Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2000 Iðnréttindi

Ár 2002, fimmtudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2000, kæra Ó, húsasmíðameistara á ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 1. nóvember 2000 að synja umsókn hans um staðbundin réttindi sem húsasmíðameistari og byggingarstjóri í umdæmi Hafnarfjarðar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. desember 2000, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir Ó, húsasmíðameistari, Merkigerði 6, Akranesi, þá ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 1. nóvember 2000 að hafna umsókn hans um staðbundin réttindi í umdæmi Hafnarfjarðar til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi hinn 7. nóvember 2000.

Málavextir:  Kærandi lauk sveinsprófi í húsasmíði hinn 3. mars 1969. Hann hlaut meistararéttindi í iðn sinni með meistarabréfi, útgefnu af sýslumannsembættinu í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu hinn 20. febrúar 1973.  Hinn 8. október 2000 sótti kærandi um leyfi til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum í umdæmi Hafnarfjarðarbæjar og var umsóknin tekin fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 1. nóvember 2000 þar sem lá frammi bréf byggingarfulltrúa, dags. 20. október 2000, er mælti gegn samþykki umsóknarinnar.  Í bréfinu voru tíunduð ákvæði skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar er málið vörðuðu en þar kom ekki fram í hverju kærandi uppfyllti ekki þau skilyrði.  Var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að hann uppfyllti ekki ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Kærandi undi ekki þeim málalokum og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að hann hafi öðlast fullgild meistararéttindi í iðn sinni og séu þau réttindi ekki staðbundin.  Slík réttindi sé ekki hægt að ógilda að ósekju.  Höfnun byggingaryfirvalda í Hafnarfirði á umsókn hans sé órökstudd og uppfylli ákvörðunin því ekki ákvæði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar:  Synjun byggingarnefndar Hafnarfjarðar á umsókn kæranda var rökstudd með eftirfarandi bókun á fundi nefndarinnar hinn 1. nóvember 2000:  „Byggingarnefnd gerir bréf byggingarfulltrúa að sínu og synjar þar með erindinu þar sem umsækjandi uppfyllir ekki ákvæði skipulags- og byggingarlaga.”  Í bókun skipulags- og byggingarráðs frá 19. nóvember 2002 vegna málskots kæranda til úrskurðarnefndarinnar segir svo:  „Ástæður synjunar er að umsækjandi uppfyllir ekki ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um staðbundin réttindi.  Má í því sambandi m.a. benda á gr. 37 í byggingarreglugerð en í henni segir m.a. að umsækjandi skuli leggja fram verkefnaskrá staðfesta af byggingarfulltrúa er sýni fram á að umsækjandi hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi byggingarnefndarumdæmi.  Yfirlýsing þessi liggur ekki fyrir.  Að framansögðu tekur skipulags- og byggingarráð undir bókun byggingarnefndar frá 1. nóv. 2000.”

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar fól í sér synjun á umsókn kæranda um staðbundna viðurkenningu til að bera ábyrgð á og stjórna byggingarframkvæmdum í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar.  Af kæru verður ráðið að kærandi telji að með þeirri ákvörðun hafi meistararéttindum hans verið vikið til hliðar auk þess sem synjun byggingarnefndar hafi verið órökstudd.

Réttindi til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum sem iðnmeistari eða byggingarstjóri eru ekki háð því eina skilyrði að umsækjandi hafi hlotið meistararéttindi.  Meginreglu núgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um réttindi iðnmeistara er hér um ræðir er að finna í 2. mgr. 52. gr. laganna.  Þar er kveðið á um að einungis þeir iðnmeistarar sem lokið hafi námi í meistaraskóla geti fengið löggildingu ráðherra á landsvísu til að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum.  Tímabundið ákvæði var sett í 10. tölulið ákvæðis laganna til bráðabirgða þar sem þeim iðnmeisturum, sem ekki höfðu lokið námi í meistaraskóla, var gefinn kostur á að öðlast umrædd réttindi með því að sækja sérstakt námskeið.

Í 5. tölulið bráðabirgðaákvæðis laganna er tekið fram að gildistaka þeirra hafi ekki áhrif á réttindi iðnmeistara og byggingarstjóra sem hlotið hafa viðurkenningu byggingaryfirvalda til þess að standa fyrir framkvæmdum hver á sínu sviði.  Í lögunum er ekki nánar fjallað um veitingu staðbundinna réttinda til handa iðnmeisturum eða hvort og þá hvaða skilyrði skuli setja fyrir slíkum viðurkenningum eftir gildistöku þeirra.  

Núgildandi heimild til þess að veita iðnmeisturum staðbundna viðurkenningu til þess að bera ábyrgð á verkframkvæmdum gagnvart byggingarnefnd er hins vegar í gr. 37.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Kærandi er húsasmíðameistari og uppfyllir það skilyrði ákvæðisins að hafa lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989.  Við hina kærðu ákvörðun lá hins vegar ekki fyrir hvort kærandi fullnægði því skilyrði ákvæðisins að hafa hlotið staðbundin réttindi til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum.  Verkefnaskrá staðfest af byggingarfulltrúa, er sýndi fram á að umsækjandi hefði að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi byggingarnefndarumdæmi eða umdæmum, fylgdi heldur ekki umsókn kæranda eins og áskilið er í ákvæðinu.

Þrátt fyrir þetta verður að fallast á það með kæranda að hin kærða ákvörðun uppfylli ekki ákvæði 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um rökstuðning, enda verður ekki ráðið af bókun byggingarnefndar frá 1. nóvember 2000 hvaða lagaskilyrði kærandi uppfyllti ekki til þess að öðlast umrædd réttindi.  Hins vegar er í umsögn bæjaryfirvalda í kærumáli þessu vísað til þess að m.a. hafi skort verkefnaskrá  með umsókn kæranda.  Ekki liggur fyrir að bæjaryfirvöld hafi kallað eftir slíkri verkefnaskrá frá kæranda eða leitað með öðrum hætti upplýsinga um hvort kærandi uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar til þess að öðlast umsótt réttindi áður en ákvörðunin var tekin.  Þykir málsmeðferðin að þessu leyti fara í bága við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af greindum annmörkum á hinni kærðu ákvörðun, sem var íþyngjandi gagnvart kæranda og snerti atvinnuréttindi hans, verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 1. nóvember 2000, að synja umsókn kæranda um leyfi til þess að bera ábyrgð á byggingarframkvæmdum í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir