Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2002 Laufásvegur

Ár 2002, fimmtudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2002, kæra fimm eigenda íbúða að Laufásvegi 19, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir tengibyggingu á lóð nr. 21-23 við Laufásveg.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2002, sem barst nefndinni 7. sama mánaðar, kæra Á, S, G, R og G, sem eigendur íbúða að Laufásvegi 19 í Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir tengibyggingu á lóð nr. 21-23 við Laufásveg.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur 2. maí 2002.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.  Með bréfi, sem úrskurðarnefndinni barst hinn 10. sama mánaðar, kröfðust kærendur þess að framkvæmdir, sem þá voru hafnar við bygginguna, yrðu stöðvaðar.  Hafnaði úrskurðarnefndin þeirri kröfu með úrskurði uppkveðnum hinn 15. maí 2002.

Eftir uppkvaðningu bráðabirgðaúrskurðar hefur nefndin aflað frekari gagna í málinu og er það nú tekið til efnisúrlausnar. 

Málavextir:  Byggingarleyfishafi, sendiráð Bandaríkjanna, sótti um leyfi til þess að byggja tengigang úr stálgrindareiningum milli húsa sendiráðs Bandaríkjanna á lóðinni nr. 21-23 við Laufásveg og nr. 34 við Þingholtsstræti í Reykjavík samkvæmt framlögðum uppdráttum.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og var ákveðið að kynna umsóknina fyrir nágrönnum, m.a. kærendum.

Erindið var til kynningar frá 1. mars til 2. apríl 2002.  Athugasemdir bárust frá kærendum þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var mótmælt á meðan enn væru óleyst mál vegna lóðarinnar að Laufásvegi 19, en vandamál munu hafa skapast í kjölfar þess að baklóð hússins hefur verið skilin frá eigninni og ráðstafað til sendiráðs Bandaríkjanna, ásamt bílskúrum sem þar standa.

Af hálfu byggingaryfirvalda þóttu athugasemdir kærenda ekki standa í vegi fyrir því að veita mætti leyfi það sem um var sótt og var leyfið veitt hinn 24. apríl 2002 en byrjað mun hafa verið á framkvæmdum við bygginguna hinn 6. maí 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið umdeilda byggingarleyfi sé andstætt lögvörðum hagsmunum þeirra.  Tilkoma fyrirhugaðrar tengibyggingar muni auka á umferð um baklóðina við hús þeirra, en lóðin að Laufásvegi 17-19 sé í fasteignamati skráð ein óskipt lóð og hafi eigendur greitt skatta og skyldur af allri lóðinni í hlutfalli við eignarhluti sína í húsunum.  Þá hafi arkitekt byggingarinnar verið viðstaddur afgreiðslu málsins í skipulags- og byggingarnefnd sem varamaður í nefndinni og ekki vikið sæti heldur einungis setið hjá við afgreiðslu málsins, en það hafi að mati kærenda verið ófullnægjandi.

Ragnar Halldór Hall hrl. hefur, f.h. kærenda, reifað sjónarmið þeirra frekar eftir að þeim hafði verið kynnt greinargerð byggingarleyfishafa í málinu þar sem m.a. er krafist frávísunar þess.  Hafna kærendur þeim röksemdum sem byggingarleyfishafi teflir fram til stuðnings frávísunarkröfu sinni.  Telja þeir það falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar að úrskurða um það hvort leyfi til byggingarinnar hafi verið réttilega veitt eða ekki.  Ef Reykjavíkurborg geti veitt slíkt leyfi, þá falli það undir verkefni úrskurðarnefndarinnar að úrskurða um hvort lagaskilyrði hafi verið til að veita það eða ekki.  Eigi úrlendisréttur að leiða til þess að ágreiningnum verði vísað frá úrskurðarnefndinni sé ljóst að Reykjavíkurborg hefði heldur ekki mátt synja um byggingarleyfið.  Röksemdafærsla af þessu tagi leiði til þeirrar niðurstöðu að sendiráð megi í krafti úrlendisréttar gera það sem því sýnist innan marka lóðar sinnar án tillits til íslenskra lagareglna.  Sá skýringarkostur sé augljóslega rangur, fyrir honum sé engin lagastoð, hvorki að íslenskum lögum né samkvæmt þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. 

Af hálfu kærenda er jafnframt mótmælt þeirri staðhæfingu byggingarleyfishafa að umrædd tengibygging sé ekki þess háttar að hún varði hagsmuni kærenda með þeim hætti að brjóti gegn lögvörðum réttindum þeirra.  Telja þeir annað hafa komið á daginn og að verulegt ónæði fylgi breyttri nýtingu byggingarleyfishafa á lóðinni.
 
Málsrök byggingarfulltrúa:  Af hálfu byggingarfulltrúa er kröfu kærenda mótmælt og vísað til fyrirliggjandi gagna, m.a. umsagnar Ívars Pálssonar, lögfræðings, f.h. skipulags- og byggingarsviðs, um athugasemdir kærenda við grenndarkynningu málsins.  Telur embætti byggingarfulltrúa engin rök standa til þess að fallast beri á kröfu kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi, dags. 19. júní 2002, reifar Ólafur Jóhannes Einarsson hdl. sjónarmið og kröfur byggingarleyfishafa í málinu.  Krefst hann þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum kærenda verði hafnað.

Til stuðnings frávísunarkröfunni sé byggt á sömu sjónarmiðum og fram komi í bráðbirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar í málinu frá 15. maí 2002 þar sem kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hafi verið hafnað með vísan til þess að slík íhlutun íslenskra stjórnvalda væri andstæð þeim réttindum sem sendiráðinu séu tryggð með Vínarsamningnum um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961. 
 
Telji byggingarleyfishafi að á grundvelli sömu röksemda beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni, enda gæti efnisleg niðurstaða nefndarinnar, líkt og úrskurður um stöðvun framkvæmda, falið í sér réttarvörslu sem væri andstæð þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og yrði af þeim sökum ekki haldið uppi. 

Þessu til enn frekari stuðnings vísi byggingarleyfishafi til dóms Hæstaréttar H. 1995. 2023, en af dóminum sé ljóst að byggingarleyfishafa verði ekki stefnt fyrir dóm á Íslandi og væri af þeim sökum ekki unnt að bera efnislega niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar undir dómstóla svo sem almennt gildi þó um ákvarðanir stjórnvalda.  Undirstriki þetta frekar þau sjónarmið, sem færð hafa verið fram til stuðnings því að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Verði ekki fallist á að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli framangreindra röksemda sé þess krafist að því verði vísað frá þar sem kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að málinu, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Byggingarleyfishafa hafi verið veitt leyfi til að byggja tengigang úr stálgrindareiningum milli húsa á lóðinni nr. 21-23 við Laufásveg og 34 við Þingholtsstræti.  Telji hann að framkvæmd þessi varði ekki hagsmuni íbúa við Laufásveg 19 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Hafi kærendur ekki aðilastöðu og beri því að vísa málinu frá.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé þess krafist að nefndin hafni kröfum kærenda.  Eins og fram komi í kæru lúti athugasemdir kærenda fyrst og fremst að því að ekki hafi átt að veita hið umdeilda byggingarleyfi fyrr en óafgreidd mál hússins nr. 19 við Laufásveg hefðu verið leyst í heild sinni.  Byggingarleyfishafi leggi í þessu sambandi áherslu á það að til meðferðar sé einungis gildi tiltekins byggingarleyfis og komi önnur mál er varði hagsmuni íbúðareigenda að Laufásvegi nr. 19 því ekkert við.  Væri vitaskuld algerlega óheimilt að líta til sjónarmiða er varða önnur mál tengd íbúum að Laufásvegi 19 við ákvörðun um byggingarleyfið.  Telji byggingarleyfishafi því engin rök standa til þess að fallast beri á kröfur kærenda.

Niðurstaða:  Óumdeilt er að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi eru alfarið innan marka lóðar sendiráðs Bandaríkjanna.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. l. nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdarvaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það hins vegar skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu sótti sendiráð Bandaríkjanna um byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu tengibyggingu og var leyfið veitt.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttasamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Bandaríkjanna í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. apríl 2002, um að veita byggingarleyfi fyrir tengibyggingu á lóðinni nr. 21-23 við Laufásveg, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir