Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2000 Fífuhjalli

Ár 2002, miðvikudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2000, kæra eiganda fasteignarinnar nr. 1 við Fífuhjalla, Kópavogi á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 5. júní 2000 að leyfa garðhúsbyggingu á lóðinni nr. 3 við Fífuhjalla í Kópavogi.

  
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 25. júní 2000, sem barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir Á, Fífuhjalla 1, Kópavogi, ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 5. júní 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir garðhúsi á lóðinni nr. 3 við Fífuhjalla Kópavogi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 29. júní 2000 í umboði bæjarstjórnar Kópavogs.  Kærandi gerir þá kröfu að byggingarleyfið verði fellt úr gildi.

Málavextir:  Á árinu 1994 reisti eigandi íbúðarhússins að Fífuhjalla 3, Kópavogi 4,25 fermetra timburskúr á lóð sinni sem ætlaður var sem leiktæki fyrir börn.  Eigandi Fífuhjalla 1, kærandi í máli þessu, taldi skúr þennan eða „dúkkuhús” skaða hagsmuni sína og kvartaði til byggingarnefndar Kópavogs af því tilefni.  Taldi byggingarnefnd ekki efnisleg rök til að hafa afskipti af málinu, en með úrskurði umhverfisráðherra hinn 24. júlí 1996 var þeirri ákvörðun byggingarnefndar hnekkt.  Var það niðurstaða ráðuneytisins að um byggingarleyfisskylda byggingu væri að ræða og var lagt fyrir byggingarnefnd Kópavogs að hlutast til um að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir „skúrbyggingunni” í samræmi við 1. mgr. 9. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978 og ef umsóknin yrði samþykkt, þá að sjá til þess að staðsetning hússins uppfyllti skilyrði þágildandi byggingarreglugerðar nr. 177/1992 um fjarlægð milli húsa.

Hinn 19. júní 1997 ritaði kærandi bréf til byggingarnefndar Kópavogs þar sem hann kærði ákvörðun um nýja staðsetningu skúrsins á grannlóðinni.  Má ráða af bréfi þessu að þá hafi ekki verið búið að færa skúrinn en fram kemur í bréfinu að kærandi hafi, skömmu áður en bréfið er ritað, fengið upplýsingar um að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir skúrnum á nýjum stað.  Mótmælti kærandi fyrirhugaðri staðsetningu skúrsins og taldi að brotið hefði verið gegn ákvæðum byggingarreglugerðar um grenndarkynningu við útgáfu byggingarleyfisins.  Að sögn kæranda var skúrinn fluttur á hinn nýja stað skömmu eftir að umrætt bréf hafði verið sent.  Byggingarnefnd fjallaði um erindi kæranda hinn 25. júlí 1997 og taldi nefndin engin rök fyrir því að breyta fyrri ákvörðun sinni.  Skaut kærandi máli sínu enn til umhverfisráðherra og var byggingarleyfi fyrir skúrnum, á hinum nýja stað, fellt úr gildi með úrskurði umhverfisráðherra hinn 18. mars 1998 þar sem nágrönnum hefði ekki verið tilkynnt um nýja staðsetningu skúrsins áður en byggingarleyfi fyrir honum hafi verið veitt enda hafi, með vísun til fyrri úrskurðar ráðuneytisins, verið sýnt að nágrannar kynnu að hafa beinna hagsmuna að gæta af staðsetningu skúrsins.

Byggingarnefnd Kópavogs tók umsókn um byggingarleyfi fyrir skúrnum, dags. 7. júní 1998, til meðferðar að nýju á fundi hinn 22. júlí 1998 og var málinu vísað til skipulagsnefndar.  Samþykkti skipulagsnefnd á fundi hinn 11. ágúst 1998 að senda málið í grenndarkynningu til eigenda Fífuhjalla nr. 1 og nr. 5.  Voru gögn málsins send kæranda með bréfi, dags. 18. ágúst 1998, og veittur frestur til athugasemda til 17. september 1998 kl. 15:00.  Kom kærandi athugasemdum sínum á framfæri með bréfi, dags. 16. september 1998, þar sem hún rekur forsögu málsins og með hvaða hætti hún telji staðsetningu skúrsins skerða hagsmuni sína.  Fer kærandi fram á það í bréfinu að skúrbyggingin verði fjarlægð en að öðrum kosti að hún verði færð á vesturhluta lóðarinnar að Fífuhjalla 3 og nær húsinu.

Eftir að athugasemdir kæranda höfðu borist tók skipulagsstjóri Kópavogsbæjar saman umsögn um málið þar sem gerð var grein fyrir framkomnum athugasemdum.  Fylgdu greinargerðinni ljósmyndir af skúrnum, sem teknar höfðu verið, m.a. frá svölum húss kæranda, en kærandi hefur mótmælt myndum þessum og telur þær villandi.  Á grundvelli umsagnar skipulagsstjóra var staðsetning skúrsins á lóðinni samþykkt á fundi skipulagsnefndar hinn 14. október 1998 og var afgreiðsla þessi samþykkt á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 15. október 1998.  Að fenginni þessari niðurstöðu veitti byggingarnefnd Kópavogs að nýju byggingarleyfi fyrir skúrnum.  Kærandi kærði ákvörðun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar hinn 26. nóvember 1998 og felldi úrskurðarnefndin byggingarleyfið úr gildi með úrskurði nr. 3/1999 hinn 29 janúar 1999 og lagði fyrir að skúrbyggingin yrði fjarlægð.

Eigandi fasteignarinnar að Fífuhjalla 3 lét fjarlægja garðhúsið og sótti síðan um að fá að setja það niður að nýju hinn 2. júní 1999.  Málið var tekið fyrir í skipulagsnefnd Kópavogs hinn 29. júní 1999 og var þar ákveðið að grenndarkynna umdeilt garðhús fyrir eigendum fasteignanna að Fífuhjalla 1 og 5 í samræmi við 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Athugasemdir bárust frá kæranda þar sem hann taldi garðhúsið vera til lýta og spilla útsýni frá húsi sínu auk þess að rýra verðgildi þess.  Í umsögn bæjarskipulags, dags. 4. maí 2000, var mælt með því að umsókn um staðsetningu garðhússins yrði samþykkt og gekk það eftir á fundi skipulagsnefndar hinn 5. maí 2000.  Staðfesti bæjarráð Kópavogs þessa samþykkt skipulagsnefndar hinn 11. maí sama ár.

Hinn 5. júní 2000 gaf byggingarfulltrúinn í Kópavogi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni og var sú ákvörðun staðfest í bæjarráð í umboði bæjarstjórnar hinn 29. júní sama ár.

Kærandi taldi hina umdeildu framkvæmd fara gegn hagsmunum sínum og skaut því málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína á því að umdeilt byggingarleyfi feli í sér breytingu á gildandi skipulagi en vísar að öðru leyti til greinargerðar sinnar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. nóvember 1998, sem barst úrskurðarnefndinni í tilefni af fyrri kæru vegna garðhússins að Fífuhjalla 3.  Í þeirri greinargerð færir kærandi fram þau rök að varla hefði verið hægt að finna skúrnum verri stað en gert var ef tekið sé mið af hagsmunum hans.  Sé skúrinn á áberandi stað nálægt lóðarmörkum kæranda þar sem hann blasi við aðalstofugluggum hans í vesturátt sem sé aðalútsýnisátt kæranda.  Setji skúrinn ljótan svip á umhverfið á þeim litlu lóðum sem um sé að ræða og sé hann í engu samræmi við íbúðarhúsið eða deiliskipulag, sem kveði á um að einungis gróður skuli vera á lóðunum.  Hafi fallegt deiliskipulag og fagurt útsýni verið höfuástæða þess að hún og maður hennar hafi ráðist í byggingu húss á þessum stað á sínum tíma.  Kærandi átelur vinnubrögð byggingarnefndar og skipulagsnefndar í málinu.  Telur kærandi tilvist skúrsins á núverandi stað rýra verðgildi fasteignar sinnar.

Málsrök byggingarnefndar:  Byggingarnefnd Kópavogs skírskotar til þess að rétt hafi verið staðið að afgreiðslu málsins samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Eigendum Fífuhjalla 3 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu með vísun til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þeir vísuðu til andmæla sinna sem sett voru fram vegna fyrri úrskurðarmáls um sama efni.  Í bréfi þeirra til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. janúar 1999, taka þau fram að þau séu orðin langþreytt á að svara kærubréfum frá kæranda.  Þess beri þó að geta að byggingarnefnd hafi veitt leyfi til að hafa dúkkuhúsið á lóðinni.  Lýsa eigendur Fífuhjalla 3 þeirri skoðun sinni að sá staður, sem garðhýsinu var valinn í upphafi, hefði verið heppilegastur og minnst áberandi en vegna mótmæla kæranda hafi þurft að færa það þaðan.  Við hönnun húss þeirra og garðs hafi frá upphafi verið gert ráð fyrir leiksvæði í austanverðum garðinum og yrðu þau að umbylta garðinum ef færa ætti garðhúsið á þann stað sem kærandi leggi til.  Leggja þau áherslu á að hér sé um leiktæki að ræða sem sjá megi víða í Kópavogi sem annars staðar og ekki hafi verið amast við enda ekki ætlað að standa um aldur og ævi.

Niðurstaða:  Hið umdeilda byggingarleyfi felur í sér að eigendum fasteignarinnar að Fífuhjalla 3 er heimilað að reisa 4,25 fermetra garðhús á lóð sinni.  Vegghæð byggingarinnar er 1,5 metrar en mænishæð 2,10 metrar.  Hæðarkóti hússins að Fífuhjalla 3 er 0,95 lægri en húss kæranda og að auki stendur garðhúsið nokkru lægra en húsið að Fífuhjalla 3.  Garðhúsið stendur 5,3 metrum frá lóðarmörkum fasteignar kæranda og hefur verið ætlað fyrir börn að leik. Á byggingarnefndarteikningum fyrir Fífuhjalla 3, samþykktum 24. nóvember 1988, er afmarkaður reitur í suðausturhorni lóðarinnar, um 40 fermetrar að flatarmáli, sem merktur er sem leiksvæði.  Umdeilt garðhús stendur nú á þessum reit.

Áður en umdeild framkvæmd var leyfð fór fram grenndarkynning í samræmi við 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem framkvæmdin fól í sér óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Skipulagsnefnd bæjarins og bæjarráð samþykktu framkvæmdina og var gefið út byggingarleyfi í framhaldi af því sem staðfest var af bæjarráði í umboði bæjarstjórnar.  Verður ekki annað ráðið en málsmeðferð og útgáfa hins umdeilda byggingarleyfis hafi verið með lögformlega réttum hætti.

Garðhúsið að Fífuhjalla 3, sem ekki getur talist varanleg bygging, er smátt í sniðum og hefur óveruleg áhrif á umhverfið.  Verður ekki fallist á þau rök kæranda að það sé til slíkra lýta, skerði svo útsýni frá húsi hans eða rýri verðgildi þess svo að varðað geti ógildingu byggingarleyfisins. 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er því sú að umdeilt byggingarleyfi sé hvorki haldið formlegum né efnislegum annmörkum og er kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfisins því hafnað.    

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega.  Valda því miklar annir og málafjöldi hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis fyrir garðhúsi á lóðinni nr. 3 við Fífuhjalla, Kópavogi, frá 5. júní 2000 er hafnað.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                             Ingibjörg Ingvadóttir