Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2001 Selvogsbraut

Ár 2001, fimmtudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2001; kæra íbúa og eigenda fasteignanna nr. 7, 9, 11 og 13 við Selvogsbraut í Þorlákshöfn, á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. janúar 2001 um að breyta deiliskipulagi lóðanna nr. 3-5 við Selvogsbraut.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. febrúar 2001, sem barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, kærir G, f.h. eigenda fasteignanna nr. 7-13 við Selvogsbraut í Þorlákshöfn, ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. janúar 2001 um að breyta deiliskipulagi lóðanna nr. 3-5 við Selvogsbraut.  Verður að skilja erindi kærenda á þann veg að þeir krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi, dags. 24. október 2001, krefjast kærendur þess að framkvæmdir sem hafnar séu á umræddum lóðum verði stöðvaðar.  Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu handhafa réttinda að lóðunum nr. 3-5 við Selvogsbraut og bæjarstjórnar Ölfuss til kærunnar og til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni nú borist andsvör bæjarstjórnar ásamt málsgögnum og andmæli rétthafa að lóðunum. Þá hefur nefndin kynnt sér stöðu framkvæmda, sem eru á frumstigi.  Þykir málið nú nægilega upplýst til þess að ljúka megi efnisúrskurði á kæruefnið.  Verður krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því ekki tekin sérstaklega til úrlausnar.

Málavextir:  Kærendur eru eigendur og íbúar fasteignanna nr. 7-13 við Selvogsbraut í Þorlákshöfn.  Handan húsagötu, sem eignir kærenda standa við, eru lóðir nr. 3-5 við Selvogsbraut, sem fram til þessa hafa verið óbyggðar.  Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu hinn 1. nóvember 2000 var kynnt tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 3-5 við Selvogsbraut þess efnis að í stað fjögurra raðhúsa mætti reisa á lóðunum fimm minni raðhús og að fara mætti tvo metra út fyrir byggingarreit til norðurs.  Kvöð skyldi vera um þrjú bílastæði inni á hverri lóð.  Auglýsing sama efnis birtist og í Sunnlenska fréttablaðinu um líkt leyti.  Kærendur gerðu athugasemdir við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.  Lutu athugasemdir þeirra einkum að því að breytingunum fylgdi aukin umferð og þrengsli.  Þá hefði breytingin ekki verið grenndarkynnt.  Nóg landarými væri í Þorlákshöfn og þyrfti því ekki að „….troða húsum á lóðir….“

Athugasemdir þessar voru teknar til umfjöllunar í skipulags- og byggingarnefnd hinn 15. desember 2000.  Var þar lagt til að húsagata milli eigna kærenda og lóða þeirra, sem skipulagsbreytingin tók til, yrði breikkuð um hálfan metra til þess að auka rými á svæðinu.  Einnig kom fram tillaga um að loka akbraut norðan við svæði það sem skipulagsbreytingin tekur til og leggja undir bílastæði en akbraut þessi liggur að lóð sambýlis sem liggur austan hinna umdeildu lóða.  Yrði ný aðkoma þess í stað gerð að sambýlinu að austanverðu.  Breytingartillögur þessar voru samþykktar í bæjarstjórn og var nýtt skipulag umædds svæðis, þannig breytt, samþykkt í bæjarstjórn hinn 11. janúar 2001.  Var auglýsing um hið nýja deiliskipulag birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. febrúar að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Kærendur vildu ekki una þessari niðurstöðu og skutu málinu því til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 16. febrúar 2001, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda, sem staðfest hafa skriflega umboð sitt til G til að koma fram fyrir hönd allra kærenda í málinu, er á því byggt að húsagata milli húsa þeirra og hinna umdeildu lóða sé allt of mjó til að hægt sé að bæta á hana meiri umferð og að snúningur í enda hennar sé ekki ásættanlegur.  Einnig hafi verið samþykkt stækkun húss að Selvogsbraut 1 og sjái kærendur ekki að svæðið beri allar þessar fyrirhuguðu byggingar.  Þá byggðu kærendur á því í athugasemdum sínum á fyrri stigum málsins að skort hefði á að hin umdeildu skipulagsáform væru grenndarkynnt.

Málsrök bæjarstjórnar Ölfuss:  Af hálfu bæjarstjórnar er á það bent að hinar umdeildu skipulagsbreytingar verði að teljast kærendum til hagsbóta fremur en hið gagnstæða.  Húsagatan sé við breytinguna breikkuð úr 6,5m í 7,0m og bílastæðum sé fjölgað um eitt við hvert hinna nýju húsa frá því sem áskilið hafi verið í eldra skipulagi.  Þá séu íbúðarhúsin minnkuð og lækkuð frá eldra skipulagi og sé nýtingarhlutfall lóðarinnar mun lægra en ráðgert hafi verið í eldra skipulagi.  Þá leiði breytt aðkoma að sambýlinu til þess að rými aukist og bílastæðum fjölgi við húsagötu eignanna nr. 3-13 við Selvogsbraut auk þess sem verulega dragi úr umferð inn á hana.

Andmæli lóðarhafa:  Af hálfu handhafa lóðar- og byggingarréttar að lóðunum nr. 3-5 við Selvogsbraut er kröfum kærenda mótmælt.  Vísar hann til þess að byggingarframkvæmdir á lóðunum eigi stoð í fullgildu byggingarleyfi, sem veitt hafi verið á grundvelli gildandi deiliskipulags og í samræmi við skilmála þess.  Að öðru leyti sé vísað til fyrirliggjandi greinargerðar bæjarstjórnar Ölfuss í málinu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarstjórnar Ölfuss um að breyta deiliskipulagi afmarkaðs svæðis sem á eru byggingarlóðir fyrir raðhús nr. 3-5 við Selvogsbraut í Þorlákshöfn.  Felur breytingin það í sér að íbúðum á nefndum lóðum er fjölgað um eina en þær jafnframt minnkaðar verulega frá því sem ráðgert var í eldra skipulagi.  Byggingarreitur stækkar lítillega til norðurs og húsagata breikkar um 0,5m.  Tillaga að skipulagsbreytingunni var auglýst og málsmeðferð hagað í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var grenndarkynningar því ekki þörf, enda neytti bæjarstjórn ekki undanþáguheimildar 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 við meðferð málsins.  Kærendur komu athugasemdum á framfæri og verður ráðið af málsgögnum að sanngjarnt tillit hafi verið tekið til sjónarmiða kærenda, m.a. með því að ákveða að breikka húsagötuna um 0,5m.  Var sú breyting á skipulagstillögunni þó ekki þess eðlis að þörf væri auglýsingar að nýju, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvörðun bæjarstjórnar um hið breytta skipulag hlaut lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 og gerði stofnunin ekki athugasemdir við að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist þannig gildi.  Verður hvorki séð að neinir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins er ógildingu gætu varðað né að með ákvörðuninni hafi verið gengið gegn lögvörðum rétti kærenda.  Verður því ekki fallist á kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Eftir að athugasemdir kærenda við skipulagstillöguna voru fram komnar kom fram tillaga í skipulags- og byggingarnefnd Ölfuss um að loka akbraut við norðurenda svæðis þess sem skipulagsbreytingin tekur til og leggja hluta hennar undir bílastæði fyrir nærliggjandi íbúðir, þar á meðal íbúðir kærenda.  Var þessi tillaga samþykkt í bæjarstjórn og auglýst sem hluti ákvörðunar bæjarstjórnar um hið breytta deiliskipulag.  Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að finna að þessari málsmeðferð og telur að rétt hefði verið að auglýsa þessa breytingu á skipulagstillögunni sérstaklega, eða a.m.k. kynna hana þeim er hagsmuna áttu að gæta, enda felur breytingin það í sér að gera verður nýja aðkomu að lóð sambýlisins austan hins umdeilda skipulagssvæðis.  Breyting þessi er kærendum hins vegar mjög til hagsbóta og þykir nefndur ágalli á málsmeðferð ekki eiga að leiða til þess að kafa kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði tekin til greina.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. janúar 2001 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðir nr. 3-5 við Selvogsbraut í Þorlákshöfn.