Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/1998 Lyngás

Með

Ár 1998, miðvikudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/1998
Ágreiningur milli húseiganda að Bjarkarhlíð 6 í Egilsstæðabæ og byggingaryfirvalda um opnun veitingastaðar með vínveitingaleyfi að Lyngási 5 – 7.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 8.2. 1998, kærir G, Bjarkarhlíð 6, Egilsstöðum samþykkt bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 18. nóvember 1997 „um opnun á veitingastað með vínveitingaleyfi við Lyngás 1 – 3 á Egilsstöðum.“
Gerir hann kröfu til þess að ofangreind samþykkt bæjarstjórnar verði ógilt.

Um kæruheimild er vísað til 7. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978.

Með bréfi úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. febrúar 1998, var kæran kynnt byggingarnefnd og bæjarstjórn Egilsstaðabæjar og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sama dag var óskað  umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefnið skv.  eð-lið 4. gr. laga nr. 73/1997. Þá var rekstraraðila veitingastaðarins að Lyngási 5 – 7, Egilsstöðum, jafnframt gefinn kostur á að að koma að athugasemdum sínum við framkominni kæru. Úrskurðarnefnd hafa borist álit og umsagnir ofangreindra aðila. Þá hefur nefndinni ennfremur borist bréf frá kæranda, dags. 25. mars s.l., þar sem hann gerir frekari grein fyrir kröfum sínum. Í því bréfi leiðréttir kærandi tilgreiningu á húsnúmeri umrædds veitingastaðar, hið rétta sé að húsið sé nr. 5 – 7 við Lyngás á Egilsstöðum.

Með nýjum skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sem tóku gildi þann 1. janúar 1998, voru byggingarlög nr. 54/1978 felld úr gildi. Samkvæmt 8. gr. hinna nýju laga, sbr. og  2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd nr. 621/1997, fjallar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarlaga um ágreining um skipulags- og byggingarmál samkvæmt þeim lögum.
Umhverfisráðuneytið framsendi erindi þetta til úrskurðarnefndar þann 9. febrúar s.l.

Málsatvik:  Samkvæmt gögnum málsins eru helstu atvik þessi.

Með bréfi til bæjarstjóra Egilsstaðabæjar, dags. 15. september 1997, sækir Ágúst Ólafsson f. h. Valkyrja ehf. um rekstrarleyfi fyrir veitingahús á efri hæð hússins að Lyngási 3 (sic.) Í bréfinu segir að ætlunin sé að starfrækja þar matsölustað undir nafninu PIZZA´67, ásamt vínveitingum. Með bréfinu fylgdi teikning af húsnæðinu eins og fyrirhugað var að það yrði eftir breytingar.

Umsókninni var hafnað af skipulags- og byggingarráði Egilsstaðabæjar þann 18.9.1997 og þá bókað að ganga þyrfti frá teikningu í samræmi við byggingarreglugerð. Ennfremur var byggingarfulltrúa falið að kynna nágrönnum fyrirhugaða starfsemi í húsinu.
Með bréfi, dags. 22. september 1997 sækir sami aðili um leyfi til skipulagsnefndar til að breyta notkun efri hæðar hússins að Lyngási 5, úr íbúðar og skrifstofuhúsnæði, í húsnæði fyrir veitingarekstur.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 25. september 1997 var húseigendum við Bjarkarhlíð, Tjarnarás og Lyngás gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaðan veitingarekstur að Lyngási 5 fyrir 27.10. 1997. Af því tilefni sendu kærandi og nokkrir húseigendur bréf til byggingarfulltrúa. Í bréfi sínu mótmælir kærandi því að leyfi verði veitt til sölu áfengis í húsinu, og óskar jafnframt eftir því að bæjarstjórn lýsi yfir andstöðu sinni við að sýslumaður veiti fyrirhuguðum veitingastað slíkt leyfi. Myndi slíkt leiða til aukins ónæðis í næsta nágrenni og verðlækkunar á fasteignum. Þá nefnir kærandi að fjöldi vínveitingaleyfa hafi þegar verið gefinn út í næsta nágrenni, og því ekki á bætandi.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs þann 30.10.1997 var byggingarfulltrúa heimilað að gefa út byggingarleyfi til að breyta efri hæð hússins að Lyngási 5 í veitingastað. Bæjarstjórn staðfesti þá ákvörðun á fundi sínum 4.11. 1997.

Á fundi bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 8. nóvember 1997  er svo bókað um afgreiðslu á áfengisveitingaleyfi að Lyngási 5 – 7: „Bæjarstjóri kynnti málið, sem varðar starfsemi Pizza 67 að Lyngási 5 – 7. Sagði hann frá viðræðum við rekstraraðila um fyrirhugaðan rekstur. Að því búnu samþykkt samhljóða að mæla með vínveitingaleyfi til Pizza 67 á grundvelli þess samkomulags sem bæjarstjóri og rekstraraðilar gerðu, en þar er gert ráð fyrir opnunartíma sunnudaga til og með fimmtudaga til 23:30 en föstudaga og laugardaga til kl. 24:00. Þessi opnunartími verður endurskoðaður eftir 3 mánuði í rekstri ef ástæða þykir til.“

Rökstuðningur málsaðila:  Kærandi rökstyður kröfu sína með því að opnun veitingastaður með vínveitingaleyfi að Lyngási 5-7  eigi ekkert erindi svo nálægt íbúðabyggð og að slíkur rekstur sé svo ólíkur þeim rekstri sem áður hafi verið á þessum stað að engin rök fyrir því að leyfa hann án þess að breyta skipulagi. Með samþykkt um vínveitinga- og rekstrarleyfi sé verið að opna möguleika til að hafa staðinn opinn til tvö til þrjú eftir miðnætti. Sé það ámælisvert af bæjarstjórn að vera þannig að læða leyfi fyrir veitinga- og skemmtistað yfir íbúa í nágrenninu, með þeim átroðningi sem vínveitingahúsum venjulega fylgi.

Í bréfi sínu til úrskurðarnefndar, dags. 25. mars s.l., segir kærandi svo ennfremur: „Það furðulegasta í þessu máli er sú sundurgreining sem er á leyfi fyrir matsölustað og vínveitingaleyfi. Vitað var strax í upphafi að Pizza 67 bæði um vínveitingaleyfið og að bæjarstjórn ætti að afgreiða það erindi. Sem síðan yrði forsenda þess að sýslumaður gæti gefið út vínveitingaleyfi skv. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969. Á þeim forsendum tel ég að ógilda þurfi afgreiðslu byggingarnefndar og bæjarstjórnar til að fá þessari ákvörðun hnekkt. Krafa mín er sú að úrskurðað verði að byggingarnefnd og bæjarstjórn Egilsstaða hafi brotið gildandi skipulag á þessu svæði með afgreiðslum sínum í þessu máli og samþykktir þeirra verði felldar úr gildi.“

Í bréfi byggingarfulltrúa, dags .9. mars s.l.  er skýrð afstaða skipulags- og byggingaryfirvalda til kröfu kæranda. Þar segir m.a. að ekkert deiliskipulag sé til af þessu svæði, en í aðalskipulagi sé það skilgreint sem  „blönduð landnýting, einkum verslun og iðnaður“ Í húsinu að Lyngási 5 – 7 hafi áður verið og/eða sé nú verslun, skrifstofa, íbúð, vélaverkstæði. Telur skipulags- og byggingarráð að ekki hafi komið fram mótmæli gegn matsölustað í húsinu, eins og um var sótt, og því engin rök gegn þeirri ákvörðun að leyfa þar matsölustað.

Niðurstaða:  Með bréfi byggingarfulltrúa Egilsstaðabæjar þann 25. september 1997 var kæranda ásamt öðrum íbúum við Bjarkarhlíð, Tjarnarás og Lyngás, gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaðan veitingarekstur að Lyngási 5 – 7. Því bréfi svaraði kærandi með bréfi þann 23. október 1997. Af því bréfi verður ekki ráðið að kærandi hafi lagst gegn því að veitt yrði byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra breytinga á húsnæðinu. Hins vegar lýsir hann eindreginni andstöðu sinni við því að þar verði veitt leyfi til áfengisveitinga og færir fram rök fyrir þeirri afstöðu sinni.

Þann 30. október 1997 samþykkti skipulags- og byggingarráð bæjarins að heimila byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til breytinga á efri hæð hússins að Lyngási 5, og var sú samþykkt staðfest af bæjarstjórn Egilsstaðabæjar þann 4. nóvember 1997.

Fram er komið að ekkert deiliskipulag er til af umræddu svæði við Lyngás, en það er skilgreint sem „blönduð landnýting, einkum verslun og iðnaður.“ Því verður ekki talið að bæjaryfirvöldum hafi borið að breyta skipulagi, áður en veitt var leyfi til veitingareksturs á efri hæð hússins nr. 5 – 7 við Lyngás. Af þeim sökum einum eru því engar forsendur til þess að verða við kröfu kæranda um að fella úr gildi samþykktir skipulags- og byggingarráðs og bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar um leyfi til breytinga á umræddu húsnæði.

Hin kærða samþykkt bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 18. nóvember 1997 felur í sér umsögn hlutaðeigandi sveitarstjórnar til lögreglustjóra vegna umsóknar um leyfi til áfengisveitinga, sbr. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969, með síðari breytingum. Í ákvæðinu kemur fram, að áður en sveitarstjórn lætur uppi umsögn, skuli hún leita álits áfengisvarnarnefndar.
Úrlausn ágreinings um ofangreinda umsögn bæjarstjórnar til lögreglustjóra fellur ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Kröfu kæranda um að samþykkt bæjarstjórnar frá 18. nóvember 1997 er því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, G, um að fella úr gildi samþykktir skipulags- og byggingarráðs og bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 30. október og 4. nóvember 1997 um leyfi til að breyta efri hæð hússins nr. 5 – 7 við Lyngás í matsölustað.
Kröfu kæranda um ógildingu samþykktar bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar frá 18. nóvember 1997 er vísað frá úrskurðarnefnd.

9/1998 Háeyrarvellir

Með

Ár 1998,  miðvikudaginn 22. apríl kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 09/1998/ 98040001

Ágreiningur milli húseigenda að Háeyrarvöllum 2, Eyrarbakka, og byggingaryfirvalda um breytingu á þaki spennistöðvar.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. mars 1998, kærir Sigurður Jónsson hrl.,  f. h. MÞ og MÖ, húseigenda að Háeyrarvöllum 2 , Eyrarbakka,  ákvörðun Eyrarbakkahrepps um að heimila breytingu á þaki spennistöðvar vestan við hús þeirra.

Þess er krafist að heimild byggingaryfirvalda til breytinga á þaki hússins verði felld úr gildi og lagt verði fyrir eiganda að færa það í upprunalegt horf.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Málsatvik:  Samkvæmt gögnum málsins eru helstu atvik þess þau að í nóvember sl. urðu kærendur þess varir að framkvæmdir voru hafnar við að breyta þakinu á spennistöðinni, sem er í 13 metra fjarlægð frá húsi þeirra. Hið nýja þak er allt annarar gerðar en hið fyrra,  skyggir á útsýni frá kærendum og lokar fyrir útsýni út á götuna. Þeir kvörtuðu þá þegar munnlega til hreppsnefndar en kvörtunum þeirra og kröfum um stöðvun framkvæmda var ekki sinnt. Þeir fengu engin gögn í hendur fyrr en erindi þeirra var synjað með bréfi oddvita, dags. 23. febrúar 1998.

Niðurstaða:  Kærufrestur er einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt um þá samþykkt sem hann kærir, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags-  og byggingarlaga nr. 73/1997 og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997. Bréf kærenda til nefndarinnar er dags. 31. mars sl. og verður því að telja að kærufrestur hafi verið liðinn þegar nefndinni barst erindi kærenda. Þegar af þeirri ástæðu, svo og með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993,  brestur úrskurðarnefnd lagaheimild til að taka mál kærenda til efnislegrar meðferðar. Verður því að vísa máli þeirra frá úrskurðarnefnd.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd.

 

 

5/1998 Melabraut

Með

Ár 1998,  miðvikudaginn 1. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru Gunnar Jóhann Birgisson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1998/05; 98030005

Ágreiningur milli húseigenda við Móabarð í Hafnarfirði og byggingaryfirvalda um samþykkt umsóknar um leyfi til að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhúsnæði á lóðinni nr. 21 við Melabraut.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

 
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9.2. 1998, kærir Jónatan Sveinsson hrl., f. h. þinglesinna eigenda fasteignanna nr. 16, 18, og 20B við Móbarð í Hafnarfirði, ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 28.1. 1998 um að samþykkja umsókn H f. h. Vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja 1.404 ferm. iðnaðarhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut

Þess er krafist að framangreind ákvörðun byggingarnefndar verði felld úr gildi.

Í bréfinu var þess jafnframt krafist, með vísan til  5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, að þegar í stað yrði kveðinn upp úrskurður um stöðvun framkvæmda á lóðinni, þar sem þegar hefur  verið grafinn grunnur að húsinu, þar til ágreiningi þessum hafi verið ráðið til lykta hjá nefndinni.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Kröfur sínar rökstyðja kærendur með því að framangreind ákvörðun byggingarnefndar hafi verið ólögmæt. Þeir séu meðal þeirra sem eiga íbúðarhús í næsta nágrenni og eigi þar af leiðandi lögvarinn rétt til þess, að yfirvöld skipulags- og byggingarmála hagi afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi með þeim hætti að ekki verði að nauðsynjalausu gengið á hagsmuni þeirra.
Byggingarnefnd hafi borið sig ranglega að við afgreiðslu umsóknarinnar. Henni hafi borið, samkvæmt 1. sbr. 2. og 7. mgr. 43. greinar, sbr. 23. og 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem tóku gildi 1. janúar 1998, að vísa málinu til skipulagsnefndar áður en hún tók það til endanlegrar afgreiðslu. En hvort heldur sem umsóknin hefði verið meðhöndluð og afgreidd eftir eldri eða núgildandi skipulags- og byggingarlögum rúmaðist ákvörðun byggingarnefndar, um að samþykkja umsóknina, ekki innan gildandi „deiliskipulags“ á svæðinu að því er varðaði stærð hinnar fyrirhuguðu byggingar. Það hefði byggingarnefndarmönnum átt að vera ljóst þar sem um hafi verið að ræða leyfi til byggingar á stakri lóð í fullbyggðu hverfi og því lítið svigrúm til að víkja frá gildandi „deiliskipulagi“.

Með bréfum nefndarinnar, dags. 12.2. 1998, var framangreint kærubréf ásamt fylgiskjölum kynnt byggingarnefnd Hafnarfjarðar og byggingarleyfishafa og þeim gefinn kostur á að koma að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og gera athugasemdir, fyrir 27.2. 1998. Jafnframt var sama dag óskað umsagnar Skipulagsstofnunar skv.  e-lið 4. gr. laga nr. 73/1997. Umsögn Skipulagsstofnunar barst nefndinni í bréfi 20.2. 1998, athugasemdir byggingarleyfishafa í bréfi lögmanns hans dags. 26.2. 1998 og rökstuðningur byggingarnefndar í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27.2. 1998.

Í bréfi byggingarfulltrúa segir m. a. að byggingarnefnd hafi talið, eftir að hafa ráðfært sig við bæjarlögmann, að þar sem umsóknin hafi fyrst komið til umfjöllunar í byggingarnefnd í nóvember 1997 bæri að afgreiða hana samkvæmt þágildandi byggingarlögum og byggingarreglugerð.
Fyrir fundi byggingarnefndar hafi legið samkomulag lóðarhafa lóðanna nr. 21, 23 og 25 við Melabraut þess efnis að lóðirnar yrðu samnýttar að því er varði bílastæði og athafnasvæði og þar af leiðandi sé sameiginleg nýting þessara lóða 0.38.
Með tilliti til jafnræðis samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hafi byggingarnefnd  látið taka saman á skipulagsuppdrætti af Hvaleyrarholti, dags. í júní 1986, hvar og þá hvernig sambærileg mál hafi í gegnum árin verið samþykkt í þessu iðnaðarhverfi af byggingar- og skipulagsnefnd.
 
Í umsögn Skipulagsstofnunar segir m.a. að á svæðinu sé ekki í gildi samþykkt eða staðfest deiliskipulag, þar sem deiliskipulagstillaga iðnaðarsvæðis á Hvaleyrarholti, sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 9.9. 1986 hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu skipulagsstjóra ríkisins skv. grein 4.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985. Hins vegar sé nýtingarhlutfall það sem byggingarnefnd hafi heimilað á lóðinni nr. 21 við Melabraut langt umfram það sem gert sé ráð fyrir í staðfestu aðalskipulagi.

Að kröfu kæranda, með vísun til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð þann 10.3. 1998 þess efnis að framkvæmdir á lóðinni nr. 21 við Melabraut skyldu stöðvaðar á meðan kærumáli þessu væri ráðið til lykta hjá nefndinni.

Niðurstaða:  Athugasemdir verða ekki gerðar við málsmeðferð byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókninni. En samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem tóku gildi um s. l. áramót, skulu byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Samhljóða ákvæði var í eldri byggingarlögum nr. 54/1978, sbr. 2. mgr. 9. gr. 

Uppdrættir sem samþykktir voru á fundi byggingarnefndar 28.1. 1998 að 1.404 fermetra húsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21. við Melabraut, sem er 2065 fermetrar að stærð, uppfylla ekki framangreind skilyrði. Nýtingarhlutfall á lóðinni er of hátt eða 60% hærra en segir í greinargerð með staðfestu aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 frá 23.12. 1997, sem ákveður hámarksnýtingu 0.4 á einstökum lóðum. Einhliða samkomulag lóðarhafa lóðanna nr. 21, 23 og 25, um að þinglýsa kvöð á lóðirnar um að samnýta bílastæði, opin svæði og aðkomuleiðir og um að lóðarmörk verði ekki girt eða afmörkuð á annan hátt breytir ekki leyfilegu byggingarmagni á lóðinni nr. 21 við Melabraut samkvæmt staðfestu aðalskipulagi.

Samkvæmt samþykktum uppdráttum brýtur fyrirhugað hús einnig í bága við deiliskipulagsuppdrátt iðnaðarsvæðis á Hvaleyrarholti frá júní 1986, að því leyti að það er að grunnmáli 10 metrum lengra og 10 metrum breiðara en gert er ráð fyrir á byggingarreit lóðarinnar.
Telja verður framangreindan deiliskipulagsuppdrátt, sem samkvæmt skjölum málsins var samþykktur á fundi bæjarstjórnar þann 9.9. 1986 og kynntur hagsmunaaðilum og nágrönnum 10. sama mánaðar, vera bindandi skipulag fyrir skipulags- og byggingaryfirvöld og lóðarhafa, þótt hann hafi ekki, vegna athugsemda um að finna þurfi lausnir til að fækka umferðartengingum við Suðurbraut, verið samþykktur af skipulagsstjóra ríkisins skv. grein 4.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 318/ 1985.

Samantekt byggingarnefndar um sambærileg mál sem samþykkt hafi verið af byggingar- og skipulagsnefnd í þessu iðnaðarhverfi hefur eðli málsins samkvæmt ekki áhrif á niðurstöðu þess máls sem hér er til úrlausnar.
Með vísun til framanritaðs fellst úrskurðarnefnd á kröfu kærenda.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 28.1.1998 og bæjarstjórnar þann 3.2.1998, um að samþykkja umsókn H f. h. vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut, er felld úr gildi.

3/1998 Leifsgata

Með

Ár 1998,  miðvikudaginn 25. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið málið nr. 3/1998:

Ágreiningur eiganda ósamþykkts íbúðarhúsnæðis á lóðinni nr. 4B við Leifsgötu í Reykjavík við borgaryfirvöld vegna skilyrða sem þau settu fyrir afmörkun eignarhlutans, samkvæmt reglugerð nr. 471/1997 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o. fl. í fjöleignarhúsum.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með stjórnsýslukæru til umhverfisráðuneytisins, dags. 20. janúar 1998, kærir Jónína S. Lárusdóttur hdl. f.h. Othars Arnar Petersen hrl., ákvörðun borgarstjórnar frá 15.1.1998 um að staðfesta ákvarðanir byggingarfulltrúa og byggingarnefndar frá 17. og 18.12. 1997 um að samþykkja umsókn umbjóðenda hennar, I, Vatnsendabletti 156 í Kópavogi,  dags. 3.12. 1997, um afmörkun ósamþykkts íbúðarhúsnæðis hans á lóðinni nr. 4B við Leifsgötu, á grundvelli 15. gr. reglugerðar nr. 471/1997 með skilyrðum, sbr. eftirfarandi bókun:

„Samþykktin tekur einungis til eignaafmörkunar, en í henni felst ekki samþykkt á bakhúsi hvorki til íbúðar eða annarra nota. Fjarlægist borgarsjóði að kostnaðarlausu þegar krafist verður. Byggingin uppfyllir ekki ákvæði brunamálareglugerðar. Þinglýsa skal ofangreindum ákvæðum áður en samþykktin tekur gildi.“

Kærandi krefst þess að framangreind skilyrði verði úrskurðuð ólögmæt og að úrskurðað verði að samþykki eignaafmörkunar eignarhlutans skuli vera skilyrðislaus.

Um kæruheimild er vísað til 7. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978.

Kröfur sínar rökstyður kærandi m.a. með eftirfarandi:
Setning skilyrðanna hafi verið óþörf og að með þeim hafi verið brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Umbjóðandi hennar hafi eingöngu beðið um afgreiðslu á erindi þar sem hann fór fram á afmörkun séreignar í samræmi við 15. gr. reglugerðar nr. 471/1997 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o. fl. í fjölbýlishúsum.
Niðurrifskvöð skilyrðanna feli í sér athafnaskyldu með tilkostnaði og varði eignarrétt sem verndaður sé af 72. gr. stjskr. nr. 33/1944.
Leifsgata 4B hafi staðið á lóðinni síðan á 5. áratug aldarinnar og þó svo að borgaryfirvöld hafi synjað um samþykki sitt fyrir húsinu hafi þau  aldrei gert ráðstafanir til að fá það fjarlægt. Í raun hafi tilvist hússins verið látin óátalin af borgaryfirvöldum og viðurkennd með innheimtu fasteignagjalda af því.

Með nýjum skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sem tóku gildi þann 1. janúar 1998, voru byggingarlög nr. 54/1978 felld úr gildi. Samkvæmt 8. gr. hinna nýju laga, sbr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd nr. 621/1997, fjallar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarlaga um ágreining um skipulags- og byggingarmál.
Umhverfisráðuneytið framsendi erindi þetta til úrskurðarnefndar þann 22. janúar 1998.

Framlögð gögn:  Fyrir úrskurðarnefnd hafa verið lögð eftirtalin gögn:

Nr.  1  Lóðarleigusamningu, dags. 21. maí 1942.
Nr.  2  Erindi Þ til byggingarnefndar, dags. 25. apríl 1944 og svar byggingarnefndar, dags. 5. maí 1944.
Nr.  3  Bréf eiganda Leifsgötu 6 til bæjarráðs Reykjavíkur, dags. 1. júní 1946.
Nr.  4  Svar bæjarráðs Reykjavíkur, dags. 30. mars 1996.
Nr.  5  Bréf Þ til bæjarráðs Reykjavíkur, dags. 1. júní 1946.
Nr.  6  Bréf Ólafs Þorgrímssonar hrl. til borgarverkfræðings, dags. 25. maí 1987.
Nr.  7  Bréf Ólafs Þorgrímssonar hrl.  til lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkurborgar, dags. 15. júlí 1988.
Nr.  8. Bréf framkvæmdastjóra lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkurborgar til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 19.júlí 1988.
Nr.  9.   Svar byggingarfulltrúa til Ólafs Þorgrímssonar hrl., dags. 12. ágúst 1988.
Nr.  10. Yfirlýsing eiganda framhússins að Leifsgötu 4, dags. 30. ágúst 1988.
Nr.  11.  Kaupsamningur um Leifsgötu 4, ódags.
Nr.  12.  Afsal Leifsgötu 4, dags. 1. september 1988.
Nr.  13.  Vottorð Fasteigamats ríkisins, dags. 20. febrúar 1997.
Nr.  14.  Útskrift frá skráningadeild fasteigna, dags. 4. desember 1996.
Nr.  15.  Reikningur frá Gjaldheimtunni í Reykjavík, með gjalddaga 1. febrúar 1997.
Nr.  16.  Þinglýsingarvottorð, dags. 20. febrúar 1997.
Nr.  17.  Umsókn til byggingarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 14. mars 1997.
Nr.  18.  Umsókn til byggingarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 1997.
Nr.  19.  Bréf byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 23. desember 1997.
Nr.  20.  Fundargerð byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 17. desember 1997.
Nr.  21.  Fundargerð byggingarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 18. desember 1997.
Nr.  22.  Fundargerð borgarstjórnar, dags. 15. janúar 1988.

Þá hefur úrskurðarnefnd leitað umsagnar og álits málsaðila og Skipulagsstofnunar, og hafa þessar umsagnir og álit borist nefndinni:
Umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 16. febrúar 1998.
Bréf borgarstjóra, dags. 4. mars 1998 ásamt umsögn skrifstofustjóra byggingarfulltrúa, dags. dags. 25. febrúar 1998, sem samþykkt var fundi byggingarnefndar 26. febrúar 1998 og í borgarráði 3. mars 1998.
Bréf Jónínu S. Lárusdóttur hdl., dags. 19. mars 1998.

Málsatvik:
Kærandi lýsir málavöxtum svo:
„Hinn 21. maí 1942 gerði borgarstjórinn í Reykjavík leigusamning við Þ, Barónsstíg 12 í Reykjavík um leigu á lóðinni nr. 4 við Leifsgötu í Reykjavík, sem var og er 405 fermetrar að flatarmáli.
Sumarið 1943 byggði Þ íbúðarhús á ofangreindri lóð.

Hinn 25. apríl 1944 fór Þ þess á leit við byggingarnefnd við byggingarnefnd Reykjavíkur að honum yrði veitt leyfi til að byggja gróðurhús á lóðinni. Því erindi var synjað með bréfi, dags. 5. maí 1944, án alls rökstuðnings.
Hinn 26. mars 1946 var bæjarráði Reykjavíkur tilkynnt um byggingu gróðurhúss á lóð Leifsgötu 4 af íbúum nærliggjandi húsa var ennfremur kvartað yfir þeim hávaða sem starfsemi prentsmiðju í húsinu fylgdi og skorað á bæjarráð að gera ráðstafanir vegna þessa. Bæjarráð vísaði erindinu til lögreglunnar og byggingarfulltrúa til meðferðar með bréfi, dags. 30. mars 1946.

Í bréfi sínu, dags. 1. júní 1946 nefndi Þ að hann hefði fengið tilkynningu frá bæjaryfirvöldum að honum væri óheimilt að hafa bakhúsið á lóðinni. Fór hann þess á leit með bréfinu að honum yrði leyft að hafa bygginguna á lóðinni, þar sem hann hefði lagt mikinn kostnað í hana og starfsemi sem til húsa í henni. Á bréf þetta var ritað „synjað“. Virðist það benda til þess að bæjarráð hafi hafnað því að Þ hefði bygginguna á lóðinni ásamt þeirri starfsemi sem þar var rekin næstu 5 árin.
Hins vegar liggur ekki fyrir að þáverandi bæjaryfirvöld hafi gert nokkrar ráðstafanir til þess að húsið yrði fjarlægt.

Hinn 25. maí 1987 ritaði Ólafur Þorgrímsson hrl. borgarverkfræðingi bréf erfingja Þ, þar sem hann fór fram á viðurkenningu borgaryfirvalda á lögmæti tilvistar bakhússins. Benti hann á að húsið hefði staðið á lóðinni í fullan hefðartíma, óátalið af öllum, sem hlut áttu að máli, þar á meðal af borgaryfirvöldum, enda væri eignarhlutinn sérmetinn til fasteignamats og skattlagður í samræmi við það. Hinn 15. júlí 1998 framsendi þáverandi framkvæmdastjóri lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkurborgar ofangreind gögn og bað um að „málið yrði tekið upp að nýju og kannað hvort grundvöllur sé fyrir að samþykkja þessi mannvirki, sem staðið hafi um áratugi.“

Hinn 12. ágúst 1988 var erindi Ólafs Þorgrímssonar hrl. synjað, án nokkurs rökstuðnings. 
Ekki virðast hafa verið aðhafðar ráðstafanir af hálfu borgarinnar í kjölfar þessa til þess að fá umrætt hús fjarlægt.
Hinn 30. ágúst 1988 gerðu eigendur að Leifsgötu 4 eftirfarandi yfirlýsingu sem þinglýst er á Leifsgötu 4:
„Við undirritaðir eigendur að Leifsgötu 4 í Reykjavík, þ. e. framhúsinu við Leifsgötu ásamt bílskúr og öðru, sem eignarhlutum okkar fylgir, svo sem því er lýst í afsölum til okkar, lýsum því hér með yfir að við höfum ekkert að athuga við eignarrétt I að tveim íbúðarskúrum á baklóð fasteignarinnar, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum, sem sérstaklega eru metin til fasteignamats og lóðamats, svo og brunabótamats.“
Erfingjar Þ gerðu ódagsettan kaupsamning við umbj. minn, þar sem hinn seldi eignarhluti var tilgreindur: „tveir sambyggðir íbúðarskúrar á baklóð fasteignarinnar nr. 4 við Leifsgötu og eru kenninúmer þeirra 0201 og 0101. Húsmat þeirra er talið kr. 1.374, lóðarmat 83.000 og brunamat kr. 1.887.000 samkvæmt bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 3. júní 1987.“

Hinn 1. september 1988 var bakhúsið afsalað til umbj. míns sem átt hefur húsið síðan. Hefur hann búið í húsinu í nokkur ár, en leigir það nú út.
Hinn 14. mars 1997 var sótt um til byggingarnefndar Reykjavíkurborgar að hún samþykkti Leifsgötu 4B sem íbúðarhús. Málsmeðferð umsóknar var hæg og var það ekki fyrr en 5 mánuðum síðar að undirritaðri var tjáð munnlega að byggingarnefnd myndi ekki samþykkja umsóknina á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Þar sem mjög var þrýst á umbj. minn að leggja fram gögn til að unnt væri að ganga frá eignaskiptasamningi ákvað hann að sækja um afmökun séreignar Leifsgötu 4B á grundvelli 15. gr. reglugerðar 471/1995.“

Niðurstaða:  Ef þinglýst eignarheimild er ekki í samræmi við samþykktar aðalteikningar, eins og í máli kæranda, skal sækja um leyfi byggingarnefndar, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 471/1997, til afmörkunar eignarhlutans áður en eignaskiptayfirlýsing fæst staðfest.
Í ákvörðun byggingarnefndar um að leyfa afmörkun eignarhlutans, sbr. tilvitnað ákvæði, felast engin vilyrði um að veita umsækjanda betri rétt en hann hafði áður til að fá aðaluppdrætti að eign sinni samþykkta.
Samkvæmt framansögðu er á það fallist með kæranda að skilyrði sem borgaryfirvöld settu fyrir afmörkun eignarhlutans á lóðinni nr. 4B við Leifsgötu hafi verið óþörf og að með þeim hafi þau brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997.
Kröfur kæranda eru teknar til greina.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun borgarstjórnar frá 15. janúar 1998 um að staðfesta ákvarðanir byggingarfulltrúa og byggingarnefndar frá 17. og 18. desember 1997, um að samþykkja umsókn I um afmörkun eignarhluta hans í ósamþykktu íbúðarhúsnæði á lóðinni nr. 4B með skilyrðum, er breytt á þann veg að hún verði skilyrðislaus.

2/1998 Laugavegur

Með

Ár 1998,  miðvikudaginn 25. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið málið nr. 2/1998:

Ágreiningur milli húseigenda að Laugavegi 53a og Hverfisgötu 70 í Reykjavík og skipulagsyfirvalda vegna byggingaráforma á lóðinni nr. 53b.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags.15. janúar 1998, kæra eigendur, Laugavegi 53a og eigendur, Hverfisgötu 70, ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 16.12. 1997 um að staðfesta tillögu skipulags- og umferðarnefndar um byggingaráform á lóðinni nr. 53b við Laugaveg, sem samþykkt var á fundi nefndarinnar þann 15.12. 1997.

Þess er krafist að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Kröfu sína rökstyðja kærendur m. a. með því að ef byggt yrði á lóðinni samkvæmt tillögunni myndi aukið skuggavarp valda umtalsverðu tjóni á umhverfi þeirra og eignum og aukin umferð vegna fyrirhugaðs göngustígs og bílageymslu valda verulegum óþægindum.

Með nýjum skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sem tóku gildi þann 1. janúar 1998, voru byggingarlög nr. 54/1978 felld úr gildi. Samkvæmt 8. gr. hinna nýju laga, sbr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd nr. 621/1997, fjallar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarlaga um ágreining um skipulags- og byggingarmál.
Umhverfisráðuneytið framsendi erindi þetta til úrskurðarnefndar þann 22. janúar 1998.

Framlögð gögn:  Fyrir úrskurðarnefnd hafa verið lögð eftirtalin gögn:

Bréf íbúa Hverfisgötu 70 til skipulagsnefndar, dags. 8.12. 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulagsnefndar, dags. 9.10. 1997.
Útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar, frá 27.10 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulagsnefndar, dags. 9.11. 1997.
Útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar, frá 10.11. 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulagsnefndar, dags. 23.11. 1997
Greinargerð Guðrúnar Jónsdóttur um Laugaveg 53b, dags. 24.11. 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulagsnefndar, dags. 8.12. 1997.
Útskrift úr gerðabók skipulags- og byggingarnefndar, frá 8.12. 1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 12.12. 1997 og fylgirit.
Bréf íbúa Hverfisgötu 70 til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 13.12. 1997.
Útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar frá 15.12.1997.
Bréf íbúa Laugavegar 53a til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 4.1. 1998.
Bréf íbúa Hverfisgötu 70 til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 4.1. 1998.
Tillaga kynnt á vegum borgarskipulags, 17.9. – 9.10. 1997.
Tillaga samþykkt af skipulags- og umferðarnefnd, 15.12. 1997.

Þá hefur úrskurðarnefnd leitað umsagnar og álits málsaðila og Skipulagsstofnunar og hafa m. a. þessar umsagnir og álit borist nefndinni:

Athugsemdir byggingaraðila og lóðareiganda , dags. 19.2.1998.
Umsögn skipulagsstofnunar, dags. 27.2. 1998.
Bréf Ágústs Jónssonar skrifstofustjóra borgarverkfræðings, dags. 27.2. 1998.
Bréf Borgarskipulags Reykjavíkur, dags.12.3. 1998.

Niðurstaða:  Í bókun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 15. desember 1997 sem samþykkt var á fundi borgarráðs 16. sama mánaðar segir m.a.:
„Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir framlagðar tillögur merktar A9, og A10 með eftirfarandi athugasemdum: Stækkun 3. hæðar framhússins verði ekki meiri en 60 m2 miðað við uppdrátt merktan A7; ekki verði settir kvistir á ris framhúss; gert verði ráð fyrir að lokunarmöguleikum á gönguleið milli Laugavegs og Hverfisgötu. Borgarskipulagi er falið að fara yfir tillögur og athugasemdir sem borist hafa frá nágrönnum, og ræða við bréfritara.“

Ljóst er af orðalagi framangreindrar bókunar að í henni felst ekki endanleg tillaga eða samþykkt á byggingaráformum á lóðinni nr. 53b við Laugaveg, heldur einungis að skipulags- og umferðarnefnd geti sætt sig við framlagðar tillögur ef gerðar verði á þeim tilteknar breytingar í einni tillögu og að leiðbeina byggingaraðila um hvernig æskilegt væri að vinna þá tillögu.

Þar sem endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um byggingaráform á lóðinni nr. 53b við Laugaveg og með vísun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir úrskurðarnefnd rétt að vísa kröfu kærenda frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um að staðfesting borgarráðs þann 16. desember 1997 á samþykkt skipulags- og umferðarnefndar vegna byggingaráforma við Laugaveg 53b frá 15. sama mánaðar verði felld úr gildi, er vísað frá úrskurðarnefnd.

6/1998 Fjóluhlíð

Með

Ár 1998,  fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru Gunnar Jóhann Birgisson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 6/1998

Krafa um stöðvun framkvæmda á lóðinni nr. 3 við Fjóluhlíð í Hafnarfirði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með vísun til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 og að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar  í kærumálinu nr. 6/1998 þykir  úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála rétt, að verða við kröfu S,  f. h. íbúa/eigenda hússins á lóðinni nr. 4 við Fjóluhlíð í Hafnarfirði um að stöðva framkvæmdir á lóðinni nr. 3 við Fjóluhlíð.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir á lóðinni nr. 3 við Fjóluhlíð í Hafnarfirði skulu stöðvaðar þar til úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur kveðið upp úrskurð um hvort samþykkt byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 27. janúar 1998 um að leyfa byggingu tveggja íbúða húss á lóðinni þar sem önnur íbúðin er 79.4 fermetrar og hin 126.9 fermetrar, skuli felld úr gildi eða staðfest.

1/1998 Þverholt

Með

Árið 1998, fimmtudaginn 19. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingaverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið málið nr. 1/1998:
Ágreiningur íbúðaeigenda að Þverholti 11 í Mosfellsbæ við bygginganefnd Mosfellsbæjar vegna höfnunar bygginganefndar á endurskoðun byggingarleyfis til “Pizzabæjar”, sem samþykkt var í bygginganefnd þann 24. júní 1997.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til Umhverfisráðuneytisins, dags. 9. janúar 1998, kærir Hörður F. Harðarson, hdl., f.h.  íbúðaeigenda að Þverholti 11 í Mosfellsbæ, ákvörðun bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 26. nóvember 1997 og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 26. nóvember s.á. um að hafna beiðni um ógildingu samþykktar bygginganefndarinnar frá 24. júní s.á.

Er þess krafist að ákvörðun bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 24. júní 1997, þess efnis að samþykkja umsókn S, f.h. “Pizzabæjar”, um leyfi til að innrétta áður samþykkt verslunar- og þjónusturými á 1. hæð til vinstri í húsinu nr. 11 við Þverholt sem pizzastað, verði tekin til endurskoðunar. Þá er þess og krafist að starfsleyfi, sem heilbrigðisnefnd Mosfellsbæjar veitti “Pizzabæ” þann 26. júní 1997, verði afturkallað.
Um kæruheimild er vísað til. byggingarlaga nr. 54/1978.

Með nýjum skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sem tóku gildi þann 1. janúar 1998, voru byggingarlög nr. 54/1978 felld úr gildi. Samkvæmt 8. gr. hinna nýju laga, sbr. og 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd nr. 621/1997, fjallar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála um ágreining um skipulags- og byggingarmál samkvæmt þeim lögum.

Umhverfisráðuneytið framsendi erindi þetta til úrskurðarnefndar þann 22. janúar 1998.

Framlögð gögn:
Fyrir úrskurðarnefnd hafa verið lögð eftirtalin gögn:
Stjórnsýslukæra Harðar F. Harðarsonar, hdl., dags. 9. janúar 1998.
Skýrsla gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands um loftræstilagnir í Þverholti 11, Mosfellsbæ, dags. 14. október 1997, ásamt fylgiskjölum.
Bréf Harðar F. Harðarsonar, hdl., til bygginganefndar Mosfellsbæjar, dags. 29. október 1997.
Bréf Ásbjörns Þorvarðarsonar, byggingafulltrúa Mosfellsbæjar, til Harðar F. Harðarsonar, hdl., dags. 2. desember 1997.
Bréf Arnar Höskuldssonar, hrl., til úrskurðarnefndar, dags. 12. febrúar 1998.
Bréf Ásbjörns Þorvarðarsonar, byggingafulltrúa, til úrskurðarnefndar, dags. 13. febrúar 1998, ásamt fylgiskjölum.
Umsögn Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar 1998.
Bréf Harðar F. Harðarsonar, hdl., til úrskurðarnefndar, dags. 25. febrúar 1998.

Málsatvik:  Húsið að Þverholti 11 í Mosfellsbæ er þriggja hæða fjöleignarhús. Á jarðhæð þess er verslunar / þjónusturými og veitingastaðurinn “Pizzabær”, sem nú mun reyndar hættur rekstri. Á 2. og 3. hæð eru alls 4 íbúðir. Í skipulagsskilmálum fyrir húsið er notkun á jarðhæð skilgreind sem “verslun, þjónusta, handverk”, en á 2. hæð sem “verslun, þjónusta, íbúðir”.

Í gögnum kærenda kemur fram að pizzastaður hafi verið rekinn á jarðhæð hússins frá árinu 1995, án tilskilinna leyfa frá bæjaryfirvöldum. Af starfseminni hafi stafað mikil loftmengun, þar sem loftræsting var engin frá staðnum og lykt barst inn í íbúðir hússins. Hafi íbúðaeigeindur margsinnis leitað aðstoðar heilbrigðisfulltrúa og fleiri opinberra aðila, og vakið athygli á að pizzastaðurinn væri starfræktur án tilskilinna starfsleyfa, og án þess að gengið væri þannig frá loftræstingu að ekki væri íbúum til ama.

Á fundi bygginganefndar Mosfellsbæjar þann 27. maí 1997 var tekin fyrir umsókn S, f.h. “Pizzabæjar”,  “um leyfi til að setja upp loftræstirör á húsið nr. 11 við Þverholt, vegna starfsemi Pizzabæjar á 1. hæð. Jafnframt er sótt um leyfi fyrir fyrirkomulagsbreytingu á 1. hæð vegna innréttingar staðarins.”

Umsókn þessi var þannig afgreidd af bygginganefnd: “Jákvætt, enda liggi fyrir umsögn íbúa hússins og betri útfærsla aðalhönnuða hússins.”

Í gögnum málsins kemur fram að leitað hafi verið heimildar húsfélagsins til að leggja loftræstistokk utan á húsið og upp fyrir þak, en það hlaut ekki samþykki íbúa. Ekki verður séð af gögnum að leitað hafi verið sérstaklega umsagnar íbúa fyrir þeirri breytingu á notkun jarðhæðar, sem fólst í umsókn “Pizzabæjar”.

Á fundi bygginganefndar Mosfellsbæjar þann 24. júní 1997 var tekin fyrir umsókn S, f.h. “Pizzabæjar”, “um leyfi til að innrétta áðursamþykkt verslunar- og þjónusturými á 1. hæð til vinstri í húsinu nr. 11 við Þverholt sem pizzastað. Engar stærðarbreytingar verða við innréttinguna og loftræsting verður um sér innanhússlögn upp fyrir þakmæni.”
Umsókn þessi var samþykkt á fundinum og staðfest á fundi bæjarstjórnar þann 25. júní 1997.

Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, dags. 27. júní 1997, var S, f.h. “Pizzabæjar”, tilkynnt að heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis hefði veitt honum starfsleyfi þann 26. júní s.á. Í bréfinu segir síðan: “Samþykktin er háð því skilyrði að loftræsting samkvæmt samþykkt Bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 24. júní sl. verði strax sett upp.”

Þann 18. júlí 1997 leituðu íbúðaeigendur að Þverholti 11 til gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands og óskuðu eftir úttekt og skýrslu um loftræstikerfi hússins.  Í skýrslu gæðamatsráðs til íbúðaeigenda, dags. 14. október 1997, kemur fram að teikningar af loftræstilögnum í húsinu eru ekki til. Við skoðun hafi þær allar reynst vera plaströr, 100 mm. í þvermál. Niðurstaða gæðamatsráðs er sú, að ekki hafi verið farið eftir ákvæðum byggingarreglugerðar við útfærslu loftræstilagna í húsinu.
Með tilvitnaðri skýrslu fylgdi bréf Arnars J. Magnússonar, dags. 20. ágúst 1997, en hann hafði unnið tillögur að loftræstingu fyrir umræddan pizzustað. Í bréfinu segir svo m.a.:  “Svo um mánaðamótin júní/júlí hringdi byggingafulltrúinn í mig og áréttaði að leysa yrði málið og lagði til að blásið yrði upp um útloftunarrör sem lægi frá 1. hæð upp í þakmæni. Ég taldi að rörið flytti ekki nóg, og þar sem ekki væru til óyggjandi upplýsingar um legu þess væri þetta ekki vænleg leið, en þar sem ekki voru aðrar sýnilegar lausnir óreyndar, og með lið 7.7.7. í Byggingarreglugerð í huga, útfærði ég tillöguna (Till. 4) með háþrýstum blásara og kastventli á mæni.
Það virðist sem framkvæmt hafi verið samkvæmt síðustu tillögunni, en ég heyrði ekkert af málinu fyrr en í dag, að íbúar hefðu beðið Gæðamatsráð að skoða það. Einnig kom fram í dag að innsteyptar loftrásir í húsinu eru úr plasti, en ekki úr óbrennanlegu efni eins og reglugerðir kveða á um.”

Með bréfi lögmanns íbúðaeigenda, dags. 29. október s.l., var skýrsla gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands kynnt bygginganefnd Mosfellsbæjar og þess krafist að nefndin tæki til endurskoðunar fyrri ákvörðun sína frá 24. júní 1997, og afturkallaði leyfi S, f.h. “Pizzabæjar”. Kröfu sína rökstyður lögmaðurinn með vísan til niðurstaðna ofangreindrar skýrslu og eftirfarandi orðum: “ Loftræsting frá pizzaofni virðist vera tengd loftræstikerfi hússins. Þar til loftræstitúða var sett á þak hússins kom lykt frá pizzastaðnum inn í allar íbúðir hússins. Það hefur hins vegar ekki reynst mögulegt að kanna hvernig tengingar á loftræstirörum frá pizzaofninum eru þar sem engar teikningar eru til af lögnum hússins. Það er hins vegar ljóst að þessi frágangur brýtur gegn ákvæði 7.7.6.12 í byggingarreglugerð þar sem er kveðið á um að loftrásir, sem ætlað er að flytja eim frá stöðum þar sem matseld fer fram, skuli vera A30 og ganga órofnar upp fyrir þak. Þá ber einnig að benda á að loftræsting er engin vegna annarrar notkunar rýmisins, þ.e. veitingareksturs og matseldar.”

Erindi þetta var lagt fram á fundi bygginganefndar Mosfellsbæjar þann 25. nóvember s.l., og hlaut svofellda afgreiðslu: “Bygginganefnd hafnar beiðni Harðar T. Harðarsonar, hdl. um ógildingu samþykktar nefndarinnar frá 24. júní 1997, þar sem nú hafa verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir bruna ásamt lyktarmengun af völdum starfseminnar. Við tengingu loftræstikerfis staðarins við húslagnir, sem er sjálfstæð lögn sem nær yfir þak hússins, var sett brunaloka sem kemur í veg fyrir að eldur geti borist í þær.”
Í fundargerðarbók bygginganefndar kemur fram, að á fundinum hafi verið lögð fram greinargerð byggingafulltrúa vegna málsins. Þá greinargerð er ekki að finna í gögnum málsins.

Í bréfi byggingafulltrúa Mosfellsbæjar til úrskurðarnefndar, dags. 13. febrúar s.l., segir m.a. svo:  “Þær loftræstilagnir sem settar voru upp í húsinu á sínum tíma eru innsteyptar plastlagnir, en þær voru aldrei teknar út af byggingafulltrúa. Sá loftræstibúnaður sem nú hefur verið settur upp á pizzustaðnum er samþykktur og úttekinn af byggingafulltrúa.
Loftræstilagnirnar eru úr óbrennanlegu efni og er brunaloki við tenginu úr þeim í gömlu innsteyptu plastlagnirnar svo tryggt sé að eldur geti ekki borist í þær. Loftræstilögn pizzustaðaarins var framlengd upp fyrir mæni hússins til að tryggja sem best að ekki verði um áframhaldandi lyktarmengnun að ræða í húsinu.”

Úrskurðarnefnd gekk á vettvang þann 16. mars s.l. í fylgd málsaðila. Umræddur pizzastaður mun hafa flutt starfsemi sína úr húsnæðinu við Þverholt 11 um miðjan febrúarmánuð s.l. Engu að síður telja íbúðaeigendur sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort veiting byggingarleyfis til “Pizzabæjar” hafi verið lögmæt.

Niðurstaða:  Eins og fram hefur komið, er í máli þessu kærð ákvörðun byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 1997 og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um að hafna ógildingu samþykktar byggingarnefndarinnar frá 24. júní 1997. Krafa íbúðareigenda er hins vegar sú, að tekin verði til endurskoðunar ákvörðun byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 24. júní, og leyfi S, fh. „Pizzabæjar“ verði afturkallað.
Það er álit úrskurðarnefndar að frestur sá sem íbúðaeigendum var veittur til málskots á ákvörðun byggingarnefndar og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 24. og 25. júní 1997 sé nú liðinn, sbr. 8. mgr. 8. gr. Byggingarlaga nr. 54/1978, með síðari breytingum. Því er ekki unnt að verða við kröfu íbúðaeigenda að taka þá ákvörðun byggingarnefndar frá 25. nóvember 1997 að hafna beiðni íbúðaeigenda um endurskoðun fyrri samþykktar.

Í fyrrgreindri samþykkt bygginganefndar frá 24. júní 1997 kemur fram, að loftræsting frá pizzustaðnum verði um sér innanhúslögn upp fyrir þakmæni. Af bréfi Heilbirgðiseftirlits Kjósarsvæðis, dags. 27. júní s.á., svo og öðrum framlögðum skjölum má ráða, að ekki hafði verið gengið frá loftræstingunni, þegar byggingarleyfi var gefið út, heldur hafi það verið gert síðar. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um hvort sú loftræstilögn, sem sett var upp síðar, sé sjálfstæð lögn frá pizzastaðnum eða hún tengist á einhvern hátt loftræstikerfi hússins, enda virðast engar teikningar til af lögnum hússins og þær aldrei teknar út af byggingafulltrúa. Ljóst er þó að loftræstilagnir hússins eru allar innsteyptar plastlagnir, og fullnægja því eigi kröfum byggingarreglugerðar nr. 177/1992, með síðari breytingum, sbr. ákvæði gr. 7.7.6.5. og 7.7.6.12. Bygginganefnd Mosfellsbæjar mátti vera ljóst að verulegur vafi lék á því hvort sá loftræstibúnaður sem settur var upp í “Pizzabæ” að Þverholti 11 fullnægði ákvæðum byggingarreglugerðar, er henni barst skýrsla gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands með bréfi kærenda, dags. 29. október 1997, þar sem krafist var endurskoðunar á ákvörðun nefndarinnar um að veita byggingarleyfið.

Af skjölum málsins verður ekki séð að leitað hafi verið umsagnar íbúa hússins við þeirri breytingu á notkun jarðhæðar, sem fólst í því að breyta verslunar- og þjónusturými í pizzustað.  Telur úrskurðarnefnd að bygginganefnd hafi borið að leita umsagnar og/eða samþykkis annarra eigenda fjöleignarhússins áður en byggingarleyfi var veitt, sbr. 11. gr. eldri byggingarlaga nr. 54/1978 og gr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992. Þar sem vænta mátti nokkurrar lyktarmengunar og óþæginda af slíkri starfsemi bar bygginganefndinni ríkari skylda en ella að ganga á eftir samþykki annarra eigenda.

Í ljósi ofanritaðs telur úrskurðarnefnd að bygginganefnd Mosfellsbæjar hafi borið að verða við kröfu íbúðaeigenda að Þverholti 11 um að taka til endurskoðunar ákvörðun sína um veitingu byggingarleyfis til “Pizzabæjar”, dags. 24. júní 1997. Þykir því rétt að verða við kröfu íbúðaeigenda um að fella úr gildi ákvörðun bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 1997, þar sem hafnað var kröfu um endurskoðun á samþykkt bygginganefndar um veitingu byggingarleyfis fyrir “Pizzabæ”, dags. 24. júní 1997.

Úrlausn ágreinings um veitingu starfsleyfis til “Pizzabæjar” fellur ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Kröfu íbúðaeigenda um afturköllun starfsleyfis er því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 25. nóvembber 1997 um að hafna endurskoðun á samþykkt nefndarinnar frá 24. júní 1997, er S, f.h. “Pizzabæjar”, var veitt leyfi til að innrétta áður samþykkt verslunar- og þjónusturými á 1. hæð til vinstri í húsinu nr. 11 við Þverholt í Mosfellsbæ, sem pizzastað.
Kröfu kærenda um afturköllun starfsleyfis til “Pizzabæjar” er vísað frá úrskurðar-nefnd.

109/2014 Minkabú

Með

Árið 2016, fimmtudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2014, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 16. september 2014 um að synja um deiliskipulag vegna minkabús á spildu úr landi jarðarinnar Ása.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Steinkers ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 16. september 2014 að synja um samþykki deiliskipulags vegna minkabús á spildu úr landi jarðarinnar Ása. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi 25. nóvember 2014.

Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti hinn 7. febrúar 2012 tillögu að lýsingu skipulagsverkefnis skv. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna deiliskipulagningar 45.210 m2 spildu úr landi Ása. Þar var gert ráð fyrir að reisa mætti sex hús, samtals um 8.880 m2, undir minkarækt fyrir um 4.000 læður. Á aðliggjandi lóð í landi jarðarinnar, sem nefnist Mön, er þegar til staðar fyrir minkabú að líkri stærð og hið fyrirhugaða bú. Ábúendur tveggja grannjarða mótmæltu skipulagstillögunni við meðferð hennar með þeim rökum að staðsetning minkabúsins hefði í för með sér óásættanleg grenndaráhrif og legði hömlur á nýtingu lands innan landareigna þeirra sem væri í minna en 500 m fjarlægð frá minkabúinu samkvæmt þágildandi 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002. Var deiliskipulagstillagan hins vegar samþykkt í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hinn 4. september 2012. Þeirri ákvörðun var skotið til úrskurðarnefndarinnar, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 22. apríl 2013. Var sú niðurstaða studd þeim rökum að gildistaka hins kærða deiliskipulags hefði haft í för með sér að hömlur yrðu lagðar á framtíðarmöguleika til notkunar þess lands sem yrði innan 500 m frá fyrirhuguðu minkabúi. Fæli deiliskipulagið að þessu leyti í sér skerðingu á möguleikum á notkun þess lands kærenda sem greindar takamarkanir næðu til, frá því sem áður hefði verið. Af þeim sökum hafi verið mun ríkari ástæða til þess að kanna aðra valkosti á staðsetningu minkabúsins með það að markmiði að áhrifasvæði þess næði eins skammt inn á jarðir kærenda og kostur væri. Hafi ekki legið fyrir í málinu að slík athugun hefði farið fram.

Í kjölfar framangreinds úrskurðar voru aðrir kostir vegna staðsetningar minkabúsins kannaðir. Vann verkfræðistofa skýrslu um málið, dags. 24. júní 2013. Þá var ráðgjafafyrirtæki einnig falið að vinna skýrslu um mat á líklegri lyktarmengun og dreifingu lyktar vegna minkabúsins, dags. 12. júlí s.á. Deiliskipulagstillaga fyrir minkahús á landspildu, sem kallast Steinkerstún, athafnasvæði úr landi Ása, var útbúin skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún á sömu lund og hið fyrra deiliskipulag, nema að nú var gert ráð fyrir þremur minkaskálum í stað sex áður. Deiliskipulagstillagan var auglýst til kynningar frá 23. janúar til 7. mars 2014 og bárust athugasemdir frá 22 aðilum.

Málið var á dagskrá skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 22. maí 2014, sem og á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps sama dag. Lagði sveitarstjórn til að gerðar yrðu breytingar á deiliskipulagstillögunni. Lutu breytingarnar að því að byggingarreitur fyrirhugaðra minkahúsa yrði færður um 20 m fjær landamörkum Skaftholts og 104 m fjær mörkunum að Stóra-Núpi. Þá yrði byggingarmagn minnkað úr 8.880 m2 í 7.400 m². Fór sveitarstjórn jafnframt fram á, með vísan til 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, að kærendum yrði gert að gera frekari grein fyrir áhrifum skipulagsins og einstakra stefnumiða þess á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina kæmu og þá sérstaklega annarra hugsanlegra staðsetningarkosta minkabúsins. Kærendur, sem og eigendur íbúðarhúss, þar sem áður var Ásaskóli, lýstu sig ósátta við þessar breytingar, en ákváðu að hlíta þeim til að málið fengi framgang. Með tölvupóstum, dags. 30. júní og 2. júlí s.á., var farið fram á af hálfu sveitarfélagsins að kærendur legðu fram tryggingu að fjárhæð allt að 6.000.000 króna vegna skaðabóta sem kynnu að falla á sveitarfélagið vegna samþykktar deiliskipulagsins. Í bréfi lögmanns kærenda, dags. 3. júlí s.á., var þeirri kröfu sveitarstjórnar andmælt sem ólögmætri og skorað á hana að taka skipulagstillöguna til formlegrar afgreiðslu.

Á fundi sveitarstjórnar 3. september 2014 var lagt fram bréf frá lögmanni eigenda jarðanna Stóra-Núps og Skaftholts, dags. 2. s.m., þar sem þeir lögðu fram nýjar hugmyndir að staðsetningu minkaskála í landi Ása norðan við og sem næst minkabúinu á Mön og vestar en lína sem dregin sé úr hnitpunkti L-001 (X 442042.559 Y 395880.527) í hnitpunkt L-002 (X 441851.627 Y 395767.205). Í bréfinu kom fram að hvorki yrðu gerðar athugasemdir né afgreiðsla málsins kærð gengju framangreindar breytingar eftir. Á sama fundi lagði lögmaður kærenda fram bréf, dags. 3. september 2014. Þar mótmæltu kærendur hugmyndum eigenda Stóra-Núps og Skaftholts. Bentu þeir á að fyrir sveitarstjórn lægi deiliskipulagstillaga þar sem upphaflegt byggingarmagn hefði verið minnkað og byggingarsvæðið fært til og þannig komið til móts við ólík sjónarmið. Frestað var að taka deiliskipulagstillöguna fyrir, þar sem gögn vegna málsins bárust skömmu fyrir fund, en umræddri tillögu var síðan hafnað á fundi sveitar¬stjórnar 16. september 2014. Hefur þeirri ákvörðun verið skotið til úrskurðar¬nefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar hafi ekki verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og gangi hún því gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Hið víðtæka skipulagsvald sem 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 feli sveitarstjórnum sé ekki án takmarkana heldur verði ákvarðanir sem snerti réttindi leyfisbeiðanda að vera í málefnalegum tengslum við lagagrundvöll máls og málsatvik. Sveitastjórninni hafi borið að vega og meta þá hagsmuni sem uppi voru í málinu og taka ákvörðun sem byggð væri á lagagrundvelli og málefnalegum sjónarmiðum.

Umrætt land sé skipulagt sem landbúnaðarland og ekki sé ágreiningur um að starfsemi minkabúa falli undir þá landnotkun. Skýrt komi fram í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 22. apríl 2013 að 500 m reglan, sbr. 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2001, eigi ekki við í þessu máli. Þá hafi engin sannfærandi áform eigenda Stóra-Núps verið lögð fram um það að þeir hyggist reisa mannabústað á þeim stöðum sem haldið sé fram að verði fyrir áhrifum rísi nýtt minkabú, enda sé um að ræða svæði sem afar ósennilegt sé að verði nýtt til bygginga hvers konar mannabústaða. Engu breyti þótt slíkar áætlanir séu lagðar fram eftir að beiðni um deiliskipulag Steinkerstúns hafi komið fram, enda séu slíkar áætlanir augljóslega settar fram til málamynda.

Almenn grenndaráhrif eigi við í máli þessu og skuli staðsetningu minkabúanna hagað svo að sem minnst röskun hljótist af fyrir grannjarðir, með hliðsjón af þeirri nýtingu sem búast megi við á skilgreindum landbúnaðarjörðum. Við nánari ákvörðun grenndarsjónarmiða verði að hafa í huga að þolmörk grannjarðanna verði að meta út frá tveimur sjónarmiðum. Annars vegar að eigendur þeirra verði að gera ráð fyrir því að landbúnaður verði stundaður á umræddu landi á meðan skipulagi þess hafi ekki verið breytt, þess vegna að þola nokkuð óhagræði sem leiða kunni af landbúnaðarumsvifum, þ.m.t. umsvifum sem leiði af nýju loðdýrabúi eða breyttum búskaparháttum. Hins vegar verði framkvæmdaraðili að leitast við að draga úr tjóni og óþægindum sem stafa kunni af breytingunum, með öllum þeim ráðum sem sanngjarnt sé að krefjast af honum. Það leiði síðan af almennum reglum um grenndarrétt að framkvæmdaraðili kunni að bera bótaábyrgð á tjóni sem hljótist þar sem sjónarmiðin tvö reynist ósamrýmanleg að einhverju leyti. Þetta þýði að fari framkvæmdir út fyrir þau mörk sem eigendur grannjarða verði að þola, vegna þess að ekki reynist unnt að byggja annars staðar eða slíkt leiði af sér kostnað sem ekki sé sanngjarnt að krefjast af byggingaraðila, kynni að skapast bótaréttur eigenda grannjarða á hendur honum. Ákvæði 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga breyti engu um þetta heldur staðfesti þvert á móti regluna. Niðurstaðan sé því sú að báðir þessir aðilar gætu borið ábyrgð í slíkum tilvikum, en um endurkröfurétt þeirra á milli færi síðan eftir almennum reglum kröfuréttarins.

Því fari fjarri að sveitarstjórn hafi farið eftir þessum sjónarmiðum í ákvörðun sinni frá 16. september 2014. Forsendur meirihlutans fyrir synjuninni séu óljósar, en af þeim megi m.a. ráða að hugsanleg bótaskylda sveitarfélagins hafi einkum leitt til synjunarinnar. Slíkt sjónar-mið myndi almennt leiða til þess að ekkert yrði úr framkvæmdum ef eigandi grannjarðar teldi sig verða fyrir tjóni. Verkefni sveitarstjórnar myndi þá að mestu takmarkast við að finna út hvort bótaskylda teldist líkleg eða ekki. Slíkt standist ekki og fæli í sér brýnt brot á skyldum sveitarstjórnar um að þróa umrætt svæði í átt að eðlilegri nýtingu í samræmi við aðalskipulag. Land Ása yrði fyrir óeðlilegri verðrýrnun ef ekki væri unnt að nýta það með eðlilegum hætti. Í fyrrgreindri ákvörðun séu slík sjónarmið reifuð en alveg einhliða, þ.e. einungis út frá hagsmunum grannjarða. Hvergi í ákvörðuninni sé tekið á sjónarmiðum um rétt landeiganda til eðlilegrar nýtingar á landi sínu, sem í þessu tilfelli sé grundvallaratriði varðandi afkomumöguleika kærenda í búskap. Þá sé sérkennileg umfjöllun meirihluta sveitastjórnar um 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002, sérstaklega m.t.t. úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um 500 m regluna og beitingu hennar.

Ljóst sé að sveitarstjórninni hafi verið lögskylt að meta umsókn kæranda út frá fyrrgreindum forsendum og með hliðsjón af því að hér sé um landbúnaðarland að ræða. Frá því sé aðeins unnt að víkja þegar sérstaklega standi á, en engin slík sjónarmið hafi verið höfð uppi í máli þessu. Sveitarstjórnin hafi því átt að meta staðsetninguna út frá þörfum kærenda og þannig að sem minnstri röskun yrði valdið gagnvart grannjörðum. Þetta hafi hún ekki gert og brotið þannig á rétti kærenda til málefnalegrar afgreiðslu á erindi þeirra. Sérstök ástæða sé til að árétta að áhrifasvæði innan jarðarinnar Stóra-Núps yrði aðeins 9,6 ha og innan jarðarinnar Skaftholts 5,8 ha.

Undir rekstri málsins hafi sveitarstjórn sett það skilyrði fyrir leyfinu að kærendur legðu fram ábyrgðartyggingu fyrir hugsanlegri bótaskyldu sveitarstjórnar. Því hafi verið hafnað af hálfu kærenda sem telji skilyrðið ólögmætt. Meirihluti sveitarstjórnar hafi engu að síður beitt þessari afstöðu fyrir sig til að rökstyðja höfnun tillögunnar, sbr. orð þeirra: „Í þessu ljósi er það mat okkar að veruleg hætta sé á bótaskyldu sveitarfélagsins gagnvart land-eigendum aðliggjandi jarða…“.

Málsrök Skeiða- og Gnúpverjahrepps: Sveitarfélaginu var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af kærumáli þessu, sem það hefur ekki nýtt sér, en samkvæmt fundargerð þess fundar sveitarstjórnar þar sem mál þetta var til lykta leitt hinn 16. september 2014 var eftirfarandi m.a. fært til bókar:

„Ljóst er að ef bótaskylda er fyrir hendi hvílir skaðabótaábyrgð á henni skv. framangreindu á sveitarfélaginu. Við sem að bókun þessari stöndum tökum ekki afstöðu til hugsanlegrar bótaskyldu ef að samþykkt deiliskipulagsins yrði. Hins vegar getum við ekki horft framhjá þeirri staðreynd að fram eru komin eindregin mótmæli eigenda þess landsvæðis sem framangreind fjarlægðarregla 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti tekur til sé miðað við núverandi staðsetningu minkahúsanna skv. þeirri tillögu sem er til afgreiðslu.

Í þessu ljósi er það mat okkar að veruleg hætta sé á bótaskyldu sveitarfélagsins gagnvart landeigendum aðliggjandi jarða verði umrædd tillaga að deiliskipulagi samþykkt eins og hún liggur nú fyrir til afgreiðslu.

Með vísan til alls framangreinds höfnum við því framkominni tillögu að deiliskipulagi Steinkerstún, Steinkerstún athafanasvæði.“

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverja-hrepps á beiðni kærenda um samþykki deiliskipulags vegna fyrirhugaðs minkabús á spildu sem nefnd er Steinkerstún í landi jarðarinnar Ása. Í málinu er einkum deilt um staðsetningu minkabúsins og grenndaráhrif gagnvart grannjörðum.

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Í 2. mgr. 38. gr. er gert ráð fyrir að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað, en um kynningu, samráð, auglýsingu og samþykkt fari samkvæmt 40. og 41. gr. laganna. Við beitingu skipulagsvalds ber að fylgja markmiðssetningu laganna, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Þar er m.a. kveðið á um að réttur einstaklinga og lögaðila skuli ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvarðanatöku sé stefnt að lögmætum markmiðum. Þá gerir meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá kröfu til stjórnvalda að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til þess að ná settum markmiðum er búi að baki stjórnvaldsákvörðun. Að gættum nefndum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar og markmiðum skipulagslaga hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Við afgreiðslu hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu varð sveitarstjórn að líta til andstæðra einstaklingshagsmuna varðandi ákvörðun um staðsetningu umrædds minkabús. Annars vegar til hagsmuna kærenda af umbeðinni staðsetningu búsins, með tilliti til kostnaðar og samlegðar¬áhrifa sem fylgi nálægð við minkabú sem þegar var starfrækt á jörðinni, og hins vegar hags¬muna eigenda aðliggjandi jarða, m.a. með hliðsjón af þágildandi 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 er hljóðaði svo: „Óheimilt er að hafa loðdýrabú, alifuglabú eða svínabú nær mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins en sem nemur 500 metrum. Á sama hátt skal vera hæfileg fjarlægð milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og starfsemi sem valdið getur samsvarandi óþægindum eins og sú sem talin er upp í 1. ml. hins vegar s.s. annað búfjárhald og mengandi atvinnu¬starfsemi.“ Kærendur töldu staðsetningu minkabúsins í hinni kynntu deiliskipulagstillögu hagkvæmasta. Henni var andmælt og breytti sveitarstjórn þeirri staðsetningu að lokinni kynningu til að koma til móts við andmæli ábúenda grannjarða. Komu andmælendur með nýja tillögu að staðsetningu sem kærendur gátu ekki sætt sig við og fóru þeir fram á að sveitar¬stjórn afgreiddi skipulagstillöguna, svo sem hún lá þá fyrir. Samþykkt þeirrar deiliskipulags¬tillögu hefði falið í sér hömlur á framtíðarnotkun þess lands innan grannjarða sem félli innan greinds 500 m áhrifasvæðis vegna nálægðar minkabúsins við mörk jarðanna.

Hin kærða synjun á beiðni kærenda um gerð deiliskipulags vegna fyrirhugaðs minkabús var studd þeim rökum að við samþykkt tillögunnar myndi áhrifasvæði samkvæmt áðurnefndri 4. mgr. 24. gr. reglugerðar um hollustuhætti ná inn á aðliggjandi jarðir og að hætta væri á að það leiddi til skaðabótaskyldu sveitarfélagsins. Voru því færð fram efnisleg rök fyrir þeirri afstöðu meirihluta sveitarstjórnar að samþykkja ekki fyrirliggjandi skipulagstillögu.

Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverja-hrepps frá 16. september 2014 um að synja um samþykki deiliskipulags fyrir minkabú á spildu úr landi jarðarinnar Ása.

5/1998 Melabraut

Með

Mál nr. 5/1998.  Melabraut 21, Hafnarfirði.  Framkvæmdir stöðvaðar.

Ár 1998, miðvikudaginn 8. Apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru Gunnar Jóhann Birgisson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1998/05; 98030005

Ágreiningur milli húseigenda við Móabarð í Hafnarfirði og byggingaryfirvalda um samþykkt umsóknar um leyfi til að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhúsnæði á lóðinni nr. 21 við Melabraut.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Kröfur aðila:  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 09.02.1998, kærir Jónatan Sveinsson hrl., f.h. þinglesinna eigenda fasteignanna nr. 16, 18, og 20B við Móabarð í Hafnarfirði, ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 28.01.1998 um að samþykkja umsókn  Vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja 1.404 ferm. Iðnaðarhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut.

Þess er krafist að ákvörðun nefndarinnar um að afgreiða umrædda byggingarleyfis-umsókn skv. „eldri byggingar- og skipulagslögum“ verði úrskurðuð ólögmæt og lagt fyrir byggingarnefndina að taka erindið upp og afgreiða það í samræmi við núgildandi skipulags- og byggingarlög.

Þá er þess krafist að ákvörðun nefndarinnar um að leyfa umsækjenda að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut verði felld úr gildi en í stað þess verði umsækjanda veittur kostur á því að sækja um leyfi til að byggja iðnaðarhús á lóðinni af þeirri stærð sem „deiliskipulag“ fyrir svæðið frá 1987 gerir ráð fyrir, eða sem næst 650 fermetra iðnaðarhús á tveimur hæðum.

Í bréfinu var þess jafnframt krafist, með vísan til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, að þegar í stað yrði kveðinn upp úrskurður um stöðvun framkvæmda á lóðinni, þar til ágreininig þessum hafi verið ráðið til lykta hjá nefndinni.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í bréfi Byggingarfulltrúans í Hafnarfirði, dags. 27.02.1997, kemur m.a. fram að nefndin hafi talið að fjalla beri um málið á grundvelli þágildandi byggingarlaga og reglugerða. Í bréfi byggingarfulltrúa er jafnframt áréttað að fyrir nefndinni hafi legið þinglýst kvöð um að lóðirnar Melabraut 21, 23 og 25 yrðu samnýttar og þ.a.l. verði sameiginleg nýting lóðanna 0.38.

Í bréfi lögmanns byggingarleyfishafa, Jóhannesar R. Jóhannssonar, hdl. Dags. 26.02.1998, er aðallega gerð sú krafa að öllum kröfum kærenda verði vísað frá nefndinni, en til vara er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað og að ákvörðun byggingarnefndar verði staðfest.

Málsatvik:  Byggingarnefnd Hafnarfjarðar tók umsókn H f.h. vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja iðnaðarhús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut skv. uppdráttum Sigurðar Þorleifssonar tæknifræðings fyrir á 5 fundum áður en ákveðið var þann 18.02.1998 að samþykkja umsókn hans.

Í fyrsta sinn fjallaði byggingarnefnd um málið þann 05.11.1997. Byggingarnefnd heimilaði þá jarðvegsframkvæmdir en beið með að taka afstöðu til umsóknarinnar að öðru leyti þar til fullnaðarteikningar lægju fyrir.

Í annað sinn fjallaði nefndin um umsóknina þann 19.11.1997. Byggingarnefnd hafnaði þá umsókninni og fól byggingarfulltrúa að koma ábendingum á framfæri við umsækjanda og hönnuð.

Í þrjiðja sinn var málið tekið fyrir hjá nefndinni þann 03.12.1997 skv. uppdráttum, dags. 14.11.1997. Svohljóðandi umsögn skipulagsstjóra Hafnarfjarðar, dags. 02.12.1997 lá fyrir á fundinum: „Tillaga að byggingu iðnaðarhúss að Melabraut 21 brýtur í bága við gildandi skipulag á svæðinu hvað varðar byggingarmagn og hæð og lengd húss auk þess að sýna fyrirkomulag á lóð sem getur ekki skilað því hlutverki sem henni er ætlað. Gildandi skipulagsákvæði setja of þröngar skorður á uppbyggingu þarna, enda er verið að ganga frá endurgerð skipulags um þessar mundir á bæjarskipulagi. Þessi tillaga lýsir hins vegar ofbyggðri lóð, sem mun skila óásjálegum rekstri vegna m.a. of lítils athafnarsvæðis utanhúss. Nýting umfram 0.5 á iðnaðarlóðum orsakar lélegan rekstur og óásjálegan, enda er sannreynt að lóðir með nýtingu framyfir þessa viðmiðun hætta að gegna hlutverki sínu.“ Niðurstaða nefndarinnar á fundinum var sú að Byggingarfulltrúa var falið að kynna umsækjanda umsögn skipulagsstjóra og eftirfarandi sjónarmið byggingarnefndar:
„1) vinna þarf að minnkun efri hæðar er snertir lengd og breydd og um leið hæð hússins.
2) breyta þarf útfærslu bílastæða við Suðurbraut (fyrirkomulag og fjöldi).
3) að framanlögðum breytingum og fyrirliggjandi teikningum mun byggingarnefnd taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til grenndarkynningar.
4) umsagnir Brunamálast. ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðasvæðis og Vinnueftirlits ríkisins verða að liggja fyrir áður en til lokaafgreiðslu kemur.“

Umsækjandi brást við sjónarmiðum skipulagsstjóra bæjarins og kröfum byggingarnefndar meðal annars með því að gera samkomulag við lóðarhafa næstu lóða um samnýtingu lóða og breytingu á uppdráttum.

Í fjórða sinn var málið tekið fyrir þann 12.12.1997 og þá skv. uppdráttum, dags.
des ´97. Á þeim fundi var samþykkt að senda umsóknina í grenndarkynningu til húseigenda að Móabarði 16b, 18b, 20b og 22b.

Í fimmta sinn var málið til umfjöllunar hjá nefndinni þann 14.01.1998 skv. uppdráttum dags. des. ´97, en þá var umsóknin komin úr grenndarkynningu. Á fundinum var lagt fram bréf lögmanns kærenda þar sem eins og segir í fundargerðinni „er m.a. vitnað til skipulags- og byggingarlaga er tóku gildi 1. jan. 1998 og dregin í efa lagaleg afskipti byggingarnefndar af málinu.“ Síðan segir í fundargerðinni: „Á það skal bent að erindið kom fyrst fyrir 5. nóv. 1997 og síðan 12. des. 1997 og þá samþykkti byggingarnefnd að senda það í grenndarkynningu. Það eru sjónarmið byggingarnefndar að hin almenna regla sé sú að málið verði afgreitt skv. ákvæðum þeirra byggingar- og skipulagslaga er giltu til ársloka 1997 hvað varðar grenndarkynningu.“

Á fundi byggingarnefndar þann 28.01.1998 var umsóknin samþykkt skv. uppdráttum,  dags. des. ´97. Í rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun er m.a. vísað til álits bæjarlögmanns um að erindið eigi að afgreiða samkvæmt eldri byggingar- og skipulagslögum.

Þessa ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar kærðu síðan kærendur eins og áður segir með bréfi Jónatans Sveinssonar hrl. dags. 09.02.1998.

Með bréfum nefndnarinnar, dags. 12.02.1998, var kærubréf kærenda ásamt fylgiskjölum kynnt byggingarnefnd Hafnarfjarðar og byggingarleyfishafa og þeim gefinn kostur á að koma athugasemdum og rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Jafnframt var sama dag óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar skv. e-lið 4. gr. laga nr. 73/1997. Umsögn Skipulagsstofnunar barst nefndinni í bréfi 20.02.1998, athugasemdir byggingarleyfishafa bárust nefndinni með bréfi lögmanns hans dags. 26.02.1998 og umsögn byggingarnefndar með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27.02.1998. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um framkonar athugasemdir með bréfi, dags. 27.02.1998, sem þeir gerðu í bréfi frá lögmanni þeirra, dags. 05.03.1998.

Þann 05.03.1998 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp svohljóðandi úrskurð: Frekari framkvæmdir á lóðinni nr. 21 við Melabraut skulu stöðvaðar þar til úrskurðarnefnd í skipulags- og byggingarmálum hefur kveðið upp úrskurð um hvort ákvörðun byggingarnefndar frá 28. janúar 1998 um að leyfa byggingu 1.404 fermetra iðnaðarhúss á lóðinni nr. 21 við Melabraut verði staðfest eða felld úr gildi.

Eftir  að úrskurðarnefnd hafði kveðið upp úrskurð um stöðvun framkvæmda barst bréf frá lögmanni byggingarleyfishafa, dags. 18.03.1998, þar sem þess er krafist að úrskurðarnefndin taki úrskurð sinn um stöðvun framkvæmda þegar í stað til endurskoðunar. Er þeirri kröfu til stuðnings vísað til 1. tl. 24.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rökstuðningur málsaðila:  röfur sínar rökstyðja kærendur með því að ákvörðun byggingarnefndar 28.01.1998, um að samþykkja umsóknina hafi verið ólögmæt. Kærendur séu í hópi þeirra sem eiga íbúðarhús í næsta nágrenni við Melabraut 21 og eigi þar með lögvarinn rétt á því að byggingaryfirvöld gangi ekki á hagsmuni þeirra með veitingu byggingarleyfa. Byggingarleyfið brjóti í bága við samþykkt deiliskipulag og að það hafi byggingarnefndarmönnum átt að vera ljóst þar sem um var að ræða leyfi til byggingar á stakri lóð í fullbyggðu hverfi og því lítið svigrúm til að víkja frá gildandi „deiliskipulagi“.

Byggingarnefnd hafi borið sig ranglega að við afgreiðslu umsóknarinnar. Henni hafi borið samkvæmt 1. sbr. 2. og 7. mgr. 43. greinar, sbr. 23. og 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að vísa málinu til skipulagsnefndar áður en hún tók það til endanlegrar afgreiðslu.

Í bréfi byggingar fulltrúa, dags. 27.02.1998, segir m.a. að byggingarnefnd hafi talið, eftir að hafa ráðfært sig við bæjarlögmann, að þar sem umsóknin hafi fyrst komið til umfjöllunar í byggingarnefnd í nóvember 1997 bæri að afgreiða hana samkvæmt þágildandi byggingarlögum og byggingarreglugerð.

Fyrir fundi byggingarnefndar hafi legið samkomulag lóðarhafa lóðanna nr. 21, 23 og 25 við Melabraut þess efnis að lóðirnar yrðu samnýttar að því er varðar bílastæði og athafnarsvæði og þar af leiðandi yrði sameiginlega nýting lóðanna 0.38.

Með tilliti til jafnræðis samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hafi byggingarnefnd látið taka saman á skipulagsuppdrætti af Hvaleyrarholti, dags. í júní 1986, hvar og þá hvernig sambærileg mál hafi í gegnum árin verið samþykkt í þessu iðnaðarhverfi af byggingar- og skipulagsnefnd.

Það kemur fram í bréfi byggingarfulltrúa að kærendur geri ekki athugasemd við hæð húsanna, sem ætla megi að sé eitt af aðalatriðum, sem taka beri tillit til, þegar byggt er í eða við gróin hverfi og að aðkoma að húsum kærenda sér ekki við sömu götu og aðkoma að Melabraut 21.

Í bréfi lögmanns byggingarleyfishafa segir m.a. að lög nr. 73/1997 hafi ekki að geyma ákvæði, sem taki á því, hvort og í hvaða tilvikum þeim skuli beitt um tilvik sem upp hafa komið fyrir gildistöku þeirra. Það sé meginregla samkævmt lögum nr. 73/1997, sem m.a. birtist í 8. gr. laganna, að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 skuli beitt þeim til fyllingar. Í 35. Gr. þeirra laga komi fram meginregla um að meðferð mála skuli fara eftir eldri lögum hafi málsmeðferð hafist fyrir tíð gildistöku nýrra laga og að samræmi við þessa meginreglu sé það ríkjandi lagaskilaregla að við breytingu á réttarfarslögum skuli beita eldri lögum um þau dómsmál, sem höfðuð hafa verið í tíð eldri laga, en ólokið er þegar ný lög taki gildi.

Í bréfi lögmannsins er þess krafist að málinu verði vísað frá þar sem krafa kærenda sé óúrskurðarhæf. Byggingarnefnd hafi einungis átt tvo kosti við afgreiðslu erindis byggingarleyfishafans, þ.e. annað hvort að samþykkja umsóknina eða synja henni. Nefndina skorti hinsvegar allt vald til þess að endurhanna bygginguna eins og kröfugerð kærenda virðist byggja á.

Jafnframt er því haldið fram að óumdeilt sé að skipulagsuppdráttur að deiliskipulagi fyrir nefnt svæði hafi ekki hlotið þá meðferð, sem þágildandi skipulagslög nr. 19/1964 kváðu á um varðandi gerð deiliskipulags, samþykki þess að staðfestingu svo og varðandi birtingu, sbr. einkum 17. og 18. gr. nefndra laga, sbr. nú 13. gr. laga nr. 73/1997, sbr. og grein 4.4 í skipulagsreglugerð nr. 318/1985. Það sé því fráleitt að byggingaryfirvöld í Hafnarfirði séu bundin við hið svonefnda deiliskipulag frá 1986 og því komi ekki til skoðunar hvort sú bygging sem reisa á rúmist innan gildandi deiliskipulags.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 geti sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum, þar sem deiliskipulag liggji ekki fyrir, að undangenginni meðferð fyrir skipulagsnefnd sveitarfélagsins og grenndarkynningu sbr. 7. gr. 43. gr. sömu laga. Ráða megi að fullnægjandi grenndarkynning hafi farið fram þrátt fyrir að eldra réttarástand geri ekki jafnríkar kröfur til slíkrar kynningar o gnúgildandi lög.

Í síðara bréfi lögmanns kærenda, dags. 05.03.1998, er því m.a. mótmælt að ógildingarkrafa kærenda sé óúrskurðarhæf. Þar segir jafnframt um þetta atriði, að til þess að efna ekki til ágreinings um sjálfa kröfugerðina þá sé fellt niður umdeilt viðhengi við ógildingarkröfuna þannig að eftir standi ein og sér krafan um ógildingu byggingarleyfisins. Í bréfi lögmannsins eru jafnframt ítrekaðar meginröksemdir kærenda í málinu.

Niðurstaða:  Athugasemdir verða ekki gerðar við málsmeðferð byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókninni. En samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem tóku gildi um sl. áramót, skulu byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Samhljóða ákvæði var í eldri byggingarlögum nr. 54/1978, sbr. 2. mgr. 9. gr.

Uppdrættir þeir, sem samþykktir voru á fundi byggingarnefndar 28.01.1998 að 1.404 fermetra húsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut, sem er 2065 fermetrar að stærð, uppfylla ekki framangreind skilyrði. Nýtingarhlutfall á lóðinni er of hátt eða 60% hærra en segir í greinargerð með staðfestu aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 frá 23.12.1997, sem ákveður hámarksnýtingu 0.4 á einstökum lóðum. Nýtingarhlutfalli þessu hefur ekki verið breytt. Einhliða samkomulag lóðarhafa lóðanna nr. 21, 23 og 25, um að þinglýsa kvöð á lóðirnar um að samnýta bílastæði, opin svæði og aðkomuleiðir og um að lóðarmörk verði ekki girt eða afmörkuð á annan hátt breytir í engu leyfilegu byggingarmagni á hverri einstakri lóð samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Hvort sem litið er svo á að deiliskipulag af svæðinu sé almennt í gildi eða ekki er ljóst að deiliskipulag, sem sveitarstjórn hefur samþykkt, bindur hendur sveitarstjórnarinnar sjálfrar með sama hætti og aðrar löglegar ákvarðanir, þar til skipulagið er fellt úr gildi eða annað deiliskipulag samþykkt. Samkvæmt samþykktum uppdráttum brýtur fyrirhugað hús einnig í bága við deiliskipulagsuppdrátt iðnaðarsvæðis á Hvaleyrarholti frá júní 1986, að því leyti að það er að grunnmáli 10 metrum lengra og 10 metrum breiðara en gert er ráð fyrir á byggingarreit lóðarinnar. Samkvæmt skjölum málsins var fyrrgreindur deiliskipulagsuppdráttur samþykktur á fundi bæjarstjórnar þann 09.09.1986 og kynntur hagsmunaaðilum og nágrönnum 10. sama mánaðar.

Samantekt um sambærileg mál sem samþykkt hafa verið, sem brjóta að einhverju leyti gegn þessum samþykkta skipulagsuppdrætti, af byggingar- og skipulagsnefnd í þessu iðnaðarhverfi hefur eðli málsins samkvæmt ekki áhrif á úrlausn þessa máls.

Vegna þessarar niðurstöðu, kemur ekki til skoðunar hvort verða eigi við þeirri kröfu byggingarleyfishafa um að úrskurður nefndarinnar frá 05.03.1998 um stöðvun framkvæmda verði endurskoðunar.´

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 28.01.1998 og bæjarstjórnar þann 03.02.1998 um að samþykkja umsókn H f.h. Vélaverkstæðis H, Melabraut 23, um leyfi til að byggja 1.404 fermetra iðnaðarhús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 21 við Melabraut, er felld úr gildi.