Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/1998 Þverholt

Árið 1998, fimmtudaginn 19. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingaverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið málið nr. 1/1998:
Ágreiningur íbúðaeigenda að Þverholti 11 í Mosfellsbæ við bygginganefnd Mosfellsbæjar vegna höfnunar bygginganefndar á endurskoðun byggingarleyfis til “Pizzabæjar”, sem samþykkt var í bygginganefnd þann 24. júní 1997.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til Umhverfisráðuneytisins, dags. 9. janúar 1998, kærir Hörður F. Harðarson, hdl., f.h.  íbúðaeigenda að Þverholti 11 í Mosfellsbæ, ákvörðun bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 26. nóvember 1997 og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 26. nóvember s.á. um að hafna beiðni um ógildingu samþykktar bygginganefndarinnar frá 24. júní s.á.

Er þess krafist að ákvörðun bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 24. júní 1997, þess efnis að samþykkja umsókn S, f.h. “Pizzabæjar”, um leyfi til að innrétta áður samþykkt verslunar- og þjónusturými á 1. hæð til vinstri í húsinu nr. 11 við Þverholt sem pizzastað, verði tekin til endurskoðunar. Þá er þess og krafist að starfsleyfi, sem heilbrigðisnefnd Mosfellsbæjar veitti “Pizzabæ” þann 26. júní 1997, verði afturkallað.
Um kæruheimild er vísað til. byggingarlaga nr. 54/1978.

Með nýjum skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sem tóku gildi þann 1. janúar 1998, voru byggingarlög nr. 54/1978 felld úr gildi. Samkvæmt 8. gr. hinna nýju laga, sbr. og 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd nr. 621/1997, fjallar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála um ágreining um skipulags- og byggingarmál samkvæmt þeim lögum.

Umhverfisráðuneytið framsendi erindi þetta til úrskurðarnefndar þann 22. janúar 1998.

Framlögð gögn:
Fyrir úrskurðarnefnd hafa verið lögð eftirtalin gögn:
Stjórnsýslukæra Harðar F. Harðarsonar, hdl., dags. 9. janúar 1998.
Skýrsla gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands um loftræstilagnir í Þverholti 11, Mosfellsbæ, dags. 14. október 1997, ásamt fylgiskjölum.
Bréf Harðar F. Harðarsonar, hdl., til bygginganefndar Mosfellsbæjar, dags. 29. október 1997.
Bréf Ásbjörns Þorvarðarsonar, byggingafulltrúa Mosfellsbæjar, til Harðar F. Harðarsonar, hdl., dags. 2. desember 1997.
Bréf Arnar Höskuldssonar, hrl., til úrskurðarnefndar, dags. 12. febrúar 1998.
Bréf Ásbjörns Þorvarðarsonar, byggingafulltrúa, til úrskurðarnefndar, dags. 13. febrúar 1998, ásamt fylgiskjölum.
Umsögn Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar 1998.
Bréf Harðar F. Harðarsonar, hdl., til úrskurðarnefndar, dags. 25. febrúar 1998.

Málsatvik:  Húsið að Þverholti 11 í Mosfellsbæ er þriggja hæða fjöleignarhús. Á jarðhæð þess er verslunar / þjónusturými og veitingastaðurinn “Pizzabær”, sem nú mun reyndar hættur rekstri. Á 2. og 3. hæð eru alls 4 íbúðir. Í skipulagsskilmálum fyrir húsið er notkun á jarðhæð skilgreind sem “verslun, þjónusta, handverk”, en á 2. hæð sem “verslun, þjónusta, íbúðir”.

Í gögnum kærenda kemur fram að pizzastaður hafi verið rekinn á jarðhæð hússins frá árinu 1995, án tilskilinna leyfa frá bæjaryfirvöldum. Af starfseminni hafi stafað mikil loftmengun, þar sem loftræsting var engin frá staðnum og lykt barst inn í íbúðir hússins. Hafi íbúðaeigeindur margsinnis leitað aðstoðar heilbrigðisfulltrúa og fleiri opinberra aðila, og vakið athygli á að pizzastaðurinn væri starfræktur án tilskilinna starfsleyfa, og án þess að gengið væri þannig frá loftræstingu að ekki væri íbúum til ama.

Á fundi bygginganefndar Mosfellsbæjar þann 27. maí 1997 var tekin fyrir umsókn S, f.h. “Pizzabæjar”,  “um leyfi til að setja upp loftræstirör á húsið nr. 11 við Þverholt, vegna starfsemi Pizzabæjar á 1. hæð. Jafnframt er sótt um leyfi fyrir fyrirkomulagsbreytingu á 1. hæð vegna innréttingar staðarins.”

Umsókn þessi var þannig afgreidd af bygginganefnd: “Jákvætt, enda liggi fyrir umsögn íbúa hússins og betri útfærsla aðalhönnuða hússins.”

Í gögnum málsins kemur fram að leitað hafi verið heimildar húsfélagsins til að leggja loftræstistokk utan á húsið og upp fyrir þak, en það hlaut ekki samþykki íbúa. Ekki verður séð af gögnum að leitað hafi verið sérstaklega umsagnar íbúa fyrir þeirri breytingu á notkun jarðhæðar, sem fólst í umsókn “Pizzabæjar”.

Á fundi bygginganefndar Mosfellsbæjar þann 24. júní 1997 var tekin fyrir umsókn S, f.h. “Pizzabæjar”, “um leyfi til að innrétta áðursamþykkt verslunar- og þjónusturými á 1. hæð til vinstri í húsinu nr. 11 við Þverholt sem pizzastað. Engar stærðarbreytingar verða við innréttinguna og loftræsting verður um sér innanhússlögn upp fyrir þakmæni.”
Umsókn þessi var samþykkt á fundinum og staðfest á fundi bæjarstjórnar þann 25. júní 1997.

Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, dags. 27. júní 1997, var S, f.h. “Pizzabæjar”, tilkynnt að heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis hefði veitt honum starfsleyfi þann 26. júní s.á. Í bréfinu segir síðan: “Samþykktin er háð því skilyrði að loftræsting samkvæmt samþykkt Bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 24. júní sl. verði strax sett upp.”

Þann 18. júlí 1997 leituðu íbúðaeigendur að Þverholti 11 til gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands og óskuðu eftir úttekt og skýrslu um loftræstikerfi hússins.  Í skýrslu gæðamatsráðs til íbúðaeigenda, dags. 14. október 1997, kemur fram að teikningar af loftræstilögnum í húsinu eru ekki til. Við skoðun hafi þær allar reynst vera plaströr, 100 mm. í þvermál. Niðurstaða gæðamatsráðs er sú, að ekki hafi verið farið eftir ákvæðum byggingarreglugerðar við útfærslu loftræstilagna í húsinu.
Með tilvitnaðri skýrslu fylgdi bréf Arnars J. Magnússonar, dags. 20. ágúst 1997, en hann hafði unnið tillögur að loftræstingu fyrir umræddan pizzustað. Í bréfinu segir svo m.a.:  “Svo um mánaðamótin júní/júlí hringdi byggingafulltrúinn í mig og áréttaði að leysa yrði málið og lagði til að blásið yrði upp um útloftunarrör sem lægi frá 1. hæð upp í þakmæni. Ég taldi að rörið flytti ekki nóg, og þar sem ekki væru til óyggjandi upplýsingar um legu þess væri þetta ekki vænleg leið, en þar sem ekki voru aðrar sýnilegar lausnir óreyndar, og með lið 7.7.7. í Byggingarreglugerð í huga, útfærði ég tillöguna (Till. 4) með háþrýstum blásara og kastventli á mæni.
Það virðist sem framkvæmt hafi verið samkvæmt síðustu tillögunni, en ég heyrði ekkert af málinu fyrr en í dag, að íbúar hefðu beðið Gæðamatsráð að skoða það. Einnig kom fram í dag að innsteyptar loftrásir í húsinu eru úr plasti, en ekki úr óbrennanlegu efni eins og reglugerðir kveða á um.”

Með bréfi lögmanns íbúðaeigenda, dags. 29. október s.l., var skýrsla gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands kynnt bygginganefnd Mosfellsbæjar og þess krafist að nefndin tæki til endurskoðunar fyrri ákvörðun sína frá 24. júní 1997, og afturkallaði leyfi S, f.h. “Pizzabæjar”. Kröfu sína rökstyður lögmaðurinn með vísan til niðurstaðna ofangreindrar skýrslu og eftirfarandi orðum: “ Loftræsting frá pizzaofni virðist vera tengd loftræstikerfi hússins. Þar til loftræstitúða var sett á þak hússins kom lykt frá pizzastaðnum inn í allar íbúðir hússins. Það hefur hins vegar ekki reynst mögulegt að kanna hvernig tengingar á loftræstirörum frá pizzaofninum eru þar sem engar teikningar eru til af lögnum hússins. Það er hins vegar ljóst að þessi frágangur brýtur gegn ákvæði 7.7.6.12 í byggingarreglugerð þar sem er kveðið á um að loftrásir, sem ætlað er að flytja eim frá stöðum þar sem matseld fer fram, skuli vera A30 og ganga órofnar upp fyrir þak. Þá ber einnig að benda á að loftræsting er engin vegna annarrar notkunar rýmisins, þ.e. veitingareksturs og matseldar.”

Erindi þetta var lagt fram á fundi bygginganefndar Mosfellsbæjar þann 25. nóvember s.l., og hlaut svofellda afgreiðslu: “Bygginganefnd hafnar beiðni Harðar T. Harðarsonar, hdl. um ógildingu samþykktar nefndarinnar frá 24. júní 1997, þar sem nú hafa verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir bruna ásamt lyktarmengun af völdum starfseminnar. Við tengingu loftræstikerfis staðarins við húslagnir, sem er sjálfstæð lögn sem nær yfir þak hússins, var sett brunaloka sem kemur í veg fyrir að eldur geti borist í þær.”
Í fundargerðarbók bygginganefndar kemur fram, að á fundinum hafi verið lögð fram greinargerð byggingafulltrúa vegna málsins. Þá greinargerð er ekki að finna í gögnum málsins.

Í bréfi byggingafulltrúa Mosfellsbæjar til úrskurðarnefndar, dags. 13. febrúar s.l., segir m.a. svo:  “Þær loftræstilagnir sem settar voru upp í húsinu á sínum tíma eru innsteyptar plastlagnir, en þær voru aldrei teknar út af byggingafulltrúa. Sá loftræstibúnaður sem nú hefur verið settur upp á pizzustaðnum er samþykktur og úttekinn af byggingafulltrúa.
Loftræstilagnirnar eru úr óbrennanlegu efni og er brunaloki við tenginu úr þeim í gömlu innsteyptu plastlagnirnar svo tryggt sé að eldur geti ekki borist í þær. Loftræstilögn pizzustaðaarins var framlengd upp fyrir mæni hússins til að tryggja sem best að ekki verði um áframhaldandi lyktarmengnun að ræða í húsinu.”

Úrskurðarnefnd gekk á vettvang þann 16. mars s.l. í fylgd málsaðila. Umræddur pizzastaður mun hafa flutt starfsemi sína úr húsnæðinu við Þverholt 11 um miðjan febrúarmánuð s.l. Engu að síður telja íbúðaeigendur sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort veiting byggingarleyfis til “Pizzabæjar” hafi verið lögmæt.

Niðurstaða:  Eins og fram hefur komið, er í máli þessu kærð ákvörðun byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 1997 og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um að hafna ógildingu samþykktar byggingarnefndarinnar frá 24. júní 1997. Krafa íbúðareigenda er hins vegar sú, að tekin verði til endurskoðunar ákvörðun byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 24. júní, og leyfi S, fh. „Pizzabæjar“ verði afturkallað.
Það er álit úrskurðarnefndar að frestur sá sem íbúðaeigendum var veittur til málskots á ákvörðun byggingarnefndar og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 24. og 25. júní 1997 sé nú liðinn, sbr. 8. mgr. 8. gr. Byggingarlaga nr. 54/1978, með síðari breytingum. Því er ekki unnt að verða við kröfu íbúðaeigenda að taka þá ákvörðun byggingarnefndar frá 25. nóvember 1997 að hafna beiðni íbúðaeigenda um endurskoðun fyrri samþykktar.

Í fyrrgreindri samþykkt bygginganefndar frá 24. júní 1997 kemur fram, að loftræsting frá pizzustaðnum verði um sér innanhúslögn upp fyrir þakmæni. Af bréfi Heilbirgðiseftirlits Kjósarsvæðis, dags. 27. júní s.á., svo og öðrum framlögðum skjölum má ráða, að ekki hafði verið gengið frá loftræstingunni, þegar byggingarleyfi var gefið út, heldur hafi það verið gert síðar. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um hvort sú loftræstilögn, sem sett var upp síðar, sé sjálfstæð lögn frá pizzastaðnum eða hún tengist á einhvern hátt loftræstikerfi hússins, enda virðast engar teikningar til af lögnum hússins og þær aldrei teknar út af byggingafulltrúa. Ljóst er þó að loftræstilagnir hússins eru allar innsteyptar plastlagnir, og fullnægja því eigi kröfum byggingarreglugerðar nr. 177/1992, með síðari breytingum, sbr. ákvæði gr. 7.7.6.5. og 7.7.6.12. Bygginganefnd Mosfellsbæjar mátti vera ljóst að verulegur vafi lék á því hvort sá loftræstibúnaður sem settur var upp í “Pizzabæ” að Þverholti 11 fullnægði ákvæðum byggingarreglugerðar, er henni barst skýrsla gæðamatsráðs Lagnafélags Íslands með bréfi kærenda, dags. 29. október 1997, þar sem krafist var endurskoðunar á ákvörðun nefndarinnar um að veita byggingarleyfið.

Af skjölum málsins verður ekki séð að leitað hafi verið umsagnar íbúa hússins við þeirri breytingu á notkun jarðhæðar, sem fólst í því að breyta verslunar- og þjónusturými í pizzustað.  Telur úrskurðarnefnd að bygginganefnd hafi borið að leita umsagnar og/eða samþykkis annarra eigenda fjöleignarhússins áður en byggingarleyfi var veitt, sbr. 11. gr. eldri byggingarlaga nr. 54/1978 og gr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992. Þar sem vænta mátti nokkurrar lyktarmengunar og óþæginda af slíkri starfsemi bar bygginganefndinni ríkari skylda en ella að ganga á eftir samþykki annarra eigenda.

Í ljósi ofanritaðs telur úrskurðarnefnd að bygginganefnd Mosfellsbæjar hafi borið að verða við kröfu íbúðaeigenda að Þverholti 11 um að taka til endurskoðunar ákvörðun sína um veitingu byggingarleyfis til “Pizzabæjar”, dags. 24. júní 1997. Þykir því rétt að verða við kröfu íbúðaeigenda um að fella úr gildi ákvörðun bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 25. nóvember 1997, þar sem hafnað var kröfu um endurskoðun á samþykkt bygginganefndar um veitingu byggingarleyfis fyrir “Pizzabæ”, dags. 24. júní 1997.

Úrlausn ágreinings um veitingu starfsleyfis til “Pizzabæjar” fellur ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Kröfu íbúðaeigenda um afturköllun starfsleyfis er því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bygginganefndar Mosfellsbæjar frá 25. nóvembber 1997 um að hafna endurskoðun á samþykkt nefndarinnar frá 24. júní 1997, er S, f.h. “Pizzabæjar”, var veitt leyfi til að innrétta áður samþykkt verslunar- og þjónusturými á 1. hæð til vinstri í húsinu nr. 11 við Þverholt í Mosfellsbæ, sem pizzastað.
Kröfu kærenda um afturköllun starfsleyfis til “Pizzabæjar” er vísað frá úrskurðar-nefnd.