Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2000 Bröndukvísl

 

Ár 2001, fimmtudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2000; kæra Andra Árnasonar hrl., f.h. eigenda fasteignanna nr. 12 og 16 við Bröndukvísl í Reykjavík, á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. apríl 2000 um að ráðið telji „ekki tilefni til að krefjast niðurrifs á skýli“ á lóðinni nr. 22 við Bröndukvísl.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. maí 2000, sem barst nefndinni sama dag, kærir Andri Árnasonar hrl., f.h. eigenda fasteignanna nr. 12 og 16 við Bröndukvísl í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. apríl 2000 „að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 9. mars 2000 um að eiganda fasteignarinnar Bröndukvíslar 22, Reykjavík, sé skylt að rífa skýli á lóð, sem byggt hafði verið án byggingarleyfis og í andstöðu við fyrirliggjandi deiliskipulag, sbr. og staðfestingu borgarstjórnar Reykjavíkur á umræddri ákvörðun, sbr. fundargerð borgarstjórnar 6. apríl 2000.“ 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Kærendur, sem eru eigendur fasteignanna Bröndukvíslar 12 og 16 í Reykjavík, eru nábýlingar við Bröndukvísl 22.  Liggja fasteignirnar svo, að suðurhlið fyrrnefndu eignanna snúa á móti norðurhlið Bröndukvíslar 22.  Á milli húsanna er götubotnlangi og frá honum aðkoma að húsunum nr. 12 og 16 við Bröndukvísl.

Byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti hinn 11. júlí 1991 að reist yrði girðing úr timbri á lóðinni nr. 22 við Bröndukvísl.  Í stað þess að reisa timburgirðingu steypti húseigandi girðinguna og myndar hún tvo veggi þess skýlis sem um er deilt í máli þessu.  Um er að ræða vinkillaga steypta girðingu út frá vesturhlið einbýlishússins á lóðinni að lóðarmörkum og meðfram þeim til norðurs.  Létt þak hefur verið sett ofan á girðinguna út frá vesturhlið hússins og myndast þannig skýli út frá húsinu að lóðarmörkum að vestan.  Er botnflötur skýlisins hellulagt svæði, nokkru lægra en gata sú, sem liggur að lóðinni að norðanverðu.  Er skýli þetta opið til norðurs en timburgirðing lokar nú fyrir umferð ökutækja að skýlinu.  Hins vegar er opið fyrir umferð gangandi manna inn á lóðina við enda þessarar girðingar.

Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 26. október 1992, til eiganda Bröndukvíslar 22 var honum tilkynnt að fram hefði komið kvörtun frá nágrönnum um notkun norðurhluta lóðarinnar að Bröndukvísl 22 fyrir bílastæði.  Var lóðarhafa bent á að aðkoma að húsi hans væri að sunnanverðu.  Auk þess væri gerð og fyrirkomulag bílastæða háð samþykki byggingarnefndar og  því óheimilt að leggja bíl eins og lýst væri í upphafi bréfsins.

Ekki verður ráðið af málsgögnum að málið hafi komið til frekari umfjöllunar hjá byggingaryfirvöldum fyrr en í janúar 1999 þegar eiganda Bröndukvíslar 22 var ritað bréf í tilefni af óleyfisframkvæmdum á lóðinni sem fólust bæði í breytingu á húsi og fyrirkomulagi lóðar.  Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 16. febrúar 1999, til eiganda Bröndukvíslar 22 var á ný vakin athygli á óleyfisframkvæmdum á lóðinni.  Var húseiganda og bent á að sækja um leyfi fyrir óleyfisframkvæmdum „væri þess kostur af skipulagsástæðum“.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 1999, kom húseigandinn á framfæri við byggingaryfirvöld sjónarmiðum sínum í málinu.  Taldi hann sig hafa haft óformlegt samþykki fyrir umræddum framkvæmdum að hluta, en áform hafi verið uppi um að hefja rekstur lítils leikskóla í húsinu í samráði við borgaryfirvöld, en vegna breyttra aðstæðna muni þau áform þó ekki verða að veruleika.  Í bréfinu kemur einnig fram að húseigandinn muni sækja um byggingarleyfi í samræmi við ábendingar þar um.

Á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 15. apríl 1999 var tekin til afgreiðslu umsókn húseigandans, dags. 9. sama mánaðar, um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum á kjallara, bílastæði og bílskýli, ásamt tilheyrandi útlitsbreytingum.  Niðurstaða nefndarinnar var sú að erindinu var synjað með vísan til þess að bygging bílskýlis og aðkoma að húsi og lóð að norðanverðu samræmdist ekki deiliskipulagi.  Í bókun sinni gaf byggingarnefnd húseiganda 60 daga frest frá móttöku tilkynningar þar að lútandi til að „rífa bílskýlið og ganga frá lóðarmörkum að norðan þannig að öll umferð að lóðinni verði hindruð“.  Yrði tímafrestur ekki virtur myndi nefndin leggja til að beitt yrði dagsektum.  Í bókun nefndarinnar var jafnframt tekið fram að eftir að húseigandi hefði framkvæmt það sem fyrir væri lagt skyldi hann leggja fram umsókn um stækkun á íbúð hússins vegna kjallara.  Var þessi samþykkt byggingarnefndar staðfest í borgarstjórn hinn 6. maí 1999.

Á fundi byggingarnefndar hinn 29. apríl 1999 var lagt fram bréf eiganda Bröndukvíslar 22, dags. 27. apríl 1999, þar sem þess var óskað að byggingarnefnd endurskoðaði afstöðu sína til umsóknar hans.  Byggingarnefnd hafnaði erindinu og ítrekaði fyrri afstöðu sína til málsins.

Ekki varð eigandi Bröndukvíslar 22 við fyrirmælum borgaryfirvalda.  Á fundi byggingarnefndar 25. nóvember 1999 var samþykkt að gefa honum lokafrest til 15. janúar 2000 til að fjarlægja létt þak við vesturenda einbýlishússins og jafnframt að loka með léttri girðingu innakstursleið að norðanverðu.  Húseigandi óskaði eftir framlengingu á frestinum vegna fannfergis en þeirri málaleitan var synjað.  Nokkrar bréfaskriftir urðu um málið en ekki kom til þess að fyrirmælum byggingarnefndar væri fylgt eftir. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 9. mars 2000 var samþykkt tillaga byggingarfulltrúa um að húseigandanum yrði gefinn tíu daga lokafrestur frá birtingu tilkynningar til að uppfylla kröfur byggingarnefndar frá 15. apríl 1999 og yrði lokafrestur ekki virtur yrði beitt dagsektum, kr. 10.000,- fyrir hvern dag sem drægist að vinna verkið.  Um tillögu þessa var vísað til 210. gr. byggingarreglugerðar, nr. 441/1998.  Með bréfi, dags. 13. mars 2000, tilkynnti byggingarfulltrúi borgarráði ákvörðun byggingarnefndar, með vísan til 57. gr. laga nr. 73/1997.  Á fundi borgarráðs hinn 14. mars 2000 var afgreiðslu málsins frestað.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2000, til borgarráðs fór eigandi Bröndukvíslar 22 þess á leit, að ráðið samþykkti hús hans og lóð í núverandi mynd, með íbúð í hluta kjallara húss og með skýli á hluta lóðarinnar.  Jafnframt kvað hann sig reiðubúinn að fallast á að reisa grindverk við lóðarmörk er snúi í norður.

Á fundi borgarráðs 4. apríl 2000 var bókað eftirfarandi um erindið: „Borgarráð telur ekki tilefni til að krefjast niðurrifs á skýli á lóð, en að tryggt verði að lóðamörk að norðanverðu verði lokuð með grindverki.  Þeim hluta erindisins er lýtur að stækkun íbúðar vísað til byggingarnefndar“.

Fundargerð borgarráðs frá 4. apríl 2000 var lögð fram á fundi borgarstjórnar hinn 6. apríl 2000.  Verður ekki séð að hún hafi komið til sérstakrar umræðu á þeim fundi.  Síðar á sama fundi var tekinn til afgreiðslu 20. liður fundargerðar byggingarnefndar frá 9. mars 2000, sem frestað hafði verið á fundi borgarstjórnar hinn 16. mars 2000, en undir þessum lið var bókuð ákvörðun byggingarnefndar um að fylgja eftir fyrri ákvörðun um niðurrif bílskýlis að Bröndukvísl 22 og lokun norðurlóðarmarka fyrir umferð með því að setja húseiganda lokafrest og ákveða að beita dagsektum.  Borgarstjórn samþykkti með samhljóða atkvæðum að vísa liðnum aftur til byggingarnefndar.

Eftir að borgarráð hafði ályktað í málinu á fundi sínum hinn 4. apríl 2000, svo sem að framan greinir, var byggingarfulltrúa samdægurs tilkynnt bréflega um afstöðu ráðsins.  Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 13. apríl 2000 og samþykkt að fela byggingarfulltrúa framhald málsins.  Við afgreiðslu málsins lagði formaður byggingarnefndar fram ítarlega bókun þar sem hann gerir grein fyrir afstöðu sinni og gagnrýnir m.a. ákvörðun borgarráðs í málinu.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. apríl 2000, var eiganda Bröndukvíslar 22 tilkynnt að með vísan til ályktunar borgarráðs sé fallið frá kröfu um niðurrif þaks yfir skýli en til þess að ljúka málinu verði að leggja fram endurskoðaða og breytta aðaluppdrætti ásamt skráningartöflu.  Þá verði að sýna frágang girðingar á lóðarmörkum en jafnframt verði að teljast eðlilegt að sýnt verði á nýjum aðaluppdráttum hvernig komast megi á milli suður- og norðurlóðar án þess að gengið sé gegnum húsið.  Fleiri atriða er getið í bréfinu, sem ekki þykir hafa þýðingu að rekja hér.

Í framhaldi af erindi þessu mun eigandi Bröndukvíslar 22 hafa sótt að nýju um byggingarleyfi og skilað inn nýjum uppdráttum.  Var umsókn hans tekin fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 23. maí 2000 þar sem afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar.  Hefur málið ekki hlotið frekari meðferð byggingaryfirvalda, enda beðið úrlausnar í kærumáli þessu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er krafa um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 4. apríl 2000, um að ekki skuli krefjast niðurrifs á skýli á lóð Bröndukvíslar 22, studd þeim rökum, að ákvörðunin sé ólögmæt, ómálefnaleg, fari gegn jafnræðisreglum og sé tekin án þess að gætt hafi verið lögmætra sjónarmiða um andmælarétt o.fl.

Kærendur vísa til þess að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé byggt á því grundvallarsjónarmiði, að framkvæmdir sem fara gegn skipulags- og byggingarlögum skuli stöðvaðar og jafnframt sé skýrt kveðið á um að brjóti framkvæmdir í bága við skipulag skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð og rask afmáð.  Byggingaryfirvöld í Reykjavík hafi ítrekað ályktað um að óleyfisframkvæmdir á lóðinni að Bröndukvísl 22 skuli fjarlægðar, þ. á. m. að umrætt skýli verði fjarlægt.  Með vísan til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga verði ekki séð að heimilt sé að staðfesta stöðurétt umrædds skýlis, svo sem gert sé í hinni kærðu ákvörðun.  Skýlið sé utan byggingarreits á lóðinni, í andstöðu við lóðablað og deiliskipulag hverfisins.

Þá telja kærendur að ákvörðun borgarráðs frá 4. apríl 2000 fari þvert gegn fyrri samþykktum borgarráðs í málinu og verði því í reynd að teljast vera afturköllun fyrri ákvörðunar.  Borgarráð hafi ekki á nokkurn hátt gætt málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga við ákvörðun sína, en hún varði augljóslega hagsmuni annarra, þ.m.t. kærenda.  Auk þess byggi ákvörðun borgarráðs augljóslega ekki á neinum málefnalegum rökum.  Skýlið feli í sér mikla sjónmengun og sé því staða þess óásættanleg með öllu fyrir næstu nágranna.  Það hafi og verið reist án nokkurs eftirlits og sé frágangur þess fráleitur og í engu samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til slíkra bygginga.  Þá hljóti ákvörðun borgarráðs að verða að byggjast á sjálfstæðri athugun á aðstæðum, en ákvörðunin beri þess hins vegar engin merki að gætt hafi verið lágmarks rannsóknarskyldu.  Loks verði að telja að ákvörðun borgarráðs feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Málsrök borgaryfirvalda:  Í umsögn aðstoðarmanns borgarlögmanns f.h. borgaryfirvalda um kærumál þetta er fyrst að því vikið að úrskurðarnefndin skuli úrskurða um kæru innan tveggja mánaða, en heimilt sé henni við sérstakar aðstæður að lengja frestinn um einn mánuð, en þá skuli tilkynna hlutaðeigandi um það og hvenær úrskurðar sé að vænta, sbr. 4. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kæra í máli þessu sé dagsett 4. maí 2000 og séu þeir tímafrestir sem löggjafinn hafi veitt úrskurðarnefndinni til uppkvaðningar úrskurðar allir löngu liðnir og hafi nefndin því fyrirgert rétti sínum til umfjöllunar um kæruna.

Samt sem áður verði fjallað um efni kærunnar og gerð grein fyrir sjónarmiðum Reykjavíkurborgar í málinu.

Í umsögn Reykjavíkurborgar er gerð grein fyrir helstu atvikum málsins.  Deiluatriði þess lúti ekki síst að aðkomu að norðurhluta lóðarinnar (skýlinu), frá neðri hluta Bröndukvíslar, og notkun þessa lóðarhluta sem bílastæðis eða bílskýlis.

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé bílskúr, bílastæði og aðkoma að húsinu að sunnanverðu og sé notkun lóðar undir bílastæði, aðkoma o.þ.h. óheimil annars staðar á lóðinni, án heimildar skipulags- og byggingaryfirvalda.  Slík heimild hafi ekki verið veitt og sé áréttað að með ákvörðun sinni frá 4. apríl 2000 hafi borgarráð ekki verið að „staðfesta stöðurétt bílskýlis á lóðinni“, eins og kærendur vilji halda fram, enda húseiganda gert skylt að loka aðkomu að skýlinu frá götu. Þar með sé tryggt að umrætt rými á lóðinni verði ekki nýtt sem bílastæði eða bílskýli.

Ákvörðun borgarráðs frá 4. apríl 2000, sem staðfest hafi verið af borgarstjórn 6. sama mánaðar, hafi verið byggð á lögmætum og málefnalegum grunni í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og skipulags – og byggingarlög nr. 73/1997.

Byggingarnefnd, skipulags- og byggingarnefnd þar sem það eigi við, fari með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar, sbr. 6. og 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og samkvæmt 2. mgr. 38. gr. s.l. álykti byggingarnefnd um úrlausn byggingarleyfisumsókna til viðkomandi sveitarstjórnar.  Ákvörðun um beitingu dagsekta sé, samkvæmt 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga, í höndum sveitarstjórnar.  Ákvörðun borgarráðs frá 4. apríl 2000, sbr. einnig staðfestingu borgarstjórnar frá 6. sama mánaðar, hafi lotið að því hvort dagsektum yrði beitt í málinu. Á það megi fallast að umrædd ákvörðun hafi falið í sér afturköllun þar sem fyrri fundargerðir byggingarnefndar, þar sem ályktað hafi verið um sama mál, hafi verið samþykktar í borgarstjórn.  Stjórnvaldi sé heimilt að endurskoða og afturkalla eigin ákvarðanir.  Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga geti stjórnvald afturkallað ákvörðun að eigin frumkvæði þegar það sé ekki til tjóns fyrir aðila og aðili máls eigi einnig rétt á að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. sömu laga.

Við framangreinda ákvörðun hafi mál þetta verið til sérstakrar afgreiðslu, sbr. bréf byggingarfulltrúa frá 13. mars 2000, ólíkt því sem verið hafi þegar fyrri fundargerðir byggingarnefndar er málið vörðuðu voru bornar upp til samþykktar.  Einnig hafði eigandi Bröndukvíslar 22 óskað sérstaklega eftir endurskoðun á málinu, sbr. bréf hans til borgarstjóra og borgarráðs frá 8. janúar, 14. febrúar og 3. apríl 2000.

Þegar ákvörðun borgarráðs frá 4. apríl 2000 hafi verið tekin hafi öll gögn málsins legið fyrir, sem og skýringar á hinu umdeilda skýli, m.a. að það hafi ekki verið reist sem bílskúr/bílskýli, heldur sem tækjageymsla, og yfirlýsing eiganda Bröndukvíslar 22 um að hann myndi setja grindverk við norðurlóðarmörk.  Málið hafi því verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.  Andmælaregla 13. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið brotin á kærendum.  Í gögnum málsins hafi öll sjónarmið komið fram, þ.m.t. sjónarmið kærenda, en andmælaréttur skuli ekki veittur sérstaklega þegar það sé óþarft og afstaða aðila og rök hans fyrir henni liggi fyrir, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Víða um borgina hafi fasteignaeigendur fengið að reisa tækjageymslur á lóðum sínum, sem telja megi sambærilegar við umrætt skýli.  Í ljósi þess að við lokun norðurlóðarmarka sé ekki hægt að nota skýlið sem bílskýli eða bílastæði hafi það ekki þótt í andstöðu við deiliskipulag svæðisins og því ekki ástæða til að krefjast niðurrifs þess.  Hin kærða ákvörðun borgaryfirvalda hafi og verið tekin með sérstöku tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Vandséð sé að umrædd ákvörðun brjóti í bága við hagsmuni kærenda, enda sé með henni komið fullkomlega til móts við helsta umkvörtunarefni þeirra og bílastæði/bílskýli á norðurhluta lóðarinnar ekki leyft, jafnframt því sem húseiganda sé gert að loka aðkomu að lóðinni frá neðri hluta Bröndukvíslar.  Húseigandi hafi þegar sett upp létta girðingu fyrir norðurenda skýlisins.  Fullyrðingar kærenda um fjárhagslega hagsmuni sína í málinu hafi ekki verið rökstuddar.

Loks er á það bent að umfjöllun um umsókn eiganda Bröndukvíslar 22 sé ekki lokið en við meðferð þess muni m.a. tæknileg atriði varðandi frágang koma til faglegrar skoðunar.  Fyrir liggi því að skipulags- og byggingarnefnd muni álykta að nýju um afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar varðandi Bröndukvísl 22 til sveitarstjórnar.  Ákvarðanir sem teknar verði vegna nýrrar byggingarleyfisumsóknar séu kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Andmæli eiganda Bröndukvíslar 22:  Eiganda Bröndukvíslar 22 var gefinn kostur á að koma að andmælum í kærumáli þessu, kynna sér framlögð skjöl og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Í bréfi hans til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. september 2001, lýsir hann þeim áformum sem uppi voru um einkarekinn leikskóla í húsinu og þeim breyttu aðstæðum sem urðu til þess að frá þeim var horfið.  Bendir hann á að nær allir íbúar í Bröndukvísl hafi lýst því yfir skriflega að þeir geri ekki athugasemdir við frágang hússins eða lóðarinnar.  Þvert á móti hafi margir tjáð sig um að hús og lóð sé snyrtilegt og vel frá öllu gengið.  Engin rök séu fyrir því að kærendur hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna framkvæmda á lóðinni og því hafi þeir enga lögvarða hagsmuni að verja með kæru sinni.  Löngu sé orðið ljóst að ekki sé farið fram á það að Reykjavíkurborg breyti deiliskipulagi vegna framkvæmda á lóðinni.  Málatilbúnaður kærenda sé því byggður á annarlegum sjónarmiðum og markmiðum.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 12. september 2001.  Viðstaddir voru, auk nefndarmanna og framkvæmdastjóra nefndarinnar, skrifstofustjóri byggingarfulltrúans í Reykjavík, eigandi Bröndukvíslar 22 og annar kærenda.  Skoðuðu nefndarmenn skýli það sem um er deilt í málinu, fyrirkomulag á lóð og aðkomu að henni og þær breytingar sem gerðar hafa verið á húsinu.

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin hafnar þeirri staðhæfingu borgaryfirvalda að nefndin hafi fyrirgert rétti sínum til umfjöllunar um kæru í máli þessu vegna þess dráttar, sem orðið hafi á uppkvaðningu úrskurðar í málinu.  Úrskurðarnefndin telur ekki til neins réttar í þessu sambandi.  Þvert á móti hvílir á henni skylda til þess að ljúka meðferð þeirra mála sem til hennar er skotið, óháð því hvort það tekst innan lögboðins frests eða ekki.  Það er hins vegar sjálfstætt úrlausnarefni, sem bera má undir dómstóla, hvort dráttur á uppkvaðningu úrskurðar í kærumáli geti varðað ógildingu hans.  Hlýtur niðurstaða um það álitaefni að vera háð atvikum hverju sinni.

Úrskurðarnefndin hafnar og staðhæfingum um að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu.  Krafa þeirra varðar óleyfisframkvæmd á grannlóð, sem ekki samræmist gildandi deiliskipulagi.  Verður einnig að fallast á að breytt aðkoma að norðurhluta lóðarinnar að Bröndukvísl 22 geti verið kærendum til nokkurs óhagræðis, jafnvel þótt ekki sé leyfður akstur bifreiða inn á lóðina að norðanverðu.  Þurftu kærendur ekki að vænta þess að slíkar breytingar yrðu leyfðar án þeirrar lögbundnu málsmeðferðar sem breytingar á skipulagi skulu sæta.  Verður krafa þeirra því tekin til efnislegrar úrlausnar.

Í máli þessu er krafist ógildingar ályktunar borgarráðs Reykjavíkur frá 4. apríl 2000 þess efnis að ráðið telji ekki tilefni til að krefjast niðurrifs á skýli á lóð að Bröndukvísl 22.  Virðist þessi ályktun hafa verið skilin svo af hálfu byggingarnefndar að með henni hafi verið afturkölluð fyrri ákvörðun byggingarnefndar um niðurrif umrædds skýlis, sem staðfest hafði verið í borgarstjórn.  Er raunar á því byggt af hálfu borgaryfirvalda í málinu að í ályktun ráðsins hafi falist afturköllun eða endurupptaka og endurákvörðun í málinu.  Ekkert af þessu fær staðist.  Þegar málið kom til umfjöllunar í borgarráði var í gildi ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. apríl 1999 um niðurrif umrædds skýlis, staðfest í borgarstjórn 6. maí 1999.  Borgarráð, sem er byggðaráð í skilningi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. 38. gr.þeirra laga, brast vald til þess að afturkalla ákvörðun borgarstjórnar eða endurupptaka hana og breyta.  Gat ráðið ekki heldur tekið fullnaðarákvörðun um framkomnar kröfur um niðurrif skýlisins með stoð í 39. gr. sveitarstjórnarlaga, enda hafði borgarstjórn áður tekið fullnaðarákvörðun í málinu.  Verður því að telja hina kærðu ákvörðun borgarráðs markleysu.  Að minnsta kosti verður hún ekki talin hafa gildi sem stjórnvaldsákvörðun.

Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram að umrædd ákvörðun borgarráðs hafi verið staðfest á fundi borgarstjórnar 6. apríl 2000.  Verður þó ekki séð að þessi staðhæfing sé á rökum reist og virðist um misskilning að ræða.  Sama misskilnings gætir í málatilbúnaði kærenda.  Á fundi borgarstjórnar hinn 6. apríl 2000 var fundargerð borgarráðs frá 4. apríl 2000 lögð fram en um hana urðu engar umræður og kom hún ekki til staðfestingar, enda gerðist þess ekki þörf.  Síðar á fundi borgarstjórnar var afgreidd ákvörðun byggingarnefndar um tímafrest og beitingu dagsekta vegna niðurrifs margrædds skýlis og var málinu vísað aftur til byggingarnefndar án nokkurra skýringa og án þess að vísað væri til ályktunar borgarráðs í málinu.  Er torskilið misræmi í órökstuddum afgreiðslum borgarráðs og borgarstjórnar við umfjöllun þeirra um umrætt málefni.

Eins og mál þetta liggur nú fyrir er enn í gildi ákvörðun byggingarnefndar frá 15. apríl 1999, staðfest í borgarstjórn 6. maí 1999, um að rífa skuli skýli á norðvesturhluta lóðarinnar að Bröndukvísl 22.  Eru þessar ákvarðanir í fullu samræmi við ákvæði 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr.73/1997 og ber borgaryfirvöldum að hlutast til um að ákvörðuninni verði framfylgt þar sem um er að tefla óleyfisframkvæmd, sem fer í bága við gildandi deiliskipulag á svæðinu.  Þarf sérstaklega að huga að því við framkvæmd verksins að eðlileg tenging myndist milli norður- og suðurhluta lóðar þannig að aðkoma að húsi og lóð geti verið einvörðungu að sunnanverðu svo sem áskilið er í skipulagi.  Þarf í því sambandi m.a. að huga að því hvort breytingar á hæðarsetningu norðvesturhluta lóðarinnar og stoðveggir utan byggingarreits geti samræmst skipulagsskilmálum, en ljóst er að stoðveggir og hæðarmunur í lóð, eins og hann er nú, koma í veg fyrir að ganga megi um lóðina fyrir vesturenda hússins.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ályktun borgarráðs frá 4. apríl 2000 hafi ekki gildi sem stjórnvaldsákvörðun.  Beri því að framfylgja þeirri ákvörðun sem borgarstjórn hafði áður staðfest um að leggja fyrir húseiganda að rífa umrætt skýli og að við þá framkvæmd verði mannvirki færð til þess horfs að samræmist gildandi deiliskipulagi.  Rétt þykir að veita húseiganda hæfilegan lokafrest til að framkvæma verkið áður en til þvingunarúrræða kemur.

Verulegur dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu.  Valda því miklar annir hjá úrskurðarnefndinni, flutningur hennar í nýtt húsnæði og nú síðast sumarleyfi.  Þá hefur gagnaöflun og rannsókn málsins reynst tímafrek.  Nefndin tekur fram að ekki verður séð að dráttur á uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu hafi valdið umtalsverðu óhagræði fyrir málsaðila.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ályktun borgarráðs frá 4. apríl 2000 hefur ekki gildi sem stjórnvaldsákvörðun.  Borgaryfirvöldum ber að framfylgja fyrirliggjandi ákvörðun byggingarnefndar frá 15. apríl 1999, sem staðfest var af borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. maí 1999, um niðurrif skýlis á lóðinni nr. 22 við Bröndukvísl í Reykjavík í samræmi við þau sjónarmið sem að framan eru rakin.