Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24/1999 Efstaleiti

Með

Ár 2000, föstudaginn 4. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur, aðalmaður í nefndinni og Ásgeir Magnússon, hæstaréttarlögmaður, skipaður varamaður ad hoc.

Fyrir var tekið mál nr. 24/1999; endurupptaka stjórnsýslukæru B frá 8. og 23. apríl 1997.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 23. apríl 1997, kærði Sigurður Georgsson hrl. f.h. B til umhverfisráðherra þá ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur að hafna kröfu hans um að nefndin hlutaðist til um að settir yrðu upp að nýju veggstubbar milli gangs og setustofu á 1. hæð að Efstaleiti 12, Reykjavík, og að barinnréttingar og smáskápar á gangi fyrir framan íbúð kæranda yrðu fjarlægðir.  Af hálfu ráðuneytisins var þessum kröfum kæranda vísað frá og var kæranda tilkynnt sú niðurstaða með bréfi, dags. 14. júlí 1997, og eru röksemdir ráðuneytisins fyrir frávísun málsins raktar í bréfinu.

Kærandi vildi ekki una þessum málalokum.  Sneri lögmaður hans sér til umboðsmanns Alþingis hinn 26. nóvember 1997 og kvartaði yfir framangreindri afgreiðslu ráðuneytisins á kærumálinu.  Tók umboðsmaður kvörtun þessa til gaumgæfilegrar athugunar og skilaði ítarlegu áliti um kvörtunina hinn 30. desember 1998.  Komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að frávísun ráðuneytisins á stjórnsýslukæru B frá 8. og 23. apríl 1997 hefði verið ólögmæt.  Einnig taldi umboðsmaður að meðferð ráðuneytisins á fyrra erindi B, frá 23. september 1996, hefði verið verulega áfátt, bæði um form og efni.  Í niðurlagi álits síns beinir umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það hlutist til um að mál kæranda verði endurupptekið af þar til bæru stjórnvaldi, verði eftir því leitað, en ekki er í álitinu tekin afstaða til þess hvort ráðuneytinu eða úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála beri að fjalla um málið ef til endurupptöku þess komi.

Með vísun til álits umboðsmanns Alþingis óskaði kærandi þess, með bréfi til umhverfisráðuneytisins hinn 1. febrúar 1999, að málið yrði endurupptekið.  Ráðuneytið framsendi erindi kæranda til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 22. febrúar 1999, enda taldi ráðuneytið að nefndinni bæri að fjalla um málið. Skjöl málsins bárust nefndinni nokkru síðar.  Úrskurðarnefndin féllst á þau sjónarmið ráðuneytisins að henni bæri að fjalla um erindi kæranda og var lögmanni hans tilkynnt sú afstaða með bréfi, dags. 29. apríl 1999.  Jafnframt var lögmanninum gefinn kostur á að skila greinargerð í málinu og gera grein fyrir kröfum kæranda og málsástæðum. 

Með bréfi, dags. 11. maí 1999, setti lögmaður kæranda fram kröfur hans í málinu.  Er þess þar krafist „að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála taki til efnislegrar meðferðar þá kröfu B að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hlutist til um að reistir verði á ný veggbútar í sameiginlegu rými hússins að Efstaleiti 10, 12 og 14.  Þá er þess jafnframt krafist að nefndin leggi fyrir byggingarfulltrúa í Reykjavík að hann sjái til þess að barborð og læstir smáskápar í hinu sameiginlega rými verið fjarlægðir.”

Málavextir:  Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 8. desember 1994, kærði Sigurður Georgsson, hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd B, þá ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. nóvember 1994 að leyfa uppsetningu veggja og hurða við setustofu í húsinu nr. 12 við Efstaleiti, en setustofa þessi er í nágrenni við íbúð B.  Þá var þess farið á leit við ráðuneytið að það legði fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að nefndin hlutaðist til um að umhverfi íbúðar B yrði komið í það horf sem samþykkt teikning sagði til um þegar B keypti íbúðina á árinu 1985.  Var þess sérstaklega óskað að ráðuneytið tæki afstöðu til þess að settur hefði verið upp bar og vínskápar í sameign hússins án þess að tilskilinna leyfa hefði verið aflað.

Með úrskurði umhverfisráðuneytisins, dags. 1. mars 1995, var framangreint leyfi byggingarnefndar til uppsetningar á veggjum og hurðum fellt úr gildi, en ekki var tekin afstaða til þess hluta kærunnar er sneri að tilvist barinnréttinga.  Í forsendum úrskurðarins segir um þetta atriði:

„Í framangreindri ákvörðun byggingarnefndar er ekki sérstaklega fjallað um bar- eða afgreiðsluborð og læsta smáskápa, enda hefur ekki verið sótt um leyfi fyrir þeim framkvæmdum til byggingarnefndar. Ráðuneytið getur því ekki, sbr. 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga, tekið afstöðu til þessara innréttinga að öðru leyti en því að það fellst ekki á þann skilning kæranda að þær séu á gangvegi sem hann eigi meira tilkall til en aðrir íbúar hússins.”

Hinn 27. mars 1995 endurupptók umhverfisráðuneytið mál þetta að kröfu húsfélagsins Efstaleiti 10, 12 og 14.  Staðfesti ráðuneytið fyrri niðurstöðu sína í málinu með úrskurði, dags. 21. júlí 1995.  Leitaði húsfélagið þá til dómstóla í því skyni að fá úrskurðina ógilta.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 2. júlí 1996 var kröfum húsfélagsins um ógildingu hafnað.  Var málinu áfýjað til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og héraðsdómur með dómi uppkveðnum hinn 23. október 1997 (Hrd. 1997:2918).

Í framhaldi af úrskurðum þessum mun húsfélagið að Efstaleiti 10, 12 og 14 hafa látið fjarlægja þá veggi og hurðir, sem sett höfðu verið upp samkvæmt hinu ógilta byggingarleyfi, og mat byggingarfulltrúinn í Reykjavík þá breytingu nægjanlega með tilliti til úrskurðar umhverfisráðuneytisins.

Með bréfi, dags. 17. janúar 1996, fór lögmaður B þess á leit við byggingarfulltrúann í Reykjavík að embætti hans hlutaðist til um að veggbútum, er verið höfðu til staðar í húsnæðinu, áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust, yrði aftur komið fyrir á upphaflegum stað. Í bréfinu kemur fram það viðhorf að í úrskurði ráðuneytisins felist að koma verði hinu umdeilda rými í upprunalegt horf og því hafi húsfélagið ekki farið að úrskurðinum í öllu, svo sem haldið sé fram í úttekt byggingarfulltrúans.  Erindi þessu var hafnað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. janúar 1996, með vísan til þess að með úrskurði ráðuneytisins hafi eingöngu verið lagt fyrir byggingarnefnd að hlutast til um að skilrúm yrðu fjarlægð, að gættum reglum um brunavarnir.

Með bréfi, dags. 12. febrúar 1996, sem ítrekað var 11. júní 1996, óskaði lögmaður B eftir endurupptöku ákvörðunar byggingarfulltrúa.  Þeirri beiðni var hafnað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. ágúst 1996.  Eftir nokkur frekari bréfaskipti milli lögmannsins og byggingaryfirvalda í Reykjavík ritaði lögmaðurinn umhverfisráðuneytinu bréf, dags. 23. september 1996. Þar var þess krafist, að ráðuneytið hlutaðist til um að byggingarnefnd Reykjavíkur framfylgdi fyrirmælum í áðurnefndum úrskurði ráðuneytisins.  Er í erindinu ítarlega rakið það orðalag í fyrrgreindum úrskurði og aðrir málavextir sem lögmaðurinn taldi eiga að leiða til þess að byggingarfulltrúa væri skylt að ljá atbeina sinn til þess að framangreindir veggbútar yrðu reistir að nýju.

Ráðuneytið svaraði erindi þessu með svohljóðandi bréfi, dags. 13. nóvember 1996:

„Ráðuneytið vísar til bréfs yðar til ráðuneytisins, dags. 23. september 1996, þar sem þér krefjist þess fyrir hönd B, Efstaleiti 12, Reykjavík, að ráðuneytið hlutist til um að byggingarnefnd Reykjavíkur framfylgi í hvívetna fyrirmælum í úrskurðum ráðuneytisins, dags. 1. mars og 21. júlí 1995.

Ráðuneytið hefur ekki beinar lagaheimildir til að krefjast fullnustu á úrskurðunum né dóminum, en hefur ritað byggingarfulltrúa bréf þess efnis að framfylgt verði þeim fyrirmælum sem fram koma í úrskurðunum og dóminum (sjá afrit). Ef byggingarfulltrúi verður ekki við tilgreindum fyrirmælum ráðuneytisins verður ekki annað séð en að eini möguleiki umbjóðanda yðar sé að krefjast fullnustu dómsins með atbeina sýslumanns samkvæmt 11. kafla laga nr. 90/1989 um aðför.”

Jafnhliða þessu ritaði ráðuneytið byggingarfulltrúanum í Reykjavík bréf með því orðalagi að ráðuneytið „legði áherslu á” að byggingarfulltrúi framfylgdi fyrirmælum þeim, sem fram kæmu í úrskurðum ráðuneytisins og dómi héraðsdóms Reykjavíkur, sem staðfesti niðurstöðu úrskurðanna að efni til.

Með bréfi, dags. 30. janúar 1997, fór lögmaður B á ný þess á leit við byggingarfulltrúann í Reykjavík, að hann hlutaðist til um að umræddir veggbútar yrðu að nýju settir upp. Jafnframt var gerð sú krafa, að byggingarfulltrúi hlutaðist til um að fjarlægt yrði barborð ásamt læstum smáskápum, sem ekki væri gert ráð fyrir á gildandi uppdrætti að húsinu.

Erindi þessu var svarað af hálfu byggingarfulltrúa hinn 17. mars 1997.  Var kröfu varðandi uppsetningu veggbúta enn hafnað með vísan til fyrri afstöðu byggingarfulltrúa.  Þeirri kröfu, er laut að barinnréttingu, var hafnað með þeim rökum að fyrirkomulag slíkra innréttinga félli utan valdsviðs byggingarnefndar og byggingarfulltrúa.  Ofangreind niðurstaða var kærð af hálfu lögmanns B til umhverfisráðuneytisins með bréfi, dags. 8. apríl 1997.  Sú kæra var dregin til baka með bréfi lögmannsins, dags. 23. apríl 1997, og jafnframt lögð fram ný kæra í hennar stað, dags. sama dag.  Í síðarnefndri kæru segir m.a.:

„Kæra umbjóðanda míns til umhverfisráðuneytisins [frá 8. desember 1994] sem fyrr er nefnd, var í raun tvíþætt. Annars vegar var kærð ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur sem fyrr er greind, og felld var úr gildi. Hins vegar var eftirgreint kæruefni: „Ennfremur er þess krafist að ráðuneytið leggi fyrir byggingarnefnd að nefndin hlutist til um að umhverfi íbúðar umbjóðanda míns verði komið í það horf sem samþykkt teikning sagði til um þegar umbjóðandi minn keypti íbúðina 1985.

Kröfur sínar rökstyður umbjóðandi minn með því að hann hafi mátt gera ráð fyrir að samþykktum teikningum af nánasta umhverfi íbúðar hans í sameign yrði ekki breytt gegn vilja hans, honum til ama og baga, sbr. 11. og 14. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sbr. l. br. 47/1990. […]

Úrskurðir ráðuneytisins, sem fyrr er getið náðu ekki til þessa tiltekna kæruefnis þannig að fram komi í úrskurðarorði. Kann það að vera vegna þess að byggingarnefnd Reykjavíkur hafði ekki formlega áður fjallað um þetta tiltekna kæruefni.

Með bréfi dags. 17. janúar 1996 var þetta kæruefni þ.e. að setja upp veggstubba sem aðskilur gang og setustofu og að barinnréttingar og smáskápar á gangi fyrir framan íbúð umbjóðanda míns, verði fjarlægðir og ganginum komið í það horf sem gildandi uppdráttur gerir ráð fyrir, sent bygginganefnd Reykjavíkur til úrlausnar. Með svarbréfi byggingafulltrúans í Reykjavík dags. 23. janúar 1996 var kæruefni umbjóðanda míns hafnað á forsendum sem umbjóðandi minn telur rangar. Endanleg synjun bygginganefndar Reykjavíkur á að fjalla um umkvörtunarefni kæranda barst loks að undangengnum bréfaskiptum 17. mars sl.

Samþykktir aðaluppdrættir gera ráð fyrir smáverslun (kiosk) þar sem nú hefur verið reistur stærðar bar ásamt smáskápum til geymslu áfengis. Hvort tveggja, uppsetning þessara innréttinga svo og sú starfsemi sem tiltekinn hópur manna stundar á þessu svæði, brýtur alvarlega í bága við rétt umbjóðanda míns til sams konar aðgengis að sinni íbúð og aðrir íbúar njóta.
Þess er því krafist að umhverfisráðuneytið leggi fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að sjá til þess að umræddar innréttingar verði fjarlægðar og næsta nágrenni íbúðar umbjóðanda míns komið í það horf sem samþykktar teikningar kveða á um. […]”

Umhverfisráðuneytið vísaði erindi þessu frá hinn 14. júlí 1997 með svohljóðandi rökstuðningi:

„Vísað er til kærubréfa yðar, dags. 8. og 23. apríl sl. sem ítrekuð voru með bréfi yðar 2. júní sl. Ráðuneytið skilur kærubréf yðar frá 23. apríl sl. með aðstoð fylgigagna svo að þér séuð, á grundvelli þess að byggingarnefnd hafi ekki uppfyllt kröfur sem fólust í úrskurðum ráðuneytisins frá 1. mars og 21. júlí 1995, að krefjast þess að ráðuneytið leggi fyrir byggingarnefnd að setja upp veggstubba sem áður aðskildu gang og setustofu í Efstaleiti 10-14 og að fjarlægja barinnréttingar og smáskápa á gangi fyrir framan íbúð umbjóðanda yðar, B, en kröfu um það hafi byggingarfulltrúi endanlega hafnað með bréfi dags. 17. mars sl.

Af framangreindu tilefni er yður tjáð eftirfarandi:
Með úrskurði ráðuneytisins uppkveðnum 1.3.1995 var að kröfu yðar felld úr gildi ákvörðun byggingarnefndar frá 10.11.1994, um að samþykkja umsókn frá húsfélagi Breiðabliks og Páli Ásgeiri Tryggvasyni um leyfi til að setja upp veggi og hurðir við setustofu í húsinu nr. 12 á lóðinni nr. 10-14 við Efstaleiti og lagt fyrir nefndina að hlutast til um að skilrúmin verði fjarlægð.

Í niðurstöðu úrskurðarins er tekið fram að í framangreindri ákvörðun byggingarnefndar hafi ekki verið fjallað sérstaklega um bar- eða afgreiðsluborð og læsta smáskápa, enda ekki verið sótt um leyfi fyrir þeim framkvæmdum til byggingarnefndar og ráðuneytið geti því ekki, sbr. 8. mgr. 8. gr. byggingarlaga, tekið afstöðu til þeirra innréttinga að öðru leyti en því að það fallist ekki á þann skilning kæranda að þær séu á gangvegi sem hann eigi meira tilkall til en aðrir íbúar hússins.

Yður hefði verið opin leið þegar eftir uppkvaðningu úrskurðarins að gera kröfu til byggingarnefndar um að bar- eða afgreiðsluborðið og læstu smáskáparnir yrði fjarlægt t.d. á þeim forsendum að þessar innréttingar hefðu verið settar upp án leyfis eða andstætt samþykktum uppdráttum og kæra þá viðbrögð byggingarnefndar við þeirri kröfu, ef þau hefðu ekki verið umbjóðanda yðar í vil, til ráðuneytisins sem hefði þá tekið á málinu efnislega.

Nú eru hins vegar kærufrestir til ráðuneytisins samkvæmt [8.] mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna umræddra innréttinga liðnir og verður því ekki skorið úr um réttmæti þeirra nema hjá dómstólum.

Með því að ráðuneytið hefur ekki eftir lögmæltum kæruleiðum tekið afstöðu til hvort veggstubbar sem áður skildu að setustofu og gang í húsinu nr. 12 við Efstaleiti skuli settir upp að nýju og til þess hvort uppsetning bar- eða afgreiðsluborðs og læstra smáskápa bryti í bága við ákvæði laga og reglugerða brestur það lagaheimild til að verða við kröfum yðar.”

Eins og áður er getið kvartaði lögmaður kæranda til umboðsmanns Alþingis vegna framangreindrar afstöðu ráðuneytisins.  Mælist umboðsmaður til þess að málið verið endurupptekið ef eftir því verði leitað og hefur úrskurðarnefndin, að ósk kæranda, tekið málið til meðferðar í samræmi við niðurstöðu álits umboðsmanns Alþingis.

Málsrök kæranda:  Í bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. maí 1999, rekur lögmaður kæranda málsástæður og lagarök kæranda.  Kveður hann kröfur kæranda á því reistar að hann eigi skýlausan rétt til þess að húsnæðið, sem um ræði, sé í samræmi við samþykktar teikningar.  Leyfi hafi ekki verið veitt til þess að fjarlægja veggbútana og heldur ekki til uppsetningar barborðsins og smáskápanna.  Kærandi hafi, frá því hann flutti í húsið, verið andvígur umræddum breytingum og andmælt þeim, enda bitni þær umfram aðra á aðgengi hans og fjölskyldu hans að íbúð hans.  Kærandi hafi fyrst kvartað til umhverfisráðuneytisins um þessi atriði með formlegum hætti með bréfi 8. desember 1994.  Þá hafi hitt megindeilumálið, um ólögmæt skilrúm í umræddu rými, verið komið á þann rekspöl að ekki hafi verið talið rétt að auka þessum atriðum við þann málatilbúnað.

Kærandi vísar og til gagna málsins og álits umboðsmanns Alþingis máli sínu til stuðnings.

Málsrök húsfélagsins Breiðabliks:  Með vísun til 13. greinar stjórnsýslulaga nr. 73/1993 hefur stjórn húsfélagins Breiðabliks verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum félagsins í málinu.  Í greinargerð Ólafs Axelssonar hrl., f.h. húsfélagsins, dags. 23. desember 1999, er þess krafist að hafnað verði kröfum kæranda í málinu.  Jafnframt gerir húsfélagið þá kröfu fyrir nefndinni að hún úrskurði að íbúð B, merkt 0104, verði staðsett í húsi nr. 14 við Efstaleiti.  Að lokum er sett fram sú krafa að Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, aðalmaður í úrskurðarnefndinni, taki ekki þátt í meðferð málsins, þar sem hún hafi komið að því þegar það kom til úrskurðar hjá umhverfisráðuneytinu á sínum tíma.

Í greinargerð húsfélagsins er rakin forsaga málsins og málavextir frá sjónarhóli félagsins.  Þykir ekki ástæða til þess að endurtaka það sem þar kemur fram enda hefur málavöxtum í aðalatriðum þegar verið lýst.

Aðalkrafa húsfélagsins, um að kröfum B fyrir nefndinni verð hafnað, er í greinargerðinni studd eftirfarandi rökum:

Hvað varðar kröfu kæranda um að veggbútar í sameiginlegu rými hússins verði reistir á ný er bent á að dómur Hæstaréttar hafi eingöngu snúist um skyldu til að fjarlægja hliðarveggi.  Hafi þar engin afstaða verið tekin til þessara veggbúta, enda hafi ekkert verið fjallað um þá í málinu.  Uppsetning eða niðurrif veggbúta, eins og þeirra sem hér um ræði, sé að mati húsfélagsins ekki háð byggingarleyfi.  Um sé að ræða innréttingu í sameign sem eingöngu varðar íbúa hússins innbyrðis en ekki byggingaryfirvöld.  Virðist byggingarnefnd Reykjavíkur sömu skoðunar.  Brottnám þessara skilrúma hafi verið samþykkt á lögmætum fundi í húsfélaginu með 90% greiddra atkvæða. Þar hafi verið samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta  „allar lagfæringar og breytingar á húsinu, sem hússtjórnin hafði látið framkvæma”.  Á þessum tíma hafi gilt lög nr. 59/1976 um fjölbýlishús.  Ljóst megi vera að samþykki aukins meirihluta íbúa hafi verið meira en fullnægjandi til að taka bindandi ákvörðun í efni sem þessu.

Hvað varðar kröfu kæranda um að barborð og smáskápar verði fjarlægðir er tekið fram í greinargerðinni að á samþykktum teikningum hafi verið gert ráð fyrir verslun með tilheyrandi innréttingum, þ.e. hillum og afgreiðsluborði, á þeim stað þar sem umræddu barborði og smáskápum hafi verið komið fyrir.  Þar sem talið hafi verið að enginn grundvöllur væri fyrir rekstri verslunar á staðnum hafi verið komið þar fyrir samskonar innréttingum, þ.e. veggskáp og borði, en í öðrum tilgangi.  Það megi fullyrða að innréttingarnar sem slíkar séu í samræmi við gildandi teikningar enda þótt notkunin á þeim hafi orðið önnur, þ.e. læstur geymsluskápur fyrir hverja íbúð og framreiðsluborð.  Ástæða sé til að taka fram, að gefnu tilefni, að umrætt borð sé ekki barborð í skilningi þess orðs heldur framreiðsluborð.

Borðstofan, setustofan og rýmið þar á milli séu til afnota fyrir alla íbúa hússins.  Sameiginleg borðhöld og spilakvöld séu haldin þarna reglulega yfir vetrarmánuðina.  Þá noti íbúarnir einnig þessi húsakynni stöku sinnum undir einkasamkvæmi.  Sé þetta allt í samræmi við þær húsreglur sem hafa gilt og í fullu samræmi við þann tilgang sem lagt hafi verið upp með við byggingu hússins.  Krafa kæranda í þessum efnum eigi ekki við rök að styðjast og gengur reyndar gegn þeim tilgangi sem þetta sameiginlega rými hafi verið ætlað fyrir.  Samþykkt hafi verið með yfirgnæfandi meirihluta á lögmætum húsfundi að þessar innréttingar yrðu settar upp.  Þær hafi því aldrei getað brotið gegn þágildandi byggingarlöggjöf, lögum nr. 54/1978, né hinni síðari, lögum nr. 73/1997, (séu í samræmi við gildandi teikningar), né lögum um fjölbýlishús nr. 59/1976 eða fjöleignarhússlögum nr. 26/1994 (samþykktar af auknum meirihluta), enda þjóni innréttingarnar þeirri notkun, sem þetta sameiginlega húsnæði hafi verið ætlað til.

Kröfu húsfélagsins, um að úrskurðað verði að íbúð B nr. 0104 verði staðsett í húsi nr. 14 við Efstaleiti, kveður lögmaður félagsins vera setta fram vegna þess að húsfélagið sé þeirrar skoðunar að ágreiningsmálin við B eigi fyrst og fremst rót sína að rekja til þeirrar afstöðu hans að íbúðin tilheyri húsi nr. 12 en ekki nr.14.  Telur lögmaðurinn að íbúðin hafi í raun átt að tilheyra húsinu nr. 14 og vitnar til gagna, sem hann telur styðja þá staðhæfingu.

Andmæli kæranda:  Með tilliti til kröfugerðar húsfélagsins í málinu var kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum við sjónarmiðum og kröfum félagsins í málinu.  Af hálfu kæranda er bent á að þeirri kröfu, að íbúð hans eigi að tilheyra húsinu nr. 14 við Efstaleiti, hafi þegar verið hafnað af dómstólum.  Mál þetta sé endurupptökumál sem varði ágreining kæranda og byggingarfulltrúans í Reykjavík og sé vandséð að þörf hafi verið enn einnar greinargerðar húsfélagsins um ágreiningsefnið, enda hafi sjónarmið félagsins áður komið fram og verið hrakin.  Við úrlausn málsins beri að líta til álits umboðsmanns Alþingis sem sé kæranda í hag.

Málsrök byggingarnefndar Reykjavíkur og byggingarfulltrúa:  Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur og byggingarfulltrúans í Reykjavík er vísað til umsagna og bréfaskrifta vegna fyrri mála um þau álitaefni sem hér eru til úrlausnar.  Er áréttað að aldrei hafi verið samþykktar teikningar er sýni veggbúta þá sem teknir voru niður og kærandi gerir kröfu til að settir verði upp að nýju.  Það sé því algerlega út í hött að embætti byggingarfulltrúa krefjist uppsetningar þeirra.  Þá er á það bent að á samþykktum aðaluppdráttum af húsinu séu sýndar í grunnmynd innréttingar í verslun og eldhúsi.  Engar kröfur hafi verið um það í byggingarreglugerð nr. 177/1992 að fram væru lagðar snið- eða útlitsmyndir slíkra innréttinga og hafi það því ekki verið á valdsviði byggingaryfirvalda að hlutast til um fyrirkomulag einstakra naglfastra innréttinga, svo sem verslunarinnréttinga, eldhúsinnréttinga og fataskápa.  Af þessum sökum beri byggingarfulltrúa engin skylda til að hafa afskipti af afgreiðsluborði og smáskápum þeim sem kærandi gerir kröfu til að verði fjarlægðir.  Hvernig íbúar nýti umræddar innréttingar hljóti að vera mál húsfélagsins og geti byggingarfulltrúi engin afskipt haft af notkun húsnæðisins eða einstakra hluta þess.  Því beri að hafna kröfum kæranda að því leyti sem þær snúa að byggingaryfirvöldum.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 10. janúar síðastliðinn.  Auk nefndarmanna voru mættir framkvæmdastjóri nefndarinnar, byggingarfulltrúinn í Reykjavík og lögmenn kæranda og húsfélagsins Breiðabliks.  Þá voru viðstaddir nokkrir íbúar hússins nr. 10-12-14 við Efstaleiti.  Nefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi og gerðu aðilar grein fyrir sjónarmiðum sínum og veittu nefndinni ýmsar upplýsingar um staðreyndir málsins.

Gagnaöflun:  Úrskurðarnefndin hefur aflað allra teikninga af hinu umdeilda svæði á 1. hæð að Efstaleiti 12 sem áritaðar hafa verið um samþykki byggingarnefndar Reykjavíkur og  hefur lögmönnum málsaðila verið gefinn kostur á að kynna sér þessi nýju gögn.

Skipun varamanns:  Að kröfu húsfélagsins Breiðabliks hefur Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur, aðalmaður í úrskurðarnefndinni, vikið sæti í málinu.  Vegna tengsla við fyrirsvarsmann húsfélagsins Breiðabliks lýsti fastur varamaður hennar, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, héraðsdómslögmaður, sig vanhæfan til setu í nefndinni við meðferð málsins.  Með bréfi, dags. 12. janúar 2000, skipaði umhverfisráðherra Ásgeir Magnússon, hæstaréttarlögmann, varamann ad hoc til þess að taka sæti Hólmfríðar Snæbjörnsdóttur í nefndinni og hefur hann frá þeim tíma tekið þátt í meðferð málsins.

Niðurstaða:  Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 30 desember 1998 er ekki tekin afstaða til þess álitaefnis hvort umhverfisráðherra eða úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála beri að fjalla um endurupptöku málsins. Beinir umboðsmaður þeim tilmælum til umhverfis-ráðuneytisins að það sjái til þess að málið verði endurupptekið af þar til bærum aðila, komi fram ósk um það frá kæranda.

Eftir að beiðni um endurupptöku barst ráðuneytinu var málið framsent úrskurðarnefndinni til meðferðar.  Tók úrskurðarnefndin til athugunar það álitaefni um lagaskil, sem vikið er að í áliti umboðsmanns Alþingis, en ekki er í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 tekin afstaða til þess hver skuli úrskurða sem æðra stjórnvald eftir gildistöku laganna um ákvarðanir byggingarnefnda, sem teknar voru fyrir það tímamark, eða um það hvert skuli beina óskum um endurupptöku mála, sem úrskurðuð voru af ráðuneytinu fyrir gildistöku laganna.

Í framkvæmd urðu lagaskilin með þeim hætti að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála tók til meðferðar kærur sem bárust eftir gildistöku laganna, hinn 1. janúar 1998, en ráðuneytið lauk meðferð þeirra kærumála sem þá voru þar til meðferðar.  Þótti þessi framkvæmd best samrýmast ákvæðum laganna um kæruheimildir, sem kveða á um að skjóta megi tilgreindum ákvörðunum byggingarnefnda og sveitarstjórna til úrskurðarnefndarinnar án nokkurs fyrirvara um að máli skipti hvenær hin kærða ákvörðun kunni að hafa verið tekin.  Við gildistöku laganna voru jafnframt felld úr gildi ákvæði eldri byggingarlaga um rétt til málskots til umhverfisráðherra og varð það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að eftir gildistöku laga nr. 73/1997 hefðu ekki verið í gildi heimildir til þess að skjóta ákvörðunum byggingarnefnda eða sveitarstjórna um byggingar- og skipulagsmál til ráðherra, að minnsta kosti ekki þeim ákvörðunum sem berum orðum hefðu verið felldar undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar við gildistöku laganna.  Í ljósi þessa taldi úrskurðarnefndin sér skylt að taka afstöðu til beiðni kæranda um endurupptöku kærumáls hans og féllst nefndin á beiðni hans um endurupptöku málsins.

Úrskurðarnefndin er sammála því áliti umboðsmanns Alþingis að frávísun umhverfisráðherra á erindi kæranda frá 8. og 23. apríl 1997 hafi verið ólögmæt.  Ber því að taka erindi kæranda til efnisúrlausnar í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis.

Kröfur kæranda í málinu, eins og þær eru settar fram í bréfi lögmanns hans til nefndarinnar, dags. 11. maí 1999, lúta að því að lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að hann hlutist til um að tilteknar breytingar verði gerðar á sameiginlegu rými á 1. hæð hússins nr. 10, 12 og 14 við Efstaleiti.  Kröfurnar eru tvíþættar.  Er þess annars vegar krafist að reistir verði á ný veggbútar, sem áður skildu að miðrými (gang) og blómaskála, og hins vegar að fjarlægt verði barborð og læstir smáskápar, sem komið hefur verið fyrir í hinu sameiginlega rými.

Veggbútar þeir, sem fyrri liður kröfugerðar kæranda tekur til, voru settir upp að tilhlutan hússtjórnar.  Voru veggeiningar þessar timburrammar með tvöföldu gleri og rimlagardínum á milli glerjanna, sömu gerðar og veggir þeir, sem aðskilja blómaskála frá göngum og miðrými sameignarinnar.  Einingar þessar lokuðu súlubilum á mörkum gangvegar og blómaskála, andspænis eldhúsi og borðstofu, og skildu  blómaskálann frá gangveginum þannig að aðeins var opið inn í skálann um eitt súlubil.

Veggeiningar þessar voru teknar niður samhliða því að settir voru upp veggir og dyr þvert á gangveg um miðsvæði rýmisins, austan og vestan blómaskálans.  Var miðrýmið ásamt blómaskála, verslunarkróki og borðstofu eftir þetta sýnt á samþykktri teikningu sem eitt samfellt og aflokað rými.  Þurfti kærandi að ganga í gegn um þetta rými til þess að komast að og frá íbúð sinni frá inngangi hússins nr. 12, sem íbúðin tilheyrir.  Eins og að framan er rakið var leyfi það sem byggingarnefnd Reykjavíkur hafði veitt fyrir uppsetningu þessara skilveggja fellt úr gildi með úrskurðum umhverfisráðherra hinn 1. mars og 21. júlí 1995 og var sú niðurstaða endanlega staðfest með dómi Hæstaréttar hinn 23. október 1997.

Í samræmi við úrskurði umhverfisráðherra lét húsfélagið fjarlægja þá veggi og hurðir sem sett höfðu verið upp samkvæmt hinu ógilta byggingarleyfi.  Hins vegar voru veggbútar þeir, sem áður höfðu að mestu skilið að blómaskála og gangveg um miðrými hins sameiginlega svæðis, ekki settir upp að nýju.  Gerði kærandi ítrekaðar tilraunir til þess að fá veggi þessa setta upp aftur og krafðist þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hlutaðist til um þá framkvæmd, en erindum hans um það var ítrekað hafnað.  Virðist kærandi hafa túlkað úrskurði umhverfisráðherra um ógildingu samþykktar byggingarnefndar fyrir áðurnefndum skilveggjum á þann veg að færa bæri húsnæðið til þess horfs, sem það hefði verið í fyrir uppsetningu þeirra, en á þá túlkun var ekki fallist af hálfu byggingarfulltrúa.  Óskaði kærandi atbeina ráðuneytisins í málinu og krafðist þess að ráðuneytið hlutaðist til um það að byggingarnefnd Reykjavíkur framfylgdi fyrirmælum í áðurnefndum úrskurði.  Leiddi sú málaleitan ekki til niðurstöðu um þennan þátt málsins.

Veggbútar þeir, sem kærandi gerir kröfu til að verði settir upp að nýju, voru á sínum tíma reistir, án þess að til þess væri aflað leyfis byggingarnefndar.  Eru veggbútar þessir, eins og þeim var fyrir komið, hvergi sýndir á samþykktum teikningum af umræddu húsrými, en á teikningunum eru sýndir þeir veggir, sem afmarka eiga blómaskálann frá öðru sameiginlegu rými.  Fyrirkomulag veggjanna, eins og það er nú, er að mestu í samræmi við samþykktar teikningar.  Þó hefur ekki verið komið fyrir blómakerjum, sem sýnd eru á teikningum við austur- og vesturenda blómaskálans og falla eiga að skilveggjum blómaskálans og annars rýmis.  Þá hefur ekki verið settur upp stuttur veggbútur sem sýndur er á teikningum frá gluggapósti að súlu nærri austurenda blómaskálans, en veggbútur þessi hefur aldrei verið settur upp og verða kröfur kæranda ekki skildar svo að í þeim felist krafa um uppsetningu á þeim veggbút.  Ekki verður annað séð en að samþykkt fyrirkomulag veggja þeirra, sem afmarka eiga blómaskálann frá öðru rými, hafi verið óbreytt frá því fyrstu teikningar voru samþykktar af húsinu hinn 26. ágúst 1982, en óverulegar breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi blómakerja á breytingateikningu, samþykktri 14. nóvember 1985.

Samkvæmt 1. mgr. 22. greinar byggingarlaga nr. 54/1978, með síðari breytingum, bar byggingarfulltrúa m.a. að annast eftirlit með því að hús og önnur mannvirki væru byggð í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglur.  Jafnframt var byggingarfulltrúa, samkvæmt ákvæðum 26. og 27. greinar laganna, fengið nokkurt vald til þess að hlutast til um úrbætur, væri viðhaldi eða frágangi húss eða annars mannvirkis ábótavant.  Með hliðsjón af ákvæðum þessum verður að telja að byggingarfulltrúanum í Reykjavík hafi verið óskylt að ljá því atbeina sinn að veggir sem aldrei höfðu verið samþykktir af byggingarnefnd og ekki voru sýndir á samþykktum teikningum yrðu settir upp, enda þótt þeir hefðu áður verið settir upp án tilskilinna leyfa.  Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að hlutast til um uppsetningu umræddra veggbúta.

Á þeim stað þar sem komið hefur verið fyrir „barborði” (afgreiðsluborði) og læstum smáskápum hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir lítilli verslun.  Hefur afgreiðsluborð verið sýnt á samþykktum teikningum allt frá árinu 1985, á þeim stað sem svonefnt „barborð” er nú og innrétting þar sem nú eru smáskápar.  Fyrir gildistöku byggingarreglugerðar nr. 441/1998 verður ekki séð að skylt hafi verið að gera séruppdrætti af naglföstum innréttingum, slíkum sem hér um ræðir.  Umræddar innréttingar fara því ekki í bága við samþykkta uppdrætti af hinu sameiginlega rými.  Þá samrýmist afgreiðsluborðið  að fullu skilgreindri notkun rýmisins sem verslunarrýmis.  Þykir ekki vera næg ástæða til þess að leggja fyrir byggingarfulltrúa að fjarlægja umræddar innréttingar þótt smáskáparnir séu læstir og ætlaðir til einkanota, enda felst ekki í því fyrirkomulagi verulegt frávik frá því sem ætla mátti um nýtingu hins sameiginlega rýmis á þessum stað. 

Við mat á rétti kæranda til að fá innréttingar þessar fjarlægðar verður að líta til þess að á þessum stað í húsinu var gert ráð fyrir lítilli verslun samkvæmt þeim teikningum sem fyrir lágu þegar hann festi kaup á íbúð sinni.  Þá lá jafnframt fyrir að á aðra hönd væri sameiginleg setustofa en á hina höndina eldhús og borðstofa, auk verslunarinnar, þegar gengið væri að og frá íbúð kæranda.  Mátti kæranda vera ljóst að þeirri sameiginlegu starfsemi, sem þarna var fyrirhuguð, kynnu að fylgja nokkur óþægindi umfram það sem að jafnaði er á sameiginlegum göngum fjölbýlishúsa. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hann láti fjarlægja umræddar innréttingar.

Úrskurðarnefndin tekur fram að í niðurstöðu hennar er einungis tekin afstaða til þess hvort byggingarfulltrúa beri að ljá atbeina sinn til þeirra athafna sem krafist er í málinu.  Nefndin hefur hins vegar enga afstöðu tekið til þess hvort húsfélaginu Breiðabliki kunni að vera skylt, á grundvelli fyrri samþykkta og að fengnu leyfi byggingarnefndar, að láta setja upp að nýju veggbúta þá sem teknir voru niður samhliða uppsetningu skilveggja, sem síðar reyndist hafa verið ólögmætt að reisa.  Þá er því og ósvarað hvort notkun verslunarrýmis til annars en það er ætlað, fari í bága við rétt kæranda og ófrávíkjanlegar reglur um réttindi og skyldur eigenda eignarhluta í fjöleignarhúsum.  Er það ekki á valdsviði nefndarinnar að skera úr réttarágreiningi aðila að þessu leyti.

Kröfu húsfélagsins Breiðabliks um að nefndin úrskurði að íbúð kæranda skuli tilheyra húsinu nr. 14 í stað nr. 12 við Efstaleiti ber að vísa frá úrskurðarnefndinni.  Engin kæranleg ákvörðun lægra stjórnvalds liggur fyrir um kröfuna.  Þá er krafan ekki meðal þeirra álitaefna, sem fyrri ákvarðanir umhverfisráðherra tóku til og getur hún því ekki komið til álita í endurupptökumáli þessu.

Dráttur hefur orðið á uppkvaðninu úrskurðar í máli þessu.  Stafar þessi dráttur af önnum í úrskurðarnefndinni og töfum sem urðu vegna fjarveru forsvarsmanna húsfélagsins um tíma.  Þá var nokkrum tíma varið til sáttaumleitana, sem ekki báru árangur.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að hann hlutist til um að reistir verði á ný veggbútar í sameiginlegu rými hússins að Efstaleiti 10, 12 og 14 og að hann sjái til þess að barborð og læstir smáskápar í sameiginlegu rými í húsinu verið fjarlægðir.

Kröfu húsfélagsins Breiðabliks um að nefndin úrskurði að íbúð kæranda skuli tilheyra húsinu nr. 14, í stað nr. 12, við Efstaleiti er vísað frá úrskurðarnefndinni.

42/1999 Fjarðargata

Með

Ár 2000, mánudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/1999; kæra nágranna á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. júní 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar, hvað varðar Fjarðargötu 19, og á ákvörðunum byggingarnefndar Hafnarfjarðar og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 21. júlí, 22 júlí og 6. ágúst 1999 um að veita leyfi til að byggja nýbyggingu á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. ágúst 1999, sem barst nefndinni 7. sama mánaðar, kæra 16 íbúar og eigendur fasteigna við Austurgötu, Fjarðargötu og Strandgötu í Hafnarfirði, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. júní 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar varðandi lóðina nr. 19 við Fjarðargötu í Hafnarfirði.  Með bréfi til úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 1999, reifa kærendur kröfur sínar og málsástæður nánar og krefjast þess að hin kærða samþykkt, um breytingu á deiliskipulagi, verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess í sama bréfi að byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19, sem byggingarfulltrúi veitti í umboði byggingarnefndar hinn hinn 22. júlí 1999, verði fellt úr gildi.  Með bréfi til nefndarinnar, dags. 1. september 1999, gerir S, Austurgötu 42, Hafnarfirði þá kröfu f.h. kærenda að framkvæmdir við byggingu hússins að Fjarðargötu 19 verði stöðvaðar.  Um kæruheimild vísast til 8. gr. og 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Hinar kærðu ákvarðanir um útgáfu byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19 voru staðfestar á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar hinn 19. ágúst 1999.

Málavextir:  Hinn 9. apríl 1999 birtist auglýsing í Lögbirtingablaðinu um tillögu að breytingu á deiliskipulagi, Hafnarfjörður miðbær, hvað varðar Fjarðargötu 19.  Vísað var til 26. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 37/1997 og tekið fram að breytingin fælist í því að grunnflötur (og lögun) fyrirhugaðrar byggingar á Fjarðargötu 19 stækkaði úr 420m² í 600m² og húshæð væri breytt úr 2 hæðum og risi í 3 hæðir.  Ekki verður annað ráðið af málsgögnum en að tillaga þessi hafi hlotið lögboðna meðferð og var deiliskipulagsbreytingin samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 29. júní 1999 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 20. júlí 1999.  Hinn 22. júlí 1999 veitti byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði, í umboði byggingarnefndar samkvæmt samþykkt nefndarinnar hinn 21. júlí 1999, leyfi fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19 samkvæmt teikningum sem gerðar höfðu verið á grundvelli hins breytta deiliskipulags.  Var leyfisveiting byggingarfulltrúa staðfest í byggingarnefnd hinn 6. ágúst 1999.  Hófust framkvæmdir við jarðvinnu á lóðinni í framhaldi af útgáfu leyfisins. 

Þegar krafa kærenda um stöðvun framkvæmda kom fram, var leitað afstöðu byggingarnefndar til kröfunnar, en jafnframt var byggingarleyfishafa gefinn kostur á að koma að andmælum við kröfunni.  Að lokinni gagnaöflun um þann þátt málsins var kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafnað með úrskurði, uppkveðnum hinn 29. september 1999.

Eftir uppkvaðningu úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hefur úrskurðarnefndinni borist greinargerð skipulagsstjórans í Hafnarfirði þar sem svarað er efnisatriðum kærunnar.  Þá hefur nefndin aflað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni málsins.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja kröfur sínar um ógildingu hinna kærðu ákvarðana á eftirtöldum málsástæðum:

Í fyrsta lagi telja kærendur að grenndarkynningu í málinu hafi verið áfátt.  Kynningarbréf, sem hagsmunaaðilum hafi verið sent, hafi ekki borist öllum þeim sem með réttu hefðu átt að fá slíkt bréf.  Ekki hafi legið fyrir öll byggingarleyfisgögn á kynningarfundi hinn 10. maí 1999.  Hæð hússins hafi verið sögð óákveðin.  Einnig hafi vantað gögn um skuggamyndun og hæðarafstöðu byggingarinnar samkvæmt deiliskipulagi fyrir og eftir breytingu.  Verulega hafi því skort á að fullnægt hafi verið kröfum um grenndarkynningu og hafi með þessu verið brotið gegn ákvæðum 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í öðru lagi telja kærendur að ekki hafi verið fullnægt kröfum um bílastæði fyrir nýbygginguna að Fjarðargötu 19.  Könnun, sem gerð hafi verið á notkun bílastæða í miðbæ Hafnarfjarðar og bæjaryfirvöld vitni til, sé meingölluð.  Bæði hefði þurft að gera könnunina alla daga vikunnar og einnig hefði hún þurft að taka yfir lengra tímabil.  Kærendur benda á að fjöldi bílastæða á umræddu svæði (reit 2 og 3) fullnægi ekki kröfum núgildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, grein 3.1.4., um lágmarksfjölda bílastæða.  Því hafi ekki verið hægt að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu að án þess að farið væri langt yfir lágmarksfjölda bílastæða á þessu svæði samkvæmt núgildandi reglugerð.  Kærendur telja að sérstaklega þurfi að skoða þörf íbúðarhúsnæðis á svæðinu fyrir bílastæði samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998, grein 3.1.4., og byggingarreglugerð nr. 441/1998, grein 64.3. og þörf þjónustu- og verslunarhúsnæðis samkvæmt viðeigandi ákvæðum sömu reglugerða.  Beri að fella byggingarleyfi fyrir nýbyggingunni að Fjarðargötu 19 úr gildi þar til sýnt verði hvernig byggingaryfirvöld ætli að útvega bílastæði fyrir þjónustuhluta hússins.

Í þriðja lagi telja kærendur að formaður skipulags- og umferðarnefndar Hafnarfjarðar hafi verið vanhæfur við meðferð málsins í nefndinni, svo og að um vanhæfi nefndarmanns í byggingarnefnd hafi verið að ræða.  Eigi formaður skipulags- og umhverfisnefndar hlut í fyrirtæki því sem hannað hafi hina umdeildu nýbyggingu.  Auk þess sitji byggingarstjóri hússins í byggingarnefnd og sé jafnframt annar tveggja verktaka við byggingu þess.  Telja kærendur þetta algerlega óviðunandi enda þótt umræddir nefndarmenn hafi vikið af fundum meðan mál er vörðuðu Fjarðargötu 19 hafi verið til umfjöllunar í nefndunum.

Málsrök byggingarnefndar og skipulagsstjóra:  Af hálfu byggingarnefndar er vísað til þess að hin kærða ákvörðun nefndarinnar sé í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins svo sem því hafi verið breytt með ákvörðun bæjarstjórnar 29. júní 1999.  Deiliskipulag svæðisins sé að stofni til frá 1983 og sé í skipulaginu gert ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja 60 fermetra í verslunar- og þjónustuhúsnæði, og einu stæði fyrir hverja íbúð.  Vísar byggingarnefnd til greinar 64 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, þar sem segi að um fjölda bílastæða sé kveðið á í deiliskipulagi.

Í greinargerð skipulagsstjórans í Hafnarfirði um kæruefni málsins er á það bent að tillaga að hinni umdeildu breytingu á deiliskipulagi hafi verið auglýst í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Því hafi ekki verið um grenndarkynningu að ræða og eigi 7. mgr. 43. gr. laganna því ekki við í málinu.  Tillagan hafi verið rækilega auglýst og kynnt á kynningarfundi og hafi kynningargögn verið fullnægjandi.  Þá séu bílastæðakröfur í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins, sem staðfest hafi verið af félagsmálaráðherra 19. september 1983, breytt 30. júní 1994.  Í greinargerð með því komi fram að gera skuli ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð og hverja 60m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis.  Gert sé ráð fyrir samnýtingu bílastæða á svæðinu og sé því við útreikning bílastæða miðað við byggingarmagn á svæðinu í heild en ekki á einstökum lóðum.  Fjöldi bílastæða á svæðinu verði talsvert umfram það sem áskilið er í deiliskipulaginu eftir byggingu fyrirhugaðs húss að Fjarðargötu 19, en 16 ný bílastæði verði gerð neðanjarðar og á lóð hússins við byggingu þess.  Loks tekur skipulagsstjóri fram að formaður skipulags- og umferðarnefndar hafi ávallt vikið sæti við meðferð málsins í nefndinni og hafi varamaður hans ávallt tekið við fundarstjórn þegar Fjarðargata 19 hafi verið til umfjöllunar í nefndinni.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að efnisatriði kærunnar beinist að skipulags- og byggingaryfirvöldum í Hafnarfirði og sé þeim svarað af þeirra hálfu.  Hafi byggingarleyfishafi farið í öllu eftir gildandi skipulags- og byggingarreglugerðum við undirbúning og hönnun hússins að Fjarðargötu 19.  Um meint vanhæfi annars byggingaraðila hússins, sem sæti á í byggingarnefnd Hafnarfjarðar, er tekið fram að hann hafi vikið sæti þegar fjallað hafi verið um umsókn um byggingarleyfi að Fjarðargötu 19 í nefndinni.

Umsögn skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði umsagar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar segir m.a:

Kæran skiptist í þrjá hluta og verður tekin afstaða til þeirra í sömu röð og þeir koma fyrir í kærunni.

Kæra:
Kærendur benda á að grenndarkynning samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi ekki farið fram og óska þess að ný grenndarkynning fari fram þar sem öll gögn verði sýnd sem eigi að liggja frammi við slíka kynningu.

Umsögn:
Deiliskipulagsbreyting sú sem hér er deilt um var auglýst sem breyting skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og afgreidd í samræmi við það hjá Skipulagsstofnun. Samkvæmt þeirri grein skal fara með breytingu á deiliskipulagi sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða en um kynningu á tillögu að deiliskipulagi er fjallað í 25. gr. laganna, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. sömu laga.  Í fyrrgreindum ákvæðum er ekki kveðið á um að grenndarkynning skuli fara fram vegna breytingar á deiliskipulagi heldur gerð grein fyrir ferli því sem fylgja verður við kynningu tillagna til slíkra breytinga.  Skipulagsstofnun bendir á að fyrirmæli 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga um grenndarkynningar eigi aðeins við þegar um er að ræða veitingu byggingarleyfis í þegar byggðu hverfi þar sem ekki er fyrir hendi deiliskipulag eða vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 26. gr., og eigi því ekki við í þessu máli.  Verði því ekki krafist grenndarkynningar samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Kæra:
Gerðar eru ítarlegar athugasemdir þess efnis að bílastæðaþörf fyrirhugaðs húss að Fjarðargötu 19 sé ekki fullnægt og því beri að fella úr gildi byggingarleyfi það sem gefið hefur verið út af byggingaryfirvöldum Hafnarfjarðar.  Vísa kærendur m.a. til greinar 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 en þar segir að eitt bílastæði skuli vera á hverja 35 m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis.

Umsögn:
Gildandi deiliskipulag fyrir miðbæ Hafnarfjarðar var staðfest af ráðherra þann 19. september 1983, en á því gerðar nokkrar breytingar með endurskoðuðum uppdrætti dags. 30. júní 1994. Á endurskoðaða uppdrættinum segir: „Þar sem þessi endurskoðaði uppdráttur og skýringar við hann víkja frá fyrirliggjandi uppdrætti dags. 17.04.1982 og sérskilmálum fyrir reiti 1-5 í greinargerðinni HAFNARFJÖRÐUR MIÐBÆR 1981, gildir nýi uppdrátturinn ásamt skýringum.” Þar sem ekkert kemur fram á endurskoðaða uppdrættinum eða í skýringum hans um fjölda bílastæða verður að líta svo á að upprunalegi uppdrátturinn sem staðfestur var árið 1983, ásamt greinargerð sem honum fylgir, geymi gildandi fyrirmæli um bílastæðafjölda á umræddu miðbæjarsvæði. Sú breyting sem gerð var á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, og er grundvöllur byggingarleyfis þess sem hér er deilt um, breytti í engu skilmálum gildandi  skipulags heldur einskorðaðist breytingin við byggingarreitinn við Fjarðargötu 19.

Í greinargerðinni HAFNARFJÖRÐUR MIÐBÆR 1981 segir um bílastæði á bls. 131: „Bílastæði skulu vera eitt á hverja 60 m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis…” Skipulagsstofnun telur að skipulagsyfirvöldum Hafnarfjarðar hafi verið heimilt að mæla svo fyrir með hliðsjón af 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um gerð skipulagsáætlana nr. 217/1966 en sú reglugerð var í gildi þegar deiliskipulag miðbæjarins var staðfest 1983. Í greininni segir: „Ef ekki er sérstaklega ákveðið á annan veg í aðalskipulagi eða deiliskipulagi skal miðað við eftirfarandi: … b. að á lóð húss, sem ætlað er til atvinnurekstrar komi eitt stæði, […] , á hverja 25 gólfflatarmetra í húsinu.”  Í ljósi þessa verði ekki lögð sú skylda á skipulagsyfirvöld Hafnarfjarðar að sýna fram á að fyrir hendi sé eitt bílastæði á hverja 35 m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis á hinu umdeilda svæði skv. núgildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Í deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, sem staðfest var árið 1983, er sú stefna mörkuð af skipulagsyfirvöldum bæjarins að svæðið verði  metið í heilu lagi m.t.t. bílastæðafjölda. Kærendur gera í kæru sinni kröfu um að fjallað verði um bílastæðafjölda hvers húss út af fyrir sig. Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 42/1999 frá 29. september sl. var fjallað um stöðvun framkvæmda við húsið að Fjarðargötu 19 sem er grundvöllur þess deilumáls sem hér er til umfjöllunar. Þar segir eftirfarandi um þetta fyrirkomulag:  „Við mat á því hverjar kröfur um bílastæði eigi að gera vegna hinnar umdeildu nýbyggingar verður að líta til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er almennt ekki gert ráð fyrir því að bílastæðum sé ætlaður staður á lóðum einstakra húsa á svæðinu norðan Lækjargötu og vestan Strandgötu heldur er þeim komið fyrir á opnum svæðum í eigu bæjarins. Slíkt fyrirkomulag er heimilt að ákveða í deiliskipulagi og verður ekki talið að með samþykkt umdeildrar nýbyggingar hafi, svo augljóst sé, verið gengið gegn ákvæðum skipulagsreglugerðar eða skilmálum gildandi deiliskipulags.” Í ljósi þessarar tilvitnunar telur Skipulagsstofnun að skipulagsyfirvöldum Hafnarfjarðar hafi verið heimilt að meta fjölda bílastæða á öllu því svæði sem deiliskipulag miðbæjarins tekur til í heild en séu ekki bundin af því að mæta lágmarkskröfum um bílastæðafjölda á hverri lóð fyrir sig.

Kæra:
Kærendur gera athugasemd við að formaður skipulags- og umhverfisnefndar Hafnarfjarðar sé meðeigandi í fyrirtæki því sem hannaði húsið að Fjarðargötu 19. Þá er einnig bent á að verktaki sá sem reisi húsið sitji í byggingarnefnd bæjarins. Telja kærendur að þessir tveir aðilar séu vanhæfir til að sinna þessum störfum fyrir bæjarfélagið.

Umsögn:
Skipulagsstofnun telur sig ekki eiga að veita umsögn um önnur álitaefni en þau sem eru á sviði skipulags- og byggingarmála og tekur því ekki afstöðu til þessa kæruatriðis.

Eftir yfirferð kæru og gagna sem henni fylgdu telur Skipulagsstofnun að hafna beri kröfum kærenda um endurtekna grenndarkynningu og ógildingu byggingarleyfis vegna byggingar að Fjarðargötu 19, Hafnarfirði.”

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var í apríl 1999 auglýst breyting á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar og tók breytingin til lóðarinnar nr. 19 við Fjarðargötu.  Breytingin var auglýst og kynnt í samræmi við ákvæði 1. mgr. 26. greinar laga nr. 73/1997, en sætti ekki meðferð samkvæmt 7. mgr. 43. gr. sbr. 2. mgr. 26. greinar sömu laga, sem fjalla um minniháttar breytingu á deiliskipulagi að undangenginni grenndarkynningu.  Sú málsástæða kærenda að grenndarkynningu hafi verið áfátt á því ekki við í málinu en í kynningu á tillögunni, sem fram fór samkvæmt auglýsingu, voru m.a. sýndir deiliskipulagsuppdrættir svæðisins fyrir og eftir auglýsta breytingu.  Kynningarfundur með nágrönnum var haldinn umfram það sem lögskylt er og hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins hvaða gögn voru kynnt sérstaklega á þeim fundi.  Er það álit úrskurðarnefndarinnar að kynning umræddrar breytingar á deiliskipulagi hafi fullnægt ákvæðum greinar 5.5. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um form og efni.  Þá liggur fyrir að Skipulagsstofnun yfirfór tillöguna og samþykkti að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda með tilteknum lagfæringum á uppdráttum, sem gerðar voru.  Verða hinar kærðu samþykktir því ekki ógiltar á þeim grundvelli að undirbúningi þeirra hafi verið áfátt að því er kynningu varðar.
Samkvæmt staðfestu deiliskipulag fyrir miðbæ Hafnarfjarðar, að stofni til frá árinu 1983, er almennt ekki gert ráð fyrir því að bílastæðum sé ætlaður staður á lóðum einstakra húsa á svæðinu norðan Lækjargötu og vestan Strandgötu heldur er þeim komið fyrir á opnum svæðum í eigu bæjarins.  Á umræddu svæði er aðallega gert ráð fyrir miðbæjarstarfsemi svo sem verslun, þjónustu og stofnunum, en minna er um íbúðarrými.  Krafa er um eitt bílastæði fyrir hverja íbúð og hverja 60m² verslunar- og þjónustuhúsnæðis á svæðinu.  Heimilt var að ákveða í deiliskipulagi þær kröfur um fjölda bílastæða og það fyrirkomulag sem nú var rakið og var deiliskipulag fyrir miðbæjarsvæði Hafnarfjarðar með framangreindum ákvæðum staðfest af félagsmálaráðherra hinn 19. september 1983.  Verður ekki fallist á þau sjónarmið kærenda að endurskoða hefði þurft ákvæði deiliskipulagsins um bílastæði á svæðinu í heild, með hliðsjón af ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, áður en unnt hefði verið að veita byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Fjarðargötu 19.

Tillaga sú að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar varðandi Fjarðargötu 19, sem um er deilt í málinu, fól í sér gerð skipulagsáætlunar.  Bar skipulagsnefnd við gerð tillögunnar að gæta ákvæða skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, sbr. gr. 1.2 og 6. mgr. gr. 2.4. í nefndri reglugerð, að því marki sem tillagan fól í sér áform um aukið byggingarmagn eða breytta landnotkun fyrirhugaðrar byggingar á lóðinni, enda fólust í tillögunni ný skipulagsáform að þessu leyti.  Í áritun á skipulagsuppdrátt, er sýnir hinar umdeildu breytingar, segir m.a. að í breytingartillögunni felist breyting á legu og stærð byggingarreits úr 420m² í 600m² grunnflöt, breyting úr 2 hæðum og risi í þriggja hæða byggingu og að gert sé ráð fyrir íbúðum á efri hæðum.  Í samræmi við hið breytta skipulag verða 8 íbúðir á 2. og 3. hæð nýbyggingarinnar að Fjarðargötu 19 en ekki verður séð að gert hafi verið ráð fyrir íbúðum þessum í eldra deiliskipulagi.  Íbúðir þessar eru allar rúmlega 100m² að flatarmáli og skal því reikna hverri þeirra tvö bílastæði í samræmi við ákvæði 7. mgr. greinar 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, enda hefur ekki verið sýnt fram á að færri bílastæða sé þörf fyrir þessar íbúðir.

Fyrir breytingu deiliskipulagsins var byggingarreitur á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu 420m². Þurfti því 7 bílastæði til þess að fullnægja kröfum eldra skipulags um bílastæði fyrir 1. hæð nýbyggingar á lóðinni miðað við fullnýttan byggingarreit.  Grunnflötur nýbyggingar eftir hinu breytta skipulagi má vera allt að 600m² en er í raun 575,4m² samkvæmt samþykktum teikningum.  Fyrsta hæð hússins er því 155,4m² stærri en óbreytt deiliskipulag gerði ráð fyrir. Ber að reikna eitt bílastæði fyrir hverja 35m² þessarar stækkunar, enda um byggingarmagn að ræða sem ekki var ráðgert í eldra skipulagi.  Er bílastæðaþörf vegna stækkunarinnar 4 stæði, reiknað í heilum stæðum. 

Samkvæmt framansögðu þarf að sjá fyrir 16 stæðum vegna íbúðanna í húsinu og 11 stæðum vegna verslunar- og þjónusturýmis á 1. hæð.  Í bílakjallara og á lóð hússins eru 16 bílastæði, sem samsvarar kröfu um fjölda bílastæða vegna íbúða í húsinu.  Í samræmi við skilmála deiliskipulags svæðisins er heimilt að leysa þörf fyrir þau 11 bílastæði sem á vantar með því að ætla þeim stað á sameiginlegum bílastæðum á svæðinu.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er þegar fyrir hendi nægur fjöldi bílastæða á svæðinu til þess að fullnægja kröfum um fjölda stæða fyrir nýbygginguna að Fjarðargötu 19 miðað við framangreindar forsendur sem úrskurðarnefndin telur að leggja beri til grundvallar við útreikning á fjölda bílastæða vegna byggingarinnar.  Eru því ekki efni til þess að ógilda hinar kærðu ákvarðanir um byggingarleyfi fyrir nýbyggingunni að Fjarðargötu 19 á þeim grundvelli að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulagsreglugerðar um fjölda bílastæða vegna hennar.  Þá verður ekki heldur fallist á að byggingarleyfið fari í bága við ákvæði greinar 64.3. og 64.5. í byggingarreglugerð nr. 441/1998, enda eiga ákvæði þessi því aðeins við að ekki sé annað ákveðið í deiliskipulagi, sbr. greinar 64.1. og 64.2. í sömu reglugerð.

Fallist er á það með kærendum að bæði formaður skipulags- og umferðarnefndar og einn af föstum fulltrúum í byggingarnefnd, hafi báðir verið vanhæfir til setu í nefndunum þegar fjallað var um tillögu að breyttu skipulagi og byggingarmál vegna Fjarðagötu 19, en um hæfi nefndarmannanna gilda ákvæði 19. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. 47. grein þeirra laga og 4. mgr. 6. greinar og 3. málsl. 1. mgr. 39 greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Hins vegar liggur fyrir að báðir þessir nefndarmenn viku sæti, hvor í sinni nefnd, þegar fjallað var þar um málefni tengd Fjarðargötu 19.  Var þannig gætt ákvæða 19. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 við meðferð málsins í báðum nefndunum og leiðir vanhæfi nefndarmanna því ekki til ógildingar hinna kærðu ákvarðana í málinu.

Samkvæmt framansögðu er kröfum kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna aukins málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilt verði ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. júní 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar, hvað varðar Fjarðargötu 19, og ákvarðanir byggingarnefndar Hafnarfjarðar og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 21. júlí, 22. júlí og 6. ágúst 1999 um að veita leyfi til að byggja nýbyggingu á lóðinni nr. 19 við Fjarðargötu í Hafnarfirði.

54/1999 Efnistaka

Með

Ár 1999, fimmtudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/1999; kæra Náttúruverndar ríkisins á ákvörðun sveitarstjórnar Eyrarsveitar frá 21. október 1999 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr malarrifi austan Grundarfjarðar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar, dags. 29. október 1999, sendir Náttúruvernd ríkisins nefndinni  erindi er varðar framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórn Eyrarsveitar veitti Vegagerðinni til efnistöku úr malarrifi skammt austan Grundarfjarðar hinn 21. október 1999.  Telur Náttúruvernd ríkisins að fella beri umrætt framkvæmdaleyfi úr gildi.

Málavextir:  Vegagerðin í Borgarnesi sótti um leyfi til efnistöku úr malarrifi austan Grundarfjarðar vegna vegaframkvæmda við Búlandshöfða.  Sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi til efnistökunnar hinn 21. október 1999 og hefur sveitarstjóri upplýst að athugun hafði áður farið fram á efnistökustaðnum.  Kveður sveitarstjóri efnistökuna hafa verið nauðsynlega þar sem efnistökustaðir, sem samþykktir hafi verið við mat á umhverfisáhrifum vegaframkvæmdanna, hafi ekki reynst fullnægjandi fyrir verkið.  Í kæru Náttúruverndar ríkisins kemur fram að í gildi sé staðfest aðalskipulag fyrir þéttbýli Grundarfjarðar frá árinu 1985 en ekki hafi verið staðfest aðalskipulag fyrir dreifbýli Eyrarsveitar.
 
Niðurstaða:  Í máli þessu leitar Náttúruvernd ríkisins úrlausnar um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar.  Eru málsástæður kæranda þær, að óheimilt hafi verið að veita umrætt framkvæmdaleyfi fyrr en að fenginni umsögn stofnunarinnar, sbr. 47. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999.  Hafi því ekki verið staðið rétt að útgáfu framkvæmdaleyfisins og beri því að fella það úr gildi.

Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til úrlausnar hvort vísa beri því frá úrskurðarnefndinni. Þykir hvorki ljóst að það sé á valdsviði nefndarinnar að fella úrskurð um kæruefni málsins né að kærandi geti átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni.

Samkvæmt 74. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd verður ágreiningi um ákvörðun er varðar framkvæmd þeirra laga skotið til umhverfisráðherra. Verður ekki séð að mál er varða framkvæmd náttúruverndarlaga eða brot gegn þeim geti með beinum hætti komið til úrlausnar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Eftir stendur þó, að í málinu er kærð útgáfa framkvæmdaleyfis sem sveitarstjórn veitti.  Á það undir nefndina að úrskurða um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, þar á meðal um undirbúning ákvörðunar um útgáfu framkvæmdaleyfis, komi fram krafa um það frá aðila, sem telja verður að eigi lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags og byggingarlaga.

Náttúruvernd ríkisins er opinber stofnun sem hefur m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laga um náttúruvernd.  Er það og meðal verkefna hennar að láta í té umsagnir samkvæmt lögunum.  Ekki þykir leiða af eftirlitshlutverki stofnunarinnar að hún teljist eiga einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.  Það, að ekki var leitað lögbundinnar umsagnar kæranda í máli þessu, þykir ekki heldur eiga að leiða til þess að stofnunin eigi slíkra hagsmuna að gæta að játa beri henni málskotsrétt af þeirri ástæðu einni.  Þá nýtur stofnunin ekki lögfestrar kæruheimildar.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri máli þessu frá nefndinni vegna aðildarskorts kæranda.

Úrskurðarorð:

Kröfu Náttúruverndar ríkisins um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Eyrarsveitar frá 21. október 1999 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr malarrifi austan Grundarfjarðar er vísað frá úrskurðarnefndinni.

53/1999 Reiðvegur

Með

Ár 1999, fimmtudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/1999; kæra Náttúruverndar ríkisins á ákvörðun hreppsnefndar Bólstaðarhlíðarhrepps frá 7. október 1999 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir gerð reiðvegar í Langadal.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar, dags. 29. október 1999, sendir Náttúruvernd ríkisins nefndinni til umfjöllunar erindi er varðar framkvæmdaleyfi sem hreppsnefnd Bólstaðarhlíðarhrepps veitti hinn 7. október 1999 til lagningar reiðvegar í Langadal, Austur- Húnavatnssýslu.  Skilja verður erindi kæranda sem kröfu um að ákvörðun hreppsnefndar um að veita framkvæmdaleyfið verði felld úr gildi.

Málavextir:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti hestamannafélag um leyfi hreppsnefndar Bólstaðarhlíðarhrepps til lagningar reiðvegar í hlíð Skeggjastaðafjalls í Langadal, um það bil 2,7 km að lengd.  Fyrir lá samþykki landeigenda, dags. 4. september 1999.  Erindið var tekið fyrir á fundi hreppsnefndar hinn 27. september 1999, en formlegt framkvæmdaleyfi var veitt á fundi nefndarinnar hinn 7. október 1999.  Í lok september sl. varð S, eftirlitsráðgjafi Náttúruverndar ríkisins á Norðurlandi, vör við framkvæmdir við reiðveginn og gerði kæranda viðvart um málið.  Vann eftirlitsráðgjafinn skýrslu um málið og kynnti sér aðstæður á vettvangi og viðhorf oddvita Bólstaðarhlíðarhrepps, skipulagsfulltrúa svæðisins og arkitekts, sem vinnur að gerð aðalskipulags fyrir hreppinn.  Skýrsla þessi barst Náttúruvernd ríkisins hinn 20. október 1999.  Í framhaldi af móttöku skýrslunnar óskaði stofnunin eftir upplýsingum frá Skipulagsstofnun um það hvaða umfjöllun málið hefði fengið hjá Skipulagsstofnun og hvort það hefði fengið lögmæta afgreiðslu áður en ráðist hafi verið í framkvæmdir.

Með bréfi, dags. 27. október 1999, óskaði Skipulagsstofnun upplýsinga sveitarstjórnar um það hvernig staðið hefði verið að veitingu leyfisins.  Er tekið fram í bréfinu að það sé mat stofnunarinnar að umrædd reiðvegagerð sé framkvæmdaleyfisskyld skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br.  Hafi stofnuninni ekki borist neitt erindi sveitarstjórnar þar sem óskað hafi verið meðmæla stofnunarinnar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna.  Fyrirspurn þessari svaraði hreppsnefnd með bréfi, dags. 1. desember 1999, þar sem rakin eru sjónarmið hreppsnefndar í málinu.  Kemur þar m.a. fram að oddviti hafi haft samráð við skipulagsfulltrúa og hafi honum verið falið að hafa samráð við framkvæmdaaðila en jafnframt hafi hann haft samband við Skipulagsstjóra ríkisins um málið.  Hafi skipulagsfulltrúinn ennfremur haft samráð við arkitekt, sem vinni að gerð aðalskipulags fyrir hreppinn.  Þá hafi skipulagsfulltrúinn sagt framkvæmdina langt innan þeirra marka að þörf væri mats á umhverfisáhrifum.  Eru hörmuð þau mistök að ekki skyldi hafa verið haft samráð við Náttúruvernd ríkisins um málið en beðið um biðlund í 2 – 3 ár.  Er það von hreppsnefndar að það takist að vinna þannig að málum að umrædd slóð verði ekki áberandi í landslaginu og komi að góðum notum fyrir hestamenn.

Niðurstaða:  Í máli þessu leitar Náttúruvernd ríkisins úrlausnar um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar.  Eru málsástæður kæranda þær, að óheimilt hafi verið að veita leyfi til umræddrar framkvæmdar fyrr en að undangengnu mati á umhverfisáhrifum.  Jafnframt hafi borið að afla meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. ákvæða til bráðbirgða með lögum nr. 73/1997, enda sé ekki í gildi staðfest aðalskipulag fyrir umrætt svæði.  Loks sé framkvæmdin ekki í samræmi við 34. og 35. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til úrlausnar hvort vísa beri því frá úrskurðarnefndinni.  Hvorki þykir einsýnt að það sé á valdsviði nefndarinnar að fella úrskurð um kæruefni málsins né að kærandi geti átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum fer umhverfisráðherra með yfirstjórn þeirra mála, sem lögin taka til.  Verður af lögunum ráðið að það sé á valdsviði umhverfisráðherra að skera úr um það hvort tiltekin framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum komi upp ágreiningur um það. 

Samkvæmt 3. tl. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 73/1997 er sveitarstjórn heimilt að leyfa einstakar framkvæmdir án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.  Er heimilt að vísa niðurstöðu Skipulagsstofnunar varðandi slíkt erindi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Í máli þessu var ekki leitað meðmæla Skipulagsstofnunar og liggur því ekki fyrir kæranleg niðurstaða stofnunarinnar samkvæmt tilvitnuðu ákvæði.

Samkvæmt 74. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd verður ágreiningi um ákvörðun er varðar framkvæmd þeirra laga skotið til umhverfisráðherra. Verður ekki séð að mál er varða framkvæmd náttúruverndarlaga eða brot gegn þeim geti með beinum hætti komið til úrlausnar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það ekki meðal lögbundinna verkefna úrskurðarnefndarinnar að leysa úr ágreiningi um þau efnisatriði sem kærandi byggir á í málinu.  Eftir stendur þó, að í málinu er kærð útgáfa framkvæmdaleyfis sem sveitarstjórn veitti.  Á það undir nefndina að úrskurða um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, þar á meðal um undirbúning ákvörðunar um útgáfu framkvæmdaleyfis, komi fram krafa um það frá aðila, sem telja verður að eigi lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Náttúruvernd ríkisins er opinber stofnun, sem hefur m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laga um náttúruvernd.  Ekki þykir leiða af eftirlitshlutverki stofnunarinnar að hún teljist eiga einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá nýtur stofnunin ekki lögfestrar kæruheimildar.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri máli þessu frá nefndinni vegna aðildarskorts kæranda.

Úrskurðarorð:

Kröfu Náttúruverndar ríkisins um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Bólstaðarhlíðarhrepps frá 7. október 1999 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir reiðvegi í Langadal er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

30/1999 Vatnsendablettur

Með

Ár 1999, fimmtudaginn 23. desember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 30/1999, kæra J vegna synjunar byggingarnefndar Kópavogs á umsókn um endurnýjun leyfis til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102, Kópavogi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. júní 1999, sem barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Othar Örn Petersen hrl., f.h. J, Vatnsendabletti 102, Kópavogi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 12. maí 1999 um að synja umsókn kæranda um endurnýjun leyfis til stækkunar bílskúrs að Vatnsendabletti 102, Kópavogi.  Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 14. sama mánaðar, og staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 25. maí 1999.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt leyfi til að hefja framkvæmdir á lóð sinni í samræmi við umsókn sína.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Málavextir:  Kærandi mun hafa keypt fasteignina Vatnsendablett 102, íbúðarhús ásamt bílskúr, í febrúar 1994.  Húsið hafði áður verið sumarbústaður en á árinu 1988 hafði, að sögn hans, fengist leyfi til að stækka bústaðinn og breyta honum í íbúðarhús.  Hinn 10. september 1987 hafði verið veitt leyfi til að stækka bílskúr á lóðinni úr 21 fermetra í 36 fermetra, en síðar, eða hinn 12. september 1991, var veitt leyfi til þess að stækka skúrinn í 45 fermetra.  Leyfi þessi höfðu hins vegar ekki verið nýtt og höfðu því ekki verið gerðar þær breytingar á skúrnum, sem leyfðar höfðu verið.

Hinn 28. apríl 1998 sótti kærandi um leyfi til  að stækka umræddan skúr í 50 fermetra.  Erindi þessu var vísað til skipulagsnefndar Kópavogsbæjar og kom það til umfjöllunar á fundi nefndarinnar hinn 2. júní 1998.  Taldi nefndin sér ekki fært að afgreiða erindið meðan ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag af svæðinu.  Var þessi niðurstaða staðfest á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 4. júní 1998.

Hinn 8. september 1998 sótti kærandi á ný um leyfi til stækkunar bílskúrsins í 50 fermetra enda hafði fyrra erindi hans ekki komið til endanlegrar afgreiðslu byggingarnefndar.  Var erindi kæranda hafnað á fundi byggingarnefndar hinn 16. september 1998.  Voru færð fram þau rök fyrir þeirri niðurstöðu, að nefndin sæi sér ekki fært að samþykkja erindið þar eð deiliskipulag lægi ekki fyrir.  Ákvörðun þessi var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 22. september 1998 og var kæranda tilkynnt um þessa niðurstöðu í málinu. 

Kærandi vildi ekki una þessum málalokum og skaut málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 26. október 1998.  Með úrskurði, uppkveðnum hinn 29. desember 1998, felldi úrskurðarnefnd úr gildi ákvörðun byggingarnefndar frá 16. september 1998 um að synja erindi kæranda og var lagt fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu erindis hans í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.

Byggingarnefnd tók umsókn kæranda til meðferðar að nýju og vísaði málinu til skipulagsnefndar til nánari skoðunar.  Á fundi byggingarnefndar hinn 12. maí 1999 var lögð fram bókun skipulagsnefndar um málið frá 30. mars 1999, svohljóðandi:  „Aðeins hefur verið samþykkt deiliskipulag af litlum hluta Vatnsendalands, þar af er íbúðarhverfi með um 40 íbúðum á stórum lóðum, svokölluð Hvörf.  (Þetta hverfi hefur stundum verið kallað „Sveit í bæ”).  Í Aðalskipulagi Kópavogs er hins vegar gert ráð fyrir að í Vatnsendahverfi muni búa um 5000 manns í framtíðinni.  Það þýðir að á þeim íbúðarsvæðum sem eftir er að skipuleggja verður nýtingarhlutfall lands mun hærra en í Hvörfunum.  Í frumdrögum bæjarskipulags að skipulagi hverfisins er gert ráð fyrir að á því svæði sem Vatnsendablettur 102 stendur verði þétt byggð, að öllum líkindum fjölbýlishús.  Kópavogsbær verður því að öllu óbreyttu að kaupa upp núverandi húseignir á svæðinu.  Þótt svo að tekin verði sú ákvörðun að sérbýlishúsabyggð verði á svæðinu er ljóst að það fyrirkomulag sem sótt er um að Vatnsendabletti 102 (þ.e. að bílskúrinn standi í rúmlega 25 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu) mun hamla skipulagi t.d. varðandi lóðarstærðir og aðkomu.  Því sér nefndin sér ekki fært annað en að hafna erindinu.”

Synjaði byggingarnefnd erindi kæranda með vísun til þessarar bókunar skipulagsnefndar.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi dags 9. júní 1999 eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á eftirfarandi atriðum:

Kærandi telur byggingarnefnd Kópavogsbæjar ekki virða áðurgreindan úrskurð úrskurðarnefndarinnar.  Í úrskurðinum komi fram að ekki sé unnt að synja um byggingarleyfi einungis með vísan til þess að ekkert deiliskipulag liggi fyrir og það eitt að deiliskipulag skorti standi ekki í vegi fyrir samþykki á umsókn kæranda.  Ennfremur sé vísað til aðstæðna í Vatnsendalandinu þar sem byggð hafi risið á undanförnum árum og að kæranda hafi áður verið veitt byggingarleyfi, sem hafi fallið úr gildi.

Af hálfu byggingarnefndar sé nú vísað til bókunar skipulagsnefndar þar sem vísað sé til frumdraga af skipulagi hverfisins og af þeim sökum sé ekki talið unnt að fallast á stækkun bílskúrs á lóð kæranda.  Ekki sé hins vegar vísað til þess hvernig vinnu við „frumdrögin” miði eða hvenær búast megi við að skipulagið verði samþykkt.  Reyndar segi jafnframt í bókuninni að eftir sé að skipuleggja það svæði, sem fasteign kæranda sé á.  Þá hafi kærandi kannað sérstaklega hvort þessi „frumdrög” lægju frammi til kynningar og hafi hann reynt að afla upplýsinga um þetta en engin svör fengið.

Kærandi telur að ekki sé unnt að synja umsókn hans um stækkun bílskúrs, sem sé minni háttar framkvæmd, með vísan til óljósra hugmynda um skipulag, sem óvíst sé að muni koma til framkvæmda.  Byggingarnefnd sé einungis með þessu að koma sér undan því að framfylgja áðurgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar og tefja málið.

Fyrir liggi að kæranda hafi áður verið veitt byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrsins.  Fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við núverandi byggð á svæðinu, sem telja verði ígildi deiliskipulags meðan formlegt deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt.  Það hafi því ekki verið unnt að meina kæranda að hagnýta sér eign sína með þeim hætti sem Kópavogsbær hafi ítrekað gert.  Ekkert deiliskipulag liggi fyrir af svæðinu og hugmyndir einstakra nefndarmanna í skipulagsnefnd bæjarins um framtíðarskipulag geti ekki girt fyrir hagnýtingu kæranda á eign sinni.

Þá tekur kærandi fram að í afstöðu skipulagsnefndar felist óljós sjónarmið um uppkaup eigna á þessu svæði einhvern tímann í framtíðinni.  Ekki sé mælt nánar fyrir um hvenær af því verði.  Samkvæmt þessu sé kæranda með öllu fyrirmunað að nýta eign sína með þeim hætti, sem hann hafi hug á, í samræmi við núverandi byggð á svæðinu og komi þetta jafnframt í veg fyrir að hann geti selt hana og rýri verðgildi eignarinnar.  Telur kærandi að slík takmörkun á eignar- og hagnýtingarrétti hans fái ekki staðist.

Vegna afstöðu skipulagsnefndar kveðst kærandi hafa sent skriflega fyrirspurn til Kópavogsbæjar og óskað  nánari skýringa á því sem fram komi í greindri bókun, m.a. um tilvitnuð frumdrög að skipulagi, og nánari upplýsinga um hvenær ætlunin sé að kaupa eignir á svæðinu.  Þessari fyrispurn hafi ekki verið svarað.

Ennfremur telur kærandi mikilvægt að hafa í huga að ákvarðanir Kópavogsbæjar feli í sér inngrip í eignarráð hans og að gera verði strangar kröfur til þeirra af þeim sökum.  Meðan ekkert deiliskipulag liggi fyrir verði ekki séð að byggingarnefnd sé stætt á því að synja honum um endurnýjun byggingarleyfis fyrir stækkun á bílskúr sínum.  Málsmeðferð bæjarins hafi valdið sér bæði tjóni og óþægindum.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. ágúst 1999, vekur kærandi athygli á ákvæðum í Aðalskipulagi Kópavogs 1992 – 2012, m.a. um þéttleika byggðar, og telur kærandi „frumdrög” að deiliskipulagi viðkomandi svæðis stangast á við ákvæði í Aðalskipulagi.

Málsrök byggingarnefndar:  Af hálfu byggingarnefndar Kópavogs er vísað til fyrirliggjandi gagna í málinu, bókana byggingarnefndar og skipulagsnefndar um málið og umsagnar bæjarlögmanns, dags. 14. desember 1999, sem byggingarnefnd leitaði um álitaefni málsins.  Í umsögn bæjarlögmanns segir að rétt hafi verið að hafna erindi leigulóðarhafa (kæranda) um stækkun bílskúrsins.  Um rökstuðning vísist til tilvitnaðrar bókunar skipulagsnefndar.  Fellst bæjarlögmaður ekki á málsástæður kæranda, sem fram komi í stjórnsýslukærunni, og telur að heimildarákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 verði ekki með nokkrum hætti skýrt svo að sveitarstjórn verði skylduð til útgáfu byggingarleyfis gegn rökstuddri umsögn skipulagsnefndar og byggingarnefndar.  Hafinn sé undirbúningur að gerð skipulags fyrir svæðið, en þegar endanlegar tillögur liggi fyrir verði þær kynntar skv. skipulags- og byggingarlögum.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin hefur ekki leitað álits Skipulagsstofnunar um kæruefnið máls þessa.  Hins vegar liggur fyrir umsögn stofnunarinnar í fyrra máli kæranda um sama efni og er þar á það bent að það sé ekki fortakslaus skylda að til grundvallar byggingarleyfi liggi deiliskipulag, þó það sé meginreglan.  Sérstaklega eigi þetta við um minni háttar framkvæmdir eins og stækkun bílskúrs, sem áður hefur verið veitt leyfi fyrir.  Er vísað til ákvæða 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í þessu sambandi, sbr. 7. mgr. 43. greinar sömu laga.

Niðurstaða:  Í máli þessu er á ný til úrlausnar hvort byggingarnefnd hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi með þeim rökum sem fram koma í umsögn skipulagsnefndar í málinu.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði hinn 29. desember 1998 þegar skorið úr um það að byggingarnefnd hafi ekki verið heimilt að hafna umsókn kæranda með þeim rökum að ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag af svæðinu.

Í forsendum úrskurðarins frá 29 desember 1998 segir m.a:  „Í eignarréttindum að fasteign felast réttindi til umráða og hagnýtingar eignarinnar, þar á meðal réttur til byggingar mannvirkja á lóð eða landi.  Þessum réttindum eru þó settar ýmsar almennar skorður í lögum, m.a. í skipulags- og byggingarlögum, en með þeim er stjórnvöldum fengið víðtækt vald til þess að taka ákvarðanir um þróun byggðar, landnotkun og gerð og fyrirkomulag einstakra mannvirkja.  Í samræmi við heimildir eignarréttarins og þau markmið, sem sett eru fram í 1. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, verður að telja það meginreglu að veita beri landeiganda eða lóðarhafa byggingarleyfi samkvæmt umsókn enda sé fyrirhuguð framkvæmd í samræmi við gildandi byggingar- og skipulagslöggjöf og skipulag á viðkomandi svæði og raski ekki rétti annarra.

Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var lögfest skylda til að gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Það var þó greinilega ekki ætlun löggjafans að girða með öllu fyrir veitingu byggingarleyfa þar sem deiliskipulag hefur ekki verið samþykkt, enda ljóst að langan tíma getur tekið að ljúka gerð aðal- og deiliskipulags á landinu öllu eftir því sem við á og að er stefnt með nefndum lögum.  Verður þetta m.a. ráðið af ákvæði til bráðabirgða í niðurlagi laganna þar sem fram kemur að sveitarfélögum eru ætluð 10 ár frá gildistöku laganna til þess að ljúka gerð aðalskipulags svo og að sveitarstjórn getur leyft einstakar framkvæmdir án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.  Þá er í 2. mgr. 23. greinar laga nr. 73/1997 sjálfstæð heimild til þess að veita byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum enda þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, en áskilin er þá sérstök málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. laganna.

Enda þótt ákvæði 2. mgr. 23. greinar laga nr. 73/1997 sé að formi til heimildarákvæði verður ekki talið að sveitarstjórn sé í sjálfsvald sett að ákveða hvort veita beri byggingarleyfi á grundvelli heimildarinnar eða ekki.  Er ljóst af ákvæði 7. mgr. 43. greinar laga nr. 73/1997 að byggingarnefnd ber við þessar aðstæður að vísa umsókn til skipulagsnefndar, sem fjalla skal um málið og hlutast til um grenndarkynningu, áður en umsóknin hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar en við þá afgreiðslu ber að líta til réttar umsækjanda og skal þess gætt að sá réttur verði ekki fyrir borð borinn sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1997.

Í máli því sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að samkvæmt gildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði.  Þar er þegar fyrir nokkur byggð og hafa einstök hús á svæðinu verið samþykkt til íbúðar, m. a. hús kæranda.  Þá liggur fyrir að áður hafði verið veitt leyfi til stækkunar umrædds skúrs á lóð kæranda en að það byggingarleyfi hafði ekki verið nýtt innan lögmælts frests og því fallið úr gildi.

Það er skoðun úrskurðarnefndarinnar að eins og atvikum er háttað í málinu hafi byggingarnefnd borið að fjalla um umsókn kæranda í samræmi við ákvæði 2. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og taka að því búnu rökstudda ákvörðun um erindið sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Sá rökstuðningur skipulagsnefndar og byggingarnefndar, að ekki hafi verið unnt að fallast á erindi kæranda þar sem deiliskipulag lá ekki fyrir, telst ekki fullnægjandi, enda stendur það eitt, að deiliskipulag skorti, ekki í vegi fyrir því að umsókn kæranda hefði getað komið til efnislegrar afgreiðslu og eftir atvikum verið samþykkt.”

Samkvæmt framansögðu hefur úrskurðarnefndin þegar komist að þeirri niðurstöðu að fjalla hefði átt um umsókn kæranda í samræmi við ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, enda samrýmdist umsóknin gildandi Aðalskipulagi Kópavogsbæjar.  Var það jafnframt niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að byggingarnefnd hafi verið óheimilt að hafna umsókn kæranda á þeirri forsendu einni að ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag af svæðinu.  Þrátt fyrir þetta synjaði byggingarnefnd umsókninni á ný með vísun til bókunar skipulagsnefndar, þar sem m.a. segir að þótt svo að tekin verði sú ákvörðun að sérbýlishúsabyggð verði á svæðinu sé ljóst að það fyrirkomulag sem sótt sé um að Vatnsendabletti 102 (þ.e. að bílskúrinn standi í rúmlega 25 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu) muni hamla skipulagi, t.d. varðandi lóðarstærðir og aðkomu.

Þær ástæður, sem tilgreindar eru í bókun skipulagsnefndar og lagðar voru til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, eru að mati úrskurðarnefndarinnar ekki meðal lögmætra ástæðna sem lagðar verða til grundvallar synjun umsóknar um leyfi til breytinga á húsi í þegar byggðu hverfi.  Væri svo gætu byggingaryfirvöld synjað hvers konar umsóknum um leyfi til breytinga á mannvirkjum í þegar byggðum hverfum, þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir, en með því væri gengið gegn lögvörðum rétti eigenda fasteigna til eðlilegrar hagnýtingar og umráða eigna sinna.  Er enda ráð fyrir því gert í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að veita megi byggingarleyfi við slíkar aðstæður að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna. 

Við umfjöllun umhverfisnefndar Alþingis um frumvarp það, sem síðar var að lögum nr. 73/1997, gerði nefndin fjölmargar tillögur til breytinga á frumvarpinu.  Meðal annars lagði nefndin til að að bætt yrði inn í 43. grein laganna ákvæði um að byggingarnefnd sé heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til niðurrifs eða breytinga á húsi í allt að tvö ár frá því að umsókn barst nefndinni.  Segir í áliti nefndarinnar að þó sé gert ráð fyrir því að slík frestun sé aðeins heimil ef deiliskipulag hafi ekki verið samþykkt, breytingar á því standi yfir eða ef setja eigi ákvæði um hverfisvernd í deiliskipulag.  Segir í nefndarálitinu að ákvæðið sé að norskri fyrirmynd og að nefndin telji nauðsynlegt að slík frestunarheimild verði sett í lög í ljósi þróunar þeirrar sem átt hafi sér stað og vegna tveggja nýgenginna úrskurða umhverfisráðherra um niðurfellingu á synjun byggingarnefndar Reykjavíkur um heimild til niðurrifs á húsum.

Tillaga umhverfisnefndar um greint ákvæði var samþykkt í meðförum Alþingis á lagafrumvarpinu með þeirri breytingu að vald til frestunar á afgreiðslu umsóknar var fengið sveitarstjórn í hendur.  Er umrætt ákvæði í 6. mgr. 43. gr. laganna.  Bendir tillaga umhverfisnefndar og samþykkt hennar til þess að það hafi verið skilningur löggjafans að ekki væri sjálfkrafa heimilt að synja umsóknum um niðurrif eða breytingu húsa þar sem ekki væri í gildi deiliskipulag heldur þyrfti að vera fyrir hendi heimild til þess að fresta afgreiðslu slíkra umsókna tímabundið og skilyrt, teldist nauðsyn bera til af skipulagslegum ástæðum.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið færðar fram lögmætar ástæður fyrir hinni kærðu ákvörðun og beri því að fella hana úr gildi.  Er enn lagt fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kæranda til meðferðar í samræmi við ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Vilji byggingarnefnd ná fram þeim markmiðum sem fram koma í umsögn skipulagsnefndar í málinu ber henni að leita afstöðu bæjarstjórnar til þess hvort beita eigi heimildarákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og fresta umsókninni með þargreindum skilyrðum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna í úrskurðarnefndinni og gagnaöflunar, en einnig tafðist málið meðan beðið var umsagnar bæjarlögmanns, sem byggingarnefnd óskaði eftir að koma að í málinu.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 12. maí 1999 um að hafna umsókn J um  endurnýjun á byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs að Vatnsendabletti 102, Kópavogi er felld úr gildi.  Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd Kópavogsbæjar að taka umsóknina til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu erindisins í samræmi við ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Nefndin getur þó einnig leitað afstöðu bæjarstjórnar til þess hvort beitt verði heimildarákvæði 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 um frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda með þeim skilyrðum sem í ákvæðinu greinir.

28/1999 Smiðjuvegur

Með

Ár 1999, fimmtudaginn 23. desember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/1999; kæra eiganda hússins nr. 30 við Smiðjuveg í Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir áður gerðum veggjum úr steinsteypu á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. júní 1999, sem barst nefndinni hinn 4. sama mánaðar, kærir lögmaður Húseigendafélagsins f.h. J, Holtaseli 32, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn hans um byggingarleyfi fyrir áður gerðum veggjum á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg í Kópavogi.  Hin kærða ákvörðun var samþykkt á fundi bæjarráðs Kópavogsbæjar hinn 6. maí 1999.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 27. nóvember 1975 samþykkti byggingarnefnd Kópavogs teikningar af húsunum nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi ásamt uppdrætti af fyrirkomulagi á lóð húsanna.  Hús þessi eru sambyggð, tvær hæðir hvert, en vegna landhalla eru efri hæðir húsanna í götuhæð að sunnanverðu og neðri hæðir niðurgrafnar á þeirri hlið, en að norðanverðu eru neðri hæðir um það bil í götuhæð.  Húsin eru ætluð til atvinnustarfsemi.  Umrædd hús munu hafa verið byggð á árunum eftir 1975 en lóðarleigusamningar fyrir húsin eru gerðir hinn 8. mars 1977 (nr. 34), 13. mars 1978 (nr. 32) og 27. nóvember 1978 (nr. 30).  Snemma árs 1980 fékk eigandi hússins nr. 34 leyfi til að stækka neðri hæð hússins með því að byggja kjallara undir bílastæði efri hæðar þess en samsvarandi stækkun neðri hæðar hússins nr. 32 var samþykkt snemma árs 1982.  Eftir byggingu kjallaranna eru bílastæði við efri hæðir húsanna ofan á steyptri loftplötu viðbyggingarinnar en upp úr plönunum standa fyrirferðarmiklir steinsteyptir reyklosunarstokkar.  Er slíkur stokkur tilheyrandi húsinu nr. 32 fram af skilvegg efri hæða húsanna nr. 30 og 32 og er stokkur þessi, samkvæmt samþykktri teikningu, 50 cm á hæð, 1,1 metri á breidd og 8,2 metrar að lengd, samsíða mörkum húsanna, en inni á þeim hluta lóðarinnar sem er framan við húsið nr. 32.  Er 1,7 metra fjarlægð frá húsvegg að þeim enda stokksins sem veit að húsinu.

Í lok ágúst og byrjun september 1998 reisti eigandi hússins nr. 30 við Smiðjuveg steinsteyptan vegg frá mótum húsanna nr. 30 og 32 á mörkum lóðarhluta þeirra sem eru fram af húsunum.  Er veggur þessi 85 – 90 cm á hæð og nær fram undir götu þá sem liggur meðfram lóð húsanna.  Endar hann þar í veggstubb sem byggður er hornrétt á vegginn og er samsíða götunni inn á lóðarhluta hússins nr. 30.  Á 8,2 metra bili er veggur þessi samsíða áðurnefndum reyklosunarstokki og byggður fast upp að honum.  Auk veggjar þessa byggði eigandi hússins nr. 30 hliðstæðan vegg að norðanverðu milli lóðarhlutanna framan við jarðhæðir sömu húsa, en fyrir lá samþykki eiganda neðri hæðar hússins nr. 32 fyrir veggnum að norðanverðu við húsin.

Eigendur efri hæðar Smiðjuvegar 32 mótmæltu þessum framkvæmdum á lóðinni sunnan húsanna og komu á framfæri kvörtun við byggingarfulltrúa þegar veggirnir voru steyptir.  Hinn 10. september 1998 ritaði lögmaður þeirra bréf til byggingarfulltrúans í Kópavogi, þar sem þess var krafist að embætti byggingarfulltrúa hlutaðist til um það að veggirnir yrðu fjarlægðir og að gengið yrði frá lóðinni í fyrra horf.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. nóvember 1998.  Lágu þá fyrir nefndinni erindi frá eigendum efri hæðar Smiðjuvegar 32, svo og bréf eiganda Smiðjuvegar 30, dags. 6. október 1998, ásamt umsögn bæjarlögmanns Kópavogs um málið, dags. 21. október 1998.  Vísaði byggingarnefnd málinu frá á grundvelli umsagnar bæjarlögmanns og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 10. nóvember 1998.  Þessari ákvörðun byggingarnefndar vildu eigendur efri hæðar Smiðjuvegar 32 ekki una og skutu málinu því til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 10. desember 1998.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 26. febrúar 1999 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um frávísun málsins.  Var lagt fyrir byggingarnefnd Kópavogs að taka til úrlausnar hvort veita skyldi byggingarleyfi fyrir veggjum þeim sem eigandi Smiðjuvegar 30 hafði byggt á sameiginlegri lóð húsanna nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi og skyldi gefa eiganda veggjanna kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og afla tilskilins samþykkis og hönnunargagna innan hæfilegs frests.

Með vísan til úrskurðar nefndarinnar óskaði kærandi í máli þessu eftir leyfi fyrir steyptum stoðveggjum að Smiðjuveg 30.  Byggingarnefnd tók erindið fyrir og frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum 24. mars 1999, með vísan í 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gaf málsaðilum kost á að kynna sér afstöðu byggingarnefndar og gögn málsins.

Á fundi byggingarnefndar 28. apríl 1999 var tekið fyrir erindi kæranda varðandi leyfi til að reisa steypta stoðveggi að Smiðjuvegi 30.  Var erindinu synjað þar sem samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 lægi ekki fyrir.  Taldi byggingarnefnd, með tilvísun til ákvæða 30., 33., 36. og 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og sérstaklega með vísun til 7., 8. og 10. töluliða A-liðar 41. gr., að samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 þyrfti fyrir framkvæmdum á lóð, þar með talið notkun og skiptingu á sameiginlegum bílastæðum.  Ennfremur hefði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með úrskurði sínum 26. febrúar 1999 úrskurðað að lóðin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg væri sameiginleg.

Þessari niðurstöðu vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 2. júní 1999 eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kröfu sína rökstyður kærandi með því að samþykki allra eigenda fyrir umræddum veggjum sé ekki nauðsynlegt.  Samkvæmt D-lið 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sé meginreglan sú að til ákvarðana um sameiginleg málefni þurfi samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við hlutfallstölur.  Þannig heyri það til undantekninga að aukinn meirihluti eða allir eigendur þurfi að samþykkja ákvörðun.  Það leiði af viðteknum lögskýringarreglum og sjónarmiðum að túlka beri undantekningar þröngt og séu jafnan líkur á því að til ákvarðana nægi samþykki einfalds meirihluta.

Kærandi bendir á að reglur 30. gr. fjöleignarhúsalaganna um það hvað sé veruleg, óveruleg eða smávægileg breyting séu háðar mati í hverju tilkviki.  Eins og fram komi í greinargerð með 30. gr. laganna hljóti ávallt að koma upp takmarkatilvik og verði að leysa þau þegar þau komi upp með hliðsjón af atvikum og staðháttum í hverju húsi.  Við úrlausn málsinsverði því að líta til aðstæðna að Smiðjuvegi 30 og hvernig staðið hafi verið að byggingu hússins, sbr. bréf hans til nefndarinnar, dags. 2. febrúar 1999, en þar komi fram að húsin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg, hafi verið byggð sem sjálfstæð hús og hafi kærandi byggt húsið nr. 30 og gengið frá lóð þess alfarið á eigin vegum og á eigin kostnað.  Í framkvæmd hafi ávallt verið litið á húsin sem sjálfstæð hús og viðhald þeirra og lóðarinnar hafi ekki verið sameiginlegt.  Þá hafi verið unnar ýmsar framkvæmdir á húsunum og lóðinni, án þess að samþykkis kæranda hafi verið aflað fyrir þeim.  Megi þar m.a. nefna reyklosunarstokka upp úr plötu á bílastæðum efri hæða á 32 og 34. Þá megi nefna að stórar innkeyrsludyr hafi verið settar í alla framhlið húss nr. 34 og stór innkeyrsla sett upp á nr. 32 af hálfu Jeppaþjónustunnar ehf., án þess að leitað hafi verið samþykkis kæranda.  Þessar breytingar hafa leitt til þess að bílastæðum hafi fækkað all verulega á Smiðjuvegi 32 og 34.

Kærandi kveður eigendur efri hæðar hússins nr. 32 reka bílaverkstæði og breytingar á jeppum og að á lóðinni hafa safnast bílar, gámar, olíutunnur og annað dót.  Bílastæðum fyrir viðskiptavini og starfsmenn hafi fækkað verulega við ofangreindar breytingar og hafi þetta allt leitt til verulegra óþæginda fyrir verslunina á nr. 30.  Aldrei hafi verið ágreiningur um afnotaskipti eða um það að lóðir nr. 30, 32 og 34 væru séreign fyrr en með nýjum eigendum efri hæðar nr. 32, sem vilji nýta lóðina fyrir framan nr. 30, þar sem þeir hafa lagt undir sig lóðina fyrir framan nr. 32 til einkanota, þannig að ótvírætt fari í bága við 34. – 36. gr. fjöleignarhúsalaganna.  Umræddir veggir séu því nauðsynlegir svo hagnýting lóðarinnar verði með eðlilegum hætti.

Hvað varði 33. gr. fjöleignarhúsalaganna, þar sem segi í 2. mgr. að óskiptum bílastæðum verði ekki skipt nema allir eigendur samþykki, bendi kærandi á að þar sé fyrst og fremst horft til formlegra eignaskipta, en greinin útiloki ekki að meirihluti eigenda, einfaldur eða aukinn, geti í einhverjum tilvikum tekið bindandi ákvörðun um einhvers konar óformlegri og ekki varanlega afnotaskiptingu, eins og fram komi í greinargerð með lögunum. Með umræddum veggjum sé því ekki um skiptingu bílastæða að ræða í skilningi 33. gr. fjöleignarhúsalaganna, sbr. 8. tl. A-liðar 41. gr. laganna.  Þá verði ekki séð að 10. tl. A-liðar 41. gr. um takmarkanir á ráðstöfunar- og hagnýtingarrétti eiganda yfir séreign eigi hér við, enda sé lóðin fyrir framan nr. 32 ekki séreign þeirra eigenda sem mótfallnir séu umræddum veggjum.

Málsrök eigenda efri hæðar Smiðjuvegar 32:  Björn Þorri Viktorsson hdl. hefur lagt fram greinargerð í máli þessu f.h. eigenda efri hæðar Smiðjuvegar 32.  Mótmælir hann alfarið sjónarmiðum þeim sem fram koma í kærunni, sérstaklega túlkun lögmanns kæranda á ákvæðum laga nr. 26/1994, varðandi það málefni sem hér er til úrlausnar.  Hafa beri í huga að um sé að ræða verulega breytingu á sameign hússins, þ.e. hinni sameiginlegu lóð.  Samþykki allra húseigenda þurfi því að liggja fyrir sbr. ákvæði 30., 31., sbr. og 41. gr. laganna.

Lögmaðurinn kveður umbjóðendur sína hafa óskað eftir viðræðum um málið strax í upphafi, er þeir hafi komist á snoðir um fyrirætlanir kæranda.  Því hafi kærandi hafnað alfarið og hafi hann allar götur síðan rekið mál þetta án nokkurs samráðs við þá né aðra sameigendur hússins. 

Þá er vakin athygli á því að aldrei hafi verið boðað til húsfundar vegna málsins og séu því allar ákvarðanir og meint samþykki í málinu ólögmæt, sbr. skýr ákvæði 42. gr. laga nr. 26/1994.

Telja verði að sjónarmið það sem sett er fram í 4. mgr. 27. gr. laganna um fjöleignarhús eigi við í máli þessu.  Því fremur sem um sé að ræða breytingu á hagnýtingu séreignar, sem hafi sérstök og veruleg óþægindi í för með sér fyrir sameiganda, hljóti sá hinn sami að þurfa að samþykkja breytingu á hagnýtingu sameignar, sem hafi í för með sér sérstök eða veruleg óþægindi fyrir hann.  Í þessu sambandi megi benda á það, að umþrættur veggur sé staðsettur alveg við göngudyr inn í húsnæði Jeppaþjónustunnar ehf. og hafi haft verulegar breytingar og óþægindi í för með sér hvað varði aðgengi að húsnæði fyrirtækisins.  Bent sé á niðurstöðu í sambærilegu máli í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málinu nr. 44/1998, sem kærandi hafi sjálfur lagt fram í máli þessu.

Af því sem að framan sé rakið megi ljóst vera að skv. ákv. 4. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 hafi byggingarnefnd verið rétt og skylt að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi eins og mál þetta sé vaxið.  Sé þess krafist að úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun byggingarnefndar í málinu.

Afstaða annarra eigenda Smiðjuvegar 32 og 34:  Fyrir liggur að Sólning hf, sem er eigandi neðri hæða húsanna nr. 32 og 34, hefur samþykkt byggingu veggja þeirra, sem um er deilt í málinu.  Teljast eignarhlutar félagsin vera 63,12% alls hússins nr. 32 og 58% hússins nr. 34 samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningum.  Eigandi efri hæðar hússins nr. 34 hefur ekki tekið afstöðu í málinu, hvorki með eða á móti byggingu hinna umdeildu veggja.

Málsrök byggingarnefndar:  Af hálfu byggingarnefndar Kópavogs hefur verið leitað álits bæjarlögmanns á kæruefni máls þessa.  Í áliti lögmannsins, sem byggingarnefnd vísar til sem málsraka í kærumálinu,  kemur fram að hann sé í meginatriðum sammála röksemdum kæranda og telur að líta verið til þess hvernig staðið hafi verið að byggingu húsanna nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg, en þau hafi verið byggð sem sjálfstæð hús og lóðarfrágangur hafi verið með sama hætti.  Hann telji hins vegar vafasamt að byggingarnefnd verði gert að úrskurða um það hvort samþykki allra eigenda þurfi til framkvæmda eða einungis meirihluta þeirra, aukins eða einfalds.  Það sé mat hans að þann ágreining verði að leysa á öðrum vettvangi áður en byggingarnefnd taki afstöðu til umsóknar um byggingarleyfi.

Málsgögn:  Auk þeirra gagna sem málsaðilar og byggingarnefnd hafa lagt fram í máli þessu styðst úrskurðarnefndin við gögn sem aflað var í fyrra kærumáli sömu aðila um margnefnda veggi.  Liggja fyrir uppdrættir af húsunum nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg og af lóð þeirra, auk lóðarsamnings fyrir hvert hús.  Einnig liggja fyrir upplýsingar um stækkun kjallara húsanna nr. 32 og 34 og breytingar á fyrirkomulagi lóðar samfara þeirri stækkun.  Auk þess hafði úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti og aflað ljósmynda af hinum umdeilda vegg, og húsum þeim og lóð er málið varðar.  Þá liggur og fyrir umsögn Skipulagsstofnunar um deiluefni málsaðila í fyrra máli.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið eru húsin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg sambyggð, en að öllu leyti séreignir eigenda.  Sérstakur lóðarleigusamningur er í gildi um hvert þessara húsa.  Er í 1. grein lóðarsamninganna tekið fram hvert sé flatarmál lóðar viðkomandi húss og vísað til uppdráttar.  Er ákvæði þetta svohljóðandi í lóðarleigusamningi fyrir húsið nr. 30: „ Lóðin er nr. 30 við Smiðjuveg.  Flatarmál hennar er 1294 fermetrar og lögun hennar eins og sýnt er á meðfylgjandi uppdrætti. (Stærð lóðar:  Sérlóð 400 m² + 894 m² sem er hluti hússins nr. 30 af 2973 m² sameiginlegri lóð húsanna nr. 30, 32 og 34 v/Smiðjuv.)”  Sambærilegt ákvæði er í lóðarleigusamningum fyrir húsin nr. 32 og 34.  Í samningunum er samhljóða ákvæði þar sem segir að húsin hafi sameiginlega lóð og beri lóðarhöfum að hafa samráð um frágang hennar.  Í sama ákvæði segir að óheimilt sé að girða lóðir og að eitt bílastæði skuli vera á lóðinni fyrir hverja 53 m² gólfflatar í húsi auk eins stæðis fyrir hvert fyrirtæki.

Kærandi, sem byggði húsið nr. 30 við Smiðjuveg og hefur verið eigandi þess frá upphafi, hefur bæði í fyrra máli og því sem nú er til úrlausnar haldið því fram að eigendur húsanna þriggja hafi aldrei haft samvinnu um frágang lóðarinnar heldur hafi hver þeirra um sig séð um frágang og viðhald síns lóðarhluta og hafi aldrei verið deilt um afnotaskiptingu lóðarinnar fyrr en ágreiningur hafi verið gerður um hana af hálfu nýrra eigenda efri hæðar Smiðjuvegar 32.  Hefur þessari staðhæfingu ekki verið hnekkt og sér þess hvergi stað að nokkru sinni hafi verið haldnir húsfundir eða með öðrum hætti efnt til samráðs eða samvinnu um frágang eða fyrirkomulag lóðarinnar.  Það þykir einnig renna stoðum undir þá staðhæfingu, að ætlun húsbyggjenda hafi verið að skipta afnotum af lóðinni, að meðal byggingarnefndarteikninga af húsunum er uppdráttur af lóðinni, samþykktur í byggingarnefnd 27. nóvember 1975, þar sem sýnt er fyrirkomulag og fjöldi bílastæða, og er á uppdrætti þessum strikuð lína milli lóðarhlutanna og bílastæði afmörkuð á hverjum lóðarhluta fyrir sig, að mestu í samræmi við gólfflatarmál hvers húss.

Fyrir liggur að af hálfu byggingarnefndar Kópavogs var ekki gerð krafa um samþykki annarra lóðarhafa þegar leyfi var veitt fyrir viðbyggingum við kjallara húsanna nr. 32 og 34 þrátt fyrir ákvæði 11. greinar þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978, þar sem kveðið var á um að samþykki meðeigenda skyldi fylgja umsókn um byggingarleyfi, ef um sameign væri að ræða. Viðbyggingar þessar höfðu í för með sér stækkun gólfflatar neðri hæða húsanna nr. 32 og 34 sem líklegt var að leiddi af sér þörf fyrir aukinn fjölda bílastæða.  Þá var með bygginu reyklosunarstokks á suðurhluta lóðarinnar á mörkum lóðarhluta húsanna nr. 30 og 32, girt fyrir umferð ökutækja milli lóðarhlutanna á tæplega 10 metra bili frá húsunum og möguleikar á að koma fyrir bílastæðum á svæðinu skertir verulega.  Breyttu þessar framkvæmdir verulega forsendum og möguleikum til sameiginlegrar nýtingar lóðarinnar og stuðluðu í raun að skiptingu afnota hennar sunnan húsanna.

Á byggingartíma húsanna voru í gildi lög nr. 59/1976 um fjölbýlishús.  Lögin áttu við um íbúðarhús, en í 2. mgr. 2. gr. sagði þó að reglur laganna yrðu einnig notaðar, eftir því sem við ætti, um önnur hús sem fleiri en einn ætti eða nýtti. Lögin höfðu að geyma ákvæði um skiptingu eignarráða og um réttindi og skyldur sameigenda, sem m.a. tóku til sameiginlegra lóðarréttinda.  Núgildandi lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús gilda um öll hús sem skiptast í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið sameign allra eða sumra.  Ákvæði laganna eru í aðalatriðum ófrávíkjanleg, þó með þeirri undantekningu að eigendum fjöleignarhúsa sem eingöngu hýsa atvinnustarfsemi er heimilt að víkja frá fyrirmælum laganna með samningi sín á milli.  Ákvæði laganna um sameign taka m.a. til sameiginlegrar lóðar og lóðarréttinda.

Úrskurðarnefndin telur að við mat á því hvaða kröfur verði gerðar um samþykki meðeigenda lóðarinnar, sem að formi til er í sameign, verði að hafa til hliðsjónar að afnotum hennar virðist frá upphafi hafa verið skipt, óátalið, og að með byggingu reyklosunarstokks á lóðinni var henni í raun að hluta til skipt í aðskilin svæði.  Þar sem um atvinnuhúsnæði er að ræða höfðu eigendur heimild til að víkja með samningi frá reglum fjöleignarhúsalaganna um samskipti sín um sameignina.  Enda þótt ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um afnotaskiptingu lóðarinnar verður ekki framhjá því litið að eigendur hafa allt frá upphafi séð um framkvæmdir hver á sínum lóðarhluta, án samráðs og án þess að hafa með sér félag um rekstur lóðarinnar.  Varð engin breyting á þessu fyrirkomulagi við gildistöku fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 og hafa eigendurnir þannig í verki vikið frá reglum þeirra laga í veigamiklum atriðum um hina sameiginlegu lóð.  Er það niðurstaða nefndarinnar, að eins og atvikum er háttað í máli þessu og með tilliti til þeirra framkvæmda sem áður hafa verið unnar á lóðinni og þess hvernig að þeim hefur verið staðið verði bygging hinna umdeildu veggja einungis talin smávægileg breyting skv. 3. mgr. 30 gr. laga nr. 26/1994.  Nægi því samþykki einfalds meirihluta sameigenda að lóðinni, miðað við eignarhluta, til þess að byggingarnefnd sé heimilt að samþykkja umsókn um leyfi fyrir veggjunum.  Þykja ákvæði í lóðarleigusamningunum ekki standa í vegi fyrir því að veggirnir verði samþykktir, enda eru þeir ekki á lóðarmörkum og geta því ekki talist girðing um lóðina.  Þá felst ekki í gerð þeirra skipting bílastæða enda aðgangur að þeim eftir sem áður óhindraður og stendur ákvæði 33. gr. laga nr. 26/1994 því eigi í vegi fyrir samþykkt þeirra. 

Nefndin fellst hins vegar á þau sjónarmið eigenda efri hæðar Smiðjuvegar 32 að veggur á suðurhluta lóðarinnar, næst inngangi í húsnæði þeirra, hafi veruleg óþægindi í för með sér, þar sem hann hindrar umferð gangandi manna meðfram húsunum og að inngöngudyrum þeirra, og beri því við veitingu leyfis fyrir veggjunum að leggja fyrir umsækjanda að opna leið fyrir gangandi umferð á hentugum stað í námunda við inngöngudyr hússins nr. 32.  Jafnframt verður umsækjandi að sýna fram á með fullnægjandi hætti að undirstöður veggjanna uppfylli kröfur um fyllsta öryggi.  Samkvæmt framansögðu verður hin kærða ákvörðun byggingarnefndar felld úr gildi og er lagt fyrir byggingarnefnd að afgreiða umsókn eiganda Smiðjuvegar 30 um byggingarleyfi fyrir veggjum á lóðinni með þeim skilmálum sem að framan greinir.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna í úrskurðarnefndinni, en einnig tafðist málið meðan beðið var umsagnar bæjarlögmanns Kópavogsbæjar, sem byggingarnefnd óskaði eftir að koma að í málinu.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir áður gerðum veggjum úr steinsteypu á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg er felld úr gildi.  Lagt er fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kæranda til meðferðar og gefa honum kost á að sækja að nýju um byggingarleyfi fyrir veggjunum, með þeirri breytingu að gert verði ráð fyrir að umferð gangandi manna verði óhindruð milli lóðarhlutanna sunnan húsanna nr. 30 og 32 við Smiðjuveg.  Áður en byggingarleyfi verður veitt ber að gera úttekt á undirstöðum veggjanna.  Samþykki einfalds meirihluta sameigenda lóðarinnar, miðað við eignarhluta, telst nægja í máli þessu til þess að fullnægt sé skilyrði 4. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 um samþykki meðeigenda.

47/1999 Brautarholt

Með

Ár 1999, miðvikudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/1999; kæra P, Brautarholti, Kjalarnesi á ákvörðunum byggingarnefndar Kjalarneshrepps frá 27. janúar 1998 og 4. júní 1998 um að veita leyfi til byggingar tveggja svínahúsa og þjónustuhúss í landi Brautarholts á Kjalarnesi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags 27. september 1999, sem barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hdl. f.h. P, Brautarholti, Kjalarnesi ákvarðanir byggingarnefndar Kjalarneshrepps frá 27. janúar 1998 og 4. júní 1998 um að veita leyfi til byggingar tveggja svínahúsa og þjónustuhúss í landi Brautarholts.  Hinar kærðu ákvarðanir voru staðfestar af hreppsnefnd Kjalarneshrepps hinn 26. febrúar og 4. júní 1998.  Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Um kæruheimild vísar kærandi til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefnd samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 10. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Málavextir:  Kærandi kveðst búa á óðalsjörðinni Brautarholti á Kjalarnesi.  Segir í kærunni að jörðin sé óðalsjörð sem kærandi, ásamt bróður sínum, J, hafi tekið við af foreldrum þeirra árið 1967. Þeir bræður hafi rekið kúabú á jörðinni frá 1953, grasmjölsverksmiðju frá 1964 og graskögglaverksmiðju frá 1972.  Árið 1982 hafi J og synir hans hafið uppbygging á nútíma svínabúi á jörðinni, en einhver svínarækt hafi verið þar allt frá árinu 1957.  Eigi þeir og reki fyrirtækið Svínabúið Brautarholti ehf.  Jörðinni hafi að hluta til verið skipt með landskiptagerð árið 1989.  Árið 1997 hafi forsvarsmenn Svínabúsins Brautarholti ehf. kynnt hugmyndir sínar um nýtt og stærra svínabú á jörðinni þar sem væru 560 gyltur að meðaltali á ári, í stað 270 áður.  Hafi búið átt að vera í 325 metra fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda og hafi undanþága verið fengin frá ákvæði heilbrigðisreglugerðar um 500 metra lágmarksfjarlægð slíks bús frá íbúðarhúsi.

Á fundi byggingarnefndar Kjalarneshrepps þann 8. janúar 1998 hafi uppdrættir af tveimur svínahúsum verið lagðir fram til kynningar og á fundi sínum þann 27. janúar 1998 hafi nefndin samþykkt uppdrættina með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.  Hreppsnefnd hafi staðfest samþykkt byggingarnefndar á fundi sínum 26. febrúar 1998.  Byggingarnefnd hafi síðan samþykkt byggingu þjónustuhúss við svínahúsin þann 4. júní 1998 og hafi hreppsnefnd staðfest þá samþykkt sama dag.

Kærandi kveðst hvorki hafa fengið tilkynningu um að fyrir lægi umsókn um byggingarleyfi né hafi sér verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við fyrirhugaða byggingu.  Hafi honum verið með öllu ókunnugt um að leyfi hefði verið gefið út fyrir byggingu umræddra mannvirkja fyrr en byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi svarað fyrirspurn lögmanns hans, dags. 24. ágúst 1999, með bréfi, dags. 31. ágúst 1999.  Hafi honum því verið ómögulegt að kæra veitingu leyfanna fyrr.  Vísar kærandi í þessu sambandi til 1. mgr. 2. gr. reglug. nr. 621/1997 og gr. 10.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Kærandi kveðst byggja kröfu sína um að framangreind byggingarleyfi verði felld úr gildi á því að ekki hafi legið fyrir samþykkt deiliskipulag eða meðmæli Skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 43. gr. og 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ekki hafi farið fram lögbundin grenndarkynning, sbr. 7. mgr. 43. gr. sömu laga, honum hafi ekki verið tilkynnt um að málið væri til meðferðar eða á annan hátt gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að meðalhófs- og rannsóknarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar, sbr. 10. og 12. gr. laganna.

Niðurstaða:  Samkvæmt yfirliti byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tók við umsjón byggingarmála á Kjalarnesi eftir sameiningu Kjalarneshrepps við Reykjavíkurborg um mitt ár 1998, hófust hinar umdeildu byggingarframkvæmdir að Brautarholti í júní 1998.  Ber yfirlitið með sér að framkvæmdum hefur verið haldið áfram, án þess að hlé hafi orðið á, allt frá þeim tíma og fram til 23. júlí 1999, en þann dag er staðfest að hús 1 og 2 og þjónustuhús séu fokheld.  Kærandi býr örskammt frá byggingarstað og verður að ætla að honum hafi verið kunnugt um framkvæmdir á staðnum enda þótt honum hafi ekki verið tilkynnt formlega um leyfi byggingarnefndar fyrir þeim.  

Samkvæmt 4. mgr. 39. greinar laga nr. 73/1997 getur hver sá er telur rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar skotið málinu til úrskurðarnefndar innan mánaðar frá því honum varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Til þess verður að ætlast að þeir sem telja framkvæmdir, sem hafnar eru, andstæðar hagsmunum sínum leiti sér upplýsinga um heimildir fyrir þeim.  Kærandi spurðist fyrst fyrir um byggingarleyfi fyrir umræddum framkvæmdum rúmu ári eftir að ætla verður að honum hafi verið orðið um þær kunnugt og nokkru eftir að umdeildar byggingar höfðu verið reistar og gerðar fokheldar.  Verður að telja að kærufrestur hafi þá verið löngu liðinn og ber því, með vísun til 28. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru P, Brautarholti, Kjalarnesi á ákvörðunum byggingarnefndar Kjalarneshrepps frá 27. janúar 1998 og 4. júní 1998, staðfestum af sveitarstjórn hinn 26. febrúar og 4. júní 1998, um að veita leyfi til byggingar tveggja svínahúsa og þjónustuhúss í landi Brautarholts á Kjalarnesi er vísað frá úrskurðarnefndinni.

56/1999 Aðalstræti

Með

Ár 1999, föstudaginn 19. nóvember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru Gunnar Jóhann Birgisson hrl, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/1999; kæra K á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 31. ágúst 1999 um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. nóvember 1999, sem barst nefndinni á símbréfi síðdegis sama dag, kærir Haraldur Blöndal hrl., f.h. K, til ógildingar, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 31. ágúst 1999 um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1. október 1987.  Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild stjórnartíðinda hinn 4. nóvember 1999 og felur í sér að landnotkun bakhúsa Aðalstrætis 4 er takmörkuð á þann veg að óheimilt er að reka þar veitinga- vínveitinga- og skemmtistaði.  Kærandi, sem er leigutaki húsnæðis í bakhúsi Aðalstrætis 4 og rekur þar veitingastað, krefst ógildingar hinnar kærðu samþykktar og að réttaráhrifum hennar verði frestað meðan málið er til meðferðar í úrskurðarnefndinni.

Með vísun til 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér sérstaklega afstöðu málsaðila og borgaryfirvalda til þeirrar kröfu og gefið þeim kost á að tjá sig um hana.

Málavextir:  Með bréfi Borgarskipulags Reykjavíkur, dags. 23. júlí 1999, var eiganda Aðalstrætis 4, Reykjavík tilkynnt að á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 19. júlí 1999 hefði verið lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar að því er varðaði landnotkun á baklóð Aðalstrætis 4.  Væri landnotkun takmörkuð á þann veg að óheimilt væri að reka þar vínveitinga- og skemmtistaði.  Að öðru leyti væri heimilt að vera með aðra starfsemi í húsunum sem samræmdist landnotkun Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 og gildandi deiliskipulagi.  Var húseiganda gefinn kostur á að tjá sig um tillöguna með vísun til ákvæða 2. mgr. 26. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og 2. mgr. gr. 3.1.4. (skipulagsreglugerðar) nr. 400/1998.  Í bréfinu er tekið fram að leigutakar teljist einnig til hagsmunaaðila og að gert sé ráð fyrir því að húseigendur kynni erindið fyrir þeim.

Kærandi mun hafa fengið afhent afrit af bréfi þessu og því verið kunnugt um efni þess.

Með bréfi, dags. 5. október 1999, beindi lögmaður kæranda erindi til Skipulagsstofnunar þar sem hann kærði undirbúning og kynningu umræddrar skipulagstillögu.  Eru sjónarmið kæranda rakin í bréfinu og m.a. sérstaklega að því fundið að grenndarkynningu hafi verið áfátt.  Erindi þessu svaraði Skipulagsstofnun með bréfi dags. 12. október 1999 þar sem vakin er athygli á því að stofnunin fari ekki með úrskurðarvald í ágreiningsmálum á sviði skipulags- og byggingarmála.  Verði því ekki tekin afstaða til kærunnar en tekið er fram að umrædd skipulagsbreyting hafi ekki enn verið endanlega afgreidd af stofnuninni þar sem óskað hafi verið eftir því að erindi Borgarskipulags um breytinguna fylgdi uppdráttur er sýndi fyrirhugaða landnotkunarbreytingu.  Ekki hafi hins vegar verið gerð athugasemd við framkvæmd grenndarkynningarinnar.  Þá sé þess vænst að yfirlýsing sveitarstjórnar skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 komi fram á væntanlegum uppdrætti.  Að öðrum kosti verði leitað eftir því að yfirlýsingunni verið skilað til stofnunarinnar.

Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að fram hafi komið athugasemdir af hálfu eiganda Aðalstrætis 4 við skipulagstillöguna, en kynningu á henni lauk hinn 23. ágúst 1999.  Var tillagan samþykkt á fundi borgarráðs hinn 31. ágúst 1999 en auglýsing um samþykkt hennar var fyrst birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. nóvember 1999.  Barst úrskurðarnefndinni í framhaldi af því kæra í máli þessu, dags. 8. nóvember 1999, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að öll aðferð við undirbúning og kynningu hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ólögmæt.  Einnig sé ólögmætt að breyta skipulagi með þeim hætti sem hér sé gert, einungis til þess að losna við lögmæta starfsemi úr húsi, ekki síst þegar haft sé í huga að kærandi hafi öll tilskilin leyfi og hinu megin götunnar sé skemmtistaður sem öldungis eins sé ástatt um.  Kærandi styður kröfu sína um stöðvun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar þeim rökum að það myndi valda honum óbærilegu tjóni, sem óvíst sé hvort hann fengi bætt, kæmi til þess að veitingastað hans yrði lokað.  Enginn hafi hins vegar neina fjárhagsleg hagsmuni af lokun staðarins.

Málsrök borgaryfirvalda:  Úrskurðarnefndin gaf borgaryfirvöldum kost á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar áður en sú krafa yrði tekin til úrskurðar.  Með greinargerð, dags. 15. nóvember 1999, reifar Borgarskipulag sjónarmið borgaryfirvalda um þennan þátt málsins. Er því haldið fram að beita eigi ákvæðum 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa.  Í þeirri grein komi fram sú meginregla að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Undantekning frá reglunni komi fram í 2. mgr. greinarinnar, en samkvæmt henni sé æðra stjórnvaldi heimilt að fresta réttaráhrifum meðan kæra er til meðferðar „…þar sem ást¬æður mæla með því.”  Þessa undantekningarreglu beri að skýra þröngt.
 
Í því máli, sem hér sé til umfjöllunar, séu engin þau sjónarmið fyrir hendi sem leiði til þess að beita eigi greindri heimild 2. mgr. 29. gr.  Þvert á móti séu fyrir hendi ríkir almannahagsmunir af því að ákvörðunin verði ekki felld úr gildi.  Mikið ónæði hafi verið af rekstri veitingastaðar í umræddum bakhúsum en þau standa mjög nálægt svæði sem skilgreint sé sem íbúðasvæði í aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Af þeim ástæðum hafi borgaryfirvöldum þótt rétt að takmarka landnotkun á umræddri baklóð með almannahagsmuni í huga.  Þeirri ákvörðun sé ekki beint gegn þeim rekstri sem þar sé nú heldur sé verið tryggja betri næturró og frið í íbúðahverfinu til frambúðar.  Til að komast að niðurstöðu um það hvort réttmætt sé að fresta réttahrifum kærðar ákvörðunar verði einnig að líta til þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt.  Rök kæranda fyrir því að breyting deiliskipulagsins hafi verið ólögmæt séu þau að grenndarkynning hafi verið ófullnægjandi og að ólögmætt hafi að breyta skipulagi með þessum hætti.

Þeirri fullyrðingu að grenndarkynningin hafi verið ófullnægjandi verði að vísa á bug.  Sú venja hafi skapast í málum sem hér um ræðir að breytingar séu kynntar fyrir húseigendum sem talið sé að hagsmuna eigi að gæta.  Þeim sé hins vegar alltaf gert ljóst að leigutakar húsnæðis teljist einnig til hagsmunaaðila og bent á að kynna erindið fyrir þeim.  Önnur leið sé vart fær enda oft ógerningur að komast að því hverjir séu leigutakar þar sem ekki liggi fyrir þinglýstir leigusamningar, en þannig sé því einmitt háttað í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar.  Fyrir liggi að kæranda hafi verið kynnt umrædd breyting af eigendum hússins.  Hann hafi því haft tækifæri til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri á kynningartímanum.  Þá hafi Skipulagsstofnun fallist á að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnar¬tíðinda.

Þeirri fullyrðingu kærenda að ólögmætt sé að breyta deiliskipulagi með þeim hætti sem gert var verði einnig að vísa á bug.  Ekki hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu með hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til framangreinds, og þá sérstaklega meginreglu 29. gr. laga nr. 37/1993, stjórnsýslulaga, fyrri úrskurða nefndarinnar og almannahagsmuna sé þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Afstaða eiganda Aðalstrætis 4:  Með bréfi, dags. 16. nóvember 1999, var eiganda Aðalstrætis 4 gefinn kostur á að tjá sig um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.  Hefur hann ekki séð ástæðu til þess að tjá sig um þá kröfu sérstaklega en áskilið sér rétt til að koma sjónarmiðum sínum að við efnismeðferð málsins.

Niðurstaða:  Með ákvæði 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er úrskurðarnefndinni fengið vald til þess að úrskurða um að framkvæmdir skuli stöðvaðar meðan kærumál er til meðferðar í nefndinni.  Í ákvæðinu felst að heimilt er að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar sem veitir leyfi til framkvæmda.  Enda þótt ákvæðið sé einskorðað við heimild til þess að stöðva framkvæmdir verður að telja að úrskurðarnefndin geti, með hliðsjón af ákvæðinu og með stoð í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, frestað réttaráhrifum annarra ákvarðana sveitarstjórna þótt ekki felist í þeim leyfi til tiltekinna framkvæmda.  Er ljóst að sumar ákvarðanir um skipulagsmál geta raskað lögvörðum hagsmunum einstaklinga eða lögaðila svo verulega að jafnað verði til þess þegar leyfi er veitt til framkvæmda.  Verður úrskurðarnefndin í slíkum tilvikum að meta hvort ástæður mæli með frestun réttaráhrifa með hliðsjón af ákvæði 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 og með heimild í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

Augljóst er að kærandi á ríka lögvarða hagsmuni því tengda að vera ekki meinað að halda áfram atvinnustarfsemi sinni í húsnæði því sem hann hefur á leigu og hin kærða ákvörðun tekur til.  Hagsmunir borgaryfirvalda eru hins vegar þeir að geta firrt íbúa í nágrenni Aðalstrætis 4 ónæði sem þeir hafa kvartað yfir að stafi frá starfsemi kæranda.  Engra gagna nýtur í málinu um það í hverju ónæði þetta birtist og torveldar það mat á því hversu ríkir þeir almannahagsmunir eru sem borgaryfirvöld telja sig vera að gæta með hinni kærðu ákvörðun.  Ekki verður framhjá því litið að nokkrir annmarkar virðast á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og framkvæmd grenndarkynningar í málinu og álitaefni er hvort hin kærða ákvörðun sé reist á lögmætum sjónarmiðum, svo og hvort hún samræmist jafnræðisreglu.  Þegar virtir eru andstæðir hagsmunir í málinu og sá vafi sem fyrirsjáanlegur er um efnisniðurstöðu málsins telur úrskurðarnefndin að fallast beri á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður hún því ekki lögð til grundvallar við töku ákvarðana um réttarstöðu kæranda eða annarra meðan málið er til úrlausnar hjá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 31. ágúst 1999 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1. október 1987, breyttu 2. febrúar 1989.  Breytingin, sem birt var með auglýsingu nr. 728/1999 í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. nóvember 1999, hefur því ekki gildi frá uppkvaðningu úrskurðar þessa meðan málið er til meðferðar í úrskurðarnefndinni.

36/1999 Hörgás

Með

Ár 1999, miðvikudaginn 17. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/1999; kæra V, Hörgsási 8, Egilsstöðum á ákvörðunum skipulags- og byggingaráðs Egilsstaðabæjar frá 28. nóvember 1996 og 11. desember 1997 um að veita eiganda hússins nr. 6 við Hörgsás á Egilsstöðum leyfi til viðbyggingar við hús sitt og til breytinga á áður veittu byggingarleyfi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 1999, sem barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Hilmar Gunnlaugsson hdl., f.h. V, Hörgsási 8, Egilsstöðum, ákvörðun skipulags- og byggingaráðs Egilsstaða-bæjar frá 11. desember 1997 um að heimila húseiganda að Hörgsási 6, Egilsstöðum, framkvæmdir á lóð sinni.  Sé litið svo á að ákvörðunin hafi verið tekin á fundi ráðsins þann 28. nóvember 1996 þá lýtur kæran að þeirri ákvörðun.  Ákvörðun ráðsins frá 11. desember 1997 var staðfest í bæjarstjórn þann 16. desember 1997, en fyrri ákvörðun hafði verið staðfest í bæjarstjórn þann 3. desember 1996.  Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðunin verði úrskurðuð ólögmæt og úr gildi felld, íbúa Hörgsáss 6 gert að fjarlægja þá byggingu sem ákvörðunin laut að og að kæranda verði bættur kostnaður hans af málinu.

Málavextir:  Með bréfi dagsettu 5. desember 1996 var húseiganda að Hörgsási 6, Egilsstöðum, tilkynnt að skipulags- og byggingaráð Egilsstaðabæjar hefði samþykkt á fundi sínum þann 28. nóvember 1996 að heimila viðbyggingu sem sótt hafði verið um. Ákvörðun ráðsins hafði verið staðfest í bæjarstjórn þann 3. desember 1996.  Ekki hafði farið fram grenndarkynning á erindinu og mun kæranda fyrst hafa orðið kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins er framkvæmdir hófust í nóvember 1997.  Kærandi taldi að kynna hefði átt umrædda framkvæmd fyrir nágrönnum og sendi Sveinn Sveinsson hrl. bréf, dags. 1. desember 1997 til bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar f.h. kæranda, þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu málsins. Hinn 11. desember 1997 óskaði eigandi Hörgsáss 6 eftir breytingum á teikningum viðbyggingarinnar.  Sama dag samþykkti skipulags- og byggingaráð Egilsstaðabæjar erindi hans með svofelldri bókun:  „Inn á fundinn barst ósk húsbyggjanda að Hörgsási 6 um að breyta viðbyggingu þar sem þakhalli er lækkaður niður í 9 gráður. S.B.R. samþykkir framlagðar hugmyndir húseiganda um breytingu á viðbyggingu en leggja þarf fram málsettar teikningar.”  Þessi ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn þann 16. desember 1997.  Með bréfi, dags. 19. desember 1997, var lögmanni kæranda gerð grein fyrir því að skipulags- og byggingaráð hafi ekki talið ástæðu til grenndarkynningar í málinu þar sem ráðið hafi talið að hagsmunum næstu nágranna væri ekki ógnað enda byggingin þannig staðsett og hönnuð.  Þá hafi byggingarleyfishafi fengið samþykkta breytingu á áður samþykktum teikningum til þess að koma til móts við framkomnar athugasemdir.  Eftir þær breytingar nái viðbygging mest 50 cm yfir mæni bílskúrs á litlu svæði en annars 30 cm.  Eftir þessar breytingar telji skipulags- og byggingarráð ekki ástæðu til að afturkalla byggingarleyfið.  Með bréfi til bæjarstjórnar Egilsstaða, dags. 30. desember 1997, ítrekaði lögmaður kæranda kröfu hans um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar og grenndarkynning látin fara fram.  Bréfi þessu mun ekki hafa verið svarað og skaut lögmaður kæranda málinu til félagsmálaráðuneytisins með bréfi, dags. 16. janúar 1998.  Hinn 11. febrúar 1998 framsendi umhverfisráðuneytið erindið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en sama dag hafði því borist það frá félagsmálaráðuneytinu.

Eftir að umrætt erindi barst úrskurðarnefndinni hafði formaður hennar samband við þáverandi lögmann kæranda og benti á vankanta á erindinu.  Leit formaður nefndarinnar svo á að eftir þetta símtal yrði endurbætt kæra send ásamt nauðsynlegum gögnum.  Var málið því lagt til hliðar.  Lögmaður kæranda virðist hins vegar hafa skilið erindi formannsins á þann veg að nægjanlegt væri að hann aflaði frekari gagna í málinu og kæmi þeim til nefndarinnar.  Bárust gögn í málinu frá skrifstofu Egilsstaðabæjar nokkru síðar og var þeim komið fyrir með öðrum skjölum málsins en þess vænst að nýtt erindi bærist síðar frá lögmanni kæranda.  Í apríl 1999 tók Hilmar Gunnlaugsson hdl. málið að sér f.h. kæranda.  Leitaði hann upplýsinga um afdrif málsins hjá félagsmálaráðuneytinu og kom þá í ljós hver afdrif erindis kæranda höfðu orðið.  Voru lögmanninum send afrit af gögnum málsins með bréfi úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. júní 1999.  Sendi hann nokkru síðar nýja kæru í málinu eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að þar sem hin kærða ákvörðun var tekin fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hefði verið eðlilegra að málið sætti kærumeðferð á grundvelli laga nr. 54/1978 og að æðra stjórnvald hefði því átt að vera umhverfisráðherra en ekki úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Hann gerir þó ekki að ágreiningsefni að nefndin hafi tekið við málinu.

Hvað varðar kæruheimild og kærufrest byggir kærandi á lokamálsgrein 8. gr. laga nr. 54/1978, en samkvæmt því ákvæði hafi hver sá sem taldi rétti sínum hallað með ályktun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar haft þrjá mánuði frá því að honum var kunnugt um ályktunina til að skjóta máli sínu til úrskurðar umhverfisráðherra.  Kærandi hafi ekki haft hugmynd um hina kærðu ályktun fyrr en framkvæmdir nágranna hans hafi gefið tilefni til að kanna málið.  Hafi hann brugðist við án tafar og eins og gögn málsins beri með sér hafi þá enn verið tóm til að laga og breyta.  Hafi því tvímælalaust verið unnt að stöðva framkvæmdir og hefja grenndarkynningu.  Verði í fyrsta lagi að telja að miða beri upphaf kærufrests í málinu við 1. desember 1997 og að kæran hafi því komið fram löngu áður en sá þriggja mánaða frestur, sem þá gilti, var liðinn, en upphafleg kæra hafi verið send þann 16. janúar 1998.  Kærandi telur þó eðlilegast að miða upphaf frestsins við 20. desember 1997, en þann dag hafi honum borist bréf frá sveitarfélaginu, dags. 19. desember 1997, þar sem honum hafi verið tilkynnt um endanlega ákvörðun sveitarfélagsins.  Kæran hafi því verið sett fram innan kærufrests jafnvel þótt litið væri til ákvæða núgildandi skipulags- og byggingarlagalaga nr. 73/1997 um eins mánaðar kærufrest.

Kærandi bendir á að hann hafi frá upphafi krafist þess að umrædd framkvæmd yrði stöðvuð.  Þar sem framkvæmdum sé nú lokið séu nú aðeins tvær leiðir færar, annað hvort að húseigandanum að Hörgsási 6 verði gert að breyta byggingunni eða að kæranda verði greiddar bætur.  Báðar þessar leiðir byggi á þeirri grundvallarforsendu að brotið hafi verið á rétti kæranda.  Verði að telja að það sé í valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka á því hvort sveitarfélagið hafi farið að lögum við veitingu leyfis til umræddrar viðbyggingar við húsið að Hörgsási 6.

Kærandi telur að það hafi verið ótvíræð lagaskylda skipulags- og byggingaráðs Egilsstaðabæjar að gefa honum kost á að tjá sig um framkomna umsókn um byggingarleyfi. Vísar hann í þessu efni til III. kafla byggingarreglugerðar nr. 177/1992, einkum ákvæði 3.1.1., en þar segi:  „Áður en leyfi er veitt fyrir nýbyggingu, viðbyggingu eða breytingu á húsi í þegar byggðu hverfi, eða verulegri breytingu á notkun húss, skal nágrönnum, sem byggingarnefnd telur að hagsmuna eigi að gæta, gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd innan mánaðar. Byggingarnefnd getur þó veitt lengri frest ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.”  Samkvæmt þessu telur kærandi ljóst að byggingarnefnd hafi ekki haft vald til að ákveða hvort grenndarkynning ætti að fara fram.  Hins vegar skyldi nefndin meta hvaða nágrannar ættu hagsmuna að gæta. Eftir þessu ákvæði hafi einfaldlega ekki verið farið, hvorki áður en ákvörðun hafi verið tekin hjá nefndinni né eftir að kærandi hafi krafist þess.

Málsrök sveitarstjórnar:  Af hálfu sveitarstjórnar er á því byggt að umdeild viðbygging hafi að mati skipulags- og byggingaráðs ekki verið talin skerða hagsmuni nágranna og hafi grenndarkynningar því ekki verið þörf.  Þá hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda og hafi efri brún á þaki hinnar umdeildu viðbyggingar verið lækkuð í því skyni.  Hús kæranda sé við enda íbúðargötu og vel sett hvað varði rými og útsýni.  Að öðru leyti vísar sveitarstjórn til fyrirliggjandi gagna, m.a. afstöðumyndar, grunnmynda húsanna nr. 6 og 8 við Hörgsás og ljósmynda af hinni umdeildu viðbyggingu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var fyrra erindi kæranda, sem úrskurðarnefndinni barst framsent frá umhverfisráðuneytinu, ekki talið í því horfi að unnt væri að taka málið til meðferðar.  Þótti kröfugerð kæranda í því erindi óljós enda var því beint til félagsmálráðuneytisins og fól m.a. í sér tilmæli um að ráðuneytið hlutaðist til um að bæjarfélagið á Egilsstöðum fylgdi þeim reglum sem giltu um samskipti þess við íbúana.  Var af þessu sökum þeim tilmælum beint til þáverandi lögmanns kæranda að hann reifaði málið frekar og aflaði nauðsynlegra gagna.  Var málið við svo búið fellt niður en búist við nýrri kæru sem nefndin hafði fallist á að taka við án tillits til kærufrests með heimild í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Fyrir einhvern misskilning voru nefndinni einungis send nokkur viðbótargögn í málinu en ný kæra kom fyrst fram hinn 12. júlí síðastliðinn.  Var þá tekið til sérstakrar athugunar í úrskurðarnefndinni hvort fallast ætti á að taka málið til meðferðar með tilliti til þess hve langt var þá liðið frá því að hið umdeilda byggingarleyfi hafði verið veitt.  Varð það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fallast mætti á að erindi kæranda yrði tekið til efnisúrlausnar eins og atvikum væri háttað.

Byggingarleyfi það, sem um er deilt í málinu, var gefið út fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Giltu því um útgáfu þess ákvæði byggingarlaga nr. 54/1978 með síðari breytingum og byggingarreglugerðar nr. 177/1992 með áorðnum breytingum.  Kæra vegna málsins kom hins vegar fyrst fram eftir gildistöku laga nr. 73/1997 og átti kærumálið því undir úrskurðarnefnd samkvæmt ákvæði 8. greinar þeirra laga enda fór umhverfisráðherra ekki með úrskurðarvald um ágreining um lögmæti ákvarðana um útgáfu byggingarleyfa eftir 31. desember 1997.

Af hálfu kæranda er á því byggt að lögskylt hafi verið að viðhafa grenndarkynningu við undirbúning ákvörðunar um það hvort veita bæri hið umdeilda byggingarleyfi. Ekki voru í þágildandi byggingarlögum ákvæði um grenndarkynningu en í 2. mgr. greinar 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992, sem í gildi var við útgáfu leyfisins, var kveðið á um það að áður en veitt væri leyfi fyrir nýbyggingu, viðbyggingu eða breytingu á húsi í þegar byggðu hverfi, eða verulegri breytingu á notkun húss, skyldi nágrönnum, sem byggingarnefnd teldi eiga hagsmuna að gæta, gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaðar framkvæmdir innan mánaðar.

Skilja verður ákvæði þetta svo að grenndarkynning hafi því aðeins verið áskilin að nágrannar ættu hagsmuna að gæta að mati byggingarnefndar.  Hefði verið óeðlilegt að túlka ákvæði þetta svo að ekki væri unnt að veita byggingarleyfi fyrir tilgreindum framkvæmdum í þegar byggðum hverfum í þeim tilvikum þegar engin röskun var fyrirsjánleg á hagsmunum nágranna eða engum nágrönnum til að dreifa, enda hefðu heimildir byggingarnefnda og sveitarstjórna þá verið þrengri í þeim tilvikum en ella, sem augljóslega hefði verið andstætt eðli máls og tilgangi ákvæðisins.  Úrskurðarnefndin telur því að heimilt hafi verið, samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, að veita leyfi til bygginga viðbygginga og breytinga á húsum í þegar byggðum hverfum án undangenginnar grenndarkynningar í þeim tilvikum þegar ekki var sjáanlegt að lögvörðum hagsmunum annarra væri raskað með veitingu leyfisins.  Átti byggingarnefnd, samkvæmt ákvæðinu, mat um það hvort gengið væri gegn lögvörðum hagsmunum nágranna með veitingu byggingarleyfis í tilteknu tilviki.

Í tilviki því sem hér um ræðir var það mat skipulags- og byggingaráðs, sem fer með verkefni byggingarnefndar, að ekki væri raskað hagsmunum nágranna með útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis.  Frá húsi kæranda séð er hin umdeilda viðbygging að mestu í hvarfi við bílskúr hússins nr. 6 við Hörgsás.  Enda þótt þakbrún hennar nái lítið eitt upp fyrir mæni bílskúrsins má fallast á það mat skipulags- og byggingarráðs að byggingin raski ekki lögvörðum hagsmunum kæranda þegar litið er til afstöðu húss hans til viðbyggingarinnar og umhverfisins í heild.  Var því ekki skylt að lögum að viðhafa grenndarkynningu vegna umsóknar eiganda Hörgsáss 6 um byggingarleyfi fyrir umræddri viðbyggingu.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana því hafnað.

Lagaheimild skortir til þess að úrskurða um kostnað í úrskurðarmálum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni.  Er það því ekki á valdsviði nefndarinnar að úrskurða um slíkan kostnað og ber því að vísa kröfu kæranda um kærumálskostnað frá nefndinni. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðunum skipulags- og byggingaráðs Egilsstaðabæjar frá 28. nóvember 1996 og 11. desember 1997 um að veita eiganda hússins nr. 6 við Hörgsás á Egilsstöðum leyfi til viðbyggingar við hús sitt og til breytinga á áður veittu byggingarleyfi.  Kröfu kæranda um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni.

34/1999 Foldaskóli

Með

Ár 1999, miðvikudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/1999; kæra H innanhússarkitekts á synjun Skipulagsstofnunar frá 24. mars 1999 á erindi kæranda um að stofnunin dragi til baka umsögn um handrið í Foldaskóla og á afgreiðslu stofnunarinnar frá 29. apríl 1999 á beiðni um rökstuðning fyrir synjun fyrra erindis.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 1999, sem barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, framsendi umhverfisráðuneytið erindi kæranda, dags. 15. júní 1999, þar sem hann kærir ákvarðanir Skipulagsstofnunar um að synja beiðni hans um að stofnunin dragi til baka umsögn um handrið í Foldaskóla og um að synja síðara erindi hans um rökstuðning þeirrar ákvörðunar.  Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 26. júlí 1999, kom umboðsmaður kæranda á framfæri mótmælum við meðferð ráðuneytisins á erindinu, sem hann taldi ekki falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar og gerði kröfu til þess að ráðuneytið úrskurðaði um kæruna.  Var úrskurðarnefndinni sent afrit af bréfi þessu.  Ráðuneytið svaraði þessu síðara erindi kæranda með bréfi, dags. 10. ágúst 1999, þar sem því er hafnað að ráðuneytið kalli kæruna til baka frá úrskurðarnefndinni og úrskurði sjálft í málinu.  Barst úrskurðarnefndinni afrit af þessu svari ráðuneytisins hinn 25. ágúst 1999.  Í bréfi ráðuneytisins eru færð rök fyrir þeirri skoðun að öll ágreiningsmál, sem upp kunni að koma um framkvæmd laga um skipulags- og byggingarmál nr. 73/1997 með síðari breytingum, eigi undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála samkvæmt 8. grein laganna og skipti þá ekki máli hvort um sé að ræða valdbærni Skipulagsstofnunar eða synjun hennar á kröfu um rökstuðning.  Ekki sé í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 að finna nein ákvæði um úrskurðarvald umhverfisráðherra og séu engin ágreiningsmál samkvæmt lögunum undanskilin úrlausnarvaldi úrskurðarnefndar samkvæmt 8. gr. laganna.

Niðurstaða:  Í máli þessu krefst kærandi úrskurðar um lögmæti afgreiðslu Skipulagsstofnunar á tilteknum erindum kæranda til stofnunarinnar.  Fyrra erindið laut að því að stofnunin drægi til baka bréf sín frá 16. febrúar og 4. mars 1999 til skólastjóra Foldaskóla.  Í bréfum þessum kemur fram álit stofnunarinnar á öryggi handriðs í skólanum, sem kærandi er arkitekt að.  Hafði álit þetta verið látið í té að beiðni skólastjórans, en kærandi mun sjálfur hafa átt frumkvæði að því að beðið var um úttekt þessa vegna slysa sem orðið hefðu í skólanum á undanförnum árum.  Hafnaði stofnunin umræddu erindi kæranda.

Síðara erindið laut að því að Skipulagsstofnun léti í té rökstuðning fyrir synjun fyrra erindis.  Var þeirri málaleitan einnig hafnað.

Þegar sérstakri kærunefnd hefur verið komið á fót í tilteknum málflokki, eins og hér um ræðir, verður að líta svo á að ráðherra og kærunefndin séu hliðsett stjórnvöld á æðra stjórnsýslustigi með lögbundinni verkaskiptingu.  Leiki vafi á um valdmörk milli ráðherra og kærunefndar verður að telja valdið í höndum ráðherra, enda er það meginregla að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé að lögum undanskilin forræði hans.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fer ráðherra með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála samkvæmt lögunum og er Skipulagsstofnun honum til aðstoðar.  Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna ber skipulagsstjóri ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsemi stofnunarinnar gagnvart ráðherra.  Er hvergi að því vikið í nefndum lögum að úrskurðarnefndin skuli fjalla um ágreining sem rísa kann um meðferð mála hjá Skipulagsstofnun, með þeirri undantekningu einni sem getið er í 3. tl. ákvæða til bráðabirgða í lögunum. Hefði það ákvæði verið með öllu óþarft ef nefndin hefði átt að hafa vald til þess að úrskurða almennt um ágreiningsefni um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á einstökum erindum.  Telur úrskurðarnefndin að tilvist ákvæðisins bendi til að nefndinni hafi ekki verið ætlað slíkt úrskurðarvald.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ákvarðanir þær, sem kærðar eru í máli þessu, verði ekki taldar til stjórnvaldsákvarðana sem bornar verði undir nefndina.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru H á afgreiðslu Skipulagsstofnunar á erindum kæranda, er varða umsögn um handrið í Foldaskóla í Reykjavík, er vísað frá úrskurðarnefndinni.