt í íbúðar- og útivistarsvæði þar sem atvinnustarfsemi í hverfinu sé á undanhaldi.  Eigi þetta m. a. við um lóðina að Keilugranda 1.  Í samræmi við þetta hafi notkun lóðarinnar verið breytt í því aðalskipulagi, sem staðfest var 1997, í íbúða- og stofnanasvæði en skilgreining lóðarinnar sem stofnanasvæði hafi komið til vegna hugmynda um að reka í húsnæði á lóðinni rannsókna- og kennslustarfsemi.  Telja kærendur að með samþykkt hverfaskipulagsins hafi Reykjavíkurborg sem stjórnvald tekið bindandi ákvörðun um það efni sem þar birtist og verði þeirri ákvörðun ekki breytt nema með sambærilegri ákvörðun.  Fyrirhugaðar framkvæmdir feli í sér verulegt frávik frá þeirri byggð sem fyrir sé á svæðinu og skerði hagsmuni kærenda í ríkara mæli en þeir máttu ætla með tilliti til aðalskipulags og áðurgreinds hverfaskipulags.

Í þriðja lagi telja kærendur að ekki hafi verið heimilt að veita hið kærða byggingarleyfi á grundvelli undantekningarheimildar 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvæðið feli ekki í sér skilyrðislausa heimild til afgreiðslu umsókna um byggingarframkvæmdir að undangenginni grenndarkynningu enda sé slík lögskýring ótæk.  Ákvæðið beri að túlka þröngt og sé á grundvelli þess ekki heimilt að samþykkja byggingarleyfi sem fari í bága við skipulagsáætlanir sbr. staðfest aðalskipulag og samþykkt hverfaskipulag.

Í fjórða lagi halda kærendur því fram að lagaskilyrðum um grenndarkynningu hafi ekki verið fullnægt. Hafi grenndarkynningin ekki tekið til allra þeirra sem hagsmuna áttu að gæta en auk þess hafi kynningu á nýju og breyttu fyrirkomulagi verið áfátt meðal annars hvað varðar frest til athugasemda.  Skilyrði 7. mgr. 43. gr. laga nr 73/1997 hafi því ekki verið fullnægt.

Þá er af hálfu kærenda á því byggt að lóðin að Keilugranda 1 sé leigð undir fiskverkun og felist í þeim skilmálum kvöð um umráða- og notkunarrétt á lóðinni.  Hafi þessari kvöð um nýtingu lóðarinnar ekki verið aflétt.  Ennfremur telja kærendur málið ekki nægjanlega upplýst svo og að samþykkt byggingarnefndar uppfylli ekki kröfur um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar og rökstuðning.  Eru þessar málsástæður reifaðar ítarlega í kæru eigenda Fjörugranda 2.

Af hálfu byggingarleyfishafans, Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. er því haldið fram að aðal athugasemdir nágranna sem fram hafi komið við grenndarkynningu hafi verið að byggja ætti ketilhús við austurenda Keilugranda 1 og að bílastæði og útkeyrsla ættu að vera við suðurgafl hússins.  Komið hafi verið til móts við þessar athugasemdir og hafi ketilhúsið verið fært inn í þá byggingu, sem fyrir er á lóðinni, auk þess sem samþykkt hafi verið að leyfa leiksvæði á lóðinni að standa áfram og að útkeyrslu út á Keilugranda yrði lokað.  Hafi þetta verið að frumkvæði byggingarleyfishafa.  Þá hafi verið ákveðið að hækka reykháf frá upphaflegum áformum til að fullvissa væri fyrir því að enginn í nágrenninu yrði þess nokkurn tímann var ef eitthvað kæmi út úr þessum reykháf.  Breytingarnar hafi verið kynntar fyrir nágrönnum og hlotið samþykki skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkurborgar í framhaldi af því.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út og hafi miklum fjármunum verið varið til framkvæmda og tækjakaupa.  Er í greinargerð byggingarleyfishafans gerð nánari grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum hans af því að fá að halda áfram framkvæmdum á grundvelli hins umdeilda byggingarleyfis.  Í greinargerðinni er einnig gerð grein fyrir samanburði þeirra kosta að nota rafmagn annars vegar og svartolíu hins vegar til kyndingar.  Kveður byggingarleyfishafi svartolíukostnað einungis nema um 30% af kostnaði við rafmagnskyndingu.  Er bent á að ýmis fyrirtæki í borginni noti svartolíu og eru tilfærð dæmi þar um.  Loks er á það bent að lóðarleigusamningur fyrir Keilugranda 1 renni út árið 2016.  Vilji byggingarleyfishafinn halda frið við nágranna þann tíma og muni kappkosta að svartolíuketill á staðnum fái alltaf fyrsta flokks viðhald og að hús og lóð fái viðhald sem verði til sóma. Fiskikör við húsið muni heyra sögunni til og sé rekstur þvottahúss til muna þrifalegri og umhverfisvænni en rekstur fiskiðju.

Umsagnir: Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur um kæruefnið er gerð ítarleg grein fyrir sjónarmiðum nefndarinnar.  Er þar gerð grein fyrir því hvernig staðið var að grenndarkynningu byggingaráformanna og kemur þar fram að síðari kynning málsins, þ. e. kynning á breyttum teikningum, hafi ekki verið grenndarkynning í skilningi skipulags- og byggingarlaga heldur hafi þessi kynning verið gerð á grundvelli stjórnsýslulaga enda hafi verið um sömu umsókn að ræða og áður hafði verið kynnt með lögformlegum hætti.  Þá er í umsögninni gerð grein fyrir því hvernig byggingarnefnd telur að skilja beri skilmála aðalskipulags og landnotkunarkort.  Er á það bent að aðalskipulag sé skipulagsáætlun þar sem fram komi stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili.  Landnotkunarkort sýni notkun lands til mismunandi þarfa en við gerð þess sé miðað við landnotkun á samfelldum svæðum eða reitum en ekki notkun húsnæðis á einstökum lóðum.  Við ákvörðun á landnotkun sé lagt til grundvallar að svæði fái skilgreiningu þess landnotkunarflokks sem 70% af heildargólffleti bygginga á svæðinu falli undir en nái enginn landnotkunarflokkur því hlutfalli sé svæðið merkt litum tveggja hæstu landnotkunarflokka svæðisins. Lóðir verslunarmiðstöðva, opinberrar þjónustu og opin svæði til sérstakra nota séu þó sýnd með sérstökum lit innan landnotkunarsvæðis, nái slík svæði 1500 fermetra stærð.  Samkvæmt forsendum gildandi aðalskipulags séu einstakar lóðir hins vegar ekki merktar litum iðnaðar heldur hafi iðnaðarlóðir fengið lit samkvæmt öðrum skilgreiningum ýmist sem athafnasvæði, stofnanasvæði eða fylgi meginnotkun svæðisins samkvæmt 70% reglunni.  Lóðin að Keilugranda 1 sé samkvæmt nýju aðalskipulagi merkt blandaðri notkun þ. e. íbúða- og stofnanasvæði en í húsinu hafi verið rekinn iðnaður í sjávarútvegi.  Starfsemi sú sem fyrirhugað sé að komi í hluta húsnæðisins sé þjónustufyrirtæki, sem samkvæmt umsögn skipulags- og umferðarnefndar rúmast innan þess ramma sem aðalskipulagið kveður á um.  Loks er tekið fram að það hafi verið mat byggingarnefndar að vel athuguðu máli og að fengnum umsögnum þeirra aðila er um málið hafi fjallað að fyrirhuguð þjónustustarfsemi efnalaugar væri mildandi notkun frá þeirri starfsemi, sem lóðin var leigð til, enda væri sýnt fram á að starfsemin væri innan þeirra marka sem sett eru með lögum og reglugerðum.
 
Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar kemur fram það álit að hið umdeilda byggingarleyfi samræmist ekki gildandi aðalskipulagi og sé því andstætt ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Þá hafi seinni grenndarkynningunni verið áfátt auk þess sem rökstuðningur fyrir ákvörðun byggingarnefndar í málinu sé ófullnægjandi sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Telur stofnunin að fallast beri á kröfur kærenda um að hið umdeilda byggingarleyfi verði fellt úr gildi, svo og að framkvæmdir verði stöðvaðar. 

Leitað var umsagnar Hollustuverndar ríkisins um loftmengun frá fyrirhuguðum svartolíukatli.  Er það niðurstaða Hollustuverndar að ekki sé líklegt að nýr svartolíukyntur gufuketill með 12 metra háum reykháfi, sem rekinn sé með góðum hætti, valdi því að loftmengun fari yfir viðmiðunarmörk í nágrenni Keilugranda 1.  Tekið er fram að setja þurfi kröfur um uppkeyrslu, rekstur, mengunarvarnir við eldsneytis- og efnanotkun og lágmarks eftirlit í starfsleyfi.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 24. ágúst síðastliðinn að fulltrúum kærenda og byggingarleyfishafa viðstöddum.  Að ósk nefndarinnarlét byggingaleyfishafi gera stafrænar myndir af húsinu að Keilgranda 1 og hefur reykháfur, sömu gerðar og fyrihugaður er, verið settur inn á myndirnar þar sem honum er ætlaður staður. 

Niðurstaða:  Kærendur í máli þessu gerðu kröfu til þess að framkvæmdir byggingarleyfishafa yrðu stöðvaðar.  Eftir að honum hafði verði gert kunnugt um framkomnar kærur féllst hann á að hefjast ekki handa um framkvæmdir utandyra, þ. e. við uppsetningu reykháfs og frágang olíugeymis fyrir svartolíu.  Var af hálfu kærenda fallist á að ekki þyrfti að taka til meðferðar kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda meðan ekki væri hafist handa við framkvæmdir utanhúss.  Hafa þær framkvæmdir ekki hafist og  hefur úrskurðarnefndin því ekki tekið kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrlausnar.

Það er skoðun úrskurðarnefndar að sýnt hafi verið fram á það með fullnægjandi hætti að ekki muni stafa slík loft- eða sjónmengun af hinum fyrirhugaða svartolíukatli og reykháfi að  óviðunandi  hefði verið fyrir íbúa í næsta nágrenni.  Hins vegar þurfti að vera fullnægt almennum skilyrðum laga til útgáfu byggingarleyfis til þess að unnt væri að samþykkja umsókn Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. um leyfi til fyrirhugðara breytinga á fasteigninni að Keilugranda 1 og breytinga á notkun hússins.  Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er óheimilt að breyta húsi, notkun þess eða svipmóti nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Er raunar ekki um það deilt að slíks leyfis var þörf fyrir þeim framkvæmdum, sem byggingarleyfishafi hafði uppi áform um enda sótti hann um leyfi til þeirra. Í 2. mgr. 43. gr. greindra laga er kveðið á um það að framkvæmdir samkvæmt 1. málsgrein skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Fyrir liggur að samkvæmt samþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 er lóðin að Keilugranda 1 skilgreind sem íbúða- og stofnanasvæði. Fær sú skilgreining frekari stoð í þeirri áætlun sem fram er sett í hverfaskipulagi borgarhluta 2, sem samþykkt var í borgarráði 5. mars 1991.  Fyrirhuguð starfsemi byggingarleyfishafa er að mati úrskurðarnefndar ekki þess eðlis að gera hafi mátt ráð fyrir henni á íbúðasvæði sbr. grein 4.3.2. í þágildandi skipulasgsreglugerð nr. 318/1985 með síðari breytingum.  Er það því niðurstaða úrskurðarnefndar að hið umdeilda byggingarleyfi samræmist ekki gildandi aðalskipulagi og er sú niðurstaða í samræmi við umsögn Borgarskipulags dags. 29. október 1997 um fyrirspurn byggingarleyfishafa.  Var útgáfa hins umdeilda byggingarleyfis því andstæð ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Við meðferð málsins í byggingarnefnd var farið að ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og fyrirhugaðar framkvæmdir kynntar nágrönnum þeim, sem taldir voru eiga hagsmuna að gæta.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði getur byggingarnefnd veitt byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir samþykkt deiliskipulag að undangenginni grenndarkynningu.  Samkvæmt heimild í sama ákvæði er einnig hægt að leyfa óverulega breytingu á deiliskipulagi að viðhafðri hliðstæðri málsmeðferð.  Úrskurðarnefndin telur að skýra verði heimildir þessar þröngt og að ekki sé heimilt á grundvelli þeirra að veita leyfi til framkvæmda sem ekki eru í samræmi við staðfest aðalskipulag sem í gildi er þegar byggingarleyfi er veitt.

Samkvæmt 23. gr. l. nr. 73/1997 skal deiliskipulag gert á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Verður að skilja þetta ákvæði svo að deiliskipulag skuli vera í samræmi við það aðalskipulag, sem í gildi er þegar deiliskipulag er samþykkt.  Af þessu leiðir að óheimilt væri að breyta deiliskipulagi á þann veg að breytingin væri í ósamræmi við aðalskipulag jafnvel þótt breytingin gæti í sjálfu sér talist óveruleg.  Slík breyting yrði því ekki gerð með grenndarkynningu með stoð í 7. mgr. 43. gr. l. 73/1997.  Það er og skoðun úrskurðarnefndar að heimild 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 til að leyfa framkvæmdir í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir samþykkt deiliskipulag feli ekki í sér rýmri heimildir en þær sem hægt væri að mæla fyrir um með almennum skilmálum við gerð deiliskipulags.  Verður því ekki á grundvelli þessarar heimildar veitt leyfi til framkvæmda sem fara í bága við staðfest aðalskipulag.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið skorti lagaskilyrði fyrir útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis og ber þegar af þeirri ástæðu að verða við kröfum kærenda um að fella það úr gildi.  Af sömu ástæðu þykir ekki hafa þýðingu að taka afstöðu til þess hvort grenndarkynning sú, sem fram fór vegna umsóknar byggingarleyfishafa, hafi fullnægt lagaskilyrðum eða hvort undirbúningi, formi og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 1998, staðfest af borgarstjórn þann 4. júní s.á. um að heimila Grýtu-Hraðhreinsun ehf. að breyta austureiningu Keilugranda 1, Reykjavík, í þvottahús er felld úr gildi.

18/1998 Smyrlahraun

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 3. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/1998, kæra eigenda fasteignarinnar Smyrlahrauns 1, Hafnarfirði vegna ákvörðunar byggingarnefndar Hafnarfjarðar um að hafna umsókn kærenda um leyfi fyrir viðbyggingu við Smyrlahraun 1.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 29. maí 1998 er barst nefndinni  hinn 2. júní síðastliðinn kæra J og L, eigendur fasteignarinnar nr. 1 við Smyrlahraun í Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 22. apríl 1998 að synja umsókn kærenda um leyfi til að byggja við fasteignina Smyrlahraun 1.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 28. apríl 1998 og tilkynnt kærendum með bréfi dags. 30. apríl síðastliðinn. Kæruheimild er samkvæmt  4. mgr. 39. gr. skipulags- og bygingarlaga nr. 73/1997.  Kærendur krefjast þess að teikningar þær að fyrirhuguðum breytingum á fasteign þeirra, sem byggingarnefnd hafnaði á ofangreindum fundi verði úrskurðaðar gildar og hæfar til að vinna eftir breytingarnar á húsinu.

Málavextir: Snemma árs 1992 tóku eigendur fasteignarinnar  að Smyrlahrauni 1 að undirbúa umsókn um leyfi til stækkunar og endurbóta á eigninni.  Voru fyrstu teikningar að fyrirhuguðum breytingum gerðar í mars 1992.  Þessar fyrstu hugmyndir að breytingum á húsinu fengust ekki samþykktar og voru gerðar nýjar tillögur að breytingunum sumarið 1993 og voru þessar nýju hugmyndir að sögn kærenda bornar undir skipulagsstjóra Hafnarfjarðarbæjar svo og næstu nágranna.  Þessum tillögum mun einnig hafa verið hafnað en jafnframt mun kærendum hafa verið bent á að sækja um stækkun lóðar sinnar til að auðveldara yrði að heimila stækun húss þeirra. Var kærendum úthlutað 39,8 fermetra viðbót við lóð hússins og var þessi viðbót við lóðina tekin af opnu svæði, sem bæjaryfirvöld höfðu forræði á.  Samkvæmt áritun á uppdrátt skipulagsdeildar Hafnarfjarðarbæjar var þessi ráðstöfun samþykkt af bæjaryfirvöldum hinn 15. júlí 1993.  Í september sama ár gekk skipulagsdeild Hafnarfjarðarbæjar frá skilmálum fyrir uppbyggingu á lóð kærenda en drög að þeim skilmálum voru samþykkt í skipulagsnefnd bæjarins hinn 13. 9. 1993. Á uppdrætti skipulagsdeildar Hafnarfjarðarbæjar dags. 10. september 1993 (breytt 14. 9.) af lóð kærenda og byggingarreit með fyrihugaðri stækkun húss er gerð grein fyrir þessum skilmálum en jafnframt er sýnd á uppdrætti þessum tillaga að útliti húss kærenda eftir stækkun þess.  Þessa tillögu að útliti hússins segja kærendur hafa verið gerða án vitneskju sinnar eða samþykkis og hafi þessar tillögur ekki verið í samræmi við þær óskir, sem þau höfðu sett fram um breytingar á húsinu.  Síðla árs 1997 létu kærendur enn gera nýjar tillögur að breytingum á húseigninni.  Var fjallað um hina nýju tillögu á fundi skipulagsnefndar Hafnarfjarðarbæjar hinn 27. janúar 1998.  Í bókun um afgreiðslu nefndarinnar segir að nefndin fallist á að tillagan, sem sé í samræmi við samþykkta skilmála, verði send í grenndarkynningu samkvæmt lögum nr. 73/1997 og reglugerðargrein 7. 2. 3. Var arkitektum kærenda tilkynnt þessi ákvörðun nefndarinnar með bréfi dags. 27. janúar 1998. Hinn 3. apríl 1998 greiddu kærendur byggingarleyfisgjald vegna umsóknar til byggingarnefndar um umræddar breytingar og munu teikningar hafa verið lagðar fram með umsókninni.  Með bréfi byggingarfulltrúa dags. 7. apríl 1998 er kærendum og arkitektum þeirra tilkynnt að gögnin séu ófullnægjandi og er umsækjanda bent á að snúa sér til byggingarfulltrúa. Hinn 21. apríl 1998 var málið aftur tekið fyrir í skipulagsnefnd og var kærendum og arkitektum þeirra tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar á málinu með bréfi dags. 22. apríl 1998.  Er bókun um afgreiðslu skipulagsnefndar á málinu svohljóðandi: “Meðal annars með tilliti til grenndarkynningar leggst skipulagsnefnd gegn erindinu eins og það liggur fyrir.  Umsækjanda er bent á að aðlaga uppdrætti að samþykktu skipulagi og skilmálum á lóðinni dags. 10.09.´93.”   Umsókn kærenda um umræddar breytingar var tekin til afgreiðslu á fundi byggingarnefndar Hafnarfjarðar daginn eftir að skipulagsnefnd hafði afgreitt málið eða hinn 22. apríl 1998 og var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun: “M.t.t. afstöðu skipulagsnefndar 21. þm. getur byggingarnefnd ekki orðið við erindinu.”  Var þessi afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 28. apríl 1998 og arkitektum kærenda tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi dagsettu 30. apríl 1998.  Er tekið fram í bréfinu að heimilt sé að kæra ákvörðunina til Umhverfisráðuneytisins og að kærufrestur sé 3. mánuðir.

Með bréfi til byggingarfulltrúa dags. 5. maí 1998 óskuðu arkitektar kærenda þess að ákvörðun byggingarnefndar yrði dregin til baka og erindi kærenda endurupptekið, enda hafi umsókn kærenda ekki átt að koma til umfjöllunar í byggingarnefnd fyrr en búið væri að gera þær úrbætur á innlögðum gögnum, sem bent hefði verið á að gera þyrfti.  Ekki verður ráðið af gögnum málsins að bréfi þessu hafi verið svarað og vísuðu kærendur málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 29. maí 1998 eins og að framan greinir.  Þegar kæra í máli þessu var lögð fram hjá úrskurðarnefndinni láðist kærendum að upplýsa um endurupptökubeiðni þá, sem arkitektar þeirra höfðu sent byggingarfulltrúa og áður er getið.  Bárust nefndinni fyrst upplýsingar um endurupptökubeinina um eða eftir miðjan júní síðastliðinn er kærandi sendi afrit af beiðninni til nefndarinnar með ódagsettri orðsendingu.  Var frekari meðferð málsins frestað meðan leitað var upplýsinga um það hvernig umrætt erindi hefði verið afgreitt enda hefði kærumálinu lokið sjálfkrafa hefði hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og erindi kærenda tekið upp að nýju í byggingarnefnd eins og óskað hafði verið.  Við eftirgrennslan kom hins vegar í ljós að erindi arkitekta kærenda um endurupptöku málsins virtist ekki hafa fengið formlega afgreiðslu.  Var málið því tekið til efnislegrar meðferðar í úrskurðarnefndinni í byrjun júlímánaðar sl. en kæranda jafnframt gerð grein fyrir því að afgreiðslu málsins kynni að seinka vegna þessara atvika.

Málsrök kærenda og byggingarnefndar:  Kærendur styðja kröfur sínar þeim rökum að breytingar sambærilegar þeim, sem umsókn þeirra felur í sér hafi verið heimilaðar í næsta nágrenni.  Benda þeir m. a. á breytingar á Hverfisgötu 25, sem sé næsta hús neðan húss þeirra og byggt á sama tíma.  Þar hafi verið leyfð porthækkun á þaki og meiri hækkun á mæni en kærendur fari fram á.  Einnig benda kærendur á húsið að Smyrlahrauni 5 þar sem leyfð hafi verið porthækkun og umtalsverð grunnflatarmálsstækkun. Húsið að Smyrlahrauni 1 þarfnist sárlega viðhalds og óviðunandi sé að ekki fáist leyfi til sambærilegra endurbóta á því og leyfðar hafi verið á eignum í grenndinni.  Þá hafi skipulagsnefnd staðfest að þær tillögur að breytingum á húsinu, sem hafnað var, séu í samræmi við skipulagsskilmála.  Ennfemur byggja kærendur á því að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til umsóknar þeirra þar sem óskað hafði verið lagfæringa á teikningum og þeim ekki lokið þegar málið var tekið til afgreiðslu.  Af hálfu byggingarnefndar hafa ekki verið færð fram nein frekari rök en fram koma í málsgögnum en ákvörðun byggingarnefndar er tekin á grundvelli afgeiðslu skipulagsnefndar í málinu.

Umsagnir:  Með vísun til e-liðar 4. gr. laga nr. 73/1997 var óskað umsagnar Skipulagsstofnunar um mál þetta. Í umsögn stofnunarinnar kemur fram að ekki sé í gildi staðfest eða samþykkt deiliskipulag á því svæði, sem um ræðir.  Þegar vitnað sé í samþykkt skipulag og skilmála á lóðinni dags. 10. september 1993 sé verið að vísa í teikningu og greinargerð merkta skipulagsdeild Hafnarfjarðar þar sem fram komi að drög skilmálanna hafi verið samþykkt í skipulagsnefnd 13. september 1993.  Telur Skipulagsstofnun að ef skipulagsyfirvöld sveitarfélaga telji þörf á setningu sérstakra skilmála vegna endurnýjunar í eldri hverfum skuli það gert með almennum hætti, það er með samþykkt deiliskipulags. Í umsögn stofnunarinnar kemur og fram að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sé heimilt að veita byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu þó ekki liggi fyrir deiliskipulag.  Hafi grenndarkynning farið fram í hinu kærða tilviki og hafi umsókn kærenda verið synjað með vísan til til hennar auk ábendinga um að aðlaga uppdrætti að samþykktu skipulagi og skilmálum.  Byggingarnefnd rökstyðji synjun sína aðeins með vísun til afstöðu skipulagsnefndar en kæranda séu ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvaða ágallar það séu á gögnum sem verði til þess að ekki sé unnt að fallast á erindi hans, né heldur um það með hvaða hætti hann geti bætt úr þeim.  Telur Skipulagsstofnun að byggingarnefnd Hafnarfjarðar hafi ekki uppfyllt skyldu til rökstuðnings afgreiðslu skv. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga né heldur leiðbeiningarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum.

Í umsögn byggingarnefndar Hafnarfjarðar um málið er tekið fram að kvittað hafi verið fyrir móttöku erindis varðandi viðbyggingu við hús kærenda hinn 3. apríl 1998.  Erindið hafi verið tekið til umfjöllunar í skipulagsnefnd 21. apríl 1998 og hafi nefndin lagst gegn viðbyggingunni eins og hún lá fyrir.  Sama erindi hafi fengið synjun í byggingarnefnd hinn 22. apríl 1998.  Teikningar, sem síðar hafi borist hafi sýnt nánar það sem ekki hafi komið fram á fyrri uppdráttum en stærð og útlit hafi verið það sama og áður.  Nýtt erindi varðandi sama hús hafi ekki borist byggingarnefnd Hafnarfjarðar.

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin telur að meðferð skipulagsnefndar og byggingarnefndar Hafnarfjarðar á máli þessu hafi verið áfátt í ýmsum efnum.  Ósamræmi er í bókunum skipulagsnefndar um málið, sem  á fundi  hinn 27. janúar 1998 kveður tillögu arkitekta kærenda vera í samræmi við samþykkta skilmála en í bókun á fundi hinn 21. apríl 1998 bendir nefndin umsækjanda á að aðlaga uppdrætti að samþykktu skipulagi og skilmálum á lóðinni.  Fyrir liggur í málinu umsögn skipulagsstjóra Hafnarfjarðarbæjar um málið dags. 20. apríl 1998, sem fram var lögð á fundi skipulagsnefndar hinn 21. sama mánaðar.  Þar eru raktar athugasemdir, sem fram höfðu komið við grenndarkynningu og verður ekki annað ráðið af umsögninni en að afstaða skipulagsstjóra sé í öllum aðalatriðum jákvæð gagnvart framkomnum tillögum.  Segir m. a. í umsögninni að tillagan fylgi í einu og öllu tillögu bæjarskipulags sem samþykkt hafi verið hinn 14. mars 1994 nema kvistir liggi framar á þaki en þar hafi verið gert ráð fyrir.  Ekki sé hægt að taka undir að viðbygging við Smyrlahraun 1 sé óeðlileg að stærð og gerð í umhverfi sínu.  Segir í umsögninni að lagt sé til að samþykki skipulagsnefnd tillögu að viðbyggingu verði kvistir að fullu felldir að samþykktri tillögu.  Tillaga bæjarskipulags samþykkt 14. mars 1994, sem vitnað er til í umsögn skipulagsstjóra, er ekki meðal gagna málsins og liggur ekki fyrir hvort um sömu tillögu er að tefla og tillögu þá frá september 1993, sem skipulagsnefnd vitnar til bæði á fundi sínum hinn 27. janúar 1998 og 21. apríl 1998.  Það misræmi, sem fram kemur í umfjöllun skipulagsnefndar um málið telur úrskurðarnefndin til þess fallið að gera kærendum erfitt fyrir um að átta sig á afstöðu skipulagsnefndar í málinu. 

Þá er rökstuðningi skipulagsnefndar fyrir ákvörðun nefndarinnar í málinu stórlega áfátt.  Með orðunum meðal annars er vísað til einhverra ótiltekinna atriða, sem ómögulegt er fyrir kærendur að ráða í hver séu.  Vísað er til niðurstöðu grenndarkynningar án þess að þess sé getið hvaða athugasemdir hafi komið fram, sem nefndin telji eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að synja beri erindi kærenda.  Þá er umsækjanda bent á að aðlaga uppdrætti að samþykktu skipulagi og skilmálum á lóðinni án þess að tilgreint sé í hvaða efnum þess gerist þörf.  Var þó rík ástæða til þess að skipulagsnefnd upplýsti um það að hvaða leyti hún teldi erindi kæranda ekki samræmast tilvitnuðum skilmálum þegar það er hafi í huga að nefndin hafði áður, við afgreiðslu á fundi sínum hinn 27. janúar 1998, lýst því áliti sínu að að tillaga kærenda væri í samræmi við samþykkta skilmála.

Þegar málið kom til umfjöllunar á fundi byggingarnefndar hinn 22. apríl 1998 lá fyrir að byggingarfulltrúi hafði með bréfi dags. 7. apríl 1998 bent kærendum á að innlögð gögn með umsókn þeirra um byggingarleyfið væru ófullnægjandi og að arkitektum kærenda hafði ekki unnist ráðrúm til þess að bæta úr því sem áfátt var talið.  Bænadagar og páskar voru 9. til 13. apríl og var því rétt rúm vinnuvika liðin frá því ætla má að arkitektunum hafi borist umrætt bréf.  Þá voru í umsögn skipulagsnefndar ráðagerðir um það að umsækjendum gæfist kostur á að aðlaga uppdrætti að þeim kröfum, sem skipulagsnefnd taldi þurfa að uppfylla til þess að umbeðið leyfi yrði veitt.  Úrskurðarnefndin telur að við þessar aðstæður hafi umsókn kærenda ekki verið verið í því horfi að byggingarnefnd væri rétt að taka hana til endanlegrar afgreiðslu og hefði byggingarnefnd þess í stað átt að fresta því að taka lokaákvörðun í málinu.  Þá er það skoðun úrskurðarnefndarinnar að sá rökstuðningur byggingarnefndar að vísa til hinnar óljósu bókunar skipulagsnefndar fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga um rökstuðning, sbr. og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Loks telur úskurðarnefndin ámælisvert að byggingarnefnd svaraði ekki erindi arkitekta kærenda frá 5. maí 1998 þar sem farið er fram á endurupptöku málsins í byggingarnefnd.

Úrskurðarnefndin telur ekki unnt að verða við kröfum kærenda um að úrskurða teikningar að fyrirhuguðum breytingum á fasteign þeirra gildar og hæfar til að vinna eftir breytingarnar á húsinu.  Skortir allar forsendur til þess að leggja fyrir byggingarnefnd að gefa út byggingarleyfi til handa kærendum eins og mál þetta liggur fyrir.

Hins vegar er það niðurstaða úrskurðarnefndar að vegna þeirra annmarka, sem að framan er lýst, beri að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 22. apríl 1998 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi. Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kærenda til meðferðar á ný.  Ber að leiðbeina kærendum og gefa þeim kost á að koma að þeim gögnum sem á þótti skorta til að umsókn þeirra gæti komið til efnislegrar afgreiðslu.  Nýja afgreiðslu byggingarnefndar ber að rökstyðja með fullnægjandi hætti.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 22. apríl 1998 sem staðfest var af bæjarstjórn Hafnarfjarðar  þann 28. sama mánaðar er felld úr gildi. Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd Hafnarfjarðar að taka umsókn kærenda um leyfi til viðbyggingar að Smyrlahrauni 1, Hafnarfirði til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu hennar með þeim hætti sem greinir í niðurstöðu úrskurðarnefndar hér að framan.

16/1998 Vallá

Með

Ár 1998, þriðjudaginn 25. ágúst kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16 /1998, kæra M vegna málsmeðferðar Kjalarneshrepps á umsókn um leyfi til byggingar smáhýsis á eignarlandi hennar úr landi jarðarinnar Vallár á Kjalarnesi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 20. maí 1998, er barst nefndinni hinn 25. maí 1998, kærir H, Grundartanga 56, Mosfellsbæ f. h. M til heimilis í Picton í Ástralíu, málsmeðferð Kjalarneshrepps á umsókn M um byggingarleyfi fyrir smáhýsi á eignarlandi hennar úr landi Vallár á Kjalarnesi. Krefst kærandi þess að lagt verði fyrir sveitarstjórn Kjalarneshrepps, eða annað stjórnvald er kemur í hennar stað, að afgreiða nú þegar beiðni kæranda um útgáfu umrædds byggingarleyfis. Kæruheimild er samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Málavextir:  Kærandi er eigandi eins hektara eignarlands úr landi jarðarinnar Vallár á Kjalarnesi.  Hinn 18. janúar 1996 sótti kærandi um leyfi til að byggja smáhýsi á landinu og var umsókn hennar tekin til umfjöllunar á fundi byggingarnefndar Kjalarneshrepps hinn 22. apríl 1996. Samkvæmt bókun byggingarnefndar á fundinum var málinu frestað en tekið fram að hreppsnefnd hafi samþykkt að byggt verði hús á landinu. Í framhaldi af umfjöllun um umsókn kæranda um byggingarleyfi var hafinn undirbúningur að breytingum á skipulagi jarðarinnar Vallár, sem að mati sveitarstjórnar voru nauðsynlegar til þess að unnt væri að afgreiða umsóknina. Verulegur dráttur sýnist hafa orðið á því að fyrirhugaðar tillögur að breyttu skipulagi væru unnar en hinn 17. desember 1997 óskaði sveitarstjórn Kjalarneshrepps heimildar skipulagsstjóra ríkisins til að auglýsa tillögu að breyttu skipulagi jarðarinnar Vallár vegna íbúðarhúss á landi kæranda.  Með bréfi dags. 18. desember 1997 heimilaði Skipulag ríkisins að tillagan yrði auglýst að uppfylltum skilyrðum, sem í bréfinu greinir.  Á fundi hreppsnefndar Kjalarneshrepps hinn 26. febrúar 1998 var samþykkt að auglýsa breytingu á skipulagi jarðarinnar Vallár þannig að M verði heimilað að byggja sumarhús á landi sínu með kvöðum um að heimilt verði að byggja landbúnaðarbyggingar í allt að 100 metra fjarlægð frá lóðarmörkum.  Kemur fram í bréfi hreppsnefndar til kæranda dags. 25. mars 1998 að verið sé að vinna að gerð uppdráttar vegna auglýsingar á breyttu skipulagi og verði auglýsingin send út á allra næstu dögum.  Auglýsing um tillögu að hinu breytta skipulagi var síðan birt hinn 6. júní 1998.

Haustið 1996 hófust könnunarviðræður um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur og var kosin samstarfsnefnd til að vinna að gerð tillögu um sameiningu sveitarfélaganna.  Var sameining þeirra samþykkt í kosningum í júní 1997 og kom til framkvæmda að afloknum sveitarstjórnarkosningum er fram fóru hinn 23. maí síðastliðinn.  Hefur Borgarskipulag Reykjavíkur annast meðferð skipulagsmála á Kjalarnesi frá þeim tíma og meðal annars tekið við athugasemdum vegna skipulagstillögu þeirrar um land Vallár, sem auglýst var.  Frestur til að skila inn athugasemdum vegna tillögunnar rann út hinn 31. júlí síðastliðinn og var fjallað um framkomnar athugasemdir á fundi í skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur hinn 17. ágúst 1998.  Var ákveðið að gefa kæranda kost á að tjá sig um framkomnar athugasemdir og mun umboðsmanni kæranda hafa verið sent erindi þar að lútandi.

Ekki þótti unnt að leita umsagnar sveitarstjórnar Kjalarneshrepps í máli þessu enda hafði hún látið af störfum þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni en leitað var upplýsinga hjá fyrrverandi sveitarstjóra um kæruefnið.

Niðurstaða: Í kæru sinni til úrskurðanefndar heldur kærandi því fram að byggingarnefnd Kjalarneshrepps hafi á fundi sínum hinn 22. apríl 1996 samþykkt að veita kæranda leyfi til byggingar þeirrar, sem um var sótt.  Þessi staðhæfing kæranda sýnist á misskilningi byggð enda kemur glöggt fram í bókun byggingarnefndar um málið á umræddum fundi að því hafi verið frestað. Kærandi byggir á kæruheimild 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga  og kærir í skjóli þeirrar heimildar þann drátt, sem orðinn var á afgreiðslu umsóknar hennar um byggingarleyfi.  Skömmu eftir að kæran barst úrskurðarnefndinni var birt auglýsing um breytingu á skipulagi jarðarinnar Vallár, sem miðar að því að leggja grundvöll að afgreiðslu umsóknar kæranda. Á fundi úrskurðarnefndar hinn 10. júlí 1998 var ákveðið að fresta uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu þar til lokið væri þeim skipulagsbreytingum.  Gerð þessara breytinga er nú á lokastigi og hefur umboðsmaður kæranda framkomnar athugasemdir við skipulagstillögurnar nú til athugunar þar sem henni hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um þær.  Ekki þykir fært að bíða endanlegrar afgreiðslu breytts skipulags enda væri afgreiðslutími málsins í úrskurðarnefndinni þá orðinn lengri en 3 mánuðir, sem er andstætt ákvæði 4. mgr. 8. gr. skipulags- og bygginarlaga nr. 73/1997 um hámarkslengd afgreiðslutíma mála hjá nefndinni.

Sveitarstjórn og byggingarnefnd Kjalarneshrepps létu af störfum við sameiningu hreppsins við Reykjavíkurborg.  Þykir því ekki hafa þýðingu að finna að seinagangi þeirra stjórnvalda við afgreiðslu á erindi kæranda.  Af hálfu Borgarskipulags Reykjavíkur er nú á lokastigi meðferð skipulagsbreytingar sem miðar að því að unnt verði að afgreiða umsókn kæranda.  Verður að ætla að þegar hið breytta skipulag hefur tekið gildi verði unnt að afgreiða umsóknina með eðlilegum hætti.

Eins og mál þetta liggur nú fyrir þykir kærandi, með vísun til framanritaðs, ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn um kröfu sína í málinu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, M, um að lagt verði fyrir þar til bær stjórnvöld að afgreiða umsókn hennar um útgáfu leyfis til byggingar smáhýsis á eignarlandi hennar úr landi Vallár á Kjalarnesi er vísað frá úrskurðarnefnd.
 

19/1998 Kirkjubrú

Með

Ár 1998, miðvikudaginn 5. ágúst kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/1998, kæra Á vegna synjunar hreppsnefndar Bessastaðahrepps á umsókn um byggingarleyfi að Kirkjubrú 12, Bessastaðahreppi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 3. júní 1998 kærir Karl Axelsson hrl. f.h. Á ákvörðun hreppsnefndar Bessastaðahrepps frá 14. apríl 1998 um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi að Kirkjubrú 12, Bessastaðahreppi.  Krefst hann þess að ákvörðun hreppsnefndar verði endurskoðuð og að kæranda verði veitt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni með fyrirvara um samþykkt teikninga.  Um kæruheimild vísar kærandi til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. reglugerð nr. 621/1997.

Málavextir:  Kærandi kveðst hafa óskað eftir byggingarleyfi til að byggja á lóð sinni að Kirkjubrú 12 þann 20. maí 1995. Í svari sveitarstjóra hafi komið fram að skipulagsnefnd teldi umsóknina ekki samræmast gildandi aðalskipulagi og að ekki væri unnt að taka afstöðu til byggingar á svæðinu fyrr en samþykkt deiliskipulag lægi fyrir.  Bréfaskriftir hafi átt sér stað milli aðila en áætlanir sveitarstjórnar um gerð deiliskipulags hafi í engu staðist. Hafi kærandi ítrekað umsókn sína um byggingarleyfi en umsóknin hafi enga afgreiðslu hlotið.  Kærandi krafðist formlegrar afgreiðslu umsóknar sinnar með bréfi dags. 18. mars 1998.  Segir í kærunni að svar hafi borist þann 14. apríl s. á. þar sem byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið hafnað á þeim grundvelli að ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir jörðina.

Um kærufrest tekur lögmaður kæranda sérstaklega fram, að honum hafi ekki borist bréf hreppsnefndar dags. 14. apríl 1998 í hendur fyrr en þann 5. maí 1998.  Til vara er um kærufrestinn byggt á þeirri málsástæðu að byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið send inn í tíð byggingarlaga nr. 54/1978 en samkvæmt 8. mgr. 8. gr. þeirra laga sé kærufrestur þrír mánuðir.

Niðurstaða:  Um kærufrest í máli þessu gildir ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og er hann einn mánuður.  Verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að fara eigi að reglum byggingarlaga nr. 54/1978 um kærufrest þar sem umsókn kæranda um byggingarleyfið hafi verið send inn í gildistíð þeirra laga.  Tilvitnuð eldri lög voru felld úr gildi við gildistöku laga nr. 73/1997 hinn 1. janúar 1998 og verður reglum eldri laga um kærufrest ekki beitt í máli þessu enda var hin kærða ákvörðun tekin hinn 6. apríl 1998.  Var þar að auki í raun um að ræða afgreiðslu á erindi kæranda frá 18. mars 1998.

Samkvæmt fyrirliggjandi umsögn sveitarstjóra Bessastaðahrepps um kæruefnið eru bréf frá embætti hans samkvæmt venju póstlögð sama dag og þau eru skrifuð eða, ef sérstaklega stendur á, daginn eftir.  Er þetta í samræmi við það sem segir í atvikalýsingu í kærunni en þar segir að svar hafi borist hinn 14. apríl 1998.  Ekki verður fallist á að það lengi kærufrestinn þótt lögmanni þeim, sem með málið fór, hafi ekki borist bréf hreppsnefndar Bessastaðahrepps frá 14. apríl 1998 fyrr en þann 5. maí 1998 enda verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að bréfið hafi borist skrifstofu hans með eðlilegum hætti. Einnig er þess að gæta að enn var nokkur tími til að kæra innan lögmælts kærufrests eftir að lögmanninum varð kunnugt um efni umrædds bréfs.  Með vísun til framanritaðs og með hliðsjón af ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

13/1998 Háreksstaðaheiði

Með

Ár 1998, föstudaginn 31. júlí  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/1998, kæra E, Skjöldófsstöðum II, Jökuldal  vegna útgáfu framkvæmdaleyfis til lagningar vegar um Háreksstaðaheiði.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 11. maí 1998 kærir Jörundur Gauksson hdl. f. h. E ákvörðun hreppsnefndar Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps og Skipulagsstofnunar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Háreksstaðaleið, Hringveg úr Langadal að Ármótaseli. Kæruheimild er samkvæmt 8. grein laga nr. 73/1997. Krefst hann þess að felldar verði úr gildi ákvarðanir hreppsnefndar og Skipulagsstofunar um útgáfu og meðmæli með framkvæmdaleyfinu.  Með bréfi dags. 8. júní 1998 sendi kærandi úrskurðarnefndinni frekari rökstuðning fyrir kröfum sínum.  Jafnframt hefur kærandi með símbréfi hinn 30. þessa mánaðar fallið frá kröfu um ógildingu ákörðunar Skipulagsstofnunar varðandi hið umdeilda framkvæmdaleyfi.  Krefst hann því nú einungis ógildingar ákvörðunar sveitarstjórnar um útgáfu þess.  Krafa kæranda um stöðvun framkvæmda kemur ekki til efnisúrlausnar þar sem framkvæmdaaðili féllst á að halda að sér höndum og hefja ekki framkvæmdir meðan mál þetta væri til úrlausnar hjá nefndinni.  Á fundi úrskurðarnefndarinnar hinn 9. júlí 1998 var ákveðið að neyta heimildar til að lengja afgreiðslufrest í málinu til júlíloka vegna umfangs þess og nauðsynjar frekari gagnaöflunar.  Var umboðsmanni kæranda og fulltrúa Vegagerðarinnar gerð grein fyrir þessari ákvörðun.

Málavextir:  Hinn 31. júlí 1997 tilkynnti Vegagerðin fyrirhugaða framkvæmd við lagningu vegar úr Langadal að Ármótaseli til frumathugunar skipulagsstjóra ríkisins.  Varð niðurstaða skipulagsstjóra sú, að ráðist skyldi í frekara mat á umhverfisáhrifum lagningar umrædds vegar þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að slíkur ávinningur væri af framkvæmdinni eins og hún hefði verið kynnt af Vegagerðinni að umhverfisáhrif hennar yrðu ásættanleg. Skipulagsstjóri fékk lagningu vegarins til annarrar athugunar og lauk umfjöllun sinni um málið með úrskurði hinn 6. mars 1998 þar sem fallist er á lagningu  umrædds vegar úr Langadal að Ármótaseli, Háreksstaðaleið, en jafnframt er í úrskurðinum fallist á endurbyggingu núverandi vegar, hvort tveggja með nánar tilgreindum skilyrðum.  Við úrlausn skipulagsstjóra í málinu lágu fyrir umsagnir viðkomandi sveitarstjórna og opinberra stofnana, sem málið varðar, svo og athugasemdir, m. a. frá landeigendum, og er athugasemd frá kæranda þar á meðal. Með kæru dags. 14. apríl 1998 vísaði kærandi í máli þessu úrskurði skipulagsstjóra til umhverfisráðherra.  Að fengnum umsögnum og athugasemdum hagsmunaaðila kvað ráðherra upp úrskurð í málinu hinn 27. maí 1998 þar sem staðfestur var úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 6. mars 1998 með frekari skilyrðum, sem greinir í úrskurðarorði.

Þegar úrskurður skipulagsstjóra frá 6. mars 1998 lá fyrir ritaði Vegagerðin bréf dags. 31. mars 1998 til Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps þar sem þess er farið á leit með vísan til 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sbr. 27. gr. sömu laga að hreppsnefnd heimili Vegagerðinni lagningu Hringvegar úr Langadal að Ármótaseli samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti, dags. 30. mars 1998, sem sé í samræmi við legu vegarins eins og henni sé lýst í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og skipulagsstjóri hafi samþykkt.  Segir og í bréfinu að Vegagerðin muni hlíta þeim skilmálum sem skipulagsstjóri hafi sett fyrir lagningu vegarins, sbr. 6. kafla, úrskurðarorð, í niðurstöðu skipulagsstjóra.  Varðandi nánari lýsingu er vísað til frummats Vegagerðarinnar á umhverfisáhrifum, dags. í júlí 1997 og frekara mats, dags. í nóvember 1997. Erindi þetta var tekið fyrir á fundi hreppsnefndar hinn 7. apríl 1998 og kom fram tillaga að afgreiðslu málsins sem er svohljóðandi: „Samkvæmt 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða Skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 samþykkir sveitarstjórn Hlíðar- Jökul- Tunguhrepps umbeðið framkvæmdaleyfi á lagningu vegar. Hringvegur Langidalur – Ármótasel.  Þó setur svetarstjórn þau skilyrði. 1.  Í fyrsta lagi að byrjað verði á framkvæmdinni austan Víðidalsár.  2.  Í öðru lagi að ekki verði hafnar framkvæmdir fyrr en viðræðum verður komið á við landeigendur og umráðamenn jarða sem og eigendur Fjallakaffis í Möðrudal.  Sveitarstjóra er falið að koma þessum viðræðum á.  Sveitarstjóra er falið að leita eftir meðmælum skipulagsstofnunar.  Að þeim meðmælum fengnum er Vegagerðinni veitt framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. Grein sömu laga.“  Tillaga þessi var samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2 og var Vegagerðinni tilkynnt þessi niðurstaða með bréfi dags. 15. apríl 1998. Jafnframt mun fundargerð hreppsnefndar þar sem greint er frá þessari niðurstöðu hafa verið send íbúum sveitarfélagsins svo sem venja er í hreppnum.

Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun sveitarstjórnar að veita umrætt framkvæmdaleyfi og skaut málinu því til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 11. maí 1998 eins og að framan greinir.

Málsástæður og lagarök kæranda og Vegagerðarinnar:  Af hálfu kæranda er einkum á því byggt að sú ákvörðun hreppsnefndar að samþykkja framkvæmdaleyfið hafi brotið gegn 12. gr. a. laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum auk þess sem verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð hreppsnefndarinnar.  Í bréfi dags. 8. júní 1998 gerir kærandi frekari grein fyrir málsrökum sínum.  Bendir hann á að þegar um íþyngjandi ákvörðun sem þessa sé að ræða séu gerðar sérstaklega miklar kröfur til vandaðrar málsmeðferðar.  Þá sé ákvörðunin tekin á grundvelli undantekningarákvæðis og hafi því verið þörf enn vandaðri málsmeðferðar en leiði af almennum reglum.  Helstu annmarka á málsmeðferðinni telur kærandi vera þá að ekki hafi verið gætt ákvæða 12. gr. a. laga nr. 63/1993, lögbundinnar umsagnar hafi ekki verið leitað, ákvörðunin sé bundin óljósum skilyrðum, rökstuðning vanti fyrir ákvörðuninni, rannsókn málsins hafi verið áfátt og andmælaréttar ekki gætt.  Gerir kærandi nánari grein fyrir þessum málsástæðum hverri fyrir sig og telur þá annmarka sem á málsmeðferðinni hafi verið eiga að leiða til þess að ógilda beri hana.

Af hálfu Vegagerðarinnar er því haldið fram að við meðferð málsins hafi verið gætt allra þeirra skilyrða sem lög bjóða og hafi því sveitarstjórn haft fullnægjandi grundvöll til að byggja leyfisveitingu sína á.  Ítarlegar rannsóknir hafi farið fram á tveimur stigum í mati á umhverfisáhrifum og hafi hagsmunaaðilar og aðrir tvívegis haft ríflegan tíma til þess að koma sjónarmiðum sínum að.  Hafi því málsatvik og afstaða legið ljós fyrir þegar kom að ákvörðun sveitarstjórnar í málinu og verði ekki séð hvaða frekari rannsókna eða rökstuðnings hafi verið þörf.  Þá er á það bent að gera verði greinarmun á meðmælum og umsögn en ekki sé áskilið í lögum að leita þurfi umsagnar Skipulagsstofnunar við slíka ákvörðun sem hér um ræðir heldur sé áskilið að aflað sé meðmæla Skipulagsstofnunar.  Skýra verði ákvæði 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 73/1997 á þann veg að leita skuli samþykkis eða synjunar Skipulagsstofnunar og skipti því ekki máli hvort afstöðunnar sé leitað fyrirfram.  Auk þess hafi afstaða stofnunarinnar í raun legið fyrir eins og  ráða megi af úrskurði hennar frá 6. mars 1998.  Þá séu skilyrði þau sem sveitarstjórn setti bæði heimil og skýr og muni Vegagerðin að sjálfsögðu hlýta  þeim.

Umsagnir:  Leitað var umsagnar sveitarstjórnar Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps um kæruefnið.  Tekur sveitarstjórn ekki afstöðu til málsins.  Vegagerðinni var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu með vísun til 13. greinar stjórnsýslulaga og skilaði hún greinargerð í málinu eins og að framan er rakið.  Ekki þóttu efni til að leita umsagnar Skipulagsstofnunar í málinu heldur þótti mega styðjast við fyrri umfjöllun stofnunarinnar um málið og fyrirliggjandi samþykki fyrir því að framkvæmdaleyfi verði veitt.

Niðurstaða:  Ekki er fallist á það sjónarmið kæranda að óheimilt hafi verið að veita hið umdeilda framkvæmdaleyfi af þeirri ástæðu  að ekki hafi verið gætt ákvæða 12. gr. a. laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum.  Þegar sveitarstjórn tók umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfið til afgreiðslu lá fyrir niðurstaða annarrar athugunar og úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um vegaframkvæmd þá sem hér um ræðir. Í úrskurðinum felst endanleg niðurstaða skipulagsstjóra í málinu og var sveitarstjórn rétt að leggja þá niðurstöðu til grundvallar við ákvörðun sína í málinu.  Það að úrskurður skipulagsstjóra er kæranlegur og að kærufrestur var ekki liðinn þykir ekki skipta máli enda frestar það ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar að hún sé kæranleg eða hafi sætt kæru sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi byggir og á því að ákvörðun sveitarstjórnar hafi í ýmsum efnum verið áfátt.  Í fyrsta lagi hafi lögbundinnar umsagnar ekki verið leitað sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga en samkvæmt því ákvæði telur kærandi að sveitarstjórn hafi borið að leita álits Skipulagsstofnunar.  Þennan skilning telur úrskurðarnefndin rangan.  Í greindu ákvæði segir að sveitarstjórn geti, við þær aðstæður sem í ákvæðinu greinir, leyft einstakar framkvæmdir að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.  Verður þetta orðalag ekki skilið svo að krafist sé umsagnar Skipulagsstofnunar heldur er með ákvæðinu lögfest að samþykki Skipulagsstofnunar þurfi fyrir leyfi sem sveitarstjórn veitir á grundvelli ákvæðisins. Virðist Skipulagsstofnun leggja þennan skilning í ákvæðið því við afgreiðslu á erindi sveitarstjórnar þar sem farið er fram á meðmæli stofnunarinnar segir aðeins að stofnunin fallist á að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir lagningu vegarins.  Fellst úrskurðarnefndin á þá túlkun sem fram kemur í greinargerð Vegagerðarinnar að skýra verði umrætt ákvæði þannig að leita skuli samþykkis eða synjunar og að það varði ekki ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar í þessu tilviki þótt samþykkisins hafi verið leitað eftirá, sérstaklega með tilliti til þess að afstaða Skipulagsstofnunar lá í raun fyrir í úrskurðarformi þegar ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdaleyfið var tekin.

Samkvæmt 3 tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1993 er sveitarstjórn heimilt að binda leyfi sitt skilyrðum.  Þessa réttar neytti sveitarstjórn og setti sem skilyrði að byrjað yrði á framkvæmdinni á tilteknum stað og að viðræður yrðu teknar upp við hagsmunaaðila.  Ekki verður fallist á að þessi skilyrði séu svo óljós að varði ógildingu ákvörðunarinnar.  Skilyrðið um viðræður við hagsmunaaðila virðist hafa verið sett til áréttingar á lögvörðum rétti hagsmunaaðila en samkvæmt vegalögum nr. 45/1994 með síðari breytingum er Vegagerðinni skylt að leita samráðs og samninga við landeigendur sbr. m. a.  44. og 46. grein vegalaga.  Var skilyrði sveitarstjórnar um þetta efni því í raun óþarft.

Með ákvörðun sinni var sveitarstjórn að afgreiða umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi.  Var fallist á umsóknina með minni háttar skilyrðum.  Ekki verður séð að þörf hafi verið sérstaks rökstuðnings við þessa afgreiðslu þegar tillit er tekið til þeirrar ítarlegu umfjöllunar og rökstuðnings sem fyrir lá í úrskurði skipulagsstjóra um málið.  Þá var kæranda unnt að krefjast rökstuðnings með vísun til 21. greinar stjórnsýslulaga ef hann taldi þörf sérstaks rökstuðnings fyrir ákvörðuninni. Verður því ekki fallist á að skortur á rökstuðningi varði ógildingu ákörðunarinnar.

Eins og að framan er rakið var gert ítarlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda.  Telur úrskurðarnefndin að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt að hlutast til um frekari rannsókn málsins við undirbúning ákvörðunar sinnar um veitingu framkvæmdaleyfisins.  Þegar horft er til þess að við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafði hagsmunaaðilum tvívegis verðið gefinn kostur á að koma að athugasemdum og að kærandi hafði neytt réttar síns og komið athugasemdum á framfæri verður ekki talið að þörf hafi verið á að gefa honum sérstaklega kost á að tjá sig um málið áður en ákvörðun sveitarstjórnar var tekin.  Lágu sjónarmið hans fyrir hjá sveitarstjórn enda höfðu henni verið send gögn og niðurstöður matsins svo sem lögskylt er sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 63/1993.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að engir þeir annmarkar séu á ákvörðun sveitarstjórnar Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps um útgáfu framkvæmdaleyfis þess sem um er deilt í málinu að ógildingu varði.  Er því kröfu kæranda hafnað.  Vegagerðin hefur því framkvæmdaleyfi sem heimilar að ráðist sé í framkvæmdir við lagningu Hringvegar úr Langadal að Ármótaseli, Háreksstaðaleið, eins og greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar og er því staðfest  ákvörðun sveitarstjórnar  Hlíðar- Jökuldals- og Tunguhrepps frá 7. apríl 1998 um útgáfu framkvæmdaleyfis til lagningar Hringvegar úr Langadal að Ármótaseli, Háreksstaðaleið, með þeim skilyrðum sem greinir í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins dags. 6. mars 1998, framkvæmdaleyfinu sjálfu og úrskurði umhverfisráðherra frá 27. maí 1998.

15/1998 Grjótháls

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 9. júlí  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/1998, kæra lóðarhafa að Grjóthálsi 5 og 7-11 vegna byggingarleyfis fyrir veltiskilti á lóð Skeljungs hf. við Vesturlandsveg/ Grjótháls í Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 18. maí, 22. maí og 26. maí 1998 kæra Össur hf., Grjóthálsi 5, Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf., Grjóthálsi 7-11 og Grjótháls ehf. vegna lóðarinnar að Grjóthálsi 5 byggingarleyfi fyrir veltiskilti sem byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum hinn 25. september 1997 og staðfest var af borgarstjórn hinn 2. október 1997. Kærendur, sem fyrst fengu vitneskju um útgáfu hins kærða leyfis í lok apríl og byrjun maí 1998, krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi.  Um kæruheimild er  vísað til 4. mgr. 39. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 sbr. einnig 8. gr. sömu laga. 

Málavextir:  Með umsókn dagsettri 17. september 1997 sótti Skeljungur hf. um leyfi til að reisa veltiskilti á austurenda lóðar félagsins við Vesturlandsveg en lóð þessi liggur milli Vesturlandsvegar og Grjótháls andspænis lóðum kærenda. Samkvæmt uppdrætti, sem fylgdi umsókninni, er um að ræða 8,4 metra hátt burðarvirki og á því þrír skiltisfletir, sem hver um sig er 6,4 metrar á breidd og 4,2 metrar á hæð.  Umsókn þessi var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og í byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 25. september 1997 og staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 2. október 1997.  Engar framkvæmdir hafa enn verið hafnar við uppsetningu fyrirhugaðs skiltis og er svo að skilja að kærendur hafi frétt af áformum um uppsetningu þess af einhverri tilviljun í lok apríl og byrjun maí 1998. Liggur fyrir að þeim var ekki gerð grein fyrir útgáfu byggingarleyfis fyrir skiltinu þegar hún átti sér stað.  Eftir að kærendur fengu fregnir af áformum um uppsetningu skiltisins leituðu þeir upplýsinga um heimildir fyrir uppsetningu slíks skiltis og var þeim gerð grein fyrir útgáfu áðurgreinds byggingarleyfis með bréfum byggingarfulltrúa dags. 24. apríl og 4. og 19. maí 1998.  Með bréfum dags. 29. maí 1998 leitaði úrskurðarnefndin umsagna Skipulagsstofnunar og byggingarnefndar Reykjavíkur um málið og kynnti Skeljungi hf. kæruefnið og gaf félaginu kost á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu.  Var óskað eftir svörum þessara aðila eigi síðar en hinn 16. júní 1998.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að umrætt skilti muni skyggja verulega á húseignir þeirra og að þegar þeim var veitt byggingarleyfi til bygginga á lóðum sínum hafi ekkert komið fram um að búast mætti við mannvirki af þessu tagi á þessum stað.  Af hálfu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf. er þar að auki á það bent að hönnun húss þeirra hafi sérstaklega tekið mið af þeirri starfsemi, sem fram fari í húsinu.  Hafi byggingarnefnd auðvitað verið kunnugt um hönnun og útlit bygginga fyrirtækisins þegar afstaða var tekin til hins umdeilda byggingarleyfis.  Af hálfu Össurar hf. og Grjótháls ehf. er tekið fram, að samkvæmt gildandi skipulagi hafi ekki verið gert ráð fyrir byggingum framan við húseignina að Grjóthálsi 5.  Hafi þetta meðal annars ráðið miklu um staðarval er Össur hf. flutti starfsemi sína á þennan stað.  Kærendur telja að grenndarkynning hefði átt að fara fram áður en umsókn Skeljungs hf. um byggingarleyfi fyrir skiltinu gat komið til afgreiðslu.  Það að grenndarkynning fór ekki fram eigi að leiða til þess að fella beri hið umdeilda byggingarleyfi úr gildi.

Málsrök byggingarnefndar Reykjavíkur og byggingarleyfishafa:  Ekki hefur verið lögð fram greinargerð af hálfu Skeljungs hf. í málinu.  Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur hefur verið lögð fram umsögn um kæruefnið með bréfi dags. 25. júní 1998.  Þar kemur fram að ekki hafi verið venja að viðhafa grenndarkynningu vegna umsókna um skilti.  Er vísað í umsögninni til ákvæða 2. mgr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og því haldið fram að samkvæmt ákvæði þessu sé það á valdi byggingarnefndar að meta hvenær umsókn sé þannig háttað að kynna beri fyrir nágrönnum og þá því aðeins að um sé að ræða breytingar á húsum.  Tekið er fram, að ekki sé fyrir hendi samþykkt deiliskipulag fyrir viðkomandi svæði en samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé lóð Skeljungs á svæði fyrir verslunar- og þjónustumiðstöðvar en lóðir kærenda á svæði merktu iðnaðarsvæði.  Við meðhöndlun málsins hafi verið stuðst við samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur frá 30. 6. 1996.  Þá hafi verið litið til þess að um sé að ræða tiltölulega stóra lóð og mikið rými í kring á svæði fyrir iðnað, verslun og þjónustu.  Eigi fyrri ákvörðun því að standa óbreytt.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefnið er vísað til 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem í gildi voru þegar hið umdeilda byggingarleyfi var veitt.  Þá er einnig vísað til ákvæða 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992.  Er það álit stofnunarinnar að á grundvelli þessara ákvæða hefði byggingarfulltrúanum í Reykjavík borið að hlutast til um að fram færi grenndarkynning samkvæmt tilvitnuðu reglugerðarákvæði áður en hið umdeilda byggingarleyfi var veitt.  Þar sem slík grenndarkynning hafi ekki farið fram beri að fallast á kröfur kærenda um að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Niðurstaða:  Við úrlausn máls þessa ber að fara að efnisreglum byggingarlaga nr. 54/1978 þar sem hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út í gildistíð þeirra laga.  Um er að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd sbr. 1. mgr. 9. gr. þeirra laga og var málsmeðferð byggingarnefndar við það miðuð.  Mannvirki það sem hið umdeilda leyfi tekur til er verulegt að umfangi, 8,4 metra hátt frá jörðu og á því þrír skiltisfletir 6,4 metrar á breidd og 4,2 metrar á hæð.  Er flatarmál hvers skiltisflatar 26,88 fermetrar og samanlagt yfirborð skiltaflatanna þriggja því 80,64 fermetrar.  Flötum þessum er komið fyrir efst á burðarfæti skiltisins og vísa til þriggja átta.  Umlykja fletirnir rými sem er um það bil 74,5 rúmmetrar.  Úrskurðarnefndin telur að enda þótt ekki sé um húsbyggingu að ræða verði mannvirki af þessu tagi  að teljast nýbygging í skilningi ákvæðis 2. mgr. greinar 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og hafi byggingarnefnd því borið að gefa þeim nágrönnum, sem hún teldi hagsmuna eiga að gæta, rétt á að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd með tilskyldum hætti.  Verður ekki fallist á þá þröngu túlkun, sem fram kemur í umsögn byggingarnefndar, að reglur 2. mgr. greinar 3.1.1 í reglugerð nr. 177/1992 eigi einungis við um hús, enda leiðir af eðli máls að annars konar byggingar geta raskað grenndarhagsmunum í jafn ríkum mæli og húsbygging.  Þessi skilningur á sér einnig stoð í ákvæði 1. mgr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 þar sem gerð mannvirkja, sem hafa áhrif á útlit umhverfisins, er háð sömu skilyrðum um leyfi og bygging, niðurrif og breyting húsa.  Telur úrskurðarnefndin að í ákvæðinu komi fram sá vilji löggjafans að umsóknir um heimildir til gerðar mannvirkja, sem áhrif hafa á útlit umhverfis síns, skuli sæta sömu takmörkunum og málsmeðferð og umsóknir um byggingu, niðurrif eða breytingu húsa.  Ákvæði byggingarreglugerðarinnar verði að skýra í samræmi við þennan vilja löggjafans enda hefði ekki verið stjórnskipulega heimilt að skerða með ákvæði í reglugerð þá réttarvernd og það réttaröryggi sem ákvæðum byggingarlaga um byggingarleyfi er ætlað að tryggja.
 
Eins og afstöðu fasteigna kærenda til fyrirhugaðs skiltis er háttað og vegna nálægðar þess og umfangs telur úskurðarnefndin þá eiga hagsmuna að gæta og er það því niðurstaða nefndarinnar að byggingarnefnd hafi borið skylda til að gefa þeim kost á að tjá sig um hinar fyrirhuguðu framkvæmdir eins og áskilið er í 2. mgr. greinar 3.1.1 í byggingarreglugerð nr. 177/1992 áður en leyfi fyrir framkvæmdunum var veitt.

Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur í máli þessu segir að stuðst hafi verið við samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur frá 30. júní 1996, sem staðfest  var af borgarráði hinn 6. ágúst 1996.  Er samþykkt þessi meðal gagna málsins.  Þrátt fyrir það að stuðst hafi verið við samþykkt þessa við afgreiðslu málsins er svo að sjá að nokkuð hafi verið vikið  frá skilmálum hennar.

Á uppdrætti arkitekts af skiltinu dags. 2. september 1997, teikningu nr. A-001, sem árituð er af byggingarfulltrúa 23. september 1997, segir að heildarflatarmál skilta á lóðinni sé 42,89 fermetrar og að flatarmál skilta eftir tilkomu veltiskiltisins sé þar með 5,4 fermetrar á hverja 1000 fermetra lóðar.  Þessar staðhæfingar eru augljóslega rangar því eins og að framan er rakið eru skiltisfletir veltiskiltisins samtals 80,64 fermetrar.  Eru þá ótaldir fletir annarra skilta á lóðinni.  Í reynd er heildarflatarmál skilta á lóðinni eftir tilkomu veltiskiltisins um 96 fermetrar, sem svarar til rúmlega 12 fermetra á hverja 1000 fermetra lóðar, en lóðin er 7942 fermetrar.  Í grein 6.5 í ofangreindri samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur segir um skilti í miðhverfum og á verslunar- og þjónustulóðum að samanlögð stærð skilta skuli ekki fara yfir 8,0 fermetra fyrir hverja 1000 fermetra lóðar.  Er hið umdeilda byggingarleyfi ekki í samræmi við þessa skilmála, sem borgaryfirvöld hafa þó sjálf sett. Þá er svo að sjá að leyfi fyrir veltiskiltinu gangi einnig gegn ákvæðum samþykktarinnar í grein 6.9 um fjarlægð auglýsingaskilta á stöndum frá stofn- og tengibrautum og frá gatnamótum.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið heimilt að afgreiða umsókn Skeljungs hf. um leyfi fyrir umræddu veltiskilti fyrr en að undangenginni grenndarkynningu.  Auk þess fari leyfið gegn samþykktum borgarinnar um skilti og hafi efnislegum skilyrðum því ekki verið fullnægt við útgáfu þess.  Beri því að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi útgefið af byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 25. september 1997, staðfest af borgarstjórn 2. október 1997, þar sem Skeljungi hf. er heimilað að reisa veltiskilti á lóð félagsins við Vesturlandsveg/Grjótháls í Reykjavík, er fellt úr gildi.
      

14/1998 Skútustaðaskóli

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 9. júlí kl. 16:00, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru: formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður, og aðalmennirnir Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/1998; 98050003

Kæra Ólafs Axelssonar hrl. f.h. B, G og K Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi vegna samþykktar byggingarnefndar Skútustaðahrepps frá 16. apríl 1998 á viðbygginu við Skútustaðaskóla, staðfestingar hennar í sveitarstjórn 30. apríl 1998 og eftirfarandi framkvæmda.       

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 1998, sem barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir Ólafur Axelsson hrl. f.h. B,  G  og  K, Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi samþykkt byggingarnefndar Skútustaðahrepps frá 16. apríl 1998 á umsókn Jóns Ó. Ragnarssonar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Skútustaðaskóla, afgreiðslu sveitarstjórnar 30. apríl 1998 á henni, útgáfu byggingarleyfis sama dag og eftirfarandi framkvæmdir.

Um kæruheimild vísast til 39. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærendur krefjast ógildingar hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana og að breytt notkun hússins verði bönnuð. 

Málsatvik:  Helstu málsatvik eru þau að á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 23. mars 1998 var samþykkt að selja J skólahúsið að Skútustöðum.  Hafði húsið verið auglýst til sölu með auglýsingu í Morgunblaðinu hinn 14. febrúar 1998 og var þess m.a. óskað í auglýsingunni að í tilboðum kæmu  fram hugmyndir um  notkun hússins í framtíðinni.  Bárust þrjú tilboð í húsið og var eitt þeirra frá Mývatni ehf., sem kærandinn K er stjórnarmaður í, auk þess sem hann er framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir félagið.  Í tilboði félagsins er tekið fram að meginhugmyndin með kaupum á húsnæðinu sé að færa út starfsemi félagsins í ferðaþjónustu, uppbyggingu hótelrýmis ásamt sýningar- og ráðstefnuaðstöðu. 

Eftir að gengið hafði verið frá sölu skólahússins hófst kaupandi handa við framkvæmdir við endurbætur á eigninni, en hann hyggst reka í henni veitinga- og gistihús.  Sótti hann um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið og var byggingarleyfisumsókn hans samþykkt í byggingarnefnd hreppsins hinn 16. apríl 1998.  Samþykkt byggingarnefndar var staðfest af sveitarstjórn hinn 30. apríl 1998 og var byggingarleyfi gefið út sama dag. 

Þar sem kærendur töldu nýbygginguna og hina breyttu notkun hússins fara í bága við skipulag og skipulagslög  kærðu þeir umræddar stjórnvaldsathafnir til úrskurðarnefndarinnar eins og að ofan greinir.

Með rökstuddum úrskurði, uppkveðnum hinn 12. júní 1998, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um að framkvæmdir við viðbyggingu og breytingar á húsinu yrðu stöðvaðar.  Við meðferð þess þáttar málsins tók Dr. Sigurður Erlingsson prófessor sæti í nefndinni sem varamaður Þorsteins Þorsteinssonar vegna fjarveru Þorsteins. Þorsteinn tók sæti í nefndinni eftir uppkvaðningu téðs úrskurðar og hefur tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um málið frá þeim tíma.

Málsástæður og lagarök kærenda:  Kærendur telja í fyrsta lagi, að ekkert löglegt staðfest skipulag sé í gildi fyrir svæði það sem skólahúsið stendur á.  Skipulag, sem umhverfisráðherra hafi staðfest fyrir Skútustaðahrepp  hinn 31. desember 1997, verði að teljast ólögmætt þar eð það hafi ekki verið réttilega kynnt.  Hafi slíkar breytingar verið gerðar á þeirri skipulagstillögu, sem upphaflega var kynnt, að auglýsa hefði þurft þær sérstaklega.  Þá telja kærendur að umræddar breytingar hafi ekki verið Skipulagsstofnun og ráðherra ljósar við afgreiðslu þeirra á málinu.  Auk þess telja kærendur að breytingarnar hafi ekki haft lagastoð. Ekki hafi verið aflað meðmæla Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997, svo sem þurft hefði við þessar aðstæður. Þá sé ekki vitað til þess að framkvæmdir hafi hlotið staðfestingu Náttúruverndar ríkisins sbr. 3. gr. laga nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í öðru lagi telja kærendur að jafvel þótt gilt skipulag væri fyrir hendi séu slíkir annmarkar á allri meðferð málsins að ekki verði séð að gild leyfi séu fyrir breyttri notkun hússins eða viðbyggingu við það.  Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta notkun hússins.  Þá hafi ekki verði gætt ákvæða laga nr. 73/1997 um að afla meðmæla Skipulagsstofnunar eða viðhafa grenndarkynningu svo sem þurft hefði í umræddu tilviki.  Loks hafi framkvæmdir verið hafnar áður en leyfi sveitarstjórnar hafi verið gefið út.

Málsrök byggingarnefndar, sveitarstjórnar Skútustaðahrepps og byggingarleyfishafa:  Af hálfu sveitarstjórnar er á því byggt að aðalskipulag Skútustaðahrepps, sem staðfest var af ráðherra hinn 31. desember 1997, hafi fullt gildi.  Framkvæmdir þær, sem kæran tekur til séu, í fullu samræmi við umrætt skipulag svo og fyrirhuguð notkun hússins.  Öllum, sem hlut eiga að málinu, hafi mátt vera ljóst að í umræddu húsi væri áformuð breytt notkun frá því sem áður var enda hafi verið auglýst eftir tillögum að notkun hússins þegar það var auglýst til sölu.  Hafi allir tilboðsgjafar haft uppi áform um að nýta húsið í tengslum við ferðaþjónustu og hafi húsið verið selt núverandi eiganda til slíkra nota.  Þessi áform hafi ekki átt að koma kærendum á óvart enda hafi það verið alkunna í hreppnum að Mývatn ehf. hefði hug á að eignast húsið til þess að færa út starfsemi sína í ferðaþjónustu. Þá er á því byggt af hálfu sveitarstjórnar að ekki hafi þurft sérstakt leyfi Náttúruverndar ríkisins í málinu þar eð stofnunin hafi fallist á skipulagsáætlun þá sem eftir sé farið.  Þá sé ekki um að ræða breytta notkun hússins frá því sem gert sé ráð fyrir í gildandi  skipulagi  auk þess sem gistiþjónusta hafi verið rekin í húsinu um áratugi án þess að við það hafi verið gerðar athugasemdir fyrr en nú.    Loks er á því byggt að ekki hafi verið þörf á að gera deiliskipulag af svæðinu þar sem um sé að ræða framkvæmdir á skýrt afmarkaðri lóð til ákveðinna nota. Byggingarleyfishafi hefur munnlega tjáð sig um málið við úrskurðarnefndina og tekur undir sjónarmið byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu.

Umsögn Skipulagsstofnunar:
Í umsögn Skipulagsstofnunar í málinu dags. 3. júní 1998 kemur fram það álit, að enda þótt eðlilegra hefði verið að kynna sérstaklega breytingu þá sem varð á tillögu að aðalskipulagi Skútustaðahrepps varðandi landnotkun umhverfis skólahúsið að Skútustöðum, frá auglýsingu að endanlegri tillögu, sé ekki um slíka annmarka að ræða að leiða eigi til ógildingar á staðfestingu og gildi aðalskipulagsins.  Í húsinu hafi verið rekin ferðamannaþjónusta á sumrin og breytingin því í raun frekar aðlögun að raunverulegri landnotkun  en tillaga um breytta landnotkun. Hins vegar er það skoðun Skipulagsstofnunar að leita hefði þurft meðmæla Skipulagsstofnunar eða láta fara fram grenndarkynningu til þess að fullnægt væri skilyrðum laga um heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að þeir annmarkar hafi verið á gerð og undirbúningi aðalskipulags Skútustaðahrepps að varði ógildingu.  Verður því lagt til grundvallar að í gildi sé aðalskipulag það sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 31. desember 1997.  Eru hinar umdeildu framkvæmdir í samræmi við það. Hefur skipulag þetta hlotið staðfestingu Náttúruverndar ríkisins og var því ekki þörf sérstaks leyfis til hinna umdeildu framkvæmda sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. 

Það verður ekki talið varða ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis, þótt í umsókn um það sé ekki með formlegum hætti sótt um leyfi til að breyta notkun húss. Var gerð grein fyrir þeim áformum, sem umsækjandi hafði um starfsemi í húsinu, undir liðnum „aðrar upplýsingar“ í umsókninni auk þess sem þau áform voru þekkt forsenda umsækjandans við kaup hans á húsinu.

Þá kemur til skoðunar hvort sveitarstjórn hafi borið að leita meðmæla Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 eða láta fara fram grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna sbr. 2. mgr. 23. greinar.  Að því er fyrra atriðið varðar þá telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið þörf á að leita meðmæla Skipulagsstofnunar með umræddum framkvæmdum þar sem fyrir hendi var nýlega staðfest aðalskipulag og samrýmdust áform handhafa hins umdeilda byggingarleyfis um notkun skólahússins að Skútustöðum forsendum skipulagsins um landnotkun.  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps, sem jafnframt gegnir störfum skipulagsnefndar í hreppnum, taldi ekki þörf á að hlutast til um grenndarkynningu þegar leyfi fyrir hinni umdeildu viðbyggingu og breyttri notkun hússins var veitt.  Var það mat sveitarstjórnar að þar sem um langt skeið hefði verið rekið gistiheimili í skólahúsinu að sumri til þá væri ekki um að ræða slíka breytingu að leita þyrfti álits nágranna.  Að því er viðbygginguna varðar hefur verið bent á það af hálfu sveitarstjórnar að hún er ekki í sjónlínu frá byggðinni sunnan þjóðvegarins auk þess sem þjóðvegurinn skilur þá byggð frá því svæði, sem skólahúsið er staðsett á. 

Fallast verður á að ekki hafi verið ástæða til þess að gangast fyrir grenndarkynningu í umræddu tilviki.  Ekkert hús í byggðinni sunnan þjóðvegarins, þar sem hann liggur um land Skútustaða, er innan 150 metra fjarlægðar frá byggingu þeirri, sem kæruefnið lýtur að.  Viðbygging sú sem leyfð var við húsið er að norðanverðu við austurálmu gamla skólahússins og í innhorni þess, en húsið er vinkilbygging.  Viðbyggingin er því í hvarfi  séð úr suðurátt og hefur því ekki í för með sér útlitsbreytingu á skólahúsinu séð frá þjóðveginum eða þjónustusvæði því, sem fyrir er að Skútustöðum sunnan vegarins. Verður ekki fallist á það að kærendur séu nágrannar, sem eigi hagsmuna að gæta, í skilningi 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Kemur þar bæði til fjarlægð eigna þeirra frá hinni umdeildu byggingu og afstaða fasteigna þeirra til viðbyggingarinnar sem að framan er lýst.  Það að einn kærenda hefur haft með höndum ferðaþjónustu að Skútustöðum þykir ekki skipta máli við úrlausn máls þessa, enda þykja atvinnuhagsmunir eða samkeppnissjónarmið ekki hafa átt að leiða til þess að grenndarkynningar væri þörf eins og atvikum er háttað í málinu.  Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt að hlutast til um grenndarkynningu áður en hið umdeilda byggingarleyfi var veitt og hafi henni því verið útgáfa þess heimil.  Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfum kærenda í máli þessu um ógildingu byggingarleyfis og um að breytt notkun umrædds húss verði bönnuð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana og um að breytt notkun skólahússins að Skútustöðum verði bönnuð.

 

12/1998 Laugaból

Með

Ár 1998, fimmtudaginn 25. júní  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12 /1998

Kæra Ó, Laugabóli II, Mosfellsbæ vegna ákvörðunar byggingarnefndar og sveitarstjórnar Mosfellsbæjar um frestun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 3. maí 1998, er barst nefndinni hinn 8. maí 1998, kærir Ó þá ákvörðun byggingarnefndar Mosfellsbæjar að fresta afgreiðslu umsóknar hans um leyfi til byggingar hesthúss að Laugabóli II, Mosfellsbæ.

Málavextir:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitaði kærandi hinn 15. október 1997 til umboðsmanns Alþingis með kvörtun um að umsókn hans um byggingarleyfi frá því í nóvember 1996 hefði ekki verið svarað af hálfu Mosfellsbæjar.  Við eftirgrennslan umboðsmanns Alþingis um málið kom í ljós, að erindi kæranda hafði verið vísað til skipulagsnefndar og að á fundi hennar í byrjun desember 1996 hafði því verið frestað og ákveðið að óska eftir því að kannaður yrði vilji íbúa í Mosfellsdal fyrir því að hafinn yrði undirbúningur að gerð deiliskipulags.  Jafnframt kom í ljós að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ teldu ekki rétt að veita leyfi til neinna nýbygginga á svæðinu fyrr en deiliskipulag hefði verið samþykkt.  Var það niðurstaða umboðsmanns Alþingis að ljóst væri að sú ákvörðun hefði verið tekin af hálfu Mosfellsbæjar, að afgreiða ekki umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrr en deiliskipulag fyrir Mosfellsdal hefði verið samþykkt. Umboðsmaður Alþingis gerði kæranda ítarlega grein fyrir þessari niðurstöðu sinni með bréfi dags. 26. mars 1998.  Bendir hann kæranda á það í bréfinu að í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kveðið á um það, að telji einhver rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar, sé honum heimilt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar skv. 8. grein laganna innan mánaðar frá því að honum varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Er kæranda bent á að vísa máli sínu til úrskurðarnefndarinnar, enda geti umboðsmaður Alþingis ekki fjallað um kvörtun um málefni, sem skjóta megi til æðra stjórnvalds, fyrr en hið æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu.

Niðurstaða:  Bréf umboðsmanns Alþingis til kæranda ber ekki annað með sér en að það hafi verið sent í almennum pósti. Það er dagsett fimmtudaginn  23. mars 1998 og verður að ætla að það hafi borist kæranda fyrir lok mars.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni í hendur hinn 8. maí 1998.  Kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem kæranda hafði verið gerð grein fyrir í bréfi umboðsmanns Alþingis, var þá liðinn og þykir ekki skipta máli þótt kærubréfið sé dagsett 3. maí 1998, enda var það á ábyrgð kæranda að sjá til þess að það bærist úrskurðarnefndinni með tryggilegum hætti.  Samkvæmt framansögðu og með vísun til  28. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber að vísa máli þessu frá.

Úrskurðarorð: 

Kæru Ó, Laugabóli II, Mosfellsbæ dags. 3. maí 1998, þar sem kærð er ákvörðun byggingarnefndar og sveitarstjórnar Mosfellsbæjar um frestun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi, er vísað frá úrskurðarnefnd.

 

14/1998 Skútustaðaskóli

Með

Ár 1998, föstudaginn 12. júní kl. 14:00, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru; formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður,  Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur, aðalmaður í nefndinni og Dr. Sigurður Erlingsson verkfræðingur, varamaður Þorsteins Þorsteinssonar verkfræðings, en hann tók sæti í nefndinni í neðangreindu máli er það var fyrst tekið þar fyrir vegna fjarveru Þorsteins.

Fyrir var tekið mál nr. 14/1998; 98050003

Kæra Ólafs Axelssonar hrl. f. h. B, G og K Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi á samþykkt byggingarnefndar Skúttustaðahrepps frá 16. apríl 1998 fyrir viðbygginu við Skútustaðaskóla, staðfestingu hennar í sveitarstjórn 30. apríl 1998 og eftirfarandi framkvæmdum.       

Tekin  er til úrlausnar krafa kærenda um stöðvun framkvæmda og um hana kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 1998, sem barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir Ólafur Axelsson hrl. f. h. B, G og K, Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi samþykkt bygggingarnefndar Skútustaðahrepps frá 16. apríl 1998 á umsókn J um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Skútustaðaskóla, afgreiðslu sveitarstjórnar 30. apríl 1998 á henni, útgáfu byggingarleyfis sama dag og eftirfarandi framkvæmdir.

Um kæruheimild vísast til 39. gr. l. nr. 73/1997, sbr. 8. gr. sömu laga.                          
                                             
Kærendur krefjast ógildingar hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana, að framkvæmdir við Skútustaðaskóla verði stöðvaðar og breytt notkun hússins bönnuð. 

Málatvik:  Helstu málsatvik eru þau að á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 23. mars 1998 var samþykkt að selja J skólahúsið að Skútustöðum.  Hafði húsið verið auglýst til sölu með auglýsingu í Morgunblaðinu hinn 14. febrúar 1998 og var þess m. a. óskað í auglýsingunni að í tilboðum kæmu  fram hugmyndir um  notkun hússins í framtíðinni.  Bárust þrjú tilboð í húsið og var eitt þeirra frá Mývatni ehf., sem kærandinn Kristján er stjórnarmaður í, auk þess sem hann er framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir félagið.  Í tilboði félagsins er tekið fram að meginhugmyndin með kaupum á húsnæðinu sé að færa út starfsemi félagsins í ferðaþjónustu, uppbyggingu hótelrýmis ásamt sýninga- og ráðstefnuaðstöðu. 

Eftir að gengið hafði verið frá sölu skólahússins hófst kaupandi handa við framkvæmdir við endurbætur á eigninni, en hann hyggst reka í henni veitinga- og gistihús.  Sótti hann um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið og var byggingarleyfisumsókn hans samþykkt í byggingarnefnd hreppsins hinn 16. apríl 1998.  Samþykkt byggingarnefndar var staðfest af sveitarstjórn hinn 30. apríl 1998 og var byggingarleyfi gefið út sama dag.  Undirbúningur framkvæmda mun hafa hafist 18. apríl 1998 með leyfi byggingarfulltrúa en fyrstu framkvæmdir voru jarðvegsframkvæmdir þar sem meðal annars var grafið fyrir nýrri rotþró, sem var að sögn byggingarfulltrúa skilyrði fyrir áframhaldandi notkun hússins, hver svo sem hún yrði.  Var þessi verkþáttur unninn í samráði við heilbrigðisfulltrúa.

Þar sem kærendur töldu nýbygginguna og hina breyttu notkun hússins fara í bága við skipulag og skipulagslög  kærðu þeir umræddar stjórnvaldsathafnir til úrskurðarnefndarinnar eins og að ofan greinir.

Málsástæður og lagarök kærenda:  Kærendur telja í fyrsta lagi, að ekkert löglegt staðfest skipulag sé í gildi fyrir svæði það sem skólahúsið stendur á.  Skipulag, sem umhverfisráðherra hafi staðfest fyrir Skútustaðahrepp  hinn 31. desember 1997 verði að teljast ólögmætt þar eð það hafi ekki verið réttilega kynnt.  Hafi slíkar breytingar verið gerðar á þeirri skipulagstillögu, sem upphaflega var kynnt, að auglýsa hefði þurft þær sérstaklega.  Þá telja kærendur að umræddar breytingar hafi ekki verið Skipulagsstofnun og ráðherra ljósar við afgreiðslu þeirra á málinu.  Auk þess telja kærendur að breytingarnar hafi ekki haft lagastoð.  Ekki hafi verið aflað meðmæla Skipulagsstofnunar sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 svo sem þurft hefði við þessar aðstæður. Þá sé ekki vitað til þess að framkvæmdir hafi hlotið staðfestingu Náttúruverndar ríkisins sbr. 3. gr. l. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í öðru lagi telja kærendur að jafvel þótt gilt skipulag væri fyrir hendi séu slíkir annmarkar á allri meðferð málsins að ekki verði séð að gild leyfi séu fyrir breyttri notkun hússins eða viðbyggingu við það.  Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta notkun hússins.  Þá hafi ekki verði gætt ákvæða l. nr. 73/1997 um að afla meðmæla Skipulagsstofnunar eða viðhafa grenndarkynnigu svo sem þurft hefði í umræddu tilviki.  Loks hafi framkvæmdir verið hafnar áður en leyfi sveitarstjórnar hafi verið gefið út.

Málsrök byggingarnefndar og sveitarstjórnar Skútustaðahrepps og byggingarleyfishafa:  Af hálfu sveitarstjórnar er á því byggt að aðalskipulag Skútutaðahrepps, sem staðfest var af ráðherra hinn 31. desember 1997 hafi fullt gildi.  Framkvæmdir þær, sem kæran tekur til séu í fullu samræmi við umrætt skipulag svo og fyrirhuguð notkun hússins.  Öllum, sem hlut eiga að málinu, hafi mátt vera ljóst að í umræddu húsi væri áformuð breytt nýting frá því sem áður var enda hafi verið auglýst eftir tillögum að nýtingu hússins þegar það var auglýst til sölu.  Hafi allir tilboðsgjafar haft uppi áform um að nýta húsið í tengslum við ferðaþjónustu og hafi húsið verið selt núverandi eiganda til slíkra nota.  Þessi áform hafi ekki átt að koma kærendum á óvart enda hafi það verið alkunna í hreppnum að Mývatn ehf. hefði hug á að eignast húsið til þess að færa út starfsemi sína í ferðaþjónustu. Þá er á því byggt af hálfu sveitarstjórnar að ekki hafi þurft sérstakt leyfi Náttúruverndar ríkisins í málinu þar eð stofnunin hafi fallist á skipulagsáætlun þá sem eftir sé farið.  Þá sé ekki um að ræða breytta notkun hússins frá því sem gert sé ráð fyrir í gildandi  skipulagi   auk þess sem gistiþjónusta hafi verið rekin í húsinu um áratugi án þess að við það hafi verið gerðar athugasemdir fyrr en nú.    Loks er á því byggt að ekki hafi verið þörf á að gera deiliskipulag af svæðinu þar sem um sé að ræða framkvæmdir á skýrt afmarkaðri lóð til ákveðinna nota. Bygginarleyfishafi hefur munnlega tjáð sig um málið við úrskurðarnefndina og tekur undir sjónarmið byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Í umsögn Skipulagsstofnunar í málinu ds. 3. júní 1998 kemur fram það álit, að enda þótt eðlilegra hefði verið að kynna sérstaklega breytingu þá sem varð á tillögu að aðalskipulagi Skútustaðahrepps varðandi landnotkun umhverfis skólahúsið að Skútustöðum frá auglýsingu að endanlegri tillögu, sé ekki um slíka anmarka að ræða að leiða eigi til ógildingar á staðfestingu og gildi aðalskipulagsins.  Í húsinu hafi verið rekin ferðamannaþjónusta á sumrin og breytingin því í raun frekar aðlögun að raunverulegri landnotkun  en tillaga um breytta landnotkun. Hins vegar er það skoðun Skipulagsstofnunar að leita hefði þurft meðmæla Skipulagsstofnunar eða láta fara fram grenndarkynningu til þess að fullnægt væri skilyrðum laga um heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að þeir annmarkar hafi verið á gerð og undirbúningi aðalskipulags Skútustaðhrepps að varði ógildingu.  Verður því lagt til grundvallar að í gildi sé aðalskipulag það sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 31. desember 1997.  Eru hinar umdeildu framkvæmdir í samræmi við það. Við úrlausn þess hvort orðið verði við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verður að líta til þess að kæra í máli þessu barst nefndinni röskum mánuði eftir að hinar kærðu framkvæmdir hófust.  Samkvæmt úttektum byggingarfulltrúa var frágangi sökkla og lagna í grunn nýbyggingarinnar lokið hinn 2. maí 1998, gólfplata steypt 9. maí og límtrésburðarvirki tekið út 16. maí.  Þeim framkvæmdum, sem að dómi úrskurðarnefndarinnar hefði helst getað skipt máli að fresta, var því lokið þegar kæra barst.  Í ljósi þessa þykja ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda meðan beðið er efnisúrlausnar úrskurðarnefndar í málinu enda verður ekki séð að framkvæmdir við frágang og innréttingar hafi í för með sér þá röskun á hagsmunum kærenda að réttmætt sé að þær verði stöðvaðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við Skútustaðaskóla verði stöðvaðar.