Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

65/2000 Garðsstaðir

Með

Ár 2001, miðvikudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2000; kæra eigenda og íbúa húsanna nr. 42, 44, 46 og 48 við Garðsstaði í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita leyfi til að byggja skjólvegg við suðvesturhorn lóðarinnar nr. 56 við Garðsstaði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. október 2000, sem barst nefndinni hinn 20 sama mánaðar, kæra eigendur og íbúar húsanna nr. 42, 44, 46 og 48 við Garðsstaði í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita leyfi til að byggja skjólvegg umhverfis suðvesturhorn lóðarinnar nr. 56 við Garðsstaði.  Krefjast þeir þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir við byggingu veggjarins verði stöðvaðar. 

Byggingarfulltrúanum í Reykjavík var þegar í stað gert viðvart um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Við athugun hans á vettvangi kom í ljós að framkvæmdir voru ekki í samræmi við samþykktar teikningar og stöðvaði hann því framkvæmdir við verkið.  Við nánari athugun kom ennfremur í ljós að fyrirhugaður veggur samræmdist ekki skipulagsskilmálum fyrir Staðahverfi.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 7. nóvember 2000 voru lagðir fram nýir uppdrættir ásamt umsókn um breytingu á hæðarkóta hússins að Garðsstöðum 56 og um leyfi til að breyta girðingu á suðurhluta lóðarinnar.  Var umsókn þessi samþykkt á fundinum en jafnframt voru eldri uppdrættir felldir úr gildi.  Kærendum var gert kunnugt um þessi málalok.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík verið afturkölluð og eru réttaráhrif hennar fallin niður.  Þykja kærendur eftir það ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti ákvörðunarinnar.  Er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru eigenda og íbúa húsanna nr. 42, 44, 46 og 48 við Garðsstaði í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000, um að veita leyfi til að byggja skjólvegg við suðvesturhorn lóðarinnar nr. 56 við Garðsstaði, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

79/2000 Þinghólsskóli

Með

Ár 2001, þriðjudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur, aðalmaður í nefndinni og Dr. Sigurður Erlingsson verkfræðingur, varamaður Þorsteins Þorsteinssonar verkfræðings, sem vikið hefur sæti við meðferð málsins.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2000; kæra A og K, Vallargerði 20, Kópavogi á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 26. september 2000 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóð Þinghólsskóla í Kópavogi og ákvörðun bæjarstjórnar frá 28. nóvember 2000 um að veita leyfi til að reisa nýbyggingu á lóðinni.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. desember 2000, sem barst nefndinni sama dag, kæra A og K, Vallargerði 20, Kópavogi  framkvæmdir á lóð Þinghólsskóla.  Fara þau fram á að nefndin stöðvi framkvæmdirnar og felli úr gildi framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi, hafi slík leyfi verið veitt.  Eins og atvikum er háttað verður að skilja kæruna á þann veg að kærðar séu til ógildingar ákvarðanir bæjaryfirvalda í Kópavogi um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóð Þinghólsskóla og um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við skólann og að jafnframt sé  krafist stöðvunar framkvæmda meðan fjallað sé um kæruefnið fyrir nefndinni.

Þegar mál þetta kom fyrst til meðferðar í úrskurðarnefndinni lýsti Þorsteinn Þorsteinsson, aðalmaður í nefndinni, sig vanhæfan í málinu vegna persónulegra tengsla við kærendur og tók varamaður hans, Dr. Sigurður Erlingsson verkfræðingur, sæti hans í nefndinni við meðferð málsins.

Málsatvik:  Hinn 10. mars 1973 voru samþykktir í byggingarnefnd Kópavogs uppdrættir að Þinghólsskóla á lóð milli Vallargerðis og Kópavogsbrautar.  Byggingin var þannig hönnuð að hægt væri að byggja hana í áföngum.  Hefur enn ekki verið lokið byggingu nyrðri hluta austurálmu og tengibyggingar milli austur- og vesturálma að norðanverðu eins og áformað var á upphaflegum teikningum.

Á árinu 2000 var hafinn undirbúningur að frekari framkvæmdum við skólann.  Vegna breyttra aðstæðna kusu bæjaryfirvöld að víkja frá fyrri áformum og byggja nokkru stærri viðbyggingu en áður hafði verið áformað norðanvert við þær byggingar, sem fyrir eru á lóðinni.  Munar þar mestu að ákveðið var að tengibygging að norðanverðu yrði tveggja hæða í stað einnar hæðar byggingar eins og ráðgert var í eldri samþykkt.  Af þessu tilefni þótti nauðsynlegt að vinna nýtt deiliskipulag fyrir lóð Þinghólsskóla.  Var tillaga að deiliskipulagi lóðarinnar auglýst í Morgunblaðinu hinn 16. júlí 2000 og í Lögbirtingarblaðinu hinn 21. júlí 2000.  Á kynningartíma bárust athugasemdir frá kærendum og einnig frá eigendum og íbúum að Vallargerði 18.  Lutu athugasemdir þessar annars vegar að málsmeðferð en hins vegar að röskun á hagsmunum, svo sem fækkun bílastæða, skuggavarpi og skerðingu útsýnis.  Var brugðist við þessum athugasemdum með því að lækka mænishæð fyrirhugaðrar nýbyggingar úr 9 m í 7,5 m og skipulagstillagan samþykkt svo breytt.  Tillagan var send til Skipulagsstofnunar til lögboðinnar meðferðar með bréfi hinn 19. október 2000.  Tilkynnti Skipulagsstofnun með bréfi til Kópavogsbæjar, dags. 30. október 2000, að ekki væru gerðar athugasemdir við að auglýsing um skipulagið yrði birt í B – deild Stjórnartíðinda.  Var kærendum gert kunnugt um þessa niðurstöðu með bréfi, dags. 13. nóvember 2000, en jafnframt var auglýsing um deiliskipulagið sent til birtingar í B – deild Stjórnartíðinda og birtist hún þar hinn 20. nóvember 2000. 

Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. nóvember 2000 var staðfest byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Þinghólsskóla í samræmi við hið nýja deiliskipulag.  Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúans í Kópavogi var grafinn grunnur fyrir nýbyggingunni hinn 8. desember 2000 en úttekt á sökklum og steypuheimild fyrir þeim er dagsett 23. desember 2000.  Lokið er steypu grunnra sökkla undir bygginguna og hefur fyllingarefni verið ekið í þá.  Engar frekari framkvæmdir hafa átt sér stað við bygginguna.

Eins og að framan greinir vildu kærendur ekki una hinum kærðu ákvörðunum og skutu málin til úrskurðarefndarinnar með bréfi dags. 19. desember 2000.  Hefur nefndin aflað frekari upplýsinga um staðreyndir í málinu og kynnt sér aðstæður á verkstað með óformlegum hætti.  Einnig liggur fyrir afstaða byggingaryfirvalda í Kópavogi til kærunnar og umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Þykir málið nú þegar nægilega upplýst til þess að ljúka megi efnisúrlausn þess og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda með sérstökum úrskurði.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. gr. laganna, skuli deiliskipulag ná til afmarkaðs reits innan sveitarfélags.  Ekki sé heimilt að deiliskipulag nái til einnar lóðar, án tengsla við aðliggjandi svæði.  Þá sé kveðið á um það í 4. mgr. sömu greinar að þegar gert sé deiliskipulag í byggðu hverfi skuli samhliða gerð bæja- og húsakönnun sem höfð skuli til hliðsjónar við gerð tillögunnar.  Þessari vinnureglu hafi ekki verið fylgt við gerð hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu. 

Bæjaryfirvöldum hafi borið að haga deiliskipulagsgerðinni í samræmi við framangreind ákvæði og eigi þau ekki sjálfdæmi um það hvort eftir þeim sé farið eða ekki.

Þá telja kærendur að fjarlægð nýbyggingar frá lóðarmörkum sé vart nægjanleg með hliðsjón af ákvæði byggingarreglugerðar um 3ja metra lágmarksfjarlægð.  Fyrirhuguð bygging falli illa að götumynd og þrengi að umferð um götuna.  Einnig muni umferð hafa truflandi áhrif á skólastarf í kennslustofum á neðri hæð byggingarinnar.  Þá muni nýbyggingin hafa í för með sér aukna snjósöfnun í Vallargerði að vetrarlagi.  Telja kærendur einnig að skuggavarp frá byggingunni muni skerða stórlega notkunarmöguleika suðurhluta lóðar þeirra að Vallargerði 20 auk þess sem sjónmengun verði af byggingunni í svo mikilli nálægð sem raun ber vitni.  Muni þetta rýra eign þeirra í verði og áskilja kærendur sér bótarétt af þessu tilefni.

Loks er að því fundið af hálfu kærenda að þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir því hvaða úrræði þeir ættu vegna afgreiðslu bæjaryfirvalda á framkomnum athugasemdum en bæjaryfirvöldum hafi borið að veita slíka leiðsögn.

Umsögn byggingaryfirvalda í Kópavogi:  Í bréfi byggingarfulltrúans í Kópavogi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. janúar 2000, er rakin málsmeðferð bæjarins við undirbúning og gerð hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar.  Segir í bréfinu að það sé mat bæjaryfirvalda að rétt hafi verið staðið að allri málsmeðferð við gerð og samþykkt deiliskipulagsins og byggingarleyfis fyrir nýbyggingunni og séu ekki efni til að stöðva framkvæmdir.  Í svörum bæjaryfirvalda við athugasemdum kærenda, sem liggja frammi í málinu, kemur fram að fyrir hafi legið samþykktir uppdrættir að viðbyggingu við Þinghólsskóla og að í deiliskipulagstillögunni hafi einungis falist breyting á útliti og stærð þeirrar byggingar.  Sé grunnflötur svipaður og upphaflega hafi verið áformað en heildarflatarmál byggingarinnar aukist um tæpa 500m².  Ekki sé verið að breyta forsendum skipulags í hverfinu og þar sem ekki hafi legið fyrir umsóknir um aðrar framkvæmdir í nágrenninu hafi verið talið ástæðulaust að endurskoða skipulag aðliggjandi reita.  Forvinna hafi verið unnin að bæja- og húsakönnun fyrir svæðið við gerð hverfaskipulags Vesturbæjar 1993.  Sé hverfaskipulagið iðulega haft til hliðsjónar þegar fjallað sé um skipulagsbreytingar á svæðinu.  Þá er hafnað öðrum athugasemdum kærenda og m.a. vísað til þess að mænishæð nýbyggingar hafi verið lækkuð niður í 7,5 metra til að milda áhrif viðbyggingarinnar.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin hefur aflað umsagnar Skipulags-stofnunar um álitaefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar segir m.a: 

„Skipulagssstofnun yfirfór í samræmi við 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br. málsmeðferð Kópavogsbæjar í kjölfar samþykktar deiliskipulags lóðar Þinghólsskóla í Kópavogi.  Í bréfi stofnunarinnar til Kópavogsbæjar, dags. 30. október 2000, var ekki gerð athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Kærendur gerðu við meðferð málsins athugasemd við að deiliskipulagið næði aðeins til einnar lóðar.  Vísuðu þeir til 23. gr. skipulags- og byggingarlaga í því sambandi.  Þar segir í 1. mgr. að deiliskipulag skuli gera á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir í grein 3.1.4 að deiliskipulag nái til einstakra svæða eða reita innan aðalskipulags og skuli jafnan miðast við að ná til svæða sem myndi heildstæða einingu.  Tekið er fram að í þéttbýli skuli deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.  Í hinu kærða tilviki háttar svo til að um er að ræða viðbót við þegar byggt skólahúsnæði, breytingu á samþykktum byggingarnefndarteikningum og breytingu á fyrirkomulagi skólalóðar.  Lóð Þinghólsskóla er í Aðalskipulagi Kópavogs 1992-2012 ætluð til blandaðrar notkunar stofnana og opins svæðis til sérstakra nota.  Ekki eru fyrirhugaðar aðrar framkvæmdir á svæðinu, en í kring um umrætt svæði er íbúðarsvæði og austan við reitinn er opið svæði til sérstakra nota, íþróttavöllur.  Skipulagsstofnun telur að þar sem viðkomandi lóð er sjálfstæður landnotkunarreitur og þar sem ekki eru fyrirhugaðar aðrar framkvæmdir í tengslum við viðkomandi breytingar á samþykktum byggingarnefndar-teikningum og fyrirkomulagi skólalóðar hafi verið heimilt og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar að deiliskipuleggja lóð Þinghólsskóla eina og sér eins og gert var í hinu kærða tilviki.

Kærendur gerðu einnig athugasemd við að ákvæði 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, um að við vinnslu deiliskipulags í þegar byggðu hverfi skuli gerð bæja- og húsakönnun, hafi ekki verið uppfyllt.  Skipulagsstofnun telur, að þar sem einungis voru fyrirhugaðar breytingar á þegar samþykktum uppdráttum af húsnæði Þinghólsskóla og fyrirkomulagi skólalóðar hafi ekki verið ástæða til að framkvæma húsakönnun, þar sem breytingarnar snerta ekki aðra byggð á svæðinu.

Skipulagsstofnun telur að málsmeðferð hins kærða deiliskipulags hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br.“

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið voru framkvæmdir fyrir nokkru hafnar þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.   Eru framkvæmdir enn sem komið er skammt á veg komnar.  Með hliðsjón af verkframvindu og því að álitaefni í málinu gefa ekki tilefni til umfangsmikillar gagnaöflunar hefur nefndin kappkostað að ljúka efnismeðferð þess.  Hefur því ekki komið til þess að úrskurðað væri til bráðabirgða um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Ekki verður annað ráðið af málsgögnum en að rétt hafi verið staðið að auglýsingu og kynningu hinnar umdeildu skipulagstillögu.  Þá liggur fyrir að afstaða var tekin til framkominna athugasemda og þeim svarað, jafnframt því sem skipulagstillagan hlaut lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar og var að því búnu birt með lögformlega réttum hætti.  Ekki verður heldur séð að það hafi valdið kærendum réttarspjöllum þótt þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir kæruheimildum, enda komu þeir kæru sinni á framfæri innan kærufrests.  Þykja vanhöld um að upplýsa kærendur í þessu efni því ekki geta leitt til ógildingar hinna kærðu ákvarðana eins og atvikum er háttað.

Kærendur telja, með vísun til ákvæða 23. gr. laga nr. 73/1997, að óheimilt hafi verið að skipuleggja aðeins umrædda lóð, án tengsla við aðliggjandi svæði, og að bæja- og húsakönnun hefði átt að fara fram samhliða gerð skipulagsins.  Við úrlausn þessa álitaefnis verður að líta til þess að áður höfðu verið samþykktir mannvirkjauppdrættir af byggingum á lóðinni, líkir þeim sem hið umdeilda skipulag felur í sér.  Verður að telja að uppdrættir þessir hafi nokkurt gildi sem skipulagsgögn um lóðina sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 117/1999 um breytingu á skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Í ljósi þessa verður að líta svo á að í hinu umdeilda skipulagi hafi fyrst og fremst falist breyting á áður samþykktu skipulagi lóðarinnar.  Því verði ekki gerðar jafn ríkar kröfur um málsmeðferð eins og um alveg ný skipulagsáform hefði verið að ræða.  Þá verður einnig að líta til þess að Þinghólsskóli er á sérgreindum landnotkunarreit, sem skilgreindur er í aðalskipulagi sem svæði fyrir blandaða notkun sem stofnanasvæði og opið svæði til sérstakra nota.  Er reitur þessi aðskilinn frá aðliggjandi svæðum af götum á þrjá vegu en af göngustíg á eina hlið og stendur þannig sem sjálfstæður reitur hvað landnotkun áhrærir.  Á aðliggjandi reitum er fastmótuð og gróin íbúðabyggð þar sem ekki er að vænta mikilla breytinga.  Verður ekki séð að við þessar aðstæður hafi það verið andstætt grundvallarreglu 23. greinar laga nr. 73/1997 um afmörkun deiliskipulagssvæðis að taka skólalóðina eina til skipulags. Styðst þessi niðurstaða einnig við þau sjónarmið, sem fram koma í umsögn Skipulagsstofnunar í málinu. 

Þá verður ekki á það fallist að þörf hafi verið bæja- og húsakönnunar vegna skipulagsgerðarinnar.  Í nefndaráliti umhverfisnefndar Alþingis um ákvæði 23. gr. laga nr. 73/1997 segir að með bæja- og húsakönnun sé átt við ákveðna aðferðafræði til þess að meta listrænt og menningarsögulegt gildi hins byggða umhverfis og samspil þess við náttúruna.  Megi líta á niðurstöðu slíkrar könnunar sem eins konar gagnasafn yfir hús og hverfi sem þurfi sérstakt aðhald í umfjöllun sveitarfélags í skipulags- og byggingarmálum.  Þegar litið er til þess hvaða tilgangi bæja- og húsakönnun er ætlað að þjóna telur úrskurðarnefndin að hin umdeilda skipulagsákvörðun snerti ekki aðliggjandi byggð með þeim hætti að þörf hafi verið slíkrar könnunar samfara skipulagsgerðinni.

Ekki verður fallist á að fjarlægð nýbyggingar frá götu sé andstæð ákvæðum byggingarreglugerðar um þriggja metra lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum.  Staðsetning nýbyggingarinnar á stoð í samþykktu deiliskipulagi en í deiliskipulagi er heimilt að víkja frá almennum ákvæðum byggingarreglugerðar um þessi fjarlægðarmörk, sbr. grein 75.4. í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Samræmist staðsetning byggingarinnar því ákvæðum byggingarreglugerðar um fjarlægðarmörk.

Aðrar málsástæður kærenda um skuggavarp, sjónmengun, snjósöfnun og óhagræði af þrengslum í Vallargerði eru reistar á grenndarsjónarmiðum.  Enda þótt fallast megi á að skuggavarp verði nokkurt og að einhver skerðing kunni að verða á rétti kærenda með tilliti til grenndarsjónarmiða verður ekki fallist á að sú skerðing sé svo veruleg að hinar kærðu ákvarðanir teljist af þeim sökum ólögmætar.  Leiði hin umdeilda skipulagsákvörðun hins vegar til verðrýrnunar á eign kærenda kann það að leiða til bótaréttar á hendur Kópavogsbæ skv. ákvæðum 33. greinar skipulags- og byggingarlaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hinar kærðu ákvarðanir séu ekki haldnar neinum þeim annmörkum er leiða eigi til ógildingar þeirra.  Er kröfum kærenda í málinu því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum  kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 26. september 2000 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóð Þinghólsskóla í Kópavogi og ákvörðunar bæjarstjórnar frá 28. nóvember 2000 um að veita leyfi til að reisa nýbyggingu á lóðinni.

56/2000 Langalág

Með

Ár 2000, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2000; kæra nokkurra íbúa og eigenda íbúða við Fjólugötu og Smáragötu í Vestmannaeyjum á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 um að veita leyfi til byggingar veitinga- og ráðstefnuhúss ofan á vatnstank í Löngulág.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. og 30. september 2000, sem bárust nefndinni hinn 21. september og 5. október 2000, kæra nokkrir íbúar og eigendur íbúða við Fjólugötu og Smáragötu í Vestmannaeyjum, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 um að veita Grími Þór Gíslasyni og Sigmari Georgssyni leyfi til byggingar veitinga- og ráðstefnuhúss ofan á vatnstank í Löngulág.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 7. september 2000.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.

Málavextir:  Snemma árs 2000 leituðu byggingarleyfishafar eftir því við bæjarveitur Vestmannaeyja að þeim yrði heimilað að reisa veitinga- og ráðstefnuhús ofan á vatnstank í Löngulág.  Féllst stjórn bæjarveitna á að heimila slíka byggingu fyrir sitt leyti með fyrirvara um samþykki Hollustuverndar ríkisins.  Hugmyndir þessar fengu einnig góðar undirtektir bæjaryfirvalda og var ráðist í breytingu á aðalskipulagi bæjarins af þessu tilefni.  Var skilgreindri landnotkun afmarkaðs svæðis, sem umræddur vatnstankur stendur á, breytt á þann veg að á svæðinu mætti vera verslun og þjónusta auk þeirrar starfsemi sem leyfð hafði verið þar fyrir, en svæðið hafði verið verið ætlað undir opinberar stofnanir/félagsheimili.  Skipulasgbreyting þessi hlaut lögboðna meðferð sem minni háttar breyting á aðalskipulagi og var breytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 23. maí 2000.

Hinn 21. júní 2000 var íbúum og eigendum fasteigna í nágrenni við vatnstankinn í Löngulág kynnt fyrirhugað veitinga- og ráðstefnuhús á vatnstankinum og var þeim veittur frestur til 19. júlí 2000 til þess að gera athugasemdir við bygginguna.  Bárust allmargar athugasemdir og voru þær teknar til umfjöllunar í skipulags og byggingarnefnd og þeim svarað skriflega.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. september 2000 var samþykkt að veita umsækjendum leyfi til að byggja veitinga- og ráðstefnuhús á vatnstankinum í Löngulág og var samþykkt nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 7. september 2000.  Kærendur vildu ekki una þessum ákvörðunum og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Með úrskurði, uppkveðnum hinn 11. október 2000, féllst úrskurðarnefndin á kröfu kærenda um að framkvæmdir við bygginguna yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni.

Eftir að úrskurður um að stöðva skyldi framkvæmdir hafði verið birtur bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum og byggingarleyfishafa var lögð fram ný umsókn um byggingarleyfi með breytingum, sem tóku mið af fyrirliggjandi bráðabirgðaúrskurði.  Var umsókn þessi tekin til meðferðar á fundi  skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja hinn 31. október 2000 og var hún samþykkt á fundinum, en kærendum hafði áður verið kynnt efni umsóknarinnar.  Jafnframt felldi nefndin úr gildi byggingarleyfi það, sem veitt hafði verið á grundvelli samþykktar nefndarinnar frá 5. september 2000.  Voru ákvarðanir þessar staðfestar á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 8. nóvember 2000.  Hafa úrskurðarnefndinni borist fundargerðir skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar Vestmannaeyja um framangreindar ákvarðanir.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 verið felld úr gildi og eru réttaráhrif hennar fallin niður.  Þykja kærendur eftir það ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti hennar.  Er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli nágranna um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vestmannaeyja frá 5. september 2000 að veita leyfi til byggingar veitinga- og ráðstefnuhúss ofan á vatnstank í Löngulág í Vestmannaeyjum er vísað frá úrskurðarnefndinni.

15/2000 Vesturvör

Með

Ár 2001, miðvikudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2000; kæra Desember ehf. á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 15. mars 2000 um að setja skilyrði um lyftu í nýbyggingu að Vesturvör 30 B í Kópavogi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. mars 2000, sem barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, óskar Sigurður Gunnarsson framkvæmdastjóri, f.h. Desember ehf., eftir úrskurði nefndarinnar um kröfu byggingarnefndar Kópavogs um að settar skuli lyftur milli neðri og efri hæðar iðnaðarhúsa að Vesturvör 30 A og 30 B.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. mars 2000.

Málsatvik:  Kærandi var rétthafi að lóðunum nr. 30 A og 30 B við Vesturvör í Kópavogi.  Hugðist hann hefjast handa um byggingu iðnaðarhúsnæðis á lóðunum og lagði fram umsókn um byggingarleyfi.  Við afgreiðslu umsóknar kæranda kom upp ágreiningur milli kæranda og byggingarnefndar Kópavogs um túlkun á ákvæði greinar 201.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Gerði byggingarnefnd, með vísun til umrædds ákvæðis, kröfu til þess að gert yrði ráð fyrir lyftum milli 1. og 2. hæðar húsanna en kærandi taldi þá kröfu ekki réttmæta.  Leitaði kærandi m.a. álits Skipulagsstofnunar um ágreininginn og kemur fram í áliti stofnunarinnar, dags. 3. febrúar 2000, að hún telji umrætt ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 ekki eiga við um iðnaðarhúsnæði.  Þrátt fyrir þetta álit synjaði byggingarnefnd Kópavogs umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir húsi að Vesturvör 30 B á fundi sínum hinn 15. mars 2000, þar sem lyftu vantaði í húsið.

Eftir að kærandi hafði vísað framangreindum ágreiningi til úrskurðarnefndarinnar komu álitaefni um lyftur í umræddum húsum til frekari skoðunar byggingarnefndar.  Hinn 15. maí 2000 var samþykkt í byggingarnefnd breyting á teikningu af húsinu nr. 30 A við Vesturvör og var lyfta, sem sýnd hafði verið á teikningu þess húss, felld út.  Jafnframt munu endanlegar teikningar að Vesturvör 30 B hafa verði samþykktar án þess að krafa væri gerð um lyftu í því húsi.

Úrskurðarnefndinni barst vitneskja um breytta afstöðu byggingarnefndar í málinu og var þess vænst að kærandi myndi afturkalla kæru sína þar sem komið hafði verið til móts við sjónarmið hans í málinu.  Var frekari meðferð málsins frestað af þessum sökum.

Þar sem afturköllun barst ekki leitaði úrskurðarnefndin, seint í deember 2000, skriflegrar staðfestingar byggingarfulltrúans í Kópavogi þess efnis að fallið hefði verið frá kröfum um lyftur í umræddum húsum.  Barst umbeðin staðfesting hinn 29. desember 2000.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs verið afturkölluð og eru réttaráhrif hennar fallin niður.  Þykir kærandi eftir það ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um lögmæti ákvörðunarinnar.  Er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Desember ehf. á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 15. mars 2000, um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir iðnaðarhúsi að Vesturvör 30 B í Kópavogi, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

38/2000 Skógarhlíð

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 21. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2000; kæra tíu íbúa og eigenda íbúða að Eskihlíð 8a, 10a, 12, 12a, 12b, 14 og 14a í Reykjavík, á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. maí 2000 um að veita leyfi til byggingar fimm hæða verslunar- og skrifstofuhúss, ásamt bílgeymslu, að Skógarhlíð 12 í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 2000, sem barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra tíu íbúar og eigendur íbúða að Eskihlíð 8a, 10a, 12, 12a, 12b, 14 og 14a í Reykjavík, ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 18. maí 2000 um að veita leyfi til byggingar fimm hæða verslunar- og skrifstofuhúss, ásamt bílgeymslu, að Skógarhlíð 12 í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 4. júlí 2000.

Af erindi kærenda verður ráðið að þeir krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en í kærunni vísa kærendur til þess að fyrir úrskurðarnefndinni séu til meðferðar ágreiningsmál um deiliskipulag lóðarinnar að Skógarhlíð 12 og að þeir telji óeðlilegt að staðið sé í miklum framkvæmdum á lóðinni meðan þessar kærur séu til umfjöllunar.  Jafnframt virðist hafa vakað fyrir kærendum að fá því framgengt að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.  Krafa um það var þó ekki sett fram í kæru þeirra hinn 7. júlí 2000 og kom sú krafa fyrst fram mánuði síðar eða hinn 7. ágúst 2000.

Eftir að krafa kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis kom fram leitaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu byggingarnefndar til kröfunnar auk þess sem byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að neyta andmælaréttar.  Þá var jafnframt leitað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefnið.  Hafa nefndinni borist greinargerðir byggingarnefndar og byggingarleyfishafa og umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefnið. 

Með úrskurði, uppkveðnum hinn 3. október 2000, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Segir m.a í forsendum þess úrskurðar að byggingarleyfishafa sé heimilt að halda áfram framkvæmdum í samræmi við hið umdeilda byggingarleyfi á eigin ábyrgð meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en áréttað er að nefndin sé með öllu óbundin af þessari niðurstöðu þegar til efnisúrlausnar málsins komi.

Krafa kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis er á því byggð að til grundvallar byggingarleyfinu liggi deiliskipulag sem deilt sé um og séu kærumál um gildi þess til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Sé deiliskipulagið ógilt hljóti byggingarleyfið að vera það einnig.

Úrskurðarnefndin hefur nú, með úrskurði uppkveðnum í dag, fellt úr gildi deiliskipulag fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð, sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur hinn 18. apríl 2000.  Er í þeim úrskurði gerð ítarleg grein fyrir ágreiningi aðila, málsrökum þeirra og niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.  Var deiliskipulag þetta forsenda hins umdeilda byggingarleyfis og fullnægir leyfið ekki skilyrðum 43. gr. laga nr. 73/1997 um byggingarleyfi eftir að deiliskipulagið hefur verið fellt úr gildi.  Verður byggingarleyfið, af þeim ástæðum, einnig fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.  Þá hafa nokkrar tafir orðið á starfsemi nefndarinnar vegna flutnings skrifstofu hennar í nóvember síðastliðnum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavík frá 18. maí 2000, sem staðfest var í borgarráði hinn 4. júlí 2000, um að veita leyfi til byggingar fimm hæða verslunar og skrifstofuhúss ásamt bílgeymslu að Skógarhlíð 12 í Reykjavík, er felld úr gildi.

25/2000 Skógarhlíð

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 21. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2000; kærur átta íbúa og eigenda íbúða að Eskihlíð 8a, 12a, 12b, 14 og 14a í Reykjavík á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. apríl 2000 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi og bréfum, dags. 16., 18. og 19. maí 2000, sem bárust úrskurðarnefndinni hinn 17., 18., 19., 22. og 26. sama mánaðar, kæra átta íbúar og eigendur íbúða að Eskihlíð 8a, 12a, 12b, 14 og 14a í Reykjavík ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. apríl 2000 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð í Reykjavík.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 18. maí 2000.  Í framangreindum kærum, sex að tölu, byggja kærendur á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og fara hagsmunir þeirra saman.  Úrskurðarnefndin ákvað því að sameina kærumálin í eitt mál og voru kærumál nr. 26, 27, 29, 30 og 31/2000 sameinuð máli nr. 25/2000, sem fyrst barst úrskurðarnefndinni.

Af bréfum kærenda verður ráðið að þeir vilji ekki una hinni kærðu ákvörðun.  Verður því að skilja málatilbúnað þeirra á þann veg að krafist sé ógildingar hennar, en úrskurðarnefndin tekur ekki til meðferðar kröfur einstakra kærenda um að ákvörðuninni verði breytt, enda er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að breyta kærðri ákvörðun.  Þá er kröfu eins kærenda, um að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar byggingar að Skógarhlíð 12, vísað frá úrskurðarnefndinni, þar sem úrlausn um slíka kröfu fellur utan valdsviðs nefndarinnar.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Málavextir:  Lóðin nr. 12 við Skógarhlíð er á götureit, sem afmarkast af Bústaðavegi, Skógarhlíð og Flugvallarvegi.  Ekki er í gildi deiliskipulag af reitnum en til er uppdráttur af svæðinu í heild, dags. 2. júní 1965, samþykktur í skipulagsnefnd og af borgarráði, en uppdrátturinn hefur aðeins gildi fyrir lóðina nr. 10 við Skógarhlíð.  Svæðið var á þeim tíma, er uppdráttur þessi var gerður, að mestu óbyggt, að öðru leyti en því að byggt hafði verið að hluta hús það sem nú er nr. 6 við Skógarhlíð.  Aðrar lóðir á reitnum virðast í stórum dráttum hafa verið afmarkaðar út frá nefndum uppdrætti, en nokkrar breytingar munu síðar hafa verið gerðar á þeim vegna breyttrar legu Bústaðavegar og Flugvallarvegar.  Byggt mun hafa verið á lóðinni nr. 10 við Skógarhlíð á árunum 1971 og 1974 en að Skógarhlíð 8 árið 1982.

Þann 27. nóvember 1990 samþykkti borgarráð Reykjavíkur að úthluta Ísarni hf. lóðinni nr. 12 við Skógarhlíð.  Í kjölfar þess hóf félagið að kanna byggingarmöguleika sína á lóðinni.  Á árinu 1994 voru unnin drög að byggingum þar, svipuðum þeim, sem gert er ráð fyrir í hinu kærða deiliskipulagi, og munu þessi byggingaráform hafa verið samþykkt af skipulagsnefnd í meginatriðum.  Ekki varð af framkvæmdum á þessum tíma og lágu byggingaráform lóðarhafa niðri allt fram til ársins 1999, er sótt var um leyfi til að hefja uppbyggingu á lóðinni með bréfi til Borgarskipulags Reykjavíkur, dags. 6. maí 1999.  Í framhaldi af erindi þessu var unnin ný tillaga að byggingum á lóðinni sem lögð var fyrir skipulags- og umferðarnefnd þann 14. júní 1999 og var þar eftirfarandi bókun gerð í málinu:

„Lagt fram bréf Teiknistofu Arkitekta, dags. 7. júní ´99, varðandi uppbyggingu á lóðinni Skógarhlíð 12, samkv. uppdr. sama dags. 06.06.99. Einnig lögð fram umsögn Borgarskipulags, dags. 8. júní 1999. Ennfremur lögð fram umsögn Árbæjarsafns, dags. 9.06.99 um húsið Hjarðarholt á lóðinni.  Samþykkt að leggja til við borgarráð að tillagan verði auglýst sem breyting á deiliskipulagi.“

Borgarráð staðfesti þessa bókun skipulags- og umferðarnefndar á fundi sínum þann 15. júní 1999 og var tillaga að deiliskipulagi lóðarinnar auglýst á grundvelli þeirrar samþykktar.  Barst skipulagsyfirvöldum fjöldi bréfa og undirskriftarlistar með nöfnum á þriðja hundrað íbúa í nágrenni svæðisins þar sem fram komu athugasemdir og mótmæli við tillögunni.  Vegna hinnar miklu andstöðu, sem tillagan mætti, var meðferð málsins frestað í skipulags- og umferðarnefnd og ákveðið að halda fund með hagsmunaaðilum við Eskihlíð.  Á þeim fundi voru kynntar breytingar á tillögunni, sem gerðar höfðu verið til þess að koma til móts við framkomnar athugasemdir.  Einnig var á fundinum kynnt skuggavarp vegna fyrirhugaðrar byggingar á lóðinni.

Eftir fund þennan bárust frekari athugasemdir og mótmæli og var málinu frestað á ný á fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 11. október 1999 og þá samþykkt að umferðardeild borgarverkfræðings kannaði hljóðstig og umferðarmagn við húsið.

Annar fundur mun hafa verið haldinn með íbúum og frekari breytingar gerðar á uppdráttum með hliðsjón af framkomnum athugasemdum.  Var málið síðan tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 20. desember 1999 og þá samþykkt, með vísan til umsagna Borgarskipulags og umferðardeildar, að leggja til við borgarráð að tillaga, dags. 15. desember 1999, yrði samþykkt sem deiliskipulag fyrir lóðina. 

Bókun þessi var staðfest á fundi borgarráðs 21. desember 1999 og var málið að því loknu sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu.  Með bréfi, dags. 22. febrúar 2000, lagðist stofnunin gegn birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins þar sem talið var að athugasemdum hefði ekki verið svarað með fullnægjandi hætti.  Í ljósi þessa var málið á ný tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 10. apríl 2000 og lögð fram ný umsögn Borgarskipulags, dags. 7. apríl. 2000, auk bréfs umferðardeildar, dags. 20. mars. 2000.  Var á fundinum samþykkt að leggja til við borgarráð að það samþykkti að nýju framlagðan deiliskipulagsuppdrátt að lóðinni nr. 12 við Skógarhlíð með vísan til umsagnar Borgarskipulags, dags. 7. apríl 2000, og fyrri umsagna Borgarskipulags og umferðardeildar.  Staðfesti borgarráð þessa afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum þann 18. apríl 2000.

Tillagan var að því loknu send Skipulagsstofnun að nýju til umfjöllunar.  Í bréfi stofnunarinnar til Borgarskipulags Reykjavíkur, dags. 12. maí 2000, kom fram að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Skipulagsstofnun lagði þó áherslu á að skv. grein 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 skuli deiliskipulag í þéttbýli að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.  Taldi stofnunin ákvæði þetta hafa sérstaka þýðingu við skipulag á umræddu svæði og ítrekaði fyrri ábendingu um að Reykjavíkurborg tæki á skipulagi svæðisins í heildstæðara samhengi.

Að fengnu svari Skipulagstofnunar var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 18. maí 2000, en áður hafði íbúum verið sent bréf um ákvörðun borgaryfirvalda í málinu.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndar með kærum, sem bárust úrskurðarnefndinni innan kærufrests, svo sem áður hefur verið rakið.

Með bréfi, dags. 7. júlí 2000, kærðu 10 nágrannar útgáfu byggingarleyfis, sem þá hafði verið veitt fyrir húsi að Skógarhlíð 12 á grundvelli hins umdeilda deiliskipulags  Eru kærendur í því máli margir hinir sömu og standa að kærum vegna deiliskipulags lóðarinnar, sem um er fjallað í máli þessu.  Í framhaldi af nefndri kæru vegna byggingarleyfisins kom fram krafa um að úrskurðarnefndin kvæði upp úrskurð um að framkvæmdir við byggingu húss á lóðinnu yrðu stöðvaðar meðan kærumálin væru til meðferðar fyrir nefndinni.  Var sú krafa tekin til meðferðar og hafnað með rökstuddum úrskurði, uppkveðnum hinn 3. október 2000.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er annars vegar á því byggt að málsmeðferð við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt af hálfu borgaryfirvalda og hins vegar að ákvörðunin sé haldin efnisannmörkum. 

Að því er varðar málsmeðferð er því haldið fram að ekki hafi verið haft fullnægjandi samráð við nágranna um gerð hins umdeilda skipulags og hafi því ekki verið gætt ákvæða í grein 3.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Ekki hafi verið farið að ábendingu Skipulagsstofnunar um að auglýsa tillöguna að nýju eftir þær breytingar sem á henni urðu, auk þess sem svör við athugasemdum hafi verið ófullnægjandi.  Þá telja kærendur að rannsóknir á áhrifum byggingarinnar á umferð og loft- og hljóðmengun, af völdum aukinnar umferðar, hafi verið ófullnægjandi.

Efnislegar athugasemdir kærenda lúta einkum að stærð, umfangi og hæð hússins.  Engin rök hafi verið færð fram fyrir nauðsyn svo hárrar byggingar í því viðkvæma umhverfi sem um sé að ræða.  Nýtingarhlutfall sé yfir efri mörkum viðmiðunar aðalskipulags, enda verði að flokka umrætt svæði sem athafnasvæði í jaðri byggðar en ekki í jaðri miðborgarsvæðis, eins og borgaryfirvöld hafi haldið fram.  Þá varpi fyrirhuguð bygging skugga á eignir sumra kærenda og geti það rýrt verðmæti eignanna.  Aukin umferð samfara byggingunni auki slysahættu og torveldi gangandi umferð á svæðinu.  Þá sé ekki nægilega ljóst hvers konar starfsemi verði í húsinu.  Telja kærendur að nauðsynlegt hefði verið að skilgreina notkun hússins betur og fullnægi hin kærða ákvörðun í þessu efni ekki skilyrðum um deiliskipulag í grein 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Málsrök borgaryfirvalda:  Í ítarlegri greinargerð Borgarskipulags um málatilbúnað kærenda, dags. 30. ágúst 2000, er málsástæðum þeirra andmælt.  Er hafnað fullyrðingum þeirra um að málmeðferð hafi verið áfátt og bent á að samráð hafi verið haft við nágranna, m.a. á fundum, sm haldnir hafi verið umfram það sem lögskylt sé.  Þá hafi ekki verið skylt að auglýsa tillöguna að nýju vegna breytinga sem gerðar hafi verið á henni í meðförum, en breytingar þessar hafi verið óverulegar. 

Rétt sé að umferðaraukning vegna byggingarinnar sé áætluð 5,7% en ekki 5% eins og fram komi í umsögn Borgarskipulags frá 7. apríl 2000.  Þetta breyti þó ekki þeirri niðurstöðu sem komist hafi verið að varðandi umferðarþátt málsins og geti þessi villa því ekki leitt til ógildingar deiliskipulagsins.  Eins og fram komi í umsögn umferðardeildar, dags. 13. september 1999, muni ástand í vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Flugvallarveg að Skógarhlíð líklega ekki verða með besta móti eftir byggingu hússins að Skógarhlíð 12.  Í niðurstöðu umsagnarinnar sé bent á að lagfæringar séu nauðsynlegar á ljósastýringu gatnamóta Bústaðavegar og Flugvallarvegar.  Í bréfi umferðardeildar, dags. 20. mars 2000, komi fram að ráðgjafa hafi verið falið að gera tillögur að breytingum á gatnamótunum, en litið hafi verði svo á að vinna bæri að þessum breytingum þar sem fallist hefði verið á umsagnir umferðardeildar og Borgarskipulags í skipulags- og umferðarnefndar 20. desember 1999 og 10. apríl 2000.  Sé stefnt að því að þessum lagfæringum ljúki áður en húsið að Skógarhlíð 12 verði tekið í notkun.  Fullnægjandi grein hafi verið gerð fyrir áhrifum byggingarinnar með tilliti til hljóðstigs og loftmengunar, eins og gögn málsins beri með sér, og sé hvort tveggja innan viðmiðunarmarka.  Ekki hafi þótt ástæða til þess að leita umsagnar heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar um þessa þætti.

Fallist er á þá staðhæfingu kærenda að ekki sé fastákveðið hvaða starfsemi verði í húsinu.  Hún verði þó að samræmast þeirri landnotkun Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016, sem heimiluð sé á athafnasvæðum samkvæmt skilgreiningu þess.  Undir þá skilgreiningu falli margháttuð starfsemi, m.a. verslunarrekstur, annar en rekstur matvörumarkaða, sem háður sé sérstakri heimild skipulagsyfirvalda.  Með umsögn Borgarskipulags frá 7. apríl 2000 hafi öllum vafa í þessu efni verið eytt.  Hins vegar verði að telja ólíklegt að verslanir komi á allar hæðir hússins enda henti slíkt húsnæði illa til verslunarreksturs og séu fá dæmi um slíkar byggingar í borginni.  Ekki hafi því verið talin ástæða til þess að takmarka landnotkun sérstaklega í deiliskipulaginu eins og heimilt sé skv. grein 3.1.4 í skipulagsreglugerð, enda hafi engin skylda hvílt á borgaryfirvöldum til þess.

Í ljósi þess sem fram komi í umsögn Borgarskipulags, dags. 7. apríl 2000, um áhrif byggingarinnar á nánasta umhverfi sitt, m.a. um minnkun hávaða og óveruleg áhrif skuggavarps, verði að telja að byggingin hafi ekki áhrif á fasteignaverð á svæðinu.  Komi hið gagnstæða hins vegar í ljós eigi þeir aðilar sem fyrir slíku verði rétt á greiðslu bóta eða að borgaryfirvöld leysi til sín eignir þeirra, enda geti þeir sýnt fram á tjón, sbr. ákvæði 35. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Slík neikvæð áhrif leiði þó ekki til ógildingar deiliskipulagsins.

Hvað varðar umfang byggingarinnar og hæð er á það bent að deiliskipulagið geri ráð fyrir byggingarmagni, sem sé í samræmi við viðmiðunarnýtingarhlutfall aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 og þann séruppdrátt, sem áður hafi verið samþykktur af borgaryfirvöldum.  Form byggingarreits sé einnig svipað og það form sem virðist hafa verið gert ráð fyrir á uppdráttum frá 1965.  Umfang byggingarinnar sé því ekki meira en lóðarhafi hafi getað gert kröfur um og hagsmunaaðilar á svæðinu hafi mátt búast við.

Form hússins, þ.e. langt, grunnt og fremur hátt, hafi verið talið hagstæðara fyrir íbúa fjölbýlishúsa við Eskihlíð, en ef það hefði verið haft lægra og meira um sig.  Langt og grunnt hús taki minna útsýni af íbúum fjölbýlishúsanna og skerðing útsýnis sé svipuð, séð frá efri og neðri hæðum.  Staðsetning og fjarlægð hússins sé þannig að það varpi ekki skugga á lóðir við Eskihlíð nema ef til vill um hávetur.  Ekki sé fallist á að byggingin stingi í stúf við byggingar í hverfinu.  Í því sambandi sé ekki rétt að miða einungis við þær byggingar, sem þegar hafi verið byggðar í Skógarhlíðinni.  Á það megi benda að samþykkt hafi verið byggingaráform sem geri ráð fyrir hærri byggingu og auknu nýtingarhlutfalli að Skógarhlíð 10 en að Skógarhlíð 8 hafi verið gert ráð fyrir öðru húsi, sambærilegu og til viðbótar því húsi sem þar standi nú.

Þá er tekið fram að við meðferð málsins hafi sérstaklega verið skoðað hvernig hægt væri að tryggja betur öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda eins og fram komi í umsögn Borgarskipulags, dags. 7. apríl 2000.  Verði að telja að öryggi þessara vegfarenda sé nægilega tryggt og versni ekki þrátt fyrir aukna umferð.

Hvað varðar athugasemdir kærenda um nýtingarhlutfall er tekið fram að í umfjöllun um málið hjá borgaryfirvöldum hafi verið við það miðað að lóðin væri á athafnasvæði í jaðri miðbæjar samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Viðmiðunarnýtingarhlutfall á slíkum svæðum sé 1,1-1,5.  Jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að um lóðina gilti viðmiðunarnýtingarhlutfall athafnahverfa miðsvæðis (0,7-1,1) væri lóðin innan viðmiðunarnýtingarhlutfalls aðalskipulagsins.  Fráleitt sé hins vegar að halda því fram að lóðin sé á athafnasvæði í jaðri byggðar og þar með gildi nýtingarhlutfallið 0,4-0,7 þar sem svæðið sé inni í miðri borginni og alls ekki í jaðri byggðar hvernig sem á málið sé litið.  Að auki sé heimilt skv. aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 að víkja frá viðmiðunarnýtingarhlutfalli aðalskipulagsins ef unnið sé deiliskipulag af lóð.  Hvorki verði því séð að byggingarmagn á lóðinni nr. 12 við Skógarhlíð, samkvæmt hinu umdeilda deiliskipulagi, sé of hátt miðað við viðmiðunarnýtingarhlutfall aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 né að það stangist á við reglur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.

Loks er í greinargerð Borgarskipulags í málinu vikið að athugasemdum og ábendingum Skipulagsstofnunar um að borgaryfirvöld hefðu átt að taka á skipulagi svæðisins í heildstæðara samhengi.  Er því hafnað að nálægð svæðisins við slökkvistöð hafi kallað á heildstætt skipulag.  Í 2. málsl. 1. mgr. greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerð komi fram að í þéttbýli skuli deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.  Með þessu ákvæði hafi verið sett ákveðin meginregla, sem að jafnaði skuli farið eftir við gerð deiliskipulags.  Reglan sé þó frávíkjanleg enda augljóst að upp geti komið tilvik þar sem eðlilegt sé að deiliskipuleggja minni svæði en götureit eða eftir atvikum stærri svæði, sem þó séu ekki götureitur, sbr. ákvæði 1. málsl. um að svæði skuli mynda heildstæða einingu.  Ákvæði þetta verði að skýra með hliðsjón af meginreglum skipulags- og byggingarlaga og þeim markmiðum sem sett séu fram í lögunum með hliðsjón af aðstæðum öllum og eðli máls hverju sinni.  Í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga séu talin upp markmið laganna.  Í 9. gr. komi fram meginregla laganna um skipulagsskyldu þ.e. að landið allt sé skipulagsskylt og að allar framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.  Með ákvæði þessu sé í fyrsta sinn kveðið svo afdráttarlaust á um skipulagsskyldu.

Frá þessari meginreglu séu nokkrar undantekningar.  Hér skipti þó bara ein þeirra máli og komi hún fram í 2. mgr. 23. gr. laganna.  Samkvæmt þeirri grein sé sveitarstjórn heimilt, í þegar byggðu hverfi þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, að veita leyfi til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr.  Ákvæðið hafi verið skýrt með þeim hætti að aðeins sé hægt að fara þá leið samræmist tillagan ákvæðum aðalskipulags.  Í slíkum tilvikum sé nægilegt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum og sé málsmeðferð slíkra tillagna að mörgu leyti ekki eins vönduð og þegar um deiliskipulagstillögu sé að ræða.  Í hinu umdeilda tilviki hafi verið um að ræða einu óbyggðu lóðina á götureitnum  Deiliskipulagstillagan hafi samræmst gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur og áhrif tillögunnar á hverfið í heild hafi verið skoðuð ítarlega og aðgerðir samþykktar varðandi göngutengsl og umferðarmál svæðisins.  Eins og á hafi staðið verði að telja að eðlilegra hafi verið að fara þá leið sem Reykjavíkurborg hafi farið í máli þessu m.t.t. markmiða laganna og í ljósi þess að heimilt hefði verið að veita byggingarleyfi á grundvelli 2. mgr. 23. gr. þeirra.  Það eigi ekki að leiða til ógildingar ákvörðunnarinnar að vandaðri málsmeðferð hafi verið viðhöfð en þörf hafi verið á.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er byggt á líkum sjónarmiðum og fram koma í greinargerð Borgarskipulags.  Að auki er því haldið fram að það eigi ekki undir úrskurðarnefndina að úrskurða í máli þessu um það hvort deiliskipulag einnar lóðar geti staðist eða ekki.  Ástæðan sé sú að í engri kæranna varðandi deiliskipulagið sé á þessu byggt, a.m.k. ekki með nægilega skilmerkilegum hætti.  Geti nefndin aðeins úrskurðað um þann ágreining sem skilmerkilega sé tilgreindur í kæru.  Vísar byggingarleyfishafi í þessu efni til þess að í 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina sé kveðið á um að skilmerkilega skuli greina í kæru hvert sé úrskurðarefnið, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni.

Verði ekki fallist á þessi sjónarmið, er því haldið fram að jafnvel þótt deiliskipulagið taki aðeins til einnar lóðar sé fráleitt að það eitt út af fyrir sig leiði til ógildingar þess.  Hvað þetta varði sé að ýmsum ákvæðum að huga sem varði stærð þess svæðis eða reits er deiliskipulag skuli taka til, en ekki síður beri að líta til ákvæða um skipulagsskyldu.  Kjarni þessa máls alls sé auðvitað sá að byggingarleyfishafi hafi ætlað að ráðast í framkvæmdir á einstöku svæði, þ.e. lóðarsvæði sínu / lóðarreit sínum við Skógarhlíð 12.  Úr því að Reykjavíkurborg hafi kosið að beita ekki undanþáguákvæði 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 7. mgr. 43. gr. sömu laga, sem líklega hafi verið heimilt, hafi borið að deiliskipuleggja þann reit, þar sem framkvæmdir hafi verið fyrirhugaðar.  Hvað varði skilgreiningarákvæði í lögum og reglugerð og þau ákvæði í reglugerð þar sem vikið sé að umfangi deiliskipulags, þá sé kjarni þeirra ákvæða allra í þessu samhengi að stærð þess reits, sem eigi að deiliskipuleggja, sé ekki takmörkuð og því sé ekki bannað að deiliskipuleggja eina lóð.

Þá sé einnig til þess að líta að götureitur sá er lóðin nr. 12 við Skógarhlíð tilheyri sé lítill og aðrar lóðir þar þegar byggðar.  Við undirbúning fyrirhugaðra framkvæmda á lóðarreit byggingarleyfishafa hafi verið farið að meginreglu skipulags- og byggingarlaganna um skipulagsskyldu, sem sé í samræmi við markmið laganna.  Óljóst orðalag í reglugerð geti ekki gengið þessu framar.

Þá sé ástæða til að minna á að Skipulagsstofnun, sem hafi eftirlit með framkvæmd skipulags- og byggingarlaga og reglugerða á grundvelli þeirra, hafi ekki talið, þrátt fyrir ábendingu sína um skipulagssvæðið, að form- eða efnisgallar væru á deiliskipulaginu og hafi því ekki gert athugasemd við að það yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, að fengnum skýringum frá Borgarskipulagi. 

Um umfang hússins og nýtingarhlutfall lóðarinnar sé engra málalenginga þörf.  Kjarni þessa sé sá að ákvörðun nýtingarhlutfallsins 0,75 í deiliskipulaginu fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð sé byggð á traustum lagagrundvelli og sé augljóslega nánari útfærsla á stefnu sveitarstjórnar varðandi þéttleika byggðar.  Jafnvel þótt aðalskipulag Reykjavíkur yrði skilið svo, að sú stefna hefði verið mörkuð að nýtingarhlutfall þess götureits, sem lóðin tilheyrir, skyldi vera 0,7 breyti það engu um gildi deiliskipulagsins því frávikið sé svo óverulegt að það rúmist augljóslega innan þess svigrúms sem fyrir hendi sé til nánari útfærslu.
 
Engin önnur atriði hafi komið fram sem leitt geti til þess að fella beri deiliskipulagið úr gildi.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunum annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar.  Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður þó ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum aðila í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft allar röksemdir þeirra til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, sem fram kom eftir að byggingarframkvæmdir hófust að Skógarhlíð 12 á grundvelli byggingarleyfis, sem veitt var með stoð í hinu umdeilda deiliskipulagi.  Í umsögn stofnunarinnar, dags. 18. ágúst 2000, segir m.a:

„Skipulagsstofnun hefur yfirfarið deiliskipulag Skógarhlíðar 12 skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. meðfylgjandi bréf stofnunarinnar til Borgarskipulags Reykjavíkur dags. 22. febrúar 2000 og 12. maí s.á. Niðurstaða fyrri afgreiðslu stofnunarinnar var sú að ákvæðum skipulags- og byggingarlaga hafi ekki verið fullnægt við afgreiðslu deiliskipulags Skógarhlíðar 12 þar sem mörgum efnisatriðum athugasemda við skipulagstillöguna hafi ekki verið svarað af borgaryfirvöldum og því væri ekki unnt að auglýsa deiliskipulagið til gildistöku í Stjórnartíðindum. Ljúka yrði málsmeðferð í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og svara athugasemdum. Skipulagsstofnun hvatti einnig til þess að tekið yrði á skipulagi svæðisins í heildstæðara samhengi en gert var.

Borgarskipulag svaraði í kjölfar afgreiðslu Skipulagsstofnunar þeim athugasemdum sem fram höfðu komið við deiliskipulagstillögu lið fyrir lið. Skipulagsstofnun taldi þá í bréfi til Borgarskipulags, dags. 12. maí 2000 að í megindráttum væri komið til móts við athugasemdir stofnunarinnar frá 22. febrúar 2000 og gerði því ekki athugasemdir við að deiliskipulagið yrði auglýst í Stjórnartíðindum. Stofnunin lagði þó áherslu á að skv. grein 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 skal deiliskipulag í þéttbýli að jafnaði ekki ná yfir minna svæði en götureit.

Í bréfinu segir m. a.:
„Skipulagsstofnun telur að ákvæðið hafi sérstaka þýðingu á því svæði sem hér um ræðir, meðal annars vegna nálægðar við slökkvilið og neyðarakstur sjúkrabifreiða og varðar því öryggismál allra borgarbúa. Stofnunin ítrekar því fyrri ábendingu um að Reykjavíkurborg taki á skipulagi svæðisins í heildstæðara samhengi. Skoða ber nýtingu lóðarinnar í samhengi við landnotkun og umferðarmál almennt á svæðinu, s.s. við Skógarhlíð alla, tengsl við og áhrif á landnotkun við Eskihlíð og allar tengingar gatnamóta.“

Deiliskipulag Skógarhlíðar 12 var auglýst í Stjórnartíðindum þann 18. maí 2000 og öðlaðist gildi þá þegar. Þann sama dag var umsókn um hið kærða byggingarleyfi samþykkt í byggingarnefnd Reykjavíkur. Af gögnum þeim sem fylgdu umsagnarbeiðni úrskurðarnefndar virðist byggingarleyfið vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag lóðarinnar að Skógarhlíð 12 og uppfylla þannig ákvæði 2. mgr. 43. skipulags- og byggingarlaga. Í gögnum málsins er ekki að finna upplýsingar um samræmi hins kærða byggingarleyfis við ákvæði byggingarreglugerðar.

Skipulagsstofnun telur á grundvelli framlagðra gagna að ekki sé ástæða til að stöðva framkvæmdir sem hafnar eru í samræmi við byggingarleyfi það sem samþykkt var í byggingarnefnd Reykjavíkur þann 18. maí s.l. en ítrekar þá afstöðu sem fram kemur í framangreindum bréfum frá 22. febrúar og 12. maí 2000 að ákvæði greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 hafi sérstaka þýðingu varðandi Skógarhlíð og næsta nágrenni.“

Niðurstaða:  Eitt helsta úrlausnarefni máls þessa lýtur að því hvort hin kærða ákvörðun fullnægi lagaskilyrðum um efni skipulagsákvörðunar og afmörkun deiliskipulagssvæðis.  Af hálfu byggingarleyfishafa er því haldið fram að úrskurðarnefndin geti ekki fjallað um þetta álitaefni í málinu, þar sem ekki sé, með óyggjandi hætti, byggt á þeirri málsástæðu af hálfu kærenda að óheimilt hafi verið að deiliskipuleggja einungis umrædda lóð.  Á þessa málsástæðu verður ekki fallist.  Úrskurðarnefndin er æðra stjórnvald og hefur það hlutverk að skera úr um lögmæti ákvarðana, sem til hennar er skotið.  Um málsmeðferð fyrir nefndinni gildir ekki málsforræðisregla dómstólaréttarfars.  Þvert á móti ber nefndinni, með hliðsjón af reglum um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, að leiðbeina ólögfróðum kærendum og fylla og skýra kröfugerð þeirra ef þörf krefur.  Verða ákvæði reglugerðar nr. 621/1997 ekki  skilin svo að úrskurðarnefndin sé bundin af kröfugerð og málsástæðum kærenda, heldur verður að skýra þau sem leiðbeinandi reglur um form og efni kæru til nefndarinnar.  Þá var deiliskipulagið, af hálfu eins kærenda, m.a. kært á grundvelli brota á grein 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Með vísan til þessa verður að telja að nefndinni beri að taka til úrlausnar hvort heimilt hafi verið að takmarka hið umdeilda deiliskipulag við eina lóð svo sem gert var.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Samkvæmt skilgreiningarákvæði 2. gr. laganna er deiliskipulag „…skipulagsáætlun fyrir afmarkaða reiti innan sveitarfélags, sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess.“ Hugtakið reitur er hvorki skilgreint í lögunum né í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, en orðið kemur fyrir í samsettu heitunum götureitur og landnotkunarreitur, sem skilgreind eru í grein 1.3 í skipulagsreglugerðinni.  Gefa skilgreiningar þessar ekki tilefni til þess að ætla að orðið reitur eigi við um einstaka byggingarlóð, enda væri slík notkun orðsins hvorki í samræmi við orðskýringu né almenna venju um orðnotkun. 

Í skilgreiningarákvæði 1.3 í skipulagsreglugerðinni er einnig skilgreint hugtakið skipulagssvæði en þar segir m.a. „Deiliskipulag nær til einstakra svæða eða reita innan aðalskipulags og skal jafnan miðast við að ná til svæða sem mynda heildstæða einingu.  Í þéttbýli skal deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.“  Hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. greinar 3.1.4. í skipulagsreglugerðinni, en ákvæðið fjallar um deiliskipulag.

Með tilvitnuðum ákvæðum er mörkuð sú meginstefna, að deiliskipulag skuli að jafnaði taka til svæða sem myndi heildstæða einingu og skuli að jafnaði ekki taka til minna svæðis en götureits.  Enda þótt í orðalaginu „að jafnaði“ kunni að felast nokkurt svigrúm til ákvörðunar um mörk svæðis, sem deiliskipulag á að taka til, veitir það sveitarstjórnum ekki frelsi til þess að ákvarða þessi mörk að eigin geðþótta.  Verður þess í stað að skýra ákvæðin með hliðsjón af þeim markmiðum, sem að er stefnt með gerð deiliskipulags, að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði.  Við skipulagsgerðina verður jafnframt að líta til þeirra markmiða, sem sett eru fram í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo og til almennra ákvæða í 9. gr. laganna um gerð og framkvæmd skipulags.  

Til þess að fullnægt sé lagaskilyrðum þarf í skipulagsáætlunum að gera grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og lýsa forsendum þeirra ákvarðana.  Þurfa þessar áætlanir að vera í eðlilegu samræmi innbyrðis og taka til allra þeirra þátta, sem varða hagsmuni heildarinnar, jafnframt því sem tryggja ber rétt einstaklinga og lögaðila, sem hagsmuna eiga að gæta við skipulagsgerðina.

Í máli því sem hér er til meðferðar ákváðu borgaryfirvöld að vinna deiliskipulag fyrir eina lóð á athafnasvæði þar sem ekki var í gildi deiliskipulag.  Var þessi ákvörðun tekin þrátt fyrir að ítrekað hefði komið fram það álit Skipulagsstofnunar að aðstæður á svæðinu og nálægð þess við slökkvistöð ættu að leiða til þess að tekið væri á skipulagsmálum svæðisins með heildstæðari hætti.  Allar athuganir á áhrifum skipulagsgerðarinnar voru miðaðar við þá byggingu eina, sem fyrirhuguð var á umræddri lóð.  Þó bera gögn málsins það með sér að vænta megi frekari uppbyggingar á svæðinu, a.m.k. á lóðunum nr. 8 og 10 við Skógarhlíð, auk þess sem nokkurt svæði er vestast á landnotkunarreitnum, sem ekki hefur verið ráðstafað til framtíðarnota svo séð verði.

Ljóst er af þeim aðstæðum sem nú var lýst að við gerð deiliskipulags fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð var ekki tekið tillit til þeirra grundvallarsjónarmiða sem líta ber til við skipulagsgerð.  Voru mörk skipulagssvæðisins ekki miðuð við það svæði sem augljóslega myndar heildstæða einingu í umræddu tilviki, en svæðið er í senn götureitur og sérgreindur landnotkunarreitur. Af þessu leiddi að ekki var gætt að heildaráhrifum enduruppbyggingar á svæðinu á umferð, öryggi vegfarenda, loftmengun og hljóðvist, svo dæmi séu nefnd.  Ekki verður heldur séð að gerð hafi verið athugun á hagsmunum annarra lóðarhafa á svæðinu með tilliti til jafnræðis og mögulegrar nýtingar einstakra lóða.  Fólst í hinu umdeilda deiliskipulagi lítið annað en það sem fram hefði komið á aðaluppdráttum við hönnun mannvirkja á lóðinni og er vandséð hvaða skipulagsforsendur borgaryfirvöld höfðu að leiðarljósi við ákvarðanir sínar í málinu.  Að vísu var hugað að áhrifum byggingarinnar á næsta nágrenni, einkum með tilliti til aukinnar umferðar.  Leiddi sú athugun til þess að byggingunni myndi fylgja umferðarvandi á gatnamótum Bústaðvegar og Flugvallarvegar.  Hefði í deiliskipulaginu þurft að gera grein fyrir því hvernig úr þeim vanda yrði leyst. Þess í stað var ákveðið að fela sérfræðingi að gera tillögur til úrbóta án þess að fyrir lægi á hvaða forsendum þær tillögur yrðu gerðar eða hvort þær yfirhöfuð gætu falið í sér lausn á fyrirsjáanlegum vanda.  Var því, að mati úrskurðarnefndarinnar, ekki einu sinni tekið á fullnægjandi hátt á þeim þáttum sem með beinum hætti tengjast því skipulagi, sem samþykkt var.

Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram að deiliskipulag lóðarinnar að Skógarhlíð 12 hafi m.a. verið unnið til þess að tryggja vandaðri málsmeðferð.  Að öðrum kosti hefði mátt láta við það sitja að grenndarkynna umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi og afgreiða umsókn hans á grundvelli undanþáguheimildar 2. mgr. 23. gr. sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Þessi málsástæða er byggð á þeirri forsendu að skilyrði hefðu verið til þess að neyta umræddrar undanþáguheimildar við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddu húsi en ekki hefur verið lagt mat á það hvort þau skilyrði hafi verið fyrir hendi. Við það mat þyrfti m.a. að staðreyna að byggingin samrýmdist ákvæðum aðalskipulags um nýtingarhlutfall og hvort umrætt svæði gæti talist þegar byggt hverfi, þegar litið er til þeirra áforma sem uppi hafa verið um frekari byggingar á svæðinu.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að skort hafi lagaskilyrði til þess að gera deiliskipulag fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð án þess að jafnhliða væri unnið og samþykkt deiliskipulag fyrir götureitinn í heild. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Miðað við þá niðurstöðu að hin kærða ákvörðun sé ógilt af framangreindum ástæðum þykja ekki efni til að fjalla um málsástæður er varða gerð og undirbúning ákvörðunarinnar eða nýtingarhlutfall umrædds svæðis.

Þar sem hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda er lagt fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að láta birta þar auglýsingu um ógildingu ákvörðunarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.  Þá hafa nokkrar tafir orðið á starfsemi nefndarinnar vegna flutnings skrifstofu hennar í nóvember síðastliðnum.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. apríl 2000 um að samþykkja deiliskipulag fyrir lóðina nr. 12 við Skógarhlíð í Reykjavík, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda þann 18. maí 2000, er felld úr gildi.  Lagt er fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að láta birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um ógildinu téðrar ákvörðunar.

72/2000 Skorradalur

Með

Ár 2000, miðvikudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2000; kæra P, Hálsum, Skorradalshreppi á ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 30. október 2000 um að samþykkja deiliskipulag af þéttbýlissvæði í landi Grundar í Skorradal og á ákvörðun byggingarnefndar Skorradalshrepps frá 24. nóvember 2000 um að veita leyfi til byggingar þriggja húsa á svæðinu.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2000, sem barst nefndinni 30. sama mánaðar, kærir Ólafur Sigurgeirsson hrl., f.h. P, Hálsum, Skorradalshreppi, ákvörðun sveitarstjórnar Skorradalshrepps frá 30. október 2000 um að samþykkja deiliskipulag af þéttbýlissvæði í landi Grundar í Skorradal.  Með bréfi, dags. 4. desember 2000, áréttar kærandi fyrri kröfu og kærir jafnframt til ógildingar samþykkt byggingarnefndar Skorradalshrepps frá 24. nóvember 2000 um að veita Skorradalshreppi leyfi til byggingar þriggja húsa á svæðinu. Hin kærða ákvörðun byggignarnefndar var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 1. desember 2000.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir, sem hafnar eru á svæðinu, verði stöðvaðar.

Vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda var oddvita Skorradalshrepps gert viðvart um kæruna með símbréfi hinn 1. desember 2000 og sveitarstjórn gefinn kostur á að koma að andmælum og athugasemdum.  Bárust nefndinni gögn og athugasemdir sveitarstjórnar hinn 4. desember 2000.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 9. febrúar 2000, tilkynnti stjórn Íbúðalánasjóðs sveitarstjórn Skorradalshrepps að samþykkt hefði verið að veita hreppnum lán til byggingar eða kaupa leiguíbúða á árinu 2000.  Í framhaldi af þessu erindi hóf sveitarstjórn undibúning að byggingu nokkurra íbúðarhúsa á svæði, sem valið var í landi Grundar, norðan Andakílsár, skammt frá vesturenda Skorradalsvatns.  Gerð var tillaga að deiliskipulagi svæðisins og var tillagan auglýst í Lögbirtingablaðinu 1. september 2000.  Einnig birtist auglýsing um tillöguna í Morgunblaðinu um líkt leyti.  Nokkrar athugasemdir bárust um tillöguna, m.a. frá kæranda.

Með bréfi Skipulagsstofnunar til Skorradalshrepps, dags. 29. september 2000, var athygli vakin á nokkrum annmörkum, sem stofnunin taldi vera á deiliskipulagstillögunni.  Jafnframt var athygli vakin á því að gera þyrfti breytingar á staðfestu svæðisskipulagi sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar þar sem deiliskipulagstillagan væri ekki í samræmi við svæðisskipulagið.  Brást sveirtarstjórn við þessum athugasemdum og hefur gert reka að því að bætt verði úr því sem áfátt var.  Hefur m.a. verið samþykkt breyting á svæðisskipulagi sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar og mun breytingin hafa verið send umhverfisráðherra til staðfestingar.  Enn hefur hins vegar hvorki verið auglýst breyting á svæðisskipulaginu eða gildistaka deiliskipulags.

Þrátt fyrir að frágangi skipulagsmála svæðisins sé ekki lokið eru framkvæmdir hafnar þar og hafa byggingarleyfi þriggja húsa þegar verið samþykkt, eins og fram kemur í erindi kæranda.

Af hálfu kæranda er á því byggt í kærunni að sveitarstjórn fari ekki að skipulags- og byggingarlögum, en fyrst og fremst verði að liggja ljóst fyrir hver séu mörk milli jarðanna Grundar í Skorradal og jarðar hans, Hálsa, en þessar tvær jarðir liggi saman. 

Af hálfu sveitarstjórnar er því haldið fram að svæði það sem afmarkað er með hinu umdeilda deiliskipulagi sé alfarið í landi Grundar og er sjónarmiðum kæranda mótmælt.

Kærandi og sveitarstjórn Skorradalshrepps hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinum kærðu ákvörðunum hins vegar.  Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum eins og málinu er háttað, en úrskurðarnefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Aðild kæranda að kærumáli til ógildingar hinna kærðu ákvarðana er háð þeim skilyrðum að hann eigi einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar skipulag og byggingar á umræddu svæði.  Telur kærandi sig eiga slíka hagsmuni með hliðsjón af því að ekki liggi ljóst fyrir hver séu mörk milli jarðanna Grundar í Skorradal og jarðar hans, Hálsa.

Af hálfu sveitarstjórnar hafa verið lögð fyrir úrskurðarnefndina gögn um merki jarðanna á umræddum stað og lágu þau gögn til grundvallar ákvörðun sveitarstjórnar við staðarval fyrir hinar umdeildu byggingar.  Eru gögn þessi í samræmi við uppdrátt jarðamarka í svæðisskipulagi sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar.  Gögn þessi eru kæranda kunn.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að umrætt deiliskipulag snerti land Hálsa eða að mannvirkjagerð á svæðinu sé í landi kæranda.  Enda þótt úrskurðarnefndin skeri ekki úr hugsanlegum vafa um landamerki telur hún að leggja verði þessi gögn til grundvallar við mat á því hvort kærandi eigi lögvarða hagsmuni í málinu.

Þótt ekki verði séð að hið umdeilda byggingarsvæði nái inn á land jarðarinnar Hálsa er svæðið nærri mörkum jarðarinnar.  Engin mannvirki eru hins vegar í landi Hálsa í námunda við svæðið og eru bæjarhús all fjarri svæðinu.  Verður því ekki séð að byggingar á svæðinu skerði hagsmuni kæranda með tilliti til grenndarsjónarmiða.

Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, eða lögmæti hinna kærðu ákvarðana, svo sem áskilið er, sbr. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kæru P, Hálsum, Skorradalshreppi á ákvörðunum sveitarstjórnar og byggingarnefndar Skorradalshrepps frá 30. október og 24. nóvember 2000, um samþykkt deiliskipulags og þriggja byggingarleyfa, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

11/2000 Áland

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru varaformaður nefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., og aðalmennirnir Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2000; kæra Landspítala háskólasjúkrahúss, Eiríksgötu 5, Reykjavík, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. mars 2000, sem barst nefndinni sama dag, kærir Jóhannes Pálmason framkvæmdastjóri, f.h. Landspítala háskólasjúkrahúss, ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 8. febrúar 2000 og í borgarstjórn hinn 17. sama mánaðar.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Um kæruheimild vísast til 8. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997.

Þegar mál þetta kom fyrst til meðferðar í úrskurðarnefndinni lýsti formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, sig vanhæfan til setu í nefndinni í máli þessu.  Tók varaformaður úrskurðarnefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., sæti hans við meðferð málsins í nefndinni.

Málavextir:  Þann 30. október 1998 barst Borgarskipulagi Reykjavíkur bréf 28 íbúa við Akraland og Áland, þar sem þess var óskað að Álandið yrði gert að botnlanga eða að gegnumakstur um götuna yrði takmarkaður við sjúkrabifreiðar.  Erindi þetta var tekið til athugunar af umferðardeild borgarverkfræðings og gatnamálastjóra, auk þess sem haldnir voru fundir með íbúum, en engin ákvörðun var þá tekin í málinu.  Var erindið ítrekað með bréfi Hrafnhildar Sigurðardóttur, Álandi 13, dags. 26. júní 1999, og á ný með bréfi Hermanns Jónassonar og Hrafnhildar Sigurðardóttur, dags. 7. september 1999.

Þann 11. október 1999 var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar þar sem samþykkt var með 3 atkvæðum að auglýsa breytingu á deiliskipulagi í þá veru að götunni yrði lokað fyrir gegnumumferð.  Fulltrúar minnihluta sátu hjá. Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar á fundi sínum þann 12. október 1999.  Í kjölfar samþykktar borgarráðs var tillagan auglýst og var hún til kynningar frá 29. október til 26. nóvember. 1999, en athugasemdafrestur var til 10. desember sama ár.  Athugasemdir og mótmæli bárust frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og fjölmörgum íbúum í nálægum götum í Fossvogshverfi.  Jafnfram bárust bréf og undirskriftalisti fjölda íbúa við Áland, Akraland og Brúnaland, þar sem lýst var stuðningi við tillöguna.

Málið var á ný tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 24. janúar 2000 og var eftirfarandi bókun gerð í málinu:
„Auglýst breyting samþykkt með þremur atkvæðum. Breytingin verði endurskoðuð að ári liðnu með tilliti til fenginnar reynslu. Jafnframt samþykkt að fela umferðardeild borgarverkfræðings að vinna tillögu að bættu umferðarfyrirkomulagi við Sjúkrahús Reykjavíkur á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar.
Inga Jóna Þórðardóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson greiddu atkvæði á móti og óskuðu bókað: Umferðardeild borgarverkfræðings hefur sýnt fram á aðrar leiðir til að auka umferðaröryggi á Álandi en að loka götunni. Þær leiðir hefði verið rétt að reyna fyrst enda valda þær minni óþægindum, fyrir þá íbúa sem búa neðar í hverfinu, en lokun Álands. Ekki eru gerðar breytingar á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar samfara lokun götunnar og því fyrirsjáanlegt aukið álag þar. Mikill ágreiningur er meðal íbúa hverfisins varðandi þetta mál. Lokun Álands er breyting á deiliskipulagi og því hefði verið eðlilegra að vinna að lausn málsins í samráði við íbúa hverfisins. Betur hefði þurft að undirbúa málið, t.d. liggja ekki fyrir talningar umferðardeildar á umferð um Áland.
Fulltrúar R-listans óskuðu bókað: Þegar málið var fyrst kynnt í Skipulagsnefnd, 11. okt. 1999, voru sýndar 3 tillögur að umferðarskipulagi við Áland/Eyrarland. Skipulagsnefnd samþykkti, með 3 samhljóða atkvæðum, að senda tillögu um lokun Álands í kynningu. Ekki er eðlilegt að beina umferð að Sjúkrahúsi Reykjavíkur í gegnum íbúagötu eins og nú er og því er lagt til að loka Álandi en jafnframt að óska eftir tillögu frá umferðardeild borgarverkfræðings um bætt umferðarfyrirkomulag við Sjúkrahús Reykjavíkur á gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegur. Einnig liggja fyrir eindregnar óskir íbúa í næsta nágrenni að götunni verði lokað, m.a. vegna umferðaröryggis. Þá er ennfremur ákveðið að endurskoða fyrirkomulagið 1 ár.“

Borgarráð samþykkti breytinguna á fundi sínum þann 8. febrúar 2000 með fjórum atkvæðum gegn þremur.  Þar sem ágreiningur var um málið var það sent borgarstjórn til meðferðar, sem samþykkti tillöguna á fundi sínum þann 17. febrúar 2000.  Eftir samþykkt skipulagstillögunnar var hún send Skipulagsstofnun til meðferðar.  Féllst stofnunin á að auglýsing um gildistöku breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda en jafnframt var tekið fram að stofnunin teldi að eðli ákvörðunarinnar hefði ekki kallað á breytingu á deiliskipulagi, þar sem ekki virtist sérstaklega hafa verið fjallað um umferð í því deiliskipulagi, sem gilti á svæðinu.  Jafnframt var á það bent að sú aðgerð, sem kallað væri eftir, lyti 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. 

Að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar var auglýsing birt í B-deild Stjórnartíðinda, hinn 10. mars 2000, um gildistöku skipulagsbreytingarinnar.  Með bréfi Borgarskipulags Reykjavíkur, dags. 10. maí 2000, til lögreglustjórans í Reykjavík var óskað heimildar hans til að setja upp umferðarskilti vegna breytingarinnar.  Jafnframt var þess farið á leit að hann birti auglýsingu um umferðartakmörkunina í B-deild Stjórnartíðinda.  Féllst lögreglustjóri á erindið og var auglýsing hans um takmörkun umferðar um Áland birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. júní 2000 og hefur almenn umferð um Áland að og frá sjúkrahúsinu verið óheimil frá þeim tíma.

Kærandi vildi ekki una ákvörðun borgaryfirvalda um fraangreinda breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 14. mars. 2000, svo sem að framan greinir.  Jafnframt bárust um líkt leyti tvær kærur frá nokkrum fjölda íbúa í nágrenni Álands, þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar.  Úrskurðarnefndin tók til athugunar hvort sameina bæri kærumál þessi, en féll frá sameinigu þeirra með tilliti til þess að hagsmunir sjúkrahússins annars vegar og íbúanna hins vegar fara ekki að öllu leyti saman og að byggt er að nokkru á ólíkum sjónarmiðum í málunum.  

Málsrök kæranda:  Kærandi telur forsendur til breytinga á deiliskipulagi fyrir Fossvog vegna umferðartakmarkana um Áland slíkar að gengið hafi á svig við hagsmuni sjúkrahússins og íbúa í nágrenni við það.  Þá sé hin kærða ákvörðun andstæð tilgangi og ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Ljóst sé að ákvörðunin hafi víðtækar afleiðingar og sé til þess fallin að draga úr aðgengi að sjúkrahúsinu og um leið hefta þau viðmið öryggiskrafna sem bráðasjúkrahús þurfi að búa við. 

 Kærandi leggur áherslu á eftirtalin atriði, máli sínu til stuðnings:
1.  Sjúkrahúsið sé bráðasjúkrahús og aðal slysasjúkrahús landsins og sé því mjög mikilvægt að hafa tvær aðkomuleiðir að því enda kunni önnur þeirra að teppast af óviðráðanlegum orsökum.  Minnstu tafir við flutning sjúklinga geta stofnað lífi þeirra í hættu eða aukið á afleiðingar meiðsla.
2.  Hjá sjúkrahúsinu starfi um 1500 starfsmenn.  Eðli máls samkvæmt sé sjúkrahúsið starfrækt allan sólarhringinn og gangi starfsmenn að jafnaði þrískiptar vaktir.  Séu vaktaskipti ávallt á sömu tímum hjá öllum starfsmönnum sjúkrahússins.  Í ljósi þessa sé umferð starfsmanna að verulegu leyti á sömu tímum og umferðarþungi því augljóslega nokkur.  Fyrir liggi að meirihluti starfsmanna komi úr austri, en það séu einmitt þeir, sem geti notað aðkomuleiðina um Áland.
3.  Sjúkrahúsið hafi fyrirfram ákveðna heimsóknartíma.  Slíkir fastir heimsóknartímar séu mjög til hagræðis fyrir sjúkrahúsið þar sem stofnunin geti þá gert tilteknar ráðstafanir vegna aukins álags.  Það sé hins vegar ljóst að veruleg umferð sé um aðkomuleiðir sjúkrahússins á þessum tímum og því séu breytingar á deiliskipulagi einungis til þess fallnar að auka álag annars staðar. 
4.  Sjúkrahús Reykjavíkur, áður Borgarspítali, hafi verið starfrækt á þessum stað í rúmlega 30 ár.  Íbúum Álands hafi ávallt verið kunnugt um sjúkrahúsið og gatan hafi verið til staðar með tengingum sínum og umferð.  Á sínum tíma hafi verið gerðar athugasemdir vegna uppbyggingar íbúðarbyggðar þeirrar, sem standi næst sjúkrahúsinu.  Verði og ráðið af fyrirliggjandi gögnum að þegar unnið hafi verið skipulag byggðar vestan Eyrarlands hafi það verið forsenda þess skipulags að aðkoma að Borgarspítala yrði bæði frá Eyrarlandi og Háaleitisbraut.
5.  Kærandi mótmælir röksemdum um meinta slysahættu á gatnamótum Álands og Eyrarlands samkvæmt núverandi deiliskipulagi og vísar í þeim efnum til greinargerðar umferðardeildar borgarverkfræðings, dags. 30. apríl 1999, en þar segi m.a. að óhöpp séu ekki tíð á gatnamótunum, með tilliti til annarra gatnamóta með svipað umferðarmagn.  Í greinargerð er hins vegar bent á nauðsyn tiltekinna úrbóta.  Í samantekt umferðardeildar borgarverkfræðings, dags. 6. janúar 2000, komi fram að gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðarvegar séu með óeðlilega háa óhappatíðni.  Ef ekki verði fallist á kröfur kæranda í málinu  megi búast við að álag muni aukast verulega á þeim gatnamótum með tilheyrandi töfum.  Þykir ljóst að lokunin auki tafir, lengir akstursvegalengdir, minnkar umferðaröryggi í heild og skerðir nauðsynlegar aðkomur að sjúkrahúsinu.
Loks bendir kærandi á að á reit þeim, sem afmarkist af Bústaðarvegi, Háaleitisbraut, Sléttuvegi og Kringlumýrarbraut, sé rekin ýmis starfsemi sem áformað sé að auka á næstu árum.  Slíkt muni að sjálfsögðu skapa umferð og auka enn álagið á gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðarvegar og á kafla Háaleitisbrautar fyrir framan sjúkrahúsið. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. október 2000, áréttar kærandi kröfur sínar og kveður verulega breytingu hafa orðið á umferð að og frá sjúkrahúsinu til hins verra eftir að hin umdeilda breyting kom til framkvæmda.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu borgaryfirvalda er krafist staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Er sú krafa studd eftirfarandi rökum.

Borgaryfirvöld telja að ekki sé hægt að fallast á það með kæranda að með ákvörðuninni hafi verið gengið á svig við hagsmuni sjúkrahússins, enda umferð sjúkrabíla um Álandið ekki takmörkuð með breytingunni.  Sjúkrabílar hafi því sömu aðkomumöguleika og áður, þ.e. tvær aðkomur auk aðkomu um Eyrarland og Fossvogsveg.  Breytingin eigi því ekki að leiða til tafa á umferð sjúkrabifreiða nema síður sé, þar sem þeim einum sé nú heimilt að aka um Áland.  Hvað varði umferð starfsmanna og gesta þá sé niðurstaða umferðardeildar borgarverkfræðings sú að gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar geti óbreytt tekið við þeirri umferðaraukningu sem hljótist af lokun Álandsins og sé þessi niðurstaða umferðardeildar byggð á ítarlegri skoðun.  Að auki hafi verið samþykkt að fela umferðardeild að gera tillögu að bættu umferðarfyrirkomulagi við Sjúkrahús Reykjavíkur á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar og sé unnið að gerð slíkrar tillögu.  Þá sé borgaryfirvöldum er ekki kunnugt um að nein vandamál hafi hlotist af lokuninni hingað til.

Af hálfu borgaryfirvalda er fallist á þá staðhæfingu kæranda að gert hafi verið ráð fyrir aðkomu að spítalanum í gegnum Álandið.  Í samantekt umsagnar umferðardeildar, dags. 6. og 20. janúar 2000, sé hins vegar á það bent að Álandið hafi full lítið rými til þess að þjóna því hlutverki.  M.a. af þeirri ástæðu hafi umrædd breyting verið samþykkt.

Einnig fallast borgaryfirvöld á þá staðhæfingu að slys á gatnamótum Álands og Eyrarlands hafi hvorki verið mörg né alvarleg hingað til.  Í umsögn umferðardeildar, dags. 30. apríl 1999, sé hins vegar á það bent að gatnamótin séu um margt varasöm.  Því til stuðnings sé rétt að vekja athygli á talningu sem gerð hafi verið af landfræðinemum í Háskóla Íslands fyrir lokun götunnar, þar sem gerð hafi verið sú athugasemd að gatnamót Álands og Eyrarlands séu hættuleg og að margir hafi næstum verið lentir í árekstri þar.

Af hálfu borgaryfirvalda er tekið undir þá staðhæfingu að gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðavegar séu með óeðlilega háa óhappatíðni.  Það vandamál sé þó ekki tengt aðkomu að sjúkrahúsinu heldur verði flest óhöppin vegna umferðar sem beygi til vinstri frá Bústaðavegi norður Háaleitisbraut.  Aukinni umferð um gatnamótin sé því ekki stefnt í meiri hættu við breytinguna en hún hefði verið í hefði hún áfram farið um gatnamót Bústaðavegar og Eyrarlands.  Hvað akstursvegalengd varði þá lengist hún óverulega. Breytingin eigi því ekki að skerða umferðaröryggi vegfarenda, sem þurfi að aka þessa leið.

Loks er því haldið fram af hálfu borgaryfirvalda að þrátt fyrir að starfsemi komi til með að aukast á svæðinu ættu umrædd gatnamót að anna þeirri umferð, enda séu þau hönnuð með það í huga.  Verði uppbygging aukin verulega frá því sem nú sé gert ráð fyrir kalli það hugsanlega á heildarendurskoðun á umferðarkerfi svæðisins.  Engar hugmyndir eða ákvarðanir liggja fyrir sem gefi tilefni til slíkrar endurskoðunar í dag.  Rétt sé í þessu sambandi að minna á að sú breyting sem um sé deilt í málinu verði endurskoðuð á næsta ári, m.a. með tilliti til fenginnar reynslu, sbr. bókun skipulags- og umferðarnefndar um málið.

Í ljósi framanritaðs telja borgaryfirvöld að ekki verði séð að sú fullyrðing kæranda, að breytingin hafi í för með sér verulegt óhagræði og geri stofnuninni erfitt fyrir að sinna þjónustuhlutverki sínu, eigi við rök að styðjast enda hafi breytingin engin áhrif á aðkomu sjúkrabifreiða að spítalanum og aðkoma starfsmanna, gesta og sjúklinga sé fullnægjandi.  Ekkert komi fram í kærunni sem leitt geti til þess að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur verði talin ógildanleg.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin hefur ekki leitað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa, enda liggur fyrir í málinu bréf stofnunarinnar, dags. 17. febrúar 2000, þar sem fram koma viðhorf hennar til hinnar umdeildu skipulagsbreytingar.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið felst það eitt í hinni kærðu ákvörðun að umferð er takmörkuð um Áland á rúmlega 100 metra bili frá aðkomu að íbúðarhúsum við Áland í átt að sjúkrahúsi kæranda í Fossvogi.  Engar breytingar eru gerðar á götu eða öðrum umferðarmannvirkjum, en gert er ráð fyrir að sett verði upp þrjú umferðarmerki og eru merki þessi sýnd á skipulagsuppdrætti að breytingunni.  Greinargerð með skipulagstillögunni, sem árituð er á uppdráttinn, er svohljóðandi:  „Í eldra skipulagi er ekki gerð grein fyrir neinum takmörkunum á umferð.  Með þeirri breytingu sem hér er sýnd, er gert ráð fyrir að takmarka umferð með umferðarskiltum um þann hluta Álands sem afmarkaður er á uppdrættinum sem mörk deiliskipulags svæðis, með þeim hætti að aðeins er leyfð umferð sjúkraflutningabifreiða.  Ekki er gert ráð fyrir neinum öðrum breytingum á svæðinu.“  Af bókun skipulags- og umferðarnefndar um skipulagsbreytinguna frá 24. janúar 2000 verður auk þess helst ráðið, að ákveðið hafi verið að taka hana til endurskoðunar eftir eitt ár.

Úrskurðarnefndin telur að ekki hafi verið efni til að breyta deiliskipulagi umrædds svæðis vegna þeirrar breytingar á umferð sem að var stefnt.  Engin ákvæði voru í eldra skipulagi um fyrirkomulag umferðar á svæðinu og var því ekki þörf skipulagsbreytingar af þeim ástæðum.  Þá stóð ekki til að gera breytingar á gatnamannvirkjum eða aðrar þær breytingar, sem í raun hefðu haft í för með sér breytingar á skipulagi svæðisins.  Gátu borgaryfirvöld, með stoð í 2. mgr. 81. umferðarlaga nr. 50/1987, óskað þess við lögreglustjóra að hann auglýsti umrædda takmörkun umferðar og heimilaði uppsetningu viðeigandi umferðarmerkja án þess að til ákvörðunar um breytingu á skipulagi þyrfti að koma.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 bar borgaryfirvöldum fremur að neyta þessa úrræðis, enda verður að telja það til muna vægara en þá breytingu á deiliskipulagi, sem gerð var.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. og rannsóknarreglu 13. gr. stjórnsýslulaga er nefndin jafnframt þeirrar skoðunar að taka hefði átt til frekari athugunar hvort aðrir kostir væru fyrir hendi til þess að ná því markmiði að draga úr slysahættu og koma til móts við til sjónarmið íbúa við Áland, áður en ákvörðun var tekin um lokun götunnar fyrir umferð.  Bar m.a. að líta til þess að gert hefur verið ráð fyrir umferð um Áland að og frá sjúkrahúsinu í deiliskipulagi íbúðarbyggðar við Áland allt frá upphafi og að starfsemi sjúkrahússins er þess eðlis að óvarlegt er að torvelda umferð að því og frá umfram það sem brýna nauðsyn ber til.

Þá telur nefndin það orka tvímælis að binda ákvarðanir um stjórnun umferðar í skipulag.  Geta þær aðstæður skapast að breyta þurfi slíkum ákvörðunum með litlum fyrirvara vegna breyttra aðstæðna og er óheppilegt að þær sæti þeirri tímafreku og flóknu málsmeðferð sem við á um skipulagsákvarðanir.  Þótt nauðsynlegt hafi verið talið að kynna áform um hina umdeildu breytingu fyrir íbúum og hagsmunaaðilum var óþarft að fjalla um hana sem skipulagsmál, enda mátti kynna hana með stoð í almennum reglum stjórnsýsluréttarins um andmælarétt.

Loks telur úrskurðarnefndin að skipulags- og umferðarnefnd hafi brostið vald til þess að taka hina umdeildu ákvörðun um lokun Álands með þeim hætti sem gert var.  Ákvörðunin hafði yfirbragð lokaákvörðunar enda þótt hún væri háð samþykki lögreglustjóra samkvæmt 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga, en tilvitnað ákvæði verður ekki skilið svo að lögreglustjóra sé skylt að fara að tillögum eða óskum sveitarstjórnar um sérákvæði um umferð.  Þá var uppsetning umferðarmerkja þeirra, sem sýnd eru á uppdrætti hinnar umdeildu skipulagsbreytingar, einnig háð samþykki lögreglustjóra, sbr. 85. gr. umferðarlaga.  Leituðu borgaryfirvöld þessara heimilda lögreglustjóra með bréfi, dags. 10. maí 2000, röskum þremur mánuðum eftir að borgarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið reist á réttum lagagrundvelli og að ekki hafi verið gætt réttrar aðferðar við meðferð málsins.  Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.  Þar sem gildistaka umræddrar ákvörðunar var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda er lagt fyrir borgarstjórn að hlutast til um að auglýst verði þar að ákvörðunin hafi verið felld úr gildi.

Það er hins vegar hvorki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að fjalla um þá ákvörðun borgaryfirvalda að leita heimildar lögreglustjóra til þess að loka umferð um Áland með stoð í 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga, svo sem gert var, né um ákvörðun lögreglustjóra um að verða við þeirri málaleitan og standa þær ákvarðanir því óhaggaðar, þrátt fyrir niðurstöðu máls þessa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland, sem staðfest var í borgarráði hinn 8. febrúar 2000 og í borgarstjórn hinn 17. sama mánaðar, er felld úr gildi.  Þar sem gildistaka umræddrar ákvörðunar var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda er lagt fyrir borgarstjórn að hlutast til um að ógilding ákvörðunarinnar verði auglýst með sambærilegum hætti.

12/2000 Áland

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru varaformaður nefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., og aðalmennirnir Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2000; kæra 12 íbúa og eigenda fasteigna við Búland, Brúnaland, Brautarland og Bjarmaland í Reykjavík, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. mars 2000, sem barst nefndinni sama dag, kærir Tómas Jónsson hrl., f.h. 12 nafngreindra íbúa og eigenda fasteigna við Búland, Brúnaland, Brautarland og Bjarmaland í Reykjavík, ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 8. febrúar 2000 og í borgarstjórn hinn 17. sama mánaðar.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.

Þegar mál þetta kom fyrst til meðferðar í úrskurðarnefndinni lýsti formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, sig vanhæfan til setu í nefndinni í máli þessu.  Tók varaformaður úrskurðarnefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., sæti hans við meðferð málsins í nefndinni.

Hinn 14. og 15. mars 2000 bárust úrskurðarnefndinni tvær aðrar kærur, annars vegar frá Landspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi og hins vegar frá Jóhannesi Albert Sævarssyni hrl., f.h. íbúa við Markarveg, Kjarrveg og Klifveg í Reykjavík, þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar.  Úrskurðarnefndin tók til athugunar hvort sameina bæri kærumál þessi, en féll frá sameiningu þeirra með tilliti til þess að hagsmunir sjúkrahússins annars vegar og íbúanna hins vegar fara ekki að öllu leyti saman og að byggt er að nokkru á ólíkum sjónarmiðum í málunum.  

Með úrskurði, uppkveðnum í dag í kærumáli Landspítala háskólasjúkrahúss, nr. 11/2000, hefur úrskurðarnefndin þegar fellt úr gildi ákvörðun þá, sem ógildingar er krafist á í máli þessu.  Þykir við svo búið ekki hafa þýðingu að kveða upp sjálfstæðan efnisúrskurð í málinu, enda eiga kærendur ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um gildi stjórnvaldsákvörðunar, sem þegar hefur verið felld úr gildi.  Með vísan til þess er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Tómasar Jónssonar hrl., f.h. 12 íbúa og eigenda fasteigna við Búland, Brúnaland, Brautarland og Bjarmaland í Reykjavík, dags. 14. mars 2000, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland er vísað frá úrskurðarnefndinni.

13/2000 Áland

Með

Ár 2000, fimmtudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru varaformaður nefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., og aðalmennirnir Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2000; kæra Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., f.h. íbúa við Markarveg, Kjarrveg og Klifveg í Reykjavík, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni hinn 15. mars 2000, kærir Jóhannes Albert Sævarsson hrl, f.h. íbúa við Markarveg, Kjarrveg og Klifveg í Reykjavík, ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 8. febrúar 2000 og í borgarstjórn hinn 17. sama mánaðar.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.

Þegar mál þetta kom fyrst til meðferðar í úrskurðarnefndinni lýsti formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, sig vanhæfan til setu í nefndinni í máli þessu.  Tók varaformaður úrskurðarnefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., sæti hans við meðferð málsins í nefndinni.

Hinn 14. mars 2000 bárust úrskurðarnefndinni tvær aðrar kærur, annars vegar frá Landspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi og hins vegar frá Tómasi Jónssyni hrl., f.h. 12 nafngreindra íbúa og eigenda fasteigna við Búland, Brúnaland, Brautarland og Bjarmaland í Reykjavík, þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar.  Úrskurðarnefndin tók til athugunar hvort sameina bæri kærumál þessi, en féll frá sameiningu þeirra með tilliti til þess að hagsmunir sjúkrahússins annars vegar og íbúanna hins vegar fara ekki að öllu leyti saman og að byggt er að nokkru á ólíkum sjónarmiðum í málunum.  

Með úrskurði, uppkveðnum í dag í kærumáli Landspítala háskólasjúkrahúss, nr. 11/2000, hefur úrskurðarnefndin þegar fellt úr gildi ákvörðun þá, sem ógildingar er krafist á í máli þessu.  Þykir við svo búið ekki hafa þýðingu að kveða upp sjálfstæðan efnisúrskurð í málinu enda eiga kærendur ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um gildi stjórnvaldsákvörðunar, sem þegar hefur verið felld úr gildi. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.   

Það athugist að á skortir að nægilega sé gerð grein fyrir því hverjir séu kærendur í máli þessu, ef frá er talinn fyrirsvarsmaður kærenda, sem er nafngreindur og til heimilis að Kjarrvegi 11.  Að öðru leyti segir einungis að kærendur séu íbúar við nefndar götur án þess að fram komi nöfn þeirra eða heimili og verður ekki ráðið af kærunni hvort um fleiri eða færri íbúa við umræddar götur er að ræða.  Er þó óþarft að taka afstöðu til þess hverju þessi ágalli á málatilbúnaði kærenda varði þar sem þegar liggur fyrir að vísa ber málinu frá úrskurðarnefndinni af öðrum ástæðum.

Úrskurðarorð:

Kæru Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., f.h. íbúa við Markarveg, Kjarrveg og Klifveg í Reykjavík, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland er vísað frá úrskurðarnefndinni.