Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/2001 Skildinganes

Ár 2001, miðvikudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2001; kæra eigenda fasteignanna nr. 41 við Skildinganes og 24 við Bauganes í Reykjavík á samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur frá 29. júní 2000 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss með aukaíbúð á lóðinni nr. 43 við Skildinganes og krafa kærenda um að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. ágúst 2001, mótteknu af nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kæra eigendur fasteignanna að Skildinganesi 41 og Bauganesi 24 í Reykjavík samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með aukaíbúð og innbyggðri bílageymslu á lóðinni nr. 43 við Skildinganesi. Kærendur krefjast þeir þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hafi málið til meðferðar. 

Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur og byggingarleyfishafa var þegar gert viðvart um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu. Hafa nefndinni nú borist andmæli og málsrök skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur, en byggingarleyfishafi hefur ekki neytt andmælaréttar í málinu. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. ágúst s.l., gerðu kærendur frekari grein fyrir kröfum sínum og málsástæðum, en byggingarnefnd Reykjavíkur taldi ekki ástæðu til frekari andsvara af því tilefni. Telur úrskurðarnefndin málið nú nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrskurðar. 

Málsatvik:  Málsatvik verða hér einungis rakin stuttlega og einvörðungu að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn þess hvort fallast beri á þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar. 

Í aprílmánuði árið 2000 sótti Kristinn Bjarnason um leyfi til byggingarnefndar Reykjavíkur til þess að byggja steinsteypt, einlyft, einbýlishús með aukaíbúð og innbyggðri bílageymslu á lóðinni nr. 43 við Skildinganes. Erindi þetta var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 25. maí 2000 og þá vísað til skipulags- og umferðarnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.

Við skoðun á uppdráttum, dags. 15. maí 2000, kom í ljós að hluti bílageymslu reyndist utan byggingarreits og uppdrættir þar af leiðandi í andstöðu við gildandi skipulagsskilmála. Nýir uppdrættir voru lagðir fyrir Borgarskipulag þann 15. júní 2000, þar sem bílageymsla hafði verið færð til, þannig að hún taldist nú öll innan byggingarreits. Að svo búnu var erindi umsækjanda lagt að nýju fyrir byggingarnefnd og það samþykkt þann 29. júní 2000 og staðfest á fundi borgarráðs í umboði borgarstjórnar þann 4. júlí 2000. Samkvæmt samþykktum uppdráttum er heildarstærð umrædds húss 256,9 ferm., þar af er aukaíbúð 69,3 ferm. að stærð.           

Framkvæmdir hófust við byggingu hússins að Skildinganesi 43 í aprílmánuði s.l. og hafa útveggir þegar verið steyptir og þaksperrum komið fyrir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er einkum á því byggt að grenndarkynning á fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum á lóðinni að Skildinganesi 43 hafi ekki farið fram, þótt byggingarleyfi fyrir húsinu fæli í sér frávik frá skipulagsskilmálum í Skildinganesi frá árinu 1990. Í því sambandi vísa þeir til 5. mgr. 12. gr. byggingarreglugerðar nr. 441 frá 1998, sbr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73 frá 1997, og telja að skipulagsnefnd hafi borið að láta fara fram grenndarkynningu, enda sé það fortakslaus lagaskylda, hversu óveruleg sem breyting verði talin á deiliskipulagi. Sú staða gæti ella komið upp, svo sem kærendur telja að eigi hér við, að reist yrði mannvirki sem skerti rétt nágranna, án þess að þeir gætu nokkrum vörnum við komið. Er það álit kærenda að leiki á því vafi hvort þörf sé grenndarkynningar, eigi að túlka slíkan vafa þeim í hag sem grenndarhagsmuna eigi að gæta. Önnur niðurstaða væri ekki í samræmi við almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins, sbr. 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í greinargerð kærenda eru rakin þau atriði sem þeir telja að feli í sér frávik frá skipulagsskilmálum. Aðeins verður hér stuttlega gerð grein fyrir þeim atriðum.

Í fyrsta lagi telja þeir að norðurhlið hússins að Skildinganesi 43 liggi svo nálægt lóðamörkum við Bauganes 24 að óhugsandi sé að kröfum um lágmarksfjarlægð sé fullnægt. 
Í öðru lagi byggja kærendur á því að vikið hafi verið frá 2. gr. skipulagsskilmála frá 1990, þegar veitt var leyfi fyrir aukaíbúð í húsinu, sem þeir telja vera 32% af heildarstærð hússins. Í þeim útreikningi er ekki tekið tilllit til flatarmáls bílageymslunnar. Þá séu báðar íbúðirnar í húsinu algerlega sjálfstæðar einingar og hafi byggingaryfirvöld því í raun verið að leyfa byggingu tveggja íbúða húss, eins konar fjöleignarhúss.
Loks er það álit kærenda að í 5. gr. skipulagsskilmálanna frá 1990, um meiri mænishæð en áður var heimiluð, felist ólögmæt mismunun gagnvart þeim íbúum sem fyrir eru í gamalgrónu hverfi. Draga kærendur í efa að ákvæði 5. gr. tilv. skilmála stæðist fyrir dómi, ef á slíkt reyndi, þrátt fyrir að skipulagsskilmálunum kunni að hafa verið breytt með formlega réttum hætti á árinu 1990.

Málsrök byggingaryfirvalda:  Í greinargerð skrifstofustjóra byggingarfulltrúa, dags. 14. ágúst 2001, er gerð grein fyrir sjónarmiðum Reykjavíkurborgar til þeirra atriða er fram koma í kærubréfi. Er það álit byggingaryfirvalda að byggingarleyfi fyrir umrætt hús hafi verið veitt í samræmi við samþykkt deiliskipulag á grundvelli staðfests aðalskipulags og að ekkert nýtt hafi komið fram, sem breytt geti þeirri ákvörðun byggingarnefndar. Því sé ástæðulaust að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, sem þegar séu langt á veg komnar.

Við efnisúrlausn málsins verður gerð nánari grein fyrir málsástæðum kærenda og byggingaryfirvalda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis fyrir íbúðarhúsið að Skildinganesi 43 í Reykjavík, sem samþykkt var í byggingarnefnd þann 29. júní 2000, svo og hvort óveruleg breyting hafi þá verið gerð á deiliskipulagi sem borið hafi að grenndarkynna skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 5. mgr. 12. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Fyrir liggur að framkvæmdir við bygginguna eru nú langt á veg komnar, útveggir uppsteyptir og einangraðir og þaksperrur reistar.

Enda þótt ekki hafi verið tekin efnisleg afstaða til málsástæðna kærenda verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við gildandi skipulagsskilmála frá árinu 1990, sem og viðeigandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Þykir því ekki augljóst að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum ágöllum að ógildingu varði. Með hliðsjón af ofangreindu, svo og þegar til þess er litið að hagsmunir kærenda af því að framkvæmdir verði stöðvaðar verða að teljast minni en hagsmunir byggingarleyfishafa af því að fá þeim fram haldið, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fallast ekki á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við byggingu hússins að Skildinganesi 43. Eru framkvæmdir því heimilar, en alfarið á ábyrgð byggingarleyfishafa, meðan krafa kærenda um ógildinu hins kærða byggingarleyfis er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu hússins að Skildinganesi 43, Reykjavík, verði stöðvaðar.